þriðjudagur, 12. desember 2006

Kommúnistar og borgaralegir höfundar

Í Tímariti Máls og menningar, 3.h. 2000 skrifar Árni Bergmann svar til þeirra sem sakað hafa kommúnista um að ofsækja ,,borgaralega rithöfunda". Flestu er ég sammála í grein Árna, en þó vil ég gera fáeinar athugasemdir, t.d við það sem hann segir um afstöðu róttæklinga til Davíðs Stefánssonar. Hann nefnir að ýmsir þeirra hafi hrósað Davíð, einkum jafnaldrar hans, en seinni skáldakynslóð talið hann úreltan – á bókmenntalegum forsendum. Leitt er að Árni skuli ekki hafa tímasetningar á þessum ummælum. Án þeirra mást öll sérkenni út. Ástæðan er sú, að frá stofnun Kommúnistaflokks Íslands 1930 og fram á mitt ár 1934 var flokkurinn beygður undir einangrunarstefnu Alþjóðasambands kommúnista. Samkvæmt henni voru sósíaldemókratar höfuðstoð auðvaldsins og kommúnistum því bannað allt samstarf við samtök þeirra. Á þeim tíma voru Alþýðuflokkurinn og ASI eitt, svo þetta skapaði veruleg vandamál. Kratar reyndu fyrir sitt leyti að einangra kommúnista, og er talið að þessi sundrung hafi komið Hitler til valda í Þýskalandi. Á menningarsviðinu gilti samskonar einangrunarstefna hjá kommúnistum út árið 1935; að borgaraleg menning væri úr sér gengin, gjörspillt og ónothæf fyrir stéttvísan verkalýð. Í staðinn væri nú kominn tími nýrrar bókmenntastefnu, sósíalrealismans, sern í senn afhjúpaði galla auðvaldsskipulagsins og sýndi verkalýðnum fyrirmyndarhetjur í byltingarbaráttunni gegn því. Vegna þessa hömuðust róttæklingar almennt gegn Davíð Stefánssyni á fyrra hluta 4. áratugarins (það rek eg í bók minni Rauðu pennarnir,1990, b1s. 90 o.áfr.). Hann var einkum gagnrýndur fyrir að sýna alþýðufólki meðaumkun í stað þess að hvetja það til stéttarbaráttu. Almennar vinsældir ljóða þessa skálds gerðu þau sérlega hættuleg, og því var talið einkar mikilvægt að berjast gegn því. Þetta viðhorf er reyndar alveg andstætt frumkvöðlum marxismans, Marx, Engels, Lenin og Trotskí, m.a., sem töldu að verkalýðurinn yrði að tileinka sér þá menningu sem drottnaði í umhverfi hans - jafnframt því að átta sig gagnrýnum huga á þeim stéttarsjónarmiðum sern einkenndu einstök listaverk - en ekki að forðast verkin vegna þeirra sjónarmiða. Árni nefnir að Kristinn E. Andrésson hafi hrósað Einari Benediktssyni. En það hrós var bundið við skáldskap Einars fram að uppkomu auðvaldskerfisins á Íslandi, eftir það hafi skáldskapur hans fjarlægst hagsmuni alþýðu, og þar með orðið innihaldsrýr og lélegur. - Þetta sjónarmið hafði reyndar Jónas frá Hriflu sett fram 1920, löngu á undan Kristni!
Um miðjan 4. áratuginn sneri Stalín við blaðinu, og boðaði kommúnistum samstarf við hvern sem var gegn fasisma. Ársritið Rauðir pennar var nýútkomið fyrsta sinni, þrungið kenningunni um úrkynjun borgaralegrar menningar, þegar útgefandanum, Félagi byltingarsinnaðra rithöfunda, barst hin nýja samfylkingarstefna, ásamt tilkynningu stjórnar Alþjóðasambands þeirra, um að hún hefði lagt Alþjóðasambandið niður! Nú breyttist tónninn í ársritinu, og einnig dómar róttæklinga um borgaralega rithöfunda. En mishratt, almennt ríkti trú á uppeldisgildi skáldsagna umfram ljóð, og því voru höfundar svo sem Guðmundur Hagalín áfram gagnrýndir. Sérstakt fjaðrafok varð út af skáldsögu hans Sturla í Vogum, svo sem Árni rekur. Eg held að hver einasti maður sem les söguna opnum huga, hljóti að fallast á dóm Sigurðar Einarssonar (i TMM 1938:3, b1s. 19):

,,Einhyggjumanninum, karlmenninu Sturlu í Vogum verður það að lokum ljóst, að það er ekki líft í þessum heimi án mannanna. Samhjálpin, samtökin eru honum i bókarlok eins og óljóst markmið, sem hann aðeins eygir, úrræði sem kann að duga, þegar jafnvel þreki hins sterkasta er ofboðið."

En i rúm sextiu ár hafa vinstrimenn haft uppi rangfærslur Gunnars Benediktssonar, i ritdómi í Þjóðviljanum (8.12. 1938, of sexfaldri venjulegri lengd!) að sagan sé lofsöngur um einstaklingsframtak. Raunar hafi Ólafur Thors sagt eitthvað svipað i ræðu á fullveldisdaginn viku áður (eins og Árni rakti). Á árinu 1983 spurði ég Einar Olgeirsson, góðkunningja Ólafs áratugum saman, hvernig í ósköpunum Ólafur hefði getað rangtúlkað söguna svona. Einar hló bara og sagði að auðvitað hefði Ólafur ekki nennt að lesa söguna. Hann hefði bara viljað krydda ræðu sína með vísun til nýs, umtalaðs bókmenntaverks, svo sem stjórnmálamönnum er títt, til að sýna að þeir fylgist með.
Árni vitnar tvívegis til fyrrnefndrar bókar minnar, en mér finnst að hún hefði mátt nýtast honum betur. M.a. þykist eg sýna fram á það (b1s. 73 og 228) að stærsta og útbreiddasta menningartímarit Íslands, Eimreiðin, hafi kerfisbundið sniðgengið rithöfunda eftir að þeir urðu kunnir að róttækni, hætt að birta verk þeirra og ritdóma um bækur þeirra, enda þótt þar birtust ritdómar um 60% allra útgefinna skáldrita (á árunum 1918-44). Og þessi skipulagða þögn er einkum frá árinu 1937 að telja, þegar róttæklingar hverfa æ meir frá einangrunarstefnunni, stofna t.d. bókaklúbbinn Mál og menningu með fjöldaþátttöku. Þá voru þeir orðnir hættulegir í augum andstæðinganna.
Fyrir nokkrum árum las eg endurminningar Kristmanns Guðmundssonar. Það var fróðleg lesning og á köflum glæsileg, t.d. þegar hann lýsir komu sinni til Vínarborgar. Og þetta er holl lesning þeim sem heyrt hafa gróusögur um þenman margrægða mann. En eins og eg sagði i sjónvarpsþætti um Kristmann fyrir hálfum áratug, þá er það hrein þvæla að kommúnistar hafi eyðilagt skáldferil hans og frægð. Sú frægð skapaðist i Noregi, og þar er Kristmann löngu öllum gleymdur. Ekki er það fyrir áhrif kommúnista, því þeir hafa alltaf verið áhrifalausir i Noregi. – Rétt er þó að nefna mótbáru aldraðs norsks bókmenntafræðings þegar ég sagði þetta við hann. Hann sagði að menningarróttæklingarnir í samtökunum Mot dag hefðu verið áhrifamiklir. En ekki vissi hann hvort þeir hefðu skrifað eða talað gegn Kristmanni, og ekki hefi ég komist að því.
Kristmann var i hópi róttækustu sósíalista á Íslandi um 1920, í liði Ólafs Friðrikssonar i Hvíta stríðinu, og handtekinn fyrir það. Vegna örbirgðar hraktist hann úr landi um miðjan þriðja áratuginn. Í Noregi fékk hann verkamannavinnu og tókst smám saman að hasla sér völl sem rithöfundur, náði loks metsölu med Morgni lífsins, 1929, hún birtist víst á sextán tungumálum. Hann skrapp til Íslands hálfum áratug síðar, og undraðist þá tilefnislausar árásir á sig frá bláókunnugum mönnum, sem komu jafnvel upp úr skurðgreftri, ógnandi honum med graftólum. Og um svipað leyti heyrði hann fyrst þær gróusögur sem gengu um hann næstu hálfa öld, að hann væri náriðill og hefði bitið geirvörtuna af konu sinni i algleymi samfara. Þessi saga gekk um ýmsar af hans mörgu eiginkonum. Það er auðséð að svona rógur segir meira um höfund sinn en um viðfangsefnið, í gegn skín öfund yfir kvenhylli þessa glæsimennis og fjandskapur óviðkomandi manna stafaði sjálfsagt af öfund yfir efnahagslegri velgengni þess sem áður var blásnauður. Kristmann nefnir ekkert pólitískt i sambandi við þessa andúð gegn sér á fjórða áratuginum. En í lok hans gerði hann afdrifaríkustu mistök ævi sinnar, hann fluttist aftur til Íslands. Auðvitað gat hann ekki vitað að nú hæfist heimsstyrjöld sem myndi einangra hann frá útgefanda hans í Noregi næstu sex árin. En það var mikið breytingaskeið, allt önnur tíska ríkti eftir stríð en fyrir. Og þótt Kristmann skrifaði áfram í aldarþriðjung, birtist aðeins ein þeirra bóka erlendis. Hann segir frá því hvernig hann bjó við skort í Hveragerði, og áfram við sömu andúðina og róginn frá óviðkomandi mönnum. Því held eg að honum hafi hugkvæmst snjallræði í kalda stríðinu. Hann heimfærði þessar gamalkunnu ofsóknir á nýjan upphafsaðilja, bókmenntahreyfingu kommúnista, sem borgaralegir stjórnmálaflokkar óttuðust, og börðust skipulega gegn. Og þetta hreif, borgaralegir stjórnmálamenn tóku hann nú upp á arma sina, og kommúnistar létu ginnast til að leika það hlutverk sem þeim hafði verið úthlutað. Raunar var það í sjálfsvörn, svo sem Árni rekur í grein sinni, áður höfðu þeir ekkert skipt sér sérstaklega af honum. Ein undantekning þó, Gunnar Benediktsson hafi raunar gagnrýnt sögu hans Sigmar, i Iðunni 1931, og einmitt fyrir að vera æsandi afþreyingarsaga með fullkomnu skilningsleysi á verkalýðsbaráttu, hún er í bókinni skýrð með öfund i garð mikilmenna, og stéttasamvinna verður ofan á sem farsæll endir. En annars hef eg ekkert fundið neikvætt frá vinstrimönnum i garð Kristmanns fyrr en undir miðja öldina (Steinn Steinarr 1948), þegar velgengni hans sem rithöfundur var löngu hrunin.
Þessir menu eru löngu orðnir goðsagnapersónur. Menn lesa ekki bækur þeirra en (for)dæma þær samt vegna afspurnar. Vinstrimenn af þörf fyrir fyrirlitlegan mótpól við frækilega bókmenntaróttækni 4. áratugarins (Halldór Laxness, Þórberg og Jóhannes úr Kötlum, m.a.), en hægrimenn sjá Hagalín og Kristmann sem leiðtoga frelsisbaráttu gegn ofríki kommúnista. Goðsögur hrífa marga, af því að þær gera þeim kleyft að sjá sjálfa sig sem þátttakendur í frækilegri samfélagsbaráttu. En gallinn er sá, að þær loka augum fólks fyrir umhverfinu, og halda huga þess föstum í vítahring. Það sýnir dæmið um Sturlu í Vogum best.
TMM 2000:4

föstudagur, 8. desember 2006

Dagbækur Þórbergs

Ef lýsa ætti ritum Þórbergs Þórðarsonar í mjög stuttu máli fyrir fólki sem þekkti þau alls ekki, t.d. útlendu bókmenntafólki – hvaða einkenni ætti þá að draga fram? Ég myndi umfram allt nefna hlífðarlausa sjálfsskoðun Þórbergs, og í öðru lagi skarpar mannlýsingar hans, hvorttveggja lífi gætt í skemmtilegum frásögnum á mjög fjölbreytilegum stíl. Þótt ritgerðir Þórbergs séu mjög góðar, finnst mér því mest til um sjálfsævisögulegar frásagnir hans, einkum þá Íslenskan aðal, Ofvitann, Bréf til Láru. Og þetta eru líklega vinsælustu rit hans. Á þessu sviði á Þórbergur varla nokkurn sinn líka, þar var hann mestur nýjungamaður íslenskra bókmennta. Það þýðir því lítið að gá að fyrirmyndum hérlendis, ef spurt er: hvernig varð hann það? Vissulega hefur verið bent á Dægradvöl Benedikts Gröndals, sem birtist aðeins tveimur árum á undan Bréfi til Láru. Sameiginlegt er að segja frá smáu og stóru af hispursleysi. Munurinn er að Benedikt segir í nokkurnveginn samfelldri framvindu frá lífi sínu og kunningjum á lífsleiðinni, en Bréfið er miklu fjölbreyttara að efni, og einkum þó að stíl. Erlendis var auðvitað Strindberg atkvæðamikill á þessu sviði og mjög kunnur á Íslandi. Mér finnst mjög líklegt að hann hafi orðið Þórbergi nokkur fyrirmynd. En raunar gekk mikil einstaklingshyggja og naflaskoðun víða um lönd um og uppúr aldamótunum 1900.
Tveimur árum eftir dauða Þórbergs gaf Sigfús Daðason út nokkur rit hans frá árunum 1912-16, þegar hann var 24-28 ára, og áður voru óbirt (Ólíkar persónur). Þarna er margt merkilegt, og þótt Þórbergur ætti þá enn langt í þann þroska sem hann sýndi í Bréfi til Láru, 1924, er hann ótvírætt á leið þangað, t. d. í langri og sundurleitri ritsmíð um Ársæl Árnason, 1915. Stíll Þórbergs er yfirleitt heldur hversdagslegt ritmál á þessum tíma, en þó er hann að þróast til meiri fjölbreytni og sjálfstæðis eins og Sigfús bendir á í formála bókarinnar. Sigfús nefnir þá kenningu Sigurðar Nordals að Þórbergur hafi einkum þjálfast í ritstörfum með bréfaskriftum, en slíkan vettvang telur Sigfús alltof einhliða og þröngan til að verða upprennandi rithöfundi til þroska. Það þykir mér hinsvegar undarleg kenning, ef litið er á þau bréf Þórbergs sem birst hafa í ritsafni hans, mjög fjölbreytt rit. En Sigfús telur að æskuritin í Ólíkar persnónur hafi verið miklu mikilvægari liður í þroska Þórbergs. Þau voru, eins og hann segir, flutt á hálfopinberum vettvangi, þ.e. lesin upp á fundum í Ungmennafélagi Reykjavíkur. Og greinilega er það rétt að þau hafa verið Þórbergi mikilvæg þjálfun. En Sigfús segir raunar að Þórbergi hafi verið stílsnilldin meðfædd. Ekki er hægt að fallast á slíka skoðun athugunarlaust, enda skýrir hún ekki neitt, þetta er einskonar örlagatrú. En skýring er nærtæk.

Dagbækurnar
Lesendur Þórbergs munu minnast þess að hann var oft að taka sig á og setja sér lífsreglur. Þar á meðal voru þrálátir svardagar um að færa nú samviskusamlega dagbók. Smám saman tókst Þórbergi að lifa eftir þessu. Niðri á Landsbókasafni fylla dagbækur hans eitthvað á annan hillumetra. Sú fyrsta nær yfir tímabilið maí-okt. 1904 (hreinrituð 1906), önnur um júlí-sept. 1910. Í febrúar 1911 hefst hin þriðja á nokkrum formála. Þar segir Þórbergur, að sex undanfarin ár hafi hann haldið dagbók, en slitrótt, á smákompur og stundum á laus blöð. “Erfið lífskjör og menntunarskortur hefur valdið þessu. En því miður eru nú flestar þessar skræður týndar, eða þá á ringulreið hingað og þangað, þar sem ég hefi flækst um undanfarin ár.” Í formála 4. dagbókarinnar, sem hefst 17. júní 1911 ítrekar hann þessi orð, en segist skulu brenna hverju snifsi sem hann finni af þessum dagbókarfærslum. Í formála í febrúar 1911 segir hann áfram: “Dagbók þessi lýsir veðráttufari, skýrir frá markverðustu viðburðum utanlands og innan og athöfnum mínum o. s. frv. Vil ég gera mér far um að skýra rétt og greinilega frá öllu því sem ég færi í stíl.”
Dagbók færir Þórbergur yfirleitt síðan. Að vísu er það nokkuð slitrótt framá 3. áratuginn, stundum koma margra mánaða hlé, og næstum þriggja ára, 1917-20, mjög lítið á sjö ára tímabilinu maí 1917 - okt. 1924. Sennilega má fylla eitthvað í þau skörð með bréfum hans, en satt best að segja mun bættur skaðinn þótt eitthvað hafi fallið úr skráningu, flestir dagar Þórbergs voru ámóta tíðindalitlir og okkar hinna. Og það sem ég hef séð af dagbókum hans er mestmegnis bara þurr skrá um veðurfar, gerðir Þórbergs og hverja hann hitti. Það fer ekki hjá því að lesandinn velti því fyrir sér hvernig maðurinn gat enst til að gera þessi skrælþurru reikningsskil um líf sitt, daglega, áratugum saman. Til hvers var hann að þessu? Eina skýringin sem ég finn hjá Þórbergi sjálfum er:
“Ég hafði og hefi enn ávallt gaman af því að líta yfir liðna tíma og þá atburði sem þeir fela í skauti sínu” (17/6 1911).
Auk fyrrnefnds formála hefur Sigfús Daðason skrifað yfirgripsmikla og fróðlega grein um Þórberg (í Andvara 1981). Þar segir hann að Þórbergi hafi mjög háð skortur á skipulagsgáfu framá sumarið 1913. En þá verði gerbreyting á lífsháttum hans, “þá hættir hann að láta berast ósjálfbjarga áfram”(bls. 9). Er nú ekki líklegast að Þórbergur hafi haldið dagbók til að ná þessum tökum á lífsháttum sínum? Dagbókin sem hefst næst eftir sept. 1912 byrjar1. jan. 1914, og hún sýnir mjög reglubundið líferni næstu ár: lesið svo og svo marga tíma á dag, unnið svo og svo lengi, líkamsæfingar, o.s.frv. Þessi merka heimild ber Þórbergi fagurt vitni um eljusemi og sjálfsaga. Síst viðrðist of mikið um hrasanirnar sem Þórbergur óskapaðist útaf, t.d. í Ofvitanum. Í dagbókunum er allt talið sem Þórbergur las, hve lengi hann var að skrifa hvert rit o.fl. Það er augljóst, að það var í þessum dagbókafærslum sem hann tamdi sér hina frægu nákvæmni sína í dagsetningum og tímasetningum, veðurlýsingum og lengdarmælingum, sem setti svo mjög svip á rit hans síðar, að mörgum hefur þótt nóg um. Það er íhugunarefni hvert gildi þessar nákvæmu lýsingar hafa haft fyrir hann sjálfan. Hann sagði oft eitthvað á þá leið, að það væri minnstur vandinn að vera skemmtilegur með því að spinna eitthvað upp. En sjálfur væri hann eini rithöfundur á Íslandi, sem gæti verið skemmtilegur með því að segja bara satt og nákvæmlega frá. – Slíkt sjálfslof er títt hjá Þórbergi, annarsstaðar segist hann vera eini maðurinn sem kunni að lesa hús. Hvernig vissi hann að enginn annar gat það? Furðulegt er hve margir hafa tekið þetta gort hans trúanlegt.- Þessar nákvæmnisfærslur hafa verið Þórbergi ögun, aðferð til að þjálfa sig í slíkum undirstöðuatriðum fyrir skáld sem nákvæm athugun og skarpar lýsingar eru. Vissulega var þetta svið þröngt, en hann útfærði þetta líka annars staðar, svo sem í Ungmennafélagsritunum í Ólíkar persónur. Ekki nóg með þetta, fyrir svo gróskumikið ímyndunarafl sem Þórbergur hafði, mátti ástundun þurra staðreynda og nákvæmni í meðferð þeirra virðast svo sem dauður trjábolur er vafningsviði – ómissandi til að hann geti lyfst í verulegar hæðir. Aðeins hefði mátt óska þess, að trjábolurinn hyldist stundum betur laufskrúði! Fræg eru dæmi slíks í sögu bókmennta. Þannig tók Gustave Flaubert fyrir hið hversdagslegasta efni, að ráði vina sinna, og skóp úr því meistaraverkið Madame Bovary (en þeim fannst ímyndunarafl hans of óhamið í fyrri verkum).
Jafnframt þessu öllu eru dagbækur Þórbergs merkileg heimild um daglegt líf menntamanna og skálda í Reykjavík á æviárum hans. En a. m. k. á árunum milli stríða virðist það fólk hafa verið að heimsækja hvert annað flest kvöld, og oft hittast að máli um miðjan dag líka. Hefur það verið ólíkt skemmtilegra líf en að sitja yfir Derrick, Dallas og co.

Sálarástandið
Það er helst í utanlandsferðum Þórbergs sem litur og líf færist í frásagnir dagbókanna – og árin 1912-17. Fimmtu dagbókina hefur hann 15. maí 1912 , eftir hálfs árs hljé, og fer þá að færa eftir nýju kerfi, hefur færslur af hverju tagi undir sérstakri fyrirsögn (veður, o.s.frv.) og bætir nýjum bálki við: “Sálarástand mitt”. Færslur af því tagi haldast lengi síðan, þótt bálkakerfið víki fljótt fyrir samfelldri frásögn. Tilefni þessarar nýbreytni virðist ótvírætt ástarsorg sú og sjálfsásakanir sem alkunna eru af Íslenskum aðli, enda er efnið líka mjög á sömu lund og í þeirri bók. Efnislega eins – en frásagnarhátturinn er gerólíkur. Í dagbókunum er hann hreint ekki þesslegur, að Þórbergur hafi hlotið stílsnilldina í vöggugjöf. Öðru nær, þar ríkir sá hversdagslegi, að ég ekki segi óbjörgulegi, klisjuborni stíll, sem vænta mátti af ungum byrjanda í ritstörfum. Berum saman (dagbók, 21/5 1912):

“Sanna lífsgleði virðist mér hvergi að finna nema hjá lífsstjörnunni björtu, er létti af mér böli og byrðum lífsins á liðnum vetri. En nú skín hún bak við fjöll og firnindi, norður á heimsenda, og það er aðeins endurminningin eintóm sem ýmist kætir mig – eða grætir. Ef ég mætti sjá stjörnuna svo sem augnabliksstund, og ef hún gæti ljómað eins og hún ljómaði fegurst hér, mundi ég glaður bjóða heiminum góða nótt og – deyja.”

Eins og vant er með mikla höfunda kostaði það margra ára harða baráttu að losa sig undan klisjunum, finna þann tón sem virðast mátti upprunalegur, sjálfsprottinn. Sjáum nú hvernig Þórbergur talaði um sama efni, aldarfjórðungi síðar, í Íslenskum aðli (í lok 6. k.):

“Þegar ég var sestur einn fyrir í stofunni á Þóroddsstöðum, var mér innanbrjósts eins og allir eiginleikar sálar minnar væru þurrkaðir burt úr meðvitundarlífinu; - allir, nema aðeins einn. Það var þjáningin, altæk, hreyfingarlaus, heldimm þjáning, hyldjúp, kyrrstæð lægð tilbreytingarlausrar kvalar. Þar örlaði ekki á neinu minnsta hæti, sem væri öðruvísi þessa stundina en hina, engri smæstu aðkenningu af einhverju minna eða meira, eilitlu dimmra eða bjartara, engri smávægilegustu hræringu, sem fyrir einni klukkustund hefði getað verið á móts við heilafrumu aftan við eyrað á mér, en nú hefði þokast á móts við frumu frammi undir gagnauganu. Öll víðátta sálarinnar var eins og bráðið blýhaf, þar sem hvergi grillti fyrir aðgreiningu lofts og lagar. Ég sat grafkyrr og horfði sljóum, hreyfingarlausum augum út í gráan stofuvegginn á móti mér.”

Munurinn á þessum tveimur klausum er einfaldlega sá, að hin seinni er skörp, sérkennileg mynd, og alveg frumsköpuð: þungt, blýgrátt, kyrrt haf. Hin er tugga. Nú segir sjálfsagt einhver, að ekki sé að undra þótt minnisatriði hripuð upp í dagbók séu á óvandaðri stíl en prentuð bók. En fyrri klausan er ekkert hripað minnisatriði, maðurinn er að gera grein fyrir sálarástandi sínu í rækilegum lýsingum. Og þannig eru dagbækur Þórbergs oft á 2. áratuginum, og æ vandaðri framsetningu, t.d. árin 1916-17. Ég segi ekki að þetta nái uppí Bréf til Láru, en langt á leið þangað. Þá hefur Þórbergur náð töluverðri þjálfun í að segja hug sinn, og það sem meira skiptir fyrir upprennandi rithöfund: a. m. k. fimm ára þjálfun í sjálfskönnun, hlífðarlausri athugun á eigin sálardjúpum. Þessu olli ekki bara sjálfsóánægja svo sem sú sem Íslenskur aðall segir frá – tiltölulega hversdagsleg, heldur ýmislegt fleira. Ást í þvílíkum meinum, að líklegast varð hún hvorki játuð, né um rætt við nokkurn mann, brýst stundum fram í dagbókarfærslum. Og þar segir m.a. (4/5 1914):

“Ég á erfitt með að verjast ömurlegasta þunglyndi. En þó hefi ég fundið ráð til þess [...] Það er að reyna að sýnast alltaf síkátur og glensfullur. Smám saman slær ytri gleðinni inn. En þó má henni ekki slá algerlega inn, því að þá á ég á hættu að göfugustu endurminningarnar blikni. Flestir hyggja að ég sé orðinn nokkurskonar gárungi, jafnvel siðleysingi, er hæðist og skopast að öllu fögru og guðdómlegu. En þeim er ekki kunnugt um hitt, að þetta er mér nokkurskonar Kínalífselixír, er varnar mér frá að sökkva í kaf í svartasta þunglyndi. Ég verð að fórna umburðarlyndi annarra fyrir velferð minni.”

Þessi orð skýra háðskan kveðskap Þórbergs, sem fór að birtast næstu ár í fyrstu bókum hans: Hálfir skósólar 1915, Spaks manns spjarir 1917, Hvítir hrafnar, 1922. Þetta eru mestmegnis skopstælingar á kveðskap sem þá var vinsæll, og hefur Halldór Laxness sagt um þessi kver:

“Einu hefur aldrei verið svarað um Þórberg. Hvernig stendur á því að lítt uppfræddur sveitamaður úr einu afskekktasta héraði landsins kemur til Reykjavíkur og fer að yrkja út frá sjónarmiðum dada, þeirrar stefnu sem þá var í burðarliðnum suðrí álfu, og kalla má undanfara allrar nútímalistar í vestrænum heimi, svo í bókmenntum sem mynd og tóni.” (Ungur ég var, bl.s 80).

Tengslin eru þau, að dada var niðurrifslist, andóf gegn ríkjandi viðhorfum og hefðum á öllum sviðum. Tilvitnunin hér að framan í dagbók Þórbergs skýrir hversvegna hann fer slíkar leiðir, sbr. líka næstsíðasta kafla Ofvitans: “Elskan mín” (sem Sigfús Daðason vísar til í Andvaragrein sinni, bls. 18). Formálar kvæðanna í Eddu Þórbergs sýna líka vel andúð hans og uppreisn gegn steinrunnum klisjum í kveðskap, sérstaklega af væmnara tagi. Hinsvegar er “fútúrismi” Þórbergs nafnið tómt, eins og hann raunar upplýsir sjálfur í inngangi að kvæðinu “Fútúrískar kveldstemningar” í Eddu.
Hér kemur líka til sívaxandi andlegt sjálfstæði Þórbergs, sem berst við að ná tökum á lífi sínu og stefnir frá alfaraleið, vitsmunabrautir sem hann kortleggur sjálfur. Og það gerir hann stöðugt í dagbókum sínum, og oft eins nákvæmlega og hann getur. Hvílík þjálfun fyrir rithöfund! Þetta er ein helsta þroskaleið hans fram að Bréfi til Láru.

Íslenskur aðall
Nú verður að nefna vissar takmarkanir dagbókanna; þær eru a.m.k. stundum færðar með það í huga, að þeir gætu komist í þær, sem Þórbergur vildi ekki trúa fyrir leyndarmálum sínum. 1922 hefur hann t.d. afmáð 6 línur í færslunni 13/9. Og 1912 segir dagbókin nákvæmlega frá brottför Arndísar Jónsdóttur úr Bergshúsi, en þá einnig annarrar stúlku, sama dag. Ekkert bókar Þórbergur um tilfinningar sínar til þeirrar fyrrnefndu, og þótt hann útmáli hörmulegt sálarástand sitt næstu daga, gefur hann ekki skýringar á því, þær sem síðar komu í Íslenskum aðli. Eins er, þegar hann segir frá samfundum þeirra í Hrútafirði um sumarið. En mergurinn málsins er sá, að Íslenskur aðall er saminn upp úr dagbókinni 15/5 -11/9 1912. Sömu efnisatriði koma þar í nokkurn veginn sömu röð. Það efni sem Íslenskur aðall hefur umfram, er einkum sjálfstæðir þættir af einstökum mönnum. T.d. birtist þátturinn af Jóni bassa i Skinfaxa Ungmennafélags Reykjavíkur 1912. Þegar dagbókinni lýkur, er Þórbergur enn á Akureyri, en vinir hans farnir að tínast suður. – Þetta er ekki svo að skilja, að Íslenskur aðall sé nákvæm, sannferðug frásögn atburða sumarsins 1912, heldur svo, að Þórbergur notaði dagbækur sínar sem hráefni í Íslenskan aðal. Mér sýnist t. d. að þegar hann útmálar hugarangur sitt og ástarsorg í Íslenskum aðli, þá byggi hann það ekki síður á færslum frá 1916, um söknuð sinn eftir aðra persónu, en á færslum í sambandi við Arndísi 1912. Hér er annars ekki rúm til að fara út í ítarlegri samanburð Íslensks aðals og dagbókanna. Vonandi gerir hann einhver þegar út kemur á prenti rækilegt úrval dagbóka Þórbergs, sem þyrfti að gera sem fyrst. En í frásögn sem er efnislega eins, hefur hefur Íslenskur aðall þetta umfram dagbækurnar; líf og skáldskap. Nú eru það í sjálfu sér ekki ný tíðindi að rithöfundur um fimmtugt skáldi vel, þegar hann minnist æskuára sinna. En hitt er merkilegra, að hann skuli þurfa millilið til þess. Íslenskur aðall hefst 15. maí 1912, af því að fimmta dagbókin hófst þann dag, eftir hálfs árs hlé á færslum. Og hún gat orðið uppspretta skáldskapar, fremur en fyrri dagbækur, vegna þess að hún sagði frá sálarástandi höfundar. Þetta staðfestir enn einu sinni, sýnist mér, að góður skáldskapur er ekki gerður beinlínis af reynslu höfundar af persónum og atburðum, heldur taka skáld slíkan efnivið oft unninn að vissu marki, þar sem atburðir eru valdir til sögu, túlkaðir skv. sérstöku viðhorfi - þótt það bindi ekki skáldið um viðhorf Þetta er alkunna um t.d. skáldsögur Halldórs Laxness: sjálfstætt fólk byggist á Höllu og heiðarbýlinu eftir Jón Trausta, Kristnihald undir jökli byggist nokkuð á Ævisögu Árna prófasts eftir Þórberg. Efniviður skáldsagna þarf auðvitað ekki að vera bók, oft er hann almannarómur, nútímaþjóðsögur, stundum eins og slíkt birtist í blöðum. Þannig er a. n. l. háttað um Sölku Völku og Heimsljós, en sú skáldsaga byggist á dagbókum Magnúsar Hj. Magnússonar, svo sem alkunna er. En hitt er athyglisverðara að einnig Þórbergur skyldi þurfa slíkan forunninn efniðvið til að skrifa um ævi sjálfs sín, og hve náið hann fylgir útlínum fyrirmyndarinnar, gamals rits eftir hann sjálfan, þótt skáldritið sem henn semur uppúr því verði eðlisólíkt fyrirmyndinni. Þar dregur lengst háðsk fjarlægð sögumanns frá efninu í Íslenskum aðli, en henni tengist breytingin á stílnum, sem áður var rætt um. Í dagbókum Þórbergs má einnig finna ýmsar færslur sem síðar urðu efniviður í Bréf til Láru; það sem Þórbergur bókaði um samtöl sín við kunningja og vini um trúmál, stjórnmál o. fl. þ. h. (einkum haustið 1922). Margt er þar merkilegt, sem aldrei komst á bók.

Surrealisminn
Og þá kem ég að spurningunni sem fyrst rak mig af stað niður í handritadeild Landsbókasafns. Hvernig stendur á því, að Þórbergur skrifaði Bréf til Láru, m. a. eins og hænn væri bréflegur félagi í hreyfingu surrealista, sem þá var nýorðin til í París. Hvað segir ekki Halldór Laxness, sem þá þegar var náinn félagi Þórbergs, í Sjömeistarasögunni (1978, bls. 102): ”Í nútímabókmenntum hefur Þórbergur Þórðarson verið liðtækastur surrealisti, og þarf ekki vitnanna við um það.” Lítum samt á helstu samkenni. Rit surrealista eru mörg og margvísleg, en Bréf til Láru minnir einna helst á rit aðalleiðtoga þeirra, André Breton, og þá einkum á Surrealíska stefnuskrá, sem birtist sama ár og Bréf til Láru, og á 2. Surrealíska stefnuskrá, sem birtist fimm árum síðar, ennfremur á Nadja eftir Breton 1928, og Bóndann í París eftir Aragon, 1926. Þessi rit eru öll sláandi huglæg, höfundur talar í eigin nafni um ýmis efni; ber fram frásagnir af sér og vinum sínum og rökræðir um ýmis málefni; stjórnmál, og þó einkum menningarmál. Þarna skiptast á gaman og alvara. Öll þessi rit einkennast af áhuga á dulrænum fyrirbærum og dularfullum tilviljunum. Það var nú víðar, en fleira kemur til. Þórbergur og Frakkarnir gera að sönnu greinarmun draums og vöku, en þeim finnst draumar og vitranir fullt eins merkileg og vökuskynjun, segja frá þessu jöfnum höndum. Í stað þess að skrifa skáldsögur, svo sem venjulegt væri, segja þeir allir sannar (meira eða minna) sögur af sjálfum sér (sbr. Bréfið, 29. k.) – og oft mjög opinskáar. Og þessir höfundar hafa líka annan mælikvarða á það hvað sé sögulegt, en viðtekinn er. Þar eru þó Frakkarnir mun sjálfstæðari en Þórbergur, sem var skemmtilegur á viðtekinn hátt og hlaut Bréfið mjög góðar viðtökur, bæði í upplestri (haustið 1924 skv. dagbókinni) og í bókabúðum. Ég held að sjálfstæðari hafi Frakkarnir verið vegna þess að þeir höfðu heilan hóp, 20-30 manns, til að stappa stálinu í hver annan. Og þessvegna ber lítt á sjálfsháði hjá þeim, en það er eitt helsta einkenni Bréfs til Láru, enda vottur um öryggisleysi einstæðingsins, segjum við dólgafreudistar. Loks ber að nefna að Bréfið er miklu fjölbreyttara að efni en tilvitnuð rit frönsku surrealistanna og Þórbergur sýnir þar miklu margbreytilegri stíl en þeir gerðu. Bréf til Láru er auðvitað alveg sjálfstætt sköpunarverk, en mér sýnist það ganga út frá sömu forsendum, stefnu, og rit frönsku surrealistanna: persónuleiki höfundar á að birtast þar í heild, í öllum tilbrigðum sínum.
Þrátt fyrir sjálfstæði Bréfsins er augljóst, að það eru megineinkenni þess sem það á sameiginleg við rit surrealistanna frönsku. En hvernig á að skýra það? Er hugsanlegt að þarna hafi verið beint samband? Sá möguleiki virðist fjarlægur, því fyrsta surrealíska ritið sá dagsins ljós 1919, hreyfing surrealista fer að starfa sjálfstætt (frá dada) árið 1922 og vekur ekki verulega athygli fyrr en um miðjan 3. áratuginn. Nú var Þórbergur raunar í París sumarið 1921, og það meira að segja á alþjóðlegri ráðstefnu um guðspeki (Stefán Einarsson, bls. 20). Áhugi á henni og surrealisma gat mjög vel farið saman, og hvar myndu þá meiri líkur á að heyra um hann en í persónulegu spjalli milli funda? En varla svo snemma, enda bendir ekkert beinlínis til þess í ritum Þórbergs, hvorki stundar hann ósjálfráða skrift, ljóðmyndir þar sem óskyldir hlutir tengjast, né aðra surrealistatækni, sem bent gæti til beinna kynna. Engar heimildir hefi ég fyrir því að hann hafi lesið frönsku.
Samt má telja mjög líklegt að Þórbergur hafi haft allnánar spurnir af ritum surrealista, ekki síðar en vorið 1924. Því þá kom Halldór Laxness heim til Unuhúss, eftir að hafa legið í surrealískum ritum (og Proust) í klaustrinu í Björtudölum (Clairvaux) árið 1923 (Sjömeistarasagan, bls. 97-8). Nú er ekki gott að segja hverju Halldór hefur miðlað íslenskum kunningjum sínum af þeim lestri, en svo mikið er víst, að rit hans sjálfs voru ekki neinn milliliður frönsku surrealistanna og Þórbergs, því rit Halldórs hafa ekki umrædd einkenni til að bera – hvorki Undir Helgahnjúk (prentað sumarið 1924, en samið veturinn 1922-3) né Heiman ég fór (samið s. hl. 1924, sbr. P. Hallberg; Vefarinn I, bls. 167-95). Þegar surrealísk áhrif komu fram hjá Halldóri – í kvæðum og í Vefaranum mikla, 1925-7, þá er það einmitt í formlegum atriðum, sem nefnt var nú síðast í sambandi við surrealistatækni, að ekki gætir hjá Þórbergi. Enda fór hann að semja Bréfið í nóvember 1923, og hafi hann orðið fyrir einhverjum áhrifum frá Frökkum – í gegnum Halldór, þá væri það helst uppörvun til að senda frá sér það sem beinast lá fyrir honum að skapa. Þórbergur skrifar líkt og frönsku surrealistarnir vegna þess að hann hafði farið sömu leið og þeir til skáldskapar: horfið inn í eigin hugarheim. Þessvegna er þetta allt svo huglægt og persónulegt. Nú hafði Þórbergur ekki hópstarfið sér til styrktar, sem var frönskum surrealistum svo mikilvægt. En þess í stað kom þá að nokkru dagbók hans, til að horfa í eigin sálardjúp. Þessari mótun tekur Þórbergur því þegar á árunum 1912-17, þótt hann svo auðvitað þroskist áfram. Nú mun einhver segja að yfirgengilegar ímyndanir Þórbergs beri ekki að skýra með dagbókarfærslum hans á þrítugsaldri, því þær hafi fylgt honum frá bernsku. En um hvaða barn á það ekki við? Ég svara þessu með tilvitnun í Þórberg 1912: ”Það má glæða draumgáfuna og drepa, sem aðrar gáfur.” (Ólíkar persónur, bls. 18). Sjá þó einkum það sem hann segir um þroskað ímyndunarafl í lok 23. k. Bréfsins. Hann hefur búið við ógnir þess ”Árum saman”, en ekki alla tíð! Það er samvitund við heiminn og við möguleika hans.

”Að öðlast sannan skilning á einhverju er að ná samvitund við það, finna til þess sem hluta af sjálfum sér, verða eitt með því. Þessi hæfileiki er sjaldgæfur. En samt er hann undirstaða trúar, lista og vísinda. Sá sem getur ekki ”skipt um ham” í einu andartaki, fundið jafnvel fjarstæðustu firrur hluta af sjálfum sér, - hann er ekki fær um að skapa listir, vísindi nér trúarbrögð” (Bréf til Láru, bls. 93).

Í ljósi þessarar síðustu tilvitnunar skilst betur, að þótt Bréfið beri á köflum fræðilegt yfirbragð, Þórbergur vitni í margar bækur sem hann hefur lesið, þá er það samt ekki unnið af fræðimannlegu hugarfari, eins og Halldór Laxness sýndi fram á, fáeinum mánuðum síðar, í Kaþólsk viðhorf (endurpr. í Og árin líða, 1984). Þær athugasemdir hefur Þórbergur fengið töluvert fyrir útkomu Bréfsins, því dagbók hans sýnir að þeir Halldór voru farnir að deila um trúmál ekki síðar en 15. okt. 1924, og hirti Þórbergur þó ekki um að breyta riti sínu á þessu sviði. Það er af því að hann samdi Bréfið af skáldlegum innblæstri, en ekki fræðimennsku, eins og víða kemur fram. T.d. er það í meira lagi mislitur fénaður, sem henn sæmir heitinu ”jafnaðarmennirnir og bolsivíkarnir” (bls. 110, 27. k.), þar eru bæði stjórnleysingjar, kratar, og gott ef ekki íhaldsmenn í einni bendu, m. a. Annie Besant, Oliver Lodge, Krapotkin fursti, Auguste Comte og Platon!
Við látum hér staðar numið, því ekki var ætlunin að gera ritum Þórbergs skil á þessum vettvangi, heldur það eitt að benda á rauðan þráð nokkurra hinna fyrri. Ég vona að fram hafi komið hvílíkur fengur yrði að útgáfu úrvals dagbóka Þórbergs, sem mér sýnast vera lykill þessara verka. Ennfremur er bráðnauðsynlegt að fara að safna saman bréfum Þórbergs. Ég veit að Landsbókasafn tekur feginshendi við hverju slíku efni, og tryggir örugga varðveislu, og ættu menn að senda því sem fyst a.m.k ljósrit, ef ekki frumrit. Sé eitthvað í slíkum skrifum sem menn vilja ekki láta koma fyrir almenningssjónir nægir að tilkynna safninu það, og er þá tryggt með lögum að slíkar óskir verði virtar.
Ég þakka Margréti Jónsdóttur fyrir að leyfa mér að lesa dagbækurnar, og starfsfólki handritadeildar Landbókasafns fyrir greiðviknina.

Elskan hans Þórbergs (síðari viðbótargrein)
Soffía Auður Birgisdóttir skrifaði nýlega um þetta efni greinina Sannleikurinn hafinn í æðra veldi (Lesbók Mbl. 7.4.2001). Það rekur hún misræmi í hvernig Þórbergur fjallaði um Arndísi Jónsdóttur í bréfum og dagbókarfærslum á árinu 1912, og svo hvernig sagði frá tilfinningum hans til "elskunni hans" í Íslenskum aðli aldarfjórðungi síðar. Soffía segir m.a.:

"Það skiptir kannski ekki höfuðmáli hvaðan þær tilfinningar eru sprottnar sem Þórbergur lýsir í Íslenskum aðli eða hvort þær eru "sannar", aðalatriðið er að þær lúta ákveðnu frásagnarmynstri sem er alþekkt í bókmenntum. Ég fæ ekki betur séð en í verkinu sé Þórbergur á mjög meðvitaðan hátt að skopstæla ákveðna tegund frásagnar: Hina rómantísku ástarsögu - söguna um elskendurna sem ekki var skapað nema að skilja."

Nú er það vissulega rétt hjá Soffíu að litlu skiptir hver efniviðurinn er, miðað við hvað úr honum er gert af skáldinu. En hitt sýnist mér ljóst, að þessi meginþáttur Íslensks aðals, ástarsagan, byggist á dagbókarfærslum Þórbergs, en ekki bara á stöðluðum ástarsögum sem hann skopstælir. Það er af þremur ástæðum. Enda þótt skrif hans frá 1912 séu fáorð um tilfinningar hans til Arndísar, þá eru dagbókarskrif hans í fyrsta lagi ritskoðuð, í öðru lagi gefa þau þó töluvert til kynna um heitar tilfinningar til þessarar konu, og í þriðja lagi, eins og ég sagði 1985, byggist ástarsaga Íslensks aðals ekki síður á dagbókarfærslum Þórbergs um ást hans á annarri persónu.

Ritskoðun
Um fyrsta atriðið - og frjálsræði Þórbergs gagnvart sannleikanum - hefur Þorleifur Hauksson skrifað þarfa samantekt í nýlegu afmælisriti til mín (það liggur á vefsíðu Árnasafns).
Þorleifur segir þar m.a.

"Þó að Þórbergur hafi verið mikill nákvæmnismaður var hann ef til vill ekki fús til að flíka öllum sínum athöfnum og freistingum og ennfremur er þess að gæta að nokkrar innfærslur hafa verið beinlínis skornar eða skafnar burt, svo sem rakin verða dæmi um.
Ef nákvæmlega er rýnt í viðkomandi kafla Ofvitans kemur í ljós að tildragelsið í kirkjugarðinum hefur átt sér stað 12. febrúar árið 1911. Og þá virðist bera vel í veiði fyrir fræðimenn af hinum bíólógíska skóla, því að daginn áður, hinn 11. febrúar, er ný dagbók vígð með hátíðlegum formála eftir alllangt hlé. En þegar flett er áfram blasir þar við fremsta textasíðan afskorin! Fyrsta færsla sem varðveitt er er frá miðvikudeginum 15. febrúar. Þess má líka geta að í færslu 19. febrúar er ekki stafur um ferðir tveggja eftirvæntingarfullra stallbræðra í hænsnaskúrinn nálægt Öskjuhlíð til að búa í haginn fyrir endurtekið gaman. Ýmsar athugasemdir á stangli bera það með sér að Þórbergur hefur ætlast til að dagbækurnar yrðu varðveittar sem opinberar og aðgengilegar heimildir. En ekki um hvaðeina. Eitthvað hefur hann ritað föstudaginn 10. mars 1911 sem síðan var klippt neðan af síðu og heilar tvær þéttritaðar blaðsíður eru skornar burt milli föstudagsins 24. mars og fimmtudagsins 6. apríl."

Geðsveiflur
Sálarástandi sínu á umræddum tíma í Hrútafirði lýsir Þórbergur svo í dagbókinni, að það sé í sífelldum sveiflum milli vongleði og örvæntingar. Slíkar sveiflur verða ekki skýrðar með bágum efnahag, vondu fæði eða rysjóttu veðri. Hann gefur ekki beinlínis skýringar á geðsveiflunum, en ekki eru aðrar líklegri en einmitt þær sem hann gaf í Íslenskum aðli löngu síðar - ástarvon og örvænting yfir eigin aðgerðaleysi í þeim efnum. Enda segir hann í dagbókinni 21. 5. 1912: "Sanna lífsleði virðist mér hvergi að finna, nema hjá lífsstjörnunni björtu, er létti af mér böli og byrðum lífsins á liðnum vetri. En nú skín hún bak við fjöll og firnindi, norður á heimsenda, og það er að eins endurminningin eintóm sem ýmist kætir mig - eða grætir." Einnig segir hann í bréfi 15 .8. 1912: "Eg kunni hag mínum ágætlega vel í Hrútafirði. Reyndar var vinnan sjálf mér jafnþungbær og að undanförnu. En þar brann skærasti bjarmi vona minna, sem létti mér hverja stund og helti ljósgeislum í sál mína. En ljósgeislinn sá er blaktandi skar, sem deyr áður en minnst varir, eða er dáinn nú." (Ljóri sálar minnar, bls. 121).

"Ástvinur minn"
Í grein minni sagði ég m.a. um það sem örvað hafi Þórberg til sjálfsskoðunarinnar sem ber uppi dagbækurnar: "Ást í þvílíkum meinum, að líklegast varð hún hvorki játuð, né um rætt við nokkurn mann, brýst stundum fram í dagbókarfærslum" Ég þorði ekki að orða þetta ítarlegar þá, af ótta við að það gæti hindrað útgáfu dagbókanna. En þær birtust svo á næstu tveimur árum, og í ritdómi um þá fyrri, sagði ég:

"þegar Þórbergur fór um fimmtugt að skrifa um æskuár sín, þá vann hann það upp úr þessum gömlu ritum sínum, en færði saman og skerpti. Þannig er t.d. "Elskan mín" í Íslenskum aðli sköpuð með því að sameina færslur um Arndísi Jónsdóttur 1912 og Tryggva Jónsson 1916.

Þessa kenningu vil ég nú bera undir lesendur. Þórbergur var ráðinn sumrungur að Núpi í Dýrafirði af vini sínum Tryggva Jónssyni. Í ferðadagbók sinni 1916 segir hann m.a. eftir útreiðarferð með Tryggva, 13.8.): "Hittum þar Óskar. Skeggræddum stundarkorn í laut. Þá skildum við. Eg sakna Tryggva alt af sárlega, er eg skil við hann. Eg elska hann." (Ljóri sálar minnar, bls. 227), og 20.8.: "Skildum á túninu hjá Ytrihúsum kl. 9.45 e.h. Eg syrgi hann alt af, er eg sé af honum." (sama rit, bls. 231), 27.8: "Eg fór á fætur kl. 9 1/2 og át. Síðan gekk eg ut og beið ástvinar míns austan undir lambhúsvegg. Hann kom kl. 10 3/4 og gaf mér þrjá vindla. Stundarkorn spjölluðum við saman undir lambhúsveggnum. Síðan löbbuðum við niður undir Lækjartúnið. Eg skeit þar undir gamlan kvíavegg meðan Tryggvi fór heim og sókti handklæði og kleinur og sykur. Átum það og gengum svo suður með á og böðuðum okkur í Berghyl. Eftir það klæddum við okkur og lágum í logni í mosalaut til kl. 4. Hjöluðum við um ýmislegt og var yndi ið mesta. Nú hélt hvor heim til sín og át. Kl. 5.10 labbaði eg niður í holtið norðan megin árinnar, sem rennur hjá Læk. Tryggvi var að ljúka við að koma heim heyi, sem faðir hans átti. Kl. 6 kom hann til mín og kvaðst nú vera að fara út á Skaga. Við kvöddumst ástúðlega við brúna á ánni, gerandi hálft í hvoru ráð fyrir að sjást eigi aftur fyr en í október í haust í Reykjavík. Bað hann mig að útvega sér legubekk að léni eða á leigu og kvaðst leigja herbergi með mér." (s.r. 235),

Hér er dvalist af nákvæmni við hverja samverustund, ólíkt nákvæmar en þegar lýst var samfundum við Arndísi. Og þetta minnir á lýsingu samverustundar með Elskunni í lok kaflans "Í landi staðreyndanna" (Íslenskur aðall, bls. 30), þar sem þau eru ýmist í lautum í túni eða kaffiboði með samræðum, sífellt reynir sögumaður að herða upp hugann, en getur þó aldrei látið ást sína í ljós. Síðar segir í dagbókinni:

5/9: "Skap mitt er mjög þungbúið. Eg sakna sárlega vistarinnar á Núpi, og langar þangað aftur. Sum kveldin þar glitra í endurminningunni. Mér virtust þau að vísu eigi eins hugljúf, þegar eg var þar; en nú finst mér að í þeim hafi verið fólgin in æðsta sæla, sem mér veikri mannkind geti hlotnast á þessari jörð. [auðkennt af E.Ó] Eina huggunin mín nú er að hitta síðar ástvin minn Tryggva Jónsson í Reykjavík í haust. Hér í Dýrafirði hefir mér liðið vel og hér vildi eg dvelja síðar, ef eg færi úr Reykjavík aftur. Þó finst mér það eigi vera beinlínis náttúran, sem dregur mig hingað, þótt hún sé hér víða fögur. Mikið af fegurð sinni fær hún í mínum augum frá ástvini mínum, Tryggva. Og þótt mér finnist nú, að eg sakni sárlega Núps og fólksins þar, þá er eg þó ekki sannfærður um, að eg vildi fara þangað aftur til vistar síðar meir, ef ástvinur minn færi úr firðinum. [...] Ef dregin er bein lína skáhalt yfir fjörðinn frá Þingeyri í Mýrafellið, hér um bil suðaustast, lendir endi þeirrar línu í hlíðina þar sem við Tryggvi sátum fyrsta kveldið, sem eg var á Núpi. Hlíðin grær þar og grösin og hvammarnir í brekkunni geyma minningu okkar, þótt okkur auðnist líklega aldrei framar að sitja þar og skemta okkur. Ó, hve eg vildi sitja þar hjá Tryggva mínum nú." (s.r. bls. 239-40)

Þetta minnir á lýsingu sögumanns Íslensks aðals þegar hann ríður úr Hrútafirði og horfir yfir fjörðinn, "Loks sást ekkert eftir nema hæstu brúnir fjarlægs fjalls. Það var fjallið hennar." Íslenskur aðall, bls. 44).

Lokaorð
Vissulega er nokkuð breytilegt eftir persónum og tímaskeiðum, hvaða tilfinningar orð eins og "elska" og ástvinur" merkja. Vissulega undirrita bæði sr. Matthías Jochumsson og fleiri bréf með ”þinn elskandi vinur” o. fl. þ. u. l. Ég man þó ekki önnur dæmi þess frá fyrstu áratugum 20. aldar, að karlmaður segist elska annan karlmann með viðlíka lýsingum. Þeim mun meiri ástæða er til að halda þessum skrifum Þórbergs á lofti, ég veit ekki af öðru þvílíku á íslensku prenti fyrr, nema Dagbók Ólafs Davíðssonar, sem greinilega var meðvitaður hommi. Þórbergur ætti að hafa verið vel meðvitaður um þær tilfinningar sem hann var að játa sjálfum sér, hann var þá 27 ára, og hafði m. a. verið í nánu sambandi við konur. Og mér finnst uppburðarleysi söguhetju Íslensks aðals skiljanlegra í þessu ljósi, Umhverfið gerði slíkar ástarjátningar nánast óhugsandi, a.m.k. miklu torveldari en ástarjátningar karls til konu. Loks mætti styðja þessa tilgátu með draumi sem Þórbergu skráði 3.6.1912:

"Í nótt dreymdi mig að eg kysti og faðmaði kvinnur tvær er eg þekki. Þótti mér þær láta mjög vel að mér. En þegar til kom varð eg þess vís, að annari kvinnunni hafði vaxið skegg all-mikið. Hún rétti mér höndina, og þótti mér hún vera óvenjulega óhrein, einkum kringum neglurnar. En eigi þótti mér þó mikill skaði að þessu.
Þennan draum ræð eg fyrir vandræðum þeim er í veginn komu með vinnuna í dag." (Ljóri sálar minnar, bls. 107).

Þessi túlkun er í stíl við hefðbundnar íslenskar draumaráðningar, og kynni nútímafólki að detta í hug önnur ráðning. Mér er að sjálfsögðu flest ókunnugt um einkalíf Þórbergs, og ekki skal ég gefa í skyn að hann hafi nokkurntíma verið við karlmann kenndur. Enda er það okkur óviðkomandi, en hitt skiptir máli, hvernig hann vann skáldrit sitt úr eigin dagbókum, sameinaði aðskilda reynslu, umskapaði – og skopstældi. En því er háðið markvisst, að hann hafði sjálfur verið mark þess..

Tilvitnuð rit:
Peter Hallberg: Vefarinn mikli. I. Rvík 1958, 299 bls.
Halldór Laxness: Kaþólsk viðhorf. (bls. 181-241 í: Og árin líða, 1984, 241 bls.
Halldór Laxness: Ungur eg var. Rvík 1976, 243 bls.
Halldór Laxness: Sjömeistarasagan. Rvík 1978, 227 bls.
Sigfús Daðason:formáli að Ólíkar persónur (bls. 9-15).
Sigfús Daðason: Þórbergur Þórðarson. Andvari 1981, bl.s 3-42.
Soffía Auður Birgisdóttir: Sannleikurinn hafinn í æðra veldi.[...] Lesbók
Mbl. 7.4.2001.
Stefán Einarsson: Þórbergur Þórðarson fimmtugur. Rvík 1939, 97 bls.
Þorleifur Hauksson: Saklaus eins og nýfæddur kálfur. Arnarflug [...á vefsíðunni:] www.hum.ku.dk/ami)
Þórbergur Þórðarson: Bréf til Láru. Rvík 1975, 277 bls.
Þórbergur Þórðarson: Íslenskur aðall. Rvík 1971.
Þórbergur Þórðarson: Ljóri sálar minnar. Rvík 1986.
Þórbergur Þórðarson: Ofvitinn. Rvík 1973, 368 bls.
Þórbergur Þórðarson: Ólíkar persónur, Rvík 1976, 258 bls.
Örn Ólafsson: Um dagbækur Þórbergs. Lesbók Mbl. 6./6 1985.
Örn Ólafsson: Elskan hans Þórbergs. Mbl. 21.7. 2001.
Örn Ólafsson: ritdómur um Ljóri sálar minnar. DV 29/11 1986.

(í Lesbók Mbl. 1985+2001)

28.12.2006:
Í góðri bók sinni, Skáldalíf, 2006 ræðir Halldór Guðmundsson ítarlega um dagbækur Þórbergs, án þess að nefna að ég hafði fjallað um þær áður. Er þó sameiginlegt að benda á að "Elskan hans Þórbergs" sé sköpuð úr dagbókarfærslum hans ekki bara um Arnfríði, heldur líka um Tryggva Jónsson, einnig hefur Halldór sömu dæmi og ég hafði tilfært um það (fjallið). Hitt hefur hann ekki vitað, að ég tók myndina af jarðarför Þórbergs, sem hann hefur á bls. 397. Tildrög þess voru, að ég var nýbúinn að eignast nokkuð vandaða myndavél, og með áberandi ljósmyndadellu. Samkennari minn við Hamrahlíð, esperantistinn Árni Böðvarsson kom að máli við mig og sagði að jarðarför Þórbergs yrði næsta morgun í Fossvogi, og spurði hvort ég vildi ekki taka myndir af henni. Mig minnir að hann skilaði þessari bón frá Þorvaldi Þórarinssyni, lögfræðingi Þórbergs, sem vissulega kom í jarðarförina drukkinn, og minnti á fyrirmæli Þórbergs um útför hans, í eftirmála Eddu hans, að hann bannaði allt guðsorð og prest. En ekkjan Margrét hafði þá málamiðlun að fá fornfélaga hans, séra Gunnar Benediktsson, sem löngu var hættur prestskap, til að tala yfir líki Þórbergs inni í kapellunni, og voru þar að auki aðeins systir hennar og Matthías Johannessen, minnir mig. Gunnar var síðan spurður hvað hann hefði sagt yfir Þórbergi, og svaraði að það myndi hann ekki, því hann hefði allan tímann verið að hugsa: "Ekki nefna guð, ekki nefna Jesú".
Nema hvað, þegar kistan var borin út úr kapellunni, beið þar einvalalið Fylkingarinnar undir rauðum fánum og háðsglotti Þorvaldar lögmanns. Síðan var arkað moldartroðninga, illfæru, að tekinni gröf, og kistunni sökkt í hana, meðan sunginn var Internationalinn, að fyrrgreindum fyrirmælum Þórbergs, undir forsöng Birnu Þórðardóttur. Þá hélt mágkona Þórbergs fyrir eyrun, svo sem sést á myndinni.
Tveimur vikum síðar nefndi Árni við mig, að Margrét vildi gjarnan fá þessar myndir mínar. Svo ég fór til hennar að kvöldi í íbúðina að Hringbraut, og tók hún þakksamlega við, en klökknaði ef hún nefndi Þórberg.

Goðsagan um Íslendinga

Í Skírni 2000 á Einar Már Jónsson, háskólakennari í París, grein um þetta efni (“Orð, orð, orð”), þar sem hann víkur að Skírnisgreinum Arnars Guðmundssonar (1995) og Davíðs Loga Sigurðssonar (1997). Meginaðfinnsla Einars er að þeir félagar noti tvíræðni orðsins “goðsaga” (eða “mýta”) til að gera lítið úr viðhorfum annarra. Annarsvegar tákni orðið túlkun á þjóðarsögu, einkum uppruna þjóðar, og þá einkum túlkun sem réttlæti núverandi skipan mála, sérstaklega misrétti. Hinsvegar tákni orðið ranghugmynd, og það séu þeir félagar að gefa í skyn um t.d. hefðbundnar skoðanir um sérstöðu Íslendinga og nauðsyn á sjálfstæði. Í lokin segir Einar (bls.407): “Með því að lauma á þennan hátt hugmyndum að lesendum er verið að skjóta sér undan því sem ætti að vera frumskylda þess sem ritar: að útskýra og rökstyðja kenninguna. Í þessu tilviki felst þetta t.d. í því að gera grein fyrir þvi hvað er óraunveruleg ranghugmynd í því að “tengsl séu milli þjóðar og tungu”.
Ég veit ekki til að nokkur maður efi þau tengsl, og ekki gerði Davið það. Hinsvegar sýndi hann mjög glögglega fram á að Írar eru sérstök þjóð, í eigin augum og annarra, enda þótt þeir á 19. öld hafi glatað sinni sérstöku þjóðtungu og tekið upp tungumál fjendanna. Hér er málflutningur Einars beinlínis hneykslanlegur, en víðar sýnir hann furðulega blindni.

Frakkland
Einar segir (bls. 393-4):
“Hugmynd Roland Barthes um franskt þjóðfélag er sú að þar ráði einhverjir “borgarar” lögum og lofum og hafi gert allar götur síðan 1789. Að vísu mæti þeir ákveðinni andstöðu sem komi frá ”byltingarflokknum” en sú andstaða sé einvörðungu á sviði stjórnmála, því að í “borgaraþjóðfélagi” geti ekki verið nein sjálfstæð “öreigamenning”, þeir sem ekki séu “borgarar” verði að fá allt sitt að láni frá “borgurunum”. Þess vegna geti “borgaraleg” hugmyndafræði gegnsýrt þjóðfélagið án minnstu mótspyrnu, hún geti lagt undir sig leikhús, listir, allt. Stundum séu gerðar uppreisnir gegn þessari hugmyndafræði, það geri framúrstefnumenn í listum og bókmenntum, en þar sem slíkir menn séu jafnan af “borgaralegum” uppruna og ráðist einkum gegn einverjum ytri formum, sé hægur vandinn fyrir “borgarana” að gera slíkar uppreisnir skaðlausar. Í framhaldi af þessu álítur Barthes nú að einkenni þessara “borgara” sé fyrir og fremst að villa á sér heimildir” –að setja sín viðhorf fram sem eitthvað náttúrulegt, sjálfgefið.”
Þess verður nú að geta, að þessi kenning er alls ekki nein uppfinning Roland Barthes, heldur bara klassískur marxismi. Arnar hafði þessa kenningu eftir ítalanum Gramschi. Ríkjandi hugmyndir í stéttskiptu þjóðfélagi eru þær hugmyndir sem réttlæta það, því þarf sigursæla byltingarbaráttu lágstéttarinnar til að frelsa hana frá þessu hugmyndalega forræði yfirstéttarinnar. Með öðrum orðum, í þjóðfélagi þar sem eftirsókn eftir hámarksgróða ræður úrslitum um afkomu fyrirtækja og fólks, þá smitar sá hugsunarháttur yfir á önnur svið, t.d. sem samkeppnisandi. Er það svo óskiljanlegt? Hér er ekki um að ræða samsæri vondra manna gegn alþýðu, heldur einfaldlega þá almennu skammsýni að geta ekki ímyndað sér neitt annað en ríkjandi ástand. Sú skammsýni birtist best í grein Einars sjálfs. En hann heldur áfram (bls. 401):
“Kenning Barthes er ein skýr heild, sem stendur og fellur með einstökum atriðum. Það er því ekki hægt að sópa undir teppi þeim hluta hennar sem er vafasamur eða jafnvel augljóslega fáránlegur, og halda að slíkur frádráttur dugi einn og sér til af fá fram staðgóða fræðikenningu.“
Kenningu Barthes reynir nú Einar að fella á þessu atriði (bls. 401):
“Í augum þeirra sem þekkja franskt menntalíf á sjötta áratugnum, þegar Jean-Paul Sartre var þekktasti rithöfundur og hugsuður landsins, Aragon í hópi vinsælustu skálda og þeir menntamenn sem kölluðu sig “marxista” sennilega fleiri en hinir, er lýsing Barthes á ofurveldi “borgaralegrar” hugmyndafræði og hinni miklu blekkingu sem henni fylgdi gersamlega út í hött.”
Mér blöskrar það hinsvegar, að Einar, sem í aldarþriðjung hefur lifað í nábýli við franska kommúnistaflokkinn, hefur ekki tekið eftir því hve gegnborgaralegur sá flokkur hefur verið alla tíð síðan honum var þröngvað undir stalínismann, um 1930. Þjóðremba, leiðtogadýrkun, stjórnlyndi, og boðun stéttasamvinnu amk. allt frá 1936, í þessum meginatriðum stendur kommúnistaflokkurinn á engan hátt að baki t.d. hægriflokknum gaullistum. Jean-Paul Sartre sagði einhverntíma uppúr seinni heimsstyrjöld að stærsti flokkur Frakklands væri fasistaflokkur, og engum gat blandast hugur um að þar gat hann aðeins átt við kommúnistaflokkinn. En Einar Már talar eins og þessir andstæðu aðiljar hafi myndað órofa fylking vinstri menntamanna sem hafi ríkt í andlegu lífi Frakklands á þessum tíma. Menn geta haft borgaraleg viðhorf, einkum tilfinningalega mótun, enda þótt þeir gagnrýni auðvaldskerfið. Þessi afsönnun Einars felur því lin til jarðar eins og blaut tuska.

Upprunagoðsaga Íslendinga
Einar segir (bls. 400-401) að það stæði í mönnum að benda á eitthvert þjóðfélagsafl sem gæti “haft hag af því að fela söguna um uppruna Íslendinga og breyta henni í “náttúru”. Ónei, það stóð nú ekki mikið í íslenskum kommúnistum árið sem þeir stofnuðu flokk sinn og gáfu í tilefni Alþingishátíðar 1930 út sérhefti tímarits síns: “Minningarhefti Réttar um þúsundáraríki yfirstjetta á Íslandi” Frá þessu segir í bók eftir mig (sem Einar á), Rauðu pennarnir (bls. 85-6). Enn betur kemur þetta fram í 7. k. seinni hluta Sölku Völku frá 1932, í kostulegri fundarlýsingu. Kennarinn hefur ræðu um að Ísland hafi verið numið af höfðingjum sem fremur kusu að flýja óðul sín í Noregi, en þola yfirvald Haralds hárfagra. Þetta er nærtæk túlkun af frásögn fornsagna af þeim litla hluta landnámsmanna sem nafngreindur er. En t.d. dr. Björn fiorsteinsson leiddi rök að því að obbi landnámsmanna hafi verið landlaust alþýðufólk, og virðist það augljóst mál. Hér hefur Einar því goðsögu, sem haldið hefur verið að íslenskum börnum í skólum alla tíð, þessi saga hefur þann augljósa boðskap að Íslendingar séu einstaklingshyggjumenn en ekki félagsverur, vilji hver búa að sínu. Enda heldur kennarinn ræðuna til að koma í veg fyrir stofnun verklýðsfélags, og er æptur niður af því að fundarmenn sjá stjórnmálalegan tilgang goðsögunnar.

Njála
Einar segir (bls. 399) um ástæðu þess að Gunnar sneri aftur í Njálssögu: “Ef orðin “fögur er hlíðin” eru látin merkja “þá dýpstu og og sönnnustu ættjarðarást sem til er” (ummæli Matthíasar Johannessen, tilfærð af Arnari), þá vísar það til tilfinningar sem gera má ráð fyrir að hafi verið, í einni eða annarri mynd, í sögunni upphaflega”.
Þessi ályktun Einars nær ekki nokkurri átt. Vissulega er erfitt að geta sér til um hugsanir persónu í skáldverki, þegar þær eru ekki sagðar berum orðum. En það gera lesendur samt óhjákvæmilega. Nánar tiltekið: fiegar ég var íslenskukennari í Hamrahlíð, vorum við samkennarar að geta okkur til um hvernig ætla mætti að samtímamenn Njáluhöfundar hefðu skilið ákvörðun Gunnars. Okkur þótti líklegasta túlkunin að þarna talaði bóndi, sem ekki vildi láta hrekja sig af bújörð sinni, eða stoltur kappi, sem hirti meira um frægð en langlífi, en það er hugsjón sem oft er sett fram í fornsögunum. Hinsvegar man ég ekki til að hafa séð yfirlýsingar um ættjarðarást í þeim. En eftir að kvæði Jónasar Hallgrímssonar, “Gunnarshólmi” varð alkunna, þá er túlkun þess einráð með Íslendingum,

“því Gunnar vcildi heldur bíða hel
en horfinn vera fósturjarðar ströndum.”

Allir lesendur hljóta nú að kannast við að þessi túlkun þykir nú sjálfsögð, þótt hún sé seint fram komin, kvæðið hefur verið kallað fæðingarvottorð þjóðernisrómantíkurinnar. Þetta er sannkölluð þjóðfélagsleg goðsaga, samkvæmt henni erum við Einar báðir lélegir Íslendingar, þar sem við höfum sest að erlendis, Og Einar er svo gagntekinn af goðsögunni að hann sér hana ekki.

2000

fimmtudagur, 7. desember 2006

Íslenskar bókmenntir á dönsku

1. Fyrstu þýðingar

Það er nokkuð breytilegt hvað átt er við með hugtakinu "íslenskar nú¬tíma¬bókmenntir". En séu þær skilgreindar út frá því hvað eru lifandi bók¬¬menntir á Íslandi núna, þá hefjast þær á önd¬verðri 19. öld. Þar ræður auð¬¬vitað miklu bókmenntaúrval skólanna, Bjarni Thorarensen, og einkum Jón¬as Hallgrímsson eru fyrstu ljóðskáld íslenskra nútímabókmennta, Pilt¬ur og stúlka Jóns Thoroddsen frá 1850 fyrsta skáldsag¬an, síðan koma smá¬sögur Gests Pálssonar og Einars Kvarans á síðustu áratugum ald¬ar¬inn¬ar. Og skáld¬sagnagerð á íslensku hófst „fyrir alvöru“ í byrjun 20. aldar, með Jóni Trausta og Einari Kvaran.
Með tilliti til þessa gegnir mestu furðu hve fljótt og mikið hefur ver¬ið þýtt á dönsku af íslenskum nútímabókmenntum (hér á eftir verða not¬að¬¬ir islenskir bókatitlar, en danskt útgáfuár). Þar vekur mesta athygli og er með ólík¬ind¬um að Þjóðsögur Jóns Árnasonar komu að verulegu leyti út á dönsku sömu ár og á íslensku, 1862-4, í þýðingu Carl Andersen. Einn¬ig er athyglisvert að Piltur og stúlka Jóns Thoroddsen: birtist þeg¬ar á árinu 1874, í danskri þýðingu Kålund, handritavarðar í Árnasafni (und¬¬ir titlinum Indride og Sigrid), raunar var sagan einnig þýdd bæði á ensku, þýsku og hollensku á 19. öld. Einnig voru smásögur íslenskra höf¬unda snemma þýddar á dönsku. Má þar nefna Fire fortællinger eftir Gest Pálsson (1896, þýð. H. Wiehe: Kærleiksheimilið, Sigurður for¬mað¬ur, Tilhugalíf, Vor¬draumur), einnig Einar Kvaran; To fortæl¬linger fra Island, 1900 (smásögur hans Upp og niður og Vonir, ein allra¬besta smásaga Einars, enda kallaði Georg Brandes hana perlu). Furðufljótt voru og skáldsögur hans þýddar. Of¬urefli birtist á íslensku 1908, en á dönsku árið eftir, framhald hennar hét Gull og birtist á íslensku 1911, en á dönsku 1919, það var í þýðingu Gunnars Gunnars¬sonar, en Sögur Rannveigar birtust á dönsku 1923-4 í þýðingu Valtýs Guðmundssonar.
Fyrsta skáldsaga Jóns Trausta, Halla, birtist á íslensku 1905, en á dönsku þegar árið 1909 (í þýðingu Helgu Gad). Framhald sögunnar, Heiðar¬býlið birtist á dönsku 1918, í þýðingu Margarethe Løbner Jørgensen). Hún þýddi líka skáldsögu Jóns, Borgir (Mod strømmen, 1912. Eftir Jónas Jónasson frá Hrafnagili: birtist smá¬sagnasafnið Saga¬mennesker 1912, en hann þótti þá merkt sagnaskáld. Loks má nefna sögu Guðrúnar Lárusdóttur: Á heimleið, Kbh. 1916. Leikritun var varla orðin til á íslensku, þegar farið er að þýða hana á dönsku; þ.e. Sverð og bagall eftir Indriða Einarsson (Kbh. 1901).
Þýðingar á íslenskum trúarkveðskap eru þó fyrr á ferðinni en skáld¬sögur; 1885 birtust trúarleg kvæði eftir 17. aldar skáld, Sigurð Jónsson, Jón Magnús¬son, Guðmund Erlendsson, og Hallgrím Pétursson í Nord¬bo¬ernes Åndsliv... III. bindi. Seinna birtist meira af því tagi í Islands lovsang gennem 1000 år, Kbh. 1923.
Vitaskuld hefur verið miklu erfiðara verk að þýða ljóð þjóð¬skáld¬anna ís¬lensku en sögurnar, en þau fara þó að birtast í byrjun 20. aldar, og er þar fyrst á ferðinni safnið Ny-islandsk lyrik, 1901 (í þýðingu Olaf Hansen). Þar eru kvæði eftir Bjarna Thorarensen, Jónas Hallgrímsson, Jón Thoroddsen, Grím Thoms¬en, Benedikt S. Gröndal, Pál Ólafsson, Matthías Jochumsson, Stein¬grím Thorsteinsson, Hannes Hafstein, Þorstein Erlings¬son. Ennfremur skal nefna: Islands kultur ved århundrede¬skiftet eftir Valtý Guð¬mundss¬on, 1902 (þar eru m.a. ljóð og lausa¬mál eftir sömu skáld. Ennfremur er að nefna Islandsk Renæssance I Hundredaaret for Jónas Hall¬grímssons Fødsel, 1907 (þar eru a.m.k. 8 ljóð Jónasar í þýðingu Olaf Hansen).
Nú voru þessi íslensku ljóðskáld ekki síst kunn fyrir ættjarðarljóð, sem þátt í stjórnmálabaráttu, fyrir aukið sjálfstæði frá Dönum. Og fram¬hald þessara ljóðaþýðinga á dönsku er ekki síst af stjórnmálalegu tilefni. Fullveldi Íslands í árslok 1918 var markað í Danmörku 1919 þannig að þjóðskáld 19. aldar voru myndarlega kynnt með 200 bls. kvæðabók, Udvalgte islandske digte fra det 19. århundrede, í þýðingu Olaf Hansen. Upplagið var 1000 eintök, og verður það að teljast verulegt, hversu skjótt sem það svo hefur selst. Bókinni er skipt í kafla efnislega, og hefur það sjálf¬sagt gert ókunn skáld aðgengilegri Dönum. Fyrst eru 7 ættjarðarljóð, þá söguleg ljóð, árstíðabundin ljóð, „Á hestbaki“, ástaljóð o.fl. Hér birtast mörg helstu kvæði sömu skálda og í safninu frá 1901, um 60 ljóð alls, og inngangur fjallar um skáld¬in.
Að framhaldi ljóðaþýðinga verður hér komið síðar, en þessu fyrsta og glæsilega skeiði þýðinga á íslenskum nútímabókmenntum í Danmörku má annars segja að lokið hafi þegar fullveldið fékkst, því síðan verður minna um þýðingar íslenskra bókmennta. Enda hófu íslenskir höfundar að semja bækur á dönsku nokkrum árum fyrr.

2. Frumsamið á dönsku

Sú bylgja reis með mestum þrótti næstu þrjátíu ár, en hefur gætt amk. fram á síðustu ár, ef ekki enn. Það hefur verið rakið, að þetta þótti ýmsum óþjóðlegt athæfi, en skáldin svöruðu þvi til, að þeim hefði ekki verið nokkur leið að lifa af þvi að skrifa á íslensku, og því hefði aðeins verið um það að ræða að skrifa á dönsku eða skrifa ekki - eða þá að koðna niður við skriftir í stopulum frístundum frá brauðstriti (Helga Kress, bls. 9-10).
Fyrstur varð til hálfþrítugur stúdent í dýralækningum, það var Jóhann Sigurjónsson sem sendi frá sér leikritið Dr. Rung 1905. Það má heita forboði, en ann¬ars fer þetta allt af stað af fullum þrótti á árunum 1911-12. 1911 sendi Jóhann frá sér það leikrit sem gerði hann frægan, Fjalla-Eyvind, en það var leikið við góða aðsókn og jákvæða gagnrýni 1912. Hann samdi leikrit sín bæði á íslensku og dönsku. Síðan komu þau ört, hvert af öðru, Bóndinn á Hrauni 1912; Galdra-Loftur (Ønsket) 1915; Mörður Valgarðs¬son (Løgneren) 1917; loks kom ljóðasafn hans á dönsku, Smaadigte 1920, en Jóhann lést ári áður, aðeins fertugur. Vinur hans Helge Told¬berg skrifaði ævisögu hans (hún birtist í íslenskri þýðingu 1965) og lýsti því m.a., að helstu framámenn í menningarlífi Dana báru Jóhann til graf¬ar. Og ári áður en hann dó var Fjalla-Eyvindur kvik¬myndaður af sænska leikstjóranum Victor Sjöström, ég vænti þess að margir Íslendingar hafi séð þá kvikmynd. En nú er Jóhann löngu gjör¬samlega gleymdur í Danmörku, ég rakst aldrei á nokkurn mann -utan Árnasafns- sem þekkti nafn hans, hvað þá meir.
Þegar hugleitt er hvað gerði Jóhann frægan í Danmörku, og hvað hratt honum síðan í gleymsku, þá hallast ég að því að það sé eitt og sama fyr¬ir¬bærið. Hann fylgdi táknsæisstefnu (symbolisma), öðru nafni nýróm¬ant¬ík, sem þá setti mikinn svip á ljóðagerð, leiklist o.fl. Leikritin eru oft áber¬andi ljóð¬ræn, svo sem Íslendingar mega minnast af Galdra-Lofti. Sama gildir um sum vinsæl¬ustu leik¬¬skáld þessa straums um síðustu alda¬mót, sem eru nú flestum gleymd, t.d. Maeterlink, lengur lifði þetta í írsk¬um leikritum, t.d. hjá J.M. Synge. En auk þess sýnist mér að Jóhann hafi beinlínis gert út á þá hleypidóma sem algengir eru í Evrópu um jaðar¬þjóðir, sömu for¬dóm¬ar ríkja þar um Norðmenn, Skota, Íslendinga, Baska, Sikil¬ey¬inga og Grikki. Þetta á að vera fámált, en traust og hrein¬skiptið fólk með ólgandi ástríður undir hæglátu yfirbragði, þetta er stöðl¬uð hugmynd um "frum¬stæðar" þjóðir, einskonar indjánar Evrópu. Þessi annarleiki eða „exót¬ismi“ er sérlega áberandi í Fjalla-Eyvindi, vinsæl¬asta verki Jóhanns, út¬lagar úr mannlegu samfélagi berjast gegn veðra¬víti auðnar¬innar, þar lenti Halla, af því hún fórnaði öllu fyrir ástina, o.s.frv.
Þetta sama sigurár, 1911, komu fram tvö önnur þeirra íslensku skálda á dönsku sem mest hefur kveðið að. Fyrst er að nefna Jónas Guð¬laugs¬son, sem hafði áður gefið út þrjár ljóðabækur á íslensku. Sú fyrsta, Vorblóm, birtist þegar hann var aðeins 18 ára, og var þokkaleg. Ári síðar birti hann Tvístirni í félagi við Sigurð Sigurðsson frá Arnarholti, sem þótti bera af þar. En 1909 kom svo Dagsbrún Jónasar, verulega góð bók, með sígildum ljóðum. Vonandi er enn fáanlegt úrval ljóða Jón¬as¬ar, sem Hrafn Jökulsson gaf út fyrir fáeinum árum, Bak við hafið. Jónas kvaddi þjóð sína með nokkurri beiskju, í ýmsum ljóðum Dags¬brúnar segir hann hana lítt kunna að meta skáldskap. Þau kvæði bera nokkurn keim af Steingrími Thorsteinssyni, sem Jónas dáði mjög, t.d.:

Þjóðskáldið

Hunangsflugan blóm af blómi
bjartan flaug um sumardag,
hitti fjólu á haugi eina,
henni flutti ástarbrag.

Maðkaflugum fannst það skrítið
að fjólan, þessi tildursmíð,
hlyti söng --- og sögðu reiðar:
Svona ljóð er þjóðarníð!

Jötunuxinn hafði heyrt það.
"Heyrið", sagði 'ann, "annað lag!"
Hóf svo söng um haugsins gæði
helgan feðra-mykjubrag.

Hrifnar allar haugsins flugur
hlustuðu á hans mykjuóð:
Þetta er köllun, þarna er andi.
Þessi kann að yrkja ljóð!

Hvert hans orð er eins og meitlað
út úr vorum mykju-daun,
ættlands prýði, haugsins heiður
hljóttu þökk --- og skáldalaun!

Jónas sigldi síðan til Noregs, og birti þar -á norsku- ljóðabókina Sange fra Nordhavet 1911, hún geymdi m.a. þýðingar á ljóðum úr Dagsbrún. Fljótlega fluttist hann til Danmerkur og gaf þar út frum¬ort¬ari danskar bækur, Viddernes Poesi 1912, og Sange fra de blaa Bjærge 1914. Jónas þýddi líka Frú María Grubbe eftir J.P. Jacobsen, sem þá var mikil tísku¬skáldsaga í Danmörku, og telst enn til öndveg¬is¬verka bók¬mennta¬arfs¬ins. Ekki þótti sú þýðing góð (birtist 1910), og seld¬ist víst svo illa, að útgef¬andinn, Gyldendal vildi ekki meira af svo góðu. En Jónas samdi sjálf¬ur tvær skáld¬sögur á dönsku, Sólrún og biðlar henn¬ar 1913, og Monika 1914, auk þess smásagnasafnið Breið¬firð¬ingar 1915. Þetta var mikil vel¬gengni hjá erlendum höfundi. Sólrún er eins og titillinn bendir til, bor¬in uppi af átökum ástarþríhyrnings. Persón¬ur eru sam¬kvæmt fyrr¬nefndri forskrift um ólgandi ástríður undir fálátu yfir¬borði, enda eru Íslend¬ingasögurnar í bakgrunni, einkum Laxdæla, og þær eru áberandi fyrir¬mynd stíls. Þessi danski texti ber auk þess svo mik¬ið svipmót íslensku, að það getur naumast stafað af lélegri dönsku¬kunn¬áttu, heldur er það augljóslega liður í samræmdri skáld¬skaparstefnu, að bera fram "þetta villta, íslenska". Töluvert er og um gamla íslenska þjóð¬hætti og þjóðtrú. Sögumaður er alvitur og sínálægur, tekur afstöðu fyrir hönd lesenda, eins og títt er í skemmtisögum, og er bók¬menntagildi Sól¬rúnar ekki áberandi - nema í nátt¬úrulýsingum, sem eru fyrir¬ferðar¬mikl¬ar, ljóðrænar og fallegar. Sú bók birtist ásamt Breiðfirðingum fljót¬lega á íslensku (í þýðingu Guðmundar Hagalín), enda þótti Jónas með efni¬leg¬ustu íslenskum skáldum, þegar hann lést úr berkl¬um á Skagen, aðeins 29 gamall. Þýsk kona hans hafði orðið að flytj¬ast til foreldra sinna vegna fátæktar þeirra, en þau áttu einn son, sá hét Sturla, og varð síðar atkvæða¬mikill listfræðingur í Hollandi, starfaði þar við listasafn, en lést fyrir tveimur áratugum. Nú er Jónas löngu gjör¬sam¬lega gleymdur Dön¬um, jafnvel gröf hans var af¬máð fyrir hálfri öld.


3. Gunnar Gunnarsson.

Langfrægastur og afkastamestur íslenskra rithöfunda sem skrifuðu á dönsku, Gunnar Gunn¬arsson, kom einnig fram 1911 með ljóðabók sem litla athygli vakti. En árið eftir birtist fyrsta bindi af Sögu Borgar¬ætt¬ar¬innar, en hin komu á næstu tveimur árum. Og þetta verk gerði hann frægan, enda prentað a.m.k. sjö sinnum síðan, fyrir utan allar þýðingar og kvikmyndun. Næsta aldarfjórðung kom frá honum skáldsaga nánast árlega, fyrir utan leikrit, smásögur og annað. Og á árunum milli stríða var Gunnar svo áberandi í dönskum blöðum og tímaritum að því verður ekki líkt "við neitt nema þá stöðu sem stjörnugengi nútímans hefur." (Sveinn Skorri Höskuldsson í Tímariti máls og menningar 1988, bls. 411). Hér er ekki hægt að fjalla um rit hans, það hafa ýmsir gert og von er á meiru. Danski rithöfundurinn Otto Gelsted skrifaði litla bók um hann þegar árið 1926, Svíinn Stellan Arvidson skrifaði ævisögu hans 1959, Sigurjón Björnsson gerði sálfræðilega úttekt á upphafi skáldskapar hans 1964, og Matthías Sæmundsson fjallaði um tilvistarleg viðhorf í sögum Gunnars í Mynd nútímamannsins, 1982, svo fátt eitt sé nefnt. Eins og svo mörg¬um öðrum finnst mér alltaf mest til um Fjallkirkjuna, eitt helsta verk íslenskra bókmennta á 20. öld. Halldór Laxness skrifaði um hana 1930 (en þýddi Fjallkirkjuna hálf¬um öðrum áratug síðar). Þetta er ein merk¬asta grein Halldórs (og er þá mikið sagt!) því í þessari úttekt á ritferli Gunnars leggur Halldór línurnar að sínum eigin, sem umskapaðist einmitt þá. Halldór segir m.a.(bls. 276-8):

að eftir hinn "meiningarlausa rómantíska húmanisma Borgar¬ættar¬innar” kom syrpa sagna, Strönd lífsins, Vargur í véum, Drengurinn, Sælir eru einfaldir og Dýrið með dýrðarljómann, með lífspeki sem er "órjúfanlega bundin veruleik hrjóstrugra fjalla, miskunnarlítils hafs, illmannlegs guðsorðs, snævar "sem sáldrast niður" og skipa sem brotna. Blær ímyndurnaraflsins í þessari bók er í fylsta sam¬ræmi við skaplyndi höfuðskepnanna á strönd þar sem ódræp kyn¬kvísl stendur öld fram af öld berskjölduð gagnvart því, sem hún kall¬ar guð, en táknar í hagnýtu máli slæmt tíðarfar, gæftaleysi, sam¬göngubann, lélegan heyskap, afleita verslun, Jónsbók, ritning¬ar¬grein¬ar, vond húsakynni og yfirvofandi slysfarir".
Halldór leggur síðan (bls. 283-7) áherslu á fernskonar nýmæli í Fjallkirkjunni miðað við fyrri bækur Gunnars:
1. Gunnar hefur snúið bakinu við viðfangsefnum sem "fyrir sjónum nútímans eru í eðli sínu frekast blaða¬fréttaleg, lagt á hilluna hin geðshrærandi (sensasjónölu), voveiflegu og frábrugðnu atvik lífsins og snúið sér að lífinu sjálfu eins og það birtist sterk¬ast og auðugast í sinni fjölskrúðugu en æfintýralausu dýpt hvers¬dags¬leikans“. Í öðru lagi „hefur hann kastað á hauginn öllum spekinga-vangaveltum yfir lífi og tilveru [...] Í þriðja lagi liggja framfarirnar í því, að nú er Gunnar hættur að lýsa borgarastétt og stór¬bændum [...] og hefur tek¬ist á hendur að lýsa ör¬eigastéttinni, sem hann er vaxinn upp úr" og innlifaður, og því verði persónurnar ólíkt meira lifandi. Í fjórða lagi hafi stílsnilld Gunnars nú magnast svo að minni á höfuð¬verk franskra bókmennta á þessari öld, Í leit að horfinni tíð eftir Marcel Proust.

Þetta síðasta geta hátt¬virtir lesendur sjálfir kannað, því nú er upphaf rits Proust að birtast í þýðingu Péturs Gunnarssonar. Halldóri finnst að vísu nærtækara að líta til Gorki, Reymont, Panait Istrati og einkum þó Knut Hamsun. En ég verð að segja það að Proust sækir sérstaklega á hugann, þegar Fjallkirkjunnar er minnst. Mikilvægustu samkennin eru þau, að fullorðinn sögumaður minnist bernsku sinnar og uppvaxtar fram á manndómsár -á þann hátt, að bera sí¬fellt forna endurminningu saman við nýja reynslu, listin rís upp af þeim samanburði sálarlífs. Fullorðinn sögu¬maðurinn hefur mikla fjarlægð frá reynslu bernskunnar, og það birt¬ist þegar í ógnarlöngum og flóknum málsgreinum, sem hefjast á röð auka¬setn¬inga í báðum verkum. Spurningin er hvort Gunnar hafi getað þekkt verk Proust þegar hann samdi Fjallkirkjuna. Hún birtist á dönsku á ár¬unum 1923-8, en verk Proust fór að birtast á frönsku áratug fyrr, kom út 1913-27. Gunnar las víst ekki bókmenntir sér til gagns á frönsku, en átti Proust á ensku í útgáfu frá 1930, að sögn Frans¬isku, sonardóttur hans. Fyrst mun verk Proust hafa birst á ensku frá árinu 1922 að telja, en á þýsku 1926. Mun síðar birtist það á norðurlandamálum, fyrst á dönsku 1932-8. Eftir Fjallkirkjuna fer mest fyrir sögulegum skáldsögum hjá Gunnari.
Kristmann Guðmundsson fór í fótspor Gunnars um miðjan 3. áratug¬inn, en hafði vit á að gera það í öðru landi, Noregi. Hann varð einhver mesti metsölu¬höf¬undur íslenskur, fyrr og síðar, bækur hans þýddar á fjölmörg tungumál, og yfirleitt umsvifalítið á dönsku. En Kristmann tók svo sömu örlagaríku ákvörðun og Gunnar, og á sama tíma, í lok fjórða ára¬tugsins, að flytjast heim til Íslands. Auðvitað gátu þeir ekki vitað fyrir, að nú hæfist heims¬styrjöld, sem myndi einangra þá frá fyrri útgef¬end¬um og lesendum næstu sex árin. En þetta reið alþjóðlegum höfund¬ar¬ferli Krist¬manns að fullu. Hann hélt áfram að skrifa á íslensku næsta ald¬ar¬þriðj¬ung¬inn, en sáralítið var nú gefið út erlendis, og ekki á upphaflegu ritmáli hans, norsku. Gunnar hélst betur við á dönsku, á því máli birtust skjót¬lega síðustu bækur sem hann frumsamdi á íslensku, Sálumessa 1953 og Brim¬henda, 1955. En síðasta endur¬útgáfa bókar eftir Gunnar sem ég hefi séð, er frá 1967. Heyrt hefi ég að bækur hans, einkum Saga Borg¬arættarinnar hafi enn fyrir þrjátíu árum verið algeng fermingargjöf. En nú segja mér danskir fornbókasalar, að þeir kaupi ekki bækur hans nema þær berist í heilum dánarbúum, en þá fari þær beint út í tilboðs¬kassann „allt fyrir tíkall“, enda seljist þær ekki. Stærstu forn¬bóka¬versl¬an¬ir hafa þær þó á venjulegu verði skáldsagna fyrri áratuga, 60-100 da. kr. -Við þessu er ekki annað að segja, að slíkt bitnar á fleirum en Gunn¬ari, þegar innfæddir öndvegishöfundar eins og H.C. Branner (1903-1966) virðast horfn¬ir af bóka¬mark¬aðinum, en skelfilegasta rusl selst vel.

4. Kamban og lok.
Guðmundur Kamban kom í humáttina á eftir Jóhanni og Gunnari, samdi verk sín yfirleitt bæði á dönsku og íslensku, og lagði sig einkum eftir leikritagerð framanaf, Hadda Padda, 1914; Kon¬ungs¬glíman 1915; Marmari 1918; Vér morðingjar 1920; Hin ara¬bísku tjöldin, 1921, Öræfastjörnur 1925 og nokkur síðar. Móttökur voru með ýmsu móti, stundum mjög jákvæðar. Samt fluttist hann til Ameríku haustið 1915, ætlaði að gerast rithöfundur á máli þarlendra. En það gekk ekki, svo hann tók aftur upp þráðinn í Danmörku tveimur árum síðar og varð afkastamikill höfundur, má ennfremur nefna skáldsögunar Ragnar Finnsson 1922, Skálholt, 1930-32, Þrítugasta kynslóðin 1933, og 1941 gamanleikina Vöf (Komplekser) og Stórlæti (Grandezza)).
Helga Kress segir í bók sinni um Guðmund Kamban m. a. (bls. 14-16):

"Öll eiga fyrstu verk þessara fjög¬urra íslensku rithöfunda [sem skrifuðu á dönsku] það sam¬eiginlegt að vera samin undir áhrifum nýrómantíkur. Þau ger¬ast í íslensku umhverfi og fjalla um ást og aftur ást, grimm örlög og átök upp á líf og dauða í hrikalegri nátt¬úru íslenskra fjalla og auðna með íslenska þjóðtrú og sveitasiði að baksviði. Stíllinn er ljóðrænn, oft þrunginn skáldlegum líkingum. [...En] Kamban snögg¬breytir um stefnu eftir tvö fyrstu verk sín með íslensku efni. Hann vill útrýma þeirri skoðun, að á Íslandi sé allt eins og í forn¬sög¬un¬um. Hann vill láta taka mark á sér án nokk¬urrar viðmiðunar við Ísland, og því velur hann næstu verkum sín¬um alþjóðleg við¬fangs¬efni og markar þeim stað í stærstu borg heimsins."

Eins og fullveldi Íslands áður, þannig var nú og lýðveldisstofnuninni fagnað 1944 með danskri útgáfu á kvæðum íslensku þjóðskáldanna, það var Hvide falke, þýðingar Guðmundar Kamban á 45 kvæðum; eftir Hallgrím Pétursson, Bjarna Thorarensen, Jónas Hallgrímsson, Grím Thoms¬en, Steingrím Thorsteinsson, Matthías Jochumsson, Stephan G., Þorstein Erlingsson, Hannes Hafstein, Einar Benediktsson, auk eins kvæðis eftir Guðmund sjálfan. Það sem ég hefi skoðað, er þetta afarvel þýtt, þótt þýðandinn gefist stundum upp, svosem gagnvart hinu magnaða næststíðasta er¬indi í „Kvöld í Róm“ Einars Benediktssonar. Stundum end¬urþýðir Guð¬mund¬ur kvæði sem Olaf Hansen hafði áður þýtt, og virð¬ast mér þýðingar Hansen þó síst verri.
Einhversstaðar að hefi ég þá sögu, að þessar þýðingar hafi kostað Guðmund lífið. Því hann las þær upp í danska útvarpinu, og sótti greiðslu fyrir á stað sem andspyrnu¬hreyfingin taldi leynilögreglu nasista nota til að borga njósnurum sínum. Raunar reyndi Guðmundur víst líka að beita hernáms¬stjór¬anum þýska fyrir sig til að fá vinnu sem leikstjóri á Konung¬lega leik¬hús¬inu, en leikhússtjórinn stóðst þrýstinginn (sagði mér Sveinn Skorri Höskuldsson, 1994). Guðmundur var skotinn af andspyrnumanni á sjálf¬an frelsunardaginn, af því að hann neitaði að gangast undir hand¬töku. En hvað sem öllu þessu líður, þá hefur nasistaorðið svo oft verið þvegið af Kamban, að vart er á bætandi. Ég verð bara að segja, að verk hans af¬sanna það orð gjör¬samlega. Þau eru vissulega þrungin boðskap, afstöðu til sam¬félagsins, og það úreldir þau nú. En hún var ótvírætt vinstrisinnuð á þeim tíma, og frjáls¬lynd, sérlega áberandi er að þau taka afstöðu með kvenréttindum, og gegn frelsisskerðingum. Í Íslenskri bókmenntasögu IV (2006) er fjallað um verk Kambans og þar segir m.a. (bls. 298):

Kamban gerðist aldrei formlega félagi í neinum félagsskap danskra nasista en á næstu árum skrifaði hann nokkrar greinar í dönsk blöð þar sem hann heldur fram sjónarmiðum sem fóru í flestum atriðum saman við stefnu nasista. Þannig var hann sannfærður um gildi nauðungarvinnu (sjá hér að framan þar sem hann lofar fordæmi Þjóðverja í þeim efnum, þá hrósar hann Göbbels fyrir að banna bókmenntagagrýni (Berlignske Tidende 16. Des. 19366) og hvetur önnur lönd til að taka það upp eftir ÞJóðverjum, hann lýsir aðdáun sinni á einum helsta áróðurshöfundi Þriðja ríkisins, Hans Grimm. Þá má víða í geinum Kambans finna orðanotkun sem vísar í áróður nasista, danska orðið “leverum” fyrir “Lebensraum” og annað álíka.

Ja, ekki er það allt fallegt. En nasistar voru ekki frumlegir hugsuðir, og allt þetta var algengt meðal íhaldssams fólks, t.d. trú á þegnskylduvinnu, og jafnvel það sem verrra var, mjög útbreidd var trú á mismunandi lundarfar mismunandi “kynþátta” mannkyns, einkum gyðinga. Mig minnir að jafnvel Halldór Laxness hafi haldið slíku fram á 3. áratug aldarinnar. Hvað sem Kamban hefur skrifað í blaðagreinum, ítreka ég að hneigð bókmenntaverka hans var það sem nú er kallað menningarróttækni, gagnrýni á hefðbundin viðhorf í nafni frjálslyndis.
Fyrstu tveir íslensku rithöfundarnir sem skrifuðu á dönsku, Jóhann Sig¬urjónsson og Jónas Guðlaugsson, létust sem sagt á öðrum áratug aldar¬inn¬ar, en hinir virkustu og frægustu hurfu með seinni heimsstyrjöld, Guð¬mundur Kamban sem eitt síðasta fórnarlamb stríðsins, en Gunnar Gunnarsson hætti að skrifa á dönsku fyrir stríð. Það gerðu fleiri Íslend¬ing¬ar sem skrifað höfðu á dönsku; Friðrik Brekkan sem gefið hafði út þrjár bækur á árunum 1923-6, og Jón Björnsson sem sent hafði frá sér fjórar skáldsögur á árunum 1942-46. Auk þeirra má telja Þórð Tómasson sem ég veit engin deili á, en hann gaf út a.m.k. fimm bækur á árunum 1922-31, allar mjög kristilegar af titlum að dæma. Tryggvi Sveinbjörns¬son fékk eitt leikrit birt, Regnen, 1926. Karl Einarsson (Dunganon) sendi frá sér ljóðabækurnar Vartegn 1931 og Enemod 1935, og svo hina frægu Corda atlantica 1962, en sú bók geymir ljóð á mörgum tungumálum; dönsku, sænsku, ís¬lensku, færeysku, ensku, frönsku, þýsku, ítölsku, spænsku, latínu, rúss¬nesku, finnsku, hebresku, kínversku, hindústaní og maorí, auk þess á einni mállýsku tungumáls hins sokkna lands Atlantis. Bjarni M. Gíslason sendi frá sér þrjú skáldverk á árunum 1939-51, og hefur sagan Gullnar töflur birst á íslensku. Þorsteinn Stef¬ánsson þýddi smásögur Friðjóns bróður síns 1949, en sendi sjálfur frá sér skáldsöguna Dalinn 1942, og aftur aukna 1958, hún hefur birst á ís¬lensku eins og fríljóða¬bálkar hans Þú sem komst, þeir birtust á dönsku 1979-80, en á íslensku fyrir fáeinum árum. Fleira mætti telja, en hér verður sérstak¬lega að nefna að hann hefur þýtt ýmis íslensk skáldverk á dönsku, en kona hans Birgitte Høvring gefið út. Að því komum við fljótlega, en loks er að nefna Ragnhildi Ólafsdóttur (nýlega látna) , sem gaf út amk. þrjár bækur, Forfald 1974, Audur, 1977 og Melkorka 1992, en í þeirri bók voru sögur jöfnu báðu á dönsku og íslensku. Flestir þessi¬r höfundar gefa út bækur á dönsku á svo skömmu tímaskeiði, að það vekur grunsemd¬ir um lítið gengi. Þann¬ig fjaraði þessi bók¬mennta¬starf¬semi hægt út, eftir að seinni heims¬styrjöld gekk að mestu frá henni.


5. Laxness þýddur og ljóð

Á millistríðsárunum virðist nokkuð tilviljanakennt hvað þýtt er úr íslensku, með einni undantekningu. Við rekumst á eina bók eftir Guð¬mund Friðjónsson, sem þá var áberandi höfundur á Íslandi, þ.e. smá¬sagna¬safnið Sólhvörf: (Solhverv og andre fortællinger) 1927. En nú ber mest á því, að farið er að birta verk Halldórs Laxness á dönsku, fyrst 1934, og eftirfarandi hálfa öld koma nær allar bækur hans út á því máli, skömmu eftir að þær birtust á íslensku. Gunnar Gunnarsson varð fyrstur til að þýða bók .eftir Halldór á dönsku, en það var Salka Valka. Raunar er skondið að sjá hverju Gunnar sleppti við þýðinguna, en það er nær upphafi sögunnar, hugs¬an¬ir kýrinnar, þegar hún sér Sölku Völku (í lok 6. kafla),

"Kýrin [...] hætti að sleikja gömlu konuna og fór aftur að gjóta aug¬unum til Sölku Völku, því hún var að hugsa um það hve gaman væri ef nú væri kominn gróandi, og hún komin út á víðan völl, og þar skyldi þessa stelpu bera að af hendíngu: þá mundi nú vera gam¬an að hlaupa hana uppi og reka í hana krúnuna og þeyta henni svo¬sem fjóra fimm faðma útí loftið. Seinast gat hún ekki orða bundist yfir þessum draumi og sagði með sinni lundstirðu djúprödd eitt¬hvað á þá leið að sú litla skyldi bara bíða við til vorsins."

Þetta hefur Gunnari líklega þótt of langt gengið frá allri raunsæis¬hefð, nema forlagsstjórum hafi blöskrað. En þetta er fyrirboði þess hvernig Sölku er síðar tekið af krökk¬un¬um í þorpinu, og forboði annarra áfalla hennar þar, og fer að mínu mati vel á því að hafa það í þessu fárán¬lega spaugi, fjarri allri viðkvæmni.
Jakob Benediktsson þýddi svo bækur Halldórs næsta aldarfjórð¬ung¬inn, frá og með Sjálfstæðu fólki, sem birtist á dönsku þegar á árunum 1935-6. Síðar tóku við Helgi Jónsson og Erik Sønderholm. Það er ekki aðeins að magni sem Halldór Laxness yfirgnæfði alla íslenska höfunda í Danmörku þessa áratugi. Margvottaðar eru vinsældir bóka hans og hve virtur og áhrifaríkur höfundur hann var, einnig þar. Skáldsögur hans hrifu helsta bókmenntafólk Dana, en ritgerðir hans og ferðabækur líka, ekki síst Gerska ævintýrið, 1939. Þótt ótrúlegt megi virðast, þá eru vitn¬is¬burðir um að einnig í Danmörku var Halldór áhrifamesti málssvari Stal¬íns, mun fremur en þeir virtu rit¬höfundar sem danski kommúnista¬flokk¬urinn átti á að skipa; Hans Scherfig, Hans Kirk og fleiri. Uppgjör Hall¬¬dórs við stalín¬ismann, Skáldatími, birtist svo líka á dönsku - og á fleiri mál¬um - ári eftir útkomu á íslensku, og var endurprentuð hvað eftir annað.
Líklega hafa þeir Halldór, Gunnar, Kristmann og Kamban þótt full¬nægja þörfum dansks bókamarkaðs fyrir íslenskar bækur á árunum milli stríða. Aðrir íslenskir höfundar virðast ekki hafa birst á dönsku fyrr en eftir seinni heimsstyrjöld. Sjálfsagt var lýðveldisstofnunin tilefni þess að út kom þýtt smásagnasafn 1945; Islandske noveller. Þar eru sögur eftir Einar Kvaran, Jón Trausta, Þorgils Gjallandi, Guðmund Frið¬jóns¬son, Gunnar Gunnars¬son, Guðmund Hagalín, Halldór Laxness og Hall¬dór Stefánsson.
Einnig áratugina eftir seinni heimsstyrjöld birtist fátt íslenskra bóka, fyrir utan verk Halldórs Laxness. Eftir Guðmund Hagalín birtist Móðir Ísland 1947, eftir Guðmund Daníelsson Á bökkum bolafljóts 1949, en tvær síðar, Húsið 1966 og Sonur minn Sinfjötli 1968. Íslenskur aðall Þórbergs birtist 1955 undir titlinum Undervejs til min elskede, annað hefur ekki komið eftir hann. Einna heimsfrægastur allra íslenskra rithöfunda og sá sem á flest mál hefur verið þýddur, bjó lengst ævi sinnar í Danmörku, en skrifaði víst bækur sínar á þýsku. En svo er að sjá sem einungis ein bóka hans hafi birst á dönsku, þ.e. sú fyrsta, undir titlinum Nonnis store rejse, 1959.

Íslensk nútímaljóð
Eftir fyrrnefnt ljóðasafn Guðmundar Kamban, Hvide falke, kom langt hlé á þýðingum ís¬lenskra ljóða, en síðan kom mjög myndarlegt framtak, þegar Poul P. M. Pedersen sendi frá sér fimm binda safn. Fyrst kom úrval ljóða Steins Steinars 1964 (rúmlega 80 kvæði, þ.á m. allt Tíminn og vatnið), Hannesar Péturssonar 1966 (rúmlega 60 kvæði úr þremur fyrstu bókunum), Matthíasar Johannessen 1968 (um 100 kvæði úr fjórum fyrstu bókunum), Jóhannesar úr Kötlum 1975 (120 kvæði úr 4 síðustu bókunum), og loks kom fimmta bindið 1982, rúmlega 300 bls. úrval ljóða 28 skálda frá 20. öld. Fyrstir fara þar Davíð Stefánsson og Jón Helgason, en hér er einnig tekið úr fyrri bindun¬um fjórum, auk þess eru ljóð eftir Einar Ólaf Sveins¬son, Tómas Guðmundsson, Kristmann Guðmundsson, Þórodd Guð¬mundsson, Guð¬mund Böðvarsson, Þorgeir Sveinbjarnarson, Snorra Hjart¬arson, Grétu Sigfússdótttur, Jón úr Vör, Ólaf Jóhann Sigurðsson, Stefán Hörð, Unni Eir¬íksdóttur, Hannes Sigfúss¬son (upphaf og lok Dymbilvöku), Helga Sæm¬unds¬son, Sigurð A. Magnús¬son, Sigfús Daðason, Ingimar Er¬lend Sig¬urðs¬son, Þuríði Guðmunds¬dóttur, Nínu Björk, Þóru Jóns¬dótt¬ur. Það er merkilegt hve vel þýðandinn hefur fylgst með, þarna eru m.a. ljóð eftir skáld sem nýlega höfðu komið fram, Vilmund Gylfason og Elísabetu Þor¬geirs¬dóttur.
Þýðandinn leggur sig fram um að skila hrynjandi og rímskipan frumtextans. Þá verður stundum eitthvað undan að láta, og það er stíllinn, orða¬¬val er á stundum langt frá því eins hnitmiðað og í frumtexta. Og stundum hef¬ur þýð¬andi hreinlega misskilið frumtextann, þessi miklu af¬köst hans bera því miður vott um skort á vandvirkni, og ekki hafa út¬gef¬endur gætt þess að láta kunnáttumenn fara yfir. Ég trúi því alveg þeirri sögu sem Erik Skyum Nielsen sagði, að þýðandinn hafi sést flýja út úr skrifstofu Jóns Helga¬sonar, sem kom á eftir, glórauður í framan, og gott ef ekki með pappírshníf á lofti, öskrandi: „Ef þér dirfist að þýða aftur ljóð eftir mig, þá myrði ég yður!“ Glæsilegt, að halda þéringum í slíkum æsingi. En vissu¬lega er margt vel gert í þessum þýðingum, sem fylgt er eftir með skýringum og formálsorðum um ljóðskáldin. Að öllu saman¬lögðu er mjög mikill fengur í þessu, og þótt alltaf megi ýmislegs sakna, þá hefur á dönsku birst óvenjumikil og rækileg kynning á íslenkum ljóðum 19. og 20. aldar. Umfangsmeiri eru líklega aðeins norskar þýð¬ingar Ivars Orglands, en þær eru a.m.k. stundum á svo persónulegri ný¬norsku, að norskir kunningjar mínir gátu ekki skilið („Island farsælde fron og hagsælde rimkvite moder“). Ekki hefur mikið birst af íslenskum ljóðum síðan á dönsku, það er svolítið í tíma¬ritum, einkum í ljóða¬tíma¬rit¬inu Hvedekorn 1985. Þar má nefna þýðingar Erik Skyum-Nielsen á ljóðum eftir Stein¬unni Sigurðar¬dóttur og heilli (stuttri) ljóðabók eftir Sjón: Oh... Sérstakar ljóðabækur eftir einstök skáld verða nefndar síðar.


6. Þýddar barnabækur og Bókmenntaverðlaun Norður¬landaráðs
Þorsteinn Stefánsson sem fyrr var nefndur lét ekki sitja við að frum¬semja bækur á dönsku, hann þýddi líka mikið af íslensku. Það voru öðru fremur barnabækur og birtust mikið á hálfum áratug. Eftir Ármann Kr. Einarsson kom Týnda flugvélin 1961, Niður um strompinn 1976; Víkingaferð til Surtseyjar, 1979; Goggur vinur minn, 1981. Eftir Stefán Jónsson birtist Óli frá Skuld, 1974 og Pési 1977, eftir Stefán Júlíusson: Kári litli í sveit, 1976; Kári litli og Lappi 1979; Kári litli í skólanum, 1980; Sólarhringur,1982. Eftir Guðrúnu Jacobsen kom smásagnasafn: Den lille mester 1977. Fjölbreyttara var val bóka eftir Ólaf Jóhann Sigurðs¬son: Um sumarkvöld (Islandske drenge) 1975; Bréf séra Böðvars 1976, Litbrigði jarðar 1977, Glerbrotið 1977, Hreiðrið 1978. Annarsstaðar birtust svo bækur Guðrúnar Helgadóttur: Jón Oddur og Jón Bjarni, 1977, Ástarsaga úr fjöllunum í þýðingu Helle Degnbol 1982; Meira af Jóni Oddi og Jóni Bjarna, (þýðandi Berliner) 1985. Hér verður og að telja Pelastikk Guðlaugs Arasonar, 1982, og Hundrað ára afmælið eftir Þráin Bertelsson 1985, .
Í Árósum hófst einnig útgáfa íslenskra bóka fyrir aldarfjórðungi; þar má nefna Fljótt, fljótt sagði fuglinn, eftir Thor Vilhjálmsson hjá Grevas forlag í Árósum 1971. (Síðar birtist sú bók á sænsku og norsku, og hlutar hennar á ensku, þýsku og frönsku). Ég hefi komist í bréf frá þessum útgef¬anda, 29. okt. 1975, en hann hafði þá gefið út sex íslenskar bækur. Niðjamálaráðuneyti Njarðar Njarðvík (1970) og Ljóð Bjarna M. Gísla¬sonar (1971) voru þá uppseldar hjá forlaginu. Auk þessa gaf það út 1974 Sumar í Selavík eftir Kristmann Guðmundsson, og 1975 Ár¬mann og Vildís eftir sama (undir titlinum Ild og aske) og Yfir¬valdið eftir Þorgeir Þorgeirsson. Þrátt fyrir jákvæða rit¬dóma hafði hvor þessara síð¬asttöldu bóka selst í aðeins 100 eintökum, og Innkaupamiðstöð bóka¬safnanna hafði ekki svarað tilboðum. Bréfritari sagði reynslu af því, að auglýsingar skiluðu litlum árangri, en vænti sér meira af jákvæðu umtali í tímaritum Íslandsvina svosem Nyt fra Island.
Þess er auðvitað að gæta, að mikil sala segir ekki allt um áhrif bóka. Flestar söluhæstar bækur kaupir fólk einmitt í þeirri von að þær breyti engu, les þær til að fá heimsmynd sína staðfesta, sér til hugarhægðar. Hinsvegar sögðu mér danskir stúdentar, að Tangasögur Guðbergs Bergs¬sonar, sem birtust á dönsku skömmu eftir að þær komu út á íslensku (Það sefur í djúpinu, Það rís úr djúpinu, Hermann og Dídí, Árósum 1973-6), hafi verið dönskum skáldaspírum "kultbog", þ.e. í þeirra hópi þóttu þessar bækur Guðbergs öðrum umræðuefnum merki¬legri. Það er bara verst að ekki skyldi þýtt meistaraverk hans, Tómas Jónsson metsölubók (1965) það hefði getað hrist upp í dönsku bók¬menntalífi, og hefði ekki veitt af í þeirri lægð sem það nú lenti í, "hvers¬dagsraunsæinu".
1981 gaf félag danskra móðurmálskennara út smásagnasafn þýtt úr íslensku af Erik Skyum Nielsen. Þarna voru tveir kaflar úr minningabók¬um Tryggva Emilssonar og sögur eftir Thor Vilhjálmsson, Svövu Jakobs¬dótt¬ur (3), Jakobínu Sigurðardóttur (2), Guðberg Bergsson og Véstein Lúð¬víks¬son, bókin tók nafn eftir sögu hans, Tale i røret. Það var feng¬ur að bók¬inni, en fáránlegt að birta aðeins fyrri helming af sögu Thors „Jar¬þrúður“. Þannig var nokkru jafnvægi haldið í blaðsíðutali einstakra höf¬unda og borgaraleg gljátík afhjúpuð, en ekki hirt um uppbyggingu sög¬unn¬ar eða bókmenntagildi. Enda var allmikil slagsíða á bókinni efn¬is¬lega, hún var eins sósíal¬realísk og hægt var, myndirnar undirstrika það enn, verka¬fólk að störf¬um, sviplítil hús, sem gætu verið hvar sem er í Evrópu.

Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs.
Síðustu ár hefur orðið mikil aukning á þýðingum íslenskra bók¬mennta, m.a., bæði á dönsku og önnur norðurlandamál. Og það hefur aftur greinilega haft áhrif útfyrir Norðurlönd, sömu bækur hafa síðar birst bæði á ensku, þýsku og frönsku. Augljóslega koma hér til tvær or¬sakir, í fyrsta lagi bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs, í öðru lagi nor¬ræni þýðinga¬sjóðurinn. Nyberg (sem hér á eftir verður stuðst við, segir bls. 21) að bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs auki fyrst og fremst sölu á bókum verðlaunahöfundar í heimalandi hans. Undan¬tekn¬ingin er Norð¬menn, sem virðast öðrum fremur opnir fyrir menn¬ingar¬straumum utan land¬¬stein¬anna, og þá norrænum höfundum sem tilnefndir voru til verð¬launanna hverju sinni. Einnig er þess að gæta, að fylgi verð¬launa¬hafi þessari verð¬launa¬veitingu eftir með upplestraferðum víða um Norð¬ur¬lönd, þá hlýtur það að auka útbreiðsluna. Því til styrktar má nefna að verð¬launa¬saga Einars Más Guðmundssonar, Englar alheimsins, hef¬ur selst í u.þ.b. 7000 eintökum á tveimur árum, það er sjöföld sala fyrri sagna hans, en algeng sala á skáldsögu eftir danskan höfund er um 1500 eintök, segir mér Anne Mesmann hjá útgáfunni Borgen.
Íslendingar hafa oft kvartað undan því að þeirra bókmenntir stæðu ekki jafnt að vígi til verðlaunanna og bækur frá Noregi, Svíþjóð og Dan¬mörku, því þær fjölluðu dómnefndarmenn í frumtexta, en bækur út¬kjálka¬þjóðanna, Finna, Sama, Færeyinga, Íslendinga og Grænlendinga, þyrfti fyrst að þýða. En á þessu er þó sú jákvæða hlið, að þær bækur sem lagðar eru fram af t.d. Íslands hálfu eru þar með þýddar á kostnað Norð¬urlandaráðs, og er þá hægara að finna útgefanda en ella. Enda ber mikið á þeim bókum meðal þeirra sem gefnar hafa verið út þýddar, þótt ekki séu þær einráðar.

7. Þýðingarsjóðurinn
Síðan 1974 hefur starfað sérstakur sjóður til að styrkja þýðingar af einu norðurlandamáli á annað, eingöngu fagurbókmenntir, þótt útgef¬end¬ur óski margir hverjir einnig eftir styrk til að láta þýða fróðleiksrit. Íslend¬ingum má þykja undarlegt athæfi að þýða bækur af norsku á dönsku eða sænsku, eða á hinn veginn, því hafi Íslendingur lært að lesa eitt norður¬landamál, getur hann fljótlega orðið læs á hin með lítilli fyrir¬höfn. En sannleikurinn er sá, að einungis þröngur hópur norrænna mennta¬¬manna les texta á grannmálunum stóru, og aðeins örlítill minni¬hluti les íslensku, færeysku og finnsku, svo ekki sé nú talað um græn¬lensku og samísku. Eigi norrænar bækur að ná til almennings í þessum löndum, verður að þýða þær. Samkvæmt höfðatölu fer þá auðvitað mest¬ur hluti þýðinga¬styrksins til fjölmennustu þjóðanna. Finnar fá tæpan fimmt¬ung, en nota minna en sjöttung, því bæði er minni áhugi á nor¬ræn¬um bók¬menntum þar en annars¬staðar á Norðurlöndum, og í grann¬lönd¬un¬um er tilsvarandi áhugaleysi á finnskum bókmenntum. Íslendingar fá tæp¬lega tíunda hluta styrksins, eins og Færeyingar. Síðan 1982 hefur þýð¬inga¬sjóðurinn styrkt þýðingu á 1600 bókum milli norðurlandamála. Á ár¬un¬um 1993-5 var veittur styrkur til að gefa út 30 norr¬ænar bækur á íslensku, 11 úr sænsku, 9 úr dönsku, 4 úr norsku og jafn¬margar úr fær¬eysku, en tvær úr finnsku. En á sama tíma voru hálfu fleiri íslenskar bækur styrktar til útgáfu á Norðurlöndum, tólf í Svíþjóð og Danmörku, sjö í Finnlandi og Færeyjum, fjórar í Noregi, auk einnar á samísku, það var ljóðabók eftir Einar Braga. Þetta er og hálfu meira en þýtt var úr finnsku á þessi mál (28 bækur, þar af 2/3 á sænsku). Auk þess hefur sjóðurinn styrkt þýðingu verðlaunabókar á mál utan Norðurlanda, veitti t.d. 25 þúsund danskar krónur til að þýða Engla alheims¬ins eftir að hún fékk bókmenntaverðlaun Norðurlanda¬ráðs.
Það væri efni í aðra grein að fjalla um þýðingar norrænna bóka á íslensku, styrktar af sjóðinum, og ekki hefi ég yfirlit um það. Ég vil að¬eins nefna þýðingar norrænna ljóða, m.a. norsku skáldanna Rolf Jacobsen og Paal Helge Haugen, danska skáldsins Henrik Nordbrandt, sænska skáldsins Gunnar Ekelöf, finnlands¬sænsku skáldanna Edith Södergran og ýmissa fleiri, flest hefur þetta birst hjá forlaginu Urtu. Auk þess hafa birst dýrlegar ljóðaþýðingar úr frönsku og þýsku á síðustu árum. Nú er alkunna, að lítil sala er í slíkum bókum, og einhverjir kynnu að segja að þetta sé óþörf þýðinga¬starf¬semi, því bækurnar lesi einungis menntamenn, sem séu hvort eð er flug¬læsir á norðurlandamál. En þar er tvennu til að svara; í fyrsta lagi er það mikil kynning á skáldi að koma ljóðum þess út á Íslandi, þau færu ella fram hjá mörgum. Og í öðru lagi hljóta slíkar þýðingar að vera lesnar af unglingum með sérstakan áhuga á ljóðagerð, þ.e. verðandi ljóðskáldum þjóðarinnar. Má þá augljóst vera, að þessi útgáfa er mjög þýðingarmikil, enda þótt lesendur séu ekki margir.
Augljóslega hefur þessi þýðingasjóður alveg skipt sköpum, einkum fyrir smæstu þjóðirnar, enda þótt hlutur hans í þýðingarkostnaði ein¬stakra bóka verði æ minni. Fyrir nokkrum árum var talið að hann greiddi laun þýðanda nokk¬urn veginn alveg, en nú er það ekki nema brot þess, alls 2,4. millj¬ónir danskra króna árlega, þegar umsóknir útgefenda námu samtals nærri sjö milljónum. Sjóðurinn hefur tekið þá stefnu á síð¬ustu árum að veita heldur mörgum einhvern styrk, en að veita fáum veruleg¬an. Þetta er því frekar uppörvun en styrkur hvað stærstu forlög varð¬ar, og það finnst mér misráðið, best væri að veita mikinn styrk til bóka sem ella kæmu ekki út í þýðingu. Og þannig hefur styrkurinn raun¬ar oft gef¬ist, litlum forlögum mun hann mikilvægur. En þeir íslensk¬ir höfundar sem nú skulu taldir, þurfa margir hverjir ekki lengur neinn styrk til þýð¬ingar. En til að gefa eitthvert yfirlit um íslensk skáldrit sem birst hafa á dönsku undanfarin ár, skal fyrst nefna Einarana; flestar bæk¬ur Einars Más Guð¬munds¬sonar hafa birst á dönsku í þýðingu Erik Skyum-Nielsen. Þar er fyrst að telja úrval fyrstu þriggja ljóðabóka Ein¬ars, sem birtust 1980-81; það kom þegar á seinna árinu á dönsku undir heitinu Franken¬steins kup. Síðan komu Ridd¬ar¬ar hringstigans 1984; Vængjasláttur í þakrenn¬unum 1986, Eftirmáli regndrop¬anna 1988, Rauðir dag¬ar 1991; Englar alheimsins 1995; og ljóða¬bókin Orkanens øje, 1996. Eftir Einar Kárason birtust í þýðingu Peter Söbye Christensen: Djöfla¬eyjan 1988, Gulleyjan 1990, Fyrirheitna landið 1991. Eftir andlát Söbyes hafa svo birst Heimskra manna ráð 1996 og framhaldið Kvikasilfur 1997. Eftir Björn Th. Björnsson kom Haustskip 1984, enda hefur þá a.m.k. efnið höfðað til dansks almenn¬ings, flutningur ís¬lenskra fanga til Brimarhólms fyrr á öldum. Vonandi verður einhver til að þýða snilldarverk Björns Hraunfólkið. Eftir Thor Vilhjálmsson kom verðlaunasaga Norðurlandaráðs, Grámosinn glóir 1988, og ljóðabók, Isblomsterne brænder 1994. Eftir Svövu Jakobs¬dótt¬ur kom smásagna¬úrvalið Kvinde med spejl 1986, og Gunn¬lað¬ar¬saga með aðeins árs seinkun, 1990. Auk fyrrgreindra bóka Guðbergs kom Froskmaðurinn á dönsku 1987 og Svanurinn 1991, enn má harma að ekki skyldi þýdd ein albesta saga hans, Hjartað býr enn í helli sínum. Smásögur Gyrðis Elíassonar Bréfbátarigningin birtist 1991 og skáldsaga hans Svefn¬hjólið 1995, báðar í þýðingu Erik Skyum-Nielsen. Gauragangur Ólafs Hauks Símonarsonar kom 1992, og sama ár komu Hringsól Álfrúnar Gunn¬laugsdóttur, í þýðingu Keld Gald-Jørgensen, og Á meðan nóttin líður eftir Fríðu Sigurðardóttur, þegar hún fékk bókmennta¬verðlaun Norðurlandaráðs. Saga Steinunnar Sigurð¬ar¬dóttur Tímaþjóf¬urinn kom með sex ára seink¬un í þýðingu Mette Fanø, enn þetta sama mikla ár ís¬lenskra skáldsagna, 1992, Ástin fisk¬anna kom 1995, og Hjartastaður kemur nú í haust, 1997 eða á næsta ári. Eftir Vigdísi Grímsdóttur birtist Ég heiti Ísbjörg, ég er ljón, 1993, Stúlkan í skóginum 1995. Loks er nýútkomið úrval ljóða Stefáns Harðar Grímssonar í þýðingu Erik Skyum Nielsen, 1997. Mér má hafa sést yfir ýmislegt, og margar fleiri bækur hafa hlotið þýðingarstyrk, þótt ekki séu út komnar, og virðist mega búast við því að þessi blómlega þýðingaútgáfa haldi áfram næstu árin, sömu bækur hafa auðvitað í stórum stíl birst á norsku, sænsku og jafnvel finnsku.


8. Horfur.
Þegar litið er yfir það mikla blómaskeið þýðinga af íslensku á norðurlandamál (m.a.) undanfarinn hálfan annan áratug, er margt ánægjulegt að sjá, en alltaf hljóta menn að sakna einhvers. Ég nefni bara Pétur Gunnarsson (einungis Punkturinn hefur birst á sænsku, að því er ég best hefi getað séð) og Þórarin Eldjárn. Skýringin á slíkum gloppum virðist einfaldlega vera sú, að þýðendur fagurbókmennta af íslensku eru mjög fáir, og þeir hafa til¬hneigingu til að sérhæfa sig í einum höfundi, flestir. Það er auðskilið, vinnusparnaður og öryggi í því að rekast á sama eða svipað orðalag, bók eftir bók, en ekki að sama skapi þroskandi. Ég sé ekki aðra lausn en þá, að íslenskir höfundar verði að finna sér þýðendur á hin ýmsu mál, fara yfir þýðingar þeirra, og koma þeim á framfæri við tímarit, áður en heilar bækur eru boðnar forlögum, a.m.k. þegar þýðendur eru lítt þekkt¬ir í menn¬ing¬arsamfélagi sínu. Víða um lönd er atvinnulítið fólk, sem lært hefur íslensku, og gæti a.m.k. reynt að þýða.
Það sem ég hefi lesið af þessum þýðingum gera þýðendur sér ekki aðeins far um að skila textanum öllum, heldur leggja sig fram um að halda stílbrigðum líka til haga, svo sem jafnan hlýtur að vera sjálfsagt mark¬mið þýðenda. Og það tekst yfirleitt vel. Hinsvegar benti t.d. Erik Skyum Nielsen á hrikalegar misskilningsvillur í þýðingum Peter Søbye Christensen á sögum Einars Kárasonar, og er minnisstæðast að hann þýddi orðið "hlátursorg" sem "lattersorg", þ.e. hlæjandi sorg í stað org¬andi hlátur. Fyrir koma misskilningsvillur í flestum framangreindum þýðingum, sem ég hefi skoðað, og hroðaleg dæmi hefi ég heyrt úr frönsku, "Blaðasali æpir/ fyrirsagnir fölna" í ljóði Sigurðar Pálssonar varð í þýðingu Régis Boyer: "Lestrarsalurinn æpir"o. s. frv. Flest slík firn og skrípi mætti nú forðast með þeim einfalda hætti, að höfundur eða starfsmaður íslensks út¬gefanda renndi augunum yfir þýðingar bóka sinna á mál sem hann skilur. Það hefðu þessir höfundar hæglega ráðið við, og virðist það lítið verk og vel til vinnandi alþjóðlegrar kynn¬ingar.

Lokaorð.
Það má draga saman, að í Danmörku hefur áhugi á íslenskum bók¬menntum gengið í nokkrum bylgjum, en oft hefur bókmenntafólk og út¬gefendur í Danmörku sýnt íslenskum bókmenntum mikinn áhuga. Það sem ég hefi séð af viðtökum danskra blaða, er líka yfirleitt mjög jákvætt. En hvað um sölu?
Ég man að þegar Thor fékk bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs, var mikil og jákvæð umfjöllun í blöðum, auk þess sem bókum hans var stillt út með stórri mynd í almenningsbókasöfnum. En eftir árið hafði verð¬launabókin, Grámosinn glóir, selst í aðeins 600 eintökum, sagði mér útgefandinn. Nú veit ég ekki hvort danskur almenningur er svona tor¬¬trygg¬inn á allt sem frá Íslandi kemur, líklegra virðist hitt, að þetta sé eðli¬leg sala á góðri skáldsögu í Danmörku eftir höfund sem þar er lítt þekkt¬¬ur. Og raunar hafa aðrir verðlaunahafar Norðurlandaráðs stundum selst miklu minna utan heimalands, t.d. Herbjörg Wassmo. (Nyberg, bls. 22). Aðalvandamálið held ég að sé ekki afstaða dansks almenn¬ings til íslenskra bókmennta, heldur til bókmennta yfirhöfuð. Fyrir aldar¬fjórð¬ungi var rekin mikil herferð gegn góðum bókmenntum undir kjör¬orð¬inu: „Jamen, hvor er budskabet?“ (hvar er boðskapurinn?). Slíkt hug¬ar¬far er gam¬al¬gróið og enn mjög útbreitt, einnig meðal þeirra sem miðla bók¬mennt¬um, held ég; gagnrýnenda, kennara, og þeirra sem kaupa inn í bókasöfn, að álíta bókmenntir einskonar kerr¬ur sem hlaða beri skoðunum og viðhorfum. Og því miður ríkir það við¬horf víðar en í Danmörku. En raun¬veruleg bókmenntaverk orka á les¬end¬ur alhliða, eins og önnur lista¬verk. Þannig orka t.d. skáldsögur og leikrit bæði með hug¬myndir, mynd¬ræn¬ar lýsingar, persónu¬sköp¬un og stíl - sam¬stillt í heild. Þessvegna er það lífsreynsla að njóta lista¬verks, og verð¬ur ekki smættað niður í "boðskap", frekar en niður í hljóm. Hitt megum við hafa hugfast, að góðar bækur íslenskra höfunda ná til góðra lesenda á Norð¬ur¬lönd¬um, ekki síður en bækur innlendra höf¬unda þar.

8. Viðtökur ljóða.

Það er stundum forvitnilegt að sjá viðbrögð útlendinga við því sem Íslendingum er heima¬kunn¬ugt, enda þótt t.d. danskir ritdómarar séu vita¬skuld enginn hæstiréttur um íslensk ljóð.
Löngu er alkunna, að erfiðara er að þýða ljóð en aðra texta, vegna þess að í ljóðum eru svo margvísleg fyrirbæri hnituð saman. Sumir neita því að þýðing sé möguleg, tala frekar um að yrkja upp ljóð á öðru máli. Og víst er um það, að oft er útkoman þá ólík frumtexta, þar sem t.d. Tolstoj og Shakespeare eru heillandi sérstæðir á hvaða tungumáli sem er.
Í fyrri greinum var vikið að helstu þýðingum íslenskra ljóða á dönsku, Olafs Hansen um aldamótin og aftur um 1918, Guðmundar Kamb¬an í lok seinni heimsstyrjaldar, og loks Poul P.M. Pedersen á sjö¬unda og áttunda áratugn¬um. Hér verður vikið að viðtökum þessa síðast¬talins fimm binda safns, of langt mál yrði að skoða víðar að sinni. Þetta var metnaðarfull kynning á ýmsum helstu ljóðskáldum Íslendinga Fyrst kom ljóðaúrval Steins Steinars, 1964, tveimur árum síðar Hann¬esar Pét¬urs¬sonar, tveimur árum eftir það bók Matthíasar Johannessen, en sjö árum eftir hana kom ljóðaúrval Jóhannesar úr Kötlum. Og enn liðu sjö ár eftir það þangað til fimmta og stærsta safnið kom, úrval ljóða 28 skálda (sem ég taldi upp í 3. grein), Strejftog i islandsk lyrik, 1982.
Mjög er misjafnt hve margir ritdómar birtust um þessar bækur, og hve ítarlegir þeir voru. Einkum urðu ritdómar yfirborðslegir um síðastu bókina, sem eðlilega var sundurleitust. Jafnan voru ritdómarnir velviljaðir íslensku skáldunum, en mis¬gagnrýnir. Einungis einn ritdómari bar þýð¬ingarnar saman við frumtexta, og verður þá að ætla að hinir hafi ekki þóst nógu góðir í íslensku. Sá ritdómari, Vagn Steen, skrifaði eina ritdóminn sem ég hefi fundið um bók Hannesar Péturssonar (Jyllandsposten 18.12.966) og hann var eingöngu jákvæður, sérlega hrifinn af kvæðunum um Kópern¬ikus, Maríu Antoinettu og „Undarleg ósköp að deyja”, en þótti orðaval þýðanda ekki alltaf nógu smekklegt.
Sérkennilegast þótti mér að sjá hve gagnrýnir menn voru á Stein Steinarr, sem á Íslandi virðist nánast kominn í heilagra manna tölu. Elmquist (Politikken 20.6.64) talar um efa- og tómhyggju Steins eins og Windfeld (Kristeligt Dagblað 31.8.-64), sem dregur fram naumhyggju Steins, ”orðin eiga að verða þung af því ósagða, en það leiðir stundum til þess að þau verða verulega léttvæg”. Um Tímann og vatnið er hann tví¬bentur, segir þennan ljóðabálk athyglisverðan og eiga sinn þátt í að gera bókina verðuga lestrar, þarna séu náttúrumyndir tengdar skýrum litum og sértekningum flatar¬máls¬mynda. Þetta orki leyndardómsfullt, en sé til lengd¬ar hæpið og óeðli¬legt. Þýðandi fær skömm í hattinn fyrir að gera ekki grein fyrir úr hvaða ljóðabókum Steins hann þýði og hve mikill hluti ljóða hans þessi 130 ljóð séu. Fonsmark segir (eins og þýðandi í eftirmála) að Tíminn og vatnið sýni sterk áhrif frá sænska skáldinu Erik Lindegren, önnur sænsk skáld á 5. áratug aldarinnar hafi og greinilega haft áhrif á Stein. Torben Brostrøm (Information 4.7.’64) tekur undir þetta, en sýnast áhrif finnlandssænsku skáld¬konunnar Edith Södergran meira áberandi, ekki síst í Tíminn og vatnið, sem persónugeri hugtök á táknsögulegan hátt, en Steinn komist stundum ekki vel frá því, nálgist módernisma á klaufalegan hátt. -Mér sýnist Brostøm helsti glámskyggn á þetta, en hér er ekki rúm til að rekja það (sjá bók mína, Kóralforspil hafsins). Fonsmark tekur kvæðið „Víg Snorra Sturlu¬son¬ar” til dæmis um að þrátt fyrir alla efahyggju Steins hafi ljóðlistin verið mikið afl í augum hans, og því sjái hann valdhafa sem eilífa fjendur skálda. En sama kvæði kallaði Brostrøm „leið¬inda¬¬skrúð¬mælsku með óviðeigandi og lág¬kúru¬leg¬um líkingum”. Fonsmark tekur kvæðið um Kristófer Kólumbus sem dæmi um eilífa leit Steins að óvissu marki, sem hann reyndar örvænti um að sé til. En Thomas Bredsdorff segir í ritdómi um safnrit Pedersens, Strejf¬tog... (Politikken, 1.12.’82) að það ljóð sé bara veikur endurómur af kvæði danans Johannes V. Jensen um Kólumbus.
Um bók Matthíasar Johannessen birtust óvenjumargir ritdómar. Þeir leggja áherslu á hve sterkar rætur í íslenskri ljóðhefð og fornri menningu þessi nútíma¬legi höfundur hafi; enda þótt hann jafnframt sæki til T.S. Eliot og ýmissa helstu módernista. Ljóðabókin fékk hrós fyrir innileg ástaljóð og áhrifamiklar náttúrulýsingar, þar sem skiptist á stór¬brot¬ið, hrikalegt landslag og sveitasæla. Þetta er m.a. hjá m.a. Fonsmark (Berlingske Tidende 7.9.’68) og Bedsted (Jyllandsposten 1.9.’68). Þeir segja að þessi ljóð miðli sannri reynslu á viðeigandi hátt, í myndrænni skynj¬un, sem sveiflist frá frumlegum, óvæntum líkingum til hversdags¬leg¬asta orðalags. Þar sýni höf¬undur ekki nógu örugg tök. Eink¬um verði trúar¬ljóð hans mjög hefð¬bundin í ljóðmyndum, líkingum og táknum, t.d. „ský óttans, mosi tilver¬unnar, plógför tímans, haf tímans”. Hejlskov Larsen (Berl¬ingske Aftenavis 16.9.’68) telur svo hefðbundið myndmál almennt einkenni á kristilegum ljóðum. En aðrir lögðu áherslu á að þessir nútíma¬sálmar næðu til samtímafólks með lík¬ing¬um úr hversdaglífi almenn¬ings (Bønding í Aalborg Amtstidende 20.10.). Mjög á sömu lund og Hejlskovs er dómur Brostrøm (Information 27. 8. 68), og Fonsmark, sem talar þó um verulegar fram¬farir frá elstu ljóð¬un¬um til hinna nýjustu, Brostrøm leggur áherslu á að ljóðin hrífi vegna skarpra mynda (sanselighed). Form Hólmgöngu¬ljóða, ávarp og andsvar, hafi stundum sérlega fínleg áhrif, en það veki þó jafnan vænt¬ing¬ar um skýrt markaðan kjarna, og ekki hafi alltaf tekist að skapa slíkt, ritdómara grunar að það muni hafa verið þýðanda sérlega erfitt verkefni. Hejlskov segir að fagrar náttúru¬¬myndir Matthíasar sýni sálarlíf fólks óbeint, en einmitt það virðist dönsk¬um lesendum nokkuð forn¬fálegt, enda þekki þeir varla ósnortna náttúru. Bedsted telur að Matthías hefði hlotið miklu betri kynningu á dönsku, með ljóðaúrvali sem hefði verið þriðj¬ung¬ur af fyrirferð þessa (og þá einkum sleppt Sálmum á atómöld), og skammar Pedersen fyrir útgáfu¬stefnu, sem geti ekki vakið áhuga á íslenskur ljóðlist.
Um ljóðaúrval Jóhannesar úr Kötlum taka ýmsir ritdómarar það upp úr eftirmála þýðanda, að Jóhannes hafi sameinað kristilega arfleifð sós¬íal¬isma. Mest lof fær hann í Kristeligt dagblad (14.3., Claus Grymer): „stór og unaðsleg bók, full af hreinni, bragðmikilli ljóðlist“. Hinsvegar fannst Bent Irve (Weekendavisen16. 5. ’75) ljóðaúrvalið ekki rísa und¬ir þeim orðum þýðanda að hér sé mikilvægt skáld á ferðinni. Jákvæðari er Eske K. Mathiesen í löngum ritdómi (Land og folk, 27.9.’75), en segir þó að ljóð Jóhannesar muni tæplega hrífa Dani. Þau séu einhvernveginn of framandi bókmenntaheimi þeirra. Því valdi ekki bara framandi tungumál, heldur einkum samfelld, staðbundin hefðin sem Jóhannes byggi á, sálmar og alþýðukveðskapur. Hann yrki um náttúruna á innilegan hátt, sem Danir þekki helst í barnslegum kristnum ritum. Og stjórnmálaljóð yrki hann tryllt og móði þrungin; uppreisnarljóð og hyllingarkvæði.
Þýðandi fær sérlega jákvæðan dóm hjá Elmquist (Pol.20.6.64), sem segist að vísu ekki læs á íslensku, en þessir textar (Steins) séu eins og frumortir á dönsku, og þýðandinn ósýnilegur að baki höfundar. Miklu gagnrýnni eru Brostrøm og Fonsmark, sem finnst vera óeðlilegt danskt mál einmitt á sömu þýðingum. Versta útreið fær þýðandi hjá Vagn Steen sem segir í ritdómi (Politikken. 4.4.1975) að Jóhannes úr Kötlum sé mið¬læg¬ur í íslenskri ljóðagerð, og nú séu ljóð hans komin á dönsku með styrk danska menntamálaráðuneytisins og Nordisk kulturfond, „Það var leitt”, segir Steen, og rekur síðan dæmi þess að þýðingin geri Jóhannes kristi¬leg¬an, óalþýðlegan og hefðbund¬inn ljóðasmið á mjög villandi hátt, enda sé ”lítil¬mótlegur inngangurinn” í sama dúr. Sýnist Steen af þessu ljóðasafni að kanna þurfi grundvöll styrkveitingarinnar, og þá sérstaklega hvort fagmenn hafi metið verk þýðanda.
Þetta voru óvenjuharkaleg viðbrögð, en almennt virðist mega segja að dönskum ritdómurum hafi virst samtímaljóð bræðraþjóðarinnar íslensku ámóta framandi og kæmu þau frá Kúrdistan, einkum vegna þess hve bundin hún sé íslenskri náttúru. Því tók Brostrøm sérstaklega fram um ljóðaúrval Einars Más Guðmundssonar, 1981 (Information 6.11.), að hér kæmi ný sjálfsvitund í máli og tímaskynjun, “laus við þjóðlega ljóðlist um fjöll og firði og þessar eilífu bænir til réttlætisins”. Mér þykir þó líklegt að margir Danir af íslenskum ættum og aðrir danskir Íslandsvinir hafi sóst eftir þessu ljóðasafni, svo mikið er víst, að það er löngu ófáanlegt orðið. En íslensk ljóðagerð breyttist almennt hjá yngri skáldum uppúr 1970, þá fylgdu þau fordæmi Jóhanns Hjálmarssonar og Dags Sigurðarsonar og hurfu frá fífilbrekkunni á malbikið.

P.s. Ég þakka Ásgeiri Guðmundssyni sagnfræðingi leiðréttingu um Guðmund Kamban (Mbl. 27.11.).
-Þessi greinaflokkur birtist í Lesbók Mbl. 1997, og nú áratug síðar eru ítarlegri yfirlit fáanleg um margt. Samt vil ég hafa þetta aðgengilegt á netinu með öðrum greinum mínum, m. a. vegna samhengis.



Heimildir:

Halldór Laxness: "Kirkjan á fjallinu, höfuðrit Gunnars Gunnarssonar." Iðunn 1930, bls. 275-294. Endurprentuð í Dagleið á fjöllum, Rvík 1937 og síðar.
Hannes Pétursson og Helgi Sæmundsson: Íslenskt skáldatal I-II. Rvík 1973-6. Alfræði Menningarsjóðs.
Helga Kress: Guðmundur Kamban. Æskuverk og ádeilur. Íslensk fræði 29, Rvík 1970.
Islandica XL: P.M. Mitchell & Kenneth H. Ober: Bibliography of Modern Icelandic Literature in Translation Including Works Written by Icelanders in Other Languages. Ithaca 1975.
Islandica XLVII: Kenneth H. Ober: Bibliography of Modern Icelandic Literature in Translation. Supplement, 1971-80. Ithaca 1990.
Stig-Björn Nyberg: En utredning om litteratursamarbetet i Norden. Rapport till Nordiska ministerrådet (kulturministrarna. Fjölrit, 38 bls. í A 4 broti.
Sveinn Skorri Höskuldsson: "Gegn straumi aldar." Tímarit Máls og menningar 1988, bls. 403-423.
Helge Toldberg Jóhann Sigurjónsson, Rvík 1965.

Auk þess þakka ég Anne Mesmann, Erik Skyum-Nielsen, Fransisku Gunnarsdóttur og Sveini Skorra Höskuldssyni upplýsingar.