fimmtudagur, 15. febrúar 2007

Guðmundur Hagalin

Guðmundur Hagalín

Nokkrar athuganir á ritferli hans fyrsta aldarfjórðunginn

Guðmundur Gíslason Hagalín lést á Sjúkrahúsi Akraness 26. febrúar 1985. Hann var með allra stórvirkustu rithöfundum íslenskum fyrr og síðar. Hann lét eftir sig tylft skáldsagna, aðra tylft smásagnasafna, tylft ævisagna ýmissa mannna, sjálfsævisögu í níu bindum, leikrit, ljóð og sagnaþætti. Hann þýddi um tvo tugi bóka, tók saman úrvalsrit ýmissa höfunda og skrifaði þar um þá, var ritstjóri ýmissa tímarita og ritaði urmul greina og fyrirlestra. Guðmundur var lengi bókavörður, síðar bókafulltrúi ríkisins. Hann tók virkan þátt í stjórnmálalífinu, m.a. í bæjarstjórn Ísafjarðar.
Hér er ekki rúm til að fjalla almennt um ævi Guðmundar og störf, enda ástæðulaust að reyna að keppa við sjálfsævisögu hans. Einnig eru rit Guðmundar á sextíu ára tímabili svo mikil að vöxtum og rnargvísleg, að mér þykir ekki reynandi að fjalla um þau almennt á þessum vettvangi, heldur einungis um þau rit sem mér hafa þótt einna merkilegust, en það eru nokkur skáldrit hans og skrif un bókmenntir fyrsta aldartjórðunginn. Um það skeið í ævistarfi Guðmundar hefur Stefán Einarsson fjallað ítarlega í 130 bls. ritgerð, ,,Guðmundur Gíslason Hagalín fimmtugur. Hér verður því einungis reynt að sjá í samhengi nokkur þau atriði sem mér virðast mestu skipta í bókmenntastörfum Guðmundar á tímabilinu frá lokum fyrri heimsstyrjaldar til loka hinnar seinni, en vísað til ritgerðar Stefáns og sjálfsævisögunnar um frekari upplýsingar.
Guðmundur Gíslason Hagalín fæddist að Lokinhömrum í Arnarfirði 10. okt. 1898. Hann var því nokkurn veginn jafngamall 20. öldinni, eins og flestir þeir sem mestan svip hafa sett á hana hérlendis, í stjórnmálum og menningarmálum. Guðmundur ólst upp við helstu störf í búskap og stundaði sjó á sumrin, þegar hann var í skóla. Bernskuheimili hans virðist hafa verið óvenjuríkt að bókum og Guðmundur hafa lesið allt sem hann náði í. Um fermingu var hann farinn að lesa bækur á norðurlandamálum, m. a. Tolstoi, auk helstu norrænna höfunda. Einkum segist hann hafa hrifist af Þorgilsi gjallanda og Jóni Trausta meðal íslenskra höfunda, og minnist þess síðarnefnda sérstaklega vegna sannra og fjölbreyttra lýsinga hans á lífi íslenskrar alþýðu. Loks var á bænum ,,afar gáfuð kerling og sögufróð", Guðbjörg Bjarnadóttir, sem tók sérstöku ástfóstri við drenginn og sagði honum ógrynni af sögum. Og eru alþekkt fleiri dæmi af fróðum kerlingum sem höfðu mikil áhrif á íslensk skáld á barnsaldri, kunnast er dæmið um Halldór Laxness og ömmu hans. Var Guðmundur sískrifandi og yrkjandi, þegar á fermingaraldri eins og fleiri fræg skáld. En þá var gert hlé á skrifum hans að læknisráði! Hann gekk í skóla, síðast í Menntaskólann í Reykjavík, en hætti þar námi eftir skamma dvöl, tæplega tvítugur. Það er kannski merkilegast við þá skólagöngu. að þá kynntist Guðmundur ýmsum helstu menntamönnum landsins, bæði jafnöldrum sínum og eldri mönnum, meðal annars Unuhússhópinum, sem Halldór Laxness og Þórbergur Þórðarson hafa gert frægan. Guðmundur las nú þýska heimspekinginn Friedrich Nietzsche og varð gagntekinn af ofurmennisdýrkun, sem lengi loddi við hann síðan, — eins og svo marga aðra á þessum tímum. Einna mest ber á því hjá Einari Benediktssyni.
Guömundur var ekki nema tvö ár í Reykjavík að þessu sinni. Hann fluttist til Seyðisfjarðar árið 1919 og var þar ritstjóri blaðs íhaldsmanna næstu fjögur árin (Það hét fyrst Austurland, en síðan Austanfari). Því starfì fylgdi auðvitað að hann kynntist mörgu fólki, fjallaði um margháttuð efni, og las enn mikið af erlendum samtímaskáldum. Einkum hreifst hann af Martin Andersen Nexö, Johannes V. Jensen og Maxim Gorki — af þeim síðasttalda einkum vegna þess hve snilldarlega honum tókst að lýsa ræflum og föntum ,,og finna í þeim góðar taugar, án þess þó að fegra þá hið minnsta". Þetta sagði Guðmundur að hefði öðru fremur opnað augu sín fyrir kjörum og lífi srnælingjanna. Þegar hér var komiô sögu, var ritstjóri íhaldsblaðsins orðinn jafnaðarmaður, og var lengi síðan einn af framámönnum Alþýðuflokksins. Á árunum 1924—7 dvaldist hann í Noregi og flutti víða fyrirlestra um Ísland og Íslendinga, en frá l 928 var hann bæjarbókavörður Ísfirðinga. Það var skilyrði Alþingis fyrir bókasafnsstyrk til bæjarins, að hvötum Jónasar Jónssonar frá Hriflu . Á sama hátt var öðru skáldi útvegað framfæri, Davíð Stefánssyni á Akureyri. Bókavarðarstarfið varð Guðmundi m. a. grundvöllur merkilegra athugana á bókmenntasmekk almennings, og hvernig hann mætti smám saman bæta.

Skáldskaparstefna
Seyðisfjarðardvölin virðist hafa verið mótunarskeið Hagalíns. Þar birtust fyrstu þrjár bækur hans, sem mörkuðu braut hans um langan tíma.
Í fyrstu bóknnì, Blindsker, l 92 l , spreytir Guðmundur sig á ýmsum bókmenntagreinum: kvæðum, ævintýrum (sem þá voru mjög í tísku) og smásögum. Í þeim mátti sjá nokkurn vísi þess sem síðar varð aðalsmark Guðmundar, það er einkum í veðurlýsingum og siglinga. Að mestu er þessi bók þó ósjálfstæð, fálmandi tök í henni.
En það er sérkennilegt fyrir Guðmund rneðal íslenskra höfunda, þótt þess séu kunn ýmis dæmi erlendis — að hann byrjar skáldferil sinn, að heita má, með fræðilegri úttekt á viðfangsefninu. Ritdómar hans ýmsir og greinar um bókmenntir í Seyðisfjarðarblaðinu eru dýpra hugsuð en algengt var um slíkar ritsmíðar. Þar ber af löng framhaldsgrein í blaði hans Austanfara haustið l 922 (sérprentuð sem bók árið eftir): Nokkur orð um sagnaskáldskap. Þar fer Guðmundur skipulega í saumana á helstu skáldritum á íslensku, frá Jóni Thoroddsen til Einars H. Kvarans, gagnrýnir óvægilega, og skipar skáldskapinum í nokkra meginflokka (ég bæti tölusetningunni við)
1. skáldskap, þar sem náttúran, blær hennar, litir hennar, líf hennar i heild verður aðalatriðið.
2. [Tendensskáldskap], sem hefur það sérstaka ætlunarverk, að vinna með eða móti einhverri stefnu í þjóðmálum eða réttara sagt þjóðfélagsmálum, þeim sem að nokkru eru dægurflugur.
3. Hugsjónaskáldskap, þar sem skáldið miðar sögu sína við einhverja sérstaka hugsjón (Ide) eða byggìr á henni, lagar eftir henni persónur sínar, lætur atburðina gerast í hennar þjónustu. Þessi skáldskapur verður nátengdur tendensskáldskapnum, en æðra og óbundnara eðlis en hann. Mörg helstu skáldin hafa verið hugsjónaskáld og unnið mikið verk í þágu mannkynsins um lengri eða skemmri tíma,
4. en sá skáldskapur sem lengst hefur lifað og lengst mun lifa er mannlýsingaskáldskapurinn, eða sá skáldskapur, þar sem skyggnst inn i sálarlíf mannsins til rannsóknar og skilnings, enda ráðið við hverju meini að þekkja upptök þess og síðan uppræta það, en eigi hitt, að búa fyrst til meðalið. [ ... Hér taka skáldin] einhverja persónu eða persónur og lýsa henni með það fyrir augum að draga fram á sjónarsviðið sem rannsóknar- og skilningsefni sálarlíf hennar án þess að þar þurfi að koma til greina þjóðfélagið og lög þess að öðru leyti en því, að það verður alltaf að einhverju leyti leiksvið sem leikurinn fer fram á. Að leiknum loknum eigum vér að skilja betur, eftir en áður það í sjálfum oss og öðrum mönnum, sem persónur skáldsins eru settar saman úr. Vér höfum því ef til vill lært að þekkja sjálfa oss eða aðra betur en áður og höfum því eignast viðbót, sem á að gera oss færari í listinni að lifa. Slíkar bækur hafa gildi um aldur og æfi og hvar í heimi sern vera skal.[ ... ] Því nær sem skáldið dregst því að kafa í sálar- og örlagadjúp einhverrar persónu, því betur tekst honum að láta aðra sjá með sér, finna með sér, og álykta með sér. Og því betur og skarpara sér skáldið, sem djúpið er minna gruggað. Tendensinn [hneigðin] verður eins og eins konar myrkrahöfðingi, er þarf á að halda mannssálum, til að halda í sér lífi og bera boð um sig, - en mannssálirnar líða, verða óþroska og vanþroska í þjónustu hans. Og listin verður verður þý, er þurrka verður fætur hans mjallhvítri skikkju sinni, i stað þess að skapa ljós og skugga, stríð og frið, upphaf og endi mannssálna. [ .. . hve mikið menn eiga sameiginlegt, gefur mannlýsingaskáldskapinum gildi, öllum til handa. Það sem aftur á móti greinir hvern einstakling frá öðrum, gefur honum líf og lit, blæs í hann margbreytni, sem lífið sjálft hefur til að bera.
Eins og hver einstaklingur á sín einkenni, á hver þjóð þau, þegar vel er aðgætt. Landið skapar lífsskilyrði og lífshætti að hinu ytra, hið ytra hefur aftur á móti mikil áhrif á hið innra [ ... því] þarf einkum að rannsaka alþýðu manna, ferðast um landið, kynnast henni heima fyrir og við störf hennar. Hún heldur staðareinkennum sínum best, en menntamennirnir, sem kynnast mönnum af öllu tagi, fá menntun sína í Reykjavik, þar sem þjóðin rennur saman í heild, eða þá erlendis, þar sem alheimsmenningarinnar gætir ennþá meira3

Þessi stefnuskrá er um margt merkileg. Í fyrsta lagi er sú stefna að skáldskapur skuli kanna viðbrögð persónu við ýmsum erfiðum aðstæðum greinilega ættuð frá stefnuskrá natúralismans, sem Emile Zola setti fram í Frakklandi 1880 með bæklingnum Tilraunaskáldsagan, hvaða milliliðir sem þar hafa svo verið (Guðmundur var vel lesinn í erlendum samtímabókmenntum). Í annan stað er það áreiðanlega þessari skipulegu og úthugsuðu vinnuáætlun að þakka, að Guðmundur Hagalín ber af flestum, ef ekki öllum íslenskum sagnaskáldum á 3. áratug 20. aldar. Flest þeirra mega nú þykja ólesandi með öllu, vegna þess að í ritum þeirra yfirgnæfa klisjur í persónusköpun og stíleinkennum, sem þá voru tíska, en eru nú steindauðar. En aðferð Guðmundar var honum leið fram hjá þessum klisjum, því hann setur persónur sínar í þær aðstæður sem hann þekkti best sjálfur frá blautu barnsbeini, líf alþýðufólks vestur á fjörðum.
Á árunum 1921-39 sendi Guðmundur frá sér fjórar skáldsögur og sex smásagnasöfn. Algengustu og minnisstæðustu persónur þessara sagna eru alþýðufólk, ómenntað, einrænt og sérlundað - enda býr það við einangrun. Oft er þessi einangrun landfræðileg, mannveran ein gegn hamslausum náttúruöflum. En hitt er ekki síður algengt, að persóna sé sérvitringur sem gengur fram af umhverfi sínu - eða þá að hún er lítilmagni, eínangruð af lítilsvirðingu samborgara sinna. Það er raunar sígilt viðfangsefni íslenskra smásagna, allt frá frumherjunum um 1880-90. Gestur Pálsson gerði þjóðfelagsádeilu i þessum farvegi, og fleiri skáld, en ekki held eg að það verði sagt um Guðmund Hagalín. Því veldur ramminn sern sögunum er settur; þetta eru einkum sálarlífsathuganir - innra líf einnar persónu við tilteknar aðstæður, og kristallast í einu atviki eða atvikakeðju. Þar er naumast rúm fyrir þjóðfélagsátök. Orð Guðmundar um mannlýsingaskáldskap, sem vitnað var til, eru yfirlýsing um að hann vilji skapa eftirminnilegar, sérstæðar persónur, sem skýrist af aðstæðum sínum, raunverulegum aðstæðum íslensks alþýðufólks framan af 20. öld. Mörgum hefur orðið starsýnt á þessar lýsíngar á alþýðufólki í heimabyggð höfundar, og túlkað þetta svo að þarna væri á ferðinni sjálfsprottin, alþýðleg sagnaritun. Sumir hafa sagt þetta Guðmundi til hróss, míklu fleiri til lasts. En þetta er grundvallarmisskílningur. Sagnagerð Guðmundar sprettur ekki síður upp af lestri hans á erlendum bókum en af vestfirskum sögnum eða lífsreynslu skáldsins og athugunum í heimabyggð. Það er nóg að líta í þjóðsögusafn til að sjá muninn á alþýðlegri frásagnarlist og sögum Guðmundar. En vissulega er það einn helsti styrkur þeirra, að þær byggjast á nákvæmri athugun á yrkisefninu - íslensku alþýðufólki - og ínnlífun í hug þess.
Meginatriði sagna Guðmundar Hagalíns eru sálfræðilegar athuganir á viðbrögðum persóna við mismunandi aðstæðum. Af því leiðir, að hann hneigist oft til að láta reyna verulega á persónurnar, setja þær í óvenjulegar og erfiðar aðstæður. Þetta hefur stundum verið kallað reyfarakennt, en mér finnst fráleitt að kalla þessar sögur reyfara. Því í reyfurum skiptir hröð og spennandi atburðarás mestu máli, en persónur eru yfirleitt mesta flatneskja. Þessu er öfugt farið í bestu sögum Guðmundar eins og áður segir; persónurnar eru meginatriðið, og rækt lögð við lýsingu aðstæðna þeirra, lýsingu, sem i meginatriðum er sannfarandi. Frægt er að þar tókst Guðmundi oft mjög vel upp, einkum í lýsingu á ofviðrum og erfiðum siglingum, óvegum, og á hrjúfri, ómennskri náttúru. Guðmundi lét líka vel að lýsa sérkennilegum einstaklingum, sem mótast hafa af baráttu við þessi óblíðu náttúruöfl sem reyna svo mjög á þrek þeirra og hugvit. Sléttmálar samkvæmisverur eru síður áberandi. Í þessari aðferð felst það sem margir hafa túlkað sem einstaklingshyggju, jafnvel hetjudýrkun. Það er sjálfsagt ekki fjarri lagi, en þess er þá að gæta, að slíkur hugmyndaheimur var samgróinn því samfélagi, sem Guðmundur gerði skáldskap af. Bent hefur verið á að Guðmundur virðist hafa sérstakt dálæti á fulltúum gamla tímans, íhaldssömum valdamönnum svo sem Melakónginum, Einari konsúl í Brennumönnum, og fleiri mætti telja.4

Málið
Guðmundur Hagalin markar skáldskaparstefnu sína enn skýrar með örstuttum formála smásagnasafnsins Strandbúar, 1923:

Íslenskir skáldsagnahöfundar hafa lítið gert að því að láta persónur sínar tala sem óbreyttast alþýðumál. Má segja, að Jón Thoroddsen sé þar sérstæður. En ég tel það eigi lítils vert, að farnar séu sem mest brautir talmálsins. [ ... ] Þá er ég skrifa sögur, hef eg ósjálfrátt í huga Vestfirði, vestfirska lífernisháttu og vestfirskt lundarfar. Gleymdum orðum skýtur upp, þau verða samræm persónunum og krefjast réttar síns5.

Fyrsta bók Guðmundar, Blindsker, 1921, var ekki sérkennileg að þessu leyti, en frá Strandbúum að telja er stefnunni fylgt, enda þótt áhöld séu um hversu bókstaflega Hagalín fylgdi henni. T. d. lýstu ýmsir Vestfirðingar því yfir, að þeir könnuðust ekki við þá vestfirsku sem Kristrún í Hamravík talaði.6 En því má til svara, að sú persóna á að vera sérkennileg i sínu vestfirska umhverfi, og mótast mjög af Vidalínspostillu. Ýmsum þeim sem ritdæmdu Sturlu í Vogum (Helga Hjörvar, Pétri Magnússyni, Steindóri Steindórssyni, sjá aftanmálsgrein 16) fannst vel fara á sérkennilegri mállýsku sögupersóna, en átöldu hitt, að sögumaður skyldi þá hafa sömu sérkenni i máli og þær höfðu. Persónur Hagalíns tala sérkennilega íslensku, og vafalítið er það mál byggt á bernskuminningum höfundarins. En ætli hér gildi ekki hið sama og um aðra eiginleika persónanna, að Hagalín hnykkir á, leggur áherslu á hið sérkennilega, fremur en hið almenna. Það segir raunar litið um gildi skáldverks, hversu nákvæm eftirrnynd það er af þjóðlífinu, í málfari eða öðru. Ég efast um að nokkurrn tíma hafi verið markmið Guðmundar að gera sem nákvæmastar eftirmyndir. Það felst ekki i stefnuyfirlýsingu hans og væri í eðli sínu andstætt skáldskap, sem var eiginlegt markmið hans, svo sem kemur m. a. glöggt fram í aðdáunarorðum hans um Sult eftir Knut Hamsun, 1921. Guðmundur segir þar um söguhetjuna:

[Maðurinn] skapar sér í neyð sinni ný tilveruskilyrði, lifir blátt áfram á því að hleypa út í iðandi flaum skapandi hugmyndagáfu sinni og sífrjóum tilfinningum sínum, því að þrá hans til að nota þau feikilegu auðæfi sem í honum búa, bannar honum að gefast upp og gefur honum vængi, er fleyta honum inn á ónumin lönd, sem menningin þekkir ekki, en frummaðurinn hefur verið í daglegur gestur.7

Það er auðskilið af því sem nú hefur verið rakið um aðferð Guðmundar, að bestu verk hans voru smásögur, þar sem hvert atriði beinist að því að skoða eina persónu við örlagaríkan atburð (sérstaklega má nefna smásagnasöfnin Guð og lukkan, 1929, og Einn af postulunum, 1934). Skáldsagnagerð er af öðru tagi, vinnubrögð önnur. Enda er vinsælasta skáldsaga Guðmundar, Kristrún í Hamravík, mjög lík smásögum að gerð, eiginlega tvær samtengdar smásögur. Persónur eru örfáar, sögusviðið þröngt og alltaf hið sama (baðstofugólf), sagan kristallast i tveimur meginatvikum, og snýst fyrst og fremst um eina persónu. Í smásögum hafði Guðmundur lag á því, að láta alla þætti spinnast saman. En þau tök hafði hann ekki á skáldsögum, þar er hann fremur ósjálfstæður. Ef tekið er dæmi af fyrstu skáldsögu hans, þá höfðu mörg skáld lýst veðri til að skapa hugblæ sögunnar, eða til að sýna óbeint hug persóna. Má nefna sem dæmi Gest Pálsson, Guðmund Friðjónsson, og Guðmund Hagalín sjálfan, í ýmsum smásögum. En í Vestan úr fjörðum blandast inn i slíkar lýsingar óþarfar útskýringar, huglægt tal (sem ég auðkenni her) t. d. í V. kafla:

Dögum saman æðír norðanstormurinn yfir landið, nístandi kaldur og hlífðarlaus [ ... ] Yfir suðandi og stynjandi öldubroti sævarins sveima tignir, svangir mávar. Við og við kveina þeir sáran - eins og drukknandi maður sendi miskunnarlausri tilverunni hinstu kveðju sína - einhvers staðar utan úr kvíðvænlegum sortanum er drúpir yfir hvítfyssandi öldum.8

Þegar á að sérkenna persónur (t. d. I VII. og IX. kafla) koma ekkert nema klisjur um manntegund. Og afturhaldssamur bóndakurfur er t. d. látinn tala um hugmyndaheim sinn með orðalagi framandi manns, á fullkomlega afstrakt hátt (sem ég auðkenni hér):

Við erum orðnir gamlir, en ýmsir bændur hér i sveit eru ungir og upprennandi. Hver veit hvernig þeir snúast, þegar nýjungafarganið sækir á? Mér heyrðist í dag á honum Jósef á Tindum, að hann sæi ekki mikið eftir því gamla.

Svipað hendir Guðmund oftar, jafnvel i góðum smásögum, t. d. í sögunní Einstæðingar, þar sem raktar eru hugsanir einmana krypplingsstúlku, sem heldur að kaupamaður se orðinn skotinn í henni:

Jú, hún varð að trúa því að hann vildi henni eítthvað sérstakt (Guð og lukkan,bls. 60)

Svona talar stúlkan ekki, heldur höfundur, lesinn í sálfræði. En þessar og þvílíkar aðfinnslur eiga ekki bara við frumraun Guðmrundar í skáldsagnagerð. Önnur skáldsaga hans, Brennumenn, fylgir þeirri tísku sem þá var ráðandi, t. d. í því að útmála þrútnar tilfinningar ástar og haturs - að ekki sé sagt tilfinningsemi, í stíl Einars H. Kvarans, sem þá var höfunda vinsælastur. Persónusköpun er miklu hefðbundnari - og lakari - en vant er hjá Hagalín, enda er málfar persónanna ekki sérkennandi fyrir þær, eins og er í smásögunum. Ýmist tala persónur í hversdagslegustu lágkúru, eða ritmáli, þegar meira þykir liggja við, svo sem í hugsunum kvenhetjunnar sem á að vera í uppnámi vegna þess að hún er að missa kærastann:

En ef hann nú, þrátt fyrir allt, elskaði hana enn þá? Nei, þá hefði hann ekki vísað henni frá sér, þegar hann helst þurfti ástúðar. Tortryggni fólksins hennar vegna og lítílsvirðing og hatur foreldra hennar á þeim hugsjónum, sem honum voru kærastar, hafði smátt og smátt lamað ást hans.10

Atburðarásin er ekki síður hefðbundin, og mjög reyfarakennd. Önnur kunnasta skáldsaga Guðmundar, Sturla í Vogum, hefur ýmsa þessa galla, og er einnig gölluð að byggingu, - svo sem ýmsir bentu á. Sú saga fékk samt góðar viðtökur; um hana birtust a. m. k. fimmtán ritdómar, allir jákvæðir nema tveir eða þrír. Almennast er lof um að persónur bókarinnar séu lifandi og líkar raunverulegu fólki. En algengustu aðfinnslurnar voru þær, að sumir atburðirnir væru of reyfaralegir, og sumar persónur of yfirborðslegar, dregnar, í svörtu og hvítu, jafnvel aðalpersónan. Brátt skal vikið nánar að þessum aðfinnslum, sem mér finnst tvímælalaust réttmætar. Skáldsögur Guðmundar eru svo miklu lakari en smásögur hans, að óttast má að það hafi spillt dómgreind hans á eigin verk, hve mjög hann þverskallaðist við þessu og beitti sér að skáldsagnagerð. Skýring þessa er sjálfsagt sú, að skáldsögur voru og eru miklu meira metnar en smásögur. Guðmundur er þarna að beygja sig fyrir almenningsálitinu og markaðsmöguleikum, frekar en að fylgja eigin upplagi. En slíkt hlaut að hefna sín, eins og hann rakti raunar manna best. sjálfur. Upp úr 1930 koma æ oftar frá honum innihaldslitlar greinar og ritdómar, þótt áfram séu merkisgreinar innanum.
Megineinkenni sagnaritunar Guðmundar, sem hér hafa verið rakin, eru öll dæmigerð fyrir raunsæisstefnuna í hókmenntum, svo sem hún hefur verið túlkuð undanfarna öld. Skáldin beitir sér að því að skapa lifandi, sannfærandi persónur, og að gera skiljanleg viðbrögð þeirra við aðstæðum og atburðum, sem gætu hafa gerst. Áhersla er lögð á lifandi málfar persóna, þær tala mállýsku, hvort sem hún er staðbundin eða stéttbundin. Svona hefur almenn fyrirmynd skáldsagnagerðar (og smásagna) verið, a. m.k. frá dögum Emile Zola. Það er því fróðlegt að sjá, að Guðmundur Hagalín áttaði sig snemma á þvi, að önnur aðferð gæti átt rétt á sér, þar sem stíllinn gengur á vissan hátt í berhögg við efnið, svo sem tíðkast hefur hjá módernistum allt frá upphafi þessarar aldan. Árið 1924 segir Guðmundur um Pan eftir Knut Hamsun:

Ótal ráð á Hamsun til að láta okkur sjá og heyra það, er hann vill. Málið leikur honum á tungu, og í stílnum eru töfrarnir í algleymingi. Eins og leiftur fljúga hugsanir gegnum höfuð okkar, myndir fyrir augu okkar. Stundum eru töfrarnir í því fólgnir, að hver spurningin rekur aðra og allt snýst fyrir okkur, uns hann hefir komið okkar í það ástand er honum hentar. Stundum endurtekur hann setningu, eða það sem í henni felst, stundum bætir hann við stuttri, lokkandi athugasemd, og eigi ósjaldan eru töfrarnir í því fólgnir, að hann breytir örlítið orðaröð eða jafnvel greinarmerkjaskipan. Vilji hann fá okkur til þess að gefa frekari gætur að því, sem á undan er komið, er hann vís til að bæta við einu hirðuleysislegu „jæja!" Okkur hregður, og við tökum að athuga, hvort þetta eigi nú þarna við. Þá má það veI vera að við uppgötvum eitthvað sem fram hjá okkur hefur farið, t.d. það, að stígurinn ofan að mylnunni hefur margar sögur að segja.11

Þótt Guðmundur bendi hér á eina leið til að yfirstíga raunsæishefðina, sé eg ekki að hann hafi nokkru sinni vikið frá henni sjálfur-nema hún sé skilgreind þröngt, eins og hann taldi að forvígismenn hennar hefðu gert, því þeir vildu finna öllu stað efnislega - og í stríðshitanum [í baráttu fyrir málefnum] gleymdu þeir því að lífið - og þá um leið ástin - er fyrst og síðast óskiljanlegur dulardómur-gleymdu einmitt þvi, sem gefur lífinu eilífðarbjarmann, segir Guðmundar 1926 í grein um Þorstein Erlingsson.12

Staða skálda
Hér hef ég reynt að segja nokkurn kost og löst á skáldverkum Hagalíns. Má í framhaldi af því minna á orð hans sjálfs, árið 1923, að gallalaus skáldverk séu varla til, og mjög títt er, að skáldin sjálf sjái marga af göllunum á ritum sínum, þó að þau sleppi þeim frá sér [... af því að ritin eru] hjá góðu skáldi svo samgróin sál þess, [... ] að veilurnar eigi skáldritið og skáldið sameiginlegar.
Hvað eftir annað fjallaði Guðmundur um aðstæður listsköpunar, öðrum ítarlegar og betur. Það er þó einkum i greinaflokki í Alþýðublaðinu 1935: ,,Skáldskapur og menningarmál". Guðmundur rekur þar hvernig skáld mótist i bernsku, svo að á þeirri mótun rísi

dýpstu, sönnustu og mannlegustu lýsingar þeirra til fegrunar eða lýta. [Þá mótast lífsviðhorf skáldsins, sem] er kannski í bernsku en þá áhrifanæmara og mótanlegra en aðrir-og verður síðan vettvangur harðvítugri baráttu milli skynsamlegs og praktisks viðhorfs annars vegar - og aðstöðu gamalla og nýrra tilfinningaáhrifa hins vegar - heldur en títt er um allan þorra manna. Það er því ekki undarlegt þótt einmitt skáldin reynist í skáldritum sínum marglynd og mislynd og erfitt sé oft að draga þau á ákveðinn bás.
Þetta verður enn þá ljósara, þegar athugað er, hvernig t. d. skáldsaga verður til. Ef til vill hefir eitthvað lengi vel dregið að sér athygli skáldsins, annað hvort sérstakir persónulegir eiginleikar eða sérstakt menningarlegt eða þjóðfélagslegt viðhorf og mótun þess á mannssálunum. Áhrif þessa verða styrkari og styrkari, óróa rithöfundinn, og krefjast þess, að hann geri sér ákveðna grein fyrir efninu. Hann fer að fást við það, leiða ákveðið að því hugann aftur og aftur-og smátt og smátt fer það að verða ákveðandi urn þær athuganir, sem han gerir í heimi minninganna, í sálum manna, sem hann hefir þekkt, þekkir og er að kynnast. Enn fremur verður auga hans skarpara fyrir öllum atburðum, gömlum eða nýjum, sem að einhverju leyti dýpka efnið eða skýra. Allt, sem á einhvern hátt getur gert það ljósara og gætt það ákveðnum lit og lífi, grípur skáldið með áfergju - og tillit í ýmsar áttir komast lítt að. Þegar svo efnið hefir náð ákveðnu stigi festu, lífs og formunar, útheimtist nákvæmari og skipulegri útfærsla en unnt er að geyma sér í minni. Þá er kominn tími til að skrifa. Þá kemur kunnátta, æfing og dómgreind skáldsins fyrst verulega til sögunnar. Fyrst er það, að mál- og stílblær verður að vera í samræmi við það viðhorf, sem hjá skáldinu hefir skapast gagnvart efninu - og geta fangbrögð skáldsins við stílinn kostað ærin átök og áreynslu. En þetta er ekki nóg. Ýmislegt af því er skáldið hafði viðað að sér fellur ekki inn í ramma stílsins og þeirrar heildarniðurstöðu, sem skáldið hefir komist að áður en það fór að skrifa. Og þá verður þetta ekki nothæft. Stundum sýnir það sig líka, að efnið hefir ekki verið nægilega upplýst, skortir blæ þess ytri eða innri veruleika, sem skáldið krefur að náist í formuninni. Þá þarf að bæta við nýjum manneskjum, sem horfa á annan veg við efninu en hinar, búa til nýja atburði, er leiða fram þessi viðhorf. Og eins og tjáir ekki að lofa því að fljóta með, sem annað hvort er óþarft eða leiðir athyglina að öðru en því, sem á að upplýsa, því sem er aðalatriðið í augum höfundar, eins tjáir ekki að skirrast við að nota það, sem skýrir og skerpir hina ákveðnu drætti, sem skáldinu virðast einkennandi fyrir viðhorf þess við viðfangsefninu. Það er sama hvort það er ljótt, fallegt, vont, gott, það er litur, sem eykur á innra eða ytra veruleikagildi myndarinnar sem heildar.

Í framhaldi af þessu skýrir Guðmundar gildi tveggja lýsinga, sem marga höfðu hneykslað: á samförum Daða og Ragnheiðar í Skálholti Guðmundar Kambans, og á uppboðinu í smásögunni Nýja Ísland eftir Halldór Laxness. En við grípum niður í því sent hann segir um félagslegt hlutverk skáldskapar:

Með þessari greinargerð hér á undan og þessum dæmum, sem ég hefi tekið, hefi eg viljað gera skýra afstöðu hins sanna skálds gagnvart efninu og list sinni. Einmitt það, sem stenst fyrir dómi skáldsins sem ytri vottur þess, er innra með því býr, verður að koma fram - verður að fá að standa. Annars verður afstaða skáldsins gagnvart formun efnisins óviss, login, dauf og dauð, en það er skáldsins ómótstæðilega þrá, að kafa i djúp viðfangsefnanna og gefa þeim frá viðhorfi síns vitsmuna- og tilfinningalifs sem sannasta og innilegast lifaða úrlausn.
Ég þarf í rauninni ekki að segja meira um afstöðu skáldanna til þeirra krafna, sem lesendurnir gera til þeirra. Þau geta ekki í skáldritum sínum, ljóðum, leikritum eða sögum, gengið á mála nema misþyrma því dýpsta í skáldskaparhneigð sinni, þörfinni til að forma efnið í sem fyllstu samræmi við þeirra eigið viðhorf, mótað af ótal mismunandi áhrifum fortíðar og nútíðar og þeirra drauma, sem þessi áhrif tengja við framtíðina.

Vissulega getur gott skáldverk tekið afstöðu, segir Guðmundur í framhaldi af þessu, en skáldið verður þá að vera sjálfboðaliði, sem laðast einlæglega með, og ræður ferðinni sjálfur - yfirleitt meira leitandi og hikandi en stjórnmálaleiðtoginn, sem getur þar af leiðandi ekki ráðið ferðinni hjá skáldinu. Enda kemur það samfélagi sínu - og málstað - að bestum notum þannig, íhugult og skoðandi hlutina frá ýmsum hliðum. Þessi greinargerð Guðmundar er öll hin yfirvegaðasta sem ég hefi séð um þetta sígilda deilumál, og þyrfti að verða aðgengileg almenningi. Hann tók meginatriði hennar upp aftur í bókinni Gróður og sandfok14, 1943.

Viðtökur
Framan af hefur bókum Guðmundar verið tekið vel, það sem ég hefil séð. En svo fer að versna í því í lok þriðja áratugarins. Mikilvirkur gagnrýnandi, sr. Gunnar Benediktsson, hafði jafnan á orði, að einu sinni hefi Hagalín verið þokkalegur, en nú væri hann alveg búinn að vera. Rangur þykir mér sá dómur um þróun Guðmundar þessi árin. En hér verður þess að geta, að Gunnar var einn helsti boðandi sósíalrealismans; þ. e. að nú væri kominn tími nýrrar verkalýðslistar, sem auk þess að afhjúpa óvægilega böl auðvaldsþjóðfélagsins, sýndi vígreifa öreigastétt í byltingarbaráttu gegn því þjóðfélagi. Gjarnan mátti þá aðalpersónan taka sinnaskiptum til að aðhyllast verkalýðsbaráttu. Með þessu móti legði listin byltingarbaráttunni lið sem fyrirmynd, fordæmi. Þessu fylgir, að á fjórða áratug aldarinnar einkanlega, gagnrýna kommúnistar ýmis vinsæl skáld fyrir það, að borgarleg viðhorf þeirra valdi því, að þau fjalli ekki um átök samtíðarinnar, enda skorti þau skilning á þeim, þar sem þau hafi fjarlægst hugsunarhátt alþýðunnar. Það eru einkum Davíð Stefánsson og Guðmundur Hagalín sem verða fyrir þessari gagnrýni. Og ástæðan er ótvírætt sú, að þeir lýsa raunverulegum hugarheimi alþýðunnar, og á máli hennar sjálfrar - en það er hugmyndaheimur alþýðu sem ekki er byltingarsinnuð. Því litu sósíalrealistar á þessi skáld sem hindrun í vegi byltingaraflanna, álitu verk þeirra viðhalda þessum hugsunarhætti hjá alþýðu.15
Þó keyrði fyrst um þverbak þegar Guðmundar sendi frá sér fyrrrnefnda 600 bls. skáldsögu, Sturla í Vogum, 1938. Um hana skrifaði Gunnar Benediktsson, rúmlega heillar síðu ritdóm í Þjóðviljann, en það var a. m. k. þreföld venjuleg lengd ritdóma þar. Langa grein skrifaði hann svo um söguna - og þó einkum um viðtökur hennar - í bók, árið eftir. Ýmislegt er hér vel athugað hjá Gunnari, einkum um einkenni smásagna Guðmundar, en honum finnst einkenna þessa sögu, að atburðarásin sé ærið stórbrotin og reyfarakennd:

... þá dynur yfir hvert ólánið af öðru. Um sumarið fýkur megnið af heyi þeirra, einnig hlaða og báturinn sem Sturla hafði til aðdráttar heimilis síns af sjónum [ ... ] En allir þessir erfiðleikar renna út úr höndunum á skáldinu. Skáldið stillir söguhetju sinni aldrei andspænis þeim, heldur tekur hana á arma sér og ber hana yfir alla erfiðleika án þess að til átaka komi [ ... ]. Maðurinn á peninga eins og skít. Hann kaupir hey, eins og honum sýnist og hann þarf og borgar allt í reiðu, hann kaupir bát líka fyrir peninga út í hönd og prjónavél handa konunni sömuleiðis.

Fyrst þessi átök renna út í sandinn, verður persónusköpun óljós:

Af því að Guðmundur er kominn út úr öllu sambandi við fólkið, kann ekki að setja sögur sínar í samband við hið stórbrotna í hversdagslegustu viðfangsefnum alþýðumannsins, þá verður hann að sækja púðrið í söguna til hins óvenjulega, svo sem nautaats og kvennanauðgana. Höfuðviðfangsefni alþýðukonunnar, Þorbjargar í Vogum, verða brjálæðiskenndir kynferðisórar.

Raunverulegar andstæður sögunnar verða þá milli einstaklingsins, sem spjarar sig af óheyrilegum dugnaði og auðgast af eigin rammleik, og hinsvegar er

eina fátæka heimilið sem við söguna kemur [ ... ] þar sem fram fara skipulegar umræður, alveg eins og það væri kratafundur á Ísafirði, og teknar formlegar ákvarðanir og þær framkvæmdar skipulagslega rneð ferðalögum eftir ákveðinni ferðaáætlun. Eða hvað segja menn um annað eins og það, að heil fjölskylda haldi fundi að næturlagi og beini almennri áskorun til frumburðar heimilisins um að bregða sér til næsta bæjar og nauðga húsfreyjunni?

Af þessu, meðal annars, ályktar Gunnar, að sagan sé fyrst og fremst lofsöngur um einstaklingsframtakið. Þessi skilningur á sögunni hefur ríkt síðan, enda mun Ólafur Thors hafa sett hann fram líka, í útvarpi 1. desember, viku á undan Gunnari. Svo virðist sem það hafi þó aðeins verið eins og venjulegt er um bókmenntatilvitnanir stjórnmálamanna, eitthvað á þessa leið: ,,Það kostar að vera karlmaður, Þórður Sturluson", eins og skáldið Guðmundur Gíslason Hagalín segir í hinni snjöllu bók sinni, Sturla í Vogum." Gegn þessari tangarsókn andstæðra stjórmnálaafla mátti sín einskis túlkun hófundar sjálfs í blaðaviðtali, og ritdómara helstu blaða og tímarita: Morgunblaðsins, Tímans, Skírnis og Nýrra kvöldvakna, þ. á m. flokksbróður höfundar, Sigurðar Einarssonar, í Tímariti Máls og menningar, málgagni bókmenntahreyfingar sósíalrealista16. Mætti þó augljóst vera hverjum lesanda sögunnar, að sú túlkun er rétt, en hin ekki; sagan er ákafur boðskapur gegn einstaklingshyggju, en fyrir samhjálp alþýðu! Vissulega er hetjudýrkun áberandi í sögunni, eins og í fleiri sögum Guðmundar. En það má þá segja, að sagan verði að útmála þann útbreidda hugsunarhátt vel, til að geta tekist á við hann. Vissulega er illa útskýrt i sögunni hvernig Sturla sigrast á öllum þessum örðugleikum, sem máttu virðast óyfirstíganlegir. En það er þó til að sýna lesendum að það er ekki efnisleg nauðsyn sem knýr Sturlu frá hugsunarhætti "sjálfstæðs manns" til vesaldóms, eða útskýrt svo, að þarna væri hvikað frá annars sjálfsagðri hugsjón vegna sérstakra, erfiðra aðstæðna. Nei, Sturlu snýst hugur vegna sálrænnar nauðsynjar, vegna þess einfaldlega, að mannlegur þroski þýðir það að vera félagsvera. Sjálfstæðishugsjón sú, sem hann fylgdi áður, er skýrð sem sálræn bæklun þess sem hafði verið niðursetningur í æsku (líkt og í Brennumönnum). Það er með ólíkindum að sósíalrealistar skyldu ekki sjá í sinnaskiptum aðalpersónunnar skyldleikann við stefnu sína - þó svo að hér sé ekki flokkserindreki á ferð til að glæða verkalýðsbaráttu, heldur aðeins nokkrir fáfróðir bændur um aldamótin, sem hafa haft óljósar spurnir af samvinnufélagi í fjarlægum kaupstað. Þetta er þó raunsæilegur rammi! En raunar þarf ekki að grafa djúpt eftir rótum misskilningsins. Þær koma skýrt fram í ritdómi Guðmundar Friðjónssonar í Vísi: þar liggja í því frumstæða bókmenntamati, að söguhetja hljóti að vera ætluð lesendum til fyrirmyndar af hálfu höfundar. Menn höfðu svo mjög átt „siðbætandi bókmenntum" að venjast, að slíkt bókmenntamat hlaut að vera útbreitt. Þótt margt sé vel athugað í ritdómi Guðmundar Friðjónssonar, þá virðist hann líta á þetta sem sjálfsagðan hlut, svo það hafa þá væntanlega margir gert:

En úr því að höfundur þessarar Sturlungu tók sér fyrir hendur að sýna fyrirmyndar dugnaðarmann öðrum til styrks og vaxandi manndóms, gat hann vel gert Sturlu í Vogum úr garði þannig að hann væri lesendum aðgengilegri en hann er.

Stefán Einarsson (bls.cvi) álítur að bæði Gunnar Benediktsson og Guðmundur Friðjónsson hafi hér verið að hefna sin fyrir ómilda ritdóma Hagalíns um skáldrit þeirra. En mér virðist sú skýring óþörf, þar sem hlutlægar ástæður dóma þeirra eru ærnar.
Og mistúlkunin ríkti áfram, t. d. í fvrsta árgangi Timarits Máls og menningar, 1940, en það varð þegar eitt útbreiddasta tímarit landsins. Þar endurtók Kristinn E. Andrésson helstu rök Gunnars Benediktssonar fyrir því, að bókin væri ómerkilegt áróðursrit íhaldssjónarmiða, hafin til skýjanna af stjórnvöldum til þess að heimska þjóðina, og til að íhaldsöflin ættu eitthvert mótvægi gegn Halldóri Laxness17. Reyndar höfðu nokkrir ritdómarar beinlínis bent á Sjálfstætt fólk til samanburðar, og talið Sturlu í Vogum fremri, því aðalpersónan þar væri mannlegri og skiljanlegri en Bjartur (þetta sögðu m. a. Steindór Steindórsson i Nýjum kvöldvökum og Jón Jóhannesson í Siglfirðingi). Mér sýnist augljóst, að hér réðu stjórnmálasjónarmið ferðinni að nokkru, sterk öfl hafa oft verið að verki við að troða Guðmundi Hagalín (eða bara einhverjum) inn í þetta hlutverk mótvægis við HalIdór. Það er gert undir yfirskini lotningar, en er auðvitað hinn mesti ógreiði við Guðmund, og til þess eins fallið að dylja fyrir almenningi raunverulega kosti hans, eins og ef þrístökkvara væri hrósað fyrir hástökk. En þessi saga sýnir, að þegar fyrir stríð voru verk Guðmundar að hverfa í pólitísku moldviðri.

Gróður og sandfok var svar Guðmundar við ádeilu kommúnista. Þetta er rúmlega 200 bls. bók í litlu broti. Hún birtist 1944 (enda þótt á titilsíðu standi: 1943, því bókin hafði þá legið meira en ár hjá útgefanda, sagði Guðmundur mér tæpum fjörutíu árum síðar26). En bókin hefst á grein sem birst hafi í Lesbók Mbl. 1940. Í bókinni gerir Guðmundar upp reikningana við kommúnista, bæði á sviði stjórnmála og bókmennta. Hvað fyrrtalda atriðið varðar, þá hefur mér sýnst það vera í megindráttum samantekt á ýmsu sem birst hafði í Alþýðublaðinu undanfarin ár, einkum um ógnarstjórnina í Sovétríkjunum, 1936-8.
Bókmenntaþátturinn virðist mér miklu merkilegri. Guðmundur sýnir fram á alvarlega mótsögn í málflutningi bókmenntahreyfingar sósíalrealista. Það á hann þeim mun hægara með, sem hann gengur að verulegu leyti út frá sömu forsendum og þeir: Til þess að maður geti skáldað um efni, verður hann að þekkja það mjög náið, ekki aðeins vitrænum skilningi og þekkingu, heldur vera innlifaður því. Menn Rauðra penna gerðu síðan vel grein fyrir því, einkum Kristinn E. Andrésson18, hvernig yrkisefnin mótast í meðförum almennings, áður en skáldin taka þau fyrir. Skáldin fást því ekki við hráa atburði, heldur við yrkisefni sem eru þrungin hugmyndum ríkjandi hugmyndum sarnfélagsins. En samkvæmt kenningum marxista eru það borgaralegar hugmyndir i auðvaldsþjóðfélagi, þ. e. hugmyndir sem réttlæta ríkjandi skipulag. Marxistar kenna enn, að til að sigrast á þessum hugmyndaheimi þurfi alþýðan almennt að hevja sigursæla byltingarbaráttu. En stalínistar ætlast til leiðsagnar af skáldum, þ, e. að einstaklingur, skáldið, taki heljarstökk út úr umhverfi sínu og móti fjöldann. Þessa mótsögn afhjúpaði Trotskí þegar árið 1924 í riti sínu, Bókmenntir og bylting, og Guðmundur Hagalín er mjög á söma bylgjulengd og Trotskí og aðrir marxistar, t.d. Marx sjálfur, andstætt stalínistum19. Hugsanlegt er að Guðmundur hafi þekkt þetta rit Trotskis beint eða óbeint, í gegnum tímaritsgrein. Eg veit það ekki, enda bendir ekkert til þess beinlínis. Röksemdafærsla Guðmundar rís einfaldlega af grundvallarviðhorfum hans í skáldskap, raunsæisstefnu, svo sem hér hefur verið reynt að lýsa. Guðmundi tekst einkar vel að lýsa þeim ógöngum sem skáld geta lent í með því að fvlgja leiðsögn annarra, út af sínu eðlilega sviði. Þetta mikla gildi bókarinnar rýrnar ekkert þótt við reynum að átta okkur á takmörkunum hennar. Það var t. d. áreiðanlega rangt að yfirfæra það á Ólaf Jóhann Sigurðsson sem réttilega varð sagt um Guðmund Daníelsson, að honum léti mun betur að lýsa sveitalífi en borgar. Og þótt röksemdafærsla Guðmundar miðist öll við það að virða fjölbreytnina i skáldskap, þá kemur glöggt fram, að i raun stjórnast hann af íhaldssemi. Þannig segir hann um kommúnista:

Þeim kemur ekkert við, þó að þeir með boðun trúar sinnar misþyrmi tilfinningum manna og freisti að leggja í rústir verðmæti, sem hafa verið lífsteinn kynslóðanna.20

- Augljóslega verður að viðurkenna rétt manna til slíkrar gagnrýni, með öðrum orðum til niðurrifsstarfsemi; annaðhvort er málfrelsi til slíks, eða það er ekkert málfrelsi. En það kemur víða fram í Gróðri og sandfoki að Guðmundur vill jákvæðar bókmenntir, bjartsýnar á mannlífið eins og það er í kringum hann. Hann hefur ímugust á pví að bókmenntir séu mjög gagnrýnar á ríkjandi menningar- og þjóðfélagsástand. En það þarf ekki lengi að hugleiða bókmenntir veraldar til að sjá hvilíkt afhroð þær biðu ef allt slíkt ætti að hverfa. Og mikið hafa skoðanir Guðmundar á þessu efni breyst á tuttugu árum, frá því að hann fann Hvítum hröfnum Þórbergs það til gildis, m. a., að gera „usla í ruslakistu siðferðisrykugra sálna."21


Félag íslenskra rithöfunda
Af félagsmálum islenskra rithöfunda er meiri saga en svo að hér verði sögð. Fáein atriði verða að nægja. Fram til ársins 1940 veitti Alþingi fé til skálda og listamanna, og var það orðið um 0.2% af ríkisútgjöldum hvers árs síðari hluta fjórða áratugarins. En árið 1940 fékk Menntamálaráð, undir forystu Jónasar Jónssonar frá Hriflu, það hlutverk að úthluta fénu. Sú úthlutun sætti æ meiri gagnrýni listamanna, sem töldu hana mótast af pólitískum sjónarmiðum. Segja má, að Jónas hafi fallist á að svo væri, þegar hann sagði óverjandi að verðlauna skáld af opinberu fé fyrir að níða land sitt og þjóð22. Þessu stríði fylgir að listamenn skipast í stéttarfélög. Raunar hafði Bandalag íslenskra listamanna verið stofnað 1928, en verið óvirkt lengstum. En nú var það endurvakið með listamannaþingi, 1941, og síðan eru stofnuð félög listamanna á einstökum sviðum, Rithöfundafélag Íslands 1943. Jónas var nú að missa meirihluta sinn í Menntamálaráði, og lagði þá til á Alþingi, að félög listamanna fengju sjálf úrslitaáhrif um úthlutun fjárins. Jónas hælist um, 1943, að þarna hafi hann fylgt hugmynd Egils Skallagrímssonar, að dreifa silfrinu yfir þingheim, og séð fyrir sem Egill, að menn yrðu varla á eitt sáttir um að hvernig skipta skyldu, „ætla eg að þar myndi vera þá hrundningar eða pústar, eða bærist að um síðir, að allur þingheimurinn berðist"23. Þótt Agli tækist ekki þetta ætlunarverk sitt., þá gekk þetta eftir hjá Jónasi, því Rithöfundafélagið klofnaði á aðalfundi sínum í mars 1945. Og í því sem hinar stríðandi fylkingar létu frá sér fara um klofninginn, verður ekki gripið á öðru en ágreiningi um úthlutun fjárins. Klofningurinn gerðist þannig, að fráfarandi formaður félagsins, Friðrik A. Brekkan, stakk upp á Guðmundi Hagalín í sinn stað, og hlaut hann tíu atkvæði, en Halldór Stefánsson fimmtán. Hagalínssinnar tóku þá ekki frekar þátt í kjöri stjórnar og trúnaðarrnanna, en að því loknu las Guðmundur upp yfirlýsingu 12 félagsmanna (þar af tveggja fjarstaddra, þetta var undirbúið fyrirfram) þess efnis, "að kosning í stjórn félagsins lýsti svo miklum stefnumun í aðalmálum félagsins, að eftirtaldir 12 rithöfundar teldu sig ekki geta starfað þar framar" (Alþýðublaðið 20/3 1945). Þeir mynduðu svo Félag íslenskra rithöfunda undir forystu Guðmundar.
Auðsénir eru stjórnmálapólar í skiptingunni. Með Hagalín fara, auk Friðriks Brekkan, m. a. Davíð Stefánsson, Kristmann Guðmundsson, Jakob Thorarensen, Elinborg Lárusdóttir, Ármann Kr. Einarsson. En stjórnmálaleg skipting er ekki einhlít, því með Hagalin fara líka Rauðpennungarnir Gunnar M. Magnúss og Sigurður Helgason. Og ekki voru það tómir rauðliðar sem eftir sátu í gamla félaginu, þar má telja Tómas Guðmundsson, Barða Guðmundsson, m. a. Eins og alkunna er, varð þessi skipting rithöfunda mjög langæ, og er ekki úr sögunni enn, þrátt fyrir sameiningu félaganna24 á árinu 1974. Má ætla að það hafi orðið bókmennta- og menningarlífi þjóðarinnar mjög til ills, að höfundar skiptust í fylkingar um að ota hver sínum tota á stjórnmálalegum forsendum, það varð lenska að fjalla um bókrnenntir út frá slíkum sjónarmiðum fremur en bókmenntalegum. Svo útbreiddur ósiður sem slíkir dómar voru fyrrum, þá virðist mér að ástandið hafi enn versnað að mun í bókmenntamati fjölmiðla við þennan klofning. Hér verður sú saga ekki rakin frekar, en rétt er að nefna að lokum merkilega grein sem Guðmundur reit í Alþýðublaðið af þessu tilefni í júní 1945, Augasteinar og amakefli. Hann ræðir þar einkum úthlutun skáldalauna 1943-5, og þykir mjög misskipt pólitískt. Birtir hann því til staðfestingar þessa töflu um úthlutun skáldalauna á árunum 1943-5:

Davíð Stefánsson 11800 Halldór K. Laxness 17500
Hulda 4600 Jóhannes úr Kötlum 10200
Jakob Thorarensen 7200 Magnús Asgeirsson 10200
Þórir Bergsson 4300 Steinn Steinarr 8400
Guðmundur Daníelsson 6600 Ólafur Jóhann Sigurðsson 7200
Sigurður frá Arnarvatni 2900 Theodór Friðriksson 5700
Elínborg Lárusdóttir 4000 Halldór Stefánsson 4300
Óskar Aðalsteinn 2000 Gunnar Benediktsson 4000
Guðmundar Ingi Kristjánsson 1000 Jón úr Vör 1700
Níu höf. samtals 44400 Aðrir níu samtals 69200
Lítum síðan snöggvast á augasteina nefndarinnar [ . . í hægra dálki] hvort myndi sá ekki glámskyggn, sem ekki ber kennsl á þessa heiðursfylkingu, sem ekki kennir þarna þá Andréssyni og þeirra vikapilta?

Það rökræðir Guðmundar í löngu máli, sem ég sé ekki ástæðu til að rekja hér, enda hafa ýmis skáld hlotið almenna viðurkenningu nú, sem Guðmundi þótti hneykslanlegt að hefja til vegs fyrir fjörutíu árum - t. d. Stein Steinar uppfyrir Jakob Thorarensen! Ótvírætt þykir mér sjónarmið Guðmundar mótast hér af íhaldssemi á sviði bókmennta - en um slíkt er auðveldara að tala fjörutíu árum eftir á en samtímis. Hitt er öllu merkilegra, hvaða tillögur Guðmundur bar fram um breytingar. Um skáldalaun hafði hann fjallað allt frá 1921. Hann hafði leitt rök að því að skáld gegndu mjög þýðingarmiklu hlutverki í andlegum framförum þjóðarinnar, en gætu ekki lagt stund á þann skáldskap sem vinsælastur væri af öllum almenningi - skáldsögur, og þar næst smásögur, vegna þess að til þess þyrfti meiri tíma og einbeitingu en menn ættu kost á með öðrum störfum. Því yrðu flestir að láta sér nægja kvæðagerð. Úr þessu vildi Guðmundar bæta með 10% skatti á reyfaraútgáfu og -innflutning, sem yrði látinn renna til skálda. Benti hann á að svona væri að farið í Bandaríkjunum25. En í fyrrnefndri grein, Augasteinar og amakefli 1945, gerir Guðmundur tillögu um nýskipan þessara mála:

Eg hygg að rétt muni vera, að allir þeir höfundar, sem menn geta yfirleitt verið nokkurnveginn sammála um að öðlast hafi virðingarsess í vitund mikils hluta þjóðarinnar, og vitað er að helga eða vilji helga skáldskapariðkun krafta sína sem allra mest, eigi að hafa föst laun, sem séu það há, að þeir eigi að geta lifað af þeim menningarlífi - en við ákvörðun sé þó gert ráð fyrir því að höfundarnir vinni sér inn nokkurt fé með ritstörfum. Eg lít og þannig á, að allir slíkir höfundar eigi að hafa sömu laun, enda hafi þeir þá svo til fulla starfsorku. Allir slíkir menn þurfa föt og fæði, húsmæði, hita, ljós, bækur o. s. frv. - hafa sem sé svipaðar þarfir, þær sömu og menn yfirleitt, sem gera kröfur til og kunna að meta lífsþægindi og þokkalegt og menningarlegt umhverfi - og auk þess mun alltaf verða vandmetið, hvað er verðmætast í bókmenntum dagsins, hvað hefur mest gildi fvrir líðandi stund og hvað fyrir framtiðina.

Auk þessa vildi Guðmundur hafa margbrotið kerfi styrkja fyrir menn sem væru að vinna sig upp í þennan hóp atvinnuhöfunda. Því miður kom þessi viturlega tillaga ekki fram fyrr en eftir klofninginn, fyrir því hefi eg orð Guðmundar sjálfs26. Og þessari hugmynd hefur verið sorglega lítill gaumur gefinn. Eins langt aftur og ég man, hefur verið þjarkað um úthlutun listamannalauna frá því sjónarmiði, að listgildi verði metið í peningaupphæðum: „Af hverju fær þessi eins mikið og hinn?" o. s. frv.
Í röksemdum Guðmundar fyrir tillögunni eru bornir saman af viðsýni ýmiskonar rithöfundar, sem hver geti haft til sins ágætis nokkuð, t. d.:

Hugsum okkur svo rithöfund, sem er léttur og auðskilinn, ekki sérkennilegur að stíl, en skrifar gott og alþýðlegt mál, skapar sæmilega fjörlega atburðarás, og sennilegar persónulýsingar. Slíkur höfundur verður vinsæll meðal allmargra lesenda, og hann hefur sitt hlutverk. Bækur hans verða áfangi hins almenna lesanda á leið til annars stórbrotnara og listrænna - og verk hans er allrar virðingar vert. Fram hjá slikum höfundi er þvi ails ekki rétt að ganga við uthlutun styrkja27.

Á þessari lýsingu er við hæfi að ljúka þessu yfirliti. Það væri óskandi að menn hættu að láta deilumál gærdagsins skyggja á það sem Guðmundur Hagalín hefur best gert. Menn skyldu ekki missa sjónar á bestu ritum hans vegna þess eins hve mikið hann skrifaði, og misgott. Sé hann metinn eftir því sem hann gerði best, þá hlýtur hann að teljast til merkari höfunda á fyrri hluta tuttugustu aldar.

TILVITNANIR
1. Aðalheimild mín hér er eftir Stefán Einarsson: „Guðmundur Gíslason Hagalin fimmtugur" ritgerð sem er upphaf II. hindis i Ritsafni Guðmundar Hagalins, Þrjár skáldsögur, Rvík1948, (einkum bls. IX-XVII, en eftir þeirri ritgerð fann eg Iíka bókmenntagreinar Guðmundar). Nýrri skrá bóka hans er i Íslenskt skáldatal I-II, Rvik 1972-6.
2. Sjá t. d. greinar hans: Íslensk skáldrit gefin út 1929. Stutt vfirlit. Nýjar kvöldvökur, XXXII árg.,Akureyri 1930, bls. 83-90; Skáldskapur og menningarmál .Alþýðublaðið, 13.-17. mars 1935; bókina Gróður og sandfok, einkum bls. 179-181; og Ljóðagerð og ljóðabækur, Alþýðublaðið 13. april 1944.
3. Nokkur orð um sagnaskáldskap, Austanfari, 9. sept.-9. des. 1922.
4. Sjá t. d. Stefán Einarsson, tilvitnað rit, bls. xxxiv-xxxvi. 5. Guðmundur Hagalin: Strandbúar. Seyðisfirði 1923, his. 5.
6. Stefán Einarsson fjallar vel um þessa sögu, a bls. xlv-Iiii. Sjá og aftanmgr. 16: Pétur
Magnússon, Vigfús Guðmundsson og Þorkel Jóhannesson.
7. Guðmundur Hagalín: Hamsun . Austurland, 22. okt. - 5. nóv. 1921
8. Þrjár skáldsögur, bls. 19.
9. Sama rit, bls. 54.
10. Guðmundur Hagalín: Brennumenn. Akureyri 1927, bls. 192.
11. Guðmundur Hagalín: Pan. Vísir, 21 janúar 1924.
12. Guðmundur Hagalín: „Skáld lífs og ljóss`. Morgunblaðið, 11 febrúar 1926.
13. Guðmundur Hagalín: Tvö nýkomin skáldrit. Austanfari, 1. okt. 1923.
14. Guðmundur Hagalín: Gróður og sandfok, einkum á bls. 9-38 og 156-18L
15. Örn Ólafsson: Le mouvement littéraire de la gauche islandaise dans l'entre-deux-guerres. Lyon, 1984 óprentað vélrit, á Landsbókasafni), bls 100-103. –íslensk gerð: Rauðu pennarnir, Rvík 1990.
16. Gunnar Benediktsson: Sturla í Vogum. Þjóðviljinn, 8. des. 1938, sjá og sama höf.: Skilningstré góðs og ills, Rvik 1939. bls. 141-165. Sjá auk þess: Matthías Johannessen: Ólafur Thors (Rvik 1981) Il, bls. 415, viðtal við Guðmund Hagalín í Alþýðublaðinu 27. ágúst 1938, og ritdóma:
Guðbrands Jónssonar í Vísi, 16. sept. 1938.
Guðmundar Finnbogasonar í Morgunblaðinu 19. nov. 1938.
Guðmundar Friðjónssonar i Vísi, 24. feb. 1939.
Helga Hjörvar í Alþýðublaðinu, 29. sept. 1938.
Jóns Jóhannessonar í Siglfirðingi, 19. okt. 1938.
Péturs Magnússonar í Skírni 1939, bls. 206-9.
Sigurðar Einarssonar í Tímariti Máls og menningar, 1938, 2. hefti, bls. 16-17.
Steindórs Steindórssonar í Nýjum kvöldvökum, 1938, bls. 149-151.
Sveins Sigurðssonar í Eimreiðinni, 1938, bls. 449-50.
Vigfúsar Guðmundssonar í Dvöl VII, 1939, bls. 155.
Þ. J. i Morgunblaðinu, 1. okt. 1938.
Þorkels Jóhannessonar í Tímanum, 15. okt. 1938.
17. Kristinn E. Andrésson: „Grasgarður forheimskunarinnar".Tímarit Máls og menningar, I árg. 1940, his. 199-215. Endurprentað i greinasafni Kristins: Um íslenskar bókmenntir , I, bls. 196-202. 18. Sami: Málið og bókmenntirnar 111, Um íslenskar bókmenntir, I bls. 88-90
19. Örn Ólafsson, tv. rit. bls. 34-5.
20. Guðmundar G. Hagalín: Gróður og sandfok. bls. 13.
21. Sami: Ný bók. Austanfari, 8. júli 1922.
22. Jónas Jónsson: Rauðar stjörnur, Rvik 1943, bls. 169-172.
23. Sama rit, bls. 181-5, Egils saga (85. kafli) Íslensk fornrit, II. hindi, Rvík 1933, bls. 296-7. 24. Sjá um þetta mál yfirlýsingar stjórna félaganna i Alþýðublaðinu, 29. mars og 14. april 1945.
25. Rithöfundarnir og þjóðin". Austanfari, 21 júli 1923 og Erlend sorprit Morgunblaðið, 19. júli 1925.
26. Í óbirtu viðtali við mig, 1. sept. 1982.
27. Guðmundar Hagalín: Augasteinar og amakefli. Alþýðublaðinu 12., 20. og 22. júni
1945.

Engin ummæli: