þriðjudagur, 27. nóvember 2012

Nú er rúmt ár síðan stjórnarskipti urðu í Danmörku. Hægristjórn hafði setið í áratug og m.a. helmingað þann tíma sem fólk gat fengið atvinnuleysisbætur, úr fjórum árum í tvö. Í kosningunum töpuðu kratar og SF nokkru fylgi, en gátu samt myndað ríkisstjórn ásamt borgaraflokknum RV. Flokkurinn sem var yst til vinstri, Enhedslisten, þrefaldaði þingmannatölu sína og fékk 12 þingmenn. Hann fagnaði nýju stjórninni en harmaði að RV skyldi vera með í henni, því það yrði krötum réttlæting þess að framfylgja efnahagsstefnu íhaldsstjórnarinnar. Það kom líka á daginn, RV neitaði að taka aftur styttingu atvinnuleysisbóta, og í sumar leið gerði ríkisstjórnin samkomulag við hægriflokkana um breytingar á skattakerfinu, lækkaði skatta á fólki með 370 þúsund króna árstekjur. Og áfram hélt niðuskurður á opinberum rekstri, uppsagnir í stórum stíl. Allt var þetta réttlætt með því að brátt myndi vanta vinnuafl. En staðreyndin er sú, að um 100 þúsund danir eru atvinnulausir, og eru þessar stjórnaraðgerðir því “framtíðartónlist”. Mesta athygli hefur vakið að þúsundir atvinnuleysingja munu falla út af atvinnuleysisbótum um áramótin. Umdeilt er hve margir, 16 til 30 þúsund. Þeir geta þá fengið fátækrahjálp, sem kallast “kontanthjælp” á dönsku, en þó því aðeins að þeir séu eignalausir og eigi ekki maka sem fær tekjur. Svo eigi menn íbúðarholu eða bíldruslu, verða þeir að selja þetta og éta upp áður en þeir fá krónu frá því opinbera. Um helgina, 11. nóvember gerði Enhedslisten svo samkomulag við ríkistjórnina um fjárlög næsta árs. Ýmsar umbætur má þar telja, komið skal í veg fyrir að útlendingar krókni á götum Kaupmannahafnar, flóttamenn fá nú leyfi til að sækja vinnu og skóla utan búðanna. En mesta athygli vekur að atvinnuleysingjar sem áttu að missa bætur 1. janúar nk. fá nú bætur í hálft ár eða styrk til skólagöngu. Þetta samkomulag er mikil tilslökun af hálfu Enhedslisten sem hafði krafist þess að atvinnuleysisbætur yrðu aftur í fjögur ár, og hver króna sem veitt var efnafólki í skattalækkun kæmi nú lágtekjufólki til góða. Heyrst hefur frá þingmönnum Ehl. að þeir hafi haldið sig hafa neitunarvald gagnvart ríkisstjórninni, því gengi hún ekki að þessu félli hún, og yrði að boða til kosninga. En nú gerðist það fyrir mánuði að stærsti hægriflokkurinn (sem heitir Venstre!) bauðst til að gera fjárlög með ríkisstjórninni. Menn höfðu treyst því að hann vildi allt til vinna að fella ríkisstjórnina, en betur að gáð er ekki svo eftirsóknarvert að taka við stjórn Danmerkur nú á tímum kreppu og samdráttar. Betra er að bíða með það, en verða kennt um allar kjaraskerðingarnar. Þessi tilslökun Enhedslisten gengur ótvírætt gegn ákvörðunum ársþings flokksins, að aldrei skyldi samið um að halda áfram kjaraskerðingum íhaldsstjórnarinnar, að ævinlega skyldi barist fyrir hverskyns umbótum til handa alþýðu, en gegn hvers kyns skerðingum á hag hennar. Ekki ákváðu þingmenn þetta á sitt eindæmi, heldur fengu samþykki miðstjórnar, sem er æðsta ákvörðunarvald flokksins milli ársfunda. Nú segja þingmenn Enhedslisten að ástæða þess að þau hafi slakað á kröfunum, sé sú að hefðu þau ekki samið við stjórnina, þá hefði hún bara samið við Venstre um miklar kjaraskerðingar alþýðu, og “allt sé betra en íhaldið”. Aðrir efa að slíkar kjaraskerðingar hefðu orðið, og segja að kratar og SF hefðu óttast aukið fylgistap, en með tilslökun Enhedslisten sé þeim ótta aflétt. Þingmenn Enhedslisten vildu ekki vera með í kynningu ríkisstjórnar á samkomulaginu, og sögðust munu halda sömu kröfum uppi áfram og herða baráttuna um mitt næsta ár. Þetta taka sumir félagar Ehl. undir, og segja að hálfs árs bætur séu mun betri en engar. En mér er spurn hvort þessi stefna þýði ekki bara að hér eftir ákvarði Venstre stefnu Enhedslisten. Virðist þá til lítils barist. Enhedslisten hafði stóraukið fylgi sitt á undanförnu ári, nánast tvöfaldað það, upp í 10-12 af hundraði, en það er nær fjórfalt fylgi íhaldsflokksins og tvöfalt það sem SF skráist með. Félögum Enhedslisten hefur líka stórfjölgað, eru nú nær 10 þúsund. En hætt er við að allt þetta breytist til hins verra á næstunni. Áberandi er, ekki bara að þessi svokallaða “rauða ríkisstjórn” heldur áfram kjaraskerðingarstefnu fyrri íhaldsstjórnar, heldur gengur hún lengra í sömu átt. Það er reyndar sígilt, þegar kratar stýra auðvaldsþjóðfélagi, þeir geta skert kjör alþýðu meira en íhaldið getur, af því að kratar ráða flestum verkalýðsfélögum, og halda aftur af þeim. Og það er einmitt ein helsta afsökun þingmanna Enhedslisten, það eina sem gæti stöðvað kjaraskerðingar kratastjórnarinnar væri þrýstingur frá stéttarfélögum og sveitarstjórnum. En slíkur þrýstingur hefur enginn orðið. Án slíks þrýstings fengi 12 manna þinglið Enhedslisten litlu áorkað. Í þessu sambandi má minnast þess að dönsk verkalýðsfélög standa höllum fæti, missa félagsmenn tugþúsundum saman á meðan kristileg stéttasamvinnufélög sækja í sig veðrið, það er ódýrara að vera í þeim, enda vilja þau engin verkföll hafa, og þá ekki verkfallssjóði! Þessi hægristefna “rauðu ríkisstjórnarinnar” hefur mikið bitnað á stjórnarflokkinum SF, sem hefur stórtapað fylgi í skoðanakönnunum. Formaðurinn, Willy Søvndal sagði af sér í sumar, og virtist ung krónprinsessa hans, ráðherrann Astrid Krag, sjálfkjörin. En á síðustu stundu kom mótframboð lítt kunnrar konu úr sveitarstjórn á Fjóni, Annette Willumsen, og hún gjörsigraði með tveimur þriðju atkvæða. Setti hún óðar af óvinsælan kjaraskerðingarráðherra SF, Thor Möger Petersen. Annar ráðherra SF, Ole Sohn, sem verið hafði síðasti formaður Kommúnistaflokksins, sá hvert stefndi, og sagði af sér ráðherradómi. Enda hafa síðan komið fram ásakanir um að hann hafi persónulega þegið 2-3 milljónir króna frá Moskvu í formannstíð sinni. Ekki hefur hann svarað því. Nú má þessi stefna ríkisstjórnarinnar virðast hrein fáviska, að minnka atvinnu og atvinnuleysisbætur þegar atvinnuleysi eykst. En á bak við leynast útreikningar, stefnt er að því að lækka kaupið í Danmörku með því að auka samkeppni um vinnu. Þetta hefur Venstre nýlega boðað. Og það sé vegna þess að mörg dönsk fyrirtæki flytja starfsemi sína til útlanda, þar sem kaupið er lægra. Einnig er þess að minnast að sjálft flugfélagið SAS er á hausnum, og er starfsmönnum þess nú boðið upp á launalækkun, 15-20 af hundraði, vilji þeir halda vinnu. Hyrfi SAS hefði það miklar afleiðingar fyrir Kastrup-flugvöll sem samgöngumiðstöð Norðurlanda, mörg fyrirtæki Kaupmannahafnar lifa af þjónustu við flugvöllinn. Það er kreppa í Danmörku sem víðar. Auðvitað er hún langt frá því eins alvarleg og í Suður-Evrópu, en slæm samt, fólk þorir ekki að nota þá peninga sem það þó hefur milli handanna, af ótta við atvinnuleysi. Og það bitnar á verslun og framleiðslu, stöðugt er verið að segja fólki upp og loka verslunum og öðrum fyrirtækjum. Enn bætist það við að landbúnaður er yfirleitt rekinn með halla, bændur stórskuldugir, og skammt í það að margir verði að hverfa frá búi. Þar með hrynja líka margir bankar, sem lánað hafa bændum. Smugan 17.11.201½2

Guðbergur Bergsson verður áttræður sextánda október. Þá hefur hann auðgað íslenskar bókmenntir í rúmlega hálfa öld, en fyrstu bækur hans birtust 1961, skáldsagan Músin sem læðist og ljóðabókin Endurtekin orð. Höfundarverki Guðbergs má skipta í fjögur meginsvið. Afkastamestur hefur hann verið sem þýðandi, nær 40 bindi má þar telja. Þar munar mest um stórvirkið Don Kíkóti, fjögurra alda gamalt verk, sem er ein útbreiddasta skáldsaga heims, en mun meira hefur Guðbergur þó þýtt frá síðustu áratugum. Hann gerði kólumbíska nóbelshöfundinn Gabríel García Marquéz að heimilisvini Íslendinga, og hefur þýtt safnrit portúgalskra, spænskra og þýskra bókmennta, auk fjölda einstakra skáldsagna. Í safnritunum leggur hann sig fram um heildarsvipinn, þar er margt mjög ólíkt frumsömdum verkum hans, jafnvel þjóðrembulegt og valdboðssinnað. Ljóðabækur Guðbergs hafa aðeins orðið þrjú lítil kver á hálfri öld, en margt er þar gott, og óröklegt, líkt og í sögum hans. Afar afkastamikill hefur Guðbergur verið í greinaskrifum, þar hefi ég talið átta tugi greina um stjórnmál, fagurfræði og bókmenntir, sjálfsagt eru þar margar greinar vantaldar. Sömuleiðis hefi ég rekist á 25 viðtöl við hann auk viðtalsbókar hans og Þóru Kristínar Ásgeirsdóttur fyrir 20 árum, einnig þar lætur Guðbergur gamminn geisa um ýmis málefni. Frægastur er Guðbergur þó fyrir frumsamdar skáldsögur sínar. En þær eru nú rúmlega tveir tugir, þar af mega fjórar með einhverju móti teljast barnabækur, en auk þess eru sjö smásagnasöfn. Þegar með því fyrsta, Leikföng leiðans, 1964, sagðist Guðbergur hafa aðhyllst það sem kallað var ”nýskáldsögurnar frönsku” (le nouveau roman). En frumkvöðull þeirrar stefnu var Nathalie Sarraute. sem var meðal kunnustu skáldsagnahöfunda Frakklands á seinni hluta 20. aldar. Hún fæddist sem rússi árið 1900, undir nafninu Natalia Tsjerniak, en fluttist til Frakklands á barnsaldri. Hún hefur vísað til fyrirrennara sinna í þessarri nýju sagnagerð: að nokkru til sagna franska skáldsins Huysmans 1884 – að söguþráður sé óþarfur, og til Kafka og Joyce upp úr 1920 – þar er fráhvarf frá persónusköpun, en margbrotin persónusköpun þótti áður vera aðalsmerki skáldsagna. Það sem vinnst við að sleppa söguþræði og persónusköpun er að áherslan flyst frá viðburðum og eiginleikum persóna að hugarástandi, sálarlífi, sem margir eiga sameiginleg, m.a. lesendur. Hefðbundnar skáldsagnapersónur þóttu vera of mótaðar, frosnar sem fulltrúi einhvers eiginleika, nísku, ástar, o.s.frv., en nú var lögð áhersla á hverfula strauma undir yfirborði þeirra Tengist þetta síendurteknum alhæfingum Guðbergs um hópa? Altént virðist þarna birtur almennur hugsunarháttur. Skáldsögur Nathalie Sarraute eru fremur stuttar. Ekki er samfelldur söguþráður. Þær hafa fáar persónur og fæstar eru nafngreindar. Textinn er flæði ummæla og hugsana, í brotaformi, erfitt er að sjá skil milli hugsana og tals, hvað þá milli persóna. Allt er þetta á talmáli menntaðs efnafólks. Mikið er um endurtekningar og ýmislegt er þar af þráhyggjutagi. Sama gildir um sögur annars framámanns hreyfingarinnar, Alain Robbe-Grillet. Í sögum hans er lítið um samtöl, en þeim mun meira um lýsingar umhverfis, sem oft eru endurteknar með tilbrigðum, en Sarraute hefur litlar sem engar slíkar lýsingar, hjá henni er mest um samtöl, einnig þau eru endurtekin með tilbrigðum. Sérstaka athygli vekur franskur höfundur sem ekki taldist til þessa straums, Georges Perec, en hann skapaði oft mannlífsmynd með því einu að lýsa húsbúnaði og öðrum hlutum. Sagt hefur verið að þessar endurtekningar með tilbrigðum séu til þess fallnar að stöðva alla atburðarás, en einnig að afnema tilvísun orða til umhverfis, túlka flæðið undir talinu. Guðbergur notar mest talmál íslensks alþýðufólks frá uppvaxtarárum sínum og umhverfi. En bæði Guðbergur og Sarraute ýkja og skrumskæla,gerapersónur sínar einhliða og hlægilegar. Fyrsta bók Nathalie Sarraute, Tropismes, birtist 1939, og sameinaði 24 stutta texta frá 1932-37. Þeir eru af sama tagi og seinni verk hennar. Hún varð nær 100 ára, dó 1999, og var þá að vinna að sjöunda leikriti sínu. Um fyrstu bók sína sagði hún m.a.: Öll athygli mín beindist að þeim kenndum, sem valda vissum hreyfingum, vart meðvituðum, sem verða með okkur í fáeinar mínútur, stundum á fáeinum sekúndum, og sem ég hér reyndi að skila í myndum og hreyfingum setningar, eins og stækkuðum og sýndar hægt. Þegar ég loks ákvað að skrifa skáldsögu, var það bara til þess að þessar hreyfingar gætu þróast á stærra svæði og geislast út frá sömu miðju. Þetta finnst mér tengjast tíðum lýsingum Guðbergs á tilgangslausu fitli persóna við líkamshluta sinn, strjúka yfir maga eða höku, geifla sig. Ennfremur tengir Sarraute nýskáldsögur við nýstefnu í listum ella: Þannig hefur nútímatónlist losnað við tilfinningu og lag til lað leysa hreinan hljóm. Þannig beinist myndlist sem kölluð er ”afstrakt” að því að beina athygli sjáandans eingöngu að því sem er myndrænt. Þannig losnar ljóðlist við mælsku og rím. Á sama hátt beinast skáldsögur að því að losna undan persónum og söguþræði til að tengjast hreinni skynjun sem vekur vissa sýn á umhverfið eða leiki minnisins eða tímans rás, eða auðlegð andartaks sem stækkar óheft, eða innri hreyfingar, vart meðvitaðar, og hvernig þær brjótast í gegnum stirðnaðar myndir. Ýmislegt í verkum Guðbergs minnir á þessar skáldsögur, einkum það að söguþráður er ruglingslegur, stundum ófinnanlegur, skil persóna eru óljós og sögurnar gerast mest í hugarheimi þeirra, eru oft einskonar birting almannaróms. Iðulega ber sagan vitund um að vera skáldskapur. Þetta varð áberandi þegar með fjórðu bók Guðbergs, Tómas Jónsson metsölubók, 1966. Af henni varð hann frægur, og hefur átt marga trygga aðdáendur æ síðan. Þessi saga varð fræg m.a. fyrir að söguþráður var höggvinn sundur, þar var stokkið fram og aftur í tímanum, auk þess sem persónur runnu saman og sundur í lokin. Það varð þó meira áberandi í næstu sögum, 1967-76. Margt af þessu gildir líka um sögur Thors Vilhjálmssonar, þegar í fyrstu textum hans, frá 1950 að telja, en einkum elstu skáldsögurnar, frá 1968 og áfram, Fljótt, fljótt sagði fuglinn, Óp bjöllunnar og fleiri. Söguþráður er nánast enginn, persónur eru nafnlausar og renna saman, þær eru sumar ýktar. Samt eru þessar sögur ólíkar sögum Guðbergs, og það er einkum vegna stílsins, texti Thors er svo myndrænn og hlaðinn, framrásin stöðvast nánast í myndrænum lýsingum. Þessar skáldsögur hans gerast líka í Suður-Evrópu, ólíkt sögum Guðbergs sem gerast á Íslandi. Þannig eru bæði Steinar Sigurjónsson, Guðbergur og Thor afkvæmi nýskáldsagnanna frönsku, og hafa þróast hver með sínum hætti. Um Steinar má fræðast í lokabindi ritsafns hans. Sögur Guðbergs eiga það sameiginlegt að gefa fyrst og fremst mynd af samfélaginu. Það er nákvæm mynd og sannfærandi, sem lesendur geta kannast við. Röð einstakra atriða í þessu myndasafni er þá nánast tilviljanakennd, því þessi mynd af samfélaginu er alls ekki samkvæmt neinni raunsæishefð, öðru nær rúmar hún oft atriði sem allir lesendur mega vita að er fjarstæða, framrás sögunnar er einnig oft fjarstæðukennd. Persónur eru jafnan einhliða og yfirborðslegar, en nokkuð er um flökt, að ein persóna breytist í aðra. Mjög oft er dregið fram eitthvað líkamlegt, líkt og t.d. Steinar Sigurjónsson gerði áður. Allt þetta má skapa sögunum draumkenndan blæ, staðsetja þær í hugarheimi lesenda, frekar en sem eftirlíkingu umhverfis þeirra. Persónur koma á óvart, lesendum birtist sundurlaus fólksmassi og mótsagnakenndur. En þetta slævir síður en svo ádeilu sagnanna eða háð, skerpir það öllu fremur með ýkjum. Sögupersónur eru iðulega afgreiddar í hópum, með alhæfingum. Í flestum sögunum er í sögumiðju persóna sem virðist umfram allt venjuleg. Hugarheimur hennar er hversdagslegur, gjarna mótsagnakenndur. Um aðrar sögupersónur virðist óhætt að alhæfa að þær eru flestar fráhrindandi, ljótar, sóðalegar, heimskar og smekklausar. Ósjálfstæði, undirferli og sjálfsaumkun er oft áberandi. Vart geta þær látið skoðun í ljós nema taka hana samstundis aftur að mestu, og undirstrika að þeim sé ekki illa við neinn persónulega. Og setji þær fram skoðun er það á ópersónulegan hátt, sem samsamar þær einhverju meðaltali fólks (”Verið er að hossa honum” “Maður sér ekki að” o.s.frv.). Mikið er um að sögupersóna geri sér tal annarrar í hug, jafnvel í smáatriðum. Háspekilegt tal er lagt í munn ólíklegustu persóna og gerir það þær ósannfærandi. Ádeila er mjög áberandi í bókum Guðbergs, en yfirleitt birtist hún óbeint, í skopstælingum viðtekinna viðhorfa, hátta og tals birtist hve heimskulegt og ósmekklegt það er. Einkum virðist mér ádeilan beinast gegn ósjálfstæði, neyslugræðgi, gegn óvirkri viðtöku einhvers utan í frá, í stað þess að skapa. Þess má minnast í þessu sambandi að Nathalie Sarraute þótti skáldsaga Flaubert, Madame Bovary miklu betri en saga hans Salammbo. Það væri vegna þess að allar lýsingar í fyrrgreindu bókinni væru út frá sjónarmiði söguhetju en ekki höfundar. Sakaði þá ekki að frú Bovary er fávís snobb (Oeuvres completes, bls. 1630-1635). Mér finnst Sarraute ósanngjörn gagnvart Salammbo, lýsingar sögunnar einkennast af annarleika en ekki klissjum. En þetta minnir á sögumiðju Guðbergs, einnig hann lýsir umhverfinu oft frá sjónarmiði persónu sem flestum lesendum má þykja takmörkuð að viti. Thor Vilhjálmsson fór líkt að í sögulegri skáldsögu sinni, Grámosinn glóir, lýsti Íslandi í gegnum ljóðmyndir ættjarðarljóða 19. aldar, en það er einnig einskonar almannarómur tíma skáldsögunnar, – þjóðarvitund Íslendinga um 1890. Þessi stefna í skáldskap er síður en svo bundin við Frakkland og Ísland, í Danmörku mætti t.d. nefna höfuðskáldin Per Hultberg og Vibeke Grønfeldt. Þakklátir mega Íslendingar – og aðrir lesendur – vera Guðbergi fyrir hans mikla starf, og eru það líka, flestir. Þessi grein mín byggist á bók minni um verk Guðbergs, sem birtist einmitt um þessar mundir, hún heitir bara Guðbergur. Einnig á ég grein um sama efni í nýjasta hefti tímaritsins Stínu. Nathalie Sarraute: Oeuvres completes. La Pleiade, Paris 1999, 14.10.2012 Smugan

Á Íslandi virðist ekki mikið fjallað um stríðið í Afganistan, amk. miklu minna en í Danmörku. Enda eru Danir stríðsaðilar, og er það mjög umdeilt þar í landi, einkum vegna þess að eitthvað á fimmta tug Dana hefur fallið í stríðinu, og margir örkumlast meira eða minna. Nýlega var þess minnst að tvö þúsund bandarískir hermenn hefðu fallið í þessu stríði. Ekki veit ég tölu annarra fallinna NATO-hermanna þar, og áreiðanlega hafa margfalt fleiri Afganir fallið. Von er að fólk spyrji: Til hvers er þetta, ef til nokkurs. Í Danmörku er helst andstaða við stríðsreksturinn í flokkinum sem lengst er til vinstri, Enhedslisten. Til að fá svar við spurningunni er rétt að huga að valkostunum. Fyrst nær tvö hundruð þúsund NATO-hermenn hafa ekki getað yfirbugað Talibana, má vera augljóst, að yrði þeim fyrrnefndu kippt burtu snögglega, þá kæmust Talibanar aftur til valda í Afganistan. Og þeir hafa bæði sagt og sýnt hvað þá yrði. Þeir vilja einræði – í guðs nafni, svo stjórnarfar er ekki til umræðu. Enda eru andstæðingar Talibana þá taldir óguðlegir, hvort sem þeir eru sósíalistar, feministar eða bara lýðræðissinnar, og hengdir á götum úti, svo sem allir hommar sem til næst. Talibanar fylgja gamalkunnri kenningu nasista, að staður kvenna sé eingöngu innan heimilisins, en þeir eru miklu harðari á þessu en nasistar sem leyfðu sumum konum að komast til valda og áhrifa. Talibanar sprengja upp skóla stúlkna, píska konur sem ekki “klæðast sómasamlega” þ.e. samkvæmt kreddum íslamista, og banna konum bæði skólagöngu og starf utan heimilis. Nú eru eitthvað á aðra milljón afganskra stúlkna í skólum, en komist Talibanar aftur til valda, verða það engar. Þegar fólk í þriðjaheimslandi berst gegn Bandaríkjaher, þá túlka ýmsir það sem þjóðfrelsisbaráttu, líkt og í Víetnam forðum. En þá verður baráttan að beinast að frelsun fólks, Talibanar berjast bara gegn henni, bæði í orði og verki. Oft er því haldið fram að vesturlendingar eigi ekki að þvinga fólk í þriðja heiminum til að taka upp okkar menningu – þingræði, kvenréttindi, málfrelsi og því um líkt. En lágmarksvirðing fyrir þessu fólki felur þó í sér að krefjast sömu réttinda fyrir alla, óháð kynferði, kynhneigð eða bakgrunni; rétti til menntunar, skoðanafrelsis og samtakafrelsis. Nú eru íslamistar ekki bara einhverjir síðskeggjaðir sérvitringar í fjöllum Afganistan, heldur alþjóðleg hreyfing sem náð hefur völdum í Íran og miklum áhrifum víða. Enda verður að gera skýran greinarmun á múslimum og íslamistum. Múslimar telst allt það fólk sem alist hefur upp við íslam sem ríkjandi trúarbrögð. Þetta er eitthvað á annan milljarð fólks í mörgum sundurleitum löndum, það er af ýmsu menntunarstigi og þjóðfélagsstéttum, sumt trúrækið, annað ekki. Enginn getur þekkt allt þetta fólk, og því getur enginn alhæft um það, það væri fávíslegt í meira lagi. En íslamistar eru stjórnmálahreyfing einræðissinna og misréttissinna, eins og áður segir. Fortölur og rök bíta ekki á slíka hreyfingu, þeir virða ekkert nema vald, vopnavald. Ýmsir vinstrisinnar hafa einhverja samúð með þessari hreyfingu, vegna þess að hún berjist gegn heimsvaldastefnunni, sem ríkisstjórn Bandaríkjanna leiðir. En sú andstaða er bara í nösunum á íslamistum. Svo dæmi sé tekið af klerkastjórn Írans, þá er það ríki, sem stórútflytjandi olíu, auðvitað tryggilega innlimað í alþjóðlegt auðvaldskerfið. Og framámenn Írans nýta sér ólýðræðislega stjórnarhætti til að auðga sig persónulega. Nasistar og fasistar sögðust líka berjast gegn alheimsauðvaldinu, sem þeir að vísu kölluðu alþjóðlegt samsæri gyðinga. Ekki var það vinstrisinnum átylla til að sýna þessum fasistum minnstu samúð, svo vitlausir voru þeir ekki. Þeir hlutu að styðja vægðarlausa vopnaða baráttu gegn þeim. Sömuleiðis er oft sagt að fólk geti aðeins frelsað sig sjálft, það geti utanaðkomandi ekki gert fyrir það. Rétt er það, ef um er að ræða sósíalíska byltingu, því hún merkir að fólk taki sjálft völdin. En öðru gegnir um að frelsa fólk frá einræði og fjöldamorðum, þá þarf oft erlenda íhlutun. Hennar þurfti til að sigra nasista í Þýskalandi, kollvarpa múgmorðingjum “Rauðra khmera” í Kampútsíu, morðóðum einræðisherranum Idi Amin í Úganda, o.s.frv. Það er borgaraleg þjóðernishyggja en ekki sósíalísk að telja landamæri heilög. Virði stjórnvöld einhvers lands ekki réttindi íbúanna, þá eru þessi stjórnvöld ekki réttmæt. Andstaða gegn Taliban og öðrum íslamistum er sjálfsögð fyrir alla lýðræðissinna og jafnréttissinna, og þar með fyrir sósíalista. En það felur að sjálfsögðu ekki í sér neinn stuðning við heimsvaldastefnu Bandaríkjanna, né við spillt stjórnvöld í Kabúl eða íslamíska stefnu þeirra sumra. Taka ber afstöðu til málefna, frekar en að skipa sér í lið. Fólk verður ævinlega að meta hvaða afstaða er eðlilegust hverju sinni. En taki menn sjálfkrafa alltaf afstöðu með þeim sem segjast vera andstæðingar Bandaríkjastjórnar, þá eru þeir handbendi Pentagons. Kippi það í eina átt, sveiflast menn sjálfkrafa í hina. smugan 4.10.2012

Ljóð eru fyrirferðarlítil í bókmenntalífi Íslendinga. Sum ljóðskáld eru að vísu kunn, jafnvel fræg, en altént er mér grunur á að miklu fleiri kannist við þau en lesa verk þeirra. Það er leitt, því fólk fengi mikið gagn af ljóðalestri. Ljóð eru besta móteitur gegn vanahugsun og klissjum sem til er. Ljóð rýna í málið, leysa upp einstök orðasambönd og sýna nýjar hliðar á þeim. Fólk ætti því að lesa ljóð, og grípa víða niður. Ekki bara lesa ljóð viðurkenndra skálda, heldur prófa sem flest. Einungis þannig geta menn brotist út úr vítahring fyrirhyggju, að láta aðra hugsa fyrir sig, vera attaníoss. Það er engin áhætta í að lesa ljóð, þvert á móti, jafnvel þótt lesin séu misgóð ljóð og stundum léleg, eykst bara dómgreind lesanda við það. Fólk getur sannreynt þetta, eftir lestur nokkurra ljóðabóka í nokkra mánuði mun það öðlast aukna tilfinningu fyrir ekki bara ljóðum, heldur einnig fyrir hverskyns orðalagi. Og segi ykkur einhver að það sé meðfædd gáfa að skilja ljóð, og verði ekki lærð, þá biðjið hann að rökstyðja mál sitt. Ætla ég að þar verði fátt um svör. Margs er að gæta í ljóðum. Þar getur stuðlun skipt máli til að tengja tiltekin orð, einnig getur rím eða hljómmynstur haft slík áhrif, eða lagt áherslu á orðasamband, ennfremur getur hrynjandi verið áhrifarík, og algengar eru ljóðmyndir,það er lýsingar sem eru svo hlutlægar að þær höfða til ímyndunarafls lesenda, svo sem þessar ljóðlínur eftir Þorstein Gíslason ritstjóra fyrir um það bil öld: Ljósið loftin fyllir og loftin verða blá Einnig eru algengar líkingar, að tala um eitt eins og það væri eitthvað allt annað, svo sem í framhaldi þessara ljóðlína, þar sem talað er um vorið eins og það væri mannvera: Vorið tánum tyllir tindana á. En þessu sinni skulum við einkum halda okkur við annað einkenni ljóða, en það mætti kalla orðarof. Það er áberandi í verkum Árna Larssonar, en nýlega bárust mér nokkrar ljóðabækur eftir hann, og skulum við taka dæmi af þeim. Árni sendi sína fyrstu bók frá sér fyrir réttum fjörutíu árum, bókin hét Uppreisnin í grasinu, skáldsöguþættir Sú bók hefur orðið mér minnisstæð, einkum hve lifandi lýsing þar var á elli, skáldað af ungum manninum. Síðan hefur Árni sent frá sér tíu ljóðabækur, sú síðasta birtist nú nýverið; Ég get ekki gefið þér næturhimin fullan af stjörnum, en hafðu þetta skömmin þín. Árni hefur skoðanir eins og margir aðrir, og fer ekki dult með þær. Einkum er honum uppsigað við hvers kyns múghugsun, fylgispekt í menningarlífi, sem og braskið sem setti þjóðina nánast á hausinn nýlega. Og vitaskuld er skáldum frjálst að nota fúkyrði sem önnur orð tungunnar. Einungis skiptir máli að verkið standist sem heild. Tökum dæmi: Ókeypis röntgenmynd af íslensku menningarlífi það er of mikið af dauðum skáldum sem eru að yrkja dauð ljóð þetta eru dauðir skólavinir dauðra útgefenda og dauðar sögur þeirra dauðir ættingjar dauðra stjórnarlima tilfallandi dauðar bólvelgjur það þarf ekki að splæsa dauðum bókmenntafræðingi á dauðar afurðir dauður viðskiptafræðingur nægir eða dauður ættfræðingur félagsfræðing þyrfti þó til að greina í sundur sýkta klíkuþræði Þetta ljóð mætti einhverjum þykja nær reiðilegu lesandabréfi en skáldskap. En þarna orkar klifunin á orðinu dauður, og ljóðið nær yfir sviðið sem um er talað. Hljómfallið er líka vandað og vekur tilfinningu fyrir ljóði. Annað ljóð fer bil beggja, ádeilu og orðaskoðunar, ef svo mætti orða það, tvíræðni orðalags: Á snyrtistofu grettis ófáir nútíma glámar búa í blá lýstum svita bað stofum skvapi næst og svo aðrir skapi næst mætti ætla að herfa bak svipi værðamollukauða sjónvarps greiðunni inn-dælu (sic) en blóðsugur komið sér fyrir belgfullar á barnaspítala hringsins um aldur En þessi ádeila er þó ekki aðalefni ljóðanna, fjarri því. Þar ber meira á því sem hér má sjá, hvernig orðum er skipt milli lína, svo tvíræðni skapast: Sundurlyndi Sú stund kemur með frost nálar í kviku þegar þú nærð í hala stjörnu augna bliks þegar nóttin verður með vitundarlaus og lag línuísinn hraðar sér í sundur 21.9.2012 Smugan

Kvennabókmenntir og myndmál smæðarinnar Helga Kress á grein í síðasta Skírni, Unir auga ímynd þinni. Landið, skáldskapurinn og konan í ljóðum Jónasar Hallgrímssonar. Þar rekur hún í mörgum dæmum og fróðlegum hvernig Jónas kvengeri Ísland, eins og fyrirrennarar hans, Eggert Ólafsson og Bjarni Thorarensen. Þetta er þakkarvert, en hér eru jafneinhliða og villandi tilvísun og í grein Helgu frá 1985, sem ég ræddi í bók minni Seiðblátt hafið, 2008 (bls. 345-7, tilvísanir í bókarlok). Helga sagði í greininni 1985 (bls. 27) að Ellen Moers nefni í Literary women frá 1976 myndmál smæðarinnar sem einkennandi fyrir kvennabókmenntir, og bendir á að í bókmenntum sínum samsami konur sig gjarnan því sem er lítið og minnimáttar, og séu litlir hlutir, svo sem blóm, fuglar og fiðrildi, mjög algengir í myndmáli kvenna þar sem þeir fái oft táknræna vídd. [...] Þvert á móti þessu varar Moers við alhæfingum um sameiginleg einkenni á skáldskap kvenna og segir m.a. (bls. 262) að glæsilegar lýsingar kvenskálda á opnu landslagi ættu að stöðva næsta gagnrýnanda sem segi að allar skáldkonur séu inniverur, og næsta sálfræðing sem talar um “innra rými”. Moers leggur annars sérstaka áherslu á myndir fugla í skáldskap kvenna, einkum finnst henni fuglar í búri áberandi hjá skáldkonunum sem hún fjallar um. Og í ljóði Huldu Geðbrigði, líkir ljóðmælandi sér einmitt við fugl í búri til að sýna ófullnægju sína. Þetta tekur Guðni Elíasson upp í grein um skáldskap Huldu 1987, (bls. 76-8) og segir m.a.: sjálfsvitund Huldu tengist fremur smáfuglum en ránfuglum og hún táknar oft frelsissviptingu sína með vængbroti, vængjaleysi eða einhverju slíku. Þó að önnur nýrómantísk skáld eigi til að nota líkingamál af þessu tagi [...] er hér um sérstaklega kvenlegt líkingamál að ræða eins og Ellen Moers bendir réttilega á. Reyndar sagði Moers (bls. 246) að því femínískari sem bókmenntaverk væri, þeim mun stærri, villtari og grimmari væru fuglarnir sem þar birtust! Ránfuglar urðu vissulega nokkur tíska í ljóðum sumra nýrómantískra skálda um 1900, tákn frelsis og þróttar. En því fer víðsfjarri að smáfuglar séu sérkenni kvenskálda. Í því fylgir Hulda sem oftar Þorsteini Erlingssyni, fræg kvæði með smáfuglum eru og eftir Pál Ólafsson, Jónas Hallgrímsson og Steingrím Thorsteinsson, sem einnig var átrúnaðargoð Huldu. Mér sýnast smáfuglar ekki síður áberandi í ljóðum Sigurjóns Friðjónssonar en Huldu, raunar reyndist hann mun bundnari átthögum, búi og fjölskyldu en hún. Moers fjallar fyrst og fremst um enskar, franskar og bandarískar skáldkonur frá því seint á átjándu öld og fram á 20. öld. Hún fjallar lítið um skáldskap karla til samanburðar, og síst í myndmálskaflanum. En heimsfræg saga eftir karlmann, frá miðri 19. öld byggist einmitt á þessari mynd fugls í búri, og leikur tæpast vafi á því að Hulda hefur þekkt Næturgalann eftir H.C. Andersen. Verður þetta atriði því ekki talið dæmi um “eilífkvenlegt”, óháð stað og stund. Auðvitað er Ellen Moers ekki neinn hæstiréttur um bókmenntatúlkun, en sé vitnað í rit, ber að fara rétt með niðurstöður þess, ekki að snúa þeim við. Mér þykir líklegt að Helga hafi frétt af því að hún var sökuð um rangfærslu í riti mínu fyrir nærri fjórum árum. Reyndar tók ég þetta mál aftur upp í greininni Skæðar kreddur í tímaritinu Stína (nóvember 2009). En allavega ber þeim sem skrifar fræðilega um efni að kynna sér hvað birst hefur um það nýlega. Samt ítrekar hún nú fyrri fullyrðingar. Fleira mætti telja, leyfði rými. En til þess að fræðimannlega væri að farið í nú endurtekinni fullyrðingu Helgu um að “myndmál smæðarinnar” einkenni skáldskap kvenna, þá þyrfti hún að prófa það á skáldskap karla. Það gerir hún ekki, nema hvað hún sýnir að Jónas Hallgrímsson hefur þetta til að bera, og var þó karlmaður. En raunar er þetta áberandi hjá mörgum karlkyns skáldum, svo víða, að þessi kenning hennar fellur. Ekki er hér rúm fyrir langa upptalningu, ég nefni bara dæmin: Sigrúnarljóð Bjarna Thorarensen, Kvöld eftir Benedikt Gröndal, Laugardalur eftir Steingrím Thorsteinsson, Hallgrímur Pétursson eftir Matthías Jochumsson, Barmahlíð eftir Jón Thoroddsen, Vorvísa eftir Grím Thomsen, Sólin birtist hlíðum.. eftir Sigurjón Friðjónsson, Draumur vefarans eftir Sigurð Sigurðsson, Sjáland Jakohs Smára. Lesendur ættu auðvelt með að finna fleiri dæmi. Vissulega einkennist skáldskapur sumra karlkyns skálda af “myndmáli stærðarinnar”, einhverju hrikalegu. Nefna mætti Matthías Jochumsson, Benedikt Gröndal og lærling hans Kristján Fjallaskáld. Einnig þeir hafa líka “myndmál smæðarinnar”, enda er engin andstæða í þessu tvennu fólgin, skáld hafa einfaldlega eitthvað skynjanlegt í myndrænum lýsingum sínum. Helga Kress fer hér með kenningu sem ekki stenst athugun, byggist á rangtúlkun, og sem er afturhaldsboðskapur; um að binda kvenskáld á bás formæðra þeirra. Haldi skáldkonur sig ekki við forskriftir um “myndmál smæðarinnar” og annað eftir því, þá teljist þær vera “karlkonur”, ekki tækar sem yrkjandi konur. Mbl. 17.7.2012

Einar Már Jónsson: Örlagaborgin Þetta er mikið rit, 540 bls. með heimildaskrá og nafnaskrá. Gott var að hafa þá síðarnefndu þegar hér, enda þótt þetta sé aðeins fyrra bindi tveggja. Vonandi kemur heildarnafnaskrá í lok síðara bindis. Ritið einkennist af mikilli þekkingu höfundar á ritum um mannkynssögu. Enn betra er þó hve laus hann er við örlagahyggju, að allt sé óhjákvæmilegt. Þar nýtist honum vel “andsaga”, eða hvað á að kalla “kontrafaktisk historie”. Sem sé hugleiðingar um hvað hefði gerst ef einhver hefði hagað sér öðruvísi en hann gerði. En þannig opnast augu manna fyrir sögulegum aðstæðum og öflum, og var það einkar sannfærandi um fyrri heimsstyrjöld, hversvegna hún varð svo löng og mannskæð. En mest er þó um vert það eljuverk Einars að lesa sig í gegnum rit frjálshyggjumanna, Adam Smith, Ricardo, Maltus og fleiri, og fjalla um þau af dómgreind og yfirsýn. Það gerir þetta verk svo mikils virði, að hann tætir í sundur rök þeirra og sýnir fram á þröngsýni þessarar stefnu. Sögulegt yfirlit um stéttabaráttuna gegn alþýðu, einkum á Bretlandi, er óhugnanlegt, en rekur vel hvert frjálshyggjan leiðir. Enn einn mesti kostur ritsins er hve vel það er skrifað, fyndið og vel orðað. Það grípur lesendur, ég las það í striklotu frá mánudagskvöldi til fimmtudagsmorguns, 500 bls. Sérstakur kostur er einnig hve vel ritið tengist íslenskri sögu og menningu. Ekki bara með góðum þýðingum á erlendum ritum, heldur einnig með að draga fram þýðingar Jóns Þorlákssonar á Bægisá, kvæði Stefáns G. og Auðfræði Arnljóts. Þetta grípur íslenska lesendur. Það má þykja merkilegt að tvö mikil rit gegn frjálshyggju skyldu birtast á íslensku á sama ári, og á sama götuspotta! Ránargötu, rit Stefáns Snævars á horni hennar og Bræðraborgarstígs, en rit Einars Más út við Ægisgötu. Síðarnefnda ritið er laust við þá ágalla fljótfærni, vanhugsunar, sem finna má á riti Stefáns, en þessi rit varpa alls ekki skugga hvort á annað. Þvert á móti styrkja þau hvort annað, eru sem samstillt sókn. Semsagt, ég þakka góða bók, og heiti á móti að senda þér bók mína Guðbergur, þegar hún birtist síðar á þessu ári. Þar er líka vitnað í gott vital þitt við Guðberg. Til bráðabirgða legg ég hér grein mína gegn Helgu Kress og fleiri bókstafstrúarmönnum, hún birtist í Mogganum (zzz), en þar varð ég þó að sleppa dæminu um grátljóð, vegna rýmis. 23.8.2012

Líkingar ákvarða hugsun Á 18. öld komu fram menn Upplýsingar. Þeir fylgdu skynsemishyggju sem blómstrað hafði á öldinni áður, og trúðu því að fengi fólk réttar upplýsingar um hvaðeina, myndi það taka skynsamlegar ákvarðanir. Þögul forsenda þessa viðhorfs var auðvitað að allt fólk myndi hugsa á sama hátt, hefði það sömu upplýsingar. Nú er alkunna að þetta er firra, fólk hefur mjög mismunandi forsendur, og dregur skynsamlegar ályktanir út frá þeim ólíku forsendum. Sumir telja að einstaklingar skapi allt sem einhvers sé vert, aðrir álíta að slík verðmæti verði til í samstarfi. Sumt fólk hefur alist upp við einræði og aga í fjölskyldunni, getur því oft ekki hugsað sér að taka sjálfstæðar ákvarðanir, heldur fylgir hvers kyns valdboði og er sælast með það. Annað fólk sem fékk svipað uppeldi rís upp gegn hverskyns valdboði. En fólk sem elst upp við að börnum sé sýnd virðing, talað um fyrir þeim með rökum fremur en með boðum og bönnum, það verður eðlilega sjálfstætt frá blautu barnsbeini, sýnir sjónarmiðum annarra virðingu, og vill að ákvarðanir séu teknar lýðræðislega um sameiginleg mál. Málspekingurinn George Lakoff hélt nýlega fyrirlestur í Kaupmannahafnarháskóla. Þar rakti hann að hægristefnan í Bandaríkjunum – og víðar – byggist einmitt á einveldisviðhorfum. Þegar Richard Nixon bauð sig fram til forseta 1960 og aftur 1968, þurfti hann að höfða til alþýðu, fá atkvæði verkafólks. Og til þess lagði hann áherslu á „fjölskyldugildi“ (family values). En það voru einmitt hefðbundnar fjölskyldur, þar sem fjölskyldufaðirinn réð öllu, og börnin voru alin upp við strangan aga og hlýðni, virðingu fyrir yfirvöldum og kirkju, gamaldags biblíutúlkun og svo framvegis, við algera andstöðu við sjálfstæða hugsun. Lakoff hélt því fram að vinstrisinnum hefði gengið illa að standa gegn þessari afturhaldssókn – vegna þess að þau trúðu enn á hugmyndakerfi Upplýsingarmanna, að allir hlytu að komast að sömu niðurstöðum, ef þeir bara fengju sömu upplýsingar. Og hvernig fengu Nixon og félagar verkalýðinn til að snúast gegn verkalýðsfélögum? Þeir nýttu sér bakslag gegn sigursælli kvenréttindabaráttu og jafnréttisbaráttu blökkufólks og annarra dökkra innflytjenda frá Mexíkó og Mið-Ameríku. Nú urðu margir hvítir alþýðumenn hræddir um vinnu sína og samfélagsstöðu, þá var hægt að telja þeim trú um að þeim væri í hag að kjósa “lög og reglu”, þ.e. lögregluvald gegn þessu fólki, það sem hægrimenn kölluðu „frelsi“. Því væri rangt að þvinga fólk til að ganga í verkalýðsfélög, rangt að þau skyldu hafa vald til að stöðva framleiðslu verksmiðju sem ekki bauð verkalýðnum sæmileg kjör, auðherrann ætti auðvitað að hafa frelsi til að reka sitt fyrirtæki að eigin vild. Sömuleiðis ætti að ríkja frelsi í heilbrigðismálum og skólahaldi, öllum ætti að vera frjálst að stofna og reka skóla að eigin vild, sömuleiðis að reka sjúkrahús og bjóða þar þá þjónustu sem arðbær gæti talist. Trúin á strangt föðurvald mun valda því að tengja þetta við frelsi ríkisstjórnarinnar til að hervæðast fyrir ógrynni skattfjár og nota her sinn til að ráðast inn í lönd sem ekki byðu olíu á nógu lágu verði og setja þar upp leppstjórn í stað óþægra ríkistjórna. Íslenskum lesendum þessa mun þessi málflutningur nauðakunnugur, nógu lengi hefur hann dunið á okkur. En auðvitað er þetta versta firra. Til þess að atvinnulíf geti þrifist í landinu, hvað þá annað mannlíf, þarf almenna skólaskyldu sem tryggir að allir kunni að lesa, skrifa og reikna, helst líka að nota tölvur og annan algengan búnað. Sömuleiðis þarf ríkið að tryggja að fólk svelti ekki í hel, verði það atvinnulaust, að það fái lækningar við sjúkdómum og slysum, eftir því sem gerlegt er hverju sinni. Það þarf ekki að vera krati, hvað þá kommi, til að aðhyllast þessi viðhorf, bara að vilja halda þjóðfélaginu gangandi án mikilla kreppna eða áfalla. Enda eru flestir íslenskir stjórnmálamenn sammála um þetta, það eru ekki nema öfgafyllstu sérvitringar, bókstafstrúarmenn, sem boða bandarísku lausnina, þar sem milljónir fólks er húsnæðislaust og getur ekki leitað sér lækninga, þurfi þess, þær eru alltof dýrar. Lakoff heldur því fram að hugtök séu njörvuð í heilafrumunum. Fái hugtök eins og „skattaánauð“, „þrældómur rískisrekstrar“ og þvílík að breiðast út, þá sé fólk fangar þessara hugtaka, og geti ekki hugsað út fyrir þau. Ég vil leyfa mér að bæta við íslenska orðinu „fjórflokkurinn“. Enda þótt allir geti séð að mikilvægustu ágreiningsmál íslenskra stjórnmála séu hvort þjóðin eigi að borga „Ísbjörg“, þ.e. skuldir íslenskra fjárglæframanna erlendis; um hvort Ísland eigi að ganga í Evrópusambandið og taka upp evru í stað krónu, um hvort viðhalda eigi kvótakerfi fiskveiða eða umskapa það, og enda þótt allir geti séð að um þessi mál eru helstu stjórnmálaflokkar landsins ósammála, þá heldur sumt fólk áfram að þvarga um „fjórflokkinn“. Greinilega mætti tala um alvarlega heilaskemmd þar, þó ekki ólæknandi, vona ég. Allur byggist málflutningur Lakoffs á kenningum hans um líkingar (metafórur). Hann rekur að þær byggist ekki á orðum, eins og margir hafi talið, heldur á hugmyndum sem séu til utan tungumálsins. Við tölum um fætur á fólki og dýrum, en segjum einnig stólfætur, borðfætur, fjallsfótur, hagfótur. Ævinlega er þessi hugmynd höfð um eitthvað sem er undirstaða, ber annað uppi. Víðsvegar um veröldina, hvaða tungumál sem fólk notar, talar það um ástasamband eins og ferðalag – „ þau voru samferða í lífinu, þau stefndu að sameiginlegu markmiði, nú ók annað þeirra út af, “bátur þeirra steytti á skeri, – og svo mætti lengi telja. Upp er sagt um það sem er gott, niður um vont, sótt er fram, samband er hlýlegt – því í bernsku fengum við hlýju í móðurfaðmi, og svo mætti lengi telja. Lakoff sagði frá ýmsum tilraunum sem sýndu hve líkamlegar þessar líkingar voru. Hópi var skipt í tvennt og helmingurinn beðinn að rifja upp góðar móttökur sem hann hafði fengið á nýjum stað, en hinn helmingurinn átti að minnast slæmra móttakna. Síðan voru allir beðnir að giska á hitastigið í herberginu sem allir voru í. Þar munaði 5 stigum á Celsíus, sem þeim þótti kaldara sem minntust slæmra móttakna! Enn var hópi skipt í tvennt og helmingurinn beðinn að hvísla einhverju jákvæðu að nærstöddum, um einhvern viðstaddan, en hinn helmingurinn að hvísla einhverju neikvæðu um hann. Á eftir mátti fólkið velja um gjöf, að fá annað hvort kúlupenna eða handþurrku. Og hverjir skyldu hafa valið handþurrkuna? Þeir sem illu hvísluðu, auðvitað! Í annarri tilraun gafst illhvíslurum kostur á að þvo sér um hendur, en áður og á eftir voru þau spurð hvort þau fyndu til sektarkenndar. Já, það gerðu ýmsir illshvíslarar áður, en eftir handaþvottinn var sektarkenndin horfin! Enn sannast líkamlegur grundvöllur tilfinninga. Lakoff lagði áherslu á að líkingar sem móta hugsun fólks raðist í kerfi. Þannig geti sumir kratar verið vinstrisinnaðir í félagsmálum, en hægrisinnaðir í efnahagsmálum. Og eitt kerfið geri annað óvirkt. Það geti ýmsir kannast við, beri þeir saman hugsunarhátt sinn á skemmtistað laugardagskvöld og svo hvernig þau hugsuðu morguninn eftir! Oft talar fólk um rökhyggju sem andstæðu tilfinninga. En þetta byggist hvað á öðru. Gerðar voru tilraunir á fólki sem vegna heilaskaða hafði ekki tilfinningar, en hélt minningum, greind, málhæfni o.s.frv. Það gat þá ekki skilið tal um gott né illt, hvað þá tekið afstöðu til þess hvað væri æskilegt. Það hafði misst dómgreind, það gat ekki metið afleiðingar gerða sinna eða ákvarðana. Um þetta fjallar einnig Stefán Snævarr í bók sinni Metaphors, Narratives, Emotions. ..sem brátt birtist aftur, bls. 296-7). Sjálfur vék ég að kenningum Lakoff og fleiri um líkingar í riti mínu Seiðblátt hafið (Kbh. 2008, bls. 133 o.áfr.). Af öllu þessu má álykta að nauðsynlegt sé fólki að vera gagnrýnið á hverskyns hugtök sem það hefur alist upp við. Það er eina leiðin til að tryggja sér sjálfstæða hugsun. Stundum er hæðst að “pólitískri rétthugsun”, en hún er bara tilraun til að brjótast út úr viðjum þrælkandi hugtaka. Veltið bara fyrir ykkur hvað felst í orðum svo sem “kynvilla”. “frumstæðar þjóðir” og “kveneðli”, og þið sjáið að þessi orð krefjast þess af ykkur að þið fallist á ákveðin viðhorf, sem ekki hafa verið rökstudd. 25.6,2012

Straumhvörf dönsku ríkisstjórnarinnar Nú í maílok lagði danska ríkisstjórnin fram frumvarp um breytingar á skattalögum. Þær eru margháttaðar. Ríkasta fólkið á að fá minna í ellilaun og barnabætur, sem hingað til hafa verið jöfn til allra. Mun meiri athygli vekja þó aðrar breytingar. Svokallaður toppskattur var 15% á tekjur yfir 409.000 danskar krónur árlega, en þetta þrep hækkar nú um 58.000 krónur, í 467.000 krónur, svo fjórðungur milljónar dana losna við þann skatt. Og hvernig á að fjármagna þetta? Með því að lækka atvinnuleysisbætur og félagsaðstoð til öryrkja, ellilífeyrisþega og því um líkt, um þrjá milljarða danskra króna árlega, þannig að þær fylgi hækkunum verðlags frekar en launahækkunum. Sagt er að þetta fólk muni halda kaupmætti sínum, en reiknað hefur verið út að það missi að meðaltali 13.000 danskar krónur árlega. Réttlæting ríkisstjórnarinnar er að það eigi að borga sig að vinna, frekar en að lifa á bótum og styrkjum. Þetta stenst ekki með nokkru móti. Atvinnuleysisbætur eru mest 60% launa, svo tekjuskerðingin við atvinnumissi er mikil, 40%. Hver kysi það? Fjöldi manns hefur beðið um skýringu á því hvernig þessi tekjumissir hundruða þúsunda eigi að fá fleiri í vinnu – þegar atvinnulausir eru nær 200 þúsund manns! Ekki fæst svar við því. Þessar tillögur ganga þvert gegn kosningaloforðum krata og SF. Þegar íhaldsstjórnin þrengdi hag atvinnuleysingja og öryrkja fyrir ári, lofuðu vinstriflokkarnir að breyta þessu til fyrra horfs, um leið og þeir kæmust til valda. En nú ganga þessir flokkar lengra í kjaraskerðingum alþýðu en íhaldsstjórnin þorði. Þegar Søren Pind, þáverandi undirborgarstjóri íhaldsflokksins Venstre, boðaði þvílíka stefnu, réðst flokksbróðir hans, Anders Fogh Rasmussen forsætisráðherra á hann á flokksþingi, og sagði að slíkar bótaskerðingar kæmu ekki til greina. En nú leggur skattaráðherra SF þær fram! Þessar tillögur eru stríðsyfilýsing gegn stuðningsflokki ríkisstjórnarinnar, Einingu (Enhedslisten). Sá flokkur var stofnaður úr smáflokkum maóista, stalínista, trotskista og vinstrisinnaðra flippara fyrir tveimur áratugum. Hann komst á þing þegar SF féllst á Edinborgarsamkomulagið um aukin völd Evrópusambandsins. Lengi lá El við inngangstakmörkin í þjóðþingið, 2%. En flokkurinn þrefaldaði félagatölu sína, kjörfylgi og þingmannafjölda við kosningarnar nú í september síðastliðnum. Þetta sýndi sig á flokksþingi fyrir tveimur vikum, þar voru svo margir kjörnir fulltrúar, að gestir komust ekki inn. Margir blaðamenn voru þar þó, og væntu mikillar sundrungar milli byltingarsinna og fylgismanna hægfara umbóta sem kæmu nú frá SF. Slíkar andstæður eru vissulega í El, en flokksþingið gekk þó einróma gegn hægristefnu núverandi “rauðu” ríkisstjórnar, og hét því að greiða aldrei atkvæði með fjárlögum sem skertu hag alþýðu. Nú leggur El ofurkapp á að fá verkalýðshreyfinguna til að mótmæla áformum ríkisstjórnarinnar. En hún notar sér andstæður verkafólks í vinnu og atvinnuleysingja, elur á þeim andstæðum með þessum tillögum. Ríkisstjórnin vissi því vel að með þessum tillögum sínum myndi hún missa stuðning El, sem er þó nauðsynlegur til að fá fjárlög samþykkt. Þetta er nú ekki bara vegna þess að einn stjórnarflokkurinn, Radikale venstre, er borgaralegur flokkur, sem vill bæta hag fyrirtækja og auðmanna á kostnað almennings. Ég sé ekki betri skýringu á þessu en þá, að forsætisráðherrann, Helle Thorning Smith, er alltaf að tala um “breitt samkomulag, yfir miðjuna”. Og vissulega eru slíkar ráðstafanir líklegri til varanleika en þær sem knúðar eru fram með fárra atkvæða meirihluta, gegn harðri andstöðu. Á hinn bóginn mætti spyrja hvernig núverandi ríkisstjórn ætti að aðskilja sig frá íhaldsstjórninni áður. Ég sé ekki annan mun en þann, að krötum tekst að halda verkalýðshreyfingunni niðri gagnvart kjaraskerðingum sem íhaldsstjórnin annaðhvort þorði ekki að stinga upp á, eða gafst upp á vegna andstöðu verkalýðshreyfingarinnar. En með því að fæla El frá, hefur ríkisstjórnin ofurselt sig hægriflokkunum, hún á líf sitt undir þeim. Danski lýðflokkurinn hefur líka sagt að hann vilji gjarnan styðja ráðstafanir ríkisstjórnarinnar, en það kosti – ráðstafanir gegn innflytjendum. Lars Løkke Rasmussen, fyrrverandi forsætisráðherra íhaldsstjórnarinnar, heitir líka stuðningi við kjaraskerðingar núverandi stjórnar, en þá kosti það auknar skattalækkanir fyrirtækja og hátekjufólks. Fái ríkisstjórnin ekki fjárlagafrumvarp sitt samþykkt í haust, og EL ekki vill tryggja það, þá ræður Lars Løkke því hvenær núverandi ríkisstjórn fellur, og hann tekur við. Ég spái því að núverandi forsætisráðherra Dana fái eftir eins árs valdatíma viðurnefnið Helle klúður í Danmerkursögunni. Miklar sveiflur hafa orðið á kjörfylgi í Danmörku. Einkum hefur fylgi flust skyndilega milli Íhaldsflokksins og Radikale Venstre, enda erfitt að átta sig á blæbrigðum stefnu í örtröðinni á miðju danskra stjórnmála. Nýr flokkur, Ny Alliance, var stofnaður af þremur þingmönnum frá þessum flokkum fyrir fáeinum árum, og rauk þegar upp í 20% fylgi út á það eitt að vilja skerða áhrif Danska lýðflokksins (Dansk Folkeparti). En smámsaman kom í ljós að flokksstofnendum hafði láðst að ná samkomulagi um nokkuð annað. Hrundi flokkurinn svo niður í skoðanakönnunum, en náði samt 5 þingmönnum í eftirfarandi kosningum. En þeir fóru skjótlega hver í sína áttina. Eftir er Anders Samuelsen sem ásamt fleirum stofnaði annan flokk, Liberal Alliance, öfgaflokk nýfrjálshyggju, eins og nafnið bendir til. Hann fékk nær tug þingmanna í síðustu kosningum, mest óþekkt fólk. Þess er og skemmst að minnast hvernig SF rauk upp í skoðanakönnunum, úr 6% í 20% fyrir tveimur árum. En nú er sá flokkur aftur kominn í 6% og á leið niður. Verði kosningar bráðlega stefnir í afhroð fyrir stjórnarflokkana, krata og SF. Eitthvað af fylgi þeirra mun fara til Einingar, sem nú er spáð 15 þingmönnum í stað 12. Íhaldsflokkurinn beið afhroð í september, og hefur ekki vakið athygli síðan. Hann gæti hreinlega fallið út af þingi. En skoðanakannanir sýna að vonsvikið verkafólk snúist nú að Venstre – flokki auðmanna! Það yrði ekki í fyrsta sinn sem alþýðufólk – sem sér ekki aðra möguleika en núverandi ástand – kýs kúgara sína. Oft leiðir þetta hugarfar til rasisma, hvítt alþýðufólk heldur að hörundsdökkt alþýðufólk séu þess sönnu óvinir, frekar en auðherrarnir. Lausnin er einungis sú að sýna fólki fram á samhengi hlutanna undir auðvaldskerfi. 30.5.2012

Andi tónlistar Þegar fyrstu verk rússneska tónskáldsins Tjækofskís (1840-1893) heyrðust, dáðust menn að þeim karlmannlega þrótti sem einkenndi þau. En svo spurðist að höfundurinn væri hommi, og þá þóttu sömu tónverk vera bæði kvenleg og eitthvað sjúklegt við þau. Og líklega bráðsmitandi, fólk veit á hvað það hættir, horfi það á Svanavatnið eða hlusti á hljómsveitarverk Tjækkofskís. Ekki tókst þó að benda á neitt sérstakt því til staðfestingar, enda er samkynhneigt fólk jafnmargvíslegt og gagnkynhneigt. Algengur fordómur er auðvitað að hommar séu kvenlegir en lesbíur karlmannlegar, en þótti einhverjum Rock Hudson kvenlegur? Þetta tröll duldi samkynhneigð sína og var staðall karlmennsku í Hollywoodkvikmyndum áratugum saman. Ekki er hér rúm fyrir fleiri dæmi, en aldrei hefur neinn getað bent á sérstakan ”anda samkynhneigðar.” Miklu þrálátara hefur þó ruglið verið um annað tónskáld, Richard Wagner (1813-1883). Vegna þess að bandarískar stríðsmyndir hafa mjög misnotað tónverk hans, sérstaklega valkyrjureiðina í upphafi þriðja þáttar óperunnar Valkyrjan, þá hafa margir tengt þessa tónlist við nasismann, talið tónverk Wagners þrungin anda nasismans – enda þótt tónskáldið létist hálfri öld áður en nasistaflokkurinn var stofnaður. Fræg eru ummæli Woody Allen að hvenær sem hann heyri tónlist Wagners, langi hann til að ráðast inn í Pólland. Furðumargir taka þessa aulafyndni alvarlega, og vonandi ekki bara af því að Woody Allen er heimsfrægur. Þeir sem þekkja verk Wagners vita að þau eru öðru fremur kristileg. Og er spaugilegt til þess að vita, að þessi gjálífi og lausláti maður skuli bera fram boðskap sjálfsafneitunar og skírlífis í óperu eftir óperu, t.d. Tannhäuser, Parsifal. En auðvitað á fólk alltaf við Niflungshringinn þegar það sakar Wagner um nasisma. Sannleikurinn er sá að hann lærði íslensku til að geta samið þessa syrpu fjögurra ópera, hún er enda gerð á grundvelli Snorra-Eddu. Og hver sem kynnir sér verkið sér að þar er öðru fremur deilt á græðgi í auð og völd, sem ævinlega leiði til ófarnaðar. Kúgun á dvergum í fyrstu óperunni, Rínargulli, hefur verið túlkuð sem ádeila á arðrán á iðnaðaröreigum samtímans, en vissulega er það túlkun, umdeilanleg eins og aðrar. Nú eru óperur Wagners samsettar sem alhliða listaverk, spunnin saman úr leiklist, bókmenntum og tónlist. Og þar má þá frekar finna meiningu en í hreinum tónverkum. Samt hefur enginn nokkurn tíma mér vitanlega getað sýnt fram á neinn nasisma í verkum Wagners, hvorki gyðingahatur, einræðisdýrkun, þjóðrembu né annað. Raunar er þess að gæta að verk Wagners eru öðrum fremur fórnarlömb áráttu leikstjóra í ”að gera alveg nýja sviðsetningu, sem sýni áður vanrækta hlið á verkinu”. Auðvitað er þetta fyrst og fremst til að vekja athygli á leikstjóranum, til þess þarf hann að fjarlægjast fyrri túlkanir, hvað sem það kostar. Og það kostar stundum mikið. Sé ópera Wagners Lohengrin sviðsett með persónurnar í miðaldabúningi, þá er krafa verksins um réttborinn ríkisarfa til einræðis eins eðlilegur tíðarandi liðins tíma og sama krafa er í sögulegum leikritum Shakespeares frá því um 1600. En þegar persónur í nútímaklæðnaði eru látnar bera fram þessar miðaldahugsanir, þá orkar verkið eins og aðalfundur Nasistafélags Kópavogs og nágrennis. Sannleikurinn er einfaldlega sá, að tónverk segja ekki neitt, þau birta tilfinningar en ekki neinar yfirlýsingar. Og því síður birta þau stjórnmálaskoðanir eða stefnuskrár! Tónverk Johann Sebastian Bach (1685-1750) hafa verið kölluð kristileg. En þau eru það einungis í þeim skilningi að hann samdi þau fyrir þann atvinnurekanda sem þá var hvað auðugastur og gat borgað honum, oratoríur og kantötur á biblíugrundvelli, raunar var hann organleikari við kirkju. Ef til vill hefur hann verið einlægur trúmaður, hvað veit ég, en það birtist ekki í tónverkum hans, sem guðleysingjar svo sem undirritaður hafa mikla ánægju af. Enginn hefur mér vitanlega getað sýnt fram á neitt kristilegt (eða aðra stefnu) í sjálfri tónlistinni. Yfir einstökum köflum tónverka stendur (á ítölsku eða þýsku): hratt, glaðlega, hátíðlega, hægt, o.s.frv. En þetta eru bara leiðbeiningar höfundar um hvernig leika skuli verkið, segja ekkert annað. Tilfinningar eru sammannlegar, þær hafa allir, hvort sem þeir eru nasistar, kommúnistar eða eitthvað þar á milli. Sú tilfinning sem kölluð er trúhneigð er einnig sammannleg, tilfinnning fyrir æðra samhengi, sem maður sjálfur sé aðeins hluti af. Fyrir kemur að tónskáld hefur aðrar fyrirsagnir en leiðbeiningar um túlkun. Nefna má Hnettina eftir enska tónskáldið Gustav Holst (1874-1934). Þar bera einstakir hlutar titlana: Venus, Mars, Júpíter, o.s.frv. En því aðeins setur tónskáld slíka límmiða á verk sín, að verkin sjálf tjá ekki það sem titillinn segir! Er eitthvað lostafullt við tónverkið Venus, styrjaldarlegt við Mars, hátignarlegt við Júpíter? Kannski, en bara eins og tónverk láta slíkar tilfinningar í ljós, það eru engar sögur sagðar með þessum verkum, engar yfirlýsingar tjáðar. Með þessum pistli hefi ég aðeins viljað berjast gegn landlægum fordómum sem spilla fyrir nautn fólks af listaverkum. Hitt er augljóst að við höfum öll mismunandi reynslu og bakgrunn, og þá líka mismunandi viðhorf og smekk, bæði á tónlist og öðru. Því sögðu Rómverjar til forna að ekki væri deilandi um smekk. Nei, en svo sannarlega er ævinlega full ástæða til að berjast gegn fordómum. 20.3.2012

Sósíalíski lýðflokkurinn danski Þessi flokkur (SF) hélt ársfund sinn nú um helgina. Hann var stofnaður fyrir rúmri hálfri öld, þegar forysta danska kommúnistflokksins ætlaði að reka formanninn úr honum, Aksel Larsen. En hann varð fyrri til, sagði sig úr flokkinum og stofnaði þennan. Sá óx hratt, en kommúnistaflokkurinn skrapp saman, við innrás rússa í Ungverjaland, síðar í Tékkóslóvakíu, og við önnur áföll, alltaf stóð danski kommúnistaflokkurinn með “föðurlandi sósíalismans” og varð æ minni. Sósíalíski lýðflokkurinn minnir mikið á Alþýðubandalagið íslenska. Sósíalisma átti að koma á smám saman. Ég man að Einar Olgeirsson sagði svo ég heyrði til: “Ríkið á bankana og ýmis stórfyrirtæki, sósíalistar þurfa bara að ná þingmeirihluta, og þjóðnýta síðan svolítið meira. Þá er sósíalismi kominn”. Nærri má geta að eftir þessu höfði dönsuðu limirnir. En það fór nú á annan veg, Íhald, Framsókn og kratar skipuðu bankaráð, sem skipuðu bankastjóra. Til að fá lán í bönkum þurftu menn að hafa flokksskilrikin í lagi og hafa borgað í viðeigandi flokkssjóð. Sama gilti um verktaka hjá Reykjavíkurborg og herstöðinni, stöður hjá hinu opinbera, o.s.frv., spillingin var almenn og þótti sjálfsögð. Með öðrum orðum, ríkisrekstur í auðvaldskerfi gerir ríkjandi stjórnmálaflokka að mafíu. SF hefur á undanförnum árum gagnrýnt sósíaldemókrata frá vinstri, en gekk svo í bandalag með þeim fyrir ári, og stefndi að ríkisstjórnarmyndun með þeim. Flokkurinn mældist með 6% fylgi þegar núverandi formaður, Villy Søvndal, tók við, en var í stöðugri sókn og fór þegar fyrir þremur árum yfir 20% atkvæða í skoðanakönnunum, ívið meira en helsti stjórnarflokkurinn, Venstre. Nú átti SF að draga krata til vinstri, í samstarfinu. En í staðinn þurfti hann að slaka til við krata, til að samstarfið héldist. SF tapaði stöðugt fylgi á því, og beið afhroð í kosningunum. Stjórnarmyndun tókst svo við þingkosningar fyrir hálfu ári, en til þingmeirihluta þurfti þá einnig að hafa með “róttæka vinstriflokkinn” svokallaða, RV, en hann er borgaralegur flokkur, sem vill hygla fyrirtækjum á kostnað almennings. Þetta hefur orðið stefna ríkisstjórnarinnar, og eiga margir erfitt með að sjá hvernig núverandi ríkisstjórn ætti að aðgreinast frá þeirri fyrri. Hún hefur að vísu framkvæmt um helming kosningaloforða sinna á einungis hálfu ári, en það voru auðveldar ráðstafanir, svo sem að hækka afgjöld á óhollustu – áfengi, tóbaki og sætindum. Eftir eru erfiðu málin. Núverandi ríkisstjórn fylgir ákvörðunum fyrri stjórnar, að afnema eftirlaun, stytta tímabil atvinnuleysisbóta og segja upp fjölda manns hjá sjúkrahúsum, söfnum, skólum, vistheimilum, almennt hjá ríki og sveitarfélögum, þ.e. gera opinbera þjónustu mun verri. SF hafði þá stefnu að setja sérstakan skatt á fjármagnsflutninga, svokallaðan Tobinskatt. Hann yrði lágur, kannski 0,1% en gæti í senn orðið hemill á fjárglæfra þá sem orðið hafa svo dýrkeyptir mörgum, og þó um leið umtalsverð tekjulind fyrir Evrópusambandið. Einnig vildi SF leggja sérstakan skatt á milljónamæringa, sem ættu þannig að greiða fyrir almenningsvelferð frekar en að skera hana niður. Sömuleiðis ætti að skattleggja eigendur húsnæðis sem grætt hafa ótæpilega á “húsnæðisbólunni” alþjóðlegu, að verð fasteigna rauk upp, svo eigendur gátu tekið lán út á eign umfram skuldir, en vextir hafa verið og eru einstaklega lágir. Allt þetta hindraði stjórnarflokkurinn RV, jafnvel á ráðstefnu fjármálaráðherra Evrópusambandsins hindraði hann Tobinskatt. Aldrei þessu vant stóð nú hörð kosningabarátta um varaformannssætið undanfarinn mánuð. Sigurvegari varð skjólstæðingur formanns, ungur múrari, Mathias Tesfaye, hann hafði áður verið í Enhedslisten og þar áður í maóísku flokksbroti. Hann bauð sig fram undir því kjörorði að SF ætti að vera verklýðsflokkur fyrst og fremst, en hugsa síður um jaðrað fólk svo sem flóttamenn, bæklaða, atvinnulausa, aldraða o.þ.u.l. Ekki nóg með það, síðustu vikur boðaði hann að ríkisvaldið ætti að hætta stuðningi við óperur og konunglega leikhúsið, en styðja í staðinn fótboltaleiki, því “það er það sem fólkið vill”. Er þá endurrisinn Rindalisminn svokallaði, að hefja alþýðusmekk í auðvaldsríki til vegs og virðingar, því hann sé það sem koma skal, og eitt er heilbrigt. En Karl Marx og fylgismenn hans hafa alla tíð bent á að ríkjandi hugarfar í stéttaþjóðfélagi sé að viðhalda stéttaþjóðfélaginu. Það hugarfar drottni einnig með alþýðunni, svo þegar núverandi smekkur hennar og viðhorf séu höfð til öndvegis, þá sé bara verið að binda hana á bás auðvaldsins. En þetta er svo sem ekki fyrsta sinni að hægri stefna er réttlætt með yfirborði alþýðleika, nægir að minna á danska lýðflokkinn (Dansk folkeparti). SF getur ekki sett ráðstafanir ríkisstjórnarinnar fram sem ósigra sína, málamiðlanir. Vegna stjórnarþáttöku sinnar leiðist flokkurinn til að setja þær fram sem sigra sína, annars hlyti fólk að spyrja til hvers flokkurinn væri í ríkisstjórn. – Þetta benti Rósa Lúxembúrg á fyrir rúmri öld! – þegar sósíalisti tók fyrst sæti í borgaralegri ríkisstjórn, en það var í Frakklandi 1899. Útkoman verður alger ringulreið um stefnu SF, og af því leiðir stefnuleysi flokksins. SF getur ekki einu sinni hætt þátttöku í ríkisstjórninni vegna stefnuágreinings. Því hvað tæki þá við? Flokkurinn færi ekki að fella þessa ríkisstjórn til að koma íhaldsflokkunum aftur í ríkisstjórn. SF er fast í gildrunni. Aftur á móti hvessir Enhedslisten sig og segir að ef þessi ríkisstjórn skeri niður almannavelferð í samstarfi við borgaraflokkana, þá geti hún ekki reiknað með að EL samþykki fjárlög. Þá felli ríkisstjórnin sig sjálfa. SF hafði lengi stefnt að því að komast í ríkisstjórn, því þannig hefði flokkurinn áhrif. En það er mesti misskilningur. Ríkisstjórn auðvaldsríkis verður að “halda hjólum atvinnulífsins í gangi” – eins og það atvinnulíf nú er. Minnast má þess að fyrir þremur áratugum gafst kratinn Anker Jørgensen upp fyrir efnahagsvanda ríkisins, skuldir þess erlendis voru orðnar gífurlegar, þessi forsætisráðherra sagðist standa á brún hyldýpis. Samsteypustjórn undir forystu íhaldsformannsins Poul Schluter tók við, og hugði á hressilega kjaraskerðingu almennings. Verkalýðssamtökin taka slíku jafnan mótmælalítið og andstöðulaust þegar kratar eru í ríkisstjórn. En nú risu þau til andstöðu árum saman, og ríkisstjórnin komst ekki nálægt því eins langt og hún vildi. Þannig getur stjórnarandstaða orðið miklu árangursríkari en stjórnarþáttaka. SF er nú aftur komið niður í 6% fylgi eins og þegar Willy Søvndal tók við formennsku. Mikil andstaða er í flokkinum við forystu hans, þótt henni tækist að hafa hemil á landsfundinum um helgina. Og ekki fæ ég séð neina lausn á vandræðum flokksins, honum blæðir stöðugt út til Enhedslisten, sem nú mælist með mun meira fylgi en í kosningunum. 17.4.2012

Bókagerð í hnignun Svefninn langi 1987 (The big Sleep, 1939) eftir Raymond Chandler (1888-1959) er einhver frægasti reyfari heimsbókmenntanna, sígildur í dulúð og spennu. Aðalpersónan er einkaleynilögreglumaður, Philip Marlowe, eins og jafnan í sögum Chandlers. Hann hefur verið kallaður riddari á hvítum hesti, því þótt hann sé drykkfelldur og kaldhæðinn, reynist hann vera óeigingjarn, ekki síst í samskiptum sínum við konur. Hann er líka heiðarlegur og sjálfstæður, stenst allar mútutilraunir, hvort sem það er tilboð um fé eða kynlíf með fögrum konum. Myndrænar lýsingar staða og persóna eru meðal kosta verka Chandlers, og staðsetja þau kyrfilega í því sem lesendur kannast við. En dulúðin gerir þennan hversdagsleika spennandi. Fléttan er flókin, því margvíslegar persónur sækjast eftir hver sínu takmarki, og takast á. En aðalpersónan sér smámsaman í gegnum þessa flækju með hlutlægri athygli og sjálfstæðri hugsun, og leiðir þannig lesendur í gegnum myrkviðinn. Guðbergur Bergsson þýddi þetta verkaf nákvæmni og smekkvísi, það varð með fyrstu bókum í kiljuklúbbi Máls og menningar, 1987. Ég hafði áður lesið allar bækur Chandlers, en las þessa íslensku þýðingu fyrst nýlega. Og ég hefi aldrei séð bók sem var eins hraklega illa útgefin. Að minnsta kosti fjórum sinnum eru langir kaflar (8-12 línur) endurteknir (bls. 200, 208, 216, 224), hinsvegar vantar í textann (bls. 194, 201, 210, 218). Ekki sá ég að neinn ritdómur hefði birst um bókina, og spurði Forlagið hvort einhver hefði bent á þessa galla og úr þeim hefði verið bætt. En ég fékk svarið (í tölvupósti 11.2.2012): “Nei, mér vitanlega hefur þessi bók ekki verið prentuð eftir 1987. Og því miður er mér ekki kunnugt um ritdóma um hana.” Líklegasta skýringin á þessum óförum virtist mér vera að þetta var áður en höfundar og þýðendur fóru að skila texta sínum tölvusettum til útgefenda. Einar Kárason sagði í mín eyru ári áður að hann semdi allar sínar sögur með blýanti á pappír, og skilaði þannig til útgefanda, því of mikil vinna væri að vélrita eftir á eða tölvusetja, og sú vinna væri ekki borguð. Ég held að Rithöfundasamband Íslands hafi skömmu síðar (undir formennsku Einars) krafist aukagreiðslu til höfunda ef þeir skiluðu verki sínu á tölvutæku formi. Hvort sem Guðbergur svo hefur skilað handriti eða vélriti, þá giskaði ég á að hann hefði verið erlendis þegar bókin var sett. Setjarinn hefði flýtt sér – um of – og útgefandinn, Mál og menning, greinilega sparað sér prófarkalestur á þessum nýja bókaflokki, kiljum. En svo spurði ég Guðberg um þetta, og fékk þetta svar (í tölvupósti 13.2.2012): um Chandler er það að segja að ég sendi inn lauslega þýðingu í von um að MM hefði áhuga á útgáfu, en fékk ekkert svar. Þegar ég leitaði eftir því sögði þeir, tveir þekktir menn hjá MM, að bókin væri komin í prentun, yfirfarin af sérfræðingum. Mig langaði að sjá einhvers konar próförk og þá sá ég að þetta var öfugsnúið. Þeir sögðu að það gæti ekki verið vegna þess að sérfræðingar hefðu farið vandlega yfir þetta allt með orðabók yfir slang. Bókin var prentuð. Ég fékk ekki að breyta neinu. Bókin fór á markað, ég bað ekki um eintök og hef aldrei séð hana. Útkoman varð þetta eftirminnilega hneyksli, sem því miður er ekkert einsdæmi. Sigurður Hróarsson gerði kandidatsritgerð í íslenskum fræðum við Háskóla Íslands, ”Eina jörð veit ég eystra” Halldór Laxness og Sovétríkin, 1986, um Sovétferðabækur Halldórs Laxness, en þær eru tvær, Í austurvegi, 1933, og Gerska ævintýrið, 1938. Sigurður sagði í mín eyru að hann hefði látið þetta alveg frá sér til forlagsins, Almenna bókafélagsins. Það gaf ritið út í kilju, og hefur líklega talið það ástæðu til að spara sér prófarkalestur. Því þessi bók er sennilega Íslandsmet í prentvillufjölda, og þótt það væri átalið á prenti (af mér í DV, 7.1.1987), þá bætti forlagið aldrei úr því. Verra er þó ástandið nú orðið. Alþjóðleg forlög krefjast þess að bókahandrit sem þau taka til útgáfu séu ekki aðeins tölvusett, heldur einnig í pdf-formi. En það merkir að ritið sé bæði prófarkalesið og umbrotið af höfundar hálfu, þ.e. efninu skipað niður á blaðsíður. Íslensk forlög eru ekki svona kröfuhörð, bæði Forlagið og Bjartur taka við útprentuðum handritum til skoðunar og prófarkalesturs, en Bjartur vill þó frekar pdf-skjöl. Endanleg útgáfa byggist svo auðvitað á tölvusetningu höfundar, leiðréttri. Höfundur getur ekki séð um prófarkalestur, hann sér ekki hvað stendur á tilteknum stað, því hann veit hvað þar á að standa, og sér varla annað. Það get ég borið um af eigin (sárri!) reynslu. Þessi krafa erlendis um frágengið, umbrotið handrit bitnaði til dæmis á nýlegu heimspekiriti Stefáns Snævars um líkingar og sögur (Stefán Snævarr: Metaphors, Narratives, Emotions. Their Interplay and Impact. (Consciousness. Literature & the Arts, 24). Rodopi, Amsterdam – New York 2010, 398 bls.). Stefán þakkar enskumælandi manni fyrir endurbætur á sínum enska texta, en þær þakkir eru næsta óverðskuldaðar, því hér er óvenjumikið um að orð vanti, þau séu rangt stafsett og fleira, um hundrað villur taldi ég. Yfirleitt má lesa í málið, en stundum verður það óskiljanlegt. Enn fremur verður að átelja þá alþjóðlegu tísku, sem birtist bæði í tilvitnuðu riti Sigurðar Hróarssonar og t.d. doktorsriti Sverris Tómassonar (Formálar íslenskra sagnaritara á miðöldum, Rvík 1988), auk t.d. rits danans Jørgen Dines Johansen Novelleteori efter 1945, en þeir birta tilvitnanir óþýddar á frummálinu. Þannig þurfa lesendur auk þess að kunna tungumál bókarinnar að vera vel að sér í ensku, þýsku og frönsku, ef ekki latínu. Með þessu lokar höfundur riti sínu fyrir skilning fjölmargra. Mér finnst þetta röng stefna, þegar fræðimaður hefur valið bút úr riti í tilvitnun, á hann að fara alla leið, “ljúka matreiðslu” og þýða þennan bút sem hann tekur í rit sitt, og gera þannig aðgengilegt innlendum lesendum. En neðanmáls ber að hafa frumtextann, skipti orðalag máli. Þar að auki mora þessar erlendu tilvitnanir hjá t. d. Sigurði og Dines Johansen í prentvillum. Þótt ástandið sé ekki eins slæmt á Íslandi og erlendis, held ég að höfundar verði að bindast samtökum um að verjast alþjóðlegri “þróun” og krefjast ævinlega prófarkalesturs utanaðkomandi, auk þess að líta jafnan sjálfir á lokapróförk. Annars er hætt við því að allt þeirra – og annarra – mikla verk verði unnið fyrir gíg. 2.4.2012

Túlkun skáldverka Í fyrri greinum mínum hér á Smugunni ræddi ég þá kenningu að smekkur alþýðu í auðvaldsþjóðfélagi væri vaxtarbroddur sósíalískrar menningar framtíðarinnar, því þá tæki alþýðan sjálf völdin, og því bæri hún nú þegar í sér heilbrigðan smekk. Ég leiddi rök að því að þessi kenning stalínista og krata væri bábilja, því hugmyndir sem réttlæta drottnun yfirstéttarinnar drottni í stéttarsamfélagi, einnig með alþýðunni, svo sem dæmin sanna. Því væri þessi stefna til þess eins fallin að kveða alþýðuna í sátt við auðvaldið. Enda er þessi kenning einnig kjarnaatriði nasismans, að alþýðusmekkur beri í sér djúpt þjóðareðlið. Því hömuðust bæði nasistar og stalínistar gegn sjálfstæðri listsköpun, boðuðu íhaldssemi í listum, hefðbundið form umfram allt (Menningarstalínismi, Smugunni 7.11.2011). Það þarf víðtæka byltingarbaráttu alþýðunnar til að losa hana undan klafa borgarlegra hugmynda. Margir hafa þá haft áhyggjur af því að vinsælar bókmenntir innræti alþýðu borgaralegar hugmyndir, og bindi hana þannig undir klafa auðvaldsins. Ég leiddi þá ennfremur rök að því að sjálfstæðar viðtökur skiptu mestu um áhrif listaverka á fólk, einnig stjórnmálaleg áhrif. Það þyrfti gagnrýnar viðtökur, gjarnan í samlestri fólks og umræðum, þar sem fólk gerði sér grein fyrir samhengi listaverksins, hvernig mismunandi þættir þess orka saman, og síðan því hugarfari, viðhorfum, sem í því ríkja (Róttækar bókmenntir, Smugunni 28.11.2011). Listaverkið getur afhjúpað ríkjandi hugarfar, enda þótt því sé alls ekki stefnt gegn því hugarfari, þannig getur t.d. íhaldssamt verk haft róttæk áhrif. Með þessu móti er þá hægt að fá sem mestan þroska af skáldverki. En hvernig á þá að túlka listaverk? Tökum hér dæmi af bókmenntatúlkun. Augljóst er að það er persónuleg lífsreynsla að meðtaka gott listaverk. Það helgast af því að skáldverk eru margþætt. Skáldsögur eru þættar saman úr persónusköpun, byggingu verksins, stíl þess, og fleira mætti telja, í ljóðum orkar saman hljómur, stíll, myndmál, bygging, o. s.frv., auðvitað verða heildaráhrif þessara verka persónuleg, verða ekki smættuð í röklega lýsingu á þeim, einfalda endursögn t.d. Er þá skilningur verksins og túlkun ekki huglæg, verður það ekki túlkað að vild hvers og eins? Nei, svo dæmi sé tekið eftir Stefáni Snævar, ef túlkun skáldverks væri alfrjáls, mætti taka túlkun á Hrafnkels sögu Freysgoða og kalla hana fullgilda túlkun á Hamlet Shakespeares. Allir munu fallast á að það væri fráleitt. Sömuleiðis, ef einhver tæki upp á því að kalla Hamlet gamanleik, myndu flestir afgreiða þann túlkanda sem fífl og snúa sér að öðru. Prófsteinninn á góða túlkun er að hún geri grein fyrir helstu eiginleikum verksins, en mikilvæg einkenni þess stríði ekki gegn túlkuninni. Þannig má komast að niðurstöðu sem er sönn og rétt – amk. að sinni. Oft þróast skilningur fólks þó áfram í umræðum. Mér finnst vera áberandi tilhneiging hjá ýmsum bókmenntafræðingum nú að leggja sig fram um að koma með frumlegar túlkanir, að helga sér ákveðna aðferð sem aðrir hafi ekki sinnt, og skapa sér þar með sérstakt svið. Það virðist skipta þau mun meira máli en að túlkunin standist. Dagný Kristjánsdóttir spurði einu sinni í ritdeilu: “Hvað er oftúlkun?” Svarið hlýtur að vera: Það er túlkun sem stenst ekki athugun. Og þar vil ég nefna sem dæmi freudískar túlkanir hennar sjálfrar á Gunnarshólma Jónasar Hallgrímssonar og á Hvarfi séra Odds á Miklabæ eftir Einar Benediktsson. Ég hefi leitt rök að því að svo margt mæli gegn kynferðislegum túlkunum hennar á fyrirbærum í þessum kvæðum að þær standist ekki (í grein minni Skæðar kreddur og í bók minni Seiðblátt hafið, bls. 213f og 289f), hvorttveggja er á vefslóðum mínum. Auðvitað er ekkert að því að túlkandi beiti lærdómi og hugkvæmni á viðfangsefni sitt. Þvert á móti, það er til fyrirmyndar. Og enn betra ef langt er seilst, farið fjarri fyrri túlkunum, langsótt túlkun getur opnað nýjan skilning. En síðan ber jafnan að kanna styrk þessarar túlkunar, hvort hún standist samanburð við aðrar túlkanir. Sé þess ekki gætt, er hætt við að útkoman verði fimbulfamb, að túlkandi yrki hugaróra sína inn í textann sem túlka skyldi. Slíkt færir ekki skilning, verður bara tískuþvaður. Þorsteinn Þorsteinsson segir í grein (í TMM 4. hefti 2011) um mismunandi túlkun okkar tveggja á Tímanum og vatninu eftir Stein Steinar, að ég boði túlkun fyrir fræðimenn, þar sem hann hinsvegar túlki fyrir almenning. Þetta er fráleitt. Auðvitað skrifa ég fyrir almenning þegar ég birti grein í fjölmiðli! Ég álít bara að almenningi beri að sýna þá virðingu að leggja fyrir hvaða rök túlkandi þykist hafa fyrir túlkuninni. Það er yfirlætislegt að setja bara fram sína túlkun rakalaust. Til þess að tiltekin túlkun skáldverks sannfæri, þarf hún að standast samanburð við aðrar túlkanir sama verks. Og það fannst mér einmitt vanta í t.d. túlkun Þorsteins á Tímanum og vatninu (í TMM 1, bls. 6-37), auk þess sem túlkun hans sniðgengur einmitt megineinkenni ljóðabálksins, það sem einkum aðskilur hann frá öðrum. Þessi ljóðabálkur bragar allur af mótsögnum og myndrænum lýsingum sem eru óskiljanlegar röklega. En Þorsteinn túlkar þær sem tilvísun til skynjanlegs umhverfis. Hvers virði er slík túlkun, sem virðir megineinkenni verksins að vettugi? Nú kunna einhverjir að spyrja: “Hvaða máli skiptir þetta? Má ekki fólk hafa sínar skoðanir? Engan drepur það, þótt skrítnar séu,” Vissulega er þetta háttalag ekki eins afdrifaríkt og þegar könnuðir í læknisfræði falsa rannsóknir og niðurstöður eins og gerst hefur hér í Danmörku (Penkowa, m.a.). En hér eru háskólakennarar í bókmenntum að þröngva einhliða túlkunum sínum á skáldverk án þess að huga að mótrökum. Hvílík fyrirmynd eru þeir nemendum sínum, hvernig rannsóknaaðferðir kenna þeir, hvernig meta þeir ritgerðir nemenda, hvernig prófa þeir þá? Og hvaða áhrif hefur allt þetta á menningu í landinu? Tilvitnuð rit: Dagný Kristjánsdóttir: Skáldið eina. (Undirstraumar 1999), bls. 15-29. Dagný Kristjánsdóttir: Sár Solveigar. (Undirstraumar 1999), bls. 77-85. Þorsteinn Þorsteinsson: Að lesa Tímann og vatnið. TMM 1.hefti 2011, bls. 6-37. Þorsteinn Þorsteinsson: Að gefnu tilefni. TMM 4.hefti 2011, bls. 108-109. Örn Ólafsson: Seiðblátt hafið. 2008 (sjá einkum bls. 213f, 289f og 345ff) Örn Ólafsson: Skæðar kreddur (Stína,2009, 2. hefti, bls. 141-150). Örn Ólafsson: Enn um Tímann og vatnið. TMM 3.hefti 2011, bls. 131-135. Seiðblátt hafið er eins og aðrar bækur mínar á vefslóðinni http://oernolafsbaekur.blogspot.com/ en greinar mínar á: http://oernolafs.blogspot.com/íslenskt 17.1.2012

Beðið um einræði Nýlega skrifaði ungt ljóðskáld grein hér í Moggann og óskaði þess að búa við einræði. Honum nægði þó ekki að óska þess sér til handa (hann hefði getað flust til Sádí-Arabíu eða eitthvað) heldur vildi leiða þetta yfir alla íslensku þjóðina. Þetta var skömmu fyrir fall Gaddafis, sem nú hefur reynst vera ríkasti maður heims, fjórfalt ríkari en Bill Gates. Og þá mesti þjófur heims. Það er alveg eins og við mátti búast. Einræði hefur nefnilega ævinlega í för með sér spillingu, því þá er ekkert eftirlit með valdhöfum. Þessum greinarhöfundi hefði nú verið nær að minnast helstu fjöldamorðingja 20. aldar, einræðisherranna Stalíns, Hitlers, Mússólíni og Francos. Varla var hann að biðja um stjórnarfar í stíl þeirra, þótt hann ekki útskýrði hvernig einræði ætti að varast það. En jafnvel friðsamari einræðisherrar eins og Danakonungar hér fyrrum á Íslandi, eða aðrir konungar á öldum áður báru með sér spillingu sem var alveg opinská og kerfisbundin. Þeim sem einræðis óska væri lítandi í Íslandssögu, ef ekki mannkynssögu, allar stöður voru veittar gæðingum ráðamanna, og allir þessir ráðamenn notuðu stöður sínar til að maka krókinn. Ljóðskáldið talar eins og barn sem biður um strangan pabba sem taki að sér stjórninga. En það er ekki eitt um þessa stefnu. Hún liggur í því þegar menn þusa um “fjórflokkinn” eins og enginn munur væri á helstu stjórnmálaflokkum. Má þó hvert mannsbarn vita að þeir eru ósammála um kvótakerfið í fiskveiðum, hvort Ísland eigi að ganga í Evrópusambandið, og hvort greiða skuli Ísbjörgu, eða þá hvernig. Eru þetta ekki helstu deilumál Íslendinga núna? Hvernig geta menn þá látið eins og þessi ágreiningur skipti ekki máli? Svar sumra er að óháð því eigi atvinnustjórnmálamenn allra flokka það sameiginlegt að sækjast eftir völdum. Ja, þó það nú væri! Í því felst alls ekki að þeir séu allir bara að tryggja afkomu sína. En til að berjast fyrir stefnumálum verða atvinnustjórnmálamenn að sækjast eftir völdum og tryggja þau. Það ætti hvert mannsbarn að geta skilið. Vissulega er þingræði ekki trygging fyrir góðu stjórnarfari. Það sýndi sig í Hruninu íslenska, atvinnustjórnmálamenn sem hefðu átt að hafa vit á efnahagslífinu, brugðust gersamlega. Þeir einkavæddu helstu banka, sem svo lánuðu eigendum sínum innistæður almennings, þeir lækkuðu bindiskyldu þeirra og lömuðu Fjármálaeftirlitið, þeir létu óreiðumenn vaða uppi alþjóðlega og setja íslensku þjóðina á hausinn. Mun skömm þessarra stjórnmálamanna uppi jafnlengi nafni þeirra. En lausnin er sannarlega ekki að afnema þingræði, heldur þvert á móti að efla umræður um stjórnmál, auka þátttöku almennings í þeim. Hvað vilja þeir sem um “fjórflokkinn” þusa? Halda þeir að Hreyfingin eða Borgaraframboðið sé eitthvað öðruvísi? Ef þeir vilja afnema þingræði, hvað á þá að koma í staðinn? Einhverskonar Mússólíni? Nógir munu frambjóðendur í starfið sem bíða eftir kalli ósjálfstæðra. Mbl. 26.10.2011

fimmtudagur, 22. nóvember 2012

Stefáni Snævar svarað um kreppubók hans Fyrst er að leiðrétta misskilning. Eins og allir geta séð af pistli mínum átaldi ég ekki Stefán fyrir að nota mikið fornafn fyrstu persónu eintölu, heldur réttlætti það með því að þannig setti hann fram forsendur dóma sinna, gerði þær lesendum ljósar. Í annan stað er pistill minn alls enginn ritdómur um bók Stefáns, Kreppa í kreddu. Það sést þegar af því að ég fjalla nánast ekkert um aðalefni bókarinnar, sem fram kemur í undirtitli hennar: “Frjálshyggjan og móteitrið við henni”. Eftir nokkuð almenna lýsingu á vinnubrögðum í bókinni læt ég nægja að gagnrýna ýmislegt í henni, m.a. frá marxísku sjónarmiði. Það er ánægjulegt að Stefán nú segir það misskilning að hann geri Þjóðverja eina ábyrga fyrir fyrri heimsstyrjöld. En var ekki nærtækast að skilja svo þessi orð hans: “Þýskaland keisarans hafði lýðræðislega þætti, samt háði landið stríð við lýðræðisríki á borð við Frakkland, Bretland og Bandaríkin.” Hann hefði líka mátt vera skýrmæltari um hver sagði hvað um Keralafylki. Ég sagði kenningu Lenins um heimsvaldastefnuna “alkunna”. Það merkir auðvitað ekki sama og “almennt viðurkennd”. Sagan um Adam og Evu er alkunn, en síður en svo almennt viðurkennd sannindi. Ég sagði bara að kenning Leníns væri svo alkunna að Stefán hefði átt að andmæla henni, væri hann ekki sammála. Þau andmæli setur hann svo fram nú. Of langt mál yrði hér að ræða allt sem hann segir um að nýlendustefnan hafi verið dýr, og því studd af aðli og herforingjum, fremur en af viðskiptahöldum, sem hafi þó átt að græða á henni. Hitt virðist þó ljóst að sitt var hvað, hver borgaði nýlendustefnuna – skattborgarar – og hver græddi á henni – iðjuhöldar, herforingjar og fl. þ.h. ” Arðræna Vesturlönd Sádí-Arabíu?” spyr Stefán. Enn einu sinni talar hann allt of almennt og sértækt. Svarið er að fáeinir auðugir vesturlandabúar arðræna flesta íbúa Sádí-Arabíu með dyggum stuðningi fáeinna Sádíaraba, þ.e. valdhafa og auðmanna landsins. Það er sannarlega hressandi að lesa rit Stefáns þegar hann dregur útbreiddar skoðanir í efa og kannar rök með og móti. En það nægir ekki. Efist hann um að vinna sé grundvöllur verðmæta, þá verður hann að gera svo vel að segja hvað hann vilji setja í staðinn. Augljóst má vera að ýmis þau fyrirbæri sem kallast ”náttúruauðlindir” öðlast bara verðmæti við vinnu manna. Þar á meðal er olían sem Stefán segir réttilega að hafi verið verðlaus þangað til bensínvélin var upp fundin. Spyrja mætti hvort hann ímyndi sér að tilteknir þýskir uppfinningamenn hafi þá fært olíunni þau verðmæti sem hún hefur nú. En mér sýnist líklegra að það sé vinnan við að smíða vélar til að annast hana, vinnan við að dæla henni úr jörð, hreinsa hana, markaðssetja, o.s.frv. Stefán segist bara vitna í Þorstein Gylfason um að Marx hafi verið nauðhyggjumaður. Stefán tekur þó undir þetta: “Hins vegar hafði Marx tilhneigingu til nauðhyggju, hún kemur hvað skýrast fram í formálanum að Auðmagninu þar sem hann segir að þróun samfélaga lúti náttúrulögmálum, þekki menn þau lögmál þá geti menn stytt eða lengt fæðingarhríðir hins nýja samfélags sem þróunarlögmálin geti af sér. En ekki numið þau úr gildi. Hvað er þetta annað en nauðhyggja light?” Svar mitt er að þetta kunni að vera óheppilega orðað (hvort sem svo er í þýska frumtextanum eða íslensku þýðingunni), auðvitað lýtur þjóðfélagsþróun ekki ósveigjanlegum náttúrulögmálum. Hitt má augljóst vera, sem er meginkenning Marx, að sterkar hneigðir valda því hvers konar þjóðfélag rís af hverskonar atvinnuháttum. Svo mjög þekkt dæmi sér tekið, þá byggðist búskapur í Egyptalandi og Millifljótalandi (Írak) til forna á áveitum til að nýta árleg flóð í fljótum sem náðu gegnum mestallt landið, og tryggðu greiðar og skjótar samgöngur. Skiljanlegt er að samvinnu bænda þurfti um þessar áveitur, skiljanlegt er einnig að á þessum tíma auðveldaði þessi samvinna sterka miðstjórn, einræði. Jafnauðskilið er að Evrópa á miðöldum, með víðlend ríki kvikfjárræktar og akuryrkju og erfiðar samgöngur, var ekki á sama hátt grundvöllur fyrir sterkt ríkisvald, enda var það konungsvald veikt, mikil völd lágu hjá héraðshöfðingjum víðsvegar. Eftir stendur að bæði Marx og Engels börðust gegn efnahagslegri nauðhyggju. Ég leyfi mér að vitna í bók mína Rauðu pennarnir (Rvík 1990, bls. 1 o.áfr.) um ”það grundvallaratriði kenninga þeirra, að öll svið mannlífsins tengist sín á milli, orki hvert á annað, og ákvarðist þannig sögulega, að skipulag framleiðslulífsins ráði mestu þegar til lengdar lætur. Þetta er „víxlverkan á grundvelli efnahagslegrar nauðsynjar, sem hefur sitt fram að lokum“, sagði Engels 1894 (bls. 206–7). „Það er ekki vitund manna sem ákvarðar tilveru þeirra, heldur er það þvert á móti félagsleg tilvera þeirra sem mótar vitund þeirra“ sagði Marx 1857 (A, bls. 8¬9). Þetta hefur oft verið rangtúlkað svo, að öll fyrirbæri mannlífsins megi leiða út frá efna¬hags¬lífinu. Það kallast vélgeng efnishyggja (eða dólgamarxismi). En Engels heldur áfram: Það er ekki svo að skilja, að efnahagslífið eitt sé virk orsök, og allt annað aðeins óvirk afleiðing. Því fjær sem eitthvert svið mannlífsins er efnahagslífinu, því nær sem það er hreinum, óhlutbundnum hugmyndaheimi (t.d. bókmenntir og listir), þeim mun fremur finnum við tilviljanir í þróun þess, því meiri sveiflur eru á línu þróunarinnar. En sé dregin miðlína þessara sveiflna, mun sannast, að hún nálgast þróunarlínu efnahagslífsins því meir sem sviðið er víðara, og tímaskeiðið lengra sem við skoðum”. Stefán segir: “M.a. vegna þess að núverandi kerfi er sæmilega viðunandi er engin ástæða til að taka áhættu af samfélagskerfi sem er róttækt öðruvísi.” Ætla mætti að hann fetaði hér í fótspor þýska heimspekingsins Leibnitz, sem fyrir eitthvað á þriðju öld sagði að við byggjum í besta mögulega heimi. (Þá skoðun hæddi Voltaire í skáldsögunni Birtingi.) En það er nú öðru nær, Stefán rekur í löngu máli ágalla núverandi skipulags. Auk þess er þetta allt of sértækt hjá honum. “Lýðræði” virðist bara merkja þingræði, væntanlega með félagafrelsi og tjáningarfrelsi. Í Bandaríkjunum er þetta – með þeim afdrifaríku takmörkunum að auðjöfrar eiga alla fjölmiðla, og að mikinn auð þarf til stjórnmálabaráttu. Í Bandaríkjunum er líka markaður. Er ekki samt fráleitt að kalla það “sæmilega viðunandi” þjóðfélag, sem ekki megi breyta róttækt? Stöðugt eykst mismunur auðugra og örsnauðra, sem í stórum stíl missa atvinnu, húsnæði og verða að hírast á götum úti, sjúkratryggingar eru svo lélegar að fólk hefur ekki efni á að leita til læknis eða sjúkrahúsa. Einnig á Stefánslofuðuðum Norðurlöndum stækkar gjáin milli ríkra og snauðra, atvinnuleysi eykst mikið, enda fluttist húsnæðisbólan þangað frá Bandaríkjunum. Sama kreppa eða verri er um alla Evrópu, eins og Stefán rekur ítarlega í bók sinni. Hver getur kallað þetta ”sæmilega viðunandi kerfi”? Ekki jafnaðarmenn, svo mikið er víst, frekar það sem Stefán kallar tepokalýð Bandaríkjanna og moldrík yfirstétt þeirra. Ég ítreka að stanig Stefán við: ”Við vitum hvað við höfum, en ekki hvað við fáum”, þá eru það sígild rök gegn öllum breytingum, margafsönnuð af mannskynssögunni, og það verður ekki kallað annað en hugsunarlaus íhaldsstefna. Stefán segir ennfremur: ” Í síðara lagi hræða spor sósíalismans, meira að segja Júgóslafia með sín verkamannaráð var einræðisríki og efnahagslega staðnað. I ofan á lag benda hugsunartilraunir til þess að sósíalisminn sé ekki á vetur setjanda.” Helstu rök Stefáns fyrir samhengi milli sósíalisma og einræðis eru að öflug miðstjórn á efnahagslífinu leiði til einræðis, en valddreifing, raunveruleg ráðstjórn, muni leiða til glundroða, en hann aftur til einræðis. Ég segi aftur á móti, að flokkur undir stjórn Títós vann vopnaða baráttu gegn nasistum, erlendum og innlendum, og eftir að hann hafði náð alræðisvöldum, var hann ekkert fyrir að afsala sér þeim. Stefán spyr ennfremur: ”Er nokkur ástæða til að trúa á óprófanlegar kenningar eins og þá sem kennd er við vinnugildi?” Svarið er að öll trúum við á óprófanlegar kenningar, svo sem Stefán rekur ágætlega um trú okkar á óprófanlegar forsendur ýmissa dóma og ályktana, svo sem um list og réttlæti. Ég álít t.d. að engin leið sé að finna almennan mun kvenna og karla, enda sé um milljarða ókunnra mannvera að ræða, og enginn geti haft þekkingu á þeim. Með sömu rökum trúi ég ekki á kynþáttamun, en þessi kenning er vissulega óprófanleg. Ég hef mér það helst til afbötunar að jafnóprófanleg er andstæð kenning sem kunnust er af Helgu Kress og félögum, að grundvallarmunur sé á kynjunum, og hann birtist í bókmenntum eftir karla og konur, m.a. Þessi kenning var þegar alkunn í mínu ungdæmi og hét þá karlremba, en er nú kennd við kvennamenningu. En verst er að Stefán lætur sér nægja ”hugsunartilraunir” í stað þess að kanna hvað raunverulega gerðist, sögulegar aðstæður. Ég þykist hafa rakið að það háir bók hans verulega. Ég verð að biðjast velvirðingar á því að segja Stefán hafa gefið úr sex fræðirit á 22 árum, auðvitað eru 12 ár liðin frá 1999, þegar það fyrsta birtist. Ég veit satt að segja ekki hvernig þessi villa varð til. Innsláttarvilla? P.s. Mikið væri gaman ef Gústaf Níelsson vildi útskýra hvað hann á við með að ég sé ”Heiðar snyrtir hinna sósíalísku þjóðfélagsvísinda”. Skilur þetta nokkur maður?