þriðjudagur, 27. nóvember 2012

Bókagerð í hnignun Svefninn langi 1987 (The big Sleep, 1939) eftir Raymond Chandler (1888-1959) er einhver frægasti reyfari heimsbókmenntanna, sígildur í dulúð og spennu. Aðalpersónan er einkaleynilögreglumaður, Philip Marlowe, eins og jafnan í sögum Chandlers. Hann hefur verið kallaður riddari á hvítum hesti, því þótt hann sé drykkfelldur og kaldhæðinn, reynist hann vera óeigingjarn, ekki síst í samskiptum sínum við konur. Hann er líka heiðarlegur og sjálfstæður, stenst allar mútutilraunir, hvort sem það er tilboð um fé eða kynlíf með fögrum konum. Myndrænar lýsingar staða og persóna eru meðal kosta verka Chandlers, og staðsetja þau kyrfilega í því sem lesendur kannast við. En dulúðin gerir þennan hversdagsleika spennandi. Fléttan er flókin, því margvíslegar persónur sækjast eftir hver sínu takmarki, og takast á. En aðalpersónan sér smámsaman í gegnum þessa flækju með hlutlægri athygli og sjálfstæðri hugsun, og leiðir þannig lesendur í gegnum myrkviðinn. Guðbergur Bergsson þýddi þetta verkaf nákvæmni og smekkvísi, það varð með fyrstu bókum í kiljuklúbbi Máls og menningar, 1987. Ég hafði áður lesið allar bækur Chandlers, en las þessa íslensku þýðingu fyrst nýlega. Og ég hefi aldrei séð bók sem var eins hraklega illa útgefin. Að minnsta kosti fjórum sinnum eru langir kaflar (8-12 línur) endurteknir (bls. 200, 208, 216, 224), hinsvegar vantar í textann (bls. 194, 201, 210, 218). Ekki sá ég að neinn ritdómur hefði birst um bókina, og spurði Forlagið hvort einhver hefði bent á þessa galla og úr þeim hefði verið bætt. En ég fékk svarið (í tölvupósti 11.2.2012): “Nei, mér vitanlega hefur þessi bók ekki verið prentuð eftir 1987. Og því miður er mér ekki kunnugt um ritdóma um hana.” Líklegasta skýringin á þessum óförum virtist mér vera að þetta var áður en höfundar og þýðendur fóru að skila texta sínum tölvusettum til útgefenda. Einar Kárason sagði í mín eyru ári áður að hann semdi allar sínar sögur með blýanti á pappír, og skilaði þannig til útgefanda, því of mikil vinna væri að vélrita eftir á eða tölvusetja, og sú vinna væri ekki borguð. Ég held að Rithöfundasamband Íslands hafi skömmu síðar (undir formennsku Einars) krafist aukagreiðslu til höfunda ef þeir skiluðu verki sínu á tölvutæku formi. Hvort sem Guðbergur svo hefur skilað handriti eða vélriti, þá giskaði ég á að hann hefði verið erlendis þegar bókin var sett. Setjarinn hefði flýtt sér – um of – og útgefandinn, Mál og menning, greinilega sparað sér prófarkalestur á þessum nýja bókaflokki, kiljum. En svo spurði ég Guðberg um þetta, og fékk þetta svar (í tölvupósti 13.2.2012): um Chandler er það að segja að ég sendi inn lauslega þýðingu í von um að MM hefði áhuga á útgáfu, en fékk ekkert svar. Þegar ég leitaði eftir því sögði þeir, tveir þekktir menn hjá MM, að bókin væri komin í prentun, yfirfarin af sérfræðingum. Mig langaði að sjá einhvers konar próförk og þá sá ég að þetta var öfugsnúið. Þeir sögðu að það gæti ekki verið vegna þess að sérfræðingar hefðu farið vandlega yfir þetta allt með orðabók yfir slang. Bókin var prentuð. Ég fékk ekki að breyta neinu. Bókin fór á markað, ég bað ekki um eintök og hef aldrei séð hana. Útkoman varð þetta eftirminnilega hneyksli, sem því miður er ekkert einsdæmi. Sigurður Hróarsson gerði kandidatsritgerð í íslenskum fræðum við Háskóla Íslands, ”Eina jörð veit ég eystra” Halldór Laxness og Sovétríkin, 1986, um Sovétferðabækur Halldórs Laxness, en þær eru tvær, Í austurvegi, 1933, og Gerska ævintýrið, 1938. Sigurður sagði í mín eyru að hann hefði látið þetta alveg frá sér til forlagsins, Almenna bókafélagsins. Það gaf ritið út í kilju, og hefur líklega talið það ástæðu til að spara sér prófarkalestur. Því þessi bók er sennilega Íslandsmet í prentvillufjölda, og þótt það væri átalið á prenti (af mér í DV, 7.1.1987), þá bætti forlagið aldrei úr því. Verra er þó ástandið nú orðið. Alþjóðleg forlög krefjast þess að bókahandrit sem þau taka til útgáfu séu ekki aðeins tölvusett, heldur einnig í pdf-formi. En það merkir að ritið sé bæði prófarkalesið og umbrotið af höfundar hálfu, þ.e. efninu skipað niður á blaðsíður. Íslensk forlög eru ekki svona kröfuhörð, bæði Forlagið og Bjartur taka við útprentuðum handritum til skoðunar og prófarkalesturs, en Bjartur vill þó frekar pdf-skjöl. Endanleg útgáfa byggist svo auðvitað á tölvusetningu höfundar, leiðréttri. Höfundur getur ekki séð um prófarkalestur, hann sér ekki hvað stendur á tilteknum stað, því hann veit hvað þar á að standa, og sér varla annað. Það get ég borið um af eigin (sárri!) reynslu. Þessi krafa erlendis um frágengið, umbrotið handrit bitnaði til dæmis á nýlegu heimspekiriti Stefáns Snævars um líkingar og sögur (Stefán Snævarr: Metaphors, Narratives, Emotions. Their Interplay and Impact. (Consciousness. Literature & the Arts, 24). Rodopi, Amsterdam – New York 2010, 398 bls.). Stefán þakkar enskumælandi manni fyrir endurbætur á sínum enska texta, en þær þakkir eru næsta óverðskuldaðar, því hér er óvenjumikið um að orð vanti, þau séu rangt stafsett og fleira, um hundrað villur taldi ég. Yfirleitt má lesa í málið, en stundum verður það óskiljanlegt. Enn fremur verður að átelja þá alþjóðlegu tísku, sem birtist bæði í tilvitnuðu riti Sigurðar Hróarssonar og t.d. doktorsriti Sverris Tómassonar (Formálar íslenskra sagnaritara á miðöldum, Rvík 1988), auk t.d. rits danans Jørgen Dines Johansen Novelleteori efter 1945, en þeir birta tilvitnanir óþýddar á frummálinu. Þannig þurfa lesendur auk þess að kunna tungumál bókarinnar að vera vel að sér í ensku, þýsku og frönsku, ef ekki latínu. Með þessu lokar höfundur riti sínu fyrir skilning fjölmargra. Mér finnst þetta röng stefna, þegar fræðimaður hefur valið bút úr riti í tilvitnun, á hann að fara alla leið, “ljúka matreiðslu” og þýða þennan bút sem hann tekur í rit sitt, og gera þannig aðgengilegt innlendum lesendum. En neðanmáls ber að hafa frumtextann, skipti orðalag máli. Þar að auki mora þessar erlendu tilvitnanir hjá t. d. Sigurði og Dines Johansen í prentvillum. Þótt ástandið sé ekki eins slæmt á Íslandi og erlendis, held ég að höfundar verði að bindast samtökum um að verjast alþjóðlegri “þróun” og krefjast ævinlega prófarkalesturs utanaðkomandi, auk þess að líta jafnan sjálfir á lokapróförk. Annars er hætt við því að allt þeirra – og annarra – mikla verk verði unnið fyrir gíg. 2.4.2012

Engin ummæli: