sunnudagur, 16. október 2011

Um skáldverk Sigfúss Bjartmarssonar

Sigfús er eitthvert merkasta skáld Íslendinga nú á dögum. Allt of lítið hefur þó borið á honum opinberlega, sigurstranglegra til að komast í heiðurslaunaflokk listamanna virðist vera að framleiða sem mest af lélegum skáldsögum eða kvikmyndum, og pota sér áfram við ráðamenn. En af skáldum hefur Sigfús lengi verið metinn öðrum fremur. Þegar þetta er skrifað, á 30 ára útgáfuafmæli Sigfúss, hefur hann sent frá sér níu bækur, mjög margvíslegar. Smásagnasafn, ferðabók, 5-6 ljóðabækur (mörkin eru óljós), einnig yfirlitsrit um illfygli og óargadýr, raunar mjög skáldlegt.
Fyrst bóka Sigfúss var ljóðakverið Út um lensportið, 1979. Það er þrír bálkar, sem hver rúmar sjö ljóð. Miðhlutinn er tímasettur 1975-78. Þetta sýnir óðar að höfundur hefur verið mjög vandfýsinn á eigin verk, þótt fátt nógu gott í fyrstu bók. Síðasti bálkurinn er mæltur af ferðalangi í Mið-Ameríku, en Sigfús hefur löngum farið miklar langferðir um framandi slóðir. Þegar í þessari bók koma fram varanleg höfundareinkenni. Blæbrigðaríkt talmál ríkir, með slettum og tilvísunum í ýmislegt í fjöldamenningu samtímans, sjónvarpsefni o.fl. af því tagi. Oft er talað til viðmælanda í bókunum, og skapar það kumpánlegan blæ. Ekki veitir af, því mælandi er sérkennilegur, sér vítt um heiminn og mannkynssöguna á persónulegan hátt, forðast klisjur.
Skarpar andstæður ríkja í fyrstu bókinni, t.d. kaldhæðni, vonbrigði og subbulegt umhverfi ásta. Dæmi þessara andstæðna, sem sýna framfarir í kaldhæðnislegu ljósi er eftirfarandi ljóð. Hnignun manns er sýnd með lýsingu iðnaðarhúss; samur er grái liturinn á veggjum þess og á hári mannsins og frakka, en alkalísprungur tengjast ennishrukkum. Fyrirlitning samborgaranna birtist í háðsglotti bílljósa löggubílsins. en borgin sefur arískur ungherji daufur til augnanna nýútskrifaður í víkingasveitina með ágætis teygir letilega út fæturna í framsætinu á leiðinni að iðnaðarhúsinu að hirða upp róna – hnípinn undir steinveggnum sem er grár eins og frakkinn og hárið og snjókornin á öxlunum alkalísprungurnar og hrukkótt ennið lítur hann undan háðsku glotti bílljósanna hættur að kunna að skammast sín þrátt fyrir ásakandi skömmustulegt augnaráðið sem hann mætir í gættinni eftir að hafa verið draslað inná bílgólfið hættur að kunna að skammast sín já meira að segja dálítið stoltur frussandi sundurlaus blessunarorð til afundins sonarins með hvíta beltið og kylfuna sem honum tókst þó að koma þetta mikið til manns arískur ungherji daufur til augnanna nýútskrifaður í víkingasveitina með ágætis Önnur ljóðabók Sigfúss, Hlýja skugganna, birtist 1985. Hún skiptist í fjóra hluta, og er sú skipting greinilega eftir efni, þótt ekki sé auðvelt að lýsa einstökum hlutum. II. hluti er enn svipmyndir frá ferðalögum í fjarlægum heimshlutum, IV er eitt kvæði langt um ferðalag. Kvæðin eru annars margvísleg. Flest eru auðskilin, mörg löng, en svo koma nokkur örstutt, einkum í I, sjá t.d.:
lasinn
gamall
bitur og lasinn
fullur af eftirsjá
eftir vindi.
— og annað ljóð:
heimspekingar æðrast
sælir eru einfaldir
aldrei misskildir fyrir annað
en það sem þeir eru
getur ljóð orðið mikið einfaldari en þetta? Mér finnst mun meiri veigur í ljóðum af öðru tagi hjá Sigfúsi, t. d. það sem nú skal sýnt. Þar er aðeins ein líking, sem gengur í gegnum allar myndirnar, og hún á mjög vel við efnið; hringur sem þrengist. Þetta er ekki aðeins sagt, heldur skynjar lesandinn það líka, við þessa endurteknu hringlögun í æ smærri myndum. Þær raðast líka á áhrifamikinn hátt, fyrst hversdagslegar, en dæmigerðar, loks algert myrkur og járngreipar lokast um manninn. Nú eru þessi orð auðvitað margtuggin um líf fíkla. Einmitt þessvegna verða þau áhrifarík hér, í svona byggingu og sýnir þetta dæmi vel hvað Sigfús getur náð góðum tökum á skáldskap. Titill ljóðsins er á stofnanamáli, háð um feluorðin sem höfð eru um drykkjusýki.
hringar í lifi drykkjutæknis
lyfjabúðirnar
mynda ysta hring
innar er betliröltið
þá sólargangur um garð
innst lögun handar um flösku
um nætur
er hvelfingin
svartur spírall
stiginn annar minni
fyrir miðju og neðst
er járnbentur hringur
myrkurs og fellur að
svo þétt að hæfir einu höfði.
Upphafsljóð bókarinnar sýnir sérkennilega mynd guðs í fyrsta erindi, en bakgrunn þeirrar myndar í 2. erindi, m.a. mynd afskræmdra englanna þar. Litir myndarinnar eru kuldalegir, eingöngu gráir, svartir og bleikir. Brennur trúvillinga nefndust auto da fé. Og merkilegt er að sjá hvernig fléttað er, t.d. með tölunni sjö:
eitt vald gegn öðru
I
á fornlegu málverki
sá ég mynd af guði
af íhyglinni í svipnum
og ótvírætt illgjörnum og þó mæddum dráttum í munnvikunum
fór mig að gruna að einmitt þarna
væri hann að gera það upp við sig
hvar hann ætti að bera niður
hvert hann ætti núna
að senda plágurnar sjö
málaranum tókst að þvi að talið er
að selja þessa mynd feneyskum kaupmanni fyrir svo mikið fé
að það kvað hafa bjargað honum
frá kuldabólgum sulti og betli
gert honum fært að flýja
kóleru fátækrahverfisins
kuflklædda útsendara almættisins
allar refsingar guðs
að því er heimildir greina
í heila sjö vetur
II
samkvæmt munnmælum
á kaupmaðurínn feneyski
að hafa heitið á málverkið
sér til heilsu og kaupgæfu
og víst er að hann auðgaðist
allt framá efri ár
eða þar til hann fyrirfór sér
sumir segja í sturlun
aðrir í ölæði fram á skrifborðið
undir þessari táknmynd sem hann elskaði svo heitt
undir gráum svörtum og bleikum
blómum bakgrunnsins
dauðastirðum limum vængstýfðra dverga
afmynduðum glottum þeirra
í ærum dansi en aftast
í silfurhyljunum sjö
svartnættisspeglunum öllum
bökin ber
blóðkrossarnir fljótandi
og tærnar sex af einum fæti
III
nú er fátt vitað lengur
um hvaða slóðir flóttinn bar málarann
og ekki vitað til að hann hafi oftar
málað af slíkri himneskri djöfullegri nautn
og holdlegri gleði
sína prívat villutrú á striga
en það er skjalfest að hann lést
áðurnefndum sjö árum síðar
undir húrrahrópum rétttrúaðra
og það síðasta sem hann orgaði
af bálkestinum yfir lýðinn
voru þessi orð — auto da fé
ato da fé deiti
— maðurinn einn er höfundur dauðans.
Mest ber enn á löngum ljóðum frá fjarlægum slóðum, Mexícó, New York, Sínaí, t.d. Skáldið leggur sig einkum eftir hinu smáa og hversdagslega, að ég ekki segi þvælda og sóðalega. Orðalagið er því allt algengt. Draslið liggur eftir menn, en sjálfir eru þeir mestmegnis fjarverandi. Af þessu rísa áhrifaríkar myndir af tómleika og getuleysi fólks til að móta líf sitt. Um það getuleysi, „þá eilífu einsemd" hvíslar vindurinn, eini viðmælandi skæruliðanna í einu ljóðinu. Titill kvæðisins er tvíræður, Wallstreet Journal er þekkt blað, og fjallar m.a. oft um horfur í efnahagsmálum, en í nafni þess felst líka tákn heimsauðvaldsins, höfuðandstæðings skæruliðanna. Aðalandstæður ljóðsins eru annars vegar skæruliðarnir, sem af veikum mætti berjast við það að ná tökum á lífi sínu og umhverfi — og hinsvegar tómið. Því sést engin hreyfing nema skæruliðarnir á ferð og svo vindurinn „einn". Hann er því persónugerður, til að gera tómið átakanlegra, „hvíslar holróma", og hreyfing hans er að feykja minningum um menn eins og bréfrusli. En þessar minningar um hetjur fyrri tíma, „goðsögnin" er eina vörn skæruliðanna auk glotts þeirra, sem táknar storkandi uppreisnarvilja. Meira að segja byssurnar þeirra eru útsöluvara, eitthvað sem aðrir vildu ekki. Allt miðast við að sýna hve veikburða þessi sjálfstæðisviðleitni er. Umhverfinu er lýst með neikvæðum orðum, sem tákna hnignun og auðn: „rykug, fornar eyðibyggðir, kyrkingsleg, holróma hvísl, rytjulegum skugga". Skæruliðarnir eru þolgóðir, enda eru þeir að ganga þessa leið í sjöunda sínn, beygðir undir þungu fargi baráttunnar. Og þeir eru að hverfa í þessari auðn, inn í myrkrið, undir skugga hræfuglsins. En þeir hola föllnum félögum sínum niður „eins og kartöflum", þ.e. fyrir hvem fallinn munu margir rísa.
Án fjaðra heitir þriðja ljóðabók Sigfúsar á tíu árum. Ólíkt fyrri bókum ber hér mikið á löngum ljóðabálkum. Sá fyrsti heitir Cro-magnon mennirnir koma og lýsir endalokum Neanderdalsmanna í árdaga steinaldar. En þar er ýmislegt fleira á ferð, eins og í öðrum ljóðum þessarar bókar, hálfkveðnar vísur, vísanir í fornar bókmenntir og sagnir, innlendar og erlendar, og lesandinn borinn áfram á grun fremur en vissu. Sum ljóðanna virðast raunar auðskilin, ef ekki einföld, t.d.: Á góðum degi fínn dagur til að hætta hverju sem er gera ekki frekar að hlutum að myndum ekki að kenndum heldur éta ekki fleiri tunglber hverfa ekki framar í holur sem þannig myrkvast auga í auga leita ekki frekar að nýju æði betri undrum upplagt að hætta í dag öllum slætti á gamla taug hætta að hlusta á slitin sín leggjast svo til að kvöldi með uppgerða tiltrú og ónotuð glöp handan við tengsl Á yfirborðinu er margt kunnuglegt og auðskilið. Fólk er t.d. alltaf að hætta að reykja, hætta að drekka eða hætta að loka sig inni, fjarri félagslífi. En hér virðist heimsins glaumi hafnað rækilegar því það á að hætta að leita „að nýju æði, betri undrum". Það virðist stangast á við lok ljóðsins þar sem að kvöldi kemur til ný tiltrú og ný glöp. En það er með tilbrigði við orðalagið „að leggja til" sem merkir að búa lík til greftrunar. Tunglber mun ekki hafa á góma borið fyrr en í þessari bók og þannig er fleira, ljóðið gengur út frá kunnuglegu tali um algenga hluti en dregur lesandann þaðan út í eitthvað annarlegt og nýtt. Það sést enn á þessu: Vökustaur vakan er hvítt naut sagðirðu og í gagnsæi svefnrofanna spyrnti það við fótum á bleikum vörum þínum hvítt naut úr einhverjum steini bættirðu við síðar Þetta var fyrir löngu og ekki eftir af þér núna nema einn og annar smáki svo sem augun loðandi við kalkað höfuð þess svo grimmileg svikul og góð meðan troðinn er marvaði í bleikri eðju og hvítri Hér virðist minnst löngu látins manns, lítið eftir af honum annað en minningin um augnaráð hans og þessi dularfullu orð sem ljóðið hefst á. Merkja þau að vakan sé sviplaus og þrungin heimsku? Nánar að gáð virðist hún ekki vera úr hvítum steini, heldur bara kölkuð, þarna er eitthvert fals. Altént hefur vakan nú morknað eins og maðurinn, steinn er orðinn að eðju. Það er martröð líkast að troða marvaða í slíku, ekki síst þegar bleikur litur hennar tengist bleikum vörum mælandans, feigðarlitur. Ljóðið er þrungið andstæðum. Þar er talað úr svefnrofum um vöku, augnaráð þess sem minnst er, er svo andstæðuríkt að það verður táknrænt um lífið og þar með afar lifandi en nú er hann dáinn. Og hversvegna heitir ljóðið vökustaur? Það var pinni til að halda augum fólks opnum við gegndarlausa vinnuþrælkun fyrr á öldum. Röklegt samhengi ríkir ekki í ljóðinu, frekar en endranær í nútímaljóðum. En útkoman úr þessu öllu verður sérstæð tilfinning og það sýnist mér gilda um ljóðin almennt Þannig verður fólk bara að láta ljóðin orka á sig í ró og næði frekar en að reyna að komast til botns í þeim.

Mýrarenglarnir falla
Þessi bók geymir sex smásögur á um 160 síðum. Ein þeirra er sýnu lengst, 67 bls., og greinist í fjóra kafla, hinar eru á bilinu 10-20 bls. Allar gerast sögurnar í sveit og mér liggur við að segja að sú sveit sé ævinlega aðalpersónan. Magnaðar lýsingar beinast fyrst og fremst að því að gera hana lifandi fyrir lesendum en í hverri sögu er líka áberandi sögumaður sem talar í 1. persónu. Um hann skiptir sögunum annars nokkuð í tvö horn. Í lengstu sögunni og tveimur öðrum segir ungur strákur frá dagsins önn á sveitabæ. Hann gengst mikið upp í að vera maður með mönnum, þ.e. tileinka sér verklag og viðhorf hinna fullorðnu, forðast allt barnalegt. Einna mikilvægast er að stelast til að skjóta, veiða fisk og sýna að maður kunni að fara með dráttarvél. En víða kemur fram togstreitan milli barnseðlis annars vegar en hlutverks fullorðins hins vegar, strákur hefur tófu fyrir leynilegt gæludýr og saknar kálfs (bls. 61): „Auðvitað er asnalegt að finnast gott að láta sjúga á sér puttana. En það er kosturinn við kálfa að í hausnum á þeim er ekkert nema eðlið." Stráknum í lengstu sögunni er trúað fyrir því að halda músunum niðri og þá birtist metnaður hans í afbrýðisemi gagnvart kettinum, hugvitssamlegum veiðibrellum og verkun skinna af músunum. Drengurinn er mjög viðkvæmur fyrir áliti fullorðna fólksins á sér og tileinkar sér hleypidóma þess gegn Reykvíkingum, „symfóníugargi í útvarpinu”, sumarbústaðafólki, hestamönnum o.fl.þ.h. Og þetta verður einkar lifandi í stílnum því að auðvitað talar barnið fullorðinslega. Málfarið er mjög auðugt og blæbrigðaríkt og þetta verður margbrotin og eftirminnileg mynd því að undir öllu kyndir einmanaleg barátta drengsins við óviðráðanleg verkefni. Þar má aldrei slaka á, kostar lífið ef barnið hagar sér eins og barn. Í þremur sagnanna er sögumaður fullorðinn. Hann virðist ellihrumur í Vargakallið, sem snýst um að skjóta fugla, botnlaus drápsfýsn er helsta lífsmarkið með manninum. En dauðinn er hvarvetna nálægur í þessum sögum, einkum þó þeirri fyrstu og síðustu. Lokasagan hverfur alveg frá þeim raunsæisblæ sem ella ríkir að mestu í sögunum og fyrsta sagan, Heim, hvarflar á mörkunum. Hún segir frá ferð uppkomins manns til upprunastaðar síns. Sagan hefst uppi á fjalli og ferðin er örðug en þegar maðurinn er kominn í sjálfheldu, birtist allt í einu maður á báti til að ferja hann yfir á aðra strönd. Með honum í bátnum er hundur, minkabani mikill. Auðvitað er ekkert eðlilegra í íslensku landslagi en maður með hund. En þessi maður birtist svo óvænt og er svo óforvitinn og óræðinn, að lesanda dettur í hug Karon, sem ferjaði dauða til heljar í grískum goðsögum, þar var líka varðhundur mikill. Enda virðist sögumaður á leið til dauðans. Hér er ekkert ótvírætt um túlkun og það gerir söguna sérlega heillandi því að hún er í senn rótföst í íslenskum jarðvegi og þrungin örlagamætti goðsögu. Sama gildir um síðustu söguna, þar gætum við verið á ferð, ýmist upp sjávarhamra á íslandi eða fjallið í Hreinsunareldi Dante. Maðurinn í Heim kemur loks að eyðibýli sem hann þekkir svo vel að það er greinilega bernskuheimili hans. Enda eru þar svipir að fagna honum, högg heyrist úr mannlausum kjallara, o.fl.þ.h. Allt er hér eyðingunni undirorpið og sú tilfinning birtist þétt í mynd sem hann finnur (bls. 17): „Milli fléttanna var ekkert að sjá lengur nema strik, punkta og örsmáar eyður og titraði saman líkt og sjónvarpsdraugur." Að því er virðist til að bjarga álft frá eyðingunni fer maðurinn að skjóta svartbak (bls.16): til hliðar og neðan við hausinn svo innvolsdrullan stóð fetið aftur úr honum þegar hann lenti [... ] Þegar ég leit upp fann álftin augun í mér eins og skot, reigði sig við og gargaði, barði vængjunum og rótaði í slýinu og ísnálunum og gular glymurnar stóðu af sljóleik og fólsku. Lýsingin er dæmigerð fyrir bókina, sýnir mikið næmi fyrir umhverfinu og ferska skynjun. Ennfremur er þetta eins og samið í andstöðu við rómantísk ljóðin sem við lærðum í skólanum, „ljúfan heyrði ég svanasöng á heiði". Þetta er í samræmi við líf fólksins sem lýst er, enda hugsar strákur á dráttarvélinni (bls. 90): „Ég held að orðið fjallahringur sé fundið upp af manni sem var orðinn leiður á því að snúa." Þessi andrómantík er kannski meginstrengurinn í hugblæ bókarinnar en hann er þá margþættur, tregi er einnig áberandi. Mikilvægast er þó hve þrungin bókin er ljóðrænu myndmáli og sérkennilegum líkingum sem markvisst skapa henni þennan hugblæ. Dæmi finnum við þegar á fyrstu bls.: Færið var fínt og marraði undir fæti eins og molað gler. Það er vatnslykt í lofti, og varasöm hláka, því uppi í hvítum leynum giljanna lá myrkrið örugglega í dyngjum og beið. Líkingamar sýna inn í huga mælanda. Ætla mætti að hann væri vanari að ganga á glerbrotum en snjó en fremur mun þó líkingin fallin til þess að skapa lesendum óhug. Einnig hitt að myrkrinu er ekki bara líkt við snjódyngjur heldur er eins og það liggi í launsátri fyrir vegfarendum. Þetta sýnir ugg ferðalangsins. M.a. vegna þess hve virkur stíllinn er á þennan hátt finnst mér þetta ein magnaðasta bók sem ég hef lengi lesið.
Zombíljóð Þetta er mikill ljóðaflokkur, 74 tölusett ljóð í sjö bálkum. Hann hefst á orðinu "Og", þannig hefjast flest erindin framanaf, svo lesandinn er óðar staddur í miðjum klíðum. Upphafið einkennist af langsóttum líkingum, helst virðist mér það að skilja sem vetrarmynd. Mælanda finnst myrkt umhverfið snúa baki við honum, glórulaus hríðin minnir á augnhvítu. 1 Og drífur blinda hvítuna yfir óseðjandi fleirtölu og tómhyggjan magur biti en sér þó um sína Og breið bök myrkranna tómlát og sætlega brothætt upplitin blönk eins og blóm Þetta er forboði sköpunarsögunnar sem hefst í 6. ljóði; mælandi býr til Zombí. En það enska orð táknar uppvakning, viljalaust og mállaust vinnudýr. Héðan af er ljóðabálkurinn tal mælanda við þessa veru, og má furðu gegna hve háspekilegt það tal oft er við slíkan heilaleysingja. En á hinn bóginn má segja að skiljanlega láti mælandi sér annt um uppeldi þessa sköpunarverks síns, varar hann t.d. við naflaskoðun í 16. ljóði og segir: "stakhyggja sófistanna/ er í rauninni ekki hugsun/ heldur eðli" o.fl. fræðsla um heimspeki eða boðun lífsskoðunar er í þeim dúr. Síðan fræðir hann Zombí um heiminn. Nánar til tekið birtist hér heimsmynd ungs, menntaðs Íslendings nú á dögum. Sú heimsmynd er eins og að líkum lætur ekki skipuleg, heldur brotakennd, stokkið úr einu í annað. Hér bregður m.a. fyrir Óðni, poppsöngvara, bandarískum kvikmyndum og íslensku landslagi til sjávar og sveita. Einnig er tekinn fyrir margskonar hugsunarháttur. En jafnan túlkar mælandi hvaðeina af kaldhæðni og bölsýni. Víða er orðalag sem lýtur að dauða, einnig er mikið um slitið og útþvælt glys, ekki síst það sem hrifið hefur, svosem poppgoð sem var einskonar táknmynd lífsmáttar 1968 (31) eða helgidómar t.d.: "einnota allt saman/ eins og ljósþyrnikórónan/ billega áðan manstu/ á bensínstöðinni" (38). Af öllu þessu virðist eðlilegt að álykta að Zombí sé ávarpaður sem fulltrúi lesenda. Nokkuð er um vísanir í bókmenntaverk, t.d. í kvæði Jónasar Hallgrímssonar (4), Jóhanns Sigurjónssonar (9), fyrstu bók Thors Vilhjálmssonar (21). Sérkennilegast er að sjá Sigfús vísa til síðustu bókar sjálfs sín (Mýrarenglarnir falla), því Zombí er með "mýrarlita vængi" (7). Einnig ber nokkuð á mótsögnum, t.d. segir að löngu sé fullreynt að "allt/ þarf að falsa af innsæi/ ástúð og umhyggju/ ef það á nokkurntíma eftir/ að reynast satt" (2, auðkennt af E. Ó.), ennfremur má telja: umbrotakyrrð (3), ærandi kyrrðin, fleirtala eintölunnar, marglyndi einlyndisins (allt í 11). Þetta gerir heimsmyndina víðfeðma, en jafnframt gera mótsagnirnar og langsóttar líkingar hana framandi. Stundum verða þessar sérkennilegu líkingar m.a. til að tengja í knöppu formi gamalkunn atriði úr íslenskri sveitamenningu við samtíð okkar, t.d. í sköpun Zombí (6), einnig ummyndast bókaskápar og verða að kafaldshríð úti á melum: "skefur/ í skafl og fönn/ -alsnjóa bráðum/ af fölnuðum síðunum." Ljósaskiptum er líkt við sjávarföll, og í framhaldi eru sundurleitar líkingar um vonir, því veldur tvíræðni lýsingarorðanna helberar og bláberar. Annars vegar getur þetta verið myndræn lýsing á lífverum, en hinsvegar eru þessi lýsingarorð oft höfð um lygi (5): [...] í mjúku aðfalli ljósa útfalli rökkurs sígildra vonanna eflaust og í morinu bíða þær helberar híma þær bláberar hníga þær og rísa og löðrið lyngrautt þangið tunglsvart og athvarf hinna önduðu ókomið af hafi. Öll þessi samþjöppun gerir ljóðabálkinn stundum torskilinn, en jafnframt magnaðan. Upphafið er samþjappaðast, en II og III er miklu aðgengilegra, síðan gengur á ýmsu. Speglabúð í bænum er ljóðabók, en geymir einnig stuttar frásagnir. Merkilegust þykir mér sú síðasta, Minnisgreinir um kennarann. Það er afar nákvæm mannlýsing, hlutlæg og hlífðarlaus, án þess að vera sérstaklega neikvæð. Hér er lýst íhaldssömum manni, sem heldur fast í sinn barnalærdóm, og er á móti öllum nýjungum, á hvaða sviði sem er. Það er ekki fyrr en í lokin að fram kemur að hér er lýst föðurbróður höfundar. Sigfús nær svo vel viðhorfum og einkennandi orðalagi, t.d. síbyljunni, að mér finnst ég hafa þekkt manninn alla tíð, enda þótt ég hafi aldrei séð hann né heyrt. Lítið dæmi (bls. 94):
Hann hefði líklega ekki sagt neitt upphátt en hnussað í honum fremur góðlátlega ef hann hefði séð á bók þá fullyrðingu að orð væru dýr því hann hafði verið alla sína ævi að horfa up á gengisfall þeirra og hlusta eftir því hvernig þau týndu tölunni og málfarið lamaðist og tungan rýrnaði uppi í þjóðinni – og hún vandist ekki sú hnignun og þá voru þeir að verða fáir eftir sem höfðu einhverja hugmynd um hvað þeir lásu í útvarpið og þar urðu líka kvæðin undantekingalítið mun verri en engin og ýmist bitin í smátt eða tuldrið rann út í eintón sem fólkinu var svo fyrirmunað að hefja upp nema í kjökur þegar síst skyldi og átti náttúrlega hvergi við heldur nema þá í stásstofunum hjá Ibsen kallinum þegar volæðið í fyrirfókinu ætlar allt lifandi að drepa.

Vargatal 1998. Hér eru talin 18 rándýr og –fuglar, byrjað á ísbirni og endað á mönnum. Fram kemur í fyrsta þætti að þetta er ímyndun sögumanns, hann telur þetta frekar en kindur til að sofna. Einnig er þetta í andstæðu við (bls. 6) ”Á sunnudagsmorgnum þegar helgislepjan lá yfir landinu eins og lím með angistarfullum húsflugum í, á meðan útvarpspresturinn malaði frammi í kapp við helvítis köttinn” Hér kemur mikið fram um sögumann, sem er fíkinn í veiðar og því skilningsríkur á vargana. Einna mest heillandi er hvernig hann lýsir umhverfinu frá sjónarmiði þeirra, gjörólíku því sem lesendur eiga að venjast sem aðlaðandi. T.d. (bls. 9):

”nei hann sér bara hungrið í grængresi og blómum, í sólblámanum á vogunum. [...] Einn daginn er lagstur hretsvali í loftið og síðan gerir von bráðar á hann yndislega krapahríð þar sem hann stendur í fjöru og mænir út á sjómyrkrið.”
Enn magnaðri eru lýsingar á kjörlendi t. d. sílamáfa og rotta, klóök með öllu sem þeim fylgir.
Ferðabók Sigfús hefur löngum farið löng ferðalög víðsvegar um heiminn, og sér þess merki víða í ljóðum hans. En sérstaka ferðabók sendi hann frá sér 2004, Sólskinsrútan er sein í kvöld, og segir þar frá ferðum hans um Mexíkó og Gvatemala. Hann er einn á ferð og notar ýmist almenningsrútur eða gengur. Fram kemur að hann hefur farið um þessar slóðir áratugum áður, og hittir nú stundum forna félaga, bæði innfædda og aðkomufólk frá Norðurlöndum og Bandaríkjunum, sem ílenst hefur á þessum stöðum. Sögumaður getur talað við hvern sem er, en mest virðist það vera um daginn og veginn, afkomu og veiðiskap, auk þess sem hann fær nokkrar fréttir af framferði stjórnvalda. Fólk er þó á varðbergi um slíkt, og sögumaður er fyrst og fremst skoðandi. Stöðum er víða lýst myndrænt en umfram allt mjög hlutlægt. Ekkert er dregið undan um eymd og sóðaskap, og í samræmi við þessa hlutlægni er að hvergi er vonarglæta um framfarir. T.d. segir ítarlega frá fjöldamorðum stjórnvalda Gvatemala á sveitafólki sem þau kölluðu skæruliða, og einnig frá því hve óskipulagðir og illa búnir skæruliðar hafi verið, engra afreka að vænta af þeim. Vissulega mætti þetta svartnætti þykja óraunsætt í ljósi þess að fræg eymdarbæli víða um heim hafa þróast til betra ástands, nægir Íslendingum að lesa Dickens og gamlar skáldsögur Halldórs Laxness til að sjá dæmi þess. En allt um það fer vel á þessari hlutlægni ferðasögu Sigfúss, myndin verður sterkari við að vera svo einhliða.
Í samræmi við hana er einnig stíllinn. Bókin er á talmáli, mjög blæbrigðaríku, með bæði fornlegu orðalagi og mjög skotnu slettum. En svo vel sem málhreinsunarstefna getur þótt eiga við sumsstaðar, hefði hún fjarlægt þessa sögu lesendum.
Sérkennileg er einnig nýjasta bók Sigfúss, Andræði, 2004. Þetta er safn stuttra texta, rímaðra og (óreglulega) stuðlaðra, með reglulegri hrynjandi. Þó hika ég við að kalla þetta ljóð. Höfundur lýsir þeim sjálfur svo, m.a. að þeim ”kippi í heimsósómakynið, þótt trúlega séu þau enn skyldari níðkveðskap, öfugmælum, útúrsnúningum og þvílíkum stráksskap sem alltaf þarf að vera með dáraskap og derring.(...) þegar vandræði eigi samræði við heilræði sé hætt við því að undir komi andræði.” Oft er eins og rímið ráði för, og útkoman verður því stundum óvænt, jafnvel óræð. Þetta er að hætti surrealista á fyrra hluta síðustu aldar. Dæmi (bls.11): Ágæti alls ræður eftirspurnin ein Jú aum mun nú sú óánægja sem engan gleður. Örm mun nú sú ófullnægja sem engan seður. Fleiri mætti slík dæmi finna, en meira ber á röklegum textum með kunnuglegum skoðunum. Dæmi er á bls. 36: Rétt er nú jafnréttið gráasta grín
Kalla má nú alla karlrembu-
svín Og pungrottur aðra. En níð er ef nokkur þá þorir enn að segja: legremburotta og naðra.
Slíkir textar verða æ meira áberandi er á bókina líður, einkum dægurmál um stjórnmál, sem satt að segja eru margséð í fjölmiðlum. En hvað sem líður ofansögðu, er niðurstaðan ótvírætt sú, að sérhver bók Sigfúss Bjartmars sé mikill fengur lesendum. Hann er einfaldlega með merkustu skáldum Íslands og hefur lengi verið.
Bókaskrá:
Sigfús Bjartmarsson: Út um lensportið, ljóð 1979, 48 bls. Hlýja skugganna, ljóð Mál og menning, 1985, 76 bls. Án fjaðra, ljóð. Mál og menning, 1989, 101 bls. Mýrarenglarnir falla, smásögur. Mál og menning, 1990, 169 bls.
Zombíljóðin. Bjartur 1992, 101 bls. Speglabúð í bænum, ljóð, Bjartur 1995, 102 bls.
Vargatal Bjartur 1998.153 bls. Sólskinsrútan er sein í kvöld. Ferðasaga. Bjartur 2001, 279 bls. Andræði. Bjartur 2004, 202 bls.

Engin ummæli: