þriðjudagur, 22. október 2013

Kristmann í Skírni

Kristmann í Skírni Gunnþórunn Guðmundsdóttir ævisögusérfræðingur skrifaði grein um Kristmann Guðmundsson í síðasta Skírni og rekur þar m.a. tal Kristmanns um samsæri gegn sér, gróusögur og hvernig gert sé lítið úr honum sem rithöfundi, þetta afgreiðir hún sem vænisýki. En hér vantar alveg að líta út fyrir sjálfsævisögu Kristmanns, og kanna hvort þessar hugmyndir hans um ofsóknir eigi sér einhverja stoð í umhverfinu. Nú er ég töluvert eldri en Gunnþórunn, en ég man greinilega þessar gróusögur um Kristmann, sem altalaðar voru. Ég hefi skrifað lítillega um þær áður, og undarlegt er að sjá af hvaða tagi þær voru. Þær snerust fyrst og fremst um kynlíf! Kristmann átti að hafa bitið geirvörtu af konu sinni í algleymi samfara, og var þetta sagt um ýmsar af eiginkonum hans, hverja eftir aðra. Í annan stað átti hann að vera náriðill. Kristmann vék sjálfur að þessum sögum, þeirri fyrrtöldu í sjálfsævisögu sinni, en að þeirri síðartöldu í sjónvarpsviðtali við Steinar J. Lúðvíksson. Og eins og ég benti á (í TMM 2000), þá lýsa þessar sögur best upphafsmönnum sínum. Kristmann hafði verið örsnauður atvinnuleysingi á götum Reykjavíkur, en með aðstoð Þorsteins Gíslasonar ritstjóra komst hann til Noregs, og fékk verkamannavinnu þar um miðjan 3. áratuginn. Og fór að skrifa, með aðstoð Gyldendalsforlagsins varð hann smámsaman metsölurithöfundur þegar um 1930, þýddur á fjölmörg tungumál, bækur hans seldust í milljónum eintaka, hann varð auðugur. Þá þekki ég landa mína illa, hafi þetta ekki vakið öfund og illvild, enda talar Kristmann um fjandskap ókunnra manna þegar hann kom til Íslands 1935. Þegar nú við bættist að maðurinn var myndarlegur og bjó við kvenhylli, þá varð þetta alveg óþolandi. Níu hjónabönd! Það var bæði hneykslanlegt og öfundsvert. Mér er til efs að nokkur maður á Íslandi hafi verið jafnmikið rægður og Kristmann var um miðja 20.öld. Varðandi mat á sögum Kristmanns, þá ætla ég ekki að lofa þær. Það eru bjórar í sumum bókum hans, einkum lýsingar á náttúruhamförum (svo sem ég hefi rakið í fyrrnefndir grein í TMM og í bók minni Guðbergur, bls 228-230), en persónusköpun lét honum ekki, í t.d.Gyðjan og nautið hleður hann hrósi á persónur í stað þess að skapa þær. Hann var róttækur, deildi á misskiptingu auðs í sögum sínum, sýndi fram á að sú misskipting bækli fólk andlega, sú var enn hneigð fyrstu sögunnar sem hann gaf út eftir að hann fluttist til Íslands, Nátttröllið glottir, 1943. En lausnin var, rétt eins og í sögu hans, Sigmar (1930), stéttasamvinna, að auðmaður deili eigum sínum með fátæklingum og að þeir berjist ekki gegn auðmanninum. Fyrir “skilningsleysi á vandamálum nútímans og þeim hinum sálrænu öflum sem sterkasta þættina spinna í örlagaþræði mannanna” var hann gagnrýndur 1931 af helsta bókmenntagagnrýnanda kommúnista þá, sr. Gunnari Benediktssyni. Það túlka ég sem ádeilu á skilningsleysi höfundar á gildi verkalýðsbaráttu, faglegrar og pólitískrar. Samt liðu nær tveir áratugir þangað til ráðist var á Kristmann frá vinstri (það gerði Steinn Steinarr 1948), og ég hefi leitt rök að því að í þeim andstæðum hafi Kristmann sjálfur átt frumkvæðið í gengisleysi sínu og fátækt upp úr miðri 20. öld. Rótgróna og útbreidda illvildina í garð sinn fór hann að skýra sem samsæri kommúnista upp úr seinni heimstyrjöld, í kalda stríðinu, einmitt þegar íslenskt bókmenntalíf var tvískipt pólitískt, og stalínistar höfðu mikil áhrif í því. Og þetta tókst honum, bókmenntaklúbbur hægrimanna, Almenna bókmenntafélagið, tók hann upp á arma sína, Morgunblaðið líka, og hann fékk hlutverk píslarvotts í þessu stríði. Og heimildir eru um að kommar ginu yfir þessu agni. Jón Óskar hefur lýst því í sínum endurminningum (1971, bls. 176-187), hvernig talað var um helstu skáld hægrimanna á kaffihúsi komma á Þórsgötu 1 á 6. áratug 20. aldar (bls. 182)…. Þar er m.a. vísað til þess að Thor Vilhjálmsson sagði um miðja öldina, að þegar menntamálaráðherra lét Kristmann annast bókmenntakynningu í skólum landsins, væri það eins og að láta Kristmann spræna yfir þjóðina. Kristmann höfðaði þá meiðyrðamál gegn Thor og vann. Hvað sem mönnum finnst um það, verða viðbrögð Kristmanns ekki kölluð vænisýki, hann hafði ærna ástæðu til að finnast hamast gegn sér. Allar þessar heimildir voru og eru auðfundnar. Mér finnst að Gunnþórunn hefði átt að skyggnast í þær heimildir, út fyrir sjálfsævisögu Kristmanns, það eru óboðleg vinnubrögð að stimpla manninn vænisjúkan við að líta hjá samtímaheimildum um málið. Heimildir: Gunnar Benediktsson: Kristmann Guðmundsson: Sigmar....Iðunni 1931, bls. 193-5. Gunnþórunn Guðmundsdóttir: "Hvorki annálar né vísindaleg sagnfræði" Skyggnst um í sjálfsævisögu Kristmanns Guðmundssonar. Skírni 2012, bls. 396-404. Jón Óskar: Gangstéttir í rigningu. Rvík 1971. Örn Ólafsson: Kommúnistar og borgaralegir höfundar. Tímarit Máls og menningar 2000, 4. hefti, bls. 35-38. Þar er vísað í heimildir. Örn Ólafsson: Guðbergur. Rvík 2012. Þessi grein fékkst ekki birt í Skírni, né svaraði ritstjóri hans bón um svar hvort birt yrði. 28.6.2013 Svör í Fréttablaðinu: Tímastetningin er slæm skrifar María. Af hverju eiginlega? Er það vörn fyrir ríkisstjórn Sigmundar Davíðs að bera blak af Kristmanni? Ég sendi þessa smágrein Skírni rétt eftir að haustheftið 2012 barst mér, en hún var ekki birt þar, og ég fékk ekki einu sinni umbeðið svar um hvort hún yrði birt. Svo sé ég að ritstjóri Skírnis er meðal þeirra sem líkar vel greinin! Gaman, gaman! Annar maður er ósáttur við að ég noti orðin kommi og stalínisti. Hversvegna? Hvorttveggja var til. Ég er raunar sjálfur kommi, nánar tiltekið í Danmerkurdeild Fjórða Alþjóðasambandsins, og því gagnrýninn á stalínista. Auðvitað báru íslenskir stalínistar enga ábyrgð á fjöldamorðum Stalíns, né öðrum glæpum, en þeir fylgdu þeirri kratadellu, að verkalýður í auðvaldsþjóðfélagi hefði sérstaka sósíalíska hugsun, frjókorn stéttlausrar framtíðar, og að bókmenntir með sósíalíska hneigð myndu snúa verkalýðnum til sósíalisma. Svo þegar verkamaður eða –kona kemur þreytt heim frá vinnu, og les sósíalíska skáldsögu eða ljóð, geysist viðkomandi út á götu og gerir byltingu. Nei, ætli langvarandi kjarabarátta sannfæri fólk ekki betur um hverjir eru andstæðingar þess, og hverjir félagar. Það vekur fólk sjálft til umhugsunar, en ekki “bókmenntaverk” sem hefur vit fyrir því. Auðvitað lét Kristmann ofsóknaróra í ljós. Spurningin er hvort honum var alvara, eða hvort hann var að leika hlutverk “frjálshuga skálds sem ofsótt var af kommúnistum fyrir sjálfstæði”. Það þykir mér líklegt, en auðvitað verður ekkert sannað. Sjálfsagt hefur þetta orðið “spádómur sem uppfyllti sig sjálfur”, þegar Kristmann gekk inn í menningarstríðið, festist hann í því hlutverki sem hann tók sér. Ég fagna upplýsingum Andra, sem gera málið skýrara. Eftir stendur það sem enginn gerandi athugasemda nefnir, að það er óviðunandi að háskólakennari með sérgrein í ævisögum skuli viðhafa svo óvönduð vinnubrögð í umsögn um sjálfsævisögu, og það í fræðilegu tímariti. 30.6.2013

Engin ummæli: