þriðjudagur, 27. nóvember 2012

Sósíalíski lýðflokkurinn danski Þessi flokkur (SF) hélt ársfund sinn nú um helgina. Hann var stofnaður fyrir rúmri hálfri öld, þegar forysta danska kommúnistflokksins ætlaði að reka formanninn úr honum, Aksel Larsen. En hann varð fyrri til, sagði sig úr flokkinum og stofnaði þennan. Sá óx hratt, en kommúnistaflokkurinn skrapp saman, við innrás rússa í Ungverjaland, síðar í Tékkóslóvakíu, og við önnur áföll, alltaf stóð danski kommúnistaflokkurinn með “föðurlandi sósíalismans” og varð æ minni. Sósíalíski lýðflokkurinn minnir mikið á Alþýðubandalagið íslenska. Sósíalisma átti að koma á smám saman. Ég man að Einar Olgeirsson sagði svo ég heyrði til: “Ríkið á bankana og ýmis stórfyrirtæki, sósíalistar þurfa bara að ná þingmeirihluta, og þjóðnýta síðan svolítið meira. Þá er sósíalismi kominn”. Nærri má geta að eftir þessu höfði dönsuðu limirnir. En það fór nú á annan veg, Íhald, Framsókn og kratar skipuðu bankaráð, sem skipuðu bankastjóra. Til að fá lán í bönkum þurftu menn að hafa flokksskilrikin í lagi og hafa borgað í viðeigandi flokkssjóð. Sama gilti um verktaka hjá Reykjavíkurborg og herstöðinni, stöður hjá hinu opinbera, o.s.frv., spillingin var almenn og þótti sjálfsögð. Með öðrum orðum, ríkisrekstur í auðvaldskerfi gerir ríkjandi stjórnmálaflokka að mafíu. SF hefur á undanförnum árum gagnrýnt sósíaldemókrata frá vinstri, en gekk svo í bandalag með þeim fyrir ári, og stefndi að ríkisstjórnarmyndun með þeim. Flokkurinn mældist með 6% fylgi þegar núverandi formaður, Villy Søvndal, tók við, en var í stöðugri sókn og fór þegar fyrir þremur árum yfir 20% atkvæða í skoðanakönnunum, ívið meira en helsti stjórnarflokkurinn, Venstre. Nú átti SF að draga krata til vinstri, í samstarfinu. En í staðinn þurfti hann að slaka til við krata, til að samstarfið héldist. SF tapaði stöðugt fylgi á því, og beið afhroð í kosningunum. Stjórnarmyndun tókst svo við þingkosningar fyrir hálfu ári, en til þingmeirihluta þurfti þá einnig að hafa með “róttæka vinstriflokkinn” svokallaða, RV, en hann er borgaralegur flokkur, sem vill hygla fyrirtækjum á kostnað almennings. Þetta hefur orðið stefna ríkisstjórnarinnar, og eiga margir erfitt með að sjá hvernig núverandi ríkisstjórn ætti að aðgreinast frá þeirri fyrri. Hún hefur að vísu framkvæmt um helming kosningaloforða sinna á einungis hálfu ári, en það voru auðveldar ráðstafanir, svo sem að hækka afgjöld á óhollustu – áfengi, tóbaki og sætindum. Eftir eru erfiðu málin. Núverandi ríkisstjórn fylgir ákvörðunum fyrri stjórnar, að afnema eftirlaun, stytta tímabil atvinnuleysisbóta og segja upp fjölda manns hjá sjúkrahúsum, söfnum, skólum, vistheimilum, almennt hjá ríki og sveitarfélögum, þ.e. gera opinbera þjónustu mun verri. SF hafði þá stefnu að setja sérstakan skatt á fjármagnsflutninga, svokallaðan Tobinskatt. Hann yrði lágur, kannski 0,1% en gæti í senn orðið hemill á fjárglæfra þá sem orðið hafa svo dýrkeyptir mörgum, og þó um leið umtalsverð tekjulind fyrir Evrópusambandið. Einnig vildi SF leggja sérstakan skatt á milljónamæringa, sem ættu þannig að greiða fyrir almenningsvelferð frekar en að skera hana niður. Sömuleiðis ætti að skattleggja eigendur húsnæðis sem grætt hafa ótæpilega á “húsnæðisbólunni” alþjóðlegu, að verð fasteigna rauk upp, svo eigendur gátu tekið lán út á eign umfram skuldir, en vextir hafa verið og eru einstaklega lágir. Allt þetta hindraði stjórnarflokkurinn RV, jafnvel á ráðstefnu fjármálaráðherra Evrópusambandsins hindraði hann Tobinskatt. Aldrei þessu vant stóð nú hörð kosningabarátta um varaformannssætið undanfarinn mánuð. Sigurvegari varð skjólstæðingur formanns, ungur múrari, Mathias Tesfaye, hann hafði áður verið í Enhedslisten og þar áður í maóísku flokksbroti. Hann bauð sig fram undir því kjörorði að SF ætti að vera verklýðsflokkur fyrst og fremst, en hugsa síður um jaðrað fólk svo sem flóttamenn, bæklaða, atvinnulausa, aldraða o.þ.u.l. Ekki nóg með það, síðustu vikur boðaði hann að ríkisvaldið ætti að hætta stuðningi við óperur og konunglega leikhúsið, en styðja í staðinn fótboltaleiki, því “það er það sem fólkið vill”. Er þá endurrisinn Rindalisminn svokallaði, að hefja alþýðusmekk í auðvaldsríki til vegs og virðingar, því hann sé það sem koma skal, og eitt er heilbrigt. En Karl Marx og fylgismenn hans hafa alla tíð bent á að ríkjandi hugarfar í stéttaþjóðfélagi sé að viðhalda stéttaþjóðfélaginu. Það hugarfar drottni einnig með alþýðunni, svo þegar núverandi smekkur hennar og viðhorf séu höfð til öndvegis, þá sé bara verið að binda hana á bás auðvaldsins. En þetta er svo sem ekki fyrsta sinni að hægri stefna er réttlætt með yfirborði alþýðleika, nægir að minna á danska lýðflokkinn (Dansk folkeparti). SF getur ekki sett ráðstafanir ríkisstjórnarinnar fram sem ósigra sína, málamiðlanir. Vegna stjórnarþáttöku sinnar leiðist flokkurinn til að setja þær fram sem sigra sína, annars hlyti fólk að spyrja til hvers flokkurinn væri í ríkisstjórn. – Þetta benti Rósa Lúxembúrg á fyrir rúmri öld! – þegar sósíalisti tók fyrst sæti í borgaralegri ríkisstjórn, en það var í Frakklandi 1899. Útkoman verður alger ringulreið um stefnu SF, og af því leiðir stefnuleysi flokksins. SF getur ekki einu sinni hætt þátttöku í ríkisstjórninni vegna stefnuágreinings. Því hvað tæki þá við? Flokkurinn færi ekki að fella þessa ríkisstjórn til að koma íhaldsflokkunum aftur í ríkisstjórn. SF er fast í gildrunni. Aftur á móti hvessir Enhedslisten sig og segir að ef þessi ríkisstjórn skeri niður almannavelferð í samstarfi við borgaraflokkana, þá geti hún ekki reiknað með að EL samþykki fjárlög. Þá felli ríkisstjórnin sig sjálfa. SF hafði lengi stefnt að því að komast í ríkisstjórn, því þannig hefði flokkurinn áhrif. En það er mesti misskilningur. Ríkisstjórn auðvaldsríkis verður að “halda hjólum atvinnulífsins í gangi” – eins og það atvinnulíf nú er. Minnast má þess að fyrir þremur áratugum gafst kratinn Anker Jørgensen upp fyrir efnahagsvanda ríkisins, skuldir þess erlendis voru orðnar gífurlegar, þessi forsætisráðherra sagðist standa á brún hyldýpis. Samsteypustjórn undir forystu íhaldsformannsins Poul Schluter tók við, og hugði á hressilega kjaraskerðingu almennings. Verkalýðssamtökin taka slíku jafnan mótmælalítið og andstöðulaust þegar kratar eru í ríkisstjórn. En nú risu þau til andstöðu árum saman, og ríkisstjórnin komst ekki nálægt því eins langt og hún vildi. Þannig getur stjórnarandstaða orðið miklu árangursríkari en stjórnarþáttaka. SF er nú aftur komið niður í 6% fylgi eins og þegar Willy Søvndal tók við formennsku. Mikil andstaða er í flokkinum við forystu hans, þótt henni tækist að hafa hemil á landsfundinum um helgina. Og ekki fæ ég séð neina lausn á vandræðum flokksins, honum blæðir stöðugt út til Enhedslisten, sem nú mælist með mun meira fylgi en í kosningunum. 17.4.2012

Engin ummæli: