fimmtudagur, 15. febrúar 2007

Unglingurinn i skoginum

Únglíngurinn í skóginum og Alþingi

Viðtökur framúrstefnu

Í Eftirmála 2. útgáfu Kvæðakvers, 1949, segir Halldór Laxness um eitt kvæðanna:

Únglíngurinn í skóginum er dýrasta kvæðið í bókinni metið í krónum. Þetta litla kvæði var vetrarstarf mitt í Reykjavík 1924—25; ég orti það upp æ ofaní æ mánuðum saman. Meðfram var ég að hugsa urn efnið í Vefarann mikla, og hafði einsett mér að fara til Sikileyjar um vorið að setja saman á bók. Til þessarar skáldfarar bað ég alþíngi um fjárstyrk. Því var ekki illa tekið í fyrstu: neðri deild samþykti að veita mér 1500 krónur, sem voru peníngar í á daga. En rétt áður en málið kom til afgreiðslu í efri deild birtist Únglingurinn í skóginum í tímaritinu Eimreiðinni. Þegar alþíngismenn lásu kvæðið, luku flestir upp einum munni að öllu hraklegri leir hefði varla sést prentaður á Íslandi og ekki æskilegt að styrkja menn af ríkisfé til að setja saman meira af svo góðu. Þegar styrkveitíng mín kom til atkvæða í efri deild greiddu allir deildarmenn atkvæði á móti mér, nema Sigurður Eggerz. Og var sá styrkur úr sögunni1.

Bæði er, að þetta kvæði var róttæk nýjung í íslenskum bókmenntum, og ennfremur er þetta þá fyrsta dæmið sem mér er kunnugt um verulega andstöðu við slíkar nýjungar á 20. öld, nær aldarfjórðungi á undan orrahríðinni miklu um atómskáldin. Er því ekki úr vegi að kanna það aðeins nánar. Um kvæðið hefur Óskar Halldórsson fjallað2, og hefi ég engu við það að bæta hér [ég gerði það í bók minni Kóralforspil hafsins, 1992], en fjalla hér eingöngu um viðbrögð manna við framúrstefnuljóðum. Verður þá að fara nokkrar krókaleiðir að marki.

Nú höfðu auðvitað ýmsar róttækar nýjungar orðið í kveðskap áður, en hlotið misjafnar viðtökur: Jónas Hallgrímsson ber þar hæst á öndverðri 19. öld, nýrómantísku skáldin í upphafi 20. aldar hurfu m. a. frá því hátíðlega ljóðmáli sem tíðkast hafði — og fengu góðar viðtökur, að því er best verður séð, t. d. Davíð Stefánsson, þegar árið 1916 fyrir nokkur kvæði í Eimreiðinni og Iðunni. Elstu dæmi sem ég hefi rekist á um ,,ljóð í óbundnu máli” á íslensku, eru frá 1888 eftir Túrgenjeff, þýdd af Gesti Pálssyni í Suðra (sbr. Svein Skorra Höskuldsson: Gestur Pálsson, bls 497). Fleira af því tagi. eftir sama höfund, kom svo 1901 í þýðingu jóðskáldsins ástsæla Steingríms Thorsteinssonar, í Eldingu. ,,Órímuð ljóð eftir Sigbjörn Obstfelder í þýðingu Steindórs Sigurðssonar birtust Austanfara 1922 (undir ritstjórn Guðmundar Hagalíns), og sjálfsagt mætti enn tína til ýmis fleiri dæmi slíks — sem ekki virðist nein andsvör hafa vakið. Jakob Smári birti bálk prósaljóða í bók sinni Kaldavermsl, 1920, en mér finnst þau næsta hefðbundin að málfari og myndmáli. 1919 birti Sigurður Nordal prósaljóð, ,,Hel” í bók sinni Fornar ástir. Þau eru innan marka Davíðs að anda, málfari og hvíeina, nema hvað þetta er prósi (ég vísa til Davíðs af því að ljóð hans munu lesendum kunnust, en reyndar kom Sigurður honum fyrst á framfæri). Sigurður hvatti menn að ganga lengra á þeirri braut. Það gerði einkum Jón Thoroddsen í bókinni Flugur sem birtist 19223, en þær voru ortar fyrir 1919 (Sveinn Skorri: Perlan og blómið). Loks fóru að birtast kvæði með óreglulegri hrynjandi, þar sem stuðlun og rím var líka fyrir borð borið, ég nefni til dæmis Sorg eftir Jóhann Sigurjónsson. Jóhann lést 1919, en þetta kvæði birtist ekki fyrr en 1927 í tímaritinu Vöku. Ãri síðar birtist þar Söknuður Jóhanns Jónssonar, svipaður að formi, en þó hefðbundnari um stuðlun og að nokkru leyti hrynjandi.
,,En um það fórust einum ritdómara orð á á leið að það gæti ekki kallast kvæði. Það var ekki rímað”, sagði Kristinn E. Andrésson 1932, hneykslaður mjög á slíkri þröngsýni. Athyglisvert er, að hvortveggi Jóhanninn bjó erlendis. Únglíngurinn skóginum er enn róttækara fráhvarf frá hefðinni en Sorg að því leyti, að þar fer enn minna fyrir röklegu samhengi, enda er Únglíngurinn skóginum settur fram sem draumur. En Sorg minnir verulega á harmatölur yfir Jerúsalem í Gamla testamentinu, eins og Hannes Pétursson rakti (Hvar eru þín stræti, Skírni 1973).

Ekki hefi ég orðið var við nein viðbrðgð við kvæðum á borð við Sorg í blöðum og tímaritum frá þessum árum. Og satt að segja er ekki að sjá veruleg viðbrögð við kvæði Halldórs heldur. Alþýðublaðið5 nefnir meðal nýútkominna bóka 1. hefti Einreiðarinnar, 31. árg., en segir aðeins:
Er í því m. a. [ - . . ] saga eftir Einar Þorkelsson, kvæði í nýjum skáldskaparstíl (framúrlistastefnu) eftir Halldór Kiljan Laxness o. fl.
Nú var ritstjóri Alþýðublaðsins Hallbjörn Halldórsson, vinur Halldórs, og ólíklegur til að hneykslast á verkum hans. Ritstjóri Eimreiðarinnar, Sveinn Sigurðsson, segir í 3. hefti þessa sama árgangs í pistli um íhald og opingátt í menningarmálum6:

Ég hef lítillega orðið þess var, að einstaka menn hér heima hafì hneykslast á sýnishorni því af expressíonistískum skáldskap, sem birtist í 1. hefti Eimreiðarinnar þ. á. eftir H. K. L. En hvað er sú Laxneska á við sumar tískustefnur nútímans í bókmenntum og listum? Hér er það ekki íhaldið sem ræður, heldur framsóknin — og fer allgeyst stundum.

Í Lesbók Morgunblaðsins (15. 11. 1925) segir í grein um danska
skáldið Bönnelykke:

Ljóð sín skrifaði hann eftir nýjustu fyrirmyndum og skeytti um ekkert form eða skáldvenjur [. . . hér kemur dæmi um dadískan upplestur hans]. Mörg eru Ijóð hans áþekk að formi og hið marg umtalaða kvæði Kiljans í Eimreiðinni.

Þessi klausa ber ekki fjandskap vitni, fremur að nýjungar af bessu tagi þyki spennandi. En HaIIdór skrifaði í greinarflokki sínum: ,,Af íslensku menningarástandi, sem birtist í Verði, sumarið 1925, m. a. þessa klausu, dagsetta 3. september það ár:

Mentamaður nokkur í Reykjavík sagði mjer frá því sjálfur, að hann hefði sagt upp Eimreiðinni i vor, af því að hann hafði lesið þar kvæði, sem vottaði nýja stefnu í skáldskap.

Skýring Halldórs á slíkum viðbrögðum er sú, að nýjar hugsanir eða nýjaðar, fela æfinlega í sjer árásir á hagsmuni manna.
Lesbók Morgunblaðsins birti kvæðasyrpu Halldórs: ,,Rhodymenia palmata 4. apríl 1926, en hún má þykja standa nærri Unglínginum, þótt meiri skopstæling sé. Seinna í sama mánuði kemur svo Halldór til Islands úr Sikileyjarförinni, og skrifar þá Morgunblaðið8:

Halldór Kiljan Laxness
kom með Gullfossi í gærmorgun eftir langa útivist, með handritið af ,,Vefaranum mikla frá Kasmír.
Mbl. hafði tal af honum í gær og barst í tal kvæði það sem nýlega birtist í Lesbók Morgunblaðsins eftir Halldór, og þótti nýstárlegt.
En Halldóri þótti það eigi nema eðlilegt að menn hér úti á Islandi gætu eigi felt sig við kvæðið, því það væri ort í anda hinnar nýju skáldskaparstefnu, sem kviknaði árið 1922 og nefnt er ,,surrealismi”.
,,Jeg veit hjer um bil alt um þessa stefnu”, sagði Halldór, ,,hefi lesið allar helstu bækur er um hana fjalla. Kvæðið er ort undir þeim áhrifum”.
Eigi vildi Halldór með nokkru móti kannast við, að stefna þessi væri í anda hins svonefnda ,,Dada-isma”, hinnar alkunnu listastefnu sem ruddi sjer til rúms meðan ófriðurinn stóð sem hæst í Miðevrópu. En myndir þær, sem gerðar voru í þeirri stefnu voru t. d. svipaðar því, sem hent væri blekflösku í vegg og bæri veggurinn þess eðlileg rnerki.
En hann hafi haft þá ánægju, að heyra erindi úr kvæði sínu ,,Rhodymenia palmata” á vörum farþega, jafnskjótt og hann stje á skipsfjöl í Leith, eftir 12 mánaða fjarveru frá löndum sínum.
Þess hefir eigi verið getið hjer í blaðinu áður fyrri, fyrir lesendur blaðsins sem eigi eru kunnugir sæþörungum, að nafn kvæðisins er samnefni við latneska heitið á sölvum. Hvort kvæðið veldur öðrum eins þorsta eins og sölin skal ósagt látið.

Ég hefi birt þessa klausu alla, því hún er merkileg heimild um margt. Halldór virðist gagntekinn af surrealismanum eftir náin kynni af honum í þrjú ár. Hann býst við því að surrealísk ljóð fái slæmar viðtökur á Ïslandi. Og greinilega hafa sumir tekið þeim illa (,,einstaka menn segir Sveinn Sigurðsson, ritstjóri stærsta og útbreiddasta bókmenntatímaritsins), en í prentuðum samtímaheimildum ber meira á vinsamlegri forvitni, jafnvel læra menn kvæðin.

Alþingi
En hvað var þá sagt um skáldskaparstefnu á Alþingi vorið 1925 við afgreiðslu fjárlaga? Gerðabækur fjárveitinganefnda segja ekkert um umræður í nefndinni, aðeins hvaða erindi voru tekin fyrir, og hvernig atkvæði féllu um þau. Framsögumaður fjárveitinganefndar neðri deildar, Tryggvi Þórhallsson, segir m. a.

Svo eru þrír listamenn og rithöfundar, þeir Björn Björnsson, Tryggvi Magnússon og Halldór Guðjónsson. Þessar umsóknir lágu fyrir nefndinni, hv. flm. (B. J. [. e. Bjarni Jónsson frá Vogil) hefir nú talað mjög fyrir þeim öllum, en jeg hef það að segja fyrir nefndarinnar hönd, að meiri hl. var á móti þessum liðum, en þó eru óbundin atkvæði um þá alla, og ekki eru allir aðrir í nefndinni en háttv. m. Dala (BJ) á móti þessum styrkjum. En sem sagt, meiri hl. er á móti þeim. Sjálfur hefi jeg tilhneigingu til að segja nokkuð um þetta frá eigin brjósti, en af því að jeg er frsm. vil jeg ekki gera það.

Þegar reynt er að skyggnast bak við þessa gremjulegu þögn, þá kernur fyrst í ljós, að það var ekki Halldór einn sem átti að fella út af fjárlögum, heldur einnig Jakob Thorarensen og Stefán frá Hvítadal. Og sá var ekki neinn framúrstefnumaður í skáldskap á þeim tíma, heldur sannkallaður afturhaldsmaður — sagði Halldór í minningargrein10 um hann árið 1934. Í annan stað er athyglisvert, að einn þeirra sem tala máli Halldórs sérstaklega á Alþingi, er Jakob Möller. En hann var, ásamt Sigurði Eggerz, einn helsti leiðtogi þess stjórnmálaafls sem ári síðar tók sér nafnið Frjálslyndi flokkurinn, og deildi m. a. á íhaldsmenn fyrir að vera of andvaralausir gagnvart erlendum menningarstraumum11. Annar talsmaður Halldórs var Ásgeir Ásgeirsson, síðar forseti Íslands. Hann nefnir ekki neina andstöðu við kveðskaparstefnu Halldórs, og hefði þó átt að vera kunnugt um hana, ef hún hefði verið almenn á þinginu. Hann sagði m. a. 12:

Þá kem jeg að Halldóri Kiljan Laxness. Mjer hefir skilist, að það hafi dregið allmjög úr fylgi við styrk til hans, að hann er kaþólskur. Mun það vera af þeirri ástæðu, að menn telja kaþólska kirkju meira stórveldi og því öflugri til hjálpar en ríkissjóð Islands. En sannleikurinn er sá, að þeir Halldór og Stefán hafa ekki meira upp úr því að vera kaþólskir en vjer hinir að vera lúterskir.

Síðan talar Ásgeir um að Halldóri muni raunar standa til boða lífsuppeldi hjá kaþólsku kirkjunni

ef hann gerðist prestur eða munkur, sem er ef til vill ekki allfjarri honum. En jeg vildi óska, að til þess kæmi ekki, að hann hneppi skáldgyðju sína í klaustur, eða gefi hana saman við Thomas frá Aquino og slíka karla. Jeg held að slík sambúð yrði tæplega frjósöm. Það er mikill atburður í þjóðfjelaginu, þegar ágætir rithöfundar koma fram, og má ekki minna vera en að fjárveitingarvaldið sýni, að það gefi gaum að slíku.

Í sama streng tekur Tómas Guðmundsson í grein í Morgunblaðinu 29. mars 1925, þremur vikum eftir að Halldór hafði lagt umsókn sína fyrir fjárveitinganefnd, en grein Tómasar lýkur á því að hann hvetur Alþingi eindregið til að verða við umsókn Halldórs. Tómas víkur þar ekki orði að skáldskaparstefnu, né andstöðu við nýjungar á því sviði, en átelur aðeins hve lágar séu fjárveitingar ríkisins til skálda, og að þingmenn skuli úthluta þessu fé sjálfir. Þeim bæri að sækja ráð til sérstakra kunnáttumanna á þessu sviði, eins og þeir geri í t. d. búnaðarmálum, vegamálum, o.fl.
Raunar taka ýmsir þingmenn í sama streng, og vildu fá sérfróða úthlutunarnefnd eða ,,academie” til að annast úthlutun (m.a. Sigurður Eggerz 1922, Ásgeir Ásgeirsson og Björn Kristjánsson 1925). En Jóhannes Jóhannesson, framsögumaður fjárveitinganefndar efri deildar, sagði m. a. 29. apríl 192514:

Þá leyfir nefndin sjer að gera talsverðar breytingar á styrknum til skálda og listamanna eins og hv. Nd. gekk frá honum.
Í stjfrv. var sú upphæð ákveðin 10 þús. kr., en hv. Nd. lækkaði hana ofan í 8 þús. kr. Hinsvegar bætti hv. Nd. sjerstaklega við fjórum skáldum og ákvað hversu mikinn styrk hvert þeirra skuli fá. Nefndin hefir ekki getað sætt sig við þessa ráðabreytni og leggur því til, að aðalupphæðin verði aftur hækkuð upp í 10 þús. kr., en þeir fjórmenningarnir, sem sjerstaklega voru teknir út úr, feldir niður, þó þannig, að Guðmundur Friðjónsson verði færður yfir í 18. gr. og settur á bekk með þeim skáldum, sem þar eru fyrir. Þetta þjóðkunna skáld er, að dómi nefndarinnar, þess maklegt, að því verði sýndur slíkur sómi, og vænti ég, að hv. deild fallist á till.
Hins vegar þykir nefndinni Jakob Thorarensen enn of ungur til að komast á 18. gr., en þó vill hún ekki, að hann fái minni styrk en hv. Nd. hefir ætlað honum. Býst nefndin við, að svo geti orðið, þó að hans sje ekki sjerstaklega getið í fjárlögunum.

Hér eru þeir Halldór Laxness og Stefán frá Hvítadal ekki nefndir til verðugra, svosem Jakob er, en annars virðist niðurfelling nafna þeirra sett fram sem fyrirkomulagsatriði, til að ríkisstjórnin úthluti fé til einstakra manna, en ekki þingið. Og það kerfi var við lýði fram að 1930 (fyrir utan þessa fjárveitingu). 1926 var Halldór Laxness ekki á dagskrá, né neitt framúrstefnuskáld mér vitanlega. En þá sagði Tryggvi Þórhallsson15:

Nú koma þeir hver af öðrum listamennirnir. Nefndin leggur á móti þeim öllum. Jeg veit annars ekki, til hvers verið er að veita 10 þús. kr. styrk í fjárlögum til listamanna, ef svo á eftir sem áður að veita styrki í allar áttir.

Raunar felst í þessarì fyrirkomulagsbreytlngu á árinu 1925 lækkun, því Halldóri og Stefáni voru ætlaðar 1500 kr. hvorum, Jakobi 1000 kr., en Guðmundi Friðjónssyni 1200. En gegn niðurfellingu þeirra fjögurra kom 2000 kr. heildarhækkun. Jónas Jónsson frá Hriflu mæltist til að þeir Jakob Thorarensen og Stefán frá Hvítadal héldu styrk sínum, vegna heilsuleysis þeirra16. Undir það tóku um Stefán þeir Ásgeir Ásgeirsson17 og Björn Líndal18 en styrkur til Jakobs hafði fallið niður árið áður, enda þótt fjárveitinganefnd hefði þá lýst því yfir að hún ætlaði honum "góðan skerf af skáldastyrknum", sagði framsögumaður hennar, Tryggvi Þórhallsson19. Og hvort sem þetta olli eða annað, þá héldu þeir Stefán og Jakob styrkinum, en Halldór fékk ekkert, og hefur svo ekkert fengið frá stjórninni heldur. Hvernig á nú að skýra þetta? Veldur hér andúð á nýstárlegu kvæði Halldórs, þótt hún komi hvergi beinlínis fram? Hugsast gæti það, en Halldór hefur sjálfur aðra skýringu uppi, skömmu síðar, í fyrrnefndum greinarflokki sínum: Af íslensku menningarástandi IV20,

Er þar skemst frá að segja um þjóðarmetnað minn og drenglyndi, að jeg sýndi þessari blessaðri bókmentaþjóð þá nærgætni s. l. vetur, að gefa henni kost á að veita mér lítilsháttar fjárstyrk, svo að jeg mætti fórna henni höfundarkröftum mínum heilum og óskiftum, án þess að þurfa að deyja úr hungri. En heilbrigt íhald og kjarngóð bændamenning fengu því áorkað, með því að leggjast bæði á eitt (þann dag urðu Heródes og Pílatus vinir), að heldur var kosið að bjóða mjer upp á að deyja úr hungri en veita mjer lítilfjörlegan styrk. Fullvissuðu þingmenn mig um, að háttvirtir kjósendur (þ. e. þjóðin) væru mótfallnir höfundarstyrkjum, og jók þetta eigi lítið skilning minn á víðsýni þeirrar þjóðar, í menningarefnum, sem jeg er annars vanastur að metnast af.

Í þessari samtímaheimild nefnir Halldór ekki að Alþingi sé á móti framúrstefnu í bókmenntum. Hann segir einungis, að það sé á móti ríkisstyrkjum til rithöfunda. Og þar held ég að hann hafi hitt naglann á höfuðið.

Ihaldið
Á 3. áratug 20. aldar var núverandi flokkakerfi enn í mótun. Hægriöflin höfðu enn ekki sameinast gegn Framsóknarflokki og Alþýðuflokki, og gekk það treglega. Hér er stuðst við ritgerð Hallgríms Guðmundssonar: Uppruni Sjálfstœðisflokksins. Þar segir m. a. frá Sparnaðarbandalaginu sem einir 13 þingmenn mynduðu í þingbyrjun 1922 ,,með því markmiði að vinna sparnaði á öllum sviðum, og stuðla að því, að þingtíminn yrði sem stystur". Jakob Möller skrifaði í Vísi, að þetta hefði átt að vera herbragð stjórnarsinna til að véla Framsóknarþingmenn til fylgis við stjórnina21. En uppúr þessu bandalagi var svo stofnaður flokkur í maí 1923, sem hóf útgáfu blaðsins Varðar22. Stefnuskrá birtist þar 26. maí, og er þar mjög á dagskrá að spara ríkisútgjöld en annars talað um að efla landbúnað og sjávarútveg, og styðja samvinnustefnuna í frjálsri samkeppni23. Greinilega er verið að fiska á miðum Framsóknar. Enn var flokkurinn nafnlaus, en 24. febrúar 1924, skömmu eftir þingsetningu, sendu tuttugu þingmenn frá sér yfirlýsingu um að þeir hefðu stofnað Ïhaldsflokkinn. Og þar segir24:

Fyrsta verkefni flokksins látum vjer vera það, að beitast fyrir viðreisn á fjárhag landssjóðs. Vjer viljum að því leyti, sem frekast er unt ná þessu markmið með því, að fella burtu þau útgjöld landssjóðs, sem vjer teljum ónauðsynleg [...]
Vjer teljum að viðreisnarstarfið hljóti fyrst um sinn að sitja svo mjög í fyrirrúmi fyrir öllum öðrum málum, að vjer sjáum ekki nauðsyn til að gefa aðra eða víðtækari stefnuskrá en þetta að svo stöddu.

Eina stefnuskráratriði Íhaldsflokksins var að spara opinber útgjöld. Í samræmi við það var Bjarna frá Vogi ekki boðin aðild að flokkinum, en í kosningaáróðrinum hafði mjög verið hamrað á eyðslusemi hans25. En Bjarni var einn helsti talsmaður styrkveitinga til skálda. Flokkurinn gekk svo hart fram í þessari stefnu að 1924 sagði Þórarinn Jónsson fyrir hönd fjárveitinganefndar26:

Frá sjónarrniði nefndarinnar er að bara eitt, sem nú ber að horfa á, og þetta eina er að, að koma ríkissjóðnum í það horf, að einhver stuðningur gæti orðið að honum í framtíðinni. Með þetta fyrir augum hefir verið gripið til úrræða, sem ekki hafa þekkst hjer áður, en það er að fella niður allar verklegar framkvæmdir.

1926 þakkaði Jón Þorláksson, leiðtogi íhaldsflokksins, þessari stefnu mikið þingfylgi flokksins frá upphafi hans og er þá rétt að geta þess, sem einn þingmanna Framsóknarflokksins, Klemens Jónsson, fyrrverandi ráðherra, sagði um tillögu tveggja þingmanna um að fella niður styrk til skálda27:

En jeg held, að við getum skammlaust hætt því eitt ár að styrkja þessa menn, og eins ættu þeir að geta sætt sig við það, að missa spón úr askinum sínum, eins og svo fjöldamargir aðrir nú á tímum.

Íhaldsflokkurinn hélt svo um stjórnartaumana, frá 22. mars 1924 til ágústloka 1927. Hér er ekki réttur vettvangur til að leggja dóm á fjármálastjórn hans. Þrátt fyrir mikinn sparnað og niðurskurð voru fjárlögin afgreidd með 375 þús. kr. halla, segir Vörður 9. maí 1925 (og segir á sömu bls. (4): ,,Halldór Kiljan Laxness rithöfundur fer utan í dag og hygst að dvelja í Suðurlóndum um skeið”. En hitt kemur þar fram sem víðar, að stjórnin vanmeti mjög tekjur ríkisins, og í raun sé afkoma ríkissjóðs miklu betri, en látið sé í veðri vaka. Það kom líka heldur betur á daginn, því tekjuafgangur ríkissjóðs varð fimm milljónir þetta ár, en það er þriðjungur af tekjunum!28 Má segja að Íhaldsflokkurinn hafi borið nafn með rentu gagnvart fjármálum ríkisins, og margir tala um sparnaðarvilja Framsóknar. En verður þetta kallað annað en fjármálaóstjórn?

Afstaða til skáldalauna
Um upphaf skáldalauna og alþingisumræður um þau hefur Gils Guðmundsson ritað fróðlega grein. Því yfirliti lýkur við árið 1907, þótt framhald væri boðað, því tímaritið, sem greinin birtist í, hætti að koma út (Helgafell 1946).
Hér verður að stikla á stóru. Umræður um skáldalaun hefjast á Alþingi 1879, en tillögur um þau voru ekki samþykktar fyrr en 1891. Andstaðan gegn styrkinum byggðist einkum á því að það myndi skapa hættulegt fordæmi að veita hann, þá yrði erfitt að draga mörkin. Einkum stóð skáldið og þingmaðurinn Grímur Thomsen ákaft gegn skáldalaunum. Mér sýnist að fylgismenn skáldalauna hafi fundið leið framhjá þessu. Þannig var, að aIlt frá 1875 var Benedikt Gröndal veitt nokkurt fé árlega (600 kr. frá byrjun 9. áratugarins) ,,til að halda áfram myndasafni yfir íslensk dýr og til að semja þjóðmenningarsögu Norðurlanda, og 200 kr. ,,til efna og áhalda til að varðveita náttúrugripi"29. Benedikt vann þetta verk, og hafa myndir hans birst á bók hjá Bókaútgáfunni Örn og Örlygur ekki alls fyrir löngu. En líklega hafa menn smámsaman farið að líta þessa fjárveitingu sem skáldastyrk, enda var Benedikt kunnastur sem skáld. Og þá var fordæmið komið, 1891 bætast þau Matthías Jochumsson og Torfhildur Hólm við á 15. grein fjárlaga, en 1902 færist Matthfas yfir á 16. grein (sem síðar varð 18. grein), eftirlaun ríkisstarfsmanna, sem prestur á eftirlaunum, en í vitund manna var hann auðvitað fyrst og fremst skáld. Þetta varð afdrifaríkt, því á eftir fylgdu síðar ýmsir listamenn í þessa grein fjárlaga. Síðar var farið að skipa þeim í sérstakan kafla innan hennar, og hann kallaður heiðurslaunaflokkur listamanna. Mjög er fróðlegt að lesa í grein Gils30 um deilur þingmanna um Þorstein Erlingsson 1895 og síðar. Andstæðingar Þorsteins telja verk hans siðspillandi, einkum vegna guðleysis, en fylgismenn hans tala urn listfengi verka hans og samúð þeirra með lítilmögnum. Allt gekk þetta aftur í þingræðum um Halldór Laxness, 35—50 árum síðar.
Auðvitað er það í háði sem Halldór Laxness hefur eftir þingmönnum að þjóðin sé á móti höfundarlaunum, því enda þótt hann hafi þetta sjálfsagt rétt eftir, þá hafði þjóðin aldrei verið spurð álits síns um það efni. En ýmsir höfðu talað gegn slíkum greiðslum, t. d. skáldið Einar Benediktsson, fóstri Gríms Thomsen, í ritdómi um Veislan á Grund31 eftir Jón Trausta, 1916.

Þingflokkarnjr hafa ausið út fé á báða bóga fyrir lítilfjörlegan eða jafnvel einskisverðan blekiðnað og hafa auðvitað í því, líkt og í flestum öðrum efnum, ekki einungis sýnt vanþekking og grunnhygni, heldur einnig haft tilgang, sem virðist miður hollur fyrir þjóðfélagið. Þegar á því hefir staðið fyrir einhvern flokkinn, sem blekkingunum þurfti að ryðja braut í hugsunarhætti fólksins — hefir einatt verið gripið til þess, að gera klíkuþý að launuðum höfundum, og hefir af þeirri ástæðu lagst sá siður hér í land að verja almannafé ár eftir ár í ,,skáldskap”. Með þeim hætti hafa menn eins og t. a. m. J. T. leiðst til þess, að róta upp hverju ritverkinu eftir annað, sem höfðu lítið sem ekkert bókmenntalegt gildi.

Þetta er mjög harður dómur, og á ég erfitt með að sjá að hann byggist á hlutlægu mati. Auk Jóns Trausta höfðu þessir menn hlotið styrk: Benedikt Gröndal, Matthías Jochumsson, Torfhildur Hólm, Þorsteinn Erlingsson, Valdimar Briem, Guðmundur Guðmundsson, Einar H. Kvaran, Guðmundur Friðjónsson og Jón Stefánsson (Þorgils gjallandi), loks Bjarni frá Vogi til að þýða Fást eftir Goethe. Ekki eru þeir allir í miklum metum nú sem skáld, þó flestir, fyrir utan Valdimar Briem og Torfhildi. En eru þarna einhver klíkuþý, sérstaklega launuð til þess að rugla almenning í ríminu? Ekki sé ég nein merki þess að fleiri hafi verið á þeirri skoðun, en önnur skoðun kemur hvað eftir annað fram sem ástæða fyrir andstöðu við skáldastyrk, t. d. hjá Jóni Þorlákssyni, 1924, í minningargrein um Þórarin B. Þorláksson32. Í framhaldi af því sem sagði um Ïhaldsflokkinn hér að framan, bið ég menn að athuga að hér talar formaður hans og fjármálaráðherra:

Þær stundir, sem hann gat varið til málverkagerðar voru ánægju- og hvíldarstundir hans frá daglegum störfum, og hygg jeg að þetta hafi átt sinn átt í því að halda listagáfu hans fullkomlega fölskvalausri til síðustu stundar. Ætla jeg að ýmsir aðrir af listamönnum vorum og listamannaefnum mættu að ósekju taka sjer lífsferil hans til fyrirmyndar að þessu leyti. Málverk hans fjellu mönnum svo vel í geð, að öll hin síðari árin mátti svo heita að hver mynd eftir hann væri seld jafnskjótt og hann hafði lokið við hana.

Ýmsir taka þessa afstöðu síðar, m. a. Jón Sigurðsson frá Ystafelli, 1928, þegar hann talaði gegn því að menn hefðu skáldskap að atvinnu33:

Snildin í bókmentum okkar Islendinga er af sömu rótum runnin. Þær ljóma allar af fögnuði þess, sem daglega má starfa að erfiðri lífsönn, en grípur feginshugar hverja næðisstund til að yrkja undralönd sinna hugðarefna.

Jón Sigurðsson frá Reynistað sagði34 1922:

Til þess að geta haldið lífi í fjölda listamanna þar þjóðin að vera auðug, svo hún geti keypt af þeim listaverkin, en það erum við því miður ekki. Samt sem áður hafa síðustu þing, beint eða óbeint, ýtt stórum hóp manna út á lista brautina þótt flestir viðurkenni að okkur vantar öll skilyrði til þess að geta framfleytt þeim. Síðastliðið ár fengu 27 menn styrk, að ótöldum Einari Jónssyni.

Og Halldór Stefánsson sagði um fyrrnefnda tillögu sína um að fella niður listamannalaun35:

Við flm. teljum, að fjárveiting þessi sje ekki einungis óþörf, heldur og jafnvel skaðleg. Styrkurinn er bútaður milli margra manna, sem eitthvað fást við skáldskap og listir, og má segja það um langflesta þeirra, að það er alger óvissa um hæfileika þeirra í á átt. Þessi styrkur getur orðið til þess, að þeir menn sem hans njóta og hafa ekki hæfileika á þessu sviði, fái rangar hugmyndir um sjálfa sig og hæfileika sína og hverfi frá störfum á öðrum sviðum, sem þeir væru hæfari til og þeim og öðrum gagnlegri. Afburðahæfileikar í þessa átt verða ekki keyptir fyrir fje, en hinsvegar er engin hætta á því, að hæfileikarnir, sjeu þeir fyrir hendi, segi ekki til sín. Miðlungsskáldskapur og listir og það sem þar er fyrir neðan, hafa ekkert gildi, en hefir hinsvegar þann ókost, að það flýtur yfir þjóðina í stríðum straumum og spillir listasmekk hennar.

Við höfum hér séð ýmis rök sem færð voru gegn skáldastyrk, og byggjast þau jafnan á almennri andstöðu við slíkar fjárveitingar en enginn finnur neitt að nýtískulegri ljóðagerð sérstaklega. Sem dæmi um þessa andstöðu má enn nefna, að á þinginu 1926 óttuðust þeir Eggert Pálsson36 og Jón Magnússon37 að þingið styrki svo mörg skáld, að ekkert verði eftir handa stjórninni til að styrkja! Í ljósi fjárveitingarinnar sem það þing afgreiddi fyrir 1927 (sjá töflu hér aftast) á ég erfitt með að skilja hvernig þeir hafa hugsað það mál. Þá var ákveðið að veita engum minna en 1000 kr., svo að styrkurinn yrði þó þeim að gagni sem hann fengju. En ári síðar lagði Magnús Guðmundsson ráðherra til að þetta lágmark úthlutunar yrði fært niður í 500 kr., enda væru flestir umsækjenda svo fátækir, að þá munaði um þetta, en umsækjendur væru 38, um 8000 kr. heildarfjárveitingu38. 1922 var Bjarni frá Vogi framsögumaður fjárveitinganefndar neðri deildar, og talaði fyrir því að lækka þessa fjárveitingu úr 20 þúsund kr. í 15 þús. og sagði svo39:

Nefndin leggur til — af því að styrkur þessi er svo lítill — að hann verði ekki veittur smáskáldum, heldur einu eða tveimur stórskáldum til að lifa og starfa fyrir. Námsstyrkurinn er þar líka innifalinn, en hann nær ekki til skálda, því menn læra ekki að yrkja.

Þessi orð skýrast afþví, að iðulega veitti Alþingi styrk til myndlistarnáms erlendis (einkum þó fyrir tímamótin1918)40. Og 1923 talaði Sigurður Eggerz um þann vanda að skipta 11.200 kr. milli 22 umsækjenda. Nú hafi Davíð Stefánsson fengið styrk, ,,sumir hefðu ef til vill heldur veitt styrkinn Jakobi Thorarensen eða Stefáni frá Hvítadal, en það sé ekki hægt að veita öllum úrlausn"41. Fleiri tala um að styrkurinn sé alltof lágur. Tómas Guðmundsson vildi veita 100 þúsund krónur í stað 10 þúsunda (í fyrrnefndri grein), þrettán þjóðkunnir menn skoruðu á Alþingi að hækka upphæðina í 24 þúsund, og bentu á að hún hefði einu sinni verið 27 þúsund kr.42 Í báðum tilvikum er þeim rökum beitt, að þinginu sé til skammar að halda að sér höndum á þessu sviði á sama tíma og það fjölgi prestsembættum. En einkum er það þó Bjarni Jónsson frá Vogi sem leiðir rök að því, að Islendingar verði að styrkja skáld og listamenn mun betur en aðrar þjóðir gera, hlutfallslega43.

Það er af því, að við erum svo fámennir, að enginn listamaður, hversu fullkominn sem hann er, getur haft atvinnu af sinni list, og eigi hann ekki að slökkva þann guðdómsloga, sem í honum brennur, verður að hlaupa undir bagga með honum.
Yfirlit um skáldalaun

Ég set hér línurit um þessar fjárveitingar á árunum 1911—1939, sem nokkurn bakgrunn þessarar greinar.


Af þessu má m. a. sjá að fjárveitingin tálgast illa niður í verðbólgu stríðsáranna. Það er ekki fyrr en 1922 sem hún nær raunverulegu verðgildi þess sem var í upphafi stríðs. En þá er líka skorið niður myndarlega næstu árin. Línuritin sýna, að sá niðurskurður var raunverulegur, einnig miðað við breytingar á ríkistekjum og ríkisútgjöldum. Oft er fjárveitingin skorin niður ef verðlag lækkar, ekki mátti hún aukast að raungildi! Fjárveitingin kemst þó uppfyrir fyrra hámark að verðgildi, þegar árið 1926, ári eftir að felld var tillagan um styrk til Halldórs Laxness. Síðan hækkar fjárveitingin nokkuð, jafnt og þétt, en tekur stökk á við 1936. Það virðist gerast á heldur óskipulegan hátt, styrktum skáldum fjölgar, og styrkur þeirra hækkar. 1930 samþykkti Alþingi að tillögu Haralds Guðmundssonar og Ásgeirs Ásgeirssonar að setja Halldór Laxness á fjárlög næsta árs með 2000 kr. styrk. Honum hélt hann nokkurnveginn óskertum síðan, og 1935 var hann færður yfir á 18. gr. með 5000 kr. árlega fjárveitingu, m. a. að tillögu Jónasar Jónssonar frá Hriflu. Seinna á því ári birtist síðari hluti Sjálfstæðs fólks. Þetta var hámarksstyrkur, Halldór var þá gerður jafn Einari Benediktssyni, virtasta ljóðskáldi landsins; Einari H. Kvaran, sem þá var í einna mestum metum sem skáldsagnahöfundur, og Helga Pjeturss (sem væntanlega hefur hlotið styrk sinn fyrir ,,íslenska heimspeki” sína). Til samanburðar má geta þess, að þá var árskaup verkamanns í fullri vinnu um 3000 kr., en árslaun prófessors við Háskóla Ïslands voru 4500 kr., en með starfsaldurshækkunum náðu þau hæst upp í 6000 kr., samkvæmt opinberum heimildum. Guðmundur Hagalín skrifaði á árinu 1930, að skáld þyrftu 400—500 kr. á mánuði, þ. e. 5000—6000 kr. árstekjur45. Vinsæl skáld eins og þeir Halldór hafa haft umtalsverðar tekjur af sölu bóka sinna, upplestri o. þ. u. l. Nokkrir þingmenn Sjálfstæðisflokksins stóðu gegn þessum fjárveitingum til Halldórs, allt frá 1930, á þeim forsendum, að bækur hans myndu miður hollar siðferðislega, einkum börnum og konum! En allir viðurkenndu stílsnilld Halldórs, og á þeim forsendum reynir t. d. Ólafur Thors að verja Halldór gegn flokksbræðrum sínum, og vill þá lítið veður gera út af skoðunum Halldórs, en Ólafur á þó í togstreitu út af þessu46. Ýmsir þeir þingmenn sem gegn Halldóri tala, eru í varnarstöðu, eiga von á ásökunum um þröngsýni, eins og um miðjan 3. áratuginn. Engu að síður dynur þessi sama ádeila á bækur Halldórs í þingsölum næstu árin. En meirihlutinn stendur með Halldóri, 1930 er mest vitnað til Vefarans mikla og Alþýðubókarinnar, en 1935 hafa Salka Valka og Sjálfstætt fólk bæst við. Þær bækur hlutu almennt góðar viðtökur, sagði Halldór í viðtali47 við undirritaðan 1981. Í ljósì alls þessa virðist óhætt að urða þá goðsögu, sem oft sést, að Halldór hafi almennt verið óvinsæll höfundur framyfir seinni heimsstyrjöld, kommúnistar einir hafi metið hann, og þá af pólitískum ástæðum. Þetta sagði Halldór sjálfur, 1963, í Skáldatíma. En sýnt hefur verið fram á að t. d. Sjálfstœtt fólk, hlaut góðar viðtökur, m. a. hjá andstæðingum kommúnista48. Sannleikurinn er sá, að Halldór naut mikillar virðingar og almennrar, þegar á 3. áratug aldarinnar, síðan æ meir. Pólitísk andstaða gegn honum hefst ekki fyrir alvöru fyrr en í seinni heimsstyrjöldinni.

Lokaorð
Það virðist óhætt að álykta af því sem hér hefur verið rakið, að fullyrðing Halldórs Laxness, sem tekin var upp í upphafi þessa máls, fær tæpast staðist. Satt að segja er hún eins og venjuleg ýkjufyndni Halldórs — öll hin virðulega efri deild Alingis á að hafa steypt stömpum yfir einu nýstárlegu kvæði! Halldór hefur óttast að Ïslendingum félli surrealísk ljóð ekki í geð — og greinilega hafa sumir brugðist illa við. En alls ekki svo, að það risi einhver hreyfing gegn þessu, og mjög ólíklegt er, að hann hafi þess vegna verið felldur út af fjárlögum 1925. Því bæði orð þingmanna og hans sjálfs þetta ár benda til annarrar skýringar, þeirrar niðurskurðarstefnu sem á ríkti gagnvart opinberum útgjöldum — auk útbreiddrar andúðar á ríkisstyrk til skálda. Ï mesta lagi má hugsa sér að andstaða við kvæði Halldórs hafi verið notuð sem viðbótarástæða, til að fá einhvern þingmann til að samþykkja, að þennan mann væri þó ekki ástæða að styrkja, þótt Stefán frá Hvítadal og Jakob Thorarensen fengju að hjara — e. t. v. vegna heilsuleysis þeirra. Mér þykir líklegt, að Halldór mistúlki það að hann felldur niður af fjárveitingartillögum 1925, vegna þess að hann skrifar þessa túlkun sína aldarfjórðungi síðar, 1949, en á geisaði einmitt deilan mikla um módern ljóð. Halldóri hefur fundist líklegt, að þetta tengdist, enda kemur annað til: módernismi í íslenskum bókmenntum var síst minni að róttækni, ef ekki fyrirferð, á 3. áratug aldarinnar en á hinum 5., sbr. það sem Eysteinn Þorvaldsson skrifar um yrkisefni, afstöðu og orðfæri í ,,atómljóðum á 5. áratuginum49. Í bók hans segir frá hinu heiftarlega menningarstríði sem geisaði um ,,atómljóð” um 1950, og er fljótséð, að viðbrögðin urðu ekki nálægt því svo harkaleg við bókmenntanýjungum 3. áratugarins, þótt deilt væri þá um opingátt eða íhald gagnvart erlendum menningarstraumum. Hvernig stendur á því, að mótspyrnan gegn framúrstefnu harðnaði? Ég hefi reynt að rekja þá sögu annarsstaðar50. Í sem stystu máli sagt, snúast helstu ármenn bókmenntanýjunga til fylgis við bókmenntahreyfingu vinstrisósíalista á 4. áratuginum (Halldór Laxness, Halldór Stefánsson, Steinn Steinarr, síðar Jóhannes úr Kötlum, Þórbergur o. fl.). En sú hreyfing lagði áherslu á alþýðleika, og snerist því æ meir gegn bókmenntanýjungum, ekki síst eftir að hún hafði komið upp bókaklúbbi með fjöldaútbreiðslu, Mál og menning. Í tímariti hans, 1939, réðst meira að segja Halldór Laxness gegn því að víkja frá hefðbundnu ljóðformi, í hrynjandi, rími, o. fl:

Það hafa aldrei verið ort góð kvæði á íslensku nema í hnituðu formi, afbrigði og undansláttur frá hinu stranga formi miðar til upplausnar og spillingar.
Ekki aðeins öll ,,ljóð í óbundnu máli” eru á íslensku ljótt prósa, heldur einnig öll braghölt ljóð. Leirskáld, sem höfðu ekki lag á að láta standa í hljóðstafnum, hafa gert sitt til að rugla íslenskt brageyra, bæði með þeirri tegund af hlægilegu prósa, sem þeir kalla ,,ljóð í óbundnu máli”, óreglulegri notkun bragliða og setningu ríms (samsvarandi ljóðlínur innan erindis mislangar, eða mismargar ljóðlínur erindis innan sama kvæðis, og þvílíkt) og alveg sérstaklega með þeirri uppfundningu, að setja þankastrik mitt í kvæði, þegar þeir voru búnir að tapa þræðinum og vissu ekki lengur hvað þeir voru að fara eða hvað þeir áttu að segja.

Hér talaði maður sem mikil áhrif hafði á nýjungamenn í bókmenntum um 1939. Sömu afstöðu taka þá aðrir vinstrisinnaðir bókmenntamenn. Og hverjir voru þá eftir til að halda á lofti merki bókmenntanýjunga? Annað kemur hér til. Þegar á 3. áratuginum eru ljóð farin að víkja fyrir smásögum í tímaritum, en sú þróun snýst við á styrjaldarárunum52. Mér þykir líklegt, að þessi vöxtur ljóða spegli vaxandi þjóðerniskennd. Hefðbundinn vettvangur hennar er kvæði, en tilefnið væri þá hernámið 1940, lýðveldisstofnun 1944, og deilurnar um herinn og NATO síðan. Þess er líka að gæta, að það stjórnmálaafl sem helst fylgdi alþjóðahyggju áður, Kommúnistaflokkurinn, varð æ þjóðernissinnaðri eftir miðjan 4. áratuginn, og fylgdi þar alþjóðahreyfingu sinni, sem boðaði samfylkingu allra tiltækra afla, einnig íhaldssamra borgara, gegn fasismanum. Samnefnarinn varð hefðbundin menning, og því fylgsi bókmenntahreyfing vinstrisósíalista henni enn frekar. Og hvað stóð þá gegn þeirri þjóðernisstefnu, sem drottnaði fyrir í Sjálfstæðisflokkinum og Framsóknarflokkinum? Farvegur hennar er ekki síst kvæði, og þá skilst betur hversvegna andstaðan varð svona mikil gegn því að hrófla við formi kvæða um 1950. Mönnum fannst það tilræði við íslenskt þjóðerni. En þau viðbrögð eru ný, þau skýrast af þeirri sögu sem ég hefi reynt að rekja hér í örstuttu máli; þ. e. að alþjóðasinnar og módernistar sneru við blaðinu á 4. áratuginum. En það er aftur liður í alþjóðlegum straumhvörfum á þeim tíma, þjóðfy1kingarstefnu Alþjóðasambands konimúnista, sem vildi efla almenna samstöðu um viðhald ríkjandi menningar gegn ógn fasismans. Samnefnarinn var íhaldsstefna.
Mér sýnist þessi saga öll einkum leiða í ljós, hve mikil er ábyrgð framúrstefnuhópa, og hve örlagaríkar afleiðingar það getur haft að minnihlutahópur beygi sig fyrir meirihlutanum ,,til að ná til fjöldans”, þegar honum bar að veita fjöldanum leiðsögn.
Ég þakka Haraldi Jóhannssyni hagfræðingi, dr. Árna Sigurjónssyni og starfsfólki bókasafns Alþingis ýmislega aðstoð. Einn ber ég þó ábyrgð á hvíeina hér

Eftirmáli í febrúar 2007:
Hannes H. Gissurarson skrifar í fyrsta bindi ævisögu HKL (Halldór, Tilvísanir, bls. 585):

”Örn Ólafsson virðist telja þetta einu raunhæfu skýringuna á synjun Alþingis [...] En hann gengur fram hjá vitnisburði Tómasar Guðmundssonar um viðbrögð við kvæðinu (raunar einnig grein e. Hallbjörn Halldórsson í Iðunni 1929, endurpr. í Hugvekjum, þar sem niðurfelling styrks til Halldórs er rakin til birtingar kvæðisins) og einnig ummælum Ásgeirs Ásgeirssonar um skoðun þingmanna á því, að kaþólska kirkjan gæti séð um Halldór, sem staðfest er af bréfi Halldórs til Jóns Sveinssonar 20. maí 1925. Nonnasafn Lbs. Það bréf virðist Örn ekki hafa lesið.”

Ég tilfærði vitnisburð Ásgeirs, eins og sjá má hér að framan. Hitt er rétt, að ég hafði ekki séð þetta bréf, en þar tekur Halldór öldungis undir vitnisburð Ásgeirs;

”Það var búið að samþikkja 1500 króna skáldastirk handa mér í neðri deild alþingis, en efri deild feldi stirkinn, af því að eg væri kaþólskur, og mundi fá nóga penínga frá kaþólsku kirkjunni, hét það. Út af þessu varð eg vondur og fór af landi burt.” [auðkennt í bréfinu].

Í þessum samtímavitnisburði Halldórs er ekki eitt orð um fjandsamleg viðbrögð við kvæðinu Unglingurinn í skóginum, svo vart hafa þau verið áberandi. Hallbjörn Halldórsson kemur með þá skýringu 1929 að þingmenn hafi óttast viðbrögð kjósenda, hefðu þeir styrkt höfund slíks kvæðis. Hannes nefnir ekki, að umsögn Tómasar Guðmundssonar er frá 1955, þrjátíu árum eftir þessa viðburði, og löngu eftir að Halldór kom með þá skýringu sem var hér tilfærð í upphafi greinar. Samt er full ástæða til að gefa orðum Tómasar gaum:

”Ég var um þær mundir þingskrifari, og gerði ég mér allt far um að efla þingheim til fylgis við tillöguna. Man ég ekki til þess að hafa í annan tíma haft slíkan áróður í frammi, en einn þáttur hans var sá, að ég skrifaði í Morgunblaðið heilsíðu grein um ”Alþingi og íslenzka rithöfunda”. Þykir mér í rauninni enn í dag vænt um að hafa skrifað þá grein, því þar kemur, að ég bezt veit, í fyrsta sinn fram afdráttarlaus viðurkenning á hæfileikum Halldórs, og máttu þeir þó vera öllum augljósir fyrir af því, er hann hafði þegar ritað. Við 2. umræðu fjárlaga í neðri deild var svo samþykkt með glæsilegum atkvæðamun að veita Halldóri 1500 kr. til ”ferðalaga og ritstarfa”. Þótti vildarmönnum hans mikill sigur unninn, en sú dýrð stóð ekki lengi. Einhver óhappamaður varð til þess að bera niður í Alþingishús nýprentað hefti af Eimreiðinni, þar sem birt var kvæði eftir Halldór Kiljan Laxness. Gekk heftið næstu daga frá einum þingmanni til annars og lét hvarvetna eftir sig hina voveiflegustu óhugnan. Þótti þá sem örlög Halldórs mundu ráðin, og fleiri en einn þingmaður atyrti mig harðlega fyrir að hafa blekkt sig til fylgis við þetta hræðilega vandræðaskáld. Er ekki að sökum að spyrja, nema að styrkurinn var felldur burt úr fjárlagafrumvarpinu í efri deild með nærfellt öllum atkvæðum. Þetta umrædda kvæði var Unglingurinn í skóginum, sem síðan hefur átt fast sæti í úrvali íslenzkra ljóða.”

Ekki er nein ástæða til að rengja Tómas, hann hefur sjálfsagt munað þetta rétt. En reyndar er í grein hans rétt á undan þessu annað atriði, sem þingmönnum gat fundist fullgild ástæða til að veita Halldóri ekki styrk frá Alþingi:

”í janúarmánuði 1925 skrifaði Halldór í Morgunblaðið alllanga og skemmtilega grein um menningarmál, og kemst hann þar m.a. svo að orði: ”Að sækja um listamannastyrk af þeim hundsbótum, sem hér á landi er kastað í frömuði skapandi listmenntar, er meiri vanvirða en að segja sig til sveitar, enda get ég naumast skilið, að nokkur heiðarlegur listamaður geri það...”

Hér eru þá ýmsar skýringar fram komnar um hversvegna efri deild Alþingis felldi þann 1500 króna styrk, sem neðri deild hafði samþykkt Halldóri til handa. Vitaskuld útiloka þessar mismunandi skýringar ekki hver aðra, enda viðbúið að hinir ýmsu þingmenn hefðu mismunandi ástæður. Ég verð því að standa við framangreinda ályktun, að það hafi fyrst og fremst verið vegna þeirrar ”niðurskurðarstefnu sem þá ríkti gagnvart opinberum útgjöldum – auk útbreiddrar andúðar á ríkisstyrk til skálda. Í mesta lagi má hugsa sér að andstaða við kvæði Halldórs hafi verið notuð sem viðbótarástæða, til að fá einhvern þingmann til að samþykkja, að þennan mann væri þó ekki ástæða að styrkja”. Einhverjir þingmenn hafa sjálfsagt hugsað sem svo að Kaþólska kirkjan gæti séð um sína, hún væri það öflug.

Ég þakka Erni Hrafnssyni, forstöðumanni Handritadeildar Landsbókasafns, og Sjöfn Kristinsdóttur skjalaverði fyrir að senda mér ljósrit bréfs Halldórs (í afriti Stefáns Einarssonar).
Tilvitnanir
1.Halldór Laxness: Kvæðakver, 2. útg. 1949, bls. 141—8: Um kvæðin
2. Óskar Halldórsson: Kvæðakver, Sjö erindi um Halldór Laxness Helgafell 1973, bls. 61—80, einkum þó 67—70.
3. Sjá nánar grein Sveins Skorra Höskuldssonar. Perlan og blómið Skírni, 153. árg., 1979, bls. 108—166, einkum bls. 133 o. áfr.
4. Kristinn E. Andrésson: Salka Valka, Iðunn, 16. árg. 1932, bls. 177-189 (endurprentað í Um íslenzkar bókmenntir 1, bls. 33—41, sjá einkum bls 39).
5. Alþýdublaðið, 29. 4. 1925.
6. Sveinn Sigurðsson: ,,Við þjóðveginn Eimreiðin, 31. árg. 1925, bls. 193-201, einkum bls. 195.
7. Halldór Laxness: Af íslenzku menningarástandi, Vörður, 27. 12. 1925, þessi pistill birtist 26. 9. það ár.
8. Morgunblaðið, 29. 4. 1926 (ómerkt grein): Halldór Kiljan Laxness.
9. Alþingistíðindi 1925, 13 559—560.
10. llalldór Laxness. Stefán frá Hvítadal, Iðunn, 18. árg., bls. einkum bls. 10 o.áfr.
11. Hallgrímur Guðmundsson: Uppruni Sjálfstæðisflokksins. Rvík, bts. 112.
12. Alþingistíðindi 1925 B, 601.
13. Tómas Guðmundsson: ,,AlÞingí og íslenzkir rithöfundar, Morgunblaðið, 29. 3. 1925.
14. Alþingistíðindi 1925 B, 810.
15. Alþingistíðindi 1926B, 518.
16. Alþingistíðindi 1925 B, 933—934.
17. Alþingistíðindi 1925 B, 601.
18. Alþingistíðindi 1925 B, 549.
19. Alþingistíðindi 1925 B, 447.
20. Vörður, 28. 11. 1925, en dagsett af Halldóri 14. 10. sama ár.
21. Hallgrímur Guðmundsson: Uppruni Sjálfstælðisflokksins, bls. 64.
22. Sama rit, bls. 79—80.
23. Sama rit, bls. 82.
24. Sama rit, bs. 89—90.
25. Sama rit, bls. 159.
26. Alþingistíðindi 1924 B, 567.
27. Alþingistíðindi 1924 B, 455—456.
28. Klemens Tryggvason, Gylfi Þ. Gíslason, Ólafur Björnsson: Alþingi og fjárhagsmálin, Rvík 1953, bls. 63.
29. Sjá Stjórnartíðindi 1875, B, bls. 7—8, Ríkisreikninginn 1876, o, áfr.; 15. gr. síðar 16. gr. útgjalda.
30. Gils Guðmundsson: ,,Alþingisumræður um aðbúð listamanna, Helgafell, IV. árg., 1946, bls. 230—243.
31. Einar Benediktsson: Veislan á Grund, Þjóðstefna, 11. 5. 1916.
32. Jón Þorláksson: Þórarinn B. Þorláksson. Morgunbladið, 18. 7. 1924 (tekið eftir Birni Th. Björnssyni: Íslenzk myndlist 1, bls. 172, Rvík 1964).
33. Jón Sigurðsson frá Ystafelli: Alþýðan og bækurnar. Iðunn, 12. árg. 1928, bls. 143—152.
34. Alþingistíðindi 1922 B, 150.
35. Alþingistíðindi 192413, 478.
36. Alþingistíðindi 1926B, 714—715.
37. Alþingistíðindi 1926 B, 726.
38. Alþingistíðindi 1927 B, 929.
39. Alþingistíðindi 1922 B, 143.
40. Björn Th. Björnsson: Íslenzk myndlist l, víða, t. d. bls. 56—57, 59, 68,76, 79 og 172.
41. Alþingistíðindi 1923 B, 1381.
42. Vördur, 21. mars 1925, bls. 4.
43. Alþingistíðindi 1925 B, 580.
44. Tímamörkin helgast af því, að trauðla verður reiknað aftur fyrir 1911, en 1940 breyttist kerfið, Menntamálaráð fékk úthlutunina í sínar hendur, og mig skortir enn heimildir um hana. Tölurnar eru teknar eftir Ríkisreikningunum. Fremsti dálkurínn er 15. grein, síðan kemur 18.grein, þá er vísitala vöru og þjónustu (leiðrétt af Torfa Ásgeirssyni, 1985, bls. 299 — ég er leikmaður á þessu sviði, en virðist þetta vel rökstutt; að verðlag á hausti sýni verðhækkanir ársins betur en verðlag á sumri), svo koma samanlagðar fjárveitingarnar, umreiknaðar samkvæmt vísitölunni —sem var 100 í júlí 1914. Aftast koma svo ríkistekjur og ríkisútgjöld í milljónum króna. Sjá nánar: Torfi Ásgeirsson: Verðlagsbreytingar 1900-1938, bls. 287-310.

45. Guðmundur Hagalín: Íslenzk skáldrit gefin út 1929. Nýjar kvöldvökur, XXIII. ár, Akureyri 1930, bls. 85.
46. Alþingistíðindi 1930 B, 177—179.
47. Halldór Laxness: ,,Bókmenntir á tímum Rauðra penna. Viðtal við Örn Ólafsson. Morgunblaðinu, 28. 2. 1982.
48. Sjá t. d. Sveinn Skorri Höskuldsson: Sambúð skálds við þjóð sína. Sjö erindi um Halldór Laxness, bls. 9—40, einkum bls. 35-6.
49. Eysteinn Þorvaldsson: Atómskáldin, Rvík 1980, bls. 274, 281 og 227.
50. Örn Ólafsson: Le mouvement littéraire de la gauche islandaise dans l’entre-deux guerres. Lyon, 1984 (óprentað, til á Háskólabókasafni og Landsbókasafni), bls. 154—159 (Íslensk gerð: Rauðu pennarnir, Rvík 1990)
51. Halldór Laxness: Hin hvítu skip Guðmundar Böðvarssonar. Tímarit Máls og menningar [eldra], II. árg. 2. tbl. 1939, bls. 31. Endurprentað í Vettvangur dagsins, Rvík 1942, bls. 197—8.
52. Örn Ólafsson: tilvitnað rit, bls. 183.

Önnur tilvitnuð rit:

Hallbjörn Halldórsson: Halldór Kiljan Laxness. Iðunn XIII 1929, bls. 385-396.
Halldór Kiljan Laxness: Bréf til Nonna 1925. Ljósrit frá Landsbókasafni.
Hannes H. Gissurarson: Halldór. Rvík 2003.
Tómas Guðmundsson: Menn og minni. Rit VI. Rvík 1981.

Engin ummæli: