þriðjudagur, 27. nóvember 2012

Straumhvörf dönsku ríkisstjórnarinnar Nú í maílok lagði danska ríkisstjórnin fram frumvarp um breytingar á skattalögum. Þær eru margháttaðar. Ríkasta fólkið á að fá minna í ellilaun og barnabætur, sem hingað til hafa verið jöfn til allra. Mun meiri athygli vekja þó aðrar breytingar. Svokallaður toppskattur var 15% á tekjur yfir 409.000 danskar krónur árlega, en þetta þrep hækkar nú um 58.000 krónur, í 467.000 krónur, svo fjórðungur milljónar dana losna við þann skatt. Og hvernig á að fjármagna þetta? Með því að lækka atvinnuleysisbætur og félagsaðstoð til öryrkja, ellilífeyrisþega og því um líkt, um þrjá milljarða danskra króna árlega, þannig að þær fylgi hækkunum verðlags frekar en launahækkunum. Sagt er að þetta fólk muni halda kaupmætti sínum, en reiknað hefur verið út að það missi að meðaltali 13.000 danskar krónur árlega. Réttlæting ríkisstjórnarinnar er að það eigi að borga sig að vinna, frekar en að lifa á bótum og styrkjum. Þetta stenst ekki með nokkru móti. Atvinnuleysisbætur eru mest 60% launa, svo tekjuskerðingin við atvinnumissi er mikil, 40%. Hver kysi það? Fjöldi manns hefur beðið um skýringu á því hvernig þessi tekjumissir hundruða þúsunda eigi að fá fleiri í vinnu – þegar atvinnulausir eru nær 200 þúsund manns! Ekki fæst svar við því. Þessar tillögur ganga þvert gegn kosningaloforðum krata og SF. Þegar íhaldsstjórnin þrengdi hag atvinnuleysingja og öryrkja fyrir ári, lofuðu vinstriflokkarnir að breyta þessu til fyrra horfs, um leið og þeir kæmust til valda. En nú ganga þessir flokkar lengra í kjaraskerðingum alþýðu en íhaldsstjórnin þorði. Þegar Søren Pind, þáverandi undirborgarstjóri íhaldsflokksins Venstre, boðaði þvílíka stefnu, réðst flokksbróðir hans, Anders Fogh Rasmussen forsætisráðherra á hann á flokksþingi, og sagði að slíkar bótaskerðingar kæmu ekki til greina. En nú leggur skattaráðherra SF þær fram! Þessar tillögur eru stríðsyfilýsing gegn stuðningsflokki ríkisstjórnarinnar, Einingu (Enhedslisten). Sá flokkur var stofnaður úr smáflokkum maóista, stalínista, trotskista og vinstrisinnaðra flippara fyrir tveimur áratugum. Hann komst á þing þegar SF féllst á Edinborgarsamkomulagið um aukin völd Evrópusambandsins. Lengi lá El við inngangstakmörkin í þjóðþingið, 2%. En flokkurinn þrefaldaði félagatölu sína, kjörfylgi og þingmannafjölda við kosningarnar nú í september síðastliðnum. Þetta sýndi sig á flokksþingi fyrir tveimur vikum, þar voru svo margir kjörnir fulltrúar, að gestir komust ekki inn. Margir blaðamenn voru þar þó, og væntu mikillar sundrungar milli byltingarsinna og fylgismanna hægfara umbóta sem kæmu nú frá SF. Slíkar andstæður eru vissulega í El, en flokksþingið gekk þó einróma gegn hægristefnu núverandi “rauðu” ríkisstjórnar, og hét því að greiða aldrei atkvæði með fjárlögum sem skertu hag alþýðu. Nú leggur El ofurkapp á að fá verkalýðshreyfinguna til að mótmæla áformum ríkisstjórnarinnar. En hún notar sér andstæður verkafólks í vinnu og atvinnuleysingja, elur á þeim andstæðum með þessum tillögum. Ríkisstjórnin vissi því vel að með þessum tillögum sínum myndi hún missa stuðning El, sem er þó nauðsynlegur til að fá fjárlög samþykkt. Þetta er nú ekki bara vegna þess að einn stjórnarflokkurinn, Radikale venstre, er borgaralegur flokkur, sem vill bæta hag fyrirtækja og auðmanna á kostnað almennings. Ég sé ekki betri skýringu á þessu en þá, að forsætisráðherrann, Helle Thorning Smith, er alltaf að tala um “breitt samkomulag, yfir miðjuna”. Og vissulega eru slíkar ráðstafanir líklegri til varanleika en þær sem knúðar eru fram með fárra atkvæða meirihluta, gegn harðri andstöðu. Á hinn bóginn mætti spyrja hvernig núverandi ríkisstjórn ætti að aðskilja sig frá íhaldsstjórninni áður. Ég sé ekki annan mun en þann, að krötum tekst að halda verkalýðshreyfingunni niðri gagnvart kjaraskerðingum sem íhaldsstjórnin annaðhvort þorði ekki að stinga upp á, eða gafst upp á vegna andstöðu verkalýðshreyfingarinnar. En með því að fæla El frá, hefur ríkisstjórnin ofurselt sig hægriflokkunum, hún á líf sitt undir þeim. Danski lýðflokkurinn hefur líka sagt að hann vilji gjarnan styðja ráðstafanir ríkisstjórnarinnar, en það kosti – ráðstafanir gegn innflytjendum. Lars Løkke Rasmussen, fyrrverandi forsætisráðherra íhaldsstjórnarinnar, heitir líka stuðningi við kjaraskerðingar núverandi stjórnar, en þá kosti það auknar skattalækkanir fyrirtækja og hátekjufólks. Fái ríkisstjórnin ekki fjárlagafrumvarp sitt samþykkt í haust, og EL ekki vill tryggja það, þá ræður Lars Løkke því hvenær núverandi ríkisstjórn fellur, og hann tekur við. Ég spái því að núverandi forsætisráðherra Dana fái eftir eins árs valdatíma viðurnefnið Helle klúður í Danmerkursögunni. Miklar sveiflur hafa orðið á kjörfylgi í Danmörku. Einkum hefur fylgi flust skyndilega milli Íhaldsflokksins og Radikale Venstre, enda erfitt að átta sig á blæbrigðum stefnu í örtröðinni á miðju danskra stjórnmála. Nýr flokkur, Ny Alliance, var stofnaður af þremur þingmönnum frá þessum flokkum fyrir fáeinum árum, og rauk þegar upp í 20% fylgi út á það eitt að vilja skerða áhrif Danska lýðflokksins (Dansk Folkeparti). En smámsaman kom í ljós að flokksstofnendum hafði láðst að ná samkomulagi um nokkuð annað. Hrundi flokkurinn svo niður í skoðanakönnunum, en náði samt 5 þingmönnum í eftirfarandi kosningum. En þeir fóru skjótlega hver í sína áttina. Eftir er Anders Samuelsen sem ásamt fleirum stofnaði annan flokk, Liberal Alliance, öfgaflokk nýfrjálshyggju, eins og nafnið bendir til. Hann fékk nær tug þingmanna í síðustu kosningum, mest óþekkt fólk. Þess er og skemmst að minnast hvernig SF rauk upp í skoðanakönnunum, úr 6% í 20% fyrir tveimur árum. En nú er sá flokkur aftur kominn í 6% og á leið niður. Verði kosningar bráðlega stefnir í afhroð fyrir stjórnarflokkana, krata og SF. Eitthvað af fylgi þeirra mun fara til Einingar, sem nú er spáð 15 þingmönnum í stað 12. Íhaldsflokkurinn beið afhroð í september, og hefur ekki vakið athygli síðan. Hann gæti hreinlega fallið út af þingi. En skoðanakannanir sýna að vonsvikið verkafólk snúist nú að Venstre – flokki auðmanna! Það yrði ekki í fyrsta sinn sem alþýðufólk – sem sér ekki aðra möguleika en núverandi ástand – kýs kúgara sína. Oft leiðir þetta hugarfar til rasisma, hvítt alþýðufólk heldur að hörundsdökkt alþýðufólk séu þess sönnu óvinir, frekar en auðherrarnir. Lausnin er einungis sú að sýna fólki fram á samhengi hlutanna undir auðvaldskerfi. 30.5.2012

Engin ummæli: