fenrisulfur i Rom
Fenrisúlfur í Róm
Guðinn Týr er mikillar ættar, eins og alkunna er, nafn hans er samstofna nöfnum höfuðguða Grikkja og Rómverja, Zeus og Júpiter, svo og lýsingarorðinu divus í latínu, guðdómlegur. En svo mjög hefur hróður hans bliknað þegar norrænar goðsögur festast í kvæði eða á bækur, að vart er eftir nema eitt afreksverk, að vísu mikið. Hann einn varð til að leggja hönd sína í kjaft Fenrisúlfi til tryggingar því að fjöturinn GJeipnir, sem æsir lögðu á úlfinn, væri ekki með svikum gjör, og að æsir myndu leysa úlfinn, gæti hann ekki losað sig sjálfur. En eins og allir lesendur þessa pistils vita, sat úlfurinn blýfastur, og síst datt ásum í hug að standa við heit sitt. ,,Þá hlógu allir æsir nema Týr. Hann lét hönd sína. segir í Snorra-Eddu (bls. 37).
Nú sýnist mér að þetta afreksverk verði að hafa af Tý, m. ö. o. að þetta muni ekki vera forn goðsaga. Það leiði ég af eftirfarandi vísbendingum. Í fyrsta lagi minnir mig að einhversstaðar hafi því verið haldið fram, þótt ég finni ekki staðinn (Sigurður Nordal?), að samsetning fjötursins Gleipnis beri meiri keim af hugarflugi skálds en af þjóðsögum eða goðsögum. En svo segir í Snorra- Eddu (bls. 36):
Þá sendi Alföður þann er Skírnir er nefndur, sendimaður Freys, ofan í Svartálfaheim til dverga nokkurra og lét gera fjötur þann, er Gleipnir heitir hann var gjör af vi. hlutum, af dyn kattarins og af skeggi konunnar og af rótum bjargsins og af sinum bjarnarins og af fugls hráka — og þótt þú vitir eigi áður þessi tíðindi, þá máttu nú finna skjótt hér sönn dæmi, að eigi er logið að þér, séð munt þú hafa, að konan hefir ekki skegg og engi dynur verður af hlaupi kattarins, og eigi eru rætur undir bjarginu, og það veit trúa mín, að jafnsatt er það allt, er eg hefi sagt þér, þótt þeir sé sumir hlutir, er þú mátt eigi reyna.
Hallvard Magerøy hefur fjallað um þann hlut er síst má reyna, því auðvitað hafa birnir sinar, þótt þær séu ekki augsýnilegar eins og á táfetum. Magerøy bendir á það sem hugsanlega skýringu, en líklegast finnst honum að upphaflega hafi þetta verið: ,,af hornum bjarnarins”. En ekki þykir honum neitt tortryggilegt við þuluna að öðni leyti, hann leiðir m.a.s. rök að því að hún hafi verið í kvæði, þar sem hún sé stuðluð. Og goðsögur útskýra einmitt hversvegna hlutirnir séu eins og þeir eru. Hitt er athyglisverðara, að þessi saga um handarmissi Týs virðist ekki eiga sér neina hliðstæðu meðal goðsagna skyldra trúarbragða (ég leitaði í skrá Stith-Thomson). En margar helstu norrænar goðsögur eru til einhverri mynd fornindverskri og víðar. Fróðustu menn í Árnagarði og utan hafa ekki getað bent mér á hliðstæður, og í nýlegri, stórri alfræðibók um trúarbrögð á Háskólabókasafni, er fátt slíkt hægt að benda á í grein um Tý. Er þar þó sagt, að mikið hafi verið um þetta fjallað. Helst hafa menn séð hliðstæður í því, að Óðinn lét auga sitt fyrir visku. Þar er vísað til þess, aS Georges Dumézil hafi rakið hliðstæðu handarmissis Týs í sögu af hetjuskap Mucius Scaevola, Rómverja sem reyndi að myrða Lars Porsenna, Etrúskakóng sem réðist á Róm um 500 f. Kr. En Scaevola myrti annan mann í misgripum, og var handtekinn. Hann sagði hvað hann hefði ætlað sér, og að 300 ungir Rómverjar hefðu svarið að vinna það víg sem honum hefði nú mistekist.
Porsenna bauð að kasta honum á bál, ef hann segði eigi allt hið sanna af samsærismönnum. Múcíus Scaevola lét sér eigi bilt við verða, og réttir hægri höndina í fórnarbál eitt mikið, er þar brann hjá þeim; höndin brann til kola, en Múcíus stóð kyr í sömu sporum, sem ekki væri að. Konungur undraðist slíka kallmensku og gaf honum líf og heimfararleyfi. Segja sumir, að Porsenna hafi orðið skelkaður og haldið heim til sín.
Þannig sagði Páll Melsteð frá þessu (bls. 104). Dumézil getur sér þess til (bls.149 o.áfr.) að Mucius hafi logið til um hina 300, og því megi þetta kallast eiðrof. Nokkuð virðist þó langsótt að tengja þetta við Tý. En Dumézil lagði áherslu á, að hann hafi verið guð hins lögformlega, einnig í hernaði, og því sé eðlilegt að hann leggi hönd sína að veði fyrir tryggðum, þafnvel þótt rofnar verði (bls. 125 o.áfr.). Ennfremur bendir Dumézil á fyrri atburð í stríði Rómverja gegn Etrúskum, þegar eineygð hetja, Cocles, varði einn brú gegn Etrúskum, aðallega með æðisgengnu látbragði og með því að hræða þá með grettum, og minnir það hann allt á Óðin. Ennfremur telur Dumézil hliðstæður við írskar goðsögur (bls. 153—9) og virðjst það enn langsóttara.
En annað atriði virðist mér miklu skyldara handarmissi Týs, og það er einnig í Róm. Við vesturenda Circus maximus, rétt hjá Ponte rotto yfir Tíber, stendur ævagömul kirkja, Santa Maria in Cosmedin. Upphaflega var þessi bygging hlaða fyrir gjafakorn, en var breytt í kirkju um 400 e. Kr. Og í opnu anddyri kirkjunnar stendur fornrómverskur steinskjöldur mikill, hálfur annar metri í þvermál, hringlaga með andliti á. Göt eru fyrir augu, nasir og munn, og talið að þetta hafl verið ek. rist fyrir niðurfall. Í því sambandi er athyglisvert, að rétt hjá kirkjunni er Ræsið mikla, Cloaca maxima merkt inn á Rómarkort. Þessi steinskjöldur er kallaður ,,bocca della verità”, þ.e. sannindamunnur. En það byggist á þeim þjóðsið, að stinga hendi inn í munnop skjaldarins þegar eiður er svarinn, en skv. þjóðtrúnni á hann þá að bíta höndina af, ef rangur eiður er unninn. Jafnan er þarna urmull af ferðamönnum sem láta taka mynd af sér með höndina í munnopi ófreskjunnar (þetta er kallað ,,uhyre” í dönskum ferðamannabæklingi). Vinur minn einn laumaði hendi sinni bak við skjöldinn og greip um hönd manns sem sagði einhverja lygi og brosti framan í myndavél, en sá stökk þá hálfa hæð sína í loft upp.
Nú finnst mér mjög líklegt, að tengsl séu milli þessa og sögunnar um handannissi Týs, því svo mörg sérkennileg atriði eru sameiginleg. En hvort er nú líklegra. að þessi þjóðtrú Rómverja byggist á fornri indóevrópskri goðsögu, sem ella sé aðeins varðveitt í Snorra-Eddu, eða að saga Snorra- Eddu byggist á þessari rómversku þjóðtrú? Um aldur hennar hefi ég þær upplýsingar einar, að hún sé frá miðöldum. Ég hefi ekki sérfræðiþekkingu á þessu sviði, en mér sýnist síðari skýringin miklu líklegri. Bæði vegna þess að heimildir skortir fyrir goðsögn, eins og áður segir, og eins vegna hins, að þessi þjóðtrú er einmitt líkleg til að spretta af ímyndunarafli fólks andspænis þessu gapandi stóra steinandliti, sem enginn vissi til hvers hafði verið gert, upphaflegur tilgangur þess löngu gleymdur. Auk þess stóð það í fordyri kirkju, en það var víðar en á Íslandi að menn unnu eið með því að leggja hönd á helga bók, fer þetta þá að verða allnáið samband.
Ekki skal hér fjallað um önnur atriði þessarar sögu af ásum og Fenrisúlfi, en ekki væri þetta einsdæmi þess að rómversk mannvirki berist inn í norræna goðafræði. Ekki langt frá steinandliti þessu er Colosseum (og svipuð hringleikahús voru víða í Rómarríki), en þetta voru einstæð mannvirki. m.a. að því leyti, hve margir gátu í senn gengið inn í þau eða út úr þeim. Fyrir sextíu árum benti Magnus Olsen á Colosseum sem fyrirmynd Vathallar. En svo er henni lýst í Grímnismálum:
Fimm hundruð dura
og um fjórum tugum,
svo hygg eg á Valhöllu vera
átta hundruð einherja
ganga senn úr einum durum,
þá er þeir fara við vitni að vega.
Hvern dag, þá er þeir hafa klæðst, þá hervæða þeir sig og ganga út í garðinn og
berjast, og fellir hver annan. Það er leikur þeirra
segir í Snorra-Eddu (bls. 44), og er augljós hliðstæðan við gladiatora. Þótt þeir risu ekki upp frá dauðum, þá kom jafnan maður manns í stað fyrir næstu leika.
Nú var þeim leikum löngu hætt þegar Grímnismál voru ort, en ekki skal ég getum að leiða hvenær þessar frásagnir bárust til Norðurlanda né í hvaða formi. Það gerir Olsen í tv. grein. En í rauninni þurfti ekki mikið til, það nægði að einn maður kæmi til Norðurlanda og segði sögu af miklu steinandliti, og að menn legðu hönd sína í munn þess til tryggingar því að þeir særu sannan eið, enda biti það höndina af við meinsæri. Þetta væri nægileg uppspretta sögunnar um Fenrisúlf og Tý, fyrir fólk sem leiddi hugann að Ragnarökum.
Tilvitnuð rit:
Georges Dumézil: Mitra- Varuna. [ensk þýðing] New York 1988.
Edda Snorra Sturlusonar- udgivet... ved Finnur Jónsson. Kbh. 1931. Stafsetning færð til nøutmahorfs af E.Ó.
How to visit Rome and Latium. Róm, 1984. Myndin tekin eftir bls. 121.
Ole Høeg: Turen går til Rom. 13. udg. Kbh. 1978.
Guide de Tourisme Michelin: Rome. Paris 1988; ,,Piazza bocca dclla verità.
Hallvard Magerøy: ,,Af sinum bjarnarins, Minjar og menntir Rvík 1976, bls. 358—64.
Fornaldarsagan, íslenzkuð og aukin eptir sögubók H. G. Bóhrs af Páli Melsted. HÍB, Rvík l864.
Magnus Olsen: ,,Valhöll með hinar mörgu dyr. M.O.: Þættir um lífog ljóð ... Rvík 1963, bls. 124—147,
Edgar C. Polonié: ,,Týr” Encyclopaedia of Religion, XV, bls. 108—9. Mircea Eliade ed., New York 1987.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli