Gömul prósaljóð og fríljóð
Svar við grein Þorsteins Þorsteinssonar: „Þankabrot um ljóðbyltingar”
Fyrir nokkru barst mér 3. árgangur tímaritsins Sónar – að gjöf frá Þorsteini Þorsteinssyni, sem á þar 50 blaðsíðna grein, Þankabrot um ljóðbyltingar. Þarna er mikill fróðleikur saman dreginn og greinin vel skrifuð svo sem vænta mátti. Einkum dáðist ég að haglegum ljóðaþýðingum Þorsteins. Það liggur við að þetta sé merkisgrein en því miður spillir Þorsteinn henni með óvönduðum tilvitnunum og kreddufestu.
Greinin fjallar um þá miklu byltingu í bókmenntum sem hófst í Frakklandi á síðustu áratugum 19. aldar og breiddist út um lönd og álfur, einkum á fyrsta fjórðungi 20. aldar. Þetta er óumdeilt en hitt greinir menn nokkuð á um hvar eigi að draga mörkin milli þessara bókmennta og annarra, og hvað eigi að kalla þennan bókmenntastraum. Ég hafði um hann orðið módern í bók minni um módernisma í íslenskum bókmenntum, Kóralforspil hafsins (1992), að fyrirmynd Eysteins Þorvaldssonar í bók hans Atómskáldin (1980). Þorsteinn hafnar þessu orði vegna þess að það sé óljóst þar sem það sé notað í mismunandi merkingum, til dæmis af okkur Eysteini. Þess í stað talar Þorsteinn um nútímaljóðlist – væntanlega að fyrirmynd Sigfúsar Daðasonar.[1] Sigfús leggur áherslu á hnitmiðun eða samþjöppun, en skilgreining Þorsteins er öðruvísi, mun víðtækari:
...má [...] halda því fram að frelsi undan bragreglum hafi verið forsenda nýrrar ljóðhugsunar af margvíslegu tagi sem telja má einkennandi fyrir nútímaljóð. Þar á meðal væru eftirfarandi nýjungar: (1) Prósaljóð, (2) fríljóð og frjáls hrynjandi, ný fyrir hvert ljóð, „hrynjandi tónhendingarinnar“ (Pound), (3) raðkvæmar myndir eins og í súrrealisma, og sjá má til dæmis í íslenskum ljóðabókum eins og Imbrudögum eftir Hannes Sigfússon eða Óljóðum eftir Jóhannes úr Kötlum, [nmgr. með dæmum] (4) ljóðbygging ólík því sem er í brag: rofin framvinda, mósaíkmyndir, blandað og ósamstætt efni (klausur á erlendum málum, samtalsbútar, löng sítöt eins og t.d. í Cantos eftir Pound).[2]
Þorsteinn segir ennfremur:
Ég kýs því heldur að nota orðið nútímaljóð – í víðri merkingu – um þær sundurleitu tegundir skáldskapar sem litið hafa dagsins ljós eftir ljóðbyltingarnar á 19. og 20. öld og eiga það sameiginlegt, þótt sundurleitar séu, að fara á margan hátt í bága við ljóðhefðir sem áður voru ríkjandi. Þetta getur tæplega kallast skilgreining og er þar af leiðandi lítt fallið til útilokunar, enda er það ekki tilgangur minn, eins og oft virðist vera þegar menn tala um módernisma. Önnur ástæða til að sneiða hjá hugtakinu er að endingarnar -ismi og -istar gefa ósjálfrátt til kynna að um sé að ræða hreyfingu og þátttakendur í hreyfingu. Staðreyndin er hinsvegar sú að öll skáld sem hafa lagt mikið af mörkum til nútímaljóðlistar eru einfarar, í þeim skilningi að þau eru einstök og ólík öðrum skáldum.[3]
Það eru lítil tíðindi að mikil skáld séu sérstæð. Hitt er fráleitt að ekki megi sjá samkenni slíkra skálda sem ortu á sama tíma og héldu jafnvel hópinn. Nægir hér að nefna rómantísku skáldin íslensku, svo sem Jónas, Steingrím og Matthías annarsvegar, eða síðar þá Davíð og Tómas. Og þá blasir við önnur mótbára við þessu tali Þorsteins; enda þótt hann noti fleirtölumynd; hugtak hans „ljóðhefðir sem áður voru ríkjandi“, setur öll þessi skáld sem nú voru nefnd undir einn hatt. En það er með öllu fráleitt, nema eingöngu sé átt við reglubundna bragarhætti. Og hér skilgreinir Þorsteinn „nútímaljóð“ neikvætt, enda þótt hann lái Hugo Friedrich neikvæðar skilgreiningar á fyrirbærinu.[4] Þorsteinn vitnar í ummæli Jóns Óskars 1975 og virðist taka þau góð og gild:
Við atómskáldin ortum aldrei eitt einasta ljóð um sögulegan atburð úr Íslendingasögum eða mannkynssögunni frá liðnum öldum eða upp úr þjóðsögum eða goðafræði eins og nítjándu aldar skáldin og aldamótaskáldin og raunar allir fyrirrennarar okkar gerðu.[5]
Þetta er ekki satt, mörg nýrómantísk skáld sniðgengu þetta líka, meðal annars Jónas Guðlaugsson, Jóhann Sigurjónsson, Jakob Smári, Stefán frá Hvítadal, Tómas og Davíð (framanaf). Enn einn agnúi á skilgreiningu Þorsteins er orðhengilsháttur. Hann segir:
Nú er það auðvitað rétt að ýmsar eigindir sem algengar eru í nútímaljóðum má finna í eldri skáldskap, um það þarf ekki að deila; en það er ankannalegt, og bendir til þess að orðanotkun sé hæpin, að kalla kvæði Sapfóar eða Villons módern, því grunn-merkingarþáttur þess orðs hlýtur alltaf að vera ‚nútíminn’. Í mínum augum að minnsta kosti er það lokleysa að tala um að nútímaljóð – eða módern ljóð – hafi verið ort í fornöld [...][6]
Lokleysan er Þorsteins, því það er augljóst af bókmenntasögunni að heiti nýrra strauma og stefna hafa verið tilviljanakennd og oftar en einu sinni verið kennd við nútíma sem nú er löngu liðinn. Má þar nefna sem dæmi deilu Les anciens et les modernes í Frakklandi í lok 17. aldar. Einar Már Jónsson sýndi í grein í TMM 199?, bls.102 o.áfr. að þeir sem þá kölluðust "módern" þættu flestum afturhaldssamir núna, því þeim þótti smekkleysa að segja frá því að prinsessa færi að þvo þvott með hirðmeyjum sínum! Það nær engri átt að bíta sig í slíkt orðalag, auðvitað á að líta á helstu einkenni straumsins og þá ber að sjálfsögðu að aðgæta hvort þau koma fram á öðrum stað og tíma, og þá á hvern hátt.
Megineinkenni nútímaljóða eru samkvæmt Þorsteini prósaljóð og fríljóð, svo sem að framan var rakið, og það telur hann komast á alþjóðlega undir lok 19. aldar í Frakklandi, en uppúr seinni heimsstyrjöld á Íslandi. Hvort tveggja er alrangt.
Bragfrelsið alþjóðlega
Þorsteinn sakar mig um „hlutahyggju“, að yfirfæra á allan þennan bókmenntastraum (módernismann), einkenni hluta hans. En ég held það væri sanni nær að saka hann um rökvillu eðlisfylgni (collateralisma), að halda að það hljóti að vera orsakatengsl milli fyrirbæra vegna þess að þau fóru saman í tíma og rúmi, annað geti ekki verið án hins. Fríljóð komust vissulega í tísku í frönskum bókmenntum undir lok 19. aldar jafnframt því sem módernismi hófst þar. En af því verður ekki ályktað að þarna sé nauðsynlegt samband, annað geti ekki verið án hins. Raunar fylgdu fríljóð og prósaljóð blæstefnu ljóða, symbólisma, í Frakklandi sem annars staðar! Og þau skáld voru ekki frekar módernistar en skáldsystkin þeirra íslensk: Einar Benediktsson, Sigurður Sigurðsson, Hulda, Jóhann Sigurjónsson, og fleiri. Fríljóð og prósaljóð urðu algeng og áberandi í módernisma, en þau voru það bara löngu áður og slíkir bragarhættir einkenndu framvegis annars konar ljóð. Reyndar var módernismi sárasjaldgæfur í lok 19. aldar. Í rauninni eru bara þrjú skáld talin heyra til hans þá, öll frönsk. Lautréamont um 1870, Rimbaud og Mallarmé að hluta þaðan í frá. Módernismi í nútímamerkingu spratt aftur á móti upp úr blæstefnu, symbólisma, jafnvel í stöku verki einstakra skálda. Rimbaud, Mallarmé og fleiri byrjuðu sem táknsæisskáld en síðan þróaðist ljóðagerð þeirra yfir í módernisma. Sama gildir síðar um Íslendinga í smærri stíl, má þar nefna Jóhann Sigurjónsson. Augljóst má vera, að þegar skáld leggja áherslu á að texti þeirra gefi viðfangsefnið í skyn frekar en segja eitthvað beinlínis, en þetta boðaði Mallarmé, og að hljómur, hrynjandi og myndmál sé ekki skraut textans, heldur eðlisþættir hans, ekki síður en hugmyndir, þá er slíkur texti orðinn eðlisólíkur prósatextum sem fjalla um málefni og taka afstöðu. Margir töluðu um að textar táknsæismanna væru óskiljanlegir, en módernisminn er þó sýnu róttækari með sundurleitni, sem gætir í stíl, en það er ólíkt symbólisma.[7]
Þorsteinn skeytir í engu rökum mínum gegn þessari kenningu hans um að prósaljóð og fríljóð hafi fyrst komist á í Frakklandi undir lok 19. aldar, og hlýtur þó að vita af sigurför prósaljóða (Ossíans) um alla Evrópu allt frá því um 1760. Í tölvupósti kom fram að hann teldi þetta ekki prósaljóð, heldur ljóðrænan prósa. En á hvaða grundvelli ætti að greina á milli ljóðræns prósa, ef ofantalin verk Ossíans eiga að teljast til hans, og prósaljóða? Svíinn Nylander birti árið 1990 mikla rannsókn á þessu efni og segir meðal annars að orðið prósaljóð (prosadikt, Prosagedicht, prose poem, poeme en prose) fari að tíðkast á ýmsum málsvæðum um 1700[8] enda stafaði þá vaxandi áhugi á prósaljóðum og ljóðrænum prósa af baráttu fyrir frelsi skálda og einstaklingseðli.[9] Á þeim tímum losnuðu skáld líka úr hirð ráðamanna og fóru að lifa af sölu verka sinna á vaxandi opnum markaði bóka og tímarita. En þá var mikilvægt að leggja áherslu á sérkenni sín og frumleika, ekki síður en á handverkskunnáttu í hefðbundnum bókmenntagreinum. Nú kynni einhver að spyrja hvernig sé hægt að ætlast til að Þorsteinn þekkti þessa rannsókn Nylanders. Svarið er, að ég sagði frá henni í bók minni Kóralforspil hafsins (bls. 16–17) sem Þorsteinn vitnar til. Mér sýnist augljóst að prósaljóð verði að skilgreina sem prósa með ljóðræn einkenni í meira eða minna mæli. Myndmál, líkingar, stundum nokkur stuðlun og ákveðin hrynjandi getur komið fyrir, en þá auðvitað óreglulega. Skotinn James McPherson þóttist hafa þýtt ljóð Ossíans úr gelískum þjóðkvæðum[10] en á þessum tíma tíðkaðist að þýða ljóð á óbundið mál, meðal annars fornkvæði úr íslensku.[11] Bæði Bjarni Thorarensen og Jónas Hallgrímsson þýddu „Úr kvæðum Ossíans“ (titill Bjarna), og þá stuðlað og undir hefðbundnum bragarháttum, jafnvel fornyrðislagi, eins og Íslendingi mátti þá þykja hæfa fornum kveðskap. Enginn hefur efast um að þessar þýðingar, sem standa í ljóðasöfnum skáldanna, séu ljóð. En megi frumtextinn þá ekki heita ljóð, liggur í augum uppi, að hið ljóðræna liggur í reglubundnum bragarháttum. Og þá er orðið prósaljóð mótsögn í sjálfu sér eins og Guðmundur Guðmundsson fyrrverandi framkvæmdastjóri og fleiri hafa löngum haldið fram. Ekki vill þó Þorsteinn skipa sér í þann flokk og er þar með kominn í mótsögn við sjálfan sig. Mörg fleiri dæmi mætti rekja, enda hefði einkennilegt verið ef sigurför Ossíans hefði ekki freistað skálda til að yrkja eitthvað í líkingu við það. En reyndar voru prósaljóð útbreidd áður eins og Nylander rekur.[12] Prósaljóð fóru að tíðkast á frönsku um 1700 og falsþýðingar erlendra ’fornkvæða’ birtust í prósaformi að fyrirmynd Ossíans þegar á 18. öld: Les Incas, 1777 og Chansons Madécasses (Söngvar frá Madagascar) 1787.[13] Goethe sagði, eins og fleiri, að ljóð bæri að færa í prósaform, þá fyrst kæmi ljóðræna textans í ljós, væri hún einhver.[14] Þorsteinn þekkir örugglega Náttsálma Novalis (Hymnen an die Nacht) frá um 1800, og nefnir sjálfur fleiri dæmi um bragfrelsi hjá Þjóðverjum í byrjun 19. aldar og fyrr á tíðum: Klopstock, Hölderlin og Goethe. Hvað kemur þetta módernisma við? Þorsteinn lætur ógert að fjalla um þetta, rekur bara orð Holz um að
franska vers libre-hreyfingin boðaði Þjóðverjum ekkert nýtt. Það er að líkindum nokkuð ofsagt, en breytingin var þó hvergi nærri eins byltingarkennd og í Frakklandi.[15]
En í hverju lá þá munurinn? Hér er ekki rúm til að fjalla ítarlega um þetta. Ég bendi þess í stað á ítarlega rannsókn Nylanders, einkum fyrstu rúmlega hundrað blaðsíðurnar um prósaljóð 18. aldar. En fáein dæmi legg ég í dóm lesenda. Náttsálmar Novalis eru mestmegnis prósaljóð, en innan um eru kvæði undir reglubundnum bragarháttum.[16] Ég reyni hér að snara öðrum Náttsálmi. Hann er hátíðlegt, tignandi ákall, en sama gildir um prósaljóð 20. aldar skáldanna Tagore, Saint-John Perse og Léopold Cédar Senghor.
Verður morgunninn alltaf að koma aftur? Þrýtur aldrei ofbeldi hins jarðneska? Vesælt óðagot eyðir himnesku aðflugi næturinnar. Mun aldrei heilög fórn ástarinnar brenna að eilífu? Ljósinu var úthlutaður sinn tími en drottnun næturinnar markast hvorki af tíð né stað. – Eilíft varir svefninn. Helgur svefn – ekki skaltu of sjaldan gera sæla hana sem nóttinni er vígð í þessu jarðneska dagsverki. Einungis kjánar bera ekki kennsl á þig og vita ekki af neinum svefni sem skugganum sem þú kastar á okkur af meðaumkun í rökkri sannrar nætur. Þeir finna ekki fyrir þér í gullnum straumi þrúgnanna – í undraolíu möndlutrésins og brúnum safa valmúans. Þeir vita ekki að það ert þú sem svífur um viðkvæm brjóst stúlkunnar og gerir kjöltuna að himni – grunaði ekki að úr gömlum sögum kemur þú fram og opnar himininn og berð lykilinn að dvalarstað sælla, þögull sendiboði óendanlegra leyndardóma.[17]
Einnig koma fyrir ljóð hjá Novalis með mislöngum órímuðum línum með óreglulegri hrynjandi, t.d. Hymne (Geistliche Lieder VII). En tökum eldra dæmi. Hjá Klopstock er ársett 1758 órímað kvæði með mislöngum línum, að vísu skipt í fjögurra lína erindi, en ekki þykir mér hrynjandi ýkja regluleg. Það er svo langt að hér verða fjögur erindi að nægja (1., 2., 19. og 20):[18]
Þeim sem hvarvetna er nærri
Þegar þú hafðir glímt við dauðann, við dauðann,
hafðir þú beðið ákafar,
þegar sviti þinn og blóð
hafði runnið á jörðina:
Á þessari alvarlegu stund
kunngjörðir þú þann mikla sannleik
sem verður sannleikur
svo lengi sem duft verður hjúpur eilífrar sálar.
Gleðstu yfir dauða þínum, ó líkami!
Þar sem þú rotnar
verður hann,
hinn eilífi!
- Gleðstu yfir dauða þínum, ó líkami! Í djúpum sköpunarinnar,
í hæðum sköpunarinnar mun rúst þín veðrast!
Einnig þar, þú rotnaði, örfoka, verður hann,
hinn eilífi!
Teldist þetta ekki fríljóð, að minnsta kosti ef erindaskiptingin hyrfi? Fríljóð greinast frá prósaljóðum með því að textinn er ekki prentaður í belg og biðu, heldur greinist í línur eftir efnissamhengi, ’segð’ eins og Þorsteinn kallar það. Fríljóð hefur því ekki verið nein stóruppgötvun enda kemur það fram áður en þau frönsku ljóð birtust 1884, sem Þorsteinn telur.[19] Þar má til nefna Grasblöð Walt Whitmans frá 1855 sem Þorsteinn sjálfur segir hafa haft áhrif á frönsku skáldin. Þorsteini finnst þó mikill munur á stíl þeirra og mælsku Grasblaða, en hér er um bragarhátt að ræða, ætla verður að frönsku ljóðskáldunum hafi verið kleift að tileinka sér hann án þess að láta bindast af mælsku orðfæri fyrirmyndarinnar. Ennfremur mætti nefna danska skáldið J.P. Jacobsen með Arabesker, 1870–1874, og fyrr talin þýsk skáld frá 18. öld, ennfremur á ensku, til dæmis The Marriage of Heaven and Hell eftir William Blake frá 1790.
Vitaskuld breyttust svo prósaljóð í tímans rás eins og annað. Merkileg er sú nýbreytni sem varð að tísku eftir miðja 19. öld, að hafa prósaljóð stutt og hnitmiðuð. Baudelaire rakti það til skáldbróður síns Bertrand, en orti sjálfur þau Smáljóð í prósa (Petits poèmes en prose, 1868) sem hvað áhrifaríkust urðu. Sú nýbreytni hefur reyndar verið rakin til áhrifa dagblaða upp úr 1830 stuttar klausur um hversdagsleg atvik á einföldu máli.[20] Hnitun er áberandi, endirinn víkur aftur til upphafsins.
Og eftir allt þetta skrifar Þorsteinn eins og prósaljóð og fríljóð hafi orðið til í lok 19. aldar! „Eftir árþúsunda stöðugleika fer nú að hrikta í byggingu skáldskaparins.“[21]
Bragfrelsi í íslenskum ljóðum
Nú höfum við séð prósaljóð og fríljóð með hefðbundnu ljóðmáli. Bragfrelsi og módernt myndmál eru alls ekki órjúfanlega tengd. Fjölmörg ljóð eru módern að myndmáli, en undir hefðbundnum bragarháttum eins og ég rakti í Kóralforspil hafsins.[22] Þessu sinnir Þorsteinn í engu. Hann vitnar iðulega til þessarar bókar en hann gefur engan gaum að því sem ég þar rek um bragfrelsi í íslenskum ljóðum, um og uppúr 1900! Ég tel hér það helsta:
[...] löngu voru Íslendingum kunn prósaljóð, sem að vísu var svolítið annar handleggur, en þó ljóðrænir textar án ríms, stuðlunar og reglubundinnar hrynjandi. „Ljóðrænt“ er þá hinsvegar málfar, myndir og fleiri efnistök. Slík prósaljóð birtust fyrst á íslensku 1884, í þýðingu Gests Pálssonar úr Senilia eftir Túrgenev, sem birtist fyrst á rússnesku 1882, og fór að birtast á dönsku sama ár (Nylander, 241). Úr sama safni komu verk í þýðingu þjóðskáldsins Steingríms Thorsteinsonar á fyrsta áratug 20. aldar. Prósaljóðum bregður fyrir hjá Einari Benediktssyni í lok 19. aldar, og hjá Jóhanni Gunnari Sigurðssyni, sem lést 1906 („Gull“ og „Við ána“). Þetta eru stök verk, en mun meira kveður að prósaljóðum upp úr fyrri heimsstyrjöld, mér þykir líklegt að það hafi mjög aukið á vinsældir þessa forms að indverska skáldið Rabindranath Tagore fékk Nóbelsverðlaun, 1913. Mikið var skrifað um Tagore og vinsamlega í íslenskum blöðum og tímaritum upp úr því, og 1919 birtust Ljóðfórnir hans á íslensku, en 1922 Farfuglar hans og 2. útgáfa Ljóðfórna, hvorttveggja í þýðingu Magnúsar Á. Árnasonar.[23] Upp úr því fjölgar prósaljóðum, 1919 birtist ljóðabálkur Sigurðar Nordals, „Hel“, og 1920, „Úr djúpinu“ eftir Jakob Smára (í fyrstu bók hans, Kaldavermsl). Ekki get ég séð neina mótspyrnu gegn þessu formi, öðru nær, prósaljóð voru orðin tíska á Íslandi um 1920, vottar Halldór Laxness 1946 (bls. 9) og segir um verk sitt frá 1920, „Fegursta sagan í bókinni“: „Stundum er fyrirmyndin Obstfelder; stundum Tagoreþýðingar; stundum Biflían eða önnur austurlandarit heilög.“ A.m.k. tvær fyrsttaldar fyrirmyndir eru greinilegar í prósaljóðabók Huldu; Myndir, sem birtist 1924, en mun hafa verið samin 1918.[24]
Í fyrstu bók Einars Benediktssonar er m.a. verkið „Gullský“ sem Einar skipaði sjálfur undir „Sögur“. Sumir hafa kallað þetta hugleiðingu, en aðrir prósaljóð. En það finnst mér meira réttnefni um miðhluta verksins „Stjörnudýrð“, sem Einar birti í blaði sínu Dagskrá, á aðfangadag 1896.[25]
Margt fleira mætti telja, til dæmis voru tvö dönsk prósaljóð þýdd í fyrsta árgangi tímaritsins Eimreiðarinnar 1895 til að kynna ílíkisstefnuna (symbólismann), einnig var töluvert um fríljóð í útbreiddu tímariti, Óðni, á öðrum áratug 20. aldar, meðal annars eftir Gunnar Gunnarsson, og svo áfram í ýmsum tímaritum millistríðsáranna, Eimreiðinni, Iðunni og Rétti. Það er athyglisvert að á þessum fyrsta þriðjungi 20. aldar verða nær engin mótmæli fundin gegn þessum algengu bragnýjungum. En síðar kom bakslag á fjórða áratug aldarinnar, lýðskrum fasista og stalínista leiddi til íhaldssemi í menningarmálum, alþjóðlega og á Íslandi. Þar kom til gamla krafan um að bókmenntaverk skyldu hafa „boðskap“, en þá urðu þau að vera auðskilin, þ.e.a.s. hefðbundin, til að ná til almennings og hafa áhrif á hann. Margir helstu nýjungamenn bókmennta á Íslandi voru í samtökum sem lutu leiðsögn stalínista, Félagi byltingarsinnaðra rithöfunda, sem stofnað var haustið 1933, og þeir snerust með um miðjan 4. áratug aldarinnar svo sem ég rakti í Rauðu pennunum.[26] Á fimmta og sjötta áratugnum, hófu nokkrir ungir menn aftur að yrkja í frjálsu formi. Og nú mætti frjálst ljóðform hatrammri andstöðu, ef til vill vegna þjóðernisstefnunnar sem blossaði upp undir hernámi og við lýðveldisstofnun enda voru nú flestir fyrri málsvarar menningarnýjunga orðnir íhaldssamir á því sviði, svo sem fyrr greinir. Halldór Laxness hæddist að rímáráttu Íslendinga á árinu 1932 en aðeins sjö árum síðar hamaðist hann gegn „ljóðum í óbundnu máli“.[27] Smám saman vann þetta ljóðform svo á, og varð ríkjandi í ljóðabókum um 1970.[28]
Þorsteinn leiðir allt þetta þegjandi hjá sér og heldur dauðahaldi í þá gömlu kreddu að ljóðbyltingin hafi orðið upp úr seinni heimsstyrjöld. En ekki nóg með það. Einnig fyrr var ljóðmál miklu róttækari nýjung nefnilega í ljóðum Halldórs Laxness um miðjan þriðja áratuginn. Einkum er þá vitnað til þess að hann hafi misst af skáldastyrk vegna birtingar kvæðis hans Unglingurinn í skóginum, 1925[29], en mun róttækari að ljóðmáli eru fáein ljóð sem hann birti 1927. Ég tel þau dæmi surrealísk vegna þess að þar er ósamrýmanlegum orðum skipað saman í orðasambönd sem verða því óskiljanleg röklega. Fyrir koma kunnugleg atriði, auðmýkt hins lægsta jarðargróðurs, og sál er líkt við fugl: „Sál mín er auðmjúk eins og lítið gras, / ástrík og trúuð líkt og heimskur fugl“. En hitt er undarlegra að líkja sálinni við tiltekna mannveru: „Önd mín er frjáls eins og útlendur prestur“ (Vorkvæði 2,3), eða hluta hennar við nýtækni [þá] í samgöngum: „samviskulaus eins og bifreiðaumferð í aprílmánuði“ (Nótt 6,2). Einnig er sömu árstíð líkt við dýr: „Apríllinn fnæsir sem fælinn hestur / falinn í kálgörðum Hörpu“ (Vorkvæði 2,1–2). Stórt er sett á miklu smærra og persónugert í mótsögn: „á sælum vörum sorgarinnar, / sofa turnar borgarinnar“ (Nótt 1, 11–12). Hjá Halldóri eru aðrar líkingar enn óskiljanlegri: „Heimur vor er ljóðdjásn frá lungunum til nefsins / Lofgerð vor er úthverfa grískra sjúkdómsnafna.“ (Nótt 1,3–4). Enn lengra gengur þessi tvinnaða líking: „þú græddir upp ljóðastraums gullmörk / með göllum á freraslóð“ (Borodin 1–2). Eins og ég hef rakið áður virðist röklegur skilningur kerfisbundið útilokaður.[30] Ekki sé ég jafn róttækt ljóðmál á íslensku síðan fyrr en Tíminn og vatnið eftir Stein Steinarr birtist á seinni hluta 5. áratugsins[31] en það verk einkennist mikið af samskonar surrealisma þar sem ósamrýmanleg atriði eru sameinuð. Þorsteinn minnist bara á „Unglinginn í skóginum“ og „Rhodymenia palmata“, sem voru miklu minni nýjung en þessi kvæði Halldórs.
Tilvísanir Þorsteins
Framangreindar yfirsjónir eru frágangssök. En ekki tekur betra við þegar rýnt er í það sem Þorsteinn hefur eftir fræðiritum. Hann hengir hatt sinn á að Hugo Friedrich sagðist una sér betur í félagsskap Goethes en Eliots og að hann skilgreindi módernismann neikvætt og því segir Þorsteinn að Friedrich “setji fyrir sig óskiljanleika” módernismans.[32] En þegar Friedrich segir um Illuminations Rimbaud að þær séu fyrsta stórvirki ímyndunarafls sem orðið sé algerlega nútímalegt (“Sie sind das erste grosse Denkmal der absolut gewordenen modernen Phantasie”)[33] þá skil ég það sem aðdáun, og það hlýtur þýskukennarinn og þýskuþýðandinn Þorsteinn að vita. Og þetta tel ég eitt dæmi af mörgum um óvandaða meðferð hans á fræðiritum sem hann vitnar til. Það skiptir að mínu mati engu máli hvaða skáldskap Hugo Friedrich var hrifnastur af. Ég hefi ekki meiri áhuga á því en hinu hvort hann var meira fyrir svínasteik eða héra. Spurningin er einfaldlega hvort lýsing hans á módernum ljóðmælum í þessari bók hans sé frjó, gefi góða hugmynd um þau. Það sýnist mér einmitt af öllum þessum neikvæðu skilgreiningum, sem Friedrich leggur áherslu á, að séu ekki fordæming. Hann segir ennfremur í lauslegri þýðingu minni:
Sú hugmynd reis af túlkun rómantískra ljóða, að ljóð væru einkum mál tilfinninga, tjáning einstaklingssálar. Því gætu ljóð veitt samkennd, jafnvel þeim sem mest væri einmana. En þessi kenning er of mikil alhæfing. Módern ljóð forðast þetta samkenndarrými. Þau sneiða hjá því sem kallað var mannlegt, þ.e., þau sneiða hjá reynslu, tilfinningum, og og oft sneiða þau hjá persónu skáldsins. Skáldið birtist þá ekki sem einstaklingur í ljóðum sínum, heldur er þar bara unnið úr möguleikum málsins, efnið séð frá óvæntum sjónarhóli.
Ég sé ekki að Þorsteinn hafi sýnt fram á að þessar skilgreiningar séu lítilsverðar. Það er óviðfelldið að sjá hann hallmæla Friedrich á sömu síðum og hann kemur með meginatriði hans[34] án þess að nefna að Friedrich segi í bók sinni að meginatriði módernra ljóða sé að skapa veruleika í stað þess að líkja eftir.[35] Og ekki er það neikvæð skilgreining.
Vissulega er ég ósammála skilgreiningu Eysteins Þorvaldssonar á módernisma, svo sem ég rakti bók minni.[36] Það er algengt að fólk greini á um slík heiti og skilgreiningar, einkum framan af. Ævinlega tekur nokkurn tíma fyrir bókmenntahugtök að skýrast og festast í sessi, svo það réttlætir ekki að hafna þeim. Ég tek bara þessa klausu úr bók minni um ágreining við bók Eysteins:
Það er einkennileg skilgreining á nútímaljóðum, að þau eigi að hafa einhver tvö af þremur einkennum, sem í raun tengjast ekkert innbyrðis: bragfrelsi, hnitun og sjálfstæði mynda. Það sýnir að hér er fyrst og fremst um tímasetningu að ræða, og reynt að spanna mjög sundurleitan straum nýjunga.
Ég undrast þó að Þorsteinn skuli taka Eystein í lið sitt með orðununum: „ef ”módern skáld“ þýðir hér „nútímaskáld“ eins og yfirleitt hjá Eysteini”[37], því Eysteinn sagði:
Í kringum 1950 er fyrst farið að ræða um skáldskap í þessari merkingu í rituðu máli og þá oftast nær með því að bendla hann við nútímann á villandi hátt: „nútímaljóðið“, „hin nýja ljóðlist“, „nútímaskáld“ ...[38]
Enda eru þessi orð Þorsteins í mótsögn við það sem hann segir þegar hann átelur skilgreiningu Eysteins á orðinu módern sem geri það að verkum að Þorpið eftir Jón úr Vör teljist ekki með.[39] Trauðla myndi þó nokkur, sem íslensku talar, efast um að það sé nútímaljóð. En þetta er bara enn eitt dæmi þess að þetta safnheiti Þorsteins leiðir í ógöngur. Myndu ekki allir fallast á að ljóð til dæmis Steins Steinars, Snorra Hjartarsonar, Sigfúsar Daðasonar, Einars Braga, Hannesar Péturssonar, Matthíasar Johannessen og Dags Sigurðarsonar teljist til nútímaljóða? Hverju eru menn nær? Hvað eiga öll þessi skáld sameiginlegt annað en að yrkja á íslensku á sama tímabili og þá iðulega fríljóð og prósaljóð.
Þorsteinn segir ennfremur:
Reyndar kemur hvergi fram í umræðu hér á landi (fyrr en með þýðingu Benedikts Hjartarsonar á surrealistaávarpinu) svo mér sé kunnugt, það sem þó var stefnuskráratriði hjá Breton, að samband liðanna í myndhverfingu ætti að vera sem langsóttast, hin frjálsu hugtengsl sem handahófskenndust.[40]
Þetta er enn eitt dæmi um hve lítt Þorsteini nýtast rit sem hann vitnar til. Ég sagði í bók minni:
Megineinkenni súrrealískrar listar má telja það, sem helsti leiðtogi súrrealista, André Breton, hélt mjög á lofti, og tók raunar eftir öðru skáldi, Pierre Reverdy, að skáldleg mynd yrði því máttugri, sem hún tengdi meiri andstæður saman. Því voru súrrealistar einatt að vitna til klausu úr Söngvum Maldorors eftir Lautréamont (frá árinu 1869): „Fagurt eins og þegar saumavél og regnhlíf hittast af tilviljun á líkskurðarborði.“[41]
Þorsteinn tilfærir klausu úr fyrra Surrealistaávarpi Bretons réttilega:
„Myndin er hrein sköpun andans. Hún getur ekki orðið til við samanburð heldur við tengingu tveggja veruleika sem eru meira eða minna fjarlægir.
Því langsóttara og réttara sem samband veruleikanna tveggja sem tengjast er, því sterkari verður myndin, þeim mun meiri tilfinningaþrótti og skáldlegum veruleika býr hún yfir.“[42]
En í framhaldi lætur Þorsteinn eins og orðið sem ég auðkenndi, standi ekki þarna, sambandið eigi bara að vera „handahófskennt“. Breton tók þessa skilgreiningu raunar aftur upp aldarfjórðungi síðar, 1949, í bókinni Rísandi merki (Signe ascendant) og bætti þá við (sbr, grein mína í Andvara 2005):
Svo bráðnauðsynlegt sem þetta skilyrði er, þá nægir það ekki. Við hlið þess skipar sér önnur krafa, sem gæti reynst siðferðileg, þegar allt kemur til alls. Athugið að enda þótt hliðstæðumyndin takmarkist við að varpa hinu skærasta ljósi á svip að hluta, þá getur hún ekki orðið jafna. Hún hreyfist milli þeirra tveggja fyrirbæra, sem birtast, í ákveðna átt, og þeirri hreyfingu verður ekki snúið við. Frá fyrra fyrirbærinu til hins síðara markar hún lífsþrungna spennu sem beinist eins og mögulegt er að heilbrigði, ánægju, kyrrð, veittum þokka, samþykktum siðum.[43]
Í Kóralforspili skrifaði ég meðal annars:
Í þessari rannsókn rekumst við iðulega á þessa ofuráherslu á hugmyndir í bókmenntaverkum, áherslu á umfjöllunarefni skálda og viðhorf, rétt eins og þeir hefðu skrifað blaðagreinar en ekki bókmenntaverk. Ég held að þetta viðhorf megi kalla atvinnusjúkdóm menntamanna. Samkenni þeirra er í rauninni hvorki þekking, prófgráður né fræðileg vinnubrögð, heldur einfaldlega það, að þeir fást við hugmyndir, fyrst og fremst. Því eru það þær sem einkum höfða til þeirra í bókmenntum, nema þeir fái þjálfun í að huga að öðru.[44]
Úr þessu gerir Þorsteinn að ég kalli það „atvinnusjúkdóm menntamanna“ að gefa gaum að hugmyndum”[45] í stað þess sem ég sagði, að leggja ofuráherslu á þær. Til hvers er þessi rangfærsla? Til að auðvelda að hafna riti mínu?
Ennfremur segir Þorsteinn að skilgreining mín á módernisma sé „fjarskalega þröng, mun þrengri en enska hugtakið modernism, og hæfir varla öðrum ljóðum en þeim sem eiga ættir að rekja til súrrealisma.“[46] Þetta eru bein ósannindi, ég ræði auk þess expressjónisma á fimmtán blaðsíðum og hvernig megineinkenni hans greinist frá áberandi einkennum surrealisma.[47] Hvorttveggja kalla ég módernisma. Ég ræði líka ensk módern ljóð þar sem tilefni gafst til, nefnilega Eyðiland Eliots í sambandi við Hannes Sigfússon.[48]
Meginniðurstaða mín var, að sameiginlegt einkenni ýmiskonar módernisma í ljóðum og lausu máli sé sundruð framsetning, andstæðufull. En innan þessa meginstraums módernisma megi telja það áberandi einkenni margra surrealiskra verka að tengja ósamrýmanleg fyrirbæri, svo að setning verði röklega óskiljanleg. Í expressjóniskum verkum hef ég hinsvegar ekki rekist á það, heldur stílandstæður milli skiljanlegra málsgreina, svo að heildarmyndin verður sundruð, rúmar andstæður. Það á augljóslega líka við um Eyðiland Eliots og fleiri ljóð hans, svo og annarra módernra skálda. Við þennan skilning verð ég að standa, því ekki hefur hann verið hrakinn, og síst af Þorsteini sem sniðgengur allt sem mælt gæti gegn hans gamalgrónu hugmyndum.
[1] Sigfús Daðason (1959:78–81).
[2] Þorsteinn Þorsteinsson (2005:97).
[3] Þorsteinn Þorsteinsson (2005:123).
[4] Þorsteinn Þorsteinsson (2005:100).
[5] Þorsteinn Þorsteinsson (2005:127).
[6] Þorsteinn Þorsteinsson (2005:122).
[7] Sjá Kóralforspil hafsins (1992:51 og áfram)
[8] Nylander, Lars (1990:19).
[9] Nylander, Lars (1990:78).
[10] Það komst fljótlega upp um kauða, að hann hefði ort þetta mest sjálfur, því þarna voru augljós áhrif frá Virgli og Milton, sem ólíklegt þótti að ólæst skoskt alþýðufólk hefði þekkt öldum áður.
[11] Sjá Nylander, Lars (1990:19–20).
[12] Sjá Nylander, Lars (1990:90 og áfram).
[13] Nylander, Lars (1990:96).
[14] Sjá Nylander, Lars (1990:80, 61 og 71).
[15] Þorsteinn Þorsteinsson (2005:106).
[16] Ekki er hér rúm fyrir langt umtal um þetta, ég nefni bara að einnig hjá Hölderlin eru órímuð ljóð með mislöngum línum í óreglulegri hrynjandi, t.d. Versöhnender der du nimmergeglaubt... (SW 301 o.áfr.)., Friedensfeier (SW 307 o.áfr.), Wenn aber die Himmlischen (SW 365 o.áfr.), Und mitzufühlen das Leben, Vom Abgrund nämlich, Der Vatikan, Griechenland (SW 379-383).
Lesendur þessa munu hafa aðgang að textum Goethes og helstu skálda, enda eru þau auðfundin á netinu, nægir að gúgla nöfn skáldanna (gá á Google).
[17] Muss immer der Morgen wiederkommen? Endet nie des Irdischen Gewalt? Unselige Geschäftigkeit verzehrt den himmlischen Anflug der Nacht. Wird nie der Liebe geheimes Opfer ewig brennen? Zugemessen ward dem Lichte seine Zeit, aber zeitlos und raumlos ist der Nacht Herrschaft. - Ewig ist die Dauer des Schlafs. Heiliger Schlaf – beglücke zu selten nicht der Nacht Geweihte in diesem irdischen Tagewerk. Nur die Toren verkennen dich und wissen von keinem Schlafe, als dem Schatten, den du in jener Dämmerung der wahrhaften Nacht mitleidig auf uns wirfst. Sie fühlen dich nicht in der goldenen Flut der Trauben - in des Mandelbaums Wunderöl, und dem braunen Safte des Mohns. Sie wissen nicht, dass du es bist, der des zarten Mädchens Busen umschwebt und zum Himmel den Schoss macht – ahnden nicht, dass aus alten Geschichten du himmelöffnend entgegentrittst und den Schlüssel trägst zu den Wohnungen der Seligen, unendlicher Geheimnisse schweigender Bote.
[18] Klopstock III, 75-9. Það er undarlegt kvæði. Myndmálið er frá hinni heilögu kvöldmáltíð, en annars er kvæðið allt afar holdlegt, lýsir losta.
Dem Allgegenwärtigen
Da du mit dem Tode gerungen, mit dem Tode,
Heftiger du gebetet hattest,
Da dein Schweiss und dein Blut
Auf der Erde geronnen war:
In dieser ernsten Stunde
Tatest du jene grosse Wahrheit kund,
Die Wahrheit sein wird,
Solang die Hülle der ewigen Seele Staub ist.
[...]
Freue dich deines Todes, o Leib!
Wo du verwesen wirst,
Wird er sein,
Der Ewige!
- Freue dich deines Todes, o Leib! In den Tiefen der Schöpfung,
In den Höhn der Schöpfung wird deine Trümmer verwehn!
Auch dort, Verwester, Verstäubter, wird er sein,
Der Ewige!
Són, 4. hefti, haust 2006
[19] Þorsteinn Þorsteinsson (2005:104).
[20] Nylander, Lars (1990:154).
[21] Þorsteinn Þorsteinsson (2005:94).
[22] Sjá til dæmis Örn Ólafsson (1992:57–76).
[23] Sjá nánar um þetta rit mitt 1990, k. 4.3. Önnur útgáfa Ljóðfórna var 700 eintök (sjá kápu), en fyrri útg. 500, skv. ritfregn í Eimreiðinni 1920, þau hafa þá væntanlega selst upp á 2-3 árum.
[24] Að sögn Guðrúnar heitinnar Bjartmarsdóttur, sem annaðist ljóðaúrval Huldu hjá Bókmenntastofnun. Þorgeir Þorgeirsson og Vilborg Dagbjartsdóttir bentu mér á Gullský. Prósaljóðið Haust eftir Jóhann Jónsson er af sama tagi og verk Halldórs.
[25] Örn Ólafsson. Kóralforspil hafsins (1992:13–14).
[26] Örn Ólafsson. Rauðu pennarnir (1990:125 og 165 og áfram).
[27] Örn Ólafsson. Rauðu pennarnir (1990:126–127).
[28] Sjá Ólafur Jósson. Skírnir (1981:107).
[29] Þá skýringu gaf Halldór sjálfur í formála Kvæðakvers síns. Ég hélt því fram í Skírni 1985, að Halldór hefði misst styrkinn vegna almenns niðurskurðar á fjárlögum, ekki væri að marka þessa skýringu hans. Hannes Hólmsteinn hefur hinsvegar í bók sinni Halldór, bls. 306 o.áfr. leitt rök og vitnisburði fyrir því að ólíkt því sem ég taldi, þá hafi raunveruleg andúð gegn þessu ljóði Halldórs orðið með öðru til þess að Alþingi veitti honum ekki skáldastyrk 1925. Hallbjörn Halldórsson gat þess til í grein um Halldór, 1929 (bls. 393-4) að hér hefði einkum ráðið ótti þingmanna við íhaldssemi kjósenda.
[30] Kóralforspil hafsins (58 og áfram).
[31] Sjá nánar um Tímann og vatnið grein mína í Andvara 2005.
[32] Þorsteinn Þorsteinsson (2005:101).
[33] Friedrich, Hugo. (1988:84).
[34] Þorsteinn Þorsteinsson (2005:99–101).
[35] Friedrich, Hugo. (1988:17 og víðar).
[36] Örn Ólafsson. Kóralforspil hafsins (1992:24).
[37] Þorsteinn Þorsteinsson (2005:115–116).
[38] Eysteinn Þorvaldsson (1980:17).
[39] Þorsteinn Þorsteinsson (2005:120–121).
[40] Þorsteinn Þorsteinsson (2005:116).
[41] Örn Ólafsson. Kóralforspil hafsins (1992:55).
[42] Þorsteinn Þorsteinsson (2005:112).
[43] Breton, Andre (1949:11–12). Þýðing mín.
[44] Örn Ólafsson. Kóralforspil hafsins (1992:23).
[45] Þorsteinn Þorsteinsson (2005:96).
[46] Þorsteinn Þorsteinsson (2005:97).
[47] Örn Ólafsson. Kóralforspil hafsins (1992:43–57).
[48] Örn Ólafsson. Kóralforspil hafsins (1992:104 og áfram).
Örn Ólafsson:
Skörðótt bókmenntafræði
Bók Þorsteins Þorsteinssonar um Sigfús Daðason
Sigfús Daðason (1928-1996) var með virtustu ljóðskáldum á síðara hluta 20. aldar, og er enn. Ljóðagerð hans spannar nær allt það tímabil, því fyrsta ljóðabókin var Ljóð 1947-1951, og Þorsteinn gaf út eftirlátin ljóð Sigfúss 1997. Aðeins 126 kvæði liggja eftir skáldið frá þessari hálfu öld, en auk þess þýðingar, ritgerðir og bók um Stein Steinarr. Oft leið langt á milli hans 6 ljóðabóka, átján ár milli annarrar og þriðju. En Þorsteinn rekur að útgáfusagan sé villandi, Sigfús hafi ort ”nokkuð jafnt ef áttundi áratugurinn er undan-skilinn” (bls. 15). En þá hafi annríki við brauðstrit torveldað yrkingar.
Sigfús var mikilvirkur og virtur ritgerðahöfundur, einkum á sjöunda áratugnum. Hér er lítt um það fjallað, nema hvað varðar ljóðin, enda hafði Þorsteinn gefið út ritgerðasafn Sigfúss með formála (árið 2000). Ekki er heldur fjallað um þýðingar hans á ljóðum né lausamálsverkum, heldur eingöngu um ljóð hans á 400 bls. Helstu æviatriði Sigfúss koma fram í þessari bók, en sem betur fer takmarkar Þorsteinn þau við hið allra nauðsynlegasta. Sigfús ólst upp á bóndabæjum á norðuströnd Snæfellsness, veikbyggður og oft alvarlega veikur. ”Frá fjórtán ára aldri til tvítugs lá Sigfús oft á Landsspítalanum og Hvítabandinu, eða í tæpa 24 mánuði samtals, allar legurnar vegna blæðandi ristilbólgu. [...] Haustið 1949 veiktist hann svo af berklum og var rúma sjö mánuði á Vífilstöðum” (bls. 30). En á árinu 1951 tók hann stúdentspróf utanskóla, gaf út fyrstu ljóðabók sína og fór til Frakklands til náms í bókmenntum. Átta árum síðar, 1959, fluttist hann svo heim til Íslands, gaf út aðra ljóðabók sína og fór að starfa hjá Máli og menningu, þar sem hann var til ársins 1975, þegar honum var bolað burtu eftir hallarbyltingu. Hann stofnaði þá lítið forlag, Ljóðhús, sem hann rak næstu árin.
Ljóðaumfjöllun.
Bók þessi takmarkast þá að mestu við umfjöllun ljóða Sigfúss, og var það vel ráðið. Mörgum hefur gengið illa að átta sig á ljóðum Sigfúss, þau hafa bæði verið kölluð vitsmunaleg umfjöllun, en stundum einnig myrk, vafist hefur fyrir fólki hvort taka bæri sumt alvarlega, einkum svartsýni og formælingar, kaldhæðni í bland við jákvæða afstöðu til umhverfisins og ástaljóð. Umfjöllun Þorsteins er rækileg, gerir grein fyrir bæði viðvarandi einkennum á ljóðunum og breytilegum í tímans rás. Þorsteinn tilfærir mikinn lærdóm bókmenntafræðinga um ýmis efni, þar á meðal ræðir hann oft ágreining um það hvort þekking á bakgrunni ljóða eða efniviði, svo sem æviatriðum skáldsins skipti máli fyrir skilning á ljóðum þess. Hann færir sannfærandi rök fyrir að þetta sé breytilegt, auðvitað verði ljóð að standast lestur án slíkrar þekkingar, en hún geti auðgað skilning á ljóðum, einkum ef um sé að ræða skopstælingar og annað sem taki afstöðu til umhverfisins. Hann sýnir amk. óbeint fram á að þekking á raunum Sigfúss á æskuárum skiptir engu máli um skilning á sortaljóðum hans sumum, en hinsvegar finnst mér umfjöllun hans um hið langa ljóð Myndsálir mjög þörf, þar sem hann rekur efnivið þess og persónur til samsærisins gegn Sigfúsi, sem hrakti hann frá Máli og menningu.
Þorsteinn gerir góða grein fyrir hvaða skáld, frönsk, þýsk og ensk, hafi einkum haft áhrif á einstök ljóð Sigfúss. Umfjöllun hans beinist einkum að skýringum, að gera skiljanlegt hvaðeina sem myrkt kann að þykja í ljóðum Sigfúss. Það er auðvitað þakkarvert. Sömuleiðis gerir Þorsteinn vel grein fyrir allskyns mælskubrögðum sem einkenna byggingu ljóðanna og framsetningu. Ég hefði óskað þess að hann gengi lengra í þeirri umfjöllun framsetningar, fjallaði meira um byggingu ljóðanna út frá stílblæ orða og hverju er líkt við hvað í myndhverfingum, svo og hvað er helst dregið fram í myndmáli og á hvern hátt. Þar held ég að enn sé verk að vinna kunningjum mínum sem ég veit að hafa haft hug á að fjalla um ljóð Sigfúss. En auðvitað er matsatriði hve langt ber að ganga í umfjöllun ljóða.
Bók Þorsteins byggist einkum á einum átta greinum hans sem birtust á árunum 2001-5. Af því leiðir að töluvert er um endurtekningar í bókinni, og finnst mér að forlagið hefði átt að benda höfundi á að bókinni yrði styrkur að því að afmá þær sem mest. En óvíst er að Þorsteinn hefði gegnt slíku, því hann er allt annað en talhlýðinn. Kemur nú að því.
Ljóðbylting
Í kaflanum Útúrdúr um ljóðbyltingar (bls. 80-128) ítrekar Þorsteinn ýmsar rangfærslur og kreddur sem ég þykist hafa hrakið, fyrst í tölvubréfum til hans á síðustu mánuðum ársins 2005, svo í grein í tímaritinu Són, haustið 2006 (hana má lesa á vefslóð minni http://oernolafs.blogspot.com). Hér verður að stikla á stóru.
Kaflinn fjallar um þá miklu byltingu í bókmenntum m.a., sem hófst í Frakklandi á síðustu áratugum 19. aldar, og breiddist út um lönd og álfur, einkum á fyrsta fjórðungi eftirfarandi 20. aldar. Þetta er óumdeilt, en hitt greinir menn nokkuð á um, hvar eigi að setja mörkin milli þessara bókmennta og annarra, hvað eigi að kalla þennan bókmenntastraum og hver séu höfuðeinkenni hans. Ég tel hann einkennast af sundurleitri framsetningu, og hafði um hann orðið módern, í bók minni um þetta fyrirbæri í íslenskum bókmenntum (Kóralforspil hafsins, 1992), að fyrirmynd Eysteins Þorvaldssonar í bók hans Atómskáldin (1980). Þorsteinn kýs að kalla þetta nútímaljóð og telur megineinkenni þessa vera bragfrelsi; prósaljóð og fríljóð, og það telur hann komast á alþjóðlega undir lok 19. aldar í Frakklandi, en uppúr seinni heimsstyrjöld á Íslandi. Hvorttveggja er alrangt.
Ég rakti í Kóralforspil hafsins (bls. 13-14) að prósaljóð séu: „ljóðrænir textar án ríms, stuðlunar og reglubundinnar hrynjandi. "Ljóðrænt" er þá hinsvegar málfar, myndir og fleiri efnistök“. Dæmi er sigurför prósaljóða Ossians um Evrópu uppúr 1760. Skotinn James McPherson þóttist hafa þýtt þau úr gelískum þjóðkvæðum, og á þessum tíma tíðkaðist að þýða ljóð í prósaform, m.a. fornkvæði úr íslensku. Bæði Bjarni Thorarensen og Jónas Hallgrímsson þýddu ”Úr kvæðum Ossíans” (titill Bjarna), og þá stuðlað og undir hefðbundnum bragarháttum, jafnvel fornyrðislagi, eins og Íslendingi mátti þá þykja hæfa fornum kveðskap. Enginn hefur efast um að þessar þýðingar – sem standa í ljóðasöfnum skáldanna - séu ljóð. En megi frumtextinn þá ekki heita ljóð, liggur í augum uppi, að hið ljóðræna liggur í reglubundnum bragarháttum. Og þá er orðið prósaljóð mótsögn í sjálfu sér, eins og ýmsir fjandmenn fríljóða og prósaljóða hafa löngum haldið fram. Ekki vill þó Þorsteinn skipa sér í þann flokk og er þar með kominn í klípu. Mörg fleiri dæmi mætti rekja, enda hefði einkennilegt verið ef sigurför Ossíans hefði ekki freistað skálda til að yrkja eitthvað í líkingu við það. En reyndar voru prósaljóð útbreidd áður, þau fóru t.d. að tíðkast á frönsku um 1700, einnig á norðurlöndum skv. rannsókn Nylander. Hefði nú ekki verið sjálfsögð kurteisi við ljóðmæringana Bjarna og Jónas að útskýra okkur í hverju þeim skjátlaðist um ljóðrænt?
[hér kom útdráttur greinar minnar í Són, Forn prósaljóð og fríljóð]
Svar um “skörðótta bókmenntafræði” (Lesbók 25/8 2007, bls.10).
Þorsteinn Þorsteinsson virðist ekki skilja orðið “skörðótt”. Rís af því fimbulfamb um landakort í sömu stærð og landið sem það sýnir. Auðvitað getur Þorsteinn ekki tengt það á nokkurn hátt við skrif mín, og því síður sýnt fram á að þar sé ekki farið eftir því sem ég boða, að fræðimönnum beri að kanna hvort eitthvað mæli gegn túlkun þeirra. En hinsvegar er það vitaskuld almenn borgaraskylda að bera fram það sem menn telja sig vita sannast og réttast og mótmæla því sem þeir telja rangt.
Þorsteinn fjölyrðir um hve oft ég skrifi um það sama með sama orðalagi, en nefnir ekki hitt að jafnan var þetta svar við skrifum hans. Fyrir kom að hann gengi eftir svari! Og síst var meiri endurnýjunin á hans bæ, ekki í orðalagi og enn síður í hugsun.
“Skörðótt” á auðvitað við misháan fjallgarð (sbr. orðabækur) og þar af leiðir að ég tel ýmislegt rísa hærra en annað í umræddri bók Þorsteins, enda hrósa ég mörgu í henni, eins og allir geta séð í fyrsta hluta greinar minnar. Mér er því alls ekkert kappsmál að “kveða Þorstein í kútinn”, né getur hann sýnt fram á að ég þykist hafa einkaleyfi á alkunnum hugtökum. En hér birtist hvað mótar skrif hans, því miður, það er metingur fremur en sannleiksleit. Danir hafa um þetta líkingu úr knattspyrnu, að sækja eftir leikmanni frekar en boltanum, og þykir gefast illa. Leiði ég því hjá mér persónulegt hnútukast í grein Þorsteins.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli