þriðjudagur, 24. apríl 2007

Silkikjólar og vaðmálsbuxur&Glæsimennska

Undarleg Andvaragrein

I
Í ársritinu Andvara, 1996 er grein eftir Árna Sigurjónsson um skáldskap Sigurjóns Jónssonar (1888-1980). Hann er nú flestum gleymdur, og var forvitnilegt að lesa um framtíðarsögu hans frá upphafi 3. áratugsins. Aðalefni greinarinnar er þó sú kenning Árna, að Sigurjón hafi verið með helstu framúrstefnuskáldum síns tíma, og þá einkum í skáldsögunni Silkikjólar og vaðmálsbuxur- Glæsimennska (1922-4).
Rök Árna fyrir þessari kenningu eru í stuttu máli þessi (bls. 108):

”Sigurjón Jónsson má skoða sem merkan og að nokkru leyti týndan hlekk í forsögu íslenskra nútímabókmennta, og deiglan í bókmenntum þriðja áratugarins birtist einna skýrast í skáldsögum hans. Þar koma fram tvö megineinkenni í sagnagerð þessa tíma, sem getir var um fyrr: lífsskoðanaumræða og formnýjungar.”

Um fyrra atriðið sagði Árni (bls. 99):

”nýjungarnar birtust ekki í forminu einu, heldur einnig í hugmyndafræðilegu nýjabrumi. Þórbergur boðaði sósíalisma í Bréfi til Láru, í Myndum Huldu eru það stríðið og afleiðingar þess sem koma róti á huga skáldsins, Halldór Laxness glímir við alla meginstrauma í hugmyndafræði samtímans í Vefaranum mikla, sem hann lýsir sjálfur sem einskonar yfirliti yfir menningarstrauma tímans [...] og Sigurður Nordal leitar haldgóðrar lifsstefnu í Hel [...] Og hér kemur Gunnar Gunnarsson einnig við sögu, því stríðssögur hans, [...] eru af heimspekilegum og hugmyndafræðilegum toga, þó að form þeirra kunni að þykja hefðbundið.

Árni rökstyður þetta aðeins nánar í neðanmálsgrein (bls. 110): [...]

”Að sönnu er samspil forms og efnis náið, en óþarfi er þó að hártoga þá hugmynd. Framúrstefna birtist í margs konar formi, bókmenntategundum og listgreinum. Það fer eftir áhuga og hæfileikum hvers höfundar á hvaða sviði hann kýs helst að láta nýsköpun sína koma fram, og framúrstefnuskáldin voru eins og aðrir bundin hefð að einhverju marki. Tvö verk geta miðlað sama inntaki frá vissu sjónarmiði þótt form þeirra sé gerólíkt; en áhrifin eða inntakið verður aldrei alveg eins ef einhver (jafnvel agnarsmár) munur er á formi þeirra.”

Ég sé ekki hvernig þessar hugmyndir ættu að vera bókmenntaleg framúrstefna. Enda voru þær ekki einu sinni nýjar í bókmenntum uppúr 1920. Boðun sósíalisma og gagnrýni á þjóðfélagsstofnanir svo sem kirkjuna urðu áberandi aldarþriðjungi fyrr, í verkum Stephans G. og Þorsteins Erlingssonar. En eigi nýjar hugmyndir að vera til marks um bókmenntalega framúrstefnu, þá eru ekki efni til að gera verulegan greinarmun á skáldskap og t.d. blaðagreinum eða ritgerðum, þar sem skipulegast og auðveldast er að setja fram hugmyndir. Við gætum rakið okkur til baka í gegnum bókmenntasögu 19. og 18. aldar og talið upp bókmenntaverk sem settu fram ný viðhorf; bindindistefnu, nýguðfræði, þjóðernisstefnu, búauðgisstefnu, upplýsingarstefnu, o.s.frv. Það væri mjög villandi að kalla þessi rit „framúrstefnuverk“, yfirleitt var þessi boðskapur settur fram í hefðbundnu formi, til þess einmitt að hann næði umbúðalítið til lesenda. Satt að segja hefi ég aldrei áður séð þá kenningu að bókmenntaleg framúrstefna birtist í því hvaða hugmyndir séu fram settar í bókmenntaverkinu, og þetta er fráleit kenning. Hún byggist einfaldlega á því frumstæða bókmenntaviðhorfi, sem því miður er útbreitt einnig meðal bókmenntafræðinga á Íslandi, að álíta hverskyns skrif hafa fyrst og fremst þann tilgang að boða skoðanir og hugmyndir. En bókmenntaunnendur vita að það er grundvallarmunur á þvílíkum skrifum og raunverulegum skáldverkum, sem orka alhliða á persónuleika lesenda, ekki síður á tilfinningu þeirra fyrir hljómi, hljóðfalli, myndum og hvernig slikir þættir fléttast saman - en á rökhugsun þeirra. Því er lestur góðs skáldverks lífsreynsla, sem erfitt er að gera sér grein fyrir röklega. Ég held að setja megi fram þá almennu reglu, að því meir sem hugmyndaboðun drottnar í bókmenntaverki, því minna sé skáldskapargildi þess.

II
Svo sem vera ber rekur Árni viðtökur sögunnar í ritdómum. Hitt nefnir hann ekki, að þessi kenning um að skáldsaga Sigurjóns sé tímamótaverk, er alls ekki ný. Hún kom fram í bókmenntasögu Stefáns Einarssonar, 1961 (bls. 374):

”En maðurinn sem fyrst gerði harða hríð að hinu forna skipulagi samkeppnisstefnunnar var Sigurjón Jónsson (1888-) í tveggja binda skáldsögu (1922-24). En þótt Sigurjóni væri blóðug alvara, þá stóðst rit hans Bréfi til Láru (1924) eftir Þórberg ekki snúning, svo það gleymdist í vitund alþýðu. [Í ensku frumútgáfu rits Stefáns, 1948 sagði (bls.207-11): "But the first to voice socialism in a fierce attack on the social order was Sigurjón Jónsson in Silkikjólar og vaðmálsbuxur 1922 and Glæsimennska 1924"

Ég ræddi þessa kenningu Stefáns í doktorsriti mínu, Rauðu pennarnir (1990, bls. 131) og hafnaði henni með þessum rökum:

”En sannleikurinn er sá, að þótt saga þessi, Silkikjólar og vaðmálsbuxur og Glæsimennska, nú maklega gleymd, gagnrýni spillingu Reykjavíkurlífsins og hvernig óheiðarlegir menn - og hórkarlar - komist til auðs og valda, þá byggist sú gagnrýni ekki á sósíalisma, heldur á afturhaldssemi, á því að vegsama fornar dyggðir og sveitalíf.”

- Við það vil ég nú bæta því, að einmitt Árni Sigurjónsson hefur öðrum fremur (í doktorsriti sínu, íslensk gerð: Laxness og þjóðlífið I-II), rakið hvernig sá hugmyndaheimur einkennir menningaríhaldssemi á 3. áratugnum!
Mér þykir mjög líklegt að Árni hafi lesið þetta rit mitt - og bókmenntasögu Stefáns Einarssonar, þótt hvorugt ritið nefni hann. Nú getur það einfaldlega stafað af gleymsku, það getur dottið úr mönnum hvaðan þeir hafa hugmynd sem þeir ganga með. Og sjálfsagt virðist að ganga út frá þeirri skýringu, sé ekki annað sannað, menn njóti tvímælis jafnt sem sannmælis.
En þetta bætir ekki úr skák. Það sýnir þá bara að Árni hefur vanrækt þá frumreglu allra fræðistarfa, að byrja á því að kynna sér hvað áður hefur verið skrifað um efnið, og takast á við það með rökum. Aðeins þannig getur mönnunum munað eitthvað áfram.
En svo slæmt sem þetta er, þá sýnist mér hlutur ritstjórans enn verri. Greinahöfundar eru margir og misjafnir, Árni búsettur í Bandaríkunum og sjálfsagt átt langt að leita í sæmileg íslensk bókasöfn. Þegar nú ritstjóri menningartímarits fær grein, sem sögð er innihalda merkilega uppgötvun, þá er það sjálfsögð vinnuregla að fletta upp í helstu handbókum fræðanna og kanna hvað áður hefur verið skrifað um viðfangsefnið. Ég vek athygli á því, að þar sem framangreindar bækur eru með nafnaskrám, hefði tekið í mesta lagi mínútu að finna þetta í hvorri. Og yfirlitsrit eins og bókmenntasögu Stefáns, er einfaldlega ekki hægt að sniðganga. Hefði nú ritstjórinn sinnt þessu, þá hefði hann getað forðað Árna frá því að eigna sér verk annars manns. Það bætir svo ekki úr skák, að höfundur var árum saman ritstjóri annars menningartímarits, Tímarits Máls og menningar, og þakkar ritstjóra þess þriðja, Skírnis, fyrir yfirlestur greinarinnar og athugasemdir! Þessi uppdráttarsýki gagnrýni er óhugnanlega útbreidd.

III
Árni nefnir einkum tvær formnýjungar skáldsögu Sigurjóns (bls. 106):

”Eftirlætis stílbragð Sigurjóns er að endurtaka ákveðna setningu nokkrum sinnum í sama kaflanum, stundum með dálitlum tilbrigðum og skapa þannig stef og um leið vissa hrynjandi [...]
Annað atriði sem vakti athygli er hvernig Sigurjón byrjar Glæsimennsku, en hún hefst á þessari setningu: ”Hver er að baka pönnukökur? Ha?” - og bregður skáldið svo upp svipmynd af götu í Reykjavík”

Hér kemur að annarri vanrækslu ritstjóra Andvara. Hann hefði manna fyrstur átt að taka eftir því, að þessi röksemd Árna um formnýjungar er hrakin í þessu sama Andvarahefti, í grein Sveins Skorra um Einar Kvaran, þar sem hann lýsir blæstefnu (impressjónisma) Einars, sem birtist aldarþriðjungi fyrr en tilvitnað dæmi hjá Sigurjóni (bls. 91):

”Íslendingasögur hefjast yfirlett á breiðum inngangi með kynningu á sögusviði, persónum og ætt þeirra. Sömu aðferð beitti Jón Thoroddsen í sínum sögum, Páll Sigurðsson í Aðalsteini og Þorgils gjallandi í Upp við fossa. Einar hefur sínar sögu yfirleitt í atburðarásinni miðri. ”Áfram, áfram! Áfram móti gustinum, sólþrungnum, glóðheitum, sem andar á innflytjandann, ef hann stingur höfðinu út úr vagnglugganum”. Þannig slær hann upphafstaktinn í Vonum. ”-En hvað hann rignir! Yfirdómaradóttirin hagræddi sé í ruggustólnum heldur makindalega, spennti greipar uppi á höfðinu, teygði úr fótunum og setti hægri hælinn ofan á vinstri ristina. ” Þetta eru fyrstu línurnar í Ofurefli. Og Sögur Rannveigar hefjast með svipuðum hætti: ”- Jæja - ætli hann fái ekki þetta borgað?... Og bölvaður! Þessa illmensku hefði enginn getað látið sér til hugar koma annar en Þorsteinn á Völlum! Mikill voðamaður er hann!”

Árni vitnar í grein mína (frá 1989 um expressjónisma Halldórs Stefánssonar) um þvílík stíleinkenni, setningabrot og upphrópanir. Vissulega munu þau ættuð frá framangreindum stíleinkennum blæstefnu, en mér sýnist þó munur á. Í blæstefnusögum er þetta stílbragð mest til að sýna hugarástand persónu, ekki síst þegar því bregður frá hversdagsleikanum. En Halldór Stefánsson notar setningaslitrur, hljóðlíkingar og ankannalegar líkingar einkum til að gera lýsingu sögusviðs annarlega. Ég þykist hafa gert þessu efni ítarlegri skil í bók minni Kóralforspil hafsins (1992). En sjálfsagt er hún óvíða til á bókasöfnum miðvesturríkja USA.
Hvað varðar "endurtekin stef", þá virðist mér það stagl tilefnislaust í sögu Sigurjóns, og þarafleiðandi ekki gegna öðru hlutverki en því að þreyta lesendur, þetta er eitt af því sem sýnir hve litil tök Sigurjón hafði á sagnagerð. Að öllu þessu samanlögðu sýnist mér ekki standa steinn yfir steini í kenningu Árna, og það hefði samviskusamur ritstjóri átt að geta sýnt honum fram á fyrir birtingu. .
Ég þykist þekkja mitt heimafólk svo vel, að nú muni einhverjir tauta: "Af hverju mega þessir menn ekki hafa sitt í friði, hvað hafa þeir gert þér?" Svar: Þeir hafa ekkert gert mér, ég á ekkert sökótt við þá. En svona mistök verður að átelja, annars kafnar öll menningarumræða í gagnrýnislausri lognmollu, þar sem ekkert skiptir máli, og því verður flest lélegt. Ég á bágt með að trúa því að ekki hafi fleiri en ég tekið eftir þessum misssmíðum. Og þá á fólk ekki að láta við það sitja að gagnrýna þau í kaffistofupískri, gagnrýnin verður að vera opinber, bæði til að mæta því sem kom jafnopinberlega fram, og til þess m.a. að menn geti varið sig gegn henni, skyldi hún nú vera á misskilningi reist. En það er því miður lenska í bókmenntaumræðum á Íslandi, að þær séu alls engar, hvaða sjónarmið sem svo ræður því.

Engin ummæli: