miðvikudagur, 3. júní 2009

Geirlaugsljóð

Örn Ólafsson:

Um ljóð Geirlaugs Magnússsonar

Þetta ágæta ljóðskáld lést árið 2005, rétt liðlega sextugur. Á sextugsafmælinu árið áður fagnaði hann þrjátíu ára ljóðabókaútgáfu, alls sextán ljóðabækur auk þýðinga úr pólsku. Þar á meðal eftirlátin tvö handrit ljóðabóka, sem svo birtust andlátsárið, Andljóð og önnur og Tilmæli.
Það er lítið hægt að alhæfa um þessar bækur allar í heild. Þær eru breytilegar frá ári til árs. Vissulega má finna varanleg höfundareinkenni á þeim; það eru í fyrsta lagi hve frábitinn ljóðmælandi er öllum boðskap, hann kemur miklu fremur með neikvæða afstöðu til allskyns alhæfinga og ríkjandi viðhorfa, en er fundvís á fegurð, ekki síst hverfula. Hann brýst í að finna og sýna hverfult, og þar af leiðandi eru ljóðin stundum torskilin, amk. við fyrstu sýn, því hann forðast hverskyns klisjur, vinnur gegn slíkri framsetningu. Hugarástandið má virðast breytilegt frá einni bók til annarar, stundum bölsýni, stundum sæla. En ljóðin eru ekki einkaleg, þetta eru ekki játningar eða sjálfhverfar lýsingar. Blíðleg ástarljóð birtust í Safnborg 1993, en þau eru annars sjaldgæf. Sumar bókanna eru greinilega samdar sem heild, t.d. dýra líf, þar sem titillinn er tvíræður, merkir bæði dýrmætt líf, og líf dýra, sem lýst er einu af öðru, og þá vitaskuld fléttað inn tilfinningum manna.
Orðfæri Geirlaugs er sérkennilegt, hann forðast sértekningar en hefur mjög ríkulegan orðaforða, oft úr hversdagsmáli, en mörg orð eru sjaldgæfari, mætti kalla það gamalt sveitamál? Oft er kímni áberandi í ljóðunum, amk. jafnt bölmóði.
Ekki eru hér tök á að fjalla um allt þetta, enda eru mér elstu bækurnar ekki tiltækar hér í Kaupmannahöfn. Hér verður að láta nægja að grípa á einstökum ljóðum, vonandi svo sundurleitum að sýni nokkuð breiddina í ljóðagerð Geirlaugs. Að sjálfsögðu er slíkt val í meira lagi persónulegt og að sama skapi umdeilanlegt. Ég vona bara að það örvi einhverja til að kynna sér sjálf ljóð Geirlaugs. Ég fjallaði um sumar þessara ljóðabóka í ritdómum í DV, og byggi hér að hluta á þeim.
Taka má dæmi þar sem ljóðmælandi talar um hvernig hann úthýsir því einkalega, persónulega úr ljóðum sínum, og notar þá fyrst líkingu um sig sem nýfæddan, en síðan líkingu af bónda sem rekur rollur úr túni sínu, með liðónýtum hundi sínum:

hér stend ég

allt í einu í miðjum texta
birtist ég
háll slímugur
ég
ógnarstór tauta ég með
sjálfum mér
og haska mér að reka mig burt
eins og túnrollurnar forðum þó
enginn sé hundurinn enda gamlaður
húðlatur og þvælist mest fyrir mér
sem er vart búinn að snúa mér við
þegar ég er aftur stokkinn inn í
textann
stöndum andspænis ég og ég
stöppum niður fótum einsog
stífþrjóskustu túnrollurnar forðum
hvergi víkja
skal ekki komast upp með að storka mér
hér stend ég
ég læt mig aldrei

(Safnborg)

Fleiri kvæði eru auðteknari í bókum Geirlaugs, enda eykur það á fjölbreytni þeirra. Eftirfarandi ljóð sýnir andstæðar tilfinningar barns, og dæmigerða viðmiðun þess á stórviðburði:

félagsvera

daginn eftir að pabbi dó var ég miðpunktur
frímínútnanna líkt oghefði fengið nýtt leikfang frá
ameríku eða farið með flugvél til akureyrar
mér fannst athyglin ljúf þó ég skammaðist mín innst
inni þar sem einsemdin býr því fann ég til snöggrar
gleði þegar pabbi vinar míns fyrir
vestan fórst í bílslysi
(Safnborg)

Eldri ljóð höfðu stundum víðtækari viðmiðun, í fornum sögnum og fræðum:

flug

Mér er sagt að aðdráttaraflið haldi okkur við
jörðina
hversvegna
eflaust í fullnægju þess
tilgangslausa strits
mér er ekki um fugla
sjálfselskir eiginhreiðursdútlarar
og svanasaungurinn
tilfinningalaust garg
sem og annar skáldskapur

líkt á komið
okkur íkarosi
treystum blint
því sem leysist upp
í sólskini

(Áleiðis áveðurs)

Þetta ljóð byggist a skýrum andstæðum: hinn jarðbundni annars vegar, en hins vegar þeir sem fljúga. Engin 1eið er að finna fullnægju í því að vera bundinn við jörðina, en talandinn horfir með andúð (og öfund?) á hina fljúgandi, sjálfumgleði þeirra gerir þá öðrum einskis nýta. Þannig er litið á það að skáldskapur sé tilgangur í sjálfum sér þvi flugið táknar skáldskapinn eins og svanasöngur hefur lengi gert.
En svo fer hinn jarðbundni að fljúga og skáldið sýnir okkur hvernig það muni fara með því að vitna til goðsögunnar um Ikaros. Hann var fanginn með Daedalosi föður sínum í völundarhúsi Mínosar á Krít. Daedalos gerði þeim vængi, festi fjaðrir saman með vaxi og flugu heir burt. En Ikaros fór ekki að viðvörun föður síns heldur flaug of nærri sólu svo vaxið bráðnaði og hann steyptist í hafið. Þetta síðasta atriði er ekki í fornnorrænni gerð sögunnar, sem er í eddukvæðinu Völundarkviðu. En að þessu atriði lýtur síðasta erindið, sem mér virðist líka tákna skáldskap, því þar nálgast jarðneskt það himneska, en hlýtur þó einmitt að farast, nálgist það um of. Ef skáldið verður of háfleygt, mætti kannski segja, og leggur þá 1jóðið sjálft mér orð á munn, sem ég vona að þyki ekki útúrsnúningur.
Byggingin er skýr og áhrifamikil eins og svo oft hjá Geirlaugi. Orðavalið í 1. og 2. erindi sýnir að ljóðmælandi er heldur fúll, tvinnar nýstárleg skammaryrði svo sem ”eiginhreiðursdútlarar”, sér ekki tilgang í grundvallarlögmálum tilverunnar í 1. erindi. Síðan lýsir hann frati á loftsins öfl í 2. erindi, og í þriðja lýsir hann blindu trúnarðartrausti sínu á það sem hverfulast mun vera! Ljóðið er skemmtilega þrungið ýmiss konar merkingu sem erfitt er að njörva niður svo ótvírætt sé. Mér sýnist ljóðið spreinging einnig sprottið af sögunni um Ikaros.
Í bókinni dýra líf er mikið um að tengja andstæður. Í eftirfarandi ljóði er einnig vitnað í fornar goðsögur sem nöturlegt mótvægi við makaofbeldi. Enn er hér vitnað í Völundarkviðu um flugham manns, og er það auðskilið tákn þess að hefja sig yfir hversdagslágkúru. Úr íslenskum þjóðsögum er að selur gengi úr sjó, og reyndist vera kona sem lagði af sér selsham, og gat maður fengið hennar með því að fela haminn. Hér hefur ljóðmælandi brennt báða hami, svo útilokað er að hjúin lyftist nokkurntíma uppúr þeim hversdagi sem einkennist af misþyrmingum og böli. Athyglisverðar eru vífilengjur ljóðmælanda sem reynir að afsaka sig, og sér vitann sem tákn þeirrar reisnar sem hann finnur sig vanta. Eins og í mörgum öðrum ljóðum bókarinnar er linuskipun eins og í sónhendum, en órímað og óstuðlað, að vanda Geirlaugs.

setið á steini

situr enn á steininum og horfir út
grætur augun oft þrútin rauð
þó lem ég hana aldrei næstum
aldrei og aldrei fast nær

aldrei sætta þær sig við
að dúsa hér á berangri
vitinn reigingslega sperrtur
ég ekki jafn sperrtur haf öldur

brim gnauðandi vindur þokan
blessuð þokan því þrá þær allar
heitast að komast burt líka hún
komin af hafi komin sjálf á land

haminn hennar hef ég löngu brennt
likt og flughaminn minn forðum

Annað ljóð lengra er nokkuð myrkara. Titillinn er tvíræður, er átt við tilfinninguna eða gröf?

leiði

bardzo smutno bez ciebie
máð letur stirðnaðra tilfinninga
málið órætt
smáletri fjarlægða málfræði gleymskunnar
eldingavararnir klofnir
sumt letur geymist best i ösku
án upphafsstafa
tryggð dökka pennans
takmarkalaus
spyr aldrei tilefni áritana áheita
bez ciebie
á miðju torginu minnismerki
torginu umluktu gráum súrkálsilmandi húsum
borgin mannlaus minningalaus
hlaðin áletrunum merkjum hvítum
borðum
veggspjöldum
að gleymi sér
smutno bez ciebie
niðrað fljótinu stigi hruninn
rústir upplýstar á aðra hönd
reimt eftir gángstígunum
en aldrei milli runna eftir rigningu
gegnum rúðurnar glittir í kertaljós
óvært
bardzo smutno bez cibie

(Áleiðis áveðurs)

Hér vekur fyrst athygli að ljóðið skuli hefjast og ljúka á sömu setningu á pólsku en inni á milli eru teknir upp hlutar úr henni svo hún myndar viðlag. Og þessi setning varð að vera á máli sem flestum lesendurn ljóðsins mun óskiljanlegt, því í framhaldi er talað um setninguna eins og máð letur á legsteini eða minnisvarða sem gerður er úr stirðnuðum tilfinningum. Þetta er frumleg líking og vel útfærð í framhaldinu sem útmálar fjarlægð minninganna og gefur í skyn slys eða eyðileggingu, því hvað hefur getað klofið eldingarvara annað en of sterk elding. Eyðilegging er annað stef endurtekið í Ijóðinu og magnar enn tilfinningu saknaðar og eyðileika. Andstæða þess hve minningarnar mást er penninn, sem er persónugerður en þó jafnframt andstæða manna í órofa tryggð sinni. I þessum langa inngangskafla sýnist mér vitnað í Davíð: ,Sumir geyma í öskunni/ öll sín bestu ljóð" og e.t.v. líka i Stein Steinarr: „ I dul þína risti/ min dökkbrýnda gleði/ sinn ókunna upphafsstaf”. Slíkar vísanir til alkunnra ljóða – tíðar hjá Geirlaugi - magna tilfinninguna sem hér er sýnd, fyrir fjarlægð milli fólks, og tilfinninguna fyrir þránni að njótast í gegnum þessa miklu fjarlægð. Mér finnst myndirnar tvær í síðari hluta ljóðsins, sem hvor er innrömmuð pólskum orðum, einnig miðla vel bessari tiltinningu. Því í þeim er reimt, engin mannvera, en hvarvetna ummerki manna. Sú fyrri er hlaðin hvers kyns boðum, en við fáum ekkert að vita hvað á þeim stendur, þau virðast bara vera til þess að borgin gleymist. Þannig er allt letur í Ijóðinu að mást, gegn sviplausu minnismerki stendur gleymska. I andstæðu við þessa borða og spjö1d, sem eiga að tala til samtímans, er grámi húsanna og gömul, staðin matarlyktin. Seinni myndin sýnir fyrst og fremst rústir, og svo þetta kertaljós. Táknar bað von eða einsemd? Það er liður í ljóðinu að hér er spurning en ekki svar. Sjálf hreyfingin frá fyrri mynd til seinni miðlar tilfinningum ljóðmælanda, þetta endar í eyðilegum rústum.
Ég skil vel að skáldið setji fyrrnefnda setningu hér á frummálinu, þannig miðlar hún þeim andblæ, sem færi forgörðum í þýðingu. En miðlar hverjum? Ég burfti að hringja í tungumálagarp, og fékk þá að vita að ”bardzo” þýddi afar, ”smutno” dapurlegt, og ”bez ciebie” án þín. Það hefði nú ekki spillt svip bókarinnar að marki að láta þessa þýðingu fylgja, en ljóðið verður áhrifameira við skilning a bessari málsgrein. Og er þá komið að því eina sem ég lái Geirlaugi, hann hugsar ekki alltaf nógu vel um skilning lesandans. Aska með upphafsstaf er vist titill frægrar pólskrar skáldsögu um Pólland, sem alltaf er að risa upp úr öskunni, en hvernig eiga íslenskir ljóðalesendur að vita það? Skáldinu eru nöfnin á bls. 27 sjálfsagt þrungin merkingu, en hvernig eiga lesendur að ná henni í:

og farandsaungvarar
bernard de born er dáði stríð
og
pére vidal ástarær úlfur í elli sinni.

(Áleiðis áveðurs)

En þetta eru lítils háttar aðfinnslur hjá öllu hinu sem er hrífandi.
Módern skáld iðka mörg torskildar tilvísanir. Frægastur er Ezra Pound í Cantos sínum, með klausur á ítölsku og fornfrönsku innan um enska textann, jafnvel kínversk tákn. Mér finnst þó að Geirlaugur hefði fremur átt að fylgja fordæmi T. S. Eliot, sem að sönnu tíðkaði slíkar torskildar tilvitnanir, en lét þá skýringar fylgja í Eyðilandi sínu. En fyrir þennan ritdóm fékk ég skrautritað skammabréf frá Geirlaugi, sem hafði manna fegursta rithönd. Hann sagði það undarlega kenningu og fráleita, að ljóð væru ónothæf nema þau væru auðskilin. En ég bar af mér að hafa þá afstöðu, enda væri ég að semja bók um módernisma í íslenskum bókmenntum (Kóralforspil hafsins, 1992), og væri sannarlega margt í þeim bókmenntum bæði torskilið eða seintekið og jafnframt gott.

Í bókinni Ítrekað 1988, er áberandi tveggja heima sýn. Annars vegar er grámyglulegur hversdagurinn, hins vegar heimur þjóðsagna, riddarasagna, ævintýra. En sá síðarnefndi er alls ekki settur fram sem uppbót a hversdaginn heldur notaður til að afhjúpa að slíkt sé ekki til.


gyllt snið

útigangshrossin
þá leitar fjársjóða í sandinum
bak við myndhvarf bolabítsins
nýfarinn lappabrotinn hrafnétinn
með kjaftrifna marhnútnum
til guðs og englanna
bísperrt fjöllin brunandi yfir fjörðinn
með skitna snjóskafla farfugla
á herðunum
en risaeðlan sem fannst hér í fyrra
er endanlega horfin enn ein sönnunin
enn ein sönnunin

(orðið ,endanlega" er leiðrétting á prentvillu skv. viðtali við skáldið).
Hér er talandinn staddur á strönd, sér til fjalla, sem eru ekki tignarleg - þótt þau hreyki sér eins og menn - heldur hálfhulin skítugum snjó. Í þá mynd falla vel farfuglar og útigangshrossin, táknmynd vanvirðu. Auk þess eru snjóskaflarnir settir fram sem farfuglar, enda hverfulir eftir árstíðum. En talandinn er að leita andstæðu þessa slitna, fjársjóða! Af því tagi, þ.e. annarlegt í þessu umhverfi, er bolabítur. En það er þá bara illa farið hræ sem þar að auki er horfið ásamt öðru hræi sem að vísu er af algengum fiski, en sérkennilegum. Þó munar mest um þriðja hræið, forsögulegt og mjög sjaldgæft, en líka horfið. Hið annarlega er sem sagt allt hrakið, slitið og horfið. Það er gegnumgangandi einkenni á bessum ljóðum, sýnist mér, á þann hátt er heimur ævintýranna orðinn hversdagslegur: álfakóngurinn hefur sagt af sér, Rauður ráðgjafi lagstur í drykkjuskap, englarnir ”líkjast mest úrvinda leðurjakkagæjum hangandi á hlemmi fá aldrei drátt né dóp og langar ekki leingur í". En ofangreint ljóð er margrætt í lokin, var risaeðlan sönnun einhvers eða er hvarf hennar það? Sönnun fyrir hverju? Í rauninni má einu gilda hvort er, aðalatriðið er hugarástand þessa tautandi talanda sem leitar merkingar í náttúrunni, m.a. með því að persónugera hana. Gagnvart þessu hugarástandi verður náttúran enn meira yfirþyrmandi óviðkomandi þeim sem í ljóðinu talar.
Titillinn taknar það hlutfall sem fegurst hefur þótt, hæð 2 á móti grunnlínu 3. Þá er talandinn að íhuga einhvers konar mælikvarða á fegurð gagnvart umhverfi sínu, e.t.v. er hér um að ræða hlutfall ímyndunar og veruleika, annarlegs og hversdagslegs.


Nýtt trúarskáld?
Islensk þjóðtrú og frásagnarhefð er áberandi í þessum ljóðum, t.d. er í eftirfarandi ljóði tekin líking af manni sem rekur kindur með hund sér til hjálpar. Þeir fara í snjó um nótt, hundurinn gjammar að bágrækum kindunum. En um hvað er verið að tala? Hundurinn er tunglið, kindurnar stjörnurnar, en hver er þá fjármaðurinn? Við fáum bara neikvæðar upplýsingar um það, og allt innan ramma þjóðtrúarfyrirbæra. Þá er jafnt afneitað viðkunnanlegum jólasveininum, háskalegri fegurð Álfakóngsins eftir Goethe og Schubert, og óhugnaði íslenskra draugasagna. Hvert stefnir þessi fjármaður eða hirðir? Ferðin er takmark í sjálfri sér, sbr. 9-10. línu. Altént sýna lok ljóðsins að það er ekki Djákninn á Myrká sem leiðir okkur. Það mælir þá gegn örvæntingu, eða hvað? Merkir þetta að engri leiðarvísan sé fylgjandi? Ekki verður meira vitað. Hér er eins og glímt við að ná einhverju, sem mannlegur hugur grípur varla, kannski er þetta þá guð, það liggur í hlutarins eðli að guð er óþekkjanlegur.

fylgd

einhver
á ferð gegnum nóttina

hundur hans
túnglið
hringsnýst
um latrækar stjörnur

gjammandi túngl

á ferð gegnum nóttina
leiðin öll
leiðarendi

marrar í nýsnæinu

einhver á ferð
ekki jólasveinninn
álfakóngurinn

sér hvergi
í hvítan blett í hnakka

Þetta ljóð er sagt með hversdagslegum orðum, og stríðir ekki gegn rökhugsun, eins og oft er með nútímaljóð. Hins vegar eru ljóðin tálguð mjög, til að einbeitingin verði sem mest, sleppt óþörfum orðum, og einkum orðinu ég, enda þótt þau séu ævinlega persónuleg í þeim skilningi að þau eru hnitmiðuð að tilfinningu.
Auðvitað verð ég þegar að bera af Geirlaugi ásökun um að hann hafi verið trúarskáld, og má m.a. nefna í grasgarðinum úr dýra líf og eftirfarandi ljóð því til staðfestingar. Enn fléttar skáldið saman andstæðum, guðsmynd kristinna við hefðbundna mynd af geðstirðum vanmegna öldungi. Hugmyndin er svipuð og í eldra ljóði Sigfúss Bjartmarssonar, skáldbróður Geirlaugs, en útfærð á frumlegan hátt.

gamalmennið

þetta kveinandi gamalmenni
var æviráðinn einnar þjóðar guð
og ginntur síðan til að færast meir í fang

miklu meira en fékk ráðið við
missti öll tök á agentunum
krossfestum kreddufestum krúnurökuðum

krefst virðingar og hlýðni
þá staulast um tautandi
um efsta dag dóminn og upprisu holdsins

orðinn að athlægi fyrir löngu
í öllum betri selskap og meðal þeirra
sem gerst mega vita og sjaldnast þagna

þó hafnar enn ítrekað að draga sig til
hlés eða hverfa til innhverfrar íhugunar

(dýra líf)

Til er forn saga af illum gestgjafa í Grikklandi, sem sneið af ferðamðnnum eða teygði þá, til að þeir pössuðu í gistirúmið. Alltaf er nokkur hætta á að skáld hljóti þessa meðferð hjá túlkendum, jafnvel í mestu vinsemd. Ti1 að forðast það ætla ég nú að koma að ljóði sem ég botna ekki almennilega í. Það rís á andstæðum, annars vegar er forn munaður Faraóa, sem var eilifgjörður í veglegum grafhýsum þeirra, hins vegar er íslenskur einbúi, á sinn hátt líka ”grafinn niður" í greni sínu vanhirtu. Honum gæti virst að tíminn stæði kyrr, hann býr við súrnaða mjólk, andstætt því að njóta ávaxta og ambátta svo sem Faraóar forðum. Ennfremur eru smyrlingar eða múmíur í gervi sígildra bókmennta í hillum hjá honum, andstæðan væri andlegt líf líðandi stundar. Því endar ljóðið á sömu spurningunni og það hófst á, en snýr nú að nútíð í stað fortíðar. Þannig tengjast andstæðurnar í stöðnun. En vonandi komast einhverjir lesendur þessa lengra:

pýramídar

hví reistu þeir pýramída
faróinn íbygginn
leit inn
lagði sig á bekkinn
hæddi myndirnar á veggnum
bragðaði ávextina
valdi sér ambáttir
snýr lyklinum i skránni
grafarfnykurinn velkunnur
leiðist myndin sem hékk hjá ömmu
gleymist að búa um
mjólkin súr í ísskápnum
smurð orð í bókahillunni
hví reisa þeir pýramída

(Ítrekað)

Í sannstæður, 9. ljóðabók Geirlaugs eru 46 ljóð. Þau skiptast í þrjá bálka, sem hver er með sínum hætti. Sá fyrsti, samnefndur bókinni, er lengstur, 26 ljóð, sum ansi biblíuleg, einkum er þar vísað til fyrstu Mósebókar, hvað eftir annað. Ég sé þó ekki trúarlega afstöðu í þeim, en raunar er ekki auðvelt að komast til botns í ljóðunum, þau eru svo samþjöppuð og þrungin vísunum, svo sem títt er um módern ljóð. Ef finna má samnefnara, þá væri það kannski helst beiskja og kaldhæðni. Það má skýra Biblíuvísanirnar, svartsýnin og kuldinn verða enn tilfinnanlegri í búningi "fagnaðarerindisins". Þessi samnefnari einkennir alla bókina, meira eða minna, en samnefnari er lágmark, sem segir því ekki mikið um einstök ljóð. Annar bálkur bókarinnar, "jarðtengsl", er eins og titillinn bendir til, fremur auðskilinn. Sama gildir um lokabálkinn, "Brot af samræðulist útilegumanna". Hann er meiri heild en hinir, sex tölusett ljóð á jafnmörgum síðum.
Í fyrsta bálki eru titlar ljóðanna samræmdir, flestir með staðaratviksorðum;"utan úr geimnum", utan af akrinum", "innst í taugaboðinu", "inni í auganu", o.s.frv. Lítum á ljóð úr þessum bálki:

inn í svartnættið

lostavein graðra bifhjóla
stunur fullnægðra bifreiða

lemstrað tungl stjörnudreif
klæða myrkrið iðandi vef

uns þögnin ginnunga
gleypir allt til morgunverðar

(Sannstæður)

Hér eru snúnir saman ólíkir strengir, losti annarsvegar, ökutæki hinsvegar. Raunar er það alvanalegt í auglýsingum, en virðist með öllu neikvæðari blæ hér, eins og til að sýna lostann sem kaldan og vélrænan. Það má vera í samræmi við það að tala um tunglið sem lemstrað, eina ljósglætan í myrkrinu er því neikvæð. Gap ginnunga hét tómið mikla fyrir sköpun heimsins, skv. Snorraeddu. Hér virðist "þögnin ginnunga" því tákna endanlega tortímingu, og gert lítið úr öllu því sem ljóðið hefur lýst, vélmenningu, losta, myrkri og ljósi, með því að kalla það bara morgunverð.
Í bálkinum jarðtengsl standa saman tvö ljóð sem sýna hugsjónaglóð æskumanns andspænis reikningsskilum hins miðaldra. Lítum á fyrra ljóðið. Það er dæmigert fyrir samþjöppun Geirlaugs á sundurleitum efniviði. Úr Biblíunni kemur það alkunna atriði að veifa pálmagreinum, andstætt öðru fagnaðarmerki, að veifa vodkaflöskum. Sýni það sjálfshyggju og nautnafíkn, þá sýna pálmagreinarnar tilbeiðslu. Hvorttveggja einkenndi samsærismennina forðum, í þessum fáu orðum fáum við því alhliða mynd af raunverulegu fólki, ólíkt einhliða glansmyndum. Aftur á móti verða þeir hálfbroslegir við að svo hversdagslegur hlutur sem símaskrá skuli geyma nöfn þeirra. Þótt brosað væri að þessum hugsjónamönnum forðum, þá verður nútíðarmyndin ömurleg í samanburði við þá, nú eru hugsjónamennirnir "í skápnum". Orðalagið er tekið frá hommum og lesbíum, sem kalla það að koma út úr skápnum að kannast opinberlega við sitt rétta eðli. Hér er það notað víðtækara, fornir félagar mælandans og hann sjálfur eru á allan hátt "í felum", þora ekki að kannast við sjálf sig. Frá þeirri tilveru er engar fréttir að færa, því það er andvana líf. Þetta er skarpt dregið fram með þriðju línu, samsærismenn þurfa að leyna áformum sínum, en nú er engu að leyna, af því að mælandinn hefur svo lengi leynt sjálfum sér! Ekki treysti ég mér til að skýra hvað átt er við með "árituðum póstkortum". Auðvitað má láta sér detta ýmislegt í hug, svosem að hér sé vikið að frægum pílagrímsferðum sumra af "68-kynslóðinni" sem leituðu að tilgangi í lífinu á fjarlægum slóðum, Nepal, Kaliforníu og víðar. En það er bara engin leið að sýna fram á, að sú skýring sé betri en önnur. Og þetta sýnist mér dæmigert fyrir ljóð Geirlaugs, í þeim er oft eitthvað myrkt og einkalegt, sem vekur lesanda grun en ekki vissu. Hér er skáldið raunar í góðum félagsskap margra helstu módernista, sem áður segir.

í skáp

hefur dvalist
í skápnum
því engu að leyna

en innan stundar
kem
fram úr skápnum

veifandi pálmagreinum vodkaflöskum
árituðum póstkortum
og eina eintakinu af gömlu símaskránni

sem geymir nöfn allra samsærismanna
og eiðinn sem sórum
áðren hurfum
hver í sinn skáp

(sannstæður)

Í eftirmælum um Geirlaug spannst ritdeila. Mun það einsdæmi, en á bara vel við þetta skáld, sem var svo frábitið helgislepju og hafði svo gaman af fáránleika. Þetta var ritdeila síðustu tveggja útgefenda bóka Geirlaugs um gæði síðustu verka hans, og í því sambandi var vikið að lífsháttum hans síðustu árin. Þá þekki ég aðeins af þessari afspurn, en hitt vil ég fullyrða, að ljóðagerð hans hrakaði ekki á nokkurn hátt, hann var í fullu andlegu fjöri í þeim tveimur bókahandritum sem lágu eftir hann látinn, gamansamur, tilfyndinn og nákvæmur. Dæmi þess mætti mörg færa, en hér skulum við enda á ljóði í andljóð og önnur. Titillinn er notaður sem stef eða viðlag, en er jafnframt liður í mótsögn, sem sýnir kvikt sálarlíf, og skerpist mest í lokin, hin elskaða virðist að mestu gleymd, en tilfinningin lifir í skörpum minningabrotum. Þetta ástarkvæði sýnir ástríður með þrumuveðri, úrhelli, og dans í því. Auðar götur sýna hvernig elskendurnir hverfast um hvort annað eingöngu, andstæður árstíða birtast bæði í stóru og í ”frosnir fingur píanóleikur”, andstæður tilfinninganna í barsmíð á brjósti ljóðmælanda, og læstri ferðatösku, fullri af loforðum sem greinilega hafa ekki verið haldin.

engu gleymt

ég hef engu gleymt
ekki flóttanum undan
hnífagenginu
hjartslættinum rudda
legum kirkjuklukkum
of snemma á sunnudegi
ekki þrumuveðrinu
þegar dönsuðum
í úrhellinu
eftir auðum götum
alein í heiminum eina
ég hef engu gleymt
brosviprur í augnkrókum
þegar flýgur móti mér
úr mannmergðinni
máttvana hnefar
trommusláttur á brjóst mér
og ferðataskan læst
með öllum loforðunum,
ég hef engu gleymt
eilíft vor og tré í blóma
slap og ógnarkuldi
frosnir fingur píanóleikur
í garðínum hálfhuldir
bekkir og skuggsælir
stígar mórauð áin
og rústirnar við höfðann
ég hef engu gleymt
nema rödd þinni og
andliti
ég hef engu gleymt
engu gleymt
engu gleymt


LJÓÐABÆKUR GEIRLAUGS

Annaðhvort - eða (1974)
Undir öxinni (1980)
Fátt af einum (1982)
Án tilefnis (1982)
Þrítíð (1985)
Áleiðis áveðurs (1986)
Ítrekað (1988)
Sannstæður (1990)
Safnborg (1993)
Þrisvar sinnum þrettán (1994)
Þrítengt (1996)
Nýund (2000)
N er aðeins bókstafur (2003)
Dýra líf (2004)
Andljóð og önnur (2005)
Tilmæli (2005)


Almenn umfjöllun
Jón Kalman Stefánsson: Spurning um að komast af. Viðtal við Geirlaug Magnússon
Tímarit Máls og menningar, 56. árg., 3. tbl. 1995, s. 6-16
Silja Aðalsteinsdóttir: Á líðandi stund .Tímarit Máls og menningar, 66. árg., 4. tbl. 2005, s. 90-95
Skúli Björn Gunnarsson og Kjartan Hallur Grétarsson: Hvert orð er djásn. "Ljóðskáldið Geirlaugur Magnússon heimsótt." Mímir, 34. árg. (42), s. 4-15

Um einstök verk
Annað hvort eða Hrafn Gunnlaugsson: Um Annað hvort eða Eimreiðin, 81. árg., 1975, s. 152-5
Fátt af einu Einar Ólafsson: Fátt af einum : Umsögn um Fátt af einum eftir Geirlaug Magnússon. Tímarit Máls og menningar, 48. árg., 2. tbl. 1987, s. 248-55.
Ítrekað Þórður Helgason: Heimur skíts og stjarna. Ljóðormur, 1989, 9. tbl., s. 57-60
Þrítengt Guðbjörn Sigurmundsson: Orðakræklur verunnar. Tímarit Máls og menningar, 58. árg., 2. tbl. 1997, s. 110-13
Þrítíð Eysteinn Þorvaldsson: Brunnir vegvísar. Ljóðormur, 1985, 2. tbl., s. 42-43



Leiðrétting um Geirlaug Magnússon

Nýlega birtist 4. hefti Stínu, tímarits um bókmenntir og listir. Þar er fjölbreytt efni eftir valinkunn skáld og listamenn auk spennandi nýgræðinga. Ennfremur á undirritaður þar grein um ljóðagerð Geirlaugs Magnússonar (25.8. 1944-16.9. 2005). Leiðrétta þarf eftirfarandi villur:
Í höfundakynningu segir að Geirlaugur hafi búið í Kaupmannahöfn síðustu árin. Hann bjó á Sauðárkróki, þar sem hann kenndi við Fjölbrautaskólann, en síðustu sex mánuðina bjó hann í Kópavogi, dauðveikur af krabbameini.
Ég sagði ranglega að síðustu tveir útgefendur bóka Geirlaugs hefðu háð ritdeilu um gæði síðustu verka hans í eftirmælum um hann. Hið rétta er að Guðmundur Ólafsson hagfræðingur gaf út síðustu bók Geirlaugs, Tilmæli, en Krisján Jónasson hjá Máli og menningu skrifaði góða grein í minningu Geirlaugs í Lesbók Mbl. (19.11. 2005) og hélt því fram að ljóðagerð hans hefði hrakað síðasta áratuginn, samfara verulegri óreglu. Seinni útgefandi Geirlaugs (eftir MM), Benedikt Lafleur, andmælti þessu í Lesbókargrein (5. 12.2005), og undir það tek ég í Stínugrein minni, og reyni að sýna fram á að Geirlaugur hafi ort af óbiluðu listfengi og andagift ævina út.

föstudagur, 1. maí 2009

Refur dró hörpu á ísi

Í Árnasafni í Kaupmannahöfn er ég í lestrarhópi ásamt sumu starfsfólki Fornmálsorðabókar íslensku. Nú erum við að lesa Morkinskinnu, sem segir sögu Noregskonunga frá Haraldi harðráða fram á 12. öld. Hún er mjög vel orðuð víða og skemmtilegar sögur í henni, t.d. Sneglu-Halla þáttur, sem margir kannast við. Tilhlökkun er að brátt birtist Morkinskinna í Íslenskum fornritum.
Í Sveinkaþætti Morkinskinnu segir að um aldamótin 1100 sendi Magnús konungur boð til Sveinka sem réð fyrir héraðinu þar sem Gautaborg er núna, og krafði hann um skatt. Sveinki svarar í þremur atlögum. Þar koma fyrir líkingar, sem staðið hefur í mörgum að skilja. En mér sýnist það vegur eftir skýringar Aðalsteins Eyþórssonar, listmálara m.m. Þær fékk ég framsendar í tölvupósti og leyfi mér að tilfæra nokkuð úr. Ekki á við að hafa það orðrétt, og endursegi ég bara meginatriði um orðalag sem víðar kemur fyrir í fornritum: "Era hlums vant, kvað refr, dró hörpu at ísi".

1.Aðalsteinn segir að "draga e-ð at ísi" merki að draga e-ð eftir ís, og lesa beri: "era hlunns vant ..." Era merkir: er ekki.
2.Hlunnur er spýta eða hvalbein sem bátur er dreginn eftir á landi (til að drátturinn verði léttari) - þar er komin tenging við það að draga. Refurinn segi að hann sé svo sterkur að hann þurfi engan búnað til að draga það sem hann dregur.
3. seinni parturinn, lýsingin á aðstæðunum, geri tilsvarið í fyrri partinum hlægilegt.
4. því það er frekar auðvelt að draga hluti eftir svelli, sérstaklega ef það eru léttir hlutir.
5. Harpa er frekar létt - en furðulegt að refurinn sé að þvælast með hljóðfæri á svellinu.
6. Reynt hefur verið að laga þetta eitthvað með því að gera ráð fyrir að "harpa" merkti þarna hörpuskel - en engin dæmi séu um það, hvorki fyrr né síðar að "harpa" sé í þeirri merkingu. Og ”af hverju er refurinn með hörpuskel? - er þetta þá við sjóinn? er ísinn hafís?”

Svo langt vitna ég til Aðalsteins. Tilgátan um að "harpa" merki í þessu sambandi hörpuskel er í forníslenskri orðabók Guðbrands Vigfússonar frá miðri 19. öld, sem jafnan er kennd við kostarann, breska auðmanninn Cleasby.
Rétt er að ýmis tilsvör Sveinka eru torskilin hvert um sig, en mér sýnist þó unnt að ná skilningi ef þau eru tekin í samhengi og litið á aðstæður hans, hann hefur mikið og traust fylgi í heimahéraði sínu, og er ú í Osló með 500 manna liði, en er aðþrengdur af sendimönnum konungs, þeir mæla fagurt, en hann má ætla að honum sé mikil hætta búin, sami konungur er nýbúinn að láta hengja tvo lenda menn fyrir uppreisn gegn sér. Reyndar minnir sendimaður konungs á það, svo vinsamlega sem hann annars talar. Svo Sveinki stendur á sínu, þrjóskufullur, en andmælir ekki berum orðum, er svolítið ráðgátulegur. Deilur og reiði magnast þó stig af stigi milli hans og Sigurðar talsmanns konungs.
Þegar orð þykir ankannalegt í samhengi, gefst oft vel sú tilraun að skipta um orð. Ef sett er karl eða kerling í stað refs hér að ofan, glatast nokkuð svipað og ef sett er hundur eða hestur. Hefðbundið er að refur vísi til slægðar, og má hún þykja einkenna sendimenn konungs hér eða hann sjálfan, alla vega þykjast þeir slægir að dómi Sveinka. En hversvegna dregur refurinn hörpu? Ef sett er t.d. gás í staðinn (refurinn þyrfti ekki að draga minni fugl, svo sem rjúpu eða lóu, hann bæri hann í kjaftinum), þá verður útkoman ómerkileg, sjálfsagður hlutur; auðvitað notar refur ekki hlunna til að draga fugl! Hér þarf því tilvísun til mannheima, eins og felst í orðinu refur. Í fornsögum (og kvæði Gríms Thomsen) segir frá Áslaugu, sem fólst í hörpu. Það hefur þá verið stór harpa lík því sem sést á sviði hljómsveita nú á dögum, nett telpa gæti hugsanlega dulist í hljómbotninum, þótt varla bætti það hljóminn. En það væri allt of mikið afrek refsins að draga slíka hörpu, hér á við að hugsa til írskrar hörpu, t.d., sem hljóðfæraleikarinn hélt í annarri hendi, en sló hinni.
En hví hörpu? Ef við nú setjum annað úr mannheimum, t.d. algengt verkfæri, í staðinn, reku eða heykvísl, þá verður þetta alþýðlegt, þar sem harpa vísar frekar til höfðingja, sendimanns Magnúss konungs, sem hér er kallaður refur.
Ragnar Önundarson tengdi (í tölvupósti til mín) hörpuna við fagurgala. Það á mætavel við. Þá er Sveinki að segja eitthvað á þá leið að undirförull (refslegur) sendimaður konungs fari með fagurgala, sem lýsir vel undanfarandi ræðu þessa manns, og að sá þykist fara létt með þetta, en hann, Sveinki, sjái í gegnum það. Enda segir hann næst: "Snælega snuggir sveinar, kváðu Finnar, áttu andra fala". Með orðalagi nútímans: "Það virðist ætla að fara að snjóa, sögðu Finnar, þeir höfðu skíði til sölu." Enn er hér viðvörun við fagurgala, auglýsingamennsku. Raunar virðist Sveinki vísa til sendimanna konungs með orðinu refar síðar í tölu sinni, þegar hann segir "Putt, putt, skömm hunda, skitu refar í brunn karls." Raunverulegum refum er ekki ætlandi slík fyrirtekt, svo hér mun Sveinki vera að eggja lið sitt, að láta ekki aðkomna varga vaða yfir sig eins og bæjarhundarnir gerðu. Enda sigar hann síðan mönnum sínum á sendimann Magnúsar konungs, sem komst undan með naumindum.
En af öllu þessu sést að þetta orðalag "Era hlunns vant kvað refur, dró hörpu á ísi" rís upp af þeim aðstæðum sem lýst er í Sveinkaþætti Morkinskinnu, svo önnur rit sem hafa þetta orðalag munu hafa þegið það frá Morkinskinnu, sem þá er eldri - hafi það ekki verið ljóst fyrir. Þetta er í Mágussögu jarls og þriðju málfræðiritgerðinni, svo sem Helle Degnbol benti mér á.
Þá á framangreint orðalag, gort um að þurfa ekki hlunna til að draga hörpu á ísi, við sem háð um þá sem láta mikinn, en af litlum burðum.
POSTED BY

fimmtudagur, 30. apríl 2009

Um Maríubréf Einars Más Jónssonar

Frönskum spekingum hallmælt
Bréf til Maríu eftir Einar Má Jónsson (hér EMJ) vakti mikla athygli og maklega strax þegar hún kom út árið 2007. Bókin er metnaðarfull, tekst á við margskonar öfugþróun alþjóðlega undanfarna áratugi og setur í heildarkerfi. Þar er fjallað um sókn nýfrjálshyggju gegn velferð, um einföldun í kennslumálum, húsavernd, mengun og margt fleira sem mikið hefur verið í umræðu um langt skeið. Bókin er aðdáanlega vel skrifuð og af mikilli yfirsýn. Hún hefði þó orðið stórum notadrýgri, hefði hún verið prýdd nafnaskrá, að ekki sé talað um atriðisorðaskrá. Þar er ekki einu sinni efnisyfirlit, og er þó víða komið við á 350 bls. Fæstir munu nenna að lesa bókina alla aftur til að rifja upp eitthvert eitt atriði eða tvö.
Mikið hefur verið um þessa bók fjallað, og finnst mér merkilegust umfjöllun Hjörleifs Finnssonar og Davíðs Kristinssonar í Hugi, tímariti heimspekinga, 2007. Þeir gagnrýna EMJ fyrir hughyggju, hann láti sem öll þróun stafi af hugmyndaboðun, en sinni þar ekki þjóðfélagsbreytingum. Eins og fleiri telja þeir að hann gefi alltof einhliða jákvæða mynd að því velferðarsamfélagi sem ríkti fyrir 20-30 árum, og nýfrjálshyggja hefur ráðist gegn undanfarna áratugi. Einnig átelja þeir félagar yfirborðslega umfjöllun bókarinnar um ýmsa franska spekinga sem komið hafa fram undanfarna hálfa öld. Hins vegar fjalla þeir Hjörleifur og Davíð lítið um kenningar þessara spekinga en þeim mun meira um jákvæðar viðtökur þeirra, rekja hvernig ýmsir merkismenn hafi metið þá miklu meira en EMJ gerir. Í þessari grein þeirra eru dregin saman meginatriði annarrar umfjöllunar, og læt ég nægja að vísa þangað.
Meginatriði Bréfs til Maríu er að rekja þá öfugþróun sem lýsir sér í afnámi velferðarkerfisins, hnignun skólakerfis og almennrar menntunar, og alþjóðavæðingu nýfrjálshyggju. Þótt undirritaður hafi mikla samúð með þeim málflutningi EMJ, get ég ekki orða bundist um sumt annað í ritinu.
Það er sérstakt íhugunarefni hversvegna Kommúnistaflokkur Frakklands reyndist engin vörn gegn sókn auðvaldssinna. Fékk hann þó fjórðung til fimmtung atkvæða í þingkosningum áratugum saman eftir seinni heimsstyrjöld, og réði stærstu verkalýðs-samtökum landsins. Hann var hins vegar toppstýrður eins og aðrir stalínistaflokkar, umræður um stefnuna voru illa séðar því þær voru taldar geta orðið til að rugla alþýðuna í ríminu. Flokksstjórnin lagði línuna, og eins og systurflokkar hans var kommúnistaflokkur Frakklands undirlagður af íhaldssemi í menningarmálum, þjóðernisstefnu, stéttasamvinnu og leiðtogadýrkun. Ekki er að undra að þjóðrembuflokkur Le Pen yst á hægri væng stjórnmála skyldi taka við fylginu þegar kommúnistaflokkurinn hrundi.
Miklu rúmi í bókinni er varið í hugleiðingar um hnignun klassískrar menntunar. EMJ býsnast mikið yfir því að grískunám og latínu skuli hafa verið fellt niður eða gert valfrjálst í menntaskólum Evrópu. Það nám veitti að hans mati djúpan skilning á tungumálum, og þá einnig á eigin móðurmáli nemenda. Það þjálfi hugann að læra beygingamál, og kunnátta í grísku og latínu opni fólki menningarsamband við árþúsundir. Þetta hafi nú glatast að mestu.
Ef við berum saman menntamenn frá Cambridge, Oxford og slíkum stöðum fyrir svo sem öld, og svo menntamenn núna, þá sjáum við áberandi mun. Í fyrsta lagi hafa miklu fleiri hlotið æðri menntun nú – mun stærri hluti þjóða. Þegar við Einar Már urðum stúdentar náði um tíundi hluti íslenskra jafnaldra okkar þeim áfanga, en nú er það helmingur. Eðlilega verður heildarmynd þeirra nokkuð önnur. Í öðru lagi lærðu vesturevrópskir menntamenn á 19. öld einkum grísku og latínu, svo og bókmenntir þeirra fornmála. En nú á dögum hefur fólk með sambærilega menntun hins vegar lært hin fjölbreyttustu tungumál víðsvegar um heim: arabísku, persnesku, swahili, kikújú, kínversku, japönsku, malaísku, ýmis mál frumbyggja Ameríku, og svo mætti lengi telja, tungumál af mjög mismunandi gerð og beygingakerfi. Þetta ætti að veita skilning á ýmiskonar háttum tungumála, ekki síður en klassísku fornmálin. Þessari málakunnáttu fylgir þekking á miklum bókmenntum, goðsögum og öðrum sögnum víða um heim; miklir menningarheimar opnast Vesturlandabúum. Og menn með kunnáttu á mismunandi sviðum geta borið saman bækur sínar og fengið þannig miklu víðfeðmari þekkingu en grískumælandi stúdentar Cambridge fyrir öld. Smám saman getur slík þekking breiðst út um samfélagið. Ég kenni íslensku í stærsta málaskóla Danmerkur, þar eru kennd 40 mismunandi tungumál hvaðanæva af hnettinum. Við kennararnir höldum annað veifið smáfyrirlestra yfir hvert öðru, þar sem við kynnum sérkenni þeirra tungumála sem við kennum. Og þótt þetta sé alþýðlegur málaskóli skapar þetta dýpri skilning á eðli tungumála en ég hefi áður átt kost á. Mér finnst þröngsýn afturhaldssemi að kalla þessa breytingu á málakunnáttu afturför.
Ég fann það að bók EMJ við fyrsta lestur, að þar væri helsti yfirborðsleg gagnrýni á ýmsa fræga menntamenn franska. En þá var þess að gæta, að sá kafli (einkum bls. 70-134) er fyrst og fremst liður í heildinni, til að skýra hversvegna hin mikla hreyfing franskra menntamanna, sem flestir voru vinstrisinnaðir, hafi koðnað niður andspænis sókn nýfrjálshyggjunnar. Og það tekst EMJ nokkuð vel, svo sem Ármann Jakobsson rakti ljóslega í Tímariti máls og menningar vorið 2008. EMJ rekur að eftir að menn höfðu áratugum saman tamið sér gagnrýnislausa aðdáun á órökstuddum kenningum og snobb fyrir því fámenna liði sem útskrifaðist úr úrvalsskólanum sem EMJ kallar Kennaraháskólann (École normale superieure), var það varnarlaust gegn nýjum tískukenningum, enda batt hrun Sovétríkjanna enda á fyrri tísku marxisma. Öll umfjöllun EMJ um slíka menntatísku er athyglisverð enda þótt feiknamikið efni sé tekið fyrir. Að því leyti sem ég þekki er gagnrýni hans nokkuð réttmæt, svo langt sem hún nær. Hún nær bara helsti stutt, þessir menn létu einnig ýmislegt gott af sér leiða, og vil ég lítillega víkja að því fáa sem ég þykist þekkja til. Það liggur í hlutarins eðli að fáir sem engir hafa yfirsýn yfir franska spekinga í hálfa öld, varla EMJ, og ekki ég. Eins og EMJ hefur mér oft blöskrað hve gagnrýnislaust ýmsir íslenskir menntamenn hafa tekið upp sumar þessar kenningar – yfirleitt eftir Bandaríkjamönnum – og skellt þeim á bókmenntaverk sem túlkun þeirra, án þess að huga að öðrum túlkunarmöguleikum. Að því hef ég vikið í nýrri bók minni, Seiðblátt hafið, og vísa þangað (einkum í umfjöllun sem hefst á bls. 213, 283, 339, 360).
Þessir frönsku höfundar beittu oft ýkjum til að vekja athygli á máli sínu, og sæti síst á EMJ að hneykslast á slíkum aðferðum. En þegar EMJ átelur hve mikla athygli og fylgi rit þessara menntamanna fengu, enda þótt þau einkenndust af órökstuddum fullyrðingum, vil ég setja í fylkingarbrjóst helsta tískuspekinginn, Jean-Paul Sartre. Ég get ekki dæmt um heimspekirit hans, sem heimspekilærðir kunningjar mínir þó gera lítið úr. Þeir sögðu að það væri af því að hann væri fyrst og fremst skáld. En bókmenntafræðingar sögðu aftur á móti, að skáldverk hans væru svo sem ekki merkileg, en það væri af því að Sartre væri fyrst og fremst heimspekingur. Mér fannst hann þokkalegt miðlungsskáld, en fráleitt að bjóða honum Nóbelsverðlaun – sem hann svo hafnaði. Ég vil hér aðeins nefna þykkt rit Sartre af sama tagi og þau rit sem Einar Már fjallar um; Hvað eru bókmenntir? (Qu’est-ce que la littérature) frá 1948. Þar fylgir hann í aðalatriðum ritum rússneska sósíalistans Georgs Plekhanov frá því um aldamótin 1900 í því að rekja megindrætti bókmenntaþróunar næsta beint til breytinga á þjóðfélagsástandi (sbr. bók mína Rauðu pennarnir, bls. 9 o.áfr.). Sá dólgamarxismi einkenndi síðan bókmenntaumfjöllun stalínista – og krata. Samkvæmt honum hljóta bókmenntir og önnur menning að vera spillt og dauðanum vígð á tímum auðvalds og drottnunar borgarastéttar – nema þær séu sannar verkalýðsbókmenntir í andstöðu við spillinguna. Aldrei nefnir Sartre Plekhanov í þessu riti, né vitnar hann til neinna annarra heimilda. Þarna var illt fordæmi, sem naut víðtækrar virðingar.
Um marxíska heimspekinginn Louis Althusser segir Einar Már (bls. 107): „Eftir Althusser liggur nú fátt bitastætt nema þessi sjálfsævisaga, sem er tvímælalaust með helstu ritum áratugarins, þótt það standi eitthvað í mönnum að viðurkenna það, önnur verk hans eru sennilega lítils virði.“ Felst ekki í orðinu „sennilega“ viðurkenning á því að Einar Már hafi ekki lesið þessi rit? Altént sýnir hann enga þekkingu á þeim.
Eitt frægasta rit Althussers kom út 1965, og bar titilinn Fyrir Marx (Pour Marx). Þar réðst hann gegn grundvallarkenningu stalínismans, þeirri að efnahagslífið væri sá grundvöllur sem ákvarðaði allt annað, stjórnmálalíf og menningarlíf mótuðust af því. Þessi bók Althussers hafði gífurleg áhrif á óánægða og leitandi kommúnista um heim allan, ekki er ofmælt að hún hafi öðrum fremur brætt þann jökul kreddukenninga sem grúfði á kommúnískum menntamönnum. Síðan átti fleira eftir að bætast við af svipuðu tagi. Það er rétt hjá Einari Mávi að raunar höfðu aðrir áður lagst gegn ríkjandi dólgamarxisma, og eins og Althusser benti á urðu engir aðrir en Marx og Engels fyrstir til þess! Það hef ég rakið í upphafi bókar minnar Rauðu pennarnir (bls. 1):
Marx og Engels [...kenndu] að öll svið mannlífsins tengist sín á milli, orki hvert á annað, og ákvarðist þannig sögulega, að skipulag framleiðslulífsins ráði mestu þegar til lengdar lætur. Þetta er „víxlverkan á grundvelli efnahagslegrar nauðsynjar, sem hefur sitt fram að lokum“, sagði Engels 1894: „Það er ekki vitund manna sem ákvarðar tilveru þeirra, heldur er það þvert á móti félagsleg tilvera þeirra sem mótar vitund þeirra“ sagði Marx 1857. Þetta hefur oft verið rangtúlkað svo, að öll fyrirbæri mannlífsins megi leiða út frá efna¬hags¬lífinu. Það kallast vélgeng efnishyggja (eða dólgamarxismi). En Engels heldur áfram: ”Það er ekki svo að skilja, að efnahagslífið eitt sé virk orsök, og allt annað aðeins óvirk afleiðing. Því fjær sem eitthvert svið mannlífsins er efnahagslífinu, því nær sem það er hreinum, óhlutbundnum hugmynda-heimi (t.d. bókmenntir og listir), þeim mun fremur finnum við tilviljanir í þróun þess, því meiri sveiflur eru á línu þróunarinnar. En sé dregin miðlína þessara sveiflna, mun sannast, að hún nálgast þróunarlínu efnahagslífsins því meir sem sviðið er víðara, og tímaskeiðið lengra sem við skoðum.”
Þó ekki sé nema út frá þessu um Althusser má sjá að það nær engri átt hjá Einari Mávi að afgreiða franskan „menntamannamarxisma“ sem tóman belging. Sú hreyfing átti ríkan þátt í að steypa mjög útbreiddum dólgamarxisma stalínismans.
Helsti snaggaraleg er afgreiðsla Einars Más á þeim mikilvirka höfundi Roland Barthes, því hann víkur bara að einni grein hans, en sú fjallar um “dauða höfundarins”. Auðvitað er rétt hjá EMJ að fráleitt er að halda því fram að einstakur höfundur skipti engu máli, tíðarandinn eða eitthvað þvílíkt tali í gegnum hann, móti verk hans. En sannarlega hefur slíkt eitthvað að segja, auðséð eru samkenni skáldahóps tiltekins tíma og umhverfis. Þegar skáld sest niður við að yrkja gengur það inn í sérstakt hlutverk, hefur ákveðin markmið og viðmið, sem iðulega eru sameiginleg fólki sem býr við mjög mismunandi aðstæður. Nægir að minnst íslenskra nýrómantískra skálda um aldamótin 1900, bæði karlar og konur, sum efnuð, önnur blásnauð, sum urðu langlíf, önnur voru feigðinni merkt frá unglingsárum og urðu skammlíf. Ekki sést þessi munur lífsskilyrða á verkum þeirra að mínu mati (sjá nánar seinni hluta bókar minnar Seiðblátt hafið, einkum bls. 415-426). Barthes lagði líka ýmislegt hlutlægt af mörkum, t.d. ráðlagði hann fólki (í bókinni Núllstig skrifta – Le degré zéro de l’écriture, 1953) að kanna stíl texta með því að umrita hann með sem allra venjulegasta orðavali og orðaröð, þá væri komið hnitkerfi til að miða frávik textans frá núllstigi ásanna tveggja, orðavals og orðaraðar; á þeim grundvelli mætti meta stíleinkenni hans, frávik frá hversdagslegasta máli. Í greininni Hvar á að byrja – (Par où commencer 1970 í Nouveaux essais critiques) lagði hann til að líta á skáldaða sögu sem svartan kassa, og bera saman upphaf sögunnar og lok, til að sjá í fljótu bragði hvað gerðist í henni. Þetta heyrði ég einu sinni í Norræna húsinu fyrrnefndan Ármann Jakobsson gera við skáldsögur Halldórs Laxness með ágætum árangri. Litla bók (S/Z, 1970) skrifaði Barthes sem túlkun á smásögu eftir Balzac. Þessi greining Barthes er fjórfalt lengri en smásagan, og því ekki fallin til eftirlíkingar. En hún hefur haft mikil áhrif til að opna augu fólks fyrir hlutverki einstakra setninga, því hann greinir þær í endurlit, framsýn, tuggur, tilvísun til samtímans og fleira af því tagi. Þar má læra margt um byggingu skáldsagna. Hér mætti nefna enn einn áhrifamikinn túlkanda í hópi franskra menntamanna, en það er Gérard Genette. Hann hefur gert greiningar á skáldsögum þar sem fjallað er um mismunandi hlutverk sögumanna, sjónarhorn, undirtexta og fleira í þeim dúr strúktúralisma. Eitt frægasta rit Barthes er loks Goðsögur (Mythologies, 1957), en þar rakti hann duldar forsendur eða boðskap ýmissa hversdagslegra fyrirbæra samtímans, auglýsinga, dægurlaga og ljósmynda, auglýsinga, dægurlaga o. fl., t.d. ljósmynd af svertingja sem hyllir franska fánann. Er ekki augljóst að slík mynd er réttlæting á nýlendustefnu Frakka í Afríku? Heyrt hef ég EMJ hallmæla þessari bók, en mér er alveg sama þótt Barthes hafi verið ráðinn til að skrifa hana, þarna er margt lærdómsríkt.
Og þetta leiðir okkur að Jacques Derrida. Það sem ég hef lesið eftir hann sýnist mér EMJ sannorður um að margt er þar myrkt. En það er ekki allt og sumt, maðurinn hefur með afbyggingu sinni (déconstruction) vísað veginn að kanna duldar forsendur ýmis konar fræðirita og annarra rita sem taka afstöðu, oft án þess að lýsa henni yfir. Til þess fer Derrida mikið í orðalag rita sem hann fjallar um, og dregur fram hvernig ýmsar líkingar þeirra byggi á forsendum sem alls ekki séu sjálfsagðar, heldur hafi lesendur gott af að velta þeim fyrir sér, þeir gætu reynst ósammála þeim. Það er róttæk gagnrýni og heilsusamleg sjálfstæði lesenda.
Torlesið þykir margt í Foucault. Og auðvitað er rétt hjá EMJ að það væri fráleitt að segja fólk lokað inni í hugarkvíum síns tíma, það geti alls ekki skilið hugarheim annarra tímaskeiða eða menningar. Það væri þá óskiljanlegt að fólk skuli hrífast af bókmenntaverkum fyrri tíðar, svo sem forngrískum leikritum, íslenskum fornsögum og Shakespeare, t.d. Þetta hef ég rakið nánar í bók minni Seiðblátt hafið (bls. 10-16). En eitthvað er þó til í þessu hjá Foucault, augljóslega bera mörg verk tiltekins tímabils sameiginlegt svipmót, ganga út frá sameiginlegum forsendum, sem lesendum væri fróðleikur að leiða í ljós. Nægir Íslendingum að hugsa til þjóðskálda sinna á 19. öld og Íslendingasagna til að sjá það. Er ekki augljóst að nútímafólk með almenna þekkingu á t.d. sálfræði, mannfræði, hagfræði, líffræði, o.s.frv. lítur öðru vísi á manneðlið og samfélagið en t.d. Hallgrímur Pétursson og Jónas Hallgrímsson? Auðvitað hindrar það okkur þó ekki í að njóta verka þessara manna til fullnustu. Eitt frægasta rit Foucault er doktorsrit hans frá 1961 um breytilega afstöðu til geðsjúklinga á mismunandi tímum; Geggjun og bilun. Saga geðveiki á nýöld (Folie et deraison. Histoire de la folie à l'âge classique 1961). Sjálfur hafði hann verið illa haldinn af geðveiki áratug áður með endurteknum sjálfsmorðstilraunum. Foucault heldur því fram að á miðöldum hafi geðsjúklingar notið nokkurrar virðingar, sem andsetnir og með aðra hugsun en meðaljón, þeir voru viðurkenndur hluti samfélagsins. Holdsveikisjúklingar voru hinsvegar sniðgengnir, einangraðir vegna smithættu. En þegar holdsveiki var að mestu útrýmt í Evrópu hafi geðsjúklingum verið ýtt inn í samfélagslegt hlutverk holdsveikra og fylltu hæli þeirra við illan aðbúnað. Mestu skipti þörf samfélagsins til að öðlast tiltekna sjálfsmynd með því að útiloka ákveðinn hóp fólks, geðsjúklinga, glæpamenn og örbjarga fólk. Þetta má kalla athyglisverða tilgátu, sem auðvitað skal ekki trúa umsvifalaust, heldur kanna með athugun sögulegra heimilda á ýmsum tímum. Þarna er mikilsverð sögusýn sem mér virtist Foucault rökstyðja sannfærandi.
Ólíkt EMJ álít ég að það hafi sýnt sig að veraldarvefurinn, alnetið, er afbragðs tæki sem almenningur getur notað til að vinna bug á upplýsingaeinokun valdhafa. Enda hatast einræðsstjórnir við það og reyna með öllum ráðum að takmarka það, víða um heim.
Hér hefur verið farið fljótt yfir sögu, enda ekki ráðrúm hér til að reyna að gefa eitthvert alhliða yfirlit um þessa spekinga. Sameiginleg er þeim róttæk gagnrýni á ýmis fyrirbæri samfélags og menningar sem venjulega eru sett fram sem sjálfsagðir hlutir. Skrif þeirra eru þannig byltingarkennd og stuðla að sjálfstæðri hugsun almennings. Ekki skal þetta hér rakið frekar en þeim sem lesa ensku – eða frönsku! – skal bent á yfirlit um þessa menntamenn í alfræðiritum svo sem Encyclopédie Universalis, Encyclopædia Britannica eða Den store danske Encyklopædi (þar eru stuttorðustu pistlarnir, hún verður bráðum ókeypis á alnetinu). Þeim sem fjarri eru bókasöfnum með erlend alfræðirit en hafa netaðgang skal bent á netalfræði (http://en.wikipedia.org). Auðvitað er ekki öllu að treysta sem stendur í því alfræðiriti, sömdu af allskyns fólki, hundruðum þúsunda saman um heim allan. En sama gildir um bækur! Ekki þykir við hæfi að birta orðréttar tilvitnanir úr þessari alnetsalfræði því hún er síbreytileg, götótt og enn í vinnslu. En þar er stuttorður leiðarvísir til helstu rita þessarra spekinga og ekki mun hann hverfa við endurskoðun.
Ofangreind dæmi nægja til að niðurstaðan verður sú, að EMJ sé alltof illmáll um þessa spekinga, ráðist á garðinn þar sem hann er lægstur í skrifum þeirra, en sniðgangi hið merkasta, eins og ýmsir gagnrýnendur hans hafa orðað það. Hvort sem um er að kenna vanþekkingu eða íhaldssemi, – eða bara viðleitni til fyndni með öfgum – spillir þetta mjög riti hans. Í orði kveðnu berst það fyrir upplýsingu, en ég óttast að það vinni frekar að því að loka hugum fólks fyrir nýjum hugmyndum.
Tilvitnuð rit:
Einar Már Jónsson: Bréf til Maríu. Rvík 2007.
Ármann Jakobsson: Einar Már og auðhyggjurétttrúnaðurinn. TMM 2, 2008, bls. 130-134.
Hjörleifur Finnsson og Davíð Kristinsson: ”Sápukúlur tískunnar” í Hugi 2007, bls. 142-178.
Örn Ólafsson: Rauðu pennarnir. Rvík 1991.
Sami: Seiðblátt hafið. Kaupmannahöfn 2008.
Wikipedia.org: greinar um umrædda höfunda.
Ég þakka Agli Arnarsyni, Magnúsi Haukssyni og Andra ritstjóra yfirlestur. Ekki bera þeir þó ábyrgð á neinu hér, enda fór ég ekki alltaf að hollráðum þeirra.

des. 2008 – birt i TMM 1. hefti 2009.

Hrunið

12.11.2008 | 15:39

Það er ekkert nýtt að kreppa verði í því efnahagskerfi sem ríkt hefur um veröld víða undanfarnar aldir, og kennt er við auðvald. Frjálsri (raunar misfrjálsri!) samkeppni fylgir offramleiðsla á vörum sem þóttu söluvænlegar, síðan kemur sölutregða, gjaldþrot o.s.frv., svo aðeins eitt sé talið. Slíkar kreppur hafa riðið yfir heiminn hvað eftir annað í meira en öld. En sjaldan hafa þær orðið eins svakalegar og nú, einkum hefur Ísland aldrei orðið fyrir öðru eins. Skýringin virðist mér liggja í augum uppi. Um langt skeið hafa svokallaðir nýfrjálshyggjumenn prédikað að best sé að láta öfl markaðsins einráð, öll ríkisafskipti séu til ills eins. Nei, það hefur nú sýnt sig að auðvitað verða sumir stjórnlausir í græðgi og því þarf opinbert eftirlit og aðhald ríkisins. Enda eru til sérstakar stofnanir sem eiga að annast það, Fjármálaeftirlit og Seðlabanki. Þær brugðust bara hlutverki sínu, og virðist nærtækt að kenna um fyrrgreindum áróðri nýfrjálshyggjumanna gegn ríkisafskiptum, hann hefur lengi drottnað í íslenskum fjölmiðlum.
Bankarnir höfðu áður tiltekna bindiskyldu, leggja skyldu þeir fé til hliðar í hlutfalli við lánveitingar. Þessi bindiskylda bankanna var skert. Hefðu þeir farið á hausinn ella? Hér kemur til ábyrgð Seðlabankans og auðvitað yfirboðara hans í ríkisstjórn. Þetta fólk á að víkja úr þeim stöðum sem það svo augljóslega ekki gat valdið. Það er haft eftir Davíð Oddssyni að á fundum Seðlabankastjórnar hafi honum hundleiðst þetta hagfræðikjaftæði, sem hann botnaði ekkert í. Er þá ekki löngu tímabært að maðurinn víki? Ekki þarf að óttast um afkomu hans, ólíkt margra annarra Íslendinga. Það hefur sýnt sig að þessa bindiskyldu bankanna þarf.
Nú boða sumir þjóðarsátt og allsherjarfyrirgefningu afglapa í efnahagslífinu. En þetta fyrirgefningarkjaftæði undir fyrirsögninni "Allar erum við syndugar systur" er bara til að drepa öllu á dreif, og reyna ekki einu sinni að skilja hvað fór úrskeiðis. Jafnvel sannkristið fólk boðar þó einungis fyrirgefningu þeim sem iðrast gerða sinna, uppgjör þarf. Enda væri hlægilegur dónaskapur að segjast fyrirgefa fólki eitthvað sem það þykist hafa gert rétt. Það á t.d. við um forstöðumann "Fjármálaeftirlitsins" svokallaða, sem sagði að það hefði fylgst með að "ekkert ólöglegt" hefði verið gert í útrásinni. Var það nóg? Ætti ekki eftirlitið að fylgjast með því líka hvort eitthvað væri óráðlegt, hættulegt?
Sagt hefur verið að meðal mótmælenda séu sundurleitir hópar, einnig vonsviknir verðbréfabraskarar. En hvaða máli skipta þeir? Er ekki aðalvandamálið afkoma íslensks alþýðufólks? Mér sýnist full ástæða til að hafa áhyggjur af henni, með fyrirsjáanlegt atvinnuleysi í stórum stíl og gengistryggð húsnæðislán. Ennfremur er núna óhugsandi fyrir unga Íslendinga að stunda framhaldsnám erlendis, og ríður þó á miklu að auka menntun landsmanna til að skapa ný atvinnutækifæri.
Mestu skiptir að til að forðast svipaðar hrakfarir síðar verður að upplýsa ferlið, hversvegna hrunið varð.
Auðvaldinu fylgja óhjákvæmilega kreppur hvað eftir annað, það hefur sagan sýnt. En því miður virðist ekki vera nein grundvallarandstaða gegn auðvaldi á Íslandi. Ekki einu sinni Vinstrigrænir hafa sósíalisma á stefnuskrá sinni mér vitanlega. Og í því tómarúmi er hætta á að upp komi fasísk hreyfing, krafa um gjörræði, andúð á útlendingum og fleira af því tagi, sem mestu böli olli á síðustu öld.