þriðjudagur, 5. desember 2006

Ævisögur Halldórs Laxness

Afar mikið hefur birst um Halldór Laxness, ævi hans og rit. Það eru endurminningar samferðamanna, bækur og greinar, umfjöllun um bækur hans, bæði í bókum, greinum og ritdómum, ennfremur eru bréf og dagbækur, viðtöl o.m.fl. Þetta er svo mikið efni og dreift að engum er ætlandi að kynna sér það allt, nema einmitt höfundum ævisagna eins og hér um ræðir. Því er feiknafengur að þeim, þótt að sjálfsögðu séu bæði ritin einskonar bútasaumur, mestmegnis samantekt úr ritum annarra, lítið frá eigin brjósti. Áður bjó fólk að stórvirki Peter Hallberg (Den stora vavaren 1954 og Skaldens hus, 1956), sem birtist á íslensku í fjórum bindum, 1957-71. En það er nú hálfrar aldar gamalt, og bæði samdi Halldór ýmislegt síðan, og einnig hefur mikið verið um verk hans fjallað á þeim tíma. Því var full þörf á endurnýjun.
Rit Hannesar Hólmsteins er þrjú bindi, samtals rúmlega 1800 bls. En rit Halldórs Guðmundssonar (HG) er eitt bindi, nær 800 bls., að vísu þéttprentaðra en Hannesar, en það mun þó amk. tvöfalt efnismeiri texti en HG. Því munar helst að Hannes fjallar miklu meira um rit HKL, þar sem HG heldur sig mestmegnis við ytri æviatriði hans. Hinsvegar nýtur hann þeirrar einokunar á skjalasafni HKL sem ekkja hans setti eftirá, þótt hún upphaflega gæfi Landsbókasafni það með yfirlýsingu um að það væri án nokkurra kvaða. HG hefur því fleiri fróðleiksmola úr vasakompum HKL og bréfasafni. En HG blandar saman bókmenntalegum sérkennum, svo að allt verður óskýrt um hvernig Halldór Laxness skrifaði á mismunandi tímum. En fyrir allan almenning hlýtur það að vera meginatriði í ævi Laxness.
Það er helst í umfjöllun um síðustu sögur hans sem HG kemur að bókmenntalegum sérkennum.
Hvað varðar framsetningu, þá er hún nokkurn veginn óaðfinnanleg hjá báðum. Þó er HG helsti endurtekningasamur og stöku sinnum viðkvæmnislegur. Hannes er vel máli farinn, og hefur dregið saman mikinn fróðleik um efnið. Ævi HKL er rakin af nákvæmni í báðum, en sárasjaldan eru óþörf smáatriði. Hins vegar sakna ég yfirlits, einkum hjá Hannesi. T.d. nefnir hann ekki straumhvörf kommúnista frá því að hafna ríkjandi menningu sem borgaralegri, úrættaðri til íhaldsstefnu í menningarmálum 1935 (sjá bók mína Rauðu pennarnir bls. 165 o. áfr.) HG víkur að þessu (bls. 371) en alltof óljóst. Báðar ævisögurnar lýsa því hve hispurslaust HKL hafi notfært sér ættingja og vini, til að halda sér uppi á fátæktarárum og vinna fyrir sig síðar. En hann gerði það ekki til að lifa í leti eða bílífi, heldur til að helga sig skáldsagnagerð. Á ekkja hans, Auður Sveinsdóttir þjóðarþökk skilda fyrir sinn hlut. –Síðar endurgalt HKL fjárstuðning eftir föngum.
Guðbergur Bergsson skrifaði um þessar ævisögur hér í Þjóðmál og slengir fram áttræðri tuggu Jóns frá Kaldaðarnesi og Hriflu-Jónasar, að hefði HKL stundað almenna vinnu eins og annað fólk, þá hefði hann skrifað “sannari bókmenntir”, enda verið í nánari tengslum við líf almennings. Þetta hlýtur að vera afsannaðasta bókmenntakenning 20. aldar. Ótaldir eru þeir íslensku rithöfundar sem skrifuðu meðfram almennri vinnu, rituðu þeir betri bókmenntir eða sannari en HKL? Hefur Guðbergur lifað eftir þessari fráleitu kenningu?
Helga Kress gerði rækilega úttekt á efnismeðferð Hólmsteins í tímaritinu Sögu, 2004. Ranglega ásakar hún Hólmstein um ritstuld frá endurminningasögum HKL og riti Peter Hallbergs, því Hannesvitnaði til þeirra í eftirmála, og hlaut augljóslega að sækja frásögn um æsku HKL til þess fyrrnefnda. Hitt er auðvitað rétt hjá Helgu, að annaðhvort er að endursegja með breyttu orðalagi, eða hafa gæsalappir um, sé orðalagi frumheimildar haldið. Sömuleiðis, að miklu nákvæmar þyrfti að tiltaka hvaðan Hannes hefur textabúta sína úr ýmsum öðrum ritum, sem hann þræðir stundum saman án slíkrar greinargerðar. Það er allt í lagi að gera t.d. lýsingu Taormína úr bók eftir Thor Vilhjálmsson auk lýsingar HKL sjálfs í Skáldatíma og fleira – fái lesendur að vita hvað sé hvaðan, þá geta þeir sjálfir metið mögulega heildarmynd. En það gildir um Taormina sem annað, að ekki er um hlutlæga reynslu að ræða, öllum eins. Það gefur skekkta mynd af HKL að sjóða saman ek. lífsreynslu hans rúmlega tvítugs úr ýmsum ritum frá mismunandi tímum, án sundurgreiningar, svo sem Helga réttilega bendir á (t.d í 2, bls. 221). Slíkar aðferðir getur skáldsagnahöfundur leyft sér, en ekki höfundur fræðirits, heldur ekki alþýðlegrar ævisögu. Ennfremur er fráleitt að yfirfæra lýsingar úr skáldsögum Halldórs á hann sjálfan, eins og Helga bendir á (Þar hefur Hannes þó stundum fyrirvara um að þetta séu getgátur hans). Það er allt of útbreiddur misskilningur að skáldskapur sé fyrst og fremst skrif höfundar um eigin lífsreynslu, stundum stílfært. Auðvitað er hráefni skáldskapar fullt eins oft eða oftar það sem höfundur ímyndaði sér að hefði getað gerst, einnig vinnur hann úr sögusögnum eða bóklestri sínum, en síðan er öllu því efni umbreytt eftir þörfum verksins, afstöðu til annarra atriða í því. En vissulega gerir Hannes mikla grein fyrir hráefni HKL, úr sögnum og lestri.
Svar Hólmsteins í næsta árgangi Sögu var rökföst og fróðleg umfjöllun um hvað sé eðlileg heimildanotkun og hvað sé ritstuldur. Yfirleitt finnst mér rit hans býsna hlutlægt, þar eru vegin og metin rök og mótrök svo að lesendur geta metið með. Ekki truflar mig þótt hann einstaka sinnum boði stjórnmálaskoðanir sínar, enda þótt fleirum en mér muni þykja það fáránlegt að tala um skort sem varanlegt og óhjákvæmilegt ástand í heiminum (I, bls. 493), án þess að minnast á gífurlega eyðileggingu “umframframleiðslu” matvæla í Evrópusambandinu og Bandaríkjunum á tímum fjöldahungurs í Afríku. Og ekki batnar það á næstu síðu, þar sem Hómsteinn telur byltingu sama og valdrán. Ætti hann þó að vita að marxistar skilgreina byltingu, ekki sem sigur vopnaðs liðs yfir her ríkjandi stéttar, heldur sem valdatöku alþýðu með sjálfskipulagningu stig af stigi, þar sem hún þreifar sig áfram með breytingar. Til þess þarf býsna almenna þáttöku almennings, og þetta getur gerst friðsamlega, mæti það ekki vopnaðri árás rikjandi stéttar. Þetta er víða rakið, einna best finnst mér í sögu rússnesku byltingarinnar (1917) eftir Trotskí. Svona vanþekking er stjórnmálafræðingi til vansa, ekki síst þegar um er að ræða prófessor í greininni.
Rit Hólmsteins mætti mikilli andstöðu, og það reyndar áður en það fór að birtast! Eru það einstök viðbrögð við riti, og stafa sjálfsagt af ótta við að Hólmsteinn, þessi kunni andkommúnisti myndi níða HKL fyrir Stalínsþjónkun. En það er nú öðru nær, helst má finna að þeim þætti ritsins of mikla mildi gagnvart þessum þræði í ferli HKL. Umfjöllunin um Gerska ævintýrið og önnur Sovétskrif Halldórs er rökföst og yfirveguð, en bakgrunnur hefði gjarnan mátt vera ítarlegri. T. d. hefði verið fróðlegt að fá einhverjar áætlanir um tölu handtekinna og drepinna. Svo virðist sem ógnarstjórn Stalíns hafi orðið sjálfvirk vítisvél, þar sem fólk var handtekið af handahófi. Þetta væri þá svipað ferli og í galdraofsóknunum fyrir þremur öldum. Enda bætti ekki úr skák í Sovétríkjunum, að leynilögreglan fékk kvóta til að uppfylla, líkt og verksmiðjurnar! - og var auðvitað mjög grunsamlegt, ef færri voru handteknir í tilteknu héraði en öðru. Löngu áður en Gerska ævintýrið birtist, 1939, höfðu verið afhjúpaðar fáránlegar lygar í ýmsum játningum í Moskvuréttarhöldunum 1936-8. T.d. játaði einn maður að hafa hitt son Trotskís á tilteknu hóteli í Kaupmannahöfn. Blaðið Socialdemkraten upplýsti að hótelið hefði brunnið til grunna árið 1918, hálfum öðrum áratug fyrir umræddan samsærisfund. Eftir viku vandræðalega þögn í Moskvu, kom ný játning, fundurinn hafði vissulega ekki verið í þessu löngu brunna hóteli, heldur í samnefndri sælgætisbúð, Bristol, “alræmdu samsærisbæli trotskista”. Gátu samsærismenn þá ekki fundið sér hentugri stað?! Margt fleira af þessu tagi var afhjúpað í blöðum. Halldór Laxness var sífellt á ferðum erlendis, og las heimsblöðin, hann hafði greiðan aðgang að þessum upplýsingum, sem venjulegir íslenskir kommúnistar höfðu ekki, t.d. var umfjöllun íslenskra blaða um Moskvuréttarhöldin mjög yfirborðsleg, oftast bara örstutt fréttaskeyti frá Reuter. En HKL var áreiðanlega sannfærður stalínisti fram yfir miðjan aldur. Svo seint sem 1955, á ferð um Tékkóslóvakíu, taldi hann þjóðfélagsádeilu óþarfa þar, því landið væri að þróast til sósíalisma, valda alþýðu (Hannes III, bls. 125). Og þetta var rétt eftir Slansky-réttarhöldin, þar sem margir helstu valdamenn landsins voru hengdir fyrir landráð, að ótöldum öðrum stjórnmálamönnum og venjulegum borgurum í þessari ógnarstjórn, sem var bergmál frá ógnaröldinni í Sovétríkjunum á fjórða áratug aldarinnar.
Nú, en HKL var löngu búinn að gera upp við þessa villu sína sjálfur. Þessi stjórnmálaafskipti hans voru sannarlega ekki til að bæta eigin hag, öðru nær, hann galt þeirra margvíslega, svo sem rakið er í báðum ævisögunum. Hann gerði þetta af samúð með alþýðu, og löngun til að létta baráttu hennar gegn kúgun og misrétti, ennfremur skal haft hugfast að hann var ekki fyrst og fremst stjórnmálamaður, heldur sagnaskáld, og ber að meta sem slíkan. Hver lætur t. d. skáldsögur Hamsun eða frakkans Céline gjalda nasisma höfundanna?
Það er eðlilegt að þessar ævisögur báðar séu í tímaröð. Stundum hefði þó verið æskilegt að fá yfirlit um einstaka þætti. Hvað eftir annað kemur Hannes að útlánstölum bókasafna, þar sem Guðrún frá Lundi var tíðari en HKL. En þetta hefði að sjálfsögðu átt að bera saman við tölur um bóksölu, fólk fær ekki lánaðar bækur sem það á, og mig meir en grunar að bækur HKL hafi verið miklu söluhærri en Guðrúnar. En auðvitað eru þetta upplýsingar um stéttaskiptingu í íslenskri menningu. Og hér hefði endilega þurft til samanburðar upplýsingar um bókaútlán nú á dögum, þó ekki væri nema þessara tveggja höfunda. Enn grunar mig að Guðrún sé næsta horfin af því sviði.
Oft rekur Hannes hve framúrskarandi tónlistarmenn Menningartengsl Íslands og Ráðstjórnarríkjanna fengu til Íslands á seinni hluta 20 aldar. Hér hefði þurft samanburð, hvaða aðrir erlendir tónlistarmenn komu til Íslands á þessum tíma. Grunur vaknar um að MÍR hafi verið einstaklega mikilvægt fyrir íslenska menningu á þessu sviði, en úttekt vantar.
Í báðum ævisögum er sú mynd gefin, að HKL hafi verið véfréttarlegur, ef ekki tilgerðarlegur á efri árum. En mér er ljúft að votta, að hann gat líka verið hreinn og beinn, skilmerkilegur og greinargóður, svo sem í löngu viðtali við mig (birt í Mbl. feb. 1982). Þar sagðist hann hafa lítinn áhuga á staðreyndum, þ.e. á almennt viðurkenndri túlkun fyrirbæra, hann var of mikið skáld til að binda sig við slíkt. Mörg dæmi hafa menn séð um augljósar missagnir hjá honum, fyrr og síðar, og koma ýmis fram í þessum ævisögum báðum. Sumt virðist þó rangtúlkun. Þar mætti nefna, að Halldór spyr Erlend í Unuhúsi á þeirra fyrsta fundi, hvort Stefán frá Hvítadal sé skáld. (HannesI, bls. 107). Og þetta á að vera ári eftir að bók Stefáns birtist, sem vakti athygli, enda nýstárleg, og um hana skrifaði ítarlegan ritdóm – og neikvæðan! – Guðmundur Hagalín, nánasti vinur Halldórs á þeim tíma. Sífellt voru Halldór og vinir hans að ræða skáldskap. Það er óhugsandi annað en Halldór hafi kynnst ljóðum Stefáns fljótlega eftir að bók hans birtist, 1918. Hafi hann sagt þetta við Erlend, sýnir það ekki ókunnugleika á ljóðum Stefáns, heldur efasemdir um gæði þeirra, rétt eins og vinur hans Hagalín lét í ljós.
Einkum verð ég þó að mótmæla túlkun Hólmsteins (III, bls. 469) á Íslandsklukkunni: “Allir Danir sögunnar eru illmenni og fantar”. Smáumhugsun lesenda leiðir í ljós, að andstæður sögunnar eru milli geðþekks alþýðufólks annarsvegar, og yfirstéttar allra landa hinsvegar, hún er sýnd sem bófar eða bjánar. Einna svörtust er myndin af íslenskri yfirstétt, og það sýnir hugrekki Halldórs og sjálfstæði að ganga þannig gegn þeirri almennu þjóðernisstefnu sem ríkti þegar bókin birtist, en það var á árunum um lýðveldisstofnun, 1943-6. Túlkun Hólmsteins hefur svosem sést víðar, en er stórvilla.
Enda þótt Hannes hafi miklu meira um rit HKL en HG, fjallar hann ekki ýkjamikið um efnistök í þeim. Hann rekur söguþráð sagnanna í stuttu máli, gerir nokkra grein fyrir helstu persónum, einkum andstæðum þeirra, og fyrirmyndum í þjóðlífi og bókum. Þar er margt hnýsilegt, einkum dáist ég að því hve fundvís Hannes hefur verið á gamlar kjaftasögur um fyrirmyndir ýmissa sögupersóna HKL, það hefur ekki allt verið tiltækt á prenti. Einnig er mjög rækileg greinargerð fyrir viðbrögðum margs fólks við ritum HKL. Það var fróðlegt að sjá, enda þótt sumt sé ansi rislágt. Mér kom mest á óvart að sjá ummæli Sigurðar Nordal, sem taldi Hagalín fremri skáldsagnahöfund en HKL (III, bls.416), og dæmdi sögur þess síðarnefnda eftir einskonar siðferðilegum mælikvarða (s.r., bls. 85-6). Það væri gallinn við Gerplu, að HKL elskaði ekki frið, heldur hataði bara stríð! En ekki er risið hærra á bókmenntamati ýmissa félagsmanna sænsku akademíunnar. Hannes á þökk skilda fyrir að afhjúpa lágkúruna í þeirri sveit. Og síst hefur hún lagast, fyrir skömmu sagði maður sig úr henni til að þurfa ekki að veita Harold Pinter verðlaunin, hann væri óverðugur Nóbelsverðlauna, vegna stjórnmálaafstöðu sinnar!
Það er mismunandi hvernig rithöfundar fá innblástur. Ég þekkti danska skáldkonu, sem hafði einangrað sig á sveitasetri, skv. miðstéttarhugsjón, en uppgötvaði svo að hún gat ekki lengur skrifað, fyrr en hún fór inn til stórborgarinnar og þvældist um í strætisvögnum liðlangan daginn til að hlera samtöl ókunnugs fólks. Það kveikti ímyndunarafl hennar, en ekki hitt, að horfa á gras og tré. Franska sagnaskáldið Balzac fékk innblástur þegar hann sá prófarkir að skáldsögum sínum, sem gjörbreyttust þá. Og Halldór Laxness varð innblásinn af bókmenntaverkum annarra, hann virðist hafa hugsað, “þetta mætti nú gera betur”. En mér finnst mjög ósanngjarnt að segja þessvegna eins og Guðbergur Bergsson gerði hér í tímaritinu Þjóðmál, að HKL hafi stolið frá öðrum höfundum. Því útkoma hans varð jafnan miklu betri en fyrirmyndin! Auðvitað er ekki bara um eina heimild hans að ræða, en berið saman Halla og heiðarbýlið eftir Jón Trausta og Sjálfstætt fólk; dagbækur Magnúsar Hjaltasonar og Heimsljós, Æfisögu sr. Árna eftir Þórberg og Kristnihald undir jökli, og svo mætti lengi telja.
Það skortir mest á í þessum ævisögum báðum, að kanna efnistök, og sýna hvernig HKL aðgreindist frá öðrum íslenskum höfundum. Bæði HG og Hannes vitna í ljóð Halldórs sem heimild um hugarástand hans á yrkistíma. Þannig tekur t.d. Hannes ljóð HKL á dönsku, sem hann orti á Borgundarhólmi 1922 sem vitnisburð um þunglyndi (I, bls. 200). En þetta eru augljósar stælingar á ljóðum Heinrich Heine um ástarsorg, sem Schubert og Schumann höfðu gert sönglög við, og Halldór sungið (sbr. I, bls. 175). Hann birti líka þýðingu sína á ljóði eftir Heine skömmu síðar (í tímaritinu Óðni, 1924, bls. 40).
Fjarstæðukenndastur virðist þessi einfaldi lestur þegar kemur að ljóðum HKL frá seinna hluta 3. áratugsins, þar sem röklegur skilningur virðist útilokaður, svo sem ég rakti í bók minni Kóralforspil hafsins (bls. 47 o.áfr.). - Það sagði HKL líka sjálfur í formála Unglingsins í skóginum (Eimreiðin 1925, bls. 70), “Expressíónístískum skáldskap er fremur ætlað að valda hughrifum fyrir hreims sakir og hljómrænnar notkunar orða en hins, að gefa einhverja eina rétta efnislausn.” HKL innleiddi expressjónisma í íslenska ljóðagerð um 1922, með sínum alkunnu stílrofum (“og kýrnar leika við hvern sinn fingur” o.fl. þ.h.). Hann herti svo mikið á upp úr miðjum þeim áratug, því þá yrkir hann surrealískt, með því að tengja ósamræmanlega hluti, svo orðasambandið verður óskiljanlegt röklega, t.d.:”Þú græddir upp ljóðastraums gullmörk/ með göllum á freraslóð” (Borodin). Í tv. bók minni leiddi ég rök að því að stílrof expressjón­ískra ljóða Laxness hafi þróast áfram í megineinkenni sagna hans, þar sem eru stílandstæður sögumanns gegn sögupersónum. HKL hefur oft verið kallarður raunsæisskáld, m.a. af HG (með nokkrum fyrirvara þó, bls. 373) , rétt eins og hann væri af sama tagi og t.d. Jón Trausti. Þetta orð, “realisti” notuðu raunar margir um Laxness fyrir hálfri öld, ungverski bókmenntafræðingurinn Georg Lukács, sænski kollega hans Peter Hallberg, og raunar stundum Laxness sjálfur. En það sannar ekki neitt! Lukács var (réttilega) að aðgreina Laxness frá sósíalrealisma, en hefði hann orðað Laxness við módernisma (enn réttilegar!) þá hefði það verið alger fordæm­ing meðal stalínista svo sem Lukács. Raunsæisstefna birtist einkum í því að skapa sannfærandi persónur við aðstæður sem lesendum finnst trúanlegar. En síðan þróast sagan eðlilega út frá þessum forsendum, helst á máli sem lesendum er tamt. Sögur Halldórs Laxness eru gerólíkar þessu. Þegar vegna þess að persónur hans eru yfirleitt goðsagnakenndar, ýktar, ýmist göfgaðar eða öfgafullar skrípamyndir, eins og margir hafa bent á, jafnvel Hallberg, sem þó kallar hann raunsæisskáld.
Hannes tekur skæting Þórbergs um stíl Halldórs – “Hriflingabjargastílinn” alvarlega (II, bls. 123-4): “Hann hrifsar til sín orð og orðasambönd héðan og þaðan og stillir þessu út í ritverkum sínum. En þessir [svo] útstillingar standa venjulega ekki í neinu lífrænu samhengi við umhverfi sitt, og hreppa stundum þær meðferðir að vera notaðir í skökkum merkingum, hvorttveggja vegna þess að þeir eru rapseri, sammenskrab en ekki lifandi gróður, sem dafnað hefur innra með höfundinum og samlagast sálarlíf [svo] hans eins og mælt mál. Hann skrifar íslensku eins og útlendingur, sem hefur lært málið á bók.”
Hér hefði mátt huga að andstæðu mati, sem ég sagði frá í doktorsriti mínu, Rauðu pennarnir (bls. 117-119), sem Hannesþo vitnar til. Þar er haft eftir Kristni E. Andréssyn, 1932 að Halldór “er oft eins og á þönum eftir afkáralegum orðum og skellir þeim þar sem honum sýnist, hvort sem þau eiga þar við eða ekki. Það fer náttúrlega ekki alltaf vel [....þannig] gerir skáldið lesandann ruglaðan, reiðan og æstan.” Og Sigurður Einarsson (síðar frá Holti), talaði 1930 um “djarfyrði Kiljans og galsa [...] orðin eru einatt furðu vel hreinsuð af ýmsum óþverra sem annars er vanur að loða við þau. Þau birtast okkur sem tákn nýrra hugmynda þótt gömul sé. En alt um það loðir svo mikið við þau af eldri keim, að það vekur undarlega, ertandi furðukend”.
Nú skiptir meginmáli, að þótt sögupersónur HKL séu ýktar sem áður segir, þá eru þær að því leyti raunsæislegar, að þær tala yfirleitt eðlilegt mál sinnar stéttar og umhverfis. En sögumaður er gerólíkur þeim, hann talar af yfirsýn menntaðs heimsmanns og málfari, hann talar um sögupersónur úr fjarlægð, og iðulega af háði, þar gætir þessara stílrofa. Um það sagði ég (tv. r., bls. 118):

“Hefði Halldór bara lýst íslensku sjávarþorpi frá sjónarmiði menntaðs heimsmanns, þá hefði útkoman orðið nær grein eða hugleiðingu en skáldskap. Hefði hann hinsvegar skrifað um það á þess eigin máli eingöngu (þannig má skilja tilvitnuð orð hans í Skáldatíma), þá hefði útkoman getað orðið raunsæislegur skáldskapur, en varla hefði hún bent neitt útfyrir þorpið, hugarheim þess. En Halldór fléttar þetta tvennt saman, þannig að útkoman verður raunsæ lýsing, sem sýnir, hvernig fólkið mótast af umhverfi sínu, en jafnframt verður þessi hversdagsleiki Íslendinga ekki sjálfsagður hlutur, heldur er gerður þeim framandi, dreginn í efa á mjög róttækan hátt. Þetta er meginatriði í skáldsögum Halldórs, og því eru þær raunveruleg byltingarverk.”

Þetta kallaði ég “tvíbentan stíl Halldórs Laxness” í doktorsriti mínu Rauðu pennarnir (1990, bls. 117-119). Fyrir áratug átaldi ég Þorleif Hauksson fyrir að gefa ekki gaum að þessu (í Íslensk stílfræði I). Hann lét sér á vissan hátt segjast, og skrifaði langt mál um þetta í Íslensk stílfræði 2, reyndar án þess að nefna umfjöllun mína. Sömu útreið fékk þar Matthías Sæmundsson varðandi Gunnar Gunnarsson. Þetta átaldi ég í Mogganum í fyrra, enda hefði umfjöllun Þorleifs getað orðið ólíkt skarpari ef hann hefði tekist á við fyrri umfjallanir, í stað þess að draga fjöður yfir hana, af því hlýst bara loðmullulegt “annars vegar –hinsvegar”. En nú hefur HG hefnt þessa, því hann nefnir aldrei 50 bls. umfjöllun Þorleifs um stíl Halldórs Laxness í ársgamalli bók! Þetta verður að kalla reginhneyksli. Og eina skýringin sem ég get séð á þessari vanrækslusynd er, að hefði HG vikið að umfjöllun Þorleifs, þá hefði hann ekki getað haldið sér við íhaldskreddu sína að kalla Halldór Laxness realista. En að líta hjá bókmenntalegum sérkennum hans, það er að gera minna úr honum en maklegt var.
Sem áður segir er mikill fengur að þessum ævisögum, þótt báðum sé stórlega ábótavant í umfjöllun um bókmenntaverk HKL, sem er þó meginatriðið í ævi hans. Eflaust mun flestum fróðleiksfúsum Íslendingum þykja rit Hannesar ótvíræður sigurvegari. En bók HG mun þegar vera að birtast erlendis, og þar mun rit Hólmsteins þykja of viðamikið.



Guðbergur Bergsson: Ævisögur Laxness Þjóðmál I, 2, bls. 40-42
Halldór Guðmundsson: Halldór Laxness. Rvík 2004, 775 bls.
Hannes Hólmsteinn Gissurarson: Halldór Kiljan Laxness. Rvík 2003-5, 1825 bls.
Hannes Hólmsteinn Gissurarson: Rannsóknarfrelsi, ritstuldur og viðurkennd fræðileg vinnubrögð. Saga 2005, 1, bls. 121-153 (svar við grein Helgu Kress):
Helga Kress: Meðal annarra orða. Um aðferðafræði og vinnubrögð við ritun ævisögu Halldórs Laxness. Saga XLII; 1, bls. 187-220 og 2; bls. 187-222.
Þorleifur Hauksson: Sagnalist. Íslensk stílfræði 2.
Örn Ólafsson: Rauðu pennarnir Rvík 1990
Örn Ólafsson: Kóralforspil hafsins. Rvík 1992.

Þjóðmál, sumar 2006

Engin ummæli: