Túlkun skáldverka Í fyrri greinum mínum hér á Smugunni ræddi ég þá kenningu að smekkur alþýðu í auðvaldsþjóðfélagi væri vaxtarbroddur sósíalískrar menningar framtíðarinnar, því þá tæki alþýðan sjálf völdin, og því bæri hún nú þegar í sér heilbrigðan smekk. Ég leiddi rök að því að þessi kenning stalínista og krata væri bábilja, því hugmyndir sem réttlæta drottnun yfirstéttarinnar drottni í stéttarsamfélagi, einnig með alþýðunni, svo sem dæmin sanna. Því væri þessi stefna til þess eins fallin að kveða alþýðuna í sátt við auðvaldið. Enda er þessi kenning einnig kjarnaatriði nasismans, að alþýðusmekkur beri í sér djúpt þjóðareðlið. Því hömuðust bæði nasistar og stalínistar gegn sjálfstæðri listsköpun, boðuðu íhaldssemi í listum, hefðbundið form umfram allt (Menningarstalínismi, Smugunni 7.11.2011). Það þarf víðtæka byltingarbaráttu alþýðunnar til að losa hana undan klafa borgarlegra hugmynda. Margir hafa þá haft áhyggjur af því að vinsælar bókmenntir innræti alþýðu borgaralegar hugmyndir, og bindi hana þannig undir klafa auðvaldsins. Ég leiddi þá ennfremur rök að því að sjálfstæðar viðtökur skiptu mestu um áhrif listaverka á fólk, einnig stjórnmálaleg áhrif. Það þyrfti gagnrýnar viðtökur, gjarnan í samlestri fólks og umræðum, þar sem fólk gerði sér grein fyrir samhengi listaverksins, hvernig mismunandi þættir þess orka saman, og síðan því hugarfari, viðhorfum, sem í því ríkja (Róttækar bókmenntir, Smugunni 28.11.2011). Listaverkið getur afhjúpað ríkjandi hugarfar, enda þótt því sé alls ekki stefnt gegn því hugarfari, þannig getur t.d. íhaldssamt verk haft róttæk áhrif. Með þessu móti er þá hægt að fá sem mestan þroska af skáldverki. En hvernig á þá að túlka listaverk? Tökum hér dæmi af bókmenntatúlkun. Augljóst er að það er persónuleg lífsreynsla að meðtaka gott listaverk. Það helgast af því að skáldverk eru margþætt. Skáldsögur eru þættar saman úr persónusköpun, byggingu verksins, stíl þess, og fleira mætti telja, í ljóðum orkar saman hljómur, stíll, myndmál, bygging, o. s.frv., auðvitað verða heildaráhrif þessara verka persónuleg, verða ekki smættuð í röklega lýsingu á þeim, einfalda endursögn t.d. Er þá skilningur verksins og túlkun ekki huglæg, verður það ekki túlkað að vild hvers og eins? Nei, svo dæmi sé tekið eftir Stefáni Snævar, ef túlkun skáldverks væri alfrjáls, mætti taka túlkun á Hrafnkels sögu Freysgoða og kalla hana fullgilda túlkun á Hamlet Shakespeares. Allir munu fallast á að það væri fráleitt. Sömuleiðis, ef einhver tæki upp á því að kalla Hamlet gamanleik, myndu flestir afgreiða þann túlkanda sem fífl og snúa sér að öðru. Prófsteinninn á góða túlkun er að hún geri grein fyrir helstu eiginleikum verksins, en mikilvæg einkenni þess stríði ekki gegn túlkuninni. Þannig má komast að niðurstöðu sem er sönn og rétt – amk. að sinni. Oft þróast skilningur fólks þó áfram í umræðum. Mér finnst vera áberandi tilhneiging hjá ýmsum bókmenntafræðingum nú að leggja sig fram um að koma með frumlegar túlkanir, að helga sér ákveðna aðferð sem aðrir hafi ekki sinnt, og skapa sér þar með sérstakt svið. Það virðist skipta þau mun meira máli en að túlkunin standist. Dagný Kristjánsdóttir spurði einu sinni í ritdeilu: “Hvað er oftúlkun?” Svarið hlýtur að vera: Það er túlkun sem stenst ekki athugun. Og þar vil ég nefna sem dæmi freudískar túlkanir hennar sjálfrar á Gunnarshólma Jónasar Hallgrímssonar og á Hvarfi séra Odds á Miklabæ eftir Einar Benediktsson. Ég hefi leitt rök að því að svo margt mæli gegn kynferðislegum túlkunum hennar á fyrirbærum í þessum kvæðum að þær standist ekki (í grein minni Skæðar kreddur og í bók minni Seiðblátt hafið, bls. 213f og 289f), hvorttveggja er á vefslóðum mínum. Auðvitað er ekkert að því að túlkandi beiti lærdómi og hugkvæmni á viðfangsefni sitt. Þvert á móti, það er til fyrirmyndar. Og enn betra ef langt er seilst, farið fjarri fyrri túlkunum, langsótt túlkun getur opnað nýjan skilning. En síðan ber jafnan að kanna styrk þessarar túlkunar, hvort hún standist samanburð við aðrar túlkanir. Sé þess ekki gætt, er hætt við að útkoman verði fimbulfamb, að túlkandi yrki hugaróra sína inn í textann sem túlka skyldi. Slíkt færir ekki skilning, verður bara tískuþvaður. Þorsteinn Þorsteinsson segir í grein (í TMM 4. hefti 2011) um mismunandi túlkun okkar tveggja á Tímanum og vatninu eftir Stein Steinar, að ég boði túlkun fyrir fræðimenn, þar sem hann hinsvegar túlki fyrir almenning. Þetta er fráleitt. Auðvitað skrifa ég fyrir almenning þegar ég birti grein í fjölmiðli! Ég álít bara að almenningi beri að sýna þá virðingu að leggja fyrir hvaða rök túlkandi þykist hafa fyrir túlkuninni. Það er yfirlætislegt að setja bara fram sína túlkun rakalaust. Til þess að tiltekin túlkun skáldverks sannfæri, þarf hún að standast samanburð við aðrar túlkanir sama verks. Og það fannst mér einmitt vanta í t.d. túlkun Þorsteins á Tímanum og vatninu (í TMM 1, bls. 6-37), auk þess sem túlkun hans sniðgengur einmitt megineinkenni ljóðabálksins, það sem einkum aðskilur hann frá öðrum. Þessi ljóðabálkur bragar allur af mótsögnum og myndrænum lýsingum sem eru óskiljanlegar röklega. En Þorsteinn túlkar þær sem tilvísun til skynjanlegs umhverfis. Hvers virði er slík túlkun, sem virðir megineinkenni verksins að vettugi? Nú kunna einhverjir að spyrja: “Hvaða máli skiptir þetta? Má ekki fólk hafa sínar skoðanir? Engan drepur það, þótt skrítnar séu,” Vissulega er þetta háttalag ekki eins afdrifaríkt og þegar könnuðir í læknisfræði falsa rannsóknir og niðurstöður eins og gerst hefur hér í Danmörku (Penkowa, m.a.). En hér eru háskólakennarar í bókmenntum að þröngva einhliða túlkunum sínum á skáldverk án þess að huga að mótrökum. Hvílík fyrirmynd eru þeir nemendum sínum, hvernig rannsóknaaðferðir kenna þeir, hvernig meta þeir ritgerðir nemenda, hvernig prófa þeir þá? Og hvaða áhrif hefur allt þetta á menningu í landinu? Tilvitnuð rit: Dagný Kristjánsdóttir: Skáldið eina. (Undirstraumar 1999), bls. 15-29. Dagný Kristjánsdóttir: Sár Solveigar. (Undirstraumar 1999), bls. 77-85. Þorsteinn Þorsteinsson: Að lesa Tímann og vatnið. TMM 1.hefti 2011, bls. 6-37. Þorsteinn Þorsteinsson: Að gefnu tilefni. TMM 4.hefti 2011, bls. 108-109. Örn Ólafsson: Seiðblátt hafið. 2008 (sjá einkum bls. 213f, 289f og 345ff) Örn Ólafsson: Skæðar kreddur (Stína,2009, 2. hefti, bls. 141-150). Örn Ólafsson: Enn um Tímann og vatnið. TMM 3.hefti 2011, bls. 131-135. Seiðblátt hafið er eins og aðrar bækur mínar á vefslóðinni http://oernolafsbaekur.blogspot.com/ en greinar mínar á: http://oernolafs.blogspot.com/íslenskt 17.1.2012
þriðjudagur, 27. nóvember 2012
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli