Medusa
Surrealistar á Íslandi.
Kvöldvaka
Plöntusafnaranna
Var þögul.
Aðeins lófinn
Er feigur,
Því sam
Ræðurnar
Voru
Máttlausar.
Skelin
Fálmar til
Rótar sinnar
Og mig setur
Hljóðan yfir
Lokunum.
Rigning gæti
Myndað tilgang
Fyrir
Nálarnar, en
Hérna
Brotnar allt.
Endurfæðing í
fiski væri
óþörf
Hvað á nú þetta að tákna, hvaða meining er í þessu, kynni nú einhver að spyrja. Svarið er, að það er ábyggilega engin meining í þessu, ef miðað er við venjulegt, mælt mál. Skáldið Ólafur Engilbertsson er hér hvorki að segja sögu né að gera lýsingar, yfirlýsingar eða annað samfellt mál. Í stað þess tengir hann saman hluti sem ekkert eiga sameiginlegt, a.m.k. ekki fljótt á litið. Til hvers er hann að því? Svarið stendur í stefnuskrá surrealismans, 1924:
Því fjarlægari hver öðrum og óskyldari hlutirnir eru, sem saman er skipað, þeim mun sterkari verður ljóðmyndin, þeim mun meira verður tilfinningagildi hennar og ljóðrænn veruleiki.
Ljóðvinir munu kannast við, að slíkar aðferðir eru víðar viðhafðar en í hreyfingu surrealista. Oft er vitnað til skáldsins Lautréamont um þetta, en hann sagði um 1870: ,,fagurt, eins og þegar saumavél og regnhlíf hittast af hendingu á líkskurðborði. — Þetta er einn strengur af fleirum í straumi módernismans í bókmenntum: í stað þess að lýsa hlutum eða segja frá, hlutlausum stíl, eða á máli sem miðast við það, þá túlka skáld hugarástand einstaklings — og sérlega oft einstaklings sem er ráðvilltur andspænis óskiljanlegum heimi glundroða. ,,Guð er dauður” sagði þýski leimspekingurinn Friedrich Nietzsche í upphafi þessa tímabils, þegar æ fleiri hafa losnað úr viðjum arftekinna viðhorfa, hvort sem þeim hefur líkað það betur eða verr. Þessu hafa fylgt miklar vangaveltur um miðil hugsana, reynslu og tilfinninga: bókmenntaform og málið sjálft. Hvernig má haga þeim slitnu flíkum þannig að þær hæfi fagurri veru, eða með öðrum orðum; hvernig á að segja eitthvað ferskt með orðum sem öll tákna eitthvað almennt, alþekkt, hvernig á að forðast að útkoman verði bara margtuggnar klisjur? Þetta höfuðvandamál skálda hafa þau með ýmsu móti reynt að leysa. Auk þess sem nefnt var hér að framan, hafa surrealistar lagt sig eftir hinu ókunna, tilviljunum m.a. Þar má nefna samkvæmisleiki: blað er látið ganga í hóp, hver skrifar sína línu án þess að þekkja það sem á undan er komið. Á sama hátt er spurningum svarað án þess að þekkja þær, síðan eru þær bornar sarnan við svörin, útkomunni velta menn fyrir sér. En einkum hafa surrealistar reynt að fiska upp úr dulvitundinni, enda varð hreyfing þeirra til skömmu eftir að rit Freuds urðu kunn. Surrealistar hafa til dæmis stundað það að einn féll í leiðslu, en aðrir skráðu það sem upp úr honum vall, þeir hafa skráð drauma sína og lagt stund á ósjálfráða skrift, það er að skrifa hratt og umhugsunarlaust allt sem í hugann kemur, og fleira mætti telja af sama tagi. Það er útbreiddur misskilningur að svona fari ,,listsköpun" surrealista fram, og hafa margir fengið ótrú á þeim fyrir vikið. En þetta er allt annað en list, nefnilega surrealísk starfsemi. Henni er ætlað að opna lindir sálarinnar, ef svo mætti segja. Það verður meðal annars til að auðga og dýpka listsköpun, en er þó aðeins forsenda hennar eða hráefni.
Á árunum 1919—1969 starfaði skipuleg hreyfing surrealista í Frakklandi. Hún varð snemma heimsfræg og gat af sér hópa víða um lönd, einkum á 4. áratuginum. Margir þeirra starfa enn, aðrir hafa bæst við, þótt franski kjarnhópurinn hafi tvístrast. Í þessum hópum hafa starfað margir merkustu myndlistarmenn og skáld samtímans. Ég hefi sagt nokkuð frá þessari hreyfingu annars staðar, og orðlengi því ekki um hana hér. En það sýnir enn hve sífrjó hún er, að hún skyldi ala af sér hóp á Islandi, svo seint sem í lok 8. áratugarins. Það er Medúsa.
Sá hópur hófst sem klíka í framhaldsskóla, fáeinir unglingar með áhuga á skáldskap krúnkuðu sig saman. Slíkir hópar um sameiginleg áhugamál eru algengari en svo að í frásögur sé færandi, ef ekki kæmi fleira til. Þessi hópur myndaðist í Fjölbrautarskóla Breiðholts (sem þar með hefur hnekkt fornhelgri skáldeinokun MR) fyrir rúmum sex árum, og hefur unnið rækilega og markvisst að skáldskap síðan, sagði einn félagi hans, Sjón, mér í viðtali 6. febrúar á þessu ári:
Sumarið og haustið 1979 greip um sig mikil bókasöfnun hjá okkur öllum í evrópskum módernisma, aðallega fantastískum, þar sem tungumálið er tekið á beinið, leikið sér með hugmyndir og orðin. Áður lágum við í íslenskum módernistum. Stofnun hópsins miðast við útgáfu Birgittu 30. nóvember 1979.
— Svo lásum við alla fræðilega texta sem við komumst í, og fengumst við surrealíska starfsemi. Til dæmis var einn okkar látinn snúa frá hinum út í horn, og hann teiknaði eitthvað á blað, en hinir reyndu að finna með hugarafli hvað það var. Og við einbeitinguna og þetta magnaða andrúmsloft sem var þarna inni, þá féll maður í trans.
Í formála kversins Hvernig elskar maður hendur segja Matthías og Sjón að það
var ort á 5 tímum sunnudagskvöldið 25. janúar 1981. Við vélrituðum það upp átómatískt og reyndum að vera undir sem mestum áhrifum frá hvor öðrum. Ljóðið var því sem næst fullgert eftir fyrstu uppskrift, stöku orðalagsbreytingar voru þó gerðar. Vjð viljum benda lesendum á að varasamt er að lesa ljóðið sem bókmenntaverk. Fyrir okkur vakti eingöngu að skrifa því sem næst hreinan surrealískan texta. Félagi okkar í Medúsu, Þór Eldon, vann myndirnar á svipaðan hátt og ljóðið var unnið. Hann gerði þær um leið og erindin voru lesin upp.
Sjón segir áfram í viðtalinu:
Ólafur Engilbertsson sat við að vélrita Efnahagslíf í stórborgum, á meðan vorum við í einhverjum surrealískum leikjum, transi og svoleiðis. Svo sneri hann sér við og las yfir okkur ljóðið sem hann hafði verið að vélrita, síðan var það hlífðarlaust gagnrýnt. Bók í smíðum var mikið rædd, fram og til baka. Samráðið hefur örvað menn til dáða. Það er svo mikill stuðningur, þegar maður er að gefa eitthvað út, að finna að einhverjum fleirum sé annt um þetta. Þegar við vorum í skóla vorum við alltaf að koma saman, en núorðið eftir tilviljun, nokkuð reglulega, 5—6 manns, en ekki sem hópur. Í fyrra hittumst við reglulega allir saman á kaffihúsum. Nú hittumst við kannski 2—3 í senn. Það kemur til af því að menn eru í vinnu og svoleiðis. Í skólanum varð starfsemin skipuleg í sambandi við uppákomur, svosem hljómsveit, sem var dadaísk — hrekkjalómar. Menn í skrítnum búningum, nýbylgjutónlist, dadarokk, gaf út bæklinga með textum, fer að starfa uppúr áramótum 1981. Við vorum allir í hljómsveitinni nema ég og Jóhamar. Hún hét van Houtens cacao og gaf út kassettur: Musique élémentaire, 1981; og Það brakar í herra K, 1982.
Haustið 1981 sýndi Flóki mér tímarit enska surrealistahópsins Melmoth, með myndum eftir hann. Útgefandinn var að spyrja Flóka um efni. Og við tókum okkur til og þýddum texta sem við sendum honum, og hann svarar um hæl. Jólin 1981—2 fórum við út til Svíjóðar og hittum þar þennan mann, Tony Pusey. Í gegnum hann fáum við samband við allskonar hópa og skiptumst á efni. En þarna um jólin er óformlega stofnað Surrealisterna i norden. — Samband surrealistahópa á Norðurlöndum.
— Þessa alþjóðlega sambands sér nokkurn stað í tímariti Medúsu: Hinn surrealíski uppskurður, sem aðeins eitt tölublað birtist af, á fyrri hluta ársins 1982. Annað tímarit, Geltandi vatn, birtist nú 18. febrúar 1985. En sérstaklega ber þó að nefna fallega árbók á ensku, ríkulega myndum búna, eins og flest útgáfuefni Medúsu: dunganon. Fyrsta hefti birtist 1983 (50 bls.), en annað (70 bls.) 1984. Ónnur hvor blaðsíða er texti. en hin mynd. Í fyrsta hefti ber einna mest á Íslendingum, en Suður-Arnerikönurn i 2. -
Um vorið stofnum við galleríið Skruggubúð, sem stóð i eitt ár (í bárujárnshúsinu við hliðina á Hernum, í Suðurgötu). Meðal þeirra sem þar sýndu má nefna Jóhann Hjálmarsson, og ég var rneð teikningar og surrealíska hluti. Við ljúkum þessu með alþjóðlegri guðlastsýningu vorið 1983. Við sömdum stefnuyfirlýsingu á ensku og sendum um allan heim til að biðja fólk um efni. Fólk frá 10 þjóðlöndum tók þátt í sýningunni. -Hún var algerlega hunsuð af fjölmiðlum, vegna þess að hún var svar við kirkjulistarsýningu á Klömbrum. Svo héldum við (þ.e. Surrealisterna i norden auk Medúsu) mikla sýningu í Gerðubergi i fyrravor, mikið af verkum erlendis frá. Ég hafði farið út til að afla þeirra,
Við höfum sumir farið í útvarp og lesið upp, þegar bækur okkar birtust. Vorið 1983 gerðum við útvarpsþátt, það var einn af þremur sem Guðni Rúnar í Áföngum gerði um neðanjarðarskáld En eftir að okkar þáttur var fluttur, þagnaði ekki síminn hjá dagskrárstjóra, það var fólk sem kvartaði yfir samhengisleysi í textunum og sagði að ekki væri hægt að bjóða fólki upp á þetta. Og nú er eins og okkur sé rneinað að koma fram í útvarpi.
— Hér ljúkum við viðtalinu en lítum loks lítillega á:
BÆKUR MEDÚSU
Auk tímaritanna, sem þegar hefur verið vikið að, teljast mér hafa komiö út ein fjórtán kver á fimm árum. Og þau eru sláandi sundurleit frá svona samhentum hópi, sem mun hafa rætt hvert þeirra rækilega og gagnrýnt fyrir útgáfu. Þótt höfundarnir byggi allir á sömu aðferð, þá verður útkoma hvers og eins sérkennileg. Eða réttara sagt, hún verður það af því að þessi sameiginlega aðferð, surrealísk starfsemi, leiðir hvern og einn til að sækja í eigin hugarheim, til verkanna sern hann svo vinnur. Brambolt, taskan og litabækurnar eru samfelldar sögur sem fara á ýmsan hátt út á annarlegar brautir. Litabækur Einars Melax eru pælingar í bernskum hugsunarhætti. Hin kverin eru söfn texta sern eiga ekki alltaf mikið sameiginlegt á yfirborðinu. En stundum er samhengi hugrenningatengsla, óljóst og draumkennt. Hæpið væri að tala mikið um efni textanna, þar sem mjög er skipað saman ólíkum hlutum, eins og áður segir. Oft er um sýnir að ræða, og tilfinningasamband, sem er þá gjarnan holdlegt. Stundurn er textinn n.k. för frá hversdagslegu ástandi til einhvers annarlegs (t .d. Birgitta). Það er áherandi mikið um runur stuttra aðalsetninga (fullyrðinga) einkum í fyrri hókunum. Nýlegt dæmi:
Ég stend á rúminu við vegginn og bíð eftir myndatöku. Dvergurinn tyllir sér á hné móður sinnar og talar í nakið hárið. Ég skoða smáauglýsingar og leita að þvottavél. Ég lýt höfði. Éftir stutta bæn er skorið á hálsinn. (Matthías Magnússon: Dínur)
Þetta sama einkenni er mjög áberandi í elstu frönsku textunum, um og upp úr 1920. Það held ég að leiði af þessari sameiginlegu aðferð, að raða saman óskyldum hlutum og láta hugrenningatengsl ráða ferðinni. En það þarf að vinna vel úr slíku svo að útkoman verði list. Það er ekki nóg að skipa saman óskyldum hlutum, heldur verða þeir að hafa einhver þau tengsl milli sín, að neisti geti kviknað af samhandi þeirra, svo reynt sé að orða skilgreiningu á mynd nákvæmar en gert var í upphafi þessa máls. Ella getur þetta leitt til innantóms bulls, eða gremjulegrar lágkúru. Fáein dæmi af handahófi:
Það er eitthvað í loftinu
járnbrautarlest fer innum vanga minn
Inní mér seytlar hjarta
úr gulum osti
Ég ætla að kyrkja þessa heimsku sól
og skapa aðra rauða, aðra kaldari
á meðan smáritin skella ómeðvitað uppúr
andspænis níunda kertrinu á afmælistertu
afskorna fingursins
— Vissulega tilfæri ég hér aðeins einstakar setningar, gripnar úr samhengi, en mér finnst þær bara rjúfa samhengið illa, hver á sínum stað. Eg finn heldur ekki púðrið í því að hafa nöfnin ..hringstiginn og ..hitabeltisskógur norðurpólsins um sögupersónur (í taskan), sem að öðru leyti eru eins og hverjir aðrir menn. En þessar aðfinnslur eru ekki stórvægilegar hjá hinu, að oft eru þetta hrífandi textar, þegar lesandinn er búinn að láta þá orka á sig um stund, kominn inn í þá, ef svo mætti segja (t. d. Reiðhjól blinda mannsins, Taumlaus sæla, dauðaljóðin).
Spyrja mætti að lokum hvort Medúsumenn hafi sérstöðu meðal hinna mörgu skálda sem gefa sjálfir út verk sín, en þau eru einskonar villigróður utan markaðshugleiðinga forlaganna - Mér hefur sýnst að Medúsumenn séu óvenju sjálfstæðir, lengra komnir en margir aðrir að brjótast undan klisjum. Það þakka ég aðferð þeirra og hópstarfi. eins og áður segir. En vissulega þekki ég ekki nema hluta þeirra mörgu hóka sem lítt kunn skáld hafa fjölritað undanfarin ár (sjá nánar um það efni grein Illuga Jökulssonar í Storð, síðasta hefti 1984). Ég er hræddur um að fáir ef nokkrir hafi einhverja yfirsýn um alla þá framleiðslu, því hún er ekki einu sinni finnanleg á skrám, og aðeins með höppum og glöppum á Landsbókasafni sem allir eru þó skyldir að færa 4 eintök af hverri bók em út kemur. Þessi misbrestur á skilum háir mjög útbreiðslu bókanna. sem yfirleitt er sáralítil. Mikil eftirsjá er að bókmenntatímaritinu Lystræningjanum, hvílíkur munur ef þessi rit birtust ásamt öðru efni í rúmgóðu bókmenntatímariti. Ég er viss um að útbreiðsla þess yrði skjótt ekki minni en l500 eintök, þar sem þessi kver hafa birst í l50 — 300 eintökum og þau oft dreifst illa. Það er eitt mesta böl íslenskrar menningar hve lítið er gert til að dreifa nýsköpun í bókmenntum til almennings. Það er helst útvarpið, en þó að það sé þakkarvert, — og þá jafnframt óþolandi ef skáldhópi er meinað að koma þar fram, þá þarf fólk að geta legið svolítið yfir svona verkum. Einnig fyrir skáldin gæti ég ekki ímyndað mér neitt þroskavænlegra en að fá viðbrögð verulegs fjölda lesenenda.
Mannlíf 1985
Engin ummæli:
Skrifa ummæli