fimmtudagur, 15. febrúar 2007

Kvenhyggja i bokmenntum

Kvenhyggja í bókmenntum

Þegar rætt er um bókmenntir og listir í röðum vinstrimanna, er stundum talað um baráttubókmenntir, einnig er talað um framsækna list, jafnvel sósíalíska list. Með þessum orðum er þá fyrst og fremst átt við þjóðfélagsáhrif listarinnar. Listin á að afhjúpa misfellur samfélagsins og virkja menn til baráttu gegn þeim, sósíalísk list til baráttu gegn samfélaginu í heild, þar sem það sé spillt í eðli sínu. Flestir munu taka undir það að umbóta sé þörf, og við skulum hér ganga út frá því að gott væri að hafa þær verulega róttækar. En hvernig vilja menn að listin þjóni þessum markmiðum? Það virðist hún eiga að gera á tvennan hátt; með því að höfða til skynsemi manna og til tilfinninga þeirra.
Fyrri leiðin virðist einkum eiga að vera að afhjúpa samhengið, útskýra orsakir mannlegs böls. Hin síðarnefnda að höfða til réttlætiskenndar manna eða samstöðu, láta þá finna til samkenndar með fórnarlömbunum.
Hvað það fyrra varðar, útskýringar, þá koma einkum sögur til álita. Málverk af þessu tagi einkennast af frásögn, ljóð sömuleiðis, jafnvel þótt ekki sé nema kjarnaatriði úr frásögn, lykilaðstæður sem sýna dæmigert ranglæti eða baráttu gegn því. Hinsvegar má skipta þvílíkum sögum í ýmsa flokka, eftir því hvernig farið er að.
Sú aðferð, sem næst liggur blaðagreinum og ritgerðum, má e.t.v. kallast rammasaga, því henni er tildrað upp utan um ræðu eða ritgerð mikilvægrar persónu. Sá texti útskýrir meginatriði viðfangsefnisins á röklegan hátt, en sjálf sagan er fyrst og fremst til að laða lesendur til að lesa þessa ritgerð í kjarna hennar. Sem dæmi þessa má nefna skáldsögurnar Verndarenglarnir eftir Jóhannes úr Kötlum, og að mig minnir Svört messa eftir Jóhannes Helga. Ég býst við að þær muni vera fáum hlustenda í fersku minni, en það er eðlileg afleiðing þess að sjálfir höfundarnir litu á þær sem aukaatriði, miðað við málflutninginn. En einmitt þessvegna virðist erfitt að trúa því að svona bókmenntir séu mjög áhrifaríkar - hæpið að þær yfirstígi góðar blaðagreinar.
Þetta er flestum ljóst, og yfirleitt vilja menn hafa baráttusögur á annan veg. Þar eiga að vera eftirminnilegar persónur, sem grípa lesendur, enda séu þá persónurnar dæmigerðar um þjóðfélagsstéttir, átök þeirra og örlög sýni raunveruleg þjóðfélagsöfl að verki. Innan þessarar skilgreiningar er mikið svigrúm, og auðfundin eru bæði góð verk og léleg samkvæmt henni, eins og í flestum stefnum. Sérstaklega þarf að huga að því hlutverki skáldverka að berjast fyrir einstökum málefnum, það er áróðurshlutverki þeirra. Þannig ályktaði stofnfundur Alþjóðasambands byltingarsinnaðra rithöfunda, 1930: "Bókmenntir öreigastéttarinnar eru ekkert annað en vopn stéttabaráttu [...] Öreigaljóð eru laus við borgaralega þoku og innileika. Þau gera skáldskapinn að ræðustól stjórnmála." Hér voru byltingarbókmenntum sett skýr markmið; í mynd skáldsagnapersóna og lífsreynslu áttu skáldin að setja fram helstu kjörorð svo sem "Verjum Sovétríkin", "Styðjum byltingarbaráttu nýlendna og kúgaðra þjóða", Berjumst gegn heimsvaldastríði". Þá yrði að forðast skematísk skrif og leiðarastíl á skáldverkunum. Eitt mikilvægasta verkefnið væri að skrifa samtíðarsögu, þar sem bráð stríðshættan yrði sett fram áþreifanlega í öllum sínum myndum, samtíðarsögu, sem drægist sem minnst aftur úr líðandi stund. Í baráttunni gegn stríðshættunni áttu byltingarsinnaðir rithöfundar að beina athygli sinni sérstaklega að æskulýð, bændum og vinnufólki, og að konum. Enda væri ekki aðalatriðið að keppa við borgaralegar toppbókmenntir, heldur við borgaralegar fjöldabókmenntir, sem væru svo sannarlega pólitískar og mótaðar af afstöðu, sem oft sé ógreinanleg óæfðum lesendum. Auðvitað megi ekki gera sér neinar gyllivonir um útbreiðslumöguleika byltingarsinnaðra bókmennta fyrir valdatökuna, en stórum verra sé þó það sjálfvalda fangelsi, sem byltingarsinnaðir rithöfundar gangi í nú.
Ýmislegt hefur verið fundið að þessari stefnu. Í fyrsta lagi bar félagsmönnum í þessu sambandi byltingarskálda að starfa í kommúnistaflokkunum, en flokkarnir höfðu mótaða stefnu gagnvart næstu pólitísku verkefnum, stefnu sem þeir voru síst að þola opinber frávik við. En sú stefna breyttist stundum snögglega. T.d. ályktaði fyrrnefnt stofnþing rithöfundasambandsins 1930, að bókmenntahreyfing öreiganna yrði að heyja skefjalausa baráttu gegn sósíaldemókrötum, meðal annars í hópi rithöfunda. En svo var öllum kommúnistum fyrirvaralaust skipað að samfylkja með sósíaldemókrötum gegn fasistum, 1934. Jean Paul Sartre lýsti því í stríðslok, hve illa slík vinnuskilyrði hafi leikið skáldskap kommúnista, þeir þyrftu sífellt að vera við því búnir að skipta fyrirvaralaust um skoðun, bókin sem þótti frábær í fyrra, er skyndilega úrelt, jafnvel háskaleg, pólitískt röng. Loks fari þessir rithöfundar að skrifa óljóst til að vera óhultir.
Þetta má kalla tilfallandi böl, sem segi lítið um ágæti stefnunnar sjálfrar. En einnig hefur komið víðtækari gagnrýni á hana. Friedrich Engels sagði þegar árið 1885, að byltingarskáldskapur úreldist fljótt, því til að hafa ná til fjöldans, verði skáldskapurinn að endurspegla almenna fordóma tímans - en þeir séu þá jafnan afturhaldssemi, svo sem trúarbull byltingarhreyfingar Chartista.
Einnig hefur verið bent á að áróður væri til að hvetja fólk til tiltekinna aðgerða við tilteknar aðstæður. Þessar aðstæður breyttust hinsvegar oft á þeim langa tíma, sem skáldið þyrfti til að meðtaka efni sitt, melta það og vinna úr því. Síðan tæki útbreiðsla verkanna langan tíma, enda lítil lengstum (Þannig væru verk James Joyce og Marcel Proust enn á útbreiðslustigi, tuttugu árum eftir að þau birtust), og útbreiðsla skáldverka væri alltof lítil til að hafa áhrif á almenning. Auk þessa sé eðlismunur á list og áróðri. Skáldsagan Hlutskipti manns eftir Malraux miðli lesendum mikilli tilfinningu fyrir kínversku byltingunni, óháð því hvort túlkanir hennar séu réttar pólitískt eða ekki.
En hvað má þá segja um slíkar sögur sem þá síðastnefndu, eða t.d. sögur Halldórs Laxness, Sölku Völku og Sjálfstætt fólk, sem sannarlega sýna þjóðfélagsöflin, en eru einnig góður skáldskapur? Eru þær ekki dæmi um tilvalda aðferð við skáldsagnagerð, aðferð sem önnur skáld ættu að taka sér til fyrirmyndar? Um það verður hvert skáld að dæma fyrir sig, held ég. Það er mjög mismunandi hvaða yrkisefni, aðferð og afstaða hverjum höfundi hentar. Skýringin er sú, að dulvitundin er mjög virk í listsköpun, og tilfinningalífið breytist mun hægar en vitsmunaleg afstaða. Þessvegna kemur listin á eftir þjóðfélagsbreytingum, en er ekki undanfari þeirra, hvað þá orsök. Reyndar sækja skáld afar mikið í bernsku- og æskureynslu sína, þótt þau vinni úr henni með viðhorfum fulltíða manns. Og tilfinningaleg afstaða til umhverfisins er mjög mismunandi. Fjallkirkjan eftir Gunnar Gunnarsson er þrungin samkennd með öðru fólki, verk Kafka þvert á móti. Baudelaire verður starsýnt á hið slitna, þvælda og smekklausa í umhverfi sínu, fullur leiða, en surrealistar voru fundvísir á óvænt samhengi og annarleg fyrirbæri og hrífandi í sama umhverfi. Ekki vildum við án neins þessara vera. Svo frábær sem Gunnar Gunnarsson gat verið í Fjallkirkjunni þegar hann lýsti persónum og umhverfi sem var honum samgróið og hafði lengi þróast í ímyndun hans, þá varð hann afar hversdagslegur rithöfundur þegar hann skrifaði um persónur og fyrirbæri sem voru hefðbundin í skáldsögum þess tíma, og þóttu nauðsynleg viðfangsefni alvöruhöfundum, konsúlarnir, ritstjórarnir og hefðarmeyjarnar. Þetta eru að vísu alkunn sannindi, en því miður þarf oft að rifja þau upp. Það á ekki að halda neinum viðfangsefnum né aðferðum að skáldum, því einungis skáldið sjálft getur vitað hvað því hentar, og það getur aðeins komist að því með því að hlusta inn í sjálft sig, ef svo mætti segja, og prófa sig áfram. Vanræki skáldið þetta, til að fylgja þess í stað kröfum umhverfisins eða tískunnar, þá verður útkoman blóðlaus verk og afstrakt, þurrar pappírsfígúrur í stað lifandi persóna, því þær geta aðeins stigið upp úr ímyndunarafli skáldsins. Málflutningur er í eðli sínu sértækur, þar eru hugmyndir leiddar fram, röksemdir takast á, út frá almennum sjónarmiðum. Skáldskapur beinist hinsvegar að því að skapa eitthvað sérstakt, sýna í stað þess að útskýra. Því einkennist hann af lýsingum sem eru svo nákvæmar, sérkennilegar, að þær höfða til skynjunar lesenda, og eru því kallaðar myndrænar. Skáldskapur vekur ímyndunarafl lesenda og höfðar til þeirra á marga lund samtímis; auk hins myndræna til skynbragðs þeirra á hljómfall og hljómfegurð, á fléttu andstæðna og hliðstæðna, til tilfinninga jafnframt skynsemi. Og umfram allt er skáldskapur villigróður, stefnir ekki að fyrirfram ákveðnu marki, eins og röksemdafærsla hlýtur að gera. Því er eðlismunur á þessu tvennu.
List er sérstök lífsgæði, en ekki uppbót fyrir lífið eins og stundum heyrist. List höfðar svo alhliða til persónuleika hvers einstaklings, að hún gefur honum einstakt tækifæri til þroska. Því er mikill ábyrgðarhluti að mælast til þess við alþýðufólk, að það afsali sér slíkum þroskamöguleikum í meira eða minna mæli, vegna þess að í verkunum geti það smitast af háskalegum skoðunum. Og við nánari umhugsun virðist ennfremur í meira lagi ótrúlegt að alþýðufólk þurfi þess í stað að lesa tilteknar "róttækar" skáldsögur eða ljóð til að öðlast vitund um að það sé undirokað, og fara að berjast gegn þessari undirokun. Er ekki bein verkalýðsbarátta, verkföll og þvíumlíkt, ásamt umræðum um það, öllu líklegra til að vekja þátttakendum þvílíka vitund? Þessi oftrú á áhrif bókmennta hefur verið rakin til umbótamanna á 18. öld, sem nefndust upplýsingarmenn, og hún byggist á söguskoðun hughyggjunnar. Þeir álitu að hugmyndir stjórnuðu heiminum, böl heimsins væri þá vegna þess að menn fylgdu röngum hugmyndum, og úr því mætti bæta með því að útbreiða réttar hugmyndir. Því dæmdu þessir menn listaverk eftir því hvort þau byggist á réttum hugmyndum eða miður réttum, í stað þess að sjá listaverkin og hugmyndirnar sem sjálfstæð fyrirbæri, mótuð af tilteknum aðstæðum. Og þessi oftrú er landlæg meðal róttækra menntamanna, það er eins og þeir geti margir hverjir ekki ímyndað sér neitt róttækara en aðstæður í skólastofu þar sem einn stendur upp á endann og útskýrir fyrir hinum hvernig í málunum liggi, en þeir kinki kolli, "jahá, svona liggur þá í því." Þetta á þá að einkenna róttæka list.

Svo ég vitni í bók mína Rauðu pennarnir um þetta, þá er það ekki byltingarsinnað að tala til almennings sem óvirkra viðtakenda. Þetta rakti Walter Benjamin, 1934: Skrifi menn fyrir ríkjandi dreifingarkerfi, sagði hann, reynist útkoman gagnbyltingarsinnuð, hversu byltingarsinnuð sem pólitísk hneigð verksins er. Baráttan gegn eymd hefur orðið að neysluvöru, byltingarhneigð að skemmtiatriði. Lesendum og áhorfendum verður að breyta úr neytendum í þátttakendur. Og það gerir t.d. epískt leikhús Brechts með samskeytingu ólíkra atriða, með því að stöðva atburðarásina, með stílrofi svo sem söngvum, neyðir það áhorfendur til undrunar, til umhugsunar um efnið.

Út frá því sjónarmiði að hver maður sé að verulegu leyti barn síns tíma, og að skáld hljóti að vinna úr því sem það hefði mótast af, sannur listamaður geti því ekki valið að vild hvað hann gerir né hvernig, þá er að huga að þeim kenningum, að gildi skáldskapar fari eftir uppruna höfundar eða umhverfi. Þar kemur þá fyrst til álita kenningin um öreigabókmenntir. Upphafsmaður hennar, rússneski læknirinn Bogdanov, hélt því fram um 1917, að hugmyndakerfi (ideológía) væri sú skipan hugmynda sem tjáði skipulagsform vinnunnar á hverju söguskeiði. Hann áleit þá einnig að hugmyndir manna breyttust vélrænt eftir þróun framleiðsluaflanna. Hreyfiafl sögunnar taldi hann vera - ekki stéttabaráttu, eins og Marx hélt fram, heldur tækniþróun. Af þessu er dregið, að með öreigastétt, sérstaklega í fjöldaframleiðslu, kvikni sérstakur hugsunarháttur bróðurlegrar samhjálpar. Hugsunarháttur bænda sé eðlisólíkur þessu, þar fari einstaklingshyggja svo sem hjá borgarastétt. Eyðileggingarandi hermanna sé einnig framandi eðli verkalýðsins, eins og valdboðsandi aðalsins. Þessi nýi hugsunarháttur verkalýðsins móti svo sérstakar öreigabókmenntir, nú þegar áður en öreigarnir geri byltingu, eðlisólíkar fyrri bókmenntum og listum. Þetta nýja eðli birtist ekki aðeins í efni verkanna og anda, heldur einnig í formi þeirra, sem sé einfalt og með reglubundinni hrynjandi - eins og starfið í verksmiðjunum.
Til að efla þvílíka listsköpun alþýðufólks voru stofnuð samtökin Öreigamenning í Sovétríkjunum við byltinguna 1917. Þau urðu skjótt að fjöldahreyfingu. Ýmsar tilraunir voru gerðar til að skilgreina nánar öreigaeðli bókmennta og menningar, og er fróðlegt að sjá úttekt Gastev, eins leiðtoga hreyfingarinnar, á þeim. Hann sagði að ekki þýddi að skilgreina öreigamenningu sem menningu vinnunnar, því vinna hefði alltaf verið til. Stundum er sagt að þessi menning byggist á vitund launavinnumanna, en hvaða munur er þá á hugarfari öreiga og þrælslund? Stundum er talað um baráttuvitund, uppreisnarhug eða byltingarhug, en hefur svo mikið breyst í sögulegu ferli byltingarstétta? Sérstaklega er mikið lagt upp úr samyrkjuandanum ("kollektívisma"). En samyrkja er ekkert nýtt, og hún er af margskonar tagi, m.a. trúarleg, hefur viðgengist í klaustrum öldum saman. Ekki þýðir heldur að ákvarða öreigamenningu út frá ýmiskonar skipulagi verkalýðsins, svo sem ráðstjórn, verkalýðsfélögum eða stjórnmálaflokkum, því þetta eru bara ýmis form lýðræðis; fulltrúakerfis eða beins lýðræðis. Sovétin, svo dæmi sé tekið, eru pólitískt bandalag öreigastéttarinnar við kotbændur og meira að segja við meðalbændur.
Að þessu mæltu kemur Gastev með jákvæða skilgreiningu öreigamenningar, frá því sjónarmiði, að fólk mótist af vinnu sinni, öreigamenning mótist því af færibandavinnu og verkaskiptingu í stóriðju, stálgrindum, stórum einingum og stöðugri hreyfingu. Starfshópar aðlagist vélkerfum, síaukin nákvæmni við vinnu geri vitundina sérlega næma og skarpa, og skapi tortryggni gagnvart mannlegum tilfinningum, nú verði aðeins treyst á vélar. Ekki verði þá lengur til einstaklingsvitund, aðeins stöðluð sálarmynstur, tjáningarlaus andlit og sálarlaus, enga lýrik þekki þau, og engar tilfinningar, mælitæki dugi á viðbrögð þeirra, o.s.frv. Í þessum framtíðarórum virðast mér greinileg áhrif ítölsku hreyfingarinnar sem fram kom í upphafi 20. aldar, framtíðarsinna (fútúrista).
Þessi nýja öreigalist átti að greinast frá borgaralegri list á eins afgerandi hátt og hún fyrir sitt leyti hafði greinst frá lénskri list á undanförnum öldum. Eftirtekjan er afar rýr. Fátt þekki ég sem greint verði frá raunsæisverkum með jákvæðan boðskap - og því stundum mjög óraunsæjum verkum. Það er ekki að undra. Þessi kenning um hvernig ný menning mótist af stéttarlegum sjónarmiðum sýnir engan skilning á því hvernig borgaraleg menning þróaðist. Upphaf hennar varð á Ítalíu 14. aldar, en verulega áberandi varð hún ekki fyrr en á 18. öld, í Englandi, Hollandi og Frakklandi. Hún þróaðist í harðri baráttu - oft byltingarbaráttu, borgarastéttar, sem þegar var sterk efnahagslega og félagslega. Mikill hluti þessarar stéttar tignaði þó áfram menningu aðalsins, og leitaðist við að laga sig að henni. Af þessu leiðir, að nýr hugsunarháttur gat ekki sprottið upp sjálfkrafa hjá öreigastétt sem laut forræði borgarastéttarinnar efnahagslega, pólitískt, félagslega og menningarlega. Það er því auðskilið hversvegna frumkvöðlar marxismans, Marx, Engels, Lenín og Trotskí börðust gegn þvílíkum kenningum, sem leiða hugmyndaheim beint af efnislegum aðstæðum, þ.e. vélgeng efnishyggja.
Trotskí fjallaði ítarlega um þessi málefni 1923. Hann sagði, að ef auðvaldskerfið byði öreigastéttinni tækifæri á þvílíkum blóma, menningarlega og listrænt, sem uppkoma sérstakrar öreigamenningar þýddi, þá væri ástæðulaust að umbylta auðvaldskerfinu. En það væri nú öðru nær, jafnvel eftir byltingu þyrfti öreigastéttin umfram allt að sigrast á vanþróun sinni með því að tileinka sér ríkjandi borgaralega menningu. Í þeim mæli sem hún geri þetta og sósíalisminn komist á, hverfi stéttareðli samfélagsins, í þessu tilviki öreigaeðlið. Alræði öreiganna sé millibilsástand, ferli frá auðvaldi til kommúnisma. Framverðir á þeirri ferð geti ekki heldur skapað nýja menningu, því menning sé samband framvarða við stéttina. Þetta eigi enn frekar við um öreigastétt en borgarastétt, því ný menning alþýðu geti aðeins orðið til fyrir skapandi frumkvæði hennar. Trotskí hæddist að því 1932, að þá var stefna sovéskra stjórnvalda sú, að skapa bæri öreigabókmenntir, en samt áttu Sovétríkin að verða stéttlaust samfélag á næstu fimm árum! Lenín sagði 1920 að verkalýðurinn þyrfti að tileinka sér af gagnrýnum huga allt það sem verðmætt væri í þúsunda ára sögu mennskrar hugsunar, og vísa eindregið á bug öllum tilraunum til að klekja út sérstakri menningu, sem röngum fræðilega og skaðlegum í reynd. Trotskí sagði almennt um þetta, að hvert raunverulegt listaverk hlyti að vera mótmæli gegn raunveruleikanum - þ.e. byltingarsinnað - því í slíku verki kæmi fram krafa um samræmi og auðuga tilveru, þ.e. hin mikilvægustu lífsgæði, sem stéttasamfélag svipti fólk.

Þessi útdráttur úr bók minni, m.a. um öreigabókmenntir er hér rakin til umhugsunar fyrir þær sem undanfarin ár hafa aðhyllst kenningar um sérstakar "kvennabókmenntir". Mér sýnist það mjög svipuð stefna og kenningin um öreigalist. Undirokaður þjóðfélagshópur á að finna sérstöðu sína, og einkum eiga þá bókmenntir hans að skapa honum vitund um hana, gjarnan til að berjast fyrir bættum hag. En málið vandast þegar finna á eitthvað sameiginlegt konum almennt - í öllum löndum, á öllum tímum, og í mismunandi stéttum. Samnefnarinn verður ekki stór. Í sem stystu máli sagt hefur mér sýnst mest bera á tvennu. Annars vegar á kjarni kvennamenningar að birtast í hefðbundnum viðfangsefnum húsmæðra, matargerð og klæðasaumi, barnauppeldi og híbýlaprýði, ásamt ýmsu sem þessu fylgdi fyrr á öldum, sýslan um lyfjagrös og lækningar, vefnað og litun. Öllu þessu átti að fylgja áhugi á hinu lífræna, smágerða og nærtæka, andstætt áhuga karla á víðtæku samhengi, hernaði, stjórnsýslu og skyldum efnum. Þetta er menningarlegur samnefnari kvennalistar, en aðrar finna henni líffræðilegan samnefnara. Þá á kvenleg hugsun að mótast af tíðahringnum, myrkum, þröngum göngum, hlýju flæði og umfram allt; hringrás, allt snýr aftur í sama far. Virðist það boðskapur um kyrrstöðu.
Hér er ekki rúm til að rekja þetta nánar, enda hafa þessar hugmyndir verið mjög á flugi, og hlustendur ættu að geta kynnst þeim nánar í gegnum tímaritið Veru. Ég skal strax taka fram að mér sýnist þessi líffræðilegi samnefnari augljós fjarstæða. Þótt allar konur í heiminum greinist líffræðilega frá öllum körlum, og flestar séu lægra settar en karlmenn af sömu stétt, þá virðist mér ótvírætt, að hvað lífskjör og hugarheim varðar, þá á t.d. íslensk menntakona miklu meira sameiginlegt við karlmann í sömu stétt en við ömmu sína úr alþýðustétt, eða fiskverkunarkonu í smáþorpi, hvað þá ef meira ber í milli kvennanna. Hinsvegar er auðvitað fullgilt viðfangsefni að kanna list kvenna sérstaklega og þá einnig að spyrja hvort hún greinist almennt frá list karla, á tilteknum stað og tíma, eða jafnvel yfirhöfuð og allsstaðar. En mér sýnist að oftast sé annað á ferðinni en leit. Kvennabókmenntafrömuðir gefa sér að skynjun kvenna hafi tiltekin sérkenni, og gefa bókmenntum kvenna einkunn í réttu hlutfalli við hversu mjög slík sérkenni koma þar fram. En það leiðir aftur til þess að meira verður um bókmenntir með þeim sérkennum. Gjarnan er þá miðað við fyrrnefnd einkenni, sem rakin voru til húsmóðurstarfsins á ýmsum tímum, en með því er verið að loka konur inni í fortíðinni. Eins og ég hefi hér reynt að leiða rök að, þá efast ég stórlega um að þetta efli listsköpun kvenna. Því þetta hvetur þær alls ekki til að leita hver sinnar eigin leiðar, sem er forsenda allrar listsköpunar, heldur þvert á móti, til að ganga í flokk undir merkjum tískustefnu, laga verk sín að afstrakt formúlum, fyrirfram gefnum niðurstöðum í stað þess að skapa.

Öll þessi viðleitni sprettur af þeirri trú, að fólk mótist af aðstæðum sínum. Þjóðfélag misréttis, stéttaskiptingar og kvennakúgunar muni ala af sér bókmenntir sem gangi út frá slíku sem meira eða minna sjálfsögðum hlut, og viðhaldi þannig þeim hugsunarhætti að sætta sig við ranglætið.
Ekki efa ég að þetta sé rétt. Það er augljóst mál að bókmenntaverk hvers tíma eru þrungin þeim hugsanahætti sem þá ríkti, svo sem ítarlega hefur verið rakið um svo ólík verk sem t.d. Hávamál og Passíusálmana. En hvernig skyldu hinir kúguðu komast undan ríkjandi hugsunarhætti? Það viðurkenna a.m.k. marxistar, að ríkjandi hugmyndaheimur, einnig hinna undirokuðu, er hugmyndaheimur sem gengur út frá hagsmunum ríkjandi stétta. Og þessvegna hafa ýmsir sósíalistar hamast gegn samtímabókmenntum undanfarna öld, að þeir telja þær bókmenntir endurspegla og útbreiða þann hugsunarhátt, gegn því átti þá að setja byltingarsinnaðar bókmenntir. Þeir sögðu að list borgarastéttarinnar hefði höfðað til alls almennings á meðan stéttin háði byltingarbaráttu gegn undirokun af hálfu forréttindastéttanna. En þegar borgarastéttin hafði unnið sigur í þeirri baráttu, rákust á hagsmunir hennar og alþýðustéttar, sem hefði haft hag af að halda byltingunni áfram. Þá varð ljóst að auðvaldsskipulagið var komið í mótsögn við yfirlýst markmið skynsemishyggju og almennra framfara. Þá varð borgarastéttin andvíg þeim markmiðum, og lagðist í dulhyggju og sjálfshyggju. Listin varð ofurseld þessu, og ekki síst gróðasjónarmiðum, listaverk verða oft markaðsvara, og nú geti þau ekki höfðað til alls almennings eins og áður. "List hnignunartíma verður óhjákvæmilega list hnignunar", sögðu ýmsir leiðtogar sósíalista í lok 19. aldar, en lögðu auk þess áherslu á hve bölsýn list hinnar dauðadæmdu borgarastéttar sé orðin. En verkalýðsstéttin sé eðlilega bjartsýn, sem stétt á uppleið, og hljóti því að hafna þessari list. Mao Ze dong setti þessa afstöðu fram á minnisstæðan hátt í Jenan-erindum sínum 1942, sem birst hafa á íslensku. Hann sagði:

Öreigastéttin "hlýtur að taka afstöðu til lista og bókmennta fyrri tíma eftir afstöðu þeirra til alþýðunnar og eftir því, hvort þær hafa stuðlað að framförum, skoðaðar í ljósi sögunnar." Verk sem séu pólitískt afturhaldssöm geti vissulega haft listrænt gildi, en þau séu þá þeim mun skaðlegri alþýðunni, og þeim mun ákveðnar verði að hafna þeim.

Þetta er fullkomlega andmarxísk afstaða, eins og hér ætti að hafa komið fram. Þessi kenning um hnignun bókmennta og lista í auðvaldsþjóðfélögum byggist fyrst og fremst á alhæfingum án rannsókna - gagnstætt margítrekuðum boðskap Marx og fleiri um að rannsókn á aðstæðum öreigastéttarinnar hverju sinni sé óhjákvæmileg forsenda baráttu hennar. Þessi kenning um hnignun borgaralegrar listar byggist líka á vélgengri efnishyggju; þeirri skoðun að andleg sköpunarverk hljóti að tjá beint ríkjandi viðhorf í samfélaginu, þ.e. viðhorf ríkjandi stéttar, og hljóti að móta lesendur beinlínis með þeim. Þetta er að loka augunum fyrir flóknu, díalektísku sambandi ólíkra sviða mannlífsins - og þá einnig fyrir því, að verkalýðsstéttin verður sjálf að skilja raunverulegt umhverfi sitt til að sigrast á því.
Það er athyglisvert að eindregnustu byltingarleiðtogarnir í röðum sósíalista tóku allt aðra afstöðu til samtímalistar. Þannig bar Lenín mikið lof á Tolstoi, og taldi það eitt verkefna sósíalískrar byltingar í Rússlandi að útbreiða verk hans meðal alþýðu. En Lenín tók um leið fram, að verk Tolstoi væru síður en svo til fyrirmyndar pólitískt. Ranglæti ríkjandi þjóðskipulags væri þar gagnrýnt, en síðan boðað að beygja sig undir okið, að umbera hið illa, en berjast ekki gegn því. Rósa Lúxembúrg sagði að Tolstoi hafi alla tíð verið draumóramaður og siðgæðisprédikari í lausn vandamálanna sem hann fékkst við. En það sé ekki lausn vandamálanna, sem ráði úrslitum um áhrifamátt listarinnar, heldur vandamálið sjálft sem sett er fram, dýptin, dirfskan og einlægnin við að taka á því. Og í því felist ágæti Tolstoi. Ennfremur sagði Lúxembúrg, að til þess að hæfileikar listamanns nýttust, þyrfti hann að hafa til að bera eindregna lífsskoðun, sem einstök atriði kristallist um í skáldverkunum. En dæmin sýna, að sú lífsskoðun þarf ekki að vera sósíalísk eða byltingarsinnuð, til að nýtast slíkri stefnu, heldur þarf verkalýðurinn að tileinka sér þessi verk, þótt þau séu mótuð af stéttarsjónarmiðum sem séu andstæð hagsmunum hans, með því að átta sig á þessum sjónarmiðum. Það er ekki vegna þess að verkin hafi á einhvern hátt jákvæða afstöðu, þrátt fyrir allt, sem gæti gagnast byltingarsinnum, heldur af því að þau gefi færi á skilningi. Bogdanov, leiðtogi Öreigamenningar, sagði að öreigastéttinni sé nauðsynlegt að tileinka sér menningararfinn, einnig þegar hann sé þrunginn hugsunarhætti sem henni sé framandi, svosem trúarleg verk eru þrungin anda valdboðs.
Ástæðan er að þótt tími þessa valdboðsanda sé liðinn, þá er hann ekki dauður. Leifar hans umlykja okkur á alla vegu, stundum óduldar, en æ oftar í allskonar dulargervi, jafnvel hinu óvæntasta. Til að sigrast á slíkum óvini verður að þekkja henn vel.[...] En hver gæti fremur en mikill listamaður leitt öreigastéttina inn í kjarna framandi lífs og hugsunar? Hlutverk gagnrýnenda okkar er að sýna sögulega þýðingu þessa, tengsl við hið lægsta þróunarstig, andstæður við lífsskilyrði öreigastéttarinnar og vandamál. Þegar þetta hefur verið gert, er ekki lengur nein hætta á að öreigastéttin sveigist undir áhrif annarlegs hugsunarháttar, þekking á honum verður einmitt eitt mikilvægasta tæki hennar til að skapa sinn eiginn.

Við getum dregið saman að lokum eftirfarandi niðurstöður: Það er rangt að halda einhverju efnisvali eða skáldskaparaðferð að skáldum, eða ætlast til að tiltekin þjóðfélagsafstaða komi fram í verkum þeirra. Í þessu verður hvert skáld að fylgja eðlisávísan sem er því ekki sjálfráð - þótt það svo auðvitað vinni meðvitað úr innblæstrinum. Pólitísk áhrif skáldverka þurfa alls ekki að fara eftir því sem skáldið reynir að segja. Verk sem er þrungið íhaldssemi á öllum sviðum getur einmitt gefið gott færi á að greina hvernig íhaldssemi birtist á ýmsan hátt. Og ekki verður það skáldverk talið róttækt, sem er einfaldlega að halda tiltekinni skoðun að lesendum í stað þess að vekja alhliða skilning þeirra - hversu vinstrisinnuð sem þessi boðaða skoðun er. En umfram allt er skáldverk eins og margradda kór, þar sem rödd röksemdafærslu er aðeins ein af mörgum sem með þarf. Það er síður en svo nein alþýðuvinátta í því fólgin að vilja hafa listaverk af alþýðufólki, vegna þess að í verkunum komi fram skoðanir sem séu andstæðar alþýðuhagsmunum. Umfram allt eiga byltingarsinnar að treysta alþýðunni til að mynda sér skoðanir og hjálpa henni til þess. Sósíalísk bylting verður aðeins gerð af alþýðunni sjálfri, þegar hún hefur áttað sig á aðstæðum sínum, m.a. á ríkjandi menningu.

Útvarpserindi.1988

Engin ummæli: