þriðjudagur, 27. nóvember 2012

Nú er rúmt ár síðan stjórnarskipti urðu í Danmörku. Hægristjórn hafði setið í áratug og m.a. helmingað þann tíma sem fólk gat fengið atvinnuleysisbætur, úr fjórum árum í tvö. Í kosningunum töpuðu kratar og SF nokkru fylgi, en gátu samt myndað ríkisstjórn ásamt borgaraflokknum RV. Flokkurinn sem var yst til vinstri, Enhedslisten, þrefaldaði þingmannatölu sína og fékk 12 þingmenn. Hann fagnaði nýju stjórninni en harmaði að RV skyldi vera með í henni, því það yrði krötum réttlæting þess að framfylgja efnahagsstefnu íhaldsstjórnarinnar. Það kom líka á daginn, RV neitaði að taka aftur styttingu atvinnuleysisbóta, og í sumar leið gerði ríkisstjórnin samkomulag við hægriflokkana um breytingar á skattakerfinu, lækkaði skatta á fólki með 370 þúsund króna árstekjur. Og áfram hélt niðuskurður á opinberum rekstri, uppsagnir í stórum stíl. Allt var þetta réttlætt með því að brátt myndi vanta vinnuafl. En staðreyndin er sú, að um 100 þúsund danir eru atvinnulausir, og eru þessar stjórnaraðgerðir því “framtíðartónlist”. Mesta athygli hefur vakið að þúsundir atvinnuleysingja munu falla út af atvinnuleysisbótum um áramótin. Umdeilt er hve margir, 16 til 30 þúsund. Þeir geta þá fengið fátækrahjálp, sem kallast “kontanthjælp” á dönsku, en þó því aðeins að þeir séu eignalausir og eigi ekki maka sem fær tekjur. Svo eigi menn íbúðarholu eða bíldruslu, verða þeir að selja þetta og éta upp áður en þeir fá krónu frá því opinbera. Um helgina, 11. nóvember gerði Enhedslisten svo samkomulag við ríkistjórnina um fjárlög næsta árs. Ýmsar umbætur má þar telja, komið skal í veg fyrir að útlendingar krókni á götum Kaupmannahafnar, flóttamenn fá nú leyfi til að sækja vinnu og skóla utan búðanna. En mesta athygli vekur að atvinnuleysingjar sem áttu að missa bætur 1. janúar nk. fá nú bætur í hálft ár eða styrk til skólagöngu. Þetta samkomulag er mikil tilslökun af hálfu Enhedslisten sem hafði krafist þess að atvinnuleysisbætur yrðu aftur í fjögur ár, og hver króna sem veitt var efnafólki í skattalækkun kæmi nú lágtekjufólki til góða. Heyrst hefur frá þingmönnum Ehl. að þeir hafi haldið sig hafa neitunarvald gagnvart ríkisstjórninni, því gengi hún ekki að þessu félli hún, og yrði að boða til kosninga. En nú gerðist það fyrir mánuði að stærsti hægriflokkurinn (sem heitir Venstre!) bauðst til að gera fjárlög með ríkisstjórninni. Menn höfðu treyst því að hann vildi allt til vinna að fella ríkisstjórnina, en betur að gáð er ekki svo eftirsóknarvert að taka við stjórn Danmerkur nú á tímum kreppu og samdráttar. Betra er að bíða með það, en verða kennt um allar kjaraskerðingarnar. Þessi tilslökun Enhedslisten gengur ótvírætt gegn ákvörðunum ársþings flokksins, að aldrei skyldi samið um að halda áfram kjaraskerðingum íhaldsstjórnarinnar, að ævinlega skyldi barist fyrir hverskyns umbótum til handa alþýðu, en gegn hvers kyns skerðingum á hag hennar. Ekki ákváðu þingmenn þetta á sitt eindæmi, heldur fengu samþykki miðstjórnar, sem er æðsta ákvörðunarvald flokksins milli ársfunda. Nú segja þingmenn Enhedslisten að ástæða þess að þau hafi slakað á kröfunum, sé sú að hefðu þau ekki samið við stjórnina, þá hefði hún bara samið við Venstre um miklar kjaraskerðingar alþýðu, og “allt sé betra en íhaldið”. Aðrir efa að slíkar kjaraskerðingar hefðu orðið, og segja að kratar og SF hefðu óttast aukið fylgistap, en með tilslökun Enhedslisten sé þeim ótta aflétt. Þingmenn Enhedslisten vildu ekki vera með í kynningu ríkisstjórnar á samkomulaginu, og sögðust munu halda sömu kröfum uppi áfram og herða baráttuna um mitt næsta ár. Þetta taka sumir félagar Ehl. undir, og segja að hálfs árs bætur séu mun betri en engar. En mér er spurn hvort þessi stefna þýði ekki bara að hér eftir ákvarði Venstre stefnu Enhedslisten. Virðist þá til lítils barist. Enhedslisten hafði stóraukið fylgi sitt á undanförnu ári, nánast tvöfaldað það, upp í 10-12 af hundraði, en það er nær fjórfalt fylgi íhaldsflokksins og tvöfalt það sem SF skráist með. Félögum Enhedslisten hefur líka stórfjölgað, eru nú nær 10 þúsund. En hætt er við að allt þetta breytist til hins verra á næstunni. Áberandi er, ekki bara að þessi svokallaða “rauða ríkisstjórn” heldur áfram kjaraskerðingarstefnu fyrri íhaldsstjórnar, heldur gengur hún lengra í sömu átt. Það er reyndar sígilt, þegar kratar stýra auðvaldsþjóðfélagi, þeir geta skert kjör alþýðu meira en íhaldið getur, af því að kratar ráða flestum verkalýðsfélögum, og halda aftur af þeim. Og það er einmitt ein helsta afsökun þingmanna Enhedslisten, það eina sem gæti stöðvað kjaraskerðingar kratastjórnarinnar væri þrýstingur frá stéttarfélögum og sveitarstjórnum. En slíkur þrýstingur hefur enginn orðið. Án slíks þrýstings fengi 12 manna þinglið Enhedslisten litlu áorkað. Í þessu sambandi má minnast þess að dönsk verkalýðsfélög standa höllum fæti, missa félagsmenn tugþúsundum saman á meðan kristileg stéttasamvinnufélög sækja í sig veðrið, það er ódýrara að vera í þeim, enda vilja þau engin verkföll hafa, og þá ekki verkfallssjóði! Þessi hægristefna “rauðu ríkisstjórnarinnar” hefur mikið bitnað á stjórnarflokkinum SF, sem hefur stórtapað fylgi í skoðanakönnunum. Formaðurinn, Willy Søvndal sagði af sér í sumar, og virtist ung krónprinsessa hans, ráðherrann Astrid Krag, sjálfkjörin. En á síðustu stundu kom mótframboð lítt kunnrar konu úr sveitarstjórn á Fjóni, Annette Willumsen, og hún gjörsigraði með tveimur þriðju atkvæða. Setti hún óðar af óvinsælan kjaraskerðingarráðherra SF, Thor Möger Petersen. Annar ráðherra SF, Ole Sohn, sem verið hafði síðasti formaður Kommúnistaflokksins, sá hvert stefndi, og sagði af sér ráðherradómi. Enda hafa síðan komið fram ásakanir um að hann hafi persónulega þegið 2-3 milljónir króna frá Moskvu í formannstíð sinni. Ekki hefur hann svarað því. Nú má þessi stefna ríkisstjórnarinnar virðast hrein fáviska, að minnka atvinnu og atvinnuleysisbætur þegar atvinnuleysi eykst. En á bak við leynast útreikningar, stefnt er að því að lækka kaupið í Danmörku með því að auka samkeppni um vinnu. Þetta hefur Venstre nýlega boðað. Og það sé vegna þess að mörg dönsk fyrirtæki flytja starfsemi sína til útlanda, þar sem kaupið er lægra. Einnig er þess að minnast að sjálft flugfélagið SAS er á hausnum, og er starfsmönnum þess nú boðið upp á launalækkun, 15-20 af hundraði, vilji þeir halda vinnu. Hyrfi SAS hefði það miklar afleiðingar fyrir Kastrup-flugvöll sem samgöngumiðstöð Norðurlanda, mörg fyrirtæki Kaupmannahafnar lifa af þjónustu við flugvöllinn. Það er kreppa í Danmörku sem víðar. Auðvitað er hún langt frá því eins alvarleg og í Suður-Evrópu, en slæm samt, fólk þorir ekki að nota þá peninga sem það þó hefur milli handanna, af ótta við atvinnuleysi. Og það bitnar á verslun og framleiðslu, stöðugt er verið að segja fólki upp og loka verslunum og öðrum fyrirtækjum. Enn bætist það við að landbúnaður er yfirleitt rekinn með halla, bændur stórskuldugir, og skammt í það að margir verði að hverfa frá búi. Þar með hrynja líka margir bankar, sem lánað hafa bændum. Smugan 17.11.201½2

Engin ummæli: