sunnudagur, 16. október 2011

Þingkosningar í Danmörku

Þingkosningar í Danmörku (26.8.2011)
Lengi hefur þess verið vænst að forsætisráðherra Danmerkur boðaði til kosninga, en hann hefur frestað því hvað eftir annað, enda eru skoðanakannanir honum mótdrægar. Allt þetta ár hafa þær bent til þess að ríkisstjórnin missi þingmeirihluta sinn.
Þessi ríkisstjórn hefur annars setið síðan um aldamót, með smábreytingum ráðherraliðs. Hún er mynduð af Íhaldsflokkinum og stórabróður hans, sem ber nafnið Venstre, en er nýfrjálshyggjuflokkur. Ekki er hann þó lengst til hægri, það er stuðningsflokkurinn sem tryggir stjórninni þingmeirihluta, Danski lýðflokkurinn (Dansk folkeparti). Sá flokkur er einkum kunnur fyrir andstöðu sína við innflytjendur, þ.e.a.s. þá sem ekki eru skjannahvítir á hörund. Einkum hefur flokkur þessi alið á ótta við fólk fætt og uppalið í löndum þar sem Íslam er ríkjandi trúarbrögð. Það eigi aldrei að geta aðlagast ”dönskum sjónarmiðum”, hver sem þau svo eru. Það virðast helst vera ótti við breytingar og öfgafull þjóðernisstefna.Þessi flokkur hefur lengi verið í vexti, 12-15%, en er nú spáð hnignun, e.t.v. vegna fjöldamorða skoðanabróður hans í Noregi.
Stjórnarandstöðuflokkarnir sem taldir eru munu vinna meirihluta nú, eru Sósíaldemókratar og Sósíalíski vinstriflokkurinn (SF). Sá flokkur hefur nálgast krata mjög á flestum sviðum undanfarið ár. Hann minnir annars mest á Alþýðubandalagið íslenska, en danskir kratar líkjast Samfylkingunni. Auk þeirra er í stjórnarandstöðu Einingarflokkurinn (Enhedslisten, EL), sósíalískur flokkur sem nú hefur 4 þingmenn, en er spáð allt að 11 í næstu kosningum.
Hvað mun breytast við væntanlega stjórnarmyndun þessara flokka? Ekki margt, held ég. Stjórnarandstaðan hefur fyrir löngu fallist á takmanir á innflutningi fólks til landsins, en gagnrýnir stjórnina fyrir niðurskurð til menntamála. Raunar hefur ríkistjórnin minnkað tímabil réttinda til atvinnuleysisbóta úr fjórum árum í tvö, og afnumið rétt til að fara á eftirlaun við 58 ára aldur. Þetta sagði hún vera grundvöll bætts ríkisfjárhags, en þetta vill stjórnaandstaðan endurreisa. Nýfrjálshyggja er áberandi hjá krötum, ekki síður en hjá Venstre. Bæði kratar og SF leggja áherslu á að ”styrkja atvinnulífið”, þeir síðarnefndu komu um daginn með hugmyndir um skattalækkanir á nýjum fyrirtækjum. Ríkisstjórnin boðaði um daginn að glæða íbúðamarkaðinn með afnámi þinglýsingargjalda og skatta á kaupendur íbúða. Kratar reyndust hafa átt njósnara í innsta hring ríkisstjórnarinnar, og boðuðu ásamt SF samdægurs mjög svipaðar aðgerðir. Gagnrýnendur benda á að einmitt slíkar aðgerðir stjórnvalda hafi sett af stað ”húsnæðisbóluna” í Bandaríkjunum sem breiddist um heiminn, fólk hafi keypt húsnæði sem svo reyndist því ofviða að greiða af, það hafi leitt til keðjugjaldþrota. Kreppan grefur um sig í Danmörku, t.d. eykst atvinnuleysi, einnig er lítil hreyfing á húsnæðissölu, og um helmingur verslana á í erfiðleikum, fjórðungi þeirra er spáð gjaldþroti. Stjórnarandstöðuflokkarnir höfðu lengi boðað opinberar framkvæmdir, t.d. endurnýjun skóla og sjúkrahúsa til að aflétta samdrætti og atvinnuleysi. Stjórnarflokkarnir höfðu hafnað þessu, því það kallaði á aukna skatta, í staðinn bæri að hvetja fólk til að fara meira í verslanir og sveifla greiðslukortum. En í dag (24.8.) sneri stjórnin við blaðinu og boðaði opinberar framkvæmdir til að aflétta atvinnuleysi. Um leið lagði hún fram fjárlagafrumvarp með miklum halla; 85.000 milljónir danskra króna. Dönsk króna er metin á 21 íslenskar, svo fólk getur reynt að reikna þetta út. Raunar segir efnahagsráðherrann, Brian Mikkelsen að þetta muni skila sér aftur í auknum skatttekjum við batnandi þjóðarhag. Þessar andstæðu fylkingar, kallaðar blá og rauð, nálgast mjög hvor aðra og keppa báðar um fylgi miðjufólks í stjórnmálum. Þar eru fyrir litlir flokkar og áhrifalitlir, Radikale Venstre og klofningsflokkur frá þeim, Liberal alliance, sem báðir boða skattalækkanir og niðurskurð hins opinbera, binn síðarnefndi þó miklu meira.
Þessar áberandi tillögur beggja fylkinga merkja að nú er kosningabaráttan hafin af fullum krafti.
Væntanlega munu lesendur Smugunnar hafa mestan áhuga á flokkinum lengst til vinstri, Einingu (EL). Hann var stofnaður fyrir tveimur áratugum við samruna flokksbrotanna yst til vinstri, sem þá voru orðin áhrifalítil en höfðu sum átt fulltrúa á þingi og borgastjórnum. Þetta voru gamli kommúnistaflokkur Danmerkur (DKP), trotskistar (SAP), maóistar (KAP) og einkum sundurleitur flokkur Vinstrisósíalista, VS. Þetta voru erfðafjendur, eins og margir lesenda munu kannast við, en sögðu nú að meiru skipti samstaða um sameiginlega stefnu en ágreiningur um fortíðina, hvað hefði verið rétt stefna eða röng í Sovétríkjunum áratugum áður. Blaðamenn hæddu þennan nýja flokk og kölluðu hann ”Sameinuðu dánarbúin”. En hann komst á þing þegar SF hvarf frá andstöðu við Evrópusambandið með Edinborgarsamkomulaginu,1993. Jafnframt hvarf mesti hluti DKP frá Einingu yfir í SF, enda sammála þeim flokki í meginatriðum, eins og gamlir félagar Alþýðubandalagsins mega kannast við.
Æ síðan hefur EL unnið fylgjendur frá SF, þó aldrei eins og nú, þegar forysta SF hefur nálgast krata á flestum sviðum. Þingmannafjöldi EL hefur sveiflast milli 4 og 6, oftast hefur flokkurinn verið í námunda við lágmarksfylgi til að komast á þing, 2% atkvæða. En honum er nú spáð um 6%.
EL telst vera einskonar systurflokkur VG, en munurinn er sá að EL boðar sósíalisma, og þar að auki byltingu. Gamli ágreiningurinn innan EL milli flokksbrota hefur að mínu mati aldrei sagt til sín. Auðvitað er ágreiningur um ýmis mál, en hann gengur þvert á flokksbrotin gömlu, og raunar eru flestir flokksmenn EL nýir, utan þeirra. Helst er deilt um hve langt eigi að ganga til að verja ríkisstjórn krata og SF falli, og er það nýtt að nú vilja þingmenn EL greiða atkvæði með fjárlögum. Hinsvegar var samþykkt að sú ríkisstjórn félli á eigin bragði, ef hún sviki gefin loforð um hagsbætur til fátæklinga. Meginstefna Einingar er að styðja allar úrbætur til þeirra, en berjast gegn öllum skerðingum á hag þeirra. Flestir flokksmenn eru andstæðir veru Danmerkur í Evrópusambandinu og þátttöku Dana í stríðinu í Afganistan.
Sigurvegarar tapa.(16.9.2011)
Nöfn danskra stjórnmálaflokka eru gömul og oft mjög villandi. Stærsti hægriflokkurinn heitir Venstre, og Radikale venstre er alls ekki róttækur vinstriflokkur, heldur borgararalegur flokkur sem vill lækka skatta á tekjuháu fólki, en skerða atvinnuleysisbætur. Erfitt verður krötum að halda saman bandalagi þeirra og Einingar (Enhedslisten) sem vill þvert á móti auka atvinnuleysisbætur og hækka skatta á auðmönnum.
Sammála eru þessir tveir flokkar þó um að aflétta takmörkunum sem sett voru innflytjendum, um að þeir skyldu vera 24 ára til að giftast og fengju ekki dvalarleyfi nema hjónin hefðu samanlagt meiri tengsl við Danmörku en annað land. En verðandi ríkisstjórnarflokkar, kratar og SF, hafa einmitt bundið sig við þessar skerðingar! Líklegt þykir að Radikale beygi sig fyrir kröfu um að tryggja einhvers konar eftirlaun.
