fimmtudagur, 15. febrúar 2007

Þyddar smasögur AB


ÍSLENSKAR SMÁSÖGUR IV-VI. 
Þýðingar. AB 1984—5. Kristján Karlsson ritstýrði 
Fyrstu þrjú bindi þessa safnrits geyma smásögur frumsamdar á íslensku, og fjallaði Ólafur Jónsson um þau í Skírni 1983. Þýddu sögurnar í pessum þremur síðustu bindum eru tveimur fleiri en hinar frumsömdu, 73 eftir jafnmarga höfunda. Þær eru lengri en íslensku sögurnar, margar hverjar, svo að þær fylla alls um 1400 bls., en hinar íslensku um 1150. Í heild er þetta því einstaklega yfirgripsmikið safnrit, verðugt framhald af Ljóðasafni sama forlags. Þýddu sögurnar eru innan svipaðra tímamarka og þær sem frumsamdar eru á íslensku, frá því ,,snemma á nítjándu öld og fram á sjöunda tug þessarar aldar”. En erlendu höfundarnir eru töluvert eldri, aðeins fimmtungur þeirra er fæddur eftir síðustu aldamót, en rúmur helmingur Íslendinganna. Þetta hlýtur að teljast eðlilegt, erlendir höfundar verða að hafa starfað lengi og náð verulegri útbreiðslu áður en saga eftir þá birtist á íslensku. Hins vegar nær smásagnagerð á íslensku ekki þroska fyrr en fyrir réttri öld, eins og ritstjóri rekur í formála I. bindis. 
Bókfræði er í góðu lagi, helstu upplýsingar um höfunda, prentaðar bækur þeirra á íslensku, þýðendur, og upphaflegan útgáfustað sögunnar. Ég hefði þar að auki gjarna viljað fá skrá um aðrar sögur þessara skálda, sem birst hafa á íslensku. Hún hefði ekki orðið rúmfrek, en að vísu götótt, þar sem ekki er við annað að styðjast en spjaldskrá Landsbókasafns og efnisskrár fáeinna helstu tímarita. 
Ritstjóri skrifar aðeins sex síðna formála til að fylgja þessum þýddu sögum ür hlaði, enda hafði hann gert góða grein fyrir einkennum smásagna og þróun 1—111. bindi. Ég hefði kosið að hann væri nokkuð langorðari í IV—VI., og þá hefði ég einkum viljað fá nokkurt sögulegt yfirlit um þýðingar smásagna á íslensku. Þær fylgja auðvitað blöðum og tímaritum, en útgáfa peirra jókst mjög í lok 19. aldar. Mörg blöð voru með ,,neðanmálssögur”, skáldsögur,smásögur og frásagnir, oftast þýddar. Þetta efni var svo mjög oft gefið út sérprentað af sama blýsátri. Skáldsögurnar voru sumar merkar, en sumpart var þetta uppspretta hins fræga reyfaraflóðs aldamótanna 1900. En einnig birtust sögusöfn helstu blaða, og eru Sögur Ísfoldar frægastar, enda endurprentaðar í fjórum allstórum bindum 1947—50. En þær birtust upphaflega í tuttugu bindum, misþykkum á árunum 1889—1909. Í sama litla broti birtist Sögusafn Þjóðólfs í 14 bindum, 1888—1909, Sögusafn Austra í sex bindum, 1891—1905, og Sögusafn Þjóðviljans í 32 bindum (eða heftum), 1903—1913. Ekki mun hér allt vera talið, en þessi útgáfustarfsemi væri merkilegt rannsóknarefni. Þýddar smásögur held ég að yfirgnæfi annað efni í þessum sögusöfnum, en þar er þó líka nokkuð um langar sögur og frásagnir, jafnvel íslenskar. Einnig birtist mjög mikið af þýddum smásögum í tímaritum, Iðunni, Eimreiðinni o. fl. , þegar um aldamót, og mjög mikið síðan víða. Framanaf hafa þýddar smásögur yfirgnæft frumsamdar á íslensku, enda auðfengnari og fljótteknari góðar smásögur erlendis frá en innanlands, fyrir ritstjóra sem vantaði efni, oft með litlum fyrirvara. Um þetta fæst vísbending af nokkrum tímaritum (þótt nánari athugun þyrfti á tímaritum og blöðum á 19. öld): á 9. áratug 19. aldar komu út sjö árgangar af tímaritinu Iðunni. Þar birtust 56 þýddar smásögur, en 7 frumsamdar íslenskar, eða 11%. I Iðunni 1915—37 fer hlutur þýddra smásagna aðeins niður fyrir hlut frumsaminna, þetta eru nánast helmingaskipti; en bæði í Eimreiðinni 1945—71 og Tímariti Máls og menningar 1940—76 eru smásögur frumsamdar á íslensku orðnar tvöfalt fleiri en þýddar. Raunar virðist lítill greinarmunur gerður á smásögum og ýmiskonar frásögnum, framanaf. 
Á meðan menningartímarit blómguðust á lslandi voru þau höfundum stöðug hvatning til að semja smásögur, og því fremur, sem þar voru oft góðar þýddar smásögur til að læra af og metast við. Vestur-íslensku blöðin hafa sennilega verið einkar áhrifamikil í því að kynna Islendingum nýjungar—hvað sem gæðum líður, á heildina litið. Auk þessarar óbeinu hvatningar reyndu sumir ritstjórar að örva smásagnaritun Íslendinga beinlínis, með samkeppni. Sú fyrsta sem ég hefi rekist á, var á vegum Réttar 1934, en önnur hjá Eimreiðinni 1941. Mér sýnist augljóst að smásagnagerð hafi verið hæfilegra verkefni byrjendum en skáldsögur, svo sem flestir eru að semja núna. Og á þeim tíma fékk höfundur þetta verk sitt birt í útbreiddu tímariti, og hefur þá væntanlega getað lært af viðbrögðum lesenda. En nú er útbreiðsla á bók eftir byrjanda yfirleitt lítil, og viðbrögð eftir því. 
Áður hafa birst yfirlitssöfn smásagna, og eru nefnd í Íslenskurn smásögum Sögur frá ýmsum löndum I-III (alls um 1000 bls.) sem BSE gaf út 1932, og Úrvalssögur Menningarsjóðs. Ekki komu nema tvö bindi af þeim, Sögur frá Noregi 1948 og Sögur frá Bretlandi 1949. Auk þess eru svo einhver söfn smásagna einstakra höfunda, m. a. Edgar Allan Poe, Arnulf Överland og William Faulkner. 
Af þessari upptalningu má sjá, að það hefur verið erfitt verk að velja í þetta safn AB. Efnið er svo mikið, að erfitt er að fara í gegnum það allt, og nokkuð mikið vantar á skráningu þess. A hinn bóginn getur lesanda þótt vanta sögur eftir ýmsa höfunda, sem ættu heima í slíku yfirlitsriti, en það getur verið vegna þess að þær höfðu aldrei birst á íslensku. I annan stað mun ýmsum þykja hæpið að treysta á smekk eins manns til að velja svo mikið safn. En ég held að það sé óhjákvæmilegt, a. m. k. til að hafna efni, hversu frægt skáld sem á hlut. Kannski skortir einna helst á þetta. Kristján segir ekki beinlínis hvaða sjónarmið hafi ráðið vali hans, það er helst þetta, í sambandi við röð sagnanna (IV.b., bls. vii):

Á hinn bóginn fer ekki hjá því að sú röðun sem hér varð ofan á veiti ofurlitla hugmynd um almennar breytingar sem orðið hafa í nútíma smásagnagerð frá því að hún er talin hefjast snemma á nítjándu öld og fram á sjöunda tug þessarar aldar að minnsta kosti.

Kannski er svo augljóst hvaða sjónarmið réðu valinu, að ekki þurfi um að tala: Velja nokkur þau skáld sem helst hafa sett svip á bókmenntir þessa tímabils, og taka þá bestu sögur sem eftir þau hafa birst á íslensku, eða þær sögur sem einna best sýna sérkenni skáldanna. Í stórum dráttum má segja að safnið sé samkvæmt þessu, hér eru t. d. sautján Nóbelsskáld, auk fjölmargra heimsfrægra skálda sem of langt yrði upp að telja, því fátt er um önnur nöfn, nema helst í síðasta bindi. Hér eru skálda frá sautján þjóðum. Bandaríkjamenn eiga flestar sögur, sautján; Bretar tíu, auk þess eru tvær eftir Íra og ein eftir Nýsjálending; alls eru rúmlega 40% sagnanna af ensku málssvæði. Ég býst við að það sé eðlileg afleiðing þess hve lengi menningaráhrif þaðan hafa yfirgnæft önnur á Íslandi, þaðan mun flest um feita drætti í því sem birst hefur á íslensku. Annars fer einna mest fyrir sögum úr norrænum málum: sex úr norsku, fimm úr dönsku, fimm úr sænsku, ein úr færeysku. Sjö eru úr þýsku, fimm úr frönsku, fjórar úr rússnesku, tvær úr pólsku, tvær úr tékknesku, tvær úr ítölsku. Loks eru fórar frá Rómönsku Ameríku; tvær eftir argentínsk skáld, ein frá Urúgvay og ein mexíkönsk. Það er víst ekki fyrr en á síðustu árum sem þýtt er beint úr fjarlægum málum, framanaf hefur mest verið þýtt úr dönsku eða ensku, eftir rússnesk skáld og þvíumlíkt. Líklega hefðj verið hægt að hafa sögurnar af enn margbreytilegri uppruna, ágætar smásögur hafa birst kínverskar, FjalIaþorpið eftir Lú Hsúin, og í Tímariti Máls og menningar hafa birst smásögur eftir Tyrkja, Magrebína og Írana, en að vísu aðeins á allra síðustu árum, er því ekki hægt að ætlast til að þær séu teknar upp í safnrit á borð við Íslenskar smásögur að svo stöddu. Annars væri æskilegt, þó að landfræðilegur uppruni skipti ekki öllu máli, að koma slíku safni betur út fyrir ramma landlœgra fordóma Vesturlandabúa. 
Hvað sem þessu líður, þá eru sögurnar svo fjölbreyttar, að örðugt er upp að telja allar þær margbreytilegu aðstæður og persónur sem þær lýsa. Ýmist er lesandinn staddur meðal skæruliða í Suður-Ameríku, einyrkja i Bandaríkjunum, þorpsbúa í Frakklandi — og í stórborgarvændinu þar, meðal glæpalýðs á Spáni, tötraöreiga í stórborg, yfirstéttarfólks í venjulegu umhverfi sínu — og andspænis ómennskri náttúrunni (Johannes V. Jensen), og margt mætti enn telja. Hér er sýnd undirokun og uppreisn gegn henni (t. d. Tsjekhov og Faulkner), ofurvald ástríðnanna kemur víða fram, og myrk, dularfull öfl mannssálarinnar (t. d. Tieck, Heyse, Conrad, Blixen, Somerset Maugham). Dulrænn óhugnaður af kristilegum toga birtist m. a. hjá Borges og Shirley Jackson. Skondið er hvernig dularfull saga Julio Cortazar endurspeglar dularfulla sögu Edgar Allan Poe: uppkomin systkini einangruð í stóru, gömlu húsi, sem er táknrænt fyrir líf þeirra. Á margan veg er fjallað um líf einstæðinga; Truman Capote sýnir vonlausa ást hommans sem svikinn er í tryggðum, Thomas Mann sýnir brenglað sálarlíf skotspænis smáborgar, en Sherwood Anderson hljóða örvæntingu þess sem finnst hann vera að missa af lífinu. Lagerkvist sýnir hinsvegar hvernig bæklaður betlari sættir sig við hlutskipti sitt. Hér er hefðbundin raunsæissaga Jonas Lie um lífsbaráttu utangarðsmanns í norskri sveit á 19. öld, en Zola fjallar um það, hvernig einstaklingur samsamast þjóðarheildinni á örlagastund. Steinbeck sýnir hvernig barn uppgötvar heiminn, Maupassant, Kielland og Lagerlöf hvernig örlagaríkt val í ástarmálum setur sögupersónu í fullorðinstölu. Toller og Brecht sýna hvernig sviplitlar rosknar konur bjuggu yfir óvæntum möguleikum í lífsháttum. 
Frásagnarháttur er mjög margbreytilegur, og stíll, svo sem að líkum lætur, með svo marga höfunda og þýðendur frá mismundandi tímum. Ritstjóri gat vitaskuld ekki borið saman frumtexta og þýðingar, og ritdómari því síður, en Hannes Hafstein vakti sérstaka aðdáun mína fyrir stílinn á ,,Karen" Kiellands. Ritstjóri talaði um það í formála íslensku Sagnanna (I—III) að í þeim drottnaði hefð raunsæisstefnunnar Sú drottnun er ekki eins áberandi í þýddu sögunum, og nokkrar snúast einkanlega um það, hvernig sjálfur veruleikinn er túlkaður og skapaður af frásögninni Af þeim sögum sem setja frásagnarháttinn í brennipunkt á einhvern hátt, fannst mér einna merkilegastar sögur Maupassant, Sönderby og Dagerman. Framúrstefna er hins vegar ekki áberandi, en mér er ekki kunnugt um þýðingar af því tagi, sem ritstjóri hefði getað valið úr. T. d. birtust góðar smásögur ettir Kafka víst ekki fyrr en í hitteðfyrra, í útbreiddu bókmenntatímariti, Tímariti Máls og menningar, og þætti víst undarlegt að endurprenta þær strax hér. Allur þorri sagnanna er ágætur, margar góðar. Vil ég þar einkum nefna (auk ,,Karen), ,,I eyðimörkinni” eftir Johannes V. Jensen, ,,Regn” eftir Somerset Maugham og ,,Jarðarför” eftir Steinbeck, en margar fleiri mætti telja. Það er vel til fundið að byrja safnið á ,,Ævintýri af Eggerti glóa”, sem birtist í Fjölni 1835, og hlaut svo slæmar viðtökur, að Fjölnismenn skrifuðu henni til réttlætingar merka hugleiðingu um ýmiskonar skáldskap tveimur árum síðar. Hér eru og sögur, sem hafa orðið svo kunnar í íslenskum bókmenntum, að þær varõ að taka með, hvað sem bókmenntagildi líður, ,,L’Arrabíata” og ,,Cavalleria rusticana”. Oft hafa smásögur, sem aðrar bókmenntir, verið skrifaðar til að vinna málstað fylgi. Það er þá sjaldan mikill skáldskapur í þeim, en það er bót í máli, þegar það er gert svo skemmtilega sem í sögu Strindberg. Saga Heinrich Böll er bráðskemmtileg skopstæling, og Ingvar Orre er í grennd við þessa tvo. 

Það er fastur liður þegar talað er um úrvalsrit að segja að val í þau hljóti að orka tvímælis, enginn geti gert svo öllum líki, o. s. frv. Sjálfsagt er engin leið að gera það, en þá er best að segja hreinskilnislega, hvað mér finnst gagnrýnivert. Það er í rauninni ekki annað en það, að mér finnst fáeinar sögur of lélegar til að taka hér með. Og eftir suma höfunda þeirra hafa birst miklu betri sögur; eftir Anatole France í Iðunni (,,Putois”); eftir Bunin í Eimreiðinni (,,Maðurinn frá San Fransisko” og þó einkum ,,Sólstunga”). ,,Þrír gestir” eftir Thomas Hardy væri kannski þolanleg ef liún væri ekki á svona stirðbusalegri íslensku. Hvað varðar Galsworthy, Sienkiewicz, Túrgenev ogTolstoj, þá get ég ekki bent á neinar smásögur eftir þá betri en það sem hér birtist. Var þá ekki bara betra að sleppa þeim, þótt frægir séu? Þetta eru prédikanir, einkum eftir Rússana. Eins og áður var ýjað að, eru slík skrif svo áberandi í því sem gengið hefur undir nafninu smásögur, að þykja má eðlilegt að hafa með sýnishorn þess. En þau hefðu mátt vera færri, þótt þetta sé svosem lítill hluti af heildinni. Túrgenev er skástur, því hann er þó með vandaðar myndir úr náttúrunni og þjóðlífinu. Sienkievicz er þjakandi væminn. Tolstoj á eitthvað á þriðja tug titla í skrá Landsbókasafns um efni í blöðum og tímaritum, allt kristilegar siðaprédikanir í heldur fátæklegu smásögugervi, það sem ég hefi lesið. Sé einhver atburðarás, á er hún mjög einföld og ævinlega dæmisaga. Persónur fáar og afar einfaldar: önnur hlustar, en hin romsar upp úr sér kristilegum siðalærdómi. Má þá ef til vill segja, að það sé vel til fundið hjá ritstjóra að sýna með slíku dæmi af frægu skáldi hvað menn létu sér lynda sem bókmenntir í lok 19. aldar, að þar sé ekki gullöld að trega, og menn sjái þá þeim mun betur þá smásagnahefð, sem íslensk smásagnaritun spratt uppúr. Það kann að vera álitamál, en hitt ekki, að flestar sögurnar mega þykja vel valdar og að mjög mikill fengur er að safni þessu, einkum var vel til fundið að láta ekki sitja við frumsamdar sögur, þýddu sögurnar þurfti til að fylla myndina af iðkun þessarar bókmenntagreinar á Íslandi. Það er einn af miklum kostum þessa safns, að það gefur glögga mynd af fyrirmyndum íslenskrar smásagnagerðar. Þær takmarkanir sem ég hefi hér fundið, mega þykja lítilvægar, og þær yrðu auðveldlega yfirstignar með sjöunda bindinu, sem hefði annarlegri og nýstárlegri sögur en hér eru saman komnar. Ég hugsa að flestir eigendur safnsins tækju slíkri viðbót vel, enda sýndi hún sögur fyrri binda aðeins í skærara ljósi.

Engin ummæli: