fimmtudagur, 15. febrúar 2007

Lostug tröll

Lostug tröll

Tröll eru með sundurleitu móti við menn í íslenskum bókmenntum. Í þjóðsögunum er þó nokkuð um að tröll séu mannskæð, jafnvel mannætur, og það jafnvel svo heiftarlegar, að þeim nægir ekki minna í matinn en presturinn sjálfur, beint úr prédikunarstól (Mjóafjarðarskessan, Þjóðsögur JÁ I, 146). Er þetta hámarkið á andkristni trölla, sem birtist einnig í því að þau þola ekki klukknahljóð. Hér er ekki rúm til að rekja þetta, en lítillega skal hugað að öðru, sem er fullkomin andstæða þessa, þ.e. að tröll sýni fólki losta.
Það minni er í Snorra-Eddu, í sögunni af Skaði Þjassadóttur (Skáldskaparmál, 3. k.), að dóttir jötuns sem drepinn var, krefst þess í föðurbætur að fá eiginmann úr hópi ása, ætlaði sér þannig Baldur, en fékk Njörð. Þetta er einnig í Helga kviðu Hjörvarðssonar, en þar er skessan, Hrímgerður Hatadóttir hógværari (24. er.)

eina nótt
kná hún hjá jöfri sofa
þá hefir hún bölva bætur.

En Atli félagi Helga tefur hana með kjaftagangi og illyrðum, svo þetta nátttröll dagar uppi. Í Fornaldarsögum Norðurlanda er mikið um þjóðsagnaminni og ævintýra, eins og alkunna er. Þar má m.a. nefna Þorsteins sögu Víkingssonar, en í einum af mannraunum sínum verður Þorsteinn skipreika í gerningaveðri, og er að springa á sundi, þegar „kerling ein stór óð út að honum, og var í skorpnum skinnstakki, hann var síður í fyrir, en stuttur á bak; hún var stórskorin mjög og heldur greppleg [lesbrigði: greipileg] í ásjónu.“ (FAS II, 435). Hún bjargar Þorsteini hvað eftir annað, loks með því skilyrði að hann gangi að eiga hana. En þegar hann gengur að því, raunar mjög tregur, þá losnar hún úr þessum álagaham, reynist vera hin fegursta kóngsdóttir, eftir því efnuð, og giftist Þorsteini (s.r.,bls. 440). Eins er skessa klædd í Illuga sögu Gríðarfóstra, og þó miklu ferlegri ásýndum (s.r. III, 653):

honum þótti sem hríð eða hregg [lesbrigði: hagl] stæði úr nösum hennar; horinn hékk ofan fyrir munninn, hún hafði skegg, og sköllótt um höfuðið [með skringilegum búnaði (sum hdr)], hendur hennar voru sem arnarklær, en ermar báðar brenndar, en sá stakkur, er hún var í, tók henni eigi lengra en á lendar á bakið, en allt á tær í fyrir; augu hennar voru græn, en ennið bratt [um vangana hvar vill (sum hdr)], eyrun féllu víða; enginn mátti hana kalla fríða.

Einnig þessi ódámur krefst hvílubragða af söguhetjunni, en þó ekki við sig sjálfa, heldur við dóttur sína undurfagra. Verður þetta þó (auk óttaleysis söguhetju gagnvart morðhótunum skessu) til að leysa skessuna úr álögum (s.r. III, 653 o.áfr.). Víðar er þessi missíði stakkur í fornaldarsögunum, t.d. í Sögu Egils og Ásmundar (III, 387);

hann sá þar á hól einum jötunn mikinn og eina flagðkonu, þau drógust um einn gullhring, og varð hún orkuvana fyrir honum, og fór hann hraklega með hana, og mátti þar sjá viðrlitamikil sköp, því hún var stuttklædd“. Fyrr í sögunni hitta þeir félagar skessu (bls. 372): „Þeir sáu kvikindi uppi í hömrunum, það var meira á þverveginn en hæðina; það var svo hvellt sem bjalla, og spurði, hverir svo djarfir væri, að stela vildu hafri drottningarinnar. Ásmundur mælti: hver ertu hin fagra og hin bólfimlega.

Þessi öfugmælakveðja er að skoplegri vegna þess að skessan tekur hana alvarlega og þorir ekki að þiggja fingurgull af þeim félögum, „því eg veit, að móðir mín segði, að það sé hvílutollur minn.“ Þetta minnir lítillega á það atriði í seinni tíma þjóðsögu, að það gefst vel að ávarpa tröll kurteislega (JÁ I, 150-151), skessa snýst frá illskulegum hótunum til vinahóta við ávarpið: „Sitjið þér heilar á hófi/ Hallgerður á Bláfjalli.“. Raunar er það alþekkt minni, að það borgar sig að gera vel við flagð eða vesaling (svo sem í fyrrnefndri lausn úr álögum), og varðar það ekki þessa grein. En skinnstakkurinn missíði kemur einnig fyrir í þjóðsögum, t.d. (Þjóðsögur JÁ III, 235): „sáu kvikindi í kvenmynd, ekki fjarska hávaxið en digurt mjög. Það var í skinnstakki skósíðum í fyrir en stuttum á baki.“ Eins er búnaður annarrar skessu, og er útliti hennar ekki lýst, en það er þó ekki verra en svo, að söguhetjan barnar hana (s.r. III, 272-3). Víðar kemur það atriði fyrir, sem og þessi klæðnaður.
Það er dálítið skondið, að íslenska söngkonan heimskunna, Björk, klæðist blússum með þessu sniði, en gengur að sönnu í gallabuxum undir. En athyglisvert er, að þegar tröll seilast til manna, þá eru það oftar tröllkonur en tröllkarlar, jafnvel þegar mennskri konu er rænt, svo sem í sögunni af konunni í Málmey, sem lenti á bak við Hálfdánarhurð (Þjóðsögur JÁ IV, 533-35) „ein er þar kona krossi vígð/ komin í bland við tröllin“ , svo sem segir í Áföngum Jóns Helgasonar. Tröllkarlar sem komast í tæri við mennskar konur, eru oft sagðir fríðir og mannvænlegir, enda að hálfu mannsættar. Þá er hinsvegar móður þeirra lýst sem ljótu og mannskæðu flagði, sem tröllkarlinn drepur (sjá Móðarsþátt o.fl., s.r. III, 253 o.áfr.). En mest kveður að sögunum af Kráku, Trölla-Láfa og Jóni Loppufóstra (Þjóðsögur JÁ I, 178-86). „Skessa mikil sat þar upp á jökulgnípu einni. Hafði hún það atferli að hún rétti hendurnar fram á víxl og dró þær svo upp að brjóstinu og var hún með þessu að heilla [sofandi] manninn til sín“ (s.r., 183-4). Í þokunni stelur skessa sauðamanni, stundum eru þær tvær saman og leggja hann milli sín. „Iðulega tóku þær hann og mökuðu í eins konar smyrslum eða feiti og teygðu hann milli sín; fannst honum það mikil raun. Þær orguðu líka í eyru honum til að trylla hann.“ (s.r., I, 182). Af þessu verður hann smám saman óskaplega langur, og þótt hann að lokum sleppi til byggða, varð hann skammlífur eftir það. Annar piltur er stríðalinn af skessu heilan vetur, auk þess glímir hún við hann á hverjum morgni, og styrkist hann mikið við þetta. (s.r.III, 278). Þessir menn gera sér loks upp veiki, og segjast ekkert geta borðað nema tólf ára gamlan hákarl. Umhyggjusöm skessan verður að fara á annað landshorn til að sækja hann, en á meðan sleppur söguhetjan til byggða.
Nú er það alkunna í þjóðsögum, að vættir leiti fylgilags við menn. Einkum á það við um álfa. Stutt er og milli tröllasagna og útilegumannasagna, oft eru þetta sömu sögurnar með breyttum vættum, en útilegumenn eru einkar sæknir í byggðastúlkur. Þetta tvennt tengist þannig, að álfarnir eru, eins og allir vita, yfirleitt fríðir og efnaðir, sama gildir um margar þessara útilegumannasagna, þótt einnig komi þar fyrir kvensöm illmenni. Þessar sögur eru þá auðsæilegir draumórar um að fá prinsinn, draumórar sem enn yfignæfa í skemmtisögum nútímans. Tröllkarlasögurnar mega og flokkast hingað, því það hefur jafnan þótt kostur á mennskum körlum að þeir væru stórir, sterkir og stæðilegir. Stúlkan og tröllkarlinn unnast og jafnan til æviloka. En um skessurnar gegnir nokkuð öðru máli. Enda þótt þær séu sjaldnast beinlínis sagðar ljótar, þá er útliti þeirra yfirleitt ekki lýst jákvætt heldur. Um skeið hélt ég að afskræmilegar kvenlýsingar sagnanna stöfuðu af bælingu á kynhvöt höfunda, sem birtist því rangsnúin. En nú kalla ég þessa túlkun mína dólgafreudisma, því slíkar lýsingar eru býsna fáar, og einkum í fornum ritverkum. Í dæmunum hér að framan virðist eðlilegra að sjá þær lýsingar sem spaugilegar andstæður hugleiðinganna um bólfarir. En hvaða hugarfar býr þá að baki þessum þjóðsögum, um stórar og sterkar konur, sem einar draga ærna björg í bú, og taka ekki bara frumkvæðið að ástum, heldur grípa hreinlega karlmanninn og leggja hjá sér. Það er víst nokkuð augljóst að höfunda og flytjendur slíkra sagna finnum við með sömu aðferð og notast til að miða út markhóp t.d. James Bond sagnanna; sá markhópur er einfaldlega andstæða hetjunnar. Í stað kvennagullsins, sem þorir hvað sem er, leggur allt undir í fjárhættuspili, og lífið að veði til að bjarga einhverri kvengyðjunni, eða auðvaldskerfinu, þá birtist sem lesandi slíkra sagna óframfærinn maður í lágri stöðu, sem verður lítt til kvenna eða fjár, en dreymir um byssuleyfi til að drepa ríka og volduga kalla, kannski yfirmann sjálfs sín. Og ætli framangreindar tröllasögur sýni ekki svipað hugarfar aftur í öldum, úrræðalausa karlmenn, sem dreymir um að kona komi og taki þá, og leysi öll þeirra vandræði. Getum við ályktað eitthvað nánar? Að þarna fari t.d. niðursetningur, sem hafi verið tekinn frá móður sinni á unga aldri og settur til vandalausra sem sýndu honum kulda? Nei. Þegar ég fluttist til Danmerkur árið 1987, til að vinna í Árnasafni, lagði ég mig fram um að komast inn í danskt þjóðlíf, gekk m.a. í stjórnmálaflokk og umræðuhópa karlmanna (mandegruppe). Og í slíkum hópum reyndist fyrrgreint hugarfar almennt. Einu gilti í hve ágætri sambúð þessir menn voru, allt var það grátt og einskis nýtt, af því að konan var ekki nógu sjálfsörugg og ráðrík. Ég held að það væri mjög villandi að tala um Bægifótarduld (en það mun orðrétt þýðing á „Ödipusarkomplex“ skv. Einari Má Jónssyni, íslenskukennara í Svartaskóla). Þessa menn langaði ekkert til að hafa mök við mæður sínar. Þeir höfðu bara alist upp við það að þær ákvæðu allt, og fannst lífið tómlegt án slíks tilfinningamynsturs. Danir kalla þetta „moderbinding“ og það hafa sumir Íslendingar þýtt hrátt sem „móðurbindingu“. En væri ekki nær að kalla þetta skessufíkn?

Stafsetning er að sjálfsögðu samræmd.

Heimildir:

Edda Snorra Sturlusonar ...ved Finnur Jónsson. Kbh. 1931.
Fornaldar sögur Nordrlanda ... útgefnar af C.C. Rafn, I-III. Kbh. 1829-30.
Íslenzkar þjóðsögur og ævintýri. Safnað hefur Jón Árnason. Ný útgáfa I-VI, Reykjavík 1954-61.
Norræn fornkvæði ...udgiven af Sophus Bugge ...Oslo 1965.

1976-98.

Engin ummæli: