föstudagur, 8. desember 2006

Dagbækur Þórbergs

Ef lýsa ætti ritum Þórbergs Þórðarsonar í mjög stuttu máli fyrir fólki sem þekkti þau alls ekki, t.d. útlendu bókmenntafólki – hvaða einkenni ætti þá að draga fram? Ég myndi umfram allt nefna hlífðarlausa sjálfsskoðun Þórbergs, og í öðru lagi skarpar mannlýsingar hans, hvorttveggja lífi gætt í skemmtilegum frásögnum á mjög fjölbreytilegum stíl. Þótt ritgerðir Þórbergs séu mjög góðar, finnst mér því mest til um sjálfsævisögulegar frásagnir hans, einkum þá Íslenskan aðal, Ofvitann, Bréf til Láru. Og þetta eru líklega vinsælustu rit hans. Á þessu sviði á Þórbergur varla nokkurn sinn líka, þar var hann mestur nýjungamaður íslenskra bókmennta. Það þýðir því lítið að gá að fyrirmyndum hérlendis, ef spurt er: hvernig varð hann það? Vissulega hefur verið bent á Dægradvöl Benedikts Gröndals, sem birtist aðeins tveimur árum á undan Bréfi til Láru. Sameiginlegt er að segja frá smáu og stóru af hispursleysi. Munurinn er að Benedikt segir í nokkurnveginn samfelldri framvindu frá lífi sínu og kunningjum á lífsleiðinni, en Bréfið er miklu fjölbreyttara að efni, og einkum þó að stíl. Erlendis var auðvitað Strindberg atkvæðamikill á þessu sviði og mjög kunnur á Íslandi. Mér finnst mjög líklegt að hann hafi orðið Þórbergi nokkur fyrirmynd. En raunar gekk mikil einstaklingshyggja og naflaskoðun víða um lönd um og uppúr aldamótunum 1900.
Tveimur árum eftir dauða Þórbergs gaf Sigfús Daðason út nokkur rit hans frá árunum 1912-16, þegar hann var 24-28 ára, og áður voru óbirt (Ólíkar persónur). Þarna er margt merkilegt, og þótt Þórbergur ætti þá enn langt í þann þroska sem hann sýndi í Bréfi til Láru, 1924, er hann ótvírætt á leið þangað, t. d. í langri og sundurleitri ritsmíð um Ársæl Árnason, 1915. Stíll Þórbergs er yfirleitt heldur hversdagslegt ritmál á þessum tíma, en þó er hann að þróast til meiri fjölbreytni og sjálfstæðis eins og Sigfús bendir á í formála bókarinnar. Sigfús nefnir þá kenningu Sigurðar Nordals að Þórbergur hafi einkum þjálfast í ritstörfum með bréfaskriftum, en slíkan vettvang telur Sigfús alltof einhliða og þröngan til að verða upprennandi rithöfundi til þroska. Það þykir mér hinsvegar undarleg kenning, ef litið er á þau bréf Þórbergs sem birst hafa í ritsafni hans, mjög fjölbreytt rit. En Sigfús telur að æskuritin í Ólíkar persnónur hafi verið miklu mikilvægari liður í þroska Þórbergs. Þau voru, eins og hann segir, flutt á hálfopinberum vettvangi, þ.e. lesin upp á fundum í Ungmennafélagi Reykjavíkur. Og greinilega er það rétt að þau hafa verið Þórbergi mikilvæg þjálfun. En Sigfús segir raunar að Þórbergi hafi verið stílsnilldin meðfædd. Ekki er hægt að fallast á slíka skoðun athugunarlaust, enda skýrir hún ekki neitt, þetta er einskonar örlagatrú. En skýring er nærtæk.

Dagbækurnar
Lesendur Þórbergs munu minnast þess að hann var oft að taka sig á og setja sér lífsreglur. Þar á meðal voru þrálátir svardagar um að færa nú samviskusamlega dagbók. Smám saman tókst Þórbergi að lifa eftir þessu. Niðri á Landsbókasafni fylla dagbækur hans eitthvað á annan hillumetra. Sú fyrsta nær yfir tímabilið maí-okt. 1904 (hreinrituð 1906), önnur um júlí-sept. 1910. Í febrúar 1911 hefst hin þriðja á nokkrum formála. Þar segir Þórbergur, að sex undanfarin ár hafi hann haldið dagbók, en slitrótt, á smákompur og stundum á laus blöð. “Erfið lífskjör og menntunarskortur hefur valdið þessu. En því miður eru nú flestar þessar skræður týndar, eða þá á ringulreið hingað og þangað, þar sem ég hefi flækst um undanfarin ár.” Í formála 4. dagbókarinnar, sem hefst 17. júní 1911 ítrekar hann þessi orð, en segist skulu brenna hverju snifsi sem hann finni af þessum dagbókarfærslum. Í formála í febrúar 1911 segir hann áfram: “Dagbók þessi lýsir veðráttufari, skýrir frá markverðustu viðburðum utanlands og innan og athöfnum mínum o. s. frv. Vil ég gera mér far um að skýra rétt og greinilega frá öllu því sem ég færi í stíl.”
Dagbók færir Þórbergur yfirleitt síðan. Að vísu er það nokkuð slitrótt framá 3. áratuginn, stundum koma margra mánaða hlé, og næstum þriggja ára, 1917-20, mjög lítið á sjö ára tímabilinu maí 1917 - okt. 1924. Sennilega má fylla eitthvað í þau skörð með bréfum hans, en satt best að segja mun bættur skaðinn þótt eitthvað hafi fallið úr skráningu, flestir dagar Þórbergs voru ámóta tíðindalitlir og okkar hinna. Og það sem ég hef séð af dagbókum hans er mestmegnis bara þurr skrá um veðurfar, gerðir Þórbergs og hverja hann hitti. Það fer ekki hjá því að lesandinn velti því fyrir sér hvernig maðurinn gat enst til að gera þessi skrælþurru reikningsskil um líf sitt, daglega, áratugum saman. Til hvers var hann að þessu? Eina skýringin sem ég finn hjá Þórbergi sjálfum er:
“Ég hafði og hefi enn ávallt gaman af því að líta yfir liðna tíma og þá atburði sem þeir fela í skauti sínu” (17/6 1911).
Auk fyrrnefnds formála hefur Sigfús Daðason skrifað yfirgripsmikla og fróðlega grein um Þórberg (í Andvara 1981). Þar segir hann að Þórbergi hafi mjög háð skortur á skipulagsgáfu framá sumarið 1913. En þá verði gerbreyting á lífsháttum hans, “þá hættir hann að láta berast ósjálfbjarga áfram”(bls. 9). Er nú ekki líklegast að Þórbergur hafi haldið dagbók til að ná þessum tökum á lífsháttum sínum? Dagbókin sem hefst næst eftir sept. 1912 byrjar1. jan. 1914, og hún sýnir mjög reglubundið líferni næstu ár: lesið svo og svo marga tíma á dag, unnið svo og svo lengi, líkamsæfingar, o.s.frv. Þessi merka heimild ber Þórbergi fagurt vitni um eljusemi og sjálfsaga. Síst viðrðist of mikið um hrasanirnar sem Þórbergur óskapaðist útaf, t.d. í Ofvitanum. Í dagbókunum er allt talið sem Þórbergur las, hve lengi hann var að skrifa hvert rit o.fl. Það er augljóst, að það var í þessum dagbókafærslum sem hann tamdi sér hina frægu nákvæmni sína í dagsetningum og tímasetningum, veðurlýsingum og lengdarmælingum, sem setti svo mjög svip á rit hans síðar, að mörgum hefur þótt nóg um. Það er íhugunarefni hvert gildi þessar nákvæmu lýsingar hafa haft fyrir hann sjálfan. Hann sagði oft eitthvað á þá leið, að það væri minnstur vandinn að vera skemmtilegur með því að spinna eitthvað upp. En sjálfur væri hann eini rithöfundur á Íslandi, sem gæti verið skemmtilegur með því að segja bara satt og nákvæmlega frá. – Slíkt sjálfslof er títt hjá Þórbergi, annarsstaðar segist hann vera eini maðurinn sem kunni að lesa hús. Hvernig vissi hann að enginn annar gat það? Furðulegt er hve margir hafa tekið þetta gort hans trúanlegt.- Þessar nákvæmnisfærslur hafa verið Þórbergi ögun, aðferð til að þjálfa sig í slíkum undirstöðuatriðum fyrir skáld sem nákvæm athugun og skarpar lýsingar eru. Vissulega var þetta svið þröngt, en hann útfærði þetta líka annars staðar, svo sem í Ungmennafélagsritunum í Ólíkar persónur. Ekki nóg með þetta, fyrir svo gróskumikið ímyndunarafl sem Þórbergur hafði, mátti ástundun þurra staðreynda og nákvæmni í meðferð þeirra virðast svo sem dauður trjábolur er vafningsviði – ómissandi til að hann geti lyfst í verulegar hæðir. Aðeins hefði mátt óska þess, að trjábolurinn hyldist stundum betur laufskrúði! Fræg eru dæmi slíks í sögu bókmennta. Þannig tók Gustave Flaubert fyrir hið hversdagslegasta efni, að ráði vina sinna, og skóp úr því meistaraverkið Madame Bovary (en þeim fannst ímyndunarafl hans of óhamið í fyrri verkum).
Jafnframt þessu öllu eru dagbækur Þórbergs merkileg heimild um daglegt líf menntamanna og skálda í Reykjavík á æviárum hans. En a. m. k. á árunum milli stríða virðist það fólk hafa verið að heimsækja hvert annað flest kvöld, og oft hittast að máli um miðjan dag líka. Hefur það verið ólíkt skemmtilegra líf en að sitja yfir Derrick, Dallas og co.

Sálarástandið
Það er helst í utanlandsferðum Þórbergs sem litur og líf færist í frásagnir dagbókanna – og árin 1912-17. Fimmtu dagbókina hefur hann 15. maí 1912 , eftir hálfs árs hljé, og fer þá að færa eftir nýju kerfi, hefur færslur af hverju tagi undir sérstakri fyrirsögn (veður, o.s.frv.) og bætir nýjum bálki við: “Sálarástand mitt”. Færslur af því tagi haldast lengi síðan, þótt bálkakerfið víki fljótt fyrir samfelldri frásögn. Tilefni þessarar nýbreytni virðist ótvírætt ástarsorg sú og sjálfsásakanir sem alkunna eru af Íslenskum aðli, enda er efnið líka mjög á sömu lund og í þeirri bók. Efnislega eins – en frásagnarhátturinn er gerólíkur. Í dagbókunum er hann hreint ekki þesslegur, að Þórbergur hafi hlotið stílsnilldina í vöggugjöf. Öðru nær, þar ríkir sá hversdagslegi, að ég ekki segi óbjörgulegi, klisjuborni stíll, sem vænta mátti af ungum byrjanda í ritstörfum. Berum saman (dagbók, 21/5 1912):

“Sanna lífsgleði virðist mér hvergi að finna nema hjá lífsstjörnunni björtu, er létti af mér böli og byrðum lífsins á liðnum vetri. En nú skín hún bak við fjöll og firnindi, norður á heimsenda, og það er aðeins endurminningin eintóm sem ýmist kætir mig – eða grætir. Ef ég mætti sjá stjörnuna svo sem augnabliksstund, og ef hún gæti ljómað eins og hún ljómaði fegurst hér, mundi ég glaður bjóða heiminum góða nótt og – deyja.”

Eins og vant er með mikla höfunda kostaði það margra ára harða baráttu að losa sig undan klisjunum, finna þann tón sem virðast mátti upprunalegur, sjálfsprottinn. Sjáum nú hvernig Þórbergur talaði um sama efni, aldarfjórðungi síðar, í Íslenskum aðli (í lok 6. k.):

“Þegar ég var sestur einn fyrir í stofunni á Þóroddsstöðum, var mér innanbrjósts eins og allir eiginleikar sálar minnar væru þurrkaðir burt úr meðvitundarlífinu; - allir, nema aðeins einn. Það var þjáningin, altæk, hreyfingarlaus, heldimm þjáning, hyldjúp, kyrrstæð lægð tilbreytingarlausrar kvalar. Þar örlaði ekki á neinu minnsta hæti, sem væri öðruvísi þessa stundina en hina, engri smæstu aðkenningu af einhverju minna eða meira, eilitlu dimmra eða bjartara, engri smávægilegustu hræringu, sem fyrir einni klukkustund hefði getað verið á móts við heilafrumu aftan við eyrað á mér, en nú hefði þokast á móts við frumu frammi undir gagnauganu. Öll víðátta sálarinnar var eins og bráðið blýhaf, þar sem hvergi grillti fyrir aðgreiningu lofts og lagar. Ég sat grafkyrr og horfði sljóum, hreyfingarlausum augum út í gráan stofuvegginn á móti mér.”

Munurinn á þessum tveimur klausum er einfaldlega sá, að hin seinni er skörp, sérkennileg mynd, og alveg frumsköpuð: þungt, blýgrátt, kyrrt haf. Hin er tugga. Nú segir sjálfsagt einhver, að ekki sé að undra þótt minnisatriði hripuð upp í dagbók séu á óvandaðri stíl en prentuð bók. En fyrri klausan er ekkert hripað minnisatriði, maðurinn er að gera grein fyrir sálarástandi sínu í rækilegum lýsingum. Og þannig eru dagbækur Þórbergs oft á 2. áratuginum, og æ vandaðri framsetningu, t.d. árin 1916-17. Ég segi ekki að þetta nái uppí Bréf til Láru, en langt á leið þangað. Þá hefur Þórbergur náð töluverðri þjálfun í að segja hug sinn, og það sem meira skiptir fyrir upprennandi rithöfund: a. m. k. fimm ára þjálfun í sjálfskönnun, hlífðarlausri athugun á eigin sálardjúpum. Þessu olli ekki bara sjálfsóánægja svo sem sú sem Íslenskur aðall segir frá – tiltölulega hversdagsleg, heldur ýmislegt fleira. Ást í þvílíkum meinum, að líklegast varð hún hvorki játuð, né um rætt við nokkurn mann, brýst stundum fram í dagbókarfærslum. Og þar segir m.a. (4/5 1914):

“Ég á erfitt með að verjast ömurlegasta þunglyndi. En þó hefi ég fundið ráð til þess [...] Það er að reyna að sýnast alltaf síkátur og glensfullur. Smám saman slær ytri gleðinni inn. En þó má henni ekki slá algerlega inn, því að þá á ég á hættu að göfugustu endurminningarnar blikni. Flestir hyggja að ég sé orðinn nokkurskonar gárungi, jafnvel siðleysingi, er hæðist og skopast að öllu fögru og guðdómlegu. En þeim er ekki kunnugt um hitt, að þetta er mér nokkurskonar Kínalífselixír, er varnar mér frá að sökkva í kaf í svartasta þunglyndi. Ég verð að fórna umburðarlyndi annarra fyrir velferð minni.”

Þessi orð skýra háðskan kveðskap Þórbergs, sem fór að birtast næstu ár í fyrstu bókum hans: Hálfir skósólar 1915, Spaks manns spjarir 1917, Hvítir hrafnar, 1922. Þetta eru mestmegnis skopstælingar á kveðskap sem þá var vinsæll, og hefur Halldór Laxness sagt um þessi kver:

“Einu hefur aldrei verið svarað um Þórberg. Hvernig stendur á því að lítt uppfræddur sveitamaður úr einu afskekktasta héraði landsins kemur til Reykjavíkur og fer að yrkja út frá sjónarmiðum dada, þeirrar stefnu sem þá var í burðarliðnum suðrí álfu, og kalla má undanfara allrar nútímalistar í vestrænum heimi, svo í bókmenntum sem mynd og tóni.” (Ungur ég var, bl.s 80).

Tengslin eru þau, að dada var niðurrifslist, andóf gegn ríkjandi viðhorfum og hefðum á öllum sviðum. Tilvitnunin hér að framan í dagbók Þórbergs skýrir hversvegna hann fer slíkar leiðir, sbr. líka næstsíðasta kafla Ofvitans: “Elskan mín” (sem Sigfús Daðason vísar til í Andvaragrein sinni, bls. 18). Formálar kvæðanna í Eddu Þórbergs sýna líka vel andúð hans og uppreisn gegn steinrunnum klisjum í kveðskap, sérstaklega af væmnara tagi. Hinsvegar er “fútúrismi” Þórbergs nafnið tómt, eins og hann raunar upplýsir sjálfur í inngangi að kvæðinu “Fútúrískar kveldstemningar” í Eddu.
Hér kemur líka til sívaxandi andlegt sjálfstæði Þórbergs, sem berst við að ná tökum á lífi sínu og stefnir frá alfaraleið, vitsmunabrautir sem hann kortleggur sjálfur. Og það gerir hann stöðugt í dagbókum sínum, og oft eins nákvæmlega og hann getur. Hvílík þjálfun fyrir rithöfund! Þetta er ein helsta þroskaleið hans fram að Bréfi til Láru.

Íslenskur aðall
Nú verður að nefna vissar takmarkanir dagbókanna; þær eru a.m.k. stundum færðar með það í huga, að þeir gætu komist í þær, sem Þórbergur vildi ekki trúa fyrir leyndarmálum sínum. 1922 hefur hann t.d. afmáð 6 línur í færslunni 13/9. Og 1912 segir dagbókin nákvæmlega frá brottför Arndísar Jónsdóttur úr Bergshúsi, en þá einnig annarrar stúlku, sama dag. Ekkert bókar Þórbergur um tilfinningar sínar til þeirrar fyrrnefndu, og þótt hann útmáli hörmulegt sálarástand sitt næstu daga, gefur hann ekki skýringar á því, þær sem síðar komu í Íslenskum aðli. Eins er, þegar hann segir frá samfundum þeirra í Hrútafirði um sumarið. En mergurinn málsins er sá, að Íslenskur aðall er saminn upp úr dagbókinni 15/5 -11/9 1912. Sömu efnisatriði koma þar í nokkurn veginn sömu röð. Það efni sem Íslenskur aðall hefur umfram, er einkum sjálfstæðir þættir af einstökum mönnum. T.d. birtist þátturinn af Jóni bassa i Skinfaxa Ungmennafélags Reykjavíkur 1912. Þegar dagbókinni lýkur, er Þórbergur enn á Akureyri, en vinir hans farnir að tínast suður. – Þetta er ekki svo að skilja, að Íslenskur aðall sé nákvæm, sannferðug frásögn atburða sumarsins 1912, heldur svo, að Þórbergur notaði dagbækur sínar sem hráefni í Íslenskan aðal. Mér sýnist t. d. að þegar hann útmálar hugarangur sitt og ástarsorg í Íslenskum aðli, þá byggi hann það ekki síður á færslum frá 1916, um söknuð sinn eftir aðra persónu, en á færslum í sambandi við Arndísi 1912. Hér er annars ekki rúm til að fara út í ítarlegri samanburð Íslensks aðals og dagbókanna. Vonandi gerir hann einhver þegar út kemur á prenti rækilegt úrval dagbóka Þórbergs, sem þyrfti að gera sem fyrst. En í frásögn sem er efnislega eins, hefur hefur Íslenskur aðall þetta umfram dagbækurnar; líf og skáldskap. Nú eru það í sjálfu sér ekki ný tíðindi að rithöfundur um fimmtugt skáldi vel, þegar hann minnist æskuára sinna. En hitt er merkilegra, að hann skuli þurfa millilið til þess. Íslenskur aðall hefst 15. maí 1912, af því að fimmta dagbókin hófst þann dag, eftir hálfs árs hlé á færslum. Og hún gat orðið uppspretta skáldskapar, fremur en fyrri dagbækur, vegna þess að hún sagði frá sálarástandi höfundar. Þetta staðfestir enn einu sinni, sýnist mér, að góður skáldskapur er ekki gerður beinlínis af reynslu höfundar af persónum og atburðum, heldur taka skáld slíkan efnivið oft unninn að vissu marki, þar sem atburðir eru valdir til sögu, túlkaðir skv. sérstöku viðhorfi - þótt það bindi ekki skáldið um viðhorf Þetta er alkunna um t.d. skáldsögur Halldórs Laxness: sjálfstætt fólk byggist á Höllu og heiðarbýlinu eftir Jón Trausta, Kristnihald undir jökli byggist nokkuð á Ævisögu Árna prófasts eftir Þórberg. Efniviður skáldsagna þarf auðvitað ekki að vera bók, oft er hann almannarómur, nútímaþjóðsögur, stundum eins og slíkt birtist í blöðum. Þannig er a. n. l. háttað um Sölku Völku og Heimsljós, en sú skáldsaga byggist á dagbókum Magnúsar Hj. Magnússonar, svo sem alkunna er. En hitt er athyglisverðara að einnig Þórbergur skyldi þurfa slíkan forunninn efniðvið til að skrifa um ævi sjálfs sín, og hve náið hann fylgir útlínum fyrirmyndarinnar, gamals rits eftir hann sjálfan, þótt skáldritið sem henn semur uppúr því verði eðlisólíkt fyrirmyndinni. Þar dregur lengst háðsk fjarlægð sögumanns frá efninu í Íslenskum aðli, en henni tengist breytingin á stílnum, sem áður var rætt um. Í dagbókum Þórbergs má einnig finna ýmsar færslur sem síðar urðu efniviður í Bréf til Láru; það sem Þórbergur bókaði um samtöl sín við kunningja og vini um trúmál, stjórnmál o. fl. þ. h. (einkum haustið 1922). Margt er þar merkilegt, sem aldrei komst á bók.

Surrealisminn
Og þá kem ég að spurningunni sem fyrst rak mig af stað niður í handritadeild Landsbókasafns. Hvernig stendur á því, að Þórbergur skrifaði Bréf til Láru, m. a. eins og hænn væri bréflegur félagi í hreyfingu surrealista, sem þá var nýorðin til í París. Hvað segir ekki Halldór Laxness, sem þá þegar var náinn félagi Þórbergs, í Sjömeistarasögunni (1978, bls. 102): ”Í nútímabókmenntum hefur Þórbergur Þórðarson verið liðtækastur surrealisti, og þarf ekki vitnanna við um það.” Lítum samt á helstu samkenni. Rit surrealista eru mörg og margvísleg, en Bréf til Láru minnir einna helst á rit aðalleiðtoga þeirra, André Breton, og þá einkum á Surrealíska stefnuskrá, sem birtist sama ár og Bréf til Láru, og á 2. Surrealíska stefnuskrá, sem birtist fimm árum síðar, ennfremur á Nadja eftir Breton 1928, og Bóndann í París eftir Aragon, 1926. Þessi rit eru öll sláandi huglæg, höfundur talar í eigin nafni um ýmis efni; ber fram frásagnir af sér og vinum sínum og rökræðir um ýmis málefni; stjórnmál, og þó einkum menningarmál. Þarna skiptast á gaman og alvara. Öll þessi rit einkennast af áhuga á dulrænum fyrirbærum og dularfullum tilviljunum. Það var nú víðar, en fleira kemur til. Þórbergur og Frakkarnir gera að sönnu greinarmun draums og vöku, en þeim finnst draumar og vitranir fullt eins merkileg og vökuskynjun, segja frá þessu jöfnum höndum. Í stað þess að skrifa skáldsögur, svo sem venjulegt væri, segja þeir allir sannar (meira eða minna) sögur af sjálfum sér (sbr. Bréfið, 29. k.) – og oft mjög opinskáar. Og þessir höfundar hafa líka annan mælikvarða á það hvað sé sögulegt, en viðtekinn er. Þar eru þó Frakkarnir mun sjálfstæðari en Þórbergur, sem var skemmtilegur á viðtekinn hátt og hlaut Bréfið mjög góðar viðtökur, bæði í upplestri (haustið 1924 skv. dagbókinni) og í bókabúðum. Ég held að sjálfstæðari hafi Frakkarnir verið vegna þess að þeir höfðu heilan hóp, 20-30 manns, til að stappa stálinu í hver annan. Og þessvegna ber lítt á sjálfsháði hjá þeim, en það er eitt helsta einkenni Bréfs til Láru, enda vottur um öryggisleysi einstæðingsins, segjum við dólgafreudistar. Loks ber að nefna að Bréfið er miklu fjölbreyttara að efni en tilvitnuð rit frönsku surrealistanna og Þórbergur sýnir þar miklu margbreytilegri stíl en þeir gerðu. Bréf til Láru er auðvitað alveg sjálfstætt sköpunarverk, en mér sýnist það ganga út frá sömu forsendum, stefnu, og rit frönsku surrealistanna: persónuleiki höfundar á að birtast þar í heild, í öllum tilbrigðum sínum.
Þrátt fyrir sjálfstæði Bréfsins er augljóst, að það eru megineinkenni þess sem það á sameiginleg við rit surrealistanna frönsku. En hvernig á að skýra það? Er hugsanlegt að þarna hafi verið beint samband? Sá möguleiki virðist fjarlægur, því fyrsta surrealíska ritið sá dagsins ljós 1919, hreyfing surrealista fer að starfa sjálfstætt (frá dada) árið 1922 og vekur ekki verulega athygli fyrr en um miðjan 3. áratuginn. Nú var Þórbergur raunar í París sumarið 1921, og það meira að segja á alþjóðlegri ráðstefnu um guðspeki (Stefán Einarsson, bls. 20). Áhugi á henni og surrealisma gat mjög vel farið saman, og hvar myndu þá meiri líkur á að heyra um hann en í persónulegu spjalli milli funda? En varla svo snemma, enda bendir ekkert beinlínis til þess í ritum Þórbergs, hvorki stundar hann ósjálfráða skrift, ljóðmyndir þar sem óskyldir hlutir tengjast, né aðra surrealistatækni, sem bent gæti til beinna kynna. Engar heimildir hefi ég fyrir því að hann hafi lesið frönsku.
Samt má telja mjög líklegt að Þórbergur hafi haft allnánar spurnir af ritum surrealista, ekki síðar en vorið 1924. Því þá kom Halldór Laxness heim til Unuhúss, eftir að hafa legið í surrealískum ritum (og Proust) í klaustrinu í Björtudölum (Clairvaux) árið 1923 (Sjömeistarasagan, bls. 97-8). Nú er ekki gott að segja hverju Halldór hefur miðlað íslenskum kunningjum sínum af þeim lestri, en svo mikið er víst, að rit hans sjálfs voru ekki neinn milliliður frönsku surrealistanna og Þórbergs, því rit Halldórs hafa ekki umrædd einkenni til að bera – hvorki Undir Helgahnjúk (prentað sumarið 1924, en samið veturinn 1922-3) né Heiman ég fór (samið s. hl. 1924, sbr. P. Hallberg; Vefarinn I, bls. 167-95). Þegar surrealísk áhrif komu fram hjá Halldóri – í kvæðum og í Vefaranum mikla, 1925-7, þá er það einmitt í formlegum atriðum, sem nefnt var nú síðast í sambandi við surrealistatækni, að ekki gætir hjá Þórbergi. Enda fór hann að semja Bréfið í nóvember 1923, og hafi hann orðið fyrir einhverjum áhrifum frá Frökkum – í gegnum Halldór, þá væri það helst uppörvun til að senda frá sér það sem beinast lá fyrir honum að skapa. Þórbergur skrifar líkt og frönsku surrealistarnir vegna þess að hann hafði farið sömu leið og þeir til skáldskapar: horfið inn í eigin hugarheim. Þessvegna er þetta allt svo huglægt og persónulegt. Nú hafði Þórbergur ekki hópstarfið sér til styrktar, sem var frönskum surrealistum svo mikilvægt. En þess í stað kom þá að nokkru dagbók hans, til að horfa í eigin sálardjúp. Þessari mótun tekur Þórbergur því þegar á árunum 1912-17, þótt hann svo auðvitað þroskist áfram. Nú mun einhver segja að yfirgengilegar ímyndanir Þórbergs beri ekki að skýra með dagbókarfærslum hans á þrítugsaldri, því þær hafi fylgt honum frá bernsku. En um hvaða barn á það ekki við? Ég svara þessu með tilvitnun í Þórberg 1912: ”Það má glæða draumgáfuna og drepa, sem aðrar gáfur.” (Ólíkar persónur, bls. 18). Sjá þó einkum það sem hann segir um þroskað ímyndunarafl í lok 23. k. Bréfsins. Hann hefur búið við ógnir þess ”Árum saman”, en ekki alla tíð! Það er samvitund við heiminn og við möguleika hans.

”Að öðlast sannan skilning á einhverju er að ná samvitund við það, finna til þess sem hluta af sjálfum sér, verða eitt með því. Þessi hæfileiki er sjaldgæfur. En samt er hann undirstaða trúar, lista og vísinda. Sá sem getur ekki ”skipt um ham” í einu andartaki, fundið jafnvel fjarstæðustu firrur hluta af sjálfum sér, - hann er ekki fær um að skapa listir, vísindi nér trúarbrögð” (Bréf til Láru, bls. 93).

Í ljósi þessarar síðustu tilvitnunar skilst betur, að þótt Bréfið beri á köflum fræðilegt yfirbragð, Þórbergur vitni í margar bækur sem hann hefur lesið, þá er það samt ekki unnið af fræðimannlegu hugarfari, eins og Halldór Laxness sýndi fram á, fáeinum mánuðum síðar, í Kaþólsk viðhorf (endurpr. í Og árin líða, 1984). Þær athugasemdir hefur Þórbergur fengið töluvert fyrir útkomu Bréfsins, því dagbók hans sýnir að þeir Halldór voru farnir að deila um trúmál ekki síðar en 15. okt. 1924, og hirti Þórbergur þó ekki um að breyta riti sínu á þessu sviði. Það er af því að hann samdi Bréfið af skáldlegum innblæstri, en ekki fræðimennsku, eins og víða kemur fram. T.d. er það í meira lagi mislitur fénaður, sem henn sæmir heitinu ”jafnaðarmennirnir og bolsivíkarnir” (bls. 110, 27. k.), þar eru bæði stjórnleysingjar, kratar, og gott ef ekki íhaldsmenn í einni bendu, m. a. Annie Besant, Oliver Lodge, Krapotkin fursti, Auguste Comte og Platon!
Við látum hér staðar numið, því ekki var ætlunin að gera ritum Þórbergs skil á þessum vettvangi, heldur það eitt að benda á rauðan þráð nokkurra hinna fyrri. Ég vona að fram hafi komið hvílíkur fengur yrði að útgáfu úrvals dagbóka Þórbergs, sem mér sýnast vera lykill þessara verka. Ennfremur er bráðnauðsynlegt að fara að safna saman bréfum Þórbergs. Ég veit að Landsbókasafn tekur feginshendi við hverju slíku efni, og tryggir örugga varðveislu, og ættu menn að senda því sem fyst a.m.k ljósrit, ef ekki frumrit. Sé eitthvað í slíkum skrifum sem menn vilja ekki láta koma fyrir almenningssjónir nægir að tilkynna safninu það, og er þá tryggt með lögum að slíkar óskir verði virtar.
Ég þakka Margréti Jónsdóttur fyrir að leyfa mér að lesa dagbækurnar, og starfsfólki handritadeildar Landbókasafns fyrir greiðviknina.

Elskan hans Þórbergs (síðari viðbótargrein)
Soffía Auður Birgisdóttir skrifaði nýlega um þetta efni greinina Sannleikurinn hafinn í æðra veldi (Lesbók Mbl. 7.4.2001). Það rekur hún misræmi í hvernig Þórbergur fjallaði um Arndísi Jónsdóttur í bréfum og dagbókarfærslum á árinu 1912, og svo hvernig sagði frá tilfinningum hans til "elskunni hans" í Íslenskum aðli aldarfjórðungi síðar. Soffía segir m.a.:

"Það skiptir kannski ekki höfuðmáli hvaðan þær tilfinningar eru sprottnar sem Þórbergur lýsir í Íslenskum aðli eða hvort þær eru "sannar", aðalatriðið er að þær lúta ákveðnu frásagnarmynstri sem er alþekkt í bókmenntum. Ég fæ ekki betur séð en í verkinu sé Þórbergur á mjög meðvitaðan hátt að skopstæla ákveðna tegund frásagnar: Hina rómantísku ástarsögu - söguna um elskendurna sem ekki var skapað nema að skilja."

Nú er það vissulega rétt hjá Soffíu að litlu skiptir hver efniviðurinn er, miðað við hvað úr honum er gert af skáldinu. En hitt sýnist mér ljóst, að þessi meginþáttur Íslensks aðals, ástarsagan, byggist á dagbókarfærslum Þórbergs, en ekki bara á stöðluðum ástarsögum sem hann skopstælir. Það er af þremur ástæðum. Enda þótt skrif hans frá 1912 séu fáorð um tilfinningar hans til Arndísar, þá eru dagbókarskrif hans í fyrsta lagi ritskoðuð, í öðru lagi gefa þau þó töluvert til kynna um heitar tilfinningar til þessarar konu, og í þriðja lagi, eins og ég sagði 1985, byggist ástarsaga Íslensks aðals ekki síður á dagbókarfærslum Þórbergs um ást hans á annarri persónu.

Ritskoðun
Um fyrsta atriðið - og frjálsræði Þórbergs gagnvart sannleikanum - hefur Þorleifur Hauksson skrifað þarfa samantekt í nýlegu afmælisriti til mín (það liggur á vefsíðu Árnasafns).
Þorleifur segir þar m.a.

"Þó að Þórbergur hafi verið mikill nákvæmnismaður var hann ef til vill ekki fús til að flíka öllum sínum athöfnum og freistingum og ennfremur er þess að gæta að nokkrar innfærslur hafa verið beinlínis skornar eða skafnar burt, svo sem rakin verða dæmi um.
Ef nákvæmlega er rýnt í viðkomandi kafla Ofvitans kemur í ljós að tildragelsið í kirkjugarðinum hefur átt sér stað 12. febrúar árið 1911. Og þá virðist bera vel í veiði fyrir fræðimenn af hinum bíólógíska skóla, því að daginn áður, hinn 11. febrúar, er ný dagbók vígð með hátíðlegum formála eftir alllangt hlé. En þegar flett er áfram blasir þar við fremsta textasíðan afskorin! Fyrsta færsla sem varðveitt er er frá miðvikudeginum 15. febrúar. Þess má líka geta að í færslu 19. febrúar er ekki stafur um ferðir tveggja eftirvæntingarfullra stallbræðra í hænsnaskúrinn nálægt Öskjuhlíð til að búa í haginn fyrir endurtekið gaman. Ýmsar athugasemdir á stangli bera það með sér að Þórbergur hefur ætlast til að dagbækurnar yrðu varðveittar sem opinberar og aðgengilegar heimildir. En ekki um hvaðeina. Eitthvað hefur hann ritað föstudaginn 10. mars 1911 sem síðan var klippt neðan af síðu og heilar tvær þéttritaðar blaðsíður eru skornar burt milli föstudagsins 24. mars og fimmtudagsins 6. apríl."

Geðsveiflur
Sálarástandi sínu á umræddum tíma í Hrútafirði lýsir Þórbergur svo í dagbókinni, að það sé í sífelldum sveiflum milli vongleði og örvæntingar. Slíkar sveiflur verða ekki skýrðar með bágum efnahag, vondu fæði eða rysjóttu veðri. Hann gefur ekki beinlínis skýringar á geðsveiflunum, en ekki eru aðrar líklegri en einmitt þær sem hann gaf í Íslenskum aðli löngu síðar - ástarvon og örvænting yfir eigin aðgerðaleysi í þeim efnum. Enda segir hann í dagbókinni 21. 5. 1912: "Sanna lífsleði virðist mér hvergi að finna, nema hjá lífsstjörnunni björtu, er létti af mér böli og byrðum lífsins á liðnum vetri. En nú skín hún bak við fjöll og firnindi, norður á heimsenda, og það er að eins endurminningin eintóm sem ýmist kætir mig - eða grætir." Einnig segir hann í bréfi 15 .8. 1912: "Eg kunni hag mínum ágætlega vel í Hrútafirði. Reyndar var vinnan sjálf mér jafnþungbær og að undanförnu. En þar brann skærasti bjarmi vona minna, sem létti mér hverja stund og helti ljósgeislum í sál mína. En ljósgeislinn sá er blaktandi skar, sem deyr áður en minnst varir, eða er dáinn nú." (Ljóri sálar minnar, bls. 121).

"Ástvinur minn"
Í grein minni sagði ég m.a. um það sem örvað hafi Þórberg til sjálfsskoðunarinnar sem ber uppi dagbækurnar: "Ást í þvílíkum meinum, að líklegast varð hún hvorki játuð, né um rætt við nokkurn mann, brýst stundum fram í dagbókarfærslum" Ég þorði ekki að orða þetta ítarlegar þá, af ótta við að það gæti hindrað útgáfu dagbókanna. En þær birtust svo á næstu tveimur árum, og í ritdómi um þá fyrri, sagði ég:

"þegar Þórbergur fór um fimmtugt að skrifa um æskuár sín, þá vann hann það upp úr þessum gömlu ritum sínum, en færði saman og skerpti. Þannig er t.d. "Elskan mín" í Íslenskum aðli sköpuð með því að sameina færslur um Arndísi Jónsdóttur 1912 og Tryggva Jónsson 1916.

Þessa kenningu vil ég nú bera undir lesendur. Þórbergur var ráðinn sumrungur að Núpi í Dýrafirði af vini sínum Tryggva Jónssyni. Í ferðadagbók sinni 1916 segir hann m.a. eftir útreiðarferð með Tryggva, 13.8.): "Hittum þar Óskar. Skeggræddum stundarkorn í laut. Þá skildum við. Eg sakna Tryggva alt af sárlega, er eg skil við hann. Eg elska hann." (Ljóri sálar minnar, bls. 227), og 20.8.: "Skildum á túninu hjá Ytrihúsum kl. 9.45 e.h. Eg syrgi hann alt af, er eg sé af honum." (sama rit, bls. 231), 27.8: "Eg fór á fætur kl. 9 1/2 og át. Síðan gekk eg ut og beið ástvinar míns austan undir lambhúsvegg. Hann kom kl. 10 3/4 og gaf mér þrjá vindla. Stundarkorn spjölluðum við saman undir lambhúsveggnum. Síðan löbbuðum við niður undir Lækjartúnið. Eg skeit þar undir gamlan kvíavegg meðan Tryggvi fór heim og sókti handklæði og kleinur og sykur. Átum það og gengum svo suður með á og böðuðum okkur í Berghyl. Eftir það klæddum við okkur og lágum í logni í mosalaut til kl. 4. Hjöluðum við um ýmislegt og var yndi ið mesta. Nú hélt hvor heim til sín og át. Kl. 5.10 labbaði eg niður í holtið norðan megin árinnar, sem rennur hjá Læk. Tryggvi var að ljúka við að koma heim heyi, sem faðir hans átti. Kl. 6 kom hann til mín og kvaðst nú vera að fara út á Skaga. Við kvöddumst ástúðlega við brúna á ánni, gerandi hálft í hvoru ráð fyrir að sjást eigi aftur fyr en í október í haust í Reykjavík. Bað hann mig að útvega sér legubekk að léni eða á leigu og kvaðst leigja herbergi með mér." (s.r. 235),

Hér er dvalist af nákvæmni við hverja samverustund, ólíkt nákvæmar en þegar lýst var samfundum við Arndísi. Og þetta minnir á lýsingu samverustundar með Elskunni í lok kaflans "Í landi staðreyndanna" (Íslenskur aðall, bls. 30), þar sem þau eru ýmist í lautum í túni eða kaffiboði með samræðum, sífellt reynir sögumaður að herða upp hugann, en getur þó aldrei látið ást sína í ljós. Síðar segir í dagbókinni:

5/9: "Skap mitt er mjög þungbúið. Eg sakna sárlega vistarinnar á Núpi, og langar þangað aftur. Sum kveldin þar glitra í endurminningunni. Mér virtust þau að vísu eigi eins hugljúf, þegar eg var þar; en nú finst mér að í þeim hafi verið fólgin in æðsta sæla, sem mér veikri mannkind geti hlotnast á þessari jörð. [auðkennt af E.Ó] Eina huggunin mín nú er að hitta síðar ástvin minn Tryggva Jónsson í Reykjavík í haust. Hér í Dýrafirði hefir mér liðið vel og hér vildi eg dvelja síðar, ef eg færi úr Reykjavík aftur. Þó finst mér það eigi vera beinlínis náttúran, sem dregur mig hingað, þótt hún sé hér víða fögur. Mikið af fegurð sinni fær hún í mínum augum frá ástvini mínum, Tryggva. Og þótt mér finnist nú, að eg sakni sárlega Núps og fólksins þar, þá er eg þó ekki sannfærður um, að eg vildi fara þangað aftur til vistar síðar meir, ef ástvinur minn færi úr firðinum. [...] Ef dregin er bein lína skáhalt yfir fjörðinn frá Þingeyri í Mýrafellið, hér um bil suðaustast, lendir endi þeirrar línu í hlíðina þar sem við Tryggvi sátum fyrsta kveldið, sem eg var á Núpi. Hlíðin grær þar og grösin og hvammarnir í brekkunni geyma minningu okkar, þótt okkur auðnist líklega aldrei framar að sitja þar og skemta okkur. Ó, hve eg vildi sitja þar hjá Tryggva mínum nú." (s.r. bls. 239-40)

Þetta minnir á lýsingu sögumanns Íslensks aðals þegar hann ríður úr Hrútafirði og horfir yfir fjörðinn, "Loks sást ekkert eftir nema hæstu brúnir fjarlægs fjalls. Það var fjallið hennar." Íslenskur aðall, bls. 44).

Lokaorð
Vissulega er nokkuð breytilegt eftir persónum og tímaskeiðum, hvaða tilfinningar orð eins og "elska" og ástvinur" merkja. Vissulega undirrita bæði sr. Matthías Jochumsson og fleiri bréf með ”þinn elskandi vinur” o. fl. þ. u. l. Ég man þó ekki önnur dæmi þess frá fyrstu áratugum 20. aldar, að karlmaður segist elska annan karlmann með viðlíka lýsingum. Þeim mun meiri ástæða er til að halda þessum skrifum Þórbergs á lofti, ég veit ekki af öðru þvílíku á íslensku prenti fyrr, nema Dagbók Ólafs Davíðssonar, sem greinilega var meðvitaður hommi. Þórbergur ætti að hafa verið vel meðvitaður um þær tilfinningar sem hann var að játa sjálfum sér, hann var þá 27 ára, og hafði m. a. verið í nánu sambandi við konur. Og mér finnst uppburðarleysi söguhetju Íslensks aðals skiljanlegra í þessu ljósi, Umhverfið gerði slíkar ástarjátningar nánast óhugsandi, a.m.k. miklu torveldari en ástarjátningar karls til konu. Loks mætti styðja þessa tilgátu með draumi sem Þórbergu skráði 3.6.1912:

"Í nótt dreymdi mig að eg kysti og faðmaði kvinnur tvær er eg þekki. Þótti mér þær láta mjög vel að mér. En þegar til kom varð eg þess vís, að annari kvinnunni hafði vaxið skegg all-mikið. Hún rétti mér höndina, og þótti mér hún vera óvenjulega óhrein, einkum kringum neglurnar. En eigi þótti mér þó mikill skaði að þessu.
Þennan draum ræð eg fyrir vandræðum þeim er í veginn komu með vinnuna í dag." (Ljóri sálar minnar, bls. 107).

Þessi túlkun er í stíl við hefðbundnar íslenskar draumaráðningar, og kynni nútímafólki að detta í hug önnur ráðning. Mér er að sjálfsögðu flest ókunnugt um einkalíf Þórbergs, og ekki skal ég gefa í skyn að hann hafi nokkurntíma verið við karlmann kenndur. Enda er það okkur óviðkomandi, en hitt skiptir máli, hvernig hann vann skáldrit sitt úr eigin dagbókum, sameinaði aðskilda reynslu, umskapaði – og skopstældi. En því er háðið markvisst, að hann hafði sjálfur verið mark þess..

Tilvitnuð rit:
Peter Hallberg: Vefarinn mikli. I. Rvík 1958, 299 bls.
Halldór Laxness: Kaþólsk viðhorf. (bls. 181-241 í: Og árin líða, 1984, 241 bls.
Halldór Laxness: Ungur eg var. Rvík 1976, 243 bls.
Halldór Laxness: Sjömeistarasagan. Rvík 1978, 227 bls.
Sigfús Daðason:formáli að Ólíkar persónur (bls. 9-15).
Sigfús Daðason: Þórbergur Þórðarson. Andvari 1981, bl.s 3-42.
Soffía Auður Birgisdóttir: Sannleikurinn hafinn í æðra veldi.[...] Lesbók
Mbl. 7.4.2001.
Stefán Einarsson: Þórbergur Þórðarson fimmtugur. Rvík 1939, 97 bls.
Þorleifur Hauksson: Saklaus eins og nýfæddur kálfur. Arnarflug [...á vefsíðunni:] www.hum.ku.dk/ami)
Þórbergur Þórðarson: Bréf til Láru. Rvík 1975, 277 bls.
Þórbergur Þórðarson: Íslenskur aðall. Rvík 1971.
Þórbergur Þórðarson: Ljóri sálar minnar. Rvík 1986.
Þórbergur Þórðarson: Ofvitinn. Rvík 1973, 368 bls.
Þórbergur Þórðarson: Ólíkar persónur, Rvík 1976, 258 bls.
Örn Ólafsson: Um dagbækur Þórbergs. Lesbók Mbl. 6./6 1985.
Örn Ólafsson: Elskan hans Þórbergs. Mbl. 21.7. 2001.
Örn Ólafsson: ritdómur um Ljóri sálar minnar. DV 29/11 1986.

(í Lesbók Mbl. 1985+2001)

28.12.2006:
Í góðri bók sinni, Skáldalíf, 2006 ræðir Halldór Guðmundsson ítarlega um dagbækur Þórbergs, án þess að nefna að ég hafði fjallað um þær áður. Er þó sameiginlegt að benda á að "Elskan hans Þórbergs" sé sköpuð úr dagbókarfærslum hans ekki bara um Arnfríði, heldur líka um Tryggva Jónsson, einnig hefur Halldór sömu dæmi og ég hafði tilfært um það (fjallið). Hitt hefur hann ekki vitað, að ég tók myndina af jarðarför Þórbergs, sem hann hefur á bls. 397. Tildrög þess voru, að ég var nýbúinn að eignast nokkuð vandaða myndavél, og með áberandi ljósmyndadellu. Samkennari minn við Hamrahlíð, esperantistinn Árni Böðvarsson kom að máli við mig og sagði að jarðarför Þórbergs yrði næsta morgun í Fossvogi, og spurði hvort ég vildi ekki taka myndir af henni. Mig minnir að hann skilaði þessari bón frá Þorvaldi Þórarinssyni, lögfræðingi Þórbergs, sem vissulega kom í jarðarförina drukkinn, og minnti á fyrirmæli Þórbergs um útför hans, í eftirmála Eddu hans, að hann bannaði allt guðsorð og prest. En ekkjan Margrét hafði þá málamiðlun að fá fornfélaga hans, séra Gunnar Benediktsson, sem löngu var hættur prestskap, til að tala yfir líki Þórbergs inni í kapellunni, og voru þar að auki aðeins systir hennar og Matthías Johannessen, minnir mig. Gunnar var síðan spurður hvað hann hefði sagt yfir Þórbergi, og svaraði að það myndi hann ekki, því hann hefði allan tímann verið að hugsa: "Ekki nefna guð, ekki nefna Jesú".
Nema hvað, þegar kistan var borin út úr kapellunni, beið þar einvalalið Fylkingarinnar undir rauðum fánum og háðsglotti Þorvaldar lögmanns. Síðan var arkað moldartroðninga, illfæru, að tekinni gröf, og kistunni sökkt í hana, meðan sunginn var Internationalinn, að fyrrgreindum fyrirmælum Þórbergs, undir forsöng Birnu Þórðardóttur. Þá hélt mágkona Þórbergs fyrir eyrun, svo sem sést á myndinni.
Tveimur vikum síðar nefndi Árni við mig, að Margrét vildi gjarnan fá þessar myndir mínar. Svo ég fór til hennar að kvöldi í íbúðina að Hringbraut, og tók hún þakksamlega við, en klökknaði ef hún nefndi Þórberg.

Engin ummæli: