Guðbergur Bergsson verður áttræður sextánda október. Þá hefur hann auðgað íslenskar bókmenntir í rúmlega hálfa öld, en fyrstu bækur hans birtust 1961, skáldsagan Músin sem læðist og ljóðabókin Endurtekin orð. Höfundarverki Guðbergs má skipta í fjögur meginsvið. Afkastamestur hefur hann verið sem þýðandi, nær 40 bindi má þar telja. Þar munar mest um stórvirkið Don Kíkóti, fjögurra alda gamalt verk, sem er ein útbreiddasta skáldsaga heims, en mun meira hefur Guðbergur þó þýtt frá síðustu áratugum. Hann gerði kólumbíska nóbelshöfundinn Gabríel García Marquéz að heimilisvini Íslendinga, og hefur þýtt safnrit portúgalskra, spænskra og þýskra bókmennta, auk fjölda einstakra skáldsagna. Í safnritunum leggur hann sig fram um heildarsvipinn, þar er margt mjög ólíkt frumsömdum verkum hans, jafnvel þjóðrembulegt og valdboðssinnað. Ljóðabækur Guðbergs hafa aðeins orðið þrjú lítil kver á hálfri öld, en margt er þar gott, og óröklegt, líkt og í sögum hans. Afar afkastamikill hefur Guðbergur verið í greinaskrifum, þar hefi ég talið átta tugi greina um stjórnmál, fagurfræði og bókmenntir, sjálfsagt eru þar margar greinar vantaldar. Sömuleiðis hefi ég rekist á 25 viðtöl við hann auk viðtalsbókar hans og Þóru Kristínar Ásgeirsdóttur fyrir 20 árum, einnig þar lætur Guðbergur gamminn geisa um ýmis málefni. Frægastur er Guðbergur þó fyrir frumsamdar skáldsögur sínar. En þær eru nú rúmlega tveir tugir, þar af mega fjórar með einhverju móti teljast barnabækur, en auk þess eru sjö smásagnasöfn. Þegar með því fyrsta, Leikföng leiðans, 1964, sagðist Guðbergur hafa aðhyllst það sem kallað var ”nýskáldsögurnar frönsku” (le nouveau roman). En frumkvöðull þeirrar stefnu var Nathalie Sarraute. sem var meðal kunnustu skáldsagnahöfunda Frakklands á seinni hluta 20. aldar. Hún fæddist sem rússi árið 1900, undir nafninu Natalia Tsjerniak, en fluttist til Frakklands á barnsaldri. Hún hefur vísað til fyrirrennara sinna í þessarri nýju sagnagerð: að nokkru til sagna franska skáldsins Huysmans 1884 – að söguþráður sé óþarfur, og til Kafka og Joyce upp úr 1920 – þar er fráhvarf frá persónusköpun, en margbrotin persónusköpun þótti áður vera aðalsmerki skáldsagna. Það sem vinnst við að sleppa söguþræði og persónusköpun er að áherslan flyst frá viðburðum og eiginleikum persóna að hugarástandi, sálarlífi, sem margir eiga sameiginleg, m.a. lesendur. Hefðbundnar skáldsagnapersónur þóttu vera of mótaðar, frosnar sem fulltrúi einhvers eiginleika, nísku, ástar, o.s.frv., en nú var lögð áhersla á hverfula strauma undir yfirborði þeirra Tengist þetta síendurteknum alhæfingum Guðbergs um hópa? Altént virðist þarna birtur almennur hugsunarháttur. Skáldsögur Nathalie Sarraute eru fremur stuttar. Ekki er samfelldur söguþráður. Þær hafa fáar persónur og fæstar eru nafngreindar. Textinn er flæði ummæla og hugsana, í brotaformi, erfitt er að sjá skil milli hugsana og tals, hvað þá milli persóna. Allt er þetta á talmáli menntaðs efnafólks. Mikið er um endurtekningar og ýmislegt er þar af þráhyggjutagi. Sama gildir um sögur annars framámanns hreyfingarinnar, Alain Robbe-Grillet. Í sögum hans er lítið um samtöl, en þeim mun meira um lýsingar umhverfis, sem oft eru endurteknar með tilbrigðum, en Sarraute hefur litlar sem engar slíkar lýsingar, hjá henni er mest um samtöl, einnig þau eru endurtekin með tilbrigðum. Sérstaka athygli vekur franskur höfundur sem ekki taldist til þessa straums, Georges Perec, en hann skapaði oft mannlífsmynd með því einu að lýsa húsbúnaði og öðrum hlutum. Sagt hefur verið að þessar endurtekningar með tilbrigðum séu til þess fallnar að stöðva alla atburðarás, en einnig að afnema tilvísun orða til umhverfis, túlka flæðið undir talinu. Guðbergur notar mest talmál íslensks alþýðufólks frá uppvaxtarárum sínum og umhverfi. En bæði Guðbergur og Sarraute ýkja og skrumskæla,gerapersónur sínar einhliða og hlægilegar. Fyrsta bók Nathalie Sarraute, Tropismes, birtist 1939, og sameinaði 24 stutta texta frá 1932-37. Þeir eru af sama tagi og seinni verk hennar. Hún varð nær 100 ára, dó 1999, og var þá að vinna að sjöunda leikriti sínu. Um fyrstu bók sína sagði hún m.a.: Öll athygli mín beindist að þeim kenndum, sem valda vissum hreyfingum, vart meðvituðum, sem verða með okkur í fáeinar mínútur, stundum á fáeinum sekúndum, og sem ég hér reyndi að skila í myndum og hreyfingum setningar, eins og stækkuðum og sýndar hægt. Þegar ég loks ákvað að skrifa skáldsögu, var það bara til þess að þessar hreyfingar gætu þróast á stærra svæði og geislast út frá sömu miðju. Þetta finnst mér tengjast tíðum lýsingum Guðbergs á tilgangslausu fitli persóna við líkamshluta sinn, strjúka yfir maga eða höku, geifla sig. Ennfremur tengir Sarraute nýskáldsögur við nýstefnu í listum ella: Þannig hefur nútímatónlist losnað við tilfinningu og lag til lað leysa hreinan hljóm. Þannig beinist myndlist sem kölluð er ”afstrakt” að því að beina athygli sjáandans eingöngu að því sem er myndrænt. Þannig losnar ljóðlist við mælsku og rím. Á sama hátt beinast skáldsögur að því að losna undan persónum og söguþræði til að tengjast hreinni skynjun sem vekur vissa sýn á umhverfið eða leiki minnisins eða tímans rás, eða auðlegð andartaks sem stækkar óheft, eða innri hreyfingar, vart meðvitaðar, og hvernig þær brjótast í gegnum stirðnaðar myndir. Ýmislegt í verkum Guðbergs minnir á þessar skáldsögur, einkum það að söguþráður er ruglingslegur, stundum ófinnanlegur, skil persóna eru óljós og sögurnar gerast mest í hugarheimi þeirra, eru oft einskonar birting almannaróms. Iðulega ber sagan vitund um að vera skáldskapur. Þetta varð áberandi þegar með fjórðu bók Guðbergs, Tómas Jónsson metsölubók, 1966. Af henni varð hann frægur, og hefur átt marga trygga aðdáendur æ síðan. Þessi saga varð fræg m.a. fyrir að söguþráður var höggvinn sundur, þar var stokkið fram og aftur í tímanum, auk þess sem persónur runnu saman og sundur í lokin. Það varð þó meira áberandi í næstu sögum, 1967-76. Margt af þessu gildir líka um sögur Thors Vilhjálmssonar, þegar í fyrstu textum hans, frá 1950 að telja, en einkum elstu skáldsögurnar, frá 1968 og áfram, Fljótt, fljótt sagði fuglinn, Óp bjöllunnar og fleiri. Söguþráður er nánast enginn, persónur eru nafnlausar og renna saman, þær eru sumar ýktar. Samt eru þessar sögur ólíkar sögum Guðbergs, og það er einkum vegna stílsins, texti Thors er svo myndrænn og hlaðinn, framrásin stöðvast nánast í myndrænum lýsingum. Þessar skáldsögur hans gerast líka í Suður-Evrópu, ólíkt sögum Guðbergs sem gerast á Íslandi. Þannig eru bæði Steinar Sigurjónsson, Guðbergur og Thor afkvæmi nýskáldsagnanna frönsku, og hafa þróast hver með sínum hætti. Um Steinar má fræðast í lokabindi ritsafns hans. Sögur Guðbergs eiga það sameiginlegt að gefa fyrst og fremst mynd af samfélaginu. Það er nákvæm mynd og sannfærandi, sem lesendur geta kannast við. Röð einstakra atriða í þessu myndasafni er þá nánast tilviljanakennd, því þessi mynd af samfélaginu er alls ekki samkvæmt neinni raunsæishefð, öðru nær rúmar hún oft atriði sem allir lesendur mega vita að er fjarstæða, framrás sögunnar er einnig oft fjarstæðukennd. Persónur eru jafnan einhliða og yfirborðslegar, en nokkuð er um flökt, að ein persóna breytist í aðra. Mjög oft er dregið fram eitthvað líkamlegt, líkt og t.d. Steinar Sigurjónsson gerði áður. Allt þetta má skapa sögunum draumkenndan blæ, staðsetja þær í hugarheimi lesenda, frekar en sem eftirlíkingu umhverfis þeirra. Persónur koma á óvart, lesendum birtist sundurlaus fólksmassi og mótsagnakenndur. En þetta slævir síður en svo ádeilu sagnanna eða háð, skerpir það öllu fremur með ýkjum. Sögupersónur eru iðulega afgreiddar í hópum, með alhæfingum. Í flestum sögunum er í sögumiðju persóna sem virðist umfram allt venjuleg. Hugarheimur hennar er hversdagslegur, gjarna mótsagnakenndur. Um aðrar sögupersónur virðist óhætt að alhæfa að þær eru flestar fráhrindandi, ljótar, sóðalegar, heimskar og smekklausar. Ósjálfstæði, undirferli og sjálfsaumkun er oft áberandi. Vart geta þær látið skoðun í ljós nema taka hana samstundis aftur að mestu, og undirstrika að þeim sé ekki illa við neinn persónulega. Og setji þær fram skoðun er það á ópersónulegan hátt, sem samsamar þær einhverju meðaltali fólks (”Verið er að hossa honum” “Maður sér ekki að” o.s.frv.). Mikið er um að sögupersóna geri sér tal annarrar í hug, jafnvel í smáatriðum. Háspekilegt tal er lagt í munn ólíklegustu persóna og gerir það þær ósannfærandi. Ádeila er mjög áberandi í bókum Guðbergs, en yfirleitt birtist hún óbeint, í skopstælingum viðtekinna viðhorfa, hátta og tals birtist hve heimskulegt og ósmekklegt það er. Einkum virðist mér ádeilan beinast gegn ósjálfstæði, neyslugræðgi, gegn óvirkri viðtöku einhvers utan í frá, í stað þess að skapa. Þess má minnast í þessu sambandi að Nathalie Sarraute þótti skáldsaga Flaubert, Madame Bovary miklu betri en saga hans Salammbo. Það væri vegna þess að allar lýsingar í fyrrgreindu bókinni væru út frá sjónarmiði söguhetju en ekki höfundar. Sakaði þá ekki að frú Bovary er fávís snobb (Oeuvres completes, bls. 1630-1635). Mér finnst Sarraute ósanngjörn gagnvart Salammbo, lýsingar sögunnar einkennast af annarleika en ekki klissjum. En þetta minnir á sögumiðju Guðbergs, einnig hann lýsir umhverfinu oft frá sjónarmiði persónu sem flestum lesendum má þykja takmörkuð að viti. Thor Vilhjálmsson fór líkt að í sögulegri skáldsögu sinni, Grámosinn glóir, lýsti Íslandi í gegnum ljóðmyndir ættjarðarljóða 19. aldar, en það er einnig einskonar almannarómur tíma skáldsögunnar, – þjóðarvitund Íslendinga um 1890. Þessi stefna í skáldskap er síður en svo bundin við Frakkland og Ísland, í Danmörku mætti t.d. nefna höfuðskáldin Per Hultberg og Vibeke Grønfeldt. Þakklátir mega Íslendingar – og aðrir lesendur – vera Guðbergi fyrir hans mikla starf, og eru það líka, flestir. Þessi grein mín byggist á bók minni um verk Guðbergs, sem birtist einmitt um þessar mundir, hún heitir bara Guðbergur. Einnig á ég grein um sama efni í nýjasta hefti tímaritsins Stínu. Nathalie Sarraute: Oeuvres completes. La Pleiade, Paris 1999, 14.10.2012 Smugan
þriðjudagur, 27. nóvember 2012
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli