sunnudagur, 16. október 2011

Skipulag háskóla

Ég varð lektor í íslensku máli og bókmenntum við Kaupmannahafnarháskóla, árið 1987. Þá ríkti einkar lýðræðislegt skipulag við danska háskóla. Þeir skiptust í tiltölulega fámennar stofnanir. Ég var við Árnasafn, sem var stofnsett um íslensku handritin, rannsóknir á þeim og útgáfu forrnrita, þar voru rúmlega 20 starfsmenn. Sumar stofnanir voru stærri, en allar svo takmarkaðar að starfmannafjölda að fólk þekkti hvað annað. Og þarna var sjálfstjórn, allar ákvarðanir voru teknar á almennum fundum. Nú gat verið gremjulegt að sjá fólk sem ekki kunni íslensku blanda sér í hvernig íslenska bókasafnið skyldi skipulegt. En það var þó smáatriði hjá öðru.
Þessir starfsmenn, sem þekktu hver annan, kusu svo stjórnanda stofnunarinnar, þeir þekktu nokkurnveginn verksvið þess sem þeir kusu. Stjórnendur hinna ýmsu stofnane heimspekideildar, t.d., komu saman til að kjósa deildarstjóra, dekan. Þeir mynduðu svo aftur annan hóp sem kaus rektor. Alltaf tröppugangur þar sem kjósendur þekktu þá sem til greina komu og verksvið þeirra. Er þetta ekki fyrirmyndarlýðræði? Amk í samanburði við núverandi kerfi, sem kratar og síðan íhaldsstjórnin kom á, ráðherra velur háskólaráð, hverjum háskóla, og einkum úr “atvinnulífinu” eftir öll þess hneyksli og óstjórn. Þetta ráð velur síðan rektor. Hann skipar einráður hina ýmsu deildarstjóra, sem aftur skipa hver um sig stjórnendur einstakra stofnana, sem nú eru orðnar miklu stærri, eftir margháttaðan samruna. Og stofnanastjórar eru einráðir um mannaráðningar, hvort farið skuli eftir dómnefndarálitum, hvort fólk fái framhaldsráðningu í starf sem það hefur gegnt, o. s. frv. Í stuttu máli sagt, toppstýrt einræði er komið í stað lýðræðis. Þetta kerfi beindist að beinhörðum árangri í tekjum svo sem í atvinnulífinu, og leiddi af sér hneyksli svo sem það að Milena Penkova var hafin til tignar, fjárveitinga og valda, en varð svo uppvís að ritstuldi og fölsuðum tilraunum. Eftirlitið brást með öllu, því hinum ýmsu stjórnendum var í hag að efla stjörnuna.
Var þá allt gott áður?
Nei, það er nú öðru nær. Fólk var fastráðið eftir að hafa verið stundakennarar, og það var kosið í stjórnir, ráð og nefndir, af vinnufélögum sínum. Með öðrum orðum, nýliðar og aðrir sem sóttust eftir frama þurftu umfram allt að koma sér vel við sem flesta þeirra. Stundakennari þurfti auðvitað að sýna kunnáttu í sínu fagi. En hann mátti alls ekki láta þá kunnáttu varpa rýrð á aðra fastráðna starfsmenn, nema hann væri með heilt lið á bak við sig. Og það var oft tilfellið, starfsmenn skiptust iðulega í illvígar klíkur sem börðust um völd og fé. Þarna sátu fræðimenn, sem áttu umfram allt að vera sjálfstæðir, gagnrýnir og hlutlægir. Það er til marks um hvílík spilling hlaust af þessu kerfi, að ritdeilur komu varla fyrir, amk. ekki þar sem ég þekki til, í bókmenntafræðum, engin skoðanaskipti, menn virtu bara að Jón ætti þetta svæði, Páll hitt, og enginn skyldi hafa afskipti af því. Kannast íslenskir lesendur við þetta, t.d. hjá Háskóla Íslands? Hefði Penkowa-hneyksli getað orðið við slíkar aðstæður? Já, alveg örugglega, því miður. Eftirlit frá félögum í faginu er lítið sem ekkert.

Engin ummæli: