fimmtudagur, 15. febrúar 2007

Tulkunarfræði Stefans Snævars

Tvö rit Stefáns Snævars
Stefán Snævarr mun kunnastur á Íslandi sem ljóðskáld og hvass höfundur blaðagreina. En hann hefur einkum lagt stund á heimspeki mörg undanfarin ár, numið hana og kennt í Björgvin, og varði doktorsrit á því sviði. Það hefur nú birst á bók á ensku, Minerva and the muses. Vonandi kemur það fljótlega á íslensku líka, eða verulegur útdráttur þess, því þetta er hin merkasta rannsókn málefna, sem mörgum eru mikilvæg. Ég vænti þess að heimspekifræðingar fjalli fljótlega um það frá sínu sjónarmiði, en hér skal vikið að nokkrum atriðum frá sjónarhóli bókmenntatúlkunar.
Meginviðfangsefni Stefáns er efahyggja um listdóma, það viðhorf, að það sé svo persónulegt, hvernig fólk skynji listaverk, að það verði ekki rökrætt, það ráðist af
tilfinningum, en ekki af skynsemi. Þetta viðhorf mun lesendum þessa svo kunnugt, að ekki þarf að kynna frekar. En það er þó til í ýmsum útgáfum, og Stefán prófar rök fyrir þeim, einni af annarri, rekur kenningar ýmissa heimspekinga af miklum lærdómi. Áf því ræðst titill verksins, sem mætti þýða sem ,,viskugyðjan og listgyðjurnar”. Stefán kannar forsendur ýmissa kenninga um að listdómar séu huglægir, óprófanlegir. I fyrsta lagi sýnir hann fram á að jafnvel þótt listnautn væri alveg tilfinningaleg, þá sé þó tilfinningalífið alls ekki óháð rökhyggju, heldur stjórnist verulega af henni. Það eru t.d. góðar ástæður þess, að sum fyrirbæri vekja fólki ótta, en önnur gleði, og þá einnig í listaverkum fyrirbæri sem minna á slíkt. Stefán tekur skýrt fram, að sumum spurningum verði ekki svarað, a.m.k. ekki í þessu riti. Ekki verði gefin skilgreining á því, hvað listaverk sé, ekki sagt hvort til séu hlutlægir listrænir eiginleikar eða rétt túlkun listaverka, o.fl.þ.h.. Sumt var talið meistaraverk öldum saman, en er nú flestum gleymt (t.d. Eneasarkviða, nýútkomin á íslensku). Stefán rekur ennfremur, að ekki sé kunnugt um neinn mælikvarða sem sanni að t.d. málverk Magritte séu betri en verk Dali eða öfugt. Enda væri þá lítið eftir fyrir listunnendur að fást við. Segja má, að gildi rits Stefáns sé fyrst og fremst neikvætt (og er það ekki lítils virði!). Þetta er tiltekt, hann sýnir fram á að sum algeng viðhorf fái ekki staðist. Í anda Karls Popper sýnir Stefán fram á ósamstæðni: Þótt einhver dómur verði ekki sannaður, þá getur hann verið prófanlegur þannig að hugsanlega yrði hann hrakinn. Einfalt dæmi þessa er þegar listaverki er hrósað fyrir frumleika. Það verður aldrei sannað, því alltaf gæti hugsast að mjög líkt verk eldra fyndist, rétt eins og svartir svanir og hvítir hrafnar. En það þýðir einmitt að þetta er hrekjanleg staðhæfing, prófanleg neikvætt. Og hvers virði er staðhæfing, þar með talin túlkun á listaverki- sem ekki væri prófanleg þannig? Sannleiksgildið væri ekkert. Einnig rekur Stefán kenningu fagurfræðingsins Beardsley um að frumleiki geti ekki talist eiginleiki listaverks, heldur sé þá talað um umhverfi þess, hvað hafi áður birst.
Stefán greinir (bls. 249) fjóra meginþætti hæfni til listmats, sem hann kallar ,,hlutlæga fagurfræðigreind (concrete aesthetic reason): 1) Þögla þekkingu (forsendur sem menn ganga út frá sem sjálfsögðum), 2) að hafa fagurfræðilegar tilfinningar og skynja þær hjá öðrum, 3) að hafa vald á listrænum og fagurfræðilegum hugmyndum og 4) að hafa almenna þekkingu á list. Það skiptir þá máli, að síðasttaldir tveir þættir eru prófanlegir.
Lokakaflinn heitir Súlur visku, og þar er ályktað af undanfarandi efni. Í upphafi kaflans eru settar fram þessar reglur: Til að dómur sé skynsamlegur, nægir að hann uppfylli þessi skilyrði: a) hann er almennt réttlætanlegur, b) rökstyðja má hann á mismunandi stigum, c) hann er hrekjanlegur á markverðan hátt. Þetta er síðan rökstutt og útlistað, svo sem of langt yrði að rekja hér. En Stefán bætir því við, að ekki verði séð nein ástæða til að þetta sé ekki algilt. Álíti einhver að önnur rök gildi um t. d. listmat, þá liggi sönnunarbyrði á þeim sem það segir.
Meginatriði kaflans er skorðunarkenning Stefáns, að það sem kalla mætti ”umlistakenningar” (,,metaæstetiskar kenningar”), skorði einstaka listdóma. Verði umlistakenningin hrakin, þá falla dómar sem á henni eru reistir. Dæmi er fyrrgreind kenning Beardsley, að frumleiki sé ekki eiginleiki listaverka. Hún skorðar listdóma þannig, að sé listaverki einkum talið til gildis að vera frumlegt, þá verður sá listdómur út í hött, fylgi menn Beardsley. Annað dæmi má tilfæra eftir Stefáni (bls. 237), í kínversku menningarbyltingunni var tónlist Beethovens fordæmd á þeim forsendum að hún væri borgaraleg, og innrætti fólki þá borgaraleg viðhorf. Hins vegar töldu kínversk stjórnvöld tónlist Beethovens til gildis, að hún lýsti vel landslaginu í kringum Vínarborg! Áþekk vitleysa heyrist oft um tónverk Richard Wagners, að hún sé í eðli sínu hernaðarleg eða nasísk. Auðvitað hafa aldrei sést rök sem útlista hvernig tónverkin beri þessa eiginleika. Nú hafa flestir unnendur klassískrar tónlistar þá almennu hugmynd (umlistakenningu) um tónlist, að hún sé sértæk. Því verður þessi kínverska fordæming (og skilyrta viðurkenning) hreint rugl í þeirra eyrum. En mér er spurn hvort ekki sé frjórra að fara í hina áttina. Jesú sagði: Af ávöxtunum skuluð þið þekkja þá, en hér virðist hann látinn steypa stömpum, og mönnum sagt að meta ávextina eftir trénu. Þá held ég það sé betra að halda gamla laginu. Þegar Atómstöðin eftir Halldór Laxness birtist, fordæmdu ýmsir stjórnmálandstæðingar Halldórs söguna sem lélega skáldsögu, því hún væri áróðursrit, sem gæfi einhliða og rangláta mynd af íslensku þjóðfélagi og nafnkunnum samtímamönnum. En mér sýnist augljóst (þótt það þyrfti að rökstyðja i lengra máli en hér er unnt) að Guðdómlegi gleðileikurinn eftir Dante félli á nákvæmlega sömu forsendum, alkunna er að þar eru persónulegir óvinir Dantes sýndir í Helvíti vegna synda þeirra og afbrota. Er þá ekki óhætt að segia, að mælikvarði (umlistakenning) sem leiði til fordæmingar á verki Dantes (og Atómstöðinni), sé augljóslega tómt rugl? Að það sé alveg óhæfur mælikvarði á listaverk hvort umheimurinn teljist sýndur á sanngjarnan hátt í því. Hinsvegar verður ekki sýnt fram á listgildi þessara verka nema eftir öðrum mælikvörðum. Þá yrði meginhugmyndin líklega að vera sú, að listgildi felist m.a. í myndrænum lýsingum, samstillingu andstæðna, samþjöppun máls, markvissri byggingu - og e.t.v. því að sýna dæmigerð, mikilvæg atriði í lífi manna. Umfram allt séu þessir mismunandi eðlisþættir verksins samstilltir í eina heild. Mér sýnist mögulegt að sýna fram á, að listgildi t. d. Gleðileiksins guðdómlega verði ekki skýrt með öðru, en slíkri lýsingu. Segði t.d. einhver að það felist i háleitum hugmyndum, göfugum boðskap, þá er auðsýnt fram á að skv. því yrðu þurrustu guðfræðirit jafngild listaverk eða betri, því þar koma þessar sömu hugmyndir skýrar fram og skipulegar.
II
Stefán sendi síðar frá sér ritið Ástarspekt, en það orð er gömul íslenskun á gríska (og alþjóðlega) orðinu philosophia. Það er orð að sönnu um þessa bók, því hún er alhliða yfirlit heimspeki. Því skiptist hún í þrjá bálka, þekkingarfræði, siðfræði og fagurfræði. Bókin verður að auðlesnari við það að form greinanna er breytilegt, stundum skipuleg rökræða, en stundum samræður, að eldfornum heimspekisið, sem Snorri Sturluson enn fylgdi í Eddu sinni skömmu eftir 1200.

Rökleiðslur
Það er mikill fengur að svo skipulegu yfirliti um nokkur helstu viðfangsefni samtímans, einkum þar sem þetta er svo alþýðlega fram sett, og vel orðað, að ætla má að allir venjulegir blaðalesendur geti haft fullt gagn af. Þó eru alhliða rökræður bókarinnar enn mikilsverðari, Stefán er ótrauður við að setja fram sínar skoðanir, en hann þykist ekki alvitur, heldur leggur mesta áherslu á að vega málin og meta frá mismunandi sjónarmiðum. Þetta dregur lesendur með, og fær þá áreiðanlega til að pæla sjálfir í málunum. Mesti kostur bókarinnar er enn ótalinn, enda er hann hálfdulinn undir yfirborðinu. Í gegnum allar þessar rökræður um ýmis málefni, hagfræði, frjálshyggju, listtúlkun, o.s.frv., læra lesendur aðferðir rökleiðslu og helstu hugtök, svo sem um vítahring, falsrök, sjálfskæð rök (hét það ekki bara hringavitleysa áður?), í stuttu máli sagt, bókin kennir óbeint gagnrýna hugsun og aðferðafræði.
Eins og Stefán sjálfur segir, er sums staðar farið nokkuð fljótt yfir sögu, enda mikið efni. Hann tekur sér stöðu á milli þeirra sem segja að fræði og raunvísindi eigi ekkert sameiginlegt, og hinna sem segja að öll vísindi séu sama eðlis. Rök Stefáns gegn síðarnefndu skoðuninni eru að bókmenntafræðingur sem fjalli um ljóð verði að viðurkenna gæði efniviðar síns áður en hann fjallar um hann, en jarðfræðingur taki einfaldlega grjótmola, blágrýti eða móberg, án nokkurs gæðamats (bls. 39). En umheimurinn skiptist ekki náttúrulega í hluti. Það fer eftir fræðikenningum, hvernig heimurinn er flokkaður í viðfangsefni, jafnvel flokkunin í bergtegundir hefur verið breytileg í sögunnar rás. Hitt skiptir þó miklu meira máli að Popper sagði að öll vísindi væru einnar ættar á þeim grundvelli, að grundvallaraðferðin væri hvarvetna hin sama. Fólk safnar efniviði á tilteknu sviði, rökstyður hvernig hann sé afmarkaður, ræðir fyrri skýringar á honum og prófar þær. Dæmist eldri skýringar ófullnægjandi, setur fræðimaðurinn fram nýja skýringu, færir fram rök fyrir henni, og reynir að hrekja hana, kannar hvaðeina sem mælt gæti með henni eða móti. Standist hún prófið, köllum við hana niðurstöðu til bráðabirgða.
Umfjöllun Stefáns um prófanleika kenninga er þörf og góð. Þar má telja, að kenning getur ekki talist vísindaleg, nema mögulegt sé að reyna að hrekja hana. Auðvitað nægir það ekki heldur, allskyns augljós vitleysa er auðhrakin. Til að kenning verði tekin alvarlega, verður að mega rökstyðja hana, færa ástæður fyrir því að menn aðhyllist hana frekar en aðra. Á hinn bóginn hafa heimspekingar rakið dæmi þess að kenning sem nú er viðurkennd, hefði verið auðhrakin þegar hún fyrst kom fram. Í því sambandi nefnir Stefán, að raunar sé oft um að ræða kerfi kenninga, þar sem erfitt sé að prófa einstakar kenningar. Þegar tiltekin kenning virðist ekki eiga við, er það oft skýrt með áhrifum tengdra fyrirbæra, þ.e. með hliðarkenningum. Á ferðinni er yfirleitt floti kenninga, þar sem ein styður aðra, og getur orðið seinlegt að sökkva öllum flotanum. Hér hefði verið gott að fá rækilega umfjöllun með dæmum. Ungverski heimpekingurinn Lakatos, rakti fyrir fjórum áratugum, að þannig hefðu áratugum saman tekist á kenningar Bohr og Planck, annarsvegar að ljós væri straumur öragna, hinsvegar að það væri bylgjuhreyfingar. Þessar andstæðu herbúðir fundu sitt á hvað rök fyrir sínu máli. Stefán afhjúpar hve óvísindalegar margar kenningar eru, sem gera ráð fyrir vélgengri eða sjálfkrafa þróun t.d. tungumála, efnahags eða samfélags, enda eru rökin þá iðulega, að “til langs tíma litið” muni þetta eða hitt gerast – án þess að tiltekið sé hve langs tíma, eða hvernig það verði prófað. Hér þykir mér höfundur nema staðar helsti snemma. Vitaskuld gilda ekki náttúrulögmál um samfélagsþróun, en þar með er ekki sagt að hún sé tilviljanakennd, sterkar hneigðir eru fyrir hendi, og þyrfti að ræða þetta ítarlegar.

Bókin er safn greina Stefáns frá rúmlega tveggja áratuga tímabili, en hér eru þessar greinar þættar saman í heild. Vissulega verða nokkrar endurtekningar milli greina, en það virðist mér kostur en ekki löstur, það verða þarfar upprifjanir í nýju samhengi. Auk þess fléttast málin saman, t.d. í umfjöllun um bókmenntatúlkanir er eðlilega komið bæði að þekkingarfræði og siðfræði, þegar rætt er hvort unnt sé að meta hvort ein túlkun sé annarri betri, og eru listaverk “handan góðs og ills”, eða á einhvern hátt siðleg? Því síðasta játar Stefán, þar sem skilningur á listaverki krefjist innlifunar í hugsunarhátt annarra, og listaverk varpi ljósi á þögla þekkingu, sameiginlega fólki. En það sé einmitt eitt helsta gildi listaverka að gera fólk meðvitað um ”þögla þekkingu” eða viðhorf sem það ber með sér, ómeðvitað. Verkið er “siðtengt” og siðferðið er forsenda bókmenntatúlkana í þeim skilningi að ef lesandinn setur söguhetjurnar ekki stöðugt í samhengi við eigin siðferðishugmyndir hegða þær sér með óskiljanlegum eða merkingarlausum hætti fyrir honum. En um leið verður hann móttækilegur fyrir siðtengdri merkingu verksins rétt eins og af vináttu við siðviturt fólk og það getur mótað og eflt siðvit hans” (tekið eftir Agli syni mínum, í Kistunni). Þarmeð er ekki sagt að verkið boði tiltekið siðferði, hvað þá að lesandi þurfi að vera því sammála. Og þótt listnautn sé persónuleg reynsla, eru auðvitað ekki allar túlkanir jafngóðar eða jafnréttháar. Væri svo, segir Stefán, þá væri gerlegt að taka gefnar túlkanir á hvaða bókmenntaverki sem vera skal og kalla þær túlkanir á hvaða öðru bókmenntaverki sem vera skal. Við gætum t.d. tekið gefna túlkun á Íslandsklukkunni og kallað hana ”túlkun á Hrafnkötlu” en það væri fáránlegt. Við getum ekki talað um margar túlkanir á sama verki nema að gera ráð fyrir því að verkið hafi einhvers konar hlutlægan fasta, sem túlkunin verður að ganga út frá. Ella gætum við sagt að þessar túlkanir eigi ekkert sameiginlegt, þær fjalli ekki um sama viðfangið og þá væri út í hött að tala um fjölda túlkana á sama verki. En þótt færa megi rök fyrir því að tiltekin túlkun listaverks fái ekki staðist, þá er á hinn bóginn ekki hægt að sanna að önnur túlkun sé hin eina rétta, ekki frekar en fullyrt verður að endanlegur sannleikur sé fundinn í einhverri grein vísinda. Hér kemur enn til fyrrnefnd ósamstæðni. Stefán segir m.a. (bls. 281):

rökleg forsenda túlkana [er] sú að túlkandinn virði viss gildi í reynd en hafni öðrum. Sé markmið túlkunar að lýsa meginkjarna verksins eins og það eiginlega er, metur túlkandi sannleiks-gildi meira en önnur gildi. Telji túlkandi sannleiksleit ógerlega getur hann t.d. sett skemmti-gildi í –öndvegi eða þýðingu verksins fyrir tiltekna pólitíska baráttu. Af þessu leiðir að túlkanir á bókmenntaverkum hljóta að vera matstengdar, þ.e. ekki algerleg sneyddar gildismati, ekki fyllilega hlutlausar.

Þegar efahyggjumenn segja að gerólíkar túlkanir sama verks sanni, að túlkun sé í eðli sínu fullkomlega huglæg, er svarið, að þá sjáist þeim yfir mismunandi tilgang túlkunar (bls. 248). En þegar túlkanir gerast svo sértækar, loftkenndar, að ekki verður gripið á neinu til að rökstyðja þær eða hrekja, þá er einfaldlega of stórt spurt. ”Hver er sálin í Hrafnkötlu? Fjallar Hamlet um Ödipusarduld?” (bls. 250). Raunvísindi hefðu aldrei orðið til, ef menn hefðu haldið sig svo sértæku stigi. Snöfurmannlega afgreiðir Stefán þá útbreiddu kenningu, að listaverk fjarlæg í tíma eða stað séu nútímafólki framandi, við getum aldrei skilið t.d. Njálu eins og samtímamenn gerðu eða höfundur ætlaðist til, heimsmynd Gleðileiksins guðdómlega og samtímaveruleiki Dantes sé okkur svo framandi. Stefán segir m.a. (bls. 240):

Við getum einfaldlega ekki vitað hvort tiltekin heimsmynd HM sé ósammælanleg við okkar heimsmynd því ef við vissum það væru þær sammælanlegar. Við myndum nefnilega vita að HM er róttækt öðruvísi en okkar heimsmynd og þá getum við borið (mælt) heimsmyndirnar saman. Því er út í hött að gera ráð fyrir hugarheimum sem eru gagnólíkir okkar.

Grundvallarkrafa til túlkunar er þá að hún gangi út frá mikilvægum þáttum verksins, gangi ekki í berhögg við meintar staðreyndir um það, og rúmi ekki röklegar mótsagnir. Auk þess verður hún að bæta einhverju mikilvægu við augljósar staðreyndir um verkið, og þá álít ég að túlkunin hljóti að tengja verkið við eitthvað utan þess, sbr. það sem að framan segir um mismunandi tilgang túlkana. Á þessum grundvelli má bera saman mismunandi túlkanir, sú er best sem betur uppfyllir þessi grundvallarskilyrði.


Þjóðerni
Umfjöllunin um þjóðernisstefnu -og íslenska tungu- var einkar vekjandi. En þar hnaut ég þó um þetta (bls. 124):

Það er tæpast tilviljun að margar kommúnistastjórnir hættu fljótlega að tala um alþjóðlega samstöðu öreiga, og gerðust þess í stað þjóðernissinnar. Kommarnir skildu margir hverjir að þjóðerni skipti menn meira máli en stéttarstaða.

Hér er alltof mikið einfaldað, ólíku steypt saman, böðlum og fórnarlömbum þeirra. Því reyndar var mikill ágreiningur um þetta meðal þeirra sem kölluðust kommar. Í stuttu máli sagt, undir ógnarstjórn Stalíns þurftu valdhafar að finna sökudólga fyrir eigin óstjórn. Og þá nægði ekki að tala um samsæri trotskista og fasista um að setja nagla í smjörið, o.s.frv., tilvalið virtist að notfæra sér gamalgróið og víðtækt gyðingahatur til að efla þjóðarsamstöðu um valdhafana. Það kostaði milljónamorð að setja þjóðrembu í stað alþjóðahyggju –sem mætavel samræmist rækt við menningararf þjóða. (sjá nánar t.d. bók mína Rauðu pennarnir, bls. 171 o.áfr. og þar tilvitnuð rit). Víðar í bókinni gætir svipaðs ruglings, t.d. er stalínistinn margfróði og djúphugli, Georg Lukács formálalaust titlaður marxisti í boðun sinni um að bókmenntir skyldu afhjúpa stéttaþjóðfélagið. En í verkum hans ber mest á dólgamarxisma, þ.e. þeirri kenningu að breytingar á efnahagslífinu leiði sjálfkrafa til svipaðra breytinga á stjórnmálalífi og menningu. Þetta tók Lukács í arf frá Plekhanov, og bar m. a. Kristni E. Andréssyni – og Jean Paul Sartre - að í upphafi 19. aldar, þegar borgarastéttin var að berjast til valda, hafi HÚN skapað bókmenntir sem sýndu þroskaða einstaklinga í lífrænu sambandi við umhverfi sitt. Dæmi hans eru skáldsagnahöfundarnir Walter Scott og Balzac. En eftir miðja öldina fer verklýðsstjettin að láta á sér kræla, og þá verður borgarastéttin í heild hrædd, og fer að skapa bókmenntir sem sýna einangraða einstaklinga. Því væri t.d. Flaubert varhugaverður og sýnu verra skáld en Balzac! Vart þarf að taka fram aðeins og flestir stalínistar hafnaði Lukács gervöllum módernismanum, expressjónisma, surrealisma o.s.frv. sem borgaralegri úrkynjun. Hér má svo sannarlega tala um að meta ávextina eftir trénu sem þeir vaxa af, í stað þess að smakka á þeim, svo vísað sé til þess sem sagði um listmat Stefáns hér að framan.
Einnig rekur Stefán andmæli Marcuse, sem var meiri marxisti, því Karl Marx sagði að skáld gæti aldrei litið á verk sitt sem tæki (til að upplýsa, boða skoðanir, siðvæða, eða þ.u.l), skáldinu hljóti verkið ævinlega að vera markmið í sjálfu sér (tv. rit mitt, bls. 4). Hann taldi að verkalýðsséttin þyrfti að tileinka sér gagnrýnið listaverk þrungin hugsunarhætti sem mótaður væri af stéttarhagsmunum andstæðum henni, sama sögðu t.d. Lenín, Lúxembúrg og Trotskí, þar sem stalínistar töldu að hún gæti skapað sínar eigin öreigabókmenntir undir drottnun borgarastéttarinnar. En Marx og framangreindir marxistar sögðu að á tímum þeirrar drottnunar drottnaði hugsunarháttur borgarastéttarinnar, það þyrfti langvarandi byltingarbaráttu til að losna undan honum.

Stefán Snævarr: Minerva and the muses. Stavanger,
Sami: Ástarspekt Hið íslenska bókmenntafélag 2004, 336 bls.

Engin ummæli: