þriðjudagur, 22. október 2013

Moskur og íslam

Moskur og íslam Valdimar Jóhannesson skrifaði gegn íslam hér í Mogganum um daginn. Ekki skal ég mótmæla því sem hann – og margir fleiri – segja um pólitískt íslam, íslamisma. Það er stjórnmálahreyfing til hægri við Adolf Hitler, hún berst fyrir einræði í guðs nafni, undirokun kvenna, dauðarefsingu homma og hvers sem yfirgefur íslam. Og sjálfsagt er að berjast gegn þessari hreyfingu, með vopnum, t.d. í Afganistan, því auðvitað taka þessir menn ekki þátt í rökræðum um trúarbrögð. Það væri guðlast að mati þeirra. En það er rangt hjá Valdimari að leggja alla múslima að jöfnu, og gera þá ábyrga fyrir þessum ofstækismönnum, sem eru lítill minnihluti múslima. Fyrir því er amk. þessi rök: Fólk alið upp í löndum þar sem islam er ríkjandi trúarbrögð er meira en milljarður manns að tölu. Enginn getur þekkt allt þetta fólk, sem er af mismundandi menntastigi, mismunandi stéttum og þjóðerni. Það er hreinn barnaskapur að alhæfa um það. Enda er augljóst að margt af þessu fólki er umburðarlynt, og margt áhugalaust um trúarbrögð. Og margir múslimar eru andstæðingar íslamista. Það sýnir sig best í Egyptalandi nú, þegar herinn setti íslamista frá völdum, fékk hann mikinn stuðning meðal almennings í þessu múslímska landi, þar er sannkölluð fjöldahreyfing gegn íslamistum. Á þeim tíma sem grimmilegar ofsóknir gegn “trúvillingum” og gyðingum fóru fram í Evrópu, ríkti trúfrelsi í íslömskum löndum – og ríkir enn. Þar búa bæði kristnir og gyðingar, þeir iðka trú sína í kirkjum og sýnagógum. Þeir þurftu bara að borga smáskatt sem múslimar voru undanþegnir, og það var nóg til að fjöldi manns gekk af trúnni og aðhylltist íslam. Ekki var nú trúarsannfæringin sterkari en svo! Til trúskipta þurfti engar ofsóknir, líkt og ætla mætti af grein Valdimars. En lesendur minnist trúvillingabrennanna í Frakklandi og á Spáni, m.a., og gyðingaofsókna á fyrri hluta síðustu aldar. Er það eðli kristindómsins, eða getur kristið fólk verið öðruvísi? Hafa Valdimar og aðrir andstæðingar moskna alls ekki tekið eftir ofstækisfullum bókstafstrúarmönnum meðal kristinna og gyðinga? Á miðöldum voru forfeður okkar Valdimars það sem við nú myndum kalla villimenn, en í íslömskum löndum voru þá háskólar og bókasöfn, og þar voru íslamskir lærdómsmenn sem skiluðu forngrískum menningararfi til vesturlanda. Þetta eru svo alkunnar staðreyndir, að ekki verður hjá þeim litið. Ég hefi einhverstaðar lesið þá skýringu, að viðhorfsbreyting hafi sigrað í íslömskum löndum á hámiðöldum, bókstafstrú hafi náð yfirhöndinni gegn frálslyndi og lærdómsdýrkun. En frálslyndi og lærdómsdýrkun ríkti í margar aldir í íslömskum löndum, svo bókstafstrúarofstæki er alls ekki eðlislægt í íslam. Að banna múslimum að byggja mosku, það er öruggasta leiðin til að afla þeirri byggingu fylgis. “Nú, svo þeir vilja ekki leyfa okkur það?! Þá skulum við gera það! Sýnum þessum vitleysingjum að þeir geti ekki ráðskast með okkur!” Sjálfur er ég trúlaus, en mér finnst sjálfsagt að virða tilfinningar fólks, og þá einnig trú þeirra, sem hana hafa. Einkum og sér í lagi þegar þeir segja að trú sé kærleikur. Og það trúaða fólk sem ég hefi kynnst er í stórum dráttum þannig, hvort sem um er að ræða gyðinga, múslima, kristna eða annað. Þau eiga miklu meira sameiginlegt en sundrar þeim. Kreddur einstakra trúarbragða skipta þetta fólk litlu máli, miðað við kærleiksríka trú þess. En auðvitað réttlætir yfirlýst trú ekki þá sem reyna að gera guð ábyrgan fyrir sinni eigin þröngsýni og heimsku. Það virðist sameiginlegt öllum trúarbrögðum að segja: “Náð guðs er alls staðar. Fólk þarf bara að opna sig fyrir henni, taka henni.” Er þetta ekki hið sama og við guðleysingjar segjum: Við getum sagt að allt sé að fara fjandans til, eða hinvegar að bæta megi ástandið. Veljum við fyrri kostinn, verðum við aðgerðalaus, og allt fer fjandans til. En veljum við bjartsýni, þá getum við gert okkar besta. Andstæðingar beggja eru bókstafstrúarmenn, þeir trúa á bók, og þar af leiðandi á mann sem túlkar bókina. Þeir eru ósjálfstæðir, attaníossar, þ.e. konformistar. 23.7.2013. Heimóttarskapur moskufjenda Ýmislegt hefur verið skrifað um væntanlega mosku í Reykjavík hér í Mogganum og virðast höfundar þeirra pistla alls ekki hafa tekið eftir þeirri mosku sem lengi hefur staðið við þjóðbraut við Öskjuhlíð, engum til ama, að því er séð verður. Er hún þó með sérkennilegri húsum! En önnur moska í Sogamýri ætti að sliga mynd borgarinnar, verða einskonar borgartákn. Enginn hefur getað mótmælt þeim ábendingum mínum að á hámiðöldum hafi múslimar staðið á miklu hærra menningarstigi en Evrópubúar. Forngrísk rit voru gleymd í Evrópu, en múslimar höfðu þýtt þau á arabísku og miðluðu þeim nú til Italíu og Spánar. Það varð upphaf Endurreisnarinnar, það er að segja upphaf evrópskrar nútímamenningar, þar sem mannlíf varð miðpunktur athygli í stað guðs áður. Þetta er alkunn staðreynd, og sannar að bókstafstrú er alls ekki neitt eðli íslams. Það sýnir best tvöfeldni moskufjenda og heimóttarskap að þeir vilja ekki leyfa moskur í ”kristnu” Íslandi, en býsnast yfir því að ekki séu kirkjur í múslímskum löndum. Fyrr má nú vera umburðarlyndið! Auk þess er þetta fjarstæða, ég hefi séð kirkjur bæði í Istambúl og Kaíro. Tíundi hluti Egypta er reyndar kristinnar trúar, enda þótt íslam hafi ríkt þar í landi í fjórtán aldir. Þetta er elsta kristni í heimi, og virðist því ólíklegt að kristnir hafi þar sætt sérstakri skattnauð eða öðrum ofsóknum múslima. Og ég minni á það sem alkunna mætti vera, að rétt fyrir valdrán hersins þar var fjöldahreyfing gegn íslamistum í þessu landi, þar sem þó ríkir íslam. Ýmsir viðurkenna að þar sem fólk sem alist hefur upp í íslömskum löndum er á annan milljarð að tölu, af margskonar þjóðfélagsstéttum, menntun og hugarfari, þá sé ekki hægt að alhæfa um það, setja það allt undir sama hatt. En þá er sagt: Enda þótt íslamistar (bókstafstrúarmenn) séu lítill minnihluti múslima, þá eru múslimar allir varnarlausir gegn áróðri íslamista, þ.e. einræðissinna og misréttissinna, því allt hefur þetta fólk verið alið upp við kennisetningar Íslams, og játað þeim. En sé litið til Íslands, sést hve fráleitur þessi áróður er. Það er trúargrundvöllur íslensku þjóðkirkjunnar að allt fólk sé fætt syndugt, sekt um erfðasyndina; sem er að Adam át af epli skilningstrés góðs og ills. Því eigum við öll að fara til helvítis, sama hve grandvarlega við lifum – nema fyrir óskiljanlega náð drottins, sem fórnaði eigin syni til að bæta fyrir þessa synd okkar! Hver trúir nú á þessa ógeðslegu kenningu? Fæstir þeirra sem þó kalla sig kristna. Eða á upprisu HOLDSINS eftir dauðann og eilíft líf? Hver trúir því að Jesú hafi gengið á vatninu og mettað þúsundir með tveimur brauðum og þremur fiskum? Ekki trúði því presturinn sem kenndi mér kristinfræði í framhaldsskóla. Hann sagði að auðvitað hefði fjöldi manns þarna fylgt fordæmi Jesú og gefið af nesti sínu til að metta þúsundirnar. Svona mætti áfram rekja kennisetningar kristninnar, sem fáir trúa á. Hví skyldum við ætla flestum múslimum meiri bókstafstrú en Íslendingum almennt? Sannleikurinn er sá, að það virðist flestum trúarbrögðum sameiginlegt að segja að náð guðs sé hvarvetna, fólk þurfi bara að taka henni. Og þetta viðhorf felur í sér bjartsýni, það að fólk leggi sig fram um að gera sitt besta og lifa í tillitssemi við annað fólk. Það var engin uppfinning Jesú frá Nasaret að ”þér skuluð gera öðrum svo sem þér viljið að þeir geri yður.” Þetta virðist sameiginlegt flestu fólki sem trúir á guð, og þetta er líka viðhorf flestra okkar sem erum trúleysingjar. Ef við trúum því að allt sé að fara til fjandans, allt sé vonlaust, þá getum við ekkert. En ef við trúum því að það skipti máli hvað við gerum, þá fyllumst við atorku. En aðrir trúa á bók – Kóran eða Biblíu – og þá auðvitað á mann, sem túlkar bókina. Því þessar bækur eru svo fullar af úreltri vitleysu, að ekki verður mark á þeim tekið án slíkrar túlkunar. Þetta bókstafstrúarfólk gerir guð ábyrgan fyrir sinni eigin heimsku og þröngsýni, og virðist þá fátt til ráða. Minnumst þess að þannig var kristni á Íslandi fyrir ekki löngu síðan, almennt ríkjandi var ótti og ofsóknarkennd, sem teldist sturlun nú á tímum. Þessu lýsti Halldór Laxness vel í ritgerð sinni: Inngangur að Passíusálmunum, 1932. 22.8.2013 Árétting um íslam Valdimar Jóhannsson segir (Mbl. 12.9) mig eigna honum ranglega ýmsar fráleitar skoðanir og eiginleika til að ég eigi svo auðveldara með að ráðast á hann. Þetta sannar hann svo á sig sjálfan með því að hafa eftir mér ýmis fúkyrði, sem ég aldrei hefi notað, en sem hann telur felast í ásökun minni um heimóttarskap. Því fer fjarri, hver sem les greinar mínar um íslam opnum huga sér að þar saka ég fólk einfaldlega um þröngsýni, ótta við hvaðeina sem ekki er heimakært og kunnuglegt. Skyldi ekki mega saka Valdimar um oflæsi, sbr. ofvirkni? Ég hefi engan áhuga á því hvað Valdimar kann að hafa óttast og varað við um moskuna í Öskjuhlíð, en ég hefi ekkert séð um skaðleg áhrif hennar, hvorki frá Valdimari né öðrum. Það er fráleitt að hafa uppi getsakir um að múslimar séu í eðli sínu ófrjálslyndir, en gleyma öllum þeim fjöldamorðum sem öldum saman voru framin í nafni kristni, trúvillingabrennum, galdraofsóknum, gyðingaofsóknum. Auðvitað er þetta ekki eðli kristindóms, og ekki guðstrú, heldur bókstafstrú, heimóttarskapur, valdboð. Er ekki slíkt enn meðal fólks sem kallar sig kristið? Vitaskuld eru ofstækisfullir bókstafstrúarmenn meðal múslima, og láta mikið á sér bera. Við þá er ekki talandi með öðru en vopnum, t.d. í Afganistan, því þeir teldu guðlast að rökræða það sem opinberað er í Kóraninum. En þetta er minnihlutahópur, Valdimar giskaði á 20% múslima. Ég ítreka að fjöldahreyfing er meðal múslima gegn íslamistum, m.a. í Egyptalandi, eftir margra alda drottnun íslams þar í landi. Valdmar neitar því sem ég segi að á hámiðöldum hafi múslimar miðlað forngrískum menningararfi til vesturlanda, raunar gerðu vísindamenn í múslímskum löndum ýmsar vísindauppgötvanir líka og færðu Vesturlandamönnum. Þetta geta þó allir séð, sem nenna að lesa sagnfræðirit. En auðvitað er fólki frjálst að berja hausnum við steininn, það skaðar bara hausinn frekar en steininn! 13.9.2013 Oflæsi um íslam Þegar ég sagði Valdimar Jóhannesson oflæsan, þá átti ég bara við að hann læsi of mikið úr textum – oftúlkaði þá, það heitir vænisýki á íslensku, paranoia á mörgum öðrum – en alls ekki að hann hefði lesið of mikið. Það væri fáránleg ásökun til manns sem sem ég sagði fáfróðan. Því hann neitar því enn að menningarstraumar, m. a. forngrískur menningararfur hafi borist frá múslimum til Evrópu á síðmiðöldum, hann segir að þar hafi gyðingar og kristnir verið að verki. Hvað hefur hann fyrir sér um það? Alls ekkert, svo séð verði! Þar að auki segir hann að menning okkar hafi orðið til með kristni! Og lætur sem menningararfleifð okkar frá Írak (Millifljótalandi hinu forna), Fornegyptum, Forngrikkjum o.s.frv. hafi engin verið! Þegar hann þar að auki trúir á lýðskrum Adolfs Hitlers, og segir að hann hafi verið vinstrisinnaður, að einræði sé vinstristefna, þá hefur hann gert gervalla einræðisherra veraldar, árþúsundum saman, þar á meðal alla kónga og keisara Evrópu, að vinstrisinnum, gott ef ekki að sósíalistum. Nei, Valdimar hefur ekki lesið of margt. Ég mótmælti ekki ágiskun Valdimars að fimmtungur múslima væri íslamistar, einfaldlega af því að það getur enginn vitað. Fáránlegt væri að þykjast þekkja hugarheim hundraða milljóna manna í rúmlega tveimur tugum mismunandi ríkja. En sannarlega hefi ég boðað skefjalausa baráttu gegn íslamistum, eins og allir geta séð á greinum mínum. Fáránlegt þykir mér að lesa ótta Valdimars um að íslenskir múslimar séu bókstafstrúaðir öfgamenn, án þess að hann geti vísað til neins því til staðfestingar. En jafnframt segir hann um Aðventista, Hvítasunnumenn, Krossinn og aðra svokallaða kristna söfnuði, sem raunar ekki trúa á guð, heldur á bók og þá á mann sem túlkar bókina: “Þeir sem fylgja bókstafnum í kristni eru yfirleitt afar vænt fólk. Þeir sem fylgja bókstafnum í íslam eru íslamistar og hreint ekki vænir menn í ofstæki sínu.” Er þetta ekki bara af því að hann hefur vanist þessum söfnuðum á Íslandi? Og hvaðan kemur honum vald til að ákvarða að mannkynssagan hefjist að nýju 11. september 2001? Það er enn fáránlegra. Það er ekki til neins að banna heimskulegar skoðanir. En bulli má andmæla, og það ber að gera, í nafni hvers sem það er borið fram, guðs, Allah, eða annars. 18.9.2013.

Kristmann í Skírni

Kristmann í Skírni Gunnþórunn Guðmundsdóttir ævisögusérfræðingur skrifaði grein um Kristmann Guðmundsson í síðasta Skírni og rekur þar m.a. tal Kristmanns um samsæri gegn sér, gróusögur og hvernig gert sé lítið úr honum sem rithöfundi, þetta afgreiðir hún sem vænisýki. En hér vantar alveg að líta út fyrir sjálfsævisögu Kristmanns, og kanna hvort þessar hugmyndir hans um ofsóknir eigi sér einhverja stoð í umhverfinu. Nú er ég töluvert eldri en Gunnþórunn, en ég man greinilega þessar gróusögur um Kristmann, sem altalaðar voru. Ég hefi skrifað lítillega um þær áður, og undarlegt er að sjá af hvaða tagi þær voru. Þær snerust fyrst og fremst um kynlíf! Kristmann átti að hafa bitið geirvörtu af konu sinni í algleymi samfara, og var þetta sagt um ýmsar af eiginkonum hans, hverja eftir aðra. Í annan stað átti hann að vera náriðill. Kristmann vék sjálfur að þessum sögum, þeirri fyrrtöldu í sjálfsævisögu sinni, en að þeirri síðartöldu í sjónvarpsviðtali við Steinar J. Lúðvíksson. Og eins og ég benti á (í TMM 2000), þá lýsa þessar sögur best upphafsmönnum sínum. Kristmann hafði verið örsnauður atvinnuleysingi á götum Reykjavíkur, en með aðstoð Þorsteins Gíslasonar ritstjóra komst hann til Noregs, og fékk verkamannavinnu þar um miðjan 3. áratuginn. Og fór að skrifa, með aðstoð Gyldendalsforlagsins varð hann smámsaman metsölurithöfundur þegar um 1930, þýddur á fjölmörg tungumál, bækur hans seldust í milljónum eintaka, hann varð auðugur. Þá þekki ég landa mína illa, hafi þetta ekki vakið öfund og illvild, enda talar Kristmann um fjandskap ókunnra manna þegar hann kom til Íslands 1935. Þegar nú við bættist að maðurinn var myndarlegur og bjó við kvenhylli, þá varð þetta alveg óþolandi. Níu hjónabönd! Það var bæði hneykslanlegt og öfundsvert. Mér er til efs að nokkur maður á Íslandi hafi verið jafnmikið rægður og Kristmann var um miðja 20.öld. Varðandi mat á sögum Kristmanns, þá ætla ég ekki að lofa þær. Það eru bjórar í sumum bókum hans, einkum lýsingar á náttúruhamförum (svo sem ég hefi rakið í fyrrnefndir grein í TMM og í bók minni Guðbergur, bls 228-230), en persónusköpun lét honum ekki, í t.d.Gyðjan og nautið hleður hann hrósi á persónur í stað þess að skapa þær. Hann var róttækur, deildi á misskiptingu auðs í sögum sínum, sýndi fram á að sú misskipting bækli fólk andlega, sú var enn hneigð fyrstu sögunnar sem hann gaf út eftir að hann fluttist til Íslands, Nátttröllið glottir, 1943. En lausnin var, rétt eins og í sögu hans, Sigmar (1930), stéttasamvinna, að auðmaður deili eigum sínum með fátæklingum og að þeir berjist ekki gegn auðmanninum. Fyrir “skilningsleysi á vandamálum nútímans og þeim hinum sálrænu öflum sem sterkasta þættina spinna í örlagaþræði mannanna” var hann gagnrýndur 1931 af helsta bókmenntagagnrýnanda kommúnista þá, sr. Gunnari Benediktssyni. Það túlka ég sem ádeilu á skilningsleysi höfundar á gildi verkalýðsbaráttu, faglegrar og pólitískrar. Samt liðu nær tveir áratugir þangað til ráðist var á Kristmann frá vinstri (það gerði Steinn Steinarr 1948), og ég hefi leitt rök að því að í þeim andstæðum hafi Kristmann sjálfur átt frumkvæðið í gengisleysi sínu og fátækt upp úr miðri 20. öld. Rótgróna og útbreidda illvildina í garð sinn fór hann að skýra sem samsæri kommúnista upp úr seinni heimstyrjöld, í kalda stríðinu, einmitt þegar íslenskt bókmenntalíf var tvískipt pólitískt, og stalínistar höfðu mikil áhrif í því. Og þetta tókst honum, bókmenntaklúbbur hægrimanna, Almenna bókmenntafélagið, tók hann upp á arma sína, Morgunblaðið líka, og hann fékk hlutverk píslarvotts í þessu stríði. Og heimildir eru um að kommar ginu yfir þessu agni. Jón Óskar hefur lýst því í sínum endurminningum (1971, bls. 176-187), hvernig talað var um helstu skáld hægrimanna á kaffihúsi komma á Þórsgötu 1 á 6. áratug 20. aldar (bls. 182)…. Þar er m.a. vísað til þess að Thor Vilhjálmsson sagði um miðja öldina, að þegar menntamálaráðherra lét Kristmann annast bókmenntakynningu í skólum landsins, væri það eins og að láta Kristmann spræna yfir þjóðina. Kristmann höfðaði þá meiðyrðamál gegn Thor og vann. Hvað sem mönnum finnst um það, verða viðbrögð Kristmanns ekki kölluð vænisýki, hann hafði ærna ástæðu til að finnast hamast gegn sér. Allar þessar heimildir voru og eru auðfundnar. Mér finnst að Gunnþórunn hefði átt að skyggnast í þær heimildir, út fyrir sjálfsævisögu Kristmanns, það eru óboðleg vinnubrögð að stimpla manninn vænisjúkan við að líta hjá samtímaheimildum um málið. Heimildir: Gunnar Benediktsson: Kristmann Guðmundsson: Sigmar....Iðunni 1931, bls. 193-5. Gunnþórunn Guðmundsdóttir: "Hvorki annálar né vísindaleg sagnfræði" Skyggnst um í sjálfsævisögu Kristmanns Guðmundssonar. Skírni 2012, bls. 396-404. Jón Óskar: Gangstéttir í rigningu. Rvík 1971. Örn Ólafsson: Kommúnistar og borgaralegir höfundar. Tímarit Máls og menningar 2000, 4. hefti, bls. 35-38. Þar er vísað í heimildir. Örn Ólafsson: Guðbergur. Rvík 2012. Þessi grein fékkst ekki birt í Skírni, né svaraði ritstjóri hans bón um svar hvort birt yrði. 28.6.2013 Svör í Fréttablaðinu: Tímastetningin er slæm skrifar María. Af hverju eiginlega? Er það vörn fyrir ríkisstjórn Sigmundar Davíðs að bera blak af Kristmanni? Ég sendi þessa smágrein Skírni rétt eftir að haustheftið 2012 barst mér, en hún var ekki birt þar, og ég fékk ekki einu sinni umbeðið svar um hvort hún yrði birt. Svo sé ég að ritstjóri Skírnis er meðal þeirra sem líkar vel greinin! Gaman, gaman! Annar maður er ósáttur við að ég noti orðin kommi og stalínisti. Hversvegna? Hvorttveggja var til. Ég er raunar sjálfur kommi, nánar tiltekið í Danmerkurdeild Fjórða Alþjóðasambandsins, og því gagnrýninn á stalínista. Auðvitað báru íslenskir stalínistar enga ábyrgð á fjöldamorðum Stalíns, né öðrum glæpum, en þeir fylgdu þeirri kratadellu, að verkalýður í auðvaldsþjóðfélagi hefði sérstaka sósíalíska hugsun, frjókorn stéttlausrar framtíðar, og að bókmenntir með sósíalíska hneigð myndu snúa verkalýðnum til sósíalisma. Svo þegar verkamaður eða –kona kemur þreytt heim frá vinnu, og les sósíalíska skáldsögu eða ljóð, geysist viðkomandi út á götu og gerir byltingu. Nei, ætli langvarandi kjarabarátta sannfæri fólk ekki betur um hverjir eru andstæðingar þess, og hverjir félagar. Það vekur fólk sjálft til umhugsunar, en ekki “bókmenntaverk” sem hefur vit fyrir því. Auðvitað lét Kristmann ofsóknaróra í ljós. Spurningin er hvort honum var alvara, eða hvort hann var að leika hlutverk “frjálshuga skálds sem ofsótt var af kommúnistum fyrir sjálfstæði”. Það þykir mér líklegt, en auðvitað verður ekkert sannað. Sjálfsagt hefur þetta orðið “spádómur sem uppfyllti sig sjálfur”, þegar Kristmann gekk inn í menningarstríðið, festist hann í því hlutverki sem hann tók sér. Ég fagna upplýsingum Andra, sem gera málið skýrara. Eftir stendur það sem enginn gerandi athugasemda nefnir, að það er óviðunandi að háskólakennari með sérgrein í ævisögum skuli viðhafa svo óvönduð vinnubrögð í umsögn um sjálfsævisögu, og það í fræðilegu tímariti. 30.6.2013

þriðjudagur, 27. nóvember 2012

Nú er rúmt ár síðan stjórnarskipti urðu í Danmörku. Hægristjórn hafði setið í áratug og m.a. helmingað þann tíma sem fólk gat fengið atvinnuleysisbætur, úr fjórum árum í tvö. Í kosningunum töpuðu kratar og SF nokkru fylgi, en gátu samt myndað ríkisstjórn ásamt borgaraflokknum RV. Flokkurinn sem var yst til vinstri, Enhedslisten, þrefaldaði þingmannatölu sína og fékk 12 þingmenn. Hann fagnaði nýju stjórninni en harmaði að RV skyldi vera með í henni, því það yrði krötum réttlæting þess að framfylgja efnahagsstefnu íhaldsstjórnarinnar. Það kom líka á daginn, RV neitaði að taka aftur styttingu atvinnuleysisbóta, og í sumar leið gerði ríkisstjórnin samkomulag við hægriflokkana um breytingar á skattakerfinu, lækkaði skatta á fólki með 370 þúsund króna árstekjur. Og áfram hélt niðuskurður á opinberum rekstri, uppsagnir í stórum stíl. Allt var þetta réttlætt með því að brátt myndi vanta vinnuafl. En staðreyndin er sú, að um 100 þúsund danir eru atvinnulausir, og eru þessar stjórnaraðgerðir því “framtíðartónlist”. Mesta athygli hefur vakið að þúsundir atvinnuleysingja munu falla út af atvinnuleysisbótum um áramótin. Umdeilt er hve margir, 16 til 30 þúsund. Þeir geta þá fengið fátækrahjálp, sem kallast “kontanthjælp” á dönsku, en þó því aðeins að þeir séu eignalausir og eigi ekki maka sem fær tekjur. Svo eigi menn íbúðarholu eða bíldruslu, verða þeir að selja þetta og éta upp áður en þeir fá krónu frá því opinbera. Um helgina, 11. nóvember gerði Enhedslisten svo samkomulag við ríkistjórnina um fjárlög næsta árs. Ýmsar umbætur má þar telja, komið skal í veg fyrir að útlendingar krókni á götum Kaupmannahafnar, flóttamenn fá nú leyfi til að sækja vinnu og skóla utan búðanna. En mesta athygli vekur að atvinnuleysingjar sem áttu að missa bætur 1. janúar nk. fá nú bætur í hálft ár eða styrk til skólagöngu. Þetta samkomulag er mikil tilslökun af hálfu Enhedslisten sem hafði krafist þess að atvinnuleysisbætur yrðu aftur í fjögur ár, og hver króna sem veitt var efnafólki í skattalækkun kæmi nú lágtekjufólki til góða. Heyrst hefur frá þingmönnum Ehl. að þeir hafi haldið sig hafa neitunarvald gagnvart ríkisstjórninni, því gengi hún ekki að þessu félli hún, og yrði að boða til kosninga. En nú gerðist það fyrir mánuði að stærsti hægriflokkurinn (sem heitir Venstre!) bauðst til að gera fjárlög með ríkisstjórninni. Menn höfðu treyst því að hann vildi allt til vinna að fella ríkisstjórnina, en betur að gáð er ekki svo eftirsóknarvert að taka við stjórn Danmerkur nú á tímum kreppu og samdráttar. Betra er að bíða með það, en verða kennt um allar kjaraskerðingarnar. Þessi tilslökun Enhedslisten gengur ótvírætt gegn ákvörðunum ársþings flokksins, að aldrei skyldi samið um að halda áfram kjaraskerðingum íhaldsstjórnarinnar, að ævinlega skyldi barist fyrir hverskyns umbótum til handa alþýðu, en gegn hvers kyns skerðingum á hag hennar. Ekki ákváðu þingmenn þetta á sitt eindæmi, heldur fengu samþykki miðstjórnar, sem er æðsta ákvörðunarvald flokksins milli ársfunda. Nú segja þingmenn Enhedslisten að ástæða þess að þau hafi slakað á kröfunum, sé sú að hefðu þau ekki samið við stjórnina, þá hefði hún bara samið við Venstre um miklar kjaraskerðingar alþýðu, og “allt sé betra en íhaldið”. Aðrir efa að slíkar kjaraskerðingar hefðu orðið, og segja að kratar og SF hefðu óttast aukið fylgistap, en með tilslökun Enhedslisten sé þeim ótta aflétt. Þingmenn Enhedslisten vildu ekki vera með í kynningu ríkisstjórnar á samkomulaginu, og sögðust munu halda sömu kröfum uppi áfram og herða baráttuna um mitt næsta ár. Þetta taka sumir félagar Ehl. undir, og segja að hálfs árs bætur séu mun betri en engar. En mér er spurn hvort þessi stefna þýði ekki bara að hér eftir ákvarði Venstre stefnu Enhedslisten. Virðist þá til lítils barist. Enhedslisten hafði stóraukið fylgi sitt á undanförnu ári, nánast tvöfaldað það, upp í 10-12 af hundraði, en það er nær fjórfalt fylgi íhaldsflokksins og tvöfalt það sem SF skráist með. Félögum Enhedslisten hefur líka stórfjölgað, eru nú nær 10 þúsund. En hætt er við að allt þetta breytist til hins verra á næstunni. Áberandi er, ekki bara að þessi svokallaða “rauða ríkisstjórn” heldur áfram kjaraskerðingarstefnu fyrri íhaldsstjórnar, heldur gengur hún lengra í sömu átt. Það er reyndar sígilt, þegar kratar stýra auðvaldsþjóðfélagi, þeir geta skert kjör alþýðu meira en íhaldið getur, af því að kratar ráða flestum verkalýðsfélögum, og halda aftur af þeim. Og það er einmitt ein helsta afsökun þingmanna Enhedslisten, það eina sem gæti stöðvað kjaraskerðingar kratastjórnarinnar væri þrýstingur frá stéttarfélögum og sveitarstjórnum. En slíkur þrýstingur hefur enginn orðið. Án slíks þrýstings fengi 12 manna þinglið Enhedslisten litlu áorkað. Í þessu sambandi má minnast þess að dönsk verkalýðsfélög standa höllum fæti, missa félagsmenn tugþúsundum saman á meðan kristileg stéttasamvinnufélög sækja í sig veðrið, það er ódýrara að vera í þeim, enda vilja þau engin verkföll hafa, og þá ekki verkfallssjóði! Þessi hægristefna “rauðu ríkisstjórnarinnar” hefur mikið bitnað á stjórnarflokkinum SF, sem hefur stórtapað fylgi í skoðanakönnunum. Formaðurinn, Willy Søvndal sagði af sér í sumar, og virtist ung krónprinsessa hans, ráðherrann Astrid Krag, sjálfkjörin. En á síðustu stundu kom mótframboð lítt kunnrar konu úr sveitarstjórn á Fjóni, Annette Willumsen, og hún gjörsigraði með tveimur þriðju atkvæða. Setti hún óðar af óvinsælan kjaraskerðingarráðherra SF, Thor Möger Petersen. Annar ráðherra SF, Ole Sohn, sem verið hafði síðasti formaður Kommúnistaflokksins, sá hvert stefndi, og sagði af sér ráðherradómi. Enda hafa síðan komið fram ásakanir um að hann hafi persónulega þegið 2-3 milljónir króna frá Moskvu í formannstíð sinni. Ekki hefur hann svarað því. Nú má þessi stefna ríkisstjórnarinnar virðast hrein fáviska, að minnka atvinnu og atvinnuleysisbætur þegar atvinnuleysi eykst. En á bak við leynast útreikningar, stefnt er að því að lækka kaupið í Danmörku með því að auka samkeppni um vinnu. Þetta hefur Venstre nýlega boðað. Og það sé vegna þess að mörg dönsk fyrirtæki flytja starfsemi sína til útlanda, þar sem kaupið er lægra. Einnig er þess að minnast að sjálft flugfélagið SAS er á hausnum, og er starfsmönnum þess nú boðið upp á launalækkun, 15-20 af hundraði, vilji þeir halda vinnu. Hyrfi SAS hefði það miklar afleiðingar fyrir Kastrup-flugvöll sem samgöngumiðstöð Norðurlanda, mörg fyrirtæki Kaupmannahafnar lifa af þjónustu við flugvöllinn. Það er kreppa í Danmörku sem víðar. Auðvitað er hún langt frá því eins alvarleg og í Suður-Evrópu, en slæm samt, fólk þorir ekki að nota þá peninga sem það þó hefur milli handanna, af ótta við atvinnuleysi. Og það bitnar á verslun og framleiðslu, stöðugt er verið að segja fólki upp og loka verslunum og öðrum fyrirtækjum. Enn bætist það við að landbúnaður er yfirleitt rekinn með halla, bændur stórskuldugir, og skammt í það að margir verði að hverfa frá búi. Þar með hrynja líka margir bankar, sem lánað hafa bændum. Smugan 17.11.201½2

Guðbergur Bergsson verður áttræður sextánda október. Þá hefur hann auðgað íslenskar bókmenntir í rúmlega hálfa öld, en fyrstu bækur hans birtust 1961, skáldsagan Músin sem læðist og ljóðabókin Endurtekin orð. Höfundarverki Guðbergs má skipta í fjögur meginsvið. Afkastamestur hefur hann verið sem þýðandi, nær 40 bindi má þar telja. Þar munar mest um stórvirkið Don Kíkóti, fjögurra alda gamalt verk, sem er ein útbreiddasta skáldsaga heims, en mun meira hefur Guðbergur þó þýtt frá síðustu áratugum. Hann gerði kólumbíska nóbelshöfundinn Gabríel García Marquéz að heimilisvini Íslendinga, og hefur þýtt safnrit portúgalskra, spænskra og þýskra bókmennta, auk fjölda einstakra skáldsagna. Í safnritunum leggur hann sig fram um heildarsvipinn, þar er margt mjög ólíkt frumsömdum verkum hans, jafnvel þjóðrembulegt og valdboðssinnað. Ljóðabækur Guðbergs hafa aðeins orðið þrjú lítil kver á hálfri öld, en margt er þar gott, og óröklegt, líkt og í sögum hans. Afar afkastamikill hefur Guðbergur verið í greinaskrifum, þar hefi ég talið átta tugi greina um stjórnmál, fagurfræði og bókmenntir, sjálfsagt eru þar margar greinar vantaldar. Sömuleiðis hefi ég rekist á 25 viðtöl við hann auk viðtalsbókar hans og Þóru Kristínar Ásgeirsdóttur fyrir 20 árum, einnig þar lætur Guðbergur gamminn geisa um ýmis málefni. Frægastur er Guðbergur þó fyrir frumsamdar skáldsögur sínar. En þær eru nú rúmlega tveir tugir, þar af mega fjórar með einhverju móti teljast barnabækur, en auk þess eru sjö smásagnasöfn. Þegar með því fyrsta, Leikföng leiðans, 1964, sagðist Guðbergur hafa aðhyllst það sem kallað var ”nýskáldsögurnar frönsku” (le nouveau roman). En frumkvöðull þeirrar stefnu var Nathalie Sarraute. sem var meðal kunnustu skáldsagnahöfunda Frakklands á seinni hluta 20. aldar. Hún fæddist sem rússi árið 1900, undir nafninu Natalia Tsjerniak, en fluttist til Frakklands á barnsaldri. Hún hefur vísað til fyrirrennara sinna í þessarri nýju sagnagerð: að nokkru til sagna franska skáldsins Huysmans 1884 – að söguþráður sé óþarfur, og til Kafka og Joyce upp úr 1920 – þar er fráhvarf frá persónusköpun, en margbrotin persónusköpun þótti áður vera aðalsmerki skáldsagna. Það sem vinnst við að sleppa söguþræði og persónusköpun er að áherslan flyst frá viðburðum og eiginleikum persóna að hugarástandi, sálarlífi, sem margir eiga sameiginleg, m.a. lesendur. Hefðbundnar skáldsagnapersónur þóttu vera of mótaðar, frosnar sem fulltrúi einhvers eiginleika, nísku, ástar, o.s.frv., en nú var lögð áhersla á hverfula strauma undir yfirborði þeirra Tengist þetta síendurteknum alhæfingum Guðbergs um hópa? Altént virðist þarna birtur almennur hugsunarháttur. Skáldsögur Nathalie Sarraute eru fremur stuttar. Ekki er samfelldur söguþráður. Þær hafa fáar persónur og fæstar eru nafngreindar. Textinn er flæði ummæla og hugsana, í brotaformi, erfitt er að sjá skil milli hugsana og tals, hvað þá milli persóna. Allt er þetta á talmáli menntaðs efnafólks. Mikið er um endurtekningar og ýmislegt er þar af þráhyggjutagi. Sama gildir um sögur annars framámanns hreyfingarinnar, Alain Robbe-Grillet. Í sögum hans er lítið um samtöl, en þeim mun meira um lýsingar umhverfis, sem oft eru endurteknar með tilbrigðum, en Sarraute hefur litlar sem engar slíkar lýsingar, hjá henni er mest um samtöl, einnig þau eru endurtekin með tilbrigðum. Sérstaka athygli vekur franskur höfundur sem ekki taldist til þessa straums, Georges Perec, en hann skapaði oft mannlífsmynd með því einu að lýsa húsbúnaði og öðrum hlutum. Sagt hefur verið að þessar endurtekningar með tilbrigðum séu til þess fallnar að stöðva alla atburðarás, en einnig að afnema tilvísun orða til umhverfis, túlka flæðið undir talinu. Guðbergur notar mest talmál íslensks alþýðufólks frá uppvaxtarárum sínum og umhverfi. En bæði Guðbergur og Sarraute ýkja og skrumskæla,gerapersónur sínar einhliða og hlægilegar. Fyrsta bók Nathalie Sarraute, Tropismes, birtist 1939, og sameinaði 24 stutta texta frá 1932-37. Þeir eru af sama tagi og seinni verk hennar. Hún varð nær 100 ára, dó 1999, og var þá að vinna að sjöunda leikriti sínu. Um fyrstu bók sína sagði hún m.a.: Öll athygli mín beindist að þeim kenndum, sem valda vissum hreyfingum, vart meðvituðum, sem verða með okkur í fáeinar mínútur, stundum á fáeinum sekúndum, og sem ég hér reyndi að skila í myndum og hreyfingum setningar, eins og stækkuðum og sýndar hægt. Þegar ég loks ákvað að skrifa skáldsögu, var það bara til þess að þessar hreyfingar gætu þróast á stærra svæði og geislast út frá sömu miðju. Þetta finnst mér tengjast tíðum lýsingum Guðbergs á tilgangslausu fitli persóna við líkamshluta sinn, strjúka yfir maga eða höku, geifla sig. Ennfremur tengir Sarraute nýskáldsögur við nýstefnu í listum ella: Þannig hefur nútímatónlist losnað við tilfinningu og lag til lað leysa hreinan hljóm. Þannig beinist myndlist sem kölluð er ”afstrakt” að því að beina athygli sjáandans eingöngu að því sem er myndrænt. Þannig losnar ljóðlist við mælsku og rím. Á sama hátt beinast skáldsögur að því að losna undan persónum og söguþræði til að tengjast hreinni skynjun sem vekur vissa sýn á umhverfið eða leiki minnisins eða tímans rás, eða auðlegð andartaks sem stækkar óheft, eða innri hreyfingar, vart meðvitaðar, og hvernig þær brjótast í gegnum stirðnaðar myndir. Ýmislegt í verkum Guðbergs minnir á þessar skáldsögur, einkum það að söguþráður er ruglingslegur, stundum ófinnanlegur, skil persóna eru óljós og sögurnar gerast mest í hugarheimi þeirra, eru oft einskonar birting almannaróms. Iðulega ber sagan vitund um að vera skáldskapur. Þetta varð áberandi þegar með fjórðu bók Guðbergs, Tómas Jónsson metsölubók, 1966. Af henni varð hann frægur, og hefur átt marga trygga aðdáendur æ síðan. Þessi saga varð fræg m.a. fyrir að söguþráður var höggvinn sundur, þar var stokkið fram og aftur í tímanum, auk þess sem persónur runnu saman og sundur í lokin. Það varð þó meira áberandi í næstu sögum, 1967-76. Margt af þessu gildir líka um sögur Thors Vilhjálmssonar, þegar í fyrstu textum hans, frá 1950 að telja, en einkum elstu skáldsögurnar, frá 1968 og áfram, Fljótt, fljótt sagði fuglinn, Óp bjöllunnar og fleiri. Söguþráður er nánast enginn, persónur eru nafnlausar og renna saman, þær eru sumar ýktar. Samt eru þessar sögur ólíkar sögum Guðbergs, og það er einkum vegna stílsins, texti Thors er svo myndrænn og hlaðinn, framrásin stöðvast nánast í myndrænum lýsingum. Þessar skáldsögur hans gerast líka í Suður-Evrópu, ólíkt sögum Guðbergs sem gerast á Íslandi. Þannig eru bæði Steinar Sigurjónsson, Guðbergur og Thor afkvæmi nýskáldsagnanna frönsku, og hafa þróast hver með sínum hætti. Um Steinar má fræðast í lokabindi ritsafns hans. Sögur Guðbergs eiga það sameiginlegt að gefa fyrst og fremst mynd af samfélaginu. Það er nákvæm mynd og sannfærandi, sem lesendur geta kannast við. Röð einstakra atriða í þessu myndasafni er þá nánast tilviljanakennd, því þessi mynd af samfélaginu er alls ekki samkvæmt neinni raunsæishefð, öðru nær rúmar hún oft atriði sem allir lesendur mega vita að er fjarstæða, framrás sögunnar er einnig oft fjarstæðukennd. Persónur eru jafnan einhliða og yfirborðslegar, en nokkuð er um flökt, að ein persóna breytist í aðra. Mjög oft er dregið fram eitthvað líkamlegt, líkt og t.d. Steinar Sigurjónsson gerði áður. Allt þetta má skapa sögunum draumkenndan blæ, staðsetja þær í hugarheimi lesenda, frekar en sem eftirlíkingu umhverfis þeirra. Persónur koma á óvart, lesendum birtist sundurlaus fólksmassi og mótsagnakenndur. En þetta slævir síður en svo ádeilu sagnanna eða háð, skerpir það öllu fremur með ýkjum. Sögupersónur eru iðulega afgreiddar í hópum, með alhæfingum. Í flestum sögunum er í sögumiðju persóna sem virðist umfram allt venjuleg. Hugarheimur hennar er hversdagslegur, gjarna mótsagnakenndur. Um aðrar sögupersónur virðist óhætt að alhæfa að þær eru flestar fráhrindandi, ljótar, sóðalegar, heimskar og smekklausar. Ósjálfstæði, undirferli og sjálfsaumkun er oft áberandi. Vart geta þær látið skoðun í ljós nema taka hana samstundis aftur að mestu, og undirstrika að þeim sé ekki illa við neinn persónulega. Og setji þær fram skoðun er það á ópersónulegan hátt, sem samsamar þær einhverju meðaltali fólks (”Verið er að hossa honum” “Maður sér ekki að” o.s.frv.). Mikið er um að sögupersóna geri sér tal annarrar í hug, jafnvel í smáatriðum. Háspekilegt tal er lagt í munn ólíklegustu persóna og gerir það þær ósannfærandi. Ádeila er mjög áberandi í bókum Guðbergs, en yfirleitt birtist hún óbeint, í skopstælingum viðtekinna viðhorfa, hátta og tals birtist hve heimskulegt og ósmekklegt það er. Einkum virðist mér ádeilan beinast gegn ósjálfstæði, neyslugræðgi, gegn óvirkri viðtöku einhvers utan í frá, í stað þess að skapa. Þess má minnast í þessu sambandi að Nathalie Sarraute þótti skáldsaga Flaubert, Madame Bovary miklu betri en saga hans Salammbo. Það væri vegna þess að allar lýsingar í fyrrgreindu bókinni væru út frá sjónarmiði söguhetju en ekki höfundar. Sakaði þá ekki að frú Bovary er fávís snobb (Oeuvres completes, bls. 1630-1635). Mér finnst Sarraute ósanngjörn gagnvart Salammbo, lýsingar sögunnar einkennast af annarleika en ekki klissjum. En þetta minnir á sögumiðju Guðbergs, einnig hann lýsir umhverfinu oft frá sjónarmiði persónu sem flestum lesendum má þykja takmörkuð að viti. Thor Vilhjálmsson fór líkt að í sögulegri skáldsögu sinni, Grámosinn glóir, lýsti Íslandi í gegnum ljóðmyndir ættjarðarljóða 19. aldar, en það er einnig einskonar almannarómur tíma skáldsögunnar, – þjóðarvitund Íslendinga um 1890. Þessi stefna í skáldskap er síður en svo bundin við Frakkland og Ísland, í Danmörku mætti t.d. nefna höfuðskáldin Per Hultberg og Vibeke Grønfeldt. Þakklátir mega Íslendingar – og aðrir lesendur – vera Guðbergi fyrir hans mikla starf, og eru það líka, flestir. Þessi grein mín byggist á bók minni um verk Guðbergs, sem birtist einmitt um þessar mundir, hún heitir bara Guðbergur. Einnig á ég grein um sama efni í nýjasta hefti tímaritsins Stínu. Nathalie Sarraute: Oeuvres completes. La Pleiade, Paris 1999, 14.10.2012 Smugan

Á Íslandi virðist ekki mikið fjallað um stríðið í Afganistan, amk. miklu minna en í Danmörku. Enda eru Danir stríðsaðilar, og er það mjög umdeilt þar í landi, einkum vegna þess að eitthvað á fimmta tug Dana hefur fallið í stríðinu, og margir örkumlast meira eða minna. Nýlega var þess minnst að tvö þúsund bandarískir hermenn hefðu fallið í þessu stríði. Ekki veit ég tölu annarra fallinna NATO-hermanna þar, og áreiðanlega hafa margfalt fleiri Afganir fallið. Von er að fólk spyrji: Til hvers er þetta, ef til nokkurs. Í Danmörku er helst andstaða við stríðsreksturinn í flokkinum sem lengst er til vinstri, Enhedslisten. Til að fá svar við spurningunni er rétt að huga að valkostunum. Fyrst nær tvö hundruð þúsund NATO-hermenn hafa ekki getað yfirbugað Talibana, má vera augljóst, að yrði þeim fyrrnefndu kippt burtu snögglega, þá kæmust Talibanar aftur til valda í Afganistan. Og þeir hafa bæði sagt og sýnt hvað þá yrði. Þeir vilja einræði – í guðs nafni, svo stjórnarfar er ekki til umræðu. Enda eru andstæðingar Talibana þá taldir óguðlegir, hvort sem þeir eru sósíalistar, feministar eða bara lýðræðissinnar, og hengdir á götum úti, svo sem allir hommar sem til næst. Talibanar fylgja gamalkunnri kenningu nasista, að staður kvenna sé eingöngu innan heimilisins, en þeir eru miklu harðari á þessu en nasistar sem leyfðu sumum konum að komast til valda og áhrifa. Talibanar sprengja upp skóla stúlkna, píska konur sem ekki “klæðast sómasamlega” þ.e. samkvæmt kreddum íslamista, og banna konum bæði skólagöngu og starf utan heimilis. Nú eru eitthvað á aðra milljón afganskra stúlkna í skólum, en komist Talibanar aftur til valda, verða það engar. Þegar fólk í þriðjaheimslandi berst gegn Bandaríkjaher, þá túlka ýmsir það sem þjóðfrelsisbaráttu, líkt og í Víetnam forðum. En þá verður baráttan að beinast að frelsun fólks, Talibanar berjast bara gegn henni, bæði í orði og verki. Oft er því haldið fram að vesturlendingar eigi ekki að þvinga fólk í þriðja heiminum til að taka upp okkar menningu – þingræði, kvenréttindi, málfrelsi og því um líkt. En lágmarksvirðing fyrir þessu fólki felur þó í sér að krefjast sömu réttinda fyrir alla, óháð kynferði, kynhneigð eða bakgrunni; rétti til menntunar, skoðanafrelsis og samtakafrelsis. Nú eru íslamistar ekki bara einhverjir síðskeggjaðir sérvitringar í fjöllum Afganistan, heldur alþjóðleg hreyfing sem náð hefur völdum í Íran og miklum áhrifum víða. Enda verður að gera skýran greinarmun á múslimum og íslamistum. Múslimar telst allt það fólk sem alist hefur upp við íslam sem ríkjandi trúarbrögð. Þetta er eitthvað á annan milljarð fólks í mörgum sundurleitum löndum, það er af ýmsu menntunarstigi og þjóðfélagsstéttum, sumt trúrækið, annað ekki. Enginn getur þekkt allt þetta fólk, og því getur enginn alhæft um það, það væri fávíslegt í meira lagi. En íslamistar eru stjórnmálahreyfing einræðissinna og misréttissinna, eins og áður segir. Fortölur og rök bíta ekki á slíka hreyfingu, þeir virða ekkert nema vald, vopnavald. Ýmsir vinstrisinnar hafa einhverja samúð með þessari hreyfingu, vegna þess að hún berjist gegn heimsvaldastefnunni, sem ríkisstjórn Bandaríkjanna leiðir. En sú andstaða er bara í nösunum á íslamistum. Svo dæmi sé tekið af klerkastjórn Írans, þá er það ríki, sem stórútflytjandi olíu, auðvitað tryggilega innlimað í alþjóðlegt auðvaldskerfið. Og framámenn Írans nýta sér ólýðræðislega stjórnarhætti til að auðga sig persónulega. Nasistar og fasistar sögðust líka berjast gegn alheimsauðvaldinu, sem þeir að vísu kölluðu alþjóðlegt samsæri gyðinga. Ekki var það vinstrisinnum átylla til að sýna þessum fasistum minnstu samúð, svo vitlausir voru þeir ekki. Þeir hlutu að styðja vægðarlausa vopnaða baráttu gegn þeim. Sömuleiðis er oft sagt að fólk geti aðeins frelsað sig sjálft, það geti utanaðkomandi ekki gert fyrir það. Rétt er það, ef um er að ræða sósíalíska byltingu, því hún merkir að fólk taki sjálft völdin. En öðru gegnir um að frelsa fólk frá einræði og fjöldamorðum, þá þarf oft erlenda íhlutun. Hennar þurfti til að sigra nasista í Þýskalandi, kollvarpa múgmorðingjum “Rauðra khmera” í Kampútsíu, morðóðum einræðisherranum Idi Amin í Úganda, o.s.frv. Það er borgaraleg þjóðernishyggja en ekki sósíalísk að telja landamæri heilög. Virði stjórnvöld einhvers lands ekki réttindi íbúanna, þá eru þessi stjórnvöld ekki réttmæt. Andstaða gegn Taliban og öðrum íslamistum er sjálfsögð fyrir alla lýðræðissinna og jafnréttissinna, og þar með fyrir sósíalista. En það felur að sjálfsögðu ekki í sér neinn stuðning við heimsvaldastefnu Bandaríkjanna, né við spillt stjórnvöld í Kabúl eða íslamíska stefnu þeirra sumra. Taka ber afstöðu til málefna, frekar en að skipa sér í lið. Fólk verður ævinlega að meta hvaða afstaða er eðlilegust hverju sinni. En taki menn sjálfkrafa alltaf afstöðu með þeim sem segjast vera andstæðingar Bandaríkjastjórnar, þá eru þeir handbendi Pentagons. Kippi það í eina átt, sveiflast menn sjálfkrafa í hina. smugan 4.10.2012

Ljóð eru fyrirferðarlítil í bókmenntalífi Íslendinga. Sum ljóðskáld eru að vísu kunn, jafnvel fræg, en altént er mér grunur á að miklu fleiri kannist við þau en lesa verk þeirra. Það er leitt, því fólk fengi mikið gagn af ljóðalestri. Ljóð eru besta móteitur gegn vanahugsun og klissjum sem til er. Ljóð rýna í málið, leysa upp einstök orðasambönd og sýna nýjar hliðar á þeim. Fólk ætti því að lesa ljóð, og grípa víða niður. Ekki bara lesa ljóð viðurkenndra skálda, heldur prófa sem flest. Einungis þannig geta menn brotist út úr vítahring fyrirhyggju, að láta aðra hugsa fyrir sig, vera attaníoss. Það er engin áhætta í að lesa ljóð, þvert á móti, jafnvel þótt lesin séu misgóð ljóð og stundum léleg, eykst bara dómgreind lesanda við það. Fólk getur sannreynt þetta, eftir lestur nokkurra ljóðabóka í nokkra mánuði mun það öðlast aukna tilfinningu fyrir ekki bara ljóðum, heldur einnig fyrir hverskyns orðalagi. Og segi ykkur einhver að það sé meðfædd gáfa að skilja ljóð, og verði ekki lærð, þá biðjið hann að rökstyðja mál sitt. Ætla ég að þar verði fátt um svör. Margs er að gæta í ljóðum. Þar getur stuðlun skipt máli til að tengja tiltekin orð, einnig getur rím eða hljómmynstur haft slík áhrif, eða lagt áherslu á orðasamband, ennfremur getur hrynjandi verið áhrifarík, og algengar eru ljóðmyndir,það er lýsingar sem eru svo hlutlægar að þær höfða til ímyndunarafls lesenda, svo sem þessar ljóðlínur eftir Þorstein Gíslason ritstjóra fyrir um það bil öld: Ljósið loftin fyllir og loftin verða blá Einnig eru algengar líkingar, að tala um eitt eins og það væri eitthvað allt annað, svo sem í framhaldi þessara ljóðlína, þar sem talað er um vorið eins og það væri mannvera: Vorið tánum tyllir tindana á. En þessu sinni skulum við einkum halda okkur við annað einkenni ljóða, en það mætti kalla orðarof. Það er áberandi í verkum Árna Larssonar, en nýlega bárust mér nokkrar ljóðabækur eftir hann, og skulum við taka dæmi af þeim. Árni sendi sína fyrstu bók frá sér fyrir réttum fjörutíu árum, bókin hét Uppreisnin í grasinu, skáldsöguþættir Sú bók hefur orðið mér minnisstæð, einkum hve lifandi lýsing þar var á elli, skáldað af ungum manninum. Síðan hefur Árni sent frá sér tíu ljóðabækur, sú síðasta birtist nú nýverið; Ég get ekki gefið þér næturhimin fullan af stjörnum, en hafðu þetta skömmin þín. Árni hefur skoðanir eins og margir aðrir, og fer ekki dult með þær. Einkum er honum uppsigað við hvers kyns múghugsun, fylgispekt í menningarlífi, sem og braskið sem setti þjóðina nánast á hausinn nýlega. Og vitaskuld er skáldum frjálst að nota fúkyrði sem önnur orð tungunnar. Einungis skiptir máli að verkið standist sem heild. Tökum dæmi: Ókeypis röntgenmynd af íslensku menningarlífi það er of mikið af dauðum skáldum sem eru að yrkja dauð ljóð þetta eru dauðir skólavinir dauðra útgefenda og dauðar sögur þeirra dauðir ættingjar dauðra stjórnarlima tilfallandi dauðar bólvelgjur það þarf ekki að splæsa dauðum bókmenntafræðingi á dauðar afurðir dauður viðskiptafræðingur nægir eða dauður ættfræðingur félagsfræðing þyrfti þó til að greina í sundur sýkta klíkuþræði Þetta ljóð mætti einhverjum þykja nær reiðilegu lesandabréfi en skáldskap. En þarna orkar klifunin á orðinu dauður, og ljóðið nær yfir sviðið sem um er talað. Hljómfallið er líka vandað og vekur tilfinningu fyrir ljóði. Annað ljóð fer bil beggja, ádeilu og orðaskoðunar, ef svo mætti orða það, tvíræðni orðalags: Á snyrtistofu grettis ófáir nútíma glámar búa í blá lýstum svita bað stofum skvapi næst og svo aðrir skapi næst mætti ætla að herfa bak svipi værðamollukauða sjónvarps greiðunni inn-dælu (sic) en blóðsugur komið sér fyrir belgfullar á barnaspítala hringsins um aldur En þessi ádeila er þó ekki aðalefni ljóðanna, fjarri því. Þar ber meira á því sem hér má sjá, hvernig orðum er skipt milli lína, svo tvíræðni skapast: Sundurlyndi Sú stund kemur með frost nálar í kviku þegar þú nærð í hala stjörnu augna bliks þegar nóttin verður með vitundarlaus og lag línuísinn hraðar sér í sundur 21.9.2012 Smugan

Kvennabókmenntir og myndmál smæðarinnar Helga Kress á grein í síðasta Skírni, Unir auga ímynd þinni. Landið, skáldskapurinn og konan í ljóðum Jónasar Hallgrímssonar. Þar rekur hún í mörgum dæmum og fróðlegum hvernig Jónas kvengeri Ísland, eins og fyrirrennarar hans, Eggert Ólafsson og Bjarni Thorarensen. Þetta er þakkarvert, en hér eru jafneinhliða og villandi tilvísun og í grein Helgu frá 1985, sem ég ræddi í bók minni Seiðblátt hafið, 2008 (bls. 345-7, tilvísanir í bókarlok). Helga sagði í greininni 1985 (bls. 27) að Ellen Moers nefni í Literary women frá 1976 myndmál smæðarinnar sem einkennandi fyrir kvennabókmenntir, og bendir á að í bókmenntum sínum samsami konur sig gjarnan því sem er lítið og minnimáttar, og séu litlir hlutir, svo sem blóm, fuglar og fiðrildi, mjög algengir í myndmáli kvenna þar sem þeir fái oft táknræna vídd. [...] Þvert á móti þessu varar Moers við alhæfingum um sameiginleg einkenni á skáldskap kvenna og segir m.a. (bls. 262) að glæsilegar lýsingar kvenskálda á opnu landslagi ættu að stöðva næsta gagnrýnanda sem segi að allar skáldkonur séu inniverur, og næsta sálfræðing sem talar um “innra rými”. Moers leggur annars sérstaka áherslu á myndir fugla í skáldskap kvenna, einkum finnst henni fuglar í búri áberandi hjá skáldkonunum sem hún fjallar um. Og í ljóði Huldu Geðbrigði, líkir ljóðmælandi sér einmitt við fugl í búri til að sýna ófullnægju sína. Þetta tekur Guðni Elíasson upp í grein um skáldskap Huldu 1987, (bls. 76-8) og segir m.a.: sjálfsvitund Huldu tengist fremur smáfuglum en ránfuglum og hún táknar oft frelsissviptingu sína með vængbroti, vængjaleysi eða einhverju slíku. Þó að önnur nýrómantísk skáld eigi til að nota líkingamál af þessu tagi [...] er hér um sérstaklega kvenlegt líkingamál að ræða eins og Ellen Moers bendir réttilega á. Reyndar sagði Moers (bls. 246) að því femínískari sem bókmenntaverk væri, þeim mun stærri, villtari og grimmari væru fuglarnir sem þar birtust! Ránfuglar urðu vissulega nokkur tíska í ljóðum sumra nýrómantískra skálda um 1900, tákn frelsis og þróttar. En því fer víðsfjarri að smáfuglar séu sérkenni kvenskálda. Í því fylgir Hulda sem oftar Þorsteini Erlingssyni, fræg kvæði með smáfuglum eru og eftir Pál Ólafsson, Jónas Hallgrímsson og Steingrím Thorsteinsson, sem einnig var átrúnaðargoð Huldu. Mér sýnast smáfuglar ekki síður áberandi í ljóðum Sigurjóns Friðjónssonar en Huldu, raunar reyndist hann mun bundnari átthögum, búi og fjölskyldu en hún. Moers fjallar fyrst og fremst um enskar, franskar og bandarískar skáldkonur frá því seint á átjándu öld og fram á 20. öld. Hún fjallar lítið um skáldskap karla til samanburðar, og síst í myndmálskaflanum. En heimsfræg saga eftir karlmann, frá miðri 19. öld byggist einmitt á þessari mynd fugls í búri, og leikur tæpast vafi á því að Hulda hefur þekkt Næturgalann eftir H.C. Andersen. Verður þetta atriði því ekki talið dæmi um “eilífkvenlegt”, óháð stað og stund. Auðvitað er Ellen Moers ekki neinn hæstiréttur um bókmenntatúlkun, en sé vitnað í rit, ber að fara rétt með niðurstöður þess, ekki að snúa þeim við. Mér þykir líklegt að Helga hafi frétt af því að hún var sökuð um rangfærslu í riti mínu fyrir nærri fjórum árum. Reyndar tók ég þetta mál aftur upp í greininni Skæðar kreddur í tímaritinu Stína (nóvember 2009). En allavega ber þeim sem skrifar fræðilega um efni að kynna sér hvað birst hefur um það nýlega. Samt ítrekar hún nú fyrri fullyrðingar. Fleira mætti telja, leyfði rými. En til þess að fræðimannlega væri að farið í nú endurtekinni fullyrðingu Helgu um að “myndmál smæðarinnar” einkenni skáldskap kvenna, þá þyrfti hún að prófa það á skáldskap karla. Það gerir hún ekki, nema hvað hún sýnir að Jónas Hallgrímsson hefur þetta til að bera, og var þó karlmaður. En raunar er þetta áberandi hjá mörgum karlkyns skáldum, svo víða, að þessi kenning hennar fellur. Ekki er hér rúm fyrir langa upptalningu, ég nefni bara dæmin: Sigrúnarljóð Bjarna Thorarensen, Kvöld eftir Benedikt Gröndal, Laugardalur eftir Steingrím Thorsteinsson, Hallgrímur Pétursson eftir Matthías Jochumsson, Barmahlíð eftir Jón Thoroddsen, Vorvísa eftir Grím Thomsen, Sólin birtist hlíðum.. eftir Sigurjón Friðjónsson, Draumur vefarans eftir Sigurð Sigurðsson, Sjáland Jakohs Smára. Lesendur ættu auðvelt með að finna fleiri dæmi. Vissulega einkennist skáldskapur sumra karlkyns skálda af “myndmáli stærðarinnar”, einhverju hrikalegu. Nefna mætti Matthías Jochumsson, Benedikt Gröndal og lærling hans Kristján Fjallaskáld. Einnig þeir hafa líka “myndmál smæðarinnar”, enda er engin andstæða í þessu tvennu fólgin, skáld hafa einfaldlega eitthvað skynjanlegt í myndrænum lýsingum sínum. Helga Kress fer hér með kenningu sem ekki stenst athugun, byggist á rangtúlkun, og sem er afturhaldsboðskapur; um að binda kvenskáld á bás formæðra þeirra. Haldi skáldkonur sig ekki við forskriftir um “myndmál smæðarinnar” og annað eftir því, þá teljist þær vera “karlkonur”, ekki tækar sem yrkjandi konur. Mbl. 17.7.2012