fimmtudagur, 15. febrúar 2007

Hlutskipti e. Malraux

ANDRÉ MALRAUX 
HLUTSKIPTI MANNS. 
Thor Vilhjálmsson þýddi úr frönsku, 
Svart á hvítu 1983, 284 bls. 
Á frummálinu heitir sagan: La condition humaine.

Loksins er þessi fræga saga út komin á íslensku, réttri hálfri öld eftir aõ hún birtist fyrst. Má þá Skírni fyrirgefast, þótt ritdómur hans komi ári síðar en við hefði mátt búast. 
Skáldsaga þessi var fjórða bók höfundar, sem var þrjátíu og tveggja ára þegar hún birtist, 1933. Hún hlaut þegar eftirsóttustu bókmenntaverðlaun Frakklands, Goncourt verðlaunin, og þar með varð Malraux frægur. Eftir það var hann lengi eitt virtasta skáld Frakka, og þótt víðar væri leitað. 
Sagan fjallar um nýliðin stjórnmálaátök í fjarlægum heimshluta — Kína 1927. Ýmsir herstjórar ráða hver sínu svæði í Norður-Kína, en suðurhlutanum ræöur þjóðernissinnuð fjöldahreyfing, Kuomintang. Hún er mjög sundurleit, þar eru bændur, smáborgarar ýmiskonar og verkalýðsleiðtogar; kommúnistar og íhaldsmenn. Sovésk stjórnvöld þjálfuðu her Kuomintang, réðu t. d. mestu um herskóla hreyfingarinnar. 1926 sækir her hennar norður, og nær síðan öllu Kína á sitt vald. Við þann sigur hlaut hreyfingin að splundrast, því nú urðu leiðtogar hennar að velja á milli stéttarsjónarmiða. Öreigalýður til sveita var farinn að taka undir sig jarðir stórbænda, sem stutt höfðu Kuomintang. Og þegar her Kuomintang heldur inní helstu hafnarborg Kína, Sjanghæ, þá verður stjórnandi hans, Sjang Kai shek, að velja milli stuðnings verksmiðjueigenda og viðskiptajöfra annars vegar, en hinsvegar baráttu verkalýðsins fyrir betra lífi, gegn þessum auðherrum. Sjang kaus tolltekjurnar af Sjanghæ og tryggði sér stuðning landeigenda með fjöldamorðum á kommúnistum og félögum þeirra í apríl 1927. Þó hafði kínverski kommúnistaflokkurinn reynt að halda aftur af byltingarbaráttu alþýðu, en boðað samstarf ýmissa stétta Kínverja gegn erlendum yfirráðum. Það gerði hann að boði forystu Alþjóðasambands kommúnista, þ. e. Stalíns og Búkharíns. En Trotsky barðist gegn þessari stefnu og boðaði byltingarbaráttu alþýðu. 
Hér er ekki rúm til aö fjalla um fyrri bækur Malraux. Þó verður að nefna, að önnur og þriðja gerast líka í Austurlöndum, og raunar fjallar önnur bók hans, sem birtist 1928, Sigurvegararnir (Les conquérants) um sama efni og Hlutskipti manns. Skýring þess virðist vera heldur óbókmenntalegur ritdómur sem Trotsky skrifaði um Sigurvegarana1 í febrúar 1931. Það er út af fyrir sig ágæt saga, en í henni er eins og kínverska byltingin eigi upptök sín á skrifborði Borodíns, fulltrúa Alþjóðasambands kommúnista, að minnsta kosti er svo að sjá sem hann og fáeinir aðrir valdamenn stjórni framgangi hennar algerlega gegnum símann. Það sem Trotsky gagnrýndi einkum í Sigurvegurunum, var að þessir menn skyldu sýndir sem byltingarmenn, þar sem þeir ástunduðu þó einkum að halda aftur af fjöldanum, og sveigja baráttu hans undir forræði kínverskrar borgarastéttar. Malraux svaraði þessu, og hefi ég ekki séð svar hans en skv. Lucien Goldmann2 lagði hann áherslu á að Sigurvegararnir væru skáldsaga, en ekki ,,frásaga í skáldsöguformi” eins og Trotsky hafði sagt. Síðan tók Malraux til við að verja stéttasamvinnustefnu Stalíns á þeim forsendum að kommúnisminn hafi verið það veikburða í Kína 1927, að hann hefði ekki getað ráðist gegn innlendri borgarastétt þá. Goldmann bendir réttilega á, að hér missást Malraux um umfang stefnu Stalíns, hann hélt aftur af byltingunni og stundaði stéttasamvinnu, ekki bara í Kína 1927, heldur almennt, hvarvetna. 
Þennan formála þurfti til að skýra breytinguna sem verður með Hlutskipti manns. Því þar ríkir ofangreint sjónarmið Trotskys! Og það svo mjög, að úr verður mikilvæg bókmenntanýjung. Fram að þessu snerust sögur Malraux um sterka einstaklinga, sem glímdu við vandamál sín — eða við vandamál samfélagsins. Í þeim ríkir því einstaklingshyggja, svo sem almennt var í vestrænum bókmenntum. Þetta á einnig við um Sigurvegarana, þar eru það einstaklingar sem framkvæma byltingu fjöldans. En í Hlutskipti manns er söguhetjan ekki lengur einstaklingur, heldur hópur byltingarmanna, og raunar vísar sá hópur stöðugt útfyrir sig, til fjöldahreyfingarinnar. Byltingarmennirnir Kyo, Katoff og Tséng eru allir ámóta mikilvægir og fyrirferðarmiklir í sögunni3. Þetta er sú bók, sem bókmenntahreyfingu vinstrisósíalista hvarvetna dreymdi um að skapa. Listagóð hetjusaga úr samtímanum, sem sýnir kommúníska byltingarhreyfingu alþýðufjöldans sjálfs. En svo, þegar bókin loksins var komin, þá gat hreyfingin ekki haldið henni á lofti! Það er vegna þess að bókin er byltingarverk, og þá um leið hatrömm árás á andbyltingarstefnu stalínista. Enda þótt þessi bókmenntahreyfing hampaði Malraux mikið, eftir að hann varð frægur fyrir Hlutskipti manns, þá hefi ég lítið séð minnst á þessa bók í öllu því sem ég hefi lesið af ritum hreyfingarinnar. 
En við lestur pessarar sögu rifjast upp gömul deila. Helsti kenningasmiður bókmenntahreyfingarinnar, Ungverjinn Georg Lukácz, gagnrýndi Ottwald nokkurn, sagnaskáld, fyrir að láta eina og sömu skáldsögu gerast ýmist á samyrkjubúi í Sovétríkjunum, eöa á fundi helstu kornkaupmanna í Kanada. Lukácz fannst það endurspegla beint glundroða og firringu lífshátta nútímans í auðvaldsheiminum, en sagnaskáld ættu að sýna heildarmynd af lífinu, alhliða einstakling sem stæði djúpum rótum í samfélagi sínu, svo sem Balzac hefði sýnt. Ottwald svaraði eitthvað á þá leið, að samfélagið væri orðið miklu margþættara og örlögvaldar þess alþjóðlegri en var á fyrri hluta 19. aldar, En Lukácz vildi að fylgt væri hefð raunsæisstefnunnar með því að segja alla söguna frá sjónarhóli samyrkjubónda, og alþjóðleg áhrif kæmu þá fram í sögunni eins og sá bóndi skynjaði þau. Þessi ritdeila birtist í þýsku útlagatímariti, árið áður en Malraux birti Hlutskipti manns. En þessi saga er einmitt samkvæmt þeirri stefnu sem Lukácz var að deila á. Hér ægir saman sundurleitustu textum: morðsögu í Sjanghæ (1. k.), deilum um stalínisma og trotskisma (III. hluti), grein um fjármálalíf í Kína (bls. 178 o.áfr.), og skopsögu um fjármálaauðvaldið í París (VII. hluti). Frammi fyrir yfirvofandi ógn fjöldamorða fara menn allt í einu að ræða um sérkenni japanskrar myndlistar (bls. 160—161)! 
En betur að gáð, ráðast öll þessi efnisatriði af sömu stefnu. Því skapar þetta í senn fjölbreytni, og gerir söguna áhrifaríka, lesendur hafa á tilfinningunni, fremur en augljóst sé, ,,að héðan falla vötn öIl til Dýrafjarðar”. Má því segja að Malraux hafi rækilega afsannað kreddur Lukácz. En sama sjónarmið ræður fléttu sögunnar á annan hátt líka. Hún fylgir til skiptis fimm persónum: byltingarmönnunurn Tséng, Kyo og Hemmelrich, ævintýramanninum Clappique, sem er bandamaður þeirra í öðrum samfélagshópi, og höfuðandstæðingi þeirra, auðherranum Ferral. Fjölbreytnin verður að meiri við það, hve ólíkir byltingarmennirnir eru innbyrðis, Tséng hryðjuverkamaöur, en Kyo meiri marxisti, Hemmelrich er þjáningin og tilfinningaleg uppreisn holdi klædd. Auk þess er Rússinn Katoff, snjall byltingarleiðtogi sem dylst undir gervi trúðs. Clappique er trúður af öðru tagi og skoplegri, en í frásögnum af honum birtist einnig sú ógn sem vofir yfir byltingarmönnum. Og enn mætti lengi segja frá fjölbreytileika persónanna. Í tali þeirra margra koma fyrir margvísleg minningabrot, sem saman skapa litríka þjóðlífsmynd — ekki fyrst og fremst af Kína, heldur af alþjóðlegum heimi sögupersóna, og einkum af byltingarbaráttu undanfarins aldarfjórðungs. Í samræmi við þetta leyfir Malraux sér að skipta oft um sjónarhorn. Hann sér inn í hug hverrar persónu, einnig síðustu hugsanir deyjandi manns (bls. 255), til skiptis í hug karls og konu sem eru að tala saman, og er einnig ofar hug beggja (bls. 99, sjá einnig 144). Höfundur hefur hugsað sem svo, að taki fóÌk skáldsögu trúanlega, þá er það af því að það vilI trúa henni, a. m. k. í svip, og þarf þá ekki að hafa áhyggjur af sennileika skv. ströngustu raunsæishefð. Frásögnin verður hröð og fjölbreytt við þessi öru umskipti sjónarhorns. Og í samræmi við þetta leyfir Malraux sér skýringalaust ótrúlegustu tilviljanir við að leiða fólk saman í þessu milljónaþéttbýli, t. d. Kyo og Tséng í Hantsjó (bls. 120), Tséng og gamla kristindómskennara hans í Sjanghæ (bls. 141) — af því að flétta sögunnar krefst þess, í síðartalda tilvikinu til þess að Tséng geri upp við kristna trú rétt áður en hann hefst handa um morðtilræði. Og í sögunni er lögð áhersla á að halda uppi hraða, því má ekki tefja gang hennar meõ óþörfum útskýringum á tilbúningi höfundar. 
Þessi áhersla á hraða og spennu birtist m. a. í fyrirvaralausum umskiptum milli sögusviða og persóna (t. d. bls. 103), frá umræðum um ógn yfir í að hún birtist (bls. 107, sjá og bls. 171 og 193). Hraðinn og spennan birtist einnig 
í kaflaheitum, þau eru öll dagsetningar, og þó einkum tímasetningar: ,,Klukkan hálfeitt,,,Klukkan sex o. s. frv. — fram yfir fjöldamorðin, hátind sögunnar. En þá slaknar á tímasetningum; kaflaheitin verða: ,,Daginn eftir, ,,París í júli,,,Kobé. Í samræmi við þetta er tímarás sögunnar mjög samþjöppuð. Fyrstu tveir hlutar hennar (40% textans) gerast á tæpum sólarhring. III. hluti gerist á dagstund, viku síðar, í borginni Hantsjó. En þá víkur sögunni aftur til Sjanghæ, tólf dögum síðar, og IV.—VI. hluti gerast þar (45% textans) á rúmum sólarhring. Tveir síðustu kaflarnir gerast svo fjarri þeim vettvangi, löngu síðar, raunar er ekki tiltekið hvenær síðasti kaflinn gerist. En með þessu móti verður sagan meðal annars dramatísk spennusaga. Ekki nóg með að hún hvarfli milli ýmissa byltingarmanna í IV.—VI. hluta, inn á milli þeirra fléttast þættir af Clappique. Yfirleitt er hann spaugileg andstæða byltingarmannanna, hefur eitthvað svipað hlutverk og Björn úr Mörk í Njálu. En hlutverk hans breytist, og veröur harmsögulegt. Það gerist fyrst þegar hann lendir á valdi fjárhættuspilsins (bls. 203 og áfr.) — óviðráðanlega, því það er ímynd lífs þessa ævintýramanns innanum þau ógnaröfl sem takast á um heiminn, og þessa borg sérstaklega (það sýnir best listgáfu Malraux, að hann stillir sig um að benda lesendum á þessar hliðstæður). En þar með hefur Clappique brugðist Kyo, sem er handtekinn, lukkuriddarinn reynist vera ótraustur bandamaður byltingaraflanna. Og nú er Clappique kominn í hlutverk Péturs postula — eða Júdasar, því ég sé ekki betur en Malraux noti Píslarsöguna sem fyrirmynd þessa hluta: Clappique iðrast beisklega, gengur fyrir dómarann og reynir að fá Kyo látinn lausan, það tekst ekki, en Kyo er kvalinn (og reyndar boðin lausn, ,,ef þú framselur vini þína"), bíður dauðans í garði, og við fylgjumst með orðum hans þegar hann kveður Iífið. Loks vaka ástvinir hans yfir líki hans, sem er lýst. Ég veit ekki hvort lesendum mínum finnst þetta svipmót of almennt, en finnist þeim það skipta máli, þá leiðir af því, að lesendur skáldsögunnar hljóta að gera ráð fyrir því framhaldi sem aðeins er gefið í skyn: upprisu Kyo, þ. e. byltingarinnar. Það er í lokakafla, og raunar skv. stalínisma: friðsamleg þróun Sovétríkjanna á að leiða þangað. Er merkilegt að sjá, að skáldsagan á auðveldara með að sýna stjórnmálaandstæður efnisins — og umhverfisins, sem hún fjallar um — en að taka eindregna afstöðu til þeirra. 
Við erum þá komin að því hvernig sagan tekur afstöðu til þeirra voðaviðburða sem hún segir frá. Þar er margt svo fínlegt, að erfitt er að festa hendur á, enda getum við aðeins nefnt fáein atriði. Fyrst er þá að nefna, að það sem mest hefur þreytt menn í baráttubókmenntum eru klisjurnar: auðherrar eru ístrubelgir með vindla, byltingarhetjur ætíð einarðlegar á svipinn, og á mikilvægum stundum logar óhjákvæmilega glóð í augum þeirra, vöðvarnir hnyklast undir ermum verkamannsins, lögreglumenn og aðrir þjónar yfirstéttarinnar eru huglausir og haldnir kvalalosta, o. s. frv. Malraux forðast þetta vandlega. Ütliti persóna er lýst þannig að hver hefur sín sérkenni, en þær eru þó ekki óvenjulegar, og útlitið segir ekkert um innri mann. Frekar að það villi um, hvað varðar Katoff og Tséng. Þessi regla er þó ekki algild. Það er raunar beinlínis tekið fram um Ferral, að hann forðast gervi iðjuhölds, en talað um fágað tillitsleysi í svip hans (bls. 70). Fínlega er kynnt undirtylla hans, Martial lögregluforingi: ,,hermannsandlit sýnu svipminna en miklar herðar hans gáfu til kynna (bls. 70). Og Vologin, fulltrúi Stalíns, er kellingarlegur og hóglífislegur, með klerklegar hendur (bls. 115 og 120). Allt á þetta að skapa andúð á honum eins og málkækur hans: ,,semsagt”, sem gerir tal hans óeðlilegt, og þar með virðist það óeinlægt. 
Í áróðursræðu eða grein er sagt að auðvaldið standi gegn réttindabaráttu alþýðu, en í skáldverki nægir það ekki, heldur þarf að sýna hvernig tiltekinn auöherra, sem lesendur kynnast, beitir sér, og hversvegna. Því kynnumst við Ferral náið sem einstaklingi, einnig andspænis skrípamyndum fjármálaauðvaldsins í VII. hluta. Þar kemur á daginn að öll barátta Ferrals fyrir aö bjarga fyrirtækjum sínum, þar með talin fjöldamorðin, eru unnin fynr gýg — í þeim skilningi, að fyrirtækin farast. En auðvitað hljóta þá önnur að koma í þeirra stað, með samskonar hagsmuni. Aðalandstæðingur byltingarmannanna er ekki samkvæmt klisju; en það er frekar hitt, hvernig hann talar til lögreglustjórans Martial; af fyrirlitningu sem sá síðarnefndi þorir ekki að rísa gegn (bls. 72). Og fangavörður er þvílíkt úrþvætti, að byltingarmaðurinn Kyo furðar sig á að hann skuli vera samkvæmt klisjunni (bls. 237)! Malraux er ekkert feiminn við að nota klisjur, en hann lætur þær bara ekki yfirbuga sig (t. d. hefst pessi spennusaga á morði — en því er þá lýst frá sjónarhóli morðingjans, og angist hans). Og skipting persónanna í byltingarmenn og andstæðinga þeirra er jafnframt skipting í tvenns konar menn. Byltingarmennirnir eru hver með sínu móti — en allir fórna þeir sér vegna ástar á öðrum. Því er það sannmæli (bls. 254—5), þegar þeir bíða þess í skólagarðinum að verða drepnir: ,,Á öllu pví svæði jarðarinnar sem þessi hinsta nótt grúfði sig yfir, þá var þessi kvalastaður sá sem þrungnastur var af karlmannlegri ást. En König, sá sem sendir Kyo í dauðann, er algerlega ofurseldur hatri á kommúnistum. Uppgjör Kyo og konu hans May sýnir að þau geta ekki skilið andspænis ytirvofandi ógn, ekki einu sinni til að tryggja líf May. Eins og samtal Hemmelrichs og Katoffs um ástúð og byltingarbaráttu (bls. 168—177) er þetta skörp andstæða við kvennastúss Ferrals í næsta kafla á eftir (bls. 177—195, einnig 99—103), það er fullkomlega geldur valdalosti, konur eru Ferral deyfilyf, hann leitar aðeins sjálfs sín. Ósigur hans á þessu sviði kallar á hefndir á stjórnmálasviðinu eins og auðmýking Königs (bls. 224). 
Í ljósi þessa skilst hversvegna sögupersónur eru að ræða japanska myndlist, heimspeki og viðlíka hluti í hita baráttunnar. Þær eru þá að ræða lífsskoðun sína, taka afstöðu til þess hvað sé inntak lífsins, fyrir hvern og einn peirra. Og það er af því að þeir eru heilir menn, andstætt hetjum sósíalrealískra verka, en þær eru jafnan holdtekjur hlutverka, svo sem alræmt er, það einkenndi líka fasíska ,,list";,,Móðirin", ,,bóndi" , ,,hermaður", o. s. frv. 
Ýmislegt mætti enn telja um hvernig sagan nær því áhrifavaldi, sem löngu er heimsfrægt. Það nægir að nefna kröfur verkfallsmanna (bls. 69) til aö lesendur taki afstöðu með þeim: ,,Aðeins tólf stunda vinnu á dag, ,,Enga vinnu barna undir átta ára aldri, ,,Rétt handa verkakonum til að setjast”. Víða í sögunni eru dregnar upp magnaðar myndir af umhverfi söguhetjanna, sem segja mikið um líf þeirra eða eru forboði mikilla atburða: Sjanghæ (bls. 12), verksmiðjuhverfin (bls. 20), brynvarin lest í orrustu (bls. 110); þegar rætt er um hvort hægt sé að sætta andstæður Sjang Kai shek og kommúnista, er jafnframt lýst taktföstum vélanið, sem gefur í skyn óviðráðanlegt afl (bls. 125). Sagan er vel fléttuð, t. d. með samþjöppun, barn Hemmelrichs kvelst stöðugt, læknir þess er May, kona Kyo; Pei, félagi Tséng, skrifar May um Hemmelrich í sögulok. Enn betur er fléttað með minnum eins og því, að byltingarmenn Sjanghæ setja traust sitt á ,,tvö hundruö þúsund atvinnuleysingja í Hantsjó, sem eiga að geta myndað byltingarher. Allir tala um þennan möguleika eins og hann væri orðinn pólitískt afl, en þegar til Hantsjó kemur, þá reynist sama talan eiga við um örugga andstœðinga byltingarinnar í Hantsjó, byltingarmenn yrðu ekki nema tíundi hluti þess fjölda (bls. 97, 105, 116, 118). Margir aðiljar sýna fram á það, hver í sínum þjóðfélagshóp, og hver með sínu orðalagi, hvílíkt feigðarflan stéttasamvinnustefna stalínista er. Og lesandinn fylgist með því á ýmsum sviðum, hvernig hún leiðir til þess eins, að Sjang Kaishek getur sundrað liði byltingarmanna og afvopnað, áður en hann ræðst gegn því. Vopnin, sem allt snýst um í upphafi, verða áþreifanlegt tákn þessarar togstreitu um sjálfstæði byltingarhreyfingarinnar eða undirgefni. Og pólitísk ákvöröun, um að myrða Shang Kai shek, birtist lesendum í viðbrögðum fólks og togstreitu um allt aðra hluti og hversdagslegri, á yfirborðinu, í fornmunaversluninni og fyrir framan hana (bls. 144—9). Þannig öðlast sagan líf. 
Með þessari merku skáldsögu var Malraux nánast búinn að vera sem skáldsagnahofundur. Skýringin er stórpólitísk, og ,,í draumi sérhvers manns er fall hans falið”. Eftir ósigurinn í Sjanghæ 1927 snerust stalínistar til harðrar einangrunarstefmu, og börðust einkum gegn sósíaldemókrötum, sem þeir kölluðu höfuðandstæðinga verkalýðsbyltingarinnar. Sú stefna hefur átt drjúgan þátt í uppgangi fasismans víða um heim, ekki síst í Þýskalandi 1933. Í febrúar 1934 reyndu fasistar að ná völdum í Frakklandi. Miklar götuóeirðir urðu, en sjálfsprottin vörn franskrar alþýðu varð upphaf almenns bandalags gegn fasismanum. Stalínistar snerust til þátttöku í því í júní, og André Malraux, heimsfrægur fyrir baráttusöguna Hlutskipti manns, varð leiðtogi þessarar hreyfingar og tákmmynd. Næstu ár liðu á ráðstefnum og í ræðuhöldum, Malraux varð forseti Aþjóðasambands rithöfunda til varnar menningunni, sem stofnað var í París sumariö 1935, og hélt þing árlega. Þegar Spánarstyrjöldin braust út, 1936, skipulagði Malraux sjálfboðasveit flugmanna gegn fasistum, og flaug sjálfur orrustuflugvél. Þetta Aþjóðasamband rithöfunda lognaðist útaf við griðasáttmála Stalíns og Hitlers, haustið 1939. Malraux barðist í neðanjarðarhreyfingunni frönsku og slapp naumlega frá aftökusveit. Eftir stríð snerist hamn gegn kommúnistum, og fylgdi de Gaulle æ síðan, tvívegis sem menntamálaráðherra. Hann lést 1976. 
Frá þessum baráttuárum Malraux eru þrjár skáldsögur hans. 1935 birtist Le temps du mépris, en hún kom út á íslensku undir heitimu Á vargöld í tímaritimu Rétti 1943—6. Hún er býsna ólík sögunni Hlutskipti manns, og er af sósíalrealísku tagi. Árið 1937 birti Malraux mjög langa skáldsögu úr Spánarstríðinu, sem þá hafði staðið í ár, L’Espoir (Vonin). Um hana viröist mér með sanni mega hafa orð Trotskys um Sigurvegarana: Frásögn í skáldsöguformi, sundurlaus mjög. Loks birtist Les noyers d’Altenbourg (Hnetutrén í Altenbúrg) 1947, og hefur aldrei þótt tíðindum sæta, frekar en saga sem hann birti 1943 (Baráttan við engilinn). Eftir þetta skrifaöi Malraux aðallega um listasögu. 
Það eru mikil tíðindi þegar slík bók er þýdd á fslensku, sem þessi er, og ástæða til að kanna hvernig það er gert. Yfirleitt sýnist mér það hafa tekist vel, en þó verður að gera fáeinar athugasemdir. 
Í fyrsta lagi hefur ekki verið gengið nógu vel frá þýðingunni til prentunar. Rangt er lesið úr hrafnasparki, mætti ætla, á bls. 41, talað um ,,þrjátíu ungar konur úr árásarsveitunum, en þar á að standa: áróðurssveitunum, og að margar þeirra hafi verið drepnar, en ekki "einhverjir þeir drepnir". Á bls. 51 stendur: ,,Þeir skilja það ekki, en á að vera: Þér skiljið ... Á bls. 152 er hæðnislega talað um ,,að hljóta að launum líf sem umbun og hefur gleyrnst að strika út aðra klausuna sem ég skáletra. Hins vegar hefi ég ekki rekist á nema eina prentvillu: ,,þökk sé þeim löndum sem tengja Consortium við verulegan hluta af Kínverska viðskiptaheimimum, — á að vera: böndum (bls. 267). 
I annan stað hafa stundum fallið niður orð (sem ég skáletra hér): ,,Þessir hlutir eru sendir af miðlara í föstum viðskiptum (bls. 31), ,,Félli Sjanghæ í hendur byltingarhernum, leiddi af því að Kúomintang yrði loksins að velja milli lýðræðis og kommúnisma! (bls. 71), ,,Það er ekkert Kúomintang til. Það eru hinir bláu og þeir rauðu” (bls. 95). Lýsing Tséng eftir að hann kastar sér með sprengju undir bíl Sjang Kai shek: ,,hann reyndi aö komast í buxnavasann. Enginn vasi lengur, engar buxur lengur, enginn fótur lengur. Tætt hold” (bls. 197). Og þegar Ferral reynir árangurslaust að telja fulltrúa franskra banka á að aðstoða fyrirtæki sín, verða orð viðmælanda hans óskiljanleg. Ferral: ,,Við höfum skapað Consortium vegna þess að frönsku bankarnir í Asíu fylgdu þess konar tryggingarstefnu að þeir enduöu með því að lána Englendingum til þess að þurfa ekki að lána Kínverjum. Við fylgdum áhœttustefnu. Það er ...
- 
Ég þorði ekki að segja það
...ljóst. 

I þriðja lagi þykir mér stundum helsti hrátt þýtt. Ég tek hér upp fáeinar slíkar klausur, og set breytingartillögur mínar í svigum aftan við.,,Hin minnsta hreyfing olli því (bls. 22: við minnstu hreyfingu), ,,Hann hvarf burt ... áþekkur sinni eigin skrípamynd (bls. 31: eins og skrípamynd af sjálfum sér), ,,Gleymdu ekki áfenginu sem hjálpar (bls. 38: Gleymdu ekki að áfengið hjálpar til), ,,því verra fyrir kerruhlauparann!” (bls. 149, en franska orðasambandið ,,Tant pis” merkir: skítt með ...),,,Vesalings gamli minn (bls. 151: ,,mon pauvre vieux: kæri Hemmelrich minn). Talað var um ,,hvað hann væri snöggur upp á lagið, væri hann stunginn af napóleanskri mýflugu (bls. 267. Þarf ekki að kunna frönsku til aö skilja þetta mýflugutal? í því máli merkir þetta orðatiltæki að verða gripinn af grillu, eða eitthvað því um líkt). 
Í fjórða lagi kemur nokkrum sinnum fyrir að rangt sé þýtt. Um Gisors segir (bls. 37) að Tsjang-Tso-Lin hafi rekið hann úr starfi við háskólann í Peking ,,vegna kennsluhátta”. Það er ólíkt herstjórum að hafa áhyggjur af slíku, enda þýðir ,,enseignement” bara kennsla, hér greinilega pólitískt lituð. Katoff ætlar í hættuför og segir við Kyo: 
,,Þetta er ekki rétti tíminn til þess að sleppa þér (bls. 36 ”te faire tirer”), en hann vill einmitt ekki fá hann með í förina, þarna á að standa: ekki rétti tíminn til að þú látir skjóta þig, þ. e. hættir á það. Tséng játar fyrir Gisors að hann hafi framið morð, og fyrirlíti ,,hina sem ekki drepa: hina veikgeðja (bls. 52). Orðið sem ég skáletra er pýðing á ,,puceau” sem pýðir: hreinn sveinn, þ. e. í þessu tilviki: hina óreyndu. Þýðingin gefur hér ranga mynd af hugarfari Tséngs, og það er öllu verra en hitt, að hún ýkir verulega lærdómsframa Ferrals (bls. 73): ,,með doktorsgráðu í sagnfræði ekki nema tuttugu og sjö ára gamall, en franska orðalagið agrégé d’historie merkir bara að hann hafði öðlast réttindi til framhaldsskólakennslu í sögu. Clappique gefur bílstjóra tvo dollara og segir: ,,Þetta frjálslyndi er með það fyrir augum að þú getir keypt þér li-lítinn harðkúluhatt. (bls. 201). En f stað orðsins sem ég undirstrika á að standa örlæti sem þýðing á libéralité. Af sama stofni er orðið libérée, ranglega þýtt (á bls. 207): ,,Hann hrökk við, vísvitandi: þrekvaxin Ijóshærð þjónusta, hispurslaus, hafði sest við hliðina á honum. — Þarna á að standa að konan var orðin laus—frá síðasta viðskiptavini. Þegar dregur að uppgjöri í Sjanghæ er talað um Fnykinn af ,,hræjum" (bls. 152) — þetta síðasta orð er eitt af þeim sem greina á milli manna og dýra, en þarna er átt við lík, það má ekki fara milli mála. ,,það leikur enginn vafi á því að bróðurparturinn af fjármagninu verður veittur kínversku stjórninni (bls. 270), á að vera: það kemur ekki til greina að, svo sem sést af setningunum í kring. Mér þykir hæpið að segja að þeir hórist undir ríkið (bls. 271), sem stunda það eitt að græða á því, væri ekki betra að segja: 
hórast með?. ,,Þegar þið hafið hórast undir Ríkið, þá takið þið dugleysi ykkar fyrir visku og haldið að það dugi að vera á skyrtubolnum einum til þess að verða eins og Venus frá Milo, sem er fulllangt gengið”. — Þetta á Ferral að vera að hugsa, og er þá greinilega absúrdisti mikill, því franskir fjármálamenn um 1927 voru ámóta líklegir til að ganga um á skyrtubolnum og hin gullfagra stytta af Venus frá Milo er það. Hún er hinsvegar handleggjalaus, og það er sú þýðing sem allar orðabækur mér kunnar gefa á franska orðinu manchot þó svo að það sé skylt orðinu manche: ermi. 
Enn gæti ég talið upp ýmsar aðfinnslur, og kynni þá sumt að vera álitamál. En peir gallar sem ég hefi hér talið, hefðu a. m. k. flestir horfið við svolítið meiri vinnu. Það er gremjulegt að sjá hæfileikamann gera verr en hann getur.
Hitt vil ég leggja áherslu á, að bókin heldur mœtti sínum í íslenskri gerð. Kemur þar tvennt til: yfirleitt þýðir Thor vel, hefur góð tök á þessu, og í annan stað er þanþol bókarinnar eða máttur það mikill, að hún stenst þessi meiðsli.


1. Leon Trotsky: La révolution étranglée (9. tebrúar 1931, bls. 37t—392). De la révolution étranglée et de ses étrangleurs (Svar til Malraux, 12. Júlí 1931, bls 393-401) í: Littérature et révolution. 10/18, Union générale d’éditions, Paris 1974.

2. Lucien Goldmann: Pour une sociologie du roman. Gallimard. Paris, 1964. bls. 153-Meginhluti þessarar hókar (bls. 59—277) fjallar um skáldsögur Malraux.
3. Sjá nánar Goldmann, bls. 156 o. átr.

Engin ummæli: