Andi tónlistar Þegar fyrstu verk rússneska tónskáldsins Tjækofskís (1840-1893) heyrðust, dáðust menn að þeim karlmannlega þrótti sem einkenndi þau. En svo spurðist að höfundurinn væri hommi, og þá þóttu sömu tónverk vera bæði kvenleg og eitthvað sjúklegt við þau. Og líklega bráðsmitandi, fólk veit á hvað það hættir, horfi það á Svanavatnið eða hlusti á hljómsveitarverk Tjækkofskís. Ekki tókst þó að benda á neitt sérstakt því til staðfestingar, enda er samkynhneigt fólk jafnmargvíslegt og gagnkynhneigt. Algengur fordómur er auðvitað að hommar séu kvenlegir en lesbíur karlmannlegar, en þótti einhverjum Rock Hudson kvenlegur? Þetta tröll duldi samkynhneigð sína og var staðall karlmennsku í Hollywoodkvikmyndum áratugum saman. Ekki er hér rúm fyrir fleiri dæmi, en aldrei hefur neinn getað bent á sérstakan ”anda samkynhneigðar.” Miklu þrálátara hefur þó ruglið verið um annað tónskáld, Richard Wagner (1813-1883). Vegna þess að bandarískar stríðsmyndir hafa mjög misnotað tónverk hans, sérstaklega valkyrjureiðina í upphafi þriðja þáttar óperunnar Valkyrjan, þá hafa margir tengt þessa tónlist við nasismann, talið tónverk Wagners þrungin anda nasismans – enda þótt tónskáldið létist hálfri öld áður en nasistaflokkurinn var stofnaður. Fræg eru ummæli Woody Allen að hvenær sem hann heyri tónlist Wagners, langi hann til að ráðast inn í Pólland. Furðumargir taka þessa aulafyndni alvarlega, og vonandi ekki bara af því að Woody Allen er heimsfrægur. Þeir sem þekkja verk Wagners vita að þau eru öðru fremur kristileg. Og er spaugilegt til þess að vita, að þessi gjálífi og lausláti maður skuli bera fram boðskap sjálfsafneitunar og skírlífis í óperu eftir óperu, t.d. Tannhäuser, Parsifal. En auðvitað á fólk alltaf við Niflungshringinn þegar það sakar Wagner um nasisma. Sannleikurinn er sá að hann lærði íslensku til að geta samið þessa syrpu fjögurra ópera, hún er enda gerð á grundvelli Snorra-Eddu. Og hver sem kynnir sér verkið sér að þar er öðru fremur deilt á græðgi í auð og völd, sem ævinlega leiði til ófarnaðar. Kúgun á dvergum í fyrstu óperunni, Rínargulli, hefur verið túlkuð sem ádeila á arðrán á iðnaðaröreigum samtímans, en vissulega er það túlkun, umdeilanleg eins og aðrar. Nú eru óperur Wagners samsettar sem alhliða listaverk, spunnin saman úr leiklist, bókmenntum og tónlist. Og þar má þá frekar finna meiningu en í hreinum tónverkum. Samt hefur enginn nokkurn tíma mér vitanlega getað sýnt fram á neinn nasisma í verkum Wagners, hvorki gyðingahatur, einræðisdýrkun, þjóðrembu né annað. Raunar er þess að gæta að verk Wagners eru öðrum fremur fórnarlömb áráttu leikstjóra í ”að gera alveg nýja sviðsetningu, sem sýni áður vanrækta hlið á verkinu”. Auðvitað er þetta fyrst og fremst til að vekja athygli á leikstjóranum, til þess þarf hann að fjarlægjast fyrri túlkanir, hvað sem það kostar. Og það kostar stundum mikið. Sé ópera Wagners Lohengrin sviðsett með persónurnar í miðaldabúningi, þá er krafa verksins um réttborinn ríkisarfa til einræðis eins eðlilegur tíðarandi liðins tíma og sama krafa er í sögulegum leikritum Shakespeares frá því um 1600. En þegar persónur í nútímaklæðnaði eru látnar bera fram þessar miðaldahugsanir, þá orkar verkið eins og aðalfundur Nasistafélags Kópavogs og nágrennis. Sannleikurinn er einfaldlega sá, að tónverk segja ekki neitt, þau birta tilfinningar en ekki neinar yfirlýsingar. Og því síður birta þau stjórnmálaskoðanir eða stefnuskrár! Tónverk Johann Sebastian Bach (1685-1750) hafa verið kölluð kristileg. En þau eru það einungis í þeim skilningi að hann samdi þau fyrir þann atvinnurekanda sem þá var hvað auðugastur og gat borgað honum, oratoríur og kantötur á biblíugrundvelli, raunar var hann organleikari við kirkju. Ef til vill hefur hann verið einlægur trúmaður, hvað veit ég, en það birtist ekki í tónverkum hans, sem guðleysingjar svo sem undirritaður hafa mikla ánægju af. Enginn hefur mér vitanlega getað sýnt fram á neitt kristilegt (eða aðra stefnu) í sjálfri tónlistinni. Yfir einstökum köflum tónverka stendur (á ítölsku eða þýsku): hratt, glaðlega, hátíðlega, hægt, o.s.frv. En þetta eru bara leiðbeiningar höfundar um hvernig leika skuli verkið, segja ekkert annað. Tilfinningar eru sammannlegar, þær hafa allir, hvort sem þeir eru nasistar, kommúnistar eða eitthvað þar á milli. Sú tilfinning sem kölluð er trúhneigð er einnig sammannleg, tilfinnning fyrir æðra samhengi, sem maður sjálfur sé aðeins hluti af. Fyrir kemur að tónskáld hefur aðrar fyrirsagnir en leiðbeiningar um túlkun. Nefna má Hnettina eftir enska tónskáldið Gustav Holst (1874-1934). Þar bera einstakir hlutar titlana: Venus, Mars, Júpíter, o.s.frv. En því aðeins setur tónskáld slíka límmiða á verk sín, að verkin sjálf tjá ekki það sem titillinn segir! Er eitthvað lostafullt við tónverkið Venus, styrjaldarlegt við Mars, hátignarlegt við Júpíter? Kannski, en bara eins og tónverk láta slíkar tilfinningar í ljós, það eru engar sögur sagðar með þessum verkum, engar yfirlýsingar tjáðar. Með þessum pistli hefi ég aðeins viljað berjast gegn landlægum fordómum sem spilla fyrir nautn fólks af listaverkum. Hitt er augljóst að við höfum öll mismunandi reynslu og bakgrunn, og þá líka mismunandi viðhorf og smekk, bæði á tónlist og öðru. Því sögðu Rómverjar til forna að ekki væri deilandi um smekk. Nei, en svo sannarlega er ævinlega full ástæða til að berjast gegn fordómum. 20.3.2012
þriðjudagur, 27. nóvember 2012
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli