þriðjudagur, 27. nóvember 2012

Kvennabókmenntir og myndmál smæðarinnar Helga Kress á grein í síðasta Skírni, Unir auga ímynd þinni. Landið, skáldskapurinn og konan í ljóðum Jónasar Hallgrímssonar. Þar rekur hún í mörgum dæmum og fróðlegum hvernig Jónas kvengeri Ísland, eins og fyrirrennarar hans, Eggert Ólafsson og Bjarni Thorarensen. Þetta er þakkarvert, en hér eru jafneinhliða og villandi tilvísun og í grein Helgu frá 1985, sem ég ræddi í bók minni Seiðblátt hafið, 2008 (bls. 345-7, tilvísanir í bókarlok). Helga sagði í greininni 1985 (bls. 27) að Ellen Moers nefni í Literary women frá 1976 myndmál smæðarinnar sem einkennandi fyrir kvennabókmenntir, og bendir á að í bókmenntum sínum samsami konur sig gjarnan því sem er lítið og minnimáttar, og séu litlir hlutir, svo sem blóm, fuglar og fiðrildi, mjög algengir í myndmáli kvenna þar sem þeir fái oft táknræna vídd. [...] Þvert á móti þessu varar Moers við alhæfingum um sameiginleg einkenni á skáldskap kvenna og segir m.a. (bls. 262) að glæsilegar lýsingar kvenskálda á opnu landslagi ættu að stöðva næsta gagnrýnanda sem segi að allar skáldkonur séu inniverur, og næsta sálfræðing sem talar um “innra rými”. Moers leggur annars sérstaka áherslu á myndir fugla í skáldskap kvenna, einkum finnst henni fuglar í búri áberandi hjá skáldkonunum sem hún fjallar um. Og í ljóði Huldu Geðbrigði, líkir ljóðmælandi sér einmitt við fugl í búri til að sýna ófullnægju sína. Þetta tekur Guðni Elíasson upp í grein um skáldskap Huldu 1987, (bls. 76-8) og segir m.a.: sjálfsvitund Huldu tengist fremur smáfuglum en ránfuglum og hún táknar oft frelsissviptingu sína með vængbroti, vængjaleysi eða einhverju slíku. Þó að önnur nýrómantísk skáld eigi til að nota líkingamál af þessu tagi [...] er hér um sérstaklega kvenlegt líkingamál að ræða eins og Ellen Moers bendir réttilega á. Reyndar sagði Moers (bls. 246) að því femínískari sem bókmenntaverk væri, þeim mun stærri, villtari og grimmari væru fuglarnir sem þar birtust! Ránfuglar urðu vissulega nokkur tíska í ljóðum sumra nýrómantískra skálda um 1900, tákn frelsis og þróttar. En því fer víðsfjarri að smáfuglar séu sérkenni kvenskálda. Í því fylgir Hulda sem oftar Þorsteini Erlingssyni, fræg kvæði með smáfuglum eru og eftir Pál Ólafsson, Jónas Hallgrímsson og Steingrím Thorsteinsson, sem einnig var átrúnaðargoð Huldu. Mér sýnast smáfuglar ekki síður áberandi í ljóðum Sigurjóns Friðjónssonar en Huldu, raunar reyndist hann mun bundnari átthögum, búi og fjölskyldu en hún. Moers fjallar fyrst og fremst um enskar, franskar og bandarískar skáldkonur frá því seint á átjándu öld og fram á 20. öld. Hún fjallar lítið um skáldskap karla til samanburðar, og síst í myndmálskaflanum. En heimsfræg saga eftir karlmann, frá miðri 19. öld byggist einmitt á þessari mynd fugls í búri, og leikur tæpast vafi á því að Hulda hefur þekkt Næturgalann eftir H.C. Andersen. Verður þetta atriði því ekki talið dæmi um “eilífkvenlegt”, óháð stað og stund. Auðvitað er Ellen Moers ekki neinn hæstiréttur um bókmenntatúlkun, en sé vitnað í rit, ber að fara rétt með niðurstöður þess, ekki að snúa þeim við. Mér þykir líklegt að Helga hafi frétt af því að hún var sökuð um rangfærslu í riti mínu fyrir nærri fjórum árum. Reyndar tók ég þetta mál aftur upp í greininni Skæðar kreddur í tímaritinu Stína (nóvember 2009). En allavega ber þeim sem skrifar fræðilega um efni að kynna sér hvað birst hefur um það nýlega. Samt ítrekar hún nú fyrri fullyrðingar. Fleira mætti telja, leyfði rými. En til þess að fræðimannlega væri að farið í nú endurtekinni fullyrðingu Helgu um að “myndmál smæðarinnar” einkenni skáldskap kvenna, þá þyrfti hún að prófa það á skáldskap karla. Það gerir hún ekki, nema hvað hún sýnir að Jónas Hallgrímsson hefur þetta til að bera, og var þó karlmaður. En raunar er þetta áberandi hjá mörgum karlkyns skáldum, svo víða, að þessi kenning hennar fellur. Ekki er hér rúm fyrir langa upptalningu, ég nefni bara dæmin: Sigrúnarljóð Bjarna Thorarensen, Kvöld eftir Benedikt Gröndal, Laugardalur eftir Steingrím Thorsteinsson, Hallgrímur Pétursson eftir Matthías Jochumsson, Barmahlíð eftir Jón Thoroddsen, Vorvísa eftir Grím Thomsen, Sólin birtist hlíðum.. eftir Sigurjón Friðjónsson, Draumur vefarans eftir Sigurð Sigurðsson, Sjáland Jakohs Smára. Lesendur ættu auðvelt með að finna fleiri dæmi. Vissulega einkennist skáldskapur sumra karlkyns skálda af “myndmáli stærðarinnar”, einhverju hrikalegu. Nefna mætti Matthías Jochumsson, Benedikt Gröndal og lærling hans Kristján Fjallaskáld. Einnig þeir hafa líka “myndmál smæðarinnar”, enda er engin andstæða í þessu tvennu fólgin, skáld hafa einfaldlega eitthvað skynjanlegt í myndrænum lýsingum sínum. Helga Kress fer hér með kenningu sem ekki stenst athugun, byggist á rangtúlkun, og sem er afturhaldsboðskapur; um að binda kvenskáld á bás formæðra þeirra. Haldi skáldkonur sig ekki við forskriftir um “myndmál smæðarinnar” og annað eftir því, þá teljist þær vera “karlkonur”, ekki tækar sem yrkjandi konur. Mbl. 17.7.2012

Engin ummæli: