fimmtudagur, 15. febrúar 2007

Halldor Stefansson

Halldór Stefánsson og expressjónisminn
(ýmislegt í þessari grein var tekið upp í bók mína Kóralforspil hafsins, 1992)

Í þessari grein eru könnuð nokkur einkenni á smásögum Halldórs Stefánssonar. Halldór var uppi á árunum 1892—1979. Hann var ekki með afkastamestu rithöfundum, enda gegndi hann alla tíð öðru starfi, og var kominn fast að fertugu þegar fyrsta bók hans birtist. Þó liggja eftir hann 5 smásagnasöfn og 4 skáldsögur, auk nokkurra óprentaðra Ieikrita, frá árunum 1930—73.
Sérkennilegustu verk þessa höfundar þykja mér nokkrar smásögur bans fyrstu árin. Ég reyni að draga fram hver þessi sérkenni eru, einkum í stíl, og hvaða hlutverki þau gegna innan sögunnar1. Síðan er reynt að sjá þetta í víðara samhengi.

Hér verður vikið að fáeinum sögum úr fyrsta smásagnasafni Halldórs, Í fáum dráttum, sem kom út í Berlín 1930. Ur öðru safni hans, Dauðinn á þriðju hæð (Rvík 1935), tek ég einkum til athugunar titilsöguna, sem er þriðjungur bókarinnar, og lítillega smásöguna Réttur, sem birtist fyrst í samnefndu tímariti 1931. I því tímariti birtist og árið 1934 sagan Hinn mikli segull, sem ekki kom í bók fyrr en 19502. Þessar sögur eru því allar frá fyrri hluta 4. áratugsins.
Ein viðmiðun þessarar umfjöllunar eru smásögur Gests Pálssonar, sem birtust hálfri öld fyrr en fyrstu smásögur Halldórs. Þeirri viðmiðun veldur þrennt; Gestur varð fyrstur Íslendinga til að leggja verulega rækt við smásögur, mjög var vitnað til sagna hans sem fyrirmyndar á árunum milli stríða, og gerð hefur verið rækileg könnun á ýmsum helstu einkennum þeirra3. Margt bendir til að hin mikilvægustu hafi einnig verið megineinkenni á öðrum vinsælustu sagnaskáldum aldamótanna, og megi teljast til raunsæishefðar4, en helsti margt er órannsakað í þeim efnum.
Umhverfislýsingar
Þeir sem víkja að stíl sagna á árunum milli stríða eru yfirleitt á einu máli um að hann eigi að vera óáberandi, gegnsær. Þetta er samkvæmt því útbreidda viðhorfi að skoðanir höfundar megi aðeins birtast í atburðum sögu og lifandi persónum hennar, stíllinn á að lúta efninu, samtímasaga á að vera á samtímamáli. Útbreidd virðist trú á eðlilegan, sjálfsagðan stíl. Þetta er hluti af arfleifð raunsæisstefnunnar5. Og í rannsókn Sveins Skorra Höskuldssonar á smásögum Gests Pálssonar kemur fram að Gestur notar mjög lítið sjaldgæf orð, stíll hans ber sterkan keim af hversdagslegu talmáli. Hann forðast æ meir lýsingarorð sem sýna persónulegt mat, málar í svart-hvítu, en gerir sér far um að höfða til ímyndunarafls lesenda með óljósum ákvörðunarliðum svo sem ,,undur-blíðlega og sýndarlíkingum: ,,var eins og dálftið fát á Ingvari. Þannig reynir höfundur að hverfa í skugga sögu sinnar6.

Nú er þetta auðvitað ekki svo að skilja að skáldleg tilþrif séu illa séð, eða að Gestur forðist þau. Hann skapar sögum sínum oft andrúmsloft eða forboða með náttúrulýsingum, einkum með veður- Iýsingum. Viðlíka umhverfislýsingar hafa verið alkunnar lengi. Best finnst mér Gestur gera þetta í sögunni Vordraumur. Veðurlýsingin í upphafi sögunnar er forboði um gang hennar, því fyrst eru hlýindi, en síðan kemur hret, sem gerir vorboðann að blekkingu, eins og ástina, aðalefni sögunnar. Þegar kemur að því að ástir takist með Bjarna og Önnu, kemur blíður léttleiki í náttúrulýsingar, þær sýna óbeint í hugi þessara persóna; ástaratlotin sem þau vilja sýna hvert öðru. Til þess eru persónugervingar náttúrufyrirbæra7:

næturgolan þaut um andlit honum, vorhlý og hressandi, og fyrir neðan túnið, rennislétt og skrúðgrænt, tók sjórinn við. Þar léku smábárur efst á mararfletinum, bulluðu og hossuðu sér á allar lundir, og skvettu sér svo í einhverjum æskugáska upp í fjöruna. Það var nærri því eins og þær hugsuðu sér að kitla smáhnullungana þar, Iangaði til að spreka þeim til og láta þá finna lífið og vorið; en svo hoppuðu þær aftur, eins og þær yrðu hræddar við, hvað landið væri kalt og tilfinningarlaust að taka á. (bls. 214)

Eftir að Bjarni segir Önnu upp í bréfi, sýnir myndræn lýsing fossins sjálfsmorðshugsanir hennar, sem ekki eru orðaðar beinlínis — og einmitt lýsing fegurðar fossins sýnir freistinguna, jafnframt því sem lýsing löðurstraumana á áberandi vel við hugsanir Önnu um Bjarna:

Hann var bæði hár og breiður og veltist í silfurskæru perlulöðri fram af bjarginu niður í hringiðuna hyldjúpa og kolgræna, og hringiðan greip alla löðurstraumana, sogaði þá í sig, fleygði þeim svo upp aftur, velti þeim fyrir sér og togaði þá á allar lundir, eins og til að vita, hvort nokkurt lið væri í þeim, og slengdi þeim svo frá sér, og perlurnar þutu dálítinn spöl niður eftir ánni, brustu svo og urðu að engu. (bls. 229)

En Anna hverfur frá þessum sjálfsmorðshugsunum, og það sýnir Gestur með því einu að endurtaka lýsingu hringiðunnar í breyttu formi í hugsunum hennar, svo að hún verður smærri og áhrifaminni, auk þess sem persónan er látin taka eftir nýrri fegurð í umhverfi sínu:

Hvað henni fannst mikil yndisfegurð í hverri einustu bugðu í ánni, og hvað hann var skrítinn þessi leikur í straumiðunni kringum steinana, sem stóðu upp úr, til að toga þá með. Og upp um hlíðarnar sá hún eitthvað nýtt við hvern hól, hverja brekku og hverja laut, einhverja nýja fegurð, sem hún hafði aldrei tekið eftir áður. (bls. 229—30)

Þessi túlkun á umhverfislýsingunum sýnist mér gefa meira en almennari túlkun, svo sem að túlka lýsingu fossins sem táknmynd lífsins sem fari sínu fram, hvað sem einstaklingi finnst. Af þessu sést, að náttúrulýsingar Gests gegna ýmiskonar hlutverki, einkum að sýna hugarástand sögupersóna, en jafnan því einnig að magna örlagaríkt atriði sögunnar. En hvorttveggja hefur lengi verið alsiða í skáldskap.

Nú fer því auðvitað fjarri að stílstefna Gests Pálssonar hafi verið einráð þegar Halldór Stefánsson hóf skriftir. Sú stefna fól í sér viðbrögð við eldri tísku, og áfram var mikið um sögur sem ekki höfðu hlutlægnisblæ á sér. Taka má af handahófi dæmi úr skáldsögu frá 1925, Gestum Kristínar Sigfúsdóttur. Atriðið er sambærilegt við það fyrsta sem tekið var hjá Gesti, en hér kemur afstaða sögumanns beinlínis fram í orðalaginu:

Kvöldið er kyrt og rótt. Eitt af þessum ógleymanlegu vorkvöldum, kegar ,,móðir jörð stendur á öndinni og hlustar eftir hjartaslögum barna sinna, smárra og stórra. Þegar hávaði dagsins hljóðnar og þrasið og deilurnar þagna, af ósjálfráðri tilfinningu fyrir því að það væri griðrof, að varpa ófriðarorðum inn í ginnhelga þögnina. (bls. 26)
Fyrstu sögurnar í fyrstu bók sinni mun Halldór hafa samið að mestu leyti áður en hann fór til Þýskalands árið 1929. I þeim drottnar hugmyndaframsetning, en ekki persónusköpun eða flétta, og stíll þeirra sagna er mjög af sama tagi og í dæmi okkar frá Kristínu Sigfúsdóttur, mótast af persónulegu mati. Sjá t. d. fyrstu söguna:

Þegar veðrið var gott og morgunsólin steypti logagylltri skikkju yfir mjallhvítan náttkjól jarðarinnar, þá hoppaði Sigga litla glöð út um hjarnið, eða hljóp með skíði sín upp á brún og sveif þaðan með flughraða niður dalinn aftur, yfir tárhreina snjóinn, sem hvergi var ataður af reyk eða mannaförum. (bls. 4).

Í framhaldi af þessu er lýsing foss, sem má bera saman við fosslýsingu Gests Pálssonar hér að framan:

Þarna sat hún og horfði á skrautlegan vetrarbúnað fossins og hlustaði á sönginn hans. Hann var nú lágróma af hálsbólgu, en samt var það svo undurþýtt og hressandi sem hann söng og álfarnir í hólunum tóku undir með honum, langt niðri í dalnum sló áin nokkra snögga samhljóma og litla lindin við fætur hennar suðaði ljúfa millirödd, en máninn skaust undan skýbarðinu og helìti daufri töfrabirtu yfir þessa náttúrugerðu hljómsveit (bls. 4).

Líking náttúrunnar við kór og hljómsveit er kannski í frumlegra lagi, og á ég ká einkum við hálsbólgu fossins. Annars eru persónugervingar líkt og hjá Gesti, en auk þess er tilfinningaþrungið, hefðbundið orðalag. Í ritdómum frá þessum tíma er einmitt stundum kvartað yfir því að í skáldsögum séu orð sem rungin eru tilfinningum. Það er kallað að höfundur grípi fram í fyrir sögunni og voli, og finnst ýmsum of mikið hafa verið gert af slíku10.
Þessa gætir enn í orðavali sögu Halldórs Dauðinn á 3. hæð frá 1935, hún er þrungin orðum með neikvæðum blæ, t. d. í lýsingu borgarinnar í upphafi:

Það glittir aðeins í götuljósin gegn um þokusúldina, sem þrýstir dapurleik sínum á svip húsanna, afskræmir andlit manna með hráblautri grímu, læsir sig inn í hvern þráð í fötum þeirra og gerir þau þung og andstyggileg. Göturnar eru slepjaðar eins og ógeðslegt orðbragð, og yfir þeim grúfir ömurleg þögn, sem aðeins er rofin af bílum, sem skjótast með snöggu veini fyrir húshorn, þunglyndislegu þrammi svartklæddra lögregluþjóna og drattandi fótataki manna sem eru svo ólánssamir að eiga ekki fyrir fari með strætisvögnunum. (bls. 7)

Þótt hér sé tilfinningarþungið orðalag 1930 og 1935, þá víkur það einkenni á árunum þar á milli fyrir öðru. Þótt orðalag sé áfram ágengt, þá er það á annan hátt, með nýstárlegum líkingum, jafnvel eru sumar nýtískar. Auk þess verður háð áberandi (t. d. í Sporin mjöllinni, í jólablaði Albýðublaðsins 1930, endurpr. í Dauðinn á 3. hæð).

Annarlegar líkingar
Í síðustu smásögum fyrstu bókar Halldórs Stefánssonar er nokkuð um að líkingar séu valdar af kostgæfni. Sagan Dulmögn hefst á því að talað er um vetrarþokuna sem uppsprettu undra, og viðlíkingar eru þá til að gera hana annarlega og óhugnanlega: ,,Þessi mjallhvíta þögn. Hún er eins og draumur dauðs manns” (bls. 119). ,,Vetrarþokan sté upp úr hafinu á hverjum degi, þögul og dularfull, eins og vofa upp úr kirkjugarði” (bls. 121). Venjulegri viðlíking sést einnig, að náttúrulegum fyrirbærum er líkt við eitthvað neikvætt í mannheimum, til að skapa hugblæ: ,,Snjórinn lá þykkur og þungur á landinu eins og áhyggjur á mannssál. [. . .] Leiðindi fábreytninnar laumaðist [svo!] um bæinn eins og rógur” (bls. 121). Eins og hjá t. d. Gesti Pálssyni geta líkingar verið það eina sem sýnir hugsanir persóna, sem ekki er á annan hátt sagt frá. Sagan Björgunarlaun frá 1932 hefst á lýsingu sjávarorps með viðlíkingum sem allar eru af því sviði (,,líkt og þorskhaus”). Seinna verður sveitamaður hræddur úti á sjó, og þá er það sýnt með viðlíkingum við skelfileg fyrirbæri í því umhverfi sem hann þekkir best: ,,Oldurnar komu þjótandi eins og fælnir hestar, og vindurinn öskraði eins og mannýgur griðungur” (Dauðinn á 3. hæð, bls. 115). Í Hreinarnir er ung kona að hverfa með ungum elskhuga sínum frá öldruðum manni sínum. Hann er þá fyrst sýndur svo: ,,Grátt hárið flaksar í vindinum eins og neitun (I fáum dráttum, bls.134), en þegar konan kveður hann, segir að hann ,,horfir á bogadregnar augnabrýrnar [svo] og varirnar, sem þrýstast fast saman eins og unnendur í faðmlögum” (bls. 135). Og þegar eìskendurnir sigla frá landi segir: ,,Himininn [svo] yfir höfðum þeirra með gráum skýjafìókum eins og hugsanir gamalmennis” (bls. 136). Þessar viðlíkingar spretta upp af efninu, svo það kemur þá þeim mun meira við lesendur. Aðrar viðlíkingar eru langsóttari, án ess að séð verði bein ástæða fyrir þeim: ,,Snöggklæddur maður, gleiður eins og illa skrifað X, slær á einu túninu segir í 11. k. sömu sögu (bls. 134). Annarleiki líkingarinnar má þá sýna hugarstríð prestsins fyrir viðskilnaðinn við konu hans. I síðustu sögu fyrstu bókarinnar, ,,Nýmálað", er ámóta langsótt viðlíking, þegar söguhetjan stígur í land Reykjavík, og finnst greinilega mikið til koma: ,,svefninn og sjóveikin hrundu utan af Páli Jónssyni eins og morgunkjóll utan af vinnukonu sem er að flýta sér á dansleik” (bls. 146). Smásagan Réttur frá 1931 hefst á sviðsetningu, dæmigerðu þorpi er lýst í formi mataruppskriftar. Þessi langsótta líking — í samræmi við tvíræðni titilsins — hefur á sér hlutlægnisyfirbragð náttúrufræði. En þegar einstakir liðir hennar eru skoðaðir, kemur í ljós eindregin stjórnmálaafstaða. Frumefnið er mold, síðan koma til õreigar (það orð notuðu þá kommúnistar einir). Kryddið er tár, kaupmaður er til skrauts (og þá í rauninni engin nauðsyn), hinsvegar er prestur talinn nauðsynlegri en læknir. Það er í samræmi við hlutlægan raunveruleikann að því leyti, að miklu meira var um presta en lækna, en auðvitað er verið að hæðast að þeirri skipan mála. Lok þessarar lýsingar sýna fram á að mannlífið í þessu dæmigerða íslenska þorpi búi við sama böl og það sem ríkir í erlendum stórborgum:

Þetta er ódýr réttur og fullur af bætiefnum, svo sem þrældómi, fylliríi, barneignum, guðsorði, gleði og sorgum, og yfirleitt öllu því sem er í öðrum réttum, þó þeir séu fínni, og heiti eitthvað merkilegra, til dæmis stórborg eða konungsríki. (bls. 133)

Sjá má tvennskonar langsóttar viðlíkingar í smásögunni Dauðinn á 3. hæð. Annarsvegar er einhverju úr mannheimum líkt við náttúruna, t. d. er hljómlist líkt við fljót í leysingum (bls. 22): ,,kolmórauður jazzinn fyllir stofuna”. Kaupmanninum er líkt við ferlíkið í hjólbarðaauglýsingu Michelin, en ámóta langsótt er viðlíkingin við náttúruna (bls. 20—21): ,,Þá kom allt í einu líf í hið sviplausa andlit hans með fitufellingunum, það sprakk eins og gróðurmoldin á vorin [. . .] og hristi vinstri fótinn, eins og þegar kýr slettir úr klauf.”

Meira ber þó á viðlíkingum sem eru andstæðar þessum þannig, að náttúrulegum fyrirbærum er líkt við eitthvað í mannlífinu. Sagan hefst á eyðileggingu: ,,Myrkrið hvolfist yfir borgina eins og blek yfir handrit”. Síðan koma neikvæðar viðlíkingar: ,,Regnið small á rúðunum eins og ókurteis stóryrði, stormurinn þröngvaði því inn með gluggapóstunum, svo það rann dónalega ofan á gólfið, ef ekki var við gert í tíma” (bls. 19). Og í upphafi sögunnar: ,,svaðið leitar undan fótum manns eins og óábyggilegt loforð [um atvinnu?]. Það gúlpar ofurlítið í sjónum við steinbryggjuna eins og lokasnökkt krakka efrir afstaðnar skælur. Nálæg þessu er viðlíking á bls. 53:
,,Eg er farinn, sagði atvinnuleysinginn. Hann seig hljóðlega út um dyrnar án þess að bjóða góða nótt. Pað var eins og vond lykt væri að rjúka út um gættina. Og um kyndarann segir, að ,,skuggi hans seildist eins og ljótur sjúkdómur upp eftir manninum, sem sat á rúmfletinu" (bls. 1 7).
Sumt af þessu er huglægt, líkt og við sáum í sögunni Dulmögn, en allt gerir þetta efnið nærgöngulla en ella, þ.e. sýnir óbeint sálarástand atvinnuleysingjans. Við sjáum að hér er efnislegum fyrirbærum, náttúrlegum eða manngerðum, líkt við eitthvað neikvætt, jafnvel ömurlegt í fari fólks. Jákvæðari (samkvæmt hneigð sögunnar) er viðlíking af sama tagi í sögulok: ,,Úti hamast regnið eins og bylting”. Svipað hlutverk og viðlíkingar hefur einnig lokasetningin: ,,Nóttin er svört” — því það verður að telja óþarfar upplýsingar (eins og að lögregluþjónar séu svartklæddir hér að framan), svo að orðin segja þá annað en virðist í fljótu bragði, þau skapa andrúmsloft, bölsýni á núverandi ástand.
Ef finna má eitthvað sameiginlegt þessum líkingum og hinum fyrrtöldu, þá er það einmitt fjarlægðin milli þess sem talað er um og hins sem því er líkt við. Jafnframt verður persónulegt sjónarmið áberandi í stílnum, andstætt hlutlægnisstefnunni. Þessar langsóttu, nýstárlegu viðlíkingar Halldórs sýnast mér vera nýjung í íslenskum bókmenntum í byrjun 4. áratugsins, fyrir utan það sem finna má hjá Halldóri Laxness. Vissulega er margt ókannað um prósastíl þess tíma. Þessar viðlíkingar eru í þremur síðustu sögum fyrstu bókarinnar og auk þess í fjórum öðrum frá árunum 1930—35. Oftast nær er aðeins ein eða tvær í hverri sögu (fyrir utan Dauðann á 3. hæð), og þeirra gætir einkum í sviðsetningum. Að öðru leyti er stíll þessara sagna í samræmi við raunsæishefð.

Persónulýsingar
Sveinn Skorri Höskuldsson rekur með dæmum í riti sínu um Gest Pálsson, að sögupersónur hans séu næsta fábreyttar að útliti og innri gerð. Þó leggi Gestur nokkra rækt við útlitslýsingar, að hætti raunsæismanna og í samræmi við íslenska sagnahefð. Utliti sé yfirleitt lýst beint, en skapferli óbeint, þ.e. lýst af öðrum persónum, eða það birtist í orðum persónunnar, hugsunum hennar eða gerðum. Sögurnar þróist æ meir til óbeinnar skapferlislýsingar, sem sé einráð í síðustu sögunni. Mikið rúm og æ meira fari í að rekja hugsanir persóna, en best heppnist þær sem án þess séu. Framan af sjái höfundur inn í hug ýmissa persóna, en sögurnar verði æ meir á þá lund að í þeim ríki eitt samræmt sjónarhorn, allar persónur sjáist utanfrá. Allar persónurnar séu einlyndar nema ein, og það sé megingalli sagnanna, því þær eigi yfirleitt að vera harmrænar, en til þess dugi ekki einlyndar persónur11.

Persónur þeirra sagna Halldórs Stefánssonar sem hér um ræðir, eru einnig allar einlyndar, en annars ólíkar þessu að gerð. Útlitslýsingar sem sýna eingöngu persónuleg sérkenni eru með minnsta móti, en mest ber á því að útlit lýsi innra manni, enda er skapferli iðulega lýst beint, en stundum kemur það fremur fram í orðum persóna og gerðum. Sagt er frá hugsunum flestra persóna. Utliti er hér jafnan lýst beint, stundum að einhverju leyti óbeint (kaupmannsfrúnni gegnum hugsanir manns hennar í Dauðinn á 3. hæð, bls. 22). Það er aftur í samræmi við raunsæishefð í persónulýsingum að skapgerðarlýsingar eru stundum óbeinar, t.d. er lesendum ekki sagt að Geirmundur í Rétti sé stoltur öreigi. Það þemur fram í því, að gagnvart frekjulegri málaleitan kaupmanns ,,dregur hann augað í pung og svarar með útúrsnúningum og glensi. Í Hinn mikli segull er aldrei lýst skapgerð persóna, hún birtist jafnan í samtölum þeirra eða hugsunum. Svo er og yfirleitt í Dauðinn á 3. hæð, og málfar er þá sérkennilegt fyrir hverja persónu, einnig í því sem rakið er af hugsunum þeirra. Þetta á við um kyndarann, kaupmann og konu hans, stúd. júr., verksmiðjueiganda og verkamann. Hinsvegar er þetta ekki alltaf sannfærandi, svo sem þegar atvinnuleysinginn notar á stéttbróður sinn ávarpið ,,verkamaður”, eða málarinn endar ræðu sína með ankannalegri spurningu ,,Segi ég satt?”. Þetta líkist ekki íslensku málfari, frekar eins og óbein þýðing á þýskum setningalokum: ”nicht wahr?”
Lýsing t.d. kaupmannsins í Réttur ræðst augljóslega af hlutverki hans:

Hann var maður stórvaxinn og útlimaþungur. Andlitið var eins og það hefði aldrei verið fullgert, heldur bar keim af óskapnaði hins upprunalega. Augun lágu utarlega og gerðu svipinn framhleypinn. (bls. 136)

Öll framganga hans er svo samkvæmt þessu, stjórnlaus framkvæmdasemi, og frekja gagnvart öreiganum Geirmundi, sem var lítiIl og væskilslegur, boginn og kræklóttur af saltburði og kolaburði, svo það gat verið óárennilegt, ef kaupmaður legðist ofan á hann. Hann mundi merja hann eins auðveldlega og Geirmundur lús með nöglinni. (bls. 141). Útlit aðalpersónunnar í Dauðinn á 3. hæð mótast einnig af hlutverki hans: ,,maður, álútur og slyttulegur í spori [...] lágvaxinn með kúptar herðar, sem lýsa sliti en ekki þjálfun” (bls. 8). Síðan er ”veikbyggðum hálsi” hans lýst sérstaklega, en það er forboði þess að hann hengi sig. Verksmiðjueigandinn í sömu sögu hefur einkum áhyggjur af dauðveikri konu sinni. En útlitslýsing hans mótast alveg af hlutverki hans sem kapítalista, arðræningja: hávaxinn maður með hõrkulegan svip og langa fingur (fingralangur!). Útlit hans var enn óbreytt, nema hvað hrafnsvart hár hans var orðið hæruskotið í vöngunum (bls. 39). Svipað er með verðandi lögfræðing, hann er sýndur sem þjónn yfirstéttarinnar, og útlitið minnir í senn á ránfugl og hákarl:

lítill maður, ljóshærður með rjóðar kinnar, {. . .] ákaflega grannur og lotinn herðum, náeygður, með oddhvasst nef, sem rís upp að framan og gerir andlitssvipinn keskinn. Framstandandi munnurinn, þéttsettur örsmáum tönnum, lýsir grimmdarlegu hugarfari. (bls. 31)
Faglærður verkamaður, málari sem stendur ekki með sinni stétt, heldur á sérhagsmunum innan hennar, fær táknræna— og útskýrða— útlitslýsingu:

Aldrei of marga menn í eina iðngrein, þá helst atvinnan og kaupið lækkar ekki ... í hinu breiða andliti með langa, flata nefinu, sem byrjar uppi undir hársrótum og nær niður að munni, án nokkurs liðs eða hnúts, mátti lesa, að engin rök ynnu á sauðþráa hans. (bls. 33)

Þessar lýsingar eru a. n. l. ,,fúnksjónalar, takmarkast að mestu við hlutverk persónanna í sögunni. Algengt var auðvitað að útlit sögupersóna lýsti innra manni, m.a. hjá Gesti Pálssyni og Þorgils gjallanda (sjá Þórð Helgason, bls. 47—8). Auk þess eru stundum drættir sem virðast einungis vera persónuleg sérkenni, ætluð til að gæða persónurnar lífi, svo sem að framtennurnar vantar í málarann, og að lagastúdentinn er ljóshærður með rjóðar kinnar. Nú má vera að þetta eigi að gera málarann fráhrindandi, en lagastúdentinn barnalegan. Annars voru hlutlausar, sérkennandi lýsingar auðvitað algengar, og venjulega meiri en hér. En stundum virðast drættir vera umfram þetta. Það er bæði í framangreindum tilvitnunum og einnig í sérkennilegri lýsingu húsvarðarins í Dauðinn á 3. hæð:

gamall maður á fleti sínu, rauðeygður með strjálar tennur, gular af tóbaksbrúkun. Úlfgrár hárlubbinn vex í þykkum þófa niður undir augu. Fætur hans eru svo stórir og ktofið stutt, að líkast er sem hann gangi á kálfunum.
(bls. 12)
Hann strunzaði um gólfið á sínum ægilegu fótum sem virtust skapaðir til að troða allt niður í skítinn. (bls. 16)

Þessi lýsing karlsins kann að mótast af því hlutverki hans að segja atvinnuleysingjanum að fyrirfara sér, og það skýrir fyrrnefnda viðlíkingu í lýsingu hans:

Dreptu þig þá, hengdu þig, grenjaði karlinn og stökk fram á gólfið, glóandi af bræði. Langur, afkáralegur skuggi hans seildist eins og ljótur sjúkdómur upp eftir manninum, sem sat á rúmfletinu. (bls. 17)

Þó er lýsingin áberandi myndræn og sérkennileg umfram nauðþurftir. Eins er með fulla sjómanninn:
Búkur hans reis eins og risavaxinn trjábolur, upp úr stólnum, og endaði í stóru, hvítu andliti, sem var afskræmt af öri eftir illa saumað sár, sem náði frá gagnauga niður á kjálkabarð. Augun gljáðu eins og ípostulínshundi og störðu langt út í heim svaðilfara í fjarlægum hafnarbæjum. A borðinu fyrir framan hann stóð brennivínsflaska; um hana hélt hann annari hendinni, sem líktist blástimpluðu sauðarkrofi (bls. 33)

E.t.v. á annarleg lýsing hans meðfram að sýna að hann er fjarverandi í anda frá mannlegu samfélagi. Mest munar þó um afkáralega — og nýtíska— mynd feita kaupmannsins í sömu sögu:

enda var kaupmaðurinn ekki kulvís, því spik hans mundi hafa nægt til að gera sex horaða menn sæmilega feita, ef það hefði verið þjóðnýtt. Þar sem hann sat, var hann áþekkastur gúmmíkarlinum á auglýsingum um Michelinbílagúmmí, allur með þykkum fellingum hringinn í kring, allt frá nöktum, gijáandi kollinum niður á tær. Maður gat hugsað sér, að ef stungið væri prjóni í þetta ferlíki, mundi fara úr því vindur og það síga saman, uns það lægi eins og hringur á gólfinu (bls. 20).

Með svona ágengum lýsingum skapast á ýmsan hátt það sem kaJlað var kuldi eða kaldhæðni12, einnig getur þessi fjarlægð frá viðfangsefninu orkað sem mjög hlutlæg frásögn af dæmigerðum fyrirbærum, líkt og upphaf sögunnar Réttar — enda þótt hér sé í rauninni látin í ljós mikil andúð á umræddum manni, og ýjað a því að vel mætti hugsa sér þjóðnýtingu á honum. En mesta athygli vekur að þetta eru myndrænar lýsingar og sérkennilegar vegna langsóttra viðlíkinga, eins og í umhverfislýsingunum. Sama nýsköpun kemur einnig hér fram, í sérkennilegri mynd persóna, í stað skapgerðarlýsinga og persónusköpunar.

Ekki er nóg með að allar persónur þessarar sögu séu einlyndar, heldur eru flestar þeirra skrípamyndir. Undantekningar eru atvinnuleysinginn og kona hans, það lítið sem til hennar sést, vinnukona og verkamaður, og svo verksmiðjueigandinn. Þetta eru fulltrúar verkalýðsstéttar og höfuðandstæðings hennar, en miðstéttarfólkið er allt skoplegt á sama hátt, það reynir að sýnast fínna en það er. Þannig er grínið um alræmdan áhuga borgaralegs kvenfólks á dulrænum efnum, og að yngsta stúlkan, kaupmannsdóttir, þykist umfram allt vera veraldarvön. Undantekning frá þessu stéttarmynstri virðist vera afkáraleg lýsing kyndarans, sem birt var hér að framan. Mætti hugsa sér að af honum sé dregin skrípamynd vegna þess að hann er ekki stéttvís, heldur ofurseldur áfengi og snýst gegn atvinnuleysingjanum. Einnig kemur bókmenntahefð til álita, að gamall kall viðloðandi hús sé oft skrípamynd. En líklegasta skýringin sýnist mér vera að þessi annarlega og afskræmislega mynd kyndarans sé óhugnanlegur fyrirboði. Hann er fyrsti maðurinn sem atvinnuleysinginn hittir á leið sinni í gegnum húsið til dauðans.

Sögumaður og sjónarhorn
Við sjáum að frásögn sagnanna mótast mjög af ákveðnu sjónarmiði, en sögurnar eru ekki sagðar af einni persónu sögunnar meðal annarra, heldur í þriðju persónu frásögn. En hér verður talað um sögumann, hvort sem sagt er frá í 1. persónu eða 3. persónu. Það er að fyrirmynd m. a. Wayne C. Booth og franska fræðimannsins Gérard Genette. Njörður Njarðvík fylgir gamalli hefð í þvf að kalla sögumann 3. persónu sögu söguhöfund í útbreiddri kennslubók13, en það sýnir sig hér á eftir að við verðum að greina á milli sögumanns og söguhöfundar. Þó leggur Njörður réttilega áherslu á að sitt er hvað, söguhöfundur og persónan sem samdi söguna, í þessu tilviki maðurinn Halldór Stefánsson. Orðið söguhöfundur merkir þá samtengjandi sköpunarvilja sem mótar söguna.

Þegar á líður söguna Dauðinn á 3. hæð verður lítið sem ekkert um fyrrgreindar langsóttar viðlíkingar, en þeim mun meira um að beinlínis komi fram mat sögumanns eins og í huglægum umhverfislýsingum í upphafi, svo sem rakið var. Þetta mat er einkum í undantekningum frá óbeinum skapferlislýsingum, svo sem þegar lýst er atvinnuleysingjanum í sögumiðju og svo kaupmanni og blaðamanni, sem báðum er lýst af miklum fjandskap. Ekki nóg með að einkum sé sagt frá því látæði þeirra sem þykja má lítilmótlegt (svo sem að blaðamaðurinn skuli éta súkkulaði í laumi og lesa af aðdáun eigin óbirt rit), heldur talar sögumaður beinlfnis niðrandi um þessar tvær persónur: ,,Blaðamaðurinn [. . .] átti enga heitari ósk en að fá að vera einn með draumóra sína og leikaraskap. [...]Hæðilegt bros lék um táplítinn munninn (bls. 42). ,,Mennirnir sátu enn nokkra stund og skiptust á innantómum orðum um lífið og dauðann (bls. 47). Um kaupmanninn segir: ,,Með þrautseigju hins sljóvitra manns [. . .] hefnd [. . .] fyrir fákunnáttu sína og heimsku [. . .] prentar fitukleppurinn í stólnum (bls. 20-21). Þessi skoðun á honum staðfestist svo rétt á eftir af því, að kona hans er látin bera hana fram í rifrildi. Af sama tagi eru andstæðar klisjur um kommúnistann:,,Sterklegar hendur hans eru greyptar saman á brjóstinu, sem liggur fram á borðröndina. Í veðurbörðu andliti hans lýsir sér órækur vilji til að brjóta til mergjar þá hugsun, sem liggur bak við hin smáu tákn í bókinni” (bls. 49).

Einhversstaðar hefi ég rekist á á túlkun að mynd þessa kommúnista sé neikvæð, með því að sagan sýni hann niðursokkinn í bækur sem sundurgreini auðvaldsþjóðfélagið, en ófæran um að hjálpa fórnarlambi þess. En til að fallist yrði á þann skilning, þyrfti sagan að sýna einhverja vanrækslu hans gagnvart atvinnuleysingjanum. Eðlilegra virðist mér að sjá mynd þessa kommúnista sem jákvæðan valkost, þann síðasta sem atvinnuleysinginn rekst á. Ur því að hann gengst ekki inn á sjónarmið kommúnistans, bíði hans ekkert nema tortíming14.

Ekki er auðséð hví sögumaður er svo neikvæður í garð kaupmanns og blaðamanns. Ekkert í gangi sögunnar krefst þess, og naumast heldur pólitísk hneigð hennar. Vissulega er kaupmaðurinn af eignastétt, en sjálfur kapítalistinn, verksmiðjueigandinn, fær miklu mannlegra yfirbragð og skapgerðarlýsingu. Stúd. júr. er að sönnu gerður fráhrindandi í útlitslýsingu og talar háðslega um hinar vinnandi stéttir, málflutningur hans í þágu yfirstéttarinnar er gerður tortryggilegur með því að hann er drukkinn, og hann er gerður spaugilegur með því að vera skrækróma en rembast við að vera dimmraddaður. Ekki dynja þó á honum skammir sögumanns. Og hvað hefur blaðamaður til saka unnið? Það helst að lifa í draumum um eigið ágæti, sem aðrir vilja ekki fallast á, virðulegt fas hans er svo í stíl við draumóra hans. Það hvarflar að manni að þetta sé lykilsaga, þegar andúðin er án sjáanlegs tilefnis. En vissulega má sjá þennan frásagnarhátt sem tilbrigði við skrípamyndirnar, og tilbreytingu þarf í þessa löngu sögu, sem er fyrst og fremst ganga atvinnuleysingjans milli fulltrúa helstu þjóðfélagshópa, enginn getur gert — eða vill gera — neitt fyrir hann, svo hann endar í snörunni. Þetta er ennfremur í samræmi við það hve huglægur stíllinn einatt er, og sögumaður ber oftar fram beinlínis skoðanir sínar á málefnum og mönnum, t. d. í frásögn af hugsunum vinnukonu (bls. 28—9), á orðalagi sem er ekki þesslegt að hún noti það sjálf, ómenntuð alkýðustúlka uppúr 1930 (m. a. bls. 28.,,Karldýrið hafði yfirgefið hana og hún sat eftir með þungann og ábyrgðina gagnvart þjóðfélaginu"). Þetta þróast út í fyrirlestur um kynlíf ógiftra þvenna og hvernig sjáist af þeim málum að þjóðfélagið sé innréttað fyrir eignafólk. Líkt talar sögumaður um atvinnuleysingjann:

Og þó hafði hann alla sína slitsömu æfi orðið að skríða í auðmýkt fyrir óþokkum sem yfir hann voru settir og níddust á honum; jafnvel af félögum sínum hafði hann verið hæddur og hundbeittur (bls. 19).

Það er áberandi breytilegt í þessum smásögum Halldórs hversu vítt sjónarsviðið er. Alsiða var að byrja sögur á yfirlitsmynd, t.d. heils héraðs og þrengja síöan sjónarhornið til að víkja að einstökum persónum. Aftur víkkaði svo sviðið í sögulok, og gjarnan inn á milli, til að sýna veðurfar í sveitinni, héraðsbúa á samkomu o. s. frv.15. En í sögum Halldórs kemur þetta á annan hátt, það eru svokallaðar ,,kuldalegar yfirlitsmyndir”, eins og upphaf sögunnar Réttur, eða þá rammagreinar16 í Liðsauki (1931) og Réttvísin gegn(1935), sem lýsa atvinnulausum öreigum, sú fyrri í Berlín, hin í Reykjavík. Rammagreinarnar fjalla um atvinnuleysi og hagkerfi auðvaldsins almennt, sýna þau öfl sem ráða gangi mála, en síðan rekur sagan hvernig þau koma við tiltekna einstaklinga. Það er með venjulegum raunsæissvip, en rammagreinarnar einkennast hinsvegar af kaldranalegu orðalagi sögumanns og fjarlægð frá efninu á yfirborðinu. Orðalagið sýnir þó greinilega afstöðu, svo sem
þegar segir að á kvöldin fari auðherrarnir, ,,konur þeirra og börn í leikhúsin og á skemmtistaðina og eyða sem svarar nokkrum tonnum af hjágatnagrjóti og drekka niðursoðið sólskin fyrir nokkra lítra af blóði klettabúanna (Dauðinn á 3. hæð, bls. 61). Hér er sérkennileg líking (fyrir vín), og oröalagið er ágengt. Annars minnir frásagnarháttur þessara klausna mest á blaða- eða tímaritsgrein um þjóðfélagsmál, og Halldóri tekst vel að skipta á milli þessara tveggja hátta í sögu, svo að ýmist sjást persónurnar í nærmynd, eða það net ópersónulegra afla, sem þær berjast árangurslaust í. En sameiginlegt öllu þessu er breytilegur frásagnarháttur sögumanns, það er eins og hann skipti um gír.
Að lokum þessarar upptalningar er að víkja að setningaskipan. Hún er ekki sérkennileg í þessum sögum Halldórs, nema hvað styttar, ófullkomnar setningar eru áberandi í þremur síðustu sögum bókarinnar I fáum dráttum. Í smásögunni Dulmögn segir frá einangruðu sveitaheimili þar sem ríkir ,,eldsúr þögn, leiði, tortryggni og bældar hvatir. Lýsing þessa er í hefðbundnum stíl, nema lýsing hugarástandsins fer út í runu setningaslitra. En einkum gerist sú stílbreyting þegar dregur til tíðinda á táknrænan hátt, hömlurnar bresta og stíllinn umturnast með, þegar aðalpersónan ummyndast úr íslenskum sveitamanni í ,,frummann”:

Aftur lítur maðurinn upp. Stendur hálfboginn. Mælir fjarlægðina með augunum. Athugar að klöppin er hál. Þarna er urð, sem hægt er að fóta sig í. Hann dregur sig í hnút, heldur á hnífnum í hægri hendinni. Stekkur. — Selurinn hrekkur upp. Hvæsir. Snýst undan að sjónum, reisir sig upp og kastar sér áfram. Hnífurinn blikar. Blóðbuna. Selurinn rekur upp dimmt öskur, reynir að bíta. Maðurinn leggst ofan á hann, þrengir fingrunum inn í augun á honum. Stingur aftur með hnífnum. — Dauðateygjur (bls. 125—6).

Stíl af þessu tagi má sannarlega kenna við eimlestarhraða, svo sem Einar Olgeirsson gerði (í tv. grein, bls. 102). Hann miðlar vel hugaræsingu eSa annarlegu ástandi, og getur því gefið dramatískan þrótt þar sem við á í sögu. I annarri smásögu þessarar bókar, Hreinarnir, er hann mest áberandi í sviðsetningu fyrst, þegar aðalpersónan ákveður að yfirgefa aldraðan mann sinn og barn vegna ástar á öðrum manni. Þar eru annarlegar viðlíkingar, svo sem áður var rakið, og hljóðlíkingar: ,,Heima við prestshúsið hengir gömul kona upp mislitan þvott, það lekur úr honum ofan á steinana með aulalegu hljóði — kliss — kliss (bls. 134, sjá einnig 147). Þessi styttingastíll kemur svo aftur í hugarstríði aðalpersónu í sögulok (bls. 138—9), þegar hún sér mann sinn og barn aftur, eftir að ástarævintýrið misheppnaðist. Þannig miðlar stíllinn tilfinningum konunnar, hugaræsingi og því, hvernig kunnuglegt umhverfi verður henni framandlegt þegar hún hverfur frá því.
Þótt Halldór tæki þennan setningabrotastíl ekki upp fyrr en eftir að hann fór til Berlínar, þá er mjög líklegt að hann hafi þekkt hann fyrir á íslensku, því þetta er eitt megineinkenni stíls Þorgils gjallanda, svo sem Þórður Helgason hefur rakið (bls. 54 o. áfr.). Þetta vakti mikla athygli á Íslandi í byrjun 20. aldar, en var alþekkt á Norðurlöndum sem eitt einkenni impressjónisma. Athyglisvert er að lítið ber á þessu stíleinkenni hjá Halldóri eftir fyrstu bókina.
Hér sáum við fernskonar frávik frá ríkjandi frásagnarhefð. Í fyrsta lagi einkennast sviðsetningar stundum af mikilli fjarlægð frá sögupersónum, talað er um örlög þeirra innan ramma hagfræði og stjórnmála. Það eitt er nýtt, en af sama tagi er sérkennilegt líkingamál. I öðru lagi eru lýsingar stundum óvenju myndrænar. I þriðja lagi tekur sögumaður ( 3. persónu) stundum beinlínis afstöðu til sögupersóna og atburða, og loks er stíllinn stundum sundurleitur, í fáeinum sögum frá 1930 færist hann jafnvel yfir í setningaslitur til að tjá tilfinningastríð. Nú skal hugað að því hvernig þessi atriði sýna sig í tveimur sögum.

Bygging tveggja sagna
Bókinni I fáum dráttum (1930) lýkur á sögunni Nýmálað. Þar ber nokkuð á sundurleitum stíl, t. d. í dæmisögu í upphafi, en þar talar Eva í fornsagnastíl, líkt og Karli í Landnámu, en Adam svarar á hversdagslegu talmáli. Þetta má láta lesendum hnykkja við og fá þá til að skoða syndafallssöguna í nýju ljósi, enda er bann drottins þar skoplega sett fram sem skilti með áletruninni ,,Nýmálað”. Og til þess verður stílmunurinn, að lesendur taki afstöðu með Evu, en þyki Adam heybrók. Árna Hallgrímssyni (tv. ritdómur) fannst þessi saga stefnulaus eins og fleiri sagnanna, lengi vel haldi lesendur að þetta sé ádeilusaga um stéttaátök. ,,En svo slær alt í einu út í fyrir honum og sagan rennur út í sand óráðsdrauma — um engla himnaríkis og sankti Pétur — og staðlausra vökuóra um æskuhreysti og ,,sportsbræðralag”. Einari Olgeirssyni (tv. rit, bls. 104— 5) finnst sagan mjög gölluð af svipuðum ástæðum, Reykjavíkurlýsing hefði átt að koma í stað tals um Adam og Evu. Mér sýnist þessi gagnrýni stafa af misskilningi á því, að verkið er óvenjulegt, ósamstætt á yfirborðinu, en í rauninni er samhengi undir niðri. Eftir dæmisöguna af Adam og Evu í upphafi kemur hugleiðing um framsetningu boða og banna. Þá segir 2. k. frá ungum manni sem kemur til Reykjavíkur, talað er um hana og fjöllin í kring í persónugervingum. Andstæðurík lýsing hennar, tískuklæddrar en ,,með göt á sokkunum er í andstöðu við Alþingishátíðarrómantík ársins. Hér verða skyndileg umskipti í stíl, eftir hugleiðingu um íhaldssemi kemur allt í einu: ,,Brr, - brr, rymja bílahornin. Togararnir orga. Togaraverkfall er rætt hjá köllunum um borð og í veislu hjá fína fólkinu, rætt af mismunandi viðhorfum og orðalagi (hversdagslegt orðalag hjá fína fólkinu, en að verulegu leyti upphafið hjá togaraköllunum). Svo kemur sögumaður einnig beint fram með skoðanir sínar, svo sem að togarasjómenn fari nauðbeygðir í verkfall vegna lélegra kjara. Það er á hátíðaræðustíl, líkt og greinastíll fyrrnefndra rammaklausna í t. d. Liðsauki. Sjálf lýsingin á átökum verkfallsmanna og lögreglu tekur 3—4 síður af 20. Hún er í hröðum frásagnarstíl, þar sem mest ber á stuttum aðalsetningum. Auk upphafsins eru í sögunni tvær aðrar árásir á kirkjuna, prédikun er skopstæld í óbeinni ræðu, og söguhetju dreymir að hann sé kominn til himnaríkis, en það reynist þá stjórnast af hagsmunum atvinnurekenda. Sögunni lýkur með því að eðlileg hegðun æskufólks, samstaða, er sett fram andspænis ógnunum lögreglunnar. Markmiðið sem tengir öll þessi sundurleitu atriði er ekki bara að sýna stéttaátök i verkfalli, heldur stéttarhagsmuni hvarvetna í þjóðfélaginu, þar á meðal hvernig ríkjandi viðhorf, m. a. í trúmálum, verji hagsmuni ríkjandi stéttar. Með því að taka fyrir svo margvísleg svið í lífi fólks, öll mikilvæg, koma á óvart með stílnum og sýna á annan hátt andstæður á yfirborðinu, sem síðan tengjast í heild, skapar sagan sláandi heildarmynd af lífsskilyrðum venjulegs alþýðumanns.

Líklega er smásagan Hinn mikli segull samin vorið 1934 samkvæmt samþykkt í Félagi byltingarsinnaðra rithöfunda, um að félagsmenn skyldu æfa sig í að skrifa ,,lögreglusögur”. Mér sýnist það tengjast pólitísku deilumáli líðandi stundar, tillögu um ríkislögreglu. Ýmsir skrifuðu slíkar sögur, en aðeins saga Halldórs Stefánssonar lifði af, sagði Kristinn E. Andrésson 1971. Þetta er saga um hlutverk lögreglunnar gagnvart stéttaátökum, og er ekki ólíklegt að átök atvinnuleysingja og lögreglu við Góðtemplarahúsið sumarið 1932 hafi orðið henni nokkur efniviður.
Í upphafi sögunnar ríkir svipuð fjarlægð gagnvart viðfangsefninu og í sögunni Réttur. Sagan hefst með annarlegri líkingu sem setur mannlegt atferli fram — ekki sem sjálfráðar athafnir, heldur sem ósjálfráð viðbrögð, eins og á sviði eðlisfræði. Höfuðborgin er segull, fólk úr sveitum og þorpum dregst að henni eins og járnsvarf. Þriðji liður þessarar líkingar er aðdráttarafl segulsins, en það er mannfjöldi borgarinnar og húsaþyrpingar. Til samanburðar eru sveitabæir, en um þá er höfð kunnuglegri viðlíking, ,,eins og staksteinar á víðavangi18.

Eftir þennan inngang er lesendum sýnd aðalpersóna sögunnar, og þar gildir enn fjarlægðin, allt beinist að því að sýna ekki persónuleg sérkenni, heldur tegundareintak: ,,stóran ósvikinn sveitamann með silalegt fas og trúgjörn augu. Þetta er mjög mikilvægt í sögunni, því þessi persóna á umfram allt að vera dæmigerður alþýðumaður, sem öðlast nú sín fyrstu kynni af stéttabaráttunni.
Síðan koma aftur líkingar um útlit borgarinnar, sem miðast við reynslu sveitamannsins sem sér hana fyrsta sinni. Samt býst ég við að þær hafi þá verið framandlegri en nú: götugjá með fólksstraumi; enn er sérkennilegt að tala um útlínur borgarinnar sem ,,skarpa [drætti] og tindótta eins og hraunflóð”. Huglægari viðbót er, að ekkert geti breytt þeim ,,nema ný bylting eldsins, og það orð sem ég nú skáletra, vekur hugrenningatengsl sem eru forboði í sögunni.
Stíllinn breytist, verður upptalning hliðstæðna og dregur þannig fram þáttaskilin þegar sveitamaðurinn rennur inn í mannlíf höfuðborgarinnar í Hinn mikli segull, þá kemur runa sjö stuttra aðalsetninga, fullyrðinga:

Nú er bíllinn kominn til borgarinnar, hann steypist inn í götugjána, steinveggjalengjurnar lykjast um farþegann, fólksstraumurinn umkringir hann, hann lítur um öxl, leiðin til baka er Iokuð, hann er á valdi höfuðborgarinnar (bls. 75).

Hingað til hefur ríkt fjarlæg yfirsýn efnisins, sem minnir á náttúruvísindi. En nú fer söguhetjan að leita sér að vinnu, og í því ljósi birtist önnur yfirlitsmynd borgarinnar. Hún er neikvæð, og þá er neitað því sem hefði mátt vænta af þeim tveimur atriðum sem eru aðdráttarafl borgarinnar. Þótt húsunum sé skipulega raðað, er það ekki til að hver sem er geti sest þar að, mannfjöldinn er ekki til að hver styrki annan, heldur er borgin vígvöllur. Andstæðan við sveitina birtist í því, að borgin er ekki mjúkur hvíldarbeður, heldur er talað um steinlögð stræti (sem ætti raunar betur við um borgir meginlandsins en Reykjavík upp úr 1930). Hitt er þó athyglisverðara, að borgin er persónugerð, til að sýna að hún stjórnist af ákveðinni stefnu: ,,Skapgerð hennar er miskunnarlaus [...hún] táknar hraða sinn með rafmagnssveiflunum [. . .] sem varpa út orði hennar o.s.frv. Hér eru og dregin fram nútímaleg einkenni hennar: útvarp, rafmagn, gufuskip. Og niðurstaðan af þessu verður: ,,Höfuðborgin er þeim einum góð sem [...] troða aðra undir, þeim þjónar aðdráttarafl hennar, húsin og mannfjöldinn.
Hér kemur fram ákveðin hneigð, sósíalísk túlkun þjóðfélagsins. En það er enn innan ramma yfirlitsmyndar úr fjarlægð, sem má þá áfram þykja hlutlæg. Hinsvegar fer nú sögumaður (í 3. persónu) smám saman að segja sína skoðun. Hann dregur fyrst og fremst fram ranglæti stéttaþjóðfélagsins, svo sem að árrisul erfiðiskona hljóti aðeins ólífvænleg laun og óboðleg húsakynni, ólíkt hóglífum málafærslumanni sem hún þjónar. Þetta kemur sveitamaðurinn ekki auga á, segir sögumaður, og skýrir með þeirri almennu athugasemd, að óhamingja sjáist lítið á götum úti. Orðalag sögunnar lætur ekki í ljós afstöðu til þessa.

Auk svona upplýsinga birtist nú sósíalísk hneigð sögunnar einnig óbeint, m. a. í því, að sveitamaðurinn er látinn hugsa um borgina og þá koma nokkrar spurningar um grundvallaratriði, sem róttækum sósíalistum fannst að öreigar ættu að velta fyrir sér, m. a.:
,,Hvers vegna var svona erfitt að fá venjulega vinnu í höfuðborginni? Hví gat höfuðborgin frekar borgað mönnum fyrir að gera ekki neitt, annað en að ganga borðalagðir um göturnar, en þeim sem unnu á eyrinni? ,,Til hvers voru allir þessir lögregluþjónar ef þeir áttu ekki að koma í veg fyrir þessi og önnur lagabrot", svo sem leynivínsölu konunnar sem sveitamaðurinn býr hjá?
Slíkum spurningum svarar konan og er ekki rakið hvernig hún réttlætir þjóðskipulagið, en hinsvegar er í beinni ræðu áróður hennar gegn bolsunum, sem bera fram slíkar spurningar. Hann er þá að hluta augljóslega rangur, svo sem að þeir hafi valdið því að dóttir hennar var handtekin fyrir þjófnað. Það atriði verður þá til að lesendur taka með fyrirvara öðrum fullyrðingum hennar, svo sem að bolsarnir valdi atvinnuleysinu með því að koma af stað verkföllum. En sú fullyrðing var almennur málflutningur margra andkommúnista. Loks segir konan að varalögreglan sé til þess að berja niður bolsa og verkföll. Pað skiptir meginmáli fyrir hneigð sögunnar, að þessi hreinskilna íhaldsafstaða er sett fram af glæpamanni.

En nú breytist orðalag sögumanns, og fer að sýna afstöðu til efnisins, og í orði kveðnu þá, að fylgja þessu sjónarmiði konunnar:

Um þetta leyti voru kommúnistar að koma af stað ófriði [. . .] og það út af ekki merkilegri ástæðu en að þeim fannst strákarnir sem voru að læra járnsmíði, og ennþá kunnu lítið annað en gera sig sótuga í framan, beittir einhverjum misrétti viðvíkjandi námstíma og Iaunakjörum. Og þó var það hvergi nærri áreiðanlegt, eftir þeim atkvæðagreiðslum sem fram höfðu farið á fundum í járnsmiðafélaginu, að strákunum þætti sjálfum þeir órétti beittir, hvað þá járnsmiðum fyndist það, og síst eigendum verkstæðanna. Þessi greiðvikni kommúnista var því með öllu óskiljanleg, og þótti sjálfsagt að reyna að koma vitinu fyrir þá með lögreglu, því fátt er eins sannfærandi og gylltir hnappar og kylfuhögg (bls. 81—2).

Ætla mætti að sögumaður tæki undir sjónarmið konunnar til að vera í talfæri við lesendur sem þannig hugsa — þótt seint sé í sögunni. En þetta er stutt klausa, og í lok hennar fer þetta út í háð og ýkjur sem gera sjónarmiðið hlægilegt. Og í framhaldi hefur sögumaður aðra afstöðu (bls. 82—5). Þegar sveitamaðurinn nú gengur fyrir lögregluforingjann til að fá vinnu í varalögreglunni, beinist lýsing hins síðarnefnda að því að sýna að hann líti á sveitamanninn eins og skepnu, sem hann langi til að nota (,,hann horfði stundarkom á þennan risavaxna ungling eins og maður sem girnist reiðhest náunga síns). Auk þess er lögð áhersla á það í lýsingu hans að maðurinn falli illa inn í gerfi lögregluforingjans, það hlutverk verður þá þeim mun óeðlilegra. I framhaldi er hæðst að viðbúnaði lögreglunnar. Annarsvegar er það með ýkjum ,,Það líður sjaldan langt á milli vígbúnaðar og styrjaldar”, hinsvegar með því að sýna þennan viðbúnað sem leik: ,,Hann var dubbaður upp í svarta kápu og sett skyggnishúfa með stórri stjörnu á höfuð hans, en sívölum tréstaur stungið upp í hægri ermima. Petta var allt mjög æfintýralegt, og Karl var í besta skapi”. Háðið heldur áfram eftir fundinn, andstæðingar kommúnista hleypa honum upp svo lögreglan geti sýnt ,,hvernig farið væri að því að halda uppi lögum og reglu [. ..] og féll það í hlut Karls að berja einn gamlan mann í höfuðið. Þetta háð er rammi um ræðu kommúnista á fundinum, en í henni eru verkamenn hvattir til að berjast gegn kauplækkunum, og varalögreglumenn til að standa með verkalýðnum gegn auðvaldi og ríkisvaldinu. Í ræðunni ríkir allt annar stíll en endranær í sögunni, stuttar málsgreinar fullyrðinga, svo sem tíðkast í ræðum, en einnig flóknar, ritmálskenndar málsgreinar rökræðna. ”Hinir ráðandi menn þessa bæjarfélags, þessarar þjóðar, neyta allra bragða til að velta byrðum kreppunnar, sem auðvaldið sjálft hefur skapað, yfir á herðar hinnar vinnandi stéttar”. Söguhetjan verður síðan andvaka út af áflogunum og ræðunni, fellst á sjónarmið hennar, og fer að líta á glæpi húsráðanda og dóttur hennar sem afieiðingu af eymd, sem stafi af þjóðfélagsskipulaginu sem hann á að verja.
Þá skiptir sögumaður aftur um afstöðu, og virðist nú íhaldssamur að nýju, e. t. v. til mótvægis við sinnaskipti söguhetjunnar; ”Sem betur fer sofnaði hann út frá þessu áður en þessar hugsanir voru búnar að gera hann að algerðum bolsa”.
En aftur er þessi afstaða skjótt yfirdrifin í háð:

Nokkrir háttsettir járnsmiðir og skipavélstjórar höfðu gerst svo lítiIþægir að ætla að vinna fyrir strákana sem voru í verkfalli. [.. .] En slíkar ræður eru brot á friði og reglu, svo tveir lögregluþjónar ráku hann [kommúnistannj ofan af kassanum og börðu hann niður í götuna, spörkuðu þar í hann og héldu áfram að berja hann þar sem hann lá. (bls. ð6)

Slíkur níðingsháttur hlýtur að ofbjóða flestum Iesendum og hann ofbýður söguhetjunni, sem snýst kommúnistanum til varnar. Söguhetan er þá ofurliði borin og tugthúsuð, og á tæpri síðu í sögulok kemur enn fram mismunandi afstaða sögunnar, hver af annarri. Fyrst virðist hæðst að sinnaskiptum söguhetjunnar til stéttarsamstöðu: hann ,,hrópaði sundurlaus orð um verkalýðsbaráttu og stéttarsvik. Síðan er hæðst að Iögregluforingjanum, hann ,,glotti eins mikið og honum var óhætt til þess að valdsmannssvipurinn biði ekki tjón af því. Þá svarar Karl honum í ræðustíl, n. k. ritmáli:

Ég mun aldrei finna hjá mér köllun til að berja stéttarbræður mína til óbóta fyrir það eitt að þeir reyna með samtökum að knýja fram rétt sinn, svaraði Karl eins og fullkominn bolsi.
Fljótt á litið má þykja óraunsæi að láta þennan einfalda alþýðumann tala ritmál í sögulok. Og víst getur það orkað spaugilega, en betur að gáð er eðlilegt að hann taki þessa nýju afstöðu á því tungutaki sem hann lærði hana á, af ræðu kommúnistans.

Loks lýkur sögunni á yfirlitsmynd, hinni sömu og í upphafi, sama líking kemur aftur, en nú er hún höfð um annað, og þetta er á hátíðlegu máli, sem leggur áherslu á boðskap sögunnar:
En nú hafði hinn mikli segull, verkalýðsbaráttan, kippt Karli upp með rótum úr varalögreglunni og dregið hann til sín eins og járnsvarf. Og hún sleppir honum aldrei aftur. (bls. 87)

Þessi athugun á stíl sögunnar og afstöðu sögumanns hefur tekið nokkurt rúm, en ég vona að af henni megi þá draga ályktanir sem hafi víðtækara gildi en að lýsa einni smásögu.
Fljótt á litið gæti virst sem sagan væri bara sykurhúð utan um pilluna sem þarf að koma í sjúklinginn; m. ö. o. að sagan sé til að skemmta lesendum svo að þeir fáist til að lesa ræðu kommúnistans, sem sé aðalatriðið, þótt hún taki ekki yfir nema tíunda hluta textans. Slík túlkun sósíalrealískra sagna hefur oft og víða sést, og vissulega eru til slíkar ,,sögur, en hitt má augljóst vera, að það á ekki við um þessa sögu. Aðalatriði hennar er að sýna viðbrögð persóna við stéttaátökum sem koma fram í ræðu og viðburðum. I Hinn mikli segull koma fram megineinkenni sósíalrealismans, þótt í stuttu máli sé. Saklaus alþýðumaður kynnist stéttaátökum nútímans, lendir beinlínis í þeim sjálfur. Fyrst fá andstæðingar verkalýðsbaráttunnar tækifæri til að flytja honum sín sjónarmið, en þegar hann kynnist málflutningi kommúnista og baráttu, tekur hann þátt í henni, þótt það kosti hann ofsóknir. Þannig eru sinnaskipti söguhetju til fyrirmyndar lesendum úr alþýðustétt.
Slíkur tilgangur leiddi menn oftast til að skrifa hefðbundna sögu í raunsæisstíl, þar sem að vísu er mikil breidd í því hversu mikinn hlutlægnissvip sagan ber í orðalagi og persónusköpun. Oft verða áberandi tilfinningaþrungnar klisjur í lýsingum kapítalista, fasista og kommúnista19. Slíkt forðast Halldór á þessu tímaskeiði, og það sem meira er, þótt sögumaður taki afstöðu til efnisins, þá er hún breytileg, og stíllinn með, svo sem við sáum einnig í Dauðinn á 3. hæð. En vítaskuld er þessi breytileiki samstilltur til að sagan verði þeim mun áhrifaríkari í ákveðna átt. Því verðum við að segja, að þótt saga sé sögð í þriðju persónu sé einnig þar sögumaður, aðgreindur frá söguhöfundi. Enda þótt sögumaður tali hér stundum gegn kommúnistum, þá er söguhöfundur jafnan að tala máli þeirra. Með þessu fororði er sjálfsagt að fallast á orð Njarðar Njarðvík (bls. 33): ,,söguhöfundur verður að vera sjálfum sér samkvæmur innan verksins, og hann breytist ekki” — því skáldverk verður þá áhrifaríkt, ef margvísleg atriði þess beinast saman að einu marki. En þá er líka augljóst að hugtakið söguhöfundur er annað en maðurinn sem skrifaði söguna, karl eða kona. Þegar hann sest við skriftir, tekur hann að sér ákveðið hlutverk, í fari söguhöfundar ríkir bókmenntahefð, flokksafstaða eða annað því um líkt, eða gleði yfir að uppgötva óvænta möguleika í efninu. Allt þetta kemur lítið við hversdagslegri sannfæringu rithöfundarins. Þess vegna, m. a., er svo fánýtt að kanna ævi rithöfunda til að túlka verk þeirra, ævisagan fjallar um allt nema það sem máli skiptir.

Expressjónisminn
Nú höfum við hugað að helstu sérkennum umræddra smásagna Halldórs, einum sér og í samhengi. Er næst að leita skýringa á þeim. Þá er þess að minnast, að hugtakið ,,expressjónismi” kemur upp í fyrstu umfjöllun um sögur Halldórs Stefánssonar20, og fylgir þeim nokkuð síðan. Aldrei er það þó skýrt að gagni, nema helst þegar Einar Olgeirsson talar um ,,eimlestarhraða Expressjónismans”, eins og við sáum.
Eins og fyrr segir, rak Halldór smiðshöggið á fyrstu bók sína árið 1930, þegar hann bjó í Berlín21. Og expressjónisminn kom upp í Þýskalandi um 1910 og breiddist síðan út um öll þýskumælandi lönd fyrst og fremst. Hann var því ekki viðbrögð listamanna við fyrri heimsstyrjöld, eins og oft sést haldið fram, heldur var hann kominn fram áður. Utbreiðsla hans varð hröð og náði til á annað hundrað listamanna, sem dreifðust yfir stórt svæði. Það skýrir að mjög hefur reynst erfitt að finna einhvern sameiginlegan kjarna expressjónismans. I bókmenntum hans bar mest á ljóðum og leikritum. En tveir höfundar í þessum hópi lögðu sig fram um að skilgreina expressjónískan prósa, Alfred Döblin og Carl Einstein. Og á grundvelli þeirra skilgreininga hefur bókmenntafræðingurinn Walter H. Sokel talað um tvær meginlínur í expressjónískum sögum22. Sameiginleg báðum er andúð á sálfræðilegum skýringum athafna persóna, og á öðrum orsakakeðjum. Döblin taldi að með slíkum skýringum, eigin athugasemdum, væri söguhöfundur að skerða sjálfstæði verksins en Einstein taldi sálfræðilegar skýringar vera svik við form listaverksins til að líkja eftir raunveruleikanum. Báðir leggja lítið upp úr atburðarás og spennandi fléttu. En það er af ólíkum ástæðum. Döblin sagði að spennandi flétta og orsakasamhengi ætti heima í leikritum en ekki í sögum, þar ætti bara að sýna hluti og atburði, athugasemdalaust, lifandi og sviðsett. Döblin og sá stóri hópur expressjónista sem skrifa að hans hætti, eru því skyldir straumi sem liggur frá Flaubert og Henry James, um raunsæishefð, natúralisma, fútúrisma og Kafka til nýskáldsagna, sem komu fram í Frakklandi á 6. áratug 20. aldar; stefnt er að hlutlægni, söguhöfundur á að dyljast á bak við verkið.

Carl Einstein og fylgismenn hans voru á gagnstæðri skoðun um þetta. Þeir töldu að sviðsetning eða myndræn atriði (Gebärde) ætti heima í leikritum, en skáldsögur ættu að byggjast á framsetningu hugmynda, svo sem hjá André Gide (sögur hans eru myndrænar og lifandi, en vissulega drottnar þar stundum hugmyndakerfi, t.d. í Symphonie pastorale, sem birst hefur á íslensku). Hugmyndirnar lætur Einstein koma fram í athugasemdum sögumanns eða einhverrar persónu í sögunni, stundum koma hugsanir hennar í stað lýsinga, og raunar vildu þeir Otto Flake hafa hugmyndir í stað myndrænna lýsinga, sem ríktu aftur á móti hjá Döblin, Heym, Kafka, Edschmid o. fl. Enn lengra gekk t. d. Leonhard Frank með sósíalískum útleggingum að hætti siðferðisprédikana fyrri tíðar sem nú þóttu vera ólistrænar sértekningar og gamaldags, m. a. að dómi Döblins. En ágengur sögumaður er í stórum flokki frásagna af þessu tagi, þær eru dæmisagnakenndar, og beinast að því að sannfæra lesendur um málstað eða láta hugmyndir takast á. Hér telur Sokel upp verk eftir Else Lasker-Schüler (frá 1906), Carl Einstein (frá 1912), Flake (frá 1919) og svo stórvirki Musils: Der Mann ohne Eigenschaften (Eiginleikalausi maðurinn), 1930). Sögur þessara þriggja síðasttöldu höfunda eru mestmegnis samtöl, en þar sem samtölin hafa ekki þann tilgang að skapa persónur, heldur setja fram hugmyndir, koma oft langar einræður. Gjarnan eru furðulegir atburðir meðhöndlaðir eins og sjálfsagðir væru, framliðnir ganga um meðal lifandi, o. fl. þ. h. , sem má minna á surrealismann, annan straum módernismans. Stefnu Einsteins má kalla huglægan expressjónisma, en hitt hlutlægan, sem Döblin boðaði. Hjá táknsögumönnum eins og Kubin, Meyrink og Kafka sameinast þessir tveir meginstraumar expressjónismans þannig, að þessi hugmyndaframsetning er í formi umhverfislýsinga, sem greinilega hafa táknrænt gildi. En hjá Kafka eru táknin margræð, hugmyndirnar ekki beraðar, alvitrum sögumanni byggt út með því að sýna atburðarásina mjög hlutlægt, sögumaður gerir engar athugasemdir við hana.

Báðum straumum er sameiginlegt að rísa gegn natúralismanum, sem þótti hafa haugað upp ómerkilegum smáatriðum ytri veruleika. I staðinn átti nú að koma sönn mynd heimsins, en hún gat þá aðeins risið í sál manna. Því hlaut hún að verða einstaklingsbundin, hvort sem svo framsetningin var huglæg eða hlutlæg; og að byggjast á samþjöppun, í stað þess að sanka saman fyrirbærum sem áttu að gefa heildarmynd23. En af þessu leiðir megineinkenni expressjónísks sögustíls, að hneigjast til stuttra setninga, sem eru þrungnar merkingu. Einnig er orðalag stundum brenglað, og það sýnir það viðhorf að heimurinn sé í rauninni brenglaður. Í stað röklegrar orðaskipunar, sem sýnir umhverfi í röklegu samhengi, kemur straumur hliðstæðra setninga sem sýna hugrenningatengsl og tilfinningu fyrir samhengisleysi í tíma. Þessi stíleinkenni eru raunar ekki á sögum Kafka, Musils, Meyrinks og Kubins, svo dæmi séu nefnd, en þær eru þá þeim mun expressjónískari hvað varðar sjónarhorn, byggingu og frásagnarform. Einstein taldi að fallegan stíl bæri að forðast, því hann fegraði raunveruleikann og veitti honum þannig viðurkenningu, en þess í stað bæri að rísa gegn honum. I hans huglæga expressjónisma er styttingastíllinn af tagi kjarnyrða (afórisma), þ. e. almennar hugleiðingar drottna yfir atburðarásinni. En í hlutlægum expressjónisma birtist þetta fremur í hliðstæðum aðalsetningum, þar sem sleppt er óþörfustu orðum (svo sem greini og sögninni að vera). Hjá Döblin leiðir þetta stíleinkenni af þeirri stefnu að láta sem minnst fara fyrir sögumanni. Því eru ekki aukasetningar með útskýringum og orsökum, en ,,fegrandi líkingar”, sem t. d. Georg Heym notaði mikið, vildi Döblin láta hverfa, því þær drægju fram ákveðið sjónarmið gagnvart söguefninu. Samt sýnir Döblin hugsanir persóna, og virðist ekki hafa séð neina mótsögn í því. Hugarflaumur er eitt mest áberandi stíleinkenni expressjónisma, og það telur Sokel (bls. 169) eðlilega afleiðingu þess að báðir straumar expressjónismans hafna því að greina milli sjálfs sögumanns og umhverfis hans. Því renna t. d. lýsingar umhverfis yfir í frásögn af hugsunum einhverrar persónu, án þess að á milli komi gæsalappir, athugasemdir svo sem ,,hugsaði hann” eða eitthvað því um líkt. Jafnvel færist sagan ómerkjanlega frá því að rekja hugsanir einnar persónu til annarrar, sjónarhornið verður á reiki, enginn fastur punktur í sögunni. Það tengist þá enn einu einkenni expressjónísks stíls, því að hvarfla milli stíltegunda.

Sérkenni þau á smásögum Halldórs stefánssonar sem hér hefur verið rætt um, eru flest samkvæmt huglægum expressjónisma. Sögumaður kemur sínum sjónarmiðum mjög að, enda ræður rökleg framsetning ferðinni í þessum smásögum, fremur en persónusköpun eða flétta, svo sem algengast var. Ekki eru sálfræðilegar skýringar á gerðum persóna (þó á sjálfsmorði atvinnuleysingjans í Dauðinn á 3. hæð), og þær verða því týpur. Reyndar finnst mér það helsti galli sögunnar Dauðinn á 3. hæð, að rökleg sjónarmið þvinga atburðarás og aðstæður, svo persónur verða strengjabrúður. Í Hinn mikli segull ræðst söguþráður vissulega líka af formúlukenndri framsetningu á þjóðfélagsátökum. En þar ríkir snerpa vegna þess hve stutt sagan er, og á yfirborðinu er margt sem kemur á óvart, því sjónarhornið hvarflar og yfirlýst afstaða sögumanns er sífellt að breytast, auk stílsins. Þar kemur þá sá villigróður sem er aðal skáldskapar. Nú væri nær lagi að tala um tvö skaut expressjónismans en tvo aðskilda fiokka, og sérkennilegar, myndrænar lýsingar í sögum Halldórs, einkum í Dauðinn á 3. hæð, minna meira á það sem hér sagði um hlutlægan expressjónisma en huglægan. Sama gildir um runur hliðstæðra aðalsetninga, sem að vísu eru ekki í mörgum sögum Halldórs, og voru áður kunnar á Islandi, eins og fyrr segir. En þótt hann hafi þekkt þetta stíleinkenni áður, tekur hann það upp í Berlín, og því líklegast að alkunnri fyrirmynd þýskra expressjónista. Raunar virðast ankannalegar líkingar ekki taldar sérstakt einkenni expressjónisma, en sérkennilegt myndmál einkennir módemismann almennt, einkum surrealisma, eitt grundvallaratriði hans er að skáldleg mynd sé því máttugri sem hún tengi meiri andstæður saman. Langsóttar líkingar Halldórs Stefánssonar stefna í þá átt, og sýna umfram allt hugarástand sögupersónu, þ. e. eru skáldleg samþjöppun.
Halldór Laxness kynnti expressjónisma þegar vorið 1925, í formála að kvæði sínu Unglingurinn í skóginum í tímaritinu Eimreiðinni. Það virðist þó ekki hafa verið áhrifavaldur á nafna hans, því hér er eingöngu um ljóð að ræða:
,,Expressíónistiskum skáldskap er fremur ætlað að valda hughrifum fyrir hreims sakir og hljómrænnar notkunar orða en hins, að gefa einhverja eina rétta efnislausn"24.
Og reyndar eru ýmis ofangreind formseinkenni á sögum Halldórs Laxness, t. d. á fyrra bindi Sölku Völku, sem birtist 1931. Persónur eru mjög lifandi, hver með sitt einkennandi málfar. Það getur verið fáránlegt, svo sem smekklausar líkingar og guðsorðaglamur foringja Hjálpræðishersins. En sögumaður er ekki síður áberandi, með sjónarmið og málfar heimsmanns, ólíkt þorpsbúa, t. d. þegar lýst er inngöngu Sigurlínu og Sölku í þorpið: ,,Fannfergi var mikil, snjórinn illa troðinn, vond færð. Skafbylurinn stóð beint í andlitið á þeim eins og æfinlega er um svona fólk"25. Iðulega rennur tal sögumanns ómerkjanlega yfir í óbeina ræðu með hugsunum sögupersónu, jafnvel aftur til baka í tal sögumanns, t. d. þegar Sigurlína er að frelsast (bls. 23—5). Og einnig koma langsóttar viðlíkingar fyrir í tali sögumanns. Todda trunta byrjar að vitna ,,með hendurnar krosslagðar á maganum, í sjöunda himni, eins og ölvaður erkibiskup, sem er látinn í haf á konunglegri freygátu” (bls. 21). Svipaðs stíls gætir raunar fyrr hjá Halldóri Laxness, í smásögum frá 1926 (Saga úr síldinni) og 1928 (Og lótusblómið angar). En þær voru ekki prentaðar fyrr en síðar, báðar á árinu 1930 (í Eimreiðinni) og svo aftur í bókinni Fótatak manna, 1933. Sögumaður hefur þar sérkennilegt orðalag og skoðanir, mjög ólíkt því sem sögupersónur hafa, enda er hann stundum mjög fjarlægur efninu, líkt og vísindamaður sé að lýsa mauraþúfu. Þetta er líkt og í rammagreinum Halldórs Stefánssonar (í t. d. Liðsauki). Halldór Guðmundsson hefur í nýlegri bók bent á að annarlegum viðlíkingum bregði fyrr fyrir hjá Halldóri Laxness, t. d. segir í Undir Helgahnjúk sem var samin 1923, að dagarnir komu eins og útlendir drykkjumenn sem nema staðar fyrir utan túngarð og veifa höttunum og syngja; eða stara þegjandi heim að bænum; eða þá heingia höfuðin niður í brínguna í vímunni.
Og í Vefaranum mikla segir: ,,Fyrsti spóinn vall í suðaustri eins og úngur drykkjumaður, sem getur ekki sofið”. I framhaldi er sauðkindum líkt við húsmæður og ,,Kjarrvaxið hraunbrjóstið ilmar eins og barmur útlendrar hispursmeyjar26. En þótt fjarlægð sé hér milli þess sem um er talað og hins sem við er Iíkt, þá var hvorttveggja kunnuglegt í íslensku umhverfi. Og þetta eru stök dæmi um atriði sem eru mun algengari hjá Halldóri Stefánssyni, sem stendur svo miklu nær þýsku skáldunum í stíl að Halldór Laxness getur ekki verið milliliður einn sér, og því síður önnur íslensk skáld. Hitt sýnist mér að fari ekki á milli mála, að stíll Halldórs Laxness hefur líka mótast af expressjónisma veigamiklum atriðum, og sennilegt má virðast að hann hafi vísað nafna sínum Stefánssyni veginn. HKL sagðist byggja Sögu úr síldinni á frásögu Halldórs Stefánssonar, svo ótvírætt var gott samband þeirra í millum.
Halldór Guðmundsson álítur (bls. 117) að langsóttar líkingar einkenni einnig Bréf til Láru eftir Þórberg, en eina dæmið sem hann tilfœrir, er ekki sannfærandi, því þar er ekki um myndmál að ræða, heldur smellinn vitrænan samanburð: ,,Það er þetta sem ég dáist mest að í fari Krists, að hann hafði áræði til að haga orðum sínum öðru vísi en Jón Magnússon”.
Annar texti á íslensku er líklegri til að hafa vísað Halldóri Stefánssyni veginn. 1927 kynnti tímaritið Iðunn (bls. 234—49) expressjónismann — af huglægu tagi (í inngangsorðum er m. a. talað um að sagan sýni ,,sálfrœði byltinganna) — með smásögu Henri Allars: Mannsbarn, sem þýdd var af Þórbergi Þórðarsyni og Hallbirni Halldórssyni). Upphaf sögunnar er svona:

Mannsbarn fæddist.
Ko- ngæ! Ko-ngæ! Bim-bam! Tílí-líIí-bom! Brrr-akk! Vzzz! Tra-ta-ta-ta! Krrakkk! Þess vegna
Nei: fyrir föðurlandið ólgar orusta. Vorir unnu — þess vegna! Ekki kveðju- hljómur, ekki heiðursskot! Heldur sigurhljómur, drápsskot!
Húrra!
Mannsbarn er nakið. Rennir augunum upp á við. Kjallaraherbergi. Myrkur, raki, eymd. Móðir kveinar af sársauka. Faðir berst fjærri — við mannbræður.

Sagan rekur svo eymdarævi þessa dæmigerða öreiga, um uppreisn til aftöku hans. Áberandi er stíllinn, sem ofangreind klausa sýnir vel, einkum hljóðlíkingar og styttar setningar, sögninni að vera er sérlega oft sleppt. En þessi sami stíll er alla söguna út í gegn. Hitt virðist mér heppnast mun betur hjá Halldóri Stefánssyni að bregða út af venjulegu málfari í þeim hluta sögu sem hann vill sérstaklega draga fram, í hápunkti.

Hvörf
Við höfum nú séð einstök dæmi expressjónisma á Íslandi. Það er sláandi að hann virðist einna sérkennilegastur í lok 3. áratugsins, en slotar eftir það, fyrst í stíl. Það er í fyrstu bók Halldórs Stefánssonar sem mest ber á styttum setningum og upphrópunum. Neikvæð viðbrögð27 kunna að hafa hrakið hann frá þessum brautum til meiri alfaraleiðar, enda var hann þá ekki mótaður höfundur, því þótt margt sé vel gert í þessum fyrstu expressjónísku sögum, verða ýmsar seinni sögur hans mun minnisstæðari en þær sem hér hefur verið rætt um. En expressjónísk einkenni eru aðeins á hálfum öðrum tug sagna hans, í sex ár samtals, á fyrri hluta 4. áratugsins. Þegar í Júlíus, síðustu sögunni í safninu Dauðinn á 3. hæð (1935) ber lítið á expressjónískum einkennum, þótt hún sé huglæg frásögn sögumanns. 1936 birti Halldór þrjár sögur og allar skv. raunsæishefð. 1937 var metár hjá honum, hann birti þá eina smásögu í hverju hefti Réttar, en þau urðu níu þetta ár, mun færri síðar. En eftir það birti Halldór aðeins eina smásögu á næstu fimm árum (í Tímariti Máls og menningar 1940), fram að næsta safni, sem birtist 1942 (Einn er geymdur, en þar voru átta nýjar sögur, auk flestra sagnanna frá þessum tíma).

Þessi útgáfulægð gæti bent til kreppu, og fylgir reyndar verulegri breytingu á sagnagerð höfundar. Af þessum sögum frá 1936—42 er það helst Tvær þjóðir í Rétti 1937 sem er myndræn og í tilfinningaþrungnum setningabrotum. Sú saga er þó svo rökræðukennd, að hún jaðrar við að vera blaðagrein með dæmum (hún var ekki endurbirt í bók). Þriggja tíma viðstaða (1942) er sundurleit mynd alþýðufólks á ferðalagi. En annars gildir það um flestar sagnanna frá þessum árum, að þótt áfram sé þar ágengur sögumaður, eru þær yfirleitt eintóm frásögn á hefðbundnum raunsæisstíl, varla er hægt að tala um neitt kjarnaatriði í sögunum, og sáralítið er sviðsett. Það sem kallað var háttur blaðaskrifa í rammagreinum smásagna svo sem Liðsauki verður hér einrátt. Skýring þessa virðist mér sú, að meginatriði sagnanna er að afhjúpa þjóðfélagslegt samhengi, og það er þá gert í skipulegri framsetningu. Er þar því fátt eða ekkert sem komið gæti á óvart, þarna ræður ekki bókmenntalegt viðhorf, og á heildina litið virðast mér sögur Halldórs setja verulega ofan sem bókmenntaverk frá og með árinu 1937, einmitt þegar hann birtir sem mest. E. t. v. hefur hann þá freistast til að láta ýmislegt frá sér fara, sem hann áður hefði ekki talið fullunnið. Stundum er raunar lögð rækt við sérkennilegt málfar einstakra persóna, og umhyggja fyrir smælingjum er áberandi, einkum fyrir börnum og gamalmennum. Ekki er það þó svo að skilja, að Halldór haldi sig alveg í túnfætinum hjá Einari Kvaran. Nýjung hans er sálarlífsathuganir. Þegar lítilmagnar Einars Kvarans urðu fyrir illri meðferð, leiddi það til þess að þeir fundu góðmennsku, annað hvort hjá öðrum persónum eða hjá sjálfum sér. En hjá Halldóri Stefánssyni launa þær illt með illu, þar sem því verður viðkomið, jafnvel við óviðkomandi lítilmagna. Það verður ólíkt sterkari mynd og meira sannfærandi en hjá Kvaran, og skiljanlegt að Halldór hafi viljað spreyta sig á nýju sviði, sálarlífslýsingar lagði hann lítt stund á áður. En þetta eru fáar sögur28, svo ekki er það þessvegna sem Halldór hverfur frá formtilraunum sínum — enda var hér bent á að annað verður nú meira áberandi hjá honum. Ekki það að sögurnar verði pólitískari, pólitískar voru þær fyrir, en nú höfða þær miklu meira einhliða til skilnings lesenda eftir hefðbundnum leiðum.

Ef reynt er að skýra þessa breytingu, þá er þess fyrst að geta að ekki hefi ég fundið neina gagnrýni á frásagnarhátt Halldórs um miðjan 4. áratuginn. En þá kom raunar fram mjög harkaleg ádeila á expressjónismann erlendis, í röðum róttækra rithöfunda. Þar ber einkum að nefna Georg Lukács sem hóf þessar árásir sínar á árinu i í tímariti Alþjóðasambands byltingarsinnaðra rithöfunda. Halldór Stefánsson var ásamt nánustu félögum sínum í forystu Islandsdeildar þess. Ekki höfum við heimildir um umræður um þetta efni í félaginu á þessum tíma. Lukács taldi ásamt fleirum, að expressjónisminn hefði, a. m. k. óbeint, leitt til nasismans. En raunsæishefðin væri ávöxtur borgaralegs húmanisma, og þann arf þyrftu róttækir rithöfundar að rækja, einkum á tímum samfylkingar gegn fasisma. Ýmsir róttækir rithöfundar andmæltu Lukács, og einkum stóðu þessar deilur í tímariti nýs Alþjóðasambands rithöfunda til varnar menningunni, sem kom í stað hins byltingarsinnaða, (síðari hluta ársins 1935)29. Þegar í fyrsta bindi Rauðra penna, í árslok, 1935,30, tekur Björn Franzson upp sjónarmið Lukács og segir að þegar borgarastéttin hafi verið framsækin pólitískt, þá hafi list hennar verið verðmæt, en fútúrismi í bókmenntum, kúbismi í málaralist, atonalismi í hljómlist eru sérkennandi listastefnur þessa tímabils, sem hefst með heimsstyrjöldinni og táknandi um andlegan óbyrjuskap borgarastéttarinnar, rótleysi og stéttvillingshátt hins smáborgaralega fjölda.

Þótt expressjónismi sé ekki nefndur sérstaklega, þá hittir þessi gagnrýni hann eins og aðra framúrstefnu. Einmitt á þessum árum snúast flestir leiðtogar íslenskra róttæklinga gegn nýjungum í ljóðformi, jafnvel Halldór Laxness31.

Framúrstefna í listum er í vörn en ekki sókn næstu árin, og enn herti meira að henni í seinni heimsstyrjöldinni. Reyndar voru framúrstefnuskáld alveg sérstaklega ofsótt í ógnaröldinni sem hófst í Sovétríkjunum 1936. I ljósi þess að afturhvarf Halldórs Stefánssonar til raunsæishefðarinnar verður um líkt leyti og samskonar afturhvarf róttækra rithöfunda á Íslandi og alþjóðlega, virðist líklegast að það sé skýringin.

Samantekt
Við höfum séð að Halldór Stefánsson byrjar sagnagerð sína með tilfinningaþrungnu orðalagi ágengs sögumanns, en það þótti fornfálegt á 3. áratugnum. Sagnagerð Halldórs hefur breyst töluvert við ársdvöl hans í Berlfn 1929—30. Sögur hans fá verulegan svip af huglægum expressjónisma Garl Einsteins og félaga, en mikið svigrúm til persónulegrar sköpunar er innan þess ramma, svo sem þessar smásögur hans sýna. Þessi bókmenntastefna var vissulega í veigamiklum atriðum í framhaldi af þeirri sem hann fylgdi áður: í huglægri framsetningu, en nú kemur meðvituð ögrun nýtísks stíls í stað klisjanna áður (þótt þær séu enn stundum með, t. d. í Hreinarnir). Mest ber á annarlegum, langsóttum líkingum, einnig tekur hann nú að nota setningaslitur og hljóðlíkingar til að draga fram tilfinningarót. Sérkennilegar myndrænar lýsingar verða stundum áberandi, frásögn af örlögum persóna skiptist á við yfirlitsklausur í stíl greina um þjóðfélagsmál. Vissulega eru þessi frávik frá raunsæishefð ekki umfangsmikil ef litið er á textamagnið í þessum sögum Halldórs, en setja áberandi svip á þær, einkum í sviðsetningu fyrst í sögunum. Óvenjumikið er þó um þessi einkenni í sögunum Nýmálað, Hinn mikli segull og Dauðinn á 3. hæð. Halldór hverfur að mestu frá því að nota setningaslitur eftir fyrstu bókina, hin sérkennin sem hér hafa verið rædd, hverfa að mestu 1936. Þessu virðast valda pólitísk straumhvörf, að hann hafi eins og flestir kommúnískir menntamenn og skáld, lagað sig að borgaralegum hefðum í samfylkingu gegn fasisma. Mjög þykir mér draga úr bókmenntagildi verka hans við þau umskipti.

Eg man ekki til að aðrir höfundar sýni expressjónísk einkenni næstu áratugi. Vissulega þyrfti að kanna það betur. En svo við færum efni greinarinnar nær lesendum, þá er athyglisvert, að löngu síðar, fyrir rúmum áratug, birtist skáldsaga sem mér sýnist ná áhrifamætti sínum einkum með þessum megineinkennum expressjónismans sem við höfum hér séð á sögum Halldórs Stefánssonar. En það er Punktur, punktur, komma, strik eftir Pétur Gunnarsson. Ef við lítum á I. hluta, þá fléttast þar saman saga af ástum pars og innskot sögumanns sem horfir yfir sviðið úr mikilli fjarlægð, og segir frá skoðunum sínum. Í 6. k. ber hann húsnæðisþörf verðandi fjölskyldunnar saman við það sem gerist hjá skordýrum, en það verður tilefni til hagfræðiyfirlits í marxískum anda. 7. k. sýnir goðsögurnar um ástalíf, sem kvikmyndir halda að almenningi, og hvernig hann lagar sig að þeim. Í 8. k. er fæðingu barns lýst, en um leið heimsstyrjöldinni32:

Einhversstaöar í sömu nótt hrúguðust líkin upp og skurðgröfur höfðu ekki við járnbrautalestum sem streymdu í neistaflugi með efni í fleiri lík. Uti geimnum gláptu plánetur sem voru ef til vill jöröin fyrir milljörðum ára eða áttu kannskí mannlífið í vændum. Myndu peningarnir líka stjórna þeim í framtíðinni?

Þessi fjarlægð sögumanns frá efninu finnst mér dæmigerð fyrir söguna alla. Afleiðingin verður sú, að persónur hennar og aðstæður verða fyrst og fremst dæmigerðar, týpur, enda þótt þær séu jafnframt gerðar lifandi. Og textinn bragar allur af ankannalegum líkingum, sem gera sögumann sínálægan lesendum, hann hnippir í þá, auk þess sem líkingarnar sýna oft eitthvað sem undir býr. Og það samstillir Pétur af listfengi. T. d. hefst bókin á því að skipið smellir kossi á landið, en það ætlar maðurinn sem þá stekkur í land sér m. a. að gera við konuna, ,,þau skrönsuðu fyrir horn eins og bílar á hraðferð, ,,svo klofaði hann yfir hversdagslega meðalhegðun. I stað þess að lýsa samförum parsins er eitthvað ámóta sagt um laufblöðin til að sýna haustið; og endar á tilvitnun í kennslubók í líffræði til að gera þetta framandlegra:

Úti á götu var komið haust—hægt sleppti lífið taki á laufblöðunum sem eldroðnuðu, skruppu saman og lögðu af stað til jarðarinnar: handstrengjótt, fjaðurstrengjótt, flipótt og tennt. (bls. 6—7)

Ég skal ekkert um það fullyrða hvort Pétur hefur Iært beinlínis af Halldóri Stefánssyni, en það held ég að ýmsir gætu, lengi hefur allt of lítið farið fyrir þessum höfundi, sem í bestu verkum sínum sameinaði óvenjumikla dirfsku og vandvirkni. Og hann gerði nýja bókmenntastefnu sannarlega innlenda um hríð með huglægum, nýstárlegum rithætti, sem einkenndist af sérkennilegu myndmáli og rofinni framsetningu að hætti módernismans.

Tilvísanir
1. Skáletranir eru mínar, nema annað sé tekið fram.
2. Halldór Stefánsson: Sögur og smáleikrit, Rvík 1950.
3. Sveinn Skorri Höskuldsson: Gestur Pálsson. Ævi og verk I—1I, Rvík 1965.
4. Sjá Guðmund G. Hagalín: Einar Hjörleifsson Kvaran, Skírnir 1939 (bls. 5—34), bls.12—14, og Þórð M. Helgason: ,,Inngangur. Þorgils gjallandi: Sögur, Rvík 1978, bls. 9—70.
5 Sjá óprentað doktorsrit mitt: Le mouvement littéraire de la gauche islandaise dans l’entre deux-guerres (Bókmenntahreyfing Rauðra penna), k. 4.2. Það var varið við Lyon-háskóla 1984. Til á Lbs. og Hb5. Birtist á íslensku 1990: Rauðu pennarnir.
6. Sveinn Skorri Höskujdsson: tv. rit, 11, bls. 607, 614, 618, 621, 642. Mér þykir orðalagið sýndarlíking heppilegra en orðalag Sveins: óeiginleg líking. Wayne C. Booth segir ítarlega frá þessari hefð, að höfundur hverfi í skuggann, í riti sínu: The Rhetoric of Fiction, Chicago 1961. 7.Sjá Gest Pálsson: Sögur, Rvík 1970.
8. Kristín Sigfúsdóttir: Gestir, Akureyri 1925.
9. Bruno Kress hefur eftir honum (í eftirmála úrvals smásagna Halldórs á þýsku (An Islands Küsten, Berlin 1975, bls.194), þýðing mín): ,,Eg fékk langt leyfi í bankanum, allt að ári. Eg fór semsagt til Berlínar og tók fáeinar ófullgerðar sögur með, sem ég ætlaði að ljúka þar og bæta nokkrum við — helst til að fylla bók. Það tókst, en ég hafði engan útgefanda og vissi ekki hvernig það myndi ganga þegar heim kæmi. Eg ákvað þá að gefa bókina út á eigin kostnað í Berlín. Mér tókst að fá lán til þess á Íslandi." Halldór kynntist þarna þýskri konu sem að vísu kunni ekki íslensku en setti smásögurnar á þýsku eftir grófþýðingu Halldórs sjálfs. Þær birtust svo í þýskum blöðum, lítið eitt breyttar, og deildu þau ritlaununum.
10. Þessi skoðun kemur m. a. fram í dómi Magnúsar Jónssonar um Undir Helgahnúk Halldórs Laxness, í Iðunni, Rvík 1925, bls. 223. Magnús segir að frásögnin um dauðaslysið þar verði áhrifarík einmitt vegna þess hve kuldalegur og tilfinningalaus stíllinn sé á yfirborðinu.
11. Tekið saman eftir tilvitnuðu riti Sveins Skorra, II, bls. 582—600.
12. Margir höfðu orð á því hve kuldalegur stíll Halldórs Stefánssonar væri, allt frá ritdómi Arna Hallgrímssonar um I fáum dráttum í Iðunni Rvík 1930, bls. 414—16. Guðmundur Hagalín kallaði þetta hundingjahátt í bók sinni Gróður og sandfok Rvík 1942, en Kristinn E. Andrésson nefndi það ,,samúð undir kaldranalegu yfirborði, eins og tákn þeirrar baráttu, sem verkalýðurinn heyr, með hörðum aðferðum, í þjónustu dýpstu mannúðar", Rauðu pennarnir 1936, sjá Um íslenskar bókmenntir I, Rvík 1970.
13. Njörður Njarðvík: Eðlisþættir skáldsögunnar. Rvík 1975 bls. 25 o. áfr. Wayne C. Booth: tv.rit, 6.k., Gérard Genette: Figures III, París 1972, bls. 252.
14. Þannig túlkar Kristinn E. Andrésson söguna í tv. grein sinni frá 1936, bls. 152. .
15. Sjá t. d. smásögu Einars H. Kvaran: Vistaskipti. Einar H. Kvaran: Ritsafn, Rvík 1943, bls. 393—425.
16. Orðalag Einars Olgeirssonar í grein hans: Skáld á leið til sósíalismans, Réttur l932.
17. Í endurminnningum sínum, Enginn er eyland, Rvík 1971, bls. 39—40.
l8. Halldór Stefánsson: Sögur og smáleikrit, Rvík 1950, bls. 74. Hér er farið eftir þeirri útgáfu, sem er lítið eitt breytt frá frumprentun, m. a. í því, að þar voru nefndir kratar og nasistar meðal þeirra sem deilt er á, og reiðhestslíkingin miklu oftar höfð um söguhetju.
19. Sjá t. d. smásögu Henri Barbusse: G. Bujor í Rétti 1932: ,,I fyrstu reyndi fanginn, knúinn af hinni öflugu þrá mannsins til þess að heyra rödd annars manns, að ná tali af verðinum [...] Sérhver tilraun var árangurslaus sem miðaði að því að milda hina hræðilegu kvöl, sem gerir lifandi mann að líki og dregur hann kvikan ofan í örðina.
20, Sjá einkum tv. rit Arna Haligrímssonar og Einars Olgeirssonar, bls. 102.
21. Raunar var Halldór þar áður eitt ár, 1927, og fylgdi þá bróður sínum til berklalækninga að sögn Örbrúnar dóttur hans (í viðtali við mig 19. 1. 1988).
22. Waker H. Soket; Die Prosa des Expressionismus, í: Expressionismus als Literatur. Bern 1969, bls. 153—170.
23. Fritz Martini; Einleitung , bls. 5 o. áfr., í: Prosa des Expressionismus, (Reclam 8379), Stuttgart 1970.
24. Halldór Laxness: Unglingurinn í skóginum, Eimreiðin, 31. ár, Rvík 1925, bls. 70—72.
25. Halldór Laxness: Salka Valka, 3. útgáfa, Rvík 1959, bls. 14.
26. Halldór Guðmundsson: Loksins, loksins, Rvík 1987, bls. 19ð.
27. Arni Hallgrímsson sagði í tv. ritdómi um fyrstu bók Halldórs að hann tylldi í tískunni með bví að skrifa expressjónískan stíl, en vanti einmitt persónulegan stíl.
2ð. Fyrsta sagan af þessu tagi er Hernaðarsaga blinda mannsins, í Rauðum pennum 1936, einnig má nefna Strok og Sættir í Rétti, Rvík 1937, og Sáð í snjóinn í Einn er geymdur, en mun betri er Grimmd, í Tímariti MáIs og menningar 1942 (endurpr. í Sögur og smáleikrit).
29. Sjá Stephen Eric Bronner: ,,Expressionism and marxism, í Passion and Rebellion, New York 1983, bls. 411—415.
30. Björn Franzson: Listin og þjóðfélagið, Rauðir pennar I, Rvík 1935, bls. 291.
31. Sjá tv. rit mitt, k. 4.3.
32. Pétur Gunnarsson: Punktur punktur komma strik, Rvík 1976, bls.18.

Engin ummæli: