þriðjudagur, 27. nóvember 2012

Beðið um einræði Nýlega skrifaði ungt ljóðskáld grein hér í Moggann og óskaði þess að búa við einræði. Honum nægði þó ekki að óska þess sér til handa (hann hefði getað flust til Sádí-Arabíu eða eitthvað) heldur vildi leiða þetta yfir alla íslensku þjóðina. Þetta var skömmu fyrir fall Gaddafis, sem nú hefur reynst vera ríkasti maður heims, fjórfalt ríkari en Bill Gates. Og þá mesti þjófur heims. Það er alveg eins og við mátti búast. Einræði hefur nefnilega ævinlega í för með sér spillingu, því þá er ekkert eftirlit með valdhöfum. Þessum greinarhöfundi hefði nú verið nær að minnast helstu fjöldamorðingja 20. aldar, einræðisherranna Stalíns, Hitlers, Mússólíni og Francos. Varla var hann að biðja um stjórnarfar í stíl þeirra, þótt hann ekki útskýrði hvernig einræði ætti að varast það. En jafnvel friðsamari einræðisherrar eins og Danakonungar hér fyrrum á Íslandi, eða aðrir konungar á öldum áður báru með sér spillingu sem var alveg opinská og kerfisbundin. Þeim sem einræðis óska væri lítandi í Íslandssögu, ef ekki mannkynssögu, allar stöður voru veittar gæðingum ráðamanna, og allir þessir ráðamenn notuðu stöður sínar til að maka krókinn. Ljóðskáldið talar eins og barn sem biður um strangan pabba sem taki að sér stjórninga. En það er ekki eitt um þessa stefnu. Hún liggur í því þegar menn þusa um “fjórflokkinn” eins og enginn munur væri á helstu stjórnmálaflokkum. Má þó hvert mannsbarn vita að þeir eru ósammála um kvótakerfið í fiskveiðum, hvort Ísland eigi að ganga í Evrópusambandið, og hvort greiða skuli Ísbjörgu, eða þá hvernig. Eru þetta ekki helstu deilumál Íslendinga núna? Hvernig geta menn þá látið eins og þessi ágreiningur skipti ekki máli? Svar sumra er að óháð því eigi atvinnustjórnmálamenn allra flokka það sameiginlegt að sækjast eftir völdum. Ja, þó það nú væri! Í því felst alls ekki að þeir séu allir bara að tryggja afkomu sína. En til að berjast fyrir stefnumálum verða atvinnustjórnmálamenn að sækjast eftir völdum og tryggja þau. Það ætti hvert mannsbarn að geta skilið. Vissulega er þingræði ekki trygging fyrir góðu stjórnarfari. Það sýndi sig í Hruninu íslenska, atvinnustjórnmálamenn sem hefðu átt að hafa vit á efnahagslífinu, brugðust gersamlega. Þeir einkavæddu helstu banka, sem svo lánuðu eigendum sínum innistæður almennings, þeir lækkuðu bindiskyldu þeirra og lömuðu Fjármálaeftirlitið, þeir létu óreiðumenn vaða uppi alþjóðlega og setja íslensku þjóðina á hausinn. Mun skömm þessarra stjórnmálamanna uppi jafnlengi nafni þeirra. En lausnin er sannarlega ekki að afnema þingræði, heldur þvert á móti að efla umræður um stjórnmál, auka þátttöku almennings í þeim. Hvað vilja þeir sem um “fjórflokkinn” þusa? Halda þeir að Hreyfingin eða Borgaraframboðið sé eitthvað öðruvísi? Ef þeir vilja afnema þingræði, hvað á þá að koma í staðinn? Einhverskonar Mússólíni? Nógir munu frambjóðendur í starfið sem bíða eftir kalli ósjálfstæðra. Mbl. 26.10.2011

Engin ummæli: