þriðjudagur, 27. nóvember 2012

Einar Már Jónsson: Örlagaborgin Þetta er mikið rit, 540 bls. með heimildaskrá og nafnaskrá. Gott var að hafa þá síðarnefndu þegar hér, enda þótt þetta sé aðeins fyrra bindi tveggja. Vonandi kemur heildarnafnaskrá í lok síðara bindis. Ritið einkennist af mikilli þekkingu höfundar á ritum um mannkynssögu. Enn betra er þó hve laus hann er við örlagahyggju, að allt sé óhjákvæmilegt. Þar nýtist honum vel “andsaga”, eða hvað á að kalla “kontrafaktisk historie”. Sem sé hugleiðingar um hvað hefði gerst ef einhver hefði hagað sér öðruvísi en hann gerði. En þannig opnast augu manna fyrir sögulegum aðstæðum og öflum, og var það einkar sannfærandi um fyrri heimsstyrjöld, hversvegna hún varð svo löng og mannskæð. En mest er þó um vert það eljuverk Einars að lesa sig í gegnum rit frjálshyggjumanna, Adam Smith, Ricardo, Maltus og fleiri, og fjalla um þau af dómgreind og yfirsýn. Það gerir þetta verk svo mikils virði, að hann tætir í sundur rök þeirra og sýnir fram á þröngsýni þessarar stefnu. Sögulegt yfirlit um stéttabaráttuna gegn alþýðu, einkum á Bretlandi, er óhugnanlegt, en rekur vel hvert frjálshyggjan leiðir. Enn einn mesti kostur ritsins er hve vel það er skrifað, fyndið og vel orðað. Það grípur lesendur, ég las það í striklotu frá mánudagskvöldi til fimmtudagsmorguns, 500 bls. Sérstakur kostur er einnig hve vel ritið tengist íslenskri sögu og menningu. Ekki bara með góðum þýðingum á erlendum ritum, heldur einnig með að draga fram þýðingar Jóns Þorlákssonar á Bægisá, kvæði Stefáns G. og Auðfræði Arnljóts. Þetta grípur íslenska lesendur. Það má þykja merkilegt að tvö mikil rit gegn frjálshyggju skyldu birtast á íslensku á sama ári, og á sama götuspotta! Ránargötu, rit Stefáns Snævars á horni hennar og Bræðraborgarstígs, en rit Einars Más út við Ægisgötu. Síðarnefnda ritið er laust við þá ágalla fljótfærni, vanhugsunar, sem finna má á riti Stefáns, en þessi rit varpa alls ekki skugga hvort á annað. Þvert á móti styrkja þau hvort annað, eru sem samstillt sókn. Semsagt, ég þakka góða bók, og heiti á móti að senda þér bók mína Guðbergur, þegar hún birtist síðar á þessu ári. Þar er líka vitnað í gott vital þitt við Guðberg. Til bráðabirgða legg ég hér grein mína gegn Helgu Kress og fleiri bókstafstrúarmönnum, hún birtist í Mogganum (zzz), en þar varð ég þó að sleppa dæminu um grátljóð, vegna rýmis. 23.8.2012

Engin ummæli: