þriðjudagur, 27. nóvember 2012

Á Íslandi virðist ekki mikið fjallað um stríðið í Afganistan, amk. miklu minna en í Danmörku. Enda eru Danir stríðsaðilar, og er það mjög umdeilt þar í landi, einkum vegna þess að eitthvað á fimmta tug Dana hefur fallið í stríðinu, og margir örkumlast meira eða minna. Nýlega var þess minnst að tvö þúsund bandarískir hermenn hefðu fallið í þessu stríði. Ekki veit ég tölu annarra fallinna NATO-hermanna þar, og áreiðanlega hafa margfalt fleiri Afganir fallið. Von er að fólk spyrji: Til hvers er þetta, ef til nokkurs. Í Danmörku er helst andstaða við stríðsreksturinn í flokkinum sem lengst er til vinstri, Enhedslisten. Til að fá svar við spurningunni er rétt að huga að valkostunum. Fyrst nær tvö hundruð þúsund NATO-hermenn hafa ekki getað yfirbugað Talibana, má vera augljóst, að yrði þeim fyrrnefndu kippt burtu snögglega, þá kæmust Talibanar aftur til valda í Afganistan. Og þeir hafa bæði sagt og sýnt hvað þá yrði. Þeir vilja einræði – í guðs nafni, svo stjórnarfar er ekki til umræðu. Enda eru andstæðingar Talibana þá taldir óguðlegir, hvort sem þeir eru sósíalistar, feministar eða bara lýðræðissinnar, og hengdir á götum úti, svo sem allir hommar sem til næst. Talibanar fylgja gamalkunnri kenningu nasista, að staður kvenna sé eingöngu innan heimilisins, en þeir eru miklu harðari á þessu en nasistar sem leyfðu sumum konum að komast til valda og áhrifa. Talibanar sprengja upp skóla stúlkna, píska konur sem ekki “klæðast sómasamlega” þ.e. samkvæmt kreddum íslamista, og banna konum bæði skólagöngu og starf utan heimilis. Nú eru eitthvað á aðra milljón afganskra stúlkna í skólum, en komist Talibanar aftur til valda, verða það engar. Þegar fólk í þriðjaheimslandi berst gegn Bandaríkjaher, þá túlka ýmsir það sem þjóðfrelsisbaráttu, líkt og í Víetnam forðum. En þá verður baráttan að beinast að frelsun fólks, Talibanar berjast bara gegn henni, bæði í orði og verki. Oft er því haldið fram að vesturlendingar eigi ekki að þvinga fólk í þriðja heiminum til að taka upp okkar menningu – þingræði, kvenréttindi, málfrelsi og því um líkt. En lágmarksvirðing fyrir þessu fólki felur þó í sér að krefjast sömu réttinda fyrir alla, óháð kynferði, kynhneigð eða bakgrunni; rétti til menntunar, skoðanafrelsis og samtakafrelsis. Nú eru íslamistar ekki bara einhverjir síðskeggjaðir sérvitringar í fjöllum Afganistan, heldur alþjóðleg hreyfing sem náð hefur völdum í Íran og miklum áhrifum víða. Enda verður að gera skýran greinarmun á múslimum og íslamistum. Múslimar telst allt það fólk sem alist hefur upp við íslam sem ríkjandi trúarbrögð. Þetta er eitthvað á annan milljarð fólks í mörgum sundurleitum löndum, það er af ýmsu menntunarstigi og þjóðfélagsstéttum, sumt trúrækið, annað ekki. Enginn getur þekkt allt þetta fólk, og því getur enginn alhæft um það, það væri fávíslegt í meira lagi. En íslamistar eru stjórnmálahreyfing einræðissinna og misréttissinna, eins og áður segir. Fortölur og rök bíta ekki á slíka hreyfingu, þeir virða ekkert nema vald, vopnavald. Ýmsir vinstrisinnar hafa einhverja samúð með þessari hreyfingu, vegna þess að hún berjist gegn heimsvaldastefnunni, sem ríkisstjórn Bandaríkjanna leiðir. En sú andstaða er bara í nösunum á íslamistum. Svo dæmi sé tekið af klerkastjórn Írans, þá er það ríki, sem stórútflytjandi olíu, auðvitað tryggilega innlimað í alþjóðlegt auðvaldskerfið. Og framámenn Írans nýta sér ólýðræðislega stjórnarhætti til að auðga sig persónulega. Nasistar og fasistar sögðust líka berjast gegn alheimsauðvaldinu, sem þeir að vísu kölluðu alþjóðlegt samsæri gyðinga. Ekki var það vinstrisinnum átylla til að sýna þessum fasistum minnstu samúð, svo vitlausir voru þeir ekki. Þeir hlutu að styðja vægðarlausa vopnaða baráttu gegn þeim. Sömuleiðis er oft sagt að fólk geti aðeins frelsað sig sjálft, það geti utanaðkomandi ekki gert fyrir það. Rétt er það, ef um er að ræða sósíalíska byltingu, því hún merkir að fólk taki sjálft völdin. En öðru gegnir um að frelsa fólk frá einræði og fjöldamorðum, þá þarf oft erlenda íhlutun. Hennar þurfti til að sigra nasista í Þýskalandi, kollvarpa múgmorðingjum “Rauðra khmera” í Kampútsíu, morðóðum einræðisherranum Idi Amin í Úganda, o.s.frv. Það er borgaraleg þjóðernishyggja en ekki sósíalísk að telja landamæri heilög. Virði stjórnvöld einhvers lands ekki réttindi íbúanna, þá eru þessi stjórnvöld ekki réttmæt. Andstaða gegn Taliban og öðrum íslamistum er sjálfsögð fyrir alla lýðræðissinna og jafnréttissinna, og þar með fyrir sósíalista. En það felur að sjálfsögðu ekki í sér neinn stuðning við heimsvaldastefnu Bandaríkjanna, né við spillt stjórnvöld í Kabúl eða íslamíska stefnu þeirra sumra. Taka ber afstöðu til málefna, frekar en að skipa sér í lið. Fólk verður ævinlega að meta hvaða afstaða er eðlilegust hverju sinni. En taki menn sjálfkrafa alltaf afstöðu með þeim sem segjast vera andstæðingar Bandaríkjastjórnar, þá eru þeir handbendi Pentagons. Kippi það í eina átt, sveiflast menn sjálfkrafa í hina. smugan 4.10.2012

Engin ummæli: