fimmtudagur, 13. desember 2007

Endurtekning í orðstofnum Swahili

Í afmælisrit Britta O. Frederiksen.
Það mun viss hefð fyrir því að í litlum afmælisritum af þessu tagi fjalli fólk um eitthvað sem liggur utan við starfssvið þeirra, og það ber jafnvel lítið skynbragð á. Ég fylgi hér þeirri hefð sem stundum áður, og fjalla um sérstakt svið orðfræði (lexikologi)
Það er spennandi að kynna sér mjög framandi tungumál, því þar er margt svo frumlega öðruvísi orðað en í því sem þekktara er. Ég hefi áður vikið að swahili, í afmælisriti til Þorbjargar Helgadóttur. Það rit var víst aðeins gert í einu eintaki, svo ég lagði pistil minn, Kupiga simu, svolítið aukinn, á vefslóð mína. Vísa ég hér með til hans um yfirlitsfróðleik, svo langt sem hann nær, betri upplýsingar munu flestum auðfundnar í uppsláttarritum, t.d. á netinu. Swahili er móðurmál 5-10 milljón manns, en talað af 80 milljónum í nokkrum ríkjum Austur-Afríku, ríkismál í amk. Kenya, Tanzaníu og (áður) Uganda.
Með því skemmtilegasta í swahili eru myndhvörf daglegs máls. Skúffa heitir t.d. mtoto wa mesa=barn borðs. Hér skal þó ekki um það efni fjallað, heldur eingöngu um endurtekningar í orðstofnum. Þetta fannst mér áberandi algengt þegar ég kynntist málinu, en það þarf könnunar. Þessi er auðvitað yfirborðsleg, enda er ég naumlega sjálfbjarga í málinu. En vonandi getur þetta orðið einhverjum til umhugsunar um hvernig það er í móðurmáli viðkomandi. Þetta þekkist í t.d. dönsku: “Jeg hører at Hanne danser.” ”Mender du at hun danser-danser?” Semsé hvort hún taki dansinn alvarlega. Lesendur geta sjálfsagt fundið fleiri dæmi, og e.t.v. betri. Ekki kannast ég við þetta á íslensku, en viðlíka endurtekningar eru mjög áberandi í ítölsku, t.d.: “Il stava nel café solo solo” –Hann sat aleinn á kaffihúsinu. En þar er um að ræða endurtekningar orða, mér virðist endurtekning mun útbreiddari og rótgrónari innan einstakra orðstofna í Swahili. Hún er sláandi þegar í svo algengum orðum sem um nánustu ættingja; dada (systir), kaka (bróðir), baba (faðir), og mama er kunnugt úr flestum málum. Einnig sést þetta í fornöfnum, mimi=ég, wewe=þú, yeye=hann/hún; sisi=við; hinsvegar ninyi=þið, wao=þau. Taka verður fram að persónufornöfn þessi eru miklu minna notuð en samsvarandi orð í germönskum málum, því yfirleitt kemur persóna, tala, tíð og andlag fram sem sérstök beygingaforskeyti sagna. A-na-cheka=hún hlær; Wa-me-cheka= þau hlógu (ég set inn bandstrik til skýringar). Ætla má að þessi endurtekningarorð um nánustu ættingja komi úr barnamáli, og því til stuðnings tilfæri ég helsta orðaforða franskra smábarna: mama, papa, bébé, myamyam, pipi, kaka, dodo –í sömu röð: mamma, pabbi, barn, góðmeti, míga, skíta, sofa. Reyndar tíðkuðust svona endurtekningar í íslenskum gælunöfnum um miðja 20. öld, svo sem sjá má í Atómstöðinni (1.k.) eftir Halldór Laxness. Og þar er þessi nafntíska kennd við Afríku. Ég man konurnar Gógó, Lóló og Dídí, en þær voru flestar fæddar um 1900, og munu því horfnar af sjónarsviðinu. Pilturinn Bóbó og stúlkan Bíbí voru nokkru yngri
Ég notaði fyrst A standard Swahili-English Dictionary, sem birtist fyrst 1939 og oft síðan. Það byggir á orðabók Madan frá 1903, en er mjög aukin, 550 bls. í litlu broti. Ekki eru upplýsingar um fjölda uppsláttarorða. Bókina mætti kalla notendafjandsamlega, því nafnorð eru talin undir sagnstofnum, og þegar slegið er upp orði bregst sjaldan að vísað sé í annað orð, oft með öðrum stofnsérhljóða, og er afar tafsamt að finna orð og þýðingu þess. Þetta skýrir nafn minni orðabókar: Vinalega orðabókin (The friendly Modern Swahili-Modern English Dictionary). Hún hefur 13.300 uppsláttarorð, þar á meðal einstakar beygingarmyndir margra orða. Á netinu eru nokkur orðasöfn, en reynast því miður mjög ófullkomin, enn sem komið er. Ég tíndi dæmi tvítekinna stofna úr Vinalegu orðabókinni, en leitaði einfaldra stofna þeirra í hinni stærri. Þegar ég tilfæri einfaldan stofn til samanburðar, eru það oft getgátur mínar, merkt með #. Við þá leit fann ég nokkur dæmi tvöföldunar til viðbótar. En ýmislegt hefur farið fram hjá mér, þetta er ekki tæmandi safn dæma orðabókanna, og reyndar held ég að tæmandi skrá verði ekki gerð. Því í skáldsögu hefi ég rekist á dæmi sem ekki voru í orðabókum; tazamwatazamwa (sjást), og má þá ætla að þetta sé nokkuð fljótandi, fólk geti tekið upp á því að tvítaka stofn í sérstökum tilgangi við ákveðnar aðstæður, svo sem innfæddir raunar hafa staðfest við mig. Enda má sjá af dæmum, að stundum er sama merking gefin fyrir einfaldan stofn og tvöfaldan. Skyldi tvítekningin þá vera til áherslu? Hinsvegar er þessi tvítekning föst í ýmsum orðum, t.d. buibui= slæða múslímskar kvenna.

Framburður og tíðni
Athugið að tvöfaldur sérhljóði táknar lengd, th, sh, ch, j og y eru borin fram eins og í ensku. Annars er framburður nokkuð augljós íslendingum. táknið gh er fyrir g í dagur. í sumum bantúmálum er r og l sami hljóðungur, og gætir þess stundum í swahili.
Sniðgengin voru eftir föngum orð þar sem endurtekningin stafaði af upphafi sem var beygingarforskeyti. Dæmi: ku=nafnháttarmerki og þig; Ninataka kukusema= Ég vil tala við þig. Beygingarforskeyti tölu helstu beygingaflokka eru (eintala-fleirtala): m-wa; m-mi; ki-vi, ji-ma. Ennfremur bar að forðast forskeyti sem tákna stærð, svosem jiji= stór borg (mji=borg, kiji= þorp). Einnig forðaðist ég endurtekningar vegna viðskeyta, ss. okoka=bjargast, af okoa=bjarga, onana=sjást, af ona=sjá, kokote, popote, allstaðar, þar sem fyrstu samhljóð fara eftir beygingarflokki. Þannig setja endurtekningar mun meiri svip á hljóm málsins en merkingu, en svipaðar tilviljanir eru t.d. í íslensku; tillit til; yfirsýn yfir, o.s.frv.
Reynt var að taka aðeins eitt dæmi þegar ýmis orð voru samstofna. Þetta varð safn 219 orða af 13.300 í litlu orðabókinni. Og í henni eru semsagt ýmsar myndir sama orðs, svo tvíteknistofnar eru væntanlega amk. 2%. Eftirlæt ég fróðara fólki að meta hvort það sé hátt hlutfall.
Þegar þessu takmarkaða safni (hálft þriðja hundrað orða) var skipt á orðflokka, reyndust nafnorð flest, 3/5, sagnorð fimmtungur, en atviksorð og lýsingarorð tæplega tíundi hluti hvort. Líklegt mátti virðast að hér væri tíðni nafnorða hærri en í orðaforða málsins í heild, en ekki hef ég heimildir um það efni. Mun áhugaverðari væri þó tíðni orðflokka í einstökum segðum, töluðum eða rituðum, en um hana hef ég engar heimildir. Í Íslenskri orðtíðnibók var meðaltal ýmissa segða: nafnorð 2/3, lýsingarorð 1/6; sagnir 1/14. Tíðni nafnorða í íslenskum textum reyndist þá ívið meiri tíðni þeirra af tvíteknum stofnum í swahili, hvað sem svo má álykta af því.

Helstu flokkar
Þess er þá fyrst að geta, að fyrir kemur þrítekning, þegar umræddur stofn er stuttur, bara eitt samhljóð og sérhljóð: fofofo, kakaka, mashushushu, sisisi, wowowo. Merking virðist ekki skipta máli í þessu sambandi, kakaka er grænmetistegund; nema um sérstaka áherslu sé að ræða; wowowo er sagt um rassstóra konu, og það vekur víst aðdáun víðast hvar í Afríku; mashushushu er öryggisvörður, en sisisi merkir bóstaflega og fofofo algerlega. Áhersla ræður sjálfsagt endurtekningum eins og hapahapa (hér) og papapapa (þar). Þegar kvatt er dyra er það með orðinu hodi, og gjarnan endurtekið: hodihodi. Það má kalla tilviljunarkennt, rétt einsog að endurtaka gleðiópið hoi; hoihoi. Eðlileg er tvítekningin í dæmi eins og sabasaba (sjösjö), því það merkir sjöunda júlí. Sama má segja um chuchu=geirvörtur (af #chua=núa) og dodo (ungmeyarbrjóst), þar liggur tvítekning í því sem orðið vísar til. Nærtækt er þá og nyonyo fyrir snuð.
Endurtekning í því sem til er vísað má sjá í þriðjungi dæma, eðlilega er það haft um glampa; metameta/meremeta, cheche (af chea=daga) og um þrumu, titima, einnig um lind, chemchem (af chemka=bulla um vatn). Þar eru og nöfn fugla, enda eru þeir sígaggandi eða kvakandi, svo sem kuku (hænsn), kitotoro, kororo, hondohondo (meitilfugl), gogota (spæta). Eðlilegt virðist að sjá þetta haft um safn lífvera, einkum á hreyfingu; dudu (skordýr), vivuvu (ávaxtaflugur), vimulimuli (eldflugur), kumbikumbi (fljúgandi trjámaurar, “gómsætir steiktir”, upplýsir Vinalega orðabókin), kipilipili (fisktegund), papa (hákarl) og gras af ýmsu tagi; fefe, kimbugibugi (af bugia=narta? Var étin í hungursneyð). Einnig eru nöfn átjurta: felefele (milletkorntegund) og kifumufumu (kassavategund, róthnyðjur).
Einnig eru um orð um endurtekningu í atferli fólks: nyoanyoa (plokka), katakata (skera smátt, af kata=skera), engaenga (dekra), zozo (rifrildi), lengalenga (snökta), kichefuchefu (vera flökurt), ombaomba (nauða, af omba=biðja), kidomodomo (nöldur af mdomo=vör), kilinilini og fununu (slaður, af funua=afhjúpa), payapaya (bulla), nyanyaso (erting), kimasomaso (látalæti), kizaazaa (taugaveiklun), kigeugeu (óstöðugur, af geuka=beygja), legalega (riðandi af lega=skjálfa), en um skjálfta eru ýmis tvítekningarorð; papa, tapatapa, mtetemo, kiherehere. Nálægt er sulisuli (svimi, af sulika=svima), demadema og wayawaya (staulast, waya merkir klæja), zurura (slæpast), randaranda (ráfa), hemahema (mása, af hema=anda), misukosuko (örðugleikar), kimoyomoyo=innst í sinni (af moyo=hjarta). Að stama heitir babaka, og mætti kalla hljóðlíkingu, nálægt því er kekevu (hiksti). Enn má telja nöfn ýmissa sjúkdóma, og kann þeim að fylgja ósjálfráð riða, það þyrfti að spyrja lækni um, helst einhvern sem kann swahili; kipindupindu (kólera), matubwitubwi (hettusótt), kisonosono (lekandi), mamunyumunyu (fótkláði), fifia (veiklast, af –fa=deyja). Háttbundnar endurtekningar einkenna gleðskap, og birtist það í ýmsum orðum um hann; lelemama, mangamanga tangatanga (tangamano=mannsafnaður), og örtröð; hekaheka, pilikapilika, msukomsuko. Djöflagangur heitir mpwitompwito, en óreiða kallast hobelahobela og shagalabagala. Æsingur heitir kindumbwendumbwende og mkikimkiki, en chugachuga að vera órótt. Dukuduku og wasiwasi eru orð um áhyggjur, af wasia=aðvara. Kimbelembele kallast frekja, af mbele=fram). Einnig eru hér orð um hratt: wanguwangu og chapuchapu (af chapa=slá?). Hér mætti telja skammaryrði um fólk; mbumbumbu (treggáfaður), zezeta (hálfviti), vigogo (menn sem láta mikinn, af gogo=felldur trjábolur), mwayamwaya (gassagangur), en einnig önnur sérkenni; zeruzeru er albínói og veit ég ekki hvort það hefur verið hnjóðsyrði.
Stundum dregur tvöföldunin fram eitthvert eðliseinkenni, svo sem hér hefur sést, einnig í juujuu, yfirborðslegt, leitt af juu (upp). Lýsingarorðið -tamu sætur hefur ýmis forskeyti eftir beygingarflokkum nafnorða, en af því er og leitt nafnorðið tamutamu=sætindi. Svipað er um –dogo lítill, af því er nafnorðið dogodogo, sem merkir: indæl ung stúlka, ofsótt af slæmum karlmönnum (“a sweet young girl sought after by nasty men” segir Vinalega orðabókin)! Einkennilegt er að sjá orðið takataka um sorp, því sem einfaldan stofn þekki ég bara taka, girnast.
Þessi takmarkaði efniviður sýnir mikið hugvit að mínu mati, en nánari umfjöllun þarf innfædds málnotanda eða amk. lærðari málfræðings en undirritaðs.

Heimildir:
A standard Swahili-English Dictionary, Nairobi 1990.
Baba Malaika: The friendly Modern Swahili - Modern English Dictionary, Nairobi 2001.
Íslensk orðtíðnibók, Rvík 1991.

Kaupmannahöfn, 29. október 2007.

miðvikudagur, 17. október 2007

Sumarnótt sr. Björns i Laufasi

Andsvar um Björn í Laufási

Gunnar Karlsson átti skemmtilega grein um séra Björn í Laufási í TMM 2, 2007. Þungamiðja hennar er umfjöllun um kvíðaþrungið kvæði Björns, Sumarnótt, sem birt er þar ásamt öðru kvæði sr. Björns, mælskum formælingum um hjónabönd. Óprestlegt hefði það þótt, hefði Björn birt það. - Ég dáðist einkanlega að því hve snöfurmannlega Gunnar afgreiðir þá sögn að sr. Björn hafi ævilangt tregað norska ástkonu, og því ekki getað þýðst eiginkonu sína. Eftir heimildarýni Gunnars gufar þessi norska Svava myndhöggvari alveg upp. Ég hrósaði greininni þegar við höfund og aðra, en svo fór ég að fá bakþanka.
Í fyrsta lagi virðist Gunnar vanrækja þá frumskyldu fræðimanna að kanna hvort eitthvað mæli gegn ályktun þeirra, í þessu tilviki þeirri, að séra Björn hafi verið samkynhneigður og því kviðið hjónabandi sínu og formælt því síðar. En vissulega virðist vonlítið að finna vitnisburði um kvensemi Björns eða hinsvegar vergirni hálfri annarri öld eftir á. Gunnar hefði þá gjarnan mátt taka fram að ekkert slíkt hefði verið að finna í bréfum Björns og öðrum samtímaheimildum, þrátt fyrir ítarlega leit. Helstu vísbendingu þessa auk kvæðanna finnur Gunnar í ódagsettu bréfi Björns sem Gunnar birtir kafla úr (bls. 66):

Jeg get aldrei orðið glaður. Eða framar nokkur maður; það fór allt í ólánið. Daginn þann sem gól mér galdur Gamli fjandans Villibaldur; Síðan engan finn jeg frið. – Flettu upp 7da júlí í almanakinu; þann dag kvæntist jeg, og þá skilur þú vísuna. ...Jeg ætla nú ekkert að stíga í stólinn í þetta sinn til að ræða um hjónaband mitt, nema rétt að segja þjer það, að jeg er orðinn miklu altíðlegri við konuna, og
rétt almennilegur; en um hitt vil jeg ekki tala, hvað mér fellur það þungt; samt er svölun í því að geta yfirunnið sjálfan sig til góðs og ekki gengur mér annað en gott til þess, það, að jeg af hjarta vil að hún geti lifað róleg og ánægð. En jeg er því ver búinn að drepa mig á nauðunginni, og má til að halda áfram að gera það hjereptir; því aldrei verður mér þetta náttúrlegt, eða ekki sjálfrunnin (eins og hákallslýsi) hvöt hjartans, heldur verður það mér eins og það vald sem jeg að vísu vil feginn beigja mig undir, en sem jeg ekki get látið brjótast til ríkis í mér nema með því að kollvarpa byggingu náttúrunnar, það er að skilja þessarar holdlegu tilveru .

Upphaf klausunnar túlkar Gunnar svo að sr. Björn hafi verið neyddur til hjónabands, líklega af föður sínum. Mér sýnist þetta bréf ekki ótvírætt svo, að sr. Björn hafi þurft að yfirvinna óbeit sína á sambúð við konur almennt, frekar en bara á slæmu sambandi við þessa tilteknu konu. Ég rakti framangreinda kenningu fyrir vinum mínum langkvæntum, og fékk kuldahlátur að svari. Nei, þeir voru nú ekki á því að samkynhneigð þyrfti til að formæla hjónaböndum, frekar hitt. Og það er ekki óeðlilegt sjónarmið þar sem annaðhvort hjónaband reynist skammært. En vissulega er mögulegt að sjá þetta, einkum þá lokaorð klausunnar um um að góð sambúð við eiginkonuna verði honum alltaf nauðung en ekki ”náttúrlegt”, sem vitnisburð um hið fyrrtalda, að Björn hafi verið hommi. Og að öllu samanlögðu sem Gunnar tínir til, virðist það líkleg ályktun. Ég vona þá bara að Björn hafi notið sín sem hommi, en það hefur sjálfsagt verið örðugt íslenskum sveitapresti um miðja nítjándu öld. Hvað sem því líður, hafi kynhvöt til kvenna ekki verið honum sjálfrunnin, þá eignuðust þau hjón þó fjögur börn, sem Björn segir líkjast sér í bréfum til vina. Þetta kemur fram í rækilegum formála (bls. 120 o.áfr.) sr. Bolla Gústavssonar fyrir útgáfu hans á ljóðmælum Björns. Og hvernig sem heimilislíf á Laufási hefur verið, þá virðist það ekki hafa haft lamandi áhrif á börnin, sonur Björns og Sigríðar, Þórhallur, varð biskup, og sonur þess aftur forsætisráðherra, og margt fleira yfirstéttarfólk meðal niðja hans, forsetafrú o.fl. Raunar ber öllum heimildum saman um góðan heimilisbrag á Laufási, þrátt fyrir langvarandi fálæti milli hjónanna. Björn hafi verið gamansamur hversdagslega (sr. Bolli, bls. 62-3 og 121).
Gunnar rekur heimildir um að sr. Björn hafi verið haldinn alvarlegri geðhvarfasýki, en ekki skýri hún hjónabandshatur hans, því það birtist líka í uppsveiflubréfum, þar sem hann grínast (klausan um ást eða losta sem sjálfrunnið hákallslýsi). Gunnar segir ennfremur (bls. 64):

Var séra Björn þá bara í þunglyndiskasti þegar hann orti Sumarnótt? Kannski, og þó finnst mér ekki alls kostar líklegt að maður í því ástandi hafi svo ljómandi skýra og einbeitta hugsun.

Nei, það er nú einmitt mergurinn málsins. Þetta er listrænt kvæði, og það sýnir bernskan bókmenntaskilning sveitunga Björns að ímynda sér að það sé eitthvert örvæntingaróp. Öðru nær, hafi hann ort þetta nóttina fyrir brúðkaupið eða á brúðkaupsnóttina, eins og sagnir herma sem þeir Bolli og Gunnar rekja, þá væri kvæðið vitnisburður um yfirvegun og andlegt jafnvægi gagnvart brúðkaupinu. En um hugarástand þessa löngu látna manns verður fátt vitað með vissu. Mun áhugaverðara finnst mér því annað sem Gunnar segir (bls. 67):

Nú segir séra Björn að vísu hvergi að ljóðið Sumarnótt tengist þeim vanda sem hann lýsir í bréfinu til Þorláks á Stórutjörnum. En það er eini hlekkurinn sem við verðum að smíða úr munnmælum einum, og það finnst mér ekki erfitt. Þá erum við komin að þeirri niðurstöðu að Sumarnótt sé harmljóð manns sem umhverfið neyðir til að kúga kynhneigð sína. Mér finnst ljóðið vaxa við þá vitneskju.

Hér verð ég að andmæla. Því þetta kvæði er alveg dæmigert fyrir tískustefnu samtíma sr. Björns, rómantísku stefnuna. Það hefst á gamalkunnri líkingu, að líkja sólsetri við dauðann, svo koma persónugervingar náttúrunnar, eins og Gunnar rekur, kvöldroði drekkir sér, ský horfa á það grátandi, nóttin stendur á öndinni og kvíðir komandi degi. Hún verður enn mannlegri og nákomnari ljóðmælanda vegna myndræns smáatriðis, hann sér að hún er svartbrýnd. Nærvera hennar er þrúgandi fyrir ljóðmælanda. Allt er þetta samstillt í neikvæðu. En slík hnitun er einmitt forsenda þess að þvílík náttúrulýrik heppnist, að náttúran sýni mannlegar tilfinningar. Sr. Bolli er á réttri leið þegar hann talar um heimshryggðarskáldskap (bls. 78 o. áfr.), en það orð á betur við Sumarnótt en þá kveðnu ræðu Björns gegn hjónaböndum sem Bolli birtir undir titlinum Geigur. Bolli segir annars réttilega að heimshryggð sé ”í samræmi við ríkjandi skáldskaparstefnu á öndverrði 19. öld”. Slík samræmd bölsýni er auðfundin hjá samtímaskáldum Björns, sem enginn hefur orðað við örðugt hjónaband, þunglyndi eða bælda samkynhneigð. Sjá t.d. frábært smákvæði Gríms Thomsen:

Haustvísa

Lengir nóttu, lúta höfðum blóm,
laufið titrar fölt á háum reinum,
vindur hvíslar ömurlegum óm
illri fregn að kvíðnum skógargreinum,
greinar segja fugli, og fuglinn þagnar.
Í brjósti mannsins haustar einnig að,
upp af hrelldu hjarta gleðin flýgur,
en vetrarmjöll í daggardropa stað
á dökkvan lokk og mjúkan þögul hnígur,
og æskublómin öll af kinnum deyja.

Merkingarlega skiptist ljóðið í tvo jafna hluta, þótt samhengi sé þar á milli. Fyrri hlutinn gerist í náttúrunni, en í seinni hluta færist sú breyting sem þar varð inn í brjóst mannsins. Þetta verður og enn samfelldara við það að náttúrunni eru eignaðar mannlegar tilfinningar og hegðun, alveg eins og í Sumarnótt sr. Björns. Sumt er að vísu á mörkunum hér, orðalag sem jafnt er eðlilegt um náttúrufyrirbæri og fólk, þannig myndast brú milli þessara tvennskonar fyrirbæra: lauf er fölt og titrar, blóm lúta höfði, vindur hvíslar. En annað er ótvírætt persónugervingar, trjágreinar eru kvíðnar og tala til fugls, sem þagnar við það. Þetta eru mannleg viðbrögð, þótt auðvitað þagni fuglar oft.
Í seinni hluta heldur breytingin áfram, svo að eitt snertir annað, en nú ganga líkingar á hinn veginn, frá mannlegu til náttúr¬unnar. Gleði er líkt við fugl, hærum við vetrarmjöll, kinnroða við blóm. Þannig er mannsævi óbeint líkt við árstíðahringinn, að gamalli hefð. Þetta er haglega fléttað, einni líkingu í aðra.
Fleiri samstillt svartsýniskvæði yrkir Grímur, en líka andstætt, og má nefna sem dæmi gleði og bjartsýni formlega áþekkt kvæði hans Vorvísa. Bragarháttur er annar og allur glaðlegri, þar sem Haustvísa var hæg. En Vorvísa er fléttuð á líkan hátt, frétt berst frá einum til annars, stig af stigi og endar á gleðifréttinni: “blessað er að koma vorið.”
Samstillt svartsýniskvæði rómantískra skálda má víða finna, t.d. hjá æringjanum Benedikt Gröndal, sem kunnastur er fyrir að grínast og yrkja fagnaðarkvæði, en leikur sér að rómantískum óhugnaði í t.d. Óveður. Langt svartsýniskvæði hans er Hret, en lítum hér frekar á annað styttra. Áhrifamikið er hvernig andstæðum er beitt í ljóðinu, ýmis jákvæð rómantísk tákn eru talin upp, en til þess eins að hverfa þeim til neikvæðs, einnig heitum faðmlögum og sáttum. Talað er um stjörnu sem mannveru, einnig um rós sem nú sofnar eftir glaðan leik dagsins. En kvölddögg á henni er túlkuð sem tár. Undir þessu yfirborði birtist svo óhugnanleg mynd rotnunar, ekki bara holds, heldur einnig tilfinninga. Þarna virðist birtast sátt fjenda, en það er bara vegna þess að ekkert skiptir lengur máli. Og staðlað tákn rómantísks unaðar og fegurðar, syngjandi næturgali, hann flytur bara sorgarljóð. Ljóðinu lýkur á því að jafnvel harmur eftir látna vini verður að engu.

Kvöld

Sólin rennur, rökkrið dreifir
raunaskugga hauðrið á,
léttur vindur laufin hreyfir,
lítur stjarna himni frá;
máninn skín á meiða rætur,
meðan sofnar rósin bleik,
og hún tárum gullnum grætur
glaðan eftir dagsins leik.

Sofa lík í dauðadjúpi,
dáin, liðin foldar þröng!
Sveipuð moldar morknum hjúpi
molna bein um dægur löng.
Heitt í dauða faðmast fjendur
fögur jafnt sem vina þjóð,
og við lífsins ystu strendur
eyðist haturs grimmdin móð.

Ástin blíða, bölið sára,
bitur sorg og gleðin hýr,
löngun sæt og lindin tára,
lyndis heift og viskan skýr:
Sáið, linað, þverrað, þrotið,
þornað burt úr lífsins straum!
Vinar orð og valdið brotið
vafið Heljar myrkum draum!

Næturgali, sætt er syngur
sorgarljóð á viðargrein,
ertu villtur, vesalingur!
Vísan þín er hrygg og ein.
Kveður þú um kæra daga
kvalarþrungin ástarljóð?
Má þig einnig eymdin naga
og eitra svo þitt hjartablóð?

Ekkert hér er fætt á foldu
farsælt líf, sem böl ei sker;
allt er harmi háð og moldu,
hrollur gegnum andann fer.
Mókir þjóð í dimmum draumi,
dauður bráðum fölnar nár,
og í háum himins glaumi
hrynja engin vinar tár.


Endum þetta á sortadæmi frá höfuðskáldi indælisins á 19. öld, Steingrími Thorsteinssyni:

Á gangi fram með sjó

Heyr súgandi brimið frá sædjúpi knúð,
Við sandinn það drynur og þangvaxna flúð;
Sá hljómurinn þungi mér ómar í önd
Sem eilífðar niður á tímanna strönd.

Og horfi' ég á sjónhring við hafdjúpið kalt,
Þar handan er bakkinn og drungalegt alt,
Sú dökklita hringlína dregur sig þar
Sem dauðleikans baugur við jarðlífsins mar.

Eitt einasta segl út við sjónhring eg lít,
Við svartbakkann stingur af ögnin sú hvít;
Hvar er það? Það hvarf eins og bendandi blik, -
Eins brátt hverfur líf yfir síðasta strik.

Hér er hvorki trúarvissa né von, aðeins dauðinn framundan. Orðalag er samtillt að þessu, ”súgandi brimið, [...] drynur [...] hafdjúpið kalt [...] og drungalegt alt [...] Við svartbakkann”. Segja má að línur kvæðisins renni saman, þar sem þær enda á stúf, og næsta lína hefst svo á forlið. Reglubundin hrynjandin með þríliðum gefur þessum myndrænu hugleiðingum glæsibrag. Hvert erindi hefst á því að draga upp mynd, en lokalína erindisins er ályktun. Fyrsta erindi er heyrnmynd; brimgnýr. ”Sem eilífðar niður á tímanna strönd”. Annað erindi er sýn; dökkur sjóndeildarhringur handan við ”hafdjúpið kalt”, sem táknar lífið, það er ”Sem dauðleikans baugur við jarðlífsins mar”. Og loks er lokaerindið enn sýn, stakt segl út við þennan dökka sjóndeildarhring, einmanaleg hvít ögn við svartbakka, en hún er óðar horfin, ”Eins brátt hverfur líf yfir síðasta strik”. Líkingar eru hefðbundnar og samstilltar að þessu sviði; ljóðmælandi talar um ”tímanna strönd við jarðlífsins mar”.
Hér ríkir þá enn algert svartnætti, haglega dregið upp í náttúrumyndum. Þetta eru algengar tilfinningar, og koma bældri kynhneigð eða geðhvarfasýki ekkert við. En meginatriðið er, að það þarf yfirlegu og vandvirkni til að skapa mynd þessarar tilfinningar sem annarra, þetta er ekki nein ósjálfráð tjáning tilfinningaofsa. En það er enn algengt að lesa kvæði þannig sem beinan vitnisburð um hugarástand höfundar. Þetta gera bæði Halldór Guðmundsson og Hannes H. Gissurarson í nýlegum ævisögum Halldórs Laxness. Þannig tekur t.d. Halldór Guðmundsson leik HKL að andstæðum í expressjónískum kvæðum (bls. 215 o.áfr.) sem vitnisburð um ”innri átök Halldórs”. Hannes túlkar ljóð HKL á dönsku, sem hann orti á Borgundarhólmi 1922 sem vitnisburð um þunglyndi (Halldór, bls. 200). En þau kvæði eru augljósar stælingar á ljóðum Heinrich Heine um ástarsorg, og eru þá vitnisburður um að tvítugt ungskáld sé að æfa sig, og hvaða fyrirmynd það hafði. Það skiptir máli, en ekki hitt hvernig lá á honum í það eða hitt skiptið. Halldór Laxness söng og þýddi ljóð Heine á þessu méli, eins og ég hefi áður rakið (Ævisögur Halldórs Laxness, bls. 86).
Gunnari finnst vel til fundin breytingin í lok kvæðisins, sem minnir hann á Goðmund á Glæsivöllum eftir Grím Thomsen (bls. 60):

Mér finnst Grímur taka snilldarlega sveiflu með lesendur sína frá fornaldarsöguhetjunni Goðmundi til danskrar samtíðar og sjálfstjáningar sinnar, og eins gerir séra Björn þegar hann sveiflar okkur frá þessari óskiljanlega dapurlegu mynd af kyrrlátri norðlenskri sumarnótt inn í eigin tilfinningaheim og segir skyndilega: Þetta var allt um mig.

En einnig þetta var samkvæmt samtímatísku, og er Heinrich Heine skálda frægastur fyrir það (sjá t.d. Neue Gedichte, Prolog, 8 o.v.). Lærisveinn hans, Jónas Hallgrímsson gerði kunnasta íslenskt dæmi þessa, Gunnarshólma, sem varð víðfrægt áður en framantöld kvæði voru ort. Eftir lýsingu á náttúrunni og á ferð Gunnars frá Hlíðarenda í löngu máli, kemur undir lok kvæðisins ályktun af því, boðskapur ljóðmælanda til samtímamanna hans um þjóðernisstefnu: ”Hugljúfa samt eg sögu Gunnars tel,[...] Því Gunnar vildi heldur bíða hel en horfinn vera fósturjarðarströndum.” Vera má að einnig sr. Björn hafi verið ”að laga sig eftir Heine” (orð Jónasar Hallgrímssonar um ljóðabálk sinn Annes og eyjar) í Sumarnótt, því hún er nær þessum hvörfum Heine í kvæðislok en Gunnarshólmi Jónasar. Sem dæmi nefni ég Neue Gedichte Heines, og þar einkum Prolog, 5 og 8. Ekki hefi ég fundið góð dæmi í ljóðum hans þýddum á íslensku, helst Strandsetan í þýðingu Jónasar Hallgrímssonar.

Í stuttu máli sagt, ljóð þar sem ”ég” birtir samræmda mynd af tilfinningu, hvort sem hún er neikvæð eða jákvæð, er engin heimild um hugarfar höfundar, hvorki til skamms tíma né langs. Auðvitað hefur skáldið þekkt slíkar tilfinningar eins og annað fólk, en ríkjandi tilfinning hans við að setja saman kaldhamrað listaverk, hefur líklegast verið gleði –sköpunargleði.

Ég þakka Magnúsi Haukssyni gagnrýninn yfirlestur, Agli syni mínum og Silju ritstjóra gagnlegar ábendingar. Einn ber ég þó ábyrgðina.

Tilvitnuð rit:
Sr. Bolli Gústavsson: Upprisuskáld (bls. 7-131 í:) Björn Halldórsson í Laufási: Ljóðmæli. Rvík 1994.
Gunnar Karlsson: Hvers vegna kveið séra Björn Halldórsson komandi degi? Tímarit Máls og menningar, 2.hefti 2007, bls. 59-69.
Halldór Guðmundsson: Halldór Laxness. Ævisaga. Rvík 2004.
Hannes Hólmsteinn Gissurarson: Halldór 1902-1932. Rvík 2003.
Örn Ólafsson: Ævisögur Halldórs Laxness. Þjóðmál 2.hefti 2. árgangs, 2005, bls. 82-7.

Tilvitnuð ljóðmæli munu auðfundin í þessum bókum:
Benedikt Gröndal: Ritsafn I-V. Rvík 1948-1954.
Grímur Thomsen: Ljóðmæli. Rvík 1969.
Jónas Hallgrímsson: Rit I-V. Rvík 1929-37.
Steingrímur Thorsteinsson: Ljóðmæli. 3. útgáfa aukin. Reykjavík 1910.

II

Sögustríðið – ný orrusta

Í bók sinni Sögustríð rekur Sigurður Gylfi Magnússon áratugs átök sín við “sögustofnunina”, þ.e. fyrst og fremst við kennara sagnfræðiskorar H.Í. Átökin snúast um aðferðir, þar sem Sigurður Gylfi boðar einsögu gegn yfirlitssögu.
Taka verður fram að ég hefi fátt eitt lesið af ritum þessa afkastamikla höfundar. En það hlýtur að vera ásættanlegt að fjalla um eina bók, enda er hún 527 bls. Þar eru þrálátar óþarfar endurtekningar sem stafa af því að þetta er greinasafn Sigurðar. Ólíkt vænlegra hefði verið að semja skipulega greinargerð um ágreiningsefnið og láta nægja að vísa til þessara prentuðu greina, sem eru auðfundnar í útbreiddum tímaritum. Og auðvitað hefði höfundur átt að umsemja enskar greinar sínar hér á íslensku. Það er ekki eins og þetta séu ódauðleg skáldverk.

Einsaga eða yfirlit
Sumt má hér þykja vel athugað, einkum ádeila á klíkuskap við stöðuráðningar til Háskóla Íslands, en því miður er bókin yfirborðsleg, nefnir aragrúa persóna og titla, talar mikið um tísku og “nýjungar í fræðunum”, og hneykslast á þeim steingervingum fræðanna sem gegn þeim standa, en allt er það heldur óljóst, því mjög lítið er um greiningar á einstökum dæmum. Helst er að nefna samantekt Sigurðar (bls. 314-322) úr ýmsum ritum sem leiði rök að því að kynlífsbylting hafi orðið um miðja 18. öld, þá færist það mjög í aukana. Þetta er dæmi hans um ”yfirlitssögu”, og á e.t.v. að vera víti til varnaðar, en er alltof einhliða til þess. Því hér er fjallað um þjóðfélagslegar hömlur á kynlífi án þess að víkja að vændi og útbreiðslu þess í borgum og sveitum. Fleiri stórar gloppur mætti nefna í þessu yfirliti, enda leggur Sigurður hér einkum áherslu á að fátt verði vitað um eitt og annað.
Sigurður Gylfi er sífellt að hamra á því að „fortíðin verði ekki göldruð fram", en hver hefur sagt að það sé markmiðið? Auðvitað er sagnfræðirit mannvirki, mótað af höfundi sínum og aðstæðum hans, umdeilanlegt, en færa má rök fyrir því og dæmi að ein túlkun eða mynd fortíðar sé réttari en önnur. Ella væri engin sagnfræði til, bara sögulegar skáldsögur. Og skil ég það ekki rétt, að Sigurður Gylfi boði (bls. 180-181) „einsögurannsókn" á tilteknu tilviki eða persónu án þess að tengja það við neitt annað? Það finnst mér vera sturluð stefna. Því það er ekki unnt að fjalla um neitt nema með samanburði við eitthvað annað! Amk. við aðstæður og viðhorf umfjallanda sjálfs. Og er þá ekki best að gera sem skýrasta grein fyrir því? Hvernig er unnt að boða sögu minnihlutahópa, svosem Gyðinga eða homma án þess að tengja þá sögu við yfirlit um samfélagið að öðru leyti? Þeir eru þó bara minnihlutahópar út frá viðhorfum meirihlutans hverju sinni. Ekki eru gyðingar minnihlutahópur í Ísrael, og ekki voru hommar það í Grikklandi hinu forna, t.d. Það er og alrangt, þegar Sigurður Gylfi segir (bls.180) að jafnan hafi sagnfræðin fjallað um ríkjandi 2% mannkyns, aldrei um almenning. Ég las á sínum tíma töluvert í Fischer Weltgeschichte (hún birtist á árunum 1966-89 í 33 bindum), og það er bara eitt dæmi yfirlitssögu sem fjallar fyrst og fremst um aðstæður í þjóðfélögum, atvinnuhætti, tækni, lífsskilyrði og menningu, miklu frekar en atburðasögu eða konungaröð.
Sigurður Gylfi nefnir valkost við hreinskilnislega yfirlýsingu umfjallanda um afstöðu sína, þar sem er stefnuskrá Helga Skúla Kjartanssonar. En síst virðist hún betri, skv. umfjöllun Sigurðar á bls. 219. Að ímynda sér að unnt sé að semja „hlutlaust yfirlit, að sætta öll sjónarmið og fara einhvern hlutlausan milliveg að hverju viðfangsefni"! Það er nú bara að segjast ætla að beygja sig undir ríkjandi viðhorf á núverandi tímum. Auðvitað ber umfjallanda að draga ályktanir af efni sínu, og leggja skefjalaust dóm á, svo fremi að hann gæti hlutlægni, sem er allt annað en hlutleysi. Hlutlægni er að láta mismunandi sjónarmið koma fram. Þessari stefnu reyndi ég að fylgja, m.a. í Rauðu pennunum, og hefur verið láð að sýna umfjallaðri hreyfingu fjandskap. En þar var –auðvitað umdeilanleg- ályktun af umfjölluninni, og mér sýndist óheiðarlegt að dylja hana undir sýndarhlutleysi. Hvernig er unnt að fjalla um bókmenntahreyfingu sem segist ætla að skapa nýja tegund bókmennta á grundvelli marxískrar stéttabaráttu verkalýðsins án þess að leggja mat á hvernig til hafi tekist með ætlunarverkið?
Sigurður Gylfi hamast mjög gegn yfirlitsritum vegna þess að grundvöllur þeirra sé ”þannig uppbyggður að honum er ætlað að fela eyðurnar sem eru í þekkingu okkar, breiða yfir misfellurnar í sögunni og leyna ágreiningnum sem er á milli ólíkra afla samfélagsins á öllum tímum” (bls. 353).
Ekki segir Sigurður nokkursstaðar hversvegna svo hljóti að vera. Enda er þetta mesta firra. Hann vitnar þarna í umfjöllun mín og fleiri um síðustu bindi Íslenskrar bókmenntasögu, en sleppir því, að ég nefndi einmitt, að sumir höfundar hennar, t.d. Árni Sigurjónsson, draga fram mismunandi túlkanir og ágreiningsmál, meðan aðrir, t.d. Halldór Guðmundsson, breiða yfir slíkt, og reyna að finna einhverskonar samnefnara, líkt og haft var eftir Helga Skúla hér að framan. Enda er það regla frekar en undantekning í þeim yfirlitum sem ég hefi lesið eða heyrt, að höfundur segi; þetta atriði er að mestu ókannað, hér þyrfti að rannsaka betur, o.s.frv. Þetta hljóta allir lesendur að kannast við. Ekki vekur einsaga slíka ítarleit. Það er eins og maður taki upp kartöflu, skoði hana, vegi og lýsi henni, taki síðan aðra, sem reynist svolítið öðruvísi, loks þá þriðju. Og þá eru flestir orðnir leiðir á slíkri iðju, enda er þeim bannað af Sigurði að setja einstaka athugun í stærra samhengi.
Tökum annað dæmi, einsögu bókmennta. Sveitamaður á 19. öld hefur ort einn rímnaflokk. Við rekjum hvernig saga er rakin í honum, greinum bragarhætti og kenningar, og svo tengjum við þetta kannski við æviatriði mannsins. Hætt er við að það yrði ansi fátæklegt. Því öll þessi einkenni rímna mótast af margra alda sterkum hefðum, svo ekki sé sagt klisjum. En við megum einmitt ekki tengja þessa einstöku rannsókn við yfirlit bókmenntagreinarinnar!

Séra Björn
Nú kom skrítinn leikur í þrátefli Sigurðar við sögustofnuna. Á sama méli og umrædd bók hans birtist fékk hann óvæntan lærisvein í einsögu, nefnilega sjálfan Gunnar Karlsson, höfuðandstæðing hans í sögustríðinu undanfarinn áratug eða meira. Gunnar birti grein um kvæðið Sumarnótt eftir sr. Björn Halldórsson í Laufási, og rekur kvíða þess til óyndis samkynhneigðs manns sem neyddur hafi verið til að kvænast. Sem rök notar Gunnar vísu og bréf Björns, auk munnmæla sveitunga hans. Ég gerðist til að svara (grein mína má sjá á http://oernolafs.blogspot.com/íslenskt) og tengja þetta kvæði Björns við yfirlitssögu, og hélt því fram að Sumarnótt væri dæmigert fyrir bókmenntatísku samtímans, heimshryggðarkvæði rómantíkur, sem einkum breska skáldið Byron (1788-1824) gerði víðfræg um alla Evrópu á öndverðri 19. öld. En það eru kvæði þar sem náttúrumynd er samstillt til að sýna vonleysi, hryggð o. fl. þ. h. Stundum er þeirri tilfinningu lýst yfir af ljóðmælanda, en stundum kemur hún óbeint fram. Áður hafði ein heimild Gunnars, sr. Bolli Gústavsson, nefnt þá stefnu, reyndar um annað kvæði sr. Björns. En að hætti Sigurðar Gylfa mótmælti Gunnar slíkum aðferðum, þótt hann að sönnu viðurkenni tilvist og áhrif bókmenntahefða.
Gunnar telur ýmis dæmi þess að kvæði Björns sé frábrugðið þeim heimshryggðarkvæðum íslenskra rómantískra skálda sem ég hafði tilfært. Gunnar segir að þar sem ”kyrrð og einkum næturkyrrð var algengt tákn friðsældar í hugum fólks, er það frumlegt sem séra Björn gerir úr næturkyrrðinni”, þ.e. kvíða. Þetta sannar bara ekki neitt. Ég hef aldrei haldið því fram að kvæði Björns væri ófrumlegt, bara að það sé samkvæmt þessari megintísku, þótt það hafi sín sérstöku einkenni, eins og hin kvæðin, sem einnig nota lýsingar náttúru til að draga upp samstillta mynd af ugg. Til þess þurfti ekki samskonar kyrrðarmynd og í kvæði Björns, það hefði verið ófrumlegt, og það forðuðust þessi skáld. Því er rangt til getið hjá Gunnari að ég ”hafi leitað nokkuð rækilega að hliðstæðum við kyrrðarmynd Sumarnætur í rómantískum skáldskap Íslendinga”. Þessar nægðu, sem ég mundi í svipinn. Ég var alls ekki að fjalla um áhrif eins kvæðis á annað, heldur einungis að heimfæra þau til sama meginflokks, tiltekinnar tísku. Reyndar finnst mér snilldin meiri í tilfærðum kvæðum Gríms, Benedikts og Steingríms en hjá Birni, sem segir deyjandi dagsroða drekkja sér. Stuðlanauð þrengir að hugsuninni.
Um skyndileg hvörf kvæðisins frá náttúrulýsingu til að segja ”ég” og tengja þannig tilfinningamynd náttúrulýsingar við ljóðmælanda nefndi Gunnar annað dæmi, kvæði Gríms Thomsen um Goðmund á Glæsivöllum, en ég nefndi Gunnarshólma Jónasar Hallgrímssonar, sem Gunnari þykir í þessu atriði ólíkt Sumarnótt Björns, því útkoman hefði orðið nokkurnveginn eins, þótt orðinu ”ég” væri þar sleppt. Því er ég ósammála. Einmitt það að ljóðmælandi segir frá tilfinningum sínum, að hann telji sögu Gunnars á Hlíðarenda hugljúfa og segir hversvegna, þ.e tengir við ákafa þjóðerniskennd kvæðisloka, sýnist mér gera þá tilfinningu nærkomna lesendum. Hvað sem því líður vísaði ég um hvörf til 1. persónu og breyttrar kenndar einnig til kvæða Heinrich Heine (1797-1856) sem á norðurlöndum var einna mest metinn þýskra skálda, einnig þegar Björn dvaldist í Kaupmannahöfn (veturinn 1850-51). Líklegt þykir mér að sá skáldhneigði menntamaður hafi haft spurnir af þeirri alkunnu tísku, altént fann Björn hana ekki upp. Enn má nefna að fáeinum árum áður, 1845, birti Grímur Thomsen meistara¬prófsritgerð sína um Byron (sem hann fékk doktorsnafnbót fyrir 1854, sbr. Helga Skúla, bls. 118-19). Og nú er best að ég segi beint út það sem ég ýjaði að í grein minni: Það sem ekki verður vitað er ekki áhugavert. Með öðrum orðum, mér er hjartanlega sama að hverjum losti sr. Björns Halldórssonar beindist fyrir hálfri annarri öld, það setur ekki mark á þetta kvæði hans, og sú tilfinning sem það lætur í ljós er samkvæmt bókmenntatísku, og að sama skapi lítil heimild um hugarástand höfundar. Svona gafst nú að fylgja einsöguaðferð Sigurðar Gylfa – það leiðir til þess að huga ekki að sögulegu samhengi verksins. Undir slíku verður ekki setið þegjandi, hver sem í hlut á. Og þegar þetta hendir kunnáttusaman og þrautþjálfaðan sagnfræðing, liggur nærri að segja að Gunnar Karlsson hafi þannig eftirminnilega sýnt fram á haldleysi einsöguaðferðar - þótt að vísu kæmi úr því skemmtilegur pistill.
Hér hefur þá Sigurður Gylfi unnið frækilegan stundarsigur, en sögustríð hans var samt fyrirfram tapað. Skýringu á því hve yfirborðsleg, þokukennd og staglsöm bók hans er, sé ég í því að hann er fastur í kreddum sem hann getur ekki rökstutt né réttlætt. Sorglegt.

Tilvitnuð rit:

Sr. Bolli Gústavsson: Upprisuskáld (bls. 7-131 í:) Björn Halldórsson í Laufási: Ljóðmæli. Rvík 1994.
Gunnar Karlsson: Hvers vegna kveið séra Björn Halldórsson komandi degi? Tímarit Máls og menningar, 2.hefti 2007, bls. 59-69.
Örn Ólafsson: Andsvar um Björn í Laufási. Tímarit Máls og menningar, 3.hefti 2007, bls. 133-9.
Gunnar Karlsson: Um séra Björn, kveðskap og kynhneigð. Tímarit Máls og menningar, 4.hefti 2007, bls. 134-8.
Helgi Skúli Kjartansson: Bráðþroska menningarviti. Tímarit Máls og menningar, 3. h.2005, bls. 116-120.
Sigurður Gylfi Magnússon: Sögustríð. Rvík 2007.
Örn Ólafsson: Rauðu pennarnir. Rvík 1991.

Gammabrekku og Kistunni 6.1. 2008 (fékkst ekki birt í TMM)
Gunnar Karlsson svaraði á sama vettvangi viku síðar og sagðist bara vilja veita samkynhneigð þegnrétt í íslenskum bókmenntum, og þá gjarnan í útbreiddum sýnisbókum, til að efla sjálfstraust samkynhneigðra. Það er fallegt af honum, einkum þar sem hann ekki er í hópi þeirra. Það sést best á bókmenntavalinu. Því hvenær hafa grátljóð eflt einhverjum sjálfstraust og baráttuhug?

þriðjudagur, 24. apríl 2007

Silkikjólar og vaðmálsbuxur&Glæsimennska

Undarleg Andvaragrein

I
Í ársritinu Andvara, 1996 er grein eftir Árna Sigurjónsson um skáldskap Sigurjóns Jónssonar (1888-1980). Hann er nú flestum gleymdur, og var forvitnilegt að lesa um framtíðarsögu hans frá upphafi 3. áratugsins. Aðalefni greinarinnar er þó sú kenning Árna, að Sigurjón hafi verið með helstu framúrstefnuskáldum síns tíma, og þá einkum í skáldsögunni Silkikjólar og vaðmálsbuxur- Glæsimennska (1922-4).
Rök Árna fyrir þessari kenningu eru í stuttu máli þessi (bls. 108):

”Sigurjón Jónsson má skoða sem merkan og að nokkru leyti týndan hlekk í forsögu íslenskra nútímabókmennta, og deiglan í bókmenntum þriðja áratugarins birtist einna skýrast í skáldsögum hans. Þar koma fram tvö megineinkenni í sagnagerð þessa tíma, sem getir var um fyrr: lífsskoðanaumræða og formnýjungar.”

Um fyrra atriðið sagði Árni (bls. 99):

”nýjungarnar birtust ekki í forminu einu, heldur einnig í hugmyndafræðilegu nýjabrumi. Þórbergur boðaði sósíalisma í Bréfi til Láru, í Myndum Huldu eru það stríðið og afleiðingar þess sem koma róti á huga skáldsins, Halldór Laxness glímir við alla meginstrauma í hugmyndafræði samtímans í Vefaranum mikla, sem hann lýsir sjálfur sem einskonar yfirliti yfir menningarstrauma tímans [...] og Sigurður Nordal leitar haldgóðrar lifsstefnu í Hel [...] Og hér kemur Gunnar Gunnarsson einnig við sögu, því stríðssögur hans, [...] eru af heimspekilegum og hugmyndafræðilegum toga, þó að form þeirra kunni að þykja hefðbundið.

Árni rökstyður þetta aðeins nánar í neðanmálsgrein (bls. 110): [...]

”Að sönnu er samspil forms og efnis náið, en óþarfi er þó að hártoga þá hugmynd. Framúrstefna birtist í margs konar formi, bókmenntategundum og listgreinum. Það fer eftir áhuga og hæfileikum hvers höfundar á hvaða sviði hann kýs helst að láta nýsköpun sína koma fram, og framúrstefnuskáldin voru eins og aðrir bundin hefð að einhverju marki. Tvö verk geta miðlað sama inntaki frá vissu sjónarmiði þótt form þeirra sé gerólíkt; en áhrifin eða inntakið verður aldrei alveg eins ef einhver (jafnvel agnarsmár) munur er á formi þeirra.”

Ég sé ekki hvernig þessar hugmyndir ættu að vera bókmenntaleg framúrstefna. Enda voru þær ekki einu sinni nýjar í bókmenntum uppúr 1920. Boðun sósíalisma og gagnrýni á þjóðfélagsstofnanir svo sem kirkjuna urðu áberandi aldarþriðjungi fyrr, í verkum Stephans G. og Þorsteins Erlingssonar. En eigi nýjar hugmyndir að vera til marks um bókmenntalega framúrstefnu, þá eru ekki efni til að gera verulegan greinarmun á skáldskap og t.d. blaðagreinum eða ritgerðum, þar sem skipulegast og auðveldast er að setja fram hugmyndir. Við gætum rakið okkur til baka í gegnum bókmenntasögu 19. og 18. aldar og talið upp bókmenntaverk sem settu fram ný viðhorf; bindindistefnu, nýguðfræði, þjóðernisstefnu, búauðgisstefnu, upplýsingarstefnu, o.s.frv. Það væri mjög villandi að kalla þessi rit „framúrstefnuverk“, yfirleitt var þessi boðskapur settur fram í hefðbundnu formi, til þess einmitt að hann næði umbúðalítið til lesenda. Satt að segja hefi ég aldrei áður séð þá kenningu að bókmenntaleg framúrstefna birtist í því hvaða hugmyndir séu fram settar í bókmenntaverkinu, og þetta er fráleit kenning. Hún byggist einfaldlega á því frumstæða bókmenntaviðhorfi, sem því miður er útbreitt einnig meðal bókmenntafræðinga á Íslandi, að álíta hverskyns skrif hafa fyrst og fremst þann tilgang að boða skoðanir og hugmyndir. En bókmenntaunnendur vita að það er grundvallarmunur á þvílíkum skrifum og raunverulegum skáldverkum, sem orka alhliða á persónuleika lesenda, ekki síður á tilfinningu þeirra fyrir hljómi, hljóðfalli, myndum og hvernig slikir þættir fléttast saman - en á rökhugsun þeirra. Því er lestur góðs skáldverks lífsreynsla, sem erfitt er að gera sér grein fyrir röklega. Ég held að setja megi fram þá almennu reglu, að því meir sem hugmyndaboðun drottnar í bókmenntaverki, því minna sé skáldskapargildi þess.

II
Svo sem vera ber rekur Árni viðtökur sögunnar í ritdómum. Hitt nefnir hann ekki, að þessi kenning um að skáldsaga Sigurjóns sé tímamótaverk, er alls ekki ný. Hún kom fram í bókmenntasögu Stefáns Einarssonar, 1961 (bls. 374):

”En maðurinn sem fyrst gerði harða hríð að hinu forna skipulagi samkeppnisstefnunnar var Sigurjón Jónsson (1888-) í tveggja binda skáldsögu (1922-24). En þótt Sigurjóni væri blóðug alvara, þá stóðst rit hans Bréfi til Láru (1924) eftir Þórberg ekki snúning, svo það gleymdist í vitund alþýðu. [Í ensku frumútgáfu rits Stefáns, 1948 sagði (bls.207-11): "But the first to voice socialism in a fierce attack on the social order was Sigurjón Jónsson in Silkikjólar og vaðmálsbuxur 1922 and Glæsimennska 1924"

Ég ræddi þessa kenningu Stefáns í doktorsriti mínu, Rauðu pennarnir (1990, bls. 131) og hafnaði henni með þessum rökum:

”En sannleikurinn er sá, að þótt saga þessi, Silkikjólar og vaðmálsbuxur og Glæsimennska, nú maklega gleymd, gagnrýni spillingu Reykjavíkurlífsins og hvernig óheiðarlegir menn - og hórkarlar - komist til auðs og valda, þá byggist sú gagnrýni ekki á sósíalisma, heldur á afturhaldssemi, á því að vegsama fornar dyggðir og sveitalíf.”

- Við það vil ég nú bæta því, að einmitt Árni Sigurjónsson hefur öðrum fremur (í doktorsriti sínu, íslensk gerð: Laxness og þjóðlífið I-II), rakið hvernig sá hugmyndaheimur einkennir menningaríhaldssemi á 3. áratugnum!
Mér þykir mjög líklegt að Árni hafi lesið þetta rit mitt - og bókmenntasögu Stefáns Einarssonar, þótt hvorugt ritið nefni hann. Nú getur það einfaldlega stafað af gleymsku, það getur dottið úr mönnum hvaðan þeir hafa hugmynd sem þeir ganga með. Og sjálfsagt virðist að ganga út frá þeirri skýringu, sé ekki annað sannað, menn njóti tvímælis jafnt sem sannmælis.
En þetta bætir ekki úr skák. Það sýnir þá bara að Árni hefur vanrækt þá frumreglu allra fræðistarfa, að byrja á því að kynna sér hvað áður hefur verið skrifað um efnið, og takast á við það með rökum. Aðeins þannig getur mönnunum munað eitthvað áfram.
En svo slæmt sem þetta er, þá sýnist mér hlutur ritstjórans enn verri. Greinahöfundar eru margir og misjafnir, Árni búsettur í Bandaríkunum og sjálfsagt átt langt að leita í sæmileg íslensk bókasöfn. Þegar nú ritstjóri menningartímarits fær grein, sem sögð er innihalda merkilega uppgötvun, þá er það sjálfsögð vinnuregla að fletta upp í helstu handbókum fræðanna og kanna hvað áður hefur verið skrifað um viðfangsefnið. Ég vek athygli á því, að þar sem framangreindar bækur eru með nafnaskrám, hefði tekið í mesta lagi mínútu að finna þetta í hvorri. Og yfirlitsrit eins og bókmenntasögu Stefáns, er einfaldlega ekki hægt að sniðganga. Hefði nú ritstjórinn sinnt þessu, þá hefði hann getað forðað Árna frá því að eigna sér verk annars manns. Það bætir svo ekki úr skák, að höfundur var árum saman ritstjóri annars menningartímarits, Tímarits Máls og menningar, og þakkar ritstjóra þess þriðja, Skírnis, fyrir yfirlestur greinarinnar og athugasemdir! Þessi uppdráttarsýki gagnrýni er óhugnanlega útbreidd.

III
Árni nefnir einkum tvær formnýjungar skáldsögu Sigurjóns (bls. 106):

”Eftirlætis stílbragð Sigurjóns er að endurtaka ákveðna setningu nokkrum sinnum í sama kaflanum, stundum með dálitlum tilbrigðum og skapa þannig stef og um leið vissa hrynjandi [...]
Annað atriði sem vakti athygli er hvernig Sigurjón byrjar Glæsimennsku, en hún hefst á þessari setningu: ”Hver er að baka pönnukökur? Ha?” - og bregður skáldið svo upp svipmynd af götu í Reykjavík”

Hér kemur að annarri vanrækslu ritstjóra Andvara. Hann hefði manna fyrstur átt að taka eftir því, að þessi röksemd Árna um formnýjungar er hrakin í þessu sama Andvarahefti, í grein Sveins Skorra um Einar Kvaran, þar sem hann lýsir blæstefnu (impressjónisma) Einars, sem birtist aldarþriðjungi fyrr en tilvitnað dæmi hjá Sigurjóni (bls. 91):

”Íslendingasögur hefjast yfirlett á breiðum inngangi með kynningu á sögusviði, persónum og ætt þeirra. Sömu aðferð beitti Jón Thoroddsen í sínum sögum, Páll Sigurðsson í Aðalsteini og Þorgils gjallandi í Upp við fossa. Einar hefur sínar sögu yfirleitt í atburðarásinni miðri. ”Áfram, áfram! Áfram móti gustinum, sólþrungnum, glóðheitum, sem andar á innflytjandann, ef hann stingur höfðinu út úr vagnglugganum”. Þannig slær hann upphafstaktinn í Vonum. ”-En hvað hann rignir! Yfirdómaradóttirin hagræddi sé í ruggustólnum heldur makindalega, spennti greipar uppi á höfðinu, teygði úr fótunum og setti hægri hælinn ofan á vinstri ristina. ” Þetta eru fyrstu línurnar í Ofurefli. Og Sögur Rannveigar hefjast með svipuðum hætti: ”- Jæja - ætli hann fái ekki þetta borgað?... Og bölvaður! Þessa illmensku hefði enginn getað látið sér til hugar koma annar en Þorsteinn á Völlum! Mikill voðamaður er hann!”

Árni vitnar í grein mína (frá 1989 um expressjónisma Halldórs Stefánssonar) um þvílík stíleinkenni, setningabrot og upphrópanir. Vissulega munu þau ættuð frá framangreindum stíleinkennum blæstefnu, en mér sýnist þó munur á. Í blæstefnusögum er þetta stílbragð mest til að sýna hugarástand persónu, ekki síst þegar því bregður frá hversdagsleikanum. En Halldór Stefánsson notar setningaslitrur, hljóðlíkingar og ankannalegar líkingar einkum til að gera lýsingu sögusviðs annarlega. Ég þykist hafa gert þessu efni ítarlegri skil í bók minni Kóralforspil hafsins (1992). En sjálfsagt er hún óvíða til á bókasöfnum miðvesturríkja USA.
Hvað varðar "endurtekin stef", þá virðist mér það stagl tilefnislaust í sögu Sigurjóns, og þarafleiðandi ekki gegna öðru hlutverki en því að þreyta lesendur, þetta er eitt af því sem sýnir hve litil tök Sigurjón hafði á sagnagerð. Að öllu þessu samanlögðu sýnist mér ekki standa steinn yfir steini í kenningu Árna, og það hefði samviskusamur ritstjóri átt að geta sýnt honum fram á fyrir birtingu. .
Ég þykist þekkja mitt heimafólk svo vel, að nú muni einhverjir tauta: "Af hverju mega þessir menn ekki hafa sitt í friði, hvað hafa þeir gert þér?" Svar: Þeir hafa ekkert gert mér, ég á ekkert sökótt við þá. En svona mistök verður að átelja, annars kafnar öll menningarumræða í gagnrýnislausri lognmollu, þar sem ekkert skiptir máli, og því verður flest lélegt. Ég á bágt með að trúa því að ekki hafi fleiri en ég tekið eftir þessum misssmíðum. Og þá á fólk ekki að láta við það sitja að gagnrýna þau í kaffistofupískri, gagnrýnin verður að vera opinber, bæði til að mæta því sem kom jafnopinberlega fram, og til þess m.a. að menn geti varið sig gegn henni, skyldi hún nú vera á misskilningi reist. En það er því miður lenska í bókmenntaumræðum á Íslandi, að þær séu alls engar, hvaða sjónarmið sem svo ræður því.

fimmtudagur, 15. febrúar 2007

Tulkunarfræði Stefans Snævars

Tvö rit Stefáns Snævars
Stefán Snævarr mun kunnastur á Íslandi sem ljóðskáld og hvass höfundur blaðagreina. En hann hefur einkum lagt stund á heimspeki mörg undanfarin ár, numið hana og kennt í Björgvin, og varði doktorsrit á því sviði. Það hefur nú birst á bók á ensku, Minerva and the muses. Vonandi kemur það fljótlega á íslensku líka, eða verulegur útdráttur þess, því þetta er hin merkasta rannsókn málefna, sem mörgum eru mikilvæg. Ég vænti þess að heimspekifræðingar fjalli fljótlega um það frá sínu sjónarmiði, en hér skal vikið að nokkrum atriðum frá sjónarhóli bókmenntatúlkunar.
Meginviðfangsefni Stefáns er efahyggja um listdóma, það viðhorf, að það sé svo persónulegt, hvernig fólk skynji listaverk, að það verði ekki rökrætt, það ráðist af
tilfinningum, en ekki af skynsemi. Þetta viðhorf mun lesendum þessa svo kunnugt, að ekki þarf að kynna frekar. En það er þó til í ýmsum útgáfum, og Stefán prófar rök fyrir þeim, einni af annarri, rekur kenningar ýmissa heimspekinga af miklum lærdómi. Áf því ræðst titill verksins, sem mætti þýða sem ,,viskugyðjan og listgyðjurnar”. Stefán kannar forsendur ýmissa kenninga um að listdómar séu huglægir, óprófanlegir. I fyrsta lagi sýnir hann fram á að jafnvel þótt listnautn væri alveg tilfinningaleg, þá sé þó tilfinningalífið alls ekki óháð rökhyggju, heldur stjórnist verulega af henni. Það eru t.d. góðar ástæður þess, að sum fyrirbæri vekja fólki ótta, en önnur gleði, og þá einnig í listaverkum fyrirbæri sem minna á slíkt. Stefán tekur skýrt fram, að sumum spurningum verði ekki svarað, a.m.k. ekki í þessu riti. Ekki verði gefin skilgreining á því, hvað listaverk sé, ekki sagt hvort til séu hlutlægir listrænir eiginleikar eða rétt túlkun listaverka, o.fl.þ.h.. Sumt var talið meistaraverk öldum saman, en er nú flestum gleymt (t.d. Eneasarkviða, nýútkomin á íslensku). Stefán rekur ennfremur, að ekki sé kunnugt um neinn mælikvarða sem sanni að t.d. málverk Magritte séu betri en verk Dali eða öfugt. Enda væri þá lítið eftir fyrir listunnendur að fást við. Segja má, að gildi rits Stefáns sé fyrst og fremst neikvætt (og er það ekki lítils virði!). Þetta er tiltekt, hann sýnir fram á að sum algeng viðhorf fái ekki staðist. Í anda Karls Popper sýnir Stefán fram á ósamstæðni: Þótt einhver dómur verði ekki sannaður, þá getur hann verið prófanlegur þannig að hugsanlega yrði hann hrakinn. Einfalt dæmi þessa er þegar listaverki er hrósað fyrir frumleika. Það verður aldrei sannað, því alltaf gæti hugsast að mjög líkt verk eldra fyndist, rétt eins og svartir svanir og hvítir hrafnar. En það þýðir einmitt að þetta er hrekjanleg staðhæfing, prófanleg neikvætt. Og hvers virði er staðhæfing, þar með talin túlkun á listaverki- sem ekki væri prófanleg þannig? Sannleiksgildið væri ekkert. Einnig rekur Stefán kenningu fagurfræðingsins Beardsley um að frumleiki geti ekki talist eiginleiki listaverks, heldur sé þá talað um umhverfi þess, hvað hafi áður birst.
Stefán greinir (bls. 249) fjóra meginþætti hæfni til listmats, sem hann kallar ,,hlutlæga fagurfræðigreind (concrete aesthetic reason): 1) Þögla þekkingu (forsendur sem menn ganga út frá sem sjálfsögðum), 2) að hafa fagurfræðilegar tilfinningar og skynja þær hjá öðrum, 3) að hafa vald á listrænum og fagurfræðilegum hugmyndum og 4) að hafa almenna þekkingu á list. Það skiptir þá máli, að síðasttaldir tveir þættir eru prófanlegir.
Lokakaflinn heitir Súlur visku, og þar er ályktað af undanfarandi efni. Í upphafi kaflans eru settar fram þessar reglur: Til að dómur sé skynsamlegur, nægir að hann uppfylli þessi skilyrði: a) hann er almennt réttlætanlegur, b) rökstyðja má hann á mismunandi stigum, c) hann er hrekjanlegur á markverðan hátt. Þetta er síðan rökstutt og útlistað, svo sem of langt yrði að rekja hér. En Stefán bætir því við, að ekki verði séð nein ástæða til að þetta sé ekki algilt. Álíti einhver að önnur rök gildi um t. d. listmat, þá liggi sönnunarbyrði á þeim sem það segir.
Meginatriði kaflans er skorðunarkenning Stefáns, að það sem kalla mætti ”umlistakenningar” (,,metaæstetiskar kenningar”), skorði einstaka listdóma. Verði umlistakenningin hrakin, þá falla dómar sem á henni eru reistir. Dæmi er fyrrgreind kenning Beardsley, að frumleiki sé ekki eiginleiki listaverka. Hún skorðar listdóma þannig, að sé listaverki einkum talið til gildis að vera frumlegt, þá verður sá listdómur út í hött, fylgi menn Beardsley. Annað dæmi má tilfæra eftir Stefáni (bls. 237), í kínversku menningarbyltingunni var tónlist Beethovens fordæmd á þeim forsendum að hún væri borgaraleg, og innrætti fólki þá borgaraleg viðhorf. Hins vegar töldu kínversk stjórnvöld tónlist Beethovens til gildis, að hún lýsti vel landslaginu í kringum Vínarborg! Áþekk vitleysa heyrist oft um tónverk Richard Wagners, að hún sé í eðli sínu hernaðarleg eða nasísk. Auðvitað hafa aldrei sést rök sem útlista hvernig tónverkin beri þessa eiginleika. Nú hafa flestir unnendur klassískrar tónlistar þá almennu hugmynd (umlistakenningu) um tónlist, að hún sé sértæk. Því verður þessi kínverska fordæming (og skilyrta viðurkenning) hreint rugl í þeirra eyrum. En mér er spurn hvort ekki sé frjórra að fara í hina áttina. Jesú sagði: Af ávöxtunum skuluð þið þekkja þá, en hér virðist hann látinn steypa stömpum, og mönnum sagt að meta ávextina eftir trénu. Þá held ég það sé betra að halda gamla laginu. Þegar Atómstöðin eftir Halldór Laxness birtist, fordæmdu ýmsir stjórnmálandstæðingar Halldórs söguna sem lélega skáldsögu, því hún væri áróðursrit, sem gæfi einhliða og rangláta mynd af íslensku þjóðfélagi og nafnkunnum samtímamönnum. En mér sýnist augljóst (þótt það þyrfti að rökstyðja i lengra máli en hér er unnt) að Guðdómlegi gleðileikurinn eftir Dante félli á nákvæmlega sömu forsendum, alkunna er að þar eru persónulegir óvinir Dantes sýndir í Helvíti vegna synda þeirra og afbrota. Er þá ekki óhætt að segia, að mælikvarði (umlistakenning) sem leiði til fordæmingar á verki Dantes (og Atómstöðinni), sé augljóslega tómt rugl? Að það sé alveg óhæfur mælikvarði á listaverk hvort umheimurinn teljist sýndur á sanngjarnan hátt í því. Hinsvegar verður ekki sýnt fram á listgildi þessara verka nema eftir öðrum mælikvörðum. Þá yrði meginhugmyndin líklega að vera sú, að listgildi felist m.a. í myndrænum lýsingum, samstillingu andstæðna, samþjöppun máls, markvissri byggingu - og e.t.v. því að sýna dæmigerð, mikilvæg atriði í lífi manna. Umfram allt séu þessir mismunandi eðlisþættir verksins samstilltir í eina heild. Mér sýnist mögulegt að sýna fram á, að listgildi t. d. Gleðileiksins guðdómlega verði ekki skýrt með öðru, en slíkri lýsingu. Segði t.d. einhver að það felist i háleitum hugmyndum, göfugum boðskap, þá er auðsýnt fram á að skv. því yrðu þurrustu guðfræðirit jafngild listaverk eða betri, því þar koma þessar sömu hugmyndir skýrar fram og skipulegar.
II
Stefán sendi síðar frá sér ritið Ástarspekt, en það orð er gömul íslenskun á gríska (og alþjóðlega) orðinu philosophia. Það er orð að sönnu um þessa bók, því hún er alhliða yfirlit heimspeki. Því skiptist hún í þrjá bálka, þekkingarfræði, siðfræði og fagurfræði. Bókin verður að auðlesnari við það að form greinanna er breytilegt, stundum skipuleg rökræða, en stundum samræður, að eldfornum heimspekisið, sem Snorri Sturluson enn fylgdi í Eddu sinni skömmu eftir 1200.

Rökleiðslur
Það er mikill fengur að svo skipulegu yfirliti um nokkur helstu viðfangsefni samtímans, einkum þar sem þetta er svo alþýðlega fram sett, og vel orðað, að ætla má að allir venjulegir blaðalesendur geti haft fullt gagn af. Þó eru alhliða rökræður bókarinnar enn mikilsverðari, Stefán er ótrauður við að setja fram sínar skoðanir, en hann þykist ekki alvitur, heldur leggur mesta áherslu á að vega málin og meta frá mismunandi sjónarmiðum. Þetta dregur lesendur með, og fær þá áreiðanlega til að pæla sjálfir í málunum. Mesti kostur bókarinnar er enn ótalinn, enda er hann hálfdulinn undir yfirborðinu. Í gegnum allar þessar rökræður um ýmis málefni, hagfræði, frjálshyggju, listtúlkun, o.s.frv., læra lesendur aðferðir rökleiðslu og helstu hugtök, svo sem um vítahring, falsrök, sjálfskæð rök (hét það ekki bara hringavitleysa áður?), í stuttu máli sagt, bókin kennir óbeint gagnrýna hugsun og aðferðafræði.
Eins og Stefán sjálfur segir, er sums staðar farið nokkuð fljótt yfir sögu, enda mikið efni. Hann tekur sér stöðu á milli þeirra sem segja að fræði og raunvísindi eigi ekkert sameiginlegt, og hinna sem segja að öll vísindi séu sama eðlis. Rök Stefáns gegn síðarnefndu skoðuninni eru að bókmenntafræðingur sem fjalli um ljóð verði að viðurkenna gæði efniviðar síns áður en hann fjallar um hann, en jarðfræðingur taki einfaldlega grjótmola, blágrýti eða móberg, án nokkurs gæðamats (bls. 39). En umheimurinn skiptist ekki náttúrulega í hluti. Það fer eftir fræðikenningum, hvernig heimurinn er flokkaður í viðfangsefni, jafnvel flokkunin í bergtegundir hefur verið breytileg í sögunnar rás. Hitt skiptir þó miklu meira máli að Popper sagði að öll vísindi væru einnar ættar á þeim grundvelli, að grundvallaraðferðin væri hvarvetna hin sama. Fólk safnar efniviði á tilteknu sviði, rökstyður hvernig hann sé afmarkaður, ræðir fyrri skýringar á honum og prófar þær. Dæmist eldri skýringar ófullnægjandi, setur fræðimaðurinn fram nýja skýringu, færir fram rök fyrir henni, og reynir að hrekja hana, kannar hvaðeina sem mælt gæti með henni eða móti. Standist hún prófið, köllum við hana niðurstöðu til bráðabirgða.
Umfjöllun Stefáns um prófanleika kenninga er þörf og góð. Þar má telja, að kenning getur ekki talist vísindaleg, nema mögulegt sé að reyna að hrekja hana. Auðvitað nægir það ekki heldur, allskyns augljós vitleysa er auðhrakin. Til að kenning verði tekin alvarlega, verður að mega rökstyðja hana, færa ástæður fyrir því að menn aðhyllist hana frekar en aðra. Á hinn bóginn hafa heimspekingar rakið dæmi þess að kenning sem nú er viðurkennd, hefði verið auðhrakin þegar hún fyrst kom fram. Í því sambandi nefnir Stefán, að raunar sé oft um að ræða kerfi kenninga, þar sem erfitt sé að prófa einstakar kenningar. Þegar tiltekin kenning virðist ekki eiga við, er það oft skýrt með áhrifum tengdra fyrirbæra, þ.e. með hliðarkenningum. Á ferðinni er yfirleitt floti kenninga, þar sem ein styður aðra, og getur orðið seinlegt að sökkva öllum flotanum. Hér hefði verið gott að fá rækilega umfjöllun með dæmum. Ungverski heimpekingurinn Lakatos, rakti fyrir fjórum áratugum, að þannig hefðu áratugum saman tekist á kenningar Bohr og Planck, annarsvegar að ljós væri straumur öragna, hinsvegar að það væri bylgjuhreyfingar. Þessar andstæðu herbúðir fundu sitt á hvað rök fyrir sínu máli. Stefán afhjúpar hve óvísindalegar margar kenningar eru, sem gera ráð fyrir vélgengri eða sjálfkrafa þróun t.d. tungumála, efnahags eða samfélags, enda eru rökin þá iðulega, að “til langs tíma litið” muni þetta eða hitt gerast – án þess að tiltekið sé hve langs tíma, eða hvernig það verði prófað. Hér þykir mér höfundur nema staðar helsti snemma. Vitaskuld gilda ekki náttúrulögmál um samfélagsþróun, en þar með er ekki sagt að hún sé tilviljanakennd, sterkar hneigðir eru fyrir hendi, og þyrfti að ræða þetta ítarlegar.

Bókin er safn greina Stefáns frá rúmlega tveggja áratuga tímabili, en hér eru þessar greinar þættar saman í heild. Vissulega verða nokkrar endurtekningar milli greina, en það virðist mér kostur en ekki löstur, það verða þarfar upprifjanir í nýju samhengi. Auk þess fléttast málin saman, t.d. í umfjöllun um bókmenntatúlkanir er eðlilega komið bæði að þekkingarfræði og siðfræði, þegar rætt er hvort unnt sé að meta hvort ein túlkun sé annarri betri, og eru listaverk “handan góðs og ills”, eða á einhvern hátt siðleg? Því síðasta játar Stefán, þar sem skilningur á listaverki krefjist innlifunar í hugsunarhátt annarra, og listaverk varpi ljósi á þögla þekkingu, sameiginlega fólki. En það sé einmitt eitt helsta gildi listaverka að gera fólk meðvitað um ”þögla þekkingu” eða viðhorf sem það ber með sér, ómeðvitað. Verkið er “siðtengt” og siðferðið er forsenda bókmenntatúlkana í þeim skilningi að ef lesandinn setur söguhetjurnar ekki stöðugt í samhengi við eigin siðferðishugmyndir hegða þær sér með óskiljanlegum eða merkingarlausum hætti fyrir honum. En um leið verður hann móttækilegur fyrir siðtengdri merkingu verksins rétt eins og af vináttu við siðviturt fólk og það getur mótað og eflt siðvit hans” (tekið eftir Agli syni mínum, í Kistunni). Þarmeð er ekki sagt að verkið boði tiltekið siðferði, hvað þá að lesandi þurfi að vera því sammála. Og þótt listnautn sé persónuleg reynsla, eru auðvitað ekki allar túlkanir jafngóðar eða jafnréttháar. Væri svo, segir Stefán, þá væri gerlegt að taka gefnar túlkanir á hvaða bókmenntaverki sem vera skal og kalla þær túlkanir á hvaða öðru bókmenntaverki sem vera skal. Við gætum t.d. tekið gefna túlkun á Íslandsklukkunni og kallað hana ”túlkun á Hrafnkötlu” en það væri fáránlegt. Við getum ekki talað um margar túlkanir á sama verki nema að gera ráð fyrir því að verkið hafi einhvers konar hlutlægan fasta, sem túlkunin verður að ganga út frá. Ella gætum við sagt að þessar túlkanir eigi ekkert sameiginlegt, þær fjalli ekki um sama viðfangið og þá væri út í hött að tala um fjölda túlkana á sama verki. En þótt færa megi rök fyrir því að tiltekin túlkun listaverks fái ekki staðist, þá er á hinn bóginn ekki hægt að sanna að önnur túlkun sé hin eina rétta, ekki frekar en fullyrt verður að endanlegur sannleikur sé fundinn í einhverri grein vísinda. Hér kemur enn til fyrrnefnd ósamstæðni. Stefán segir m.a. (bls. 281):

rökleg forsenda túlkana [er] sú að túlkandinn virði viss gildi í reynd en hafni öðrum. Sé markmið túlkunar að lýsa meginkjarna verksins eins og það eiginlega er, metur túlkandi sannleiks-gildi meira en önnur gildi. Telji túlkandi sannleiksleit ógerlega getur hann t.d. sett skemmti-gildi í –öndvegi eða þýðingu verksins fyrir tiltekna pólitíska baráttu. Af þessu leiðir að túlkanir á bókmenntaverkum hljóta að vera matstengdar, þ.e. ekki algerleg sneyddar gildismati, ekki fyllilega hlutlausar.

Þegar efahyggjumenn segja að gerólíkar túlkanir sama verks sanni, að túlkun sé í eðli sínu fullkomlega huglæg, er svarið, að þá sjáist þeim yfir mismunandi tilgang túlkunar (bls. 248). En þegar túlkanir gerast svo sértækar, loftkenndar, að ekki verður gripið á neinu til að rökstyðja þær eða hrekja, þá er einfaldlega of stórt spurt. ”Hver er sálin í Hrafnkötlu? Fjallar Hamlet um Ödipusarduld?” (bls. 250). Raunvísindi hefðu aldrei orðið til, ef menn hefðu haldið sig svo sértæku stigi. Snöfurmannlega afgreiðir Stefán þá útbreiddu kenningu, að listaverk fjarlæg í tíma eða stað séu nútímafólki framandi, við getum aldrei skilið t.d. Njálu eins og samtímamenn gerðu eða höfundur ætlaðist til, heimsmynd Gleðileiksins guðdómlega og samtímaveruleiki Dantes sé okkur svo framandi. Stefán segir m.a. (bls. 240):

Við getum einfaldlega ekki vitað hvort tiltekin heimsmynd HM sé ósammælanleg við okkar heimsmynd því ef við vissum það væru þær sammælanlegar. Við myndum nefnilega vita að HM er róttækt öðruvísi en okkar heimsmynd og þá getum við borið (mælt) heimsmyndirnar saman. Því er út í hött að gera ráð fyrir hugarheimum sem eru gagnólíkir okkar.

Grundvallarkrafa til túlkunar er þá að hún gangi út frá mikilvægum þáttum verksins, gangi ekki í berhögg við meintar staðreyndir um það, og rúmi ekki röklegar mótsagnir. Auk þess verður hún að bæta einhverju mikilvægu við augljósar staðreyndir um verkið, og þá álít ég að túlkunin hljóti að tengja verkið við eitthvað utan þess, sbr. það sem að framan segir um mismunandi tilgang túlkana. Á þessum grundvelli má bera saman mismunandi túlkanir, sú er best sem betur uppfyllir þessi grundvallarskilyrði.


Þjóðerni
Umfjöllunin um þjóðernisstefnu -og íslenska tungu- var einkar vekjandi. En þar hnaut ég þó um þetta (bls. 124):

Það er tæpast tilviljun að margar kommúnistastjórnir hættu fljótlega að tala um alþjóðlega samstöðu öreiga, og gerðust þess í stað þjóðernissinnar. Kommarnir skildu margir hverjir að þjóðerni skipti menn meira máli en stéttarstaða.

Hér er alltof mikið einfaldað, ólíku steypt saman, böðlum og fórnarlömbum þeirra. Því reyndar var mikill ágreiningur um þetta meðal þeirra sem kölluðust kommar. Í stuttu máli sagt, undir ógnarstjórn Stalíns þurftu valdhafar að finna sökudólga fyrir eigin óstjórn. Og þá nægði ekki að tala um samsæri trotskista og fasista um að setja nagla í smjörið, o.s.frv., tilvalið virtist að notfæra sér gamalgróið og víðtækt gyðingahatur til að efla þjóðarsamstöðu um valdhafana. Það kostaði milljónamorð að setja þjóðrembu í stað alþjóðahyggju –sem mætavel samræmist rækt við menningararf þjóða. (sjá nánar t.d. bók mína Rauðu pennarnir, bls. 171 o.áfr. og þar tilvitnuð rit). Víðar í bókinni gætir svipaðs ruglings, t.d. er stalínistinn margfróði og djúphugli, Georg Lukács formálalaust titlaður marxisti í boðun sinni um að bókmenntir skyldu afhjúpa stéttaþjóðfélagið. En í verkum hans ber mest á dólgamarxisma, þ.e. þeirri kenningu að breytingar á efnahagslífinu leiði sjálfkrafa til svipaðra breytinga á stjórnmálalífi og menningu. Þetta tók Lukács í arf frá Plekhanov, og bar m. a. Kristni E. Andréssyni – og Jean Paul Sartre - að í upphafi 19. aldar, þegar borgarastéttin var að berjast til valda, hafi HÚN skapað bókmenntir sem sýndu þroskaða einstaklinga í lífrænu sambandi við umhverfi sitt. Dæmi hans eru skáldsagnahöfundarnir Walter Scott og Balzac. En eftir miðja öldina fer verklýðsstjettin að láta á sér kræla, og þá verður borgarastéttin í heild hrædd, og fer að skapa bókmenntir sem sýna einangraða einstaklinga. Því væri t.d. Flaubert varhugaverður og sýnu verra skáld en Balzac! Vart þarf að taka fram aðeins og flestir stalínistar hafnaði Lukács gervöllum módernismanum, expressjónisma, surrealisma o.s.frv. sem borgaralegri úrkynjun. Hér má svo sannarlega tala um að meta ávextina eftir trénu sem þeir vaxa af, í stað þess að smakka á þeim, svo vísað sé til þess sem sagði um listmat Stefáns hér að framan.
Einnig rekur Stefán andmæli Marcuse, sem var meiri marxisti, því Karl Marx sagði að skáld gæti aldrei litið á verk sitt sem tæki (til að upplýsa, boða skoðanir, siðvæða, eða þ.u.l), skáldinu hljóti verkið ævinlega að vera markmið í sjálfu sér (tv. rit mitt, bls. 4). Hann taldi að verkalýðsséttin þyrfti að tileinka sér gagnrýnið listaverk þrungin hugsunarhætti sem mótaður væri af stéttarhagsmunum andstæðum henni, sama sögðu t.d. Lenín, Lúxembúrg og Trotskí, þar sem stalínistar töldu að hún gæti skapað sínar eigin öreigabókmenntir undir drottnun borgarastéttarinnar. En Marx og framangreindir marxistar sögðu að á tímum þeirrar drottnunar drottnaði hugsunarháttur borgarastéttarinnar, það þyrfti langvarandi byltingarbaráttu til að losna undan honum.

Stefán Snævarr: Minerva and the muses. Stavanger,
Sami: Ástarspekt Hið íslenska bókmenntafélag 2004, 336 bls.

Kupiga simu

Þegar ég fyrir nokkrum árum tók saman við núverandi konu mína, sem er frá Kenya, Kikuyu-ættar, fór ég að læra Swahili. Það gekk heldur treglega, enda var hvorki í Kaupmannahöfn né Osló hægt að safna fólki í meira en byrjendanámskeið, En málið er heillandi, svo margt er þar ólíkt Evrópumálum. Swahili er bantúmál eins og flest tungumál í Afríku sunnan Sahara. Elst þekkja menn það sem mállýsku strandbúa nálægt Mombasa, en fyrir löngu er það orðið alþióðamál Afríku, og þjóðtunga Tansaníu, Kenya og Uganda. Sem verslunarmál þessa víðlenda svæðis hefur það verið mjög opið fyrir tökuorðum, einkum úr arabísku og á seinni árum úr ensku. Ekki þekki ég nema eitt tökuorð úr þýsku, en það ber Þjóðverjum fagurt vitni, það er orðið shule, skóli. Tökuorðin eru jafnan á einfaldri stafsetningu tungunnar samkvæmt framburði landsmanna, t.d. gari (e. car) bíll, kabati (e. cupboard), skápur, kabichi /kabeji (e. cabbage). Orðmyndun af gömlum innlendum rótum tíðkast þó einnig, t.d. heitir sjónvarp ekki bara televisheni, heldur einnig runinga.
Beygingakerfið er þó stórum skemmtilegra. Að vísu er ekki fallbeyging nema almennt fall og stundum staðarfallsviðskeytið -ni, eintala og fleirtala nafnorða er mynduð með forskeytum, sem lýsingarorð laga sig eftir. En kyn nafnorða eru sjö, og virðist skiptingin í grundvallaratriðum hafa farið eftir því hve mikla sál menn töldu fyrirbærin hafa. Í einum flokki eru þá menn og dýr, í öðrum tré, fljót o.fl., í þriðja ávextir og grænmeti, í fjórða mörg tökuorð, í minnnsta flokkinum staðarákvarðanir, en svo fer þetta aIlt að riðlast í undarlegum undantekningum. Taka má dæmi af stofninum –tu, sem tekur ýmsum merkingum eftir samhengi. Mtu-mannvera, watu (fleirtala), kitu-hlutur, vitu (fleirtala), jitu-risi, majitu (fleirtala), mtoto –barn, watoto (fleirtala), mti –tré, miti (fleirtala), mti mrefu –hátt tré, miti mirefu –há tré, jiwe-steinn, mawe (fleirtala). Lýsingarorð beygjast með nafnorðum með (stundum) sérstökum forskeytum; Jiwe dogo –lítill steinn, mawe madogo.
Sagnbeygingin er hinsvegar mjög margbrotin, og gefur latínu ekkert eftir. Fjórar tíðir, og mismunandi forskeyti tákna þær ýmist neikvætt eða jákvætt, eins og forskeyti persóna. Dæmi: Kusoma-lesa. Ninasoma ég les, ulisoma-þú last, atasoma-3.persona les (framtíð), tumesoma-við höfum lesið, hamsoma-þið lesið ekki, hawalisoma-þau lásu ekki; sitasoma-ég ætla ekki að lesa, humesoma-þú hefur ekki lesið, o.s.frv. Einnig bætast við sagnstofninn ýmiskonar viðskeyti eftir því hvort eitthvað er gert fyrir einhvern, við hann, gagnkvæmt, ferli hafið, o.s.frv. tvennskonar þolmynd, gert og gerlegt. –somea –lesa fyrir einhvern, -somwa-vera lesið (þolmynd), -someka-er hægt að lesa, og enn mætti lengi telja. En jafnan beygjast sagnir með forskeytum, fyrst einhverrar þriggja persóna í eintölu eða fleirtölu, þá tíðarforskeyti, síðan andlagsforskeyti, þá tilvísunarforskeyti, þá sagnstofn, og síðan e.t.v. viðskeyti. Sikupomwona Tobba, nilimpigia simu (neitað ég—neituð þátíð—þá—hana—sá Tobbu, ég—þátíð—hana—hringdi í=fyrst ég sá ekki Tobbu, hringdi ég í hana). Auðfundnar eru miklu lengri og margbrotnari sagnmyndir.
Sögnin kupiga (með nafnháttarmerkinu ku-) merkir eitthvað í átt við að beita, nota. Kupiga mpira = leika fótbolta, kupiga tenisi (leika tennis), kupiga pasi (nguo) = pressa (föt). Og kupiga simu = hringja í síma! Þegar ég sagði Jonnu Louis-Jensen frá þessu, sagði hún mér frá alþjóðIegri ráðstefnu símstjóra, sem auðvitað lauk með viðhafnarmáltíð. Og á þriðja eða fjórða glasi hugkvæmdist einhverjum veislugesta sá skemmtilegi samkvæmisleikur, að allir skyldu standa upp og nefna síma, hver á sinni tungu. Það varð heldur tilbreytingarlaus kliður, ,,telefon, telefon, telefon, þangað til Íslendingurinn og ,,einhver surtur” sögðu nokkurnveginn sama orðið. Aðrir hafa þá sjálfsagt ályktað, að amk. annar þeirra hafi fengið glasinu meira en hinir. Og mikið undraðist ég þegar ég sá sama orðstofn notaðan um þetta tæki á Islandi og Austur-Afríku. Hefur þó örugglega ekkert áhrifasamband verið milli þessara fjarlægu landa þegar orðið sigraði aðra valkosti snemma á tuttugustu öld. Á Íslandi voru orðin málþráður og talþráður meira notuð framan af. Og það hefi ég fyrir satt, að enginn skyldleiki sé með íslensku og bantúmálum. En skýringin var auðfundin, í swahili-orðabók minni stendur að simu sé tökuorð úr fornpersnesku, þar sem það merki þráður. En persneska og íslenska eru runnar af sömu lind. Og þá sjáum við, að í órafjarlægð og óháð hver öðrum hafa mönnum hugkvæmst svipuð myndhvörf til að tákna ketta nýja samskiptatæki; útdautt orð fyrir taug á Íslandi, orð fyrir þráð í Austur- Afríku.
Eg sagði frá þessari uppgötvun í þröngum hópi Kikuyufólks. En þeim orðum var tekið með hnykluðum augabrúm og hneykslunarsvip kvenna, eins og mælt hefSi ,,soralegur öldungur” svo notað sé orðalag landa Jeremy Bentham (mzee mchafu). Og það hafði ég reyndar verið, óafvitandi. Því orðmyndin sími er líka til í swahili, enda þótt hún standi ekki í minni alltof siðprúðu orðabók frá 1939. Sú orðmynd merkir nefnilega snípur, og það er nokkuð sem prúðmenni ber sér ekki í munn þegar þrennt eða fernt situr saman yfir tebollum. Enn sjáum við augljós merkingartengsl við íslensku orðin sími/síma = taug.
Og allt sýnir þetta að ,,hjörtum mannanna svipar saman/ í Súdan og Grímsnesinu, svo sem Tómas kvað. En hugvitinu líka!

Tilvitnað rit:
A Standard Swahili-English Dictionary [...] founded on Madans Swahili-English Dictionary. Oxford UP 1939 og síðar.

Kiljan Longfellow

Eilíbbð

Kiljan Longfellow

Í skáldsögu Halldórs Laxness Brekkukotsannáll er standklukka nokkur mikilvægt atriði, einkum í upphafi. Alkunna er að lýsing hennar á við klukku á bernskuheimili Halldórs, og enn stendur hún í húsi hans á Gljúfrasteini. Raunar lýsti hann henni í fyrstu grein sem hann birti á prenti undir eigin nafni, Gömul klukka, í Morgunblaðinu 7. Nóvember 1916, þá rúmlega 14 ára gamall. En það varð til þess að um skeið æptu jafnaldrar hans á hann “Gamla klukka!” á götum Reykjavíkur, segir Hannes H. Gissurarson (Halldór, bls. 69).
Inni í greininni kemur tilefni lýsingar hennar:

Það slær í augum manns einkennilegum helgiblæ á ýmsa forna hluti – hluti, sem hafa verið lengi við líði og eiga sér sögu. Komi maður inn á forngripasafn, fellur hugur hans í stafi við að standa augliti til auglitis við helgidóma fortíðarinnar.

Annars rekur Halldór einkum feril klukkunnar milli eiganda, frá því að hún var flutt til landsins, ein hin fyrsta slík, á öndverðum síðasta fjórðungi 18. aldar. Fyrstan eiganda nefnir hann Ísleif Einarsson á Brekku, langalangömmubróður sinn, ennfremur að klukkan hafi bjargast úr eldsvoða, og verið illa farin er Páll Melsteð seldi hana;

ekki álitleg; sýnist í fljótu bragði einskis virði. Kassinn brotinn og myglaður, skífan spanskgræn, verkið þó furðanlegt, glerið yfir skífunni að líkindum brotið. Þó kaupir hana Skafti læknir Skaftason á 8 dali (eða 16 krónur).
Hann var maður prýðilega laghentur við smíðar – jafnt sem orðlagður læknir. Dubbar hann þá gömlu upp, kemur henni í gang og dyttar að henni þar sem bilað er. [...]
Klukkan er strengjaklukka; er á hæð 1.8 m. Rauðmálaður trékassi yzt. Smíðuð hjá James Cowan í Edinburgh. Ártalið, nær hún var smíðuð, finst eigi letrað á hana. Skífan í ferhyrndri umgerð úr látúni; rósir og myndir stungnar í hornin. Ganglóðin tvö, hvort alt að 6 kg. að þyngd. Prýðilegur frágangur á verki – getur enst aðra eins æfi enn. Sýnir mánaðardaga og sekúndur, hefir sýnt tunglkomu; það verk nú bilað.
H.Guðjónsson
frá Laxnesi.


Þessi lýsing gengur að verulegu leyti aftur í lýsingu klukkunnar í Brekkukotsannál:

Og nú hef ég upp þessa bók þar sem klukkan okkar gamla stendur heima í stofunni í Brekkukoti og er að tifa. Í þessari klukku var silfurbjalla. Sláttur hennar var með skæru hljóði og heyrðist ekki aðeins um allan bæinn hjá okkur, heldur einnig uppí kirkjugarð. En í kirkjugarðinum var önnur klukka, hún var úr kopar; og af þeirri klukku barst djúpur ómur á móti, alla leið til okkar inní bæ. Þannig mátti í ýmsum veðrum heyra samhljóm af tveim klukkum í þessu moldarhúsi, annari úr silfri, hinni úr kopar.
Á klukkunni okkar er útflúruð skífa, og í miðju útflúrinu verða lesin þau orð, að þessa klukku hafi smíðað herra James Cowan sem lifði í Edínaborg árið 1750. Klukkan var eflaust smíðuð til að standa í öðru húsi en Brekkukotsbænum, því það hafði orðið að taka neðanaf henni stöðulinn svo hún kæmist fyrir undir loftinu okkar. Þessi klukka tifaði hægt og virðulega, og mér bauð snemma í grun að ekki væri mark takandi á öðrum klukkum. Úr manna virtust mér eins og ómálga börn í samanburði við þessa klukku. Sekúndurnar í annarra manna klukkum voru einsog óðfara pöddur í kapphlaupi við sjálfar sig, en sekúndurnar í sigurverkinu hjá afa mínum og ömmu, þær voru einsog kýr, og fóru ævinlega eins hægt og unt er að gánga án þess að standa þó kyr.
Það var segin saga ef eitthvað var um að vera í stofunni, þá heyrðist aldrei í klukkunni frekar en hún væri ekki til: en þegar kyrt var orðið og gestirnir farnir og búið að taka af borðinu og láta aftur hurðina, þá byrjaði hún aftur, og lét sér ekki fipast; og ef nógu grant var hlustað kom stundum saungtónn í ganghljóðið; eða einsog slæi fyrir bergmáli.
Hvurnin stóð á því að ég skyldi fá þá flugu að í þessari klukku byggi merkilegt kvikindi, og það væri eilífðin? Það rann sumsé upp fyrir mér einn dag að orðið sem hún sagði þegar hún tifaði, tveggja atkvæða orð sem var dregið á seinna atkvæðinu, það væri ei-líbbð, ei-líbbð. Kannaðist ég þá við það orð?
Það var skrítið að ég skyldi uppgötva eilífðina sisona, laungu áður en ég vissi hvað eilífð var, og jafnvel áður en ég hafði lært þá setningu að allir menn séu dauðlegir, já meðan ég lifði í rauninni í eilífðinni sjálfur. Það var eins og fiskur færi altíeinu að uppgötva vatnið sem hann syndir í. Ég veik að þessu við hann afa minn einhverntíma þegar svo bar til að við vorum einir í stofunni.
Skilur þú klukkuna afi, segi ég.
Við hér kunnum ekki á þessa klukku nema að litlu leyti, sagði hann. Við vitum bara að hún sýnir dagatal og klukkustundir altoní sekúndur. En hann afabróðir hennar ömmu þinnar sem átti þessa klukku í sextíu og fimm ár, hann sagði mér eftir fyrra eiganda hennar að hún hefði sýnt túnglkomur áður en úrmakari komst í hana. Gamalt fólk í ætt ömmu þinnar hélt því fram að þessi klukka gæti sagt fyrir giftíngar og mannslát. En ég trúi því nú ekki nema mátulega, deingur minn.
Þá segi ég: Af hverju segir klukkan altaf ei-líbbð ei-líbbð ei-líbbð?
Það hlýtur að vera misheyrn, barnið gott, sagði afi minn.
Er þá ekki til eilífð? Spurði ég.
Ekki öðruvísi en þú hefur heyrt í kvöldbæninni hennar ömmu þinnar og í sunnudagspostillunni hjá mér, deingur minn, svaraði hann.
Heyrðu afi minn, sagði ég þá. Er eilífðin kvikindi?
Vendu þig ekki á rugl deingur minn, sagði afi.
Heyrðu afi minn, er nokkuð að marka aðrar klukkur en klukkuna okkar?
Nei, sagði afi minn; okkar klukka geingur rétt. Og það er af því ég er laungu hættur að láta úrmakara líta á hana. Enda hef ég aungvan þann úrmakara fyrir hitt sem hefur skilið þessa klukku. Ef ég get ekki gert við hana sjálfur læt ég klastrara líta á hana; mér reynast klastrarar best.”

Í skáldsögunni koma atriði, sem ekki voru í grein Halldórs hálfri öld áður, að taka varð neðan af klukkunni, svo þetta tiginmannlega húsgagn kæmist fyrir í kotbæ; en einkum þó allt talið um hljóð klukkunnar, og hvernig það er skynjað og túlkað.
Nú er augljóst að Halldór þurfti ekki að byggja þá lýsingu á gamalli grein sinni, hann bjó enn við þessa klukku, og heyrði væntanlega í henni daglega. Og síst skorti hann ímyndunarafl til að túlka það hljóð. En mér sýnist að þá túlkun byggi hann á bókmenntaverki annars manns.
Hér er greinilega um bókmenntalegt tákn að ræða, og eins og títt er um þau, er það hálfórætt, ekki ótvírætt hvað það á að tákna. Við tökum þó eftir að það er eins og tíminn líði hægar í þessari klukku – og þarmeð hjá Brekkukotsfólkinu en annars staðar. Því má ekki úrsmiður, fulltrúi samtímatækni, krukka í hana. Bæði það og silfurskær tónn klukkunnar tengist greinilega talinu um að finna “hinn eina sanna tón” síðar í sögunni. En lesendur munu kannast við að meginandstæður sögunnar birtast annarsvegar í Guðmundi kaupmanni og þó einkum Garðari Hólm; allt er falskt. En hinsvegar er andstæðan, látleysi Brekkukotsfólks og boðskapurinn til Álfgríms litla, að vera hann sjálfur, finna sinn rétta tón. Klukkan er greinilegur boðberi þessa, og vissulega hefði verið allt of flatneskjulegt að heyra til hennar eitthvað í áttina: “Vertu sannur, vertu sannur”. Segja má að þetta sé það eina sem gildi hafi um eilífð, því finnst Álfgrími hann vera í eilífðinni eins og fiskur í vatni. Samt finnst mér sérkennilegt, að það skuli birtast í þessu orði: ei-líbð ei-líbbð. Þar að auki man ég ekkert þessu líkt í íslenskum bókmenntum eldri. Og þegar ég rakst á sama atriði hjá bandaríska ljóðskáldinu Henry Wadsworth Longfellow (1802-1885), þótti mér þesslegast sem þetta væri hálfgildings “blint minni” í Brekkukotsannál, eðlilegra í fyrirmynd hans en honum sjálfum. Þetta er kvæði í ljóðabók Longfellows Klukkuturninn í Bruges (The Belfry of Bruges), sem birtist 1845, og var kvæðið ort sama ár, segir í formála þess (bls. 67)

The Old Clock on the Stairs

The house commemorated is the Gold house, now known as the Plunkett mansion, in Pittsfield, Massachusetts, the homestead of Mrs Longfellow’s maternal grandfather, whither Mr. Longfellow went after his marriage in the summer of 1843. The poem was not written, however, till November 1845, when, under date of the 12th of the month, he wrote in his diary: “Began a poem on a clock, with the words “Forever, never”, as the burden; suggested by the words of Bridaine, the old French missionary, who said of eternity, “C’est une pendule dont le balancier dit et redit sans cesse ces deux mots seulement dans le silence des tombeaux – Toujours, jamais! Jamais, toujours! Et pendant ces effrayables revolutions, un réprouvé s’écrie, “Quelle heure est-il?” et la voix d’un autre misérable lui répond, “L’éternité”

- Hér má þýða orð skáldsins: Hóf að yrkja um klukku með orðin “ævinlega, aldrei” sem burðarás. Það byggði ég á orðum gamla franska trúboðans, Briaine, sem sagði um eilífðina: “Það er standklukka, þar sem dingullin segir í sífellu aðeins þessi tvö orð í þögn grafanna –Alltaf, aldrei! Aldrei, alltaf! Og í þessari skelfilegu framrás hrópar glataður “Hvað er klukkan?” og rödd annars vesæls svarar, “Eilífð”.-

Somewhat back from the village street
Stands the old-fashoned country-seat.
Across its antique portico
Tall poplar trees their shadows throw;
And from its station in the hall
An ancient timepiece says to all, -
“Forever – never!
Never – forever!”

Half-way up the stairs it stands,
And points and beckons with its hands
From its case of massive oak,
Like a monk, who, under his cloak,
Crosses himself, and sighs, alas!
With sorrowful voice to all who pass, -
“Forever – never!
Never – forever!”

By day its choice is low and light;
But in the silent dead of night,
Distinct as a passing footstep’s fall,
It echoes along the vacant hall,
Along the ceiling, along the floor,
And seem to say, at each chamber-door, -
“Forever – never!
Never – forever!”

Through days of sorrow and of mirth,
Through days of death and days of birth,
Through every swift vicissitude
Of changeful time, unchanged it has stood,
And as if, like God, it all things saw,
It calmly repeats those words of awe, -
“Forever – never!
Never – forever!”

In that mansion used to be
Free-hearted Hospitality;
His great fires up the chimney roared;
The stranger feasted at his board;
But, like the skeleton at the feast,
That warning timepiece never ceased, -
“Forever – never!
Never – forever!”

There groups of merry children played,
There youths and maidens dreaming strayed;
O precious hours! O golden prime,
And affluence of love and time!
Even as a miser counts his gold,
Those hours the ancient timepiece told, -
“Forever – never!
Never – forever!”

From that chamber, clothed in white,
The bride came forth on her wedding night;
There, in that silent room below,
The dead lay in his shroud of snow;
And in the hush that folowed the prayer,
Was heard the old clock on the stair, -
“Forever – never!
Never – forever!”

All are scattered now and fled,
Some are married, some are dead;
And when I ask, with throbs of pain,
“Ah!when shall they all meet again?”
As in the days long since gone by,
The ancient timepiece makes reply, -
“Forever – never!
Never – forever!”

Never here, forever there,
Where all parting, pain, and care,
And death, and time shall disappear, -
Forever there, but never here!
The horologe of Eternity
Sayeth this incessantly, -
“Forever – never!
Never – forever!”

Ýmislegt hefur Longfellow ort magnaðra, en þetta þykir mér vel heppnað kvæði, hringrás mannlífsins birtist frá bernsku til dauða, og hverfleiki mannlífsins kemur vel fram í andstæðu við klukkuna, sem er fulltrúi eilífðarinnar. Hér á eilífðartalið vel heima.
Það er býsna margt líkt með þessu kvæði og lýsingu Brekkukots. Klukkan er nokkurra kynslóða gömul, í henni heyrist helst þegar þögn slær á, þarna er eilíft gestaboð, kynslóðir koma og fara. Satt að segja finnst mér Halldór gefa glettnislega í skyn að hann hafi tekið klukkuna að láni, þegar segir: “Klukkan var eflaust smíðuð til að standa í öðru húsi en Brekkukotsbænum, því það hafði orðið að taka neðanaf henni stöðulinn svo hún kæmist fyrir undir loftinu okkar.”
Þótt Longfellow vitni til fransks trúboða um viðkvæði sitt, þá þykir mér sá franski texti afar ómerkilegur, og ólíklegri til að innblása skáldi andagift, en þá nýbirt heimsfrægt kvæði eftir landa hans og sveitunga, Edgar A. Poe (1809 - 1849), Hrafninn, sem birtist skömmu áður, fyrst í blaði í janúar 1845, svo á bók í nóvember sama ár (Poe, bls. xiii), einmitt þegar Longfellow fór að yrkja ofangreint kvæði um klukkuna gömlu. Hrafninn hefur verið þráþýddur á íslensku (amk. af Einari Benediktssyni og Magnúsi Ásgeirssyni), svo ég rek ekki annað úr því en viðkvæðið: “Nevermore” (“Aldrei meir” þýðir Einar það), sem hrafninn svarar öllum spurningum gestgjafa síns. Sá á auðvitað erfitt með að skilja hann. Og skáld eiga skiljanlega oft erfitt með að játa lán á mikilvægum atriðum frá öðrum skáldum. Ekki þó Halldór, hann sagði (í viðtali við mig 1981): “Maður er alltaf að stela”. Og rakið hefur verið, að mörg helstu skáldverk hans voru mjög innblásin af annarra skálda verkum. Hann hafði bara óvenjumögnuð tök á að umsníða efniviðinn, og fella saman í nýjar, snilldarlegar byggingar.
Oft er talað um þá hættu sem menningu smáþjóða stafi af enskumálssvæðum. En ofanskráð er vonandi dæmi um hve frjó þau áhrif geta verið .

Heimildir:
Edgar Allan Poe: The Viking Portable Library, New York 1945.
Halldór Laxness: Brekkukotsannáll. Rvík 19
Sami: “Tímar Rauðra penna”. Viðtal við Örn Ólafsson. Mbl. feb. 1982.
Hannes Hólmsteinn Gissurarson: Halldór. Rvík 2003 – þar (bls. 566) fann ég tilvísun í tilvitnaða grein Halldórs Laxness.
The Complete Poetical Works of Henry Wadsworth Longfellow. Cambridge edition (London, s.a., en formáli tímasettur 1895)

Var Njall hommi?

Var Njáll hommi?
Õldum saman hafa lesendur Njálssögu undrast lýsingu Unnar Marðardóttur á kynlifsvanda þeirra Hrúts:
,,Þegar hann kemr við mik, þá er hørund hans svá mikit at hann má ekki eptirlæti hafa við mik”.
Augljóslega er þessi prentaði texti Njálu fráleitur náttúrufræðilega. Er kunnugt um svo digran sköndul, að ekki komist inn í op, sem barnshaus og -axlir komast út um — að vísu með nokkrum harmkvælum?
Fyrir nokkrum árum heyrði ég dr. Arna Björnsson setja fram þá tilgátu, að ,,mikit” sé misritun á:
,,miukt” - þá verðr hørund hans svá miukt o.s.frv. Þetta fînnst mér mjög sennileg tilgáta, þvf allir kannast við, að við þessar aðstæður dugir ekki mýktin ein, það er einfaldlega getuleysi. — því má nú auðvitað til svara, að þótt þetta sé vitlaust, þá gæti höfundur Njálu vel hafa trúað vitleysunni, enda er þetta á sviði töfra, álög, sem hrína aðeins á Hrúti þegar hann er með Unni, en ekki, væri hann með öðrum konum. Ogvissulega er nokkur stíll yflr þeirri þversögn, að aukin karlrnennska upphefji sjálfa sig, eins og Armann Jakobsson bendir á í grein í nýjasta hefti Skírnis (Ekki kosta munur).

Náin vinátta þeirra félaga
Mesta athygli vekur sú kenning í grein Armanns, að Njáll sé settur fram sem hommi í sögunni, og samband hans víð Gunnar Hámundarson sé ástasamhand, þótt raunar sé ekkert fullyrt um kynmök þeirra í millum í greininni. Þessi kenning birtist meira að segja í íslenskum fréttatexta í danska ríkissjónvarpinu í sumar. Á hverju byggist nú þessi kenning Armanns? I fyrst lagi á augljóslega náinni vináttu þeirra félaga, en í öðru lagi á því, að NjálI sé kvenlegur. En við þetta verður að gera at- hugasemdir. Það er í fyrsta Iagi fráleitt að setja samasemmerki milli þessa tvenns. Þeir hommar, sem ég hefi kynnst, hafa verið jafnmargvíslegir og aðrir karlmenn, og síst kvenlegri, almennt talað. En þetta er að vísu algengur fordómur og hví skyldi hann ekki birtast í Njálu eða í öðrum íslenskum fornsögum? Því er til að svara, að þess sjást engin merki í sögunum, heldur ekki í Njálu, og ekki bendir Ármann á neitt slíkt. Í Njálu eru tveir karlmenn sem beinlínis eru bornir samkynhneigð (Guð- rnundur ríki og Flosi), og virðist hvorugur neitt kvenlegur. Raunar er alltof einfalt að flokka karlpersónur fornsagnanna í tvennt: hetjur eða homma. Armann leggur mikið upp úr (bls. 40 o.áfr.) að Flosi sé berskjaldaður fyrir brigslum um samkynhneigð, þar sem hann sé einhleypur. En þegar hann er kynntur til Njálssögu, segir (93. k.): ,,Flosi átti Steinvöru, dóttur Halls á Síðu” o.s.frv.
I öðru lagi sakna ég þess mjög, að Ármann skuli ekki íhuga aðra túlkunarmöguleika á lýsingu Njáls, en þá sem hann heldur fram. Ein röksemd hans er (bls. 31—2), að Njáll beri ,,taparöxi, sem sé nánast skopstæling á Rimmugýgi Skarphéðins sonar hans". En hvenær varð taparöx kvennavopn? Hún er virðingarvottur, gjöf Hákonar jaris til íslenskra höfðingja (m.a. Guðmundar ríka!) í Ljósvetningasögu (2. k.). Konur bera ekki vopn í fornsögunum, það er helst að telja, að systir GísIa Súrssonar reynir að stinga Eyjólf gráa með hnífi, líkt og hûsfreyja lagði til Hvamm-Sturlu.
Taparöxin — sem lítilfjörleg eftirlíking Rimmugýgjar — á ólíkt betur við aðra túlkun á Iýsingu Njáls, og samræmist öðrum ókarlmannlegum einkennum hans sem Ármann telur upp (tv.st.), kenningu sinni til stuðnings. Það er skeggleysið, að Njáll er borinn inn í hús, og loks vitringshlutverk hans og forspá. Njáll er einfaldlega öldungur, það er staðlað hlutverk í heimsbókmenntunum og hefur verið það öldum saman. Að vísu er algengust mynd öldunga að þeir séu síðskeggjaðir, en ekki finnst mér það eins afgerandi og önnur einkenni Njáls. Og það er ekkert einstakt við þetta öldungshlutverk í íslenskum fornsögum heldur, ekki einu sinni í Njálu, það kemur meira að segia fram hjá Ármanni að Mörður gígia og Síðu-HaIlur hafa svipað hlutverk — og lýsingu. Það fylgir og þessu hlutverki lögvitringsins aldna, að reyna að tryggja frið í ófriðsömu samfélaginu. Eg sé engan losta í sambandi Njáls við Gunnar, og ekki bendir Ârmann á neitt slíkt. Virðist raunar augljóst að afstaða Njáls til Gunnars er Iíkust föðurlegri umhyggju.
Àrmann nefnir annað dæmi um kvenlegan karlmann; þegar Þórhallur Asgrímsson fréttir lát Njáls, þá líður yfir hann. Það kallar Þórhallur sjálfur síðan ,,lítilmannlegt”, en ekki kvenlegt. Ármanni verður þetta hins vegar tilefni til að tala um líkamlega ummyndun karls í konu — af því að bólga hljóp í fótlegg Þórhalls, svo hann varð digur — ,,sem konulær".

Hvað merkir orðið kvenlegur
En þá vaknar spurningin um hvað orðið kvenlegur merki. Augijóslega er það allmismunandi eftir samfélögum á ýmsum tímum. En Ármann virðist skilja þetta samkvæmt hefðarmeyjahugsjón 19. aldar, frekar en út frá kvenmynd íslenskra fornsagna. Því hann (bls. 2) tekur undir með Helgu Kress um að ,,í hugmyndaheimi Njálssögu telst ókvenlegt að standa í vígaferlum eins og Hallgerður gerir”. Þetta eru hrein öfugmæli, því Hallgerður ber aldrei vopn á nokkurn mann, hins vegar eggjar hún karlmenn til vígaferla, og sé eitthvað stöðluö hegðun kvenna fornsögunum, þá er það einmitt að etja körlum fram á blóðvöllinn. Einnig í Njálu gengur t.d. Hildigunnnr mun freklegar fram í því en Hallgerður, og ekki lét Bergþóra sitt eftir liggja í húskarlavígunum. Endalaust mætti tilfæra fleiri dæmi þessarar hegðunar kvenna í fornsögunurn, en allir Iesendur þeirra muna dæmin.
Ekki er hér rúm fyrir fleiri athugasemdir, enda ættu þessar að nægja til að sýna að Armann er á miklum villigöturn með aðferð. Eg skrifa þetta ekki til að gera lítið úr honum, hann er atorkusamur og efnilegur fræðimaður. Þessar athugasemdir eru fram settar, vegna þess að mér blöskrar sú tíska sem um hríð hefur spillt íslenskum fræðum og bókmenntaumræðu á Islandi og víðar, að setja fram persónulegar og huglægar túlkanir — án þess að huga að öðrum túlkunarmöguleikum, hvað þá að rökstyðja hvers vegna ein túlkunin sé annarri betri. En það er lágmarkskrafa til fræðimennsku, án þess verða aIlar þessar túlkanir vindhögg og það er sorglegt að sjá hæfileikafólk eyða tíma sínum — og lesenda—í slíkt.
Mbl. 30. júní 2000 Ármann svaraði daginn eftir:

I grein minni er því ekki haldið fram að Njáll á Bergl)órshvoli hafi verið hommi. Því er hins vegar haldið fram að hann sé ,,öfugir skilningi samfélagsins sem sagan gerist í, þ.e. skorti karllega eiginleika og fyrst og fremst skegg. Enda er klifað á skeggleysi hans sögunni. og greininni er því haldið fram að Njála sé ekki ,,karlmanna" rit eins og almennt hefur verið talið heldur sé þvert á móti grafið undan hefðbundnum goðsögnum um eiginleika karla og kynhlutverkin og karlmenn sögunnar séu flestir ,,öfugir á einhvern hátt, þ.e. falli ekki vel að hefðbundnum hugmyndum um karlmennsku.

Afkárt glens Skarphéðins
Í fyrra átti ég ritdeilu við stjúpfrænda minn Ármann Jakobsson um Njálssögu. Ég skildi Skírnisgrein hans (vorhefti 2000) svo að hann teldi skeggleysi Njáls meðal ýmissa vísbendinga uni samkynhneigt samband hans og Gunnars. Þetta vildi Ármann ekki við kannast í svari sínu á sama vettvangi dagirm eftir (Mbl. 1.7.2000), hann hafi aftur á mótì fjallað um hvernig persónulýsingar Njálu grafi ”undan hefðbundnum goðsögnum um eiginleika karla og kynhlutverkin [..] Hins vegar bendi ég á að möguleikinn [á samkynhneigð] sé fyrir hendi, ekki aðeins hjá nútímalesendum, heldur einnig persónum sögunnar, höfundi og væntanlega viðtakendum og óttinn við kennan möguleika veldur að mnni hyggju átökum í sögunni.”
Ég læt lesendum Skírnis eftir að skilja grein Ármanns, en einsog dr. Símon Jóhannes Ágústsson sagði: ”Allir eiga leiðréttingu orða sinna, nema presturinn á stólnum, og hann þó Iíka, nema hann þrísegi þau”. Að hefðbundnum hlutverkum komum við nánar hér í III, en hvað sem því líður, getur Iýsing Njáls ekki verið gagnrýni á hugmyndir um karlmennsku, því honum er ekki lýst sem kvenlegum, heldur samræmist lýsinigin að mestu staðlaðri öldungsmynd hans, sem fleiri aldraðir karlmenn sögunni hafa, Mörður gígja og Síðu-Hallur. Raunar taldi ég fráleitt að telja kvenlegt útlit og fas vísbendingu um samkynhneigð. Slíkar hugleiðingar sýna bara skilningsleysi á slíku, þann algenga fordóm, að ef karlmaður gimist annan karlmann, hljóti hann á einhvern hátt að vera kona, konusál í karlmannslíkama, eitthvað brengl á hormónunum eða ámóta rugl. Enn stórfenglegri er þvælan um lesbíur, sem sumar eiga auðvitað að vera karlmannlegar, en aðrar svo ofurkvenlegar að þær geti aðeins hneigst til kvenna. Nú er alkunna að hárlitur, hörundslitur, kynhneigð eða menningarlegur bakgrunnur segir ekki fyrir um skapgerð. En það er verst við þvílíka fordóma, að fórnarlömb þeirra tileinka sér þá stundum sjálf, í leit að sjálfsmynd. Þá gerast gyðingar ágjarnir, hommar dömulegir, negrar dansfífl, og fyrir öld eða meira fóru ýmsar lesbíur að ganga í grófum ullardröktum, stuttklipptar, með hâlsbindi, og reyktu vindla.

II
Nánar að gáð er mjög lítið talað um samkynhneigð í Njálu. Það varðar eingöngu Flosa og Guðmund ríka. Um þann síðamefnda er vinsamlega talað þar, og vel fer á með þeim Njálssonum. Svo er bara sagt að þeir Þóroddur og Þorkell hákur hafi gert um hann illmæli. Frá því segir hinsvegar nánar í Ljósvetningasögu1, Guðmundur á að hafa lagst undir annan karlmann og látið serðast, eins og segir við Flosa.. ”Skarphéðinn mælti: Því þá - ef þú ert brúður Svínafellsáss, sem sagt er, hverja hina
níundu nótt og geri hann þig að konu. (ÍF X1I, bls. 314).. Og það er sú eina ergi sem ámælisverð þótti, ”því þá eru karlmenn eins og konur, og það er það versta sem til er”. (Jonna Louis-Jensen í samtali). Þeim mun merkilegra er, að þessum mönnum er á engan hátt Iýst sem kvenlegum. Nú er þess að gæta, að það er einungis Skarphéðinn, sem skellir þessu á Flosa, og það er í átökum. Því er rétt að huga aõ öðrum ásökunum hans við svipaðar aðstæður.
Þá gripum við niður í misheppnaða Iiðsbón Njálssona til ýmissa höfðingja á Alþingi eftir að þeir vógu Höskuld hvítanessgoða (1 19.k. Njálu). ”Hverr er sá maður”, segir Skafti, ”er fjórir menn ganga fyrri, mikill maður og fölleitur og ógæfusamlegur, harðlegur og tröllslegur [...Skarphéðinn svarar] ”Þú heitir Skafti Þóroddsson, en fyrr kallaðir þú þig Burstakoll þá er þú hafðir drepið Ketil úr Eldu; gerðir þú þér þá koll og barst tjöru í höfuð þér. Síðan keyptir þú að þrælum að rista upp jarðarmen, og skreiðst þú þar undir um nóttina. Síðan fórst þú til Þórólfs Loftssonar á Eyrum, og tók hann við þér og bar þig út í mjölsekkjum sínum.(IF xII, 298) [útgefandi segir: Sú frásögn, sem hér er vikið að, er annars ókunn.]
Önnur liðsbón sama dag (bls. 301): ”Hafur svarar skjótt og kveðst ekki mundu taka undir þeirra vandræði, - en þó vil eg spyrja, hverr sá er hinn fölleiti, er fjórir menn ganga fyrr og er svo illilegur sem genginn sé út úr sjávarhömrum. Skarphéðinn mælti: Hirð þú ekki það, mjólki þinn, og mun eg þora þar fram að ganga, er þú situr fyrir, og mundi eg allóhræddur, þótt slíkir sveinar væri á götu fyrir mér. Er þér og skyldara að sækja Svanlaugu, systur þína, er Eydís járnsaxa og þau Steðjakollur tóku úr híbýlum þínum” — Þetta er því líkast að vættir hafi framið kvenránið, og enn segir útgefandi: ”Þessi frásögn er annars ókunn og allar þær persónur, sem hér eru nefndar. Járnsaxa er til sem trõllkonu-heiti”. - Nei, það er ekki að undra að þessar frásagnir Skarphéðins séu ekki kunnar af öðrum heimildum!
Næst hitta þeir Njálssynir Þorkel hák, sem hefur viðurnefni í samræmi við það, að eftir að drepa finngálkn og flugdreka í útlöndum, ”lét hann gera þrekvirki þessi yfir lokhvílu sinni og á stóli fyrir hásæti sínu” - Ekki bregst Njáluhöfundi fínleg kímnin. Nú biður Asgrímur Skarphéðin að leggja ekki til mála, og þá kemur ítarlegust lýsing Skarphéðins, er hann ”glotti við. [...] Hann var allra manna hermannlegastur, og kenndu hann allir ósénn”, segir í lok lýsingarinnar (bls. 304): ”Þorkell mælti: Hverr er sá inn mikli og inn feiknlegi, og ganga fjórir menn fyrri, fólleitur og skarpleitur, ógæfusamlegur og illmannlegur? Skarphéðinn mælti: Eg heiti Skarphéðinn og er þér skuldlaust að velja mér hæðiyrði, saklausum manni. Hefir mig aldrei það hent, að eg hafi kúgað föður minn og barist við hann, sem þú gerðir við þinn fóður. Hefir þú og lítt riðið til aIþingis eða starfað í þingdeildum, og mun þér kringra að hafa ljósaverk að búi þínu að Õxará í fásinninu. Er þér og skyldara aõ stanga úr tönnum þér rassgamarendann merarinnar, er þú ást, áður þú reiðst til þings, og sá smalamaður þinn og undraðist, hví þú gerðir slíka fúlmennsku”.
I fyrsta lagi var bannað með lögum að éta hrossakjöt, og kom fram i þingdeilum um kristnitöku, að það var alþýðufæða, sem sé ekki finn réttur. Og í öðru iagi á kappinn aõ hafa valið sér óvirðulegasta hluta skepnunnar til áts, svo jafnvel lægst setti alþýðumaður á búinu hneykslaðist. Hér er nú ekki mest um vert hve ótrúleg þessi ásökun er. Hitt er e.t.v. meira umhugsunarefni hvemig ósköpunum þessi frétt hefði áttað berast frá smalamanninum á Norðurlandi, á mitt Suðurland til Skarphéðins. Hugsanlegt er auðvitað að það hefði borist með öðrum þingreiðarmönnum að norðan, en er ekki miklu eðlilegra að taka þetta sem hreinan uppspuna Skarphéðins, eins og fyrrgreindar fáránlegar ásakanir, og hitt, að Flosi hafi lagst undir Svínfellsás? Hverjir skyldu hafa verið vitni að því?

III
Skarphéõinn skellir á menn hvaða ásökun um óviðeigandi hegðun sem tiltæk er, án nokkurs tillits til sennileika. Og svo markast þetta af bókmenntalegu einkenni, endurtekningu með tilbrigðum og stígandi. Eg held það sé útilokaõ að nokkur lesandi eða áheyrandi Njálssögu forðum hafi tekið þessar ásakanir Skarphéðins alvarlega, og síst höfundur sögunnar. Enda er augljóst að þær hafa allt annað hlutverk í sögunni. Þær skapa afkárlega kímni við alvarlegar aðstæður, þegar Njálssonum bregðast allar liðsbónir, og þeir sjá óumflýjanlegan dauða sinn nálgast. Því eru þessi viðbrögð Skarphéðins tilbrigði við staðlaða hegðun hetju í Islendingasögu andspænis dauðanum, að taka honum af æðruleysi. Tilbrigði, því Skarphéðinn er ekki göfguð hetjumynd eins og Gunnar, hann er ýkt, afkárleg mynd hetju. Og einnig það er grundvallaratriði í Njálu, að nota staðlaðar manngerðir, en meõ tilbrigðum, svo lesendur kannast þegar við manngerðina, en hún verður jafnframt lifandi persóna vegna smáfrávika (hér nálgumst við Ármann hvor annan). Gunnar er manna vopndjarfastur og vígfimastur, en honum þykir meira fyrir því en öðrum mönnum að vega menn. Njáll er öldungur, friðarhöfðingi, en stundum undirförull og vígfús, t.d. leggur hann á ráðìn um hvernig synir hans geti gert þá Hrapp og Þráin seka af orðum, svo réttlætanlegt verði að drepa þá, og ”er því langa nót að að draga”, segir hann (ÍF XII, bls. 226) Þannig mætti lengi telja, andstætt staðhæfingum Helgu Kress og Ármanns eru Hallgerður og Hildigunnur báðar í samræmi við staðlaða kvenmynd Islendingasagna, háskakvendi (femmes fatales) en ekki bara það, smáfrávik gera þær Iifandi. Einna best sannast þetta á Flosa, sem í upphafi er friðarhöfðingi, en neyðist til mannvíga svo róttækra, að brenna menn inni, en það þótti öllu svivirðilegra.
Niðurstaðan er, að samkynhneigð sé alls ekki á dagskrá í Njálu, það er hinsvegar litrík mannlífsmynd, og ofi kímin.

Tilvitnanir eru i Íslensk fornrit; X: Ljósvetningasögu, XII: Njálssögu, en stafsetning er færð til nútimahorfs. Aðrar tilvísanir má finna í tilvituuðum greinum.
1) 9.k. einkurn i hetjulegum lokaorðum Þorkels, iegar Guðmundur sækir hann heim með Iiði og
drepur( 9(19)k.,IF X, 52):
Þorkell mælti; ”Þú hafðir bratta leið og erfiða, og trautt kann eg að ætla hversu rassinnn myndi sveitast og erfitt hafa orðið í þessi ferð [...] Guðmundur hopaði undan og hrataði í mjólkurketilinn. Það sá Þorkell og hló að og mælti; Nú kveð eg at rassinn þinn hafi áður leitað flestra lækjanna annarra, en mjólkina hygg eg hann eigi fyrr drukkið hafa. Enda ráðst þú nú hingað, Guðmundur; úti liggja nú iðrin min.”