fimmtudagur, 30. apríl 2009

Um Maríubréf Einars Más Jónssonar

Frönskum spekingum hallmælt
Bréf til Maríu eftir Einar Má Jónsson (hér EMJ) vakti mikla athygli og maklega strax þegar hún kom út árið 2007. Bókin er metnaðarfull, tekst á við margskonar öfugþróun alþjóðlega undanfarna áratugi og setur í heildarkerfi. Þar er fjallað um sókn nýfrjálshyggju gegn velferð, um einföldun í kennslumálum, húsavernd, mengun og margt fleira sem mikið hefur verið í umræðu um langt skeið. Bókin er aðdáanlega vel skrifuð og af mikilli yfirsýn. Hún hefði þó orðið stórum notadrýgri, hefði hún verið prýdd nafnaskrá, að ekki sé talað um atriðisorðaskrá. Þar er ekki einu sinni efnisyfirlit, og er þó víða komið við á 350 bls. Fæstir munu nenna að lesa bókina alla aftur til að rifja upp eitthvert eitt atriði eða tvö.
Mikið hefur verið um þessa bók fjallað, og finnst mér merkilegust umfjöllun Hjörleifs Finnssonar og Davíðs Kristinssonar í Hugi, tímariti heimspekinga, 2007. Þeir gagnrýna EMJ fyrir hughyggju, hann láti sem öll þróun stafi af hugmyndaboðun, en sinni þar ekki þjóðfélagsbreytingum. Eins og fleiri telja þeir að hann gefi alltof einhliða jákvæða mynd að því velferðarsamfélagi sem ríkti fyrir 20-30 árum, og nýfrjálshyggja hefur ráðist gegn undanfarna áratugi. Einnig átelja þeir félagar yfirborðslega umfjöllun bókarinnar um ýmsa franska spekinga sem komið hafa fram undanfarna hálfa öld. Hins vegar fjalla þeir Hjörleifur og Davíð lítið um kenningar þessara spekinga en þeim mun meira um jákvæðar viðtökur þeirra, rekja hvernig ýmsir merkismenn hafi metið þá miklu meira en EMJ gerir. Í þessari grein þeirra eru dregin saman meginatriði annarrar umfjöllunar, og læt ég nægja að vísa þangað.
Meginatriði Bréfs til Maríu er að rekja þá öfugþróun sem lýsir sér í afnámi velferðarkerfisins, hnignun skólakerfis og almennrar menntunar, og alþjóðavæðingu nýfrjálshyggju. Þótt undirritaður hafi mikla samúð með þeim málflutningi EMJ, get ég ekki orða bundist um sumt annað í ritinu.
Það er sérstakt íhugunarefni hversvegna Kommúnistaflokkur Frakklands reyndist engin vörn gegn sókn auðvaldssinna. Fékk hann þó fjórðung til fimmtung atkvæða í þingkosningum áratugum saman eftir seinni heimsstyrjöld, og réði stærstu verkalýðs-samtökum landsins. Hann var hins vegar toppstýrður eins og aðrir stalínistaflokkar, umræður um stefnuna voru illa séðar því þær voru taldar geta orðið til að rugla alþýðuna í ríminu. Flokksstjórnin lagði línuna, og eins og systurflokkar hans var kommúnistaflokkur Frakklands undirlagður af íhaldssemi í menningarmálum, þjóðernisstefnu, stéttasamvinnu og leiðtogadýrkun. Ekki er að undra að þjóðrembuflokkur Le Pen yst á hægri væng stjórnmála skyldi taka við fylginu þegar kommúnistaflokkurinn hrundi.
Miklu rúmi í bókinni er varið í hugleiðingar um hnignun klassískrar menntunar. EMJ býsnast mikið yfir því að grískunám og latínu skuli hafa verið fellt niður eða gert valfrjálst í menntaskólum Evrópu. Það nám veitti að hans mati djúpan skilning á tungumálum, og þá einnig á eigin móðurmáli nemenda. Það þjálfi hugann að læra beygingamál, og kunnátta í grísku og latínu opni fólki menningarsamband við árþúsundir. Þetta hafi nú glatast að mestu.
Ef við berum saman menntamenn frá Cambridge, Oxford og slíkum stöðum fyrir svo sem öld, og svo menntamenn núna, þá sjáum við áberandi mun. Í fyrsta lagi hafa miklu fleiri hlotið æðri menntun nú – mun stærri hluti þjóða. Þegar við Einar Már urðum stúdentar náði um tíundi hluti íslenskra jafnaldra okkar þeim áfanga, en nú er það helmingur. Eðlilega verður heildarmynd þeirra nokkuð önnur. Í öðru lagi lærðu vesturevrópskir menntamenn á 19. öld einkum grísku og latínu, svo og bókmenntir þeirra fornmála. En nú á dögum hefur fólk með sambærilega menntun hins vegar lært hin fjölbreyttustu tungumál víðsvegar um heim: arabísku, persnesku, swahili, kikújú, kínversku, japönsku, malaísku, ýmis mál frumbyggja Ameríku, og svo mætti lengi telja, tungumál af mjög mismunandi gerð og beygingakerfi. Þetta ætti að veita skilning á ýmiskonar háttum tungumála, ekki síður en klassísku fornmálin. Þessari málakunnáttu fylgir þekking á miklum bókmenntum, goðsögum og öðrum sögnum víða um heim; miklir menningarheimar opnast Vesturlandabúum. Og menn með kunnáttu á mismunandi sviðum geta borið saman bækur sínar og fengið þannig miklu víðfeðmari þekkingu en grískumælandi stúdentar Cambridge fyrir öld. Smám saman getur slík þekking breiðst út um samfélagið. Ég kenni íslensku í stærsta málaskóla Danmerkur, þar eru kennd 40 mismunandi tungumál hvaðanæva af hnettinum. Við kennararnir höldum annað veifið smáfyrirlestra yfir hvert öðru, þar sem við kynnum sérkenni þeirra tungumála sem við kennum. Og þótt þetta sé alþýðlegur málaskóli skapar þetta dýpri skilning á eðli tungumála en ég hefi áður átt kost á. Mér finnst þröngsýn afturhaldssemi að kalla þessa breytingu á málakunnáttu afturför.
Ég fann það að bók EMJ við fyrsta lestur, að þar væri helsti yfirborðsleg gagnrýni á ýmsa fræga menntamenn franska. En þá var þess að gæta, að sá kafli (einkum bls. 70-134) er fyrst og fremst liður í heildinni, til að skýra hversvegna hin mikla hreyfing franskra menntamanna, sem flestir voru vinstrisinnaðir, hafi koðnað niður andspænis sókn nýfrjálshyggjunnar. Og það tekst EMJ nokkuð vel, svo sem Ármann Jakobsson rakti ljóslega í Tímariti máls og menningar vorið 2008. EMJ rekur að eftir að menn höfðu áratugum saman tamið sér gagnrýnislausa aðdáun á órökstuddum kenningum og snobb fyrir því fámenna liði sem útskrifaðist úr úrvalsskólanum sem EMJ kallar Kennaraháskólann (École normale superieure), var það varnarlaust gegn nýjum tískukenningum, enda batt hrun Sovétríkjanna enda á fyrri tísku marxisma. Öll umfjöllun EMJ um slíka menntatísku er athyglisverð enda þótt feiknamikið efni sé tekið fyrir. Að því leyti sem ég þekki er gagnrýni hans nokkuð réttmæt, svo langt sem hún nær. Hún nær bara helsti stutt, þessir menn létu einnig ýmislegt gott af sér leiða, og vil ég lítillega víkja að því fáa sem ég þykist þekkja til. Það liggur í hlutarins eðli að fáir sem engir hafa yfirsýn yfir franska spekinga í hálfa öld, varla EMJ, og ekki ég. Eins og EMJ hefur mér oft blöskrað hve gagnrýnislaust ýmsir íslenskir menntamenn hafa tekið upp sumar þessar kenningar – yfirleitt eftir Bandaríkjamönnum – og skellt þeim á bókmenntaverk sem túlkun þeirra, án þess að huga að öðrum túlkunarmöguleikum. Að því hef ég vikið í nýrri bók minni, Seiðblátt hafið, og vísa þangað (einkum í umfjöllun sem hefst á bls. 213, 283, 339, 360).
Þessir frönsku höfundar beittu oft ýkjum til að vekja athygli á máli sínu, og sæti síst á EMJ að hneykslast á slíkum aðferðum. En þegar EMJ átelur hve mikla athygli og fylgi rit þessara menntamanna fengu, enda þótt þau einkenndust af órökstuddum fullyrðingum, vil ég setja í fylkingarbrjóst helsta tískuspekinginn, Jean-Paul Sartre. Ég get ekki dæmt um heimspekirit hans, sem heimspekilærðir kunningjar mínir þó gera lítið úr. Þeir sögðu að það væri af því að hann væri fyrst og fremst skáld. En bókmenntafræðingar sögðu aftur á móti, að skáldverk hans væru svo sem ekki merkileg, en það væri af því að Sartre væri fyrst og fremst heimspekingur. Mér fannst hann þokkalegt miðlungsskáld, en fráleitt að bjóða honum Nóbelsverðlaun – sem hann svo hafnaði. Ég vil hér aðeins nefna þykkt rit Sartre af sama tagi og þau rit sem Einar Már fjallar um; Hvað eru bókmenntir? (Qu’est-ce que la littérature) frá 1948. Þar fylgir hann í aðalatriðum ritum rússneska sósíalistans Georgs Plekhanov frá því um aldamótin 1900 í því að rekja megindrætti bókmenntaþróunar næsta beint til breytinga á þjóðfélagsástandi (sbr. bók mína Rauðu pennarnir, bls. 9 o.áfr.). Sá dólgamarxismi einkenndi síðan bókmenntaumfjöllun stalínista – og krata. Samkvæmt honum hljóta bókmenntir og önnur menning að vera spillt og dauðanum vígð á tímum auðvalds og drottnunar borgarastéttar – nema þær séu sannar verkalýðsbókmenntir í andstöðu við spillinguna. Aldrei nefnir Sartre Plekhanov í þessu riti, né vitnar hann til neinna annarra heimilda. Þarna var illt fordæmi, sem naut víðtækrar virðingar.
Um marxíska heimspekinginn Louis Althusser segir Einar Már (bls. 107): „Eftir Althusser liggur nú fátt bitastætt nema þessi sjálfsævisaga, sem er tvímælalaust með helstu ritum áratugarins, þótt það standi eitthvað í mönnum að viðurkenna það, önnur verk hans eru sennilega lítils virði.“ Felst ekki í orðinu „sennilega“ viðurkenning á því að Einar Már hafi ekki lesið þessi rit? Altént sýnir hann enga þekkingu á þeim.
Eitt frægasta rit Althussers kom út 1965, og bar titilinn Fyrir Marx (Pour Marx). Þar réðst hann gegn grundvallarkenningu stalínismans, þeirri að efnahagslífið væri sá grundvöllur sem ákvarðaði allt annað, stjórnmálalíf og menningarlíf mótuðust af því. Þessi bók Althussers hafði gífurleg áhrif á óánægða og leitandi kommúnista um heim allan, ekki er ofmælt að hún hafi öðrum fremur brætt þann jökul kreddukenninga sem grúfði á kommúnískum menntamönnum. Síðan átti fleira eftir að bætast við af svipuðu tagi. Það er rétt hjá Einari Mávi að raunar höfðu aðrir áður lagst gegn ríkjandi dólgamarxisma, og eins og Althusser benti á urðu engir aðrir en Marx og Engels fyrstir til þess! Það hef ég rakið í upphafi bókar minnar Rauðu pennarnir (bls. 1):
Marx og Engels [...kenndu] að öll svið mannlífsins tengist sín á milli, orki hvert á annað, og ákvarðist þannig sögulega, að skipulag framleiðslulífsins ráði mestu þegar til lengdar lætur. Þetta er „víxlverkan á grundvelli efnahagslegrar nauðsynjar, sem hefur sitt fram að lokum“, sagði Engels 1894: „Það er ekki vitund manna sem ákvarðar tilveru þeirra, heldur er það þvert á móti félagsleg tilvera þeirra sem mótar vitund þeirra“ sagði Marx 1857. Þetta hefur oft verið rangtúlkað svo, að öll fyrirbæri mannlífsins megi leiða út frá efna¬hags¬lífinu. Það kallast vélgeng efnishyggja (eða dólgamarxismi). En Engels heldur áfram: ”Það er ekki svo að skilja, að efnahagslífið eitt sé virk orsök, og allt annað aðeins óvirk afleiðing. Því fjær sem eitthvert svið mannlífsins er efnahagslífinu, því nær sem það er hreinum, óhlutbundnum hugmynda-heimi (t.d. bókmenntir og listir), þeim mun fremur finnum við tilviljanir í þróun þess, því meiri sveiflur eru á línu þróunarinnar. En sé dregin miðlína þessara sveiflna, mun sannast, að hún nálgast þróunarlínu efnahagslífsins því meir sem sviðið er víðara, og tímaskeiðið lengra sem við skoðum.”
Þó ekki sé nema út frá þessu um Althusser má sjá að það nær engri átt hjá Einari Mávi að afgreiða franskan „menntamannamarxisma“ sem tóman belging. Sú hreyfing átti ríkan þátt í að steypa mjög útbreiddum dólgamarxisma stalínismans.
Helsti snaggaraleg er afgreiðsla Einars Más á þeim mikilvirka höfundi Roland Barthes, því hann víkur bara að einni grein hans, en sú fjallar um “dauða höfundarins”. Auðvitað er rétt hjá EMJ að fráleitt er að halda því fram að einstakur höfundur skipti engu máli, tíðarandinn eða eitthvað þvílíkt tali í gegnum hann, móti verk hans. En sannarlega hefur slíkt eitthvað að segja, auðséð eru samkenni skáldahóps tiltekins tíma og umhverfis. Þegar skáld sest niður við að yrkja gengur það inn í sérstakt hlutverk, hefur ákveðin markmið og viðmið, sem iðulega eru sameiginleg fólki sem býr við mjög mismunandi aðstæður. Nægir að minnst íslenskra nýrómantískra skálda um aldamótin 1900, bæði karlar og konur, sum efnuð, önnur blásnauð, sum urðu langlíf, önnur voru feigðinni merkt frá unglingsárum og urðu skammlíf. Ekki sést þessi munur lífsskilyrða á verkum þeirra að mínu mati (sjá nánar seinni hluta bókar minnar Seiðblátt hafið, einkum bls. 415-426). Barthes lagði líka ýmislegt hlutlægt af mörkum, t.d. ráðlagði hann fólki (í bókinni Núllstig skrifta – Le degré zéro de l’écriture, 1953) að kanna stíl texta með því að umrita hann með sem allra venjulegasta orðavali og orðaröð, þá væri komið hnitkerfi til að miða frávik textans frá núllstigi ásanna tveggja, orðavals og orðaraðar; á þeim grundvelli mætti meta stíleinkenni hans, frávik frá hversdagslegasta máli. Í greininni Hvar á að byrja – (Par où commencer 1970 í Nouveaux essais critiques) lagði hann til að líta á skáldaða sögu sem svartan kassa, og bera saman upphaf sögunnar og lok, til að sjá í fljótu bragði hvað gerðist í henni. Þetta heyrði ég einu sinni í Norræna húsinu fyrrnefndan Ármann Jakobsson gera við skáldsögur Halldórs Laxness með ágætum árangri. Litla bók (S/Z, 1970) skrifaði Barthes sem túlkun á smásögu eftir Balzac. Þessi greining Barthes er fjórfalt lengri en smásagan, og því ekki fallin til eftirlíkingar. En hún hefur haft mikil áhrif til að opna augu fólks fyrir hlutverki einstakra setninga, því hann greinir þær í endurlit, framsýn, tuggur, tilvísun til samtímans og fleira af því tagi. Þar má læra margt um byggingu skáldsagna. Hér mætti nefna enn einn áhrifamikinn túlkanda í hópi franskra menntamanna, en það er Gérard Genette. Hann hefur gert greiningar á skáldsögum þar sem fjallað er um mismunandi hlutverk sögumanna, sjónarhorn, undirtexta og fleira í þeim dúr strúktúralisma. Eitt frægasta rit Barthes er loks Goðsögur (Mythologies, 1957), en þar rakti hann duldar forsendur eða boðskap ýmissa hversdagslegra fyrirbæra samtímans, auglýsinga, dægurlaga og ljósmynda, auglýsinga, dægurlaga o. fl., t.d. ljósmynd af svertingja sem hyllir franska fánann. Er ekki augljóst að slík mynd er réttlæting á nýlendustefnu Frakka í Afríku? Heyrt hef ég EMJ hallmæla þessari bók, en mér er alveg sama þótt Barthes hafi verið ráðinn til að skrifa hana, þarna er margt lærdómsríkt.
Og þetta leiðir okkur að Jacques Derrida. Það sem ég hef lesið eftir hann sýnist mér EMJ sannorður um að margt er þar myrkt. En það er ekki allt og sumt, maðurinn hefur með afbyggingu sinni (déconstruction) vísað veginn að kanna duldar forsendur ýmis konar fræðirita og annarra rita sem taka afstöðu, oft án þess að lýsa henni yfir. Til þess fer Derrida mikið í orðalag rita sem hann fjallar um, og dregur fram hvernig ýmsar líkingar þeirra byggi á forsendum sem alls ekki séu sjálfsagðar, heldur hafi lesendur gott af að velta þeim fyrir sér, þeir gætu reynst ósammála þeim. Það er róttæk gagnrýni og heilsusamleg sjálfstæði lesenda.
Torlesið þykir margt í Foucault. Og auðvitað er rétt hjá EMJ að það væri fráleitt að segja fólk lokað inni í hugarkvíum síns tíma, það geti alls ekki skilið hugarheim annarra tímaskeiða eða menningar. Það væri þá óskiljanlegt að fólk skuli hrífast af bókmenntaverkum fyrri tíðar, svo sem forngrískum leikritum, íslenskum fornsögum og Shakespeare, t.d. Þetta hef ég rakið nánar í bók minni Seiðblátt hafið (bls. 10-16). En eitthvað er þó til í þessu hjá Foucault, augljóslega bera mörg verk tiltekins tímabils sameiginlegt svipmót, ganga út frá sameiginlegum forsendum, sem lesendum væri fróðleikur að leiða í ljós. Nægir Íslendingum að hugsa til þjóðskálda sinna á 19. öld og Íslendingasagna til að sjá það. Er ekki augljóst að nútímafólk með almenna þekkingu á t.d. sálfræði, mannfræði, hagfræði, líffræði, o.s.frv. lítur öðru vísi á manneðlið og samfélagið en t.d. Hallgrímur Pétursson og Jónas Hallgrímsson? Auðvitað hindrar það okkur þó ekki í að njóta verka þessara manna til fullnustu. Eitt frægasta rit Foucault er doktorsrit hans frá 1961 um breytilega afstöðu til geðsjúklinga á mismunandi tímum; Geggjun og bilun. Saga geðveiki á nýöld (Folie et deraison. Histoire de la folie à l'âge classique 1961). Sjálfur hafði hann verið illa haldinn af geðveiki áratug áður með endurteknum sjálfsmorðstilraunum. Foucault heldur því fram að á miðöldum hafi geðsjúklingar notið nokkurrar virðingar, sem andsetnir og með aðra hugsun en meðaljón, þeir voru viðurkenndur hluti samfélagsins. Holdsveikisjúklingar voru hinsvegar sniðgengnir, einangraðir vegna smithættu. En þegar holdsveiki var að mestu útrýmt í Evrópu hafi geðsjúklingum verið ýtt inn í samfélagslegt hlutverk holdsveikra og fylltu hæli þeirra við illan aðbúnað. Mestu skipti þörf samfélagsins til að öðlast tiltekna sjálfsmynd með því að útiloka ákveðinn hóp fólks, geðsjúklinga, glæpamenn og örbjarga fólk. Þetta má kalla athyglisverða tilgátu, sem auðvitað skal ekki trúa umsvifalaust, heldur kanna með athugun sögulegra heimilda á ýmsum tímum. Þarna er mikilsverð sögusýn sem mér virtist Foucault rökstyðja sannfærandi.
Ólíkt EMJ álít ég að það hafi sýnt sig að veraldarvefurinn, alnetið, er afbragðs tæki sem almenningur getur notað til að vinna bug á upplýsingaeinokun valdhafa. Enda hatast einræðsstjórnir við það og reyna með öllum ráðum að takmarka það, víða um heim.
Hér hefur verið farið fljótt yfir sögu, enda ekki ráðrúm hér til að reyna að gefa eitthvert alhliða yfirlit um þessa spekinga. Sameiginleg er þeim róttæk gagnrýni á ýmis fyrirbæri samfélags og menningar sem venjulega eru sett fram sem sjálfsagðir hlutir. Skrif þeirra eru þannig byltingarkennd og stuðla að sjálfstæðri hugsun almennings. Ekki skal þetta hér rakið frekar en þeim sem lesa ensku – eða frönsku! – skal bent á yfirlit um þessa menntamenn í alfræðiritum svo sem Encyclopédie Universalis, Encyclopædia Britannica eða Den store danske Encyklopædi (þar eru stuttorðustu pistlarnir, hún verður bráðum ókeypis á alnetinu). Þeim sem fjarri eru bókasöfnum með erlend alfræðirit en hafa netaðgang skal bent á netalfræði (http://en.wikipedia.org). Auðvitað er ekki öllu að treysta sem stendur í því alfræðiriti, sömdu af allskyns fólki, hundruðum þúsunda saman um heim allan. En sama gildir um bækur! Ekki þykir við hæfi að birta orðréttar tilvitnanir úr þessari alnetsalfræði því hún er síbreytileg, götótt og enn í vinnslu. En þar er stuttorður leiðarvísir til helstu rita þessarra spekinga og ekki mun hann hverfa við endurskoðun.
Ofangreind dæmi nægja til að niðurstaðan verður sú, að EMJ sé alltof illmáll um þessa spekinga, ráðist á garðinn þar sem hann er lægstur í skrifum þeirra, en sniðgangi hið merkasta, eins og ýmsir gagnrýnendur hans hafa orðað það. Hvort sem um er að kenna vanþekkingu eða íhaldssemi, – eða bara viðleitni til fyndni með öfgum – spillir þetta mjög riti hans. Í orði kveðnu berst það fyrir upplýsingu, en ég óttast að það vinni frekar að því að loka hugum fólks fyrir nýjum hugmyndum.
Tilvitnuð rit:
Einar Már Jónsson: Bréf til Maríu. Rvík 2007.
Ármann Jakobsson: Einar Már og auðhyggjurétttrúnaðurinn. TMM 2, 2008, bls. 130-134.
Hjörleifur Finnsson og Davíð Kristinsson: ”Sápukúlur tískunnar” í Hugi 2007, bls. 142-178.
Örn Ólafsson: Rauðu pennarnir. Rvík 1991.
Sami: Seiðblátt hafið. Kaupmannahöfn 2008.
Wikipedia.org: greinar um umrædda höfunda.
Ég þakka Agli Arnarsyni, Magnúsi Haukssyni og Andra ritstjóra yfirlestur. Ekki bera þeir þó ábyrgð á neinu hér, enda fór ég ekki alltaf að hollráðum þeirra.

des. 2008 – birt i TMM 1. hefti 2009.

Hrunið

12.11.2008 | 15:39

Það er ekkert nýtt að kreppa verði í því efnahagskerfi sem ríkt hefur um veröld víða undanfarnar aldir, og kennt er við auðvald. Frjálsri (raunar misfrjálsri!) samkeppni fylgir offramleiðsla á vörum sem þóttu söluvænlegar, síðan kemur sölutregða, gjaldþrot o.s.frv., svo aðeins eitt sé talið. Slíkar kreppur hafa riðið yfir heiminn hvað eftir annað í meira en öld. En sjaldan hafa þær orðið eins svakalegar og nú, einkum hefur Ísland aldrei orðið fyrir öðru eins. Skýringin virðist mér liggja í augum uppi. Um langt skeið hafa svokallaðir nýfrjálshyggjumenn prédikað að best sé að láta öfl markaðsins einráð, öll ríkisafskipti séu til ills eins. Nei, það hefur nú sýnt sig að auðvitað verða sumir stjórnlausir í græðgi og því þarf opinbert eftirlit og aðhald ríkisins. Enda eru til sérstakar stofnanir sem eiga að annast það, Fjármálaeftirlit og Seðlabanki. Þær brugðust bara hlutverki sínu, og virðist nærtækt að kenna um fyrrgreindum áróðri nýfrjálshyggjumanna gegn ríkisafskiptum, hann hefur lengi drottnað í íslenskum fjölmiðlum.
Bankarnir höfðu áður tiltekna bindiskyldu, leggja skyldu þeir fé til hliðar í hlutfalli við lánveitingar. Þessi bindiskylda bankanna var skert. Hefðu þeir farið á hausinn ella? Hér kemur til ábyrgð Seðlabankans og auðvitað yfirboðara hans í ríkisstjórn. Þetta fólk á að víkja úr þeim stöðum sem það svo augljóslega ekki gat valdið. Það er haft eftir Davíð Oddssyni að á fundum Seðlabankastjórnar hafi honum hundleiðst þetta hagfræðikjaftæði, sem hann botnaði ekkert í. Er þá ekki löngu tímabært að maðurinn víki? Ekki þarf að óttast um afkomu hans, ólíkt margra annarra Íslendinga. Það hefur sýnt sig að þessa bindiskyldu bankanna þarf.
Nú boða sumir þjóðarsátt og allsherjarfyrirgefningu afglapa í efnahagslífinu. En þetta fyrirgefningarkjaftæði undir fyrirsögninni "Allar erum við syndugar systur" er bara til að drepa öllu á dreif, og reyna ekki einu sinni að skilja hvað fór úrskeiðis. Jafnvel sannkristið fólk boðar þó einungis fyrirgefningu þeim sem iðrast gerða sinna, uppgjör þarf. Enda væri hlægilegur dónaskapur að segjast fyrirgefa fólki eitthvað sem það þykist hafa gert rétt. Það á t.d. við um forstöðumann "Fjármálaeftirlitsins" svokallaða, sem sagði að það hefði fylgst með að "ekkert ólöglegt" hefði verið gert í útrásinni. Var það nóg? Ætti ekki eftirlitið að fylgjast með því líka hvort eitthvað væri óráðlegt, hættulegt?
Sagt hefur verið að meðal mótmælenda séu sundurleitir hópar, einnig vonsviknir verðbréfabraskarar. En hvaða máli skipta þeir? Er ekki aðalvandamálið afkoma íslensks alþýðufólks? Mér sýnist full ástæða til að hafa áhyggjur af henni, með fyrirsjáanlegt atvinnuleysi í stórum stíl og gengistryggð húsnæðislán. Ennfremur er núna óhugsandi fyrir unga Íslendinga að stunda framhaldsnám erlendis, og ríður þó á miklu að auka menntun landsmanna til að skapa ný atvinnutækifæri.
Mestu skiptir að til að forðast svipaðar hrakfarir síðar verður að upplýsa ferlið, hversvegna hrunið varð.
Auðvaldinu fylgja óhjákvæmilega kreppur hvað eftir annað, það hefur sagan sýnt. En því miður virðist ekki vera nein grundvallarandstaða gegn auðvaldi á Íslandi. Ekki einu sinni Vinstrigrænir hafa sósíalisma á stefnuskrá sinni mér vitanlega. Og í því tómarúmi er hætta á að upp komi fasísk hreyfing, krafa um gjörræði, andúð á útlendingum og fleira af því tagi, sem mestu böli olli á síðustu öld.