miðvikudagur, 6. desember 2006

Uppsprettur Tímans og vatnsins

Ljóðabálkur Steins Steinars, Tíminn og vatnið, birtist um miðja 20. öld, og hefur æ síðan verið með vinsælustu ljóðum á íslensku. Þær vinsældir held ég hafa alla tíð fyrst og fremst byggst á mjög myndrænni framsetningu og óvenju­legri. Ég hefi haldið því fram (í Kóralforspil hafsins 1992) að hún geri bálkinn óræðan, óskiljanlegan röklega. Í þeirri umfjöllun (bls. 80-104) fjallaði ég um helstu túlkanir bálksins. Hér er ætlunin að kanna sérkenni myndmáls þessa ljóða­bálks og leita fyrirmynda. Í handritum Steins eru drög sumra þessara ljóða á ýmsum stigum, en einnig fullgerð ljóð af sama tagi, og mörg góð, þótt hann birti þau ekki sjálfur. Flest hafa þau síðan birst í nýjustu útgáfu ljóða hans[1]. Samanlagt verður þetta lítið eitt lengra safn ljóða en Tíminn og vatnið, áþekkt honum, 25 ljóð (hér kallað Lokaljóð Steins), og er hér borið saman við hann. En hér er um að ræða úrval síðustu ljóða Steins, meðal eftirlátinna óprentaðra ljóða hans eru einnig ljóð af öðru tagi, ennfremur nokkur á mörkum þessara tvennskonar ljóða (myndræn en ekki mótsagna­kennd eins og Tíminn og vatnið[2]). Ekki er stefnt að almennri greinargerð um þessi ljóð, heldur eingöngu reynt að finna dæmi tiltekins ljóðmáls. Umfjölluð ljóð eru talin upp aftan við þessa grein, og birt þau sem ekki hafa birst í ljóðasafni Steins.
Sigfús Daðason segir í bók sinni um Stein (bls. 80-81) að hann "sat um kyrrt í Reykjavík öll stríðsárin [...] Rétt í lok stríðsins tók Steinn sig upp og fór til Norðurlanda. Var hann átta mánuði í þeirri ferð og dvaldist aðallega í Svíþjóð. Steinn fór enn utan undir árslok 1946, fyrst til Kaupmannahafnar og síðan til Parísar og kom heim í apríl." Þegar Steinn fór utan í stríðslok höfðu þegar birst í tímaritum, allt frá 1944, átta ljóðanna sem síðar komu í Tímanum og vatninu, einkum þó í seinni gerð bálksins, en 1946-8 birtust í tímaritum tíu í viðbót, svo sem Sveinn Höskuldsson rakti í grein um tilurð ljóðabálksins 1971 (undir titlinum “Dvalið hjá djúpu vatni”, bls. 157-8). Raunar höfðu öll ljóð fyrri gerðar nema eitt birst á árinu 1947, en frá því ári er einskonar frum­gerð ljóða­bálksins, þó með aðeins tíu ljóðum, varðveitt í einu vélrituðu ein­taki (tv. r. Sveins, bls. 159-60). Bálkurinn birtist svo með 13 ljóðum í 200 eintökum, líklega 1948 (tv. r. bls. 156), en 1956 birtist hann aftur, aukinn upp í 21 ljóð.
Danska ljóðskáldið Poul P. M. Pedersen sendi frá sér sex bindi þýðinga íslenskra ljóða á dönsku á árunum 1961-82. Í eftirmála ann­ars bindis, en það var ljóða­úrval Steins Steinars (Rejse uden løfte, 1964) nefnir Pedersen (bls. 187) skáld sem haft hafi áhrif á ljóðagerð Steins, og telur sér­staklega Erik Lindegren sem Steinn hafi kynnst þegar hann dvaldist ár í Svíþjóð um miðjan fimmta ára­tuginn. Auk þess nefnir Pedersen Arthur Lund­kvist, Harry Martinson, og sænsk­talandi finnsku skáldin Edith Södergran og Elmer Diktonius. Enn­frem­ur nefnir Pedersen svo banda­rísku skáldin T.S. Eliot og Carl Sandburg sem líklega áhrifavalda.

Í Svíþjóð
Hannes Sigfússon segir í endurminningum sínum 1985 frá samvistum þeirra Steins í Stokkhólmi undir árslok 1945, og m. a. (bls. 18) af kynnum þeirra af samtímaskáldunum sænsku, „förtitalisterna“. Þar nefnir hann sérstak­lega verk Erik Lindegren, mannen utan väg, og segir að þar var

hroðað saman orðum sem stönguðust hvert við annað af slíkum fítonsanda að allt skynsamlegt samhengi var óhugsandi.

En Hannes gerir lítið úr áhrifum þessara skálda á þá Stein:

Okkur Steini vaknaði að vísu nokkur forvitni af þessum skrifum um ný skáld, og við munum báðir hafa gluggað í tímarit þeirra „40 tal“, án þess að festa hug eða sérstakan áhuga á lesmálinu. Steinn var kominn að lokum höfundarferils síns og glímdi við strangt tersínuform sem var að því leyti nýstárlegt að það hylmdi rækilega yfir skoðanir höfundarins á tilverunni. Ég var aftur á móti óskrifað blað og óráðin gáta í bókmenntalegu tilliti og næstum blindur á annan skáldskap en var í ætt við Stein. Auk þes var ég enn á þeim buxunum að mér væri fyrirhugað að verða skáldsagnahöfundur þegar tímar liðu fram.

Mér sýnist að Hannesi skjöplist greypilega um Stein, og verður komið að því hér á eftir. Auk þess átti Steinn enn rúman áratug ólifaðan, og orti þá, m.a. þau ljóð sem hér um ræðir.
Erik Lindegren (1910-68) gaf fyrst út ljóðabókina Posthum ungdom 1935, hún þótti vönduð en býsna hefðbundin (Göransson, bls. 226). Fá ljóð birti hann næstu árin, orti mannen utan väg frá því í ágúst 1939 til jafnlengdar 1940, en fékk ekki útgefendur. Loks gaf hann sjálfur út bókina með liðstyrk vina, tveimur árum síðar, og aðeins í 200 eintökum (Linder, 838) – eins og Steinn Tímann og vatnið 1948. Ekki voru ritdómar sérlega jákvæðir (Göransson, 846), bókin gekk jafnvel fram af helstu módernum ljóðskáldum Svía. ”Ljóð fyrir ljóðskáld” kallaði Gunnar Ekelöf hana, Arthur Lundkvist lofaði dirfsku skálds­ins, en kallaði bókina ”tilraun”, Vennberg lofaði ”eld­fjalla­bál mik­illar ljóðlistar”, en neikvæðari þóttu orð hans: ”ljóðrænar kjarnorku­spreng­ingar”. En þessir ritdómar urðu þó til þess að Lindegren fékk starf sem ritdómari víða, einnig þýddi hann töluvert á þessum árum, m.a. Paul Valéry, Faulkner og T.S. Eliot. Smám saman vann bókin á, og 1946 var hún end­urút­gefin af höfuðforlagi Svía, Bonnier. Göransson segir (bls. 227): að bókin sé eitt sérstæð­asta ljóðasafn sænskrar tungu, og jafnframt eitt hið mik­il­vægasta. Á næstu árum eftir útkomu bókarinnar hafi ungt bók­menntafólk gripið hana sem túlkun á reynslu kynslóðar sinnar. Sjaldan hafi hún verið stæld, en óbeint hafi ljóðstíll hennar og afstaða (”ideologiska hållning”) haft víðtæk áhrif. Eftir það birti Lindegren ljóð um einstök surrealísk málverk í bók um slíka málara, Halmstadgruppen, en fæst þeirra ljóða þóttu verð að komast með í ljóðasafn hans síðar. Sama ár, 1947, birtist svo ljóðabók hans, Sviter, en loks Vinteroffer 1954. Einungis þessar þrjár síðustu bækur eru í ljóðasafni Lindegrens. Göransson (bls. 230) gerir ráð fyrir að hann hafi ekki ort síðasta hálfan annan áratuginn, því hann hafi alltaf leitað nýrra leiða, þegar hann þóttist kominn eins langt og hann gat á tiltekinni leið, sú fullkomnunarhneigð hafi loks leitt hann til þagnar. Hvað sem því líður, varðar það ekki þessa umfjöllun, sem snertir eingöngu mannen utan väg.
Peter Hallberg fjallar um þennan ljóðabálk í einum kafla síns mikla verks Diktens bildspråk, 1982. Hann gerir fyrst (bls. 522 o.áfr.) grein fyrir umfangi ljóða­bálksins og formi[3]. Hann skiptist í 40 ljóð. Hvert þeirra er sjö línupör, þetta eru þá einskonar sónhendur, en með óvenjulegri uppsetn­ingu þó, því venjan er ann­að­hvort tvö fjögurra lína erindi og tvö þriggja línu (ítalskar són­hend­ur), eða þrjú fjögurra línu erindi auk línupars (Shakespeare-sónhendur). Hér eru ljóð­línur auk þess mjög mislangar, allt frá 11 atkvæðum upp í 17. Ekki er enda­rím, og hrynj­andi er óregluleg, svo kalla mætti ljóðabálkinn lausamál gætt hrynj­andi, segir Hallberg (s.st.) en þeirri lýs­ingu and­mælir Göransson (bls. 228), og segir að Lindegren hafi einmitt risið gegn slíku, sem tíðkast hafði á 4. áratugnum í Svíþjóð, en í því hafi Arthur Lundkvist verið fremstur. Nokkuð ber á stuðlun og endur­tekn­ingum á orð­skipan, auk þess sem fyrir kemur að sama sér­hljóð ríki í áhersluatkvæðum flestra orða í línupari. Setn­inga­skipan er jafnan eins og í venjulegu máli, en gegn þessari reglu­festu kemur sundrað mynd­mál (Göransson, 227). Fyrirmynd þessa sér­stæða sónhenduforms var ljóða­bálk­ur eftir Englendinginn Lawrence Durrel, segir Göransson (bls. 228). Ekki sé ég þó annan svip en að nokkur kvæða Durrels eru sett upp í línupör. Linder (bls. 839) nefnir Dylan Thomas sem fyrirmynd Lindegrens í þessu formi. Og eins og vikið verður að síðar, líkist bæði bragarháttur og ljóðmál mannen utan väg sónhendusyrpu eftir Thomas.
Hallberg segir (bls. 524-5) að svo njörvað sem form mannen utan väg megi þykja, þá sé erfitt að ná merkingarlegu samhengi í því, andstæð fyrirbæri komi skyndi­lega fram, án þess að nokkur frásögn tengi þau eða skýri. Einnig eru orðasambönd sem rúma andstæður, alls reiknast Hallberg að meðaltali þrjú slík orða­sam­bönd á sónhendu í mannen utan väg. Slíkar líkingar setji því sterkan svip á orða­lag bálksins (bls. 543). Umhverfi í bálkinum sé annarlegt norrænum lesendum, t.d. birtist eyði­mörk sjö sinnum, og sé það greinilega táknrænt. Orðið tákni ekki fram­andi landslag, heldur gefi frekar í skyn tilfinningu eyðileika og framandleika. Tákn­ræn séu líka hellir og gjá, samanlagt jafntíð. Einnig er oft nefnt haf og vatn, og dýr í hefð­bundn­um táknrænum hlutverkum; gammur, ljón, hundur, snákur, hind, næturgali. Ævin­lega séu þessi náttúrufyrirbæri ek. hlutgerving (”objektiva korrelat”) sálarástands, nánast aldrei til að sýna hlutlægt um­hverfi. Sama gildi um mannvirki sem nefnd eru, og þau sundurleitu fyrir­bæri frá ýmsum tím­um, grísk-rómverskri fornöld, norrænum goð­sög­um, miðöldum, og ein­staka sinnum samtíma stríðs og ann­arra átaka. Eins og Hallberg segir, skapar þetta ljóðabálkinum í senn svip heildar og sundrungar, hann fer fram í rústum, andlega og menningar­lega. En sundurleitni einkenn­ir mód­erna ljóða­gerð, t.d. hjá T. S. Eliot. Sundurleitni mannen utan väg birtist einnig í því, segir Hallberg (bls. 529-30), að mann­verur birtast sjaldan í heild, heldur aðeins líkamshlutar; and­lit, hendur, augu, og gjarnan í annarlegu samhengi. Þetta minnir sterklega á Tímann og vatnið. Þetta hefur verið tengt surrealískri myndlist og kvikmyndum, m.a. af Lindegren sjálfum. Roland Lysell birti mikið doktorsrit (nær 700 bls.) um ljóð Lindegren 1983, og er þar mikill lærdómur saman dreginn. Þó þykir mér mjög spilla þessu riti sífelld viðleitni Lysell til að lesa eitthvað röklegt, jafnvel boðskap, úr orðalagi sem mér sýnist hannað til að vera óskiljanlegt röklega.
Hallberg fékk mannen utan väg tölvusett 1976, og vann töluverðar upplýsingar úr orðalista (concordance) hennar, einkum um tíðni ýmissa orða (bls. 531 o. áfr.). Fyrst greinir hann milli merkingarbærra orða og kerfisorða (for­setn­inga o.þ.u.l.). Merkingarbær orð eru rúmlega helmingur[4]. Í Tímanum og vatninu og Lokaljóð Steins töldust mér merkingar­bær orð ámóta tíð, 2/3 heildarorðafjöldans. Það er sama útkoma og þeg­ar ég kannaði tíðni þessara tvenns konar orða í ljóðasafni Jóhanns Sigur­jóns­son­ar, en í íslenskum lausa­máls­text­um af ýmsu tagi (Íslensk orðtíðnibók) reyndist hún vera helmingur hvort. Auð­vitað er þessi saman­burðargrundvöllur of lítill til að draga afgerandi ályktanir, þótt mér sýnist mögulegt, að í þessu birtist þétt­leiki ljóðmáls umfram lausamál – og að kerfisorð séu tíðari í sænsku en í beygingamálnu íslensku.
Hvað varðar tíðustu orð, þá skipta jafnvel einstök kerfisorð máli. Hallberg rekur mörg dæmi ábendingarfornafnsins þessi (denna), þegar það myndi ekki notað í daglegu tali, því það vísi þá ekki til einhvers nýlega nefnds, heldur sé það notað til áherslu á hlið­stætt nafnorð, skapi hátíðlegan blæ. Það er líkt og notkun Steins á lausum greini, hinn (9 dæmi í Tímanum og vatninu, en 17 í Lokaljóð Steins). Hlið­stæður eru dregnar fram í mannen utan väg, þegar margar setningar í röð hefj­ast á að (att). Alls­kyns hliðstæður í orðalagi eru og áberandi í Tímanum og vatninu, og nægir að benda á upp­hafsljóðið sem dæmi.
Tíðni merkingarbærra orða segir þó meira. Í mannen utan väg ber sérstaklega mikið á auga, sjá, skoða o.þ.u.l.[5] Í ljóðum Steins er sjónskynjun enn meira áberandi. En fleiri orð hljóð­skynjunar kæmu til álita, svo sem samhljómur, þytur, hlátur og þögn[6], þótt miklu meira beri á birtu, ljósi, skugga, myrkri, sól(skini) o.þ.u.l. Mér virðist hinsvegar ófæra að flokka þessar flóknu ljóðmyndir Steins tölulega eftir sjón- eða heyrn­skynjun.
Starsýnast verður þó Hallberg á tíðni sértaka (bls. 535), helstu orð um þau eru dauði, draumur o. fl. þ. h., líkt og hjá Steini[7]. Með þeim fyrirvara að ekki er víst að Hallberg hafi talið eins mörg sértök, þá virðast þau tvöfalt meira áber­andi í Tímanum og vatninu og svipuðum ljóðum Steins en í mannen utan väg. Margt af þessu er algengt í ljóðum, en þó hefur löngum þótt óljóðrænt að nota sértök. En á móti kemur, að þessi sértök eru yfirleitt tengd hlutlægum fyrirbærum, og það á sérkenni­legan hátt, ekki síst í eignar­falls­samsetningum, svo sem brátt skal rakið.
Hvað sem líður fyrrgreindum ummælum um að mannen utan väg sé torskilið, þá er það að sama skapi laðandi til túlkunar. Raunar er margt auðskilið í því, t.d. setn­ingin "að skjóta óvin og vefja vindling" (xxviii, 1), sem sýnir tilfinninga­kulda gagnvart mann­dráp­um, enda er ljóðabálkurinn ortur í upphafi seinni heimsstyrjaldar. Og þannig eru margar ljóðlínur, enda er nokkuð um tiltölulegar hefð­bundnar líkingar inn­an um þær nýstárlegu. Fáein dæmi mætti nefna: stormur endurnýjunar (vii,13), grenitrén draga vængi (xi, 6), skarpt ljós vitundarinnar (xvii, 1), bað rökkursins (xviii, 6), blístur regnsins (xx, 8), dropar tímans í skaut liðins (xxii, 11), högg örlaganna (xxxv,8).
Þannig grípur ljóðabálkurinn mannen utan väg lesendur með kunnuglegu ljóðmáli, en leiðir þá skjótt í ógöngur, ef svo mætti að orði komast. Linder segir (bls. 841-5) að vissulega eigi sú túlkun við mestan hluta ljóða­bálks­ins að ljóð­in spegli sama sálarástandið aftur og aftur, en þó megi rekja frásagnar­þráð í bálkinum. Upphafsljóðin tvö, sem standa í svigum, lýsi því að ómögu­legt sé að kom­ast til botns í heiminum. Síðan sé fylgt ferð "mannsins vega­lausa", sem einnig birtist sem auga á stöpli og sem flóttamaður, er leiti dauð­ans, Kristi líkur beri hann fram við­var­anir, en ævinlega ríki úrræða­leysi. En úr vonbrigðunum rísi ljós, mitt í bálk­inum, hefur Linder eftir samtíða túlkandanum Wall. Bjartari hliðar tilver­unnar birtist í ljóð­un­um xxi og xxii, en aftur syrti í xxv-xxvii. Þannig gangi þetta áfram, sitt á hvað, en í síðustu tveimur ljóðunum nái "förumaðurinn" nýrri sýn, sem rúmi bæði neikvætt og jákvætt í stóískri ró. Lesendur munu kannast við að þessi heildarmynd á meginatriðum einnig við Tímann og vatnið.
Hallberg vitnar í lok túlkunar sinnar (bls. 553) til orða Paul Ricoeur um fylld[8] (plenitude): ”Öll þau hugrenningatengsl sem geta átt við, eiga við, ljóðið merkir allt sem það getur merkt”. Svipað sagði Göran Pritz-Påhlson (Linder, bls. 840). – Vissulega ber að huga að öllum túlkunarmöguleikum, en andstæðar túlkanir tel ég þó að verði að bera saman, og rökræða hver eigi best við – en það er sú túlkun, sem gerir grein fyrir sem flestum einkennum verksins, án þess að stríða gegn mikilvægum atriðum í því.
Og þá er að minnast stefnuyfirlýsinga Lindegren sjálfs[9] (tekið e.Hallberg, bls. 553):

Aðalatriðið er að tjáningarþörfin sé sterkari en þörfin fyrir að miðla [...] það sem öðru fremur þarf að miðla, er tilfinningin, sem næstum alltaf er flókin - sé þetta rómantík, má allt eins kalla það tilfinninga­raun­sæi. Það er tilfinningin sem ber að hlaða hugmyndum, en ekki öfugt. Hug­mynda­lega yfirbyggingu ber að rífa niður og leggja hana neðanjarðar, þá fyrst getur hún birst af öllum sínum mætti. Ljóðræn ”mynd” þarf að losna frá undirskipaðri stöðu sinni, sem ”skreyting”, og verða megin­þátt­ur ljóðsins. Hugsunin á að fara fram í myndum, og myndir tilfinn­inga (eða dulvitundar) eiga að taka í sig hugsun, þetta er stöðug víxl­verkan. Þegar hugsun og tilfinning (og skynjun) mætast þannig í mynd, og gegnsýra hvert annað fullkomlega, þá ætti við bestu aðstæður að verða til ljóð sem einkennist af sýn..

Hallberg (bls.546) ber þetta saman við einn upphafsmann módernism­ans, Mallarmé (1842-98, en kunnustu ljóð hans eru frá síðasta aldar­fjórð­ungi ævinnar), kallar hann sérlega andlegt skáld, en jafnframt skáld hlut­lægr­ar sýnar, og vitnar í rannsókn Jean-Pierre Richard um að

hreinræktuðustu andleg fyrirbæri sannreynist í skynheiminum, fái þar fasta mynd, [...] skáld hljóti að láta vitranir sínar birtast í einföld­um, frum­stæðum skynjunum.

Þetta finnst Hallberg eiga vel við mannen utan väg Lindegrens, enda þótt skynj­un­in þar sé miklu sundraðri, sterkari og stundum ruddalegri en hjá Mallarmé. Annar skýr munur sé, að Lindegren sækist eftir að setja inn sér­tök sem sam­svari skynmyndum, ekki síst í formi eignarfallslíkinga. Hlut­lægir myndliðir séu þá einskonar afmörkun frá hálfu skáldsins. Í aug­um lesenda geti áhrifin þó orðið hið gagnstæða[10].
Hallberg vitnar og til Hugo Friedrich[11] um að ljóð upphafsmanns módernismans, Rimbaud, einkennist af

skynjuðum óraunveruleika [...]: afmyndaður raunveruleikinn birtist oft í orða­sam­bönd­um, þar sem hver liður hefur eitthvað skynjanlegt. En orða­samböndin tengi ósam­ræmanlega hluti svo óeðlilega, að af hinu skynj­anlega rísi óraunverulegt. Ævin­lega séu þetta skynjanlegar myndir, en yrðu aldrei skynjaðar í raun.

Þessi lýsing finnst mér eiga einkar vel við um ljóð Steins sem hér er um rætt.

Orðalag
Hér verður borið saman ýmiskonar sérkennilegt orðalag þessara verka, litir, líkingar, samlíkingar, persónugervingar og fleira þess háttar. Leitast er við að taka aðeins ótvíræð dæmi þessa, og ekki tæmandi, til að forðast málaleng­ingar. Af sömu ástæðu þýði ég sænsku dæmin og læt nægja að vísa til þess hvar þau standi, en birti þau ekki á frummálinu nema þýðingin geti orkað tvímælis. Auk ljóðabálka Lindegrens og Steins leitaði ég slíks orðalags í ljóðum Halldórs Laxness (þ. e. í frumprentunum og í fyrri gerð Kvæðakvers, 1930). Eins og ég hefi rakið í Kóralforspili hafsins, ber mest á expressjón­isma í ljóðum Halldórs, þ.e. á and­stæðum milli sjálfstæðra setninga og textabúta. En á árunum 1926-7 koma stundum fyrir andstæður innan orða­sam­bands, líkt og í Tíminn og vatnið. Það er hálfur annar tugur dæma, sem hér verður að hugað.

Litir
Í (enn óbirtri) könnun sem ég gerði á ljóðum blæleitinna skálda (oftast eru þau kölluð nýrómantísk eða symbólistar[12]) og skálda frá 19. öld, sýndi sig að allmikill munur er á því hve mikið ber á lita­heit­um í ljóðasöfn­un­um. Tíðn­in nær frá hálfum af hundraði orða­­fjöld­ans í safnriti ljóða frá 19. öld (Þjóð­skáld­in), en hálfu meira hjá höfuðskáldum aldar­innar, Jónasi Hallgrímssyni og Stein­grími Thor­steins­syni, rúmlega einn af hundraði, eins og hjá flestum blæleitnum skáldum. Ennfremur varð ein nið­ur­staðan sú, að hefðir ríki í lita­notk­un, allt frá 19. öld og lengst­um hjá blæleitnum skáldum, það eru fáir, hreinir litir, sem mest­megnis eru sóttir í íslenska náttúru, eins og Jakob Benediktsson sagði (bls. 119) um Jónas Hall­grímsson. Nokkur einstaklings­munur er auðvitað á tíðni einstakra lita og tíðni litar­orða í heild. En mest ber á sjö litarheitum í þessari röð: blár, hvítur, grænn, svart­ur, grár, rauð­ur, bleikur. Mörg skáld nota ekki aðra liti. Hér reyndist Jakob Smári hafa algera sér­stöðu, hann hefur svo mik­ið af samsett­um litarheitum, að litarorð hans verða alls 30, enda er tíðni litorða mest hjá honum, meira en tveir af hundr­aði orðaforðans. Hún er þó tvöfalt meiri hjá Steini, þetta er eitt sérkenna hans miðað við fyrri ljóðahefð.
Um litanotkun í kvæðum Steins hefur Svavar Sigmundsson fjallað í grein 1965 (og byggir þar á útgáfunni frá 1964, þar sem fátt er ljóða úr Lokaljóðum Steins). Margt athyglisvert kemur fram í rannsókn Svavars, m.a. að um samsett litarorð voru alls 80 dæmi á móti 95 ósam­settum. Í fyrstu bók Steins, Rauður loginn brann, eru ósamsettir litir þó meira en 4/5, en við breytinguna frá 1. gerð Tímans og vatnsins til 2. gerðar bætast aðallega við ósamsett litarorð, svo þau verða helmingur litarorða í stað þriðjungs. Svavar rekur m.a. (bls. 38 og 40) að algengasta litarorð Steins sé hvítur, í fjórðungi dæma, en næst gangi blár, fimmtungur dæma. Aðeins þriðjungur dæma blás er ósamsett, en meira en helmingur dæma um hvítt. Ennfremur segir Svavar (bls. 44-5):

það eru einkum 4 litir sem hafa fleiri samsett dæmi en ósamsett, þ.e. blár, gulur, bleik­ur og brúnn. Þeir síðastnefndu 2 eru þó í sérflokki, þar sem dæmin eru svo fá. […] Mestur munur er á svörtum, þar sem samsettu dæmin eru fjórð­ungur á við hin ósamsettu. Þá er næst rauður, 18:7, en síðast grænn, 11:5, og hvítur 28:16.

Þetta staðfesti könnun mín[13]. Raunar eru flestir litir tengdir einhverjum ákvörð­unarliðum. Áhrif þess eru jafnan myndræn skerpa.
Því hefur verið haldið fram (af Silju Aðalsteinsdóttur, bls. 37), að hvítt sé neikvæður litur í Tímanum og vatnius. Mér telst þó aðeins fjórðungur dæmanna benda eindregið til þess, hvítt er í 4 dæmum tengt við harm, sorg og dauða. Svavar telur fleiri dæmi (bls. 39 t.v.), og virðist mér það alveg tilhæfulaust, svo sem rakið var um greinar Peter Carleton og Silju Aðalsteinsdóttur í bók minni 1992 (bls. 85-7). En í Lokaljóðum Steins eru engin slík dæmi um hvítt, það er hins­vegar litur draums og fallegs hests. Sama hlut­leysi gildir um blátt. Þetta er myndræn litanotkun en ekki óeðlileg, eins er um mar­grænt djúpið. Jafnvel þegar um hreinan lit er að ræða í öðrum tilvikum, er hann svo óvenjulegur, að það leiðir til hins sama; myndrænnar skerpu; rauður sjór og grænn sandur í Tímanum og vatninu. Venjulegri litanotkun getur einnig verið myndræn, þegar liturinn er tekinn fram; sólin á gulum skóm, og talað um gult raf og rautt ljós. Ennfremur má nefna að mismunandi litir eru gjarnan settir saman til að skapa and­stæð­ur; í Tímanum og vatninu: “Dimmblár skuggi/ á hvít­um vegg”, “dimmblátt auga [..] hvít hönd”, “gljásvart myrkr­ið flaug gullnum vængj­um”, “hið rauðgula hnoða”, dumbrauðir fiskar, úr mold­brúnum hönd­um, ljósgult höfuð, dökkbrýnd gleði, á grá­hvít­um veginum.. Í Lokaljóðum Steins er einnig “Lát [...] hvít­an vegg verða að húmbláum skugga”, “blá­svart­ir fiskar í glæru vatni”, “Grár fugl í gul­rauðu þangi”, glórauðan blómvönd, ryðbrúnan sand, gul­hvíta stjörnu, “úr eld­gulu rökkri, “gulir hringir á gráum fleti, grænt strik”, “Rautt gler, gult blóm.
Að öllu samanlögðu virðist litanotkun mjög áþekk í Tímanum og vatninu og Lokaljóðum Steins, fyrir utan hvíta litinn að hluta, sem fyrr segir.
Litanotkun í mannen utan väg er gerólík þessu. Þar er í fyrsta lagi mjög lítið um liti (ein 30 dæmi, þ.e. 0,5% orðafjöldans, en í hér umræddum ljóðum Steins er tíðnin tífalt meiri (4.5%-5.5%, hið síðar­nefnda í Tímanum og vatninu). Litir mannen utan väg eru nær alltaf hreinir, og mest ber á gráum lit. Það er litur steins, auga náttúrunnar, hárs (Medúsu), angistar, loks er silfrað (xxxix) og krómað (xxxv). Næst gengur svart (5 dæmi), einnig mest neikvætt: tár, dægur, segull haturs, geimur, riddari. Rautt er haft um blóð (2), varir og eld. Blátt er litur himins og rökkurs, ísblás hafs, kristalls og reykblár svali hellis. Grænt er auðvitað haft um gróður, lauf og stilka, en einn­ig um þörunga og fangavist! (iii, 10). Ennfremur eru gulnuð lauf, guln­andi straumur (xviii, 1) og gullið skrín. Brúnt er sólbrennt andlit og moldlitar axlir. Hvít er krúna dauðans og óendanleg hvít hönd (ix, 5), Í heild virðist þetta einföld litanotkun, yfirleitt neikvæð og næsta hefðbundin, líkt og sjá má á 19. aldar ljóðum íslenskum.

Myndhvörf
Fræðmaðurinn Donald Davidson hefur skrifað merkt rit um myndhvörf, það að tala um einn hlut sem væri annað, t. d. ævikvöld. Mér sýnist hann hafa lög að mæla (bls. 254) um að myndhvörf (öðru nafni líkingar) verði ekki útlagðar, tengsl kenni­liðar (þess sem um er talað, ”source” á ensku) og mynd­liðar (þess sem líkt er við,”target” á ensku) séu ævinlega ótæmandi, anl. óræð. Í eftir­farandi umfjöllun hér verður því helst fengist við hverju er líkt við hvað, og hve breitt bil er á milli þeirra liða. Það bil er jafnan svo stórt, og fjölbreytni kenniliða og myndliða svo mikil, að ekki virðist ávinningur að nánari flokkun, t.d. eftir því hvort myndhvörfin byggjast á útlitslíkingu liðanna eða afstöðu (analógíu)[14]. Hinsvegar er aðgreindur undir­flokkur líkinga, þar sem eru persónu­gerv­ingar, þ.e. að talað er um hugtök, hlut eða náttúru­fyrirbæri eins og það væri mannvera. Einnig er talað um líf­gervingu (eða lífg­un), en þá er talað um dauðan hlut eins og hann væri líf­vera, oftast dýr eða fugl. Þannig talar t.d. Jakob Smári um ský sem hesta­stóð, Einar Benedikts­son og Tómas Guðmundsson tala um öld­ur eins og þær væru hestar, en Jóhann Sig­ur­jónsson líkir myrkrinu við hest í “Sorg”). Einkum verða þó líkingar flokkaðar eftir formi, í eignarfallssambönd, viðlík­ingar og aðrar líkingar.

Persónugervingar
Þær hafa verið algengar í ljóðum frá aldaöðli. Einna algengast held ég sé að persónu­gera náttúrufyrirbæri. Þau verða lesendum þá nákomin; t.d. hjalandi lækur eða foss, blær hvísl­ar, sólin brosir, ský grúfa grátþung. Í könnun minni á ljóðum þjóðskáldanna á 19. öld reyndust persónugervingar vera að meðaltali fjórðungur líkinga að tiltölu, helmingur hjá blæleitnum, en fóru uppí fjóra fimmtu hjá sumum skáldum (Sigurjóni Friðjónssyni og Huldu). Þær eru tiltölulega fáar í Tímanum og vatninu (5 af 64), en þriðjungur (75) líkinga Lokaljóða Steins. Hjá þjóðskáldunum er fjórðungur persónugervinga fyrirbæri himins og ljóss, ámóta tíð eru jarðnesk fyrirbæri (Ísland, fjall, o.þ.u.l.). Nokkuð minna er um persónugervingar vatns, öldu, fljóts oþh., en sértök eru sjöunda hver. Hjá eftirfarandi skáldafylkingu, blæleitnum, breytast hlutföllin nokkuð. Himnesk fyrirbæri eru meira en þriðj­ungur persónugervinga. Fjórðungur er persónu­gerv­ingar mann­gerðra hluta, t.d. skip, sverð, hljóð­færi, kvæði. Sjöttung­ur persónu­gerv­inga er haf, öldur, ár, lind­ir o.þ.h., en áttundi hluti dæma er um jörð, fjöll, kletta, ís o. þ. h. Litlu færri eru persónugerð tré, jurtir, gras og blóm, en fugl­ar eru einu líf­ver­urnar sem eru persónu­gerð­ar. Sértök (einkum tíminn, lífið, dauðinn, kyrrð, hljóð, draum­ar, langanir og minn­ingar) eru einnig áttundi hluti persónugervinga. Sem sagt, meira verður um persónugerða hluti á kostnað náttúrufyrirbæra. Einstök skáld skera sig svo úr. Stefán frá Hvítadal hef­ur að vísu nær þriðj­ung persónu­gervinga sinna um himin og ýmis­konar ljós, en meira en helm­ingur persónu­gerv­inga hans er um sértök, eins og rúmur þriðj­ung­ur persónu­gerv­inga Tómasar og Davíðs.
Þegar litið er á hverskonar athæfi er notað til að persónu­gera þessi margvíslegu fyr­irbæri, vekur athygli að hægt, blítt og ljúft yfir­gnæfir, það er um helmingur dæma bæði hjá 19. aldar skáldum og hjá blæleitnum. Mest ber á atlotum (nær áttunda hver persónugerving), og a.m.k. þriðj­ungur þeirra dæma er atlot móðurveru við barn, ýmiskon­ar náttúru­fyrir­bæri eru í móð­urhlutverki, en ljóðmæl­andi fær stund­um hlut­verk barnsins. - Þetta yfirlit byggir á takmörkuðum fjölda skálda, en mér þykir lík­legt að það sýni hvað var algengt áður en kom að ljóðabálkunum sem hér eru í sviðsljósi.
Persónugervingar eru oft óvenjulegar í mannen utan väg. Hallberg segir (bls. 541) að þar sem hefð­in hafi verið að gera sértök skynjanleg líkt og fyrir­bæri klass­íkrar goðafræði, þá sýni Lindegren sértökin í svo sláandi athöfn­um, að það hindri myndræna skynjun. Kenni­liður og myndliður séu settir í sláandi and­stæð­ur, hlutlægt. stíllega og tilfinningalega. Þann­ig auki þessar myndir á heild­ar­mynd sundrunar.
Mest er um sértök, það er helmingur persónugervinga mannen utan väg[15]. Í ljóðum Steins, bæði Tímanum og vatninu og Lokaljóðum Steins eru sértök þriðj­ung­ur persónu­gervinga, mun meira en hjá flestum íslenskum skáldum sem ég kannaði (1800-1933), en hitt er náttúru­fyrir­bæri, einkum vatn, sól og dagur. Mest er um kvöl og örvæntingu í persónugervingu sértaka mannen utan väg: tóminu blæðir (xxxvii, 11-12), neyðin hrópar (xxxvi, 7), dauðinn hristir eitthvað óvænt fram úr erminni.
Í ljóðum Steins er ein af fimm persónugervingum sértaka Tímans og vatnsins neikvæð (sorg), en önnur hvor (af átta) í Lokaljóðum Steins. Hegðun persónugervinga Steins er yfirleitt mjög kyrrlát, sofið, horft, nærvera, ganga. En svo kemur fyrir sérkennilegri hegðun; vatn málar mynd (1), "steinninn hló" (4). Dagar eru síðhærðir (15) og kyrrstæðir af ótta (7). Í Lokaljóðum Steins eru ámóta dæmi:“einfættir dagar[...]/ koma hlæjandi/ út úr hafsaltri rign­ingu/ eilífðarinnar” (Vegurinn 3), og dagur er ástleitinn (Ó,1), Hér er meira um myndræna lýsingu á hegðun t. d. sértaka: “feigðin heldur sér/ fram­mjóum höndum/ í fax” (Hvítur 3), “auðn þess, er sorg þín brenndi” (Dögun 3), “sorg mín fór höndum/ um hug þinn nakinn” (Sorg 3) “svaf hugsun mín nakin í hvítum beði” (Hádegi 1), “Og bæn þín nam staðar/ á bláum morgni” (Tíminn og 3), “Tíminn/ legg­ur hvítar hendur sínar/ yfir regngljáðan veginn” (Vegurinn 1), “vegurinn smýgur/ út úr höndum tím­ans” (Veg­ur­inn 2). Einnig er skynjun umhverfisins persónugerð: “Ég sá myrkrið rísa/ til móts við ljósið/ í mjúkri gleði” (Hádegi 2), “lát húmið koma/ á háum skóm” (Húsið 1, minnir á persónu­gervingu sólar í Tímanum og vatninu 3). “og vatnið horfir á eldinn/ kol­blá­um augum” (Draumurinn 2), “Og vatnið lyftir eld­inum/ eins og gló­rauð­um blóm­vendi/ og réttir draumnum” (Draumurinn 4), “ströndin beygir sig niður/ að hafinu og hlær” (Ströndin 1). Einnig eru hlutar manna eða gerðir persónugerð: “Mitt hjarta er barn/ í bárunnar fangi” (Landslag 3). Framandlegra er “Lát fótatak mitt/ dreyma fjarlægð sín sjálfs” (Gam­all 2), “nafn mitt hélt áfram/ á nafnlausum vegi/ til næsta dags” (Rigning 3). Mótsögn er í “á hlæjandi öldum/ hins hljóða lags” (Ó, 2).
Þetta síðasta minnir á undarlega persónugervingu tára í ljóðum Halldórs Laxness: “og drifin spor mín líkum hvítra tára. (Í áfanga 1,1-2). Ennfremur er sorg persónugerð með andstæðri til­finn­ingu: “á sælum vörum sorg­arinnar,/ sofa turnar borgar­inn­ar”.(Nótt 1, 11-12). En hér er ennfremur tvinnað (eins og síðar verður kom­ið að) mannvirki er staðsett á miklu minni líkamshluta, þ.e. turnum má vera líkt við orð eða koss.

Líkingar
Í ljóðum þjóðskáldanna reyndist nær helmingur líkinga vera hafður um sértök, en þeim einkum líkt við eitthvað gert af mönnum, tæki, ljóð, o. fl. þ. h. Svipað var um eftirfarandi skeið, blæleitin ljóð.
Því hefur verið haldið fram að líkingar skálda séu fyrst og fremst tilbrigði við algengar líkingar dag­legs máls. Ekki staðfestist sú niðurstaða hjá mér, einungis fimmtungur lík­inga fyrrnefndra ljóðasafna virðist mér greinilega byggja á algengum líkingum daglegs máls, og kom þessi hversdagssvipur eink­um fram hjá Davíð Stefánssyni og Stefáni frá Hvítadal, en síst hjá Einari Benediktssyni, Sigur­jóni Frið­jónssyni, Sigurði Sigurðssyni og Jóhanni Sigur­jóns­syni. Í þessum al­gengu líking­um ber langmest á því að tilfinningum sé líkt við eld eða ís, að lífinu sé líkt við ferðalag, dag eða draum. Talað er um tímann sem straum og haf. Augnatilliti er líkt við sind­ur, eld eða demant, lind, hyl eða ós. Hafi og öldum sér­stak­lega er líkt við lífverur, himni við höll, sal eða kirkju, myrkri við fljót, haf eða hjúp. Snjó er líkt við hjúp eða líkklæði. Sólskini er líkt við eld, við foss, brim eða haf, tunglskini við fljót eða öldur, sól og stjörnum við auga.
Hér verða líkingar Steins nú flokkaðar eftir algengustu forms­ein­kenn­um.

Eignarfallssamsetningar
Þær eru einkar áberandi í líkingum þessara ljóðabálka. Hallberg flokk­ar nokkur dæmi þeirra í mannen utan väg (bls. 543 o.áfr.), og verða oftast fyrir sér­tæk­ir kenniliðir líkt við hlutlægan myndlið. Hallberg tilfærir ekki dæmi þessa, en ég tíndi saman um fjóra tugi dæma.
Í mannen utan väg táknar rúmlega helmingur kenniliða einhverskonar tilfinn­ing­ar eða fyrir­bæri sem afstaða er tekin til, og eru neikvæðar þrefalt algeng­ari en jákvæðar. Af mynd­liðum er þriðjungur einhvers konar mannvirki, en í rúmum fjórðungi er líkt við náttúru­fyrir­bæri ljóss, hljóða, grundar o.þ.u.l., en ámóta mikið skiptist síðan jafnt á jurtir, dýr og líkams­hluta manna. Fyrir kemur hefðbundin tenging kenniliðar og myndliðar, svosem járn­teinn vilja (vi,14), en það er undantekning, yfirleitt er sambandið mjög framandlegt.
Í Tímanum og vatninu eru alkunn áþekk eignarfallssambönd sértæks kenniliðar og hlutlægs myndliðar. En þar er oftast líkt við náttúru­fyrirbæri, svo sem ljós: "hvít birta/ harms míns" (17, tvisvar), "ímynduð birta/ míns ull­hvíta draums" (19), "hlaðið glæru ljósi/ einskis" (9), "tunglskin hverf­leik­ans" (11). Þetta minnir á líkingar í mannen utan väg: t.d. “sólir grimmdar” (mannen utan väg xxxiii). Einnig líkir Steinn sértökum við hljóð: "í þungan samhljóm/ einskis og alls" (16). Óljósara er "finn mót­spyrnu tímans" (21), “þung angan/ hins óskiljanlega” (Augu mín 2),”út úr hafsaltri rigningu/ eilífð­ar­inn­ar” (Vegurinn 3),. Ennfremur er sértökum líkt við þiðn­andi fjall og snjó: "Undir þáfjalli tímans" (16), ”fjall tímans” (Lokaljóð Steins, Augu mín 3), "undir kvöldsnjó/ efans" (9) minnir á “ljós efans” í mannen utan väg (xvi, 4); við jurtir: blóm dauðans (3), "hið hvíta blóm dauðans" (3, sbr. “ber þistill bræðinnar”, mannen utan väg iv, 14). Steinn líkir sértökum við líkamshluta: límkenndur vökvi/ verð­and­inn­ar" (11, væntanlega er líkt við vessa), "í hálfluktu auga/ eilífðarinnar" (21), sbr. “auga sann­leik­ans" (mannen utan väg xxxiv, 3). en aðeins fimmt­ungur hjá Steini er líkingar sértaka við mannvirki, þ. e. einkum hluta bygginga: eilífðinni er líkt við hús þegar talað er um “húsvörð eilífðarinnar” (Tíminn og 1), "bakdyr eilífðarinnar" (12), "hvolfþak ham­ingju minnar" (11), "um mönd­ul ljóssins" (21), sbr. í mannen utan väg: súla örvæntingar (i, 2), múrveggur haturs (xxviii, 7), salur undrunar (xxxiii, 13), gangur óraunveruleikans (xxxiv, 6). Í Lokaljóðum Steins er“Og hinn hvíti vagn draumsins/ nemur skyndi­lega staðar/ á þríhvelfdri brú vatnsins” (Draumurinn 3), sbr. “kerra tímans” (mannen utan väg xxv, 13).: Athygli vekur að ekki er um „eðlilegt“ eða hefðbundið samband lið­anna að ræða, það er jafnlangsótt og í mannen utan väg.
Hallberg rekur dæmi þess að stund­um eru báðir liðir hlutlægir í eignar­falls­sam­böndum mannen utan väg. Allt um það er sláandi langt bil á milli þeirra, svo út­kom­an verður óræð. Mest ber á því að fyrirbærum náttúrunnar sé líkt við mann­gerða hluti. Ekki held ég þó að þessar líkingar geri fyrirbærin nákomn­ari lesendum, frekar að þau verði ankannaleg. Þannig er talað um fuglatjald himingeimsins (xiii, 6), sagt er að dagurinn fari í aflöguð klæði vindsins (xii), sólinni er líkt við skip með rifuð segl, reyndar undir svans­væng (xviii, 4), talað er um hlið sjóndeild­ar­hrings­ins (xxxviii, 11), vindurinn þyrlast milli þeirra, einnig hefur storm­ur­inn þröskuld (xxi). Skýi er líkt við lífveru, það hefur lungu (xxvi, 11), en afmarkaðra er að haustinu er líkt við hest, raunar stafar mildu ljósi frá hófahljóðinu! (xxvii, 8). Væntanlega er fiðrildum líka líkt við hesta, þegar talað er um augna­blökur þeirra - sem svo biðjast fyrir! (xxv, 8).
Einnig í Tímanum og vatninu eru dæmi þess að báðir liðir séu hlutlægir. Orðið "efni" er raunar næsta sértakslegt, en hér er það afmarkað sem brennandi og líkt við rándýr: "handan blóð­þyrstra vara/ hins brennandi efnis" (3), kvöldinu er hinsvegar líkt við eitthvað sem brennur, en myrkri – augans! - við hlut sem berst í kvöldið: "myrkur auga míns/ berst í mjúkum hlátri/ inn í kaldan eld/ kvöldsins" (11). Í Lokaljóðum Steins er hinsvegar myrkri líkt við vatn, og er það hefð­bundnara: “vatn myrk­urs­ins” (Ljóð 3).

Viðlíkingar
Þær eru eitt mest áberandi einkenni Tímans og vatnsins. Sömuleiðis gætir þeirra nokkuð í mannen utan väg, og eru sumar ekki óvenjulegar, þótt skáldlegar séu. Þannig fyllist herbergi hægt af draumum, einsog brunnur fyllist af vatni (xxii, 1), regni er líkt við blóð (xxvi, 12), talað er um að sitja fastur sem fluga í neti (xxviii, 3). Mun meira ber þó á lang­sóttum samlíkingum. Í Tímanum og vatninu. eru viðlíkingar með "einsog" 32, þ.e. litlu fleiri eign­ar­falls­lík­ing­um, það er mun algengara en í mannen utan väg. Í Lokaljóðum Steins eru þær aðeins 19, þ.e. tveir þriðju á við Tímann og vatnið (miðað við orðafjölda texta).
Einnig hér er sértaki oft líkt við eitthvað hlutlægt, þó ekki eins oft og í eignar­falls­sam­böndum. Sumt er auð­skilið í mannen utan väg, svo sem að fullkomnun (þ.e. aðlögun að vænt­ing­um ann­arra) sé mótuð í málm og sé eins og fangi í stöðluðu brjósti (i, 10). Tor­skild­ara er að líkja þolinmæði við lök um nótt í trjám, sem þar að auki eru nýfrelsuð (eins og í sértrúarsöfnuði! iii, 7-8). Loks er rennandi vatn og speglar sem eilífðarreykur, og sem trú staflað á eymd sem er farartæki (ii, 3-4 & xxxviii 3-4). Dæmin eru fá, en þessar sam­setn­ing­ar eru ekki ólíkar framangreindum eign­ar­fallssamsetningum sértaka og hlutlægs í mannen utan väg.
Í samlíkingum Steins er sértökum oftast líkt við náttúrufyrirbæri. Í Tímanum og vatninu er tilfinn­ing­um líkt við blóm: "Á tvítugu djúpi/ svaf trú mín og ást/ eins og tvílitt blóm" (2), en einnig er sú sam­líking höfð um ann­ar­legra fyrirbæri: "Eins og furðuleg blóm/ vaxa fjar­lægar veraldir/ út úr lang­svæfum /líkama mínum" (21). Einnig er tilfinn­ingu líkt við dýrmætt efni í skartgripi: "sorg mín glitraði/ á grunnsævi þínu/ eins og gult raf."(5). Kunn­uglegra er að líkja sorg við haf, sömuleiðis að sorg eins nái fundi ann­ars, en það gerir haf ekki nema hér: "falin sorg mín/ nær fundi þínum/ eins og firðblátt haf" (10). Loks er hugs­unum líkt við hesta: "Eins og blóð­járn­aðir hestar/ hverfa bláfextar hugsanir mínar/ inn um bakdyr eilífðarinnar" (12.). Einnig er líkt við manngerða hluti, og er auðskilinn fallvalt­leik­inn í ann­arri samlíkingu: "líf mitt stóð kyrrt/ eins og kringlótt smámynt,/ sem er reist upp á rönd" (6). Timinn er “eins og mynd" (auk þess að vera "eins og vatnið”, sem er öllu hefð­bundnara,1), einnig hvarf hann "eins og tár, sem fellur/ á hvíta hönd" (6).
Í Lokaljóðum Steins er hér einna hefðbundnast að líkja lífinu við ferðalag, að vísu með nokkuð óvenjulegum og myndrænum hætti: “Eins og löng, löng ferð/ á línhvítum fáki/ er líf manns.” (Hvítur 2). Sérkennilegri er önnur líking um lífið: “Eins og logandi fingur/ kring­um lokaða vitund mína/ fór líf þitt” (Hring­urinn 1). Kunnuglegra er að líkja draumi við fugl: “hvítt eins og væng­ur/ míns fyrsta draums/ er fax hans” (Hvítur 1), en sérkennilegra að líkja hugsun við bráðið vax: “Og hugsun mín hvarf/ í hinn heita jarðveg,/ sem hálfstorkið vax” (Rigning 2).
Hjá Halldóri Laxness er töluvert um að sértök séu tengd hlut­læg­um fyrirbærum með samlíkingum. Fyrir koma kunnugleg atriði, auð­mýkt hins lægsta jarðargróðurs, og sál er líkt við fugl: “Sál mín er auðmjúk eins og lítið gras,/ ástrík og trúuð líkt og heimskur fugl” (HKL Ljóð 4, 3-4). En hitt er undarlegra að líkja sálinni við tiltekna mannveru: “Önd mín er frjáls eins og útlendur prestur” (Vorkvæði 2,3), eða hluta hennar við nýtækni í samgöngum: “samviskulaus eins og bifreiðaumferð í aprílmánuði (Nótt 6,2). Einnig er sömu árstíð líkt við dýr: “Apríllinn fnæsir sem fælinn hestur/ fal­inn í kálgörðum Hörpu” (Vorkvæði 2,1-2).
Stöku sinnum er hlutlægu líkt við sértækt. Í mannen utan väg er blár litur á ísi lögðu hafinu eins og frelsi, - og blaktir sem fáni (xxii, 13). Í Tímanum og vatninu er vatni líkt við vitund, enda er um hvort tveggja sagt að það sé: "kalt og djúpt" (1) og nóttin kemur "eins og nafnlaus saga".- en þá "Inn í hugans neind"(13), sem óhjákvæmilega er óskiljanlegt.
Hjá Halldóri Laxness er það sem virðist einna undarlegast: “Dagleið mín var sem draumur svartrar konu[16]” (Í áfanga 1,1-2)
Formlega eru víðlíkingar útskýringar. En síst eru þessar viðlíkingar til skilningsauka, t.d. þegar hlutlægu er líkt við hlutlægt í Tímanum og vatninu, svosem þegar hljóði er líkt við ljós: "þytur óséðra vængja/ fer um rökkvaða sál mína/ eins og rautt ljós"(8), "rödd þín [...] eins og rautt ljós" (8). Einnig birtist ljós sem mann­gerður hlutur: "Dagseldur, ljós [...] eins og gler" (7). En dögum er einnig líkt við fugla (eins og röddinni áðan): "Eins og nýskotnir fuglar/ falla nafnlausir dagar/ yfir nátt­stað minn."(12). Andstæðu þeirra, myrkrinu er einnig líkt við fugla; "Ég sá myrkrið fljúga/ eins og málm­gerðan fugl/ út úr moldbrúnum höndum mínum." (16), sömuleiðis er því líkt við hjól: "Ég finn myrkrið hverfast/ eins og málmkynjað hjól/ um mönd­ul ljóssins" (21), einnig í Lokaljóðum Steins: “jörðin er full af myrkri,/ sem snýst í hringi/ eins og myllu­hjól” (Ljóð 2), “Og ljós mitt beið/ hinnar löngu nætur/ eins og lokað blóm”. .(Húsið 3), “sökkvir/ stjörnu sinni/ eins og bjúgmyndaðri perlu/ í vatn myrk­ursins” (Ljóð 3), einnig er mannvirki líkt við lífveru: “vegurinn smýgur/ út úr höndum tímans/ eins og blásvartir fiskar/ í glæru vatni” (Vegur­inn 2), Sandi er líkt við haf í mót­sagnakenndu orðalagi í Tímanum og vatninu: "grænn sandurinn/ var allt í kringum mig/ eins og haf í hafinu" (14, orðasam­band­ið minnir á “lind lindanna” (“källornas källa” í mannen utan väg xx, 5). Líkams­hlutum (í víðustu merkingu) er líkt við skugga, hluti og fugl: "svipur þinn rann/ eins og svalkaldur skuggi/ milli svefns míns og draums." (19), "Meðan andlit mitt sefur/ eins og óslokkið kalk/ í auga fljótsins".(12), "Og hönd mín sökkur/ eins og sprengja/ djúpt inn í fjallið" (14), "Eins og marg­vængj­aður fugl/ flýgur hönd mín á brott/ inn í fjallið" (14). Í Lokaljóðum Steins er náttúrufyrirbæri líkt við mannlegt: “Klettur, sem rís/ upp úr ryð­brúnum sandi,/ eins og risahönd” (Landslag 1) og öfugt: “sé hönd þína bærast[...] eins og blóm sem grær” (Liðinn dagur 2), loks er kunnuglegri líking af því tagi: “Lát blóð þitt drjúpa/ eins og dökkt regn/ yfir draum minn” (Tveir draugar 2). "stóð þögn mín/ eins og þrosk­að ax." (16). Þessar sundurleitu líkingar um sama fyrirbæri sýna best að samband kenni­liðar og myndliðar ræðst af geð­þótta, eða m.ö. o. af mjög frjálslegri sköpun.
Áþekk dæmi eru í mannen utan väg. Skiljanlegt er að það að þreifa á áferð húðar geti minnt á blindralestur, og hví þá ekki að húðin minni á lofsöng á blindaletri (xxii, 6). Flóknara er krossfest X, hvað þá að munnur taki á sig líkingu þess (jag så hans mun vidgad som ett korsfäst X, xvii, 13), eða að svefn einhvers sé eins og minnis­merki grænna stilka (xxii, 9-10). Eða nafn­laus eyð­ingin, maður fellur eins og dögg á gröf tímans (i, 14). Einnig eru þess dæmi að sértaki sé líkt við sértækt. Fyrrnefnd líking mannen utan väg um munn sem krossfest X er einnig einföld [stærð­fræði]lík­­ing um pyntingar, sameig­inlegt er að vera þriðja stigs (xvii, 13-14). Gamalkunnugt er að líkja trú við bjarg, en hér er því aftur líkt við hirðisstaf (einnig guðfræðilegt!), sem er stungið í mold, en sú [gróður]mold er þá guð (xxxix, 9-10). Þessi keðja líkinga er augljóslega hönnuð til að vera óskiljanleg.
Í Tímanum og vatninu er altækustu sértökum líkt við skip (eða hvað sem nú er gróið maurildum), en því er aftur líkt við guð: "Kemur allt,/ kemur ekkert,/ gróið bylgjandi maurildum,/ eins og guð" (7) – og enn er samlíkingin síst til skilningsauka.

Aðrar líkingar
Auk þessara sambanda bendir Hallberg á annarskonar orðasambönd mannen utan väg með svip­uð tengsl innbyrðis. Sum eru að vísu hefðbundin, mannhaf (viii, 14), hvirfilvindur haturs (xxix, 9), en sérkennilegra er að sjá verði þján­ingar flýja inn í bakgrunn trúar (v, 8). Sum önn­ur orðasambönd má sjá sem vísanir til kunnra bókmenntaverka; eilífðarskógur (ix, 9) gæti vísað til upp­hafs Gleðileiksins guðdómlega eftir Dante, en hungurturn (ix, 1) til 33. Vítis­kviðu sama verks. Skondnari er vísun til grísku goðsagnarinnar fornu um Medúsu, höfuð hennar ber slöngur í stað hárs, en jafnframt er höfðinu hér líkt við skip; langt úti í hafinu vaggar höfuð Medúsu með grán­andi slöngur og masturs­körfu eilífrar sorgar (xxix, 1).
Þá eru nokkur dæmi þess að mannlegu atferli sé líkt við eitthvað efnis­kennt. Snökt er smitað eins og lífvera (i, 5), en röddum er væntanlega líkt við báta, þær vaggast á vatninu (iii, 2), en kvalaópi er líkt við sjálfhreyfðan (?) stein (Sysifosar?), sem veltur upp fjall og kastast fram af bjargi (v, 11-12). Ennfremur er lík­ams­hluta líkt við hluti, og gildir það einkum um augu. Þeim virðist líkt við skip, þó skýkennd (molniga ögons ankarplats xvi, 9), annað auga er skrælt eins og kart­afla og brennur (v, 5), það hvílir á sökkli, stíft og myrkv­að, og er ekki ljóst við hvað því er líkt (xiii, 4-5), en auga á sökkli birtist á málverki frá 1923 eftir belg­íska surrealistann Magritte. Auga risa rann frá faðm­lögum mælanda upp til hárs stjarn­anna (xi, 9-10). Hjarta sitt vill mæl­andi mála með rjúkandi hug­rekki (xiv, 12), það er tilbrigði við gam­alkunna hug­mynd um að hug­rekkið búi í hjartanu, hér er því bara tyllt utan á. Fólki er líkt við vökva; okkur skolar eftir veggjum, og er vaggað í blýi (xix, 13). Einnig eru slíkar líkingar hafðar um hluti sem eru fjarlægari líf­ver­um; t.d. er eyðimörk líkt við teppi, en slæða er úr ösku (xiv, 3-4). Í hol­aðri þoku brotnaði vatns­liljuhiminn (xiv, 1).
Í Tímanum og vatninu yfirgnæfa áður taldar tegundir líkinga (viðlíkingar og eignar­falls­sambönd), en þó má telja fáein dæmi annarra, í eftirfarandi líkingu er hugsanlega talað um snjó: “Himinninn rignir mér/ gagnsæjum teningnum/ yfir hrapandi jörð” (7). Oft er líkt við fugla, t.d. nóttum, en tunglinu við hús í sama ljóði: “Sofa væng­bláar hálfnætur/ í þak­skeggi mánans. Myrkr­inu er líkt við óvenju­litan fugl eða skordýr: “gljásvart myrkrið flaug gulln­um vængj­um” (16). Rödd viðmælanda er líkt við fugl en sértaki við trjá­gróð­ur: “Meðan rödd þín flýgur/ upp af runni hins liðna” (8). Sálinni er líkt við skóg eða sal: “þytur óséðra vængja/ fer um rökkv­aða sál mína” (8), og má sjá það sem mynd þess hvernig hugmyndir hvarfla að fólki. Hefð­bundn­ara er að hugur mælanda flýgur (17), en við hvað draumi hans er líkt, ullhvítum (19) er erfiðara að segja, gæti verið ský. Draumur mælanda “glóði í dul­kvikri báru” (10), og er ekki gott að vita hvort þar er enn líkt við raf eða annað. Þessar líkingar snúast einkum um drauma í Lokaljóðum Steins, og er mest líkt við náttúrufyrirbæri, en nokkuð við mannvirki. Sértak er t.d. gert efniskennt með lit (sem er þó einnig afmarkaður með sértaki): “úr dulhvítri fjarlægð” (Húsið 2), einnig er hug líkt við efni, líkt og í Tímanum og vatninu: “við brennandi huga minn” (Tíminn og 3). Draumi er líkt við fugl, en það er degi hér líka, draumurinn er ungi hans: “Meðan draumur minn felst/ undir drúp­andi vængj­um/ dagsins í gær” (Liðinn dagur. 3), einnig er draumi líkt við jarðveg, sem þrá er líkt við jurt í: “Lát dauðvona þrá mína/ skjóta djúp­um rótum/ í draum þinn” (Tveir draugar, 1). Sérkennilegra er að líkja bæn við dautt efni og neikvætt: “bæn mín fellur/ yfir blekk­ingu tímans/ eins og blakkt ryk”.
Minna er hinsvegar um að hlutlægu sé líkt við annað hlutlægt fyrir­bæri, en þar ber mest á nótt og degi. Degi er ekki bara líkt við fugl, heldur einnig við hús, og (blóðugan) líkama: “Und­ir hálf­þaki dagsins” (Hádegi 1), “í blóðstokknu ljósinu” (Liðinn d 2), en myrkri er bæði líkt við járn, gróður og hest: „ryðbrunnið myrk­ur“ (20), “Upp af svefnþung­um gróðri/ salts­ins og dimmunnar” (Augu mín 2), “myrkursins fax” (Ó,3), Loks má telja að þögn virðist líkt við fljót: “þögn mín rann/ út í þrotlaust djúpið” (þögn, 3).
Hjá Halldóri Laxness eru óskiljanlegri aðrar líkingar: “Heimur vor er ljóðdjásn frá lung­unum til nefsins/ Lofgerð vor er úthverfa grískra sjúkdómsnafna. (Nótt 1,3-4). Enn lengra gengur þessi tvinnaða líking: “þú grædd­ir upp ljóðastraums gull­mörk/ með göllum á freraslóð” (Borodin 1-2). Eins og ég rakti áður (1992, bls. 58 o.áfr.) virðist röklegur skiln­ing­ur kerfisbundið útilokaður.

Tvinnað
Hér höfum við séð mörg dæmi um langsóttar líkingar, raunar er það meg­ineinkenni þessa líkingasafns alls, hve langt er á milli kenniliðar og mynd­liðar, og geðþóttakennt að tengja þetta tvennt. En auk þess er það sameig­in­legt einkenni á mannen utan väg og ljóðum Steins að ganga skrefi lengra á sömu braut, að tvinna líkingar svo, að flétta einni langsóttri líkingu í aðra. Útkoman verður þá óræð.
Stundum eru tvær ósamstæðar líkingar bara tengdar í mannen utan väg: Innilokaðar auðnir drag­ast eftir fingrum manns, en fyllt krukka múmíunnar syngur vongóð (xvi, 5-6). Flókn­ara er eftirfarandi dæmi með tveimur óvenjulegum persónugerv­ingum. Líkt og dún­kraft­ur tekur lauslega á köllun sinni, þannig reka fljót hælinn í gegnum jörð -skorts (ii, 3-6). Ekki er svo langsótt að líkja trjákrónum í vindi við stökktjald (trampolínu), það er myndrænt, en trén eru þá blinduð (xiv, 2). Kunnuglegt er það að líkja skýjum við turn, en hér bætist við að hann grefur bergmál okkar (xvii, 10, fiðlan rennur braut sína (líkt og tungl) umhverfis dimma plán­etu hjartans (xxxix, 2), það blikar á krómaðan harmleik innan við nafl­ann (xxxv, 5). Nokkuð sérkennilegra er að sjá sig settan sem stein inn í múrvegg hat­urs, eink­um þegar þar við bætist samkennd steinanna, sem er eins og gleði lyngs! (xxviii, 7-8). Sniðin augu eru með hellisskúta reyk­blás svala, sem kennir fallandi dropum angistar! (ix, 3-4). Stormi er líkt við fellt dýr, en óður hundur lepur [blóð?] úr hálsi þess (xxv, 2). Hinsta [!] brim hafsins týnist í völundarhúsinu og ljósker eru tendr­uð í kóral­aug­um hins sökkta og þegar þau speglast í blæðandi vörum árans, spólumst við ósýnileg inn í hella hvert annars (xix, 7-10), en skrjáf­ið í brostnu köngu­lóarnetinu hræddi fugl gleymsk­unnar til járn­vængja, sem rispuðu ljós­bláan mosa himins og stökktu rauðu á máttugt hnýtt­an hnefann þangað til hljómurinn sauð og fjallstindarnir brotnuðu til þess að sólin dveldist leng­ur (xxiii, 7-12). Þetta ætti að nægja til að rifja upp áþekk dæmi, áður talin. Lesendur geta óljóst skynjað eitthvert sam­hengi, sérstaklega í undiröldu tilfinninga, en hér er vandlega girt fyrir rökleg­an skilning.
Í Tímanum og vatninu er svipað á ferli, og hafa mörg dæmi þess þegar komið fram, en um þverbak keyrir í dæmum sem: "Handan blóðþyrstra vara/ hins brenn­andi efnis/ vex blóm dauðans" (3) -það samræmist ekki skynheimi okkar né líkingahefð að blóm vaxi bak við varir, hvað þá vara hins brennandi efnis, sem ekki verður vitað hvað er. "Á hornréttum fleti/ milli hringsins og keilunnar/ vex hið hvíta blóm dauðans" (3). Þetta er óskiljanlegt vegna þess að flötur getur vart verið hornréttur á hring og keilu, sem hann stendur á milli, og á hvað þá? Síðan koma samtengdar andstæður þessara stærðfræðifyrirbæra, blóm og dauði. Ætla mætti að “engill hraðans” færi hratt í gegnum eitt­hvað, en það er þá öfugt, líkt og við höfum þráfaldlega séð hjá Lindegren (skamm­byssa leitar handar, sjúkdómur flýr undan smásjá, o.fl. þ.h.): "Dagseldur, ljós,/ í kyrrstæðum ótta/ gegnum engil hraðans,/ eins og gler" (7), síðast­talin viðlík­ing gerði þetta fullkomlega óskiljanlegt, væri svo ekki fyrir. Lík­ing um (þiðnandi) fjall tímans sáum við í Tímanum og vatninu, en í Lokaljóðum Steins verður hún enn torræðari við að það færist í hönd manns: “Eins og fleygmyndaður veggur/ rís fjall tím­ans/ upp af flötum lófa[17] mínum”. (Augu mín, 3) og “stend ég blindur og einn/ með fjall tímans/ í framréttri hendi” (Augu mín 4). Í sama ljóði rennur líkami mælanda á undarlegan hátt saman við hafið (líkt og Hallberg benti á um mannen utan väg): “Augu mín týndust í hafið/ og hafið rann burt/ yfir hendur mínar” (Augu mín 1).
Í ljósi framangreinds eru auðskilin einkunnarorð fyrstu útgáfu Tímans og vatnsins, orðuð af Archibald McLeash: “A poem should not mean but be”. Áður orðaði Mallarmé það reyndar skýrar: “Bókmenntir eru gerðar úr orðum, ekki úr hugmyndum.” Sveinn Skorri segir í lok tv. greinar sinnar (bls. 195) um þetta, að ljóð skuli ekki merkja, heldur vera, að “vandséð sé í hverju öðru vera ljóðs sé fremur fólgin en merk­ingu þess.” En eins og svo oft í mód­ern­um ljóðum virðist vera ljóðsins fremur felast í leik að væntingum lesenda til merkingar orða og textaheildar, leik þar sem þeim væntingum er oft brugðist (sjá rit mitt 1992, bls. 65, m.a.). En í þessum óskiljanlegu orðasamböndum skynja lesendur þá vegvillu, úrræðaleysi, sem um er talað.

Samanburður ljóða Steins
Hér hefur komið fram margt sameiginlegt Tímanum og vatninu og þessum öðrum ljóðum Steins sem tekin voru til samsanburðar, og Steinn gaf ekki út á bók sjálf­ur. Líklegt er að a.m.k. sum þeirra hefur hann ekki talið tilbúin til útgáfu, því fyrir kemur að tvö mismunandi ljóð hafi sama titil, “Hugmynd”. Að vísu er aðeins meira af kerfisorðum í Tímanum og vatninu en í Lokaljóðum Steins, en sama hlutfall sértækra orða. Safn sérkennilegra líkinga var og í sama hlut­falli ef miðað er við heildarorðafjölda textans[18]. Nokk­uð meira bar á litarorðum í Tímanum og vatninu en í Lokaljóðum Steins,. Sveinn Skorri segir í tv. grein 1971 (bls. 192):

Eðlilegast virðist að líta á Tímann og vatnið sem úrval, er Steinn hef­ur gert úr kvæðum sínum frá tilteknu kveðskaparskeiði með ákveð­in sjónarmið í huga. [...] eftir að hann hefur safnað kvæðunum í Dvalið hjá djúpu vatni [frumgerð frá 1947], komast þó tvö þeirra aldrei inn í Tímann og vatnið. Í þeim báð­um kemur fyrir sama minni, fax hests, og einnig er talað um “hóf­spor í vatni” [...] flestum kvæðanna er sameiginlegur ákveð­inn hug­blær, og í þeim eru endurtekin ákveðin minni, sem leikast á. [...] Nokkur þess­ara minna mynda tvenndir eða andhverfur (antitheses), er nærri ligg­ur að líta á sem merkingarlega burðarása verksins: tími-vatn; ég - þú; minn - þinn; nálægð - fjarlægð; hreyfing – kyrrstaða.

Þar sem Sveinn rekur að öll ljóð seinni útgáfu nema tvö höfðu birst 1949, fer ekki milli mála að 1. útgáfan er úrval þessara ljóða, og 2. gerð líka, þá höfðu einnig birst ljóð sem hér hafa verið skoðuð í Lokaljóð Steins („Hvítur hestur“ og „Gamall maður og hvítt hús“). Spurningin er bara hvaða sjónarmið réði vali og röð ljóðanna. Taka má undir sjónarmið Sveins með því að segja, að hefði meira verið um hesta, þá hefði þrótt­ar­mynd þeirra truflað þá kyrrð sem ríkir í ljóðabálkinum. Sveinn álykt­ar (í framhaldi síðast tilvitnaðra orða, á bls 192):

Sú athugun sem hér hefur verið gerð á lokaþætti sköpunarsögu Tím­ans og vatnsins virðist ekki benda til þess, að verkið hafi frá upphafi verið hugsað sem ein heild, heldur hafi heimur þess tekið á sig form­gerð sína smátt og smátt.

Þessi ályktun virðist mér röng, því meginbygging Dvalið hjá djúpu vatni og fyrri gerðar Tímans og vatnsins virð­ist næsta ljós og skipuleg. Í þessu fyrsta 10 ljóða safni er ástaljóða­svip­urinn sérlega sterkur, því fjögur fyrstu ljóðin og þrjú síðustu lúta að sambandi mælanda og við­mæl­anda. En í því er alls ekki sú stígandi til æ nánara sambands sem síðar varð, held­ur hverfur bálk­ur­inn aftur til upphafs síns, en í miðhlutanum skiptir yfir til hugleiðinga um lífið sem ferða­lag og feigð á hvítum hesti[19].
Hvað varðar fyrri prentaða gerð, þá benti Peter Carleton á það (1964, bls. 189) að þar skiptast á reglubundnar tersínur (nr.1,3,5,7,10 og 12), og kvæði með óreglu­legri brag­ar­hætti, framan af er þetta sem sjá má annað hvert ljóð, en í hinum óreglu­legri eru líkingar yfirleitt langsóttari. Upphafs­ljóðið er hið sama í báð­um gerðum, mælandi tengir vitund sína frumverum, tímanum og vatni, allt flýtur. Hér er byggt á mjög gamalkunnum og marg­not­uðum lík­ing­um, um straum tímans og djúpa vitund. Í næsta ljóði (nr. 3 í 2. gerð) er ekki minnst á mæl­anda, en umhverfið birtist í annar­legum lík­ing­um og furðulegum, það er sýnt sem óskiljanlegt og hættulegt. Í 3. ljóði fyrri gerðar kemur myndræn, kyrrstæð lýsing mælanda og í 4. ljóði tengir hann sig himni, hér birtast guð, englar, stjarnmenn. Það verður stígandi í sambandi mælanda vog viðmælanda, framan af er óyfir­stíg­anleg fjarlægð milli þeirra, svo tengist harmur hans hamingju henn­ar, en loks sefur fjar­lægð hennar í faðmi hans. Í hinum ljóðunum lýsir mæl­andi sambandi sínu við náttúruna, í litríkum lýsingum og óvenju­leg­um líkingum. Í 6. ljóði er hann virkur gagn­vart þessu umhverfi sínu, spreng­ir fjall, í 8. ljóði -með venjulegri líkingum- kunngjörir hann jörð­inni einhverja fregn, en í 9. ljóði er hann óvirkur skoðandi. Í 11. og 13. er hann einnig óvirkur, en nátengdur fljóti, eilífð, tíma, ljósi og myrkri. Lokaljóðið er þannig víðtæk­ust mynd ljóðabálksins, lengsta ljóðið og hátíð­legt, eðlilega er það einnig lokaljóð 2. gerðar.
Sveinn Skorri segir í framhaldi af síðast tilvitnuðum orðum:

Enn er vert að benda á það, að hafi verkið verið hugsað sem heild frá upphafi, þá bylti skáldið þó gjörsamlega þeirri heildarformgerð, sem ríkir í 1. útg., er það var gefið út í annað sinn.

Þetta virðist mér ofmælt. Þótt t.d. röð ástarljóðanna sé breytt, svo að það sem áður var lokaljóð þeirra, verður nú næLokaljóð Steinsast þeirra[20], þá spillir það ekki stígandi þeirrar raðar. Annars sýna breytingarnar til 2. gerðar ákveðna stefnu. Skiljanlegt er að Steinn riðlaði svo reglubundinni skipan sem að framan var lýst, útkoman varð skáldlegri, lífrænni. Þegar hann nú bætti átta ljóð­um við þrettán, þá varðaði aðeins eitt þeirra (nr. 8, lítillega) samband mæl­anda og viðmælanda, við þessa aukningu dregur því verulega úr ást­ar­ljóðasvip bálksins. Með því að skjóta 2. ljóði inn, verður hægari stíg­andi í langsóttum líkingum frá 1. ljóði til 3. Annars rúma flest ljóðanna sem við bætast eitt­hvað annarlegt, óskiljanlegt[21]. Þannig verður heildarsvipur bálksins nú miklu fremur til að sýna vegvilltan mann í fögrum en óskiljanlegum heimi. Ályktun Sveins Skorra (bls. 194) á því mun betur við fyrri gerð en seinni: “Ef til vill væri unnt að lesa verkið í heild sem minnisvarða um mikla ást.” Breyt­ing­ar Steins 1956 stefndu einmitt frá þeim svip. Hér birtist semsagt maður í annarlegum heimi sem hann lýsir og reyn­ir að tengjast, einkum í ástarsambandi, það tekst að lokum, enda eru ást­ar­ljóðin mun ljósari en hin. Verður ekki að álykta af þessu, að ástin sé leiðin til þess að reyna að finna sér stað í heiminum?

Bókmenntatengsl
Af framangreindum dæmum má sjá, að Steinn Steinarr notaði á viss­an hátt sömu sér­stæðu aðferðir og Halldór Laxness hafði beitt í fáein­um kvæðum um miðjan þriðja ára­tuginn. Ekki verða þó sén bein tengsl, og miklu meiri svipur er með langsóttum líking­um Steins og þeim sem Lindegren hafði í mannen utan väg. Ekki sýnist mér orka tvímælis að Steinn tók þessa róttæku endurnýjun eftir Lindegren, en hitt er og ljóst, að hann hefur forðast að taka upp sama orðalag, sömu líkingar Það er sérkennilegt að sjá að Jóhann Hjálmarsson talar (bls. 138) um áhrif Lindegrens á íslensk ljóð upp úr stríði, en nefnir þó ekki Stein, heldur Hannes Sigfússson:

Hannes er af þeirri gerð skálda, sem eiga auðvelt með að tileinka sér það, sem þau lesa. Ég tel það til dæmis ekki ótrúlegt, að hann hafi í Sví­þjóð kynnst verkum Eriks Lindegrens, einkum hinu magnaða kvæði hans Mannen utan väg, sem kom út 1942. Viðhafnarmikið mál­far og djarflegar líkingar á Hannes sameiginlegar með Linde­gren.

Sjálfsagt er að fallast á það að í Dymbilviku er á köflum “viðhafn­ar­mikið málfar”, en það er almennara einkenni en svo, að það sýni rit­tengsl, fyrst ekki er bent á orða­lagslíkingar. Hinsvegar sé ég ekki í Dymb­il­vöku þær andstæðufullu líkingar sem hér hafa verið raktar hjá Lindegren, Steini og Halldóri Laxness.
Sveinn Skorri hefur rakið (tv. r. bls. 186-191) að þegar Steinn var að setja Tíminn og vatnið saman, var hann um skeið að hugsa um að tengja ljóðin með fyrirsögnum við kunnar goðsögur að fyrirmynd The Waste Land T.S. Eliot. Hitt skiptir þá líka máli, að Steinn hætti við það, og hvað sem því líður er fljótséð að þessi ljóð Steins, Tíminn og vatnið og áþekk kvæði, eru gerólík ljóðum T.S. Eliot, sem eru af tagi expressjónisma, einkennast af því að stilla saman sundurleitum texta­bút­um, sem hver um sig eru næsta aðgengilegir yfirleitt, en ýmist háfleygir eða lágkúra, mikið er um tilvitnanir og vísanir í fornfræg bókmennta­verk, m.a. Hinsvegar er augljóst að fyrstu ljóða­bálkar Hannesar Sigfússonar, Dymbilvaka og Imbru­dagar líkjast þessu. Nánar fjalla ég um þessa ljóðabálka Hann­esar í Kóralforspil hafsins (bls. 104-121). Matthías Johannessen skrifar um þetta í pistli um íslensk nútíma­ljóð, “Á bylgjum hafsins” (endurprentað í Fjötrar okkar og takmörk, bls. 187-244):

Bæði Steinn Steinarr og Hannes Sigfússon höfðu aðvísu lesið The Waste Land, en ljóð þeirra eru ekki á nokkurn hátt einskonar elíotismi í íslenskum búningi, heldur flytja þau nýtt tungutak inní íslenska ljóðlist” [þetta rökstyður Matthías svo, bls. 239]: Í ljóðaflokki einsog Dymbilvöku er ekki notuð aðferð T. S. Eliots, að yrkja úr heimildum með veldulbúnum vísunum innanum eigin­reynslu skáldsins; heldur úr súrrealísku eða draumkenndu hugmyndaflæði og tilfinningaskynjaðri táknmáls­veröld í anda symbólista. (bls. 222)

Enda þótt Hannes yrki sjálfur alla þessa texta Dymbilvöku, þykir mér skipta meira máli, að í henni skiptast á kaflar á sundurleitum stíl, og án samhengis sín á milli, alveg eins og í Eyðilandi Eliots (sbr. Kóralforspi hafsinsl, bls. 108 o. áfr.), og það virðist mér greinileg fyrirmynd Dymbilvöku. En af sama tagi eru t.d. Hólmgönguljóð Matthíasar Johannessen, og hefði ég því átt að telja þau til módernisma í fyrrnefndri bók minni (bls. 139), enda þótt þau séu vel skiljanleg röklega[22].
Nú kemur upp það vandamál, að Steinn sat víst heima öll stríðsárin, sem áður segir, og var í Svíþjóð seinni hluta ársins 1945. En sum kvæða Tímams og vatnsins birtust áður, einnig fáein önnur kvæði hans sem hér hafa verið rædd undir heitinu Lokaljóð Steins. Sveinn Skorri birtir lista þessara kvæða í fyrrnefndri grein sinni[23]. Ekki hef ég heimildir um bókaeign Steins á þessum árum, né hvað honum kann að hafa borist utanlands frá meðan hann dvaldist á Íslandi stríðsárin. Leitt er að ekki skuli hafa birst fræðileg útgáfa ljóða hans, með eins nákvæmum tímasetningum þeirra og kostur er. En með þessum fyrirvara verður að benda á, að þegar þessi listi Sveins Skorra er borinn saman við líkingasafnið úr Tímanum og vatninu og Lokaljóðum Steins hér að framan, kemur í ljós að róttækustu lík­ing­arnar eru í þeim ljóðum sem birtust eftir Svíþjóðarför Steins s.hl. 1945. Tínum hér saman sérkenni­leg­ustu líkingar úr ljóðunum sem birtust áður.
Fyrst er að telja óvenjulegar persónugervingar: "steinninn hló" (4);: "sólin var hjá mér,/ eins og grannvaxin kona,// Og sólin gekk/ yfir grun­laust blómið/ á gulum skóm" (2), „feigðin heldur sér/ frammjóum hönd­um /í fax hans [hests]” (Hvítur 3). Einnig eru nokkr­ar óvenjulegar viðlík­ing­ar: "svipur þinn rann/ eins og svalkaldur skuggi/ milli svefns míns og draums." (19), "þögnin rennur/ eins og rauður sjór/ yfir rödd mína" (20), henni er þó líka líkt við myrkur: þögnin rennur/ eins og ryðbrunnið myrk­ur/ yfir reynd þína" (20). Loks er að telja nokkrar mótsagnir eftir und­arlega hlutgervingu draums: “í óræk spor þín/ féll ímynduð birta/ míns ullhvíta draums// Ég sá andlit þitt speglast/ í innhverfri bylgju/ hins öfuga straums” (19); “Inn í hugans neind/ kemur nóttin/ eins og nafnlaus saga// Og nekt þess sem er/ týnir nálægð sín sjálfs/ út í nætur og daga.” (13). Allt er þetta sérkennilegt, módernt myndmál, en ég ítreka, að hér er ekki að finna það sérstæða líkinga­form sem Steinn á annars sameiginlegt við mannen utan väg – fyrir utan líkingarnar um þögn, þær eru af því tagi. Hinsvegar minnir þetta safn meira á þær mótsagnir, sem Kristján Karls­son hefur rakið (bls.12) að einkenndu ljóð Steins lengstum, og rekur þau áhrif á hann til Tómasar Guðmundssonar, en það virðist mjög sannfærandi.
Andspænis mótsögnunum í þessum ljóðum Steins frá stríðsárunum er nær­tækt að minnast fyrri nódernra ljóða á íslensku, en eins og ég rakti í Kóralforspili hafsins eru það helst “Sorg” Jóhanns Sigurjónssonar (1908-9), Flugur Jóns Thoroddsen (1916-17) og ljóð Halldórs Laxness frá 1926-7. Matthías Johannessen leiðir sannfærandi rök að því (bls. 211-12) að sjá megi áhrif frá “Sorg” Jóhanns (“Á hvítum hestum hleyptum við upp á bláan himin­bogann [..] við héngum í faxi myrkursins”) í “Hvítur hestur” Steins[24]:

ég sé mjúkar hendur/
slá mjallhvítum eldi
í myrkursins fax.

Annars sé ég ekki bein tengsl þessara ljóða Steins við ljóð Jóhanns eða Jóns Thor­odd­sens. Ólíkt þeim eru sértök áberandi hjá Steini, En þau eru einnig áber­andi í mannen utan väg Lindegrens og þeim mun eðlilegra að Steinn tengdist því.
En mótsagnir eru ekki eina áberandi einkenni þessara stríðstímaljóða Steins. Ekki eru síður sláandi litasamstillingar ljóðanna, eins og oft hefur verið bent á. Þær eru sérlega áberandi í ljóðunum sem birtust 1944[25], og raunar kemur þetta sama einkenni fram á mörgum öðr­um ljóðum Steins[26]. Oft hefur verið talið að þetta hafi Steinn sótt til afstrakt­málara samtímans, og þá er vísað til lofsamlegrar greinar hans um þorvald Skúlason í Helgafelli 1942[27]. Mér viðist því rétt að tala um tvö sköp­un­ar­skeið ljóðanna í Tímanum og vatninu og Lokaljóðum Steins, fyrst er skeið litasamsetninga og mót­sagna á striðs­árunum, en surrealískt skeið síðar, eftir stríðslok og Svíþjóðardvöl Steins.
Hér verður nú að víkja að annarri kenningu Matthíasar Johannessen, sem hann orðar með ýmsu móti, en einna afdráttarlausast svo (tv. r, bls. 219 – mér sýnist hann þar óbeint vera að svara riti mínu frá 1992):

Það eu erfið tákn og líkingar í Tímanum og vatninu einsog í Sorg og á þeim tíma mikil nýjung í íslenskri ljóðlist; ekkisíður en nýstár­legar myndir. Yfirborðið órætt eins og sagt var og dularfull mynd­hvörf eða hálfmyndir einsog Sigurður skóla­meist­ari Guð­munds­son kallaði það, að sögn Kristjáns Karlssonar. Þá eru kvæðin byggð á þverstæðum eða andstæðum til áhersluauka. En ég sé engar sundr­aðar setningar eða samhengislausar í þessum kvæðum því vís­an­irnar og táknin eiga að skýra það sem ósagt er. Þessi kvæði eru í raun táknrænn skáldskapur og heyra symbólismanum til, fyrst og síðast.

Matthías telur síðan upp helstu nýrómantísk skáld frá Einari Bene­dikts­syni til Jakobs Smára. Ljóð þeirra eru vissulega í áttina til mód­ern­isma, en þó er afgerandi munur; annarsvegar er samstilling symbólisma en hinsvegar sundurleitni módernisma, svona í stórum dráttum sagt. Ég efa ekki að til séu kvæði sem verða ljósari þega lesendur átta sig á meira eða minna duldum vísunum þeirra til annarra bók­mennta­verka, goðsagna o.þ.u.l., þá verðí þau skiljanleg röklega. En ég hlýt að mót­mæla því að ljóð eins og “Sorg” njóti sín ekki nema lesendur átti sig á vís­unum þess í Opin­berun Jóhannesar og lesi hana inn í kvæðið. Jóhann velur vissulega mynd­mál kvæðisins þaðan, svo sem Hannes Pétursson rakti 1973, en það hefur sín áhrif í kvæð­inu (og hafði þá haft í hálfa öld!) rétt eins og í biblíuritinu. Eða eins og Matthías hefur eftir Kristjáni Karlssyni (bls. 204):

skáldin eru eins og krákan og tína upp glitrandi brot og raða þeim upp á nýjan leik í nýju samhengi svo að þau fá nýja eða a.m.k. breytta merkingu, rétt eins og gömul orð í nýju samhengi, ekkisíst “útjöskuð rímorð”.[...] Með þessu er ekki sagt að hin tilfluttu brot komi upphaf­lega kvæðinu lengur við. Oft ekki.

Skýringar Matthíasar á Tíanum og vatninu eru sumar mjög persónulegar, og verður ekki séð á hverju þær byggjast, t.d. (bls. 215) að lesa krossfestinguna inn í Tímann og vatnið: “í næsta kvæði er hin hvíta fregn um krossfestinguna flutt”. Jafntilefnislaus er t.d. full­yrðing hans (bls. 217): “Naglblá [hönd] er vísun í kross­fest­ingu, dauðann sem verður ekki betur lýst en með andstæðunum nálægð fjarlægð­ar­inn­ar” Naglblá hönd er einfald­lega hönd með bláar neglur, svo sem sjá má af persónugervingu í öðru dæmi okk­ar (frá Dögun 1): “Um öxl þína nakta/ strauk nóttin/ naglblárri hendi“. Auk þess er um­deilanlegt það sem Matthías segir (s.st.). “Og síðar er guð veiddur í blys­möskva og virðist jafnauðvelt og að veiða vindinn í net. Guð er semsagt óhöndl­anlegur” – Í Tíanum og vatninu sagði: “Net til að veiða vindinn:// Eins og svefnhiminn/ lagður blys­möskv­um/ veiðir guð” – og virðist eðlilegt að sjá hann sem geranda hér, þótt orðmyndin gæti líka verið þol­falls­andlag - það væri bara andstætt öllum guðshugmyndum. Ég sé ekki að fólk verði nær skiln­ingi á Tíanum og vatninu við fullyrðingar Matthíasar um að helstu mót­sagnir ljóða­bálks­ins séu eðli­legar og auðskildar. Honum fer bara eins og mörgum sem hafa orðið innlifaðir þess­um ljóðum, að hafa tilfinningu fyrir samhengi, eða eins og hann orðar það sjálfur (bls. 215) um loka­er­indi bálksins: “Slíkt erindi þarf ekki að skilja, heldur skynja. Það segir allt sem ekki verður sagt.”
Ég vísa til undanfarandi umfjöllunar um samtengingu ósamræmanlegs því til stað­festingar, að hér er margt sem verður ekki skilið röklega, og það er alls ekki vegna óljósra vísana, ég sé engar slíkar í Tíanum og vatninu, og ekki tilfærir Matthías neinar. Sama gildir um ljóð Halldórs Laxness 1927, svo sem áður var rakið.

Önnur skáld
Þrátt fyrir mikla leit veit ég ekki af neitt ámóta róttækum módernisma hjá öðrum nor­ræn­um skáldum. á þeim tíma. Það er útbreitt á Norður­lönd­um að nota hug­takið “módern ljóð” í merkingunni fríljóð eða prósaljóð, gjarnan um nútíma­legt efni, t.d. borg­arlíf. Er furðulegt að bókmennta­fræð­ingar virð­ast hafa gleymt því að allt þetta tíðkuðu symbólistar fyrir alda­mótin 1900. Þannig er það sem Danir kalla Hereticamódernisma í raun­inni rök­leg ljóð og gerólík módernisma í frönskum ljóðum eða enskum á fyrra hluta 20. aldar. Dönsk modern ljóð þá eru fyrst og fremst expressjónismi, í stíl við Eyðiland Eliots, það sem módernast er. Sama verður að segja um svokallaðan “sænsk-finnska módernismann” á milli­stríðs­árunum og norsk ljóð frá miðri öldinni, og flest sænsk, það sem ég hefi séð. Tvö skáld verður þó sérstaklega að nefna, Gunnar Ekelöf og Artur Lundkvist. Hjá þeim síðar­nefnda kemur helst til álita á þessum tíma ljóðabókin Næturbrýr (Nattens broar, 1937). Þar má t.d. sjá hvernig líkingar þróast frá kunnuglegum til æ langsóttari[28] (bls. 73):

Um nætur elska ég konu sem ég get aldrei fundið um daga.
Hún hefur eldsvoða í augum, storm í hárinu.
Hún ber þunnan kjól, sáinn þyrnirósum.
Hún umlykur sinn eigin dal með sjö hæðum.
Hún brosir alltaf við spegli sem enginn annar sér.
Hún getur líkt og teningur sýnt eitt auga eða sex.
Hún er hrynjandi malargryfja með vönd af valmúa efst á krúnunni.
Hún er Leda sem veður í gegnum tjarnirnar, í leit að svani sínum.
Hún hefur verönd mót hafinu, þar sem ég sé hana mörg kvöld í kjól úr maurildum meðan sokkin segl anda í djúpinu.
Hún segir: Kallaðu mig Nóttina, þá finnur þú rót þess góða sem um daga er kallað hið illa.
Hun veður æ lengra út þar sem útfirinu lýkur aldrei.
það er hún sem ég elska um nætur en get aldrei fundið um daga.

Vissulega er módernismi í þessum óvæntu tengslum, en ekki gengið eins langt og í greind­um ljóðum Lindegrens og Steins. Hjá Ekelöf ber helst á mód­ernisma í ljóða­söfn­un­um Síðla á jörðu (Sent på jorden )1932 og Tileinkun (Dedikation) frá 1934, en þar verður sömu sögu að segja. Þó þykir mér líklegt að Lindegren hafi frá honum talið um að rista blóðörn (xxix,12) og að tala um ský sem lungu (xxvi, 11), þar sem það kemur fyrir saman í ljóði Ekelöf[29], með greinilegri vísun til sköpunarsögu jarðar skv. Snorra-Eddu.

Sem stór lungu hvíla skýin yfir hafinu, þung
af litum og af regni sem aldrei féll.
Lungu sem vindarnir rifu út
úr sundurslitnum líkama svæfðs jötuns
og ristu honum blóðörn yfir niðurlag sólar.

Þau frægu ensku ljóðskáld, sem mest var vitnað til á þessum tíma, T. S. Eliot og Ezra Pound yrkja allt öðruvísi. En Dylan Thomas er athyglis­verð­ur í þessu sambandi, því það er í syrpu tíu sónhenda, “Altarwise by owl-light”[Við altari í ugluljósi?], sem hann hefur samskonar líkingar og eru í sónhendusyrpu Linde­grens, mannen utan väg. Þessi bálkur Thomas birtist í ljóðabók hans 25 poems, 1936. Hér skal reynt að snara IV sónhendu[30] (bls. 81-2):

Hver er bragarháttur orðabókarinnar?
Stærð sköpunarinnar? kyn gneistans?
Skuggi án lögunar? lögun bergmáls Faraós?
(Lögun aldurs míns nauðar í særðu hvísli).
Hvaða sjöttungur vinds blés út brennandi aðalsfólkið?
(Spurningar eru kroppinbakar gagnvart merg skörungsins).
Hvað um bambusmann meðal ekra þinna?
Setja beinagarðana í lífstykki fyrir óheiðarlegan dreng?
Hnepptu bol þínum um kryppu flísa,
Úlfaldaaugu mín munu nælast gegnum líkklæðið,
Endurskin ástar af svipi sveppa ,
Skyndimyndir teknar af nóttinni á brauðgirtum akrinum,
Einu sinni nærmynd brosandi á myndavegg,
Ljósbogað kastað aftur á skerandi flóðið.
.
Þessar líkingar eru augljóslega af sama tagi og hjá Lindegren og Steini. Annars er þessi sónhendubálkur Thomas mun biblíulegri en þeirra verk.
Ef við nú að lokum lítum yfir Ermarsund, til upphafs módernismans, þá er fyrst að víkja að skáldi sem áður var nefnt í þessu riti. Margt er myrkt í Mallarmé en ekki eru þar líkingar af þessu tagi. Öðru máli gegnir um frum­kvöðla módernismans um 1870, Rimbaud og Lautréamont. Arthur Rimbaud fæddist 1854, og var orðinn merkt skáld 16 ára. En það er með Drukkna skipinu, 1871 sem hvörf verða í skáldskap hans, frá röklegri, myndrænni frásögn til glundroðakenndrar framsetningar[31], sem einkennir seinni ljóð hans, en skáldferli hans telst lokið fjórum árum síðar, þegar hann var 21 árs.
Alkunnar eru yfirlýsingar Rimbaud í Sjáandabréfinu svokallaða (Lettre du voyant) frá maí 1871, um að skáldið þurfi að rugla skilningarvitunum til að komast til hins ókunna. Hugo Friedrich vitnar (bls. 81) í ummæli hans um málaralist, að hún þurfi að verða sjálfstæð með því að hverfa frá eftirlíkingum til að vekja óróa með útlínum, línum og litum sem vísi að sönnu til umheimsins, en einfaldað og bundið töfrum. Þetta er eins og stefnuskrá fyrir málverk 20. aldar, en jafnframt fyrir ljóðlistina, í stað eftirlíkingar, lýsinga, kom sköpun, sem gerði hversdagsskynjun umheimsins framandi.
Friedrich rekur þannig (bls. 80-81) dæmi framangreindra líkinga hjá Rimbaud. Einstök atriði eru skynræn, en falla ekki saman, svo útkoman er myndræn, en jafnframt óhugsandi að skynjuð yrði. Þannig vísar þetta ekki lengur til raunveruleikans, heldur dregur athyglina að sköpun skáldsins. “Holdblóm sem vaxa í stjörnuskógum”; “Óhreinindi borga er rauður og svartur eins og spegill, þegar lampi fer um í herbergi við hliðina”. Rauður fáni er kallaður “fáni úr blæðandi holdi”, liturinn er ekki nefndur, en hugrenningatengsl vakin.
Lítið er vitað um ævi Lautréamont, skáldnafn Isidore Ducasse, sem fæddist í Uruguay 1846 og virðist hafa dáið í Paris 1870. Aðalverk hans, Les Chants de Maldoror birtist 1868, en vegna ótta útgefanda við ritskoðun kom það fyrst á markaðinn 1890. Það vakti víst litla athygli fyrr en upp úr 1920, en þá rakti leið­togi surrealista, André Breton, til Lautréamont meginatriði surreal­ismans, sem Breton tók raunar eftir öðru skáldi, Pierre Reverdy, í Stefnu­skrá surreal­ismans 1924, að skáldleg mynd yrði því mátt­ugri, sem hún tengdi meiri and­stæð­ur saman. Því voru surr­ealistar einatt að vitna til klausu úr Söngv­um Mald­or­ors eftir Lautréamont[32] (frá ár­inu 1869): "Fagurt eins og þegar sauma­vél og regnhlíf hittast af til­vilj­un á lík­skurð­ar­borði". Nú hafa franskir surreal­istar oft verið nefndir til sem læri­feð­ur Linde­grens, og áður (1992) vitnaði ég til þessarar aðferðar þeirra sem fyrirmyndar Halldórs Laxness og Steins. Hér vil ég þá frekar tilfæra hvern­ig Breton orðaði þetta aldar­þriðjungi eftir Stefnuskrá surrealism­ans (sem hann vitnar til í byrjun eftirfarandi klausu), í ritinu Rísandi merki (Signe ascendant[33], bls. 11-12), 1947:

“Því lengra sem er á milli þeirra fyrirbæra sem tengd eru – og tengsl­in þó rétt - þeim mun máttugri tilfinningu ber myndin og þeim mun meiri ljóðrænan veru­leika.” Svo bráðnauðsynlegt sem þetta skilyrði er, þá nægir það ekki. Við hlið þess skipar sér önnur krafa, sem gæti reynst siðferðileg, þegar allt kemur til alls. Athugið að enda þótt afstöðu­myndin takmarkist við að varpa hinu skærasta ljósi á svip að hluta, þá getur hún ekki orðið jafna. Hún hreyfist milli þeurra tveggja fyrirbæra sem birtast, í ákveðna átt, og þeirri hreyf­ingu verður ekki snúið við. Frá fyrra fyrir­bær­inu til hins síðara markar hún lífsþrungna spennu sem beinist eins og mögulegt er að heilbrigði, ánægju, kyrrð, veitt­um þokka, samþykktum sið­um. Verstu fjendur þess­arar hreyf­ing­ar eru niðrun og bæling. – Séu ekki lengur til göfug orð, þá bregst ekki að leirskáld afhjúpa sig með lágkúrulegum tengingum, og eitt besta dæmi þess er þetta “gítar, syngjandi klofbað” frá höfundi, sem yfrið á af slíkum upp­götv­unum.

Í ljóðum André Breton þykir mér einna mest bera á einskonar ástar­ljóð­um, altént ljóðum sem hnitast um viðmælanda. En töluvert ber þó á slík­um ljóð­myndum, sem hann lýsti hér að framan, einkum frá 1923 að telja, í bókinni Jarðbirta, (Clair de terre), sama gildir um félaga hans Aragon (frá og með Sífellda hreyfingin, (Le Mouvement perpetuel), 1920-24). Ennfremur má telja Poul Eluard, einkum frá og með Ógæfa ódauðlegra, (Les malheurs des immortels), sem hann gaf út með mynd­um Max Ernst, 1922. Eðlilegast virðist þó að víkja hér að lokum að elsta dæmi sem ég þekki, það er bókin Segulsvið (eða Segulakrar! –Les Champs magnétiques) sem André Breton og Philippe Soupault ortu saman og gáfu út á árinu 1919. Þar er m.a. ljóð sem hér skal reynt að snúa[34], enda þótt rímorðaleikur, einkum í 5. síðustu línu, sé illþýðanlegur.

Mikill munaður

Tré uppstoppuð af höllum
Fangar náðaðir fyrir góða hegðun
Fast ástand, fljótandi, loftkennt
Skyndiblossi sólar
Sveif gengur fyrir gufu akranna um morgun
Það þarf að reikna með aðdáanlegri fjarlægðinni
Það er ég sem stíg fyrstu skrefin
Bara að vinum mínum hefði ekki verið breytt í saltstyttur
Eina mínútu fer ég um á hesti
Nálæg hvíldarsetur
Hlið í eyðimörkinni ó þessar dómkirkjur sem eru pýramídar apa
Ég held ég rugli saman menningarskeiðum purpuralykt
Enn eitt atvik
Drottinn minn við verðum þá aldrei
Vígsla kolkrabba á kristalli kletts
Þetta er sylgja lífstykkis Hennar
Tinpappír ekki aflitaður pappír
Eins og til er tafla og papýrus
Logandi hugmyndakerfi
Fallegur kálfi
Trompett garðtorgsins

Hér eru þá tengd sundurleit fyrirbæri náttúru og mannfélags; “Vígsla kolkrabba”, “pýramídar apa”, hugmyndaheimur logar, o. fl. þ. h., Upphafslínan er enn ótækari; talar um tré eins og úttroðna dýra­hami, og þar að auki virðist tróðið vera hallir (franska setningin er nokk­uð tvíræð, mætti skilja sem uppstoppuð tré halla). Þar að auki er sam­heng­is­leysi milli lína. Hinsvegar eru mörg seinni ljóð surrealistanna frönsku áhrifa­rík­ari, því hér sakna ég samhengis í undiröldu tilfinninga, líkt og við höfum séð hjá Steini og Lindegren.


Samantekt
Frumgerð Tímans og vatnsins 1948 er býsna skipuleg, þar skiptast á reglulegar tersínur, ástaljóð og ljóð með óreglulegri brag, sem lýsa framandlegu umhverfi mælanda. Þessi skipan verður óreglulegri við helmingsaukningu 1956, en meginsvipurinn helst, mælandi staddur í framandlegu, óskiljanlegu umhverfi, nálgast viðmælanda í ástasambandi.
Það sem gerir Tímann og vatnið sérstætt verk í íslenskri ljóðagerð er einkum myndmálið. Annarsvegar er einstök litadýrð, einkum í ljóðum ortum fyrir Svíþjóðardvöl Steins seinni hluta ársins 1945. En eftir hana kemur til annað höfuðeinkenni bálksins, óræðar líkingar og sam­lík­ing­ar. Hér hefur komið fram, að þar er um arfleifð frá surrealismanum að ræða. Sú aðferð mót­aðist um og upp úr 1920 í Frakklandi. Þessi aðferð er sérlega róttækur módernismi, að tengja sund­ur­leitustu atriði saman í líkingu, þar sem þess þó skyldi gætt að þau ættu eitt­hvað markvert sameiginlegt, og hreyf­ingin frá kennilið til myndliðar stefndi að ein­hverju mikilvægu í hugrenningatengslum. Fjöl­breytnin er mikil innan þessa ramma. En þar sem áður, í t.d. blæleitni (sýmb­ól­isma), náttúrufyrirbæri voru gerð nákomnari lesendum með persónugervingu þeirra og líkingum við hluti í nánasta umhverfi fólks, þá ríkir nú yfirleitt gagnstæð stefna, að nota líkingar til að gera kunnuglega hluti ankannalega, framandi. Þetta færist í aukana frá fyrri gerð Tímans og vatnsins til seinni gerðar, jafnframt því sem ástaljóðasvipurinn rénar..
Aðferðin birtist í ljóðum Halldórs Laxness frá 1927, en þó hefur Steinn fremur lært hana af mannen utan väg (1940) eftir Erik Linde­gren, en beinasta fyrirmynd Lindegrens virðist aftur vera sónhendubálkur eftir Dylan Thomas frá 1936.
Hjá Steini gætir þessarar aðferðar ekki aðeins í Tímanum og vatninu, heldur einnig í nokkrum ljóðum hans frá sama skeiði, sem hér hafa verið borin saman við Tímann og vatnið undir heitinu Lokaljóð Steins. Ég reyndi að flokka líkingar Steins eftir því hvort þær byggðust á afstöðu eða svip, en það var tókst ekki, vegna þess hve breitt bil er milli kenniliðar og myndliðar, og þótt við fylgj­um framangreindum boðskap André Breton, að með þeim séu mikilvæg tengsl og stefna í átt að mikilvægu atriði, þá reynir svo á skáldlega ímyndun að skynja þau, að greinargerð fyrir þeim rúmast ekki hér. Fyrrgreind athuga­semd Hallbergs um líking­ar mannen utan väg, að þær séu mjög skynrænar, en yrðu aldrei skynj­aðar, þykir mér sannast á ljóðum Steins. Sem dæmi mætti nefna: “Gagnsæjum vængj­um/ flýgur vatnið til baka/ gegn viðnámi sínu”, “Á hornréttum fleti/ milli hringsins og keil­unnar/ vex blóm dauðans”, o.s.frv. Í heild birta flestar framangreindra líkinga í ljóðum Steins samsetningu ósamræm­an­legra liða, og má það ótvírætt kallast meginein­kenni þessara ljóða Steins, bæði Tímans og vatnsins og annarra svipaðra ljóða frá síðustu árum hans. Sértökum er líkt við ljós, hljóð, angan, hús og fjall. Tilfinningum og ljósi er líkt við blóm, hugsunum við hesta og bráðið vax; en draumi, dögum, myrkri, nótt, rödd og hugsunum er líkt við fugl, myrkri er auk þess líkt við hjól; vængjaþyt við ljós, hönd við fugl og sprengju, og svo mætti áfram telja. En svo sundurleit atriði sem hér eru tengd, verða líkingarnar þó enn framandlegri við myndrænar lýsingar.
Hvað varðar persónugervingar, ber mest á sértökum í mannen utan väg Linde­grens, þær eru helm­ingur persónugevinga þar. Ólíkt þeirri hefð að gera sértök skynjanleg líkt og persón­ur klassískrar goðafræði, þá eru hér kenni­liður og myndliður í sláandi andstæðum. Sértök eru aftur á móti aðeins þriðjungur persónugervinga Steins, mest ber þar á náttúrufyrir­bær­um, skv. íslenskri hefð. En hegðan persónugervinga Steins er mjög sérkennileg, líkt og hjá Lindegren, og raunar einnig í ljóðum Halldórs Laxness frá miðjum þriðja áratug aldar­innar.
Bæði í mannen utan väg, Tímanum og vatninu og Lokaljóðum Steins er mest um að sértök séu tengd hlutlægum fyrirbærum í ýmiskonar líkingum, en litlu minna er um að hlutlægu sé líkt við hlutlægt, (hlutföllin eru 4/3 eða minna). Í mannen utan väg er miklu meira um eign­ar­falls­sambönd en viðlíkingar, en hvorttveggja ámóta áberandi hjá Steini. Sjaldan líkir hann hlutlægu við hlut­lægt í eignar­falls­sam­böndum, en oft í viðlík­ingum og nokkuð í öðrum líkingum. Annars verður ekki greindur neinn afgerandi munur á notkun þessara mis­munandi forma. Öll eru þau notuð til að hlutgera tilfinningar og sértök; “Draumur minn glóði/ í dulkvikri báru” - (líking) - “blóm dauðanas” “hvít birta harms míns” (eignarfallssambönd) “svaf trú mín og ást/ eins og tvílitt blóm” “Sorg mín glitraði/ í grunn­sævi þínu/ einsog gult raf” (víð­lík­ingar).
. Halldór Laxness hóf surrealismann í íslenskum ljóðum um miðjan þriðja áratug 20. aldar. Það varð þó skammvinnt skeið, en tveimur áratugum síðar gekk Steinn Steinarr að nýju fram á því sviði, með róttæka endurnýjun íslensks ljóðmáls. Augljóst er þó af framan­greind­um dæmum, að fyrirmynd hans, mannen utan väg eftir Erik Lindegren gekk lengra í þessu en Steinn.



Ljóð Steins utan ljóðasafns hans
.

Þögn

Rennandi vatn,
risblár dagur,
raddlaus nótt.

Um þrefalda leið
minna leyndustu drauma
hef ég líf mitt sótt

Meðan þögn mín rann
út í þrotlaust djúpið,
þungt og hljótt.


Samstilling

Rautt gler
gömul vísa,
gult blóm.

Ég hef leikið mér daglangt
eins og lítill krakki
við lit og hlóm.

Og umhverfis beið mín
hin eilífa veröld
auð og tóm.


Tveir draumar

Lát dauðvona þrá mína
skjóta djúpum rótum
í draum þinn.

Lát blóð þitt drjúpa
eins og dökkt regn
yfir draum minn.

Lát harm okkar beggja
verða hamingja sjálfs sín
í hinsta sinn.


Liðinn dagur

Um mitt dulráða andlit
fer dimmblár skuggi
dagsins í gær.

Ég sé hönd þína bærast
í blóðstokknu ljósinu
eins og blóm sem grær.

Meðan draumur minn felst
undir drúpandi vængjum
dagsins í gær.


Ströndin og hafið

Ströndin kemur til hafsins
og ströndin beygir sig niður
að hafinu og hlær.

En hafið dreymir
hinn dimma gróður
sem í djúpi þess grær.

Og ströndin fær aftur
hinn stranga svip
eins og ströndin í gær.


Hugmynd

Tveir gulir hringir
á gráum fleti,
grænt strik.

Hinn innhverfi skuggi
rennur óvænt saman
við augans blik.

Og bæn mín fellur
yfir blekkingu tímans
eins og blakkt ryk.


Ó
lát andlit þitt skína
úr eldgulu rökkri
hins ástleitna dags

ég sé hlaupandi fætur
á hlæjandi öldum
hins hljóða lags

ég sé mjúkar hendur
slá mjallhvítum eldi
í myrkursins fax.


Húsið

Ég er húsið,
lát húmið koma
á háum skóm.

Í dag hef ég hlustað
úr dulhvítri fjarlægð
á hinn dimma róm.

Og ljós mitt beið
hinnar löngu nætur
eins og lokað blóm.


Þessi ljóð hafa ekki birst í Ljóðasafni Steins, en fimm þeirra í tv. ritum Sigfúss Daðasonar og mín (1992) En auk þeirra voru tekin í bálkinn Lokaljóð Steins úr síðasta Ljóðasafni Steins (1991): Hvítur hestur í tunglskini., Rigning, Vegurinn og tíminn, Ljóð, Gamall maður og hvítt hús, Netið, Dögun, Neitun, Hádegi, Tár, Nýr heimur, Sorg, Tíminn og eilífðin, Hringurinn, Augu mín, Draumurinn, Landslag.
Ég þakka Magnúsi Haukssyni íslenskukennara Kaupmannahafnarháskóla yfirlestur og gagnlegar ábendingar. Að sjálfsögðu er ég þó einn ábyrgur fyrir hvers kyns vantköntum sem finnast kunna á þessari grein.


Heimildaskrá:

Louis Aragom: Le Mouvement perpétuel. . [...] Gallimard Poésie, Paris 1970.
André Breton & Philippe Soupault: Les Champs magnétiques: Galli­mard Poésie, Paris 1976.
André Breton: Clair de terre. [...] Gallimard Poésie, Paris 1978.
André Breton: Signe ascendant. (frumútgáfa París, 1949), Gallimard poésie 1968.
Peter Carleton: “Tíminn og vatnið í nýju ljósi.” TMM 1964, bls. 179-191.
Donald Davidson: „What Metaphors mean“ (bls.245-264 í) Inquiries into Truth and Interpretation. Oxford 1984.
Lawrence Durrell: Collected Poems. London 1960, 327 s.
Gunnar Ekelöf: Dikter. Månpocket, Stokkhólmi 1989, 626 bls.
Poul Eluard: Poésies 1913-1926. Gallimard Poésie, Paris 1976.
Hugo Friedrich: Die Struktur der modernen Lyrik [...] 1956, ro­roro Hamburg 1988, 332 bls.
Sverker Göransson: "Ikaros i labyrinten - Erik Lindegren”. Den svenska litteraturen. Modernister och arbetardiktare. 1920-1950. Bonniers, Stokkhólmi 1989 (bls. 226-230).
Peter Hallberg: Diktens bildspråk. Stokkhólmi 1982 (628 bls.).
Halldór Laxness: Kvæðakver. Reykjavík 1930, 92 bls. (hér skst.:Kvkv).
Hannes Sigfússon: Framhaldslíf förumanns. Reykjavík 1985.
Jakob Benediktsson: “Nokkur lýsingarorð hjá Jónasi Hall­grímssyni" (bls. 112-123 í) Lærdómslistir. Afmælisrit 20.7. 1987 Rvík (áður birt í Til Kristins E. Andréssonar, 1961).
Jóhann Hjálmarsson: Íslensk nútímaljóðlist Rvík 1971, 241 bls.
Jón Óskar: Undir Parísarhimni. Þýðingar og saga franskra ljóða. Rvík 1991. 219 bls.
Kristján Karlsson: „Hin ósögðu lausnarorð“ (bls. 9-29 í:) Steinn Steinarr: Ljóðasafn. Rvík 1991.
Kritiskt 40-tal. I urval av Karl Vennberg och Werner Aspenström. Stockholm 1948, 398 bls.
Lautréamont: Les Chants de Maldoror. Í Rimbaud, Lautréamont, Corbière: Oeuvres poétiques complètes. Laffont, Paris 1980.
Erik Lindegren: "Tal i egen sak." Kritiskt 40-tal (bls. 212-19).
Linder: Ny illustrerad svensk litteraturhistoria. Fem decennier av nittonhundratalet. Band 2. Natur och kultur. Stokkhólmi 1966.
Artur Lundkvist: Dikter 1928-1954. Ett urval. Sokkhólmi 1956. 223 bls.
Roland Lysell: Erik Lindegrens imaginära universum. Stockholm 1983.
Matthías Johannessen: Fjötrar okkar og takmörk. Helgispjall. Rvík 1995
Sigfús Daðason: Maðurinn og skáldið Steinn Steinarr. Rvík 1987.
Silja Aðalsteinsdóttir: “Þú og ég sem urðum aldrei til”. Skírni 1981, bls. 101-125.
Steinn Steinarr: Ljóðasafn. Rvík 1991.
Steinn Steinarr:Ævi og skoðanir. Rvík 1995.
Steinn Steinarr: Rejse uden løfte. Digte I udvalg. På dansk ved Poul P. M. Pedersen. Kbh. 1964.
Svavar Sigmundsson: “Um litatáknanir hjá Steini Steinarr.” Mímir 1965, bls. 36- 48.
Sveinn Skorri Höskuldsson: Að yrkja á atómöld. Rvík 1970. 72 bls.
Sveinn Skorri Höskuldsson: “Þegar Tíminn og vatnið var ort” Afmælisrit til dr. phil. Steingríms J. Þorsteinssonar. Rvík 1971, bls. 155-195.
Dylan Thomas: The Collected Poems of. New York, 1957.
TMM: Tímarit Máls og menningar. Rvík 1940 og áfram.
K.- G. Wall: "Mannen utan väg. Kommentarer av en oinvigd." Kritiskt 40-tal (bls. 337-357).
Örn Ólafsson: Kóralforspil hafsins. Rvík 1992.

1. Þessi 25 ljóð, eru samtals 905 orð á móti 797 orðum Tíminn og vatnið. Flest þessara ljóða hafa fyrirsagnir. ólíkt Tímanum og vatninu.. Þær eru samtals 42 orð, svo að þeim frátöldum yrði textamagnið mjög áþekkt. En hér verða fyrirsagnirnar taldar með, þar sem þær eru frá höfundi. Margir telja rangt að prenta verk látins skálds, sem það birti ekki sjált. En slíkt er þó alltaf matsatriði, skáldið gæti hafa ætlað sér að birta ljóðin, þótt þau ættu ekki heima í síðustu ljóðabók þess. Steinn sendi t.d. Tímariti Máls og menningar (hér skst TMM) ljóð sem lágu þar svo óbirt í tvo áratugi, og komu ekki á bók fyrr en löngu eftir dauða hans. Þau ljóð sem hér eru tekin til athugunar undir titlinum Lokaljóð Steins eru að mínum dómi fremri þeim sem hann sendi TMM, en það hefði veikt Tímann og vatnið að hafa þar öll þessi ljóð, bálkurinn hefði orðið meira en tvöfalt lengri og helsti mikið um endurtekningar í formi.

[2] T.d. Landslag, Spádómur, Nótt.
[3] mannen utan väg er alls 4414 orð, en Tíminn og vatnið (i lokagerð frá 1956, 21 ljóð), taldist vera 797 orð, eða tæplega fimmtungur af umfangi bálks Lindegren.
[4] (2651 orð af 4414, eða 60,2%). Það er líkt og í ljóðasöfnum Hjalmar Gullberg, sem Hallberg hafði til samanburðar, en þar hleypur þessi tíðni á bilinu 56,7% til 64.1%.
[5] Hlutfall orða um sjón og heyrn er 23 á móti 8 í mannen utan väg, en 13:19 í jafnlöngu ljóðasafni Gullbergs (Hallberg, bls. 533). Í ljóðum Steins er sjónskynjun enn meira áberandi; í Tímanum og vatninu er þetta hlutfall orða um sjón og heyrn 11:0, en nokkru hærra í Lokaljóðum Steins, 13:0. Í Tímanum og vatninu er dæmin: auga (5), sjá (4), horfa (1), líta (1), en í Lokaljóðum Steins: auga (6), sjá (6), horfa (1)

[6] Samtals 9 dæmi, en aðeins 1 dæmi, hlátur í Lokaljóðum Steins),

[7] Slík orð töldust 84 (3% heildarorðafjöldans) øi mannen utan väg, en aðeins 22 í Sonat Gullbergs. Þessi eru helst: dauði (19), draumur (11), minning (11), líf (10), sannleikur (9), trú (9), tími (8) og örlög (7). Í Tímanum og vatninu töldust sambæri­leg orð 15 (dauði 2, draumur 5, líf 1, trú 1, tími 6). En auk þess verður að telja hér: dul 1, eilífð 3, ekkert 3, neind 1, fjarlægð 3 (+2 lo.), nálægð 2, hraði 1, hverfleikur 1, mót­spyrna 1, viðnám 1, reynd 1, hug(sun) 4, vitund 3, verðandi 1. Enda þótt hér sé ekki meðtalinn guð (3 dæmi), þá verða þetta alls 44 orð, eða 5,5% heildar­orða­forðans. Í Lokaljóðum Steins eru þessi orð 48 eða 5.3% heildar­orða­forðans.
[8]Hallberg hefur þessa tilvitnun á ensku, og veit ekki hvernig Ricoeur hefur orðað þetta á móðurmáli sínu frönsku): ”all the connotations that can fit are to be attached, the poem means all it can mean.”

[9]Huvudsaken är att uttrycksbehovet är starkare än meddelesbehovet. [...] Vad det framför allt gäller att förmedla är den nästan allttid komplicerade känslan - är detta romantik kan det likaväl kallas känslorealism. Det är känslan som bör laddas upp med tankar och inte tvärtom. Den ideologiska överbyggnaden bör slopas och gå under jorden, först i detta läge har den tillfälle att göra sig gällande i hela sin kraft. Den poetiska ”bilden” bör befrias från sin underordnade ställning och bli diktens huvudelement. Tanken bör tänka i bilder, och känslans [eller det undermedvetnas) bilder bör uppta tanken, det rör sig hela tiden om en växelverkan. När tanke och känsla (och sinnesintryck) på detta sätt har mötts i bilden och fullständigt impregnerat varandra bör det i bästa fall uppstå en dikt som bär prägeln av vision.

[10]”För Mallarmés del - de eteriska men samtidigt konkreta visionernas skald par préférence - har Jean-Pierre Richard understrukit, att det ”är i förnimmelsesvärlden som den renaste andligheten undergår sin prövning, antager sin fasta beskaffenhet”, och talat om de ”enkla primitiva förnimmelseselement genom vilka poeten nödvändigtvis måste låta sina visioner passera”. Det är en karakteristik som kunde gälla också för den poetiska tekniken i mannen utan väg - med det viktiga förbehållet, att ”förnimmelseelementen” där är av en långt mera disparat, robust och stundom rentav brutal art, som vida skiljer dem från Mallarmé.En annan klar olikhet är Lindegrens förkärlek för att - inte minst i genitivmetaforens form - jämte ”förnimmelsesvärlden” introducera de med den korresponderande abstrakterna. De konkreta bildleden innebär då, från diktarens sida sett, ett slags precisering. I läsarens ögon kan de kanske ibland få en snarast motsatt effekt. ”

11Friedrich, bls. 80: “Sobald die Beobachtung tiefer drängt, muss sie erkennen, sass sie mit Begriffen wie und nicht mehr auskommt. Ein anderer Begriff scheint dafür tauglicher: sinnliche Irrealität. Wir meinen damit folgendes. Der deformierte Wirklichkeitsstoff spricht sehr häufig in Wortgruppen, von denen jeder Bestandteil sinnliche Qualität hat. Jedoch vereinigen derartige Gruppen sachlich Unvereinbares auf so abnorme Weise, dass aus den sinnlichen Qualitäten ein irreales Gebilde enststeht#. Immer handelt es sich um anschaubare Bilder. Aber es sind solche, die nie dem leiblichen Auge begegnen würden. Sie überschreiten weit diejenige Freiheit, die dank den metaphorishven Grundkräften der Sprache schon immer der Poesie möglich war. [#Nmgr.: Man vergleiche damit eine auf Novalis bezogenee Bemerkung von H. v. Hofmannsthal: (Aufzeichnungen, 1959, s. 183).

[12] Þar tel ég Einar Benediktsson; Sigurjón Friðjónsson; Sigurð Sigurðsson frá Arnarholti; Jóhann Gunnar Sigurðsson, Huldu, Jóhann Sigurjónsson, Jónas Guðlaugsson, Jakob Smára, Stefán frá Hvítgadal, Davíð Stefánsson og Tómas Guðmundsson. Orðið blæleitni tek ég eftir Þorsteini Thorarensen.
[13] Bæði í Tímanum og vatninu og Lokaljóðum Steins ber mest á hvítum (12 í hvorum), og bláum lit (13 í Tímanum og vatninu, 10 í Lokaljóðum Steins), það er samanlagt meira en helmingur litorða þess­ara ljóðabálka (45 litarorð alls í Tímanum og vatninu, en 42 í Lokaljóðum Steins) og í hvorutveggja er hvítur oftast hreinn litur, en blár sjaldnast; blátt regn, tálblátt regn, ísblátt vatn, vatnsbláan vegg og blátt gras í Tímanum og vatninu, auk þess er dimmblátt auga, vængbláar hálfnætur, firðblátt haf, fjólu­blátt ský, bláfextar hugsanir. Naglblá hönd og risblár dagur eru einnig í Lokaljóðum Steins ásamt “kvöld­bláum geimi”, “bláum morgni”, vatnið horfir “kolbláum aug­um”.
[14] það tókst aðeins með sjöttung líkinga Tímans og vatnsins (11 af 64), og fjórð­ung líkinga Lokaljóða Steins (17 af 73). . Afstöðulíkingar voru saman­lagt ívið fleiri (15) en skynjunar­lík­ingar (13).
[15] sannleikur, bless­un, slokkn­un, eyðing, ein­fald­leiki, eilífð, dauðinn, kærleikur, örlög, lygar, minni, neyð o.fl.
[16] Eins og margar langsóttar líkingar má einnig þessi fá auðskilda, sérstaka túlkun. Þetta gæti með sanni sagt maður sem hefði allan daginn verið að snattast fyrir þeldökka konu sína, eins og greinarhöfundur! En svo einstaklingsbundin túlkun, án samhengis við annað í verkinu, hlýtur að vera ómerk.
[17] sbr. fyrrgreint dæmi hjá Halldóri Laxness: “á sælum vörum sorgarinnar/ sofa turnar”
[18] 8%, þ.e. 64 í Tímanum og vatninu, 73 í Lokaljóðum Steins,
[19] Fjögur fyrstu ljóð Dvalið… hafa í lokagerð nr. 15, 10, 2 og 8, en eftirfarandi ljóð, “Rigning” tengist því með “flaxandi fax”, þar fer nafn mælanda áfram “á nafnlausum vegi”, en í þarnæsta kvæði (nr. 18 í lokagerð) flytur hann “hina hvítu fregn”, hvað sem það svo ætti að merkja. Þrjú síðustu ljóð Dvalið… hafa í lokagerð nr. 19, 17, 5, Aðeins 7 þeirra voru meðal hinna 13 sem birtust saman undir titlinum Tíminn og vatnið ári síðar. Eitt hinna varð svo nr. 2 af 21 í lokagerð Tímans og vatnsins.
[20] nr.11. verður 15, en nr.10 verður 17,
[21] nr. í seinni gerð: 4. 8, 9, 11, 13, 19. og 20.
[22] Á það benti Matthías í Morgunblaðsgrein (að mig minnir 1993), þ.e. að skilgreining mín væri helsti þröng – án þess þó að nefna Hólmgönguljóð. Þessi pistill er endurprentaður í bók hans Fjötrar okkar og takmörk, bls. 202 o.áfr.
[23] bls. 157-8 og 192, og í stuttu máli sagt birtust 18 og 4. ljóð Tímans og vatnsins ásamt “Rigningu” í Helgafelli 1944, nr. 2 Tímans og vatnsins í TMM sama ár; nr. 13 og 20 birtust þar ásamt “Hvítur hestur í tunglskini” árið eftir, en nr. 19, 5. og 15 í Helgafelli það ár, í maí 1945.
[24] jafnvel einnig í Tímanum og vatninu 10, en það er öllu óljósara.

[25] ; þ.e. Tíminn og vatnið 18, 4 og 2.
[26] þau ljóð Tímans og vatnsins sem birtust fyrir Svíþjóðarför Steins, sumarið 1945 eru átta talsins og tvöfalt litauðugri en þau 13 ljóð sem síðar birtust. Fyrst birtu ljóðin hafa 20 litarorð (yfir 8% þessara 245 orða), en hin hafa 23 litorð (4% 552 orða).

[27] Matthías Johannessen hefur (bls. 220) þetta eftir Jóhanni Hjálmarssyni, sjá og Svein Skorra 1970, bls. 31.

[28]Om natten älskar jag någon som jag aldrig kan finna om dagen.
Hon har en eldsvåda i ögonen, en storm i håret.
Hon har en tunn klänning översållad med törnrosor.
Hom omsluter sin egen dal med sju kullar.
Hon ler alltid mot en spegel som ingen annan ser.
Hon kan likt en tärning visa ett öga eller sex.
Hon är en glidande grusgrop med en bukett vallmor högst på krönet.
Hon är Leda som vadar genom kärren, sökande sin svan.
Hon har en terrass mot havet där jag ser henne många kvällar i klänning av mareld medan sjunkna segel andas i djupet.
Hon säger: Kalla mig Natten, då finner du roten till det goda som om dagen kallas det onda.
Hon vadar allt längre ut där ebben aldrig upphör.
Det är henne jag älskar om natten men aldrig kan finna om dagen.


[29] Som stora lungor vilar molnen över havet, tunga
Av färger och av regn som aldrig fallit,
Lungor som vindarna ryckt ut
Ur en eterisk Jättas sönderslitna kropp
Och ristat till en blodörn över solens undergang.
Fem elegier2, bls. 47.
[30] What is the metre of the dictionary?
The size of genesis? the short spark’s gender?
Shade without shape? the shape of Pharaoh’s echo?
(My shape of age nagging the wounded whisper).
Which sixth of wind blew out the burning gentry?
(Questions are hunchbacks to the poker marrow).
What of a bamboo man among your acres?
Corset the boneyards for a crooked boy?
Button your bodice on a hunp of splinters,
My camel’s eyes will needle through the shrowd.
Love’s reflection of the mushroom features,
Stills snapped by night in the bread-sided field,
Once close-up smiling in the wall of pictures,
Arc-lamped thrown back upon the cutting flood.

[31] Jón Óskar hefur þýtt þetta kvæði vel, en sleppti þó óskiljanlegasta erindinu. Undir Parísarhimni, Rvík 1991.
[32] þetta er í 6, I, bls. 742-3 (“erindi” (strophe) 53): um piltinn Mervyn, síðast í runu annarlegra (og illþýðanlegra!) líkinga: “Beau [...] comme la rencontre fortuite sur une table de dissection d’une machine ´a coudre et une parapluie).

[33] “Plus les rapports des deux réalités raprochées seront lointains et juste, plus l’image sera forte – plus elle aura de puissance émotive et de réalité poétique.” Cette condition, absolument nécessaire, ne saurait toutefois être tenue pour suffisante. Une autre exigence, qui, en dernière analyse, pourrait bien être d’ordre éthique, se fait place á côté d’elle. Qu’on y prenne garde: l’image analogique, dans la mesure où elle se borne à éclairer, de la plus vive lumière, des similutudes partielles, ne saurait se traduire en termes d’équation. Elle se meut, entre les deux réalités en présence, dans un sens déterminé, qu n’est aucunement reversible. De la première de ces réalités à la seconde, elle marque une tension vitale tournée qu possible vers la santé, le plaisir, la quiétude, la gràce rendue, les usages consentis. Elle a pour ennemis mortels le dépréciatif et le dépressif. – S’il n’existe plus de mots nobles, en revanche les faux poètes n’évitent pas de se signaler par des rapprochements ignobles, dont le type accompli est ce “Guitare bidet qui chante” d’un auteur abondant, du reste, en ces sortes de trouvailles.

[34] GRAND LUXE

Arbres empaillés des palaces
Prisonniers graciés pour leur bonne conduite
État solide liquide gazeux
Action d’éclat du soleil
Manivelle marchant à la vapeur des prés le matin
Il faut tenir compte de la distance admirable
C’est moi qui fais les premiers pas
Si seulement mes amis n’avaient pas été changés en
statues de sel
Espace d’une minute que je parcours à cheval
Villégiatures prochaines
Porches dans le désert ô ces cathédrales qui sont des
pyramides de singes
Je crois que je brouille les civilisations odeur de pourpre
Encore un fait divers
Mon Dieu nous ne serons donc jamais
Sacre du poulpe sur le cristal de roche
C’est la broche de Son corsage
Papier d’étain non papier déteint
Comme il y a tablette et papyrus
Idéologie ardente
Beau mollet
Trompette du square

Í TMM 10.10.2011:
Andmælt grein Þorsteins Þorsteinssonar í TMM

Túlkendur listaverka, svo sem bókmenntaverka, eiga tvo kosti. Annar er að spinna upp úr sér eigin túlkun án tillits til þess hvað öðrum sýnist, slíkar túlkanir eru algengar í ritdómum og einkennast af tuggum svo sem: “Mér finnst/ sýnist/ virðist”. Slíkra vinnubragða gætir nú mest í fyrstu umfjöllun um verkið.
Hinn kosturinn kemur til álita þegar túlkað er verk sem áður hefur verið túlkað, jafnvel margoft. Þá takast fræðimenn á við fyrri túlkanir. Rökræða ber hvaða túlkun eigi best við, það hlýtur að vera sú sem gerir grein fyrir sem flestum einkennum verksins, án þess að stríða gegn miklivægum atriðum þess. Þetta síðasta er nauðsynlegt vegna þess að dæmin sanna að fólk getur spunnið upp hvaða túlkunarvitleysu sem er. Til dæmis hefur verið sagt um Tímann og vatnið “Ljóðaflokkurinn í heild er upphaflega hugsaður sem ballett byggður á goð og helgisögnum” (Steinn Steinar Ævi og skoðanir, bls. 174). Og þessi túlkun kom frá höfundi sjálfum, árið sem síðasta gerð Tímans og vatnsins birtist! Steinn var nú líka nöturlega gamansamur stundum. En minnast ber að hann sagði: “er upphaflega hugsaður”. Það merkir annað en er, þótt t.d. Preben Meulengracht Sørensen hafi tekið þessa balletttúlkun alvarlega.
Í ljósi þessa er ævinlega nauðsynlegt að prófa túlkun á verkinu sjálfu, mælir eitthvað verulegt í því gegn túlkuninni?
Að öllu þessu athuguðu fellir nýi túlkandinn sinn dóm, á hvað fellst hann í fyrri túlkunum, og á hvað ekki, og hversvegna. Eins og ég hefi nýlega rakið (í hausthefti Skírnis 2010) eru tvær meginástæður til þess að rekja fyrri túlkanir: í fyrsta lagi forðast túlkandinn þannig að endurvinna það sem þegar var gert, og í öðru lagi forðast hann þannig að eigna sér annarra verk, jafnvel ómeðvitað. Þetta síðara er ærin ástæða til þessarar varfærni. Sé síðasta undanfarin túlkun samkvæmt þessum reglum, nægir nýja túlkandanum oft að halda sig við hana.
Enn einu sinni hunsar Þorsteinn Þorsteinsson þessar sjálfsögðu reglur í grein sinni um Tímann og vatnið eftir Stein Steinar (í TMM fyrsta hefti 2011). Í heimildaskránni er ekki vísað til þessara fyrri túlkana á verkinu:

Silja Aðalsteinsdóttir: Þú og ég sem urðum aldrei til. 1981, 23 bls.
Matthías Johannessen: Fjötrar okkar og takmörk, 1995, bls. 210-220.
Örn Ólafsson: Uppsprettur Tímans og vatnsins 2005, 36 bls.

Einhvers staðar sá ég sagt um þessa grein Þorsteins, að loksins túlkaði nú Íslendingur þennan ljóðabálk! En flest það sem Þorsteinn segir, um byggingu bálksins, ek. þríhendur, ástaljóð og litanotkun er gamalkunnugt. Einnig “aðferðin er í því fólgin að virkja mátt tungunnar til að byggja nýjar og sjálfstæðar veraldir, áður ókunna ljóðheima” (bls. 15). Hér mætti einnig nefna grein Svavars Sigmundssonar (frá 1965) um litanotkun í kvæðum Steins (12 bls.). Öll þessi rit og fleiri voru rædd í grein minni frá 2005.
Þorsteinn slær úr og í um túlkunaraðferð, segir (bls. 9) að

ljóðin hafa það ekki að meginmarkmiði að flytja merkingu heldur að vekja hughrif, og umfram allt felur skáldið orðunum ekki að flytja eina ótvíræða merkingu. Af þeim sökum er sú aðferð fyllilega réttmæt frá sjónarhóli skáldsins að hljóð (stuðlar) ráði að einhverju marki orðavali. Í annan stað veikir þetta bæði röksemdir um að flokkurinn sé túlkanlegur með hefðbundum hætti og að hann sé surrealískt verk. [...] Sé þessi skilningur minn réttur er einnig hæpið að tala um táknkerfi í Tímanum og vatninu eins og sumir ritskýrendur, til að mynda Preben Meulengracht Sørensen hafa gert.

En svo segir Þorsteinn (bls. 13):

Við lestur Tímans og vatnsins vaknar sú spurning oft hvernig lesa beri ljóðin, hvort þau beri að lesa táknlestri eða bókstaflegum lestri, sem svo mætti kalla, hvort orð og orðasambönd séu tákn sem vísi út fyrir sig til þekkts veruleika, eða hvort þau beri að taka bókstaflega sem sjálfstæðan veruleika sem ekki sé til utan ljóðsins. Við spurningunni er ekkert einfalt svar sem dugi við öll ljóð bálksins.

Með þessu móti getur hann í senn túlkað mótsagnakenndustu texta í Tímanum og vatninu sem lýsingu á umhverfinu, litið hjá öllu sem mælir því í mót – og verið friðhelgur. “Það er bæði og”. En í rauninni eru þær túlkanir sem hann ber fram af tagi röklegs skilnings, að ljóðin vísi til hins og þessa sem allir mega skynja (bls. 14-16). Og þá túlkun leiðir óhjákvæmilega af grundvallarskoðun hans á Tímanum og vatninu. Þannig segir hann um 12. ljóð (bls. 20):

Kvæðið dregur upp ógnvænlega mynd, lýsir sársauka og vanlíðan. Við skulum lesa það sem svo að ljóðmælandi sé skáld, jafnvel Steinn Steinarr sjálfur. Hestarnir sem hugsunum (eða öllu heldur ljóðum) skáldsins er líkt við eru “blóðjárnaðir”, dagarnir “nafnlausir” – viðburðalausir og hver öðrum líkur – og falla lífvana “eins og nýskotnir fuglar” yfir “náttstað” þess. Skáldið á sér greinilega hvergi samastað. Þversagninrnar í þriðja erindi má ef til vill lesa svo: Skáldið hlaut eitt sinn högg og ber þess enn merki, játunin jafngilti neitun en konan (skulum við segja) sem er fjarri víkur aldrei úr huga þess.

Þetta verð ég að kalla að Þorsteinn yrki – sig inn í ljóð Steins, þetta er allt frjáls spuni, sem ekkert bindur við ljóð Steins. Þessi túlkunaraðferð felst í því að líta hjá helstu sérkennum textans! Ennfremur segir Þorsteinn (bls. 14):

Gagnsæjum vængjum/ flýgur vatnið til baka/ gegn viðnámi sínu [...] Það er myndhverfing sem svarar til þeirrar myndar Halldórs að fossinn renni upp í móti. [...] Er ekki eðlilegra að lesa erindið bókstaflega: “Hið rauðgula hnoða” er rauðgult hnoða og þarf ekki frekari skýringar við. [...] að þar glitti í goðsagna- og þjóðsagnaminnið um “leiðarhnoðað” sem vísaði mönnum leið úr ógöngum. [... bls. 16:] En það mætti líka lesa ljóðið táknlestri, lesa það sem ljóð Steins um Stein Steinar skáld. Hvíta höndin í fyrsta og þriðja erindi væri þá tilvísun til hinnar visnu handar skáldsins. Miðerindið lýsir því með myndrænum hætti hve líf hans er valt.Við dauða hans hverfur tíminn; “og loks er eins og ekkert hafi gerst. [Og líf mitt stóð kyrrt/ eins og kringlótt smámynt/ sem er reist upp á rönd]

Þannig túlkar Þorsteinn áfram, og er ástæðulaust að rekja það hér, fólk getur farið í grein hans. En þessi túlkunarleið er eins og hjá þeim Silju og Matthíasi, og skýrir það væntanlega þá staðreynd að hann vísar aldrei til þeirra! Ég tek hér fáein atriði úr grein Silju. Hún hefur vissulega fyrirvara (bls. 36):

Það er erfiðara um vik að fullyrða um nákvæmar skoðanir skáldsins í Tímanum og vatninu, þar er talað í myndum og gátum. [en í framhaldi er m.a., bls. 37:]
í seinni bókum sínum, einkum Tímanum og vatninu, hvarf Steinn frá hefðbundinni notkun lita og litaði sjálfur bæði hluti og hugtök. Sérkennilegt við þá breytingu var að hvíti liturinn, litur hinnar visnu handar, kom í stað dökkra lita á sorg og dauða. Hín hvíta fregn skáldsins er eflaust ekki hvít af neinni tilviljun, hún gæti verið kvíðafull spá þess um framtíð jarðarbarna, en þau hlusta ekki, sofa bara.
[bls. 40: ] Tilhneigingin til að týna tímanum og standa kyrr í nútíðinni sést á röð mynda í 6. ljóði Tímans og vatnsins Ég var drúpandi höfuð [o.áfr.]
[bls. .45: ] Sundraður heimur kemur fram á mörgum myndum í Tímanum og vatninu. Í 7. ljóði er heimsendir Himinninn rignir mér/ gagnsæjum teningum/ yfir hrapandi jörð.//Dagseldur, ljós,/ í kyrrstæðum ótta/ gegnum engil hraðans/ eins og gler. Í 12. ljóði sjáum við tættan og áttlausan villuheim þar sem ekkert er sem sýnist, dagarnir eru nafnlausir, játunin er neikvæð, fjarlægðin nálæg.

Silja hefur það sér til réttlætingar að hún er að leita vitnisburða um tilvistarhyggju í ljóðasafni Steins. Um Þorstein gegnir öðru máli, hann stefnir að heildartúlkun á Tímanum og vatninu. En sameiginlegt túlkunum Silju, Þorsteins, Matthíasar og fleiri, er þrátt fyrir alla fyrirvara að lesa lýsingu raunveruleikans úr mótsögnum Tímans og vatnsins. Ég er þessu algjörlega ósammála, eins og ég rek í löngu máli. Þorsteinn vísar til umfjöllunar minnar um Tímann og vatnið í bókinni Kóralforspil hafsins, 1992. Þar er fjallað um verkið á bls. 80-104, og vitaskuld er þar tekin afstaða til fyrri túlkana. En fyrst ég fjallaði aftur um efnið þrettán árum síðar, og í mun lengra máli, þá mætti öllum ljóst vera að sú túlkun kemur í stað hinnar fyrri. Ekki breytt niðurstaða, en ítarlegri rök. Þar er líka vikið að fleiri túlkunum, m.a. Matthíasar.
Ekki er það vegna þess að Þorsteinn þekki ekki nýrri umfjöllun mína, að hann vitnar aðeins í hina eldri. Ég á bréf frá honum dagsett 24. september 2005 þar sem hann segir m. a.:

Þakka þér kærlega fyrir Uppspretturnar. Ég er búinn að lesa þær allvel yfir en á þó eftir að skoða þær miklu betur. Ætli þú sért ekki þarna með einhverja ítarlegustu rannsókn sem gerð hefur verið á myndmáli Tov?

Síðan segist Þorsteinn ósammála ýmsu í þessari grein minni, sem ég sendi honum skömmu áður en hún birtist í Andvara þá í árslok. Í greininni rek ég mörg dæmi þess að í ljóðabálkinum sé vandlega girt fyrir röklegan skilning með mótsögnum af tagi surrealisma. Ekki vill Þorsteinn fallast á það og færir þau rök að 2. erindi 7. ljóðs sé dæmigerður surrealismi;

Dagseldur, ljós,
í kyrrstæðum ótta
gegnum engil hraðans,
eins og gler.

Það er hinsvegar mjög fjarri því að vera dæmigert fyrir flokkinn. Það sker sig úr fyrir þær sakir að það er undantekning frá þeirri meginaðferð Steins að vekja hughrif með einstökum orðum, orðasamböndum og myndum. Sem er út af fyrir sig arfur frá symbólisma, eins og svo margt í nútímaljóðlist, en ekki surrealisma. Fleira má nefna sem andstætt er þeirri stefnu, svo sem fágun ljóðanna. Þau eru greinilega mjög vísvituð smíð og fáguð til hins ítrasta. Og samsetning bálksins er þaulhugsuð, afurð margra ára tilrauna. [bls. 28. Enn segir Þorsteinn í aftanmálsgrein 8, bls. 35:] fastmótað kerfi á borð við ljóðstafasetningu er surrealisma fjarlægt.

Þetta minnir á tilvitnaða klausu Matthíasar um hughrif symbólisma hér að framan. Síðustu atriði sín rökstyður Þorsteinn ekki, og sé ég ekki aðra skýringu á því en að hann fylgi hér þeim gamalkunna fordómi að rugla saman hráefni surrealista og afurðum. Þeir lögðu sig fram um að brjótast út úr vanahugsun með því að stunda ósjálfráða skrift, og að skrifa hver eftir öðrum á blað án þess að sjá hvað hinir skrifuðu, o. fl. þ. h. Þetta var til að vekja ímyndunaraflið, úr því frumefni unnu þeir, en að sjálfsögðu eru öll listaverk eining, hnituð úr mismunandi þáttum, þ. e. yfirleguverk einstaklings. Ég bíð þess spenntur að Þorsteinn sýni fram á annað um verk surrealista.
Ég færi mörg dæmi þess að Steinn byggi ljóðabálkinn ekki síst á áhrifum frá mannen utan vag, surrealískum ljóðabálki sænska skáldsins Erik Lindegren, en hann birtist fyrst árið 1942, og var endurútgefinn 1946 og vakti þá mikla athygli. Alkunna var að Steinn var mánuðum saman í Svíþjóð upp úr seinni heimsstyrjöld – ásamt Hannesi Sigfússyni, sem vitnar að þeir þá lásu sænsk nútímaskáld, m.a. Lindegren. Hannes vildi þó ekki kannast við áhrif þeirra á þá Stein (Örn Ólafsson 2005, bls.120). Eins og ég nefndi þar í grein minni er það ekki mín uppgötvun að tengja Tímann og vatnið við þennan ljóðabálk Lindegren, það gerði danski þýðandi ljóða Steins, Poul P.M. Pedersen þegar árið 1964 í formála þessara þýðinga sinna.
Þorsteini bar sem öðrum fræðimönnum að kanna hvort eitthvað í Tímanum og vatninu mælti gegn túlkun hans. Og það var auðfundið í minum fjölmörgu dæmum um mótsetningar, samstillingu ósamræmanlegra atriða, en það tel ég megineinkenni surrealisma. Og þótt módernismi hafi þróast úr symbólisma er hann mjög ólíkur aðferð symbólista að vekja hughrif. Ég orðaði aðferð þeirra raunar svo í langri rannsókn, Seiðblátt hafið (2008, einkum á bls. 277- 434), að með samstillingu mismunandi þátta skapi symbólistar eitthvað nýtt, tilfinningu fyrir andartaki. Þeir gerðu náttúrufyrirbæri og hugtök nákomin lesendum með persónugervingu þeirra og líkingum við hluti í nánasta umhverfi fólks. En í módernismanum ríkir yfirleitt gagnstæð stefna, að að nota líkingar til að gera nærtæka, kunnuglega hluti ankannalega, framandi. Það einkennir Tímann og vatnið, og æ meir frá fyrri gerð til seinni. Í þeim bálki skiptir meginmáli að ljóðmælandi er í fögru en annarlegu, óskiljanlegu umhverfi, þ. e. sem hann hefur engin tök á. Það er mjög mikilvægt í ljóðabálkinum, að mótsagnir hans girða fyrir röklegan skilning. Þannig skynja lesendur þessar ógöngur. Og þaðan reynir ljóðmælandi að nálgast viðmælanda í ástarsambandi, sem virðist þá eina leiðin til að ná tökum á tilverunni.
Ætli skýring þess að Þorsteinn lætur sem þessi grein mín sé ekki til, sé ekki sú, að hann ræður ekki við að andmæla öllum þeim dæmum sem mæla gegn túlkun hans. Ég get ekki verið að endurtaka hér rök og dæmi úr þessari grein minni, það yrði allt of langt mál. Enda ættu þeir sem vilja geta komist í Andvara 2005, en að öðrum kosti í greinina á vefslóð minni: http://oernolafs.blogspot.com
Í þessu sambandi verður að minnast á Svein Skorra Höskuldsson. Hann bjó sex ár í Svíþjóð, var sendikennari í íslensku við Uppsalaháskóla á árunum 1962-8. Síðan varð hann prófessor í íslenskum bókmenntum við Háskóla Íslands, og fjallaði þá (1971) í löngu máli um tilurð Tímans og vatnsins. En aldrei minnist hann á tengsl þessa ljóðabálks við sænskar bókmenntir, og er þó erfitt að ímynda sér að hann hafi ekki þekkt til Lindegren, hvað þá til danskrar þýðingar á ljóðum Steins. Á að skýra þessa þögn með því að hann hafi ekki getað hugsað sér erlend áhrif á svo vinsælan og kunnan íslenskan ljóðabálk? Spyr sá sem ekki veit, en hefur mætt slíkri afstöðu hjá fleiri íslenskum bókmenntafræðingum.
Nú komum við aftur til upphafsins. Það má ljóst vera, að sá sem bara túlkar bókmenntaverk eftir eigin höfði, án tillits til þess hvað gæti mælt gegn túlkun hans, hann fremur einungis fimbulfamb, sem er úrelt áður en það birtist, einskis nýtt. Það er sorglegt að sjá frótt hæfileikafólk sóa tíma sínum og kröftum í slíkt.
Þorsteinn þakkar m.a. ritstjóra TMM athugasemdir við grein sína, “vandaðan yfirlestur og uppörvun”. Mikið væri gaman að fá að sjá þær athugasemdir.

Tilvitnuð rit:
Matthías Johannessen: Fjötrar okkar og takmörk, 1995, 25-9, bls.210-221.
Preben Meulengracht Sørensen: Bygging og tákn. Skírni 1970, bls. 129-152.
Silja Aðalsteinsdóttir: Þú og ég sem urðum aldrei til. Skírni 1981, bls. 29-51.
Steinn Steinarr: Ævi og skoðanir. Rvík 1995 (191 bls.).
Sveinn Skorri Höskuldsson: Að yrkja á atómöld. 1970 (74 bls.).
Sveinn Skorri Höskuldsson: Þegar Tíminn og vatnið varð til.
Afmælilisrit til Steingríms J. Þorsteinssonar, 1971, bls. 155-195.
Þorsteinn Þorsteinsson: Að lesa Tímann og vatnið. TMM 2011/1, bls. 6-37.
Örn Ólafsson: Uppsprettur Tímans og vatnsins, Andvara 2005, 119-154.
Örn Ólafsson: Seiðblátt hafið. Kaupmannahöfn 2008 (480 bls.).
Örn Ólafsson: Andmæli. Skírni 2010, bls. 533-7.

Engin ummæli: