þriðjudagur, 27. nóvember 2012

Ljóð eru fyrirferðarlítil í bókmenntalífi Íslendinga. Sum ljóðskáld eru að vísu kunn, jafnvel fræg, en altént er mér grunur á að miklu fleiri kannist við þau en lesa verk þeirra. Það er leitt, því fólk fengi mikið gagn af ljóðalestri. Ljóð eru besta móteitur gegn vanahugsun og klissjum sem til er. Ljóð rýna í málið, leysa upp einstök orðasambönd og sýna nýjar hliðar á þeim. Fólk ætti því að lesa ljóð, og grípa víða niður. Ekki bara lesa ljóð viðurkenndra skálda, heldur prófa sem flest. Einungis þannig geta menn brotist út úr vítahring fyrirhyggju, að láta aðra hugsa fyrir sig, vera attaníoss. Það er engin áhætta í að lesa ljóð, þvert á móti, jafnvel þótt lesin séu misgóð ljóð og stundum léleg, eykst bara dómgreind lesanda við það. Fólk getur sannreynt þetta, eftir lestur nokkurra ljóðabóka í nokkra mánuði mun það öðlast aukna tilfinningu fyrir ekki bara ljóðum, heldur einnig fyrir hverskyns orðalagi. Og segi ykkur einhver að það sé meðfædd gáfa að skilja ljóð, og verði ekki lærð, þá biðjið hann að rökstyðja mál sitt. Ætla ég að þar verði fátt um svör. Margs er að gæta í ljóðum. Þar getur stuðlun skipt máli til að tengja tiltekin orð, einnig getur rím eða hljómmynstur haft slík áhrif, eða lagt áherslu á orðasamband, ennfremur getur hrynjandi verið áhrifarík, og algengar eru ljóðmyndir,það er lýsingar sem eru svo hlutlægar að þær höfða til ímyndunarafls lesenda, svo sem þessar ljóðlínur eftir Þorstein Gíslason ritstjóra fyrir um það bil öld: Ljósið loftin fyllir og loftin verða blá Einnig eru algengar líkingar, að tala um eitt eins og það væri eitthvað allt annað, svo sem í framhaldi þessara ljóðlína, þar sem talað er um vorið eins og það væri mannvera: Vorið tánum tyllir tindana á. En þessu sinni skulum við einkum halda okkur við annað einkenni ljóða, en það mætti kalla orðarof. Það er áberandi í verkum Árna Larssonar, en nýlega bárust mér nokkrar ljóðabækur eftir hann, og skulum við taka dæmi af þeim. Árni sendi sína fyrstu bók frá sér fyrir réttum fjörutíu árum, bókin hét Uppreisnin í grasinu, skáldsöguþættir Sú bók hefur orðið mér minnisstæð, einkum hve lifandi lýsing þar var á elli, skáldað af ungum manninum. Síðan hefur Árni sent frá sér tíu ljóðabækur, sú síðasta birtist nú nýverið; Ég get ekki gefið þér næturhimin fullan af stjörnum, en hafðu þetta skömmin þín. Árni hefur skoðanir eins og margir aðrir, og fer ekki dult með þær. Einkum er honum uppsigað við hvers kyns múghugsun, fylgispekt í menningarlífi, sem og braskið sem setti þjóðina nánast á hausinn nýlega. Og vitaskuld er skáldum frjálst að nota fúkyrði sem önnur orð tungunnar. Einungis skiptir máli að verkið standist sem heild. Tökum dæmi: Ókeypis röntgenmynd af íslensku menningarlífi það er of mikið af dauðum skáldum sem eru að yrkja dauð ljóð þetta eru dauðir skólavinir dauðra útgefenda og dauðar sögur þeirra dauðir ættingjar dauðra stjórnarlima tilfallandi dauðar bólvelgjur það þarf ekki að splæsa dauðum bókmenntafræðingi á dauðar afurðir dauður viðskiptafræðingur nægir eða dauður ættfræðingur félagsfræðing þyrfti þó til að greina í sundur sýkta klíkuþræði Þetta ljóð mætti einhverjum þykja nær reiðilegu lesandabréfi en skáldskap. En þarna orkar klifunin á orðinu dauður, og ljóðið nær yfir sviðið sem um er talað. Hljómfallið er líka vandað og vekur tilfinningu fyrir ljóði. Annað ljóð fer bil beggja, ádeilu og orðaskoðunar, ef svo mætti orða það, tvíræðni orðalags: Á snyrtistofu grettis ófáir nútíma glámar búa í blá lýstum svita bað stofum skvapi næst og svo aðrir skapi næst mætti ætla að herfa bak svipi værðamollukauða sjónvarps greiðunni inn-dælu (sic) en blóðsugur komið sér fyrir belgfullar á barnaspítala hringsins um aldur En þessi ádeila er þó ekki aðalefni ljóðanna, fjarri því. Þar ber meira á því sem hér má sjá, hvernig orðum er skipt milli lína, svo tvíræðni skapast: Sundurlyndi Sú stund kemur með frost nálar í kviku þegar þú nærð í hala stjörnu augna bliks þegar nóttin verður með vitundarlaus og lag línuísinn hraðar sér í sundur 21.9.2012 Smugan

Engin ummæli: