fimmtudagur, 22. nóvember 2012

Stefáni Snævar svarað um kreppubók hans Fyrst er að leiðrétta misskilning. Eins og allir geta séð af pistli mínum átaldi ég ekki Stefán fyrir að nota mikið fornafn fyrstu persónu eintölu, heldur réttlætti það með því að þannig setti hann fram forsendur dóma sinna, gerði þær lesendum ljósar. Í annan stað er pistill minn alls enginn ritdómur um bók Stefáns, Kreppa í kreddu. Það sést þegar af því að ég fjalla nánast ekkert um aðalefni bókarinnar, sem fram kemur í undirtitli hennar: “Frjálshyggjan og móteitrið við henni”. Eftir nokkuð almenna lýsingu á vinnubrögðum í bókinni læt ég nægja að gagnrýna ýmislegt í henni, m.a. frá marxísku sjónarmiði. Það er ánægjulegt að Stefán nú segir það misskilning að hann geri Þjóðverja eina ábyrga fyrir fyrri heimsstyrjöld. En var ekki nærtækast að skilja svo þessi orð hans: “Þýskaland keisarans hafði lýðræðislega þætti, samt háði landið stríð við lýðræðisríki á borð við Frakkland, Bretland og Bandaríkin.” Hann hefði líka mátt vera skýrmæltari um hver sagði hvað um Keralafylki. Ég sagði kenningu Lenins um heimsvaldastefnuna “alkunna”. Það merkir auðvitað ekki sama og “almennt viðurkennd”. Sagan um Adam og Evu er alkunn, en síður en svo almennt viðurkennd sannindi. Ég sagði bara að kenning Leníns væri svo alkunna að Stefán hefði átt að andmæla henni, væri hann ekki sammála. Þau andmæli setur hann svo fram nú. Of langt mál yrði hér að ræða allt sem hann segir um að nýlendustefnan hafi verið dýr, og því studd af aðli og herforingjum, fremur en af viðskiptahöldum, sem hafi þó átt að græða á henni. Hitt virðist þó ljóst að sitt var hvað, hver borgaði nýlendustefnuna – skattborgarar – og hver græddi á henni – iðjuhöldar, herforingjar og fl. þ.h. ” Arðræna Vesturlönd Sádí-Arabíu?” spyr Stefán. Enn einu sinni talar hann allt of almennt og sértækt. Svarið er að fáeinir auðugir vesturlandabúar arðræna flesta íbúa Sádí-Arabíu með dyggum stuðningi fáeinna Sádíaraba, þ.e. valdhafa og auðmanna landsins. Það er sannarlega hressandi að lesa rit Stefáns þegar hann dregur útbreiddar skoðanir í efa og kannar rök með og móti. En það nægir ekki. Efist hann um að vinna sé grundvöllur verðmæta, þá verður hann að gera svo vel að segja hvað hann vilji setja í staðinn. Augljóst má vera að ýmis þau fyrirbæri sem kallast ”náttúruauðlindir” öðlast bara verðmæti við vinnu manna. Þar á meðal er olían sem Stefán segir réttilega að hafi verið verðlaus þangað til bensínvélin var upp fundin. Spyrja mætti hvort hann ímyndi sér að tilteknir þýskir uppfinningamenn hafi þá fært olíunni þau verðmæti sem hún hefur nú. En mér sýnist líklegra að það sé vinnan við að smíða vélar til að annast hana, vinnan við að dæla henni úr jörð, hreinsa hana, markaðssetja, o.s.frv. Stefán segist bara vitna í Þorstein Gylfason um að Marx hafi verið nauðhyggjumaður. Stefán tekur þó undir þetta: “Hins vegar hafði Marx tilhneigingu til nauðhyggju, hún kemur hvað skýrast fram í formálanum að Auðmagninu þar sem hann segir að þróun samfélaga lúti náttúrulögmálum, þekki menn þau lögmál þá geti menn stytt eða lengt fæðingarhríðir hins nýja samfélags sem þróunarlögmálin geti af sér. En ekki numið þau úr gildi. Hvað er þetta annað en nauðhyggja light?” Svar mitt er að þetta kunni að vera óheppilega orðað (hvort sem svo er í þýska frumtextanum eða íslensku þýðingunni), auðvitað lýtur þjóðfélagsþróun ekki ósveigjanlegum náttúrulögmálum. Hitt má augljóst vera, sem er meginkenning Marx, að sterkar hneigðir valda því hvers konar þjóðfélag rís af hverskonar atvinnuháttum. Svo mjög þekkt dæmi sér tekið, þá byggðist búskapur í Egyptalandi og Millifljótalandi (Írak) til forna á áveitum til að nýta árleg flóð í fljótum sem náðu gegnum mestallt landið, og tryggðu greiðar og skjótar samgöngur. Skiljanlegt er að samvinnu bænda þurfti um þessar áveitur, skiljanlegt er einnig að á þessum tíma auðveldaði þessi samvinna sterka miðstjórn, einræði. Jafnauðskilið er að Evrópa á miðöldum, með víðlend ríki kvikfjárræktar og akuryrkju og erfiðar samgöngur, var ekki á sama hátt grundvöllur fyrir sterkt ríkisvald, enda var það konungsvald veikt, mikil völd lágu hjá héraðshöfðingjum víðsvegar. Eftir stendur að bæði Marx og Engels börðust gegn efnahagslegri nauðhyggju. Ég leyfi mér að vitna í bók mína Rauðu pennarnir (Rvík 1990, bls. 1 o.áfr.) um ”það grundvallaratriði kenninga þeirra, að öll svið mannlífsins tengist sín á milli, orki hvert á annað, og ákvarðist þannig sögulega, að skipulag framleiðslulífsins ráði mestu þegar til lengdar lætur. Þetta er „víxlverkan á grundvelli efnahagslegrar nauðsynjar, sem hefur sitt fram að lokum“, sagði Engels 1894 (bls. 206–7). „Það er ekki vitund manna sem ákvarðar tilveru þeirra, heldur er það þvert á móti félagsleg tilvera þeirra sem mótar vitund þeirra“ sagði Marx 1857 (A, bls. 8¬9). Þetta hefur oft verið rangtúlkað svo, að öll fyrirbæri mannlífsins megi leiða út frá efna¬hags¬lífinu. Það kallast vélgeng efnishyggja (eða dólgamarxismi). En Engels heldur áfram: Það er ekki svo að skilja, að efnahagslífið eitt sé virk orsök, og allt annað aðeins óvirk afleiðing. Því fjær sem eitthvert svið mannlífsins er efnahagslífinu, því nær sem það er hreinum, óhlutbundnum hugmyndaheimi (t.d. bókmenntir og listir), þeim mun fremur finnum við tilviljanir í þróun þess, því meiri sveiflur eru á línu þróunarinnar. En sé dregin miðlína þessara sveiflna, mun sannast, að hún nálgast þróunarlínu efnahagslífsins því meir sem sviðið er víðara, og tímaskeiðið lengra sem við skoðum”. Stefán segir: “M.a. vegna þess að núverandi kerfi er sæmilega viðunandi er engin ástæða til að taka áhættu af samfélagskerfi sem er róttækt öðruvísi.” Ætla mætti að hann fetaði hér í fótspor þýska heimspekingsins Leibnitz, sem fyrir eitthvað á þriðju öld sagði að við byggjum í besta mögulega heimi. (Þá skoðun hæddi Voltaire í skáldsögunni Birtingi.) En það er nú öðru nær, Stefán rekur í löngu máli ágalla núverandi skipulags. Auk þess er þetta allt of sértækt hjá honum. “Lýðræði” virðist bara merkja þingræði, væntanlega með félagafrelsi og tjáningarfrelsi. Í Bandaríkjunum er þetta – með þeim afdrifaríku takmörkunum að auðjöfrar eiga alla fjölmiðla, og að mikinn auð þarf til stjórnmálabaráttu. Í Bandaríkjunum er líka markaður. Er ekki samt fráleitt að kalla það “sæmilega viðunandi” þjóðfélag, sem ekki megi breyta róttækt? Stöðugt eykst mismunur auðugra og örsnauðra, sem í stórum stíl missa atvinnu, húsnæði og verða að hírast á götum úti, sjúkratryggingar eru svo lélegar að fólk hefur ekki efni á að leita til læknis eða sjúkrahúsa. Einnig á Stefánslofuðuðum Norðurlöndum stækkar gjáin milli ríkra og snauðra, atvinnuleysi eykst mikið, enda fluttist húsnæðisbólan þangað frá Bandaríkjunum. Sama kreppa eða verri er um alla Evrópu, eins og Stefán rekur ítarlega í bók sinni. Hver getur kallað þetta ”sæmilega viðunandi kerfi”? Ekki jafnaðarmenn, svo mikið er víst, frekar það sem Stefán kallar tepokalýð Bandaríkjanna og moldrík yfirstétt þeirra. Ég ítreka að stanig Stefán við: ”Við vitum hvað við höfum, en ekki hvað við fáum”, þá eru það sígild rök gegn öllum breytingum, margafsönnuð af mannskynssögunni, og það verður ekki kallað annað en hugsunarlaus íhaldsstefna. Stefán segir ennfremur: ” Í síðara lagi hræða spor sósíalismans, meira að segja Júgóslafia með sín verkamannaráð var einræðisríki og efnahagslega staðnað. I ofan á lag benda hugsunartilraunir til þess að sósíalisminn sé ekki á vetur setjanda.” Helstu rök Stefáns fyrir samhengi milli sósíalisma og einræðis eru að öflug miðstjórn á efnahagslífinu leiði til einræðis, en valddreifing, raunveruleg ráðstjórn, muni leiða til glundroða, en hann aftur til einræðis. Ég segi aftur á móti, að flokkur undir stjórn Títós vann vopnaða baráttu gegn nasistum, erlendum og innlendum, og eftir að hann hafði náð alræðisvöldum, var hann ekkert fyrir að afsala sér þeim. Stefán spyr ennfremur: ”Er nokkur ástæða til að trúa á óprófanlegar kenningar eins og þá sem kennd er við vinnugildi?” Svarið er að öll trúum við á óprófanlegar kenningar, svo sem Stefán rekur ágætlega um trú okkar á óprófanlegar forsendur ýmissa dóma og ályktana, svo sem um list og réttlæti. Ég álít t.d. að engin leið sé að finna almennan mun kvenna og karla, enda sé um milljarða ókunnra mannvera að ræða, og enginn geti haft þekkingu á þeim. Með sömu rökum trúi ég ekki á kynþáttamun, en þessi kenning er vissulega óprófanleg. Ég hef mér það helst til afbötunar að jafnóprófanleg er andstæð kenning sem kunnust er af Helgu Kress og félögum, að grundvallarmunur sé á kynjunum, og hann birtist í bókmenntum eftir karla og konur, m.a. Þessi kenning var þegar alkunn í mínu ungdæmi og hét þá karlremba, en er nú kennd við kvennamenningu. En verst er að Stefán lætur sér nægja ”hugsunartilraunir” í stað þess að kanna hvað raunverulega gerðist, sögulegar aðstæður. Ég þykist hafa rakið að það háir bók hans verulega. Ég verð að biðjast velvirðingar á því að segja Stefán hafa gefið úr sex fræðirit á 22 árum, auðvitað eru 12 ár liðin frá 1999, þegar það fyrsta birtist. Ég veit satt að segja ekki hvernig þessi villa varð til. Innsláttarvilla? P.s. Mikið væri gaman ef Gústaf Níelsson vildi útskýra hvað hann á við með að ég sé ”Heiðar snyrtir hinna sósíalísku þjóðfélagsvísinda”. Skilur þetta nokkur maður?

Engin ummæli: