þriðjudagur, 22. október 2013

Moskur og íslam

Moskur og íslam Valdimar Jóhannesson skrifaði gegn íslam hér í Mogganum um daginn. Ekki skal ég mótmæla því sem hann – og margir fleiri – segja um pólitískt íslam, íslamisma. Það er stjórnmálahreyfing til hægri við Adolf Hitler, hún berst fyrir einræði í guðs nafni, undirokun kvenna, dauðarefsingu homma og hvers sem yfirgefur íslam. Og sjálfsagt er að berjast gegn þessari hreyfingu, með vopnum, t.d. í Afganistan, því auðvitað taka þessir menn ekki þátt í rökræðum um trúarbrögð. Það væri guðlast að mati þeirra. En það er rangt hjá Valdimari að leggja alla múslima að jöfnu, og gera þá ábyrga fyrir þessum ofstækismönnum, sem eru lítill minnihluti múslima. Fyrir því er amk. þessi rök: Fólk alið upp í löndum þar sem islam er ríkjandi trúarbrögð er meira en milljarður manns að tölu. Enginn getur þekkt allt þetta fólk, sem er af mismundandi menntastigi, mismunandi stéttum og þjóðerni. Það er hreinn barnaskapur að alhæfa um það. Enda er augljóst að margt af þessu fólki er umburðarlynt, og margt áhugalaust um trúarbrögð. Og margir múslimar eru andstæðingar íslamista. Það sýnir sig best í Egyptalandi nú, þegar herinn setti íslamista frá völdum, fékk hann mikinn stuðning meðal almennings í þessu múslímska landi, þar er sannkölluð fjöldahreyfing gegn íslamistum. Á þeim tíma sem grimmilegar ofsóknir gegn “trúvillingum” og gyðingum fóru fram í Evrópu, ríkti trúfrelsi í íslömskum löndum – og ríkir enn. Þar búa bæði kristnir og gyðingar, þeir iðka trú sína í kirkjum og sýnagógum. Þeir þurftu bara að borga smáskatt sem múslimar voru undanþegnir, og það var nóg til að fjöldi manns gekk af trúnni og aðhylltist íslam. Ekki var nú trúarsannfæringin sterkari en svo! Til trúskipta þurfti engar ofsóknir, líkt og ætla mætti af grein Valdimars. En lesendur minnist trúvillingabrennanna í Frakklandi og á Spáni, m.a., og gyðingaofsókna á fyrri hluta síðustu aldar. Er það eðli kristindómsins, eða getur kristið fólk verið öðruvísi? Hafa Valdimar og aðrir andstæðingar moskna alls ekki tekið eftir ofstækisfullum bókstafstrúarmönnum meðal kristinna og gyðinga? Á miðöldum voru forfeður okkar Valdimars það sem við nú myndum kalla villimenn, en í íslömskum löndum voru þá háskólar og bókasöfn, og þar voru íslamskir lærdómsmenn sem skiluðu forngrískum menningararfi til vesturlanda. Þetta eru svo alkunnar staðreyndir, að ekki verður hjá þeim litið. Ég hefi einhverstaðar lesið þá skýringu, að viðhorfsbreyting hafi sigrað í íslömskum löndum á hámiðöldum, bókstafstrú hafi náð yfirhöndinni gegn frálslyndi og lærdómsdýrkun. En frálslyndi og lærdómsdýrkun ríkti í margar aldir í íslömskum löndum, svo bókstafstrúarofstæki er alls ekki eðlislægt í íslam. Að banna múslimum að byggja mosku, það er öruggasta leiðin til að afla þeirri byggingu fylgis. “Nú, svo þeir vilja ekki leyfa okkur það?! Þá skulum við gera það! Sýnum þessum vitleysingjum að þeir geti ekki ráðskast með okkur!” Sjálfur er ég trúlaus, en mér finnst sjálfsagt að virða tilfinningar fólks, og þá einnig trú þeirra, sem hana hafa. Einkum og sér í lagi þegar þeir segja að trú sé kærleikur. Og það trúaða fólk sem ég hefi kynnst er í stórum dráttum þannig, hvort sem um er að ræða gyðinga, múslima, kristna eða annað. Þau eiga miklu meira sameiginlegt en sundrar þeim. Kreddur einstakra trúarbragða skipta þetta fólk litlu máli, miðað við kærleiksríka trú þess. En auðvitað réttlætir yfirlýst trú ekki þá sem reyna að gera guð ábyrgan fyrir sinni eigin þröngsýni og heimsku. Það virðist sameiginlegt öllum trúarbrögðum að segja: “Náð guðs er alls staðar. Fólk þarf bara að opna sig fyrir henni, taka henni.” Er þetta ekki hið sama og við guðleysingjar segjum: Við getum sagt að allt sé að fara fjandans til, eða hinvegar að bæta megi ástandið. Veljum við fyrri kostinn, verðum við aðgerðalaus, og allt fer fjandans til. En veljum við bjartsýni, þá getum við gert okkar besta. Andstæðingar beggja eru bókstafstrúarmenn, þeir trúa á bók, og þar af leiðandi á mann sem túlkar bókina. Þeir eru ósjálfstæðir, attaníossar, þ.e. konformistar. 23.7.2013. Heimóttarskapur moskufjenda Ýmislegt hefur verið skrifað um væntanlega mosku í Reykjavík hér í Mogganum og virðast höfundar þeirra pistla alls ekki hafa tekið eftir þeirri mosku sem lengi hefur staðið við þjóðbraut við Öskjuhlíð, engum til ama, að því er séð verður. Er hún þó með sérkennilegri húsum! En önnur moska í Sogamýri ætti að sliga mynd borgarinnar, verða einskonar borgartákn. Enginn hefur getað mótmælt þeim ábendingum mínum að á hámiðöldum hafi múslimar staðið á miklu hærra menningarstigi en Evrópubúar. Forngrísk rit voru gleymd í Evrópu, en múslimar höfðu þýtt þau á arabísku og miðluðu þeim nú til Italíu og Spánar. Það varð upphaf Endurreisnarinnar, það er að segja upphaf evrópskrar nútímamenningar, þar sem mannlíf varð miðpunktur athygli í stað guðs áður. Þetta er alkunn staðreynd, og sannar að bókstafstrú er alls ekki neitt eðli íslams. Það sýnir best tvöfeldni moskufjenda og heimóttarskap að þeir vilja ekki leyfa moskur í ”kristnu” Íslandi, en býsnast yfir því að ekki séu kirkjur í múslímskum löndum. Fyrr má nú vera umburðarlyndið! Auk þess er þetta fjarstæða, ég hefi séð kirkjur bæði í Istambúl og Kaíro. Tíundi hluti Egypta er reyndar kristinnar trúar, enda þótt íslam hafi ríkt þar í landi í fjórtán aldir. Þetta er elsta kristni í heimi, og virðist því ólíklegt að kristnir hafi þar sætt sérstakri skattnauð eða öðrum ofsóknum múslima. Og ég minni á það sem alkunna mætti vera, að rétt fyrir valdrán hersins þar var fjöldahreyfing gegn íslamistum í þessu landi, þar sem þó ríkir íslam. Ýmsir viðurkenna að þar sem fólk sem alist hefur upp í íslömskum löndum er á annan milljarð að tölu, af margskonar þjóðfélagsstéttum, menntun og hugarfari, þá sé ekki hægt að alhæfa um það, setja það allt undir sama hatt. En þá er sagt: Enda þótt íslamistar (bókstafstrúarmenn) séu lítill minnihluti múslima, þá eru múslimar allir varnarlausir gegn áróðri íslamista, þ.e. einræðissinna og misréttissinna, því allt hefur þetta fólk verið alið upp við kennisetningar Íslams, og játað þeim. En sé litið til Íslands, sést hve fráleitur þessi áróður er. Það er trúargrundvöllur íslensku þjóðkirkjunnar að allt fólk sé fætt syndugt, sekt um erfðasyndina; sem er að Adam át af epli skilningstrés góðs og ills. Því eigum við öll að fara til helvítis, sama hve grandvarlega við lifum – nema fyrir óskiljanlega náð drottins, sem fórnaði eigin syni til að bæta fyrir þessa synd okkar! Hver trúir nú á þessa ógeðslegu kenningu? Fæstir þeirra sem þó kalla sig kristna. Eða á upprisu HOLDSINS eftir dauðann og eilíft líf? Hver trúir því að Jesú hafi gengið á vatninu og mettað þúsundir með tveimur brauðum og þremur fiskum? Ekki trúði því presturinn sem kenndi mér kristinfræði í framhaldsskóla. Hann sagði að auðvitað hefði fjöldi manns þarna fylgt fordæmi Jesú og gefið af nesti sínu til að metta þúsundirnar. Svona mætti áfram rekja kennisetningar kristninnar, sem fáir trúa á. Hví skyldum við ætla flestum múslimum meiri bókstafstrú en Íslendingum almennt? Sannleikurinn er sá, að það virðist flestum trúarbrögðum sameiginlegt að segja að náð guðs sé hvarvetna, fólk þurfi bara að taka henni. Og þetta viðhorf felur í sér bjartsýni, það að fólk leggi sig fram um að gera sitt besta og lifa í tillitssemi við annað fólk. Það var engin uppfinning Jesú frá Nasaret að ”þér skuluð gera öðrum svo sem þér viljið að þeir geri yður.” Þetta virðist sameiginlegt flestu fólki sem trúir á guð, og þetta er líka viðhorf flestra okkar sem erum trúleysingjar. Ef við trúum því að allt sé að fara til fjandans, allt sé vonlaust, þá getum við ekkert. En ef við trúum því að það skipti máli hvað við gerum, þá fyllumst við atorku. En aðrir trúa á bók – Kóran eða Biblíu – og þá auðvitað á mann, sem túlkar bókina. Því þessar bækur eru svo fullar af úreltri vitleysu, að ekki verður mark á þeim tekið án slíkrar túlkunar. Þetta bókstafstrúarfólk gerir guð ábyrgan fyrir sinni eigin heimsku og þröngsýni, og virðist þá fátt til ráða. Minnumst þess að þannig var kristni á Íslandi fyrir ekki löngu síðan, almennt ríkjandi var ótti og ofsóknarkennd, sem teldist sturlun nú á tímum. Þessu lýsti Halldór Laxness vel í ritgerð sinni: Inngangur að Passíusálmunum, 1932. 22.8.2013 Árétting um íslam Valdimar Jóhannsson segir (Mbl. 12.9) mig eigna honum ranglega ýmsar fráleitar skoðanir og eiginleika til að ég eigi svo auðveldara með að ráðast á hann. Þetta sannar hann svo á sig sjálfan með því að hafa eftir mér ýmis fúkyrði, sem ég aldrei hefi notað, en sem hann telur felast í ásökun minni um heimóttarskap. Því fer fjarri, hver sem les greinar mínar um íslam opnum huga sér að þar saka ég fólk einfaldlega um þröngsýni, ótta við hvaðeina sem ekki er heimakært og kunnuglegt. Skyldi ekki mega saka Valdimar um oflæsi, sbr. ofvirkni? Ég hefi engan áhuga á því hvað Valdimar kann að hafa óttast og varað við um moskuna í Öskjuhlíð, en ég hefi ekkert séð um skaðleg áhrif hennar, hvorki frá Valdimari né öðrum. Það er fráleitt að hafa uppi getsakir um að múslimar séu í eðli sínu ófrjálslyndir, en gleyma öllum þeim fjöldamorðum sem öldum saman voru framin í nafni kristni, trúvillingabrennum, galdraofsóknum, gyðingaofsóknum. Auðvitað er þetta ekki eðli kristindóms, og ekki guðstrú, heldur bókstafstrú, heimóttarskapur, valdboð. Er ekki slíkt enn meðal fólks sem kallar sig kristið? Vitaskuld eru ofstækisfullir bókstafstrúarmenn meðal múslima, og láta mikið á sér bera. Við þá er ekki talandi með öðru en vopnum, t.d. í Afganistan, því þeir teldu guðlast að rökræða það sem opinberað er í Kóraninum. En þetta er minnihlutahópur, Valdimar giskaði á 20% múslima. Ég ítreka að fjöldahreyfing er meðal múslima gegn íslamistum, m.a. í Egyptalandi, eftir margra alda drottnun íslams þar í landi. Valdmar neitar því sem ég segi að á hámiðöldum hafi múslimar miðlað forngrískum menningararfi til vesturlanda, raunar gerðu vísindamenn í múslímskum löndum ýmsar vísindauppgötvanir líka og færðu Vesturlandamönnum. Þetta geta þó allir séð, sem nenna að lesa sagnfræðirit. En auðvitað er fólki frjálst að berja hausnum við steininn, það skaðar bara hausinn frekar en steininn! 13.9.2013 Oflæsi um íslam Þegar ég sagði Valdimar Jóhannesson oflæsan, þá átti ég bara við að hann læsi of mikið úr textum – oftúlkaði þá, það heitir vænisýki á íslensku, paranoia á mörgum öðrum – en alls ekki að hann hefði lesið of mikið. Það væri fáránleg ásökun til manns sem sem ég sagði fáfróðan. Því hann neitar því enn að menningarstraumar, m. a. forngrískur menningararfur hafi borist frá múslimum til Evrópu á síðmiðöldum, hann segir að þar hafi gyðingar og kristnir verið að verki. Hvað hefur hann fyrir sér um það? Alls ekkert, svo séð verði! Þar að auki segir hann að menning okkar hafi orðið til með kristni! Og lætur sem menningararfleifð okkar frá Írak (Millifljótalandi hinu forna), Fornegyptum, Forngrikkjum o.s.frv. hafi engin verið! Þegar hann þar að auki trúir á lýðskrum Adolfs Hitlers, og segir að hann hafi verið vinstrisinnaður, að einræði sé vinstristefna, þá hefur hann gert gervalla einræðisherra veraldar, árþúsundum saman, þar á meðal alla kónga og keisara Evrópu, að vinstrisinnum, gott ef ekki að sósíalistum. Nei, Valdimar hefur ekki lesið of margt. Ég mótmælti ekki ágiskun Valdimars að fimmtungur múslima væri íslamistar, einfaldlega af því að það getur enginn vitað. Fáránlegt væri að þykjast þekkja hugarheim hundraða milljóna manna í rúmlega tveimur tugum mismunandi ríkja. En sannarlega hefi ég boðað skefjalausa baráttu gegn íslamistum, eins og allir geta séð á greinum mínum. Fáránlegt þykir mér að lesa ótta Valdimars um að íslenskir múslimar séu bókstafstrúaðir öfgamenn, án þess að hann geti vísað til neins því til staðfestingar. En jafnframt segir hann um Aðventista, Hvítasunnumenn, Krossinn og aðra svokallaða kristna söfnuði, sem raunar ekki trúa á guð, heldur á bók og þá á mann sem túlkar bókina: “Þeir sem fylgja bókstafnum í kristni eru yfirleitt afar vænt fólk. Þeir sem fylgja bókstafnum í íslam eru íslamistar og hreint ekki vænir menn í ofstæki sínu.” Er þetta ekki bara af því að hann hefur vanist þessum söfnuðum á Íslandi? Og hvaðan kemur honum vald til að ákvarða að mannkynssagan hefjist að nýju 11. september 2001? Það er enn fáránlegra. Það er ekki til neins að banna heimskulegar skoðanir. En bulli má andmæla, og það ber að gera, í nafni hvers sem það er borið fram, guðs, Allah, eða annars. 18.9.2013.

Kristmann í Skírni

Kristmann í Skírni Gunnþórunn Guðmundsdóttir ævisögusérfræðingur skrifaði grein um Kristmann Guðmundsson í síðasta Skírni og rekur þar m.a. tal Kristmanns um samsæri gegn sér, gróusögur og hvernig gert sé lítið úr honum sem rithöfundi, þetta afgreiðir hún sem vænisýki. En hér vantar alveg að líta út fyrir sjálfsævisögu Kristmanns, og kanna hvort þessar hugmyndir hans um ofsóknir eigi sér einhverja stoð í umhverfinu. Nú er ég töluvert eldri en Gunnþórunn, en ég man greinilega þessar gróusögur um Kristmann, sem altalaðar voru. Ég hefi skrifað lítillega um þær áður, og undarlegt er að sjá af hvaða tagi þær voru. Þær snerust fyrst og fremst um kynlíf! Kristmann átti að hafa bitið geirvörtu af konu sinni í algleymi samfara, og var þetta sagt um ýmsar af eiginkonum hans, hverja eftir aðra. Í annan stað átti hann að vera náriðill. Kristmann vék sjálfur að þessum sögum, þeirri fyrrtöldu í sjálfsævisögu sinni, en að þeirri síðartöldu í sjónvarpsviðtali við Steinar J. Lúðvíksson. Og eins og ég benti á (í TMM 2000), þá lýsa þessar sögur best upphafsmönnum sínum. Kristmann hafði verið örsnauður atvinnuleysingi á götum Reykjavíkur, en með aðstoð Þorsteins Gíslasonar ritstjóra komst hann til Noregs, og fékk verkamannavinnu þar um miðjan 3. áratuginn. Og fór að skrifa, með aðstoð Gyldendalsforlagsins varð hann smámsaman metsölurithöfundur þegar um 1930, þýddur á fjölmörg tungumál, bækur hans seldust í milljónum eintaka, hann varð auðugur. Þá þekki ég landa mína illa, hafi þetta ekki vakið öfund og illvild, enda talar Kristmann um fjandskap ókunnra manna þegar hann kom til Íslands 1935. Þegar nú við bættist að maðurinn var myndarlegur og bjó við kvenhylli, þá varð þetta alveg óþolandi. Níu hjónabönd! Það var bæði hneykslanlegt og öfundsvert. Mér er til efs að nokkur maður á Íslandi hafi verið jafnmikið rægður og Kristmann var um miðja 20.öld. Varðandi mat á sögum Kristmanns, þá ætla ég ekki að lofa þær. Það eru bjórar í sumum bókum hans, einkum lýsingar á náttúruhamförum (svo sem ég hefi rakið í fyrrnefndir grein í TMM og í bók minni Guðbergur, bls 228-230), en persónusköpun lét honum ekki, í t.d.Gyðjan og nautið hleður hann hrósi á persónur í stað þess að skapa þær. Hann var róttækur, deildi á misskiptingu auðs í sögum sínum, sýndi fram á að sú misskipting bækli fólk andlega, sú var enn hneigð fyrstu sögunnar sem hann gaf út eftir að hann fluttist til Íslands, Nátttröllið glottir, 1943. En lausnin var, rétt eins og í sögu hans, Sigmar (1930), stéttasamvinna, að auðmaður deili eigum sínum með fátæklingum og að þeir berjist ekki gegn auðmanninum. Fyrir “skilningsleysi á vandamálum nútímans og þeim hinum sálrænu öflum sem sterkasta þættina spinna í örlagaþræði mannanna” var hann gagnrýndur 1931 af helsta bókmenntagagnrýnanda kommúnista þá, sr. Gunnari Benediktssyni. Það túlka ég sem ádeilu á skilningsleysi höfundar á gildi verkalýðsbaráttu, faglegrar og pólitískrar. Samt liðu nær tveir áratugir þangað til ráðist var á Kristmann frá vinstri (það gerði Steinn Steinarr 1948), og ég hefi leitt rök að því að í þeim andstæðum hafi Kristmann sjálfur átt frumkvæðið í gengisleysi sínu og fátækt upp úr miðri 20. öld. Rótgróna og útbreidda illvildina í garð sinn fór hann að skýra sem samsæri kommúnista upp úr seinni heimstyrjöld, í kalda stríðinu, einmitt þegar íslenskt bókmenntalíf var tvískipt pólitískt, og stalínistar höfðu mikil áhrif í því. Og þetta tókst honum, bókmenntaklúbbur hægrimanna, Almenna bókmenntafélagið, tók hann upp á arma sína, Morgunblaðið líka, og hann fékk hlutverk píslarvotts í þessu stríði. Og heimildir eru um að kommar ginu yfir þessu agni. Jón Óskar hefur lýst því í sínum endurminningum (1971, bls. 176-187), hvernig talað var um helstu skáld hægrimanna á kaffihúsi komma á Þórsgötu 1 á 6. áratug 20. aldar (bls. 182)…. Þar er m.a. vísað til þess að Thor Vilhjálmsson sagði um miðja öldina, að þegar menntamálaráðherra lét Kristmann annast bókmenntakynningu í skólum landsins, væri það eins og að láta Kristmann spræna yfir þjóðina. Kristmann höfðaði þá meiðyrðamál gegn Thor og vann. Hvað sem mönnum finnst um það, verða viðbrögð Kristmanns ekki kölluð vænisýki, hann hafði ærna ástæðu til að finnast hamast gegn sér. Allar þessar heimildir voru og eru auðfundnar. Mér finnst að Gunnþórunn hefði átt að skyggnast í þær heimildir, út fyrir sjálfsævisögu Kristmanns, það eru óboðleg vinnubrögð að stimpla manninn vænisjúkan við að líta hjá samtímaheimildum um málið. Heimildir: Gunnar Benediktsson: Kristmann Guðmundsson: Sigmar....Iðunni 1931, bls. 193-5. Gunnþórunn Guðmundsdóttir: "Hvorki annálar né vísindaleg sagnfræði" Skyggnst um í sjálfsævisögu Kristmanns Guðmundssonar. Skírni 2012, bls. 396-404. Jón Óskar: Gangstéttir í rigningu. Rvík 1971. Örn Ólafsson: Kommúnistar og borgaralegir höfundar. Tímarit Máls og menningar 2000, 4. hefti, bls. 35-38. Þar er vísað í heimildir. Örn Ólafsson: Guðbergur. Rvík 2012. Þessi grein fékkst ekki birt í Skírni, né svaraði ritstjóri hans bón um svar hvort birt yrði. 28.6.2013 Svör í Fréttablaðinu: Tímastetningin er slæm skrifar María. Af hverju eiginlega? Er það vörn fyrir ríkisstjórn Sigmundar Davíðs að bera blak af Kristmanni? Ég sendi þessa smágrein Skírni rétt eftir að haustheftið 2012 barst mér, en hún var ekki birt þar, og ég fékk ekki einu sinni umbeðið svar um hvort hún yrði birt. Svo sé ég að ritstjóri Skírnis er meðal þeirra sem líkar vel greinin! Gaman, gaman! Annar maður er ósáttur við að ég noti orðin kommi og stalínisti. Hversvegna? Hvorttveggja var til. Ég er raunar sjálfur kommi, nánar tiltekið í Danmerkurdeild Fjórða Alþjóðasambandsins, og því gagnrýninn á stalínista. Auðvitað báru íslenskir stalínistar enga ábyrgð á fjöldamorðum Stalíns, né öðrum glæpum, en þeir fylgdu þeirri kratadellu, að verkalýður í auðvaldsþjóðfélagi hefði sérstaka sósíalíska hugsun, frjókorn stéttlausrar framtíðar, og að bókmenntir með sósíalíska hneigð myndu snúa verkalýðnum til sósíalisma. Svo þegar verkamaður eða –kona kemur þreytt heim frá vinnu, og les sósíalíska skáldsögu eða ljóð, geysist viðkomandi út á götu og gerir byltingu. Nei, ætli langvarandi kjarabarátta sannfæri fólk ekki betur um hverjir eru andstæðingar þess, og hverjir félagar. Það vekur fólk sjálft til umhugsunar, en ekki “bókmenntaverk” sem hefur vit fyrir því. Auðvitað lét Kristmann ofsóknaróra í ljós. Spurningin er hvort honum var alvara, eða hvort hann var að leika hlutverk “frjálshuga skálds sem ofsótt var af kommúnistum fyrir sjálfstæði”. Það þykir mér líklegt, en auðvitað verður ekkert sannað. Sjálfsagt hefur þetta orðið “spádómur sem uppfyllti sig sjálfur”, þegar Kristmann gekk inn í menningarstríðið, festist hann í því hlutverki sem hann tók sér. Ég fagna upplýsingum Andra, sem gera málið skýrara. Eftir stendur það sem enginn gerandi athugasemda nefnir, að það er óviðunandi að háskólakennari með sérgrein í ævisögum skuli viðhafa svo óvönduð vinnubrögð í umsögn um sjálfsævisögu, og það í fræðilegu tímariti. 30.6.2013