sunnudagur, 16. október 2011

Kreppubók Stefáns Snævars

Um kreppubók Stefáns Snævars (Smugan 27.9.2011)

Stefán er 58 ára, heimspekiprófessor í Lillehammer í Noregi. Þetta er sjötta fræðirit hans á 22 árum, en auk þess hefur hann sent frá sér átta skáldrit frá 1975, mest ljóðabækur. Þessi bók hans birtist nú í ágúst, 380 bls. og ber titilinn Kredda í kreppu, og undirtitilinn Frjálshyggjan og móteitrið við henni. Bókin tekur fyrir málefni sem flestu fólki eru hugleikin, og eru mikið til umræðu í fjölmiðlum. Þar má nefna hvort hagkvæmari sé einkarekstur eða opinber, og þá á hvaða sviðum. Í sambandi við það er rætt um frelsi einstaklinga og mögulegar takmarkanir þess, hvort samfélag móti einstaklinga meira eða minna, eða hvort svokallað samfélag sé bara tilviljunarkenndur hópur einstaklinga, eins og ýmsir nýfrjálshyggjumenn hafa haldið fram, hvort samfélagsumbætur verði bara vegna eigingirni einstaklinga eða aðrar tilfinningar ráði. Stefán ræðir rök með og móti hverri skoðun og seilist vítt. Bók þessi er stóraukin útgáfa af Krataávarpi sama höfundar, sem birtist í Tímariti Máls og menningar í fyrra, rúmur tugur blaðsíðna. Hér eru þá mörgu gerð skil sem þar vantaði, t.d. arðráni stórfyrirtækja á þriðjaheimslöndum (t.d. bls. 152-3). Bókin ber glöggt vitni heimspekimenntunar höfundar, og má mikið á því græða, svo sem hugleiðingar um ósannanlegar forsendur sem fólk hefur fyrir dómum sínum og áliti, um t.d. list, réttlæti og jöfnuð; einnig því að þögul vitneskja móti störf fólks og hugsun (bls. 33 o.áfr., einnig bls. 136 og 212), enda þótt hún verði ekki skilgreind, því sé torvelt að flytja hana frá einu samfélagi til annars, einnig torveldi mikilvægi hennar ýmsar spár svo sem í hagfræði. T.d. getur maður smíðað ýmiskonar skápa, en gæti ekki skilgreint hvernig farið skuli að því. Einnig er rakið hve mismunandi reglur gilda um beitingu málsins (bs. 39): “Án loforða getum við ekki gert samninga, án samninga höfum við ekkert markaðskerfi. Án fyrirskipana höfum við ekkert ríkisvald, án raunhæfinga engin vísindi.” Ég vil þó enn frekar mæla með Ástarspekt (2004, þ.e.: Filosophia) sama höfundar sem kynningu á heimspekihugtökum. Kredda í kreppu er best í gagnrýni, gildi hennar er einkum neikvætt, en það er auðvitað mikilsvert.
Bók þessi er einkar auðlesin, á alþýðlegu máli, og er því óhætt að mæla með henni til skilningsauka á mikilvægum málefnum. Sumir kynnu að óska þess að höfundur hefði látið ritvinnsluforritið eyða fornafni fyrstu persónu eintölu hvarvetna í textanum, rök þessa væru að það dreifi athygli frá meginmáli að fá jafnframt sífellt upplýsingar um smekk og viðhorf persónunnar Stefáns Snævars. En á móti kemur það sem oft var sagt á æskuárum mínum um falskt hlutlægnisyfirbragð, höfundi beri einmitt að gera grein fyrir forsendum sínum, þeim viðhorfum sem lita texta hans, en fela þau ekki undir yfirbragði þess sem flestir hljóti að fallast á. Og vissulega hefur Stefán viðhorf sem margir munu ekki fallast á, þar á meðal undirritaður.
Í fyrsta lagi virðist ýmislegt vanhugsað eða vankannað, t.d. er því haldið fram (bls. 223) að opinberar umræður “hafi átt stóran þátt í að draga úr barneignum í Kerala-fylki á Indlandi. (...) Afleiðingarnar urðu þær að nú fjölgar fólki hlutfallslega minna þar en í einræðisríkinu Kína þar sem valdi er beitt til að draga úr mannfjölgun.”
Þarna birtist hefðbundin oftrú á upplýsingu. Alkunna er að mikil mannfjölgun í þriðjaheimslöndum stafar af því að mikil barneign er talin vera eina mögulega ellitrygging þar sem ekki er velferðarkerfi í norrænum stíl. Að innleiða slíkt kerfi í þriðjaheimslöndum væri þá eina leiðin til að takmarka offjölgun mannkyns.
Á sömu bls. segir: “mér vitanlega eru ekki til dæmi um að tvö hreinræktuð lýðræðisríki hafi háð styrjöld þótt slíkt kunni að gerast í framtíðinni. Nefna má að Þýskaland keisarans hafði lýðræðislega þætti, samt háði landið stríð við lýðræðisríki á borð við Frakkland, Bretland og Bandaríkin.”
Hér er í fyrsta lagi Þýskalandi einu kennt um fyrri heimsstyrjöld, í öðru lagi er sett samasemmerki milli þingræðis og lýðræðis – í löndum þar sem einræði ríkti í efnahagslífi undir drottnun nokkurra stórfyrirtækja, og í þriðja lagi birtist alger vanþekking á orsökum stríðsins. Það er þó alkunna að þar var barist um hráefnalindir og markaði! Svo alkunna, að höfundur hefði amk. átt að rökræða þá túlkun, sé hann andvígur henni. Einnig er “víðsýni” höfundar stundum þreytandi, það þarf ekki að segja lesendum sautján sinnum að fátt verði vitað með óyggjandi vissu, og ekki sé höfundur alvitur. Hann hefði nú raunar getað vitað meira stundum. T. d. (bls. 216-17):

“Sá möguleiki er fyrir hendi að reynt yrði að raungera ráðslýðræði í markaðs-sósíalísku skipulagi. Kerfið yrði þá líkt því sem var í Júgóslavíu sálugu á dögum kommúnista, ríkið ætti framleiðslutækin, fyrirtækjunum yrði stjórnað af starfsmanna-ráðum og markaðurinn samhæfði gjörðir fyrirtækjana. En þessi kostur er heldur ekki nógu góður. Ekki er ósennilegt að fyrirtækin breyttust hægt og bítandi í hrein einka-fyrirtæki þótt ríkið kannski ætti þau að nafninu til. Þess utan efast ég um að svona kerfi yrði skilvirkt, lítið rúm yrði fyrir nýjungar og skapandi eyðileggingu.”

Hér er nú ekki bara um að ræða heilaleikfimi við skrifborð í Lillehammer, heldur fyrirbæri sem voru til. Var nú ekki mögulegt að fletta upp í heimildaritum um þetta atriði? Vissulega hefði það tafið útgáfu bókarinnar um einhverja mánuði, en varla var nauðsynlegt að hún birtist í ágúst 2011, hinn möguleikinn var að bókin yrði mun betri. Nafnaskrá hefði líka gert hana stórum aðgengilegri og gagnlegri.
Verra er að fyrir kemur að beitt er þokukenndum hugmyndum, sem fá enga skýringu. Þar má nefna svo mikilvægt fyrirbæri sem “sósíalisma”. Þannig segir (bls. 146) “kannski valda hefðir Kerala og Bútanbúa því að heil- eða hálfsósíalismi virkar sæmilega vel í löndum þeirra.” (sjá einnig bls. 203). Engin skýring er á því hvað átt sé við með “hálfsósíalisma”, hvað þá “heilsósíalisma”! Samt segist höfundur andvígur sósíalisma, segir hann hafa gefist illa. Hann vilji standa í miðju og velja það sem best gefist eftir hentugleikum. Þetta er vissulega réttlætt með framangreindum dæmum (bls. 33 o.áfr.) þess að fólk hafi ósannanlegar forsendur mikilvægra ákvarðana sinna. En annars er þettta einfaldlega trúarjátning – Samfylkingarinnar íslensku – eða krata almennt. Engin stefnufesta, engin ríkjandi sjónarmið, bara lagað sig eftir aðstæðum hverju sinni. Það er í samræmi við þetta að bókin fjallar um auðvaldskreppur á hundruðum blaðsíðna án þess að víkja að skýringum Karls Marx á þeim, og hversvegna þær endurtaki sig hvað eftir annað. Jafnvel andmarxistar viðurkenna þó mikilvægi þeirra kenninga, ekki verði gengið þegjandi hjá þeim. Alrangt er (bls. 337) að Marx hafi verið “efnahagslegur nauðhyggjumaður”, hann barðist gegn þeirri stefnu alla ævi.
Stefán ræðir ýmsar hugmyndir sósíalista um ráðstjórn (t.d. bls. 216). Starfsfólk tiltekinnar verksmiðju myndi ráð sem stjórnar henni, og önnur fyrirtæki lúta samskonar stjórn.

“Síðan eiga ráðin að samhæfa gerðir sínar á landsvísu, jafvel heimsvísu. Hugsum okkur nú að ekki væri neinn markaður í slíku kerfi. Þá yrði hættan sú að kerfið yrði firnaþungt í vöfum, endalausar rökræður færu fram um smáatriði í fyrirtækjarekstri og feikierfitt yrði að samhæfa ákvarðanir ráðanna. Þess utan myndi samhæfingin krefjast umfangsmikils skrifræðis sem gengið gæti af ráðslýðræðinu dauðu. Einnig gæti lýðræðið hrunið undan eigin þunga, efnahagskerfið færi á hausinn og alger ringulreið skapaðist Sú óreiða gæti orðið móðir einræðisins. En jafnvel þótt ráðslýðræðið lenti ekki í slíkum hremmingum þá eru fallgryfjurnar margar. Verði ráðunum stjórnað á opnum fundum er hætta á valdatöku hinna virku. Væri fulltrúalýðræði í þessu skipulagi er hætta á að þeir fulltrúar sem samhæfa ættu starf ráðanna á landsvísu fengju of mikil völd í krafti þess að ríkja yfir öllu efnahagskerfinu”.

Í framhaldi er rætt um aðra útgáfu sósíalisma (bls 218). Þá verði öll fyrirtæki sameign almennings, þannig sé öllum tryggð lágmarksframfærsla. En fyrirtækin verði undir stjórn forstjóra “sem reyna að hámarka gróða þeirra. Þeir verði annað hvort kosnir af starfsmönnum eða skipaðir af stjórnum fyrirtækjanna.” Markaðurinn ráði hvernig auðlindum er ráðstafað.
Vissulega er rétt sem Stefán hefur eftir danska háðfuglinum Storm P. að erfitt sé að spá, einkum um framtíðina. Látum því fólk framtíðar um framkvæmd í einstökum atriðum, en sósíalistar hljóta að beita sér nú og ævinlega fyrir valddreifingu, að færa ákvarðanavald til almennings. Það er ekkert náttúrulögmál að sá sem rekur fyrirtæki með árangri eigi að hafa meiri völd en sá sem er duglegur að leika á píanó. En af framangreindu dregur Stefán ályktun sem hann sjálfur kallar íhaldssemi, en ég kalla hugsanalausa íhaldssemi. Það

“er engin ástæða til að taka áhættuna á lýðræðislegum sósíalisma, hann gæti verið leiðin til ófarnaðar. Við vitum hvað við höfum, þ.e. lýðræðislegan blandaðan markaðsbúskap, ekki hvað við fáum” (bls. 219 og 329).

Það þarf ekki mikla umhugsun til að sjá að þetta “við vitum hvað við höfum, ekki hvað við fáum” eru sígild rök íhaldsmanna gegn öllum breytingum, t.d. var þannig barist gegn þingræði og afnámi þrælahalds á 19. öld. Þarf frekari vitnisburð um hve vitlaus þessi stefna er?
Loks má nefna að margir rithöfundar munu kannast við þann vanda að finna ekki tilvitnun um það sem þeir hafa eftir öðrum. Á þeim vanda hefur Stefán eftirbreytniverða lausn (bls. 355):

“Þessa hugmynd hef ég frá norskum krata hvers nafni ég hef gleymt. Hann hefur örugglega stolið henni frá einhverjum öðrum”!
_______________________________
Stundum virðist höfundur ekki hafa hugsað nægilega vel það sem hann ritar. T.d. segir hann (bls. 129-30) “að ef bág kjör landbúnaðarverkamanna (á Spáni) orsaka lágt verð þá ættu innfluttir spænskir tómatar að vera litlu dýrari á Íslandi en á Spáni. En svo er ekki.” Er þá flutningskostnaður, afföll af auðskemmdri vöru og milliliðakostnaður úr sögunni? Þessa vitleysu er höfundur svo veglyndur að hafa eftir Árna bróður sínum.
Í bókinni er vítt seilst og aragrúi upplýsinga. Það er því skiljanlegt að fyrir kemur að upplýsingar eru úreltar, jafnvel mikilvægar upplýsingar, svo sem (bls. 135): “Franskir bankar hafi staðið sig sæmilega vel, ríkið hefur ekki þurft að redda þeim.”
Af þessu leiðir Stefán að þetta muni stafa af mismunandi hugarfari þjóðanna. En í síðustu viku var í sjónvarpsfréttum að flestir franskir stórbankar væru á heljarþröm. Leggst þá lítið fyrir þjóðarsálir, en ekki hefi ég meiri upplýsingar um þetta mikilvæga mál.
Bls. 248 segir: “Þótt flest sé til sölu á vorum tímum þá er merkilegt nokk engin leið að kaupa pláss í biðröð, þau eru einfaldlega ekki til sölu.”
Er þetta ekki helsti vanhugsað? Alkunna er, að hvenær sem mikil eftirsókn er eftir aðgöngumiðum, þá hamstra menn eins marga og þeir geta, og selja svo á uppsprengdu verði þeim sem ekki fengu miða. Sé takmarkað hve marga miða einstaklingur má kaupa, gerir hann bandalag við aðra um þetta.
Á bls. 273 nefnir höfundur að “Til eru samfélög þar sem litið er á börn sem eign föður. T.d. höfðu húsbændur í Róm til forna rétt til að drepa hvert það afkvæmi sitt sem þá lysti.”
Hér ætti að nefna að þetta tíðkaðist líka á Íslandi, en var afnumið skömmu eftir kristnitöku – sem var þó samþykkt með þeim fyrirvara, m.a. að þetta mætti áfram. Ótraustari munu heimildir um að leiða gamalmenni fyrir ætternisstapa, þ.e. hrinda þeim fyrir björg, þættu þau ekki verðmætaskapandi. Það þyrfti að kanna.


Stefáni Snævar svarað (Smugan 4.10.2011)

Fyrst er að leiðrétta misskilning. Eins og allir geta séð af pistli mínum átaldi ég ekki Stefán fyrir að nota mikið fornafn fyrstu persónu eintölu, heldur réttlætti það með því að þannig setti hann fram forsendur dóma sinna, gerði þær lesendum ljósar.
Í annan stað er pistill minn alls enginn ritdómur um bók Stefáns, Kreppa í kreddu. Það sést þegar af því að ég fjalla nánast ekkert um aðalefni bókarinnar, sem fram kemur í undirtitli hennar: “Frjálshyggjan og móteitrið við henni”. Eftir nokkuð almenna lýsingu á vinnubrögðum í bókinni læt ég nægja að gagnrýna ýmislegt í henni, m.a. frá marxísku sjónarmiði.
Það er ánægjulegt að Stefán nú segir það misskilning að hann geri Þjóðverja eina ábyrga fyrir fyrri heimsstyrjöld. En var ekki nærtækast að skilja svo þessi orð hans: “Þýskaland keisarans hafði lýðræðislega þætti, samt háði landið stríð við lýðræðisríki á borð við Frakkland, Bretland og Bandaríkin.”

Ég sagði kenningu Lenins um heimsvaldastefnuna “alkunna”. Það merkir auðvitað ekki sama og “almennt viðurkennd”. Sagan um Adam og Evu er alkunn, en síður en svo almennt viðurkennd sannindi. Ég sagði bara að kenning Leníns væri svo alkunna að Stefán hefði átt að andmæla henni, væri hann ekki sammála. Þau andmæli setur hann svo fram nú. Of langt mál yrði hér að ræða allt sem hann segir um að nýlendustefnan hafi verið dýr, og því studd af aðli og herforingjum, fremur en af viðskiptahöldum, sem hafi þó átt að græða á henni. Hitt virðist þó ljóst að sitt var hvað, hver borgaði nýlendustefnuna – skattborgarar – og hver græddi á henni – iðjuhöldar, herforingjar og fl. þ.h. ” Arðræna Vesturlönd Sádí-Arabíu?” spyr Stefán. Svarið er að fáeinir auðugir vesturlandabúar arðræna flesta íbúa Sádí-Arabíu með dyggum stuðningi fáeinna Sádíaraba, þ.e. valdhafa og auðmanna landsins.

Það er sannarlega hressandi að lesa rit Stefáns þegar hann dregur útbreiddar skoðanir í efa og kannar rök með og móti. En það nægir ekki. Efist hann um að vinna sé grundvöllur verðmæta, þá verður hann að gera svo vel að segja hvað hann vilji setja í staðinn. Augljóst má vera að ýmis þau fyrirbæri sem kallast ”náttúruauðlindir” öðlast bara verðmæti við vinnu manna. Þar á meðal er olían sem Stefán segir réttilega að hafi verið verðlaus þangað til bensínvélin var upp fundin. Spyrja mætti hvort Stefán ímyndi sér að tilteknir þýskir uppfinningamenn hafi þá fært olíunni þau verðmæti sem hún hefur nú. En mér sýnist líklegra að það sé vinnan við að smíða vélar til að annast hana, vinnan við að dæla henni úr jörð, hreinsa hana, markaðssetja, o.s.frv.

Stefán segist bara vitna í Þorstein Gylfason um að Marx hafi verið nauðhyggjumaður. Stefán tekur þó undir þetta: “Hins vegar hafði Marx tilhneigingu til nauðhyggju, hún kemur hvað skýrast fram í formálanum að Auðmagninu þar sem hann segir að þróun samfélaga lúti náttúrulögmálum, þekki menn þau lögmál þá geti menn stytt eða lengt fæðingarhríðir hins nýja samfélags sem þróunarlögmálin geti af sér. En ekki numið þau úr gildi. Hvað er þetta annað en nauðhyggja light?
Svar mitt er að þetta kunni að vera óheppilega orðað (hvort sem svo er í þýska frumtextanum eða íslensku þýðingunni), auðvitað lýtur þjóðfélagsþróun ekki ósveigjanlegum náttúrulögmálum. Hitt má augljóst vera, sem er meginkenning Marx, að sterkar hneigðir valda því hvers konar þjóðfélag rís af hverskonar atvinnuháttum. Svo mjög þekkt dæmi sér tekið, þá byggðist búskapur í Egyptalandi og Millifljótalandi (Írak) til forna á áveitum til að nýta árleg flóð í fljótum sem náðu gegnum mestallt landið, og tryggðu greiðar og skjótar samgöngur. Skiljanlegt er að samvinnu bænda þurfti um þessar áveitur, skiljanlegt er einnig að á þessum tíma auðveldaði þetta sterka miðstjórn, einræði. Jafnauðskilið er að Evrópa á miðöldum, með víðlend ríki og erfiðar samgöngur, var ekki á sama hátt grundvöllur fyrir sterkt ríkisvald, enda var það konungsvald veikt, mikil völd lágu hjá héraðshöfðingjum víðsvegar.
Eftir stendur að bæði Marx og Engels börðust gegn efnahagslegri nauðhyggju. Ég leyfi mér að vitna í bók mína Rauðu pennarnir (Rvík 1990, bls. 1 o.áfr.) um

”það grundvallaratriði kenninga þeirra, að öll svið mannlífsins tengist sín á milli, orki hvert á annað, og ákvarðist þannig sögulega, að skipulag framleiðslulífsins ráði mestu þegar til lengdar lætur. Þetta er „víxlverkan á grundvelli efnahagslegrar nauðsynjar, sem hefur sitt fram að lokum“, sagði Engels 1894 (bls. 206–7). „Það er ekki vitund manna sem ákvarðar tilveru þeirra, heldur er það þvert á móti félagsleg tilvera þeirra sem mótar vitund þeirra“ sagði Marx 1857 (A, bls. 89) [2]. Þetta hefur oft verið rangtúlkað svo, að öll fyrirbæri mannlífsins megi leiða út frá efnahagslífinu. Það kallast vélgeng efnishyggja (eða dólgamarxismi). En Engels heldur áfram:

Það er ekki svo að skilja, að efnahagslífið eitt sé virk orsök, og allt annað aðeins óvirk afleiðing. Því fjær sem eitthvert svið mannlífsins er efnahagslífinu, því nær sem það er hreinum, óhlutbundnum hugmyndaheimi (t.d. bókmenntir og listir), þeim mun fremur finnum við tilviljanir í þróun þess, því meiri sveiflur eru á línu þróunarinnar. En sé dregin miðlína þessara sveiflna, mun sannast, að hún nálgast þróunarlínu efnahagslífsins því meir sem sviðið er víðara, og tímaskeiðið lengra sem við skoðum”.

Stefán segir: “M.a. vegna þess að núverandi kerfi er sæmilega viðunandi er engin ástæða til að taka áhættu af samfélagskerfi sem er róttækt öðruvísi.”
Ætla mætti að hann fetaði hér í fótspor þýska heimspekingsins Leibnitz, sem fyrir eitthvað á þriðju öld sagði að við byggjum í besta mögulega heimi. En það er nú öðru nær, Stefán rekur í löngu máli ágalla núverandi skipulags. Auk þess er þetta allt of sértækt hjá honum. “Lýðræði” merkir bara þingræði, væntanlega með félagafrelsi og tjáningarfrelsi. Í Bandaríkjunum er þetta – með þeim afdrifaríku takmörkunum að auðjöfrar eiga alla fjölmiðla, og að mikinn auð þarf til stjórnmálabaráttu. Í Bandaríkjunum er líka markaður. Er samt ekki fráleitt að kalla það “sæmilega viðunandi” þjóðfélag, sem ekki megi breyta róttækt? Stöðugt eykst mismunur auðugra og örsnauðra, sem í stórum stíl missa atvinnu, húsnæði og verða að hírast á götum úti, sjúkratryggingar eru svo lélegar að fólk hefur ekki efni á að leita til læknis eða sjúkrahúsa. Einnig á Stefánslofuðum Norðurlöndum stækkar gjáin milli ríkra og snauðra, atvinnuleysi eykst mikið, enda fluttist húsnæðisbólan þangað frá Bandaríkjunum. Sama kreppa eða verri er um alla Evrópu, eins og Stefán rekur ítarlega í bók sinni. Hver getur kallað þetta ”sæmilega viðunandi kerfi”? Ekki jafnaðarmenn, svo mikið er víst, frekar það sem Stefán kallar tepokalýð Bandaríkjanna og moldrík yfirstétt þeirra. Ég ítreka að standi Stefán við orðin: ”Við vitum hvað við höfum, ekki hvað við fáum”, þá eru það sígild rök gegn öllum breytingum, og það verður ekki kallað annað en hugsunarlaus íhaldsstefna.
Stefán segir ennfremur: ” Í síðara lagi hræða spor sósíalismans, meira að segja Júgóslafia með sín verkamannaráð var einræðisríki og efnahagslega staðnað. I ofan á lag benda hugsunartilraunir til þess að sósíalisminn sé ekki á vetur setjanda.”
Þetta er einmitt það sem mér þykir verst við bók Stefáns. Hann sýnir ekki fram á neitt orsakasamhengi milli sósíalisma og einræðis, en gefur það í skyn. Helstu rök hans eru að öflug miðstjórn á efnahagslífinu leiði til einræðis, en raunveruleg ráðstjórn muni leiða til glundroða, en hann aftur til einræðis. Ég segi aftur á móti, að flokkur undir stjórn Títós vann vopnaða baráttu gegn nasistum, erlendum og innlendum, og eftir að hann hafði náð alræðisvöldum, var hann ekkert fyrir að afsala sér þeim.
Stefán spyr ennfremur: ”Er nokkur ástæða til að trúa á óprófanlegar kenningar eins og þá sem kennd er við vinnugildi?”
Svarið er að öll trúum við á óprófanlegar kenningar, svo sem Stefán rekur ágætlega um trú okkar á óprófanlegar forsendur ýmissa dóma og ályktana. Ég álít t.d. að engin leið sé að finna almennan mun á lundarfari kvenna og karla, enda sé um milljarða ókunnra mannvera að ræða, enginn geti haft þekkingu á þeim. Með sömu rökum trúi ég ekki á kynþáttamun né þjóðareðli, ekki á sérstakt lundarfar fólks sem alist hafi upp við islam sem ríkjandi trúarbrögð, meira en þúsund milljónir manna af mismunandi stéttum og menntun í mörgum gerólíkum ríkjum; en þessi kenning er vissulega óprófanleg. Ekkert virðist heldur benda til að milljónir samkynhneigðra um veröld víða hafi eitthvert sameiginlegt lundarfar, sem greinist afgerandi frá lund gagnkynhneigðra. Hvernig ætti að vera mögulegt að kanna slíkt? Allur rasismi virðist því jafnvitlaus. Ég hef mér það helst til afbötunar að jafnóprófanleg er andstæð kenning sem kunnust er af Helgu Kress og félögum, að grundvallarmunur sé á lundarfari kynjanna, og hann birtist í bókmenntum eftir karla og konur, m.a. Þessi kenning var alkunn í mínu ungdæmi og hét þá karlremba, en er nú kennd við kvennamenningu. En er ekki augljóst að t.d. menntakonur í Reykjavík eiga miklu meira sameiginlegt með eiginmönnum sínum, bræðrum, og einkum vinnufélögum, en þær eiga með fiskverkakonum á Akranesi eða Ísafirði, hvað þá með bændakonum í Afríku og Asíu?
En verst er að Stefán lætur sér nægja "hugsunartilraunir" í stað þess að kanna hvað raunverulega gerðist, sögulegar aðstæður. Ég þykist hafa rakið að háir bók hans verulega.
Ég verð að biðjast velvirðingar á því að segja Stefán hafa gefið úr sex fræðirit á 22 árum, þegar það var á 12 árum. Ég veit satt að segja ekki hvernig þessi villa varð til. Innsláttarvilla?

P.s. Mikið væri gaman ef Gústaf Níelsson vildi útskýra hvað hann á við með að kalla mig ”Heiðar snyrtir hinna sósíalísku þjóðfélagsvísinda”.

Þingkosningar í Danmörku

Þingkosningar í Danmörku (26.8.2011)
Lengi hefur þess verið vænst að forsætisráðherra Danmerkur boðaði til kosninga, en hann hefur frestað því hvað eftir annað, enda eru skoðanakannanir honum mótdrægar. Allt þetta ár hafa þær bent til þess að ríkisstjórnin missi þingmeirihluta sinn.
Þessi ríkisstjórn hefur annars setið síðan um aldamót, með smábreytingum ráðherraliðs. Hún er mynduð af Íhaldsflokkinum og stórabróður hans, sem ber nafnið Venstre, en er nýfrjálshyggjuflokkur. Ekki er hann þó lengst til hægri, það er stuðningsflokkurinn sem tryggir stjórninni þingmeirihluta, Danski lýðflokkurinn (Dansk folkeparti). Sá flokkur er einkum kunnur fyrir andstöðu sína við innflytjendur, þ.e.a.s. þá sem ekki eru skjannahvítir á hörund. Einkum hefur flokkur þessi alið á ótta við fólk fætt og uppalið í löndum þar sem Íslam er ríkjandi trúarbrögð. Það eigi aldrei að geta aðlagast ”dönskum sjónarmiðum”, hver sem þau svo eru. Það virðast helst vera ótti við breytingar og öfgafull þjóðernisstefna.Þessi flokkur hefur lengi verið í vexti, 12-15%, en er nú spáð hnignun, e.t.v. vegna fjöldamorða skoðanabróður hans í Noregi.
Stjórnarandstöðuflokkarnir sem taldir eru munu vinna meirihluta nú, eru Sósíaldemókratar og Sósíalíski vinstriflokkurinn (SF). Sá flokkur hefur nálgast krata mjög á flestum sviðum undanfarið ár. Hann minnir annars mest á Alþýðubandalagið íslenska, en danskir kratar líkjast Samfylkingunni. Auk þeirra er í stjórnarandstöðu Einingarflokkurinn (Enhedslisten, EL), sósíalískur flokkur sem nú hefur 4 þingmenn, en er spáð allt að 11 í næstu kosningum.
Hvað mun breytast við væntanlega stjórnarmyndun þessara flokka? Ekki margt, held ég. Stjórnarandstaðan hefur fyrir löngu fallist á takmanir á innflutningi fólks til landsins, en gagnrýnir stjórnina fyrir niðurskurð til menntamála. Raunar hefur ríkistjórnin minnkað tímabil réttinda til atvinnuleysisbóta úr fjórum árum í tvö, og afnumið rétt til að fara á eftirlaun við 58 ára aldur. Þetta sagði hún vera grundvöll bætts ríkisfjárhags, en þetta vill stjórnaandstaðan endurreisa. Nýfrjálshyggja er áberandi hjá krötum, ekki síður en hjá Venstre. Bæði kratar og SF leggja áherslu á að ”styrkja atvinnulífið”, þeir síðarnefndu komu um daginn með hugmyndir um skattalækkanir á nýjum fyrirtækjum. Ríkisstjórnin boðaði um daginn að glæða íbúðamarkaðinn með afnámi þinglýsingargjalda og skatta á kaupendur íbúða. Kratar reyndust hafa átt njósnara í innsta hring ríkisstjórnarinnar, og boðuðu ásamt SF samdægurs mjög svipaðar aðgerðir. Gagnrýnendur benda á að einmitt slíkar aðgerðir stjórnvalda hafi sett af stað ”húsnæðisbóluna” í Bandaríkjunum sem breiddist um heiminn, fólk hafi keypt húsnæði sem svo reyndist því ofviða að greiða af, það hafi leitt til keðjugjaldþrota. Kreppan grefur um sig í Danmörku, t.d. eykst atvinnuleysi, einnig er lítil hreyfing á húsnæðissölu, og um helmingur verslana á í erfiðleikum, fjórðungi þeirra er spáð gjaldþroti. Stjórnarandstöðuflokkarnir höfðu lengi boðað opinberar framkvæmdir, t.d. endurnýjun skóla og sjúkrahúsa til að aflétta samdrætti og atvinnuleysi. Stjórnarflokkarnir höfðu hafnað þessu, því það kallaði á aukna skatta, í staðinn bæri að hvetja fólk til að fara meira í verslanir og sveifla greiðslukortum. En í dag (24.8.) sneri stjórnin við blaðinu og boðaði opinberar framkvæmdir til að aflétta atvinnuleysi. Um leið lagði hún fram fjárlagafrumvarp með miklum halla; 85.000 milljónir danskra króna. Dönsk króna er metin á 21 íslenskar, svo fólk getur reynt að reikna þetta út. Raunar segir efnahagsráðherrann, Brian Mikkelsen að þetta muni skila sér aftur í auknum skatttekjum við batnandi þjóðarhag. Þessar andstæðu fylkingar, kallaðar blá og rauð, nálgast mjög hvor aðra og keppa báðar um fylgi miðjufólks í stjórnmálum. Þar eru fyrir litlir flokkar og áhrifalitlir, Radikale Venstre og klofningsflokkur frá þeim, Liberal alliance, sem báðir boða skattalækkanir og niðurskurð hins opinbera, binn síðarnefndi þó miklu meira.
Þessar áberandi tillögur beggja fylkinga merkja að nú er kosningabaráttan hafin af fullum krafti.
Væntanlega munu lesendur Smugunnar hafa mestan áhuga á flokkinum lengst til vinstri, Einingu (EL). Hann var stofnaður fyrir tveimur áratugum við samruna flokksbrotanna yst til vinstri, sem þá voru orðin áhrifalítil en höfðu sum átt fulltrúa á þingi og borgastjórnum. Þetta voru gamli kommúnistaflokkur Danmerkur (DKP), trotskistar (SAP), maóistar (KAP) og einkum sundurleitur flokkur Vinstrisósíalista, VS. Þetta voru erfðafjendur, eins og margir lesenda munu kannast við, en sögðu nú að meiru skipti samstaða um sameiginlega stefnu en ágreiningur um fortíðina, hvað hefði verið rétt stefna eða röng í Sovétríkjunum áratugum áður. Blaðamenn hæddu þennan nýja flokk og kölluðu hann ”Sameinuðu dánarbúin”. En hann komst á þing þegar SF hvarf frá andstöðu við Evrópusambandið með Edinborgarsamkomulaginu,1993. Jafnframt hvarf mesti hluti DKP frá Einingu yfir í SF, enda sammála þeim flokki í meginatriðum, eins og gamlir félagar Alþýðubandalagsins mega kannast við.
Æ síðan hefur EL unnið fylgjendur frá SF, þó aldrei eins og nú, þegar forysta SF hefur nálgast krata á flestum sviðum. Þingmannafjöldi EL hefur sveiflast milli 4 og 6, oftast hefur flokkurinn verið í námunda við lágmarksfylgi til að komast á þing, 2% atkvæða. En honum er nú spáð um 6%.
EL telst vera einskonar systurflokkur VG, en munurinn er sá að EL boðar sósíalisma, og þar að auki byltingu. Gamli ágreiningurinn innan EL milli flokksbrota hefur að mínu mati aldrei sagt til sín. Auðvitað er ágreiningur um ýmis mál, en hann gengur þvert á flokksbrotin gömlu, og raunar eru flestir flokksmenn EL nýir, utan þeirra. Helst er deilt um hve langt eigi að ganga til að verja ríkisstjórn krata og SF falli, og er það nýtt að nú vilja þingmenn EL greiða atkvæði með fjárlögum. Hinsvegar var samþykkt að sú ríkisstjórn félli á eigin bragði, ef hún sviki gefin loforð um hagsbætur til fátæklinga. Meginstefna Einingar er að styðja allar úrbætur til þeirra, en berjast gegn öllum skerðingum á hag þeirra. Flestir flokksmenn eru andstæðir veru Danmerkur í Evrópusambandinu og þátttöku Dana í stríðinu í Afganistan.
Sigurvegarar tapa.(16.9.2011)
Nöfn danskra stjórnmálaflokka eru gömul og oft mjög villandi. Stærsti hægriflokkurinn heitir Venstre, og Radikale venstre er alls ekki róttækur vinstriflokkur, heldur borgararalegur flokkur sem vill lækka skatta á tekjuháu fólki, en skerða atvinnuleysisbætur. Erfitt verður krötum að halda saman bandalagi þeirra og Einingar (Enhedslisten) sem vill þvert á móti auka atvinnuleysisbætur og hækka skatta á auðmönnum.
Sammála eru þessir tveir flokkar þó um að aflétta takmörkunum sem sett voru innflytjendum, um að þeir skyldu vera 24 ára til að giftast og fengju ekki dvalarleyfi nema hjónin hefðu samanlagt meiri tengsl við Danmörku en annað land. En verðandi ríkisstjórnarflokkar, kratar og SF, hafa einmitt bundið sig við þessar skerðingar! Líklegt þykir að Radikale beygi sig fyrir kröfu um að tryggja einhvers konar eftirlaun.
Þingkosningarnar í Danmörku fóru nokkurn veginn eins og spáð hafði verið, ríkisstjórnin missti meirihluta sinn, og “Rauða bandalagið” vann. Það er hlálegt í þessu sambandi að stærsti stjórnarflokkurinn, Venstre, bætti við sig hálfu prósenti og einum þingmanni, en sigurvegari kosninganna, kratar, töpuðu hálfu prósenti og þingmanni!
Hefur fylgi krata ekki verið minna í heila öld, er nú fjórðungur atkvæða, en Venstre hafa ívið meira. Nánir bandamenn krata, SF (áþekkir Alþýðubandalaginu íslenska), töpuðu þó mun meira, misstu þriðjung þingmanna sinna, sjö, en Eining (EL) tók við því fylgi og þrefaldaði þingmannatölu sína, hefur nú 12 í stað 4 áður. Fjölmiðlar persónugera þetta að vanda, og þakka fylgiaukninguna 27 ára talsmanni flokksins, Johanne Smidt Nielsen. Hún var rökföst og skelegg í umræðum, en aðrir þingmenn flokksins ekki síður, Frank Aaen sem hefur manna mest gagnrýnt stórfyrirtæki og skattleysi þeirra, einnig Per Clausen og Line Barfod, en hún hættir nú á þingi vegna tímatakmarkanna flokksins, enginn má sitja lengur en tvö kjörtímabil. Mikið er úr því gert að nú komi reynslulítið fólk á þing frá Einingu, en það er alls ekki rétt, þetta fólk er þrautreynt í stjórnmálabaráttu, þótt margt af því sé ungt.
Mestu breytingarnar urðu annarsstaðar. Íhaldsflokkurinn missti meira en helming þingmanna sinna, hefur nú átta í stað 18 áður. Eitthvað af því fór til nýs flokks, Liberal alliance, sem er allra flokka róttækastur í að boða lækkaða skatta og niðurskurð á þjónustu hins opinbera á öllum sviðum. Mun meiri varð þó fylgisaukning Radikale venstre, sem einmitt bætti við sig átta þingmönnum. Nú hafa lengi verið miklar sveiflur á fylgi hans og Íhaldsflokksins. En þessu sinni held ég að þetta beri að skýra með því að Íhaldsflokkurinn var í ríkisstjórn og naut stuðnings Danska lýðflokksins, sem einkum hamast gegn múslímum, en Radikale venstre eru svarnir fjandmenn þess flokks, sem nú missti þrjá þingmenn og hálft annað prósentustig. Ekki er að vita hvort hryðjuverk skoðanabróður þeirra í Noregi fyrir tveimur mánuðum olli miklu um það, en þetta er í rauninni mesta breytingin sem varð í þessum kosningum, straumur til helstu andstæðinga Danska lýðflokksins. .
Íhaldsmenn eru sem vonlegt er gramir yfir þessum úrslitum, en reyna að hugga sig við að skammt muni að bíða nýrra kosninga. Því ofan á framangreindan ágreining flokkanna sem standa munu að næstu ríkisstjórn bætist að stjórn Evrópusambandsins reiknar með núllvexti efnahagslífsins innan þess. Meira að segja í Þýskalandi verði alger stöðnun í árslok. Útflutningur til þess hefur verið helsta lyftistöng danskra fyrirtækja, svo útlitið er svart, og stöðugt eykst atvinnuleysi í Danmörku, og gjaldþrot fyrirtækja.
Hvað sem öllu þessu líður eru það stórtíðindi að tíu ára valdatíma borgaralegu flokkanna, og þó einkum áhrifa Danska lýðflokksins er lokið, og að Eining hefur treyst stöðu sína afgerandi. Áður var því oft haldið fram að það væri sóun atkvæða að kjósa hana, því hún væri alveg við lágmarksfylgi til að komast á þing, 2%, og kæmist sjálfsagt ekki inn. En nú var það augljós firra, svo einnig skoðanakannanir hafa aukið flokkinum fylgi. Óhugsandi er að Eining taki þátt í ríkisstjórn, því það myndi splundra þessum flokki byltingarsinna. Hinsvegar vill hún styðja ríkisstjórn krata og SF - nema sú ríkisstjórn skerði hag alþýðufólks. En þannig eru nú kratar vanir að leysa auðvaldskreppur, eins og þá sem væntanlega herðist nú enn. Kratar segjast vilja fá Radikale inn í ríkisstjórnina, en þeir vilja “breitt samstarf yfir miðjuna”, þ.e. með íhaldinu. Þannig þvinguðu þeir kratann Poul Nyrup Rasmussen til að skerða eftirlaun, þvert ofan í kosningaloforð hans, og því misstu kratar völdin fyrir áratug.

Um skáldverk Sigfúss Bjartmarssonar

Sigfús er eitthvert merkasta skáld Íslendinga nú á dögum. Allt of lítið hefur þó borið á honum opinberlega, sigurstranglegra til að komast í heiðurslaunaflokk listamanna virðist vera að framleiða sem mest af lélegum skáldsögum eða kvikmyndum, og pota sér áfram við ráðamenn. En af skáldum hefur Sigfús lengi verið metinn öðrum fremur. Þegar þetta er skrifað, á 30 ára útgáfuafmæli Sigfúss, hefur hann sent frá sér níu bækur, mjög margvíslegar. Smásagnasafn, ferðabók, 5-6 ljóðabækur (mörkin eru óljós), einnig yfirlitsrit um illfygli og óargadýr, raunar mjög skáldlegt.
Fyrst bóka Sigfúss var ljóðakverið Út um lensportið, 1979. Það er þrír bálkar, sem hver rúmar sjö ljóð. Miðhlutinn er tímasettur 1975-78. Þetta sýnir óðar að höfundur hefur verið mjög vandfýsinn á eigin verk, þótt fátt nógu gott í fyrstu bók. Síðasti bálkurinn er mæltur af ferðalangi í Mið-Ameríku, en Sigfús hefur löngum farið miklar langferðir um framandi slóðir. Þegar í þessari bók koma fram varanleg höfundareinkenni. Blæbrigðaríkt talmál ríkir, með slettum og tilvísunum í ýmislegt í fjöldamenningu samtímans, sjónvarpsefni o.fl. af því tagi. Oft er talað til viðmælanda í bókunum, og skapar það kumpánlegan blæ. Ekki veitir af, því mælandi er sérkennilegur, sér vítt um heiminn og mannkynssöguna á persónulegan hátt, forðast klisjur.
Skarpar andstæður ríkja í fyrstu bókinni, t.d. kaldhæðni, vonbrigði og subbulegt umhverfi ásta. Dæmi þessara andstæðna, sem sýna framfarir í kaldhæðnislegu ljósi er eftirfarandi ljóð. Hnignun manns er sýnd með lýsingu iðnaðarhúss; samur er grái liturinn á veggjum þess og á hári mannsins og frakka, en alkalísprungur tengjast ennishrukkum. Fyrirlitning samborgaranna birtist í háðsglotti bílljósa löggubílsins. en borgin sefur arískur ungherji daufur til augnanna nýútskrifaður í víkingasveitina með ágætis teygir letilega út fæturna í framsætinu á leiðinni að iðnaðarhúsinu að hirða upp róna – hnípinn undir steinveggnum sem er grár eins og frakkinn og hárið og snjókornin á öxlunum alkalísprungurnar og hrukkótt ennið lítur hann undan háðsku glotti bílljósanna hættur að kunna að skammast sín þrátt fyrir ásakandi skömmustulegt augnaráðið sem hann mætir í gættinni eftir að hafa verið draslað inná bílgólfið hættur að kunna að skammast sín já meira að segja dálítið stoltur frussandi sundurlaus blessunarorð til afundins sonarins með hvíta beltið og kylfuna sem honum tókst þó að koma þetta mikið til manns arískur ungherji daufur til augnanna nýútskrifaður í víkingasveitina með ágætis Önnur ljóðabók Sigfúss, Hlýja skugganna, birtist 1985. Hún skiptist í fjóra hluta, og er sú skipting greinilega eftir efni, þótt ekki sé auðvelt að lýsa einstökum hlutum. II. hluti er enn svipmyndir frá ferðalögum í fjarlægum heimshlutum, IV er eitt kvæði langt um ferðalag. Kvæðin eru annars margvísleg. Flest eru auðskilin, mörg löng, en svo koma nokkur örstutt, einkum í I, sjá t.d.:
lasinn
gamall
bitur og lasinn
fullur af eftirsjá
eftir vindi.
— og annað ljóð:
heimspekingar æðrast
sælir eru einfaldir
aldrei misskildir fyrir annað
en það sem þeir eru
getur ljóð orðið mikið einfaldari en þetta? Mér finnst mun meiri veigur í ljóðum af öðru tagi hjá Sigfúsi, t. d. það sem nú skal sýnt. Þar er aðeins ein líking, sem gengur í gegnum allar myndirnar, og hún á mjög vel við efnið; hringur sem þrengist. Þetta er ekki aðeins sagt, heldur skynjar lesandinn það líka, við þessa endurteknu hringlögun í æ smærri myndum. Þær raðast líka á áhrifamikinn hátt, fyrst hversdagslegar, en dæmigerðar, loks algert myrkur og járngreipar lokast um manninn. Nú eru þessi orð auðvitað margtuggin um líf fíkla. Einmitt þessvegna verða þau áhrifarík hér, í svona byggingu og sýnir þetta dæmi vel hvað Sigfús getur náð góðum tökum á skáldskap. Titill ljóðsins er á stofnanamáli, háð um feluorðin sem höfð eru um drykkjusýki.
hringar í lifi drykkjutæknis
lyfjabúðirnar
mynda ysta hring
innar er betliröltið
þá sólargangur um garð
innst lögun handar um flösku
um nætur
er hvelfingin
svartur spírall
stiginn annar minni
fyrir miðju og neðst
er járnbentur hringur
myrkurs og fellur að
svo þétt að hæfir einu höfði.
Upphafsljóð bókarinnar sýnir sérkennilega mynd guðs í fyrsta erindi, en bakgrunn þeirrar myndar í 2. erindi, m.a. mynd afskræmdra englanna þar. Litir myndarinnar eru kuldalegir, eingöngu gráir, svartir og bleikir. Brennur trúvillinga nefndust auto da fé. Og merkilegt er að sjá hvernig fléttað er, t.d. með tölunni sjö:
eitt vald gegn öðru
I
á fornlegu málverki
sá ég mynd af guði
af íhyglinni í svipnum
og ótvírætt illgjörnum og þó mæddum dráttum í munnvikunum
fór mig að gruna að einmitt þarna
væri hann að gera það upp við sig
hvar hann ætti að bera niður
hvert hann ætti núna
að senda plágurnar sjö
málaranum tókst að þvi að talið er
að selja þessa mynd feneyskum kaupmanni fyrir svo mikið fé
að það kvað hafa bjargað honum
frá kuldabólgum sulti og betli
gert honum fært að flýja
kóleru fátækrahverfisins
kuflklædda útsendara almættisins
allar refsingar guðs
að því er heimildir greina
í heila sjö vetur
II
samkvæmt munnmælum
á kaupmaðurínn feneyski
að hafa heitið á málverkið
sér til heilsu og kaupgæfu
og víst er að hann auðgaðist
allt framá efri ár
eða þar til hann fyrirfór sér
sumir segja í sturlun
aðrir í ölæði fram á skrifborðið
undir þessari táknmynd sem hann elskaði svo heitt
undir gráum svörtum og bleikum
blómum bakgrunnsins
dauðastirðum limum vængstýfðra dverga
afmynduðum glottum þeirra
í ærum dansi en aftast
í silfurhyljunum sjö
svartnættisspeglunum öllum
bökin ber
blóðkrossarnir fljótandi
og tærnar sex af einum fæti
III
nú er fátt vitað lengur
um hvaða slóðir flóttinn bar málarann
og ekki vitað til að hann hafi oftar
málað af slíkri himneskri djöfullegri nautn
og holdlegri gleði
sína prívat villutrú á striga
en það er skjalfest að hann lést
áðurnefndum sjö árum síðar
undir húrrahrópum rétttrúaðra
og það síðasta sem hann orgaði
af bálkestinum yfir lýðinn
voru þessi orð — auto da fé
ato da fé deiti
— maðurinn einn er höfundur dauðans.
Mest ber enn á löngum ljóðum frá fjarlægum slóðum, Mexícó, New York, Sínaí, t.d. Skáldið leggur sig einkum eftir hinu smáa og hversdagslega, að ég ekki segi þvælda og sóðalega. Orðalagið er því allt algengt. Draslið liggur eftir menn, en sjálfir eru þeir mestmegnis fjarverandi. Af þessu rísa áhrifaríkar myndir af tómleika og getuleysi fólks til að móta líf sitt. Um það getuleysi, „þá eilífu einsemd" hvíslar vindurinn, eini viðmælandi skæruliðanna í einu ljóðinu. Titill kvæðisins er tvíræður, Wallstreet Journal er þekkt blað, og fjallar m.a. oft um horfur í efnahagsmálum, en í nafni þess felst líka tákn heimsauðvaldsins, höfuðandstæðings skæruliðanna. Aðalandstæður ljóðsins eru annars vegar skæruliðarnir, sem af veikum mætti berjast við það að ná tökum á lífi sínu og umhverfi — og hinsvegar tómið. Því sést engin hreyfing nema skæruliðarnir á ferð og svo vindurinn „einn". Hann er því persónugerður, til að gera tómið átakanlegra, „hvíslar holróma", og hreyfing hans er að feykja minningum um menn eins og bréfrusli. En þessar minningar um hetjur fyrri tíma, „goðsögnin" er eina vörn skæruliðanna auk glotts þeirra, sem táknar storkandi uppreisnarvilja. Meira að segja byssurnar þeirra eru útsöluvara, eitthvað sem aðrir vildu ekki. Allt miðast við að sýna hve veikburða þessi sjálfstæðisviðleitni er. Umhverfinu er lýst með neikvæðum orðum, sem tákna hnignun og auðn: „rykug, fornar eyðibyggðir, kyrkingsleg, holróma hvísl, rytjulegum skugga". Skæruliðarnir eru þolgóðir, enda eru þeir að ganga þessa leið í sjöunda sínn, beygðir undir þungu fargi baráttunnar. Og þeir eru að hverfa í þessari auðn, inn í myrkrið, undir skugga hræfuglsins. En þeir hola föllnum félögum sínum niður „eins og kartöflum", þ.e. fyrir hvem fallinn munu margir rísa.
Án fjaðra heitir þriðja ljóðabók Sigfúsar á tíu árum. Ólíkt fyrri bókum ber hér mikið á löngum ljóðabálkum. Sá fyrsti heitir Cro-magnon mennirnir koma og lýsir endalokum Neanderdalsmanna í árdaga steinaldar. En þar er ýmislegt fleira á ferð, eins og í öðrum ljóðum þessarar bókar, hálfkveðnar vísur, vísanir í fornar bókmenntir og sagnir, innlendar og erlendar, og lesandinn borinn áfram á grun fremur en vissu. Sum ljóðanna virðast raunar auðskilin, ef ekki einföld, t.d.: Á góðum degi fínn dagur til að hætta hverju sem er gera ekki frekar að hlutum að myndum ekki að kenndum heldur éta ekki fleiri tunglber hverfa ekki framar í holur sem þannig myrkvast auga í auga leita ekki frekar að nýju æði betri undrum upplagt að hætta í dag öllum slætti á gamla taug hætta að hlusta á slitin sín leggjast svo til að kvöldi með uppgerða tiltrú og ónotuð glöp handan við tengsl Á yfirborðinu er margt kunnuglegt og auðskilið. Fólk er t.d. alltaf að hætta að reykja, hætta að drekka eða hætta að loka sig inni, fjarri félagslífi. En hér virðist heimsins glaumi hafnað rækilegar því það á að hætta að leita „að nýju æði, betri undrum". Það virðist stangast á við lok ljóðsins þar sem að kvöldi kemur til ný tiltrú og ný glöp. En það er með tilbrigði við orðalagið „að leggja til" sem merkir að búa lík til greftrunar. Tunglber mun ekki hafa á góma borið fyrr en í þessari bók og þannig er fleira, ljóðið gengur út frá kunnuglegu tali um algenga hluti en dregur lesandann þaðan út í eitthvað annarlegt og nýtt. Það sést enn á þessu: Vökustaur vakan er hvítt naut sagðirðu og í gagnsæi svefnrofanna spyrnti það við fótum á bleikum vörum þínum hvítt naut úr einhverjum steini bættirðu við síðar Þetta var fyrir löngu og ekki eftir af þér núna nema einn og annar smáki svo sem augun loðandi við kalkað höfuð þess svo grimmileg svikul og góð meðan troðinn er marvaði í bleikri eðju og hvítri Hér virðist minnst löngu látins manns, lítið eftir af honum annað en minningin um augnaráð hans og þessi dularfullu orð sem ljóðið hefst á. Merkja þau að vakan sé sviplaus og þrungin heimsku? Nánar að gáð virðist hún ekki vera úr hvítum steini, heldur bara kölkuð, þarna er eitthvert fals. Altént hefur vakan nú morknað eins og maðurinn, steinn er orðinn að eðju. Það er martröð líkast að troða marvaða í slíku, ekki síst þegar bleikur litur hennar tengist bleikum vörum mælandans, feigðarlitur. Ljóðið er þrungið andstæðum. Þar er talað úr svefnrofum um vöku, augnaráð þess sem minnst er, er svo andstæðuríkt að það verður táknrænt um lífið og þar með afar lifandi en nú er hann dáinn. Og hversvegna heitir ljóðið vökustaur? Það var pinni til að halda augum fólks opnum við gegndarlausa vinnuþrælkun fyrr á öldum. Röklegt samhengi ríkir ekki í ljóðinu, frekar en endranær í nútímaljóðum. En útkoman úr þessu öllu verður sérstæð tilfinning og það sýnist mér gilda um ljóðin almennt Þannig verður fólk bara að láta ljóðin orka á sig í ró og næði frekar en að reyna að komast til botns í þeim.

Mýrarenglarnir falla
Þessi bók geymir sex smásögur á um 160 síðum. Ein þeirra er sýnu lengst, 67 bls., og greinist í fjóra kafla, hinar eru á bilinu 10-20 bls. Allar gerast sögurnar í sveit og mér liggur við að segja að sú sveit sé ævinlega aðalpersónan. Magnaðar lýsingar beinast fyrst og fremst að því að gera hana lifandi fyrir lesendum en í hverri sögu er líka áberandi sögumaður sem talar í 1. persónu. Um hann skiptir sögunum annars nokkuð í tvö horn. Í lengstu sögunni og tveimur öðrum segir ungur strákur frá dagsins önn á sveitabæ. Hann gengst mikið upp í að vera maður með mönnum, þ.e. tileinka sér verklag og viðhorf hinna fullorðnu, forðast allt barnalegt. Einna mikilvægast er að stelast til að skjóta, veiða fisk og sýna að maður kunni að fara með dráttarvél. En víða kemur fram togstreitan milli barnseðlis annars vegar en hlutverks fullorðins hins vegar, strákur hefur tófu fyrir leynilegt gæludýr og saknar kálfs (bls. 61): „Auðvitað er asnalegt að finnast gott að láta sjúga á sér puttana. En það er kosturinn við kálfa að í hausnum á þeim er ekkert nema eðlið." Stráknum í lengstu sögunni er trúað fyrir því að halda músunum niðri og þá birtist metnaður hans í afbrýðisemi gagnvart kettinum, hugvitssamlegum veiðibrellum og verkun skinna af músunum. Drengurinn er mjög viðkvæmur fyrir áliti fullorðna fólksins á sér og tileinkar sér hleypidóma þess gegn Reykvíkingum, „symfóníugargi í útvarpinu”, sumarbústaðafólki, hestamönnum o.fl.þ.h. Og þetta verður einkar lifandi í stílnum því að auðvitað talar barnið fullorðinslega. Málfarið er mjög auðugt og blæbrigðaríkt og þetta verður margbrotin og eftirminnileg mynd því að undir öllu kyndir einmanaleg barátta drengsins við óviðráðanleg verkefni. Þar má aldrei slaka á, kostar lífið ef barnið hagar sér eins og barn. Í þremur sagnanna er sögumaður fullorðinn. Hann virðist ellihrumur í Vargakallið, sem snýst um að skjóta fugla, botnlaus drápsfýsn er helsta lífsmarkið með manninum. En dauðinn er hvarvetna nálægur í þessum sögum, einkum þó þeirri fyrstu og síðustu. Lokasagan hverfur alveg frá þeim raunsæisblæ sem ella ríkir að mestu í sögunum og fyrsta sagan, Heim, hvarflar á mörkunum. Hún segir frá ferð uppkomins manns til upprunastaðar síns. Sagan hefst uppi á fjalli og ferðin er örðug en þegar maðurinn er kominn í sjálfheldu, birtist allt í einu maður á báti til að ferja hann yfir á aðra strönd. Með honum í bátnum er hundur, minkabani mikill. Auðvitað er ekkert eðlilegra í íslensku landslagi en maður með hund. En þessi maður birtist svo óvænt og er svo óforvitinn og óræðinn, að lesanda dettur í hug Karon, sem ferjaði dauða til heljar í grískum goðsögum, þar var líka varðhundur mikill. Enda virðist sögumaður á leið til dauðans. Hér er ekkert ótvírætt um túlkun og það gerir söguna sérlega heillandi því að hún er í senn rótföst í íslenskum jarðvegi og þrungin örlagamætti goðsögu. Sama gildir um síðustu söguna, þar gætum við verið á ferð, ýmist upp sjávarhamra á íslandi eða fjallið í Hreinsunareldi Dante. Maðurinn í Heim kemur loks að eyðibýli sem hann þekkir svo vel að það er greinilega bernskuheimili hans. Enda eru þar svipir að fagna honum, högg heyrist úr mannlausum kjallara, o.fl.þ.h. Allt er hér eyðingunni undirorpið og sú tilfinning birtist þétt í mynd sem hann finnur (bls. 17): „Milli fléttanna var ekkert að sjá lengur nema strik, punkta og örsmáar eyður og titraði saman líkt og sjónvarpsdraugur." Að því er virðist til að bjarga álft frá eyðingunni fer maðurinn að skjóta svartbak (bls.16): til hliðar og neðan við hausinn svo innvolsdrullan stóð fetið aftur úr honum þegar hann lenti [... ] Þegar ég leit upp fann álftin augun í mér eins og skot, reigði sig við og gargaði, barði vængjunum og rótaði í slýinu og ísnálunum og gular glymurnar stóðu af sljóleik og fólsku. Lýsingin er dæmigerð fyrir bókina, sýnir mikið næmi fyrir umhverfinu og ferska skynjun. Ennfremur er þetta eins og samið í andstöðu við rómantísk ljóðin sem við lærðum í skólanum, „ljúfan heyrði ég svanasöng á heiði". Þetta er í samræmi við líf fólksins sem lýst er, enda hugsar strákur á dráttarvélinni (bls. 90): „Ég held að orðið fjallahringur sé fundið upp af manni sem var orðinn leiður á því að snúa." Þessi andrómantík er kannski meginstrengurinn í hugblæ bókarinnar en hann er þá margþættur, tregi er einnig áberandi. Mikilvægast er þó hve þrungin bókin er ljóðrænu myndmáli og sérkennilegum líkingum sem markvisst skapa henni þennan hugblæ. Dæmi finnum við þegar á fyrstu bls.: Færið var fínt og marraði undir fæti eins og molað gler. Það er vatnslykt í lofti, og varasöm hláka, því uppi í hvítum leynum giljanna lá myrkrið örugglega í dyngjum og beið. Líkingamar sýna inn í huga mælanda. Ætla mætti að hann væri vanari að ganga á glerbrotum en snjó en fremur mun þó líkingin fallin til þess að skapa lesendum óhug. Einnig hitt að myrkrinu er ekki bara líkt við snjódyngjur heldur er eins og það liggi í launsátri fyrir vegfarendum. Þetta sýnir ugg ferðalangsins. M.a. vegna þess hve virkur stíllinn er á þennan hátt finnst mér þetta ein magnaðasta bók sem ég hef lengi lesið.
Zombíljóð Þetta er mikill ljóðaflokkur, 74 tölusett ljóð í sjö bálkum. Hann hefst á orðinu "Og", þannig hefjast flest erindin framanaf, svo lesandinn er óðar staddur í miðjum klíðum. Upphafið einkennist af langsóttum líkingum, helst virðist mér það að skilja sem vetrarmynd. Mælanda finnst myrkt umhverfið snúa baki við honum, glórulaus hríðin minnir á augnhvítu. 1 Og drífur blinda hvítuna yfir óseðjandi fleirtölu og tómhyggjan magur biti en sér þó um sína Og breið bök myrkranna tómlát og sætlega brothætt upplitin blönk eins og blóm Þetta er forboði sköpunarsögunnar sem hefst í 6. ljóði; mælandi býr til Zombí. En það enska orð táknar uppvakning, viljalaust og mállaust vinnudýr. Héðan af er ljóðabálkurinn tal mælanda við þessa veru, og má furðu gegna hve háspekilegt það tal oft er við slíkan heilaleysingja. En á hinn bóginn má segja að skiljanlega láti mælandi sér annt um uppeldi þessa sköpunarverks síns, varar hann t.d. við naflaskoðun í 16. ljóði og segir: "stakhyggja sófistanna/ er í rauninni ekki hugsun/ heldur eðli" o.fl. fræðsla um heimspeki eða boðun lífsskoðunar er í þeim dúr. Síðan fræðir hann Zombí um heiminn. Nánar til tekið birtist hér heimsmynd ungs, menntaðs Íslendings nú á dögum. Sú heimsmynd er eins og að líkum lætur ekki skipuleg, heldur brotakennd, stokkið úr einu í annað. Hér bregður m.a. fyrir Óðni, poppsöngvara, bandarískum kvikmyndum og íslensku landslagi til sjávar og sveita. Einnig er tekinn fyrir margskonar hugsunarháttur. En jafnan túlkar mælandi hvaðeina af kaldhæðni og bölsýni. Víða er orðalag sem lýtur að dauða, einnig er mikið um slitið og útþvælt glys, ekki síst það sem hrifið hefur, svosem poppgoð sem var einskonar táknmynd lífsmáttar 1968 (31) eða helgidómar t.d.: "einnota allt saman/ eins og ljósþyrnikórónan/ billega áðan manstu/ á bensínstöðinni" (38). Af öllu þessu virðist eðlilegt að álykta að Zombí sé ávarpaður sem fulltrúi lesenda. Nokkuð er um vísanir í bókmenntaverk, t.d. í kvæði Jónasar Hallgrímssonar (4), Jóhanns Sigurjónssonar (9), fyrstu bók Thors Vilhjálmssonar (21). Sérkennilegast er að sjá Sigfús vísa til síðustu bókar sjálfs sín (Mýrarenglarnir falla), því Zombí er með "mýrarlita vængi" (7). Einnig ber nokkuð á mótsögnum, t.d. segir að löngu sé fullreynt að "allt/ þarf að falsa af innsæi/ ástúð og umhyggju/ ef það á nokkurntíma eftir/ að reynast satt" (2, auðkennt af E. Ó.), ennfremur má telja: umbrotakyrrð (3), ærandi kyrrðin, fleirtala eintölunnar, marglyndi einlyndisins (allt í 11). Þetta gerir heimsmyndina víðfeðma, en jafnframt gera mótsagnirnar og langsóttar líkingar hana framandi. Stundum verða þessar sérkennilegu líkingar m.a. til að tengja í knöppu formi gamalkunn atriði úr íslenskri sveitamenningu við samtíð okkar, t.d. í sköpun Zombí (6), einnig ummyndast bókaskápar og verða að kafaldshríð úti á melum: "skefur/ í skafl og fönn/ -alsnjóa bráðum/ af fölnuðum síðunum." Ljósaskiptum er líkt við sjávarföll, og í framhaldi eru sundurleitar líkingar um vonir, því veldur tvíræðni lýsingarorðanna helberar og bláberar. Annars vegar getur þetta verið myndræn lýsing á lífverum, en hinsvegar eru þessi lýsingarorð oft höfð um lygi (5): [...] í mjúku aðfalli ljósa útfalli rökkurs sígildra vonanna eflaust og í morinu bíða þær helberar híma þær bláberar hníga þær og rísa og löðrið lyngrautt þangið tunglsvart og athvarf hinna önduðu ókomið af hafi. Öll þessi samþjöppun gerir ljóðabálkinn stundum torskilinn, en jafnframt magnaðan. Upphafið er samþjappaðast, en II og III er miklu aðgengilegra, síðan gengur á ýmsu. Speglabúð í bænum er ljóðabók, en geymir einnig stuttar frásagnir. Merkilegust þykir mér sú síðasta, Minnisgreinir um kennarann. Það er afar nákvæm mannlýsing, hlutlæg og hlífðarlaus, án þess að vera sérstaklega neikvæð. Hér er lýst íhaldssömum manni, sem heldur fast í sinn barnalærdóm, og er á móti öllum nýjungum, á hvaða sviði sem er. Það er ekki fyrr en í lokin að fram kemur að hér er lýst föðurbróður höfundar. Sigfús nær svo vel viðhorfum og einkennandi orðalagi, t.d. síbyljunni, að mér finnst ég hafa þekkt manninn alla tíð, enda þótt ég hafi aldrei séð hann né heyrt. Lítið dæmi (bls. 94):
Hann hefði líklega ekki sagt neitt upphátt en hnussað í honum fremur góðlátlega ef hann hefði séð á bók þá fullyrðingu að orð væru dýr því hann hafði verið alla sína ævi að horfa up á gengisfall þeirra og hlusta eftir því hvernig þau týndu tölunni og málfarið lamaðist og tungan rýrnaði uppi í þjóðinni – og hún vandist ekki sú hnignun og þá voru þeir að verða fáir eftir sem höfðu einhverja hugmynd um hvað þeir lásu í útvarpið og þar urðu líka kvæðin undantekingalítið mun verri en engin og ýmist bitin í smátt eða tuldrið rann út í eintón sem fólkinu var svo fyrirmunað að hefja upp nema í kjökur þegar síst skyldi og átti náttúrlega hvergi við heldur nema þá í stásstofunum hjá Ibsen kallinum þegar volæðið í fyrirfókinu ætlar allt lifandi að drepa.

Vargatal 1998. Hér eru talin 18 rándýr og –fuglar, byrjað á ísbirni og endað á mönnum. Fram kemur í fyrsta þætti að þetta er ímyndun sögumanns, hann telur þetta frekar en kindur til að sofna. Einnig er þetta í andstæðu við (bls. 6) ”Á sunnudagsmorgnum þegar helgislepjan lá yfir landinu eins og lím með angistarfullum húsflugum í, á meðan útvarpspresturinn malaði frammi í kapp við helvítis köttinn” Hér kemur mikið fram um sögumann, sem er fíkinn í veiðar og því skilningsríkur á vargana. Einna mest heillandi er hvernig hann lýsir umhverfinu frá sjónarmiði þeirra, gjörólíku því sem lesendur eiga að venjast sem aðlaðandi. T.d. (bls. 9):

”nei hann sér bara hungrið í grængresi og blómum, í sólblámanum á vogunum. [...] Einn daginn er lagstur hretsvali í loftið og síðan gerir von bráðar á hann yndislega krapahríð þar sem hann stendur í fjöru og mænir út á sjómyrkrið.”
Enn magnaðri eru lýsingar á kjörlendi t. d. sílamáfa og rotta, klóök með öllu sem þeim fylgir.
Ferðabók Sigfús hefur löngum farið löng ferðalög víðsvegar um heiminn, og sér þess merki víða í ljóðum hans. En sérstaka ferðabók sendi hann frá sér 2004, Sólskinsrútan er sein í kvöld, og segir þar frá ferðum hans um Mexíkó og Gvatemala. Hann er einn á ferð og notar ýmist almenningsrútur eða gengur. Fram kemur að hann hefur farið um þessar slóðir áratugum áður, og hittir nú stundum forna félaga, bæði innfædda og aðkomufólk frá Norðurlöndum og Bandaríkjunum, sem ílenst hefur á þessum stöðum. Sögumaður getur talað við hvern sem er, en mest virðist það vera um daginn og veginn, afkomu og veiðiskap, auk þess sem hann fær nokkrar fréttir af framferði stjórnvalda. Fólk er þó á varðbergi um slíkt, og sögumaður er fyrst og fremst skoðandi. Stöðum er víða lýst myndrænt en umfram allt mjög hlutlægt. Ekkert er dregið undan um eymd og sóðaskap, og í samræmi við þessa hlutlægni er að hvergi er vonarglæta um framfarir. T.d. segir ítarlega frá fjöldamorðum stjórnvalda Gvatemala á sveitafólki sem þau kölluðu skæruliða, og einnig frá því hve óskipulagðir og illa búnir skæruliðar hafi verið, engra afreka að vænta af þeim. Vissulega mætti þetta svartnætti þykja óraunsætt í ljósi þess að fræg eymdarbæli víða um heim hafa þróast til betra ástands, nægir Íslendingum að lesa Dickens og gamlar skáldsögur Halldórs Laxness til að sjá dæmi þess. En allt um það fer vel á þessari hlutlægni ferðasögu Sigfúss, myndin verður sterkari við að vera svo einhliða.
Í samræmi við hana er einnig stíllinn. Bókin er á talmáli, mjög blæbrigðaríku, með bæði fornlegu orðalagi og mjög skotnu slettum. En svo vel sem málhreinsunarstefna getur þótt eiga við sumsstaðar, hefði hún fjarlægt þessa sögu lesendum.
Sérkennileg er einnig nýjasta bók Sigfúss, Andræði, 2004. Þetta er safn stuttra texta, rímaðra og (óreglulega) stuðlaðra, með reglulegri hrynjandi. Þó hika ég við að kalla þetta ljóð. Höfundur lýsir þeim sjálfur svo, m.a. að þeim ”kippi í heimsósómakynið, þótt trúlega séu þau enn skyldari níðkveðskap, öfugmælum, útúrsnúningum og þvílíkum stráksskap sem alltaf þarf að vera með dáraskap og derring.(...) þegar vandræði eigi samræði við heilræði sé hætt við því að undir komi andræði.” Oft er eins og rímið ráði för, og útkoman verður því stundum óvænt, jafnvel óræð. Þetta er að hætti surrealista á fyrra hluta síðustu aldar. Dæmi (bls.11): Ágæti alls ræður eftirspurnin ein Jú aum mun nú sú óánægja sem engan gleður. Örm mun nú sú ófullnægja sem engan seður. Fleiri mætti slík dæmi finna, en meira ber á röklegum textum með kunnuglegum skoðunum. Dæmi er á bls. 36: Rétt er nú jafnréttið gráasta grín
Kalla má nú alla karlrembu-
svín Og pungrottur aðra. En níð er ef nokkur þá þorir enn að segja: legremburotta og naðra.
Slíkir textar verða æ meira áberandi er á bókina líður, einkum dægurmál um stjórnmál, sem satt að segja eru margséð í fjölmiðlum. En hvað sem líður ofansögðu, er niðurstaðan ótvírætt sú, að sérhver bók Sigfúss Bjartmars sé mikill fengur lesendum. Hann er einfaldlega með merkustu skáldum Íslands og hefur lengi verið.
Bókaskrá:
Sigfús Bjartmarsson: Út um lensportið, ljóð 1979, 48 bls. Hlýja skugganna, ljóð Mál og menning, 1985, 76 bls. Án fjaðra, ljóð. Mál og menning, 1989, 101 bls. Mýrarenglarnir falla, smásögur. Mál og menning, 1990, 169 bls.
Zombíljóðin. Bjartur 1992, 101 bls. Speglabúð í bænum, ljóð, Bjartur 1995, 102 bls.
Vargatal Bjartur 1998.153 bls. Sólskinsrútan er sein í kvöld. Ferðasaga. Bjartur 2001, 279 bls. Andræði. Bjartur 2004, 202 bls.

Skipulag háskóla

Ég varð lektor í íslensku máli og bókmenntum við Kaupmannahafnarháskóla, árið 1987. Þá ríkti einkar lýðræðislegt skipulag við danska háskóla. Þeir skiptust í tiltölulega fámennar stofnanir. Ég var við Árnasafn, sem var stofnsett um íslensku handritin, rannsóknir á þeim og útgáfu forrnrita, þar voru rúmlega 20 starfsmenn. Sumar stofnanir voru stærri, en allar svo takmarkaðar að starfmannafjölda að fólk þekkti hvað annað. Og þarna var sjálfstjórn, allar ákvarðanir voru teknar á almennum fundum. Nú gat verið gremjulegt að sjá fólk sem ekki kunni íslensku blanda sér í hvernig íslenska bókasafnið skyldi skipulegt. En það var þó smáatriði hjá öðru.
Þessir starfsmenn, sem þekktu hver annan, kusu svo stjórnanda stofnunarinnar, þeir þekktu nokkurnveginn verksvið þess sem þeir kusu. Stjórnendur hinna ýmsu stofnane heimspekideildar, t.d., komu saman til að kjósa deildarstjóra, dekan. Þeir mynduðu svo aftur annan hóp sem kaus rektor. Alltaf tröppugangur þar sem kjósendur þekktu þá sem til greina komu og verksvið þeirra. Er þetta ekki fyrirmyndarlýðræði? Amk í samanburði við núverandi kerfi, sem kratar og síðan íhaldsstjórnin kom á, ráðherra velur háskólaráð, hverjum háskóla, og einkum úr “atvinnulífinu” eftir öll þess hneyksli og óstjórn. Þetta ráð velur síðan rektor. Hann skipar einráður hina ýmsu deildarstjóra, sem aftur skipa hver um sig stjórnendur einstakra stofnana, sem nú eru orðnar miklu stærri, eftir margháttaðan samruna. Og stofnanastjórar eru einráðir um mannaráðningar, hvort farið skuli eftir dómnefndarálitum, hvort fólk fái framhaldsráðningu í starf sem það hefur gegnt, o. s. frv. Í stuttu máli sagt, toppstýrt einræði er komið í stað lýðræðis. Þetta kerfi beindist að beinhörðum árangri í tekjum svo sem í atvinnulífinu, og leiddi af sér hneyksli svo sem það að Milena Penkova var hafin til tignar, fjárveitinga og valda, en varð svo uppvís að ritstuldi og fölsuðum tilraunum. Eftirlitið brást með öllu, því hinum ýmsu stjórnendum var í hag að efla stjörnuna.
Var þá allt gott áður?
Nei, það er nú öðru nær. Fólk var fastráðið eftir að hafa verið stundakennarar, og það var kosið í stjórnir, ráð og nefndir, af vinnufélögum sínum. Með öðrum orðum, nýliðar og aðrir sem sóttust eftir frama þurftu umfram allt að koma sér vel við sem flesta þeirra. Stundakennari þurfti auðvitað að sýna kunnáttu í sínu fagi. En hann mátti alls ekki láta þá kunnáttu varpa rýrð á aðra fastráðna starfsmenn, nema hann væri með heilt lið á bak við sig. Og það var oft tilfellið, starfsmenn skiptust iðulega í illvígar klíkur sem börðust um völd og fé. Þarna sátu fræðimenn, sem áttu umfram allt að vera sjálfstæðir, gagnrýnir og hlutlægir. Það er til marks um hvílík spilling hlaust af þessu kerfi, að ritdeilur komu varla fyrir, amk. ekki þar sem ég þekki til, í bókmenntafræðum, engin skoðanaskipti, menn virtu bara að Jón ætti þetta svæði, Páll hitt, og enginn skyldi hafa afskipti af því. Kannast íslenskir lesendur við þetta, t.d. hjá Háskóla Íslands? Hefði Penkowa-hneyksli getað orðið við slíkar aðstæður? Já, alveg örugglega, því miður. Eftirlit frá félögum í faginu er lítið sem ekkert.