fimmtudagur, 15. febrúar 2007

Kupiga simu

Þegar ég fyrir nokkrum árum tók saman við núverandi konu mína, sem er frá Kenya, Kikuyu-ættar, fór ég að læra Swahili. Það gekk heldur treglega, enda var hvorki í Kaupmannahöfn né Osló hægt að safna fólki í meira en byrjendanámskeið, En málið er heillandi, svo margt er þar ólíkt Evrópumálum. Swahili er bantúmál eins og flest tungumál í Afríku sunnan Sahara. Elst þekkja menn það sem mállýsku strandbúa nálægt Mombasa, en fyrir löngu er það orðið alþióðamál Afríku, og þjóðtunga Tansaníu, Kenya og Uganda. Sem verslunarmál þessa víðlenda svæðis hefur það verið mjög opið fyrir tökuorðum, einkum úr arabísku og á seinni árum úr ensku. Ekki þekki ég nema eitt tökuorð úr þýsku, en það ber Þjóðverjum fagurt vitni, það er orðið shule, skóli. Tökuorðin eru jafnan á einfaldri stafsetningu tungunnar samkvæmt framburði landsmanna, t.d. gari (e. car) bíll, kabati (e. cupboard), skápur, kabichi /kabeji (e. cabbage). Orðmyndun af gömlum innlendum rótum tíðkast þó einnig, t.d. heitir sjónvarp ekki bara televisheni, heldur einnig runinga.
Beygingakerfið er þó stórum skemmtilegra. Að vísu er ekki fallbeyging nema almennt fall og stundum staðarfallsviðskeytið -ni, eintala og fleirtala nafnorða er mynduð með forskeytum, sem lýsingarorð laga sig eftir. En kyn nafnorða eru sjö, og virðist skiptingin í grundvallaratriðum hafa farið eftir því hve mikla sál menn töldu fyrirbærin hafa. Í einum flokki eru þá menn og dýr, í öðrum tré, fljót o.fl., í þriðja ávextir og grænmeti, í fjórða mörg tökuorð, í minnnsta flokkinum staðarákvarðanir, en svo fer þetta aIlt að riðlast í undarlegum undantekningum. Taka má dæmi af stofninum –tu, sem tekur ýmsum merkingum eftir samhengi. Mtu-mannvera, watu (fleirtala), kitu-hlutur, vitu (fleirtala), jitu-risi, majitu (fleirtala), mtoto –barn, watoto (fleirtala), mti –tré, miti (fleirtala), mti mrefu –hátt tré, miti mirefu –há tré, jiwe-steinn, mawe (fleirtala). Lýsingarorð beygjast með nafnorðum með (stundum) sérstökum forskeytum; Jiwe dogo –lítill steinn, mawe madogo.
Sagnbeygingin er hinsvegar mjög margbrotin, og gefur latínu ekkert eftir. Fjórar tíðir, og mismunandi forskeyti tákna þær ýmist neikvætt eða jákvætt, eins og forskeyti persóna. Dæmi: Kusoma-lesa. Ninasoma ég les, ulisoma-þú last, atasoma-3.persona les (framtíð), tumesoma-við höfum lesið, hamsoma-þið lesið ekki, hawalisoma-þau lásu ekki; sitasoma-ég ætla ekki að lesa, humesoma-þú hefur ekki lesið, o.s.frv. Einnig bætast við sagnstofninn ýmiskonar viðskeyti eftir því hvort eitthvað er gert fyrir einhvern, við hann, gagnkvæmt, ferli hafið, o.s.frv. tvennskonar þolmynd, gert og gerlegt. –somea –lesa fyrir einhvern, -somwa-vera lesið (þolmynd), -someka-er hægt að lesa, og enn mætti lengi telja. En jafnan beygjast sagnir með forskeytum, fyrst einhverrar þriggja persóna í eintölu eða fleirtölu, þá tíðarforskeyti, síðan andlagsforskeyti, þá tilvísunarforskeyti, þá sagnstofn, og síðan e.t.v. viðskeyti. Sikupomwona Tobba, nilimpigia simu (neitað ég—neituð þátíð—þá—hana—sá Tobbu, ég—þátíð—hana—hringdi í=fyrst ég sá ekki Tobbu, hringdi ég í hana). Auðfundnar eru miklu lengri og margbrotnari sagnmyndir.
Sögnin kupiga (með nafnháttarmerkinu ku-) merkir eitthvað í átt við að beita, nota. Kupiga mpira = leika fótbolta, kupiga tenisi (leika tennis), kupiga pasi (nguo) = pressa (föt). Og kupiga simu = hringja í síma! Þegar ég sagði Jonnu Louis-Jensen frá þessu, sagði hún mér frá alþjóðIegri ráðstefnu símstjóra, sem auðvitað lauk með viðhafnarmáltíð. Og á þriðja eða fjórða glasi hugkvæmdist einhverjum veislugesta sá skemmtilegi samkvæmisleikur, að allir skyldu standa upp og nefna síma, hver á sinni tungu. Það varð heldur tilbreytingarlaus kliður, ,,telefon, telefon, telefon, þangað til Íslendingurinn og ,,einhver surtur” sögðu nokkurnveginn sama orðið. Aðrir hafa þá sjálfsagt ályktað, að amk. annar þeirra hafi fengið glasinu meira en hinir. Og mikið undraðist ég þegar ég sá sama orðstofn notaðan um þetta tæki á Islandi og Austur-Afríku. Hefur þó örugglega ekkert áhrifasamband verið milli þessara fjarlægu landa þegar orðið sigraði aðra valkosti snemma á tuttugustu öld. Á Íslandi voru orðin málþráður og talþráður meira notuð framan af. Og það hefi ég fyrir satt, að enginn skyldleiki sé með íslensku og bantúmálum. En skýringin var auðfundin, í swahili-orðabók minni stendur að simu sé tökuorð úr fornpersnesku, þar sem það merki þráður. En persneska og íslenska eru runnar af sömu lind. Og þá sjáum við, að í órafjarlægð og óháð hver öðrum hafa mönnum hugkvæmst svipuð myndhvörf til að tákna ketta nýja samskiptatæki; útdautt orð fyrir taug á Íslandi, orð fyrir þráð í Austur- Afríku.
Eg sagði frá þessari uppgötvun í þröngum hópi Kikuyufólks. En þeim orðum var tekið með hnykluðum augabrúm og hneykslunarsvip kvenna, eins og mælt hefSi ,,soralegur öldungur” svo notað sé orðalag landa Jeremy Bentham (mzee mchafu). Og það hafði ég reyndar verið, óafvitandi. Því orðmyndin sími er líka til í swahili, enda þótt hún standi ekki í minni alltof siðprúðu orðabók frá 1939. Sú orðmynd merkir nefnilega snípur, og það er nokkuð sem prúðmenni ber sér ekki í munn þegar þrennt eða fernt situr saman yfir tebollum. Enn sjáum við augljós merkingartengsl við íslensku orðin sími/síma = taug.
Og allt sýnir þetta að ,,hjörtum mannanna svipar saman/ í Súdan og Grímsnesinu, svo sem Tómas kvað. En hugvitinu líka!

Tilvitnað rit:
A Standard Swahili-English Dictionary [...] founded on Madans Swahili-English Dictionary. Oxford UP 1939 og síðar.

1 ummæli:

Katrin sagði...

Sæll Örn og takk fyrir þennan pistil, hann vakti mikla lukku hjá mér. Ég hef einmitt verið að velta skyldleika orðanna simu í swahili og sími á íslensku fyrir mér en þetta vakti mikla athygli hjá mér þegar ég var búsett í Kenýa fyrir nokkrum árum. Mér fannst ótrúlegt að um tilviljun væri að ræða og nú hef ég fengið skýringu á þessu öllu saman. Kærar þakkir!

Katrín Magnúsdóttir