miðvikudagur, 17. október 2007

Sumarnótt sr. Björns i Laufasi

Andsvar um Björn í Laufási

Gunnar Karlsson átti skemmtilega grein um séra Björn í Laufási í TMM 2, 2007. Þungamiðja hennar er umfjöllun um kvíðaþrungið kvæði Björns, Sumarnótt, sem birt er þar ásamt öðru kvæði sr. Björns, mælskum formælingum um hjónabönd. Óprestlegt hefði það þótt, hefði Björn birt það. - Ég dáðist einkanlega að því hve snöfurmannlega Gunnar afgreiðir þá sögn að sr. Björn hafi ævilangt tregað norska ástkonu, og því ekki getað þýðst eiginkonu sína. Eftir heimildarýni Gunnars gufar þessi norska Svava myndhöggvari alveg upp. Ég hrósaði greininni þegar við höfund og aðra, en svo fór ég að fá bakþanka.
Í fyrsta lagi virðist Gunnar vanrækja þá frumskyldu fræðimanna að kanna hvort eitthvað mæli gegn ályktun þeirra, í þessu tilviki þeirri, að séra Björn hafi verið samkynhneigður og því kviðið hjónabandi sínu og formælt því síðar. En vissulega virðist vonlítið að finna vitnisburði um kvensemi Björns eða hinsvegar vergirni hálfri annarri öld eftir á. Gunnar hefði þá gjarnan mátt taka fram að ekkert slíkt hefði verið að finna í bréfum Björns og öðrum samtímaheimildum, þrátt fyrir ítarlega leit. Helstu vísbendingu þessa auk kvæðanna finnur Gunnar í ódagsettu bréfi Björns sem Gunnar birtir kafla úr (bls. 66):

Jeg get aldrei orðið glaður. Eða framar nokkur maður; það fór allt í ólánið. Daginn þann sem gól mér galdur Gamli fjandans Villibaldur; Síðan engan finn jeg frið. – Flettu upp 7da júlí í almanakinu; þann dag kvæntist jeg, og þá skilur þú vísuna. ...Jeg ætla nú ekkert að stíga í stólinn í þetta sinn til að ræða um hjónaband mitt, nema rétt að segja þjer það, að jeg er orðinn miklu altíðlegri við konuna, og
rétt almennilegur; en um hitt vil jeg ekki tala, hvað mér fellur það þungt; samt er svölun í því að geta yfirunnið sjálfan sig til góðs og ekki gengur mér annað en gott til þess, það, að jeg af hjarta vil að hún geti lifað róleg og ánægð. En jeg er því ver búinn að drepa mig á nauðunginni, og má til að halda áfram að gera það hjereptir; því aldrei verður mér þetta náttúrlegt, eða ekki sjálfrunnin (eins og hákallslýsi) hvöt hjartans, heldur verður það mér eins og það vald sem jeg að vísu vil feginn beigja mig undir, en sem jeg ekki get látið brjótast til ríkis í mér nema með því að kollvarpa byggingu náttúrunnar, það er að skilja þessarar holdlegu tilveru .

Upphaf klausunnar túlkar Gunnar svo að sr. Björn hafi verið neyddur til hjónabands, líklega af föður sínum. Mér sýnist þetta bréf ekki ótvírætt svo, að sr. Björn hafi þurft að yfirvinna óbeit sína á sambúð við konur almennt, frekar en bara á slæmu sambandi við þessa tilteknu konu. Ég rakti framangreinda kenningu fyrir vinum mínum langkvæntum, og fékk kuldahlátur að svari. Nei, þeir voru nú ekki á því að samkynhneigð þyrfti til að formæla hjónaböndum, frekar hitt. Og það er ekki óeðlilegt sjónarmið þar sem annaðhvort hjónaband reynist skammært. En vissulega er mögulegt að sjá þetta, einkum þá lokaorð klausunnar um um að góð sambúð við eiginkonuna verði honum alltaf nauðung en ekki ”náttúrlegt”, sem vitnisburð um hið fyrrtalda, að Björn hafi verið hommi. Og að öllu samanlögðu sem Gunnar tínir til, virðist það líkleg ályktun. Ég vona þá bara að Björn hafi notið sín sem hommi, en það hefur sjálfsagt verið örðugt íslenskum sveitapresti um miðja nítjándu öld. Hvað sem því líður, hafi kynhvöt til kvenna ekki verið honum sjálfrunnin, þá eignuðust þau hjón þó fjögur börn, sem Björn segir líkjast sér í bréfum til vina. Þetta kemur fram í rækilegum formála (bls. 120 o.áfr.) sr. Bolla Gústavssonar fyrir útgáfu hans á ljóðmælum Björns. Og hvernig sem heimilislíf á Laufási hefur verið, þá virðist það ekki hafa haft lamandi áhrif á börnin, sonur Björns og Sigríðar, Þórhallur, varð biskup, og sonur þess aftur forsætisráðherra, og margt fleira yfirstéttarfólk meðal niðja hans, forsetafrú o.fl. Raunar ber öllum heimildum saman um góðan heimilisbrag á Laufási, þrátt fyrir langvarandi fálæti milli hjónanna. Björn hafi verið gamansamur hversdagslega (sr. Bolli, bls. 62-3 og 121).
Gunnar rekur heimildir um að sr. Björn hafi verið haldinn alvarlegri geðhvarfasýki, en ekki skýri hún hjónabandshatur hans, því það birtist líka í uppsveiflubréfum, þar sem hann grínast (klausan um ást eða losta sem sjálfrunnið hákallslýsi). Gunnar segir ennfremur (bls. 64):

Var séra Björn þá bara í þunglyndiskasti þegar hann orti Sumarnótt? Kannski, og þó finnst mér ekki alls kostar líklegt að maður í því ástandi hafi svo ljómandi skýra og einbeitta hugsun.

Nei, það er nú einmitt mergurinn málsins. Þetta er listrænt kvæði, og það sýnir bernskan bókmenntaskilning sveitunga Björns að ímynda sér að það sé eitthvert örvæntingaróp. Öðru nær, hafi hann ort þetta nóttina fyrir brúðkaupið eða á brúðkaupsnóttina, eins og sagnir herma sem þeir Bolli og Gunnar rekja, þá væri kvæðið vitnisburður um yfirvegun og andlegt jafnvægi gagnvart brúðkaupinu. En um hugarástand þessa löngu látna manns verður fátt vitað með vissu. Mun áhugaverðara finnst mér því annað sem Gunnar segir (bls. 67):

Nú segir séra Björn að vísu hvergi að ljóðið Sumarnótt tengist þeim vanda sem hann lýsir í bréfinu til Þorláks á Stórutjörnum. En það er eini hlekkurinn sem við verðum að smíða úr munnmælum einum, og það finnst mér ekki erfitt. Þá erum við komin að þeirri niðurstöðu að Sumarnótt sé harmljóð manns sem umhverfið neyðir til að kúga kynhneigð sína. Mér finnst ljóðið vaxa við þá vitneskju.

Hér verð ég að andmæla. Því þetta kvæði er alveg dæmigert fyrir tískustefnu samtíma sr. Björns, rómantísku stefnuna. Það hefst á gamalkunnri líkingu, að líkja sólsetri við dauðann, svo koma persónugervingar náttúrunnar, eins og Gunnar rekur, kvöldroði drekkir sér, ský horfa á það grátandi, nóttin stendur á öndinni og kvíðir komandi degi. Hún verður enn mannlegri og nákomnari ljóðmælanda vegna myndræns smáatriðis, hann sér að hún er svartbrýnd. Nærvera hennar er þrúgandi fyrir ljóðmælanda. Allt er þetta samstillt í neikvæðu. En slík hnitun er einmitt forsenda þess að þvílík náttúrulýrik heppnist, að náttúran sýni mannlegar tilfinningar. Sr. Bolli er á réttri leið þegar hann talar um heimshryggðarskáldskap (bls. 78 o. áfr.), en það orð á betur við Sumarnótt en þá kveðnu ræðu Björns gegn hjónaböndum sem Bolli birtir undir titlinum Geigur. Bolli segir annars réttilega að heimshryggð sé ”í samræmi við ríkjandi skáldskaparstefnu á öndverrði 19. öld”. Slík samræmd bölsýni er auðfundin hjá samtímaskáldum Björns, sem enginn hefur orðað við örðugt hjónaband, þunglyndi eða bælda samkynhneigð. Sjá t.d. frábært smákvæði Gríms Thomsen:

Haustvísa

Lengir nóttu, lúta höfðum blóm,
laufið titrar fölt á háum reinum,
vindur hvíslar ömurlegum óm
illri fregn að kvíðnum skógargreinum,
greinar segja fugli, og fuglinn þagnar.
Í brjósti mannsins haustar einnig að,
upp af hrelldu hjarta gleðin flýgur,
en vetrarmjöll í daggardropa stað
á dökkvan lokk og mjúkan þögul hnígur,
og æskublómin öll af kinnum deyja.

Merkingarlega skiptist ljóðið í tvo jafna hluta, þótt samhengi sé þar á milli. Fyrri hlutinn gerist í náttúrunni, en í seinni hluta færist sú breyting sem þar varð inn í brjóst mannsins. Þetta verður og enn samfelldara við það að náttúrunni eru eignaðar mannlegar tilfinningar og hegðun, alveg eins og í Sumarnótt sr. Björns. Sumt er að vísu á mörkunum hér, orðalag sem jafnt er eðlilegt um náttúrufyrirbæri og fólk, þannig myndast brú milli þessara tvennskonar fyrirbæra: lauf er fölt og titrar, blóm lúta höfði, vindur hvíslar. En annað er ótvírætt persónugervingar, trjágreinar eru kvíðnar og tala til fugls, sem þagnar við það. Þetta eru mannleg viðbrögð, þótt auðvitað þagni fuglar oft.
Í seinni hluta heldur breytingin áfram, svo að eitt snertir annað, en nú ganga líkingar á hinn veginn, frá mannlegu til náttúr¬unnar. Gleði er líkt við fugl, hærum við vetrarmjöll, kinnroða við blóm. Þannig er mannsævi óbeint líkt við árstíðahringinn, að gamalli hefð. Þetta er haglega fléttað, einni líkingu í aðra.
Fleiri samstillt svartsýniskvæði yrkir Grímur, en líka andstætt, og má nefna sem dæmi gleði og bjartsýni formlega áþekkt kvæði hans Vorvísa. Bragarháttur er annar og allur glaðlegri, þar sem Haustvísa var hæg. En Vorvísa er fléttuð á líkan hátt, frétt berst frá einum til annars, stig af stigi og endar á gleðifréttinni: “blessað er að koma vorið.”
Samstillt svartsýniskvæði rómantískra skálda má víða finna, t.d. hjá æringjanum Benedikt Gröndal, sem kunnastur er fyrir að grínast og yrkja fagnaðarkvæði, en leikur sér að rómantískum óhugnaði í t.d. Óveður. Langt svartsýniskvæði hans er Hret, en lítum hér frekar á annað styttra. Áhrifamikið er hvernig andstæðum er beitt í ljóðinu, ýmis jákvæð rómantísk tákn eru talin upp, en til þess eins að hverfa þeim til neikvæðs, einnig heitum faðmlögum og sáttum. Talað er um stjörnu sem mannveru, einnig um rós sem nú sofnar eftir glaðan leik dagsins. En kvölddögg á henni er túlkuð sem tár. Undir þessu yfirborði birtist svo óhugnanleg mynd rotnunar, ekki bara holds, heldur einnig tilfinninga. Þarna virðist birtast sátt fjenda, en það er bara vegna þess að ekkert skiptir lengur máli. Og staðlað tákn rómantísks unaðar og fegurðar, syngjandi næturgali, hann flytur bara sorgarljóð. Ljóðinu lýkur á því að jafnvel harmur eftir látna vini verður að engu.

Kvöld

Sólin rennur, rökkrið dreifir
raunaskugga hauðrið á,
léttur vindur laufin hreyfir,
lítur stjarna himni frá;
máninn skín á meiða rætur,
meðan sofnar rósin bleik,
og hún tárum gullnum grætur
glaðan eftir dagsins leik.

Sofa lík í dauðadjúpi,
dáin, liðin foldar þröng!
Sveipuð moldar morknum hjúpi
molna bein um dægur löng.
Heitt í dauða faðmast fjendur
fögur jafnt sem vina þjóð,
og við lífsins ystu strendur
eyðist haturs grimmdin móð.

Ástin blíða, bölið sára,
bitur sorg og gleðin hýr,
löngun sæt og lindin tára,
lyndis heift og viskan skýr:
Sáið, linað, þverrað, þrotið,
þornað burt úr lífsins straum!
Vinar orð og valdið brotið
vafið Heljar myrkum draum!

Næturgali, sætt er syngur
sorgarljóð á viðargrein,
ertu villtur, vesalingur!
Vísan þín er hrygg og ein.
Kveður þú um kæra daga
kvalarþrungin ástarljóð?
Má þig einnig eymdin naga
og eitra svo þitt hjartablóð?

Ekkert hér er fætt á foldu
farsælt líf, sem böl ei sker;
allt er harmi háð og moldu,
hrollur gegnum andann fer.
Mókir þjóð í dimmum draumi,
dauður bráðum fölnar nár,
og í háum himins glaumi
hrynja engin vinar tár.


Endum þetta á sortadæmi frá höfuðskáldi indælisins á 19. öld, Steingrími Thorsteinssyni:

Á gangi fram með sjó

Heyr súgandi brimið frá sædjúpi knúð,
Við sandinn það drynur og þangvaxna flúð;
Sá hljómurinn þungi mér ómar í önd
Sem eilífðar niður á tímanna strönd.

Og horfi' ég á sjónhring við hafdjúpið kalt,
Þar handan er bakkinn og drungalegt alt,
Sú dökklita hringlína dregur sig þar
Sem dauðleikans baugur við jarðlífsins mar.

Eitt einasta segl út við sjónhring eg lít,
Við svartbakkann stingur af ögnin sú hvít;
Hvar er það? Það hvarf eins og bendandi blik, -
Eins brátt hverfur líf yfir síðasta strik.

Hér er hvorki trúarvissa né von, aðeins dauðinn framundan. Orðalag er samtillt að þessu, ”súgandi brimið, [...] drynur [...] hafdjúpið kalt [...] og drungalegt alt [...] Við svartbakkann”. Segja má að línur kvæðisins renni saman, þar sem þær enda á stúf, og næsta lína hefst svo á forlið. Reglubundin hrynjandin með þríliðum gefur þessum myndrænu hugleiðingum glæsibrag. Hvert erindi hefst á því að draga upp mynd, en lokalína erindisins er ályktun. Fyrsta erindi er heyrnmynd; brimgnýr. ”Sem eilífðar niður á tímanna strönd”. Annað erindi er sýn; dökkur sjóndeildarhringur handan við ”hafdjúpið kalt”, sem táknar lífið, það er ”Sem dauðleikans baugur við jarðlífsins mar”. Og loks er lokaerindið enn sýn, stakt segl út við þennan dökka sjóndeildarhring, einmanaleg hvít ögn við svartbakka, en hún er óðar horfin, ”Eins brátt hverfur líf yfir síðasta strik”. Líkingar eru hefðbundnar og samstilltar að þessu sviði; ljóðmælandi talar um ”tímanna strönd við jarðlífsins mar”.
Hér ríkir þá enn algert svartnætti, haglega dregið upp í náttúrumyndum. Þetta eru algengar tilfinningar, og koma bældri kynhneigð eða geðhvarfasýki ekkert við. En meginatriðið er, að það þarf yfirlegu og vandvirkni til að skapa mynd þessarar tilfinningar sem annarra, þetta er ekki nein ósjálfráð tjáning tilfinningaofsa. En það er enn algengt að lesa kvæði þannig sem beinan vitnisburð um hugarástand höfundar. Þetta gera bæði Halldór Guðmundsson og Hannes H. Gissurarson í nýlegum ævisögum Halldórs Laxness. Þannig tekur t.d. Halldór Guðmundsson leik HKL að andstæðum í expressjónískum kvæðum (bls. 215 o.áfr.) sem vitnisburð um ”innri átök Halldórs”. Hannes túlkar ljóð HKL á dönsku, sem hann orti á Borgundarhólmi 1922 sem vitnisburð um þunglyndi (Halldór, bls. 200). En þau kvæði eru augljósar stælingar á ljóðum Heinrich Heine um ástarsorg, og eru þá vitnisburður um að tvítugt ungskáld sé að æfa sig, og hvaða fyrirmynd það hafði. Það skiptir máli, en ekki hitt hvernig lá á honum í það eða hitt skiptið. Halldór Laxness söng og þýddi ljóð Heine á þessu méli, eins og ég hefi áður rakið (Ævisögur Halldórs Laxness, bls. 86).
Gunnari finnst vel til fundin breytingin í lok kvæðisins, sem minnir hann á Goðmund á Glæsivöllum eftir Grím Thomsen (bls. 60):

Mér finnst Grímur taka snilldarlega sveiflu með lesendur sína frá fornaldarsöguhetjunni Goðmundi til danskrar samtíðar og sjálfstjáningar sinnar, og eins gerir séra Björn þegar hann sveiflar okkur frá þessari óskiljanlega dapurlegu mynd af kyrrlátri norðlenskri sumarnótt inn í eigin tilfinningaheim og segir skyndilega: Þetta var allt um mig.

En einnig þetta var samkvæmt samtímatísku, og er Heinrich Heine skálda frægastur fyrir það (sjá t.d. Neue Gedichte, Prolog, 8 o.v.). Lærisveinn hans, Jónas Hallgrímsson gerði kunnasta íslenskt dæmi þessa, Gunnarshólma, sem varð víðfrægt áður en framantöld kvæði voru ort. Eftir lýsingu á náttúrunni og á ferð Gunnars frá Hlíðarenda í löngu máli, kemur undir lok kvæðisins ályktun af því, boðskapur ljóðmælanda til samtímamanna hans um þjóðernisstefnu: ”Hugljúfa samt eg sögu Gunnars tel,[...] Því Gunnar vildi heldur bíða hel en horfinn vera fósturjarðarströndum.” Vera má að einnig sr. Björn hafi verið ”að laga sig eftir Heine” (orð Jónasar Hallgrímssonar um ljóðabálk sinn Annes og eyjar) í Sumarnótt, því hún er nær þessum hvörfum Heine í kvæðislok en Gunnarshólmi Jónasar. Sem dæmi nefni ég Neue Gedichte Heines, og þar einkum Prolog, 5 og 8. Ekki hefi ég fundið góð dæmi í ljóðum hans þýddum á íslensku, helst Strandsetan í þýðingu Jónasar Hallgrímssonar.

Í stuttu máli sagt, ljóð þar sem ”ég” birtir samræmda mynd af tilfinningu, hvort sem hún er neikvæð eða jákvæð, er engin heimild um hugarfar höfundar, hvorki til skamms tíma né langs. Auðvitað hefur skáldið þekkt slíkar tilfinningar eins og annað fólk, en ríkjandi tilfinning hans við að setja saman kaldhamrað listaverk, hefur líklegast verið gleði –sköpunargleði.

Ég þakka Magnúsi Haukssyni gagnrýninn yfirlestur, Agli syni mínum og Silju ritstjóra gagnlegar ábendingar. Einn ber ég þó ábyrgðina.

Tilvitnuð rit:
Sr. Bolli Gústavsson: Upprisuskáld (bls. 7-131 í:) Björn Halldórsson í Laufási: Ljóðmæli. Rvík 1994.
Gunnar Karlsson: Hvers vegna kveið séra Björn Halldórsson komandi degi? Tímarit Máls og menningar, 2.hefti 2007, bls. 59-69.
Halldór Guðmundsson: Halldór Laxness. Ævisaga. Rvík 2004.
Hannes Hólmsteinn Gissurarson: Halldór 1902-1932. Rvík 2003.
Örn Ólafsson: Ævisögur Halldórs Laxness. Þjóðmál 2.hefti 2. árgangs, 2005, bls. 82-7.

Tilvitnuð ljóðmæli munu auðfundin í þessum bókum:
Benedikt Gröndal: Ritsafn I-V. Rvík 1948-1954.
Grímur Thomsen: Ljóðmæli. Rvík 1969.
Jónas Hallgrímsson: Rit I-V. Rvík 1929-37.
Steingrímur Thorsteinsson: Ljóðmæli. 3. útgáfa aukin. Reykjavík 1910.

II

Sögustríðið – ný orrusta

Í bók sinni Sögustríð rekur Sigurður Gylfi Magnússon áratugs átök sín við “sögustofnunina”, þ.e. fyrst og fremst við kennara sagnfræðiskorar H.Í. Átökin snúast um aðferðir, þar sem Sigurður Gylfi boðar einsögu gegn yfirlitssögu.
Taka verður fram að ég hefi fátt eitt lesið af ritum þessa afkastamikla höfundar. En það hlýtur að vera ásættanlegt að fjalla um eina bók, enda er hún 527 bls. Þar eru þrálátar óþarfar endurtekningar sem stafa af því að þetta er greinasafn Sigurðar. Ólíkt vænlegra hefði verið að semja skipulega greinargerð um ágreiningsefnið og láta nægja að vísa til þessara prentuðu greina, sem eru auðfundnar í útbreiddum tímaritum. Og auðvitað hefði höfundur átt að umsemja enskar greinar sínar hér á íslensku. Það er ekki eins og þetta séu ódauðleg skáldverk.

Einsaga eða yfirlit
Sumt má hér þykja vel athugað, einkum ádeila á klíkuskap við stöðuráðningar til Háskóla Íslands, en því miður er bókin yfirborðsleg, nefnir aragrúa persóna og titla, talar mikið um tísku og “nýjungar í fræðunum”, og hneykslast á þeim steingervingum fræðanna sem gegn þeim standa, en allt er það heldur óljóst, því mjög lítið er um greiningar á einstökum dæmum. Helst er að nefna samantekt Sigurðar (bls. 314-322) úr ýmsum ritum sem leiði rök að því að kynlífsbylting hafi orðið um miðja 18. öld, þá færist það mjög í aukana. Þetta er dæmi hans um ”yfirlitssögu”, og á e.t.v. að vera víti til varnaðar, en er alltof einhliða til þess. Því hér er fjallað um þjóðfélagslegar hömlur á kynlífi án þess að víkja að vændi og útbreiðslu þess í borgum og sveitum. Fleiri stórar gloppur mætti nefna í þessu yfirliti, enda leggur Sigurður hér einkum áherslu á að fátt verði vitað um eitt og annað.
Sigurður Gylfi er sífellt að hamra á því að „fortíðin verði ekki göldruð fram", en hver hefur sagt að það sé markmiðið? Auðvitað er sagnfræðirit mannvirki, mótað af höfundi sínum og aðstæðum hans, umdeilanlegt, en færa má rök fyrir því og dæmi að ein túlkun eða mynd fortíðar sé réttari en önnur. Ella væri engin sagnfræði til, bara sögulegar skáldsögur. Og skil ég það ekki rétt, að Sigurður Gylfi boði (bls. 180-181) „einsögurannsókn" á tilteknu tilviki eða persónu án þess að tengja það við neitt annað? Það finnst mér vera sturluð stefna. Því það er ekki unnt að fjalla um neitt nema með samanburði við eitthvað annað! Amk. við aðstæður og viðhorf umfjallanda sjálfs. Og er þá ekki best að gera sem skýrasta grein fyrir því? Hvernig er unnt að boða sögu minnihlutahópa, svosem Gyðinga eða homma án þess að tengja þá sögu við yfirlit um samfélagið að öðru leyti? Þeir eru þó bara minnihlutahópar út frá viðhorfum meirihlutans hverju sinni. Ekki eru gyðingar minnihlutahópur í Ísrael, og ekki voru hommar það í Grikklandi hinu forna, t.d. Það er og alrangt, þegar Sigurður Gylfi segir (bls.180) að jafnan hafi sagnfræðin fjallað um ríkjandi 2% mannkyns, aldrei um almenning. Ég las á sínum tíma töluvert í Fischer Weltgeschichte (hún birtist á árunum 1966-89 í 33 bindum), og það er bara eitt dæmi yfirlitssögu sem fjallar fyrst og fremst um aðstæður í þjóðfélögum, atvinnuhætti, tækni, lífsskilyrði og menningu, miklu frekar en atburðasögu eða konungaröð.
Sigurður Gylfi nefnir valkost við hreinskilnislega yfirlýsingu umfjallanda um afstöðu sína, þar sem er stefnuskrá Helga Skúla Kjartanssonar. En síst virðist hún betri, skv. umfjöllun Sigurðar á bls. 219. Að ímynda sér að unnt sé að semja „hlutlaust yfirlit, að sætta öll sjónarmið og fara einhvern hlutlausan milliveg að hverju viðfangsefni"! Það er nú bara að segjast ætla að beygja sig undir ríkjandi viðhorf á núverandi tímum. Auðvitað ber umfjallanda að draga ályktanir af efni sínu, og leggja skefjalaust dóm á, svo fremi að hann gæti hlutlægni, sem er allt annað en hlutleysi. Hlutlægni er að láta mismunandi sjónarmið koma fram. Þessari stefnu reyndi ég að fylgja, m.a. í Rauðu pennunum, og hefur verið láð að sýna umfjallaðri hreyfingu fjandskap. En þar var –auðvitað umdeilanleg- ályktun af umfjölluninni, og mér sýndist óheiðarlegt að dylja hana undir sýndarhlutleysi. Hvernig er unnt að fjalla um bókmenntahreyfingu sem segist ætla að skapa nýja tegund bókmennta á grundvelli marxískrar stéttabaráttu verkalýðsins án þess að leggja mat á hvernig til hafi tekist með ætlunarverkið?
Sigurður Gylfi hamast mjög gegn yfirlitsritum vegna þess að grundvöllur þeirra sé ”þannig uppbyggður að honum er ætlað að fela eyðurnar sem eru í þekkingu okkar, breiða yfir misfellurnar í sögunni og leyna ágreiningnum sem er á milli ólíkra afla samfélagsins á öllum tímum” (bls. 353).
Ekki segir Sigurður nokkursstaðar hversvegna svo hljóti að vera. Enda er þetta mesta firra. Hann vitnar þarna í umfjöllun mín og fleiri um síðustu bindi Íslenskrar bókmenntasögu, en sleppir því, að ég nefndi einmitt, að sumir höfundar hennar, t.d. Árni Sigurjónsson, draga fram mismunandi túlkanir og ágreiningsmál, meðan aðrir, t.d. Halldór Guðmundsson, breiða yfir slíkt, og reyna að finna einhverskonar samnefnara, líkt og haft var eftir Helga Skúla hér að framan. Enda er það regla frekar en undantekning í þeim yfirlitum sem ég hefi lesið eða heyrt, að höfundur segi; þetta atriði er að mestu ókannað, hér þyrfti að rannsaka betur, o.s.frv. Þetta hljóta allir lesendur að kannast við. Ekki vekur einsaga slíka ítarleit. Það er eins og maður taki upp kartöflu, skoði hana, vegi og lýsi henni, taki síðan aðra, sem reynist svolítið öðruvísi, loks þá þriðju. Og þá eru flestir orðnir leiðir á slíkri iðju, enda er þeim bannað af Sigurði að setja einstaka athugun í stærra samhengi.
Tökum annað dæmi, einsögu bókmennta. Sveitamaður á 19. öld hefur ort einn rímnaflokk. Við rekjum hvernig saga er rakin í honum, greinum bragarhætti og kenningar, og svo tengjum við þetta kannski við æviatriði mannsins. Hætt er við að það yrði ansi fátæklegt. Því öll þessi einkenni rímna mótast af margra alda sterkum hefðum, svo ekki sé sagt klisjum. En við megum einmitt ekki tengja þessa einstöku rannsókn við yfirlit bókmenntagreinarinnar!

Séra Björn
Nú kom skrítinn leikur í þrátefli Sigurðar við sögustofnuna. Á sama méli og umrædd bók hans birtist fékk hann óvæntan lærisvein í einsögu, nefnilega sjálfan Gunnar Karlsson, höfuðandstæðing hans í sögustríðinu undanfarinn áratug eða meira. Gunnar birti grein um kvæðið Sumarnótt eftir sr. Björn Halldórsson í Laufási, og rekur kvíða þess til óyndis samkynhneigðs manns sem neyddur hafi verið til að kvænast. Sem rök notar Gunnar vísu og bréf Björns, auk munnmæla sveitunga hans. Ég gerðist til að svara (grein mína má sjá á http://oernolafs.blogspot.com/íslenskt) og tengja þetta kvæði Björns við yfirlitssögu, og hélt því fram að Sumarnótt væri dæmigert fyrir bókmenntatísku samtímans, heimshryggðarkvæði rómantíkur, sem einkum breska skáldið Byron (1788-1824) gerði víðfræg um alla Evrópu á öndverðri 19. öld. En það eru kvæði þar sem náttúrumynd er samstillt til að sýna vonleysi, hryggð o. fl. þ. h. Stundum er þeirri tilfinningu lýst yfir af ljóðmælanda, en stundum kemur hún óbeint fram. Áður hafði ein heimild Gunnars, sr. Bolli Gústavsson, nefnt þá stefnu, reyndar um annað kvæði sr. Björns. En að hætti Sigurðar Gylfa mótmælti Gunnar slíkum aðferðum, þótt hann að sönnu viðurkenni tilvist og áhrif bókmenntahefða.
Gunnar telur ýmis dæmi þess að kvæði Björns sé frábrugðið þeim heimshryggðarkvæðum íslenskra rómantískra skálda sem ég hafði tilfært. Gunnar segir að þar sem ”kyrrð og einkum næturkyrrð var algengt tákn friðsældar í hugum fólks, er það frumlegt sem séra Björn gerir úr næturkyrrðinni”, þ.e. kvíða. Þetta sannar bara ekki neitt. Ég hef aldrei haldið því fram að kvæði Björns væri ófrumlegt, bara að það sé samkvæmt þessari megintísku, þótt það hafi sín sérstöku einkenni, eins og hin kvæðin, sem einnig nota lýsingar náttúru til að draga upp samstillta mynd af ugg. Til þess þurfti ekki samskonar kyrrðarmynd og í kvæði Björns, það hefði verið ófrumlegt, og það forðuðust þessi skáld. Því er rangt til getið hjá Gunnari að ég ”hafi leitað nokkuð rækilega að hliðstæðum við kyrrðarmynd Sumarnætur í rómantískum skáldskap Íslendinga”. Þessar nægðu, sem ég mundi í svipinn. Ég var alls ekki að fjalla um áhrif eins kvæðis á annað, heldur einungis að heimfæra þau til sama meginflokks, tiltekinnar tísku. Reyndar finnst mér snilldin meiri í tilfærðum kvæðum Gríms, Benedikts og Steingríms en hjá Birni, sem segir deyjandi dagsroða drekkja sér. Stuðlanauð þrengir að hugsuninni.
Um skyndileg hvörf kvæðisins frá náttúrulýsingu til að segja ”ég” og tengja þannig tilfinningamynd náttúrulýsingar við ljóðmælanda nefndi Gunnar annað dæmi, kvæði Gríms Thomsen um Goðmund á Glæsivöllum, en ég nefndi Gunnarshólma Jónasar Hallgrímssonar, sem Gunnari þykir í þessu atriði ólíkt Sumarnótt Björns, því útkoman hefði orðið nokkurnveginn eins, þótt orðinu ”ég” væri þar sleppt. Því er ég ósammála. Einmitt það að ljóðmælandi segir frá tilfinningum sínum, að hann telji sögu Gunnars á Hlíðarenda hugljúfa og segir hversvegna, þ.e tengir við ákafa þjóðerniskennd kvæðisloka, sýnist mér gera þá tilfinningu nærkomna lesendum. Hvað sem því líður vísaði ég um hvörf til 1. persónu og breyttrar kenndar einnig til kvæða Heinrich Heine (1797-1856) sem á norðurlöndum var einna mest metinn þýskra skálda, einnig þegar Björn dvaldist í Kaupmannahöfn (veturinn 1850-51). Líklegt þykir mér að sá skáldhneigði menntamaður hafi haft spurnir af þeirri alkunnu tísku, altént fann Björn hana ekki upp. Enn má nefna að fáeinum árum áður, 1845, birti Grímur Thomsen meistara¬prófsritgerð sína um Byron (sem hann fékk doktorsnafnbót fyrir 1854, sbr. Helga Skúla, bls. 118-19). Og nú er best að ég segi beint út það sem ég ýjaði að í grein minni: Það sem ekki verður vitað er ekki áhugavert. Með öðrum orðum, mér er hjartanlega sama að hverjum losti sr. Björns Halldórssonar beindist fyrir hálfri annarri öld, það setur ekki mark á þetta kvæði hans, og sú tilfinning sem það lætur í ljós er samkvæmt bókmenntatísku, og að sama skapi lítil heimild um hugarástand höfundar. Svona gafst nú að fylgja einsöguaðferð Sigurðar Gylfa – það leiðir til þess að huga ekki að sögulegu samhengi verksins. Undir slíku verður ekki setið þegjandi, hver sem í hlut á. Og þegar þetta hendir kunnáttusaman og þrautþjálfaðan sagnfræðing, liggur nærri að segja að Gunnar Karlsson hafi þannig eftirminnilega sýnt fram á haldleysi einsöguaðferðar - þótt að vísu kæmi úr því skemmtilegur pistill.
Hér hefur þá Sigurður Gylfi unnið frækilegan stundarsigur, en sögustríð hans var samt fyrirfram tapað. Skýringu á því hve yfirborðsleg, þokukennd og staglsöm bók hans er, sé ég í því að hann er fastur í kreddum sem hann getur ekki rökstutt né réttlætt. Sorglegt.

Tilvitnuð rit:

Sr. Bolli Gústavsson: Upprisuskáld (bls. 7-131 í:) Björn Halldórsson í Laufási: Ljóðmæli. Rvík 1994.
Gunnar Karlsson: Hvers vegna kveið séra Björn Halldórsson komandi degi? Tímarit Máls og menningar, 2.hefti 2007, bls. 59-69.
Örn Ólafsson: Andsvar um Björn í Laufási. Tímarit Máls og menningar, 3.hefti 2007, bls. 133-9.
Gunnar Karlsson: Um séra Björn, kveðskap og kynhneigð. Tímarit Máls og menningar, 4.hefti 2007, bls. 134-8.
Helgi Skúli Kjartansson: Bráðþroska menningarviti. Tímarit Máls og menningar, 3. h.2005, bls. 116-120.
Sigurður Gylfi Magnússon: Sögustríð. Rvík 2007.
Örn Ólafsson: Rauðu pennarnir. Rvík 1991.

Gammabrekku og Kistunni 6.1. 2008 (fékkst ekki birt í TMM)
Gunnar Karlsson svaraði á sama vettvangi viku síðar og sagðist bara vilja veita samkynhneigð þegnrétt í íslenskum bókmenntum, og þá gjarnan í útbreiddum sýnisbókum, til að efla sjálfstraust samkynhneigðra. Það er fallegt af honum, einkum þar sem hann ekki er í hópi þeirra. Það sést best á bókmenntavalinu. Því hvenær hafa grátljóð eflt einhverjum sjálfstraust og baráttuhug?