þriðjudagur, 5. desember 2006

Framúrstefna bókmennta

Heiti
Elsta skráð dæmi orðsins framúrstefna er í Skáldatíma Halldórs Laxness, 1961. Líklegast hefur hann gert orðið fyrir þetta tækifæri, því hann útskýrir það þegar á eftir:

Ég hef aldrei skilið hversvegna Joyce er ekki talinn höfuðskáld surrealismans, heldur ævinlega hafður í flokki fyrir sig. Það er ef til vill vegna þess að frakkar vilja eigna sér surrealismann eins og alla aðra framúrstefnu, avantgardisma.

Vitaskuld hafði orðið avantgarde verið þýtt á íslensku, löngu áður en Halldór skrifaði Skáldatíma. Netorðakrá Orðabókar Háskóla Íslands hefur það þegar um miðja 19. öld, sem framvörður, reyndar um herlið. Það orð er í Blöndalsorðabók 1920, þýtt á dönsku sem forpost. En ýmis dæmi eru um yfirfærða merkingu orðsins framvörður seinna, bæði í stjórnmálum, fjármálum og knattspyrnu, og reyndar talar Halldór um bókmenntalegar framvarðarsveitir aðeins fyrr í sama Skáldatíma. Framúrstefna virðist þó mun þjálla orð en t.d. "framvarðarstefna".

Alþjóðlegt
Nú er orðið avantgarde þekkt í frönsku allt frá því á þrettándu öld, og notað um framvarðarsveitir hers, eins og margir vita. Orðið sést yfirfært á stjórnmál (jafnt til hægri sem vinstri), bókmenntir og listir í Frakklandi á 19 öld, svo sem rakið er í safnritinu Les avant-gardes littéraires au xxe siècle (I, bls.18 o.áfr.). Þar segir m.a. að 1825 talaði Olindes Rodriges um listamenn sem avantgarde, er breiði út nýjar hugmyndir til fjöldans með ljóðum, söng, málverkum o.s.frv. Þremur árum síðar talaði franski bókmenntafræðingurinn og skáldið Sainte-Beuve um avantgarde ljóðlistar á sextándu öld, sem hafi gengið of langt, og því hafi orðið afturhvarf. Frægt er í franskri bókmenntasögu hvernig Victor Hugo ásamt nokkrum félögum sínum barðist harkalega fyrir nýbreytni í bókmenntum, rómantíkinni, undir 1830, gegn ríkjandi klassískri hefð. Þetta var ekki skipulegur félagsskapur, með stefnuskrá, tímarit né neitt þvílíkt, en afar áhrifaríkur, og virðist fyrirmynd margra seinni framúrstefnuhópa. Hugo hafði orðið avantgarde um þennan hóp sinn 1845 (að vísu í einkabréfi og sagði að þeir væru svo miklir framúrstefnumenn, að þeir væru hættir að raka sig!). Nýjungamaður ljóðagerðar, Baudelaire, taldi í ritinu Hjarta mitt afhjúpað (Mon coeur mis a nu, 1862-4) að í orðinu avantgarde fælist samheldni um stefnu, með öðrum orðum (hans orðum); agi, múgsál. En rétt er að geta þess að þetta er í kafla þar sem hann hæðist að því hve algengar séu í frönsku líkingar við hernað[1]. Avantgarde er á þessum tímum einkum haft um pólitískt róttæka listamenn, en fleiri dæmi mætti rekja um að það var haft um bókmenntalega róttækni (um allt þetta sjá tv. safnrit, bls 19 o.áfr., sjá og Poggioli, bls. 11 o.áfr.). Í riti um franskar bókmenntir sem birtist á Ítalíu 1880 hefur bókmenntafræðingurinn Pica það um franska höfunda, raunar mjög sundurleita; Flaubert, Goncourt-bræður, Zola, Maupassant og fleiri raunsæishöfunda, sem lögðu áherslu á að fjalla um samtímaveruleika sinn, og helst í ófegraðri mynd, ólíkt framangreindum rómantískum höfundum, sem leituðu göfgi, einnig í raunsæislegum myndum hversdagslífsins. En Pica telur hér einnig til franskrar avantgarde symbóliskt ljóðskáld eins og Verlaine, gerólíkan framangreindum raunsæishöfundum. Og Alessandra Briganti segir (tv. safnrit, bls. 24) að fyrst Pica noti þetta orð skýringalaust, sýni það útbreiðslu þess á þeim tíma, þótt meiri yrði eftir aldamótin 1900. En þá höfðu t.d. ítölsku fútúristarnir það um sig, og síðar var það haft um surrealista og aðra nýjungamenn. Enda ályktar Alessandra Briganti (tv. safnr., bls. 25) að þá hafi ekki verið litið svo á að avantgarde merkti sérstakan stíl eða tímabil. Poggioli rekur framúrstefnu (bls. 132 o.áfr.) allt aftur til Sturm und Drang um 1770.
Þetta sama orð, avantgarde, hefur þá verið haft um sundurleita strauma lista og bókmennta, en einnig voru ýmis önnur heiti höfð um sama fyrirbæri á millistríðsárunum, t.d. var það í Englandi ýmist kallað avantgarde, vanguard, the modern, the ultramodern, the experimental eða bara the new literature (tv. safnrit, bls. 55 o.áfr.). Slíkt er algengt, og verður að líta á eðli fyrirbærisins, frekar en hvaða orð voru höfð um það á mismunandi tímum. Og fráleitt væri að setja einhver skilyrði um hvernig hópurinn beitti sér fyrir nýjungum, t.d.með formlegu félagi, tímariti og stefnuskrám, frekar en einhverju öðru. Ennfremur má spyrja hve samhljóma hópurinn þurfi að vera, þarf ekki nokkurn fjölskrúðugleika til að hafa áhrif?
Fyrst orðið avantgarde og önnur orð um sama hugtak voru höfð um alla helstu bókmenntastrauma síðari alda, rómantík, raunsæisstefnu, symbólisma, o.s.frv. leiðir af því, að í orðinu felast engin bókmenntaleg eða listræn sérkenni, þau eru breytileg frá einum tíma til annars. Það er því tilgangslaust að reyna að skilgreina framúrstefnu út frá einhverjum einkennum slíkra hreyfinga á fyrsta fjórðungi 20. aldar, og ekki virðist ávinningur að því að nota orðið framúrstefna í stað heita þeirra hreyfinga, orða með afmarkaðri tilvísun til ákveðinna bókmenntalegra sérkenna, svo sem fútúrismi, expressjónismi, surrealismi eða módernismi.
Menn hafa viljað sjá önnur einkenni sameiginleg framúrstefnu, t.d. nefnir Renato Poggioli þar til að þetta sé jafnan hópstarf, a.m.k. í byrjun, þótt ekki verði samheldnin alltaf mikil. En það ætti þá ekki við um expressjónismann þýska, rekur Ulrich Weinstein (tv. safnrit, bls. 47), þar voru bara dreifðir smáhópar út um allt þýska málsvæðið. Þó sjá menn áberandi einkenni sameiginleg þeim flestum, t.d. raðstíl svokallaðan, að ljóð sé sett saman úr runu sjálfstæðra aðalsetninga í litlu samhengi sín á milli (sjá nánar bók mína Kóralforspil hafsins, bls. 51 o. áfr.,188 o. áfr). Weinstein nefnir ennfremur að margir hafa lagt áherslu á uppreisn sem samkenni, framúrstefnuskáld og hópar þeirra afneiti fyrri bókmenntum, einkum ríkjandi tísku, slíkt eigi að sprengja í loft upp, jafna við jörðu. Vissulega var þetta áberandi hjá einkum fútúristum og surrealistum (sbr. t.d. Bürger, bls. 44). En það á alls ekki við um aðra helstu nýjungamenn bókmennta 20. aldar, t.d. Eliot og Pound. Ber þessvegna að útiloka þá ásamt Proust, Kafka o.fl. frá framúrstefnu, eins og Weinstein vill (bls. 45)? Spyrja mætti hvort sé mikilvægara, að hafna ríkjandi tísku eða bera fram eitthvað verulega nýtt. Ekki virðist mér það áhorfsmál. Þegar rithöfundar og listamenn koma fram, hafa þeir oft sterka tilhneigingu til að afskrifa þá sem fylla sviðið, einfaldlega til þess að ota sínum tota. Minnast má og dada-hreyfingarinnar, sem fram kom í fyrri heimsstyrjöld, og öllum var róttækari í að hafna allri eldri list. Hvaða merk verk hefur hún látið eftir sig? Engin mér vitanlega. Poggioli leggur áherslu á tilraunastarfsemi (t.d. bls. 131 o. áfr.). En bætir það nokkru við? Hlýtur það ekki að líta út sem tilraun, þegar nýtt er fram borið? Sjálfur segir Poggioli síðar (bls. 136 o. áfr.) að listsköpun hljóti að yfirstíga tilraunastarfsemi.
Niðurstaðan verður sú, að framúrstefna (avantgarde) hafi verið haft um verk sem voru róttæk nýjung í framsetningu, brutu í bág við ríkjandi hefð, enda þótt stundum hafi þau sótt mikið til eldri verka ( t.d. Pound og Eliot). Ekki verður það ákvarðað nánar. Rit Poggioli er fróðlegt yfirlit um ýmiskonar framúrstefnu, en helst mætti að því finna að hann gerir ekki greinarmun á framúrstefnu og módernisma, sem er straumur eða straumar innan hennar, og einkennist af sundraðri framsetningu, svo sem ég hefi rakið í tv. bók minni Kóralforspil. Hér verður nú hugað að því hvernig helstu bókmenntanýjungum á Íslandi var tekið á nýliðinni öld, og hvort þau reyndust vera framvörður nýrrar ritmennsku. En oft hefur verið litið svo á, að það fælist í hugtakinu, hvort sem það er kallað framvörður eða framúrstefna, að meginliðið komi á eftir slíkum frumherjum.
Einnig ljóðmálið var miklu róttækari nýjung áður, í ljóðum Halldórs Laxness um miðjan þriðja áratuginn. Ekki sé ég jafnróttækt ljóðmál á íslensku síðan, fyrr en Tíminn og vatnið eftir Stein Steinarr birtist á seinni hluta 5. áratugsins[2], en það verk einkennist mikið af samskonar surrealisma, ósamrýmanlegt er sameinað. Rétt er að hafa hugfast, að þessi ljóðabálkur hefur verið einstaklega vinsæll. Hannes Sigfússon var róttækasti módernistinn í hópi atómskáldanna, með fyrstu ljóðabálkum sínum, sem mjög voru af sama tagi og Eyðiland Eliots, þótt sjálfstæð sköpun væru. Saman er skipað textabútum sem hver um sig er röklega skiljanlegur, en eru sundurleitir að efni og stíl. Svipað gildir um Hólmgönguljóð Matthíasar Johannessen, 1960. Hann hefur annars verið tvíbentur, oft á tíðum fífilbrekkuskáld eins og t.d. Einar Bragi, Snorri Hjartarson og Hannes Pétursson. Þetta er ekki hnjóðsyrði, þessi skáld gerðu góð ljóð, en síst verður það kallað framúrstefna að fylgja hefð sem ríkt hafði undanfarna öld í íslenskum bókmenntum. Þá hefð upphafins ljóðmáls og mynda úr íslenskri náttúrur rjúfa einkum þeir Matthías Johannessen og Dagur Sigurðarson í óhefluðu ljóðmáli, teknu frá hversdagstali, jafnframt er þá svið ljóðanna nútíma borgarlíf. Báðir birtu fyrstu bækur sínar 1958. Þetta gekk fram af flestum sem í sér létu heyra um ljóð þeirra félaga, vildu ekki viðurkenna slíkt ”götustrákatal” sem ljóð eða skáldskap. Þetta hefur þá verið framúrstefna En undanfarna áratugi myndu vandfundin ljóðskáld sem ekki yrkja á þennan hátt, ljóð þeirra Matthíasar og Dags hafa þá einnig verið framvörður nýs ljóðmáls. Þar er þó munur á, í andstæðuþrunginnni framsetningu sinni er Matthías módernisti, en slíkt sé ég alls ekki hjá Degi.
Hvað um "opin ljóð"? Þau voru bókmenntanýjung á 8. áratug síðustu aldar, en voru þau framúrstefna? Það held ég fáir féllust á, einfaldlega vegna þess hve auðskilin þau eru, amk. við fyrstu sýn, tal um hversdagslega athurði í umhverfi kunnuglegu lesendum, og á einföldu hverdagsmáli yfirleitt. Þetta var erfitt að skynja sem nýstárlegar bókmenntir. Þaðan af síður yrði svokallaður „dókúmentarismi“ (nýraunsæi, á sama tíma) kallaður framúrstefna. Þar skyldi lýst hversdagslegum viðburðum og ástandi á hlutlausan hátt og venjulegu máli. Þetta er þá blaðamennska af andlausasta tagi, og varð vart kallað bókmenntanýjung, hvað þá framúrstefna.

Sögur
Benedikt Hjartarson nefndi í sínu erindi að ekki hafi verið skipulegar framúrstefnu-hreyfingar á Íslandi á fyrstu áratugum 20. aldar, og þá heldur engar stefnuskrár eða tímarit á þeirra vegum. Mikið rétt, en það kemur fram í dagbókum Þórbergs og endurminningabókum Halldórs Laxness, m.a., að þeir og fleiri ung skáld og menntamenn hittust nær daglega, t.d. 1924, og ræddu nýjungar í bókmenntum og listum, m.a. var þá Halldór að fræða Þórberg um Marcel Proust, og líklega einnig um surrealisma. Er þetta þá ekki sambærilegt við fyrrnefnd dæmi um rómantíkina í Frakklandi og expressjónismann þýska? Líklegra er að íslensku höfundarnir hafi mótast hver af öðrum í fámenninu, t.d. virðist augljóst að Alþýðubókin eftir Halldór Laxness (1929) sé undir miklum áhrifum frá Bréfi til Láru Þórbergs. Ekki er hér hægt að fjölyrða um hvílík bókmenntanýjung sú bók var árið 1924, enda hefur því oft verið lýst. Ég dró fram meginatriðin að mínu mati (Kóralforspil, bls.194):

Orðið framúrstefna var um 1965-80 haft um nýjungar í leiklist, einnig í myndlist og tónlist. Einnig á þeim sviðum verða miklu nákvæmari orð fyrir, abstrakt eða konkret í myndlist, m.a., en absúrdismi eða leikhús fáránleikans í leiklist. En hvað var þá kallað framúrstefna í bókmenntum á þeim tíma? Nefna má ástarsögu Steinars Sigurjónssonar, Tómas Jónsson metsölubók Guðbergs, sögur Svövu Jakobsdóttur, "atómkvæði", og ekki síst hinar mögnuðu skáldsögur Thors Vilhjálmssonar. Allt er þetta framúrstefna, skv. almennri málvitund, en aðeins sumt verður kallað módernismi að minni hyggju.
Hér hef ég orðið að takmarka mig við fáein dæmi framúrstefnu í íslenskum bókmenntum 20. aldar, þótt efnið kalli á miklu rækilegri umfjöllun. Bókmenntunum reyndi ég að gera ítarlegri skil í bók minni Kóralforspil.
Niðurstaðan verður sú, að einnig í íslenskum bókmenntum eigi orðið framúrstefna vel við um róttækar bókmenntanýjungar, sem rufu heildarmynd hvers tíma. Ekki mættu þær alltaf mikilli andstöðu, hinn róttækasti módernismi, Tíminn og vatnið, varð einmitt mjög vinsælt. Skondið er og, að ekki verður séð að prósaljóð og fríljóð hafi mætt neinni andstöðu fyrstu áratugina, en svo mjög hatrammri, þegar þau voru tekin upp aftur eftir seinni heimsstyrjöld og áratugs hlé. Innan straums framúrstefnu má svo greina módernisma af tvennu tagi, surrealisma í kvæðum Halldórs Laxness um miðjan 3. áratuginn og Steins Steinars á 5. áratug aldarinnnar og síðar, en einnig mætti nefna til Bréf til Láru Þórbergs Þórðarsonar. En expressjónisma gætir í sögum Halldórs Laxness og nafna hans Stefánssonar, svo og ljóðum Hannesar Sigfússonar og Matthíasar Johannessen, þá undir áhrifum Eliots. Módernisma sjáum við aftur síðar, í sögum Thors Vilhjálmssonar, Steinars Sigurjónssonar og Guðbergs Bergssonar. Flestar skáldsögur hans má hinsvegar kalla framúrstefnu af öðru tagi, rétt eins og sögur Svövu Jakobsdóttur, ekki verður greindur módernismi þar, heldur táknsögur og ýkjur.
Voru þessi framúrstefnuverk framvörður, boðberi nýrrar tísku? Sum, einkum sagnalist Halldórs Laxness og nýtt ljóðform vann varanlegan sigur, eins og nýtt ljóðmál, tekið úr óhefluðu hversdagsmáli. Hinsvegar virôist hin róttækasta framúrstefna, surrealísk ljóô, ekki hafa leitt til framhalds, nema mjög stopuls, þrátt fyrir töluverðar vinsældir.

Heimildir
Les avant-gardes littéraires au xxe siècle. I-II Budapest 1984.
Peter Bürger: Die Theorie der Avantgarde. Framkfurt a.M. 1981.
Peter Hallberg: ”Við vitum ekki hvort þau hafa andlit“ Nokkrar hugleiðingar um fljótt, fljótt sagði fuglinn eftir Thor Vilhjálmsson. Tímarit Máls og menningar 1972, bls. 119-134.
Halldór Laxness:Kvæðakver, Rvík 1930 og síðar.
Halldór Laxness: Skáldatími, 1961.
Hallbjörn Halldórsson: Halldór Kiljan Laxness. Iðunn XIII. ár, 1929, bls. 385-396.
Hannes H. Gissurarson: Halldór. Rvík 2003.
Ólafur Jónsson Atómskáld og módernismi. Skírni, 1981, bls. 101-125.
Renato Poggioli: The Theory of the avant-garde. London 1968 (þýtt úr ítölsku:Teoria dell’arte d’avanguardia, Mulino 1962)
Örn Ólafsson: Unglingurinn í skóginum og Alþingi. Skírni 1985.
Örn Ólafsson: Rauðu pennarnir,Rvík 1990.
Örn Ólafsson: Kóralforspil hafsins, Rvík, 1992.
Örn Ólafsson: Uppsprettur Tímans og vatnsins, Andvara 2005.









[1] Í umræðum á ráðstefnunni benti Kristján Jóhann Jónsson á að betur ætti við að líkja þessum hreyfingum við söfnuði en við herlið. Og satt er það að margt minnir á sértrúarsöfnuði, svo sem Poggioli rakti (bls. 21), einkum þegar hugsað er til þess hvernig André Breton stjórnaði hópi surrealista með bannfæringum og brottrekstrum.
[2] Sjá nánar um Tímann og vatnið grein mína í Andvara 2005.

Engin ummæli: