fimmtudagur, 13. desember 2007

Endurtekning í orðstofnum Swahili

Í afmælisrit Britta O. Frederiksen.
Það mun viss hefð fyrir því að í litlum afmælisritum af þessu tagi fjalli fólk um eitthvað sem liggur utan við starfssvið þeirra, og það ber jafnvel lítið skynbragð á. Ég fylgi hér þeirri hefð sem stundum áður, og fjalla um sérstakt svið orðfræði (lexikologi)
Það er spennandi að kynna sér mjög framandi tungumál, því þar er margt svo frumlega öðruvísi orðað en í því sem þekktara er. Ég hefi áður vikið að swahili, í afmælisriti til Þorbjargar Helgadóttur. Það rit var víst aðeins gert í einu eintaki, svo ég lagði pistil minn, Kupiga simu, svolítið aukinn, á vefslóð mína. Vísa ég hér með til hans um yfirlitsfróðleik, svo langt sem hann nær, betri upplýsingar munu flestum auðfundnar í uppsláttarritum, t.d. á netinu. Swahili er móðurmál 5-10 milljón manns, en talað af 80 milljónum í nokkrum ríkjum Austur-Afríku, ríkismál í amk. Kenya, Tanzaníu og (áður) Uganda.
Með því skemmtilegasta í swahili eru myndhvörf daglegs máls. Skúffa heitir t.d. mtoto wa mesa=barn borðs. Hér skal þó ekki um það efni fjallað, heldur eingöngu um endurtekningar í orðstofnum. Þetta fannst mér áberandi algengt þegar ég kynntist málinu, en það þarf könnunar. Þessi er auðvitað yfirborðsleg, enda er ég naumlega sjálfbjarga í málinu. En vonandi getur þetta orðið einhverjum til umhugsunar um hvernig það er í móðurmáli viðkomandi. Þetta þekkist í t.d. dönsku: “Jeg hører at Hanne danser.” ”Mender du at hun danser-danser?” Semsé hvort hún taki dansinn alvarlega. Lesendur geta sjálfsagt fundið fleiri dæmi, og e.t.v. betri. Ekki kannast ég við þetta á íslensku, en viðlíka endurtekningar eru mjög áberandi í ítölsku, t.d.: “Il stava nel café solo solo” –Hann sat aleinn á kaffihúsinu. En þar er um að ræða endurtekningar orða, mér virðist endurtekning mun útbreiddari og rótgrónari innan einstakra orðstofna í Swahili. Hún er sláandi þegar í svo algengum orðum sem um nánustu ættingja; dada (systir), kaka (bróðir), baba (faðir), og mama er kunnugt úr flestum málum. Einnig sést þetta í fornöfnum, mimi=ég, wewe=þú, yeye=hann/hún; sisi=við; hinsvegar ninyi=þið, wao=þau. Taka verður fram að persónufornöfn þessi eru miklu minna notuð en samsvarandi orð í germönskum málum, því yfirleitt kemur persóna, tala, tíð og andlag fram sem sérstök beygingaforskeyti sagna. A-na-cheka=hún hlær; Wa-me-cheka= þau hlógu (ég set inn bandstrik til skýringar). Ætla má að þessi endurtekningarorð um nánustu ættingja komi úr barnamáli, og því til stuðnings tilfæri ég helsta orðaforða franskra smábarna: mama, papa, bébé, myamyam, pipi, kaka, dodo –í sömu röð: mamma, pabbi, barn, góðmeti, míga, skíta, sofa. Reyndar tíðkuðust svona endurtekningar í íslenskum gælunöfnum um miðja 20. öld, svo sem sjá má í Atómstöðinni (1.k.) eftir Halldór Laxness. Og þar er þessi nafntíska kennd við Afríku. Ég man konurnar Gógó, Lóló og Dídí, en þær voru flestar fæddar um 1900, og munu því horfnar af sjónarsviðinu. Pilturinn Bóbó og stúlkan Bíbí voru nokkru yngri
Ég notaði fyrst A standard Swahili-English Dictionary, sem birtist fyrst 1939 og oft síðan. Það byggir á orðabók Madan frá 1903, en er mjög aukin, 550 bls. í litlu broti. Ekki eru upplýsingar um fjölda uppsláttarorða. Bókina mætti kalla notendafjandsamlega, því nafnorð eru talin undir sagnstofnum, og þegar slegið er upp orði bregst sjaldan að vísað sé í annað orð, oft með öðrum stofnsérhljóða, og er afar tafsamt að finna orð og þýðingu þess. Þetta skýrir nafn minni orðabókar: Vinalega orðabókin (The friendly Modern Swahili-Modern English Dictionary). Hún hefur 13.300 uppsláttarorð, þar á meðal einstakar beygingarmyndir margra orða. Á netinu eru nokkur orðasöfn, en reynast því miður mjög ófullkomin, enn sem komið er. Ég tíndi dæmi tvítekinna stofna úr Vinalegu orðabókinni, en leitaði einfaldra stofna þeirra í hinni stærri. Þegar ég tilfæri einfaldan stofn til samanburðar, eru það oft getgátur mínar, merkt með #. Við þá leit fann ég nokkur dæmi tvöföldunar til viðbótar. En ýmislegt hefur farið fram hjá mér, þetta er ekki tæmandi safn dæma orðabókanna, og reyndar held ég að tæmandi skrá verði ekki gerð. Því í skáldsögu hefi ég rekist á dæmi sem ekki voru í orðabókum; tazamwatazamwa (sjást), og má þá ætla að þetta sé nokkuð fljótandi, fólk geti tekið upp á því að tvítaka stofn í sérstökum tilgangi við ákveðnar aðstæður, svo sem innfæddir raunar hafa staðfest við mig. Enda má sjá af dæmum, að stundum er sama merking gefin fyrir einfaldan stofn og tvöfaldan. Skyldi tvítekningin þá vera til áherslu? Hinsvegar er þessi tvítekning föst í ýmsum orðum, t.d. buibui= slæða múslímskar kvenna.

Framburður og tíðni
Athugið að tvöfaldur sérhljóði táknar lengd, th, sh, ch, j og y eru borin fram eins og í ensku. Annars er framburður nokkuð augljós íslendingum. táknið gh er fyrir g í dagur. í sumum bantúmálum er r og l sami hljóðungur, og gætir þess stundum í swahili.
Sniðgengin voru eftir föngum orð þar sem endurtekningin stafaði af upphafi sem var beygingarforskeyti. Dæmi: ku=nafnháttarmerki og þig; Ninataka kukusema= Ég vil tala við þig. Beygingarforskeyti tölu helstu beygingaflokka eru (eintala-fleirtala): m-wa; m-mi; ki-vi, ji-ma. Ennfremur bar að forðast forskeyti sem tákna stærð, svosem jiji= stór borg (mji=borg, kiji= þorp). Einnig forðaðist ég endurtekningar vegna viðskeyta, ss. okoka=bjargast, af okoa=bjarga, onana=sjást, af ona=sjá, kokote, popote, allstaðar, þar sem fyrstu samhljóð fara eftir beygingarflokki. Þannig setja endurtekningar mun meiri svip á hljóm málsins en merkingu, en svipaðar tilviljanir eru t.d. í íslensku; tillit til; yfirsýn yfir, o.s.frv.
Reynt var að taka aðeins eitt dæmi þegar ýmis orð voru samstofna. Þetta varð safn 219 orða af 13.300 í litlu orðabókinni. Og í henni eru semsagt ýmsar myndir sama orðs, svo tvíteknistofnar eru væntanlega amk. 2%. Eftirlæt ég fróðara fólki að meta hvort það sé hátt hlutfall.
Þegar þessu takmarkaða safni (hálft þriðja hundrað orða) var skipt á orðflokka, reyndust nafnorð flest, 3/5, sagnorð fimmtungur, en atviksorð og lýsingarorð tæplega tíundi hluti hvort. Líklegt mátti virðast að hér væri tíðni nafnorða hærri en í orðaforða málsins í heild, en ekki hef ég heimildir um það efni. Mun áhugaverðari væri þó tíðni orðflokka í einstökum segðum, töluðum eða rituðum, en um hana hef ég engar heimildir. Í Íslenskri orðtíðnibók var meðaltal ýmissa segða: nafnorð 2/3, lýsingarorð 1/6; sagnir 1/14. Tíðni nafnorða í íslenskum textum reyndist þá ívið meiri tíðni þeirra af tvíteknum stofnum í swahili, hvað sem svo má álykta af því.

Helstu flokkar
Þess er þá fyrst að geta, að fyrir kemur þrítekning, þegar umræddur stofn er stuttur, bara eitt samhljóð og sérhljóð: fofofo, kakaka, mashushushu, sisisi, wowowo. Merking virðist ekki skipta máli í þessu sambandi, kakaka er grænmetistegund; nema um sérstaka áherslu sé að ræða; wowowo er sagt um rassstóra konu, og það vekur víst aðdáun víðast hvar í Afríku; mashushushu er öryggisvörður, en sisisi merkir bóstaflega og fofofo algerlega. Áhersla ræður sjálfsagt endurtekningum eins og hapahapa (hér) og papapapa (þar). Þegar kvatt er dyra er það með orðinu hodi, og gjarnan endurtekið: hodihodi. Það má kalla tilviljunarkennt, rétt einsog að endurtaka gleðiópið hoi; hoihoi. Eðlileg er tvítekningin í dæmi eins og sabasaba (sjösjö), því það merkir sjöunda júlí. Sama má segja um chuchu=geirvörtur (af #chua=núa) og dodo (ungmeyarbrjóst), þar liggur tvítekning í því sem orðið vísar til. Nærtækt er þá og nyonyo fyrir snuð.
Endurtekning í því sem til er vísað má sjá í þriðjungi dæma, eðlilega er það haft um glampa; metameta/meremeta, cheche (af chea=daga) og um þrumu, titima, einnig um lind, chemchem (af chemka=bulla um vatn). Þar eru og nöfn fugla, enda eru þeir sígaggandi eða kvakandi, svo sem kuku (hænsn), kitotoro, kororo, hondohondo (meitilfugl), gogota (spæta). Eðlilegt virðist að sjá þetta haft um safn lífvera, einkum á hreyfingu; dudu (skordýr), vivuvu (ávaxtaflugur), vimulimuli (eldflugur), kumbikumbi (fljúgandi trjámaurar, “gómsætir steiktir”, upplýsir Vinalega orðabókin), kipilipili (fisktegund), papa (hákarl) og gras af ýmsu tagi; fefe, kimbugibugi (af bugia=narta? Var étin í hungursneyð). Einnig eru nöfn átjurta: felefele (milletkorntegund) og kifumufumu (kassavategund, róthnyðjur).
Einnig eru um orð um endurtekningu í atferli fólks: nyoanyoa (plokka), katakata (skera smátt, af kata=skera), engaenga (dekra), zozo (rifrildi), lengalenga (snökta), kichefuchefu (vera flökurt), ombaomba (nauða, af omba=biðja), kidomodomo (nöldur af mdomo=vör), kilinilini og fununu (slaður, af funua=afhjúpa), payapaya (bulla), nyanyaso (erting), kimasomaso (látalæti), kizaazaa (taugaveiklun), kigeugeu (óstöðugur, af geuka=beygja), legalega (riðandi af lega=skjálfa), en um skjálfta eru ýmis tvítekningarorð; papa, tapatapa, mtetemo, kiherehere. Nálægt er sulisuli (svimi, af sulika=svima), demadema og wayawaya (staulast, waya merkir klæja), zurura (slæpast), randaranda (ráfa), hemahema (mása, af hema=anda), misukosuko (örðugleikar), kimoyomoyo=innst í sinni (af moyo=hjarta). Að stama heitir babaka, og mætti kalla hljóðlíkingu, nálægt því er kekevu (hiksti). Enn má telja nöfn ýmissa sjúkdóma, og kann þeim að fylgja ósjálfráð riða, það þyrfti að spyrja lækni um, helst einhvern sem kann swahili; kipindupindu (kólera), matubwitubwi (hettusótt), kisonosono (lekandi), mamunyumunyu (fótkláði), fifia (veiklast, af –fa=deyja). Háttbundnar endurtekningar einkenna gleðskap, og birtist það í ýmsum orðum um hann; lelemama, mangamanga tangatanga (tangamano=mannsafnaður), og örtröð; hekaheka, pilikapilika, msukomsuko. Djöflagangur heitir mpwitompwito, en óreiða kallast hobelahobela og shagalabagala. Æsingur heitir kindumbwendumbwende og mkikimkiki, en chugachuga að vera órótt. Dukuduku og wasiwasi eru orð um áhyggjur, af wasia=aðvara. Kimbelembele kallast frekja, af mbele=fram). Einnig eru hér orð um hratt: wanguwangu og chapuchapu (af chapa=slá?). Hér mætti telja skammaryrði um fólk; mbumbumbu (treggáfaður), zezeta (hálfviti), vigogo (menn sem láta mikinn, af gogo=felldur trjábolur), mwayamwaya (gassagangur), en einnig önnur sérkenni; zeruzeru er albínói og veit ég ekki hvort það hefur verið hnjóðsyrði.
Stundum dregur tvöföldunin fram eitthvert eðliseinkenni, svo sem hér hefur sést, einnig í juujuu, yfirborðslegt, leitt af juu (upp). Lýsingarorðið -tamu sætur hefur ýmis forskeyti eftir beygingarflokkum nafnorða, en af því er og leitt nafnorðið tamutamu=sætindi. Svipað er um –dogo lítill, af því er nafnorðið dogodogo, sem merkir: indæl ung stúlka, ofsótt af slæmum karlmönnum (“a sweet young girl sought after by nasty men” segir Vinalega orðabókin)! Einkennilegt er að sjá orðið takataka um sorp, því sem einfaldan stofn þekki ég bara taka, girnast.
Þessi takmarkaði efniviður sýnir mikið hugvit að mínu mati, en nánari umfjöllun þarf innfædds málnotanda eða amk. lærðari málfræðings en undirritaðs.

Heimildir:
A standard Swahili-English Dictionary, Nairobi 1990.
Baba Malaika: The friendly Modern Swahili - Modern English Dictionary, Nairobi 2001.
Íslensk orðtíðnibók, Rvík 1991.

Kaupmannahöfn, 29. október 2007.