Þingkosningarnar í Danmörku fóru nokkurn veginn eins og spáð hafði verið, ríkisstjórnin missti meirihluta sinn, og “Rauða bandalagið” vann. Það er hlálegt í þessu sambandi að stærsti stjórnarflokkurinn, Venstre, bætti við sig hálfu prósenti og einum þingmanni, en sigurvegari kosninganna, kratar, töpuðu hálfu prósenti og þingmanni!
Hefur fylgi krata ekki verið minna í heila öld, er nú fjórðungur atkvæða, en Venstre hafa ívið meira. Nánir bandamenn krata, SF (áþekkir Alþýðubandalaginu íslenska), töpuðu þó mun meira, misstu þriðjung þingmanna sinna, sjö, en Eining (EL) tók við því fylgi og þrefaldaði þingmannatölu sína, hefur nú 12 í stað 4 áður. Fjölmiðlar persónugera þetta að vanda, og þakka fylgiaukninguna 27 ára talsmanni flokksins, Johanne Smidt Nielsen. Hún var rökföst og skelegg í umræðum, en aðrir þingmenn flokksins ekki síður, Frank Aaen sem hefur manna mest gagnrýnt stórfyrirtæki og skattleysi þeirra, einnig Per Clausen og Line Barfod, en hún hættir nú á þingi vegna tímatakmarkanna flokksins, enginn má sitja lengur en tvö kjörtímabil. Mikið er úr því gert að nú komi reynslulítið fólk á þing frá Einingu, en það er alls ekki rétt, þetta fólk er þrautreynt í stjórnmálabaráttu, þótt margt af því sé ungt.
Mestu breytingarnar urðu annarsstaðar. Íhaldsflokkurinn missti meira en helming þingmanna sinna, hefur nú átta í stað 18 áður. Eitthvað af því fór til nýs flokks, Liberal alliance, sem er allra flokka róttækastur í að boða lækkaða skatta og niðurskurð á þjónustu hins opinbera á öllum sviðum. Mun meiri varð þó fylgisaukning Radikale venstre, sem einmitt bætti við sig átta þingmönnum. Nú hafa lengi verið miklar sveiflur á fylgi hans og Íhaldsflokksins. En þessu sinni held ég að þetta beri að skýra með því að Íhaldsflokkurinn var í ríkisstjórn og naut stuðnings Danska lýðflokksins, sem einkum hamast gegn múslímum, en Radikale venstre eru svarnir fjandmenn þess flokks, sem nú missti þrjá þingmenn og hálft annað prósentustig. Ekki er að vita hvort hryðjuverk skoðanabróður þeirra í Noregi fyrir tveimur mánuðum olli miklu um það, en þetta er í rauninni mesta breytingin sem varð í þessum kosningum, straumur til helstu andstæðinga Danska lýðflokksins. .
Íhaldsmenn eru sem vonlegt er gramir yfir þessum úrslitum, en reyna að hugga sig við að skammt muni að bíða nýrra kosninga. Því ofan á framangreindan ágreining flokkanna sem standa munu að næstu ríkisstjórn bætist að stjórn Evrópusambandsins reiknar með núllvexti efnahagslífsins innan þess. Meira að segja í Þýskalandi verði alger stöðnun í árslok. Útflutningur til þess hefur verið helsta lyftistöng danskra fyrirtækja, svo útlitið er svart, og stöðugt eykst atvinnuleysi í Danmörku, og gjaldþrot fyrirtækja.
Hvað sem öllu þessu líður eru það stórtíðindi að tíu ára valdatíma borgaralegu flokkanna, og þó einkum áhrifa Danska lýðflokksins er lokið, og að Eining hefur treyst stöðu sína afgerandi. Áður var því oft haldið fram að það væri sóun atkvæða að kjósa hana, því hún væri alveg við lágmarksfylgi til að komast á þing, 2%, og kæmist sjálfsagt ekki inn. En nú var það augljós firra, svo einnig skoðanakannanir hafa aukið flokkinum fylgi. Óhugsandi er að Eining taki þátt í ríkisstjórn, því það myndi splundra þessum flokki byltingarsinna. Hinsvegar vill hún styðja ríkisstjórn krata og SF - nema sú ríkisstjórn skerði hag alþýðufólks. En þannig eru nú kratar vanir að leysa auðvaldskreppur, eins og þá sem væntanlega herðist nú enn. Kratar segjast vilja fá Radikale inn í ríkisstjórnina, en þeir vilja “breitt samstarf yfir miðjuna”, þ.e. með íhaldinu. Þannig þvinguðu þeir kratann Poul Nyrup Rasmussen til að skerða eftirlaun, þvert ofan í kosningaloforð hans, og því misstu kratar völdin fyrir áratug.

Engin ummæli: