föstudagur, 8. desember 2006

Goðsagan um Íslendinga

Í Skírni 2000 á Einar Már Jónsson, háskólakennari í París, grein um þetta efni (“Orð, orð, orð”), þar sem hann víkur að Skírnisgreinum Arnars Guðmundssonar (1995) og Davíðs Loga Sigurðssonar (1997). Meginaðfinnsla Einars er að þeir félagar noti tvíræðni orðsins “goðsaga” (eða “mýta”) til að gera lítið úr viðhorfum annarra. Annarsvegar tákni orðið túlkun á þjóðarsögu, einkum uppruna þjóðar, og þá einkum túlkun sem réttlæti núverandi skipan mála, sérstaklega misrétti. Hinsvegar tákni orðið ranghugmynd, og það séu þeir félagar að gefa í skyn um t.d. hefðbundnar skoðanir um sérstöðu Íslendinga og nauðsyn á sjálfstæði. Í lokin segir Einar (bls.407): “Með því að lauma á þennan hátt hugmyndum að lesendum er verið að skjóta sér undan því sem ætti að vera frumskylda þess sem ritar: að útskýra og rökstyðja kenninguna. Í þessu tilviki felst þetta t.d. í því að gera grein fyrir þvi hvað er óraunveruleg ranghugmynd í því að “tengsl séu milli þjóðar og tungu”.
Ég veit ekki til að nokkur maður efi þau tengsl, og ekki gerði Davið það. Hinsvegar sýndi hann mjög glögglega fram á að Írar eru sérstök þjóð, í eigin augum og annarra, enda þótt þeir á 19. öld hafi glatað sinni sérstöku þjóðtungu og tekið upp tungumál fjendanna. Hér er málflutningur Einars beinlínis hneykslanlegur, en víðar sýnir hann furðulega blindni.

Frakkland
Einar segir (bls. 393-4):
“Hugmynd Roland Barthes um franskt þjóðfélag er sú að þar ráði einhverjir “borgarar” lögum og lofum og hafi gert allar götur síðan 1789. Að vísu mæti þeir ákveðinni andstöðu sem komi frá ”byltingarflokknum” en sú andstaða sé einvörðungu á sviði stjórnmála, því að í “borgaraþjóðfélagi” geti ekki verið nein sjálfstæð “öreigamenning”, þeir sem ekki séu “borgarar” verði að fá allt sitt að láni frá “borgurunum”. Þess vegna geti “borgaraleg” hugmyndafræði gegnsýrt þjóðfélagið án minnstu mótspyrnu, hún geti lagt undir sig leikhús, listir, allt. Stundum séu gerðar uppreisnir gegn þessari hugmyndafræði, það geri framúrstefnumenn í listum og bókmenntum, en þar sem slíkir menn séu jafnan af “borgaralegum” uppruna og ráðist einkum gegn einverjum ytri formum, sé hægur vandinn fyrir “borgarana” að gera slíkar uppreisnir skaðlausar. Í framhaldi af þessu álítur Barthes nú að einkenni þessara “borgara” sé fyrir og fremst að villa á sér heimildir” –að setja sín viðhorf fram sem eitthvað náttúrulegt, sjálfgefið.”
Þess verður nú að geta, að þessi kenning er alls ekki nein uppfinning Roland Barthes, heldur bara klassískur marxismi. Arnar hafði þessa kenningu eftir ítalanum Gramschi. Ríkjandi hugmyndir í stéttskiptu þjóðfélagi eru þær hugmyndir sem réttlæta það, því þarf sigursæla byltingarbaráttu lágstéttarinnar til að frelsa hana frá þessu hugmyndalega forræði yfirstéttarinnar. Með öðrum orðum, í þjóðfélagi þar sem eftirsókn eftir hámarksgróða ræður úrslitum um afkomu fyrirtækja og fólks, þá smitar sá hugsunarháttur yfir á önnur svið, t.d. sem samkeppnisandi. Er það svo óskiljanlegt? Hér er ekki um að ræða samsæri vondra manna gegn alþýðu, heldur einfaldlega þá almennu skammsýni að geta ekki ímyndað sér neitt annað en ríkjandi ástand. Sú skammsýni birtist best í grein Einars sjálfs. En hann heldur áfram (bls. 401):
“Kenning Barthes er ein skýr heild, sem stendur og fellur með einstökum atriðum. Það er því ekki hægt að sópa undir teppi þeim hluta hennar sem er vafasamur eða jafnvel augljóslega fáránlegur, og halda að slíkur frádráttur dugi einn og sér til af fá fram staðgóða fræðikenningu.“
Kenningu Barthes reynir nú Einar að fella á þessu atriði (bls. 401):
“Í augum þeirra sem þekkja franskt menntalíf á sjötta áratugnum, þegar Jean-Paul Sartre var þekktasti rithöfundur og hugsuður landsins, Aragon í hópi vinsælustu skálda og þeir menntamenn sem kölluðu sig “marxista” sennilega fleiri en hinir, er lýsing Barthes á ofurveldi “borgaralegrar” hugmyndafræði og hinni miklu blekkingu sem henni fylgdi gersamlega út í hött.”
Mér blöskrar það hinsvegar, að Einar, sem í aldarþriðjung hefur lifað í nábýli við franska kommúnistaflokkinn, hefur ekki tekið eftir því hve gegnborgaralegur sá flokkur hefur verið alla tíð síðan honum var þröngvað undir stalínismann, um 1930. Þjóðremba, leiðtogadýrkun, stjórnlyndi, og boðun stéttasamvinnu amk. allt frá 1936, í þessum meginatriðum stendur kommúnistaflokkurinn á engan hátt að baki t.d. hægriflokknum gaullistum. Jean-Paul Sartre sagði einhverntíma uppúr seinni heimsstyrjöld að stærsti flokkur Frakklands væri fasistaflokkur, og engum gat blandast hugur um að þar gat hann aðeins átt við kommúnistaflokkinn. En Einar Már talar eins og þessir andstæðu aðiljar hafi myndað órofa fylking vinstri menntamanna sem hafi ríkt í andlegu lífi Frakklands á þessum tíma. Menn geta haft borgaraleg viðhorf, einkum tilfinningalega mótun, enda þótt þeir gagnrýni auðvaldskerfið. Þessi afsönnun Einars felur því lin til jarðar eins og blaut tuska.

Upprunagoðsaga Íslendinga
Einar segir (bls. 400-401) að það stæði í mönnum að benda á eitthvert þjóðfélagsafl sem gæti “haft hag af því að fela söguna um uppruna Íslendinga og breyta henni í “náttúru”. Ónei, það stóð nú ekki mikið í íslenskum kommúnistum árið sem þeir stofnuðu flokk sinn og gáfu í tilefni Alþingishátíðar 1930 út sérhefti tímarits síns: “Minningarhefti Réttar um þúsundáraríki yfirstjetta á Íslandi” Frá þessu segir í bók eftir mig (sem Einar á), Rauðu pennarnir (bls. 85-6). Enn betur kemur þetta fram í 7. k. seinni hluta Sölku Völku frá 1932, í kostulegri fundarlýsingu. Kennarinn hefur ræðu um að Ísland hafi verið numið af höfðingjum sem fremur kusu að flýja óðul sín í Noregi, en þola yfirvald Haralds hárfagra. Þetta er nærtæk túlkun af frásögn fornsagna af þeim litla hluta landnámsmanna sem nafngreindur er. En t.d. dr. Björn fiorsteinsson leiddi rök að því að obbi landnámsmanna hafi verið landlaust alþýðufólk, og virðist það augljóst mál. Hér hefur Einar því goðsögu, sem haldið hefur verið að íslenskum börnum í skólum alla tíð, þessi saga hefur þann augljósa boðskap að Íslendingar séu einstaklingshyggjumenn en ekki félagsverur, vilji hver búa að sínu. Enda heldur kennarinn ræðuna til að koma í veg fyrir stofnun verklýðsfélags, og er æptur niður af því að fundarmenn sjá stjórnmálalegan tilgang goðsögunnar.

Njála
Einar segir (bls. 399) um ástæðu þess að Gunnar sneri aftur í Njálssögu: “Ef orðin “fögur er hlíðin” eru látin merkja “þá dýpstu og og sönnnustu ættjarðarást sem til er” (ummæli Matthíasar Johannessen, tilfærð af Arnari), þá vísar það til tilfinningar sem gera má ráð fyrir að hafi verið, í einni eða annarri mynd, í sögunni upphaflega”.
Þessi ályktun Einars nær ekki nokkurri átt. Vissulega er erfitt að geta sér til um hugsanir persónu í skáldverki, þegar þær eru ekki sagðar berum orðum. En það gera lesendur samt óhjákvæmilega. Nánar tiltekið: fiegar ég var íslenskukennari í Hamrahlíð, vorum við samkennarar að geta okkur til um hvernig ætla mætti að samtímamenn Njáluhöfundar hefðu skilið ákvörðun Gunnars. Okkur þótti líklegasta túlkunin að þarna talaði bóndi, sem ekki vildi láta hrekja sig af bújörð sinni, eða stoltur kappi, sem hirti meira um frægð en langlífi, en það er hugsjón sem oft er sett fram í fornsögunum. Hinsvegar man ég ekki til að hafa séð yfirlýsingar um ættjarðarást í þeim. En eftir að kvæði Jónasar Hallgrímssonar, “Gunnarshólmi” varð alkunna, þá er túlkun þess einráð með Íslendingum,

“því Gunnar vcildi heldur bíða hel
en horfinn vera fósturjarðar ströndum.”

Allir lesendur hljóta nú að kannast við að þessi túlkun þykir nú sjálfsögð, þótt hún sé seint fram komin, kvæðið hefur verið kallað fæðingarvottorð þjóðernisrómantíkurinnar. Þetta er sannkölluð þjóðfélagsleg goðsaga, samkvæmt henni erum við Einar báðir lélegir Íslendingar, þar sem við höfum sest að erlendis, Og Einar er svo gagntekinn af goðsögunni að hann sér hana ekki.

2000

Engin ummæli: