þriðjudagur, 27. nóvember 2012

Líkingar ákvarða hugsun Á 18. öld komu fram menn Upplýsingar. Þeir fylgdu skynsemishyggju sem blómstrað hafði á öldinni áður, og trúðu því að fengi fólk réttar upplýsingar um hvaðeina, myndi það taka skynsamlegar ákvarðanir. Þögul forsenda þessa viðhorfs var auðvitað að allt fólk myndi hugsa á sama hátt, hefði það sömu upplýsingar. Nú er alkunna að þetta er firra, fólk hefur mjög mismunandi forsendur, og dregur skynsamlegar ályktanir út frá þeim ólíku forsendum. Sumir telja að einstaklingar skapi allt sem einhvers sé vert, aðrir álíta að slík verðmæti verði til í samstarfi. Sumt fólk hefur alist upp við einræði og aga í fjölskyldunni, getur því oft ekki hugsað sér að taka sjálfstæðar ákvarðanir, heldur fylgir hvers kyns valdboði og er sælast með það. Annað fólk sem fékk svipað uppeldi rís upp gegn hverskyns valdboði. En fólk sem elst upp við að börnum sé sýnd virðing, talað um fyrir þeim með rökum fremur en með boðum og bönnum, það verður eðlilega sjálfstætt frá blautu barnsbeini, sýnir sjónarmiðum annarra virðingu, og vill að ákvarðanir séu teknar lýðræðislega um sameiginleg mál. Málspekingurinn George Lakoff hélt nýlega fyrirlestur í Kaupmannahafnarháskóla. Þar rakti hann að hægristefnan í Bandaríkjunum – og víðar – byggist einmitt á einveldisviðhorfum. Þegar Richard Nixon bauð sig fram til forseta 1960 og aftur 1968, þurfti hann að höfða til alþýðu, fá atkvæði verkafólks. Og til þess lagði hann áherslu á „fjölskyldugildi“ (family values). En það voru einmitt hefðbundnar fjölskyldur, þar sem fjölskyldufaðirinn réð öllu, og börnin voru alin upp við strangan aga og hlýðni, virðingu fyrir yfirvöldum og kirkju, gamaldags biblíutúlkun og svo framvegis, við algera andstöðu við sjálfstæða hugsun. Lakoff hélt því fram að vinstrisinnum hefði gengið illa að standa gegn þessari afturhaldssókn – vegna þess að þau trúðu enn á hugmyndakerfi Upplýsingarmanna, að allir hlytu að komast að sömu niðurstöðum, ef þeir bara fengju sömu upplýsingar. Og hvernig fengu Nixon og félagar verkalýðinn til að snúast gegn verkalýðsfélögum? Þeir nýttu sér bakslag gegn sigursælli kvenréttindabaráttu og jafnréttisbaráttu blökkufólks og annarra dökkra innflytjenda frá Mexíkó og Mið-Ameríku. Nú urðu margir hvítir alþýðumenn hræddir um vinnu sína og samfélagsstöðu, þá var hægt að telja þeim trú um að þeim væri í hag að kjósa “lög og reglu”, þ.e. lögregluvald gegn þessu fólki, það sem hægrimenn kölluðu „frelsi“. Því væri rangt að þvinga fólk til að ganga í verkalýðsfélög, rangt að þau skyldu hafa vald til að stöðva framleiðslu verksmiðju sem ekki bauð verkalýðnum sæmileg kjör, auðherrann ætti auðvitað að hafa frelsi til að reka sitt fyrirtæki að eigin vild. Sömuleiðis ætti að ríkja frelsi í heilbrigðismálum og skólahaldi, öllum ætti að vera frjálst að stofna og reka skóla að eigin vild, sömuleiðis að reka sjúkrahús og bjóða þar þá þjónustu sem arðbær gæti talist. Trúin á strangt föðurvald mun valda því að tengja þetta við frelsi ríkisstjórnarinnar til að hervæðast fyrir ógrynni skattfjár og nota her sinn til að ráðast inn í lönd sem ekki byðu olíu á nógu lágu verði og setja þar upp leppstjórn í stað óþægra ríkistjórna. Íslenskum lesendum þessa mun þessi málflutningur nauðakunnugur, nógu lengi hefur hann dunið á okkur. En auðvitað er þetta versta firra. Til þess að atvinnulíf geti þrifist í landinu, hvað þá annað mannlíf, þarf almenna skólaskyldu sem tryggir að allir kunni að lesa, skrifa og reikna, helst líka að nota tölvur og annan algengan búnað. Sömuleiðis þarf ríkið að tryggja að fólk svelti ekki í hel, verði það atvinnulaust, að það fái lækningar við sjúkdómum og slysum, eftir því sem gerlegt er hverju sinni. Það þarf ekki að vera krati, hvað þá kommi, til að aðhyllast þessi viðhorf, bara að vilja halda þjóðfélaginu gangandi án mikilla kreppna eða áfalla. Enda eru flestir íslenskir stjórnmálamenn sammála um þetta, það eru ekki nema öfgafyllstu sérvitringar, bókstafstrúarmenn, sem boða bandarísku lausnina, þar sem milljónir fólks er húsnæðislaust og getur ekki leitað sér lækninga, þurfi þess, þær eru alltof dýrar. Lakoff heldur því fram að hugtök séu njörvuð í heilafrumunum. Fái hugtök eins og „skattaánauð“, „þrældómur rískisrekstrar“ og þvílík að breiðast út, þá sé fólk fangar þessara hugtaka, og geti ekki hugsað út fyrir þau. Ég vil leyfa mér að bæta við íslenska orðinu „fjórflokkurinn“. Enda þótt allir geti séð að mikilvægustu ágreiningsmál íslenskra stjórnmála séu hvort þjóðin eigi að borga „Ísbjörg“, þ.e. skuldir íslenskra fjárglæframanna erlendis; um hvort Ísland eigi að ganga í Evrópusambandið og taka upp evru í stað krónu, um hvort viðhalda eigi kvótakerfi fiskveiða eða umskapa það, og enda þótt allir geti séð að um þessi mál eru helstu stjórnmálaflokkar landsins ósammála, þá heldur sumt fólk áfram að þvarga um „fjórflokkinn“. Greinilega mætti tala um alvarlega heilaskemmd þar, þó ekki ólæknandi, vona ég. Allur byggist málflutningur Lakoffs á kenningum hans um líkingar (metafórur). Hann rekur að þær byggist ekki á orðum, eins og margir hafi talið, heldur á hugmyndum sem séu til utan tungumálsins. Við tölum um fætur á fólki og dýrum, en segjum einnig stólfætur, borðfætur, fjallsfótur, hagfótur. Ævinlega er þessi hugmynd höfð um eitthvað sem er undirstaða, ber annað uppi. Víðsvegar um veröldina, hvaða tungumál sem fólk notar, talar það um ástasamband eins og ferðalag – „ þau voru samferða í lífinu, þau stefndu að sameiginlegu markmiði, nú ók annað þeirra út af, “bátur þeirra steytti á skeri, – og svo mætti lengi telja. Upp er sagt um það sem er gott, niður um vont, sótt er fram, samband er hlýlegt – því í bernsku fengum við hlýju í móðurfaðmi, og svo mætti lengi telja. Lakoff sagði frá ýmsum tilraunum sem sýndu hve líkamlegar þessar líkingar voru. Hópi var skipt í tvennt og helmingurinn beðinn að rifja upp góðar móttökur sem hann hafði fengið á nýjum stað, en hinn helmingurinn átti að minnast slæmra móttakna. Síðan voru allir beðnir að giska á hitastigið í herberginu sem allir voru í. Þar munaði 5 stigum á Celsíus, sem þeim þótti kaldara sem minntust slæmra móttakna! Enn var hópi skipt í tvennt og helmingurinn beðinn að hvísla einhverju jákvæðu að nærstöddum, um einhvern viðstaddan, en hinn helmingurinn að hvísla einhverju neikvæðu um hann. Á eftir mátti fólkið velja um gjöf, að fá annað hvort kúlupenna eða handþurrku. Og hverjir skyldu hafa valið handþurrkuna? Þeir sem illu hvísluðu, auðvitað! Í annarri tilraun gafst illhvíslurum kostur á að þvo sér um hendur, en áður og á eftir voru þau spurð hvort þau fyndu til sektarkenndar. Já, það gerðu ýmsir illshvíslarar áður, en eftir handaþvottinn var sektarkenndin horfin! Enn sannast líkamlegur grundvöllur tilfinninga. Lakoff lagði áherslu á að líkingar sem móta hugsun fólks raðist í kerfi. Þannig geti sumir kratar verið vinstrisinnaðir í félagsmálum, en hægrisinnaðir í efnahagsmálum. Og eitt kerfið geri annað óvirkt. Það geti ýmsir kannast við, beri þeir saman hugsunarhátt sinn á skemmtistað laugardagskvöld og svo hvernig þau hugsuðu morguninn eftir! Oft talar fólk um rökhyggju sem andstæðu tilfinninga. En þetta byggist hvað á öðru. Gerðar voru tilraunir á fólki sem vegna heilaskaða hafði ekki tilfinningar, en hélt minningum, greind, málhæfni o.s.frv. Það gat þá ekki skilið tal um gott né illt, hvað þá tekið afstöðu til þess hvað væri æskilegt. Það hafði misst dómgreind, það gat ekki metið afleiðingar gerða sinna eða ákvarðana. Um þetta fjallar einnig Stefán Snævarr í bók sinni Metaphors, Narratives, Emotions. ..sem brátt birtist aftur, bls. 296-7). Sjálfur vék ég að kenningum Lakoff og fleiri um líkingar í riti mínu Seiðblátt hafið (Kbh. 2008, bls. 133 o.áfr.). Af öllu þessu má álykta að nauðsynlegt sé fólki að vera gagnrýnið á hverskyns hugtök sem það hefur alist upp við. Það er eina leiðin til að tryggja sér sjálfstæða hugsun. Stundum er hæðst að “pólitískri rétthugsun”, en hún er bara tilraun til að brjótast út úr viðjum þrælkandi hugtaka. Veltið bara fyrir ykkur hvað felst í orðum svo sem “kynvilla”. “frumstæðar þjóðir” og “kveneðli”, og þið sjáið að þessi orð krefjast þess af ykkur að þið fallist á ákveðin viðhorf, sem ekki hafa verið rökstudd. 25.6,2012

Engin ummæli: