fimmtudagur, 20. maí 2010

Skæðar kreddur

Það er merkilegt hve snöggvinsælar ýmiskonar ruglkenningar verða, og þá alveg án raka. Jafnvel snýst fólk skyndilega stórhópum saman 180° í skoðunum. Frægasta dæmið er væntanlega hvernig stalínistar sneru byltingarmönnum yfir í íhaldsgaura og fasista, en reyndar þurfti mikið blóðbað til, fyrirbyggjandi borgarastríð hefur það verið kallað, og ferillinn tók áratugi.

Kynhneigðarfrelsi
Nýlegt dæmi er svo enn nokkuð sem kallast Queer-teori víða um heim. Ættum við að kalla hana „kynuslakenningu“ á íslensku?
Samkynhneigt fólk sem óralengi hefur verið sniðgengið, og oft beinlínis ofsótt fyrir það eitt að vera eins og það á að sér, finnur nú huggun í þeirri kenningu, að það þurfi alls ekki að vera eins og það er. Kynhneigð sé nefnilega fljótandi og eiginlega valfrjáls, en mótist mikið af samfélaginu.
Sagt hefur verið að kynuslakenningin fjalli ekki fyrst og fremst um samkynhneigð, heldur setji öllu heldur spurningarmerki við að gagnkynhneigð sé eitthvað eðlilegt og sjálfsagt. Til er sú útgáfa kenningarinnar að í rauninni sé allt fólk mögulega (latent) samkynhneigt. Og auðvitað er fráleitt að flokka fólk eftir kynhneigð þess, jafnfráleitt og að flokka mannkynið í kristna eða ekki kristna, múslima og aðra, grænmetisætur eða kjötætur, óperuunnendur eða dægurlaga, o. s. frv. Hér er um persónulegan smekk að ræða, sem segir lítið um skapgerð fólks almennt. Þetta heyrir undir friðhelgi einkalífsins, aðrir eiga ekki að skipta sér af neinu þessu. En af því leiðir alls ekki að hver einstaklingur hafi frjálst val um þetta.
Mér hefur skilist að samkynhneigðar gæti í öllum þekktum samfélögum, og nái til a.m.k. 4% íbúanna. Auðvitað fer sú tala mikið eftir því hvort og í hve miklum mæli samkynhneigð er undirokuð í umræddu samfélagi. En þegar til þess er hugsað hve margvísleg samfélög fólks hafa verið um veröld víða í aldanna rás, þá virðist sú hugmynd fjarstæða að kynhneigð ákvarðist af samfélaginu. Öldum saman hefur verið um það deilt í hve miklum mæli skapgerð fólks mótist af erfðum eða umhverfi. Það eru fræðilegar umræður, sem varða ekki kynhneigð einstaklings. Því allir sem þetta lesa hljóta að þekkja það af eigin reynd að maður ræður ekki af hverjum hann eða hún hrífst. Einstaklingurinn getur svo valið að leita sambands við þann sem hreif hann (vonandi kurteislega!), eða láta það eiga sig, vegna þess að mótaðilinn sýnir ekki áhuga á því, eða vegna tillits til félagslegra aðstæðna, hjónabands eða „hvað myndi fólk segja“. En enginn ræður því af hverri hann hrífst. Langflestir hrífast af einhverjum af gagnstæðu kyni, en sumt fólk segist vera beggja blands, tvíkynhneigt. Og það er engin ástæða til að tortryggja slíkar yfirlýsingar, þær hafa sannarlega ekki notið svo mikillar virðingar. Loks er svo viss hluti manna og kvenna sem jafnan hrífst af einhverjum af sama kyni. Mjög mörg þeirra hafa reynt að tengjast einhverjum af gagnstæðu kyni, en hlotið að viðurkenna að það var engin gæfuleið – fyrir þau. Þvert á móti, það var að beygja sig undir ríkjandi viðhorf, gegn eigin þrám, og útilokaði þess vegna alla hamingju. Nú hafa langvarandi, grimmilegar tilraunir á samkynhneigðum – hvatameðferð, gelding, aftökur – sannað að mínu mati, að þessu verður ekki breytt. Sumt fólk er og verður samkynhneigt, og það ber að sjálfsögðu að virða.
Hvaða útgáfa kenningarinnar sem valin er, verður að álykta að hún sé í óvenju miklum mæli hrakin af alkunnum og auðsénum staðreyndum. Hvernig á þá að skýra að fólk með eðlilega greind skuli aðhyllast hana?
Það held ég skýrist af afleiðingum kenningarinnar. Hún segir fyrst og fremst að samkynhneigt fólk sé eins og annað, það séu engin skýr mörk milli þess og gagnkynhneigðra. Og auðvitað er það rétt. En það þýðir ekki að afneita þurfi öllum sérkennum fólks. Og þegar kenningin boðar að mannkynið sé eitt en ekki deilt, þá gerist það á þrúgandi hátt, með því að afneita að tilhneiging einstaklinga sé þeim ósjálfráð. Af kenningunni leiðir að kúgun á samkynhneigðum sé þeim sjálfum að kenna. Sé kynhneigð valfrjáls geta þeir bara varast að brjóta þau lög sem í landinu ríkja, t.d. Íran, Afganistan eða Líbanon.

Kvennamenning
Nýlegt dæmi um skæðar kreddur er enn, að á áttunda áratugi 20. aldar afhjúpuðu Rauðsokkur sem karlrembu kenningar um að konur væru eðlisólíkar körlum, þeim væri meðfætt að hugsa á annan hátt, og þetta einkenndi listaverk og iðnað beggja kynja. En fáeinum árum síðar fór forysta kvennahreyfingarinnar að boða sömu kenningar um eðlismun kynjanna, og nú undir nafninu kvennamenning! Helga Kress var víst frumkvöðull þessa á Íslandi, en þetta voru alþjóðleg straumhvörf, svo einhver hefði örugglega borið þau til Íslands á þeim tíma. En andstaða við þessi umskipti varð nákvæmlega engin í kvennahreyfingunni. Einu undantekningarnar sem ég man voru tvö skáld, Svava Jakobsdóttir og Steinunn Sigurðardóttir, sem mótmæltu því harðlega að þær skrifuðu á einhvern sérstakan kvenlegan hátt. Þær hefðu bara sín sérkenni eins og aðrir höfundar. Aldrei hafa mér vitanlega komið fram rök eða dæmi fyrir þessari kenningu um almennan mun karla og kvenna í listsköpun. Enda er augljóst, að enginn getur haft yfirlit yfir list kvenna almennt og séð hvað ætti að aðgreina hana frá list karla. Því koma bara almennar fullyrðingar svo sem: „Júlía Kristeva hefur bent á að umönnun hafi löngum verið á sviði kvenna.“ Af því á svo að álykta að einhverskonar umönnun einkenni listaverk kvenna. En reynist svo ekki vera í einhverju tilviki, þá er viðkomandi höfundur bara kölluð „karlkona“, þrúguð af gildismati feðraveldisins. Kenningin er þannig alveg skotheld og teygjanleg, og þar af leiðandi einskis virði.
Mér sýnist þessi kenning um kvennamenningu mjög svipuð stefna og kenningin um öreigalist á öndverðri 20. öld. Undirokaður þjóðfélagshópur á að finna sérstöðu sína, og einkum eiga þá bókmenntir hans og myndlist að skapa honum vitund um hana, gjarnan til að berjast fyrir bættum hag. En málið vandast þegar finna á eitthvað sameiginlegt konum almennt – í öllum löndum, á öllum tímum, og í mismunandi stéttum. Samnefnarinn verður ekki stór. Í sem stystu máli sagt hefur mér sýnst mest bera á tvennu. Annars vegar á kjarni kvennamenningar að birtast í hefðbundnum viðfangsefnum húsmæðra, matargerð og klæðasaumi, barnauppeldi og híbýlaprýði, ásamt ýmsu sem þessu fylgdi fyrr á öldum, sýslan um lyfjagrös og lækningar, vefnað og litun. Öllu þessu átti að fylgja áhugi á hinu lífræna, smágerða og nærtæka, andstætt áhuga karla á víðtæku samhengi, hernaði, stjórnsýslu og skyldum efnum. Þetta er menningarlegur samnefnari kvennalistar, en aðrar finna henni líffræðilegan samnefnara. Þá á kvenleg hugsun að mótast af tíðahringnum, myrkum þröngum göngum, hlýju flæði og umfram allt; hringrás, allt snýr aftur í sama far. Virðist það ótvírætt boðskapur um kyrrstöðu, tilraun til að binda konur á fornan bás. Hér er ekki rúm til að rekja þetta nánar, enda hafa þessar hugmyndir verið mjög á flugi. Mér sýnist þessi líffræðilegi samnefnari augljós fjarstæða. Þótt allflestar konur í heiminum greinist líffræðilega frá körlum, og flestar séu lægra settar en karlmenn af sömu stétt, þá virðist ótvírætt, að hvað lífskjör og hugarheim varðar, þá á t.d. íslensk menntakona miklu meira sameiginlegt við karlmann í sömu stétt en við ömmu sína úr alþýðustétt, eða fiskverkunarkonu í smáþorpi, hvað þá ef meira ber í milli kvennanna; önnur íslensk menntakona, hin afrísk bóndi. Hinsvegar er auðvitað fullgilt viðfangsefni að kanna list kvenna sérstaklega og þá einnig að spyrja hvort hún greinist almennt frá list karla, á tilteknum stað og tíma, eða jafnvel yfirhöfuð og alls staðar. En mér sýnist að oftast sé annað á ferðinni en opin leit. Oftar er niðurstaðan fyrirfram gefin, og þess eins leitað í textunum sem stutt geti hana.
Kvennabókmenntafrömuðir gefa sér að skynjun kvenna hafi tiltekin sérkenni, og gefa bókmenntum kvenna einkunn í réttu hlutfalli við hversu mjög slík sérkenni koma þar fram. En það leiðir aftur til þess að meira verður um bókmenntir með þeim sérkennum. Gjarnan er þá miðað við fyrrnefnd einkenni, sem rakin voru til húsmóðurstarfsins á ýmsum tímum, en með því er verið að loka konur inni í fortíðinni. Auðvitað er þessi stefna ekki kynbundin, hér kemur dæmi þess að karlmaður beiti henni, auk tveggja kvenna. Vitaskuld er hér ekkert heildarmat á viðkomandi fólki né ritum þess.
Afleiðing þessarar kenningar eru svo einhliða túlkanir á verkum kvenna, á annan hátt yrði ekki sýnt fram á umrædd sérkenni þeirra! Hér er ekki rúm fyrir meira en fáein dæmi, áhugafólk ætti auðvelt með að finna fleiri í tilvitnuðum greinasöfnum – innan um góðar greinar. Prýðisgóð gagnrýni kom á túlkanir Helgu Kress frá Guðmundi Andra Thorssyni (1988), Kolbrúnu Bergþórsdóttur (1991) og Birnu Bjarnadóttur (1992). Helga svaraði þeirri gagnrýni á bókmenntaumfjöllun sína í lok greinasafns síns með því einu að ákæra gagnrýnendur sína fyrir fjandskap við “teoríu“. Það er alrangt, þau gagnrýndu hana fyrir einhliða túlkun, að taka ekki tillit til annarra túlkunarmöguleika en sinna, troða kenningu upp á bókmenntaverkin, og leita þess eins í verkunum sem samræmst gæti þeirri túlkun. Og því svarar hún engu. Sjálfur lagði ég orð í svipaðan belg, gegn m.a. einhliða og þó sundurleitum túlkunum Bergljótar og Dagnýjar Kristjánsdætra á Gerplu (1989).

Túlkunarleiðir
Réttlætt hefur verið að túlkanir sama verks geti verið mjög mismunandi, og þó engin betri en önnur. Rækilegast minnist ég að hafa séð það í grein Dagnýjar Kristjánsdóttur, Í skóginum (1993). Þar er m.a. (Undirstraumar, bls. 266) vitnað í Roland Barthes um að höfundur vinni bara úr eldri textum, og sé því ekki til sem sjálfstæður skapandi. Einnig vitnar Dagný til Stanley Fish um að lesendahópur skapi textum merkingu, sem geti þá verið mjög breytileg frá einum hópi til annars. Í annarri grein, þunglyndi og bókmenntir (1994-6) hefur hún eftir Umberto Eco (Undirstraumar, bls. 358):

við verðum að gera ráð fyrir að textinn hafi sína eigin ætlun, “intentio operis“ og
það er verk lesandans að finna hana. En hver getur ákveðið hver sé ætlun textans
annar en lesandinn eða túlkandinn? Hvernig getum við skilið merkingarmyndunina
frá merkingunni? Við þessu hefur Eco engin sérstöðk svör en vísar til gamla
túlkunarfræðispíralsins sem gerir ráð fyrir að fræðimaðurinn leggi fram tilgátu og leiti
staðferstingar eða hins gangstæða í textanum og leiðrétti tilgátuna ef efnið staðfesti
hana ekki og svo áfram.

Dagný er tortryggin á þetta, án þess að færa fram gagnrök, en segir þó (s.st.):

Þó að við gætum öll verið sammála Umberto Eco í gagnrýni hans á fullkomlega
huglægar og óagaðar túlkanir er ekki hægt að ganga framhjá lesandanum og að mínu
mati ekki höfundinum og textanum heldur.

Á hvaða grundvelli ætti eiginlega að kalla eina túlkun öðrum fremur fullkomlega huglæga og óagaða? Það segir Dagný ekki, en mér sýnist augljóst, að jafnan beri að hugleiða mismunandi túlkanir sama verks. “Stangist þær á verður að bera þær saman og meta hver sé best. Og það hlýtur að vera sú túlkun sem gerir grein fyrir sem flestum mikilsverðum eiginleikum verksins og ekki stangast á við markverða þætti þess.“ (Seiðblátt hafið, bls.15, nánar rætt í upphafskafla þessarar bókar minnar, bls. 10–16). Og eins og ég þar hafði eftir Stefáni Snævari (en hann eftir öðrum), þá verður ekki talað um mismunandi túlkanir sama verks, nema gert sé ráð fyrir einhverjum fasta verksins. Ella gæti hvaða túlkun sem er átt við hvaða verk sem er, túlkun á Hrafnkötlu allt eins verið túlkun á Hamlet, en það er augljós fjarstæða (dæmi Stefáns, Ástarspekt, bls. 245–6).
Sem dæmi einhliða oftúlkana má nefna túlkun Helgu á smásögu Jónasar Hallgrímssonar, Grasaferð. Þar segir hún m. a. um klifur söguhetjanna upp fjallshlíð til að tína fjallagrös (Speglanir, bls. 332):

Það er ekki einungis að skeiðin sé brött, heldur er hún einnig mjög erfið aðkomu og
uppgangan falin:

við fundum á einum stað klettaskoru, og komumst þar upp [...] en svo var hún þröng,
að við urðum sumstaðar að renna okkur á rönd, og sáum við glöggt, að hún varð ekki farin aftur, ef við fengjum nokkuð í pokana (14)

Þetta er hámark ferðalagsins, og um leið má sjá í þessu eins konar öfuga fæðingarmynd.
Um skoruna þröngu, fæðingarveginn, troða þau sér upp í móðurlífið. Eru þetta mörkin
milli samfélagsins og hins villta, og upp komin eru þau utan þeirra marka.

Það er mjög sérstæð og frumleg túlkun að sjá þetta sem ferð til baka í móðurlífið. Gallinn er bara sá, að engin ástæða virðist vera í sögunni til þessarar túlkunar! Hún er ekki rökstudd með öðru en hugmyndum Helgu að hið villta, utan siðmenningar, sé eitthvað frumkvenlegt. Síst styðst það við að karlmaður sést uppi á fjallinu, og hann er túlkaður sem ógnandi útilegumaður í sögunni, fulltrúi hins villta, utan siðmenningar. Og auðvitað er það bara kredda, óstudd könnunum eða rökum, að konur séu fulltrúar einhvers villts eðlis1. Það er hrein óskhyggja – rétt eins og kenningin um að fólk geti frjálst valið sér kynhneigð. Mun algengari er andstæð kredda, að konur séu í eðli sínu “hreiðurbyggjendur“, leiti öryggis, þar sem karlar hafi víkingseðli, leiti ævintýra og sigra. Sú hugmynd byggist auðvitað á hefðbundinni verkaskiptingu kynjanna alveg fram á þennan dag. En þegar slík uppeldisskorðuð hugmynd er kölluð meðfætt eðli kvenna og karla, þá er hún illskæð kredda, til þess eins fallin að kúga konur.
Ég vék að aðferðum Helgu Kress í fyrrnefndri bók minni Seiðblátt hafið (einkum bls. 345-6) Þar snýr hún alveg við því sem tilvitnaður höfundur sagði. Helga segir (Íslenskar kvennarannsóknir bls. 27) að Ellen Moers nefni
myndmál smæðarinnar sem einkennandi fyrir kvennabókmenntir, og bendir á að í
bókmenntum sínum samsami konur sig gjarnan því sem er lítið og minnimáttar, og séu
litlir hlutir, svo sem blóm, fuglar og fiðrildi, mjög algengir í myndmáli kvenna þar sem
þeir fái oft táknræna vídd.
En svarið er ótvírætt, að þetta einkennir einkum sum kunnustu ljóðskáld rómantísk á 19. öld, karlmennina Jónas Hallgrímsson, Jón Thoroddsen og Steingrím Thorsteinsson, en síðar t.d. Sigurjón Friðjónsson.
Helga vísar ekki nánar til Moers2, og reyndar finn ég ekki dæmið um blóm og fiðrildi í bók hennar. Þvert á móti varar Moers við alhæfingum um sameiginleg einkenni á skáldskap kvenna og segir m.a. að glæsilegar lýsingar kvenskálda á opnu landslagi ættu að stöðva næsta gagnrýnanda sem segi að allar skáldkonur séu inniverur, og næsta sálfræðing sem talar um3 „innra rými“. Moers leggur annars sérstaka áherslu á myndir fugla í skáldskap kvenna, einkum finnst henni fuglar í búri áberandi hjá skáldkonunum sem hún fjallar um.
Og í ljóði Huldu Geðbrigði, líkir ljóðmælandi sér einmitt við fugl í búri til að sýna ófullnægju sína. Þetta tekur Guðni Elíasson upp í grein um skáldskap Huldu 1987, (bls. 76-8) og segir m.a.:

sjálfsvitund Huldu tengist fremur smáfuglum en ránfuglum og hún táknar oft
frelsissviptingu sína með vængbroti, vængjaleysi eða einhverju slíku. Þó að önnur
nýrómantísk skáld eigi til að nota líkingamál af þessu tagi [nmgr: fugl í búri kemur fyrir
í kvæði Jónasar Guðlaugssonar, „Ég hef sungið“.] er hér um sérstaklega kvenlegt lík
ingamál að ræða eins og Ellen Moers bendir réttilega á.

Reyndar sagði Moers (bls. 246) að því femínískari sem bókmenntaverk væru, þeim mun stærri, villtari og grimmari væru fuglarnir sem þar birtust! Ránfuglar urðu vissulega nokkur tíska í ljóðum sumra nýrómantískra skálda um 1900, tákn frelsis og þróttar. Má þar nefna t.d. kvæði Sigurðar Sigurðssonar um Nietzsche (Haukaberg 1911) og Örninn eftir Jónas Guðlaugsson (1909). En Hulda var heldur ekki laus við ránfuglseðlið. Í kvæði sínu Hauk¬urinn (Kvæði, bls. 51–3) vegsamaði hún víðan sjóndeildarhring hans og frelsi, og hét „ljóðfugli litlum“ í brjósti sér dauða ef hann næði ekki að jafnast við haukinn í þessu. Í eftirmælakvæði sínu Minningar (Benedikt Sveinbjarnarson Gröndal) miklar Hulda hann með því að gera sjálfa sig smáa, hann er örn en hún „smár bláfugl“, „hugarhaf hans“ rúmar hinar tilkomumestu andstæður. En því fer víðsfjarri að smáfuglar séu sérkenni kvenskálda. Í því fylgir Hulda sem oftar Þorsteini Erlingssyni, fræg kvæði með smáfuglum eru og eftir Pál Ólafsson, Jónas Hallgrímsson og Steingrím Thorsteinsson, sem einnig var átrúnaðargoð Huldu. Mér sýnast smáfuglar ekki síður áberandi í ljóðum Sigurjóns Friðjónssonar4 en Huldu, raunar reyndist sá bóndi mun bundnari átthögum, búi og fjölskyldu en hún var. En jafnvel „víkingaskáld“ Guðna, Jóhann Sigurjónsson, hefur bæði rjúpu og þröst auk arnar og fálka (tvívegis, annar í kvæði um mynd eftir Benedikt Gröndal), en í Heimðrá eru fuglarnir ekki ránfuglalegir, heldur farfuglar. Ég kalla þetta jafnvægi, og hjá öðrum skáldvíkingi, Jónasi Guðlaugssyni, ber minna á ránfuglum (9) en hinu, svönum (9) og smáfuglum (7). Virðist þá næsta fátt standa eftir, kenningu Guðna til styrktar.
Hér er þess og að gæta, að Moers fjallar fyrst og fremst um enskar, franskar og bandarískar skáldkonur frá því seint á átjándu öld og fram á 20. öld. Hún fjallar lítið um skáldskap karla til samanburðar, og síst í kafla sínum um myndmál. En heimsfræg saga eftir karlmann, frá miðri 19. öld byggist einmitt á þessari mynd fugls í búri, og leikur tæpast vafi á því að Hulda hefur þekkt Næturgalann eftir H.C. Andersen. Verður þetta atriði því ekki talið dæmi um „eilífkvenlegt“, óháð stað og stund. Enda kemur það víðar fyrir, hjá skáldbræðrum Huldu t.d. einnig í ljóðinu Márinn eftir Jónas Guðlaugsson, 1909, auk Eghef sungið sem Guðni nefndi.
Tilfinningu fyrir innilokun, úrræðaleysi, má víðar finna hjá Huldu, svo sem við sáum á þulunni Ljáðu mjer vængi. Helga Kress segir um þvílíkt efni (tv.r. bls. 27–8):

telja þær Sandra Gilbert og Susan Gubar andstæðurnar innilokun og undankomu svo
ráðandi í formgerð og myndmáli þeirra bókmennta sem þær hafa rannsakað, að þær
spyrja hvort í þessu atriði kunni að vera um algilda kvenlega hefð að ræða.

En áþekk vinnubrögð – og tilfinningu – sjáum við fyrr hjá skáldbræðrum Huldu, m.a. í Haust eftir Sigurjón Friðjónsson (1900) og í Húmhljóðum Davíðs Stefánssonar (13 erindi, það birtist 1919, ári fyrr en Geðbrigði Huldu). Bragarháttur er breytilegur og algengt myndmál er endurtekið með tilbrigðum, sami örvæntingartónninn er hjá Davíð og Huldu. Enda er þetta „myndmál innilokunar og undankomu“ margklifað stef, m.a. í bókmenntum öndverðrar 19. aldar (rómantíkinni).
Hér hefur verið lögð áhersla á samkenni Huldu og skáldbræðra hennar. Af þessu verður þó ekki ályktað að Hulda hafi bara verið ófrumlegur sporgengill. Þvert á móti rekja útgefendur úrvalsrita hennar, þær Guðrún Bjartmarsdóttir og Ragnhildur Richter (Inngangur, bls. 41–6) að hún hafi verið forgöngumaður í ýmsu sem síðar varð algengt í íslenskum ljóðum, t.d. að einfalda bragarhætti og orðfæri og yrkja órímað. Hún var og með fyrstu höfundum til að gefa út bók með prósaljóðum á íslensku (Myndir 1924), og ásamt Jóhanni Sigurjónssyni er hún brautryðjandi stuttra þéttra ljóða, („miðleitinna„) þar sem ein ljóðmynd ber alla merkinguna, skýringalaust. En öll þessi atriði voru semsagt síðar tekin upp af öðrum íslenskum skáldum – einnig af karlkyns skáldum.

Myrk hús á Þverársöndum
Dagný Kristjánsdóttir skrifaði grein um Gunnarshólma Jónasar Hallgrímssonar. Þar talar hún m.a. um persónugervingar náttúrufyrirbæra, fjalla og fljóta, og segir (Undirstraumar, bls. 28):

Í síðasta hluta Gunnarshólma er jafnframt eins og skáldið missi valdið yfir þeirri
persónugerðu, sálu gæddu náttúru sem hann hefur búið til. Það eru tveir ásar í
Gunnarshólma, annar liggur á milli austurs og vesturs, hinn á milli norðurs og suðurs.
Ásinn i austri og vestri liggur á milli hinna göfguðu, ströngu, karlmannlegu afla;
Eyjafjallatinds og Tindafjalla. Ásinn frá norðri til suðurs liggur á milli hættulegra og
árásargjarna kvenlegra afla: Heklu og Ránar. Þar sem þessir ásar skerast, í miðjunni,
stendur hið hrjáða “ég“ ljóðsins í lokaerindinu.
Þetta lokaerindi er mörgum kunnugt, en rifjum það upp:

Þar sem að áður akrar huldu völl
ólgandi Þverá veltur yfir sanda:
sólroðin líta enn hin öldnu fjöll
árstrauminn harða fögrum dali granda;
flúinn er dvergur, dáin hamratröll,
dauft er í sveitum, hnípin þjóð í vanda.
En lágum hlífir hulinn verndarkraftur
hólmanum þar sem Gunnar sneri aftur.

Dagný segir (á undanfarandi bls.):

Þetta lokaerindi Gunnarshólma hefur oftast verið lesið sem allegoría um sigur
þjóðernisstefnu (val Gunnars) yfir eyðingaröflum nýlendukúgunar og innri upplausn.
En það er enginn sigursöngur, enginn fögnuður, í þessu erindi.

Og þetta skýrist allt í seinna hluta greinarinnar, þar sem hún rekur erfið kvennamál íslenskra Hafnarstúdenta; bændadætra [og borgaradætra] var vandlega gætt, hinsvegar voru vændiskonur hvarvetna, freistandi, en hættulegar, iðulega sjúkar. Og Dagný segir ennfremur (bls. 37): “Óttann við hið kvenlega og átök þess og hins karlmannlega sáum við í Gunnarshólma ásamt óttanum sem óskýr mörk skapa.“ Þessu tengist að hún segir (bls. 24):

Myndin sýnir Heklu eins og turn (höll eða kirkju) sem gnæfir yfir borgarþökin en
borgin er gerð úr svörtum spegli, húsin full af myrkri.

Í þetta krækir hún neðanmálsgrein: „Túlkun Hannesar Péturssonar á þessum stað er afskaplega sannfærandi.“ Hannes sagði bara ekki orð um borg eða hús, það gerir Dagný ein, dregur hús inn í landslagið og fyllir þau af myrkri (!) af því að hún vill endilega leiða þetta kvæði út frá lífi Jónasar í Kaupmannahöfn. Allt eru það tómar vísbendingar, en ekki sýnt fram á að í kvæðinu felist kvenótti. Undrast má að hún skyldi sleppa kvenkynsorðinu Þverá úr upptalningu sinni á hættulegum öflum í Gunnarshólma. En hér er allt of mikið lagt upp úr tilviljanakenndu kyni nafnorða í íslensku, í kvæðinu er ekkert kvenlegt við Heklu og Rán, hvað þá Þverá, og raunar ekkert karlmannlegt við Eyjafjallajökul. Tindafjöll eru að sönnu persónugervingur fornsagnahetja, eins og Dagný segir, en þar skiptir augljóslega mestu, að þau eru liður í sviðsetningu fornsögunnar Njálu. Og ekki er félagsfræði Kaupmannahafnar betri. Dagný nefnir að vísu alþýðukonur (bls. 34); „saumakonur eða sölukonur eða þjónustustúlkur“, en síðan er eins og þær gleymist og á sviðinu standi bara ófáanlegar bændadætur og hættulegar vændiskonur. Óbreyttar alþýðukonur voru þó miklu fjölmennari í Kaupmannahöfn, og t. d. íslenskir Hafnarstúdentar hafa daglega átt tal við sölukonur, griðkur og þjónustustúlkur. Og hversu ófáanlegar voru þær? Ef slegið er upp í sögu Danmerkur5 eða annarra norðurlanda frá þessum tíma, kemur í ljós, að þeirra var ekki eins „vandlega gætt“ og borgaradætra, sem heimanmundur fylgdi, og þurftu að vera „ónotaðar“ til að hljóta gott gjaforð. Sífellt eru siðferðispostular að býsnast yfir siðferðisástandinu, og í ljós kemur t.d. að fimmtungur barna í Kaupmannahöfn fæddist utan hjónabands! Þar með hverfur fyrrnefnd andstæða háskalegra kvenna og ótilkvæmra.
Jafnvel þótt sanna mætti ákafa kvenfælni á Jónas, sannar það ekki neitt um andann í Gunnarshólma, sama hugarástand þarf vitaskuld ekki að birtast í öllum verkum skálds. En í rauninni tilfærir Dagný aðeins eina vísbendingu um slíka kvenfælni, það er kæra Jónasar yfir ágengni roskinnar konu, sem lá á gluggum hjá honum. Gætu þó ýmsir kippt sér upp við slíka áreitni, einnig konur, svo þetta sannar ekkert um kvenfælni. Þessi túlkun Dagnýjar er út í hött, og leitt að sjá hæfileikafólk sóa tíma sínum í fimbulfamb.

Ályktun
Niðurstaða af þessari takmörkuðu athugun verður sú, að andstætt því sem ýmsar hafa haldið fram, þá sé ekki sjáanlegur neinn kynjamunur á umræddum skáldum. Flest hið mikilvægasta er þeim sameiginlegt, en annars hafa þau bara hvert sín persónulegu sérkenni.
Ég trúi ekki á meðfætt karleðli eða kveneðli í skapgerð fólks. Kenningar um slíkt eru bara rasismi.
Það á ekki að halda neinum viðfangsefnum né aðferðum að skáldum, því einungis skáldið sjálft getur vitað hvað því hentar, og það getur aðeins komist að því með því að hlusta inn í sjálft sig, ef svo mætti segja, og prófa sig áfram. Vanræki skáldið þetta, til að fylgja þess í stað kröfum umhverfisins eða tískunnar, þá verður útkoman blóðlaus verk og afstrakt, þurrar pappírsfígúrur í stað lifandi persóna, því þær síðarnefndu geta aðeins stigið upp úr ímyndunarafli skáldsins. Málflutningur er í eðli sínu sértækur, þar eru hugmyndir leiddar fram, röksemdir takast á, út frá almennum sjónarmiðum. Skáldskapur beinist hinsvegar að því að skapa eitthvað sérstakt, sýna í stað þess að útskýra. Því einkennist hann af lýsingum sem eru svo nákvæmar, sérkennilegar, að þær höfða til skynjunar lesenda, og eru því kallaðar myndrænar. Skáldskapur vekur ímyndunarafl lesenda og höfðar til þeirra á marga lund samtímis; auk hins myndræna til skynbragðs þeirra á hljómfall og hljómfegurð, á fléttu andstæðna og hliðstæðna, til tilfinninga jafnframt skynsemi. Og umfram allt er skáldskapur villigróður, stefnir ekki að fyrirfram ákveðnu marki, eins og röksemdafærsla hlýtur að gera. Því er eðlismunur á þessu tvennu. List er sérstök lífsgæði, en ekki uppbót fyrir lífið eins og stundum heyrist. List höfðar svo alhliða til persónuleika hvers einstaklings, að hún gefur honum einstakt tækifæri til þroska. Því er mikill ábyrgðarhluti að mælast til þess við fólk, að það afsali sér slíkum þroskamöguleikum í meira eða minna mæli, vegna þess að í verkunum geti það smitast af háskalegum skoðunum. Eins og ég hefi hér reynt að leiða rök að, þá efast ég stórlega um að þetta efli listsköpun kvenna. Því þetta hvetur þær alls ekki til að leita hver sinnar eigin leiðar, sem er forsenda allrar listsköpunar, heldur þvert á móti, til að ganga í flokk undir merkjum tískustefnu, laga verk sín að afstrakt formúlum, fyrirfram gefnum niðurstöðum í stað þess að skapa.
Hér mætti nefna sorglegt dæmi. Auður Jónsdóttir byrjaði vel, en seinni skáldsögur hennar eru heldur líflítill samsetningur, sligaðar af boðskap um kvennasamstöðu. Hinsvegar eru mörg íslensk skáld af kvenkyni sem forðast slíkar forskriftir og fara hver sína leið. Ég nefni bara þær sem ég hefi nýlega lesið, Steinunni Sigurðardóttur, Gerði Kristnýju og Guðrúnu Evu Mínervudóttur. Að öðrum ógleymdum og ólöstuðum.
Það er rangt að halda einhverju efnisvali eða skáldskaparaðferð að skáldum, eða ætlast til að tiltekin þjóðfélagsafstaða komi fram í verkum þeirra. Í þessu verður hvert skáld að fylgja eðlisávísan sem er því ekki sjálfráð – þótt það svo auðvitað vinni meðvitað úr innblæstrinum. Pólitísk áhrif skáldverka þurfa alls ekki að fara eftir því sem skáldið reynir að segja. Verk sem er þrungið íhaldssemi á öllum sviðum getur einmitt gefið gott færi á að greina hvernig íhaldssemi birtist á ýmsan hátt. Og ekki verður það skáldverk talið róttækt, sem er einfaldlega að halda tiltekinni skoðun að lesendum í stað þess að vekja alhliða skilning þeirra – hversu uppreisnarsinnuð sem þessi boðaða skoðun er. En umfram allt er skáldverk eins og margradda kór, þar sem rödd röksemdafærslu er aðeins ein af mörgum sem með þarf.
Þær kreddur sem hér hefur verið rætt um eru sérlega skæðar, því í nafni frelsunar boða þær í rauninni kyrrstöðu, áframhaldandi undirokun þrúgaðra. Skýringin á skyndilegum hvörfum viðhorfa sem vikið var að hér í upphafi, er sú að fólki temst ekki gagnrýn, sjálfstæð hugsun, heldur tískufylgni, “að vera með á nótunum“. Um ýmis þessi efni fjalla ég í öðrum greinum mínum sem sjá má á alnetinu: http:// oernolafs.blogspot.com

Aftanmálsgreinar
1 Þessu gerir Kolbrún Bergþórsdóttir miklu rækilegri skil í fyrrnefndri grein.
2 Hún vísar ekki til blaðsíðutals, en um myndmál smæðar talar Moers á bls. 244.
3 Bls. 63: „There is no such thing as the female genius or the female sensibility“.
Og á bls. 262: „At the least, the brilliant landscape writing that women have devoted to open country should give pause to the next critic who wants to pronounce all literary women housebound, and the next psychologist with a theory about „inner space“.
4. Bara frá fyrsta áratugi ljóðagerðar hans má telja: Haust, Harpa, Vor, Svífur fluga, Andi vorsins, Dagurinn líður, Sólarlag, Enn koma sól og sumar, Á austurhellum, Aftansöngur, Veit ég það vorar aftur.
5. „I årene 1840-49 var det I hovedstaden 22 procent af børnene, der fødtes udenfor ægteskab, I købstederne 13 procent og på landet 10 procent.“. Gyldendal og Politikens Danmarkshistorie, 10, bls. 35. Í framhaldi eru vitnisburðir um kynlífsfrelsi ungs lágstéttarfólks sem svaraði umvöndunum með orðunum: „Nóttina eigum við sjálf.“ („Natten er vor egen“).

Tilvitnuð rit:
Birna Bjarnadóttir: Hinn kvenlegi lesháttur. Tímarit Máls og menningar 1992, 2. hefti, bls.
3–19.
Dagný Kristjánsdóttir: Undirstraumar. Greinar og fyrirlestrar. Rvík 1999.
Danmarkshistorie (Gyldendal og Politikens) 10. bindi, 1800–1850, Kbh. 1990.
Guðmundur Andri Thorsson: Eilífur kallar kvenleikinn oss. Tímarit Máls og menningar
1988, bls. 187–195.
Guðni Elíasson: Líf er að vaka en ekki að dreyma. Skírnir 1987, bls. 59–87.
Guðrún Bjartmarsdóttir og Ragnhildur Richter: Inngangur (bls. 11–98 í:) Hulda: Ljóð og
laust mál. Úrval. Guðrún Bjartmarsdóttir valdi efnið. Rvík 1990.
Helga Kress: Speglanir. Greinasafn. Rvík 2000.
Íslenskar kvennarannsóknir Rvík 1985.
Kolbrún Bergþórsdóttir: Jónas Hallgrímsson á tímum Júlíu Kristevu. Tímarit Máls og
menningar 1991, 2. hefti, bls. 27–41.
Ellen Moers: Literary Women. The Womens Press, London 1978.
Stefán Snævarr, Ástarspekt. Rvík 2004.
Örn Ólafsson: Bókmenntatúlkanir. Tímarit Máls og menningar 1989, bls. 5–11.
Örn Ólafsson: Seiðblátt hafið. Khöfn 2008.

Stína, 2009, 2