þriðjudagur, 12. desember 2006

Kommúnistar og borgaralegir höfundar

Í Tímariti Máls og menningar, 3.h. 2000 skrifar Árni Bergmann svar til þeirra sem sakað hafa kommúnista um að ofsækja ,,borgaralega rithöfunda". Flestu er ég sammála í grein Árna, en þó vil ég gera fáeinar athugasemdir, t.d við það sem hann segir um afstöðu róttæklinga til Davíðs Stefánssonar. Hann nefnir að ýmsir þeirra hafi hrósað Davíð, einkum jafnaldrar hans, en seinni skáldakynslóð talið hann úreltan – á bókmenntalegum forsendum. Leitt er að Árni skuli ekki hafa tímasetningar á þessum ummælum. Án þeirra mást öll sérkenni út. Ástæðan er sú, að frá stofnun Kommúnistaflokks Íslands 1930 og fram á mitt ár 1934 var flokkurinn beygður undir einangrunarstefnu Alþjóðasambands kommúnista. Samkvæmt henni voru sósíaldemókratar höfuðstoð auðvaldsins og kommúnistum því bannað allt samstarf við samtök þeirra. Á þeim tíma voru Alþýðuflokkurinn og ASI eitt, svo þetta skapaði veruleg vandamál. Kratar reyndu fyrir sitt leyti að einangra kommúnista, og er talið að þessi sundrung hafi komið Hitler til valda í Þýskalandi. Á menningarsviðinu gilti samskonar einangrunarstefna hjá kommúnistum út árið 1935; að borgaraleg menning væri úr sér gengin, gjörspillt og ónothæf fyrir stéttvísan verkalýð. Í staðinn væri nú kominn tími nýrrar bókmenntastefnu, sósíalrealismans, sern í senn afhjúpaði galla auðvaldsskipulagsins og sýndi verkalýðnum fyrirmyndarhetjur í byltingarbaráttunni gegn því. Vegna þessa hömuðust róttæklingar almennt gegn Davíð Stefánssyni á fyrra hluta 4. áratugarins (það rek eg í bók minni Rauðu pennarnir,1990, b1s. 90 o.áfr.). Hann var einkum gagnrýndur fyrir að sýna alþýðufólki meðaumkun í stað þess að hvetja það til stéttarbaráttu. Almennar vinsældir ljóða þessa skálds gerðu þau sérlega hættuleg, og því var talið einkar mikilvægt að berjast gegn því. Þetta viðhorf er reyndar alveg andstætt frumkvöðlum marxismans, Marx, Engels, Lenin og Trotskí, m.a., sem töldu að verkalýðurinn yrði að tileinka sér þá menningu sem drottnaði í umhverfi hans - jafnframt því að átta sig gagnrýnum huga á þeim stéttarsjónarmiðum sern einkenndu einstök listaverk - en ekki að forðast verkin vegna þeirra sjónarmiða. Árni nefnir að Kristinn E. Andrésson hafi hrósað Einari Benediktssyni. En það hrós var bundið við skáldskap Einars fram að uppkomu auðvaldskerfisins á Íslandi, eftir það hafi skáldskapur hans fjarlægst hagsmuni alþýðu, og þar með orðið innihaldsrýr og lélegur. - Þetta sjónarmið hafði reyndar Jónas frá Hriflu sett fram 1920, löngu á undan Kristni!
Um miðjan 4. áratuginn sneri Stalín við blaðinu, og boðaði kommúnistum samstarf við hvern sem var gegn fasisma. Ársritið Rauðir pennar var nýútkomið fyrsta sinni, þrungið kenningunni um úrkynjun borgaralegrar menningar, þegar útgefandanum, Félagi byltingarsinnaðra rithöfunda, barst hin nýja samfylkingarstefna, ásamt tilkynningu stjórnar Alþjóðasambands þeirra, um að hún hefði lagt Alþjóðasambandið niður! Nú breyttist tónninn í ársritinu, og einnig dómar róttæklinga um borgaralega rithöfunda. En mishratt, almennt ríkti trú á uppeldisgildi skáldsagna umfram ljóð, og því voru höfundar svo sem Guðmundur Hagalín áfram gagnrýndir. Sérstakt fjaðrafok varð út af skáldsögu hans Sturla í Vogum, svo sem Árni rekur. Eg held að hver einasti maður sem les söguna opnum huga, hljóti að fallast á dóm Sigurðar Einarssonar (i TMM 1938:3, b1s. 19):

,,Einhyggjumanninum, karlmenninu Sturlu í Vogum verður það að lokum ljóst, að það er ekki líft í þessum heimi án mannanna. Samhjálpin, samtökin eru honum i bókarlok eins og óljóst markmið, sem hann aðeins eygir, úrræði sem kann að duga, þegar jafnvel þreki hins sterkasta er ofboðið."

En i rúm sextiu ár hafa vinstrimenn haft uppi rangfærslur Gunnars Benediktssonar, i ritdómi í Þjóðviljanum (8.12. 1938, of sexfaldri venjulegri lengd!) að sagan sé lofsöngur um einstaklingsframtak. Raunar hafi Ólafur Thors sagt eitthvað svipað i ræðu á fullveldisdaginn viku áður (eins og Árni rakti). Á árinu 1983 spurði ég Einar Olgeirsson, góðkunningja Ólafs áratugum saman, hvernig í ósköpunum Ólafur hefði getað rangtúlkað söguna svona. Einar hló bara og sagði að auðvitað hefði Ólafur ekki nennt að lesa söguna. Hann hefði bara viljað krydda ræðu sína með vísun til nýs, umtalaðs bókmenntaverks, svo sem stjórnmálamönnum er títt, til að sýna að þeir fylgist með.
Árni vitnar tvívegis til fyrrnefndrar bókar minnar, en mér finnst að hún hefði mátt nýtast honum betur. M.a. þykist eg sýna fram á það (b1s. 73 og 228) að stærsta og útbreiddasta menningartímarit Íslands, Eimreiðin, hafi kerfisbundið sniðgengið rithöfunda eftir að þeir urðu kunnir að róttækni, hætt að birta verk þeirra og ritdóma um bækur þeirra, enda þótt þar birtust ritdómar um 60% allra útgefinna skáldrita (á árunum 1918-44). Og þessi skipulagða þögn er einkum frá árinu 1937 að telja, þegar róttæklingar hverfa æ meir frá einangrunarstefnunni, stofna t.d. bókaklúbbinn Mál og menningu með fjöldaþátttöku. Þá voru þeir orðnir hættulegir í augum andstæðinganna.
Fyrir nokkrum árum las eg endurminningar Kristmanns Guðmundssonar. Það var fróðleg lesning og á köflum glæsileg, t.d. þegar hann lýsir komu sinni til Vínarborgar. Og þetta er holl lesning þeim sem heyrt hafa gróusögur um þenman margrægða mann. En eins og eg sagði i sjónvarpsþætti um Kristmann fyrir hálfum áratug, þá er það hrein þvæla að kommúnistar hafi eyðilagt skáldferil hans og frægð. Sú frægð skapaðist i Noregi, og þar er Kristmann löngu öllum gleymdur. Ekki er það fyrir áhrif kommúnista, því þeir hafa alltaf verið áhrifalausir i Noregi. – Rétt er þó að nefna mótbáru aldraðs norsks bókmenntafræðings þegar ég sagði þetta við hann. Hann sagði að menningarróttæklingarnir í samtökunum Mot dag hefðu verið áhrifamiklir. En ekki vissi hann hvort þeir hefðu skrifað eða talað gegn Kristmanni, og ekki hefi ég komist að því.
Kristmann var i hópi róttækustu sósíalista á Íslandi um 1920, í liði Ólafs Friðrikssonar i Hvíta stríðinu, og handtekinn fyrir það. Vegna örbirgðar hraktist hann úr landi um miðjan þriðja áratuginn. Í Noregi fékk hann verkamannavinnu og tókst smám saman að hasla sér völl sem rithöfundur, náði loks metsölu med Morgni lífsins, 1929, hún birtist víst á sextán tungumálum. Hann skrapp til Íslands hálfum áratug síðar, og undraðist þá tilefnislausar árásir á sig frá bláókunnugum mönnum, sem komu jafnvel upp úr skurðgreftri, ógnandi honum med graftólum. Og um svipað leyti heyrði hann fyrst þær gróusögur sem gengu um hann næstu hálfa öld, að hann væri náriðill og hefði bitið geirvörtuna af konu sinni i algleymi samfara. Þessi saga gekk um ýmsar af hans mörgu eiginkonum. Það er auðséð að svona rógur segir meira um höfund sinn en um viðfangsefnið, í gegn skín öfund yfir kvenhylli þessa glæsimennis og fjandskapur óviðkomandi manna stafaði sjálfsagt af öfund yfir efnahagslegri velgengni þess sem áður var blásnauður. Kristmann nefnir ekkert pólitískt i sambandi við þessa andúð gegn sér á fjórða áratuginum. En í lok hans gerði hann afdrifaríkustu mistök ævi sinnar, hann fluttist aftur til Íslands. Auðvitað gat hann ekki vitað að nú hæfist heimsstyrjöld sem myndi einangra hann frá útgefanda hans í Noregi næstu sex árin. En það var mikið breytingaskeið, allt önnur tíska ríkti eftir stríð en fyrir. Og þótt Kristmann skrifaði áfram í aldarþriðjung, birtist aðeins ein þeirra bóka erlendis. Hann segir frá því hvernig hann bjó við skort í Hveragerði, og áfram við sömu andúðina og róginn frá óviðkomandi mönnum. Því held eg að honum hafi hugkvæmst snjallræði í kalda stríðinu. Hann heimfærði þessar gamalkunnu ofsóknir á nýjan upphafsaðilja, bókmenntahreyfingu kommúnista, sem borgaralegir stjórnmálaflokkar óttuðust, og börðust skipulega gegn. Og þetta hreif, borgaralegir stjórnmálamenn tóku hann nú upp á arma sina, og kommúnistar létu ginnast til að leika það hlutverk sem þeim hafði verið úthlutað. Raunar var það í sjálfsvörn, svo sem Árni rekur í grein sinni, áður höfðu þeir ekkert skipt sér sérstaklega af honum. Ein undantekning þó, Gunnar Benediktsson hafi raunar gagnrýnt sögu hans Sigmar, i Iðunni 1931, og einmitt fyrir að vera æsandi afþreyingarsaga með fullkomnu skilningsleysi á verkalýðsbaráttu, hún er í bókinni skýrð með öfund i garð mikilmenna, og stéttasamvinna verður ofan á sem farsæll endir. En annars hef eg ekkert fundið neikvætt frá vinstrimönnum i garð Kristmanns fyrr en undir miðja öldina (Steinn Steinarr 1948), þegar velgengni hans sem rithöfundur var löngu hrunin.
Þessir menu eru löngu orðnir goðsagnapersónur. Menn lesa ekki bækur þeirra en (for)dæma þær samt vegna afspurnar. Vinstrimenn af þörf fyrir fyrirlitlegan mótpól við frækilega bókmenntaróttækni 4. áratugarins (Halldór Laxness, Þórberg og Jóhannes úr Kötlum, m.a.), en hægrimenn sjá Hagalín og Kristmann sem leiðtoga frelsisbaráttu gegn ofríki kommúnista. Goðsögur hrífa marga, af því að þær gera þeim kleyft að sjá sjálfa sig sem þátttakendur í frækilegri samfélagsbaráttu. En gallinn er sá, að þær loka augum fólks fyrir umhverfinu, og halda huga þess föstum í vítahring. Það sýnir dæmið um Sturlu í Vogum best.
TMM 2000:4

Engin ummæli: