sunnudagur, 16. október 2011

Kreppubók Stefáns Snævars

Um kreppubók Stefáns Snævars (Smugan 27.9.2011)

Stefán er 58 ára, heimspekiprófessor í Lillehammer í Noregi. Þetta er sjötta fræðirit hans á 22 árum, en auk þess hefur hann sent frá sér átta skáldrit frá 1975, mest ljóðabækur. Þessi bók hans birtist nú í ágúst, 380 bls. og ber titilinn Kredda í kreppu, og undirtitilinn Frjálshyggjan og móteitrið við henni. Bókin tekur fyrir málefni sem flestu fólki eru hugleikin, og eru mikið til umræðu í fjölmiðlum. Þar má nefna hvort hagkvæmari sé einkarekstur eða opinber, og þá á hvaða sviðum. Í sambandi við það er rætt um frelsi einstaklinga og mögulegar takmarkanir þess, hvort samfélag móti einstaklinga meira eða minna, eða hvort svokallað samfélag sé bara tilviljunarkenndur hópur einstaklinga, eins og ýmsir nýfrjálshyggjumenn hafa haldið fram, hvort samfélagsumbætur verði bara vegna eigingirni einstaklinga eða aðrar tilfinningar ráði. Stefán ræðir rök með og móti hverri skoðun og seilist vítt. Bók þessi er stóraukin útgáfa af Krataávarpi sama höfundar, sem birtist í Tímariti Máls og menningar í fyrra, rúmur tugur blaðsíðna. Hér eru þá mörgu gerð skil sem þar vantaði, t.d. arðráni stórfyrirtækja á þriðjaheimslöndum (t.d. bls. 152-3). Bókin ber glöggt vitni heimspekimenntunar höfundar, og má mikið á því græða, svo sem hugleiðingar um ósannanlegar forsendur sem fólk hefur fyrir dómum sínum og áliti, um t.d. list, réttlæti og jöfnuð; einnig því að þögul vitneskja móti störf fólks og hugsun (bls. 33 o.áfr., einnig bls. 136 og 212), enda þótt hún verði ekki skilgreind, því sé torvelt að flytja hana frá einu samfélagi til annars, einnig torveldi mikilvægi hennar ýmsar spár svo sem í hagfræði. T.d. getur maður smíðað ýmiskonar skápa, en gæti ekki skilgreint hvernig farið skuli að því. Einnig er rakið hve mismunandi reglur gilda um beitingu málsins (bs. 39): “Án loforða getum við ekki gert samninga, án samninga höfum við ekkert markaðskerfi. Án fyrirskipana höfum við ekkert ríkisvald, án raunhæfinga engin vísindi.” Ég vil þó enn frekar mæla með Ástarspekt (2004, þ.e.: Filosophia) sama höfundar sem kynningu á heimspekihugtökum. Kredda í kreppu er best í gagnrýni, gildi hennar er einkum neikvætt, en það er auðvitað mikilsvert.
Bók þessi er einkar auðlesin, á alþýðlegu máli, og er því óhætt að mæla með henni til skilningsauka á mikilvægum málefnum. Sumir kynnu að óska þess að höfundur hefði látið ritvinnsluforritið eyða fornafni fyrstu persónu eintölu hvarvetna í textanum, rök þessa væru að það dreifi athygli frá meginmáli að fá jafnframt sífellt upplýsingar um smekk og viðhorf persónunnar Stefáns Snævars. En á móti kemur það sem oft var sagt á æskuárum mínum um falskt hlutlægnisyfirbragð, höfundi beri einmitt að gera grein fyrir forsendum sínum, þeim viðhorfum sem lita texta hans, en fela þau ekki undir yfirbragði þess sem flestir hljóti að fallast á. Og vissulega hefur Stefán viðhorf sem margir munu ekki fallast á, þar á meðal undirritaður.
Í fyrsta lagi virðist ýmislegt vanhugsað eða vankannað, t.d. er því haldið fram (bls. 223) að opinberar umræður “hafi átt stóran þátt í að draga úr barneignum í Kerala-fylki á Indlandi. (...) Afleiðingarnar urðu þær að nú fjölgar fólki hlutfallslega minna þar en í einræðisríkinu Kína þar sem valdi er beitt til að draga úr mannfjölgun.”
Þarna birtist hefðbundin oftrú á upplýsingu. Alkunna er að mikil mannfjölgun í þriðjaheimslöndum stafar af því að mikil barneign er talin vera eina mögulega ellitrygging þar sem ekki er velferðarkerfi í norrænum stíl. Að innleiða slíkt kerfi í þriðjaheimslöndum væri þá eina leiðin til að takmarka offjölgun mannkyns.
Á sömu bls. segir: “mér vitanlega eru ekki til dæmi um að tvö hreinræktuð lýðræðisríki hafi háð styrjöld þótt slíkt kunni að gerast í framtíðinni. Nefna má að Þýskaland keisarans hafði lýðræðislega þætti, samt háði landið stríð við lýðræðisríki á borð við Frakkland, Bretland og Bandaríkin.”
Hér er í fyrsta lagi Þýskalandi einu kennt um fyrri heimsstyrjöld, í öðru lagi er sett samasemmerki milli þingræðis og lýðræðis – í löndum þar sem einræði ríkti í efnahagslífi undir drottnun nokkurra stórfyrirtækja, og í þriðja lagi birtist alger vanþekking á orsökum stríðsins. Það er þó alkunna að þar var barist um hráefnalindir og markaði! Svo alkunna, að höfundur hefði amk. átt að rökræða þá túlkun, sé hann andvígur henni. Einnig er “víðsýni” höfundar stundum þreytandi, það þarf ekki að segja lesendum sautján sinnum að fátt verði vitað með óyggjandi vissu, og ekki sé höfundur alvitur. Hann hefði nú raunar getað vitað meira stundum. T. d. (bls. 216-17):

“Sá möguleiki er fyrir hendi að reynt yrði að raungera ráðslýðræði í markaðs-sósíalísku skipulagi. Kerfið yrði þá líkt því sem var í Júgóslavíu sálugu á dögum kommúnista, ríkið ætti framleiðslutækin, fyrirtækjunum yrði stjórnað af starfsmanna-ráðum og markaðurinn samhæfði gjörðir fyrirtækjana. En þessi kostur er heldur ekki nógu góður. Ekki er ósennilegt að fyrirtækin breyttust hægt og bítandi í hrein einka-fyrirtæki þótt ríkið kannski ætti þau að nafninu til. Þess utan efast ég um að svona kerfi yrði skilvirkt, lítið rúm yrði fyrir nýjungar og skapandi eyðileggingu.”

Hér er nú ekki bara um að ræða heilaleikfimi við skrifborð í Lillehammer, heldur fyrirbæri sem voru til. Var nú ekki mögulegt að fletta upp í heimildaritum um þetta atriði? Vissulega hefði það tafið útgáfu bókarinnar um einhverja mánuði, en varla var nauðsynlegt að hún birtist í ágúst 2011, hinn möguleikinn var að bókin yrði mun betri. Nafnaskrá hefði líka gert hana stórum aðgengilegri og gagnlegri.
Verra er að fyrir kemur að beitt er þokukenndum hugmyndum, sem fá enga skýringu. Þar má nefna svo mikilvægt fyrirbæri sem “sósíalisma”. Þannig segir (bls. 146) “kannski valda hefðir Kerala og Bútanbúa því að heil- eða hálfsósíalismi virkar sæmilega vel í löndum þeirra.” (sjá einnig bls. 203). Engin skýring er á því hvað átt sé við með “hálfsósíalisma”, hvað þá “heilsósíalisma”! Samt segist höfundur andvígur sósíalisma, segir hann hafa gefist illa. Hann vilji standa í miðju og velja það sem best gefist eftir hentugleikum. Þetta er vissulega réttlætt með framangreindum dæmum (bls. 33 o.áfr.) þess að fólk hafi ósannanlegar forsendur mikilvægra ákvarðana sinna. En annars er þettta einfaldlega trúarjátning – Samfylkingarinnar íslensku – eða krata almennt. Engin stefnufesta, engin ríkjandi sjónarmið, bara lagað sig eftir aðstæðum hverju sinni. Það er í samræmi við þetta að bókin fjallar um auðvaldskreppur á hundruðum blaðsíðna án þess að víkja að skýringum Karls Marx á þeim, og hversvegna þær endurtaki sig hvað eftir annað. Jafnvel andmarxistar viðurkenna þó mikilvægi þeirra kenninga, ekki verði gengið þegjandi hjá þeim. Alrangt er (bls. 337) að Marx hafi verið “efnahagslegur nauðhyggjumaður”, hann barðist gegn þeirri stefnu alla ævi.
Stefán ræðir ýmsar hugmyndir sósíalista um ráðstjórn (t.d. bls. 216). Starfsfólk tiltekinnar verksmiðju myndi ráð sem stjórnar henni, og önnur fyrirtæki lúta samskonar stjórn.

“Síðan eiga ráðin að samhæfa gerðir sínar á landsvísu, jafvel heimsvísu. Hugsum okkur nú að ekki væri neinn markaður í slíku kerfi. Þá yrði hættan sú að kerfið yrði firnaþungt í vöfum, endalausar rökræður færu fram um smáatriði í fyrirtækjarekstri og feikierfitt yrði að samhæfa ákvarðanir ráðanna. Þess utan myndi samhæfingin krefjast umfangsmikils skrifræðis sem gengið gæti af ráðslýðræðinu dauðu. Einnig gæti lýðræðið hrunið undan eigin þunga, efnahagskerfið færi á hausinn og alger ringulreið skapaðist Sú óreiða gæti orðið móðir einræðisins. En jafnvel þótt ráðslýðræðið lenti ekki í slíkum hremmingum þá eru fallgryfjurnar margar. Verði ráðunum stjórnað á opnum fundum er hætta á valdatöku hinna virku. Væri fulltrúalýðræði í þessu skipulagi er hætta á að þeir fulltrúar sem samhæfa ættu starf ráðanna á landsvísu fengju of mikil völd í krafti þess að ríkja yfir öllu efnahagskerfinu”.

Í framhaldi er rætt um aðra útgáfu sósíalisma (bls 218). Þá verði öll fyrirtæki sameign almennings, þannig sé öllum tryggð lágmarksframfærsla. En fyrirtækin verði undir stjórn forstjóra “sem reyna að hámarka gróða þeirra. Þeir verði annað hvort kosnir af starfsmönnum eða skipaðir af stjórnum fyrirtækjanna.” Markaðurinn ráði hvernig auðlindum er ráðstafað.
Vissulega er rétt sem Stefán hefur eftir danska háðfuglinum Storm P. að erfitt sé að spá, einkum um framtíðina. Látum því fólk framtíðar um framkvæmd í einstökum atriðum, en sósíalistar hljóta að beita sér nú og ævinlega fyrir valddreifingu, að færa ákvarðanavald til almennings. Það er ekkert náttúrulögmál að sá sem rekur fyrirtæki með árangri eigi að hafa meiri völd en sá sem er duglegur að leika á píanó. En af framangreindu dregur Stefán ályktun sem hann sjálfur kallar íhaldssemi, en ég kalla hugsanalausa íhaldssemi. Það

“er engin ástæða til að taka áhættuna á lýðræðislegum sósíalisma, hann gæti verið leiðin til ófarnaðar. Við vitum hvað við höfum, þ.e. lýðræðislegan blandaðan markaðsbúskap, ekki hvað við fáum” (bls. 219 og 329).

Það þarf ekki mikla umhugsun til að sjá að þetta “við vitum hvað við höfum, ekki hvað við fáum” eru sígild rök íhaldsmanna gegn öllum breytingum, t.d. var þannig barist gegn þingræði og afnámi þrælahalds á 19. öld. Þarf frekari vitnisburð um hve vitlaus þessi stefna er?
Loks má nefna að margir rithöfundar munu kannast við þann vanda að finna ekki tilvitnun um það sem þeir hafa eftir öðrum. Á þeim vanda hefur Stefán eftirbreytniverða lausn (bls. 355):

“Þessa hugmynd hef ég frá norskum krata hvers nafni ég hef gleymt. Hann hefur örugglega stolið henni frá einhverjum öðrum”!
_______________________________
Stundum virðist höfundur ekki hafa hugsað nægilega vel það sem hann ritar. T.d. segir hann (bls. 129-30) “að ef bág kjör landbúnaðarverkamanna (á Spáni) orsaka lágt verð þá ættu innfluttir spænskir tómatar að vera litlu dýrari á Íslandi en á Spáni. En svo er ekki.” Er þá flutningskostnaður, afföll af auðskemmdri vöru og milliliðakostnaður úr sögunni? Þessa vitleysu er höfundur svo veglyndur að hafa eftir Árna bróður sínum.
Í bókinni er vítt seilst og aragrúi upplýsinga. Það er því skiljanlegt að fyrir kemur að upplýsingar eru úreltar, jafnvel mikilvægar upplýsingar, svo sem (bls. 135): “Franskir bankar hafi staðið sig sæmilega vel, ríkið hefur ekki þurft að redda þeim.”
Af þessu leiðir Stefán að þetta muni stafa af mismunandi hugarfari þjóðanna. En í síðustu viku var í sjónvarpsfréttum að flestir franskir stórbankar væru á heljarþröm. Leggst þá lítið fyrir þjóðarsálir, en ekki hefi ég meiri upplýsingar um þetta mikilvæga mál.
Bls. 248 segir: “Þótt flest sé til sölu á vorum tímum þá er merkilegt nokk engin leið að kaupa pláss í biðröð, þau eru einfaldlega ekki til sölu.”
Er þetta ekki helsti vanhugsað? Alkunna er, að hvenær sem mikil eftirsókn er eftir aðgöngumiðum, þá hamstra menn eins marga og þeir geta, og selja svo á uppsprengdu verði þeim sem ekki fengu miða. Sé takmarkað hve marga miða einstaklingur má kaupa, gerir hann bandalag við aðra um þetta.
Á bls. 273 nefnir höfundur að “Til eru samfélög þar sem litið er á börn sem eign föður. T.d. höfðu húsbændur í Róm til forna rétt til að drepa hvert það afkvæmi sitt sem þá lysti.”
Hér ætti að nefna að þetta tíðkaðist líka á Íslandi, en var afnumið skömmu eftir kristnitöku – sem var þó samþykkt með þeim fyrirvara, m.a. að þetta mætti áfram. Ótraustari munu heimildir um að leiða gamalmenni fyrir ætternisstapa, þ.e. hrinda þeim fyrir björg, þættu þau ekki verðmætaskapandi. Það þyrfti að kanna.


Stefáni Snævar svarað (Smugan 4.10.2011)

Fyrst er að leiðrétta misskilning. Eins og allir geta séð af pistli mínum átaldi ég ekki Stefán fyrir að nota mikið fornafn fyrstu persónu eintölu, heldur réttlætti það með því að þannig setti hann fram forsendur dóma sinna, gerði þær lesendum ljósar.
Í annan stað er pistill minn alls enginn ritdómur um bók Stefáns, Kreppa í kreddu. Það sést þegar af því að ég fjalla nánast ekkert um aðalefni bókarinnar, sem fram kemur í undirtitli hennar: “Frjálshyggjan og móteitrið við henni”. Eftir nokkuð almenna lýsingu á vinnubrögðum í bókinni læt ég nægja að gagnrýna ýmislegt í henni, m.a. frá marxísku sjónarmiði.
Það er ánægjulegt að Stefán nú segir það misskilning að hann geri Þjóðverja eina ábyrga fyrir fyrri heimsstyrjöld. En var ekki nærtækast að skilja svo þessi orð hans: “Þýskaland keisarans hafði lýðræðislega þætti, samt háði landið stríð við lýðræðisríki á borð við Frakkland, Bretland og Bandaríkin.”

Ég sagði kenningu Lenins um heimsvaldastefnuna “alkunna”. Það merkir auðvitað ekki sama og “almennt viðurkennd”. Sagan um Adam og Evu er alkunn, en síður en svo almennt viðurkennd sannindi. Ég sagði bara að kenning Leníns væri svo alkunna að Stefán hefði átt að andmæla henni, væri hann ekki sammála. Þau andmæli setur hann svo fram nú. Of langt mál yrði hér að ræða allt sem hann segir um að nýlendustefnan hafi verið dýr, og því studd af aðli og herforingjum, fremur en af viðskiptahöldum, sem hafi þó átt að græða á henni. Hitt virðist þó ljóst að sitt var hvað, hver borgaði nýlendustefnuna – skattborgarar – og hver græddi á henni – iðjuhöldar, herforingjar og fl. þ.h. ” Arðræna Vesturlönd Sádí-Arabíu?” spyr Stefán. Svarið er að fáeinir auðugir vesturlandabúar arðræna flesta íbúa Sádí-Arabíu með dyggum stuðningi fáeinna Sádíaraba, þ.e. valdhafa og auðmanna landsins.

Það er sannarlega hressandi að lesa rit Stefáns þegar hann dregur útbreiddar skoðanir í efa og kannar rök með og móti. En það nægir ekki. Efist hann um að vinna sé grundvöllur verðmæta, þá verður hann að gera svo vel að segja hvað hann vilji setja í staðinn. Augljóst má vera að ýmis þau fyrirbæri sem kallast ”náttúruauðlindir” öðlast bara verðmæti við vinnu manna. Þar á meðal er olían sem Stefán segir réttilega að hafi verið verðlaus þangað til bensínvélin var upp fundin. Spyrja mætti hvort Stefán ímyndi sér að tilteknir þýskir uppfinningamenn hafi þá fært olíunni þau verðmæti sem hún hefur nú. En mér sýnist líklegra að það sé vinnan við að smíða vélar til að annast hana, vinnan við að dæla henni úr jörð, hreinsa hana, markaðssetja, o.s.frv.

Stefán segist bara vitna í Þorstein Gylfason um að Marx hafi verið nauðhyggjumaður. Stefán tekur þó undir þetta: “Hins vegar hafði Marx tilhneigingu til nauðhyggju, hún kemur hvað skýrast fram í formálanum að Auðmagninu þar sem hann segir að þróun samfélaga lúti náttúrulögmálum, þekki menn þau lögmál þá geti menn stytt eða lengt fæðingarhríðir hins nýja samfélags sem þróunarlögmálin geti af sér. En ekki numið þau úr gildi. Hvað er þetta annað en nauðhyggja light?
Svar mitt er að þetta kunni að vera óheppilega orðað (hvort sem svo er í þýska frumtextanum eða íslensku þýðingunni), auðvitað lýtur þjóðfélagsþróun ekki ósveigjanlegum náttúrulögmálum. Hitt má augljóst vera, sem er meginkenning Marx, að sterkar hneigðir valda því hvers konar þjóðfélag rís af hverskonar atvinnuháttum. Svo mjög þekkt dæmi sér tekið, þá byggðist búskapur í Egyptalandi og Millifljótalandi (Írak) til forna á áveitum til að nýta árleg flóð í fljótum sem náðu gegnum mestallt landið, og tryggðu greiðar og skjótar samgöngur. Skiljanlegt er að samvinnu bænda þurfti um þessar áveitur, skiljanlegt er einnig að á þessum tíma auðveldaði þetta sterka miðstjórn, einræði. Jafnauðskilið er að Evrópa á miðöldum, með víðlend ríki og erfiðar samgöngur, var ekki á sama hátt grundvöllur fyrir sterkt ríkisvald, enda var það konungsvald veikt, mikil völd lágu hjá héraðshöfðingjum víðsvegar.
Eftir stendur að bæði Marx og Engels börðust gegn efnahagslegri nauðhyggju. Ég leyfi mér að vitna í bók mína Rauðu pennarnir (Rvík 1990, bls. 1 o.áfr.) um

”það grundvallaratriði kenninga þeirra, að öll svið mannlífsins tengist sín á milli, orki hvert á annað, og ákvarðist þannig sögulega, að skipulag framleiðslulífsins ráði mestu þegar til lengdar lætur. Þetta er „víxlverkan á grundvelli efnahagslegrar nauðsynjar, sem hefur sitt fram að lokum“, sagði Engels 1894 (bls. 206–7). „Það er ekki vitund manna sem ákvarðar tilveru þeirra, heldur er það þvert á móti félagsleg tilvera þeirra sem mótar vitund þeirra“ sagði Marx 1857 (A, bls. 89) [2]. Þetta hefur oft verið rangtúlkað svo, að öll fyrirbæri mannlífsins megi leiða út frá efnahagslífinu. Það kallast vélgeng efnishyggja (eða dólgamarxismi). En Engels heldur áfram:

Það er ekki svo að skilja, að efnahagslífið eitt sé virk orsök, og allt annað aðeins óvirk afleiðing. Því fjær sem eitthvert svið mannlífsins er efnahagslífinu, því nær sem það er hreinum, óhlutbundnum hugmyndaheimi (t.d. bókmenntir og listir), þeim mun fremur finnum við tilviljanir í þróun þess, því meiri sveiflur eru á línu þróunarinnar. En sé dregin miðlína þessara sveiflna, mun sannast, að hún nálgast þróunarlínu efnahagslífsins því meir sem sviðið er víðara, og tímaskeiðið lengra sem við skoðum”.

Stefán segir: “M.a. vegna þess að núverandi kerfi er sæmilega viðunandi er engin ástæða til að taka áhættu af samfélagskerfi sem er róttækt öðruvísi.”
Ætla mætti að hann fetaði hér í fótspor þýska heimspekingsins Leibnitz, sem fyrir eitthvað á þriðju öld sagði að við byggjum í besta mögulega heimi. En það er nú öðru nær, Stefán rekur í löngu máli ágalla núverandi skipulags. Auk þess er þetta allt of sértækt hjá honum. “Lýðræði” merkir bara þingræði, væntanlega með félagafrelsi og tjáningarfrelsi. Í Bandaríkjunum er þetta – með þeim afdrifaríku takmörkunum að auðjöfrar eiga alla fjölmiðla, og að mikinn auð þarf til stjórnmálabaráttu. Í Bandaríkjunum er líka markaður. Er samt ekki fráleitt að kalla það “sæmilega viðunandi” þjóðfélag, sem ekki megi breyta róttækt? Stöðugt eykst mismunur auðugra og örsnauðra, sem í stórum stíl missa atvinnu, húsnæði og verða að hírast á götum úti, sjúkratryggingar eru svo lélegar að fólk hefur ekki efni á að leita til læknis eða sjúkrahúsa. Einnig á Stefánslofuðum Norðurlöndum stækkar gjáin milli ríkra og snauðra, atvinnuleysi eykst mikið, enda fluttist húsnæðisbólan þangað frá Bandaríkjunum. Sama kreppa eða verri er um alla Evrópu, eins og Stefán rekur ítarlega í bók sinni. Hver getur kallað þetta ”sæmilega viðunandi kerfi”? Ekki jafnaðarmenn, svo mikið er víst, frekar það sem Stefán kallar tepokalýð Bandaríkjanna og moldrík yfirstétt þeirra. Ég ítreka að standi Stefán við orðin: ”Við vitum hvað við höfum, ekki hvað við fáum”, þá eru það sígild rök gegn öllum breytingum, og það verður ekki kallað annað en hugsunarlaus íhaldsstefna.
Stefán segir ennfremur: ” Í síðara lagi hræða spor sósíalismans, meira að segja Júgóslafia með sín verkamannaráð var einræðisríki og efnahagslega staðnað. I ofan á lag benda hugsunartilraunir til þess að sósíalisminn sé ekki á vetur setjanda.”
Þetta er einmitt það sem mér þykir verst við bók Stefáns. Hann sýnir ekki fram á neitt orsakasamhengi milli sósíalisma og einræðis, en gefur það í skyn. Helstu rök hans eru að öflug miðstjórn á efnahagslífinu leiði til einræðis, en raunveruleg ráðstjórn muni leiða til glundroða, en hann aftur til einræðis. Ég segi aftur á móti, að flokkur undir stjórn Títós vann vopnaða baráttu gegn nasistum, erlendum og innlendum, og eftir að hann hafði náð alræðisvöldum, var hann ekkert fyrir að afsala sér þeim.
Stefán spyr ennfremur: ”Er nokkur ástæða til að trúa á óprófanlegar kenningar eins og þá sem kennd er við vinnugildi?”
Svarið er að öll trúum við á óprófanlegar kenningar, svo sem Stefán rekur ágætlega um trú okkar á óprófanlegar forsendur ýmissa dóma og ályktana. Ég álít t.d. að engin leið sé að finna almennan mun á lundarfari kvenna og karla, enda sé um milljarða ókunnra mannvera að ræða, enginn geti haft þekkingu á þeim. Með sömu rökum trúi ég ekki á kynþáttamun né þjóðareðli, ekki á sérstakt lundarfar fólks sem alist hafi upp við islam sem ríkjandi trúarbrögð, meira en þúsund milljónir manna af mismunandi stéttum og menntun í mörgum gerólíkum ríkjum; en þessi kenning er vissulega óprófanleg. Ekkert virðist heldur benda til að milljónir samkynhneigðra um veröld víða hafi eitthvert sameiginlegt lundarfar, sem greinist afgerandi frá lund gagnkynhneigðra. Hvernig ætti að vera mögulegt að kanna slíkt? Allur rasismi virðist því jafnvitlaus. Ég hef mér það helst til afbötunar að jafnóprófanleg er andstæð kenning sem kunnust er af Helgu Kress og félögum, að grundvallarmunur sé á lundarfari kynjanna, og hann birtist í bókmenntum eftir karla og konur, m.a. Þessi kenning var alkunn í mínu ungdæmi og hét þá karlremba, en er nú kennd við kvennamenningu. En er ekki augljóst að t.d. menntakonur í Reykjavík eiga miklu meira sameiginlegt með eiginmönnum sínum, bræðrum, og einkum vinnufélögum, en þær eiga með fiskverkakonum á Akranesi eða Ísafirði, hvað þá með bændakonum í Afríku og Asíu?
En verst er að Stefán lætur sér nægja "hugsunartilraunir" í stað þess að kanna hvað raunverulega gerðist, sögulegar aðstæður. Ég þykist hafa rakið að háir bók hans verulega.
Ég verð að biðjast velvirðingar á því að segja Stefán hafa gefið úr sex fræðirit á 22 árum, þegar það var á 12 árum. Ég veit satt að segja ekki hvernig þessi villa varð til. Innsláttarvilla?

P.s. Mikið væri gaman ef Gústaf Níelsson vildi útskýra hvað hann á við með að kalla mig ”Heiðar snyrtir hinna sósíalísku þjóðfélagsvísinda”.

Engin ummæli: