fimmtudagur, 15. febrúar 2007

Kallfæri

KALLFÆRI Í BÓKMENNTUM.
Gaman var að lesa orðaskipti þeirra Guðbergs Bergssonar og Árna Bergmann í helgarþjóðviljanum 22-3. nóv. sl. Upphafið var ritdómur AB um nýjustu sögu Guðbergs, helgina áður. Þar lýsti hann áhyggjum sínum af því, að hið mikla frelsi sem m. a. Guðbergur taki sér, komi honum úr kallfæri við fjöldann, alltof fáir hafi getu eða forvitni tilað fylgja slíkri framúrstefnu eftir. Viku síðar útskýrir hann þetta nánar, hann óttast að bókmenntir hætti að verða þjóðinni mikilvægar ef svo fari fram sem nú horfi, að lesendahópurinn gliðni í sundur. Og ÁB ber fyrir okkur helstu goðsögu menningaríhaldsins: "Við teljum okkur hafa sæmilega rökstuddan grun um að fyrir skömmu hafi íslenskir lesendur verið furðu samstæð heild."

ÚR BÓKMENNTASÖGU

Oft fylgir þessari goðsögu upptalning a öllu því sem íslenskir lesendur eigi sameiginlegt, og er þá gjarnan byrjað á Fjölnismönnum, þótt ÁB geri það nú ekki. En einmitt á þeim springur goðsagan. Fæstir Íslendingar vildu sjá eða heyra Jónas Hallgrimsson, þegar verk hans kornu fram.Sjaldan hafa skáld verið eins gersamlega úr kallfæri við þjóð sína, hún hafnaði með fyrirlitningu þessari útlendu framúrstefnu, rómantíkinni, með hennar framandi bragarháttum, hugmyndum og málfari. Enda hafði þjóðin í nærfellt sjö aldir verið næsta samfelldur lesandahópur um rímur. En 20 árum eftir dauða Jónasar var þessi rómantík á allra vörum. Hvort finnst okkur betri bókmenntir nú? Áþekkt dæmi, mun nærtækara, eru atómskáldin. Sjaldan hafa viðbrögð lesenda, upp til hópa orðið neikvæðari við nýrri skáldskaparstefnu. En síðan hefur aðgangur hennar að lesendum áreiðanlega greiðst mikið, og flest ný skáld fylgt hefð hennar. Hinsvegar verður það varla fært á reikning þessara skálda, að hér skuli hafa orðið sama þróun og annarstaðar, að ljóð hafa þokað fyrir skáldsögum.
AB óttast að ef framúrstefnuskáld fjarlægist lesendur of mikið, gliðni þeir í tvo hópa. Sárafáir lesi framúrstefnuskáldin, en fjöldinn rusl. "Þá verður ekki lengur til hámenningarverkamaður einsog
Tryggvi Emilsson né heldur alþýðuhöfundur einsog Þórbergur Þórðarson. "
Bæði dæmin sýnast mér afsanna kenningu AB. Því það hljóta allir að sjá sem lesið hafa bækur Tryggva, hve gegnsýrðar þær eru af skáldsögum Halldórs Laxness frá 4. áratuginum, bæði í þjóðlífsmynd og málfari. Og þær sögur voru þó örugglega ekki samdar fyrir ríkjandi smekk síns tíma. Er ekki sanni næst að Halldór hafi alveg gengið framaf honum? Eða þá Bréf til Láru. 1924. Var það í kallfæri við það sem fólk hafði vanist í bókmenntum? Ég veit ekkert rit eldra í námunda við það. Mig minnir að Stefán Einarsson kalli það byltingu í bókmenntasögu sinni, loksins hefði talmál verið fest á bók. Höfðaði Þórbergur til almennings svo snemma? Svari þau sem til þekkja. Ég hefi það eftir Axel í Klausturhólum að bækur hans hafi nær ekkert selst fyrren í seinni heimsstyrjöld. [2007: Þetta er auðvitað alrangt, Bréf til Láru seldist feiknavel, og þurfti Þórbergur að prenta annað upplag, mun stærra, þegar fáeinum mánuðum eftir frumútgáfu].
Af dæmunum dreg ég að framúrstefnan seytli til fjöldans, og að hana þurfi til að upp rísi hámenningarverkamenn svo sem þeir sem ÁB nefnir.

ALÞÝÐUBÓKMENNTIR
Skáld mega ekki binda sig við þær lestrarvenjur alþýðunnar sem ríkja hverju sinni. Því í auðvaldsþjóðfélagi er hún upp til hópa mótuð af borgaralegum viðhorfum einsog aðrir þegnar þess.
Stalínistar neituðu þessu. Á sinn hátt héldu þeir líka fram þessari borgaralegu goðsögu, að góðar bókmenntir hljóti að ná beint til alþýðunnar. Þeir rökstuddu hana með einhverskonar verkalýðsdulhyggju. Á 20. öld, undir drottnun auðvaldsins, átti verkalýður (einkum í stóriðju) að hafa heilbrigð, eðlileg og sósíalísk viðhorf til allra hluta. Af þessu risu öreigavísindi (líffræði Lysenkos m.a., öreigabókmenntir,o.fl.), raunar töldu þeir líka þurfa leiðsögn flokksins.
Þetta er nk. vélræn efnishyggja.Fyrst verkalýðsstéttin myndi gera sósíalíska byltingu, hlaut hún að hafa réttar hugmyndir, almennt talað. Marxistar telja hinsvegar að hún öðlist réttar hugmyndir í byltingarbaráttunni. Því börðust leiðtogar rússnesku byltingarinnar á móti þessari goðsögu, og vildu að verkalýðurinn tileinkaði sér gagnrýnið hið besta í ríkjandi, borgaralegri menningu. Það er byltingarstefna í menningarmálum. Þetta sýnist mér Árni líka boða í lok greinar sinnar. En 1928-9 varð verkalýðsdulhyggjan ofaná hjá kommúnistum, og hefur lengstum riðið hjá þeim húsum síðan, með hörmulegustu afleiðingum. Svo tiltölulega vægt dæmi sé tekið, fékk Bertold Brecht miklar ákúrur fyrir óalþýðlega framúrstefnu. Hann svaraði því til, að það væri alls ekki alþýðunni í hag að löghelga lestrarvenjur hennar. "Tilað fá bókmenntir fyrir alþýðuna þarf hreint ekki að gera þá kröfu að verkið verði umsvifalaust skiljanlegt öllum sem á það rekast. Alþýðan getur tileinkað sér verk með ýmsum hætti, t.d. í gegnum fámenna hópa sem skilja skjótt og breiða síðan út skilninginn. Að skrifa fyrir litla hópa þarf allsekki að sýna fyrirlitningu á alþýðunni. Það fer eftir því hvort þessir hópar fyrir sitt leyti þjóna hagsmunum alþýðunnar, eða vinna gegn þeim (einkanlega í sérhagsmunaskyni)". Í framhaldi segir Brecht ýmsar sögur af því hve opið verkafólk hafi verið fyrir formnýjungum, en lokað fyrir því að hann hefði eitthvað vegna hefðarinnar. Aðalatriði var fólkinu að verkið væri satt í inntaki, tilfinningum og framsetningu (B.Brecht: Alþýðleiki og raunsæi, grein fra 1938).

LISTSKÖPUN
Það hefur löngum verið talið aðal góðra listaverka að sjá hlutina og segja á nýjan hátt, brjótast útúr viðjum vanans. Því við ætlumst til þess að listamenn rýni djúpt í heim okkar, finni sjálfir meginatriði hans og setji fram þannig að nái til lesenda - ekki bara til skynsemi þeirra, það yrði ritgerð, meira eða minna dulbúin - heldur þannig, að þeim verði þetta skynjun, reynsla. Þarsem nú veröldin er ákaflega margslungin og breytileg, leiðir af þessu, að mjög oft hljóta skáldin að víkja útaf förnum vegi, "fara nýjar leiðir". Enda er alkunna að þegar listamanni tekst vel upp, er naumast hægt að segja að hann velji sér efni, hvað þá afstöðu til þess eða stíl, og þarafleiðandi ekki heldur lesendahóp. Allur persónuleikinn er virkur í sköpuninni, dulvitund í ríkum mæli. Þótt almenningur þurfi oft langan tíma tilað meðtaka mikla nýlundu, þá gerir hann það að lokum, þegar listaverkin opna honum innsýn í eigin heim. Það sýna m. a. dæmin hér að framan. Svo, þegar litið er um öxl, vill þetta allt renna saman, fólki sýnist að góð skáld hafi ævinlega kunnað að höfða til alþýðunnar. ÁB hefur ahyggjur af nýlegri stéttaskiptingu í bókmenntunum. En hún hefur lengi verið við lýði. Það er ósköp eðlileg afleiðing þess at þjóðfélagið er stéttskipt, auðvitað hafa menn mismunandi aðgang að list og mismunandi áhuga, eftir skólagöngu, m.a. Við getum bætt úr því með því að útrýma stéttaskiptingu, með byltingu, en við útrýmum henni aldrei með töfrum, einsog ad sárbæna skáldin um að skrifa nú svoað alþýðan fylgist með. Og síst held ég að við þurfum að kvíða því að "'miðsæknin" (konformisminn) verði ekki nógu sterk. Ætli markaðslögmálin sjái ekki um það og gott betur. Það er sjálfur vaxtarbroddur listarinnar sem rýfur heildarmyndina hverju sinni. Því er amk. mjög villandi, ef ekki beinlínis rangt að segja: "menning er ekki sterk nema hún nálgist það að vera sameign þjóðar, samnefnari, viðmiðun." Hitt væri sanni nær að menning sé sterkust þegar hún er fjölbreytilegust, andstæð öfl berjast í henni, Því þá leggja menn sig alla fram í þjónustu málstaðar síns, skoða málin í grunn. Og þá verður sú menning best sem almenningur á aðgang að því sinni. En það er vitaskuld meginatriðið, einsog ég held líka að Árni meini með síðast tilfærðri klausu.

INNTAK GOÐSÖGUNNAR
Þessi kenning, um að Íslendingar hafi verið samstæður lesendahópur framá síðustu ár, er jafnútbreidd og hún er röng. Því gegnir blekkingin greinilega þjóðfélagslegu hlutverki, er goðsaga, Og það er alveg augljóst hvert þetta hlutverk er. Það er að breiða yfir stéttaandstæður þjóðfélagsins, skapa monnum þá fölsku vitund að þjóðin sé ein heild, stór fjölskylda, allir á sama báti, hvað sem þjóðfélagsstöðu líður, og þaraofan nokkurskonar andlegur aðall mannkynsins. Smáa, en samstæða hábókmenntaþjóðin í norðrinu er sko engir öreigar. Aðeins eitt geti stefnt þessari dýrð í voða, þ.e. að skáldin séu ekki nægilega íhaldsöm. Þessi goðsaga er því eitt af þeim öflum sem viðhalda auðvaldskerfinu a fslandi.
Mér er auðvitað fjarri skapi að gera Árna Bergmann ábyrgan fyrir henni. Þetta er ein þeirra lyga sem allsstaðar smjúga inn, taka a sig ótal gervi, verða hvarvetna fyrir. Því verður að grípa hvert tækifæri til að afhjúpa þær.
Lyon, 30.nov. 1980.

KOMUMST Í KALLFÆRI.

Mig langar að víkja að fáeinum atriðum í framhaldi af viðræðum okkar Árna Bergmann hér í blaðinu.
Ég ætla ekki að ámálga neitt, við virðumst sammála um að vaxtarbroddur bókmennta birtist í framúrstefnu, að öðrum bókmenntum ólöstuðum. Einnig að þessi framúrstefna eigi oftast mjög ógreiðan aðgang að almenningi framanaf, og að fyrst við ætlumst til þess af listamönnum að þeir skapi okkur nýjar og góðar myndir af tilverunni, þá getum við ekki gert neinar frekari kröfur til þeirra. Auavitað ætlum við okkur svo fullt málfrelsi um þessi sköpunarverk einsog önnur fyrirbæri mannlífsins, annars gætum við ekki tileinkað okkur þau.
Í leiðinni verð ég að nefna, að mér finnst út í hött að hafa miklar áhyggjur af lágmenningu. En frá því ég man eftir mér hafa reyfarar átt að eyðileggja málfar æskunnar, hugmyndaheim hennar og bókmenntasmekk. Þessi skoðun sýnir heldur reyfarakenndar hugmyndir um mótandi áhrif bókmennta Var ekki aðalkostur Íslendinga í 500-600 ár lágmenning? Rímur eru í heild svipaðar bókmenntir og sjoppulitteratúr. Reyfarakenndur söguþráður, tilviljunarflækjur, flatar persónur, geigandi málfar, ambögur og allt gersamlega staðlað og ófrumlegt i fimm aldir. Stendur þjóðin þó upprétt enn, stórum menntaðri en þegar rímur ríktu.

Viðtökuskilyrði innanlands og utan.
Eftir standa áhyggjurnar af því hve miklu tómlæti nýstárleg verk eiga oft að mæta hjá þorra lesenda. Um það langar mig að ræða.
Ég er kannski ekki eins áhyggjufullur og Árni. Hann segir útfrá Bretlandi (Þjv.21-22/2): "Veggur hinnar menningarlegu stéttaskiptingar er þá svo hár, að fáir munu yfir komast...Í örsmáu þjóðfélagi er upphleðsla slíks veggjar að því leyti miklu háskasamlegri en með stærri þjóðum, að hæð hans ræður miklu um það, hvað yfirleitt getur þrifist í smáríkinu af hverskyns menningarviðleitni og hvað er dauðadæmt."
En ef við lítum á þetta frá annari hlið, má þá ekki segja að íslensk skáld eigi miklu greiðari aðgang að lesendum sínum en nýstárleg skáld stórþjóða? Lítum á Frakka til samanburðar.
Um daginn komst ég á umræðufund með fáeinum ljóðskáldum í Lyon, sem gefa út tímarit í líkingu við Listræningjann. Slík tímarit eru nokkuð mörg í Frakklandi (20-30?), en þetta þykir óvenju stöndugt, því út hafa komið 21 tölublað, en flest slík ljóðatímarit deyja nálægt 5. tölublaði. Þetta er í mesta lagi 30 bls. í A5 broti, fjölritað af skáldunum sjálfum á venjulegan blekfjölritara, einsog tíðkast í íslenskum skólum. Engum kapítalista dettur í hug að styrkja svona fyrirtæki með auglýsingum. Upplagið er 350 eintök, áskrifendur 115 og allir ljóðskáld. Lausasalan er svo lítil (2-5 eintök hverju sinni) að bókabúðir neita að taka tímaritið til sölu. Og þetta er helsta bókmenntatímaritið í tveggja milljón manna borg - med tífaldan íbúafjölda Íslands. Í samanburði við þetta er Listræninginn stórveldi. Og þaraðauki eru á Íslandi Svart á hvítu og Tímarit Máls og menningar. Hafi Íslendingur á annað borð áhuga á nýsköpun í bókmenntum, kemst hann varla hjá því að lesa þessi tímarit. Sífellt sér hann og heyrir vitnað í þau, fyrr eða síðar finnst honum hann utanveltu án þeirra.
Hvað Frakkland varðar er þess að gæta, að midstöð menningarlífs þar er ekki þessi borg sem ég var að tala um, heldur París. Og þar eru gefin út um 30 gróin bókmenntatímarit sem ég þekki ekki. Að sögn er hvert þeirra vettvangur eins skáldahóps eða klíku, og mjög erfitt fyrir utanaðkomandi að fá þar birt efni. Enn erfiðara er fyrir óþekkt skáld að koma út ljóðabók í Frakklandi. Algengt mun að það gangi þannig fyrir sig: Höfundurinn sendir vélrit sitt til eins af þeim fáu útgefendum sem hafa sérhæft sig í ljóðaútgáfu. Ef mjög frægt ljóðskáld eða gagnrýnandi mælir eindregið með honum, fær hann venjulegan útgáfusamning. Það er mjög sjaldgæft. Reglan er sú að skáldið fái svarbréf frá útgáfunni, þar sem segir að þetta séu raunar mjög góð ljóð og ekkert vildi forlagið frekar en gefa þau út. En því miður sé ljóðamarkaðurinn ákaflega erfiður. Til sé þó lausn á þessum vanda: Forlagið gefi út bókina í segjum 500 eintökum (fyrir 53 milljón manna þjóð!), skáldið kaupi sjálft 300 eintök, og fái 15% al öllu saman. Hið óþekkta skáld reynir nú að snara út 14 þúsund nýkrónum til að verða gefinn út af þekktu ljóðfirma og fá auglýsingar þess og dreifingu. Oft fær það hinsvegar hvorugt, því nú fleygir forlagið sínum 200 eintökum og hugsar ekkert meira um höfundinn. Það er nefnilega búið að græða eins mikið á óþekktu ljóðskáldi og hægt er, án verulegs tilkostnaðar og óvissu. Eftir situr skáldræfillinn með skuldir og bókabunka, sem hann hefði getað fjölritað sjálfur fyrir 1000-2000 nýkrónur. Auðvitað fjölrita mörg skáld sjálf, en hvernig á að dreifa bókunum? Hvar verða þær kynntar?
Augljóst er að óþekkt skáld íslensk eiga miklu betri möguleika á að ná til lesenda. Einmitt vegna fámennisins ættu íslenskir lesendur að eiga mun betri tækifæri á að kynnast amk. því sem í boði er, þótt það taki svo alltaf nokkurn tíma fyrir miklar nýjungar að verða fjöldaeign.Og það er aldrei að vita hvernig gengur í hvert skipti, fámennið á Íslandi gæti boðið uppá merkilega tilraunastarfsemi.
En til að merkilegar bókmenntanýjungar nái sem skjótast til almennings á Íslandi þarf mikið og markvisst starf, þar sem notaðir yrðu allir tiltækir möguleikar til að kynna þær vel. Á þetta sýnist mér mikið vanta, íslenskri alþýðumenningu til tjóns.

Fjölmiðlar.
Eitthvað þarf að gera til að bæta sambandið. En hvað má helst verða að gagni? Blaðamanninum verður þá helst hugsað til kennara, en bókmenntakennaranum finnst hann ná til sárafárra, fyrirutan fyrrnefnd listatímarit væntir hann helst einhvers af fjölmiðlamönnum. Enda gera þeir margt vel. Sjónvarp og útvarp hafa þætti um bókmenntir í jólaflóðinu, og í útvarpinu er mikið um að skáld lesi uppúr verkum sínum. Það er þakkarvert, en fer það ekki eingöngu eftir ágengni skálda, hver komast að? Ef svo er, er þá svo lágkúrulegt stefnuleysi boðlegt í jafnáhrifamiklum fjölmiðli? Ber ekki útvarpinu að taka frumkvæði, at leita uppi forvitnilegt efni? Einstakir þættir hafa gert það, en þá orðið skammlífir, minnir mig.
Dagblöðin sinna nýútkomnum bókmenntum mikið, birta kafla úr nýútkomnum bókurn, einsog útvarpið, og leggja mikið rúm undir ritdóma.
En því miður - þessir ritdómar eru oftast ákaflega ófullkomnir. Reglan er sú að þeir eru mjög huglægir, segja fátt um skáldsögur annað en söguþráð, hvar sagan gerist, hvenær og í hvernig samfélagshópi, síðan er sagt frá því hvernig hún orkaði á ritdómarann. Í ritdómum um ljódabækur er bara þetta síðasttalda auk sýnishorna ljóða.
Nú er það allsekki vegna hæfileikaleysis ritdómara, að afurðir þeirra eru svona ófullkomnar. Eg þekki marga þeirra persónulega, og fullyrði að þeir séu skarpskyggnari en algengt er og óvenjuvel að sér um bókmenntir. Skýringin er einfaldlega sú, að þetta fólk starfar við óþolandi aðstæður. Það ritdæmir 1-4 bækur á viku - ofaná venjulegt annríki Íslendinga á húsbygginga - og barneignaaldri. Það sér hver maður að við svona aðstæður er vart hægt að gera betur.
Þar við bætist að þessi bókmenntakynning fjölmiðla hefur verið umborin gagnrýnislítið. En í rauninni er mjög afdrifaríkt, hversu ófullkomin hún er. Og þá komum við aftur að sambandsleysi framúrstefnuskálda við fjöldann.

Slys.
Nú verður ad rifja upp sögu sem eg vék að hér í blaðinu fyrir tveimur árum. Ungt skáld, óþekkt með öllu, gaf út fyrstu skaldsögu sína 1977. Þetta vakti athygli, samtíðarsaga úr Iífi Reykjavíkurungmenna:. Ekki man ég glöggt hvernig gagnrýnin var, svona beggja blands, sagði kost og löst, held ég. Sagan seldist vel, yfir 4000 eintök, og næsta ár kom skáldið með nýja bók, mun betri að mínu viti, og var nú auðvitað stórum þekktari. Þessi skáldsaga Hafliða Vilheimssonar snerist m. a. um örðugleikana á að skrifa skáldsögu (algengt efni í erlendum bókmenntum, en lítt þekkt á Íslandi). Og fyrst sagan fjallaði um misheppnaða skáldsögu, þá var hún sjálf misheppnuð skáldsaga, sýndist mér einn gagnrýnandinn álykta. Annar taldi bókina boða þá karlrembufordóma sem leiða aðalpersónu hennar í fullkomið gjaldþrot. Allir voru gagnrýnendur sammála um að bókin væri gerómöguleg. Ég skýri það med því að hún leynir á sér, þarf íhygli við og yfirlegu, sem gefst einfaldlega ekki kostur a við fyrrgreint vinnuálag gagnrýnenda. Hvað um það, þessi bók Helgalok, seldist miklu verr en hin fyrri, Leið 12; í rúmlega 1200 eintökum, og hefur síðan ekki farið sögum af skáldi þessu. Þarna sjá menn hvílík áhrif ritdómar hafa.
Ég er ekki í aðstöðu til að kanna hve oft þvílík slys hafa orðið. Þó verð ég að segja, að mér þykir óeðlilega hljótt hafa verið um þann mikla nýjungamann Einar Guðmundsson (höfund Lablöðu hégulu, Flóttans til lífsins, Án titils, m.a.). Er ekki skýringin sú, at hann er of nýstárlegur tilað nokkurt forlag þori að gefa hann út, og að ritdómar séu einkum skrifaðir um þær bækur sem forlögin keppast við að auglýsa? Lesendur ætlast helst til slíkra ritdóma. Önnur skýring gæti verið að einnig ritdómarar séu seinteknir fyrir nýjungum. Og til þess dregur þá sterklega núverandi vinnuálag. Enn kemur til hið útbreidda borgaralega viðhorf að líta á bókmenntir (og aðrar listir) sem stjörnuíþróttir, það er bara rúm fyrir eina stjörnu a toppinum í hverri sérgrein. Í rauninni er þessu þveröfugt farið, hver listamaður getur eflst af afrekum annarra og af skilningi lesenda á verkum hans.
Það eru sterk öfl sem draga að meðalmennskunni. Og hér sé ég aðalhættuna á menningarflatneskju. Fjölmiðlar hafa svo mikil áhrif á bókamarkaðinn, að ekki verður unað við þeirra yfirborðslegu afgreiðslu.

Úrbætur.
Mér virðist býsna auðvelt að bæta úr þessu hneykslisástandi. Einfaldlega með því að fá miklu fleira fólk til ritdóma og ætla hverjum ekki meira en svosem tvær bækur í öllu jólaflóðinu. En þá fengjum við líka greiningu á þessum bókum.
Greining skáldsögu fæli m.a. í sér úttekt á persónusköpun, staðarlýsingum, málfari, tímarás og byggingu verksins, viðhorfum, sem í því birtast, og hvernig allt þetta tengist saman. Síðan má ritdómari gjarnan segja frá því hvernig verkið orkaði á hann, ef hann vill, það álit yrði þá loksins rökstutt. Ritdómarinn þarf að hafa kafað djúpt í verkið til að ritdómurinn verði lýsing á því, en ekki honum. Þarsem greiningin yrði rannsókn á verkinu, ætti að stórminnka hættan á að mönnum sjáist yfir eitthvað verulega markvert. Slík umfjöllun um innviði verksins getur verið stórlega menntandi og ætti að auðvelda lesendum að nálgast "erfið" verk (sjá nánar um aðferðina t.d. bækur Njarðar P. Njarðvík: Saga, leikrit, ljóð og Eðlisþættir skáldsögunnar). Það er .t.d. menntandi fyrir okkur að fá úttekt á þeim viðhorfum sem birtast í skáldsögu, ekki bara viðhorfum einstakra persóna, heldur umfram allt þeim sem bókin byggist á. Ekki til að forðast bókina. Kommúnistar geta lesið sögur fasista ss. Hamsun og Céline sér til gagns og gamans, hvað þá íhaldsmenn hinar róttæku sögur Halldórs Laxness.
Til að svona greiningar fari ekki yfir mörk þess sem fólk almennt nennir að lesa í dagblaði (1-11/ 2 bls?), má takmarka ritdóminn við greiningu merkustu atriða hverju sinni - og samtengingu þeirra.
Sjá menn betri leið til að greiða fólki aðgang að nýstárlegum bókmenntum? Haldiði ekki, svo ég nefni nú bara tvö ólík dæmi, að íslenskur almenningur hefði auðgast betur af verkum Thors Vilhjálmssonar og Steinars Sigurjónssonar, ef hann hefði fengið svona greiningar á verkum þeirra í dagblöðunum?
Tæknilegir örðugleikar á slíkum ritdómum eru engir. Það er allt krökkt af fólki sem hefur hlotið menntun í þvílíkum bókmenntagreiningum (enda hefur stundum örlað á þessu í ritdómum). Nú er tími til kominn að nota þessa menntun til almenningsheilla. Auðvitað yrðu greiningarnar misjafnar, margar vondar til að byrja með. En jafnvel þær yrðu framför frá núverandi fyrirkomulagi. við getum lært af þeim, því þær gæfu þó alltaf tilefni til bókmenntaumæðna.
Málið er einfaldlega það, at núverandi bókmenntaumfjöllun fjölmiðla er stórhættuleg og gjörsamlega úrelt, eftir þær miklu framfarir sem orðið hafa í bókmenntakennslu a Íslandi.
Lyon, 9. mars 1981
Örn Ólafsson

Eftirskrift í janúar 2007: Það sem ég sagði um óvinsældir Jónasar Hallgrímssonar meðal samtímamanna hans mun vera algeng skoðun, og byggist á fjandsamlegum viðbrögðum við dómi hans um Tristans rímur og Indiönu. En raunar er þetta hæpið. Einu vitnisburðir sem ég hefi fundið um afstöðu samtímamanna til kvæða Jónasar eru í Dægradvöl Benedikts Gröndal og í formála útgáfu Hannesar Hafsteins á kvæðum Jónasar, 40 árum eftir dauða hans.
Þar segir Hannes (bls. xxviii):

Af alþýðu var hann allvel virtur. Menn þekktu lítt til náttúru-vísinda, og báru því virðingu fyrir ”náttúruskoðaranum”, er svo var nefndur. Það mynduðust jafnvel hálfgildings töfrasögur um hann, og er sagt að kellingar héldu hann vissi lengra en nef hans náði, [...] Kvæði hans nokkur voru þegar flogin út í þjóðina, og sungin um allt land, og einkum hinir yngri menn dáðust mjög að honum, og þó að hann hefði nokkra óvild fyrir það, hvernig hann húðfletti rímurnar, munu þó flestir hafa viðurkennt hann, og það jafnvel menn, sem sjálfir voru rímnahöfundar.

Hannes skrifar þetta þegar Jónas nýtur almennrar viðurkenningar, 40-50 árum eftir að hann var og orti. Samt er ekki ástæða til að tortryggja þennan vitnisburð, fyrst ekkert andstætt honum finnst frá samtíma Jónasar.
Benedikt Gröndal segir í Dægradvöl frá æskuárum sínum á 4. áratug 19. aldar áður en hann settist í Bessastaðaskóla, sextán ára, 1842 (Ritsafn IV; bls. 324). Eftir lof um Hómersþýðingar föður síns segir hann m.a.

Fjölnir gerði og áhrif á mig, mest vegna málsins og einstöku ritgerða um náttúruvísindi, en að stafsetningunni hneigðist ég ekki; kvæði Jónasar urðu mér ógleymanleg, ég lærði flest þeirra utan að, án þess ég vissi af, og kann ég þau enn mörg hver, þar á meðal allan Gunnarshólma. Hinum eldri mönnum var ekki mikið um Fjölni, því allir voru afturhaldsmenn og keyrðir í gamla fjötra, og hornauga var litið til alls; menn héldu að allt, hvert kvæði, ætti að þýða einhverja pólitíska byltingu, svo sem Heilóarvísan, Snemma lóan litla í, sömuleiðis Alpaskyttan, sem Grímur þýddi úr Schiller, það átti að vera sneið til einhvers, og þegar gullsmiðurinn komst að því, að Grímur hefði gert það, þá bannaði hann honum að yrkja í Fjölni, í Sunnanpóstinum er Ísland farsælda frón kallað “grafskrift yfir Ísland” og kann vera nokkuð sé til í því.

Engin ummæli: